Hæstiréttur íslands

Mál nr. 264/2004


Lykilorð

  • Bifreið
  • Skaðabætur
  • Líkamstjón
  • Örorka
  • Miski
  • Lífeyrissjóður


Fimmtudaginn 16

 

Fimmtudaginn 16. desember 2004.

Nr. 264/2004.

Júlíana Jónsdóttir og

Lloyd´s of London

(Baldvin Hafsteinsson hrl.)

gegn

Friðriki Friðrikssyni

(Gestur Jónsson hrl.)

og gagnsök

 

Bifreiðir. Skaðabætur. Líkamstjón. Örorka. Miski. Lífeyrissjóður.

F lenti í umferðarslysi í júlí árið 2000 og viðurkenndu J og L bótaskyldu sína. Aðilar deildu meðal annars um varanlega örorku F vegna slyssins. Niðurstaða matsmanna, sem dómkvaddir voru undir rekstri málsins fyrir Hæstarétti, féll saman við mat örorkunefndar um 8% varanlega örorku. Var því staðfest niðurstaða héraðsdóms um bætur fyrir varanlega örorku og voru árslaun F metin sérstaklega í samræmi við 2. mgr. 7. gr. skaðabótalaga, en hann var að ljúka námi þegar slysið varð. Einnig var deilt um hvert lífeyrisframlag frá vinnuveitanda J og L skyldu bæta F. Fyrir lá að iðgjald launagreiðanda hafði verið 11,5% af gjaldstofni. Þóttu engin haldbær rök fyrir því að miða tjón F við lægri hlutfallstölu. Skipti þá ekki máli þótt lögbundið lágmark slíks framlags vinnuveitanda miðaðist við 6%.

 

Dómur Hæstaréttar.

Mál þetta dæma hæstaréttardómararnir Gunnlaugur Claessen, Guðrún Erlendsdóttir og Hrafn Bragason.

Aðaláfrýjendur skutu málinu upphaflega til Hæstaréttar 14. apríl 2004. Ekki varð af fyrirhugaðri þingfestingu þess 26. maí 2004 og áfrýjuðu þau á ný 23. júní 2004 með heimild í 4. mgr. 153. gr. laga nr. 91/1991 um meðferð einkamála, sbr. 7. gr. laga nr. 38/1994. Endanleg krafa aðaláfrýjenda er sú að þau verði „sýknuð af öllum kröfum gagnáfrýjanda gegn greiðslu“ á 668.296 krónum með 4,5% ársvöxtum af 536.996 krónum frá 14. júlí 2000 til 20. janúar 2003, en af allri fjárhæðinni frá þeim degi til þingfestingardags stefnu fyrir Héraðsdómi Reykjavíkur og dráttarvöxtum samkvæmt lögum nr. 38/2001 um vexti og verðtryggingu frá þeim degi til greiðsludags. Til vara krefjast þau lækkunar á kröfu gagnáfrýjanda. Þá krefjast þau þess að málskostnaður í héraði verði lækkaður og látinn falla niður fyrir Hæstarétti.

Gagnáfrýjandi áfrýjaði héraðsdómi 1. september 2004. Hann krefst þess aðallega að aðaláfrýjendur verði dæmd til að greiða sér óskipt 5.593.513 krónur með 4,5% ársvöxtum af 561.740 krónum frá 14. júlí 2000 til 1. desember sama árs, af 5.462.068 krónum frá þeim degi til 20. janúar 2003, en dráttarvöxtum samkvæmt 1. mgr. 6. gr. laga nr. 38/2001 af  allri fjárhæðinni frá þeim degi til greiðsludags. Til vara krefst gagnáfrýjandi staðfestingar héraðsdóms. Til þrautavara krefst hann þess að aðaláfrýjendur verði dæmd til að greiða sér óskipt aðra og lægri fjárhæð með sömu vöxtum og dráttarvöxtum og í aðalkröfu. Þá krefst hann málskostnaðar í héraði og fyrir Hæstarétti.

Aðaláfrýjendur gera ekki athugasemdir við þá aðild til varnar, sem gagnáfrýjandi mótaði með stefnu sinni til héraðsdóms.

I.

