Hæstiréttur íslands
Mál nr. 312/2000
Lykilorð
- Ávana- og fíkniefni
- Eignaupptaka
- Erlend lög
- Reynslulausn
|
|
Fimmtudaginn 22. febrúar 2001. |
|
Nr. 312/2000. |
Ákæruvaldið (Ragnheiður Harðardóttir saksóknari) gegn Gunnlaugi Ingibergssyni(Björgvin Þorsteinsson hrl.) Sverri Þór Gunnarssyni(Helgi Jóhannesson hrl.) Júlíusi Kristófer Eggertssyni(Kristján Stefánsson hrl.) Valgarð Heiðari Kjartanssyni og(Sigurður Georgsson hrl.) Ingvari Árna Ingvarssyni(Hilmar Ingimundarson hrl.) |
Ávana- og fíkniefni. Eignaupptaka. Erlend lög. Reynslulausn.
G, S, J, V og I voru ásamt níu öðrum sakfelldir í héraði fyrir sinn þátt í innflutningi, dreifingu og sölu á miklu magni af ýmsum tegundum fíkniefna frá Danmörku, Hollandi og Bandaríkjunum. Hæstiréttur staðfesti dóm héraðsdóms varðandi þátt G og S. S og J var ekki gerð refsing fyrir þann verknað að útvega fíkniefni, sem greitt hafði verið fyrir í Hollandi, en höfðu ekki sannanlega skilað sér til landsins. Var það byggt á því að samkvæmt hollenskum lögum er kveðið á um að notkun nánar tilgreindra efna kunni að vera að undanþegin ákvæðum, sem kveði á um að óheimilt sé að útvega og eiga efnin, með tilskipun stjórnvalda. Þar sem ákæruvaldið hafi ekki sýnt fram á að slík undanþága sé ekki í gildi, sé vafi um refsinæmi verknaðarins í Hollandi og verði þeim því ekki gerð refsing fyrir þann hluta. J neitaði allri sök, en með hliðsjón af framburði annarra dómfelldra og gagna málsins þótti sannað að hann hefði verið viðriðinn málið. Þar sem rannsókn hjá lögreglu í formi símhlerunar var hafin áður en liðinn var sá tími sem reynslulausn hans skyldi vara, var honum ákveðin refsing sbr. 1. mgr. 42. gr. og 60. gr. almennra hegningarlaga og hún tiltekin samkvæmt 77. gr. sömu laga. Ákvörðun héraðsdóms varðandi sakfellingu V og I var staðfest, en refsing V milduð. Hæstiréttur staðfesti héraðsdóm með vísan til forsendna hans um upptöku eigna.
Dómur Hæstaréttar.
Mál þetta dæma hæstaréttardómararnir Garðar Gíslason, Árni Kolbeinsson, Gunnlaugur Claessen, Hrafn Bragason og Pétur Kr. Hafstein.
Málinu var skotið til Hæstaréttar 2. ágúst 2000 að ósk ákærðu, en níu dómfelldra í héraði una héraðsdómi. Af hálfu ákæruvaldsins var jafnframt áfrýjað til fullrar sakfellingar og eignaupptöku, að því er fjóra ákærðu hér fyrir dómi varðar, og á hendur öllum fimm til þyngingar á refsingum. Fyrir Hæstarétti er kröfugerð ákæruvaldsins hins vegar á þá lund, að staðfest verði niðurstaða héraðsdómara um sakfellingu ákærðu, en að því er varðar ákærðu Sverri Þór og Júlíus Kristófer er að auki krafist sakfellingar fyrir kaup í söluskyni á 15 kg af marihuana og 600 g af amfetamíni í Hollandi samkvæmt ákæru 18. apríl 2000, og að því er varðar ákærða Ingvar Árna sakfellingar fyrir sölu efna samkvæmt ákæru 19. apríl 2000. Þá verði niðurstaða héraðsdóms um eignaupptöku staðfest, en að því er varðar ákærðu Sverri Þór og Júlíus Kristófer er jafnframt krafist upptöku fjármuna sem tilgreindir eru í ákæru 18. apríl 2000, auk þess sem ákærði Ingvar Árni sæti upptöku samkvæmt ákæru 19. apríl 2000. Refsingar samkvæmt hinum áfrýjaða dómi verði þyngdar.
Ákærði Gunnlaugur Ingibergsson krefst sýknu af liðum 1.3. og 1.4. í ákæru 17. apríl 2000. Þá krefst hann staðfestingar á niðurstöðu héraðsdóms hvað aðrar sakargiftir á hendur sér varðar en jafnframt krefst hann þess að refsing verði milduð frá héraðsdómi og að gæsluvarðhaldsvist hans komi að fullu til frádráttar dæmdri refsingu. Ennfremur krefst hann frávísunar á kröfum ákæruvalds um eignaupptöku, en til vara krefst hann þess að þeim verði hafnað. Ákærði samþykkir þó upptöku á 0,61 g af hassi samkvæmt tölulið 3 b) í dómkröfukafla ákæru.
Ákærði Sverrir Þór Gunnarsson krefst vægari refsingar en honum var ákvörðuð í héraði. Þá krefst hann þess að kröfu um upptöku fjármuna til ríkissjóðs verði aðallega vísað frá dómi, en til vara að hún verði verulega lækkuð.
Ákærði Júlíus Kristófer Eggertsson krefst aðallega ómerkingar héraðsdóms að því er hann varðar og að málinu verði vísað til héraðsdóms til nýrrar dómsmeðferðar. Fái málið efnismeðferð krefst ákærði þess aðallega að sakfellingu verði hnekkt og að hann verði sýknaður af háttsemi samkvæmt I. kafla 2 í ákæru 18. apríl 2000, sbr. framhaldsákæru 25. maí sama árs. Til vara er þess krafist að refsing verði stórlega milduð. Þá krefst ákærði þess að vísað verði frá dómi kröfu um upptöku en ella að hann verði sýknaður af þeirri kröfu, en að því frágengnu verði krafan stórlega lækkuð.
Ákærði Valgarð Heiðar Kjartansson krefst endurskoðunar á ákvörðun viðurlaga til mildunar. Hann krefst þess og að vísað verði frá dómi kröfu um upptöku eða hún lækkuð.
Ákærði Ingvar Árni Ingvarsson krefst sýknu af sakargiftum í I. kafla 1.1. og 1.2. í ákæru 19. apríl 2000, en til vara að refsing samkvæmt hinum áfrýjaða dómi verði milduð.
I.
Mál þetta varðar stórfelldan innflutning á ýmsum tegundum fíkniefna frá Danmörku, Hollandi og Bandaríkjunum. Undir rannsókn málsins bárust bönd að mörgum mönnum sem grunaðir voru um aðild að innflutningi þessum, svo og vörslu, dreifingu og sölu efnanna hér á landi.
Með ákæru 17. apríl 2000 var níu mönnum, þar á meðal ákærðu Gunnlaugi, Júlíusi Kristófer og Sverri Þór, gefið að sök að hafa staðið að skipulögðum innflutningi og sölu á miklu magni af hassi frá Danmörku í mörgum ferðum. Þá var Gunnlaugur ásamt öðrum manni einnig ákærður fyrir að hafa flutt inn alls 250 MDMA töflur og 100 grömm af amfetamíni þaðan. Hefur Gunnlaugur játað hassinnflutninginn hreinskilningslega en neitað að hafa vitað hvað var í pökkum þeim sem innihéldu nefndar töflur og amfetamín.
Með ákæru 18. apríl sama árs var tíu mönnum, þar á meðal ákærðu Júlíusi Kristófer, Sverri Þór og Valgarð Heiðari, gefið að sök að hafa staðið að innflutningi og sölu á verulegu magni af hassi, marihuana, amfetamíni og kókaíni frá Hollandi. Voru þessi fíkniefni flutt þaðan ásamt amfetamíni, kókaíni og 5.500 MDMA töflum í eigu manns, sem dæmdur var ásamt þeim fyrir þennan innflutning í héraði og hefur unað þeim dómi.
Með ákæru 19. apríl sama árs var fjórum mönnum, þar á meðal ákærða Ingvari Árna, gefið að sök að hafa staðið að innflutningi á 660 grömmum af kókaíni frá Bandaríkjunum í tveimur sendingum í apríl og ágúst 1999 og sölu þess hér á landi. Auk þess var hann ákærður fyrir að hafa haft í vörslum sínum 61,89 grömm af kókaíni 15. desember 1999, sem hann hafi ætlað til sölu.
Í héraðsdómi voru brot ákærða Gunnlaugs talin framin í samvinnu við aðra og hafa verið stórfelld og þaulskipulögð. Ákærði Sverrir Þór var sakfelldur fyrir að hafa móttekið og selt verulegt magn af hassi samkvæmt ákæru 17. apríl 2000, en ákærði Júlíus Kristófer var hins vegar sýknaður af þessum sakargiftum. Þeir síðastnefndu voru báðir sakfelldir fyrir meginhluta þeirra brota, sem greind voru í ákæru 18. apríl. Þó var talið að hluti fíkniefnanna samkvæmt þessari ákæru hefði ekki skilað sér til landsins, og þar sem ekki hefði verið sýnt fram á refsinæmi verknaðarins í Hollandi voru þeir ekki sakfelldir fyrir þann hluta. Leitast ákæruvaldið við að fá því breytt fyrir Hæstarétti. Ákærði Valgarð Heiðar var sakfelldur fyrir brot samkvæmt þessari ákæru með því að hafa keypt fíkniefni af einum þeirra sem dæmdir voru samkvæmt þessari ákæru og að hafa selt hluta þeirra. Talið var sannað að ákærði Ingvar Árni hefði tekið þátt í innflutningi og meðferð kókaíns frá Bandaríkjunum samkvæmt ákæru 19. apríl, og var hann dæmdur fyrir það ásamt þremur öðrum en þeir hafa unað héraðsdómi. Þá var hann jafnframt sakfelldur einn sér fyrir vörslu kókaíns.
Í héraði voru fjórtán menn sakfelldir fyrir þátt sinn í málinu og gert að sæta refsingu á þeim grundvelli. Svo sem fyrr segir una níu dómfelldra þeirri niðurstöðu.
II.
Ákærði Gunnlaugur hefur ætíð neitað því að hafa haft sérstaka samvinnu um innflutning á hassi við einn þeirra sem dæmdir voru ásamt honum í héraði og sá einnig um útvegun hassins, enda hafi þeir ekkert vitað um hlut hvors annars í hverri sendingu. Ákærði hafi einungis tekið að sér að koma hassefnum í eigu þessa manns til Íslands frá Danmörku. Þeir hafi hins vegar hvorki keypt efni í sameiningu né selt.
Í skýrslu ákærða Gunnlaugs fyrir dómi kom fram að sökum þess hve erfiðlega gekk að selja fyrstu hasssendingarnar hefði hann boðið þessum manni að flytja fíkniefni til landsins um leið og hann. Lýsti hann því einnig fyrir dómi að hann hefði annast pökkun efnisins fyrir þá báða. Þá liggur fyrir í málinu að ákærði gaf tveim öðrum dómfelldu fyrirmæli um að fjarlægja fíkniefnin úr vörslum Samskipa hf. og afhenda þau öðrum. Í framburði ákærða Gunnlaugs kom einnig fram að hann og þessi maður hefðu notið saman hagnaðar af sölu fíkniefnanna hér á landi. Fær þetta og stuðning af framburði þessa manns fyrir dómi. Að þessu athuguðu verður staðfest niðurstaða héraðsdóms um þennan þátt.
Af hálfu ákærða Gunnlaugs er einnig á því byggt að engin sönnunargögn liggi fyrir um að hann hafi vitað að pakkar sem hann sendi fyrir annan dómfellda til Íslands innihéldu fíkniefnin MDMA og amfetamín. Hefur hann ætíð neitað því að hafa tekið þátt í innflutningi á öðrum fíkniefnum en kannabisefnum og kveðst alls ekki hafa tekið að sér að flytja þessa pakka ef hann hefði vitað eða mátt vita að í pökkunum leyndust MDMA töflur og amfetamín. Héraðdómur mat í ljósi allra atvika ótrúverðugan þann framburð ákærða að hann hafi ekki haft vitneskju um innihald þeirra fíkniefnapakka, sem hann annaðist um sendingu á til Íslands. Er ekkert fram komið, sem gefur tilefni til þess að farið verði með málið samkvæmt 5. mgr. 159. gr. laga nr. 19/1991 um meðferð opinberra mála. Verður því lagt til grundvallar að fram sé komin nægileg sönnun um sekt ákærða hvað þennan þátt málsins varðar, sbr. 46. gr. laga nr. 19/1991.
Með þessum athugasemdum og að öðru leyti með skírskotun til hins áfrýjaða dóms verður hann staðfestur um þátt ákærða Gunnlaugs.
III.
Af hálfu ákærða Sverris Þórs er því mótmælt að hann hafi játað að hafa móttekið og selt hér á landi 30 kg af hassi, sbr. ákæru 17. apríl 2000, svo sem í héraðsdómi greinir. Hafi hann ekki vitað hversu miklu magni af hassi hann tók við, en giskað á að það gætu hafa verið allt að 30 kg „í mesta lagi”. Á þessum grundvelli krefst hann þess að verða ekki sakfelldur fyrir að hafa tekið mót meiru en 21 kg af hassi. Á þetta verður ekki fallist. Ákærði bar sjálfur fyrir dómi að hann hafi talið að efnismagnið gæti ekki hafa verið meira en 30 kg. Verður héraðsdómur því staðfestur að þessu leyti.
Í málinu liggur fyrir játning ákærða Sverris Þórs um að hafa með einum þeirra sem dæmdur var ásamt honum í héraði, staðið að innflutningi á 40 kg af hassi, 1 kg af kókaíni og 2 kg af marihuana frá Hollandi. Hefur ákærði Sverrir Þór játað að hafa greitt fyrir 17 kg af marihuana, þótt einungis 2 kg af efninu hafi skilað sér hingað til lands. Með sama hætti er ljóst að ákærði Sverrir Þór samdi um kaup á 2 kg af amfetamíni frá Hollandi en aðeins 1,4 kg komust til landsins. Héraðsdómur sakfelldi ákærða einungis fyrir það magn ofangreindra fíkniefna, sem flutt var til Íslands, þar sem ekki hafði þá verið sýnt fram á refsinæmi þess verknaðar að útvega fíkniefnin samkvæmt hollenskum lögum. Ákæruvaldið hefur lagt fyrir Hæstarétt þýðingu hollenskra laga um ávana- og fíkniefni frá 12. maí 1928 með áorðnum breytingum. Í 2. og 3. kafla laganna kemur meðal annars fram að óheimilt sé að að útvega og eiga fíkniefni, sem talin eru á fylgiskjölum. Meðal þeirra efna sem talin eru upp í fylgiskjölum eru marihuana og amfetamín. Í 10. og 11. kafla laganna er kveðið á um að slík brot á lögunum skuli varða refsingu. Í 3. kafla a. er hins vegar kveðið á um, að þau efni sem vísað sé til í lögunum og notkun þeirra kunni að vera að öllu eða nokkru leyti undanþegin ákvæðum 2. og 3. kafla laganna með tilskipun stjórnvalda. Ákæruvaldið hefur ekki sýnt fram á, að slík undanþága sé ekki í gildi. Í ljósi þess vafa sem eftir stendur um refsinæmi verknaðarins í Hollandi verður ákærða Sverri ekki gerð refsing fyrir þann hluta fíkniefnanna sem ekki hefur verið sýnt fram á að hafi skilað sér til landsins. Staðfest er niðurstaða héraðsdóms hvað varðar sakfellingu ákærða Sverris af öðrum ákæruatriðum á hendur honum.
IV.
Ákærði Júlíus Kristófer hefur neitað allri sök. Enda þótt ákærði Sverrir Þór hafi aldrei bendlað ákærða Júlíus Kristófer við ofangreindan innflutning fíkniefna frá Hollandi, staðfesti einn dómfelldra fyrir dómi að Júlíus Kristófer hefði staðið að kaupum efnanna ásamt Sverri Þór. Annar dómfelldi staðfesti og fyrir dómi lögregluskýrslur þar sem hann bar á sama hátt um hlutdeild Júlíusar Kristófers í innflutningnum. Þótt báðir þessir menn hafi á síðari stigum málsins horfið frá fyrri framburði sínum, hefur ekki verið sýnt fram á að það mat héraðsdóms kunni að vera rangt, að skýringar þeirra á breyttum framburði sínum hafi verið ótrúverðugar. Gögn málsins þykja sanna að ákærði Júlíus Kristófer hafi verið við innflutning þennan riðinn. Með skírskotun til forsendna hins áfrýjaða dóms verður staðfest niðurstaða hans um þátt ákærða Júlíusar Kristófers í þessum brotum. Með vísan til þess sem að framan segir um refsinæmi útvegunar fíkniefna að hollenskum lögum, verður hann ekki sakfelldur fyrir tilraun til innflutnings á 15 kg af marihuana og 0,6 kg af amfetamíni og verður niðurstaða héraðsdóms um þann hluta sakargifta á hendur honum því staðfest.
Þann 28. nóvember 1995 var ákærði Júlíus Kristófer dæmdur til tveggja ára og sex mánaða fangelsisrefsingar en ekki tveggja ára fangelsisrefsingar eins og sakavottorð hans bendir til. Þann 10. ágúst 1997 var honum veitt reynslulausn í tvö ár af helmingi refsingarinnar, alls 450 dögum. Með úrskurði Héraðsdóms Reykjavíkur 7. júní 1999 var lögreglunni í Reykjavík heimilað að hlusta og hljóðrita símtöl úr símtæki ákærða Júlíusar Kristófers. Var úrskurðurinn reistur á rannsóknargögnum lögreglunnar, sem bentu til þess að einn dómfelldra hefði verið í símsambandi við ákærða Júlíus Kristófer þegar þeir voru báðir staddir í Amsterdam í Hollandi og hafi umræður þeirra snúist um fíkniefnakaup. Í framangreindum úrskurði kom fram að ætluð brotastarfsemi ákærða Júlíusar Kristófers varðaði við 173. gr. a. almennra hegningarlaga nr. 19/1940, sbr. lög nr. 64/1974, ef sönnuð yrði. Lögreglan neytti í framhaldinu heimildarinnar og hlustaði á samtöl hans við aðra menn sem snerust um fíkniefnaviðskipti. Í máli þessu er ákærði Júlíus Kristófer meðal annars sakfelldur fyrir stórfelldan innflutning á hassi, marihuana og kókaíni frá Amsterdam og sölu á þeim efnum hér á landi. Beindist rannsókn lögreglunnar að þeirri brotastarfsemi, sem hann er sakfelldur fyrir í máli þessu, og rannsóknin því í eðlilegu samhengi við það sem á eftir fór. Samkvæmt þessu verður að telja að hafin hafi verið rannsókn hjá lögreglu gegn ákærða Júlíusi Kristófer sem sakborningi í skilningi 1. mgr. 42. gr. almennra hegningarlaga, sbr. lög nr. 24/1999, vegna þeirra brota sem dæmt er um í máli þessu, áður en liðinn var sá tími sem reynslulausn hans skyldi vara. Verður honum því ákveðin refsing í einu lagi fyrir hið eldra brot og þau brot sem hér um ræðir með hliðsjón af þeirri refsivist sem ólokið er, sbr. 1. mgr. 42. gr. og 60. gr. almennra hegningarlaga og hún tiltekin samkvæmt 77. gr. laganna.
V.
Í umfjöllun héraðsdóms um þátt ákærða Valgarðs Heiðars í kaupum og sölu fíkniefna samkvæmt ákæru 18. apríl 2000, gætir nokkurs ósamræmis milli þess magns sem hann var sakfelldur fyrir að hafa keypt af einum dómfelldra og þess magns fíkniefna sem sá maður var sakfelldur fyrir að hafa selt ákærða Valgarð Heiðari. Nánar tiltekið var hann sakfelldur fyrir að hafa á tímabilinu maí til september 1999 keypt samtals 200 g af amfetamíni, 100 g af kókaíni, 500 MDMA töflur og 800 g af hassi af þessum manni og selt 20 g af amfetamíninu, 400 g af hassinu, 50 g af kókaíninu og MDMA töflurnar. Sá sem hann keypti af var á hinn bóginn ekki sakfelldur fyrir að hafa selt Valgarð Heiðari meira en 50 g af amfetamíni, 50 MDMA töflur og 200 g af hassi. Af ákæruvaldsins hálfu var málinu ekki áfrýjað að því er þann dómfellda varðar. Eins og mál þetta hefur verið lagt fyrir dóminn þykir verða að leiðrétta ofangreint misræmi ákærða Valgarð Heiðari í hag, enda telur dómurinn ekki unnt að sakfella hann fyrir kaup og sölu á meira magni fíkniefna en hinn var sakfelldur fyrir að hafa selt honum. Krafa Valgarðs Heiðars um mildun viðurlagaákvörðunar hins áfrýjaða dóms er jafnframt á því reist að hann hafi í héraði verið sakfelldur ranglega samkvæmt 173. gr. a almennra hegningarlaga, enda þótt ekki sé berum orðum vitnað til þess ákvæðis laganna í dóminum. Á þetta verður ekki fallist. Ákærði er sakfelldur fyrir kaup og sölu á talsverðu magni hættulegra fíkniefna og verður niðurstaða héraðsdóms um heimfærslu brotsins til þessa refsilagaákvæðis staðfest.
VI.
Í héraðsdómi var talið ósannað að ákærði Ingvar Árni hefði selt í heild eða að hluta þau fíkniefni sem komu í hans hlut samkvæmt ákæruliðum I.1.1 og I.1.2 í ákæru 19. apríl 2000. Hefur ákæruvaldið krafist endurskoðunar á þeirri niðurstöðu. Fyrir dómi bar ákærði Ingvar Árni að hann neytti sjálfur ekki mikils af því fíkniefni sem hér um ræðir. Með vísan til þessa og að um var að ræða mikið magn efnisins, svo og að á heimili hans fannst listi með nöfnum og fjárhæðum sem ætla má að vísi til skulda vegna sölu á fíkniefnum, þykir sannað að ákærði Ingvar Árni hafi ætlað stærstan hluta efnisins til dreifingar. Varðar brot hans því við 173. gr. a almennra hegningarlaga. Að öðru leyti verður niðurstaða héraðsdóms um þátt ákærða Ingvars Árna í málinu og sakfellingu hans staðfest með vísan til forsendna.
VII.
Kröfu ákæruvalds um eignaupptöku ber að skoða með hliðsjón af þeirri grunnreglu refsiréttarins, að brotamaður skuli ekki hagnast af broti sínu. Verður héraðsdómur staðfestur með vísan til forsendna hans um upptöku eigna. Fallast má á kröfu ákæruvalds um að meðal þeirra fjármuna, sem ákærði Júlíus Kristófer verði látinn sæta upptöku á, verði fjármunir sem fundust í vörslum hans við lögreglurannsókn og tilgreindir eru í ákæru 18. apríl 2000, lið IV. 2.1. Að kröfu ákæruvaldsins skulu innifaldir í fjárhæð þeirri, sem ákærði Sverrir Þór er dæmdur til að sæta upptöku á, fjármunir þeir sem tilgreindir eru í liðum IV. 2.6. d-g að báðum meðtöldum, enda þykja komnar fram nægjanlegar líkur fyrir því að það fé sé frá ákærða Sverri komið. Loks verður ákærði Ingvar Árni dæmdur til að sæta upptöku á fjármunum er hann hafði í vörslum sínum og tilgreindir eru í ákæru 19. apríl 2000, lið IV. 2.4.
VIII.
Enda þótt ákærði Gunnlaugur hafi með athæfi sínu brugðist trausti sem starfsmaður skipafélags verður ekki fallist á með ákæruvaldinu og héraðsdómi að það eigi að hafa áhrif á refsingu hans til þyngingar. Refsing hans þykir þrátt fyrir það hæfilega ákveðin í héraði og skal hún standa óhögguð.
Um ákvörðun refsingar ákærða Sverris Þórs er vísað til forsendna héraðsdóms.
Um ákvörðun refsingar ákærða Júlíusar Kristófers er vísað til forsendna héraðsdóms, en með hliðsjón af því að hann rauf skilorð reynslulausnar þykir refsing hans hæfilega ákveðin fangelsi í sex ár og átta mánuði.
Refsing ákærða Valgarðs Heiðars er ákveðin með hliðsjón af forsendum héraðsdóms um sakarferil og hegningarauka. Þykir hún hæfilega ákveðin fangelsi í átján mánuði.
Með hliðsjón af sakfellingu ákærða Ingvars Árna fyrir Hæstarétti þykir refsing hans hæfilega ákveðin fangelsi í þrjú ár.
Ákvörðun héraðsdóms um sakarkostnað skal vera óröskuð, en ekki er krafist breytinga á henni af hálfu ákæruvalds. Ákærðu skulu greiða allan áfrýjunarkostnað málsins, eins og nánar greinir í dómsorði.
Dómsorð:
Ákærði Gunnlaugur Ingibergsson sæti fangelsi í 4 ár og sex mánuði. Frá refsingunni dregst gæsluvarðhaldsvist ákærða frá 27. september 1999 til uppsögu þessa dóms með fullri dagatölu.
Ákærði Sverrir Þór Gunnarsson sæti fangelsi í sjö ár og sex mánuði. Frá refsingunni dregst gæsluvarðhaldsvist ákærða frá 11. september 1999 til uppsögu þessa dóms með fullri dagatölu.
Ákærði Júlíus Kristófer Eggertsson sæti fangelsi í sex ár og átta mánuði. Frá refsingunni dregst gæsluvarðhaldsvist ákærða frá 24. september 1999 til uppsögu þessa dóms með fullri dagatölu.
Ákærði Valgarð Heiðar Kjartansson sæti fangelsi í átján mánuði.
Ákærði Ingvar Árni Ingvarsson sæti fangelsi í þrjú ár. Frá refsingunni dregst sex daga gæsluvarðhald hans.
Ákærði Gunnlaugur sæti upptöku til ríkissjóðs á jafnvirði 11.900.000 króna, þar með töldum 3.000 dönskum krónum.
Ákærði Sverrir Þór sæti upptöku til ríkissjóðs á jafnvirði 21.400.000 króna, þar með töldum fjármunum samkvæmt dómkröfu 2.6., liðum a-h í ákæru 18. apríl 2000.
Ákærði Júlíus Kristófer sæti upptöku til ríkissjóðs á jafnvirði 8.000.000 króna, þar með töldum fjármunum samkvæmt dómkröfu 2.1. í ákæru 18. apríl 2000.
Ákærði Valgarð Heiðar sæti upptöku til ríkissjóðs á jafnvirði 245.000 króna.
Ákærði Ingvar Árni sæti upptöku til ríkissjóðs á jafnvirði 3.180.000 króna, þar með töldum fjármunum samkvæmt dómkröfu 2.4. í ákæru 19. apríl 2000.
Ákvæði héraðsdóms um upptöku þar til greindra fíkniefna, tölvugrammvoga og vopna skulu vera óröskuð.
Ákvæði héraðsdóms um sakarkostnað skulu vera óröskuð.
Ákærði Gunnlaugur greiði skipuðum verjanda sínum fyrir Hæstarétti, Björgvin Þorsteinssyni hæstaréttarlögmanni, 250.000 krónur í málsvarnarlaun.
Ákærði Júlíus Kristófer greiði skipuðum verjanda sínum fyrir Hæstarétti, Kristjáni Stefánssyni hæstaréttarlögmanni, 250.000 krónur í málsvarnarlaun.
Ákærði Sverrir Þór greiði skipuðum verjanda sínum fyrir Hæstarétti, Helga Jóhannessyni hæstaréttarlögmanni, 250.000 krónur í málsvarnarlaun.
Ákærði Valgarð Heiðar greiði skipuðum verjanda sínum fyrir Hæstarétti, Sigurði Georgssyni hæstaréttarlögmanni, 200.000 krónur í málsvarnarlaun.
Ákærði Ingvar Árni greiði skipuðum verjanda sínum fyrir Hæstarétti, Hilmari Ingimundarsyni hæstaréttarlögmanni, 200.000 krónur í málsvarnarlaun.
Allan annan kostnað af áfrýjun sakarinnar greiði ákærðu óskipt.
Dómur Héraðsdóms Reykjavíkur 27. júní 2000.
Málið er höfðað með ákæru útgefinni 17. apríl 2000 á hendur:
“A [ ],
G [ ],
Gunnlaugi Ingibergssyni, kt. 210272-4109,
óstaðsettum í hús, Reykjavík,
H [ ],
Júlíusi Kristófer Eggertssyni, kt. 271072-5119,
Leifsgötu 3, Reykjavík,
N [ ]
Ó [ ],
Sverri Þór Gunnarssyni, kt. 220572-4719,
Sporðagrunn 4, Reykjavík, og
Þ [ ].
Gegn ákærðu, þeim A, G, Gunnlaugi, H, Júlíusi Kristófer, Ó og Sverri Þór, fyrir brot gegn almennum hegningarlögum framin í ágóðaskyni, með því að hafa staðið að innflutningi fíkniefna til Íslands frá Danmörku, eins og lýst er í ákæruliðum 1-7. Fíkniefnunum kom ákærði Gunnlaugur fyrir í gámum sem fluttir voru til landsins með skipum skipafélagsins Samskipa hf., en ákærði var starfsmaður félagsins í Kaupmannahöfn og notfærði sér aðstöðu sína til að koma efnunum fyrir. Er gámarnir með fíkniefnunum voru komnir hingað til lands gaf ákærði Gunnlaugur, ákærðu A og G, upplýsingar um hvaða gáma væri um að ræða og gaf þeim sjálfur og eftir atvikum í samráði við ákærða H, fyrirmæli um hverjum skyldi afhenda fíkniefnin eða hvar þau skyldi skilja eftir, en ákærðu A og G störfuðu hjá Samskipum hf. við Holtabakka, Reykjavík, og notfærðu sér aðstöðu sína til að fjarlægja fíkniefnin úr gámunum eða vörugeymslum félagsins. Enn fremur gáfu ákærðu Gunnlaugur og H ákærðu A og G fyrirmæli um til hvaða manna þeir skyldu sækja afrakstur vegna sölu fíkniefnanna og hvað gera skyldi við afraksturinn. Ákærðu A og G afhentu fíkniefnin ákærðu Júlíusi Kristófer, Ó, Sverri Þór og ónafngreindum mönnum eða skildu þau eftir á ýmsum stöðum hér í borg, þó oftast í Elliðaárdal.
Gegn N og Þ er málið höfðað til upptöku eigna eins og nánar er tilgreint í liðum 2.5.1 og 2.7.1 í dómkröfukafla.
1.Ákærða Gunnlaugi Ingibergssyni er gefið að sök:
1.1.Að hafa í september 1999 í samvinnu við meðákærða H, flutt inn um 7 kg af kannabis, sem þeir höfðu keypt ytra. Fíkniefnin voru þeir búnir að selja meðákærðu Ó og Sverri Þór, en gátu ekki afhent þau þar sem efnin fundust þann 9. september við leit lögreglu og tollgæslu í gámi sem kom með skipi daginn áður, sbr. ákæruliði 2.1, 5.1 og 7.1.
1.2.Að hafa á tímabilinu desember 1997 til september 1999 í um 26 skipti flutt inn samtals um 164 kg af kannabis, í fyrstu þrjú skiptin einn en í hin skiptin í samvinnu við meðákærða H, en fíkniefnin höfðu þeir keypt ytra, sbr. ákærulið 2.2. Fíkniefnin seldu þeir meðákærðu Júlíusi Kristófer, Sverri Þór og Ó, en ákærði seldi einnig efnin öðrum ónafngreindum mönnum hérlendis, sbr. ákæruliði 2.2, 5.2, 6.1 og 7.2. Var ákærða kunnugt um að kaupendur fíkniefnanna ætluðu þau til frekari sölu hérlendis.
1.3.Að hafa á tímabilinu mars til apríl 1999 að beiðni meðákærða Ó flutt inn um 150 töflur með fíkniefninu MDMA (3,4 metylendíoxýmetamfetamíni), sbr. ákærulið 7.3.
1.4.Að hafa í júlí 1999 að beiðni meðákærða Ó flutt inn um 100 töflur með fíkniefninu MDMA (3,4 metylendíoxýmetamfetamíni) og um 100 g af amfetamíni, sbr. ákærulið 7.4.
2.Ákærða H er gefið að sök:
2.1.Að hafa í september 1999 í samvinnu við meðákærða Gunnlaug flutt inn um 7 kg af kannabis, sem þeir höfðu keypt ytra. Fíkniefnin voru þeir búnir að selja meðákærðu Ó og Sverri Þór, en gátu ekki afhent þau þar sem efnin fundust þann 9. september við leit lögreglu og tollgæslu í gámi sem kom með skipi daginn áður, sbr. ákæruliði 1.1, 5.1 og 7.1.
2.2.Að hafa frá ársbyrjun 1998 til september 1999 í um 23 skipti flutt inn í samvinnu við meðákærða Gunnlaug samtals um 152 kg af kannabis sem þeir höfðu keypt ytra, sbr. ákærulið 1.2. Fíkniefnin seldu þeir meðákærðu Júlíusi Kristófer, Sverri Þór og Ó, sbr. ákæruliði 1.2, 5.2, 6.1 og 7.2. Var ákærða kunnugt um að kaupendur fíkniefnanna ætluðu þau til frekari sölu hérlendis.
3.Ákærða G er gefið að sök:
3.1.Að hafa í september 1999 tekið að sér að fjarlægja um 7 kg af kannabis úr vörslum Samskipa hf. sem komu í gámi með skipi þann 8. þess mánaðar, en ákærða tókst ekki að nálgast fíkniefnin þar sem þau fundust við leit lögreglu og tollgæslu daginn eftir, sbr. ákæruliði 1.1. og 2.1.
3.2. Að hafa á tímabilinu júní 1998 til september 1999 í um 20 skipti fjarlægt úr vörslum Samskipa hf. sendingar sem innihéldu samtals um 140 kg af kannabis og afhent meðákærðu Júlíusi Kristófer, Sverri Þór og Ó eða skilið eftir á ýmsum stöðum hér í borg, vitandi að fíkniefnin væru ætluð til söludreifingar hér á landi, sbr. ákæruliði 1.2, 2.2, 5.2, 6.1 og 7.2.
3.3.Að hafa á tímabilinu mars til apríl 1999 fjarlægt úr vörslum Samskipa hf. sendingu sem innihélt um 150 töflur með fíkniefninu MDMA (3,4 metylendíoxýmetamfetamíni) og afhent meðákærða Ó, sbr. ákærulið 1.3 og 7.3.
3.4.Að hafa í júlí 1999 fjarlægt úr vörslum Samskipa hf. sendingu sem innihélt um 100 töflur með fíkniefninu MDMA (3,4 metylendíoxýmetamfetamíni) og um 100 g af amfetamíni og afhent meðákærða Ó, sbr. ákæruliði 1.4 og 7.4.
3.5. Að hafa á tímabilinu desember 1998 til ágúst 1999 í um 13 skipti móttekið peninga frá meðákærðu Júlíusi Kristófer, Sverri Þór og ónafngreindum manni, samtals að fjárhæð um 8,9 milljónir króna, sem ákærði vissi að voru afrakstur fíkniefnasölu. Peningunum ráðstafaði hann samkvæmt fyrirmælum meðákærðu Gunnlaugs og H eða afhenti þá meðákærða A, sbr. ákærulið 4.2.
4. Ákærða A er gefið að sök:
4.1.Að hafa á tímabilinu desember 1997 til september 1998 í 6 skipti fjarlægt úr vörslum Samskipa hf. sendingar sem innihéldu samtals um 24 kg af kannabis og afhent þær ónafngreindum mönnum eða skilið innihald þeirra eftir á felustöðum hér í borg, vitandi að fíkniefnin væru ætluð til söludreifingar hér á landi, sbr. ákæruliði 1.2 og 2.2.
4.2.Að hafa á tímabilinu janúar 1998 til september 1999 í um 18 skipti móttekið peninga samtals að fjárhæð um 11,8 milljónir króna frá meðákærðu G, Júlíusi Kristófer, Sverri Þór, Ó og tveimur ónafngreindum mönnum, sem ákærði vissi að voru afrakstur fíkniefnasölu. Peningunum ráðstafaði ákærði samkvæmt fyrirmælum meðákærðu Gunnlaugs og H.
5.Ákærða Sverri Þór Gunnarssyni er gefið að sök:
5.1.Að hafa á tímabilinu ágúst til september 1999 fest kaup á a.m.k. 5 kg af kannabis af meðákærðu Gunnlaugi og H, sem hann ætlaði til söludreifingar hérlendis, en fíkniefnin fékk ákærði ekki afhent þar sem þau fundust þann 9. september við leit lögreglu og tollgæslu í gámi sem kom með skipi daginn áður, sbr. ákærulið 1.1 og 2.1.