Gagnáfrýjandi lenti í umferðarslysi 14. júlí 2000, eins og nánar er rakið í héraðsdómi. Aðaláfrýjendur viðurkenna bótaskyldu sína og ekki er tölulegur ágreiningur í málinu. Í héraði laut ágreiningur málsaðila hins vegar einkum að því hvort sönnun lægi fyrir um það að gagnáfrýjandi hafi hlotið varanlega örorku í slysinu. Vefengja aðaláfrýjendur að svo hafi verið. Þá var deilt um þann tekjugrundvöll, sem miða skal við, ef varanleg örorka telst vera fyrir hendi og hvert lífeyrisframlag frá vinnuveitanda aðaláfrýjendur skulu þá bæta gagnáfrýjanda.

II.

Undir rekstri málsins fyrir Hæstarétti fóru aðaláfrýjendur þess á leit við Héraðsdóm Reykjavíkur að dómkvaddir yrðu menn til að meta nánar tilgreind atriði varðandi heilsufar gagnáfrýjanda og lutu að því hvort hann hafi hlotið varanlega örorku í umrætt sinn. Voru Guðjón Baldursson læknir og Páll Sigurðsson prófessor dómkvaddir til starfans 9. ágúst 2004 og er matsgerð þeirra dagsett 21. september. Kemur meðal annars fram í niðurstöðum þeirra að þeir telji varanlega örorku gagnáfrýjanda á grundvelli 5. gr. skaðabótalaga nr. 50/1993 vera 8%. Fellur sú niðurstaða saman við álit örorkunefndar, sem greint er frá í héraðsdómi. Að þessu virtu og að öðru leyti með vísan til forsendna héraðsdóms verður staðfest niðurstaða hans um kröfuliði gagnáfrýjanda vegna útlagðs kostnaðar, þjáningarbóta, varanlegs miska og varanlegrar örorku að öðru leyti en varðar framlag vinnuveitanda í lífeyrissjóð.

Þáttur í kröfulið gagnáfrýjanda fyrir varanlega örorku er vegna 11,5% framlags vinnuveitanda í lífeyrissjóð. Aðaláfrýjendur krefjast þess hins vegar að staðfest verði niðurstaða héraðsdóms um að miða þennan þátt einungis við 6% viðmiðunarlauna samkvæmt 6. gr. sbr. 7. gr. skaðabótalaga. Gagnáfrýjandi lauk embættisprófi í lögfræði haustið 2000 og greiddi lífeyrisiðgjald af launum sínum á árinu 2001 til A-deildar Lífeyrissjóðs starfsmanna ríkisins. Eftir það hefur hann greitt til Lífeyrissjóðs starfsmanna sveitarfélaga. Í báðum tilvikum hefur iðgjald launagreiðanda verið 11,5% af gjaldstofni, sbr. 21. gr. samþykkta fyrir Lífeyrissjóð starfsmanna ríkisins og nú grein 13.5 í kjarasamningi launanefndar sveitarfélaga og Stéttarfélags lögfræðinga. Samkvæmt 7. gr. skaðabótalaga skulu árslaun til ákvörðunar bóta samkvæmt 6. gr. laganna vera tilgreindar vinnutekjur tjónþolans að meðtöldu framlagi vinnuveitanda til lífeyrissjóðs. Í tilviki gagnáfrýjanda nam þetta framlag vinnuveitenda 11,5%, eins og áður var getið, og eru engin haldbær rök fyrir hendi til að miða tjón hans við lægri hlutfallstölu. Skiptir þá ekki máli þótt lögbundið lágmark slíks framlags vinnuveitanda miðist við 6%. Verður þessi þáttur í kröfu gagnáfrýjanda samkvæmt því tekinn til greina.

Samkvæmt öllu framanröktu verður niðurstaða málsins sú að fallist er á aðalkröfu gagnáfrýjanda. Ákvæði héraðsdóms um málskostnað verður staðfest. Aðaláfrýjendur skulu greiða gagnáfrýjanda málskostnað fyrir Hæstarétti eins og nánar greinir í dómsorði.

Dómsorð:

Aðaláfrýjendur, Júlíana Jónsdóttir og Lloyd´s of London, greiði óskipt gagnáfrýjanda, Friðriki Friðrikssyni, 5.593.513 krónur með 4,5% ársvöxtum af 561.740 krónum frá 14. júlí 2000 til 1. desember sama árs, af 5.462.068 krónum frá þeim degi til 20. janúar 2003, en dráttarvöxtum samkvæmt 1. mgr. 6. gr. laga nr. 38/2001 um vexti og verðtryggingu af 5.593.513 krónum frá þeim degi til greiðsludags.