5.2.Að hafa frá ársbyrjun 1998 og til september 1999 í um 15 skipti með milligöngu meðákærðu A og G móttekið frá meðákærðu Gunnlaugi og H samtals um 105 kg af kannabis, sbr. ákæruliði 1.2, 2.2, 3.2 og 4.2 og selt hérlendis.
6.Ákærða Júlíusi Kristófer Eggertssyni er gefið að sök:
6.1. Að hafa á tímabilinu desember 1997 og til september 1999 í um 6 skipti með milligöngu meðákærðu A og G móttekið frá meðákærðu Gunnlaugi og H samtals um 39 kg af kannabis, sbr. ákæruliði 1.2, 2.2, 3.2 og 4.1, og selt hérlendis.
7.Ákærða Ó er gefið að sök:
7.1.Að hafa á tímabilinu ágúst til september 1999 fest kaup á 2 kg af kannabis af meðákærðu G og H, sem hann ætlaði til söludreifingar hérlendis, en fíkniefnin fékk ákærði ekki afhent þar sem þau fundust þann 9. september við leit lögreglu og tollgæslu í sendingu sem kom í gámi með skipi daginn áður, sbr. ákæruliði 1.1 og 2.1.
7.2. Að hafa á tímabilinu mars og til september 1999 í um 4 skipti með milligöngu meðákærða G móttekið frá meðákærðu Gunnlaugi og H samtals um 12 kg af kannabis, sbr. ákæruliði 1.2, 2.2 og 3.2, og selt hérlendis.
7.3.Að hafa á tímabilinu mars til apríl 1999 afhent meðákærða Gunnlaugi í Kaupmannahöfn poka er innihélt um 150 töflur með fíkniefninu MDMA (3,4 metylendíoxýmetamfetamíni) og fengið hann til að flytja til Íslands, sbr. ákærulið 1.3. Eftir að fíkniefnin komu til landsins tók hann við þeim af meðákærða G, sbr. ákærulið 3.3.
7.4.Að hafa í júlí 1999 afhent meðákærða Gunnlaugi í Kaupmannahöfn poka er innihélt um 100 töflur með fíkniefninu MDMA (3,4 metylendíoxýmetamfetamíni) og um 100 g af amfetamíni og fengið hann til að flytja til Íslands, sbr. ákærulið 1.3. Eftir að fíkniefnin komu til landsins tók hann við þeim af meðákærða G, sbr. ákærulið 3.4.
Heimfærsla til refsiákvæða.
Brot ákærðu Gunnlaugs, H, Júlíusar Kristófers, Ó og Sverris Þórs, teljast varða við 173. gr. a. almennra hegningarlaga nr.19/1940, sbr. lög nr. 65/1974, sbr. 72. gr. og 2. málslið 2. mgr. almennra hegningarlaga. Brot ákærðu A og G teljast varða við 173. gr. a almennra hegningarlaga, sbr. lög nr. 65/1975, og sbr. 20. gr. almennra hegningarlaga, hvað varðar tilraunaverknað ákærða G í ákærulið 3.1. Til vara teljast brot ákærðu G og A samkvæmt ákæruliðum 3.3 og 4.2 varða við 1., sbr. 2. mgr. 264. gr. almennra hegningarlaga, sbr. 141. gr. laga nr. 84/1998.
Dómkröfur.
1.Að ákærðu A, G, Gunnlaugur, H, Júlíus Kristófer, Ó og Sverrir Þór, verði dæmdir til refsingar.
2.Að framangreindum ákærðu, svo og N og Þ, verði með vísan til 3. tl. 1. mgr. 69. gr. almennra hegningarlaga nr. 19/1940, sbr. 2. gr. laga nr. 10/1997 og 7. mgr. 5. gr. laga nr. 65/1974, sbr. 7. gr. laga nr. 10/1997, gert að sæta upptöku á eftirgreindum fjárhæðum sem svara til ávinnings ákærðu af framangreindum brotum:
2.1.Ákærða A á kr. 1.000.000.
2.2.Ákærða G á kr. 1.000.000, þar á meðal innstæðu á reikningi við Sparisjóð vélstjóra nr. 1175-5-406035, sem lagt var hald á við rannsókn málsins, að fjárhæð kr. 101.577.
2.3.Ákærða Gunnlaugi og H á samtals kr. 114.000.000, aðallega in solidum, en til vara pro rata að mati dómsins, þar á meðal á eftirtöldum fjármunum sem lagt var hald á við rannsókn málsins:
2.3.1. Ákærða Gunnlaugi á reiðufé að fjárhæð DKK 3.000, sem ákærði var með í vörslum sínum er hann var handtekinn af dönsku lögreglunni þann 26. september 1999.
2.3.2. Ákærða H á:
a)Reiðufé að fjárhæð DKK 2.020, sem ákærði var með í vörslum sínum er hann var handtekinn af dönsku lögreglunni sama dag.
b)Innstæðu á reikningi við Búnaðarbanka Íslands nr. 303-26-1501, að fjárhæð kr. 11.651.
2.4.Ákærða Gunnlaugi auk ofangreinds á kr. 9.000.000.
2.5. Ákærða Júlíusi Kristófer á kr. 39.000.000.
2.5.1. Til fullnustu ofangreindri upptökukröfu á hendur ákærða Júlíusi Kristófer, er þess krafist að N, verði gert að sæta upptöku á eftirtöldum fjárhæðum:
a) Kr. 1.682.302, sem er gjöf ákærða til N, innt af hendi með peningum í eigu ákærða að fjárhæð samtals kr. 1.250.000, þann 23. júní 1999 og kr. 432.302, þann 4. ágúst s.á., vegna kaupa hennar á helmings eignarhluta í fasteigninni L, Reykjavík, miðhæð.
b) Kr. 600.000, sem er gjöf ákærða til N, innt af hendi þann 14. september 1999, með peningum í eigu ákærða, vegna kaupa hennar á bifreiðinni TP-437.
2.6.Ákærða Ó á kr. 12.000.000, þar á meðal eftirgreindum fjármunum:
a) Reiðufé að fjárhæð DKK 2.700 og ESP 4.000, sem fannst við leit lögreglu á heimili ákærða að [...], Reykjavík, þann 10. september 1999 og lagt var hald á við rannsókn málsins.
b) Innstæðu á reikningi við Búnaðarbanka Íslands nr. 319-26-7766, að fjárhæð kr. 999.590, sem lagt var hald á við rannsókn málsins.
c) Innstæðum á reikningum við Íslandsbanka hf. nr. 537-05-542 að fjárhæð kr. 2.187, nr. 582-15-80870 að fjárhæð kr. 3.517 og nr. 545-26-54747 að fjárhæð kr. 107.092, sem lagt var hald á við rannsókn málsins.
d) Fjárkröfu á hendur Gummco ehf., kt. 410299-2759, samtals að fjárhæð kr. 650.000, vegna sölu ákærða á fasteigninni [...], Garðabæ.
2.7.Ákærða Sverri Þór á kr. 105.000.000.
2.7.1. Til fullnustu ofangreindri upptökukröfu á hendur ákærða Sverri Þór er þess krafist að Þ, verði gert að sæta upptöku á kr. 2.594.140, sem er gjöf ákærða til hennar, innt af hendi þann 1. júní 1999 með peningum í eigu ákærða, vegna kaupa Þ á 50% eignarhluta í fasteigninni [...], Reykjavík, 2. hæð og risi, ásamt bílskúr.
3.Að eftirtalin fíkniefni sem lögregla lagði hald á við rannsókn málsins, verði gerð upptæk samkvæmt 6. mgr. 5. gr. laga nr. 65/1974 og 2. mgr. 10. gr. reglugerðar nr. 16/1986:
a) 6.970 g af hassi og 23,53 g af marihuana sem fannst við leit lögreglu og tollgæslu í gámi þann 9. september 1999.
b) 0,61 g af hassi sem ákærði Gunnlaugur var með í vörslum sínum er danska lögreglan handtók hann þann 26. s.m.
4.Að ákærða Sverri Þór verði með vísan til 3. tl. 69. gr. almennra hegningarlaga nr. 19/1940, gert að sæta upptöku á Kenwood DVD spilara með raðnúmeri 900300460, sem fannst við leit lögreglu á heimili hans, þann 10. september 1999”.
Önnur ákæra var gefin út 18. apríl 2000 á hendur:
“Æ [ ],
Þ [ ],
Júlíusi Kristófer Eggertssyni, kt. 271072-5119,
Leifsgötu 3, Reykjavík,
K[ ],
B[ ]
Ó [ ]
M [ ],
R [ ],
Sverri Þór Gunnarssyni, kt. 220572-4719,
Sporðagrunn 4, Reykjavík, og
Valgarð Heiðari Kjartanssyni, kt. 300172-5129,
Torfufelli 28, Reykjavík.
Gegn ákærðu Æ, Þ, Ó, R, Sverri Þór og Valgarð Heiðari fyrir brot gegn almennum hegningarlögum, en gegn ákærða K, B og M fyrir brot gegn lögum um ávana- og fíkniefni.
I.Innflutningur fíkniefna frá Hollandi til Íslands.
Gegn ákærðu Júlíusi Kristófer, Ó, R og Sverri Þór, fyrir brot gegn almennum hegningarlögum, með því að hafa í ágóðaskyni staðið að innflutningi fíkniefna til Íslands frá Hollandi árið 1999.
1.Ákærða R er gefið að sök:
Að hafa á tímabilinu maí til júlí ásamt meðákærðu Júlíusi Kristófer og Sverri Þór staðið að kaupum á samtals 43 kg af hassi, 17 kg af marihuana, 2 kg af amfetamíni og 2 kg af kókaíni í Amsterdam, sem ætluð voru til söludreifingar hérlendis, sbr. ákærulið I.2. Er stærsti hluti framangreindra fíkniefna hafði verið fluttur til landsins ásamt fíkniefnum í eigu meðákærða Ó, sbr. ákæruliði I.2 og I.3, fékk ákærði afhentan eignarhluta sinn í fíkniefnunum, um 6 kg af hassi og 950 g af amfetamíni, en þá hafði verið dreginn frá hans hluta um 3 kg af hassi og 450 g af amfetamíni sem þóknun til meðákærða Ó fyrir að flytja inn fíkniefnin. Amfetamínið afhenti ákærði að verulegu leyti meðákærða Þ, í nokkrum skömmtum umrætt sumar og 2 kg af hassinu seldi ákærði ónafngreindum manni hérlendis.
2. Ákærðu Sverri Þór Gunnarssyni og Júlíusi Kristófer Eggertssyni er gefið að sök:
Að hafa á tímabilinu maí til júlí ásamt meðákærða R staðið að kaupum á samtals 43 kg hassi, 17 kg af marihuana og 2 kg af kókaíni í Amsterdam, sem þeir ætluðu til söludreifingar hérlendis, sbr. ákærulið I.1, en flutt voru til landsins á vegum ákærðu og meðákærða R samtals 40 kg af hassinu, 2 kg af marihuana, 2 kg af kókaíni og 1,4 kg af amfetamíni. Móttóku ákærðu fíkniefnin frá meðákærða Ó smátt og smátt í júlí og ágúst, en þá hafði verið dregin frá þóknun til meðákærða Ó fyrir að flytja fíkniefnin inn, sem nam um þriðjungshlut í hinum innfluttu efnum, þó ekki kókaíninu. Að auki greiddu ákærðu meðákærða Ó kr. 750.000, sbr. ákærulið I.3. Afhentu ákærðu síðan meðákærða R hans eignarhluta, sbr. ákærulið I.1. Sínum eignarhluta, þ.e. um 21 kg af hassi, 1,3 kg af marihuana og 2 kg af kókaíni, skiptu ákærðu sín á milli þannig að ákærði Júlíus Kristófer fékk um 11 kg af hassi og 1 kg af kókaíni, en ákærði Sverrir Þór um 10 kg af hassi, 1,3 g af marihuana og 1 kg af kókaíni. Fíkniefnin seldu þeir að verulegu leyti hérlendis.
3. Ákærða Ó er gefið að sök:
Að hafa á tímabilinu júní til júlí flutt inn til landsins frá Amsterdam fíkniefni þau sem meðákærðu höfðu keypt og fengið afhent, sbr. ákærulið I.2, sem og um 3 kg af amfetamíni, 300 g af kókaíni og 5.500 MDMA (3,4 metylendíoxýmet -amfetamín) töflur, sem ákærði hafði sjálfur keypt í Amsterdam, allt ætlað til söludreifingar hérlendis. Fíkniefnin sem voru í eigu meðákærðu og þau sem ákærði keypti sjálfur ytra, faldi hann í bifreið sem flutt var til landsins á vegum ákærða. Er bifreiðin kom hingað í júlí fjarlægði ákærði fíkniefnin úr henni og tók í sínar vörslur og afhenti síðan meðákærðu Júlíusi Kristófer og Sverri Þór, eignarhluta þeirra og meðákærða R í fíkniefnunum, smátt og smátt í júlí og ágúst, að frádreginni þóknun ákærða sem nam um 13 kg af hassi, 700 g af marihuana og 450 g af amfetamíni, sem hann fékk fyrir að flytja fíkniefnin til landsins, en að auki fékk ákærði greiddar krónur 750 þúsund, sbr. ákærulið I.2. Hluta fíkniefnanna seldi ákærði hérlendis, en hluta þeirra hafði hann í vörslum sínum að [ ], sbr. ákærulið II.5.1.
II.Önnur brot ákærðu.
Gegn ákærðu Æ, Þ, Júlíusi Kristófer, Ó, Sverri Þór og Valgarði Heiðari fyrir brot gegn almennum hegningarlögum, en gegn ákærðu K, B, K og Valgarði Heiðari gegn lögum um ávana- og fíkniefni, svo sem hér er rakið.
1.Ákærða Æ er gefið að sök:
Að hafa á tímabilinu maí til september 1999, að beiðni meðákærða Ó, haft í vörslum sínum á heimili sínu, ýmsar tegundir fíkniefna í miklu magni, þar á meðal 3.999,44 g af amfetamíni, 5.445 MDMA (3,4 metylendíoxýmetamfetamín) töflur, 16,66 g MDMA duft, 17.129,81 g af hassi, 19,23 g af kannabisfræjum, 678,47 g af kókaíni og eina LSD (lýsergíð) töflu, sem lögregla fann við húsleit þann 10. september s.á., en ákærða var kunnugt um að fíkniefnin væru ætluð til söludreifingar hérlendis, sbr. ákærulið II.7.1.
2.Ákærða Þ er gefið að sök:
Að hafa í Reykjavík á tímabilinu júlí til september 1999 móttekið af meðákærða R, um 900 g af amfetamíni, sbr. ákærulið I.1, en hluta þess afhenti ákærði ónafngreindum mönnum.
3.Ákærða Júlíusi Kristófer Eggertssyni er gefið að sök:
Að hafa í Reykjavík á tímabilinu júlí til ágúst 1999, í tvö skipti keypt samtals 2 kg af hassi af meðákærða Ó, sbr. ákærulið II.7.3, og selt í ágóðaskyni.
4.Ákærða K er gefið að sök:
Að hafa þann 13. júlí 1999, að beiðni meðákærða Sverris Þórs afhent meðákærða B 200 g af amfetamíni, sbr. ákæruliði II.5.1 og II.8.2.
5.Ákærða B eru gefin að sök eftirtalin brot framin í ágóðaskyni í Reykjavík:
5.1.Að hafa þann 13. júlí 1999 keypt um 200 g af amfetamíni af meðákærða Sverri Þór, sbr. ákæruliði II.4 og II.8.2, sem hann seldi að verulegu leyti.
5.2.Að hafa á árunum 1997, 1998 og 1999, auk ofangreinds, keypt samtals um 290 g af amfetamíni og 500 g af hassi, af meðákærða Sverri Þór, sbr. ákærulið II.8.3, en amfetamínið seldi hann að verulegu leyti.
6.Ákærða M er gefið að sök:
Að hafa í Reykjavík á tímabilinu júní til september 1999 keypt samtals um 40 g af amfetamíni og 1,2 g af hassi af meðákærða Ó, sbr. ákærulið II.7.7, og selt í ágóðaskyni um 15 g af amfetamíninu og 500 g af hassinu til ónafngreindra manna.
7.Ákærða Ó eru gefin að sök eftirtalin brot framin ágóðaskyni í Reykjavík árið 1999:
7.1.Að hafa á tímabilinu maí til september, haft í vörslum sínum á heimili meðákærða Æ, að [ ], ýmsar tegundir fíkniefna í miklu magni, þar á meðal 3.999,44 g af amfetamíni, 5.445 MDMA (3,4 metylendíoxýmetamfetamín) töflur, 16,66 g af MDMA dufti, 17.129,81 g af hassi, 19,23 g af kannabisfræjum, 678,47 g af kókaíni og eina LSD (lýsergíð) töflu sem lögregla fann við húsleit þann 10. september, sbr. ákærulið II.1, en fíkniefnin ætlaði ákærði að verulegu leyti til sölu hérlendis.
7.2.Að hafa í lok ágúst og byrjun september móttekið sem nam um 8,5 milljónum króna í reiðufé frá meðákærða Sverri Þór, í íslenskum og hollenskum gjaldeyri, sem ákærði vissi að væru afrakstur meðákærða Sverris Þórs af fíkniefnaviðskiptum. Hafði ákærði peninga þessa, sem ætlaðir voru til frekari fíkniefnakaupa þeirra, í vörslum sínum á heimili sínu að [ ], þar til lögregla handtók hann þann 10. september.
7.3.Að hafa á tímabilinu júlí til ágúst selt meðákærða Júlíusi Kristófer samtals 2 kg af hassi, sbr. ákærulið II.3.1.
7.4.Að hafa á tímabilinu júlí til september keypt af ónafngreindum mönnum samtals um 1 kg af amfetamíni, 400 g af kókaíni og 5 kg af hassi, sem ákærði ætlaði til sölu hérlendis, en fíkniefnin hafði hann í vörslum sínum að [ ], sbr. ákærulið II.7.1.
7.5.Að hafa á tímabilinu maí til september 1999 selt meðákærða Valgarð Heiðari, samtals um 200 g af amfetamíni, 500 MDMA (3,4 metylendíoxýmetamfetamín) töflur og 900 g af hassi, sbr. ákærulið II.9.
7.6.Að hafa á tímabilinu júní til september 1999 selt M, [ ], samtals um 40 g af amfetamíni og 1,2 kg af hassi, sbr. ákærulið II.6.
7.7.Að hafa í júlí selt F, [ ] eða ónafngreindum mönnum með milligöngu F, a.m.k. 5 kg af hassi.
7.8.Að hafa á tímabilinu júlí til september, auk ofangreinds, selt F eða ónafngreindum mönnum með milligöngu F a.m.k. 10 MDMA (3,4 metylendíoxýmetamfetamín) töflur, 50 g af amfetamíni, 52 g af kókaíni og 30 g af hassi.
8.Ákærða Sverri Þór Gunnarssyni eru gefin að sök eftirtalin brot framin í Reykjavík í ágóðaskyni:
8.1.Að hafa á tímabilinu maí 1998 til september 1999, selt E, [ ], samtals um 150 g af kókaíni.
8.2.Að hafa þann 13. júlí 1999, með milligöngu K [ ], selt meðákærða B, um 200 g af amfetamíni, sbr. ákæruliði II.4. og II.5.1.
8.3.Að hafa á árunum 1997, 1998 og 1999, auk ofangreinds, selt meðákærða B samtals um 290 g af amfetamíni og 500 g af hassi, sbr. ákærulið II.5.2.
9.Ákærða Valgarði Heiðari Kjartanssyni er gefið að sök:
Að hafa í Reykjavík á tímabilinu maí til september 1999 keypt samtals um 200 g af amfetamíni, 100 g af kókaíni, 500 MDMA (3,4 metylendíoxýmetamfetamín) töflur og 900 g af hassi, af meðákærða Ó, sbr. ákærulið I.7.6, og selt um 20 g af amfetamíninu, 400 g af hassinu, 50 g af kókaíninu og MDMA töflunar í ágóðaskyni.
III. Heimfærsla til refsiákvæða.
Brot ákærðu Júlíusar Kristófers, Sverris Þórs og Ó, teljast varða við 173. gr. a. almennra hegningarlaga nr. 19/1940, sbr. lög nr. 65/1974, fyrir utan brot ákærða Ó samkvæmt ákærulið II.7.2, en það telst varða við 1., sbr. 2. mgr. 264. gr. almennra hegningarlaga, allt sbr. 72. gr. og 2. málslið 2. mgr. almennra hegningarlaga.
Brot ákærðu Æ, Þ, R, og Valgarðs Heiðars, teljast varða við 173. gr. a. almennra hegningarlaga, sbr. lög nr. 65/1974.
Brot ákærðu, K, B og M, teljast varða við 2. gr., sbr. 5. gr. og 6. gr. laga um ávana- og fíkniefni nr. 65/1974, sbr. lög nr. 60/1980, sbr. 9. gr. laga nr. 75/1982, sbr. lög nr. 13/1985, og 2. gr., sbr. 10. gr., reglugerðar um sölu og meðferð ávana- og fíkniefna nr. 16/1986, sbr. reglugerð nr. 177/1986 og auglýsingu nr. 84/1986, að því er varðar meðferð ákærðu á amfetamíni.
IV. Dómkröfur.
1.Að ákærðu verði dæmdir til refsingar.
2.Að ákærðu verði með vísan til 3. tl. 1. mgr. 69. gr. almennra hegningarlaga nr. 19/ 1940, sbr. 2. gr. laga nr. 10/1997, og 7. mgr. 5. gr. laga nr. 65/1974, sbr. 7. gr. laga nr. 10/1997, gert að sæta upptöku á eftirgreindum fjárhæðum sem svara til ávinnings þeirra af ofangreindum brotum:
2.1. Ákærða Júlíusi Kristófer á kr. 18.000.000, þar á meðal eftirtöldum fjármunum:
a) Fjárkröfu á hendur Erick Hermanni Gíslasyni, kt. 220775-5859, að fjárhæð kr. 800.000, vegna sölu ákærða á bifreiðinni NY-199.
b) Innstæðum á reikningum við Sparisjóð Hafnarfjarðar nr. 1121-26-172 að fjárhæð kr. 98.600 og nr. 1121-550-217, að fjárhæð kr. 250.000, sem lagt var hald á við rannsókn málsins.
2.2.Ákærða M á kr. 725.000.
2.3.Ákærða B á kr. 1.750.000.
2.4.Ákærða Ó á kr. 11.850.000.
2.5.Ákærða R á kr. 600.000.
2.6.Ákærða Sverri Þór á kr. 20.000.000, þar á meðal eftirtöldum fjármunum sem lagt var hald á við rannsókn málsins:
a) Reiðufé að fjárhæð kr. 99.500, sem ákærði var með í vörslum sínum er lögregla handtók hann þann 10. september 1999 .
b) Reiðufé að fjárhæð kr. 95.000, DEM 100, USD 100, CAD 5, IEP 20, SEK 10, DKK 150 og ITL 2.000, sem fannst við leit lögreglu á heimili ákærða að Óðinsgötu 2, Reykjavík, s.d.
c) Reiðufé á fjárhæð kr. 965.000, sem ákærði var með í vörslum sínum í skrifborðsskúffu á vinnustað sínum, Rimax hf., Eldshöfða 18, Reykjavík, og fannst við leit lögreglu þann 11. september 1999.
d) Reiðufé að fjárhæð kr. 4.120.000, sem fannst við leit lögreglu í bankahólfi E [ ], í Landsbankanum í Mjódd, Reykjavík, þann 11. október 1999, og enginn á löglegt tilkall til, en um er að ræða peninga sem ákærði hafði afhent E skömmu fyrir handtöku sína.
e) Reiðufé að fjárhæð NLG 18.000, sem F, kt. 060166-3159, var með í vörslum sínum, er hann var handtekinn, þann 20. október 1999, og enginn á löglegt tilkall til, en um er að ræða hluta af peningum sem ákærði hafði afhent meðákærða Ó, sbr. ákærulið II.7.2.
f) Reiðufé að fjárhæð kr. 100.000, sem S [ ], framvísaði við leit lögreglu á heimili hennar að [ ] Reykjavík, þann 21. október 1999, og enginn á löglegt tilkall til, en um er að ræða hluta af peningum sem ákærði Sverrir Þór hafði afhent ákærða Ó, sbr. ákærulið II.7.2.
g) Reiðufé að fjárhæð NLG 23.000, sem T [ ], framvísaði við leit lögreglu á heimili hennar og U, að [ ], þann 4. nóvember 1999, og enginn á löglegt tilkall til, en um er að ræða hluta af peningum sem ákærði Sverrir Þór hafði afhent meðákærða Ó, sbr. ákærulið II.7.2.
h) Innstæðu á reikningi við Búnaðarbanka Íslands nr. 303-26-4719, að fjárhæð kr. 390.234.
2.7.Ákærða Valgarði Heiðari á kr. 3.450.000.
3.Að eftirtalin fíkniefni, sem lögregla lagði hald á við rannsókn málsins, verði gerð upptæk samkvæmt 6. mgr. 5. gr. laga nr. 65/1974 og 2. mgr. 10. gr. reglugerðar nr. 16/1986:
a) 3.999,44 g af amfetamíni, 5.445 MDMA (3,4 metylendíoxýmetamfetamín) töflur, 16,66 g af MDMA dufti, 17.129,81 g af hassi, 19,23 g af kannabisfræjum, 678,47 g af kókaíni og ein LSD (lýsergíð) tafla, sem fundust við leit lögreglu á heimili ákærða H, þann 10. september 1999, sbr. ákærulið II.1.1.
b) 2,5 g af hassi, 3,36 g af kókaíni og 2 MDMA (3,4 metylendíoxýmetamfetamín) töflur, sem fundust við leit lögreglu á heimili ákærða Ó að Írabakka 26, Reykjavík, s.d.
c) 8,85 g af hassi og 18,85 g af amfetamíni, sem fundust við leit lögreglu á heimili B, að [ ], Reykjavík, þann 20. nóvember 1999.
d) 2 LSD (lýsergíð) töflur, sem fundust við leit lögreglu á heimili ákærða R 21. júlí 1999.
4.Að eftirtaldir munir sem taldir eru hafa verið notaðir eða séu ætlaðir til ólögmætrar meðferðar fíkniefna og lagt var hald á við rannsókn málsins verði gerðir upptækir samkvæmt 7. mgr. 5. gr. laga nr. 65/1974 og 2. mgr. 10. gr. reglugerðar nr. 16/1986:
a) Tölvugrammavog, sem fannst við leit lögreglu á heimili ákærða Sverris Þórs, að Óðinsgötu 2, Reykjavík, þann 10. september 1999.
b) Tölvugrammavog, sem fannst við leit lögreglu á heimili ákærða Valgarðs Heiðars, að Laugavegi 144, Reykjavík, þann 22. nóvember 1999.
5.Að eftirtalin lyf sem lagt var hald á við rannsókn málsins verði gerð upptæk samkvæmt 4. mgr. 43. gr. lyfjalaga nr. 93/1994, sbr. lög nr. 55/1995 og 2. mgr. 68. gr. lyfsölulaga nr. 30/1963:
a) 6 Viagra töflur sem fundust við leit lögreglu á heimili ákærða Æ þann 10. september 1999.
b) 7 Viagra töflur sem fundust við leit lögreglu í bifreið ákærða Ó, s.d.
6.Að eftirtalin ólögmæt vopn sem lagt var hald á við rannsókn málsins verði gerð upptæk samkvæmt 1. mgr. 37. gr. vopnalaga nr. 16/1998:
a) Afsöguð haglabyssa af tegundinni Mossberg 500 AR 12 GAL, með afmáðu raðnúmeri, sem fannst við leit lögreglu á heimili ákærða Æ, þann 10. september 1999.
b) Tólf kasthnífar, tvenn handjárn, loftskammbyssa, gormakylfa og rafstuðbyssa, sem fundust við leit lögreglu á heimili ákærða Ó, að [ ], Reykjavík, s.d..
c) Handjárn sem fundust við leit lögreglu á heimili ákærða Sverrir Þórs að Óðinsgötu 2, Reykjavík, s.d.
d) Tvö sverð og rafstuðbyssa sem fundust við leit lögreglu á heimili ákærða Valgarðs Heiðars, þann 22. nóvember 1999.”
Þriðja ákæran var gefin út 19. apríl 2000 á hendur:
“X, [ ],
G, [ ],
Z, [ ], og
Ingvari Árna Ingvarssyni, kt. 060476-4119,
Þykkvabæ 6, Reykjavík,
gegn ákærðu X, G og Ingvari Árna fyrir brot gegn almennum hegningarlögum og gegn ákærða Z fyrir brot gegn lögum um ávana- og fíkniefni, framin í ágóðaskyni á árinu 1999 svo sem hér er rakið:
I. Innflutningur fíkniefna frá Bandaríkjunum til Íslands.
Gegn öllum ákærðu með því að hafa staðið að innflutningi fíkniefna frá Bandaríkjunum til Íslands, svo sem hér greinir:
1. Ákærðu X og Ingvari Árna Ingvarssyni er gefið að sök:
1.1. Að hafa í apríl ásamt meðákærða Z staðið að kaupum á um 330 g af kókaíni í Bandaríkjunum. Ákærðu keyptu efnið ytra og komu því fyrir í varahlut sem þeir sendu til landsins á vegum skipafélagsins Samskipa hf. Að beiðni ákærða Ingvars Árna fjarlægði meðákærði G sendinguna með fíkniefninu úr vörslum félagsins við Holtabakka, Reykjavík og afhenti meðákærða Z fyrir utan heimili sitt, sbr. ákærulið I.3.1. Ákærði Ingvar Árni og meðákærði Z fjarlægðu fíkniefnið úr sendingunni og skiptu jafnt á milli sín og meðákærða X, en ákærði Ingvar Árni varslaði hans hluta og afhenti honum síðar. Fíkniefnið seldu þeir að verulegu leyti hérlendis.
1.2.Að hafa í ágúst ásamt meðákærða G staðið að kaupum á um 330 g af kókaíni frá Bandaríkjunum. Ákærðu keyptu efnið ytra og sendu til landsins með sama hætti og lýst er í ákærulið I.1.1. Er sendingin kom til landsins fjarlægði meðákærði G hana úr vörslum Samskipa hf., að beiðni meðákærða Ingvars Árna og fór með hana í íbúð í Kópavogi, þar sem hann og ákærðu fjarlægðu efnið úr sendingunni og skiptu sín á milli, þannig að í hlut ákærða X komu um 120 g, ákærða Ingvars Árna um 160 g og ákærða G um 50 g, sbr. ákærulið I.3.2. Fíkniefnið tóku ákærðu í vörslur sínar og seldu að verulegu leyti hérlendis.
2. Ákærða Z er gefið að sök:
Að hafa í apríl lagt um kr. 450.000 til þeirra fíkniefnakaupa sem lýst er í ákærulið I.1.1. og að hafa, er fíkniefnið kom til landsins, móttekið það fyrir utan heimili meðákærða G, sbr. ákærulið I.3.1. Ákærði fór með fíkniefnið á heimili sitt þar sem því var skipt á milli hans og meðákærðu X og Ingvars Árna, sbr. ákærulið I.1.1. Sinn hluta efnisins tók ákærði í vörslur sínar og seldi að verulegu leyti hérlendis.
3. Ákærða G er gefið að sök:
3.1. Að hafa í apríl notfært sér aðstöðu sína sem starfsmaður skipafélagsins Samskipa hf. til þess að fjarlægja úr vörslum félagsins við Holtagarða, Reykjavík, sendingu þá sem um ræðir í ákærulið I.1.1 og afhent hana meðákærða Z fyrir utan heimili sitt, sbr. ákærulið I.2. Fékk ákærði fyrir sinn hlut 15 g af kókaíninu og 210.000 krónur.
3.2. Að hafa í ágúst lagt a.m.k. kr. 200.000 til þeirra fíkniefnakaupa sem lýst er í ákærulið I.1.2, og flutt voru inn til landsins með skipafélaginu Samskipum hf. Ákærði notfærði sér aðstöðu sína sem starfsmaður skipafélagsins til þess að fjarlægja fíkniefnið úr vörslum félagsins við Holtagarða, Reykjavík. Fór ákærði með sendinguna í íbúð í Kópavogi, þar sem kókaínið var fjarlægt úr henni að viðstöddum ákærða og meðákærðu X og Ingvari Árna, og skipt þeirra á milli, en ákærði fékk í sinn hlut um 50 g af fíkniefninu. Ákærði drýgði sinn hluta með íblöndunarefni. Um 10 g af efninu blönduðu afhenti, hann P [ ], sem seldi það fyrir ákærða. Hluta þess neytti ákærði sjálfur og 59,25 g af efninu hafði ákærði í vörslum sínum á heimili sínu þar til lögregla fann efnið samkvæmt ábendingu hans við húsleit þann 27. október. Fíkniefnið sem ákærði hafði í vörslum sínum ætlaði hann til sölu að verulegu leyti hérlendis.
II. Önnur brot ákærða Ingvars Árna.
Auk ofangreinds er ákærða Ingvari Árna gefið að sök að hafa aðfaranótt miðvikudagsins 15. desember 1999, á vegslóða sunnan við Rafstöðvarveg undir Höfðabakkabrú í Elliðaárdal, Reykjavík, haft í vörslum sínum 61,89 g af kókaíni, sem hann fleygði frá sér þegar lögregla kom á staðinn, en fíkniefnið ætlaði ákærði til sölu að verulegu leyti.
III. Heimfærsla til refsiákvæða.
Teljast framangreind brot ákærðu X, G og Ingvars Árna, varða við 173. gr. a almennra hegningarlaga nr. 19/1940, sbr. lög nr. 65/1974, en brot ákærða Z telst varða við 2. gr., sbr. 5. gr., laga um ávana- og fíkniefni nr. 65/ 1974, sbr. lög nr. 60/1980, sbr. 9. gr. laga nr. 75/1982, sbr. lög nr. 13/1985, og 2. gr., sbr. 10. gr., reglugerðar um sölu og meðferð ávana- og fíkniefna nr. 16/1986, sbr. reglugerð nr. 177/ 1986 og auglýsingu nr. 314/1981.
IV. Dómkröfur.
1.Að ákærðu verði dæmdir til refsingar.
2.Að ákærðu verði með vísan til 3. tl. 1. mgr. 69. gr. almennra hegningarlaga nr. 19/ 1940, sbr. 2. gr. laga nr. 10/1997 og 7. mgr. 5. gr. laga nr. 65/1974, sbr. 7. gr. laga nr. 10/1997, gert að sæta upptöku á eftirgreindum fjárhæðum sem svara til ávinnings þeirra af ofangreindum afbrotum:
2.1. Ákærða X á kr. 2.700.000.
2.2. Ákærða G á kr. 350.000.
2.3. Ákærða Z á kr. 1.212.200, hluta af innstæðu af reikningi hans við Landsbanka Íslands nr. 113-15-370173, sem lagt var hald á við rannsókn málsins.
2.4.Ákærða Ingvari Árna Ingvarssyni á kr. 3.180.000, þar á meðal á reiðufé að fjárhæð kr. 95.090 og USD 16, sem fannst við húsleit á heimili hans þann 18. nóvember 1999, og lagt var hald á við rannsókn málsins.
3.Að eftirtalin fíkniefni sem lögregla lagði hald á við rannsókn málsins, verði gerð upptæk samkvæmt 6. mgr. 5. gr. laga nr. 65/1974 og 2. mgr. 10. gr. reglugerðar nr. 16/1986:
a) 4 g af kókaíni, sem ákærði Z afhenti lögreglu við leit á heimili hans þann 18. nóvember 1999.
b) 0,44 g af kókaíni, sem fannst við leit lögreglu á heimili ákærða Ingvars Árna, s.d.
c) 61,89 g af kókaíni sem ákærði Ingvar Árni var með í vörslum sínum þann 15. desember 1999.
d) 18,85 g af kókaíni og 1,34 g af hassi, sem lögregla fann á heimili ákærða G, þann 10. september 1999.
e) 59,52 g af kókaíni, sem lögregla fann á heimili ákærða G, þann 27. október 1999.
4.Að ólöglegur loftriffill, sem fannst á heimili ákærða X við leit lögreglu þann 17. nóvember 1999 og lagt var hald á, verði gerður upptækur, samkvæmt 1. mgr. 37. gr. vopnalaga nr. 16/1998.”