Ákvæði héraðsdóms um málskostnað skal vera óraskað.

Aðaláfrýjendur greiði óskipt gagnáfrýjanda 400.000 krónur í málskostnað fyrir Hæstarétti.

 

 

 

Dómur Héraðsdóms Reykjavíkur 26. janúar 2004.

Mál þetta, sem dómtekið var 19. janúar sl., er höfðað fyrir Héraðsdómi Reykjavíkur af Friðriki Friðrikssyni, kt. 211273-5939, Garðhúsum 4, Reykjavík, gegn Júlíönnu Jónsdóttur, kt. 160559-5869, Seljabraut 82, Reykjavík, og Baldvini Hafsteinssyni, hrl., kt. 080855-2739, tjónafulltrúa Lloyd´s á Íslandi, vegna Lloyd´s of London, One Lime Street, London EC3M 7HA, Englandi, með stefnu birtri 17. mars 2003.

Dómkröfur stefnanda eru þessar:

Aðalkrafa:  Þess er krafist að stefndu verði dæmd til að greiða stefnanda óskipt kr. 5.593.368 auk 4,5% vaxta á ári af kr. 561.740 frá 14. júlí 2000 til 1. desember 2000, en af kr. 5.462.068 frá þeim degi til 20. janúar 2003, en dráttarvaxta samkvæmt l. málsgr. 6. gr. laga nr. 38/2001 um vexti og verðtryggingu af stefnufjárhæð frá 20. janúar 2003 til greiðsludags.

1. varakrafa:  Þess er krafist að stefndu verði dæmd til að greiða stefnanda óskipt kr. 5.294.513 auk 4,5% vaxta á ári af kr. 561.740 frá 14. júlí 2000 til 1. desember 2000, en af kr. 5.163.213 frá þeim degi til 20. janúar 2003, en dráttarvaxta samkvæmt l. málsgr. 6. gr. laga nr. 38/2001 um vexti og verðtryggingu af stefnu­fjárhæð frá 20. janúar 2003 til greiðsludags.

2. varakrafa.  Þess er krafist að stefndu verði dæmd til að greiða stefnanda óskipt kr. 5.110.634 auk 4,5% vaxta á ári af kr. 561.740 frá 14. júlí 2000 til l. desember 2000, en af kr. 4.979.334 frá þeim degi til 20. janúar 2003, en dráttarvaxta samkvæmt 1. málsgr. 6. gr. laga nr. 38/2001 um vexti og verðtryggingu af stefnufjár­hæð frá þeim degi til greiðsludags.

3. varakrafa:  Þess er krafist að stefndu verði dæmd til að greiða stefnanda óskipt kr. 2.533.874 auk 4,5% vaxta á ári af kr. 561.740 frá 14. júlí 2000 til 1. desember 2000, en af kr. 2.402.574 frá þeim degi til 20. janúar 2003, en dráttarvaxta samkvæmt 1. málsgr. 6. gr. laga nr. 38/2001 um vexti og verðtryggingu af stefnu­fjárhæð frá þeim degi til greiðsludags.

Í öllum tilvikum er enn fremur krafist málskostnaðar samkvæmt framlögðu málskostnaðaryfirliti og að við málskostnað verði tekið tillit til þess að stefnandi er ekki virðisaukaskattskyldur.

Dómkröfur stefnda eru þessar:

Aðallega:  Að stefndu verði alfarið sýknuð af öllum kröfum stefnanda gegn greiðslu á 668,296,- kr. með 4.5% vöxtum af 536,996,- kr. frá 14. júlí 2000 til 20. janúar 2003 en af fjárhæðinni allri frá þeim degi til þingfestingardags stefnu en með dráttarvöxtum samkvæmt 1ögum nr. 38/2001 frá þeim degi til greiðsludags.

Til vara: Að stefndu verði sýknuð af öllum kröfum stefnanda gegn greiðslu á  2,524,674,- kr. með 4.5% vöxtum frá 14. júlí 2000 til l. desember 2000, af  2,393,374 kr. frá þeim degi til 20. janúar 2003 en af fjárhæðinni allri frá þeim degi til þingfestingardags stefnu en með dráttarvöxtum samkvæmt 1ögum nr. 38/2001 frá þeim degi til greiðsludags.        

Til þrautavara:  Að stefnufjárhæð verði verulega lækkuð að mati dómsins.

Þá krefjast stefndu málskostnaðar að skaðlausu úr hendi stefnanda, að mati dómsins.

 
Málsatvik

Þann 14. júlí 2000 lenti stefnandi í umferðarslysi á gatnamótum Reykja­nesbrautar og Kaldárselsvegar í Hafnarfirði. Tildrög slyssins voru þau að bifreiðin PB-407 var kyrrstæð á gatnamótunum, nánar tiltekið Reykjanesbraut í suðurstefnu. Ökumaður bifreiðarinnar hugðist beygja til vinstri inn á Kaldárselsveg, í austurátt, og kveðst hafa verið búinn að gefa stefnuljós í því skyni. Fólksbifreiðinni HL-105 var ekið aftan á bifreiðina PB-407, þannig að hún kastaðist yfir á rangan vegarhelming Reykjanesbrautar, í veg fyrir fólksbifreið stefnanda, HO-813, er kom úr gagnstæðri átt. Áreksturinn var harður, en honum er nánar lýst í lögregluskýrslu.

Stefnandi varð fyrir líkamstjóni við áreksturinn og var fluttur með sjúkrabifreið á slysadeild Landspítalans, háskólasjúkrahúss, í Fossvogi. Þar gekkst hann undir læknisskoðun og rannsókn. Áverkar voru á hálsi og á baki. Var álitið að stefnandi hefði tognað á millirifjavöðvum, hálsi og í brjósthrygg. Í framhaldi hefur stefnandi stundað sjúkraþjálfun, leitað til Boga Jónssonar bæklunarskurðlæknis og fengið meðferð hjá Bergi Konráðssyni kírópraktor. Stefnandi byggir á því að þrátt fyrir meðferðir hafi stefnandi ekki náð sér að fullu eftir slysið. Nánar um meiðslin og líkamsástand stefnanda er vísað til læknisfræðilegra gagna málsins.

Stefnandi var að ljúka námi sínu í lögfræði við Háskóla Íslands er hann varð fyrir slysinu. Hann hafði lokið öllum prófum en átti eingöngu eftir að skila lokaritgerð (kandidatsritgerð), sem hann var að skrifa. Hann og eiginkona hans höfðu tímabundið aðsetur í Árósum í Danmörku á þessum tíma en voru í stuttri heimsókn hér á landi er slysið varð. Þrátt fyrir slysið tókst stefnanda að ljúka ritgerðinni um haustið og þar með embættisprófi í lögfræði frá Háskóla Íslands. Í framhaldi sótti hann námskeið til héraðsdómslögmannsréttinda, sem ákvæði eru um í lögum nr. 77/1998 um lögmenn, og lauk því í júní 2001.

Eftir útskrift frá lagadeild Háskóla Íslands haustið 2000 hóf stefnandi störf sem lögfræðingur hjá Innheimtustofnun sveitarfélaga og starfaði þar allt til september­loka 2002. Frá þeim tíma hefur hann starfað sem lögfræðingur hjá Reykjavíkurborg.

Samkvæmt beiðni stefnanda og hins stefnda tryggingafélags (hér eftir Lloyd's) mátu Atli Þór Ólason og Stefán Carlsson, báðir sérfræðingar í bæklunarlækningum, afleiðingar slyssins. Niðurstöður örorkumatsgerðar þeirra, dags. 24. janúar 2002, voru að stefnandi hafi verið "batnandi, án þess að vera rúmliggjandi" í þrjá mánuði, varanlegar afleiðingar slyssins mátu læknarnir til 8% varanlegs miska en engrar varanlegrar örorku.

Með vísan til 1. málsgr. 10. gr. skaðabótalaga nr. 50/1993 bar stefnandi álitið undir örorkunefnd, með matsbeiðni dags. 29. mars 2002.  Þeir matsliðir, sem sérstak­lega voru bornir undir örorkunefnd, voru mat á varanlegum miska og varanlegri örorku.  Byggt var á því að í matsgerð Atla Þórs og Stefáns væru staðreyndavillur og þess utan væri stefnandi ósammála niðurstöðu matsgerðarinnar um að hann hafi ekki hlotið neina örorku við slysið. Álit örorkunefndar er dags. 10. desember 2002.  Er þar komist að niðurstöðu um að eftir 1. desember 2000 hafi stefnandi ekki getað vænst frekari bata af afleiðingum slyssins en þá var orðinn. Telja verði að störf stefnanda í framtíðinni muni tengjast lögfræðinámi hans og að afleiðingar slyssins séu þess eðlis að þær dragi nokkuð úr úthaldi hans til þeirra starfa og megi einkum ætla að svo verði í framtíðinni. Niðurstöður nefndarinnar hljóða svo:

"Varanlegur miski tjónþola, Friðriks Friðrikssonar, kt. 211273-5939, vegna umferðar­slyss þann 14. júlí 2000 er metinn 8% -átta af hundraði-.