Fjórða ákæran, sem er framhaldsákæra var gefin 8. maí 2000 á hendur:
“M, [ ],
fyrir brot gegn lögum um ávana- og fíkniefni, með því að hafa í Reykjavík á tímabilinu júní til september 1999 keypt samtals um 40 g af amfetamíni og 1,2 kg af hassi af Ó, [ ], sbr. ákærulið II.7.6, og selt í ágóðaskyni um 15 g af amfetamíninu og 500 g af hassinu til ónafngreindra manna.
Ákæra þessi er gefin út með heimild í 118. gr laga nr. 19/1991 um meðferð opinberra mála til leiðréttingar á verknaðarlýsingu í ákæru sem gefin var út á hendur ákærða og fleirum þann 18. apríl 2000.”
Fimmtu ákæruna gaf ríkislögreglustjórinn út 8. maí 2000 á hendur:
“B, [ ],
fyrir peningaþvætti,
með því að hafa frá mars 1997 til og með september 1999, í mörg skipti, móttekið og geymt milljónir króna fyrir Sverri Þór Gunnarsson, sem ákærði vissi að var ávinningur fíkniefnabrota hans.
Telst háttsemi ákærða varða við 1. mgr., sbr. 2. mgr. 264. gr. almennra hegningarlaga nr. 19, 1940, sbr. 4. gr. laga nr. 10, 1997 og 141. gr. laga nr. 82, 1998.”
Sjötta ákæran er framhaldsákæra útgefin 25. maí 2000 á hendur:
“A [ ],
G, [ ],
Gunnlaugi Ingibergssyni, kt. 210272-4109,
óstaðsettum í hús, Reykjavík,
H [ ]
Júlíusi Kristófer Eggertssyni, kt. 271072-5119,
Leifsgötu 3, Reykjavík,
Ó, [ ], og
Sverri Þór Gunnarssyni, kt. 220572-4719,
Sporðagrunni 4, Reykjavík.
Brot ákærðu Gunnlaugs, H, Júlíusar Kristófers, Ó og Sverris Þórs, teljast varða við 173. gr. a almennra hegningarlaga nr. 19/1940, sbr. lög nr. 64/1974, sbr. 72. gr. og 2. málslið 2. mgr. 77. gr. almennra hegningarlaga. Brot ákærðu A og G teljast varða við 173. gr. a almennra hegningarlaga, sbr. lög nr. 64/1974 og sbr. 20. gr. almennra hegningarlaga, hvað varðar tilraunaverknað ákærða G í ákærulið 3.1. Til vara teljast brot ákærðu G og A samkvæmt ákæruliðum 3.5 og 4.2 varða við 1. mgr., sbr. 2. mgr. 264. gr. almennra hegningarlaga, sbr. lög nr. 10/1997.
Ákæra þessi er gefin út með heimild í 118. gr laga nr. 19/1991 um meðferð opinberra mála til leiðréttingar á heimfærslu brota ákærðu til refsiákvæða í ákæru sem gefin var út á hendur ákærðu og fleirum þann 17. apríl 2000.”
Sjöunda ákæran er framhalds ákæra útgefin 25. maí 2000 á hendur:
“Æ, [ ],
Þ, [ ],
Júlíusi Kristófer Eggertssyni, kt. 271072-5119,
Leifsgötu 3, Reykjavík,
Ó, [ ],
R [ ],
Sverri Þór Gunnarssyni, kt. 220572-4719,
Sporðagrunni 4, Reykjavík og
Valgarð Heiðari Kjartanssyni, kt. 300172-5129,
Torfufelli 28, Reykjavík.
Brot ákærðu Júlíusar Kristófers, Sverris Þórs og Ó, teljast varða við 173. gr. a almennra hegningarlaga nr. 19/1940, sbr. lög nr. 64/1974, fyrir utan brot ákærða Ó samkvæmt ákærulið II.7.2, en það telst varða við 1. mgr., sbr. 2. mgr. 264. gr. almennra hegningarlaga, sbr. lög nr. 10/1997, allt sbr. 72. gr. og 2. málslið 2. mgr. 77. gr. almennra hegningarlaga. Brot ákærðu Æ, Þ, R og Valgarðs Heiðars, teljast varða við 173. gr. a almennra hegningarlaga, sbr. lög nr. 64/1974.
Ákæra þessi er gefin út með heimild í 118. gr laga nr. 19/1991 um meðferð opinberra mála til leiðréttingar á heimfærslu brota ákærðu til refsiákvæða í ákæru sem gefin var út á hendur ákærðu og fleirum þann 18. apríl 2000.”
Áttunda ákæran er frá 9. september 1997 á hendur ákærða H :
“fyrir eftirgreind brot gegn lögum um ávana- og fíkniefni framin í Reykjavík árið 1996:
I.Að hafa, fimmtudaginn 15. febrúar, afhent nafngreindum manni 0,8 g af amfetamíni á veitingastaðnum Caruso við Bankastræti.
II.Að hafa föstudaginn 16. febrúar, haft í vörslum sínum í geymsluhúsnæði sem ákærði var með á leigu að Þingholtsstræti 6, 191,6 g af hassi og 50,9 g af amfetamíni, sem ákærði þykir að verulegu leyti hafa ætlað til sölu í ágóðaskyni.
III.Að hafa, laugardaginn 13. apríl, haft í vörslum sínum á heimili sínu sem um getur í síðasta lið, 1,9 g af hassi og 0,6 g af hassblönduðu tóbaki.
Telst þetta varða við 2. gr., sbr. 5. gr. og 6. gr. laga um ávana- og fíkniefni nr 65, 1974, sbr. lög nr. 60, 1980, sbr. 9. gr. laga nr. 75, 1982, sbr. lög nr. 13, 1985, og 2. gr., sbr. 10. gr. reglugerðar um sölu og meðferð ávana- og fíkniefna nr. 16, 1986, en háttsemi sem lýst er í liðum I og II jafnframt, sbr. reglugerð nr. 177, 1986, sbr. auglýsingu nr. 84, 1986.
Þess er krafist að ákærði verði dæmdur til refsingar og til að sæta upptöku á 193,5 g af hassi, 1,1 g af hassblönduðu tóbaki og 50,9 g af amfetamíni sem lögregla fann og lagði hald á við húsleitir hjá ákærða 16. febrúar 1996 að Þingholtsstræti 6 og Skipholti 9 og 13. apríl 1996 að Skipholti 9 og 13. apríl 1996 að Skipholti 9 samkvæmt 6. mgr. 5. gr. laga nr. 65, 1974 og 2. mgr. 10. gr. reglugerðar nr. 16/1986.”
Sömu skjöl fylgja öllum ákærunum, utan ákærunni frá 9. september 1997.
Málin voru sameinuð.
Verjandi ákærða A krefst vægustu refsingar sem lög leyfa og að gæsluvarðhald ákærða komi til frádráttar dæmdri refsivist. Þess er aðallega krafist að upptökukröfu ákæruvaldsins á hendur ákærða A verði vísað frá dómi, en til vara að ákærði verði sýknaður af þeirri kröfu. Þess er aðallega krafist að málsvarnarlaun verði dæmd úr ríkissjóði að mati dómsins, en til vara að hluta úr ríkissjóði.
Verjandi ákærða G krefst vægustu refsingar sem lög leyfa og að refsing verði að mestu skilorðsbundin og gæsluvarðhaldsvist ákærða komi til frádráttar dæmdri refsingu. Þess er krafist að upptökukröfu ákæruvaldsins á hendur ákærða G verði vísað frá dómi, en til vara að hann verði sýknaður af þeirri kröfu. Krafist er málsvarnarlauna að mati dómsins, aðallega að þau verði greidd úr ríkissjóði.
Verjandi ákærða Gunnlaugs krefst vægustu refsingar sem lög leyfa og að gæsluvarðhaldsvist ákærða komi til frádráttar dæmdri refsivist. Krafist er sýknu af öllum þáttum ákærunnar fyrir utan innflutning á 38 kg af hassi. Vegna upptökukrafna sem beinast gegn ákærða Gunnlaugi er þess krafist aðallega að þeim verði vísað frá dómi, en til vara er krafist sýknu. Málsvarnarlauna er krafist að mati dómsins og að sakarkostnaður, þar með talin málsvarnarlaun, verði aðallega greidd úr ríkissjóði.
Verjandi ákærða H krefst þess að meint brot ákærða samkvæmt ákæru frá 17. apríl 2000 verði talin varða við lög nr. 65/1974, en ekki við 173. gr.a, almennra hegningarlaga og að ákærði hljóti vægustu refsingu sem lög leyfa vegna brota samkvæmt þeirri ákæru og að gæsluvarðhaldsvist ákærða, fyrst í Kaupmannahöfn og síðan hér á landi, komi til frádráttar refsivist að fullri dagatölu. Þess er aðallega krafist að upptökukröfu á hendur ákærða verði vísað frá dómi, en til vara að ákærði verði sýknaður af þeirri kröfu. Krafist er sýknu af öllum kröfum ákæruvaldsins samkvæmt ákæru frá 9. september 1997. Í báðum tilvikum er krafist málsvarnarlauna að mati dómsins aðallega úr ríkissjóði.
Verjandi ákærða Júlíusar Kristófers krefst sýknu af öllum kröfum ákæruvaldsins. Þess er krafist að upptökukröfum á hendur ákærða verði vísað frá dómi. Krafist er málsvarnarlauna að mati dómsins úr ríkissjóði.
Verjandi ákærðu N krefst þess að kröfum á hendur henni verði vísað frá dómi, en til vara að þeim verði hafnað. Krafist er málsvarnarlauna úr ríkissjóði að mati dómsins.
Verjandi ákærða Ó krefst vægustu refsingar sem lög leyfa og að gæsluvarðhaldsvist hans komi til frádráttar refsivist. Krafist er frávísunar ákæruliðar 7.1 í ákæru frá 18. apríl 2000. Þá er krafist frávísunar á upptökukröfum í lið 2.6 samkvæmt ákæru frá 17. apríl 2000 og einnig í lið 2.4 í ákæruskjali frá 18. apríl 2000, en til vara er þess krafist að ákærði verði sýknaður af þeim kröfum. Þá er krafist sýknu af upptökukröfum, sem fram koma í ákæru frá 18. apríl 2000 er varða Viagratöflur í lið 5 og hnífa og handjárn í lið nr. 6. Krafist er málsvarnarlauna að mati dómsins.
Verjandi ákærða Sverris Þórs krefst vægustu refsingar sem lög leyfa. Þess er krafist að gæsluvarðhaldsvist ákærða komi til frádráttar dæmdri refsivist. Þess er aðallega krafist að upptökukröfum á hendur ákærða verði vísað frá dómi, en til vara að þeim verði hafnað og til þrautavara að þær sæti verulegri lækkun. Krafist er málsvarnarlauna úr ríkissjóði að mati dómsins.
Verjandi ákærðu Þ krefst þess aðallega að kröfulið 2.7.1 í ákæru frá 17. apríl 2000 verði vísað frá dómi, en til vara er krafist sýknu og til þrautavara að krafan sæti verulegri lækkun. Krafist er málsvarnarlauna úr ríkissjóði að mati dómsins.
Verjandi ákærða Æ krefst þess að máli á hendur ákærða verði vísað frá dómi. Til vara er krafist vægustu refsingar sem lög leyfa og að refsivist ef dæmd verður verði skilorðsbundin og að gæsluvarðhald komi til frádráttar. Krafist er málsvarnarlauna úr ríkissjóði að mati dómsins.
Verjandi ákærða Þ krefst aðallega sýknu, en til vara vægustu refsingar sem lög leyfa og vegna hegningaraukaáhrifa verði ekki dæmd sérstök refsing í málinu. Málsvarnarlauna er krafist úr ríkissjóði að mati dómsins.
Verjandi ákærða K krefst aðallega sýknu en til vara vægustu refsingar sem lög leyfa og að málsvarnarlaun verði dæmd úr ríkissjóði að mati dómsins.
Verjandi ákærða B krefst sýknu af báðum ákærum á hendur ákærða og málsvarnarlauna úr ríkissjóði að mati dómsins.
Verjandi ákærða M krefst vægustu refsingar sem lög leyfa. Þess er aðallega krafist að upptökukröfu á hendur ákærða verði vísað frá dómi, en til vara er krafist sýknu. Málsvarnarlauna er krafist úr ríkissjóði að mati dómsins.
Verjandi ákærða R krefst vægustu refsingar sem lög leyfa og verði dæmd refsivist þá komi gæsluvarðhaldsvist hans til frádráttar. Krafist er sýknu af upptökukröfu. Málsvarnarlauna er krafist úr ríkissjóði að mati dómsins.
Verjandi ákærða Valgarðs Heiðars krefst vægustu refsingar sem lög leyfa og aðallega að upptökukröfu á hendur ákærða verði vísað frá dómi, en til vara er krafist sýknu. Krafist er málsvarnarlauna að mati dómsins.
Verjandi ákærða X krefst vægustu refsingar sem lög leyfa. Þess er aðallega krafist að upptökukröfu á hendur ákærða verði vísað frá dómi, en til vara að hann verði sýknaður af þeirri kröfu. Málsvarnarlauna er krafist úr ríkissjóði að mati dómsins.
Verjandi ákærða Z krefst vægustu refsingar sem lög leyfa. Þá er þess aðallega krafist að kyrrsetning á eignum ákærða til fullnustu upptökukröfu verði felld niður og að upptökukröfunni verði vísað frá dómi, en til vara er þess krafist að ákærði verði sýknaður af henni. Málsvarnarlauna er krafist úr ríkissjóði að mati dómsins.
Verjandi ákærða Ingvars Árna krefst sýknu af I. kafla ákæru frá 19. apríl 2000. Að öðru leyti er krafist vægustu refsingar sem lög leyfa og að gæsluvarðhaldsvist ákærða komi til frádráttar dæmdri refsingu og að refsing verði skilorðsbundin. Aðallega er krafist frávísunar upptökukröfu á hendur ákærða en til vara er krafist sýknu af þeirri kröfu. Málsvarnarlauna er krafist úr ríkissjóði að mati dómsins.
Upphaf rannsóknar málsins.
Samkvæmt gögnum málsins hófst rannsókn þess fyrir utan sakarefnið, sem lýst er í ákæru frá 9. september 1997, er gerð var krafa um símhlustun hjá ákærða R og fleirum hinn 27. maí 1999 eftir að lögreglu bárust upplýsingar um fyrirhugaðan innflutning hans og fleiri á fíkniefnum. Eftir það var unnið að rannsókninni, meðal annars með símhlustunum. Rannsóknin leiddi til þess að gerð var ítarleg leit í vörugámum sem komu til landsins með leiguskipi Samskipa hf. frá Danmörku hinn 8. september sl. Daginn eftir fundust tæp 7 kg af hassi. Í framhaldinu var fjöldi manns handtekinn og sættu margir gæsluvarðhaldi undir rannsókn málsins og sæta níu hinna ákærðu enn gæsluvarðhaldi.
Eins og ákærur bera með sér var lagt hald á mikið magn fíkniefna auk ýmissa muna sem lýst er í ákærunum. Rannsóknin er fyrst og fremst byggð á framburði ákærðu og á símhlustunum eins og segir í greinargerð lögreglustjórans í Reykjavík dagsettri 15. janúar sl. Ekki þykir ástæða til að rekja málavexti frekar hér, heldur verða þeir reifaðir vegna hverrar ákæru fyrir sig.
Ákæra dagsett 8. maí 2000.
Þessi ákæra ríkislögreglustjóra er rakin að framan. Engar kröfur eru hafðar uppi í ákærunni. Ákæran uppfyllir heldur ekki skilyrði 116. gr. laga nr.19/1991 um meðferð opinberra mála að því er varðar efnislýsingu. Ber því að vísa þessari ákæru frá dómi af sjálfsdáðum.
Um frávísunarkröfu.
Í varnarræðu sinni fyrir dóminum gerði skipaður verjandi ákærða H þá kröfu að ákærulið II.1. í ákæru dagsettri 18. apríl sl. yrði vísað frá dómi. Þessari kröfu hafði ekki verið hreyft fyrr undir rekstri málsins. Rökstuddi verjandinn kröfu sína með þeim hætti að sækjandi málsins hefði stjórnað rannsókn þess hjá lögreglu og vísaði til 31. gr. laga nr. 19/1991 þar sem fram kemur að þeir sem fara með ákæruvald skuli vinna að því að hið sanna og rétta komi í ljós og gæta jafnt að þeim atriðum sem horfa til sýknu og sektar. Taldi verjandinn reglur 3. tl. 30. gr. sömu laga leiða til þess að vísa bæri málinu frá dómi. Sækjandi mótmælti sjónarmiðum verjandans og vísaði máli sínu til stuðnings í dóm Hæstaréttar Íslands frá árinu 1993 bls. 69.
Mál þetta er höfðað af Kolbrúnu Sævarsdóttur, settum saksóknara. Óumdeilt er að meðan á rannsókn málsins stóð starfaði hún sem fulltrúi lögreglustjórans í Reykjavík og hafði umsjón með rannsókn þess. Samkvæmt 1. mgr. 29. gr. laga nr. 19/1991 flytur ríkissaksóknari, vararíkissaksóknari, saksóknarar eða fulltrúar ríkissaksóknara þau mál í héraði sem hann höfðar. Þá getur ríkissaksóknari falið lögreglustjórum flutning máls í héraði. Þá má benda á þá reglu 4. mgr. 28. gr. sömu laga um að lögreglustjóri, þar á meðal ríkislögreglustjóri, sem stýrt hefur rannsókn brots, höfði að jafnaði opinbert mál vegna brotsins, nema ríkissaksóknari höfði mál samkvæmt lögunum. Samkvæmt 1. mgr. 30. gr. laganna skal ríkissaksóknari víkja sæti þegar hann er svo við málsefni eða aðila riðinn að hætta er á að hann fái ekki, við útgáfu ákæru eða önnur störf samkvæmt lögunum, litið óhlutdrægt á málavöxtu. Samkvæmt 2. mgr. 30. gr. skal ríkissaksóknari fara sjálfur með ákæruvaldið eða fela það öðrum ákæranda ef annar handhafi ákæruvalds er vanhæfur til meðferðar einstaks máls.
Ekki er að finna í lögum nein fyrirmæli um að sá sem stjórnar rannsókn máls geti ekki sótt það fyrir dómi. Samkvæmt 66. gr. áðurgreindra laga er rannsókn opinberra mála í höndum lögreglu, nema öðruvísi sé mælt fyrir í lögum. Jafnframt er þess getið, að ríkissaksóknari geti gefið fyrirmæli í sambandi við rannsókn mála. Í lok greinarinnar segir að rannsóknari sé sá starfsmaður lögreglu eða ákæruvalds sem rannsókn stýri eða sinni hverju sinni.
Samkvæmt framansögðu er ekki greint á milli lögreglu og ákæruvalds, að því er rannsókn máls snertir. Þá fara ríkissaksóknari og lögreglustjórar með ákæruvald, sbr. 1. mgr. 25. gr. laganna. Þessar reglur þykja að mati dómsins ekki leiða til þess að draga megi í efa hlutlægni starfsmanns sem haft hefur með höndum rannsókn máls og sækir það síðar fyrir dómi. Hefur því ekki verið sýnt fram á að ákærandi máls þessa sé vanhæfur til meðferðar málsins og verður kröfu verjandans að þessu leyti því hafnað.
Það athugast að rétt hefði verið að frávísunarkrafa hefði komið fram áður en aðalmeðferð málsins var ákveðin, sbr. 1. mgr. 128. gr. laga nr. 19/1991, enda var strax við þingfestingu ljóst hver sakflytjandi var af hálfu ákæruvalds. Ber að átelja þennan málatilbúnað verjandans.
Ákæra dagsett 17. apríl 2000 sbr. framhaldsákæru dagsetta 25. maí 2000.
Áður var vikið að upphafi rannsóknar málsins en handtökur þeirra sem taldir voru tengjast málinu hófust eftir að tæp 7 kg af hassi fundust í leiguskipi Samskipa hf. hinn 9. september sl.
Ákærðu hafa allir, utan ákærði Júlíus Kristófer, játað aðild sína að mismiklu leyti varðandi innflutning fíkniefna til landsins frá Danmörku eins og lýst er í upphafi þessarar ákæru. Ákærðu gera sumir athugasemdir við lýsinguna í ákærunni og verður þeirra getið er framburður hvers og eins verður rakinn hér á eftir.
Verður nú vikið að einstökum ákæruliðum og rakinn framburður ákærðu og vitna fyrir dómi og hjá lögreglu eftir því sem ástæða þykir. Niðurstaða er fyrir aftan hvern ákærulið fyrir sig.
1.Sakarefni á hendur ákærða, Gunnlaugi Ingibergssyni.
Ákærði Gunnlaugur kvað tildrög þess að hann hóf að flytja hass til landsins hafa verið þau, að eftir að hann flutti til Danmerkur árið 1995, vegna starfa sinna fyrir Samskip hf. ytra, byrjaði hann að reykja hass. Honum hafi þá dottið í hug að hann gæti ef til vill hagnast á innflutningi fíkniefna hingað til lands og úr varð að hann keypti hassefni í Kristjaníu á 20-30 þúsund krónur danskar kílóið. Hann pakkaði efninu inn og sendi með vörugámi hingað til lands. Hann fékk í fyrstu bróður sinn, meðákærða A, til þess að fjarlægja fíkniefnapakka úr vörugámi í vörugeymslu hjá Samskipum hf. og síðar fékk hann meðákærða G til þessa verk. Ákærði kom sendingunum fyrir í gámi í Danmörku til flutnings hingað til lands og gaf þeim A og G upplýsingar um gámanúmer og fleira svo þeir gætu sótt pakka fyrir ákærða. Þeir fengu frá 50-100 þúsund krónur fyrir hvert sinn sem þeir sóttu pakka í vörugeymslu Samskipa. Hann áætlaði að A hefði fengið í sinn hlut um það bil 400.000 krónur, en G um það bil 750.000-1.000.000 króna. Eftir að hafa sent hingað til lands nokkrar sendingar kvað hann sölu efnanna hafa gengið erfiðlega. Þá hafði hann samband við meðákærða H, sem ákærði vissi að var kunnugur í heimi fíkniefnanna. Ákærði bauð H þá að senda hass til landsins um leið og ákærði, sem varð úr. Hann kvað þannig upphaf lýsingar í ákæru rétt utan það að hann kvaðst ekki hafa verið í samvinnu við H um innflutning efnanna eins og lýst er í ákæruliðum 1.1. og 1.2.
1.1.Ákærði kvað þennan ákærulið réttan utan að hann hafi ekki verið í samvinnu við H. Hann kvaðst hafa átt 4 kg af hassi sem fundust í gáminum. Hann kvað þá H hvorki í þetta sinn né endranær hafa vitað um efnismagn sem hinn flutti til landsins. Hann kvaðst hafa verið búinn að selja meðákærða Ó 2 kg af þessu efni. Ákærði kvað rétt það sem hann greindi frá hjá lögreglu þess efnis að rætt hefði verið um að meðákærði Sverrir Þór keypti hluta af þessu efni, en ekkert hefði verið endanlega ákveðið, hvorki um verð né annað.
Um ákæru dagsetta 17. apríl 2000.
Eins og áður var rakið var lagt hald á tæp 7 kg af kannabis hinn 9. september sl. er efnið kom til landsins með leiguskipi Samskipa deginum áður. Ekki var lagt hald á önnur fíkniefni sem ákært er fyrir í þessari ákæru. Gögn málsins bera með sér og, sækjandinn greindi einnig frá því undir aðalmeðferð málsins, að þessi ákæra væri einkum reist á framburði ákærðu G og A. Því er áður lýst að þessir tveir ákærðu vissu ekki nema að mjög takmörkuðu leyti hvert efnismagnið var sem flutt var til landsins á vegum ákærðu, Gunnlaugs og H, og þeim var aldrei greint frá því eins og komið hefur fram. Framburður ákærðu G og A undir rannsókn um fjölda ferða og efnismagn í hverri ferð er eins og rakið var að framan að langmestu leyti ágiskun, sem ekki er unnt að leggja til grundvallar niðurstöðu málsins án fullnægjandi stuðnings úr öðrum gögnum. Þeim gögnum er ekki til að dreifa að mati dómsins.
Þessarar óvissu um fjölda ferða og heildarefnismagn er getið í greinargerð Ásgeirs Karlssonar lögreglufulltrúa sem stjórnaði rannsókninni, en í greinargerð hans um niðurstöðu rannsóknarinnar segir meðal annars um þennan þátt málsins, að innflutningsleiðin frá Danmörku hafi verið notuð á annað ár og þannig hafi borist til landsins 18 til 20 sendingar og 3 til 7 kg í hverri ferð, “þannig gæti verið um að ræða 60 til 140 kg af fíkniefnum.” Þrátt fyrir mikla óvissu um fjölda ferða og efnismagn og mikið misræmi í framburði ákærðu voru þeir ekki samprófaðir, en að minnsta kosti tveir verjenda ákærðu, samkvæmt ákæru dagsettri 18. apríl 2000, óskuðu bréflega eftir því við embætti lögreglustjórans í Reykjavík. Að mati dómsins er misræmi í framburði ákærðu meira um sakarefni í ákærunni sem hér um ræðir, þ.e. frá 17. apríl 2000, en málin voru rannsökuð saman sem eitt mál eins og rannsóknargögn bera með sér. Undir aðalmeðferð málsins hafa ákærðu, utan ákærði Júlíus Kristófer, játað sök að hluta, en að stærstum hluta neitað því að hafa staðið að innflutningi svo mikils magns kannabisefna til landsins frá Danmörku eins og ákært er fyrir.
Ákærði Gunnlaugur hefur borið að hafa sent til landsins 25 kg af hassi, sem hann átti sjálfur, auk þeirra 13 kg sem ákærði H hefur játað að hafa sent. Þessir ákærðu hafa báðir borið að þeir hafi ekki vitað um efnismagn hvors annars. Ekkert er fram komið í málinu sem er til þess fallið að hrekja þennan framburð ákærðu og er því við það miðað að ákærði Gunnlaugur hafi sent til landsins frá Danmörku í þann tíma sem ákæran tekur til 38 kg af kannabis og átti hann sjálfur 25 kg, en ákærði H, 13 kg.
Niðurstaða ákæruliðar 1.1.
Ákærði Gunnlaugur hefur borið að hafa sent fíkniefni til landsins í mörg skipti og einnig sent efni fyrir ákærða H. Báðir neita því að þeir hafi sent fíkniefni hingað til lands í samvinnu. Dómurinn lítur svo á, þótt hlutur ákærðu hafi verið misjafn í sendingunum til landsins, þá hafi þeir með sér ákveðna verkaskiptingu og ber því að líta svo á að þeir hafi flutt efnin til landsins í samvinnu. Ákærði neitar því að um samvinnu þeirra hafi verið að ræða samkvæmt þessum ákærulið, en játar að öðru leyti að hafa átt 4 kg af efninu sem fannst, en ákærði H hafi átt 3 kg.
Dómurinn telur sannað með framburði ákærðu Gunnlaugs og H að um samvinnu þeirra hafi verið að ræða og með skýlausri játningu ákærða að öðru leyti, að hann hafi framið þá háttsemi sem hér um ræðir, utan að ósannað er að búið hafi verið að selja ákærða Sverri Þór hluta efnisins og er ákærði sýknaður af þeim hluta þessa ákæruliðar.
1.2.Ákærði kvaðst hafa sent hass til landsins í 15-17 skipti. Efnismagn í hverri ferð hefði verið 1-2 kg í fyrstu fimm ferðunum, þegar A tók á móti efninu, en 3-5 kg þegar meðákærði G tók á móti efninu og tvisvar sinnum voru send 7 kg, þar af er önnur ferðin, sú sem um getur í ákærulið 1.1. að framan. Í fyrstu ferðunum sem A tók á móti efninu, en hann tók við efni í 4-5 sendingum, hefði efnið verið falið í CD spilara og einnig í 14 tommu sjónvarpstæki en í þessi tæki komist ekki meira en 1 ½ kg af hassi. Hann kvað A og G ekki hafa vitað um efnismagn í sendingunum og þeir hefðu ekki átt að vita það. Ákærði lét þess getið að fleira hefði verið sent til landsins en fíkniefni, t.d. fatnaður, erlend tímarit og fleira og því erfitt að áætla þyngd fíkniefna í pakkanum hverju sinni. Hann giskaði á þetta efnismagn miðað við það að H hefði sent svipað magn og ákærði. Hann taldi að heildarefnismagn sem hann átti og flutti til landsins hafi verið 25 kg af hassi eða 50 kg hafi H flutt jafn mikið. En eins og áður var rakið vissi hann aldrei hversu mikið H flutti til landsins, enda pakkarnir hefðu aldrei verið vegnir. Efnismagn sem ákærði taldi H hafa flutt til landsins sé því hrein ágiskun. Hann áleit að H hefði sent svipað magn og ákærði, en H sendi fíkniefni í 7-10 ferðum. Ákærði seldi fíkniefnin þeim sem vildu kaupa og sé niðurlag ákærunnar rétt varðandi það, að hann hafi selt þeim þremur meðákærðu efnin eins og þar er lýst. Hann seldi hvert kíló hér á landi fyrir 700-900 þúsund krónur, en algengasta kílóverð var 750.000 krónur.
Ákærði bar fyrir dómi undir rannsókn málsins að ferðirnar kynnu að hafa verið 18-20, sem hann sendi fíkniefni til landsins. Hann kvað það hafa verið ágiskun og nú hafi hann hugsað málið betur og ágiskun hans nú sé nærri lagi, en efnismagnið sem hann átti og sendi til landsins sé hins vegar ekki meira en 25 kg af hassi.
Niðurstaða ákæruliðar 1.2.
Því var lýst hér að framan að dómurinn gengur út frá því með framburði ákærða Gunnlaugs og H að flutt hafi verið til landsins samtals 38 kg af kannabis í 15 ferðum, en ákærði Gunnlaugur bar fyrir dóminum að ferðirnar hefðu verið 15 til 17 þann tíma sem lýst er í ákærunni. Með skýlausri játningu ákærða er þannig sannað að hann hafi flutt til landsins 38 kg af kannabis, einn í fyrstu þremur ferðunum, en síðar í samvinnu við ákærða H eins og rakið var í ákæruliðnum næsta hér að framan.
Ákærði Gunnlaugur bar fyrir dóminum að hann teldi sig hafa selt ákærða Júlíusi Kristófer hluta efnanna, en hann annaðist ekki söluna sjálfur, heldur var efninu komið fyrir á fyrir fram ákveðnum stað, sem hann sá ekki um. Af þessum sökum telur dómurinn ekki sannað að ákærði hafi selt ákærða Júlíusi Kristófer hass, enda eru ekki fram komin nein þau gögn sem sanna að svo hafi verið, en ákærði Júlíus Kristófer hefur staðfastlega neitað sök. Að öðru leyti er sannað með skýlausri játningu ákærða að hann ráðstafaði efninu eins og rakið er í niðurlagi þessa ákæruliðar, en ákærði vissi að efnin voru ætluð til frekari sölu hér á landi.
Ákærði seldi þannig eins og lýst er í niðurlagi ákærunnar alls 21 kg af kannabis á 700-900 þúsund hvert kg. Hann kvað ágóða sinn af fíkniefnasölunni hafa numið 8-10 milljónum króna.
1.3.Ákærði neitar sök. Hann minnist þess að hafa flutt pakka hingað til lands fyrir meðákærða, Ó. Ákærði hafi hins vegar aldrei vitað að pakkinn hafi innihaldið fíkniefni og Ó aldrei nefnt það við sig. Ó hefði komið heim til ákærða ytra og pakkað farangri sínum niður í ferðatösku sína er hann bað ákærða fyrir pakka, sem ákærði taldi innihalda Viagratöflur, rafmagnskylfu og hleðslutæki. Ákærði kíkti lauslega í pakkann og sá þessa muni og sendi pakkann síðan hingað til lands á sama hátt og hassið. Hann kvaðst ekki hefðu tekið að sér að flytja pakkann hefði hann vitað að í honum væru faldar MDMA töflur.
Niðurstaða ákæruliðar 1.3.
Dómurinn telur framburð ákærða ótrúverðugan varðandi það, að hann hafi ekki vitað hvert innihald pakkans var, sem hann sendi hingað til lands fyrir ákærða Ó. Ákærði sendi margar fíkniefnasendingar til landsins og langlíklegast er að hann hafi vitað að pakkinn, sem hann seldi fyrir ákærða Ó innihéldi fíkniefni þrátt fyrir framburð ákærða um annað. Önnur skynsamleg skýring er ekki sjáanleg, einkum er umfang þessa pakka er haft í huga, en samkvæmt framburði ákærða Ó var pakkinn á stærð við vindlingakarton. Sú staðreynd að ákærði var beðinn um þennan pakka, en hann ekki tekinn með í farangur ákærða Ó sem var staddur á heimili ákærða að pakka niður fyrir ferð sína hingað til lands, eða pakkinn sendur með pósti, þykir renna stoðum undir þetta álit dómsins. Þegar allt ofanritað er virt telur dómurinn að ákærði beri refsiábyrgð á því að taka við pakka, sem innihélt fíkniefni, og senda til landsins án þess að ganga úr skugga um innihaldið, enda langlíklegast að ákærði hafi vitað hvert innihaldið var. Framburður ákærða Ó þess efnis að ákærði hafi ekki vitað hvert innihaldið var breyti engu hér um að mati dómsins. Ákærði er því með vísan til ofanritaðs, og gegn neitun sinni, sakfelldur fyrir þennan ákærulið.
1.4.Ákærði neitar sök. Hann kvað sömu sjónarmið af sinni hálfu eiga við og lýst var í ákærulið 1.3 að framan. Hann vissi ekki um innihald pakkans og vísast til málavaxta og framburðar ákærða við ákæruliði 1.3.
Niðurstaða ákæruliðar 1.4.
Að mati dómsins eiga að mestu leyti sömu röksemdir við um þennan ákærulið og hinn næsta hér að framan. Í þessu sambandi þykir engu breyta þótt ákærði Ó hafi borið að ákærði hafi ekki vitað um innihald pakkans. Með sömu rökum og við ákærulið 1.3, og gegn neitun ákærða telur dómurinn að ákærði beri refsiábyrgð samkvæmt þessum ákærulið og er hann sakfelldur samkvæmt honum.
2. Sakarefni á hendur ákærða H.
Ákærði H kvað þá meðákærða Gunnlaug ekki hafa staðið saman að innflutningi hassefna eins og lýst er í ákærunni. Hann kvað sig hafa grunað að hann gæti beðið Gunnlaug að flytja hass til landsins sem varð úr. Ferðirnar og efnismagnið hafi hins vegar orðið meira en ákærði ráðgerði, en hann viðurkennir að hafa staðið að innflutningi á samtals 13 kg af hassi til landsins.
2.1.Ákærði viðurkennir að hafa átt 3 kg af hassinu sem hér um ræðir. Ekkert af efninu hafi verið selt, en komið hafi til tals að hann seldi meðákærða Sverri Þór efnið. Aldrei kom til tals að hann seldi meðákærða Ó efnið.
Niðurstaða ákæruliðar 2.1.
Því var lýst í ákærulið 1.1 að framan, að dómurinn telur eins og málavextir eru, að ákærðu H og Gunnlaugur hafi í samvinnu flutt inn hassið, sem hér um ræðir, þó þannig að refsiábyrgð ákærða nær einungis til 3 kg, sem hann viðurkennir að hafa átt. Ósannað er gegn neitun ákærða, að hann hafi verið búinn að selja ákærðu Ó eða Sverri Þór efnið og er ákærði sýknaður af þeim hluta þessa ákæruliðar.
2.2.Ákærði neitar að mestu leyti sök samkvæmt þessum ákærulið. Hann kvaðst hafa sent hass til landsins með því afhenda meðákærða Gunnlaugi í 7 skipti samtals 10 kg af hassi. Sendingarnar voru á tímabilinu frá september-október 1998, er hann sendi 1 kg, send voru 2 kg í desember sama ár. Á árinu 1999 sendi hann 2 kg í mars, 1 kg í apríl, 1 kg í maí, 1 kg um mánaðamótin maí-júní og 1 kg í júlí. Hann kvaðst ekki vita um efnismagn sem sent var til landsins þann tíma sem ákæran tekur til. Hann vissi ekki um sendingar Gunnlaugs, þótt hann grunaði að hann sendi hingað hass. Hann ræddi ekki efnismagnið sem hann sendi til landsins við neinn meðákærðu. Þeir Gunnlaugur hafi ekki flutt efnið til landsins í samvinnu eins og ákært er fyrir. Ákærði átti sitt hass og Gunnlaugur hefði séð um að senda það til landsins. Hann viðurkenndi að hafa selt meðákærðu Sverri Þór 6 kg og Ó 4 kg af efninu. Hann kvaðst aldrei hafa selt meðákærða Júlíusi Kristófer hass. Ákærði kvaðst hafa fengið senda peninga til Danmerkur frá Júlíusi Kristófer, en taldi að það væru peningar frá Sverri Þór, þar sem ákærði kvaðst ekki hafa átt von á peningasendingu frá Júlíusi Kristófer. Hann taldi efnin hafa verið ætluð til frekari sölu hér eins og lýst er í niðurlagi þessa ákæruliðar. Hann kvað söluhagað af 10 kg af hassi, sem hann seldi hér á landi hafi verið um 3 ½ milljón króna.