Varanleg örorka hans vegna afleiðinga slyssins er metin 8% -átta af hundraði "

Á grundvelli álitsins sendi lögmaður stefnanda hinum stefnda, Lloyd's, kröfubréf þann 20. desember 2002 . Heildarkrafa samkvæmt bréfinu, að meðtöldum vöxtum og kostnaði, er að fjárhæð kr. 6.199.639. Er þar útlistað að við útreikning á bótum vegna varanlegrar örorku sé miðað við árstekjur stefnanda á fyrsta heila starfsári hans eftir slysdag sem lögfræðingur, sbr. 2. málsgr. 7. gr. skaðabótalaga. Sá mælikvarði sé réttari á líklegar framtíðartekjur stefnanda heldur en lágmarkslaun, en eins og áður sagði var stefnandi að ljúka ströngu námi er slysið varð og hafði því enga tekjusögu. Þann 7. febrúar 2003 sendi stefndi lögmanni stefnanda tillögu að tjónsuppgjöri, alls að fjárhæð kr. 2.920.735 að meðtöldum vöxtum og kostnaði. Er þar gengið út frá að við útreikning á fjárhæð örorkubóta skuli miða við lágmarkslaun samkvæmt 3. málsgr. 7. gr. skaðabótalaga.  Með bréfi til stefnda af þessu tilefni, dags. 16. febrúar 2003 var því lýst yfir að tillaga þessi væri óásættanleg. Samkomulag tókst ekki með aðilum og hefur stefnadi höfðað mál þetta til heimtu fullra skaðabóta.

Af hálfu stefndu er bótskylda viðurkennd en ágreiningur er milli málsaðila um rétt stefnanda til bóta fyrir varanlega örorku og túlkun ákvæða 7. gr. skaðabótalaganna í því sambandi.

 

Málsástæður stefnanda

Bótaskylda.

Um bótarétt stefnanda á hendur stefndu, Júlíönu Jónsdóttur, er vísað til 1. mgr. 88. gr. og 89. gr. umferðarlaga nr. 50/1987, sbr. einnig 1. og 3. mgr. 90. gr. sömu laga. Hún var eigandi bifreiðarinnar HL-105 er slysið átti sér stað og bar auk þess alla sök á árekstrinum með því að aka aftan á kyrrstæða bifreið, sem við það kastaðist fyrir bifreið stefnanda þannig að líkamstjón hans hlaust af.

Um bótarétt stefnanda á hendur stefnda, Lloyd's, er vísað til l. mgr. 95. gr., sbr. 1. mgr. 91. gr. umferðarlaga, þar sem félagið var ábyrgðartryggjandi vegna bifreiðarinnar HL­105 er slysið átti sér stað.  Félaginu sé stefnt samhliða Júlíönu sam­kvæmt fyrirmælum 1. mgr. 97. gr. umferðarlaga, en eins og fram hafi komið hafi stefn­andi eingöngu átt samskipti við tryggingafélagið vegna máls þessa, venju sam­kvæmt.

Ekki sé deilt um bótaskyldu í málinu eða líkamstjón stefnanda. Stefndi, Lloyd's, hafi viðurkennt bótaskyldu sína.

Stefnandi byggir á því að þrátt fyrir meðferðir hafi hann ekki náð sér að fullu eftir slysið. Hann hafi viðvarandi stoðkerfiseinkenni, einkum verki í bjóstbaki og í hálsi og herðum, sem leita upp í háls. Þol hans sé skert og einkennin magnist við álag.

 

Fjárhæð krafna stefnanda, útlistun og sundurliðanir:

Um útreikning skaðabóta stefnanda fari eftir skaðabótalögum nr. 50/1993, eins og þeim hafi síðar verið breytt, síðast með lögum nr. 37/1999. Eini ágreiningur málsaðila snúist  um útreikning bóta vegna varanlegrar örorku. Stefndi, Lloyd's, telji að við útreikning bóta vegna varanlegrar örorku samkvæmt 5.-7. gr. skaðabótalaga beri að miða við lágmarksárslaun, sem tilgreind séu í 3. mgr. 7. gr.  Kröfur stefnanda byggist hins vegar á því að árslaun beri að meta sérstaklega með vísan til 2. mgr. 7. gr.  Því til stuðnings er vísað til eftirfarandi:

Er stefnandi slasaðist hafi hann verið að ljúka námi sínu í lögfræði við lagadeild Háskóla Íslands. Náminu ljúki með embættisprófi í lögfræði frá deildinni. Embættisprófið sé skilyrði til ýmissa þýðingarmikilla og krefjandi starfa í þjóðfélaginu. Á slysdeginum hafi stefnandi fyrirhugað útskrift frá lagadeildinni þá um haustið og hafi sú áætlun staðist, þrátt fyrir slysið. Þannig sé sannað að stefnandi hafði ákveðið og skapað sér starfsvettvang fyrir slysið, slysið hafi ekki breytt þeim áformum og hann hafi starfað sem lögfræðingur síðan.

Það sé ljóst að afleiðingar slyssins muni hafa töluverð áhrif á framtíð stefnanda og tekjuöflunarhæfi. Hann þoli illa mikið álag, en sem kunnugt er séu störf lögmanna og lögfræðinga oft og tíðum þannig að þau krefjast langra vinnudaga með löngum kyrrsetum. Þetta hái stefnanda og eigi eftir að gera það í framtíðinni.

Samkvæmt 1. mgr. 7. gr. skaðabótalaga skulu árslaun til viðmiðunar bóta vegna varanlegrar örorku "teljast vera meðalatvinnutekjur tjónþola að meðtöldu fram­lagi vinnuveitanda til lífeyrissjóðs þrjú síðustu almanaksárin fyrir þann dag er slys varð, leiðrétt samkvæmt launavísitölu til þess tíma sem upphaf varanlegrar örorku miðast við". Í 2. mgr. segir orðrétt: "Árslaun skulu þó metin sérstaklega þegar óvenjulegar aðstæður eru fyrir hendi og ætla má að annar mælikvarði sé réttari á líklegar framtíðartekjur tjónþola".  Í 3. mgr. sé síðan eins konar varnagli, en sam­kvæmt ákvæðinu skuli þrátt fyrir 1. og 2. mgr. ekki miða við lægri árslaun en þar séu tilgreind í töflu.

Stefnandi telur að reglan í 2. mgr. 7. gr. eigi við í hans tilviki. Árslaun hans síðustu þrjú árin fyrir slysdag hafi verið óveruleg, vel undir lágmarkslaunaviðmiðum í töflu 3. mgr. sömu greinar, enda stefnandi í fullu námi allan þann tíma. Því telur stefnandi að þau laun, sem hann hafi haft sem starfandi lögfræðingur eftir að hann lauk námi, séu augljóslega besti mælikvarðinn á líklegar framtíðartekjur hans.

Stefnandi telur að það leiði af orðanna hljóðan 2. mgr. 7. gr. að taka beri kröfu hans til greina. Einnig sé lögð áhersla á að það sé meginregla í skaðabótarétti að tjónþoli eigi að fá tjón sitt að fullu bætt. Reglur skaðabótalaga um útreikning bóta vegna varanlegrar örorku, þ.m.t. 2. mgr. 7. gr., byggist á þessari meginreglu, þ.e. í lögunum sé leitast við að nálgast raunverulegt tekjutjón tjónþola vegna örorku. Lögunum hafi oftar en einu sinni verið breytt í þessu skyni og þannig sniðnir af ann­markar, sem komið höfðu í ljós í lagaframkvæmdinni. Ákvæði 2. mgr. 7. gr. hafi fyrst verið lögfest með 6. gr. breytingarlaga nr. 37/1999. Í athugasemdum með frumvarpi að lögunum segi orðrétt um ákvæðið: "Þá er gerð tillaga um að 2. mgr. 7. gr. verði rýmkuð þannig að mati verði beitt í þeim tilvikum þegar viðmiðun síðustu þrjú tekjuár fyrir slys þykir af einhverjum ástæðum ekki réttmæt."