Niðurstaða ákæruliðar 2.2.
Ákærði hefur lýst því í hvaða mánuðum hann sendi fíkniefnin til landsins og hversu mikið í hverri ferð. Hann hefur þannig viðurkennt að hafa sent 10 kg í 7 ferðum. Engin gögn í málinu eru til þess fallin að hrekja framburð ákærða um þetta og þannig engin gögn til þess fallin að renna stoðum undir sakarefnið á hendur ákærða um það, að hann hafi flutt til landsins um 152 kg af kannabis í um 23 skipti eins og greinir í ákæru.
Því er áður lýst að dómurinn telur sannað með framburði ákærðu H og Gunnlaugs, þrátt fyrir neitun þeirra, að þessir ákærðu hafi flutt efnin í samvinnu. Eins og rakið hefur verið hér og einnig var rakið í ákærulið 1.1 telur dómurinn með skýlausri játningu ákærða og öðrum gögnum málsins, sannað, að hann beri refsiábyrgð á 10 kg af kannabis, sem send voru til landsins þann tíma sem ákæran tekur til. Þá er sannað með játningu ákærða, sem fær stuðning af öðrum gögnum málsins, að hann seldi ákærðu Ó og Sverri Þór efnið og vissi ákærði að efnið var ætlað til frekari sölu hér á landi.
Ákærði er sýknaður að öðru leyti af þessum ákærulið, eða að því að hafa auk ofangreindra 10 kg af kannabis sent um 112 kg í viðbót til landsins í fjölda ferða og að hafa selt ákærða Júlíusi Kristófer hass.
Samkvæmt framburði ákærða og öðrum gögnum málsins nam hagnaður ákærða H af sölu fíkniefnanna 3,5 milljónum króna.
3.Sakarefni á hendur ákærða G.
Ákærði G kvað upphaf afskipta sinna af málinu hafa verið þau, að meðákærði, A, bað hann um að sækja pakka í vöruafgreiðslu Samskipa hf., þar sem ákærði vann og að koma pakkanum til skila. Hann vissi að A hafði áður fjarlægt pakka úr vöruafgreiðslu skipafélagsins en vissi ekki fjölda tilvika. Hann tók við hlutverki A er hann hætti störfum hjá Samskipum. Ákærði kvaðst hafa fengið 50.000 krónur fyrir að sækja hverja sendingu í vöruafgreiðsluna og taldi sig hafa fengið greiddar milli 500 og 700 þúsund krónur.
3.1.Ákærði játar sök samkvæmt þessum ákærulið, en vissi ekki hvart efnismagn í pakkanum var. Meðákærði Gunnlaugur gaf ákærða upplýsingar um hvar pakkann væri að finna og bað ákærða um að fjarlægja hann.
Niðurstaða ákæruliðar 3.1.
Sannað er með skýlausri játningu ákærða og öðrum gögnum málsins, að hann hafi framið þá háttsemi sem hér um ræðir.
3.2.Ákærði játar þennan ákærulið utan fjölda ferða og efnismagn. Hann taldi skiptin ekki jafnmörg og ákært er fyrir og efnismagnið vissi hann aldrei um. Undir rannsókn málsins nefndi ákærði að hann hefði sótt pakka í vörugeymslu Samskipa hf. í 18-20 skipti og fyrir dómi undir rannsókninni nefndi ákærði 1520 pakka. Undir aðalmeðferð málsins kvaðst hann telja að ferðirnar hefðu verið 13-15. Hann bar hjá lögreglunni að 3-7 kg af hassi hefðu komið í hverri ferð. Hann kom fyrir dóm undir rannsókn málsins og var þá spurður hvað pakkarnir sem hann fékk senda frá Gunnlaugi hafi verið “ca. þungir”. Ákærði svaraði: “Ég þori ekki að segja það, svona 3-7 kg eða eitthvað.” Undir aðalmeðferð málsins kvaðst hann aldrei hafa vitað um efnismagnið. Tölur sem hann nefndi undir rannsókn málsins hefðu allar verið ágiskun en pakkarnir hefðu verið misþungir. Hann ræddi ekki efnismagnið við neinn. Hann kvað niðurlag ákæruliðarins rétt um að hann hefði afhent fíkniefnin þeim mönnum sem þar greinir á þann hátt sem lýst er. Hann lýsti afhendingarmáta til hvers og eins þessara meðákærðu og verður sá hluti framburðar ákærða rakinn við ákærulið hvers og eins þeirra, ef ástæða þykir. Ákærði vissi að efnin voru ætluð til söludreifingar hér á landi.
Lárus Kjartansson rannsóknarlögreglumaður tók fyrstu lögregluskýrsluna af G, en hann og vitnið, Guðbrandur Hansson rannsóknarlögreglumaður, voru yfirleitt saman við skýrslutökur af G. Lárus kvað allar tölur hafa komið frá ákærða sjálfum. Hann hafi í fyrstu nefnt 5-10 kg í hverri ferð, en síðan 3-7 kg.
Vitnið, Guðbrandur Hansson rannsóknarlögreglumaður, bar á sama veg og vitnið, Lárus, sbr. ofanritað um efnismagn í hverri ferð sem G taldi vera.
Verjandi G greindi frá því við skýrslutöku af vitninu Guðbrandi að við eina lögregluskýrsluna þar sem verjandinn var viðstaddur hafi G verið beðinn um að giska á þyngd 2 l vatnskönnu, sem var full af vatni. Guðbrandur mundi eftir þessu. Ákærði G gat ekki giskað á þyngd vatnskönnunnar, en verjandann minnti að hann hafi talið hana vega 4 kg. Guðbrandur kvað ekki hafa verið gerðar frekari tilraunir í því skyni að fá nákvæmari niðurstöðu vegna ágiskunar ákærða G varðandi heildarefnismagn fíkniefna, en samkvæmt lögregluskýrslu sem tekin er af G segir að lögreglan áætli að efnismagn, sem hann sótti í vörugeymslu Samskipa hf. á þessu tímabili, hafi verið á bilinu 54-140 kg af hassi. Hann kvað stjórnendur rannsóknarinnar hafa ákveðið tölurnar sem bera skyldi undir G að þessu leyti.
Niðurstaða ákæruliðar 3.2.
Áður hefur verið rakið að flutt voru til landsins 38 kg af kannabis frá Danmörku. Allt efnið var sótt í vörugeymslu Samskipa. Fyrstu sendingarnar sótti ákærði, A, en eftir að hann hætti þar störfum sótti ákærði G pakkana.
Vikið er að því í niðurstöðum ákæruliðar 4.1, að ákærði A hafi sótt fíkniefnasendingar í 6 skipti og að þær hafi innihaldið samtals 6 kg af kannabis. Aðrar sendingar sótti ákærði G.
Ekki er upplýst í málinu með óyggjandi hætti hvað ferðirnar voru margar, en ákærði G hefur borið að þær hafi verið 13 til 15. Með vísan til ofanritaðs og með skýlausri játningu ákærða er sannað, að hann hafi að minnsta kosti í 10 skipti, en ekki er upplýst hve mörg skiptin voru á því tímabili sem í ákæru greinir, fjarlægt pakka, sem innihéldu 32 kg af kannabis, úr vörugeymslum Samskipa. Þá er sannað með skýlausri játningu ákærða og öðrum gögnum málsins að hann hafi ráðstafað efninu eins og lýst er í niðurlagi þessa ákæruliðar og vissi ákærði að fíkniefnin voru ætluð til söludreifingar hér á landi.
Ákærði er sýknaður af því að hafa auk ofanritaðs fjarlægt um 108 kg af kannabis til viðbótar þeim 32 kg, sem að ofan greinir.
3.3.Ákærði neitar sök samkvæmt þessum ákærulið. Hann kvaðst einu sinni hafa afhent meðákærða Ó pakka og sé því tilviki lýst í ákærulið 3.4 hér á eftir. Við þingfestingu málsins bar ákærði um samskipti sín og Ólafs í þessum ákærulið og hinum næsta hér á eftir, en hann kvað það mistök sín. Einungis hafi verið ein ferð.
3.4.Ákærði kvað þennan ákærulið réttan, en hann hafi ekki vitað að MDMA töflur voru í pakkanum. Þessi pakki hafi komið með einni ferðinni, þar sem hassið kom til landsins. Ó sótti pakkann til ákærða og fór með hann. Hann kom síðan aftur og var þá búinn að skipta innihaldi pakkans og bað Ó ákærða um að geyma hluta, sem hann gerði. Ákærði vissi ekki hvort efnið sem hann geymdi fyrir Ólaf var úr pakkanum, sem hann afhenti honum áður, því hann sá aldrei innihald pakkans, en hann sá hins vegar innihald pakkans sem Ó bað hann um að geyma og þar sá hann MDMA töflur. Þannig var pakkinn sem ákærði afhenti Ó í annars konar umbúðum en pakkinn sem Ó kom með og bað ákærða að geyma. Ákærði vissi ekki fjölda MDMA taflna.
Meðákærði Ó viðurkennir að hafa tekið við þessum pakka hjá G, en hann hafi ekki vitað hvert innihald pakkans var.
Niðurstaða ákæruliða 3.3. og 3.4.
Ákærði játar að hafa einu sinni afhent ákærða Ó pakka og kvað hann það hafa verið í júlí 1999. Framburður ákærða undir þingfestingu málsins um annað hafi verið mistök sín, en undir rannsókn málsins nefndi ákærði eitt skipti, sem ákærði Ó sótti til hans E-töflur, sem komu frá Danmörku. Ákærði kvaðst ekki hafa vitað hvert innihald pakkans var og ákærði Ó hefur borið á sama veg. Ákærði fjarlægði mörgum sinnum fíkniefnapakka úr vörugeymslum Samskipa og vissi um innihald þeirra. Dómurinn telur að ákærða hafi í þessu ljósi mátt vera ljóst að pakkinn sem hann afhenti ákærða Ó júlí 1999 hafi innihaldið, eða kynni að innihalda fíkniefni, enda bar hann undir rannsókn málsins að hann hafi afhent ákærða Ó E-töflur í þessari ferð.
Ákærði ber samkvæmt því refsiábyrgð þótt hann segist ekki hafa vitað um innihaldið og er ákærði því sakfelldur fyrir háttsemi sem honum er gefin að sök í ákærulið 3.4.
Gegn neitun ákærða G er ósannað að hann hafi framið þá háttsemi sem lýst er í ákærulið 3.3. og er hann sýknaður af þeim ákærulið.
3.5.Ákærði játar þennan ákærulið. Hann kvaðst áætla peningaupphæðina. Hann taldi peningana ekki og vissi ekki upphæð sem tengdist hverjum og einum þeirra manna sem nafngreindir eru í þessum ákærulið. Hann ræddi fjárhæðina aldrei við meðákærðu. Hann kvað fjárhæðina sem hann nefndi hreina ágiskun, eins gæti verið um að ræða 6 eða 20 milljónir króna. Hann kvaðst minnast tveggja skipta er Sverrir Þór bað ákærða um að telja peninga sem hér um ræðir og taldi ákærði 1 ½ milljón í hvort sinn. Þá minntist ákærði þess að hafa afhent annað hvort Gunnlaugi eða H 300.000 krónur í Danmörku.
Niðurstaða ákæruliðar 3.5.
Ákærði játar að mestu leyti sök samkvæmt þessum ákærulið, en lýsti óvissu um peningaupphæðinar. Samkvæmt yfirliti um gjaldeyrisviðskipti ákærða, sem borið var undir hann við rannsókn málsins, staðfesti hann að hafa sent til Danmerkur gjaldeyri að jafnvirði 4.207.676 króna. Fyrir dómi nefndi ákærði að hafa afhent ákærða Sverri Þór samtals 3.000.000 króna, en undir rannsókninni kvaðst ákærði hafa tekið við peningum frá ákærða Sverri Þór í 7 til 8 skipti og frá ákærða Júlíusi Kristófer í 3 til 4 skipti og einu sinni frá ónafngreindum manni. Ákærði hafi tekið við lægri upphæðum frá ákærða Júlíusi Kristófer en Sverri Þór og frá ónafngreinda manninum hafi sér verið sagt að hann hefði tekið við 600.000 krónum. Ákærði kvaðst ekki hafa talið peningana frá ákærða Júlíusi Kristófer en hafa giskað á fjárhæðir, því áður bar hann að hann hefði talið peningana frá honum er hann sendi þá til Danmerkur og þá talið 1,5 til 2,5 milljónir króna í hvert sinn. Ákærði afhenti öðrum hvorum ákærðu, Gunnlaugi eða H, 300.000 krónur í Danmörku.
Ekki er óyggjandi gögnum til að dreifa um að ákærði hafi móttekið hærri fjárhæðir en þær 4.207.676 krónur, sem hann hefur játað að hafi verið afrakstur fíkniefnasölu og sendi til Danmerkur auk þeirra 300.000 króna sem hann afhenti ytra eða samtals 4.507.676 krónur. Með játningu ákærða og öðrum gögnum málsins er sannað að ákærði hafi tekið við þeirri fjárhæð í nokkur skipti, en ekki er upplýst hversu oft, og ráðstafaði ákærði peningunum eins og lýst er í ákærunni.
Ákærði er sýknaður að öðru leyti samkvæmt þessum kafla ákærunnar.
4.Sakarefni á hendur ákærða A.
Ákærði A kvað upphaf afskipta sinna af málinu mega rekja til þess er meðákærði Gunnlaugur bróðir hans, hringdi í hann um jólin 1997 og spurði hvort hann gæti tekið sjónvarp úr vörugámi í vörugeymslu Samskipa hf. en gámurinn kom til landsins frá Danmörku. Þetta gerði ákærði og afhenti manni úti í bæ. Nokkru seinna sagði Gunnlaugur ákærða frá því að í sjónvarpstækinu hafi verið hassefni. Þá kom til tals á milli þeirra bræðra að Gunnlaugur myndi ef til vill biðja ákærða aftur um sams konar greiða. Ákærða leist ekki á það að sögn. Það var síðan í mars sem Gunnlaugur hringdi í ákærða og bað hann aftur um að sækja sjónvarp í vörugeymslu Samskipa. Ákærði flutti sjónvarpstækið heim til sín, en daginn eftir hringdi Gunnlaugur og bað hann um að fjarlægja pakka úr tækinu. Þetta gerði ákærði og kvað hann þetta hafa verið upphaf afskipta sinna af málinu. Hann kvaðst hafa fengið greiddar 20-30 þúsund krónur í þóknun fyrir að sækja hvern pakka.
4.1.Ákærði kvað þennan ákærulið réttan utan að hann vissi ekki í öllum tilvikum að pakkarnir sem hann sótti innihéldu hass. Hann vissi fyrir fram að þrjár sendinganna innihéldu hass, en þrjár sendingar vissi hann það eftir á. Hann vissi ekki um efnismagnið, en Gunnlaugur hefði einu sinni greint sér frá því að pakki hefði að geyma 1-2 kg af hassi. Hann kvaðst giska á að 1-2 kg væru í hverri ferð. Hann kvað niðurlag þessa ákæruliðar rétt um að hann hefði afhent efnið úr 5 sendinganna og vissi ákærði þá að um var að ræða hass, þótt hann hefði ekki í öllum tilvikum vitað það er hann sótti pakkann í vörugeymsluna. Efnið afhenti hann ónafngreindum mönnum og skildi eftir eins og lýst er í niðurlagi ákærunnar. Hann kvaðst ekki hafa vitað hvað átti að gera við hassið. Hjá lögreglunni bar ákærði að hann héldi að í hverri ferð hefðu komið 3-4 kg. Þá skýrslu staðfesti hann fyrir dómi og var einnig spurður um helstu atriði er tengdust aðild hans að málinu. Hann var ekki spurður um efnismagnið þá. Eftir stendur framburður ákærða, þar sem hann bar hjá lögreglu að hann hefði talið 3-4 kg vera í hverri ferð. Undir aðalmeðferð málsins kvað hann það hafa verið hreina ágiskun.
Vitnið, Lárus Kjartansson rannsóknarlögreglumaður, tók skýrslu af ákærða, A, 29. september sl., þegar ákærði bar að hann héldi að í hverri ferð hafi verið 3- 4 kg. Ákærði hefði nefnt þessar tölur sjálfur.
Framburður Gunnlaugs um innflutning hassins er áður lýst og vísast til þess sem að ofan var rakið. Hann kvað A hafa fjarlægt fyrstu sendinguna í desember 1997 en alls fjarlægði hann 4-5 sendingar og þar af vissi hann af hassi í pökkum í þremur sendinganna en send voru 1-2 kg í hverri ferð. Gunnlaugur hefur borið að hann einn hafi vitað hvert efnismagnið var, sem flutt var til landsins.
Niðurstaða ákæruliðar 4.1.
Áður er að því vikið að ákærði vissi ekki um innihald sendinganna sem hann sótti í vörugeymslu Samskipa. Hann giskaði á að 1 til 2 kg af kannabis væru í hverri ferð eftir að ákærði Gunnlaugur hefði greint svo frá. Með játningu ákærða A telst sannað að hann hafi fjarlægt sendingarnar í 6 skipti. Gegn neitun hans er ósannað að hann hafi vitað um að kannabis var falið í einni sendinganna. Hann vissi hins vegar ýmist fyrir fram eða eftir á í fimm tilvikanna, og ávllt áður en hann afhenti pakkana, að þeir höfðu að geyma kannabis. Verður að miða við það að í hverri ferð hafi verið 1 kg af kannabis. Samkvæmt þessu er sannað með skýlausri játningu ákærða og öðrum gögnum málsins, að hann hafi framið þá háttsemi, sem hér um ræðir, þó þannig að ákærði er einungis sakfelldur fyrir að hafa fjarlægt 5 vörusendingar, sem innihéldu samtals 5 kg af kannabis og afhenti ákærði efnið eins og lýst er í niðurlagi þessa ákæruliðar, en þótt ákærði hafi borið að hann hafi ekki vitað hvað gera átti við fíkniefnin, telur dómurinn gegn neitun hans að honum hafi mátt vera ljóst að efnin voru ætluð til söludreifingar hér á landi.
4.2.Ákærði kvað þennan ákærulið réttan með þeirri athugasemd að hann kvaðst ekki hafa vitað í öllum tilvikum hvort peningarnir voru afrakstur fíkniefnasölu. Stundum var honum sagt að peningarnir væru afrakstur bílaviðskipta. Ákærði kvaðst hafa sótt peningana 10 sinnum til Sverris Þórs, tvisvar sinnum til hvers þeirra Júlíusar Kristófers, Ó og G. Hann taldi peningana í öll skiptin.
Niðurstaða ákæruliðar 4.2.
Sannað er með skýlausri játningu ákærða, sem studd er öðrum gögnum málsins, að hann tók í 18 skipti við þeim peningum sem hér um ræðir frá þeim meðákærðu, sem í þessum ákærulið greinir, og frá ónafngreindum mönnum og ráðstafaði ákærði peningunum eins og lýst er í niðurlægi þessa ákæruliðar.
Ákærði hefur borið að hann hafi ekki í öllum tilvikum vitað að peningarnir voru afrakstur fíkniefnasölu. Ákærði sótti pakka í vörugeymslu Samskipa og vissi um innihald þeirra eins og lýst var í næsta ákærulið hér á undan og að fíkniefnin voru seld hér á landi. Eftir að hann hætti störfum hjá Samskipum hélt hann áfram að taka við peningum og ráðstafaði eins og lýst er í þessum ákærulið. Ákærði vissi því eða mátti vita að peningarnir voru afrakstur fíkniefnasölu og engin gögn eru til staðar sem benda til annars. Samkvæmt því telur dómurinn sannað að mestu leyti með framburði ákærða, en að öðru leyti með öðrum gögnum málsins, að hann hafi framið þá háttsemi sem lýst er í þessum ákærulið.
5.Sakarefni á hendur ákærða Sverri Þór Gunnarssyni.
5.1.Ákærði neitar sök. Hann kvað hafa komið til tals milli þeirra meðákærðu H og Gunnlaugs að hann myndi hugsanlega kaupa eða selja hass úr þessari ferð fyrir þá. Ekkert var ákveðið í þeim efnum og hann hafi ekki átt efnið sem fannst í vörugáminum. Hann bar efnislega á sama veg undir rannsókn málsins.
Vísað er til framburðar ákærðu Gunnlaugs og H að framan, en báðir nefndu að komið hefði til tals að ákærði Sverrir Þór keypti hluta af þeim hassefnum sem lagt var hald á, en ekkert hefði verið ákveðið og efnið því ekki verið selt.
Niðurstaða ákæruliðar 5.1.
Ákærðu Gunnlaugur og H hafa borið á sama veg um það, að ákærða hafi ekki verið seld fíkniefnin sem hér um ræðir. Ákærði H kvað það hafa komið til tals, en ekkert ákveðið. Gegn eindreginni neitun ákærða er ósannað að hann hafi framið þá háttsemi sem hér um ræðir og ber að sýkna hann.
5.2.Ákærði kvaðst ekki alveg viss um tímabilið sem hann tók við hassi því sem hér greinir, en hann játar að hafa tekið við hassi í 7-10 skipti frá meðákærðu A og G og 3-7 kg í hvert sinn. Hann hafi þannig fengið í mesta lagi 30 kg af hassi. Hassið keypti hann aðallega af meðákærða Gunnlaugi.
Meðal gagna málsins eru hljóðrituð símtöl ákærða við ýmsa hinna meðákærðu. Í símtölunum kemur ýmislegt fram sem staðfestir fíkniefnasamskipti þeirra og hafa flestir staðfest það. Ekki þykir ástæða til að rekja efni símtalanna, enda eru þau að mati dómsins ekki til þess fallin að skýra málavexti varðandi þennan ákærulið.
Ákærði kvaðst hafa keypt efnið á 700-900 hundruð krónur hvert gramm, en endurselt hassið á 1.000 krónur grammið.
Ákærði lýsti eignamyndun á sambúðartíma þeirra Þ. Þau hefðu keypt íbúð fyrir 4,6 milljónir, gert hana upp og endurselt fyrir 9 milljónir og haft 3,6 milljónir í hagnað. Þessi hagnaður verði talinn fram á skattframtali fyrir árið 1999, en gerð þess sé ekki lokið. Hann lýsti að öðru leyti eignamyndun þeirra á sambúðartímanum og kaupum fasteignarinnar að Sporðagrunni 4, en krafist er upptöku í eignarhlut Þ í íbúðinni.
Meðákærði Gunnlaugur kvaðst telja að hann hafi á þessu tímabili selt Sverri Þór 15-18 kg af hassi.
Meðákærði H bar að hafa á þessum tíma selt Sverri Þór 6 kg af hassi.
Niðurstaða ákæruliðar 5.2.
Ákærði játar að hafa móttekið allt að 30 kg af hassi frá ákærða H en að mestu leyti frá ákærða Gunnlaugi fyrir milligöngu ákærðu A og G og selt hér á landi. Ekki er neinum gögnum til að dreifa sem renna stoðum undir það, að ákærði hafi á þessu tímabili sem hér um ræðir móttekið um 105 kg af hassi, eins og lýst er í ákærunni. Með skýlausri játningu ákærða og öðrum gögnum málsins er sannað að hann hafi móttekið 30 kg af hassi og selt eins og ákært er fyrir. Ákærði er sýknaður af því að hafa móttekið og selt um 75 kg af kannabis til viðbótar.
6.Sakarefni á hendur ákærða Júlíusi Kristófer Eggertssyni.
6.1.Ákærði hefur ávalt neitað sök. Hann vísaði á bug framburði meðákærðu að því leyti sem þeir hafa borið á hann sakir. Borið var undir ákærða símtal hans og meðákærða, Gunnlaugs, þar sem Gunnlaugur segir ákærðu ætla að hittast til að ákærði Júlíus geti greitt honum 500.000 krónur vegna fíkniefnaviðskipta. Ákærði kvað það misskilning hjá Gunnlaugi. Ákærði kvað hugsanlegt að 192.000 krónur sem hann sendi H til Danmerkur 16. apríl 1999 hafi verið peningar sem hann sendi út fyrir Sverri Þór.
Ákærði kvað þau N hafa sameiginlega lagt fram peninga til kaupa á íbúðinni að L. Peningarnir sem lagðir voru í kaupin voru sameign þeirra. Þá lagði hann 600.000 krónur til bílakaupa N, en þessa fjárhæð fékk ákærði út úr bílaviðskiptum. Ekki hefði verið ákveðið hvort N endurgreiddi þessa fjárhæð.
Vísað er til framburðar Gunnlaugs að framan, hann kvaðst telja að hann hafi selt Júlíusi Kristófer 5-7 kg af hassi í upphafi innflutningsins í desember 1997 og það hafi allt verið efni sem A sótti í vörugeymslu Samskipa. Gunnlaugur kvaðst aldrei hafa haft beint samband við Júlíus Kristófer, heldur hafi efninu verið komið fyrir á fyrir fram ákveðnum stöðum sem hann gerði ekki sjálfur.
Ákærði G kvaðst hafa afhent Júlíusi Kristófer pakka í 4-5 skipti ýmist á heimili Júlíusar Kristófers, sem G mundi ekki hvar var, eða úti í bæ er hann tók við peningum frá Júlíusi. Hann hafi ávalt verið einn á ferð í samskiptum sínum við Júlíus. G kvaðst hafa fengið fyrirmæli frá Gunnlaugi um að afhenda Júlíusi hassið.
Ákærði A lýsti fundi þeirra Júlíusar Kristófers og því er Júlíus sýndi ákærða felustað fyrir fíkniefni. A kvaðst aldrei hafa afhent Júlíusi fíkniefni. Hann sótti hins vegar tvisvar sinnum peninga á heimili Júlíusar.
Ákærði Sverrir Þór kvað mögulegt að 192 þúsund króna peningasending, sem Júlíus Kristófer sendi H til Kaupmannahafnar 16. apríl 1999, hafi verið frá sér komin og að Júlíus hefði sent peningana fyrir hann.
Niðurstaða ákæruliðar 6.1.
Ákærði H kveðst aldrei hafa selt ákærða Júlíusi Kristófer hass. Ákærði Gunnlaugur naut aðstoðar manna hér á landi við sölu hassins og hafði ekki bein samskipti við ákærða Júlíus Kristófer en taldi að hann hefði selt honum 5 til 7 kg af hassi. Ákærði G er sá eini sem hefur borið um að hafa afhent ákærða Júlíusi Kristófer pakka í 4 til 5 skipti. Ekki er öðrum gögnum til að dreifa sem eru til þess fallin að renna stoðum undir sakargiftir á hendur ákærða Júlíusi Kristófer samkvæmt þessum ákærulið.
Ákærði Júlíus Kristófer neitar sök og hefur staðfastlega gert frá upphafi rannsóknar málsins. Gegn eindreginni neitun hans er ósannað að hann hafi framið þá háttsemi sem hér um ræðir og ber að sýkna hann.
7.Sakarefni á hendur ákærða Ó.
7.1.Ákærði játar sök og að hafa keypt 2 kg af hassi af meðákærða Gunnlaugi en ekki jafnframt af meðákærða, H, eins og lýst er í ákærunni.
Ákærði Gunnlaugur kvaðst hafa selt ákærða Ó þessi 2 kg af hassi.
Niðurstaða ákæruliðar 7.1.
Sannað er með skýlausri játningu ákærða og öðrum gögnum málsins að ákærði hafi framið þá háttsemi sem hér um ræðir.
7.2.Ákærði kvað þennan ákærulið rangan að öðru leyti en því að ákærði móttók á því tímabili sem hér um ræðir í 2 skipti samtals 4 kg af hassi frá meðákærða H fyrir milligöngu meðákærða, G. Undir rannsókn málsins lýsti hann því að hann hefði keypt 6 kg af H á þessum tíma. Hann kvað þann framburð rangan. Hið rétta væri 4 kg og seldi hann hvert gramm á 800 til 900 krónur.
Undir aðalmeðferð málsins voru nokkur hljóðrituð símtöl borin undir ákærða. Ekkert þeirra varpar ljósi á málavexti varðandi þennan ákærulið en ákærði mundi ekki efni símtalanna. Verða þau ekki rakin hér.
Vitnið, Sólberg Svanur Bjarnason rannsóknarlögreglumaður, staðfesti skýrslu þá er hann tók af ákærða Ó, þar sem hann bar að hafa keypt 6 kg af hassi af H.
Vitnið, Kristinn Sigurpálsson rannsóknarlögreglumaður, var viðstaddur skýrslutökuna og staðfesti það fyrir dóminum.
Niðurstaða ákæruliðar 7.2.
Ákærði játar að hafa keypt 4 kg af kannabis af ákærða H í tveimur afhendingum og ákærði H ber efnislega á sama veg.
Undir rannsókn málsins bar ákærði að hafa fengið 6 kg af kannabis hjá ákærða H en fyrir dómi kvað hann þann framburð sinn rangan. Engar skýringar hafa verið gefnar á breyttum framburði ákærða og telur dómurinn því sannað með framburði ákærða hjá lögreglu og að hluta fyrir dómi, að hann hafi tekið við 6 kg af kannabis hjá ákærða H og selt hérlendis eins og ákærði hefur játað.
Gegn neitun ákærða er ósannað að hann hafi á því tímabili sem hér um ræðir móttekið kannabis frá ákærða Gunnlaugi og er hann sýknaður af þeim hluta þessa ákæruliðar.
7.3.Ákærði játar sök. Hann kvaðst hafa beðið meðákærða Gunnlaug um að flytja pakka á stærð við vindlingakarton til landsins. Ákærði greindi Gunnlaugi ekki frá því að pakkinn innihéldi fíkniefni, en Gunnlaugur vissi að í pakkanum var tölvuvog með straumbreyti og rafstuðkylfa. Hann tók síðan við fíkniefnunum frá meðákærða, G, eins og lýst er í niðurlagi þessa ákæruliðar. G vissi ekki hvert innihald pakkans var.
7.4.Ákærði játar sök. Hann kvað Gunnlaug ekki hafa vitað af innihaldi pakkans er hann var beðinn fyrir flutning hingað til lands, en Gunnlaugur taldi að í pakkanum væru Viagratöflur. Hann tók við pakkanum hjá G sem ekkert vissi um innihaldið.
Niðurstaða ákæruliða 7.3. og 7.4.
Sannað er með skýlausri játningu ákærða og öðrum gögnum málsins að ákærði hafi gerst sekur um þá háttsemi, sem lýst er í báðum þessum ákæruliðum.
Í framhaldsákæru, sem dagsett er 25. maí 2000 er lýst heimfærslu ætlaðra brota ákærðu. Samkvæmt c-lið 1. mgr. 116. gr. laga nr. 19/1991 skal í ákæru greina þau lagaákvæði sem brot er talið varða við. Ekki er í lögum gert ráð fyrir því að vísa í ákæru til ákvæða VIII. kafla almennra hegningarlaga, þar sem tilgreind eru atriði sem hafa áhrif á refsihæðina. Tilvísun í 72. og 77. gr. almennra hegningarlaga í ákæru á því ekki við.
Brot ákærðu eru að öðru leyti rétt heimfærð til refsiákvæða í ákærunni, utan að rétt þykir að virða brot ákærða Ó í ákærulið 7.1 sem tilraunaverknað og ber því auk ákvæðanna í ákæru að vísa til 20. gr. almennra hegningarlaga. Þá varða brot ákærða A við 2. gr. sbr. 5. og 6. gr. laga um ávana- og fíkniefni nr. 65/1974 sbr. lög 60/1980 og 2. gr. sbr. 10. gr. reglugerðar nr. 16/1986.
Ákæra dagsett 18. apríl 2000, sbr. framhaldsákærur dagsettar 8. og 25. maí 2000.
Hér að framan hefur verið vikið að aðdraganda þess að rannsókn hófst á ætluðum innflutningi ákærðu Júlíusar Kristófers, Ó, R og Sverris Þórs á fíkniefnum frá Hollandi til Íslands og vísast til þess er þar segir. Verður nú vikið að einstökum ákæruliðum og rakinn framburður ákærðu og vitna fyrir dómi og hjá lögreglu eftir því sem ástæða þykir til. Vegna samhengis þykir rétt að reifa ákærulið II.2. um leið og ákærulið I.1, en þar er vikið að þætti ákærða Þ.
Sakarefni á hendur ákærðu R og Þ, sbr. ákæruliði I.1 og II.2.
Ákærði R skýrði svo frá við yfirheyrslu hjá lögreglu 5. október sl. að hann hafi átt það erindi til Hollands að heimsækja unnustu sína. Kvað hann ákærðu Júlíus Kristófer og Sverri Þór hafa beðið sig að kaupa 20 kg af hassefni og kvaðst ákærði R hafa komist í samband við ónafngreindan mann sem bauðst til að útvega honum 20 kg af hassi, en kílóið átti að kosta 2.000 gyllini. Ákærði R kvað ákærða Júlíus hafa komið til Amsterdam í þeim tilgangi að skoða efnið og lagði hann blessun sína yfir kaupin. Að sögn Rs varð hins vegar ekkert úr því að þessi 20 kg af hassi væru flutt til Íslands en honum hafi hins vegar boðist að kaupa samtals 43 kg af hassi á 1.700 gyllini hvert kíló. Ákærði kvaðst hafa hringt í ákærða Sverri Þór og hafi hann samþykkt kaupin. Ákærði R kvaðst hafa farið aftur út til Hollands með peninga sem ákærðu Sverrir Þór og Júlíus létu hann hafa, eða um 100.000 gyllini. Ákærði R kvaðst síðar hafa farið í helgarferð til Amsterdam og þá hafi ákærði Sverrir Þór greitt fyrir efnið. Ákærði R kvað ákærðu Sverri Þór og Júlíus Kristófer hafa flutt hassefnið til Íslands, en hann kvaðst ekki vita hvernig þeir fóru að því.
Ákærði R kvað ákærða Sverri síðar hafa haft samband við sig og tjáð sér að einungis 40 kg af hassi hefðu skilað sér til landsins, en efnið sem kom hefði verið mjög lélegt. Ákærði R kvaðst hafa átt að fá 2 kg af efninu í sinn hlut en það hafi verið sett í einhverja holu og ekki fundist þrátt fyrir mikla leit. Ákærði R kvaðst hafa rætt við þann sem seldi þeim efnið í Hollandi og hafi hann tjáð ákærða að hann hefði verið svikinn. Hann hafi þó viljað endurgreiða 70-80.000 gyllini sem þeir ákærðu Sverrir og Júlíus gætu einungis leyst út í formi fíkniefna, eða eins kílós af kókaíni. Ákærði R kvaðst ekki vita til þess að kókaínið hefði verið flutt til landsins. Ákærði R kvaðst hafa fengið 2 kg af hassinu í stað þess sem týndist. Kvaðst hann hafa selt efnið á 300 krónur grammið, eða alls fyrir 600.000 krónur til eins ónafngreinds aðila.
Ákærði Rvar aftur yfirheyrður hjá lögreglu 9. október sl. Kvaðst hann þá einnig hafa samið um kaup á 1 kg af kókaíni, 2 kg af amfetamíni og 15 kg af marihuana fyrir ákærðu Sverri Þór og Júlíus Kristófer auk þeirra 20 kg af hassefni sem um var samið í fyrstu. Kvaðst ákærði R hafa borið samninginn undir ákærða Júlíus, sem hafi komið til Hollands og skoðað efnin. Síðar hafi þeim staðið til boða að kaupa 23 kg af hassi til viðbótar og hafi ákærði Sverrir samþykkt það. Þessi fíkniefni hafi hins vegar ekki skilað sér að öllu leyti til landsins, en alls hafi komið 40 kg af hassefni, 1,4 kg af amfetamíni, 1 kg af kókaíni en ekkert marihuana. Ákærði R kvaðst hafa fengið 950 g af amfetamíninu frá ákærða Sverri Þór, en þar sem efnið var alveg ónýtt og óhæft til sölu kvaðst ákærði R hafa afhent það ákærða Þ að gjöf.
Ákærði Rvar færður fyrir dómara 20. október sl. og staðfesti hann þá ofangreindar skýrslur, en tók sérstaklega fram að hann hefði hvorki staðið að innflutningi né dreifingu fíkniefnanna.
Ákærði R gaf enn skýrslu hjá lögreglu 17. nóvember sl. og vildi þá breyta framburði sínum. Kvaðst hann þá einn eiga amfetamínið sem flutt var til landsins. Kvaðst ákærði hafa keypt 2 kg, en einungis 1,4 kg hefðu skilað sér til landsins. Ákærði kvaðst hafa greitt alls kr. 200-250.000 krónur fyrir efnið og kvaðst hann hafa fengið 950 grömm af því, en sá sem flutti efnið inn hafi fengið mismuninn. Ákærði kvaðst hafa gefið ákærða Þ sinn hluta eins og áður er lýst. Þá kvaðst ákærði R hafa átt 9 kg af hassi sem kom með sömu sendingu. Ákærði kvaðst hafa fengið 6 kg af hassi afhent þegar það kom til landsins, en 3 kg hafi verið afhent þeim sem flutti efnið inn.
Við þingfestingu málsins kvað ákærði R þennan ákærulið réttan að öðru leyti en því að hann kvað einungis um að ræða 2 kg af marihuana, 1,4 kg af amfetamíni og 1 kg af kókaíni. Þá mótmælti ákærði því að hann hefði staðið að kaupum, hann hafi einungis verið milligöngumaður. Þá lýsti ákærði R því yfir að Þ hafi í mesta lagi fengið 30 g frá honum.
Við aðalmeðferð málsins kannaðist ákærði R ekki við að efnin hafi verið ætluð til söludreifingar hérlendis, hann kvaðst hafa ætlað þau til eigin nota. Þá lýsti ákærði því yfir að ákærði Júlíus hefði hvergi komið nálægt þessum fíkniefnaviðskiptum. Þá kvað ákærði R ákærða Þ ekki hafa fengið meira en 20 g af amfetamíni. Aðspurður hvers vegna ákærði breytti framburði sínum sem hann gaf hjá lögreglu, gaf hann þá skýringu að rannsóknarlögreglumenn hefðu lagt honum orð í munn. Ákærði staðfesti að verjandi hans hefði verið viðstaddur yfirheyrslur. Í þinghaldinu var borið undir ákærða R símtal sem hann staðfesti að hann hefði átt við ákærða Júlíus 2. júní 1999. Ákærði R kvaðst hafa ætlað að útvega ákærða Júlíusi 1 g af kókaíni og hafi samtal þeirra snúist um það. Ákærði R kvaðst á sínum tíma hafa talið að ákærðu Sverrir Þór og Júlíus ynnu saman en eftir að hann hefði kynnt sér gögn málsins hefði hann komist að því að sú væri ekki raunin. Ákærði R kannaðist við að hafa keypt gjaldeyri fyrir ákærða Júlíus en hann hafi verið að kaupa varahluti í bifreið. Borið var undir ákærða símtal sem hann staðfesti að hann hefði átt við ákærða Þ 6. júlí 1999. Ákærði R kvað samtalið hafa snúist um ónýtt duft sem hann hafi í fyrstu ætlað að selja ákærða Heiðari, en það hafi verið svo lélegt að hann hafi hætt við það og gefið honum samtals 20 g.
Ákærði R kvaðst hafa ætlað að nota 2 kg af hassinu til bifreiðakaupa en þau viðskipti hafi gengið til baka. Hann kvaðst ekki hafa tekið við neinum peningum fyrir fíkniefni, einungis bifreið. Því væri ekki réttur framburður hans hjá lögreglu um að hann hefði selt 2 kg af hassi fyrir 600.000 krónur.
Ákærði Þ skýrði svo frá hjá lögreglu 13. október sl. að hann hafi í nokkur skipti fengið amfetamín endurgjaldslaust frá ákærða R, hugsanlega allt að 20 g í hvert skipti. Ákærði gerði sér ekki grein fyrir heildarmagninu en útilokaði ekki að það gæti verið 950 g. Ákærði Þ taldi ástæðu þess að hann fékk efnið gefins hafa verið þá að um lélegt efni var að ræða. Kvað hann efnið hafa hlaupið í köggul þegar það var dregið í sprautur, líkt og það frysi.
Við þingfestingu málsins neitaði ákærði Þ því að hafa fengið svo mikið magn amfetamíns frá ákærða Ri, hann hafi á þessu tímabili fengið í mesta lagi 10-20 g. Við aðalmeðferð málsins hélt ákærði Þ sig við það að hafa í mesta lagi fengið 10-20 g frá ákærða R, en efnið hafi verið mjög einkennilegt og að mati ákærða var ekki um amfetamín að ræða.
Sakarefni á hendur ákærðu Sverri Þór Gunnarssyni og Júlíusi Kristófer Eggertssyni sbr. ákærulið I.2.
Ákærði Sverrir Þór skýrði svo frá hjá lögreglu 11. október sl. að ákærði R hafi boðið sér að taka þátt í fíkniefnainnflutningi í maímánuði 1999. Hafi ákærði R farið til Hollands í þeim tilgangi að kaupa 23 kg af hassi og 1 kg af kókaíni. Hann hafi sjálfur keypt amfetamín og kvaðst ákærði Sverrir Þór ekki hafa komið nálægt því. Innflutningsaðferð ákærða R hafi brugðist að sögn ákærða Sverris og kvaðst hann þá hafa farið til Hollands ásamt ákærða R og Ö. Hafi þá verið keypt 2 kg af kókaíni og einnig hafi verið greitt fyrir 17 kg af marihuana, en 15 kg af því efni hafi aldrei komið til landsins vegna svika. Ákærði Sverrir kvað ákærða Ó hafa flutt efnin til landsins og afhent sér sinn hlut í þeim, eða 12 kg af hassi, 1,3 kg af marihuana og 1 kg af kókaíni. Kvaðst ákærði Sverrir hafa neytt hluta efnanna en megnið hafi hann selt. Ákærði Sverrir kvaðst ekkert vita um þátt ákærða Júlíusar í þessum fíkniefnainnflutningi.
Ákærði Sverri Þór kom fyrir dóm 10. nóvember sl. þegar tekin var fyrir krafa um framlengingu gæsluvarðhalds er hann sætti vegna rannsóknar málsins. Ákærði kannaðist þá við að hafa átt hlut að innflutningi á 40 kg af hassi, 2 kg af marihuana og 1 kg af kókaíni og af þessu efni hafi komið í hans hlut 10 kg af hassi, 1,3 kg af marihuana og 1 kg af kókaíni.
Ákærði Sverrir Þór gaf skýrslu fyrir dómi 22. nóvember sl. og eftir þá skýrslutöku var aflétt þeirri einangrun sem ákærði hafði sætt í gæsluvarðhaldinu. Ákærði kannaðist við að hafa fengið afhent 16 kg af hassi, eitthvert amfetamín, sem hann kvaðst ekki hafa átt og tæpt kíló af kókaíni. Kvaðst ákærði hafa greitt fyrir þetta um fjórar milljónir króna og síðan selt efnin á um tíu milljónir króna. Ákærði Sverrir Þór kvað ákærða Ó hafa fengið þriðjung efnanna í sinn hlut nema af kókaíninu, hann hafi fengið 750.000 krónur fyrir það. Ákærði gerði þá athugasemd varðandi framburð sinn hjá lögreglu 11. október sl. að hann hafi haldið að keypt hefðu verið 2 kg af kókaíni, en hann hafi ekki verið viss um það. Hann hafi hins vegar ekki fengið meira afhent en 1 kg af því efni. Við þessa yfirheyrslu staðfesti ákærði þær lögregluskýrslur er hann gaf.
Við þingfestingu málsins og aðalmeðferð þess kannaðist ákærði Sverrir Þór við að hafa átt 10 kg af hassi og 1,3 kg af marihuana en kókaínið hafi verið honum óviðkomandi. Gaf ákærði þá skýringu á breyttum framburði að þessu leyti að honum hafi verið boðið að hitta unnustu sína ef hann yrði samvinnufús og einnig hafi verið búið að benda honum á að ákærðu Ó og R hefðu borið að hann ætti hluta af kókaíninu og kæmi það sér illa fyrir hann ef hann neitaði því fyrir dómi. Ákærði Sverrir kannaðist hins vegar við að hafa keypt 200 g af kókaíni af ákærða Ó og hafi 750.000 krónurnar meðal annars verið greiðsla vegna þess. Ákærði kannaðist ekki við að ákærði Júlíus Kristófer hefði átt nokkurn hlut að ofangreindum fíkniefnainnflutningi.
Ákærði Júlíus Kristófer hefur við rannsókn og meðferð þessa máls neitað því að búa yfir nokkurri vitneskju um ætlaðan innflutning fíkniefna frá Hollandi. Að fengnum dómsúrskurði hleraði og hljóðritaði lögreglan fjölda símtala sem ákærði átti við meðákærðu og fleiri. Ákærði kannaðist ekki við að samtölin snerust um fíkniefni nema að mjög óverulegu leyti. Við aðalmeðferð málsins var borinn undir ákærða hluti þessara samtala og má ætla að ákæruvaldið byggi sönnunarfærslu sína á því sem þar kemur fram auk þess sem meðákærðu Ó og Rhafa borið um þátttöku hans.
Samkvæmt samtali frá 26. júní 1999 kl. 13.21 ræðir ákærði Júlíus við ákærða Ó meðal annars um þetta græna sem reddast ekki, en hægt sé að redda því á átta þúsund kall. Ákærði Júlíus spyr hvort það sé ekki orðinn svolítill peningur en ákærði Ó segir að hitt sé á sex þúsund eða eitthvað. Þá segir ákærði Júlíus að það sé þá orðið næstum þrjú hundruð kall. Þá ræða þeir um að hafa samband við R og segja honum að redda polla eða eitthvað. Þá segir ákærði Ó að pollinn sé á svipuðu verði og í Danmörku, um tvöhundruð kall eða tvöhundruð og eitthvað og síðar nefnir hann tvöhundruð og áttatíu krónur. Ákærði Júlíus skýrði svo frá fyrir dómi að hann hafi ekki vitað að samtalið snerist um fíkniefni, en kvaðst hafa dregið þá ályktun að svo væri.
Borið var undir ákærða símtal sem hann kannaðist við að hafa átt við ákærða Rsama dag kl. 13.25. Þar kemur fram að ákærði Júlíus segir eitthvert vesen á vini þeirra þarna úti og þyrfti ákærði R að hringja í hann og láta hann hafa miðana fyrir því og hann reddi því. Ákærði Júlíus skýrði svo frá fyrir dómi að hann hafi einungis verið að flytja skilaboð fyrir ákærða Ó, en hann kvaðst ekki muna um hvað samtalið snerist.
Þá var borið undir ákærða símtal sem hann kannaðist við að hafa átt við ákærða Ó sama dag kl. 13.31. Þar er rætt um að ákærði Ó fái þessar bláu eða miðana sem á vantar. Þá segir ákærði Ó að R viti ekki að þetta sé hann og samsinnir ákærði Júlíus því. Þá segir ákærði Ó að eins gott sé að taka polla eða eitthvað svoleiðis heldur en gras fyrir fjörutíu þúsund kall. Þessu samsinnir ákærði Júlíus. Fyrir dómi kannaðist ákærði Júlíus við að rætt hefði verið um gras sem hefði verið í gangi hérna heima og hann hefði reykt. Að öðru leyti gat ákærði ekki varpað ljósi á samtalið.
Samkvæmt samtali sem ákærði Júlíus hefur kannast við að hafa átt við ákærða Ó sama dag kl. 23.19, er rætt um að fara varlega, þeir séu út um allt og kominn sé auka mannskapur. Ákærði Júlíus taldi þá vera að ræða um daginn og veginn.
Borið var undir ákærða Júlíus símtal sem hann kannaðist við að hafa átt við ákærða R 3. júlí 1999 kl. 11.07. Samkvæmt því biður ákærði R ákærða Júlíus að bjarga sér um eitt jóla. Fyrir dómi kannaðist ákærði Júlíus ekki við hvað þarna væri um að ræða. Ekki þykir ástæða til að rekja fleiri samtöl af þessu tagi.
Sakarefni á hendur ákærða Ó, sbr. ákærulið I.3
Að því er þennan ákærulið varðar eru málavextir þeir, auk þess sem að framan greinir, að lögregla fékk 10. september sl. heimild til húsleitar í íbúð ákærða Æ, bróður ákærða Ó, að [ ] hér í borg. Fannst þar verulegt magn fíkniefna, sbr. ákæruliði II.1 og II.7.1, sem fjallað verður um síðar. Ákærði Ó var handtekinn samdægurs í [ ] og viðurkenndi hann þegar að eiga fíkniefni þau er þar fundust.
Ákærði Ó skýrði svo frá við yfirheyrslu hjá lögreglu 7. október sl. að hann ásamt ákærðu Sverri Þór og Júlíusi Kristófer hefðu séð um að fjármagna fíkniefnakaup þau sem getið er um í ákæruliðum I.1 og I. 2 hér að framan. Kvaðst ákærði Ó hafa tekið að sér að koma fíkniefnunum frá Hollandi til Íslands. Kvað ákærði að búið hafi verið að ganga frá kaupunum að mestu leyti en um hafi verið að ræða fíkniefni af flestum tegundum, kókaín, amfetamín, E-töflur, hass og marihuana. Hann gerði sér ekki nákvæmlega grein fyrir því hversu mikið var af hverju efni, en um mjög stóran pakka hafi verið að ræða, um 40-50 kg. Ákærði Ó kvaðst hafa komið fíkniefnunum fyrir í bifreið sem flutt var til landsins. Ákærði kvaðst hafa afhent ákærðu Sverri Þór og Júlíusi sinn hluta af fíkniefnunum og kvaðst ákærði Ó eiga þau fíkniefni sem fundust á heimili bróður hans.
Ákærði Ó var yfirheyrður fyrir dómi 12. október sl. og staðfesti hann ofangreinda lögregluskýrslu. Ákærði tók þó fram að hann hefði aldrei talað við ákærða Júlíus þannig, eins og hann orðaði það, en hann dró þó ekki til baka þann framburð sinn hjá lögreglu um að ákærði Júlíus hefði fjármagnað fíkniefnakaupin.
Við þingfestingu málsins dró ákærði Ó til baka þann framburð sinn að ákærði Júlíus væri viðriðinn mál þetta. Þá kvaðst hann einungis hafa afhent ákærða Sverri Þór hans hluta fíkniefnanna en hvorki ákærða Júlíusi né ákærða R.
Við aðalmeðferð málsins kannaðist ákærði við að þóknun hans í formi fíkniefna og fjármuna væri rétt tilgreind í ákæru, m.a. kannaðist ákærði við að hafa selt ákærða Sverri Þór 200 g af kókaíni fyrir 750.000 krónur. Þá kannaðist ákærði Ó við að hafa auk þessa selt hluta fíkniefnanna hérlendis án þess að tilgreina það nánar. Ákærði gaf þá skýringu á breyttum framburði sínum um hlut ákærða Júlíusar að lögregla hafi þrýst á hann að draga Júlíus inn í málið. Ákærði kannaðist þó við að hafa haft samskipti við Júlíus vegna þess að hann hafi þurft að ná sambandi við ákærða Sverri. Borið var undir ákærða Ó símtal sem áður er rakið undir ákærulið I.2 og staðfesti ákærði að hann sé að ræða við ákærða Júlíus. Ákærði sagði þá vera að ræða þessa ferð og kvaðst hann hafa ráðfært sig við ákærða Júlíus því hann vissi að þeir voru vinir. Ákærði Ó sagði að það sé ekkert sem segi að ákærði Júlíus eigi hlut að máli þó, hann hafi verið að ræða um þessi mál við hann. Aðspurður hvers vegna þeir hafi rætt um verð á fíkniefnum í Danmörku sagði hann það bara hafa komið upp.
Niðurstaða ákæruliða I.1-3 og II.2.
Ákærðu R og Sverrir Þór hafa við yfirheyrslur hjá lögreglu, sem þeir staðfestu fyrir dómi, viðurkennt að hafa staðið að innflutningi á 40 kg af hassi, 1 kg af kókaíni og 2 kg af marihuana til landsins frá Hollandi. Þeir eru báðir sammála um að greitt hafi verið fyrir 17 kg af marihuana en einungis 2 kg hafi skilað sér til landsins. Óljóst er hvort þau 15 kg, sem þeir greiddu fyrir, hafi nokkurn tíma verið í vörslum þeirra.
Þar sem hér er um að ræða verknað, sem framinn var erlendis, skal samkvæmt 5. gr. almennra hegningarlaga refsað eftir íslenskum hegningarlögum ef brotið er framið á stað, sem refsivald annars ríkis nær til að þjóðarétti, og var þá jafnframt refsivert eftir lögum þess. Engin gögn hafa verið lögð fram í málinu sem sýna fram á refsinæmi verknaðarins í Hollandi og verða ákærðu því ekki sakfelldir fyrir meira magn af marihuana en þeir hafa viðurkennt að hafa flutt til landsins eða 2 kg. Þá er ósannað að þeir hafi átt þátt í innflutningi á meira en 40 kg af hassi. Ákærði Rhefur kannast við að hafa samið um kaup á 2 kg af amfetamíni, en hann telur einungis 1,4 kg hafa skilað sér til landsins. Með sömu rökum og greinir um marihuanakaupin verður hann ekki sakfelldur fyrir meira magn en skilaði sér til landsins. Ákærði Sverrir Þór hefur borið að hann hafi vitað af amfetamínkaupum ákærða R og þá kannast hann við að hafa tekið við amfetamíninu hér á landi, en hann neitar því að hafa átt hlut í því. Þegar þessi vitneskja ákærða Sverris er virt verður að telja að hann beri refsiábyrgð á innflutningi amfetamínsins til jafns við ákærða R .
Ákærði Sverrir Þór hvarf við þingfestingu málsins frá þeirri játningu sinni fyrir dómi að hann hefði átt hlut í kókaíninu, sem flutt var til landsins. Skýring ákærða á þessari afturköllun er ótrúverðug að mati dómsins og þar sem ekkert hefur fram komið sem veikir játninguna verður á henni byggt. Telst því sannað að ákærði hafi fengið í sinn hlut 10 kg af hassi, 1,3 kg af marihuana og 1 kg af kókaíni.
Ákærðu R og Þ ber ekki saman um hversu mikið magn amfetamíns ákærði Þ fékk frá ákærða R. Ákærði Heiðar hefur borið fyrir dómi að hann hafi í mesta lagi fengið 10-20 g frá ákærða Ri, sem aftur bar fyrir dómi að ákærði Þ hefði fengið 950 g. Við þingfestingu og aðalmeðferð taldi ákærði Rað ákærði Þ hefði fengið 20-30 g. Ekki er öðrum gögnum til að dreifa um þessi viðskipti ákærðu en reikulan framburð þeirra beggja. Komið hefur fram hjá þeim báðum að um mjög lélegt efni hafi verið að ræða og hefur sú fullyrðing þeirra ekki verið hrakin. Þykir varhugavert að telja sannað að ákærði Þ hafi fengið meira en 10 g frá ákærða R.
Ákærði R hefur viljað hverfa frá þeim framburði sínum að hann hafi selt 2 kg af hassinu ónafngreindum manni. Kvaðst hann hafa ætlað að nota hassið í bifreiðaviðskiptum en kaupin hafi gengið til baka. Því sé rangur framburður hans þess efnis að hann hafi fengið 600.000 krónur fyrir hassið. Telja verður með játningu ákærða R nægilega sannað að hann hafi notað hass sem gjaldmiðil í viðskiptum eins og hann hefur rakið. Verður byggt á þeim framburði hans fyrir dómi við rannsókn málsins að hassið hafi verið honum 600.000 króna virði í þessum viðskiptum. Með þessum athugasemdum þykir ráðstöfun hans á hassinu réttilega tilgreind í ákæruskjali.
Ákærði Júlíus Kristófer hefur neitað sök við alla meðferð málsins. Ákærði R hefur staðfest fyrir dómi að ákærði Júlíus hafi staðið að fíkniefnakaupunum ásamt ákærða Sverri Þór. Við aðalmeðferð málsins hvarf ákærði R hins vegar frá þessum framburði sínum. Að mati dómsins hefur ákærði gefið ótrúverðugar skýringar á þessum breytta framburði sínum. Ákærði Sverrir Þór hefur hins vegar aldrei bendlað ákærða Júlíus við þessi fíkniefnaviðskipti. Ákærði Ó staðfesti fyrir dómi lögregluskýrslur þar sem hann segir ákærða Júlíus Kristófer hafa fjármagnað fíkniefnakaupin og fengið sinn hlut í þeim þegar þau komu til landsins. Ákærði Ó dró þennan framburð til baka við þingfestingu málsins og gaf þá skýringu að lögregla hefði þrýst á hann að draga ákærða Júlíus inn í málið. Að mati dómsins er þessi skýring ótrúverðug. Dómendur hafa hlustað á samtöl í síma sem ákærði Júlíus Kristófer hefur kannast við að hafa átt við ákærðu R og Ó. Að mati dómenda fer ekkert á milli mála að samræður þeirra snúast um fíkniefnaviðskipti og virðist ákærði Júlíus Kristófer vera fyllilega með á nótunum. Þegar allt framanritað er virt, sérstaklega dómsframburður ákærðu R og Ó, þykir fram komin nægileg sönnun þess að ákærði Júlíus Kristófer eigi þarna hlut að máli. Hins vegar þykir, með þeim rökum sem greinir hér að framan, varhugavert að telja sannað að ákærði Júlíus Kristófer hafi staðið að innflutningi á meira en 40 kg af hassi, 2 kg af marihuana, 1 kg af kókaíni og 1,4 kg af amfetamíni. Hins vegar er ósannað að ákærði Júlíus Kristófer hafi fengið meira en 11 kg af hassi í sinn hlut, en eins og að framan er rakið fékk ákærði Sverrir Þór 1 kg af kókaíni í sinn hlut. Þá þykir nægilega sannað að ákærðu hafi selt fíkniefnin að verulegu leyti hérlendis eins og þeim er gefið að sök í ákæru.
Ákærði Ó hefur kannast við að hafa fjármagnað fíkniefnakaup og flutt til landsins frá Hollandi fíkniefni þau sem að framan greinir og að auki 3 kg af amfetamíni, 300 g af kókaíni og 5500 MDMA töflur. Ákærði Ó hefur borið að hann hafi ekki vitað nákvæmlega um magn fíkniefnanna, en um mjög stóran pakka hafi verið að ræða, eða 40-50 kg. Þá taldi ákærði sig hafa vitneskju um að um væri að ræða flestar tegundir af fíkniefnum. Þegar það er virt að ákærði tekur að sér fíkniefnainnflutningi og lætur sér magn og tegund í léttu rúmi liggja, verður að telja að hann beri fulla refsiábyrgð til jafns við meðákærðu. Hins vegar er með þeim rökum er að framan greinir ósannað að ákærði Ó hafi átt hlut að innflutningi í meira mæli en rakið hefur verið hér að framan um þátt meðákærðu. Með þeim rökum er að framan greinir og að hluta með vísan til játningar ákærða Ó telst sannað hvernig hann ráðstafaði fíkniefnunum með því að selja hluta þeirra hérlendis, þó hefur ekki verið sannað að ákærði hafi afhent ákærða R fíkniefni.
Sakarefni á hendur ákærðu Æ og Ó sbr. ákæruliði II. 1, II.7.1 og II.7.4.
Vegna samhengisins þykir rétt að reifa þessa ákæruliði saman.
Eins og rakið var hér að framan um ákærulið I.3, fékk lögregla 10. september sl. heimild til húsleitar í íbúð ákærða Æ, bróður ákærða Ó og fundust þar þau fíkniefni sem upp eru talin í ákærulið II.1. Ákærði Ó hefur viðurkennt að eiga þessi fíkniefni og segir hann annars vegar vera um að ræða fíkniefni þau sem hann flutti inn frá Hollandi eins og áður er rakið, en hins vegar fíkniefni sem hann hefur viðurkennt að hafa keypt af ónafngreindum mönnum eins og rakið er í ákærulið II.7.4.
Ákærði Æ hefur við meðferð málsins kannast við að hafa á tímabilinu maí til september 1999 í greiðaskyni við bróður sinn, ákærða Ó, geymt fíkniefni þau á heimili sínu að sem upp eru talin í ákærulið II.1. Ákærði hefur viðurkennt að hafa vitað um hvaða tegundir var að ræða og þá kvaðst hann nokkurn veginn hafa gert sér grein fyrir magninu. Þá hefur ákærði kannast við að hafa pakkað efnunum en hann kvaðst ekki hafa gert sér grein fyrir því að þau væru ætluð til sölu.
Niðurstaða ákæruliða II. 1, II.7.1 og II.7.4
Ákærði Ó hefur þegar verið sakfelldur fyrir innflutninginn eins og rakið er hér að framan og verður honum ekki sérstaklega refsað fyrir vörslu sömu fíkniefna og hann hefur viðurkennt að hafa flutt inn. Þykir innflutningurinn tæma sök að þessu leyti. Ákærði Ó hefur viðurkennt að hafa keypt fíkniefni þau, sem upp eru talin í ákærulið II.7.4 af ónafngreindum mönnum og er það brot viðurkennt með játningu hans. Með sömu rökum og að framan greinir verður ákærða Ó ekki refsað sérstaklega fyrir vörslur þessara efna að [ ].
Þegar litið er til þess gífurlega magns fíkniefna sem fannst á heimili ákærða Æ og þeirrar staðreyndar að ákærði vann að því að pakka efnunum, ber að hafna þeim framburði hans að honum hafi ekki verið kunnugt um að efnin væru ætluð til sölu. Telst því sannað að ákærði Haraldur hafi framið það brot sem honum er gefið að sök í ákærulið II.1.
Sakarefni á hendur ákærðu Júlíusi Kristófer Eggertssyni og Ó, sbr. ákærulið II.3 og II.7.3
Vegna samhengisins þykir rétt að reifa þessa ákæruliði saman.
Við yfirheyrslu hjá lögreglu 28. október sl. viðurkenndi ákærði Ó að hafa tvívegis í júlí og ágúst á síðasta ári selt ákærða Júlíusi Kristófer samtals 2 kg af hassi. Tilefni þessa var að lögregla bar undir ákærða símtöl sem höfðu verið hleruð 17. júlí 1999 kl. 19.52 og 21. júlí sama ár kl. 21.13 og kannaðist ákærði Ó við að hann væri að ræða við ákærða Júlíus Kristófer. Sagði ákærði Ó að ákærði Júlíus hefði hringt og beðið sig um þann greiða að útvega sér hasskubba, en að sögn ákærða Ó mun kubbur vera eitt kíló. Ákærði viðurkenndi að hafa selt ákærða Júlíusi Kristófer 1 kg af hassi, sennilega daginn eftir og síðan annað kíló eftir að hann kom heim frá Spáni 10. ágúst í fyrra.
Við yfirheyrslu hjá lögreglu 16. febrúar sl. dró ákærði Ó til baka framburð sinn um að hann hefði selt ákærða Júlíusi 1 kg af hassi. Ekki kemur fram í skýrslunni hvort átt sé við söluna í júlí eða ágúst. Ákærði staðfesti ekki þennan framburð sinn fyrir dómi fyrir útgáfu ákæru.
Við meðferð málsins hér fyrir dómi hefur ákærði Ó neitað því að hafa selt ákærða Júlíusi Kristófer hass. Áðurgreind símtöl voru borin undir ákærða og kannaðist hann ekki við að samtölin snerust um fíkniefni. Taldi hann samtalið snúast um að ákærði Júlíus hafi ætlað að geyma fyrir sig peninga vegna bifreiðaviðskipta. Gaf ákærði þá skýringu á afturköllun sinni að hann hafi verið búinn að vera lengi í einangrun og kvaðst hann hafa verið undir pressu og alltaf hafi honum verið sagt að þetta væri að verða búið.
Ákærði Júlíus Kristófer hefur ávallt neitað sök. Ofangreind samtöl voru borin undir ákærða og kannaðist hann ekki við að þau snerust um fíkniefni. Þá kvaðst hann ekki vita hvað kubbur væri.
Niðurstaða ákæruliða II.3 og II.7.3.
Dómendur hafa hlustað á ofangreind samtöl og að mati þeirra benda líkur til þess að ákærðu ræði um fíkniefni sín á milli, en ekkert verður af þeim ráðið um magn eða tegund. Samkvæmt 1. mgr. 48. gr. laga nr. 19/1991 um meðferð opinberra mála skal dómur reistur á sönnunargögnum sem færð eru fram við meðferð máls fyrir dómi. Ákærðu hafa báðir neitað sök fyrir dómi. Þar sem ekki nýtur við annarra sönnunargagna vegna þessa ákæruliðar en símtala þeirra er áður er vikið að og framburðar ákærða Ó Ágúst hjá lögreglu, þykir ekki fram komin nægileg sönnun um sekt ákærðu, sbr. meginreglu 46. gr. sömu laga og verða ákærðu Júlíus Kristófer og Ó því sýknaðir af þessum ákæruliðum.
Sakarefni á hendur ákærðu K, B og Sverri Þór Gunnarssyni, sbr. ákæruliðir II.4, II.5.1 og II.8.2.
Vegna samhengisins þykir rétt að reifa þessa ákæruliði saman.
Við rannsókn málsins vaknaði grunur lögreglu um að ákærði Sverrir Þór hefði 13. júlí sl. selt ákærða B fyrir milligöngu ákærða K 200 g af amfetamíni. Þessi grunur lögreglu var reistur á símtali sem hlerað var 13. júlí sl. kl. 11.15, en talið var að ákærði Sverrir Þór ræddi við ákærða K. Kemur þar fram að ákærði Sverrir Þór virðist biðja viðmælanda sinn um 200 af Gonsales. Segist viðmælandinn ætla að útvega þetta og kemur fram að þetta sé helmingi meira en síðast. Þá kemur fram að ákærði Sverrir Þór biður viðmælandann að fara með þetta til B og síðan hringir ákærði Sverrir í ákærða B og segir honum að K ætli að hringja í hann. Þá virðist koma fram í símtali daginn eftir kl. 20.16 að K hafi hitt ákærða B og allt hafi verið í fínu lagi.
Ákærði K hefur við rannsókn og meðferð málsins ávallt neitað sök. Hann kannaðist ekki við að hafa rætt við ákærða Sverri Þór í síma 13. júlí sl., en viðurkenndi að vera skráður eigandi símanúmers viðmælanda ákærða Sverris Þórs. Hann gat ekki svarað því hvort aðrir hefðu aðgang að síma hans, en taldi það mögulegt. Hann kvaðst stundum hafa heyrt talað um Gonsales sem amfetamín.
Ákærði B skýrði svo frá við yfirheyrslu hjá lögreglu 20. nóvember sl. að hann hefði í júlímánuði fengið 200 g af amfetamíni. Kvaðst hann hafa hitt einhvern strák við Japis í Brautarholti, en ákærði Sverrir Þór hefði sagt honum að þessi strákur myndi hringja í hann. Þessi strákur hafi síðan afhent ákærða poka með amfetamíni en ákærði vissi ekki deili á honum. Ákærði hefur ekki staðfest þennan framburð fyrir dómi.
Við dómsmeðferð málsins skýrði ákærði B svo frá að hann hefði nánast fengið taugaáfall þegar hann var yfirheyrður. Kvaðst hann hafa leitað til lögreglu skömmu eftir að hann gaf skýrslu sína í þeim tilgangi að breyta henni. Hafi því ekki verið sinnt og kvaðst hann nánast hafa verið rekinn út. Þá kvað hann lögreglu hafa ýjað að gæsluvarðhaldi tvisvar til þrisvar sinnum. Ákærði sá ákærða Kvið dómsmeðferð málsins og lýsti hann því yfir að hann hefði aldrei séð hann áður. Borin voru undir ákærða ofangreind símtöl og kannaðist hann ekki við að um hann væri að ræða. Ákærði neitaði sakargiftum alfarið fyrir dómi.
Ákærði Sverrir Þór hefur neitað sök. Hann kannaðist ekki við viðmælanda sinn 13. júlí sl., en staðfesti að hann hefði rætt við ákærða B í síma daginn eftir. Ákærði tók fram að ákærði B hefði geymt peninga fyrir hann og taldi hann líklegt að hann hefði ætlað að afhenda honum peninga til geymslu. Ákærði kvaðst ekki vita hvað Gonsales þýðir í fíkniefnaheiminum.
Niðurstaða ákæruliða II.4, II.5.1 og II.8.2.
Dómendur hafa hlustað á ofangreind samtöl og að mati þeirra benda líkur til þess að rætt sé um fíkniefni. Ekki hafa að mati dómsins verið færðar á það fullnægjandi sönnur að ákærði Ksé viðmælandi ákærða Sverris Þórs. Samkvæmt 1. mgr. 48. gr. laga nr. 19/1991 um meðferð opinberra mála skal dómur reistur á sönnunargögnum sem færð eru fram við meðferð máls fyrir dómi. Ákærðu hafa allir neitað sök fyrir dómi. Þar sem ekki nýtur við annarra sönnunargagna vegna þessa ákæruliðar en símtala þeirra er áður er vikið að og framburðar ákærða B hjá lögreglu, sem hann hefur dregið til baka, þykir ekki fram komin lögfull sönnun um sekt ákærðu, sbr. meginreglu 46. gr. sömu laga og verða ákærðu Karl Henry, B og Sverrir Þór því sýknaðir af þessum ákæruliðum.
Sakarefni á hendur ákærðu B og Sverri Þór Gunnarssyni, sbr. ákæruliðir II.5.2 og II.8.3.
Vegna samhengis þykir rétt að reifa þessa ákæruliði saman.
Í sömu yfirheyrslu, yfir ákærða B hjá lögreglu, og rakin var í tengslum við ákæruliðina hér næst á undan, viðurkenndi ákærði að hafa síðustu þrjú ár keypt 400-500 g af hassi af ákærða Sverri Þór og álíka magn af amfetamíni. Í ákæru er ákærða gefið að sök að hafa keypt 290 g af amfetamíni og 500 g af hassi. Þá viðurkenndi ákærði að hafa selt 20 - 30 manns 300-350 g af amfetamíninu á 4.500 til 5.000 krónur grammið, en hassið kvað ákærði mest hafa farið í eigin neyslu. Við leit á heimili ákærða 20. nóvember sl. framvísaði ákærði 8,85 g af hassi og 0,39 g af amfetamíni.
Ákærði B dró játningu sína til baka fyrir dómi, en tók fram að fíkniefni þau sem hann framvísaði við húsleit hafi hann ætlað til eigin nota. Ákærði gaf sömu skýringar og raktar voru hér að framan um ástæðu þess að hann vildi hverfa frá framburði sínum.
Ákærði Sverrir Þór hefur neitað því að hafa selt ákærða B fíkniefni. Hann hefur hins vegar kannast við að hafa beðið ákærða B um að geyma fyrir sig fé sem var afrakstur fíkniefnasölu. Að mati ákærða vissi ákærði B ekki hvernig þessir peningar voru til komnir.
Niðurstaða ákæruliða II.5.2 og II.8.3.
Samkvæmt 1. mgr. 48. gr. laga nr. 19/1991 um meðferð opinberra mála skal dómur reistur á sönnunargögnum sem færð eru fram við meðferð máls fyrir dómi. Ákærðu hafa báðir neitað sök fyrir dómi. Þar sem ekki nýtur við annarra sönnunargagna vegna þessa ákæruliðar en framburðar ákærða B hjá lögreglu, sem hann hefur dregið til baka, þykir ekki fram komin lögfull sönnun um sekt ákærðu, sbr. meginreglu 46. gr. sömu laga og verða ákærðu B og Sverrir Þór því sýknaðir af þessum ákæruliðum.
Sakarefni á hendur ákærðu M og Ó sbr. ákæruliði II.6 og II.7.6.
Vegna samhengis þykir rétt að reifa þessa ákæruliði saman.
Við yfirheyrslu hjá lögreglu 23. nóvember sl. skýrði ákærði M svo frá að ákærði Ó hafi fyrr um sumarið útvegað honum fíkniefni í nokkur skipti. Kvaðst hann hafa fengið um 1,2 kg af hassefni og kannski 40 g af amfetamíni. Ákærði kvaðst hafa neytt þessara efna að mestu leyti sjálfur en hluta efnanna kvaðst hann hafa selt eða gefið. Ákærði kvaðst hafa greitt frá 900 krónum til 1.100 króna fyrir hassgrammið en 5.000 krónur fyrir hvert gramm af amfetamíni. Þá kvaðst ákærði hafa selt 500 g af hassi á 1.300 krónur grammið og 15 g af amfetamíni á 5.000 krónur grammið. Ákærði staðfesti ekki þennan framburð fyrir dómi.
Við meðferð málsins hér fyrir dómi dró ákærði M þennan framburð sinn að hluta til baka. Kannaðist hann þá einungis við að hafa fengið 150 g af hassi og 10-15 g af amfetamíni frá ákærða Ó og hafi það allt verið til eigin nota. Ákærði gaf þá skýringu á breyttum framburði að honum hafi verið hótað gæsluvarðhaldi ef hann segði ekki það sem lögreglumennirnir vildu heyra.
Við yfirheyrslu hjá lögreglu 16. febrúar sl. skýrði ákærði Ó svo frá að hann hafi útvegað ákærða M um 100-200 g af hassi. Þá kannaðist hann við að hafa látið ákærða M hafa nokkur grömm af amfetamíni.
Við þingfestingu málsins kvaðst ákærði Ó hafa selt ákærða M 10-20 g af amfetamíni og 100-200 g af hassi. Við aðalmeðferð málsins staðfesti ákærði Ó ofangreint magn amfetamíns en taldi sig einungis hafa selt honum 100 g af hassi.
Niðurstaða ákæruliða II.6 og II.7.6.
Ákærðu M og Ó hafa við rannsókn og meðferð málsins viðurkennt að hafa átt með sér fíkniefnaviðskipti eins og þeim er gefið að sök í þessum ákæruliðum. Hins vegar hefur framburður þeirra um magn efnanna verið nokkuð á reiki. Með vísan til þeirrar reglu 1. mgr. 48. gr. laga nr. 19/1991 að dómur skuli reistur á sönnunargögnum sem færð eru fram við meðferð máls fyrir dómi, þykir verða að byggja á því sem fram hefur komið um magnið af hálfu ákærðu fyrir dómi. Símtöl, sem ákæruvaldið hefur byggt á í þessum ákærulið, þykja að mati dómenda ekki varpa frekari ljósi á málsatvik. Samkvæmt framansögðu þykir varhugavert að telja sannað að viðskipti ákærðu hafi snúist um meira en 10 g af amfetamíni og 150 g af hassi. Þá verður að telja að ákæruvaldinu hafi ekki tekist að færa sönnur á að ákærði M hafi selt hluta fíkniefnanna.
Sakarefni á hendur ákærða Ó sbr. ákærulið II.7.2.
Ákærði Ó hefur við rannsókn og meðferð málsins viðurkennt að hafa í lok ágúst og byrjun september 1999 tekið við 8-8,5 milljónum króna frá ákærða Sverri Þór í íslenskum og hollenskum gjaldeyri. Hjá lögreglu skýrði ákærði svo frá að þessir fjármunir væru afrakstur fíkniefnasölu ákærða Sverris Þórs og hafi ætlunin verið sú að fjármagna frekari fíkniefnakaup. Ákærði dró í land fyrir dómi og kvaðst ekki hafa gert sér grein fyrir því að allt þetta fé væri afrakstur fíkniefnaviðskipta. Kvaðst ákærði hafa vitað að ákærði Sverrir Þór var í vinnu og þá kvaðst hann hafa vitað að hann hafi selt íbúðir. Kvað ákærði Ó ákærða Sverri Þór hafa beðið sig að geyma þessa peninga fyrir sig.
Ákærði Sverrir Þór skýrði svo frá fyrir dómi að hann hafi afhent ákærða Ó 8,5 milljónir króna sem hann sagði vera ágóða af fíkniefnasölu. Hann kvaðst hafa beðið ákærða Ó um að geyma féð fyrir sig því hann hefði ekki hentugri stað fyrir það. Ákærði Sverrir neitaði því að þeir hafi ætlað að kaupa fíkniefni fyrir þetta fé.
Niðurstaða ákæruliðar II.7.2.
Ákærði Ó hefur viðurkennt að hafa tekið við allt að 8,5 milljónum króna til geymslu fyrir ákærða Sverri Þór. Ákærði hefur borið að honum hafi verið kunnugt um að hluti þessara fjármuna væri afrakstur fíkniefnasölu. Þegar haft er í huga að ákærðu höfðu fyrr um sumarið staðið í stórfelldum innflutningi og sölu fíkniefna verður að telja ótrúverðugan þann framburð ákærða Ó að hann hafi staðið í þeirri trú að hluti þessara fjármuna væri ekki fíkniefnaágóði. Hafði ákærði Ó enga ástæðu til að ætla að ákærði Sverrir Þór fæli honum geymslu fjármuna sem þannig væru fengnir. Telst því fyllilega sannað að ákærði Ó hafi gerst sekur um þá háttsemi sem honum er gefin að sök í þessum ákærulið að öðru leyti en því að ósannað er að peningarnir hafi verið ætlaðir til frekari fíkniefnakaupa.
Sakarefni á hendur ákærðu Ó og Valgarði Heiðari Kjartanssyni, sbr. ákæruliði II.7.5 og II.9.
Vegna samhengis þykir rétt að reifa þessa ákæruliði saman.
Við þingfestingu málsins skýrði ákærði Ó svo frá að hann hafi á því tímabili er greinir í þessum ákæruliðum selt ákærða Valgarði Heiðari 10 til 50 g af amfetamíni, 10 til 50 MDMA töflur og 100 til 200 g af hassi. Við aðalmeðferð málsins mundi ákærði Ó ekki eftir því að hafa látið ákærða Valgarð Heiðar fá MDMA töflur. Þá taldi hann magn amfetamíns hafa verið 10 til 20 g og hassmagnið um 100 g. Borið var undir ákærða Ó símtal sem hann kannaðist við að hafa átt við ákærða Valgarð Heiðar 3. júlí 1999 kl. 15.39. Þar segist ákærði Ó vera búinn að redda þessu, félagi hans Daði sé með tuttugu bólur og fimm óla. Í símtali ákærðu Ó og Valgarðs sama dag kl. 17.23 talar ákærði Ó enn um tuttugu bólur og fimm óla. Í símtali 4. júlí kl. 18.28 spyr ákærði Ó ákærða Valgarð hvort hann hafi verið kominn með eitthvað af bláum handa honum. Í símtali sama dag kl. 20.10 ræða þeir um einsa og í símtali 14. júlí kl. 19.38 spyr ákærði Valgarð ákærða Ó hvort nokkur séns sé að hann geti látið sig fá þrjú núll núll á sama. Þá segir ákærði Ó við ákærða Valgarð að það sé að koma hallæri hjá honum og sé betra að liggja á þessu, þá græði hann hundraðkalli meira. Samkvæmt símtali 16. júlí kl. 11.58 segir ákærði Valgarð ákærða Ó að hann sé að verða stuðlaus og þá spyr ákærði Ó hvort hann sé með einhverja bláa. Ákærði Ó ýmist mundi ekki eftir samtölunum eða kannaðist ekki við að samræður þeirra hefðu snúist um fíkniefni.
Við yfirheyrslu hjá lögreglu 22. nóvember sl. skýrði ákærði Valgarð Heiðar svo frá að hann hafi á umræddu tímabili keypt af ákærða Ó um 800 til 900 g af hassi, um 200 g af amfetamíni, um 100 g af kókaíni og um 500 MDMA töflur. Kvaðst ákærði Valgarð hafa keypt hassið á kr. 1.000-1.200 grammið, amfetamínið á kr. 4.000-5.000 grammið, kókaínið á kr. 12.000-15.000 grammið og MDMA töflur á kr. 3.000 stykkið. Þá kvaðst hann hafa selt 300 til 400 g af hassinu, um 70 g af amfetamíninu og um 50 g af kókaíninu. Ákærði Valgarð kvaðst hafa selt 100-200 MDMA töflur sjálfur en útvegað kaupanda, séð um sölu og rukkun vegna 300-400 MDMA taflna. Ákærði kvaðst hafa grætt um 300-500 krónur á hassgramminu, 500-1.000 krónur á amfetamíninu, um 200-500 krónur á MDMA töflunum og allt frá engu upp í 3.000 krónur á hverju kókaíngrammi. Ákærði Valgarð Heiðar staðfesti þennan framburð sinn fyrir dómi samdægurs.
Við þingfestingu málsins skýrði ákærði Valgarð Heiðar svo frá að hann hafi ekki einu sinni keypt helminginn af þeim 200 g af amfetamíni sem honum er gefið að sök. Þá kvað hann það rangt að hann hafi keypt kókaín og MDMA töflur og hann hafi einungis keypt 500 til 600 g af hassi. Þá kvaðst hann einungis hafa selt 5 til 10 g af amfetamíni og 200 til 300 g af hassi. Við aðalmeðferð málsins skýrði ákærði Valgarð Heiðar svo frá að hann hafi keypt nokkur grömm af hassi og amfetamíni af ákærða Ó, en ekkert af öðrum efnum. Þá kvaðst hann ekkert hafa selt af þessum efnum. Ákærði gaf þá skýringu á breyttum framburði sínum að lögregla hefði beitt hann þvingunum við rannsókn málsins, meðal annars hafi barni hans verið blandað í málið. Ákærði hélt því fram að honum hafi ekki verið gefinn kostur á skipun verjanda, en þegar honum var bent á að við dómsyfirheyrslu 22. nóvember sl. er bókað að hann óski ekki eftir skipun verjanda, kvaðst hann ekki geta gefið skýringu á þeirri bókun. Borin voru undir ákærða Valgarð sömu símtöl og rakin eru hér að framan, en hann ýmist mundi ekki eftir þeim eða kannaðist ekki við að rætt væri um fíkniefni.
Niðurstaða ákæruliða II.7.5 og II.9.
Ákærði Valgarð Heiðar hefur við yfirheyrslu hjá lögreglu, sem hann staðfesti samdægurs fyrir dómi, viðurkennt að hafa keypt af ákærða Ó um 800 til 900 g af hassi, um 200 g af amfetamíni, um 100 g af kókaíni og um 500 MDMA töflur. Ákærða var boðið að njóta aðstoðar verjanda við þessar yfirheyrslur en hann hafnaði því. Ákærði hefur að mati dómsins gefið ótrúverðugar skýringar á breyttum framburði sínum. Að mati dómsins þykja símtöl þau, sem hér hafa verið rakin, renna stoðum undir framburð ákærða Valgarðs, en ekki verður á þeim byggt um magn eða tegund fíkniefna. Með játningu ákærða Valgarðs Heiðars fyrir dómi þykir nægilega sannað að hann hafi gerst sekur um þá háttsemi sem honum er gefin að sök í ákæruskjali, þó þannig að ósannað er að ákærði hafi keypt meira en 800 g af hassi. Þá verður ákærði einungis sakfelldur fyrir sölu á 20 g af amfetamíni eins og hann er ákærður fyrir, en játning hans laut að sölu á 70 g. Það athugast að ákærði Ó er ekki ákærður fyrir að hafa selt ákærða Valgarði Heiðari kókaín.
Ákærði Ó viðurkenndi við þingfestingu málsins að hafa selt ákærða Valgarði Heiðari 10 til 50 g af amfetamíni, 10 til 50 MDMA töflur og 100 til 200 g af hassi. Með hliðsjón af framburði ákærða Valgarðs Heiðars telst því fyllilega sannað að ákærði Ó hafi selt ákærða Valgarði 50 g af amfetamíni, 50 MDMA töflur og 200 g af hassi. Þrátt fyrir játningu ákærða Valgarðs um að hann hafi keypt meira magn fíkniefna af ákærða Ó verður hann, eins og sönnunarreglum í sakamálum er háttað, ekki sakfelldur fyrir sölu á meira magni en hann hefur viðurkennt.
Sakarefni á hendur ákærða Ó sbr. ákærulið II.7.7.
Við yfirheyrslu hjá lögreglu 21. nóvember sl. var borið undir ákærða Ó samtal sem hann kannaðist við að hafa átt við F, kt. 060166-3159. Skýrði ákærði þá svo frá að F hafi verið að spyrja hvort hann gæti útvegað Kristjáni nokkrum 1 kg af hassi á 650.000 krónur Ekkert hafi þó orðið úr þessum viðskiptum. Fyrir dómi skýrði ákærði svo frá að hann hafi mismælt sig hjá lögreglu, hann hafi átt við verð á einu grammi af hassi. Í samtali ákærða Ó og F 11. júlí 1999 kl. 21.24, nefnir Finnur fjóra munda og ákærði Ó spyr hvort það séu svona alvöru klumpar og þegar Finnur samsinnir því nefnir ákærði Ó sexhundruð kall. Ákærði Ó kvaðst fyrir dómi ekki koma þessu samtali fyrir sig. F kom ekki fyrir dóm í máli þessu.
Niðurstaða ákæruliðar II.7.7.
Með vísan til þeirrar reglu 1. mgr. 48. gr. laga nr. 19/1991 að dómur skuli reistur á sönnunargögnum sem færð eru fram við meðferð máls fyrir dómi, þykir verða að byggja á því sem fram hefur komið um þennan ákærulið af hálfu ákærða fyrir dómi. Símtöl, sem ákæruvaldið hefur byggt á í þessum ákærulið, þykja að mati dómenda ekki varpa frekari ljósi á málsatvik. Þá hefur F ekki komið fyrir dóm. Samkvæmt framansögðu þykir varhugavert að telja sannað að lögfull sönnun hafi komið fram um að ákærði Ó hafi selt hass eins og honum er gefið að sök í þessum ákærulið og er hann því sýknaður af háttsemi sem í þessum ákærulið greinir.
Sakarefni á hendur ákærða Ó, sbr. ákærulið II.7.8.
Við upphaf aðalmeðferðar málsins var af hálfu ákæruvalds fallið frá því að ákærði Ó hefði selt 10 MDMA töflur.
Við yfirheyrslu hjá lögreglu 21.nóvember sl., skýrði ákærði Ó svo frá að hann hafi útvegað F 5 g af amfetamíni. Þá taldi ákærði líklegt að F hefði fengið hjá honum 3-4 g af kókaíni. Þá kannaðist ákærði við að F hafi í símtali 15. júlí 1999 kl. 15.17 beðið sig um 10 g af amfetamíni og 10 g af kókaíni. Ákærði kvaðst ekki muna hvort hann afhenti honum þetta eða ekki. Þá kannaðist ákærði við að F hafi í símtali 17. júlí beðið um 4 g af amfetamíni og annað eins af hassi. Ákærði kvaðst ekki muna hvort hann afhenti F þessi efni.
Við þingfestingu málsins kannaðist ákærði ekki við að magnið væri eins mikið og í ákæru greinir. Við aðalmeðferðina kvaðst hann hafa útvegað F eitt og eitt grammi af kókaíni, einhvern tíma hass án þess að hann tilgreindi magnið en hann mundi ekki eftir því að hafa útvegað honum amfetamín. Ákærði kvaðst ekki muna eftir því sem hann bar um þetta hjá lögreglu, enda taldi hann langt um liðið. F kom ekki fyrir dóm og heldur ekki aðrir er borið gætu um málsatvik.
Niðurstaða ákæruliðar II.7.8.
Með vísan til þeirrar reglu 1. mgr. 48. gr. laga nr. 19/1991 að dómur skuli reistur á sönnunargögnum sem færð eru fram við meðferð máls fyrir dómi, þykir verða að byggja á því sem fram hefur komið um þennan ákærulið af hálfu ákærða fyrir dómi. Símtöl, sem ákæruvaldið hefur byggt á í þessum ákærulið, þykja að mati dómenda ekki varpa frekari ljósi á málsatvik. Þá hefur F ekki komið fyrir dóm. Ákærði hefur fyrir dómi kannast við að hafa útvegað F óverulegt magn fíkniefna, en ekkert hefur komið fram um magnið. Samkvæmt framansögðu þykir með hliðsjón af framburði ákærða fyrir dómi sannað að hann hafi selt fíkniefni eins og honum er gefið að sök í þessum ákærulið, en með vísan til meginreglu 46. gr. sömu laga þykir varhugavert að slá nokkru föstu um tegund eða magn fíkniefnanna. Ber samkvæmt þessu að sýkna ákærða af þessum ákærulið.
Sakarefni á hendur ákærða Sverri Þór Gunnarssyni sbr. ákærulið II.8.1.
Í þágu rannsóknar þessa máls var E, [ ], úrskurðaður í gæsluvarðhald 11. október sl. Við yfirheyrslu í dómi skýrði E svo frá að hann hefði á tímabilinu frá því um vorið 1998 þangað til 10. ágúst 1999 keypt um 100-150 g af kókaíni af ákærða Sverri Þór. E ítrekaði þennan framburð sinn við yfirheyrslu hjá lögreglu og staðfesti hann þær framburðarskýrslur fyrir dómi 19. október sl. E kom fyrir dóm við aðalmeðferð málsins og skýrði þá svo frá að hann hefði einungis keypt 27 g af Sverri. Kvað hann verðið á gramminu hafa verið frá 10-12.000 krónum upp í 17.000 krónur. Hann gaf þá skýringu á breyttum framburði að enginn tími hafi verið til að fara yfir eitt eða neitt, það hafi verið skotið á eitthvað út í loftið.
Við yfirheyrslu hjá lögreglu skýrði ákærði Sverrir Þór svo frá að hann hefði ýmist selt eða útvegað E 100-150 g af kókaíni. Fyrir dómi skýrði ákærði svo frá að hann áttaði sig ekki alveg á magninu, en taldi geta staðist að um 100-150 g hefði verið að ræða. Hann kvaðst hafa selt grammið á 10.000 krónur.
Niðurstaða ákæruliðar II. 8.1.
Með játningu ákærða Sverris Þórs, sem fær stoð í framburði E, sérstaklega við rannsókn málsins, er sannað að hann hafi selt E kókaín, en þó þykir varhugavert eins og mál þetta liggur fyrir að um hafi verið að ræða meira en 100 g. Þá þykir verða við það að miða að ákærði hafi selt grammið á 10.000 krónur.
Brot ákærðu samkvæmt þessari ákæru, sem dagsett er 18. apríl 2000, og samkvæmt framhaldsákæru, dagsettri 25. maí 2000, eru rétt heimfærð til refsiákvæða, utan brot ákærða Þ sem varðar við 2. gr. sbr. 5. og 6. gr. laga nr. 65/1974 og 2. sbr. 10. gr. reglugerðar um ávana- og fíkniefni nr. 16/1986 sbr. reglugerð nr. 177/1986 og auglýsingu nr. 84/1986. Þá eiga við sömu athugasemdir og raktar voru að framan vegna ákærunnar frá 17. apríl 2000 og framhaldsákæru frá 25. maí 2000 varðandi það að tilvísun í ákærunni í 72. og 77. gr. almennra hegningarlaga á ekki við.
Ákæra dagsett 19. apríl 2000.
Eins og að framan segir kom leiguskip Samskipa til landsins að morgni 8. september sl. Við leit lögreglu og tollgæslu í skipinu fannst pakki með rúmum 7 kílóum af hassi, sbr. ákæra dags. 17. apríl sl. Ákærði G, fyrrverandi starfsmaður Samskipa í Reykjavík, viðurkenndi við yfirheyrslur við rannsókn málsins að hafa margsinnis fjarlægt pakka með fíkniefnum sem komið höfðu til landsins með skipum Samskipa. Hann viðurkenndi meðal annars 26. október sl. að hann hafi tvívegis fjarlægt pakka sem komu frá Bandaríkjunum. Í framhaldi þessarar játningar hófst rannsókn þessa þáttar málsins. Við rannsókn lögreglu var lagt hald á fíkniefni þau, sem fundust við leit á heimilum ákærðu Zs 18. nóvember, 4 g kókaíns, Ingvars Árna 18. nóvember 0,44 g kókaíns og 15. desember, 61,89 g kókaíns, og ákærða G 10. september, 18,85 g kókaíns og 1,34 g af hassi, svo og 27. október, 59,52 g kókaíns. Verður nú nánar vikið að framburði ákærðu og vitna vegna síðastgreindra tveggja sendinga, sem eru sakaratriði þessarar ákæru. Vegna samhengis 1.-3. liðar I. kafla ákæru verða þessir ákæruliðir raktir saman.
I. kafli ákæru.
Ákærði X hefur viðurkennt sakargiftir í þessum kafla ákæru og kveður þar málavöxtu rétt lýst að öðru leyti en því að hann neitar því að efnið hafi verið selt að verulegu leyti hér á landi. Sá hluti sem kom í hans hlut hafi verið til eigin nota.
X kvað þá Ingvar Árna hafa keypt fíkniefnin, sem lýst er í 1. lið, af leigubílstjóra í Miami í Florida og greitt fyrir þau hvor um sig 270.000- 300.000 krónur. Reiknað hafi verið með að grammið kostaði 3.000-4.000 krónur. Þeir hafi svo komið efninu fyrir í hljóðkút. Þeir þrír hafi samið svo um að efninu væri skipt jafnt á milli hans, ákærða Z og ákærða Ingvars Árna. Sá hluti efnisins sem kom í hans hlut hafi verið til eigin nota og hann hafi engan fjárhagslegan ávinning haft af innflutningi efnanna, en neysla hans sjálfs orðið ódýrari en ella. Þeir hafi ekki vigtað efnið, en talið að þetta væri efnismagnið er þeir sömdu um kaupin. Ákærði sagði að hann, Z og Ingvar Árni hafi hver um sig greitt ákærða G 70.000 krónur fyrir að fjarlægja fíkniefnin og G hafi einnig fengið samtals 10-15 g af efninu. Ingvar Árni hafi ákveðið hvernig greiðslu til G skyldi háttað. Í lögregluyfirheyrslu kvað ákærði G hafa fengið í sinn hlut 5-10 g af efninu frá hverjum þeirra. Ákærði Z sagði að hann hafi verið á sjó þegar efnin komu til landsins og hann hafi því beðið Ingvar Árna að afhenda G sinn hluta efnanna og peninganna, þ.e. 70.000 krónur. Hann hafi því hvorki verið viðstaddur þegar efnunum var skipt né þegar G fékk fíkniefnin og peningagreiðsluna. Ákærði kvaðst lítið samband hafa haft við G, enda hafi Ingvar Árni og Z verið búnir að semja við G um greiðslu hans er ákærði kom af sjónum og þeir hafi einnig samið við hann um að fjarlægja sendinguna úr vöruskemmu Samskipa við komu skipsins til landsins.
Ákærði X sagði að þeir Ingvar Árni hafi keypt fíkniefnin, sem lýst er í 2. lið, af sama leigubílstjóra og í fyrri ferðinni fyrir svipað verð og áður. Hann mundi ekki hvað þeir greiddu fyrir efnin, en grammið hafi verið á 3000-4000 krónur. Þeir hafi svo komið efninu fyrir í umræddum varahlut og flutt það til landsins með sama hætti og í fyrri ferðinni. Ákærði G hafi sem fyrr fjarlægt fíkniefnin við komu pakkans til landsins. Þegar pakkinn kom til landsins hafi þeir hist í íbúð kunningja Ingvars Árna, V. Ingvar Árni hafi fengið afnot íbúðarinnar. V hafi ekki vitað hvað til stóð og ekki verið heima. Þarna hafi hann hitt Ingvar Árna og G og þeir hafi opnað pakkann. Ingvar hafi farið með pakkann. Í sinn hlut hafi komið um 120 g, ákærða Ingvars Árna 160 g og ákærða G um 50 g. Ákærði sagði að hann hafi farið á sjóinn og ekki fengið sinn hlut fyrr en hann kom af sjónum.
Ákærði Ingvar Árni Ingvarsson hefur alfarið neitað sakargiftum í I. kafla ákæru bæði við rannsókn málsins og meðferð þess. Hann kannast við að hafa verið með X í þessum ferðum til Bandaríkjanna, önnur ferðin hafi verið skemmtiferð, en hann minnti að hin ferðin hafi verið farin til að kaupa bíla. Engin fíkniefni hafi verið keypt í þessum ferðum Hann kvaðst enga skýringu hafa á því hvers vegna meðákærðu bera hann þessum sökum. Undir hann var borinn listi yfir skuldir sem liggur frammi í málinu. Hann kannaðist við listann, en neitaði því að þessi listi væri vegna fíkniefnaskulda. Kvað hann þetta vera lista vegna peningalána hans til vina og vandamanna og vildi ekki tjá sig frekar um það. Hann kvað 95.000 krónur er fundust við húsleit á heimili hans og hald var lagt á við rannsókn málsins vera vinnulaun, sem hann hefði fyrir löngu fengið fyrir múrvinnu hjá föður sínum.
Ákærði Z hefur játað sakargiftir á hendur sér og kveður atvikalýsingu ákæru vera rétta að öðru leyti en því að að hann hafi ekki lagt 450.000 krónur heldur um 350.000 krónur til fíkniefnakaupanna, sem lýst er í lið 1, og magn fíkniefnanna hafi ekki verið 330 g heldur 250 g. Af þeim hafi komið í sinn hlut um 70 g en G hafi fengið samtals 15-30 g í sinn hlut. Hann neitar því einnig alfarið að hann hafi selt fíkniefnin. Ákærði sagði við yfirheyrslu hjá lögreglu 18. nóvember sl. að hann hafi lagt til kaupa efnanna í heild um 450.000 krónur og í sinn hlut hafi komið þriðjungurinn, um 80-110 g, en þeir þrír, ákærði, X og Ingvar hafi skipt efninu á milli sín. G hafi fengið frá hverjum þeirra 5-10 g. Fyrir dómi sagði ákærði að 70.000 krónurnar sem hann greiddi G væru meðtaldar í þeirri fjárhæð sem hann nefndi í yfirheyrslu lögreglu. Hann hafi lagt að auki fram 280.000 krónur, ekki meira. Lögregla hafi leitt hann í yfirheyrslunni og hann svarað á þennan veg. Hann hafi ekki verið með sjálfum sér við yfirheyrslurnar og ekki áttað sig alveg á magninu og fjárhæðinni. Hann hefur staðfastlega haldið því fram að G hafi afhent honum fíkniefnin eins og lýst er í ákæru og í framhaldi þess hafi hann farið með þau á heimili sitt. Þar hafi hann og ákærði Ingvar Árni vigtað efnin og skipt þeim jafnt á milli þeirra þriggja, ákærða, Ingvars Árna og X. G hafi svo komið um klukkustund síðar. Ákærði sagði að hans hluti fíkniefnanna hafi farið í eigin neyslu. Ákærði vísaði lögreglu á 4 g kókaínsins við húsleit á heimili hans 18. nóvember sl. og lagði lögregla hald á efnið.
Ákærði G viðurkenndir sakargiftir á hendur sér í lið 3.1 þessa kafla ákæru og kveður atvikum þar rétt lýst að öðru leyti en því að hann kvaðst ekki hafa fengið í sinn hlut nema um 70.000 krónur. Við þingfestingu málsins játaði hann hins vegar að hafa fengið í sinn hlut 210.000 krónur og við rannsókn málsins kvað hann Ingvar Árna hafa minnst á að hann ætti að fá þrisvar sinnum 70.000 krónur fyrir sinn hlut að málinu, en hann hafi aldrei fengið þessa peninga greidda. Hann hefur gefið þá skýringu á þessu afturhvarfi að honum hafi yfirsést þessi fjárhæð við þingfestinguna og játning hans á misskilningi byggð. Hann kvaðst enga hugmynd hafa haft um magn fíkniefnanna sem hann fjarlægði úr þessari sendingu, en vitað að um kókaín var að ræða. Efnið hafi verið falið í holrými í púströri. Ingvar Árni hafi komið að máli við sig og beðið sig um að fjarlægja fíkniefnin við komu þeirra til landsins. Ingvar Árni hafi sagst vita að hann hefði tekið á móti fíkniefnasendingum áður frá Danmörku, sem Gunnlaugur Ingibergsson, sem þeir báðir þekktu, hafi sent. Ingvar Árni hafi sagt að ákærði Z og ákærði X væru með í þessu. Z hafi svo hringt í hann og beðið hann að afhenda sér pakkann. Hann hafi afhent Z pakkann á heimili sínu, Kleppsvegi 18. Hann hafi fengið sinn hlut, 15 g efnisins og ofangreindar 70.000 krónur, afhentan heima hjá Z. Auk þeirra tveggja hafi Ingvar Árni verið viðstaddur.
Hann viðurkennir einnig sakargiftir í lið 3.2 og segir málavöxtum þar rétt lýst að öðru leyti en því að hann hafi ekki ætlað að selja þau fíkniefni sem hann fékk í sinn hlut og hann kvað það einnig rangt að P hafi selt umrædd 10 g af efninu fyrir sig. Hann kvað Ingvar Árna hafa komið aftur að máli við sig og beðið sig um að fjarlægja fíkniefnin við komu þeirra til landsins. Ákærði kvaðst hafa svarað því til að hann væri tilbúinn að skoða þetta og það næsta sem hann vissi var að pakkinn var kominn á sínu nafni á leið til landsins. Efnin voru falin á sama hátt og í fyrri sendingunni. Ákærði viðurkenndi að hann hafi lagt til kaupanna á þessum fíkniefnum um 200.000 krónur, en sagðist hins vegar ekki hafa gert sér grein fyrir magninu þótt hann hafi séð fíkniefnin og pokann sem þau voru í og verið viðstaddur ásamt X og Ingvari Árna þegar pakkinn var opnaður í íbúð í Kópavogi á heimili S á [ ], vinar ákærða Ingvars Árna. Ingvar Árni hafi verið með íbúðina að láni.
Ákærði sagði að A hafi lánað sér féð, sem hann lagði til kaupanna. Ákærði kvaðst við rannsókn málsins hafa drýgt sinn hluta kókaínsins, um 50 g, þannig að efnið varð um 90 g og hann hafi verið búinn að nota sjálfur um 10 g. Þá hafi hann afhent P 10 g fíkniefanna til sölu. Vísaði hann lögreglu á 59,52 g kókaínsins sem eftir var og ákærði geymdi á heimili sínu. Hald var lagt á efnið daginn eftir.
Ákærði sagði fyrir dómi að P hafi skuldað sér peninga og hann beðið um að fá 10 g amfetamínsins að láni til að borga ákærða skuldina til baka. Við rannsókn málsins játaði hann hins vegar að hann hafi selt P þessi 10 g. Ákærði gat ekki svarað því hversu mikið hann hafi drýgt efnið og kvaðst ekki vita hvert söluandvirði kókaíns var á þessum tíma, en hann hafi heyrt að söluverð hvers gramms væri um 10.000 krónur.
Vitnið P bar að ákærði G hafa sagt honum að fíkniefnasending með kókaíni hafi komið til landsins í varahlut í kassa merktum vitninu. Vitnið sagðist ekki vita hver magn kókaínsins var. G hafi ekki sagt honum það. G hafi sagt að pakkinn væri fyrir Ingvar og einhvern „Adda mambó”. Við rannsókn málsins sagði vitnið að G hafi tjáð honum að í pakkanum hafi verið 1,5 til 2 kg af kókaíni, en vitnið kannaðist ekki við þetta fyrir dómi. Vitnið bar þá einnig að G hafi sagt að fíkniefnasendingar frá þessum sömu aðilum, Ingvari og A, hafi verið tvær, en fyrir dómi minntist vitnið þessa ekki. Vitnið kvaðst hafa skuldað G peninga á umræddum tíma og bar að það gæti verið að hann hefði fengið hjá honum 20 g af kókaíni til að selja svo hann gæti borga skuldina. Hann hafi hins vegar ekki selt þessi efni fyrir G, enda hafi G aldrei beðið sig að selja fyrir sig fíkniefni.
Vitnið V kvaðst þekkja ákærða Ingvar Árna. Hann kvaðst aldrei hafa lánað ákærða íbúð sína að [ ] í Kópavogi.
Niðurstaða ákæruliða I.1.1. og 2.
Ákærði X hefur viðurkennt sakargiftir á hendur sér í 1.lið að öðru leyti en því að hann neitar því að kókaínið hafi verið ætluð til sölu og ákærði Z heldur því fram að efnið hafi ekki verið meira en 250 grömm og hann hafi ekki lagt meira fé til kaupanna en 350.000 krónur. Báðir hafa fullyrt að ákærði Ingvar Árni hafi staðið með þeim að kaupum og innflutningi fíkniefnanna, sem flutt voru inn í apríl 1999, sbr. 1. og 2. lið ákæru. Ákærði Ingvar Árni neitar hins vegar alfarið sakargiftum.
Ákærði X hefur staðfastlega haldið því fram að hann hafi farið með ákærða Ingvari Árna til Bandaríkjanna í apríl sl. þar sem þeir keyptu umrætt fíkniefni. Þeir hafi flutt það inn með þeim hætti sem lýst er í ákæru og ákærði Ingvar Árni hafi fengið ákærða G til að fjarlægja efnið, sem sent var með skipi Samskipa til Reykjavíkur, svo sem nánar er rakið í ákæru. Þessi framburður er í samræmi við framburð G sem hefur frá upphafi sagt að ákærði Ingvar Árni hafi komið að máli við sig og beðið sig um að fjarlægja kókaínið er það kæmi til landsins. Kveðst G hafa fengið 70.000 krónur og 15 g kókaíns sem komu í hans hlut heima hjá Z og auk þeirra tveggja hafi Ingvar Árni verið viðstaddur. Z hefur fullyrt að hann, X og Ingvar Árni hafi skipt efninu jafnt á milli sín á heimili sínu, en ákærði G hafi komið um klukkustund síðar. Framburður ákærðu X, Z og ákærða G er í meginatriðum samhljóða. Þegar framburður þeirra þriggja er virtur þykir ekki varhugavert, gegn neitun ákærða Ingvars Árna, að telja sannað að hann hafi tekið þátt í innflutningi og annarri meðferð fíkniefnanna með þeim hætti sem lýst er í 1. lið 1. Þó þykir, þegar litið er til framburðar Arnars Þór, Z og G, varhugavert að telja sannað að magn fíkniefnanna hafi verið meira en 250 g. Ákærðu X og Z hafa alfarið neitað því að efnin hafi verið ætluð til sölu. Ekkert er fram komið í málinu sem vefengir þá fullyrðingu þeirra. Magn fíkniefnanna, sem kom í hlut ákærðu hvers um sig, tæplega 80 g, en 15 g afhentu þeir ákærða G fyrir hans þátt að málinu, er ekki það mikið að fullyrða megi að það hafi verið ætlað til sölu, en ákærðu X og Z hafa báðir fullyrt að efnið hafi verið alfarið til eigin neyslu. Þykir samkvæmt þessu ósannað að ákærðu X, Z og Ingvar Árni hafi selt eitthvað af fíkniefnunum. Hins vegar telst önnur háttsemi ákærðu X og Vals, sem þeim er að sök gefin í lið 1.1 og 2 í I. kafla ákæru sönnuð með játningu þeirra, sem er í samræmi við framburð ákærða G og öðru sem fram er komið í málinu og rakið hefur verið.
Niðurstaða ákæruliðar I.1.2.
Eins og rakið er hér að framan hefur ákærði X skýlaust játað sakargiftir á hendur sér í 2. lið I. kafla ákæru að því undanskildu að hann neitar að efnið hafi verið ætlað til sölu. Hefur hann lýst innflutningi efnanna á sama veg og í 1. lið hér að framan og staðfastlega haldið því fram að ákærði Ingvar Árni hafi átt þann hlut að máli sem lýst er í þessum lið ákæru og rakið er í framburði hans hér að framan. Ákærði G hefur haldið því fram allar götur að ákærði Ingvar Árni hafi átt frumkvæðið að því að hann fjarlægði efnið úr vörslum Samskipa. Ingvar Árni hafi sem fyrr komið að máli við sig og beðið hann um þetta. X og G hafa báðir fullyrt að þegar pakkinn með fíkniefnunum var kominn til landsins hafi þeir ásamt Ingvari Árna hist á heimili nafngreinds kunningja Ingvars Árna og opnað pakkann. Samræmi er á milli framburðar X og G að öðru leyti. Þykir ekki varhugavert þegar litið er til þessa framburðar ákærðu, gegn neitun ákærða Ingvars Árna, að telja sannað að ákærðu X og Ingvar Árni hafi gerst sekir um þá háttsemi, sem þeim er að sök gefin í 2. lið I. kafla ákæru, að öðru leyti en því að gegn neitun þeirra þykir ósannað að efnin hafi verið ætluð til sölu hérlendis, enda er ekkert fram komið í málinu sem styður þá fullyrðingu ákæruvalds.
Sakarefni á hendur ákærða G, sbr. ákærulið I.3. og niðurstaða.
Ákærði G hefur játað sakargiftir á hendur sér í 3. lið I að öðru leyti en því að hann kveðst ekki hafa fengið í sinn hlut nema 70.000 krónur, þótt ákærði Ingvar Árni hafi rætt um það að hann fengi í sinn hlut 70.000 krónur frá meðákærðu hverjum um sig. Ákærði Z hefur haldið því fram að G hafi átt að fá samtals 210.00 krónur fyrir sinn þátt að málinu, 70.000 krónur frá hverjum ákærðu. Framburður X er á sama veg um þetta atriði. Segist hann hafa greitt G sinn hluta. Z kveðst hafa afhent ákærða Ingvari Árna sinn hlut peninganna sem greiða átti G þar sem Z kveðst hafa verið á sjó. Þessu hefur Ingvar Árni hins vegar alfarið neitað. Með framburði ákærða G og X og Z þykir sannað að ákærði G hafi gerst sekur um þá háttsemi sem honum er að sök gefin að öðru leyti en því að gegn neitun hans þykir ósannað að hann hafi fengið í sinn hlut nema 70.000.
Ákærði G hefur einnig játað sakargiftir á hendur sér í 3. lið 2. að öðru leyti en því að hann neitar því að hafa ætlað að selja sinn hlut efnisins. Kveðst hann hafa ætlað að neyta þeirra sjálfur. Hann neitar því einnig að P hafi ætlað að selja fyrir hann 10 g efnisins, sem ákærði afhenti honum. Ákærði heldur því fram að hann hafi verið í mikilli fíkniefnaneyslu á þeim tíma sem hér um ræðir og hafi efnið sem hann fékk í sinn hlut verið ætlað til eigin neyslu. Ekkert er fram komið sem styður þá fullyrðingu að ákærði hafi ætlað að selja þau tæplega 60 g, sem fundust á heimili hans. Efnismagnið eitt og sér styður ekki heldur þá niðurstöðu. Samkvæmt þessu er ósannað, gegn neitun ákærða, að hann hafi ætlað efnið til sölu. Ákærði játaði við rannsókn málsins að hafa selt P umrædd 10 g af kókaíni. Framburður hans fyrir dómi um það að P hafi skuldað sér peninga og P beðið um að fá þetta að láni til að borga ákærða peninginn til baka kemur heim og saman við vætti P, sem játti því fyrir dómi að hann hafi skuldað G peninga á umræddum tíma og kvað það gæti verið að hann hafi fengið hjá honum 20 g af kókaíni til að selja svo hann gæti borgað skuldina. Ljóst er af framburði ákærða og ofangreinds vitnis að ákærði hafi afhent vitninu fíkniefnin í því skyni að vitnið seldi þau til að geta greitt ákærða skuldina. Þegar til þess er litið þykir fyllilega ljóst að hann hafi afhent P efnin í söluskyni til þess að hann fengi greidda til baka skuldina. Hins vegar er ósannað að ákærði hafi fengið peningana fyrir þessi fíkniefni. Þykir samkvæmt ofangreindu og að öðru leyti með játningu ákærða, sem fær stoð í framburði X og Z fyllilega sannað að ákærði G hafi gerst sekur um þá háttsemi sem honum er að sök gefin í 3. lið 2 að því undanskildu að ósannað er, eins og að framan hefur verið lýst, að fíkniefnin hafi verið ætluð til sölu, nema ofangreind 20 g kókaíns.
Sakarefni á hendur ákærða Ingvari Árna Ingvarssyni, sbr. ákærulið II og niðurstaða.
Ákærði Ingvar Árni Þór hefur skýlaust játað sakargiftir í þessum kafla ákæru að öðru leyti en því að hann kveðst ekki hafa ætlað fíkniefnið til sölu að verulegu leyti heldur hafi hann ætlað að neyta þess sjálfur. Hann skýrði svo frá við rannsókn málsins að hann hafi farið með tveimur nafngreindum félögum sínum til þess að ná í kókaínið, sem hann átti falið við Rafstöðvarveg. Kvaðst hann hafa ætlað að neyta efnanna sjálfur, en gefa þessum félögum sínum eitthvað fyrir hjálpina við að ná í efnin. Fyrir dómi vildi hann ekki tjá sig um hvar hann fékk efnið en kvaðst hafa ætlað það til eigin nota. Hann sagðist ekki hafa neytt mikils kókaíns á þessum tíma og vissi ekki aðspurður hversu lengi efnið átti að duga sér. Þegar litið er til þess að ákærði hefur sagt að hann hafi ekki neytt mikils kókaíns á þessum tíma og hann hafði um fjórum mánuðum áður fengið í sinn hlut tæp 240 g kókaíns verður ekki fallist á þann framburð ákærða að hann hafi ætlað að neyta efnisins sjálfur. Má því telja víst að hann hafi ætlað það að verulegu leyti til sölu. Þegar litið er til þess, játningar ákærða og annarra gagna málsins, þykir fyllilega sannað að hann hafi framið þá háttsemi sem hann er ákærður fyrir í þessum kafla ákæru.
Ákærðu, X, Ingvar Árni og G, stóðu saman að innflutningi á um 580 g af kókaíni en fengu mismikið efni í sinn hlut eins og rakið var. Innflutningur svo mikils magn hættulegs fíkniefnis varðar við 173. gr. a almennra hegningarlaga. Brot allra ákærðu eru því rétt heimfærð til refsiákvæða í ákærunni.
Ákæra dagsett 9. september 1997.
Samkvæmt greinargerð lögreglu sem dagsett er í ágúst 1996 má rekja upphaf máls þessa til upplýsinga, sem bárust lögreglu 19. febrúar 1996 um að ákærði ætti nokkurt magn fíkniefna, sem hann geymdi í leiguhúsnæði að Þingholtsstræti 6 hér í borg. Daginn eftir hófst eftirlit lögreglu með húsnæðinu. Leiddi það til handtöku ákærða og fleiri manna 16. sama mánaðar og við leit í geymsluhúsnæði, sem ákærði hafði til umráða, framvísaði hann 4,3 g af amfetamíni, en ákærði viðurkenndi að eiga það efni en neitaði að eiga eða að hafa vitað um önnur efni sem fundust við leitina sbr. ákærulið 2. Ákæruvaldið hefur fallið frá ákærulið I og IV í þessari ákæru og verður því ekki fjallað um þá.
Verður nú vikið að framburði ákærða og vitna fyrir dómi.
II.
Ákærði neitar sök utan hann viðurkennir að hafa átt 4,3 g af amfetamíni sem hann framvísaði við leitina en sér hafi ekki verið kunnugt um fíkniefnin sem fundust við leit lögreglunnar 16. febrúar 1996. Ákærði bar á sama veg undir rannsókn málsins. Hann hafi tekið húsnæðið þar sem efnin fundust á leigu 2 til 3 mánuði áður en fíkniefnin fundust þar. Mikið drasl hafi verið geymt þar, en um er að ræða geymsluhúsnæði sem áður var í tengslum við veitingastað sem þarna var rekinn og var innangegnt frá veitingastaðnum inn í geymsluhúsnæðið. Ákærði lýsti því að fjöldi manns hefði haft aðgang að þessu húsnæði sem var ólæst þar til nokkru eftir að ákærði tók það á leigu, en þann tíma sem ákærði leigði það kom þar fjöldi manns að sögn ákærða.
J bar fyrir dóminum að hann hefði komið að máli við lögreglu 23. apríl 1996 og sagst vera eigandi fíkniefnanna sem fundust í leiguhúsnæði ákærða sem í þessum ákærulið greinir. Það var hins vegar ekki rétt. Hann kvað hið rétta vera það að í sig hefði hringt maður sem bað hann að greina svo frá að hann ætti fíkniefnin. Hann kvaðst viss um að ákærði ætti ekki fíkniefnin sem fundust í Þingholtsstræti 6. Hann kaus að svara ekki spurningum um hver eigandinn væri.
Q kom fyrir dóminn og var spurður um fíkniefnasamskipti við ákærða H á þessum tíma. Hann kvaðst engin slík viðskipti hafa átt við hann. Hann mundi lítið eftir þessu tímabili sökum fíkniefnaneyslu, en borin var undir hann lögregluskýrsla sem hann mundi ekki eftir.
Rannsóknarlögreglumennirnir Einar Ásbjörnsson og Steinar Kristján Ómarsson komu fyrir dóminn, en þeir unnu að rannsókn máls þessa. Þeir lýstu þeirri vinnu, en ekki þykir ástæða til að rekja vitnisburð þeirra hér.
III.
Ákærði játar sök og er skírskotað til ákærunnar um lýsingu málavaxta.
Niðurstaða sakarefnis í ákæru frá 9. september 1997.
Því var lýst að ofan að ákæruvaldið hefur fallið frá ákæruliðum I og IV í þessari ákæru.
II
Ákærði hefur ávallt neitað sök utan að hafa haft í vörslum sínum 4,3 g af amfetamíni eins og rakið var.
Svo virðist sem fjöldi manns hafi haft greiðan aðgang að Þingholtsstræti 6, bæði áður og einnig eftir að ákærði tók húsnæðið á leigu og þar var mikið af alls kyns dóti eins og fram kemur á ljósmyndum af vettvangi. Vitni hefur komið fyrir dóminn, sem virðist vita hver var eigandi efnanna, en hefur ekki viljað greina frá því hver hann er, en sagði hins vegar að það væri ekki ákærði H.
Gegn eindreginni neitun ákærða er ósannað að hann hafi vitað af þeim fíkniefnum sem fundust, utan 4,3 g af amfetamíni og einnig er ósannað að hann hafi ætlað það efni til sölu í ágóðaskyni. Ber samkvæmt þessu að sýkna ákærða af þessum ákærulið, utan vörslu á 4,3 g af amfetamíni.
III
Sannað er með skýlausri játningu ákærða, að hann hafi framið þá háttsemi sem hér um ræðir.
Brot ákærða samkvæmt þessari ákæru eru rétt heimfærð til refsiákvæða í ákærunni, en brotin hefðu ekki varðað þyngri refsingu en sekt.
Samkvæmt 1. tl. 1. mgr. 81. gr. almennra hegningarlaga 19/1940 er sök samkvæmt þessari ákæru fyrnd og er ákærði sýknaður af brotum samkvæmt henni.
Sakaferill og refsingar.
Ákærði A gekkst undir lögreglustjórasátt í mars 1999 fyrir umferðarlagabrot. Hann var einungis 18 ára gamall er hann hóf að sækja fíkniefnapakka í vörugeymslu Samskipa. Hann hefur játað brot sín hreinskilnislega og verið samvinnufús við rannsókn málsins. Han framdi brot sín í samvinnu við aðra og er það virt honum til refsiþyngingar sbr. 2. mgr. 70. gr. almennra hegningarlaga. Er það virt honum til refsilækkunar við ákvöðrun refsingar. Refsing ákærða er ákvörðuð með hliðsjón af 77. gr. almennra hegningarlaga og þykir refsingin hæfilega ákvörðuð fangelsi í 15 mánuði en til frádráttar refsivistinni komi óslitið gæsluvarðhald hans frá 18. september 1999 til dagsins í dag að telja að 5 dögum undanskildum er hann gekk laus.
Ákærði G hefur ekki fyrr sætt refsingu. Hann var 19 ára gamall er hann tók að sækja fíkniefnapakka í vörugeymslur Samskipa. Hann framdi brot sín í samvinnu við aðra og er það virt honum til refsiþyngingar sbr. 2. mgr. 70. gr. almennra hegningarlaga. Hann hefur játað brot sín hreinskilnislega og verið samvinnufús við rannsókn málsins og er það virt honum til refsilækkunar við ákvörðun refsingar. Refsing ákærða er ákvörðuð með hliðsjón af 77. gr. almennra hegningarlaga og þykir hæfilega ákvörðuð fangelsi í 3 ár og sex mánuði og komi óslitið gæsluvarðhald hans frá 11. september 1999 til frádráttar refsivistinni.
Ákærði Gunnlaugur gekkst undir dómsátt á árinu 1989 fyrir umferðarlagabrot og lögreglustjórasátt árið 1992 fyrir umferðarlagabrot. Hann hlaut sektardóm fyrir umferðarlagabrot á árinu 1994 og þá hlaut hann 10 daga fangelsisdóm í Danmörku í maí 1999 en ekki verður ráðið af gögnum málsins fyrir hvaða brot það var. Ákærði flutti mikið magn fíkniefna til landsins og seldi að miklu leyti eins og rakið hefur verið. Hann framdi brot sín að hluta í samvinnu við aðra og er það virt ákærða til refsiþyngingar sbr. 2. mgr. 70. gr. almennra hegningarlaga. Hann notfærði sér aðstöðu sína sem starfmaður Samskipa hf. og brást trausti sem starfsmaður skipafélags. Brot ákærða eru stórfelld og þaulskipulögð. Hann hefur hins vegar játað brot sín hreinskilnisnlega og er það virt honum til refsilækkunar. Refsing ákærða er ákvörðuð með hliðsjón af 77. gr. almennra hegningarlaga og þykir hæfilega ákvörðuð fangelsi í 4 ár og sex mánuði en frá refsinguni dragist óslitið gæsluvarðhald hans frá 27. september 1999 er hann var úrskurðaður í gæsluvarðhald í Danmörku en síðan hér á landi 29. s.m. til dagsins í dag að telja.
Ákærði H gekkst á árunum 1981-1991 undir 6 dómsáttir fyrir umferðar- og áfengislagabrot. Hann hlaut 18 mánaða fangelsisdóm fyrir fíkniefnabrot í júní 1994 og reynslulausn hlaut hann á 270 daga eftirstöðvum refsingar í júlí 1995. Hann rauf skilyrði reynslulausnarinnar og var hún dæmd upp með dómi í september 1996 er hann hlaut 10 mánaða skilorðsbundið fangelsi fyrir skilasvik. Brot ákærða eru stórfelld en hann sendi hingað til lands 13 kg af kannabis og seldi 10 kg. Hann framdi brot sín í samvinnu við aðra og er það virt til refsiþyngingar sbr. 2. mgr. 70. gr. almennra hegningarlaga. Ákærði játaði brot sín hreinskilnislega og er það virt honum til refsilækkunar við ákvörðun refsingar. Refsing ákærða er ákvörðuð með hliðsjón af 77. gr. almennra hegningarlaga og þykir hæfilega ákvörðuð fangelsi í 2 ár og sex mánuði en til frádráttar refsivistinni komi óslitið gæsluvarðhald ákærða frá 27. september 1999 er hann var úrskurðaður í gæsluvarðhald í Danmörku en síðan hér á landi 29. s.m. til dagsins í dag að telja.
Ákærði Ó gekkst undir dómsátt fyrir umferðarlagabrot árið 1991. Þá gekkst hann undir viðurlagaákvörðun á árinu 1992 fyrir fíkniefnabrot og aftur árið 1994 fyrir sams konar brot. Brot ákærða eru stórfelld og varða innflutning og sölu mikils magns fíkniefna af flestum gerðum, eins og rakið var þar, á meðal eru fíkniefni með mikla hættueiginleika. Þá framdi hann brotin í samvinnu við aðra og er það virt til refsiþyngingar sbr. 2. mgr. 70. gr. almennra hegningarlaga. Efnin sem lagt var hald á og voru í eigu ákærða voru ætluð til söludreifingar hér á landi. Brot ákærða eru stórfelld og þaulskipulögð. Refsing hans er ákvörðuð með hliðsjón af 77. gr. almennra hegningarlaga. Refsing ákærða þykir hæfilega ákvörðuð fangelsi í 9 ár en til frádráttar refsivistinni komi óslitið gæsluvarðhald ákærða frá 11. september 1999 til dagsins í dag að telja.
Ákærði Sverrir Þór hefur frá árinu 1988 gengist undir 4 dómsáttir fyrir umferðar- og fíkniefnabrot. Frá árinu 1992 hefur hann gengist undir 3 lögreglustjórasáttir fyrir umferðar- og fíkniefnabrot. Frá árinu 1991 til ársins 1995 hlaut hann 4 refsidóma fyrir þjófnað, fjársvik og fíkniefnabrot. Hann hlaut síðast refsingu er hann gekkst undir lögreglustjórasátt í september 1998 fyrr umferðarlagabrot. Brot ákærða eru stórfelld og þaulskipulögð og varða innflutning og kaup og sölu mikils magns fíkniefna af flestum gerðum, eins og rakið, var þar á meðal eru fíkniefni með mikla hættueiginleika. Hann framdi brotin í samvinnu við aðra og er það virt til refsiþyngingar við refiákvörðun sbr. 2. mgr. 70. gr. almennra hegningarlaga. Refsing hans er ákvörðuð með hliðsjón af 77. gr. almennra hegningarlaga. Refsing ákærða þykir hæfilega ákvörðuð fangelsi í 7 ár og sex mánuði en til frádráttar refsivistinni komi óslitið gæsluvarðhald ákærða frá 11. september 1999 til dagsins í dag að telja.
Ákærði Æ hlaut skilorðsbundið fangelsi á árinu 1993 fyrir skjalafals. Hann hefur játað brot sín hreinskilnislega og er það virt honum til refsilækkunar við ávörðun refsingar. Hann hafði í vörslum sínum mikið magn fíkniefna sem hann vissi að voru ætluð til dreifingar hér á landi. Eins og þátttöku hans er háttað þykir refsing hans hæfilega ákvörðuð fangelsi í 2 ár en frá refsivistinni komi óslitið gæsluvarðahald hans frá 11. september 1999 til dagsins í dag að telja.
Ákærði R hefur frá árinu 1990 hlotið 8 refsidóma fyrir þjófnað, skjalafals, fíkniefnabrot o.fl. brot. Hann hlaut síðast refsingu er hann gekkst undir lögreglustjórasátt í júlí sl. fyrir fíkniefnabrot. Brot ákærða eru stórfelld og framin í samvinnu við aðra og er það virt til refsiþyngingar sbr. 2. mgr. 70. gr. almennra hegningarlaga. Refsing hans þykir hæfilega ávörðuð fangelsi í 4 ár en til frádráttar refsivistinni komi óslitið gæsluvarðhald ákærða frá 2. október 1999 að telja.
Ákærði Júlíus Kristófer hefur frá árinu 1988 gengist undir 3 dómsáttir fyrir umferðarlagabrot. Þá gekkst hann undir lögreglustjórasátt á árinu 1995 fyrir umferðarlagabrot. Hann hlaut 2 ára fangelsisdóm fyrir fíkniefnabrot hinn 28. nóvember 1995. Hann hlaut reynslulausn í 2 ár á 450 daga eftirstöðvum refsingar hinn 10. ágúst 1997 og hefur hann staðist reynslulausnina en ákærði var handtekinn vegna rannsóknar þessa máls 1. október sl. en þá var reynslulausnartíminn liðinn. Brot ákærða eru stórfelld og varða kaup, innflutning og sölu mikils magns fíkniefna í samvinnu við aðra og er það virt ákæra til þyngingar við ákvöðrun refsingar sbr. 2. mgr. 70. gr. almennra hegningarlaga. Refsing ákærða er ákvörðuð með hliðsjón af 77. gr. almennra hegningarlaga og þykir hæfilega ákvörðuð fangelsi í 5 ár og sex mánuði en til frádráttar refsvistinni skal draga óslitið gæsluvarðhald ákærða frá 24. september 1999 til dagsins í dag að telja.
Ákærði Þ á að baki langan sakaferil. Hann hefur frá árinu 1978 hlotið 19 refsidóma fyrir ýmis konar afbrot. Síðast hlaut ákærði dóm 17. mars sl., 7 mánaða fangelsi fyrir þjófnað. Ber nú að dæma hegningarauka við þann dóm sbr. 78. gr. almennra hegningarlaga. Með vísan til ofanritaðs þykir eftir atvikum rétt að gera ákærða ekki sérstaka refsingu í máli þessu.
Ákærði Valgarð Heiðar hefur hlotið 12 refsidóma frá árinu 1990 fyrir þjófnað, skjalafals, fíkniefna- og umferðarlagabrot o.fl. Hann hlaut síðast dóm í febrúar á þessu ári fyrir brot gegn reglugerð nr. 378/1998 og ber nú að dæma hegningarauka við þann dóm sbr. 78. gr. almennra hegningarlaga. Ákærði keypti og seldi að hluta hættuleg fíkniefni. Refsing hans þykir hæfilega ákvörðuð fangelsi í 3 ár.
Ákærði M hefur ekki fyrr sætt refsingu. Refsing hans þykir hæfilega ákvöðruð fangelsi í 2 mánuði en fresta skal fullnustu refsingarinnar skilorðsbundið í 2 ár frá uppsögu dómsins að telja og falli refsingin niður að þeim tíma liðnum haldi ákærði almennt skilorð 57. gr. almennra hegningarlaga nr. 19/1940, sbr. 4. gr. laga nr. 22/1955.
Ákærði X hefur frá árinu 1991 gengist undir tvær sáttir fyrir umferðarlagabrot. Hann hlaut á árunum 1993 til 1995 3 refsidóma fyrir umferðarlagabrot og fyrir brot gegn 219. gr. almennra hegningarlaga, nytjastuld, þjófnað og eignaspjöll. Hann hlaut síðast dóm í maí 1995. Hann hlaut reynslulausn í nóvember 1995 í eitt ár og stóðst hana. Ákærði framdi brot sín í samvinnu við aðra og er það virt til þyngingar við ákvörðun refsingar sbr. 2. mgr. 70. gr. almennra hegningarlaga. Hann hefur játað brot sín hreinskilnislega og er það virt honum til refsilækkunar við refsiákvörðun. Refsing ákærða er ákvörðuð með hliðsjón af 77. gr. almennra hegningarlaga og þykir hæfilega ákvörðuð fangelsi í 18 mánuði.
Ákærði Z hefur þrívegis gengist undir sátt með greiðslu sektar á árunum 1990-1992, þar af tvisvar, árin 1990 og 1991, fyrir hegningarlagabrot. Hann hefur ekki fyrr sætt refsidómi. Hann hefur játað brot sitt hreinskilnislega og er það virt til refsilækkunar við refsiákvöðrun. Refsing hans þykir hæfilega ákvörðuð fangelsi í 10 mánuði.
Ákærði Ingvar Árni gekkst undir sátt í október 1991 með greiðslu sektar fyrir líkamsárás, brot gegn 1. mgr. 217. gr. almennra hegningarlaga. Þá hlaut hann tvo refsidóma árið 1994, þann fyrri í júní, 8 mánaða fangelsi, skilorðsbundið í 3 ár fyrir meiri háttar líkamsárás, brot gegn 2. mgr. 218. gr. almennra hegningarlaga og þann síðari í október, 20.000 króna sekt fyrir eignaspjöll. Ákærði var ekki fullra 18 ára er hann framdi brotin, sem hann hefur áður verið sakfelldur fyrir. Refsing ákærða er ákvörðuð með hliðsjón af 77. gr. almennra hegningarlaga og þykir hæfilega ákvörðuð fangelsi í 2 ár og sex mánuði en til frádráttar refsivistinni komi 5 daga gæsluvarðhald ákærða.
Vegna frádráttar gæsluvarðhalds hinna ákærðu er í öllum tilvikum vísað til 76. gr. almennra hegningarlaga en einnig er dreginn frá refsivistinni hluti gæsluvarðhalds ákærðu Gunnlaugs og H sem þeir sættu í Danmörku áður en þeir voru fluttir hingað til lands vegna málsins.
Upptaka eigna.
Verjandi ákærða R krefst sýknu af kröfu ákæruvalds um upptöku á hendur honum. Verjendur annarra ákærðu, sem upptökukröfur beinast að, hafa krafist þess aðallega, að kröfum um upptöku sem svari til ávinnings ákærðu af brotum þeirra sé vísað frá dómi, en til vara er krafist sýknu. Kröfurnar um frávísun eru á því byggðar að í 2. lið IV. kafla ákæru 17. apríl, 18. apríl og 19. apríl sl. séu tilgreindar fjárhæðir sem gera eigi upptækar án þess að nánar komi fram á hverju þær fjárhæðir byggist. Kröfurnar séu bæði óljósar og vanreifaðar.
Dómurinn telur með vísan til d-liðar 116. gr. laga um meðferð opinberra mála nr. 19/1991 að nægilegt sé að geta í ákæru þeirrar fjárhæðar sem upptökukrafan lýtur að án frekari útreikninga eða reifunar þar. Við munnlegan málflutning reifaði sækjandi sjónarmið að baki krafnanna og útskýrði þær nánar svo sem venja er. Þó fallast megi á það með verjendum ákærðu að erfitt sé að henda reiður á því á hverju sumar fjárhæðirnar eru byggðar, var vörnum ekki áfátt að þessu leyti. Verður samkvæmt framansögðu ekki fallist á að vísa beri upptökukröfunum frá dómi.
Rétt þykir áður en fjallað verður um hverja ákæru fyrir sig að víkja almennt að kröfum ákæruvalds í 2. lið IV. kafla framangreindra ákæra, sem lúta að upptöku á tilgreindum fjárhæðum sem svara til ávinnings af brotum þeirra. Kröfum þessum til stuðnings er vísað til 3. tl. 1. mgr. 69. gr. almennra hegningarlaga nr. 19/1940, sbr. 2. gr. laga nr. 10/1997 og 7. mgr. 5. gr. laga nr. 65/1974, sbr. 7. gr. laga nr. 10/1997. Heimildin í 3. tl. 1. mgr. 69. gr. til jafnvirðisupptöku er valkvæð, þ.e. heimilt er að gera upptæka muni eða ávinning, sem aflað hefur verið með broti, og enginn á löglegt tilkal til, eða fjárhæð, sem svarar til slíks ávinnings. Ljóst er af kröfugerðinni að byggt er á því af hálfu ákæruvalds að gera eigi upptækt jafnvirði ávinnings, án tillits til þess hvort fyrir hendi séu tilgreindir fjármunir, sem ganga megi að. Vísar ákæruvaldið í kröfum sínum um jafnvirðisupptöku aðeins að nokkru leyti til sérgreindra fjármuna. Af hálfu ákærðu er því haldið fram að upptöku ágóða eða jafnvirðis hans verði ekki beitt nema fyrir hendi séu sérgreindar eignir sem vísað sé til í ákæru og ganga megi að til fullnustu upptökukröfunni, ella sé ákæruvaldið í raun að gera aðfararhæfa fjárkröfu samkvæmt dómi sem fyrnist á 10 árum. Sú heimild sé ekki fyrir hendi í þeim upptökuákvæðum sem vísað er til í ákærunum og sé í andstöðu við 72. gr. stjórnarskrár lýðveldisins Íslands og 1. gr. samningsviðauka nr. 1 við mannréttindasáttmála Evrópu, sbr. lög nr. 62/1994.
Markmið upptöku ágóða og jafnvirðis hans byggist meðal annars á refsikenndum uppeldis- og varnaðarsjónarmiðum, þ.e. brotamanni á ekki að líðast að komast hjá upptöku með því að losa sig við ólöglegan ágóða, eyða eða koma honum undan, en hafa samt hagnað af brotinu. Upptaka 3. tl. 1. mgr. 69. gr. almennra hegningarlaga beinist að ólöglegum ágóða og jafnvirði hans vegna refsiverðs verknaðar og verður upptöku beitt þótt ekki sé vísað í ákæru til tilgreindra eigna, sem kunna að vera fyrir hendi til fullnustu upptöku, og óháð því hvort eignir séu fyrir hendi á þeim tíma er dómstólar ákvarða hana. Önnur niðurstaða myndi leiða til þess að hún næði ekki framangreindu markmiði sínu. Samkvæmt framansögðu er ekki fallist á að ákvæði 3. tl. 1. mgr. 69. gr. um jafnvirðisupptöku brjóti í bága við tilvitnuð eignaréttarákvæði stjórnarskrárinnar og/eða mannréttindasáttmála Evrópu.
Fram kom í málflutningi sækjanda, að ákæruvaldið byggir kröfur sínar um upptöku jafnvirðis ágóða á söluhagnaði fíkniefnanna án frádráttar kostnaðar við kaup þeirra. Þessi krafa er þó í andstöðu við skýrt orðalag í ákæruskjölunum, en eins og að framan greinir er þar gerð krafa um að ákærðu sæti upptöku á „eftirgreindum fjárhæðum sem svari til ávinnings ákærðu...” Dómurinn telur að við ákvörðun á upptöku ágóða beri að draga kaupverð fíkniefnanna frá söluverði þeirra, en ekki er fallist á það að draga beri frá ýmsan kostnað vegna greiðslna til meðákærðu t.d.vegna flutnings, afhendingar eða sölu. Verður við þetta miðað er ágóði af brotum ákærðu verður metinn, sbr. hér á eftir er fjallað verður um upptökukröfur á hendur ákærðu hvers um sig.
Ákæra dagsett 17. apríl sl.
Ákærði A.
Ákærði hefur verið sakfelldur fyrir að hafa fjarlægt fíkniefni í 5 skipti úr gámum Samskipa og afhent þau til söludreifingar. Hann viðurkenndi við yfirheyrslu og fyrir dómi við rannsókn málsins að hann hafi fengið í sinn hlut um 50 þúsund krónur fyrir hvert skipti. Ákærði Gunnlaugur telur að ákærði hafi fengið í sinn hlut um 400 þúsund krónur, 50-100 þúsund krónur í hvert skipti. Við meðferð málsins kvaðst ákærði A hins vegar hafa fengið 20-30 þúsund krónur fyrir hvert skipti. Hann hefur ekki getað skýrt afturköllun fyrri framburðar síns og hún er í ósamræmi við framburð bróður hans Gunnlaugs. Samkvæmt þessu verður lagt til grundvallar að ákærði hafi fengið í sinn hlut allt að 300 þúsund krónur. Skal hann sæta upptöku á jafnvirði þeirrar fjárhæðar til ríkissjóðs með vísan til 3. tl. 1. mgr. 69. gr. almennra hegningarlaga.
Ákærði G.
Fram er komið að ákærði G fjarlægði fíkniefni úr gámum Samskipa í a.m.k. 10 skipti. Hann hefur haldið því fram við meðferð málsins að hann hafi fengið í sinn hlut samtals um 500-700 þúsund krónur. Ákærði Gunnlaugur telur hins vegar að hann hafi fengið greitt um 50-100 þúsund krónur í peningum fyrir hverja fíkniefnasendingu sem hann fjárlægði, samtals um 750 þúsund til 1 milljón króna. Við yfirheyrslu hjá lögreglu og fyrir dómi við rannsókn málsins kvaðst ákærði hafa fengið 50 þúsund krónur í hvert skipti fyrir að fjarlægja fíkniefni úr hverri sendingu af hassi í hvert sinn. Samkvæmt þessu þykir ekki óvarlegt að áætla að ágóði ákærða hafi verið um 700 þúsund krónur og skal ákærði sæta upptöku á jafnvirði þeirrar fjárhæðar með vísan til ofangreindra upptökuákvæða almennra hegningarlaga.
Ákærði G fékk mótorhjól hjá ákærða Gunnlaugi, sem ákærðu G og Ó hafa báðir sagt við meðferð málsins að G hafi átt að greiða 200 þúsund krónur fyrir, en G hafi ekki verið búinn að því er hann var hnepptur í gæsluvarðhald vegna rannsóknar máls þessa. Þetta hafi verið viðskipti sem ekki komu fíkniefnum við. Ákærði Gunnlaugur kveðst hins vegar hafa gefið G hjólið í vináttuskyni. Borið var undir Gunnlaug við meðferð málsins símtal sem hann kannaðist við að hafa átt við ákærða Ó 28. ágúst sl. Þar kemur fram að Gunnlaugur spyr Ó hvort hann sé búinn að heyra í Gg (gælunafn G) og segja honum gleðitíðindin. Játar Ó því og kveður hann hafa verið ánægðan með tíðindin. Síðar í símtalinu segir ákærði Gunnlaugur að þeir megi „ekki missa hann” og svarar Ó því til að hann hafi sagt honum (Gg) að ”passa sig að keyra hægt”. Ákærði Gunnlaugur sagði að þessi ummæli væru vegna væntumþykju gagnvart G. Sama símtal var borið undir ákærða Ó við rannsókn málsins 27. október sl. Kannaðist hann við að hafa átt þetta símtalið við Gunnlaug og skýrði svo frá, að G hefði átt að fá mótorhjólið frá þeim H og Gunnlaugi í þakkarskuld fyrir þátt hans í innflutningi fíkniefnanna. Kvaðst ákærði Ó hafa keypt hjólið á 200 þúsund krónur um sumarið, en látið það upp í skuld á sama verði til H og Gunnlaugs vegna fíkniefnaviðskipta. Ákærði H kannast ekki við að hafa komið hér að máli, en sagðist hafa heyrt eitthvað um þetta hjá meðákærðu Gunnlaugi og Ó. Hann kannaðist ekki við að sá síðarnefndi hafi ætlað að lækka skuld sína við hann með því að láta G hafa hjólið. Ákæruvaldið byggir á því að hér hafi verið um greiðslu vegna fíkniefnaviðskipta að ræða og gerir kröfu til þess að andvirði þessa ávinnings verði gerður upptækur.
Framburður ákærðu er á reiki um mótöku ákærða G á mótorhjólinu. Ákærði Gunnlaugur hefur haldið því fram að um gjöf hafi að ræða og styður ofangreint símtal ákærðu Gunnlaugs og Ó og framburður þess síðarnefnda við rannsókn málsins þá niðurstöðu að um gjöf en ekki sölu hafi verið að ræða, sem hafi verið umbun til ákærða G vegna þáttar hans í innflutningi fíkniefnanna. Ákærði Ó hefur ekki skýrt afturköllun fyrra framburðar síns fyrir dómi og þykir síðari framburður hans ekki trúverðugur. Þegar framangreint er virt þykir hafið yfir allan skynsamlegan vafa að mótorhjólið hafi verið umbun vegna fíkniefnakaupa og ber að gera upptækt jafnvirði þess, 200.000 krónur. Skal ákærði samkvæmt þessu sæta upptöku til ríkissjóðs samtals á jafnvirði 900 þúsund króna með vísan til 3. tl. 1. mgr. 69. gr. almennra hegningarlaga, þar á meðal á því reiðufé, sem vísað er til í lið 2.2. í kaflanum um dómkröfur.
Af hálfu ákæruvalds er þess aðallega krafist að ákærðu Gunnlaugur og H sæti upptöku in solidum, en til vara upptöku pro rata. Fram er komið í málinu að ákærðu stóðu saman að innflutningi mikils magns fíkniefna í ágóðaskyni. Þáttur þeirra er þó misstór og sannað þykir að Gunnlaugur hafi flutti inn mun meira magn fíkniefna og haft mun meiri ágóða af sölu þeirra en H, eins og að framan er nánar rakið. Verður því að hafna þeirri kröfu ákæruvalds að þeir sæti upptöku in solidum og verður kröfu um upptöku á hendur hvorum um sig leystur sér, sbr. hér að neðan.
Ákærði Gunnlaugur.
Samkvæmt framburði ákærðu Gunnlaugs og Ó voru þeir búnir að gera út um kaup á tveimur kg hassins sem fjallað er um í lið 1.1 og hafði Ó greitt fyrir þau 1.4 milljónir króna. Hins vegar er upplýst að ákærði fékk ekki greiðslu fyrir hin tvö kílóin. Þá er fram komið að Gunnlaugur sendi enn fremur hingað til lands í 15-17 skipti um 21 kg af hassi og seldi þeim sem um er getið í lið 1.2. Kveðst hann hafa keypti hvert kg í Danmörku á tæpar 20-30 þúsund danskar krónur, eða tæplega 200-300 þúsund ísl. krónur, og selt hvert kg á frá 700-900 þúsund krónur. Algengasta söluverð hafi verið um 750 þúsund krónur. Það verð er í samræmi við framburð meðákærða H, þótt ákærðu Ó og Sverrir telji meðalsöluverð hafa verið um 50 þúsund krónum lægra. Samkvæmt þessu verður lagt til grundvallar að ágóði ákærða af fíkniefnasölu sinni hafi numið um 500 þúsund krónum af hverju kg og telst því ágóði hans af sölu 21 kg af hassi hafa numið um 10.5 milljónum króna. Skal ákærði samkvæmt þessu með vísan til 3. tl. 1. mgr. 69. gr. almennra hegningarlaga sæta upptöku til ríkissjóðs samtals á jafnvirði 11.9 milljónum króna, þar á meðal á því reiðufé, sem vísað er til í lið 2.3.1. í kaflanum um dómkröfur.
Ákærði H.
Upplýst er að ákærði H sendi hingað til lands 3 kg af þeim 7 kg af hassi, sem lögregla lagði hald á 9. september sl., og til tals kom milli ákærðu Sverris Þórs og H að Sverrir Þór keypti efnið, en úr því varð ekki. Ákærði H staðhæfir að hann hafi keypt hvert kg efnisins á 250-300 þúsund krónur. Fram er komið að hann seldi 10 kg hassins, sem fjallað er um í lið 2.2, hvert kg á 700-800 þúsund krónur, eins og getið er um hér að framan. Framburður hans um söluverðið er í samræmi við framburð ákærða Ó, sem keypti af honum 4 kg og kveðst hafa keypt hvert kg fyrir allt að 700 þúsund krónur og fær einnig stoð í framburði ákærða Gunnlaugs, sem ber að söluverðið hafi verið að meðaltali um 750 þúsund krónur hérlendis á þessum tíma. Ákærði Sverrir, sem keypti af ákærða H 6 kg, telur hins vegar að meðalverð hafi verið um 50 þúsund krónum lægra. Framburður ákærða H um kaupverð hass í Danmörku er einnig á sama veg og framburður Gunnlaugs. Þegar framangreint er virt verður við það miðað að ágóði H af hverju kg hass hafi að meðaltali numið um 475 þúsund krónum. Telst ágóði hans af fíkniefnasölunni því hafa numið 4.750.000 krónum. Skal ákærði sæta upptöku til ríkissjóðs á jafnvirði þeirrar fjárhæðar með vísan til 3. tl. 1. mgr. 69. gr. almennra hegningarlaga, þar á meðal á þeim fjármunum, sem vísað er til í a- og b liðum 2.3.2. liðar í kaflanum um dómkröfur.
Ákærði Júlíus og N.
Með vísan til þess að ósannað er að ákærði Júlíus Kristófer hafi selt umrædd fíkniefni og hlotið ávinning af brotum sínum er kröfu á hendur honum og ákærðu N um upptöku hafnað og eru bæði þessi ákærðu sýknuð af upptökukröfu samkvæmt þessari ákæru.
Ákærði Ó.
Ákærði hefur verið sakfelldur fyrir að hafa móttekið fyrir milligöngu meðákærða G 10 kg af kannabis, 4 kg hjá ákærða H og 6 hjá ákærða Gunnlaugi. Eins og að framan greinir seldi H hvert kg af hassinu á 700-800 þúsund krónur og meðalverð hvers kg sem Gunnlaugur seldi var 750 þúsund krónur. Ákærði Ó kveðst hins vegar hafa keypt hvert kg á 650-700 þúsund og selt það á 900 þúsund til 1 milljón króna. Verður samkvæmt framansögðu við það miðað að ágóði hans af hverju kg hafi verið um 300 þúsund krónur. Telst ágóði hans af fíkniefnasölu ofangreindra 10 kg af hassi því hafa numið 3 milljónum króna. Með vísan til til 3. tl. 1. mgr. 69. gr. almennra hegningarlaga skal ákærði sæta upptöku á jafnvirði þeirrar fjárhæðar til ríkissjóðs, þar á meðal á þeim fjármunum, sem vísað er til í liðum a-d liðum 2.6. liðar í kaflanum um dómkröfur.
Ákærði Sverrir Þór.
Fram er komið að ákærði Sverrir Þór tók við 30 kílóum af hassi hjá meðákærðu Gunnlaugi og H með milligöngu ákærðu A og G, og seldi eins og nánar hefur verið rakið. Hann kveðst yfirleitt hafa selt efnið í kílóavís, en þó stundum í grömmum og þá á ýmsu verði, meðalverð á grammi hafi verið um 1.000 krónur og meðalverð hvers kg um 1 milljón króna. Kaupverð hvers kílós hafi verið að meðaltali um 700 þúsund krónur, þótt það hafi stundum farið allt upp í 900 þúsund krónur. Ákærði Gunnlaugur segist hafa selt efnið á 750-900 þúsund krónur, en að algengasta verðið hafi verið um 750 þúsund krónur. Ákærði H kveðst hafa selt hvert kíló á 700-800 þúsund krónur. Þegar til þessa framburðar ákærðu er litið verður lagt til grundvallar að ágóði ákærða af fíkniefnasölu sinni hafi numið um 300 þúsund krónum af hverju kílói. Telst ágóði hans í heild því hafa numið samtals 9 milljónum króna. Sú fjárhæð kemur einnig heim og saman við framburð ákærða sem kveðst hafa fengið um 8-10 krónur í hagnað fyrir fíkniefnasöluna. Skal ákærði sæta upptöku á jafnvirði framangreinds ágóða með vísan til 3. tl. 1. mgr. 69. gr. almennra hegningarlaga.
Ákærða Þ.
Þar sem ákærði Sverrir Þór hefur verið dæmdur til upptöku framangreinds ágóða ber að taka þá kröfu ákæruvalds til meðferðar að sambýliskonu hans, ákærðu Þ, verði gert að þola upptöku til fullnustu hluta ofangreindrar kröfu á hendur honum svo sem nánar er lýst í 2. lið og lið 2.7.1 í ákæru. Ákæruvaldið krefst þess að henni verði, með vísan til 3. tl. 1. mgr. 69. gr. almennra hegningarlaga, eins og henni hefur verið breytt með 2. gr. laga nr. 10/1997, og 7. mgr. 5. gr. ofangreindra ávana- og fíkniefnalaga, gert að sæta upptöku á 2.594.140 krónum, „sem er gjöf til hennar, innt af hendi 1. júní 1999 með peningum í eigu ákærða, vegna kaupa Þ á 50% eignarhluta í fasteigninni [ ], Reykjavík, 2. hæð og ris, ásamt bílskúr.”
Ákærða Þ var yfirheyrð við rannsókn og meðferð málsins. Hún hefur staðfastlega haldið því fram að þetta fé hafi ekki verið gjöf til hennar heldur hafi þau ákærði, sem hafi þekkst í eitt og hálft ár, gert upp og selt með nokkrum ávinningi, íbúðir sem voru í eigu ákærða Sverris Þórs að [ ] og [ ]. Þau hafi sjálf unnið við ýmsar lagfæringar og lagt út í kostnað við þær. Hún hafi lagt í þessar endurbætur um 50-100 þúsund krónur, en ekki haldið til haga reikningum vegna efniskaupa til lagfæringanna. Hún treysti sér ekki til að segja hversu mikið endurbæturnar hafi aukið verðmæti eignanna. Það hafi orðið að samkomulagi þeirra á milli að afraksturinn myndi ganga upp í sameiginleg íbúðarkaup. Þau hafi saman fest kaup á íbúðinni að [ ] 4 í júní sl. og greitt umrædda fjárhæð við undirritun kaupsamnings 1. júní 1999. Kaupsamningur þessi liggur frammi. Samkvæmt honum greiddu þau í peningum við kaupsamningsgerð 5.188.864 krónur.
Við meðferð málsins voru lögð fram afsöl vegna kaupa ákærða á íbúðum að [ ], dagsett 4. apríl 1995 og [ ], dagsett 24. mars 1998. Síðargreindu íbúðina keypti hann af fyrrum eiginkonu sinni. Í afsölunum kemur fram að ákærði keypti báðar íbúðirnar sömu daga og afsöl voru gerð. Ekki liggja frammi kaupsamningar vegna kaupa þeirra eða önnur gögn sem upplýsa um kaupverð og greiðslutilhögun, að undanskildu skattaframtali ákærða fyrir rekstrarárið 1998. Samkvæmt því skattframtali var íbúðin að [ ] metin að fasteignamatsverði á rúmar 2.4 milljónir krónur í árslok 1998 og íbúðin að [ ] á 8.384 milljónir króna. Þessar eignir seldi ákærði á síðastliðnu ári. Frammi liggja kaupsamningar vegna sölu ákærða á íbúðunum. Íbúðina að [ ] seldi hann í janúar D fyrir 4 milljónir króna. Samkvæmt þeim kaupsamningi fékk hann greiddar við gerð kaupsamnings 1 milljón krónur og 1. mars 1999 500 þúsund krónur. Íbúðina að [ ] seldi hann í mars Fiskverkun Ásbergs ehf. á 9 milljónir króna og fékk greiddar við gerð kaupsamnings 3.990.426 krónur.
Ákærði Sverrir Þór kveðst hafa fengið á síðasta ári um 3,6 milljón króna ágóða af sölu ofangreindra tveggja íbúða. Þessi ágóði hafi ekki verið færður á skattframtal hans, þar sem hann hafi ekki skilað því. Samkomulag hafi verið milli hans og Þ að þau skiptu jafnt þessum hagnaði, sem aðallega hafi orðið vegna vinnuframlags þeirra við endurbæturnar. Hann segist hafa keypt íbúðina í Frostafold á 6,4 milljónir og er það í samræmi við það sem fram kemur í skattframtali hans rekstrarárið 1998. Hann kveðst hafa keypt íbúðina á [ ] á 3 milljónir króna. Hann hafi einnig leigt íbúðirnar í einhvern tíma og haft af því leigutekjur, sem ekki komi fram á skattframtali.
Óumdeilt er að ákærði innti af hendi umrædda útborgun fyrir sig og sambýliskonu sína. Ákærði Sverrir Þór hefur haldið því fram að auk tekna sinna af fíkniefnasölu og verktakavinnu á síðasta ári hafi hann fengið um 3,6 milljónir króna það ár í ágóða af sölu ofangreindra tveggja íbúða, þar af 1 milljón vegna íbúðarinnar á [ ]. Hann hefur ekki lagt fram gögn um kaup sín á síðargreindri eign. Ákærða Þ hefur haldið því fram að sinn helmingur útborgunarinnar í [ ], sem krafist er að hún þoli upptöku á, hafi verið afrakstur endurbóta ofangreindra fasteigna, sem þau ákærðu lögðu vinnu og efni í.
Ákærði skilaði ekki skattframtali sínu vegna rekstrarársins 1999, en samkvæmt skattframtali tekjuársins 1997 voru tekjur hans rúmlega 1,2 milljónir króna og tekjuárið 1998 voru tekjur hans 313 þúsund krónur, þ.e. reiknað endurgjald við eigin atvinnurekstur hans vegna ótilgreindrar starfsemi. Þá gaf hann upp til skatts 520 þúsund krónur í leigutekjur. Ráðstöfunartekjur hans á árinu 1998 voru því afar litlar. Ekkert er fram komið um tekjur hans á fyrri hluta síðastliðins árs, en ákærði hefur haldið því fram að hann hafi haft einhverjar tekjur af verktakastarfsemi.
Ákæruvaldið hefur sönnunarbyrðina fyrir því hvort hin umdeilda fjárhæð hafi stafað af fíkniefnasölu ákærða og hvort hún var gjöf til meðákærðu. Fram er komið að á þeim tíma er ákærði greiddi innborgunina var hann í umfangsmiklum fíkniefnaviðskiptum og nam ágóði hans af þeim á þriðja tug milljóna á tímabilinu frá ársbyrjun 1998 til september 1999, sbr. og það sem síðar verður rakið um ákæru 18. apríl hér á eftir. Laun og aðrar tekjur hans og Þ voru óveruleg á þessum tíma. Ekki þykir því ósennilegt að innborgunin hafi verið reidd af hendi með ágóða af fíkniefnasölu. Þegar litið er til framangreindra gagna um kaup og sölu íbúðarinnar að [ ] verður hins vegar ekki hrakið að ákærði seldi íbúðina 2,6 milljónum krónum hærra en hann keypti hana og fékk greiddar við gerð kaupsamnings um 4 milljónir krónur svo og 1 milljón krónur við útborgun vegna sölu hans á íbúðinni á [ ]. Við innborgun við kaup á íbúðinni í [ ] 1. júní 1999 þurfti ákærði að reiða fram um 5 milljónir króna. Þegar allt framangreint er virt þykir ákæruvaldið ekki hafa hafa sýnt nægilega fram á það að sá hluti innborgunarinnar sem hér er deilt um hafi verið afrakstur fíkniefnasölu ákærða. Ber því þegar af þeirri ástæðu að hafna kröfu um upptöku á hendur ákærðu Þ og er hún því sýknuð.
Gera skal upptæk til ríkissjóðs þau fíkniefni, sem lýst er í a og b liðum 3. liðar ákæru 17. apríl, samkvæmt þeim lagaákvæðum sem vísað er til í því efni í ákæru.
Í niðurlagi ákæru 17. apríl sl. er þess krafist að ákærði Sverrir Þór verði látinn sæta upptöku á Kenwood DVD spilara, sem fannst á heimili hans 10. september sl. Fram kom við munnlegan málflutning að upptökukrafan er á því byggð að spilarinn sé þýfi og hafi ákærða hlotið að vera um það kunnugt. Þessu hefur ákærði neitað fyrir dómi. Krafan er ekki reist á því að spilarinn sé keyptur fyrir ólöglegan ágóða. Frammi liggja í málinu skýrslur lögreglu vegna rannsóknar á því hvort spilarinn, sem keyptur var í Kolaportinu, hafi verið þýfi. Engin önnur sönnunargögn hafa verið færð fram fyrir dómi því til staðfestu að spilarinn sé illa fenginn. Samkvæmt því verður kröfu um upptöku ekki beitt og verður þeirri kröfu ákæruvaldsins því hafnað og ákærði Sverrir Þór sýknaður af þessari upptökukröfu.
Ákæra dagsett 18. apríl 2000.
Með vísan til þess að ósannað er að ákærði M hafi selt umrædd fíkniefni og hlotið ávinning af brotum sínum og ákærði Lárus hefur verið sýknaður í málinu er kröfu á hendur þeim um upptöku hafnað og þeir báðir sýknaðir af upptökukröfunum.
Ákærði Ó.
Ákærði R.
Ákærði R hefur verið sakfelldur fyrir að selja 2 kg af hassi, sbr. lið 1 í I. kafla ákæru. Í ljós hefur verið leitt að hann fékk þessi tvö kg í þóknun fyrir að flytja fíkniefnin inn, en ákærði sagði við rannsókn málsins að Sverrir Þór og Júlíus Kristófer hafi fjármagnað kaupin. Sannað er að ákærði seldi efnin og fékk fyrir þau andvirði 600 þúsund króna og skal ákærði sæta upptöku á jafnvirði þeirrar fjárhæðar með vísan til 3. tl. 1. mgr. 69. gr. almennra hegningarlaga.
Ákærði Valgarð Heiðar.
Ákærði Valgarð Heiðar hefur verið sakfelldur fyrir að selja 200-300 g af hassi og 20 g af amfetamíni. Hann kvaðst hafa keypt hvert gramm af hassi á 1-2 þúsund krónur, hvert gramm amfetamíns á 4-5 þúsund krónur og E töfluna á 3.000 krónur. Hann hafi fengið um 3-500 króna ágóða af hverju seldu hassgrammi, um 500-1000 krónur af amfetamíngramminu og um 200-500 krónur fyrir hverja E-töflu. Samkvæmt þessu verður við það að miða að ágóði hans af sölu hassins hafi verið um 80 þúsund krónur, af sölu amfetamínsins 15 þúsund og af sölu MDMA taflanna 150 þúsund krónur. Samtals sæti ákærði því upptöku á jafnvirði 245 þúsund króna með vísan til til 3. tl. 1. mgr. 69. gr. almennra hegningarlaga.
Gera skal upptæk til ríkissjóðs þau fíkniefni, sem lýst er í a-d liðum 3. liðar ákæru, eins og hún hefur verið leiðrétt, samkvæmt þeim lagaákvæðum sem vísað er til í því efni í ákæru.
Ákærðu Sverrir Þór og Valgarð Heiðar hafa samþykkt upptökukröfu ákæruvalds í liðum a og b í 4. lið. Ber að gera tölvugrammavogirnar tvær upptækar til ríkissjóðs með vísan til 7. mgr. 5. gr. laga nr. 65/1974.
Við leit á heimilum ákærðu Æ og Ó 10. september sl. fundust samtals 13 töflur af Viagra. Þeir hafa báðir hafnað kröfum ákæruvalds um að töflurnar sæti upptöku. Töflur þessar hafa markaðsleyfi hér á landi en eru lyfseðilsskyldar. Ljóst er að þær bera ekki með sér að hafa fengist út á lyfseðil samkvæmt læknisráði. Ákæruvaldið byggir kröfu sína um upptöku taflanna á því, að þær hafi verið fluttar inn í landið ólöglega eða ólöglega seldar hérlendis. Samkvæmt 1. tl. 3. mgr. 5. gr. reglugerðar nr. 409/1993 er farmanni eða ferðamanni heimilt að flytja inn lyf til eigin nota í magni sem miðast við í mesta lagi 100 daga notkun. Þó er ekki heimilt að flytja inn, eins og að fram hefur verið rakið, karlkynshormónalyf af flokki anabólískra stera og hliðstæðra efna eða petíð hormón og hliðstæð efni umfram það magn sem farmaður eða ferðamaður þarf í mesta lagi að nota til 30 daga. Samkvæmt þessu er það skilyrði þessa undanþáguákvæðis að lyfin séu til eigin nota en ekki annarra. Þegar litið er til þess að einvörðungu var um nokkrar töflur að ræða þykir ekki loku fyrir það skotið að ákærðu hafi flutt efnin inn með lögmætum hætti til eigin nota. Verður því kröfu ákæruvalds um upptöku taflanna hafnað.
Ákærði Æ hefur afsalað sér haglabyssu þeirri sem vísað er til í a-lið 6. liðar. Hann hefur ekki leyfi fyrir byssunni og verður hún gerð upptæk til ríkissjóðs með vísan til 1. mgr. 37. gr. vopnalaga nr. 16/1998.
Ákærði Ó hefur samþykkt upptöku á loftskammbyssu, gormakylfu og rafstuðbyssu, sem fundust við húsleit á heimili hans, sbr. b-lið 6. liðar. Hann hefur hins vegar mótmælt því að tólf kasthnífar og handjárn verði gerð upptæk. Með vísan til b-liðar 2. mgr. 30. gr. skal gera upptæka til ríkissjóðs kasthnífana tvo og með vísan til c-liðar sama ákvæðis skal gera upptæka til sama gormakylfuna og rafstuðbyssuna, allt sbr. 1. mgr. 37. gr. vopnalaga. Þá skal með vísan til 4. mgr. 30. gr., sbr. 1. mgr. 37. gr. laganna gera upptæk til ríkissjóðs þrenn handjárn sem fundust á heimili ákærðu Ó og Sverris Þórs, sbr. b- og c- lið 6. liðar.
Ákærði Valgarð Heiðar hefur mótmælt upptöku á tveimur sverðum, sbr. 6. lið d. Sverð þessi hefur dómurinn skoðað og bera þau með sér að vera höfð til skrauts, enda bitlaus. Kröfu ákæruvalds um upptöku þeirra er því hafnað. Ákærði hefur samþykkt upptöku rafstuðbyssunnar og verður hún gerð upptæk til ríkissjóðs með vísan til c-liðar 2. mgr. 30. gr., sbr. 1. mgr. 37. gr. vopnalaga.
Ákæra dagsett 19. apríl 2000.
Með vísan til þess að ósannað er að ákærðu X og Z hafi selt umrædd fíkniefni og hlotið ávinning af brotum sínum er kröfu á hendur þeim um upptöku hafnað.
Ákærði G.
Ákærði G hefur viðurkennt að hann hafi fengið í sinn hlut 70.000 krónur vegna efnanna í 1. lið ákæru 19. apríl sl. Ber að dæma hann til að sæta upptöku á jafnvirði þeirrar fjárhæðar til ríkissjóðs með vísan til 3. tl. 1. mgr. 69. gr. almennra hegningarlaga.
Gera skal upptæk til ríkissjóðs þau fíkniefni, sem lýst er í a-e liðum 3. liðar IV. kafla ákæru 19. apríl, samkvæmt þeim lagaákvæðum sem þar greinir.
Ákærði X hefur samþykkt upptöku á loftriffli þeim, sem getið er í 4. lið IV. kafla ákæru 19. apríl sl. Fram er komið að hann hefur ekki fengið leyfi fyrir vopninu. Að kröfu ákæruvalds og með vísan til 1. mgr. 37. gr. vopnalaga skal gera riffilinn upptækan til ríkissjóðs.
Ákæra dagsett 9. september 1997.
Með vísan til þeirra lagaákvæða sem greinir í niðurlagi þessarar ákæru ber að gera upptæk til ríkissjóðs þau fíkniefni sem þar greinir.
Ákærði, G, greiði 54.859 krónur vegna efnagreiningar, sbr. reikning nr. 106650.
Ákærðu Gunnlaugur, H, G og Ó, greiði óskipt 140.096 krónur vegna efnagreiningar, sbr. reikning nr. 107334.
Ákærðu, Æ, Júlíus Kristófer, Ó, R og Sverrir Þór, greiði óskipt 787.388 krónur vegna efnagreininga, sbr. reikninga nr. 109001, 109003, 109005, 109068 og 109072.
Ákærði, Gunnlaugur, greiði 43.205 krónur vegna efnagreiningar sbr. reikning nr. 109091.
Allir reikningarnir vegna efnagreininga eru frá Rannsóknastofu í lyfja- og eiturefnafræði.
Ákærði A greiði verjanda sínum, Brynjari Níelssyni hæstaréttarlögmanni 3/4 hluta af 800.000 króna málsvarnarlaunum á móti 1/4 hluta sem greiðist úr ríkissjóði.
Ákærði G greiði verjanda sínum, Sigurmari K. Albertssyni hæstaréttarlögmanni 2/3 hluta af 1.500.000 króna málsvarnarlaunum á móti 1/3 hluta sem greiðist úr ríkissjóði.
Ákærði Gunnlaugur greiði verjanda sínum, Björgvini Þorsteinssyni hæstaréttarlögmanni, 3/5 hluta af 1.000.000 króna málsvarnarlaunum á móti 2/5 hluta sem greiðist úr ríkissjóði.
Ákærði H greiði verjanda sínum, Björgvini Jónssyni hæstaréttarlögmanni, 3/5 hluta af 1.000.000 króna málsvarnarlaunum á móti 2/5 hluta sem greiðist úr ríkissjóði
Ákærði Júlíus Kristófer greiði verjanda sínum, Kristjáni Stefánssyni hæstaréttarlögmanni, helming af 1.500.000 króna málsvarnarlaunum á móti helmingi sem greiðist úr ríkissjóði.
Ákærði Ó greiði verjanda sínum, Páli A. Pálssyni hæstaréttarlögmanni, 3/4 hluta af 1.500.000 króna málsvarnarlaunum á móti 1/4 hluta sem greiðist úr ríkissjóði.
Ákærði Sverri Þór greiði verjanda sínum, Helga Jóhannessyni hæstaréttarlögmanni, 2/3 hluta af 1.500.000 króna málsvarnarlaunum á móti 1/3 hluta sem greiðist úr ríkissjóði.
Ákærði R greiði verjanda sínum, Ó Sigurgeirssyni hæstaréttarlögmanni, 3/4 hluta af 1.000.000 króna málsvarnarlaunum á móti 1/4 hluta sem greiðist úr ríkissjóði.
Ákærðu Þ og X greiði óskipt verjanda sínum, Sigmundi Hannessyni hæstaréttarlögmanni, 2/3 hluta af 1.000.000 króna málsvarnarlaunum á móti 1/3 hluta sem greiðist úr ríkissjóði.
Ákærði M greiði verjanda sínum, Guðmundi Ó. Björgvinssyni héraðsdómslögmanni, 2/3 hluta af 700.000 króna málsvarnarlaunum á móti 1/3 hluta sem greiðist úr ríkissjóði.
Ákærði Æ greiði verjanda sínum, Sveini Andra Sveinssyni hæstaréttarlögmanni, 500.000 krónur í málsvarnarlaun.
Ákærði Valgarð Heiðar greiði verjanda sínum, Bergsteini Georgssyni hérðasdómslögmanni, 500.000 krónur í málsvarnarlaun.
Ákærði Z greiði verjanda sínum, Sigurði Sigurjónssyni hæstaréttarlögmanni, 300.000 krónur í málsvarnarlaun.
Ákærði Ingvar Árni greiði verjanda sínum, Hilmari Ingimundarsyni hæstaréttarlögmanni, 500.000 krónur í málsvarnarlaun.
300.000 króna málsvarnarlaun til Jóns Magnússonar hæstaréttarlögmanns verjanda ákærðu N, greiðast úr ríkissjóði.
300.000 króna málsvarnarlaun til Guðmundar Óla Björgvinssonar héraðsdómslögmanns, verjanda ákærðu Þ, greiðast úr ríkissjóði.
500.000 króna málsvarnarlaun til Jóhannesar A. Sævarssonar hæstaréttarlögmanns, verjanda ákærða K, greiðast úr ríkissjóði.
500.000 króna málsvarnarlaun til Helga Birgissonar hæstaréttarlögmanns, verjanda ákærða B, greiðast úr ríkissjóði.
Sakarkostnað að öðru leyti en sérgreindur hefur verið samkvæmt ofanrituðu greiði ákærðu óskipt.
Kolbrún Sævarsdóttir, settur saksóknari, flutti málið af hálfu ákæruvaldsins.
Dóminn kveða upp héraðsdómararnir Guðjón St. Marteinsson sem dómsformaður, Hjörtur O. Aðalsteinsson og Ingibjörg Benediktsdóttir.
DÓMSORÐ:
Vísa skal frá dómi ákæru á hendur ákærða, B, dagsettri 8. maí 2000.
Ákærði, A, sæti fangelsi í 15 mánuði en frá refsivistinni dragist óslitð gæsluvarðhald hans frá 18. september 1999 til dagsins í dag að telja að undanskildum 5 dögum.
Ákærði, G, sæti fangelsi í 3 ár og sex mánuði en frá refsivistinni dragist óslitið gæsluvarðhald hans frá 11. september 1999 til dagsins í dag að telja.
Ákærði, Gunnlaugur Ingibergsson, sæti fangelsi í 4 ár og sex mánuði en frá refsivistinni dragist óslitið gæsluvarðhald hans frá 27. september 1999 til dagsins í dag að telja.
Ákærði, H, sæti fangelsi í 2 ár og sex mánuði en frá refsivistinni dragist óslitið gæsluvarðhald hans frá 27. september 1999 til dagsins í dag að telja.
Ákærði, Júlíus Kristófer Eggertsson, sæti fangelsi í 5 ár og sex mánuði en frá refsivistinni dragist óslitið gæsluvarðhald hans frá 24. september 1999 til dagsins í dag að telja.
Ákærði, Ó, sæti fangelsi í 9 ár en frá refsivistinni dragist óslitið gæsluvarðhald hans frá 11. september 1999 til dagsins í dag að telja.
Ákærði, Sverrir Þór Gunnarsson, sæti fangelsi í 7 ár og sex mánuði en frá refsivistinni dragist óslitið gæsluvarðhald hans frá 11. september 1999 til dagsins í dag að telja.
Ákærði, Æ, sæti fangelsi í 2 ár en frá refsivistinni dragist óslitið gæsluvarðhald hans frá 11. september 1999 til dagsins í dag að telja.
Ákærði, R, sæti fangelsi í 4 ár en frá refsivistinni dragist óslitið gæsluvarðhald hans frá 2. október 1999 til dagsins í dag að telja.
Ákærði, Ingvar Árni Ingvarsson, sæti fangelsi í 2 ár og sex mánuði en frá refsivistinni dragist 6 daga gæsluvarðhald hans.
Ákærði, M, sæti fangelsi í 2 mánuði en fresta skal fullnustu refsingarinnar skilorðsbundið í 2 ár frá uppsögu dómsins að telja og falli refsingin niður að þeim tíma liðnum haldi ákærði almennt skilorð 57. gr. almennra hegningarlaga nr. 19/1940, sbr. 4. gr. laga nr. 22/1955.
Ákærði, Valgarð Heiðar Kjartansson, sæti fangelsi í 3 ár
Ákærði, X, sæti fangelsi í 18 mánuði.
Ákærði, Z, sæti fangelsi í 10 mánuði.
Ákærða, Þ, er ekki gerð sérstök refsing í málinu.
Ákærða, N, er sýknuð af öllum kröfum ákæruvaldsins.
Ákærða, Þ, er sýknuð af öllum kröfum ákæruvaldsins.
Ákærði, K, er sýknaður af öllum kröfum ákæruvaldsins.
Ákærði, B, er sýknaður af öllum kröfum ákæruvaldsins.
Ákærði, A, sæti upptöku til ríkissjóðs á jafnvirði 300.000 króna.
Ákærði, G, sæti upptöku til ríkissjóðs á jafnvirði 970.000 króna, þ.m.t. á 101.577 krónu innistæðu á reikningi við Sparisjóð vélstjóra nr. 1175-5-406035.Ákærði, Gunnlaugur, sæti upptöku til ríkissjóðs á jafnvirði 11.900.000 króna, þ.m.t. á 3.000 dönskum krónum.
Ákærði, H, sæti upptöku til ríkissjóðs á jafnvirði 4.750.000 króna, þar
með talið á 2.020 dönskum krónum og innistæðu á reikningi við Búnaðarbanka
Íslands nr.303-26-1501, að fjárhæð 11.651 krónur.
Ákærði, Júlíus Kristófer, sæti upptöku til ríkissjóðs á jafnvirði 8.000.000 króna.
Ákærði, Ó, sæti upptöku til ríkissjóðs á jafnvirði 5.185.000 króna, þar með talið á 2700 dönskum krónum, 4.000 spænskum pesetum, 999.590 króna innistæðu á reikningi við Búnaðarbanka Íslands nr. 319-26-7766, innistæðum á reikningum við Íslandsbanka hf. nr. 537-05-542, 2.187 krónur, nr. 582-15-80870 að fjárhæð 3.517 krónur og nr. 545-26-54747, 107.092 krónur og 650.000 krónu fjárkröfu á hendur Gummaco ehf., kt.410299-2759.
Ákærði, Sverrir Þór, sæti upptöku til ríkissjóðs á jafnvirði 21.400.000 króna.
Ákærði, R, sæti upptöku til ríkissjóðs á jafnvirði 600.000 króna.
Ákærði, Valgarð Heiðar, sæti upptöku til ríkissjóðs á jafnvirði 245.000 króna.
Upptæk skal gera til ríkissjóðs eftirtalin fíkniefni:
a) 6.970 g af hassi og 23,53 g af marihuana sem fannst við leit lögreglu og
tollgæslu í gámi þann 9. september 1999.
b) 0,61 g af hassi sem ákærði Gunnlaugur var með í vörslum sínum er danska
lögreglan handtók hann þann 26. september 1999.
c) 3.999,44 g af amfetamíni, 5.445 MDMA (3,4 metylendíoxýmetamfetamín) töflur, 16,66 g af MDMA dufti, 17.129,81 g af hassi, 19,23 g af kannabisfræjum, 678,47 g af kókaíni og ein LSD (lýsergíð) tafla, sem fannst við leit lögreglu 10. september sl.
d) 2,5 g af hassi, 3,36 g af kókaíni og 2 MDMA (3,4 metylendíoxýmetamfetamín) töflur, sem funnst við leit að Írabakka 26, Reykjavík.
e) 8,85 g af hassi og 0,39 g af amfetamíni, sem fannst við leit lögreglu að Vesturbergi 31, Reykjavík, 20. nóvember 1999.
f) 2 LSD (lýsergíð) töflur, sem fundust við leit lögreglu 21. júlí 1999.
g) 193,5 g af hassi, 1,1 g af hassblönduðu tóbaki og 50, 9 g af amfetamíni,
sem fannst við húsleit að Þingholtsstræti 6, Reykjvík, og Skipholti 9,
Reykjavík.
Upptækar skal gera til ríkissjóðs tvær tölvugrammavogir.
Upptæk skal gera til ríkissjóðs eftirtalin vopn:
a) Haglabyssu af tegundinni Mossberg 500 AR 12 GAL, með afmáðu
raðnúmeri, sem fannst við leit lögreglu á heimili ákærða Æ,
10. september 1999.
b) Tólf kasthnífa, tvenn handjárn, loftskammbyssu, gormakylfu og
rafstuðbyssu, sem fundust við leit lögreglu að Írabakka 26, Reykjavík.
c) Handjárn sem fundust við leit lögreglu að Óðinsgötu 2, Reykjavík.
d)Rafstuðbyssu sem fannst við leit lögreglu á heimili Valgarðs Heiðars,
þann 22. nóvember 1999.
e) Loftriffil, sem fannst við leit lögreglu 17. nóvember sl. á heimili ákærða X.
Ákærði, G, greiði 54.859 krónur vegna efnagreiningar, sbr. reikning nr. 106650.
Ákærðu Gunnlaugur, H, G og Ó, greiði óskipt 140.096 krónur vegna efnagreiningar, sbr. reikning nr. 107334.
Ákærðu, Æ, Júlíus Kristófer, Ó, R og Sverrir Þór, greiði óskipt 787.388 krónur vegna efnagreininga, sbr. reikninga nr. 109001, 109003, 109005, 109068 og 109072.
Ákærði, Gunnlaugur, greiði 43.205 krónur vegna efnagreiningar sbr. reikning nr. 109091.
Allir reikningarnir vegna efnagreininga eru frá Rannsóknastofu í lyfja- og eiturefnafræði.
Ákærði, A, greiði verjanda sínum, Brynjari Níelssyni hæstaréttarlögmanni, 3/4 hluta af 800.000 króna málsvarnarlaunum á móti 1/4 hluta sem greiðist úr ríkissjóði.
Ákærði, G, greiði verjanda sínum, Sigurmari K. Albertssyni hæstaréttarlögmanni, 2/3 hluta af 1.500.000 króna málsvarnarlaunum á móti 1/3 hluta sem greiðist úr ríkissjóði.
Ákærði, Gunnlaugur, greiði verjanda sínum, Björgvini Þorsteinssyni hæstaréttarlögmanni, 3/5 hluta af 1.000.000 króna málsvarnarlaunum á móti 2/5 hlutum sem greiðast úr ríkissjóði.
Ákærði, H, greiði verjanda sínum, Björgvini Jónssyni hæstaréttarlögmanni, 3/5 hluta af 1.000.000 króna málsvarnarlaunum á móti 2/5 hluta sem greiðast úr ríkissjóði.
Ákærði, Júlíus Kristófer, greiði verjanda sínum, Kristjáni Stefánssyni hæstaréttarlögmanni, helming 1.500.000 króna málsvarnarlauna á móti helmingi sem greiðist úr ríkissjóði.
Ákærði, Ó, greiði verjanda sínum, Páli A. Pálssyni hæstaréttarlögmanni, 3/4 hluta af 1.500.000 króna málsvarnarlaunum á móti 1/4 hluta sem greiðist úr ríkissjóði.
Ákærði, Sverrir Þór, greiði verjanda sínum, Helga Jóhannessyni hæstaréttarlögmanni, 2/3 hluta af 1.500.000 króna málsvarnarlaunum á móti 1/3 hluta sem greiðist úr ríkissjóði.
Ákærði, R, greiði verjanda sínum, Ó Sigurgeirssyni hæstaréttarlögmanni, 3/4 hluta af 1.000.000 króna málsvarnarlaunum á móti 1/4 hluta sem greiðist úr ríkissjóði.
Ákærðu, Þ og X, greiði óskipt verjanda sínum, Sigmundi Hannessyni hæstaréttarlögmanni, 2/3 hluta af 1.000.000 króna málsvarnarlaunum á móti 1/3 hluta sem greiðist úr ríkissjóði.
Ákærði, M, greiði verjanda sínum, Guðmundi Ó. Björgvinssyni héraðsdómslögmanni, 2/3 hluta af 700.000 króna málsvarnarlaunum á móti 1/3 hluta sem greiðist úr ríkissjóði.
Ákærði, Æ, greiði verjanda sínum, Sveini Andra Sveinssyni hæstaréttarlögmanni, 500.000 krónur í málsvarnarlaun.
Ákærði, Valgarð Heiðar, greiði verjanda sínum, Bergsteini Georgssyni héraðsdómslögmanni, 500.000 krónur í málsvarnarlaun.
Ákærði, Z, greiði verjanda sínum, Sigurði Sigurjónssyni hæstaréttarlögmanni 300.000 krónur í málsvarnarlaun.
Ákærði, Ingvar Árni, greiði verjanda sínum, Hilmari Ingimundarsyni hæstaréttarlögmanni, 500.000 krónur í málsvarnarlaun.
300.000 króna málsvarnarlaun til Jóns Magnússonar hæstaréttarlögmanns, verjanda ákærðu N, greiðast úr ríkissjóði.
300.000 króna málsvarnarlaun til Guðmundar Óla Björgvinssonar héraðsdómslögmanns, verjanda ákærðu Þ, greiðast úr ríkissjóði.
500.000 króna málsvarnarlaun til Jóhannesar A. Sævarssonar hæstaréttarlögmanns, verjanda ákærða K greiðast úr ríkissjóði.
500.000 króna málsvarnarlaun til Helga Birgissonar hæstaréttarlögmanns, verjanda ákærða B, greiðast úr ríkissjóði.
Sakarkostnað að öðru leyti en sérgreindur hefur verið samkvæmt ofanrituðu greiði ákærðu óskipt.