Stefnandi vísar einnig til fordæma Hæstaréttar, þar sem reynt hafi á rétt námsfólks til örorkubóta.  Rétturinn hafi gert greinarmun eftir því hvort tjónþolar hafi verið komnir vel á veg í tilteknu sérnámi eða ekki. Sérstaklega er vísað til dóms Hæstaréttar 1. nóvember 2001 í máli nr. 201/2001 og dóms Hæstaréttar 21. febrúar 2002 í máli nr. 304/2001. Í báðum málunum hafi verið fallist á kröfur tjónþola um örorkubætur, reiknaðar á grundvelli 5.-7. gr. skaðabótalaga í stað 8. gr., eins og ákvæðin voru áður en breytingarlög nr. 37/1999 tóku gildi. Þótt lögunum hafi nú verið breytt telur stefnandi að forsendur þessara dóma séu ekki síðri fordæmi eftir lagabreytinguna. Tilvikin séu a.m.k. sambærileg og munurinn á eldri ákvæðunum og þeim sem nú gildi að þessu leyti felist í því að í núgildandi lögum hafi verið lögfest skýrari heimild til að meta árslaun sérstaklega í þessum óvenjulegu tilvikum og komast þannig að réttlátri niðurstöðu.

Ef fallist sé á tillögu stefnda varðandi útreikning bóta vegna varanlegrar örorku, þá sé vísvitandi verið að fjarlægjast eðlilega, sanngjarna og lögbundna nálgun á raunverulegu tjóni stefnanda. Í málinu sé ekki fyrir að fara neinum vafa um starfsval stefnanda, eða hvert hann stefndi í lífinu. Það sé m.ö.o. engin óvissa um þann vettvang, sem sé grundvöllur tekjuöflunar stefnanda. Ekki þurfi heldur að hafa mörg orð um að lögfræðingar eru sérfræðingastétt, sem lokið hafa löngu og ströngu námi. Lágmarkslaunaviðmið skaðabótalaganna sé engin vísbending um tekjur lögfræðinga með embættispróf frá Háskóla Íslands.

Við ákvörðun bótafjárhæða sé byggt á ákvæðum skaðabótalaga nr. 50/1993 og álitsgerð örorkunefndar dags. 10. desember 2002. Samkvæmt framansögðu sé ein­ungis ágreiningur um útreikning bóta vegna varanlegrar örorku, sem sé 4. töluliður í kröfum stefnanda.  Kröfur stefnanda sundurliðist þannig:

Aðalkrafa

1. Útl. ógr. kostn. v. mats örorkunefndar og læknisvottorðs      kr.   131.300

2. Þjáningabætur                                                                                  kr.   130.660

3. Varanlegur miski                                                                             kr.   431.080,-

4. Varanleg örorka                                                                                 kr. 4.900.328,-

SAMTALS                                              kr. 5.593.368,-

Um lið 1:

Um sé að ræða kostnað stefnanda við gagnaöflun samkvæmt framlögðum kvittunum, annars vegar þóknun Boga Jónssonar, bæklunarskurðlæknis, að fjárhæð 21.300 kr. og hins vegar gjald örorkunefndar að fjárhæð 110.000 kr.  Annar útlagður kostnaður vegna málsins hefur verið greiddur af stefnda, Lloyd´s. Vísað er  til 1. gr. skaðabótalaga.

Um lið 2:

Samkvæmt áliti örorkunefndar taldist líkamstjón stefnanda orðið stöðugt 1. desember 2000. Krafist er þjáningabóta vegna tímabilsins 14. júlí 2000 til 1. desember 2000, sbr. 3. gr. skaðabótalaga. Krafan reiknist 130.660 kr. (þ.e. 139 d. x kr. 940), að teknu tilliti til hækkunar neysluvísitölu fram til ritunar kröfubréfs f.h. stefnanda í desember 2002, sbr. 15. gr. skaðabótalaga.

Um lið 3:

Varanlegur miski stefnanda sé 8%, sbr. álit örorkunefndar. Bætur vegna varanlegs miska reiknist 431.080 kr. (8% x kr. 5.388.500), sbr. 4. gr. skaðabótalaga nr. 50/1993. Sé þar tekið tillit til hækkunar lánskjaravísitölu fram til desember 2002, er kröfubréf stefnanda var sent, sbr. 15. gr. skaðabótalaga.

Um lið 4:

Varanleg örorka stefnanda, sbr. 5. gr. skaðabótalaga, sé 8%, sbr. álit örorkunefndar. Í álitinu komi fram að tjónþoli gat ekki vænst frekari bata af afleiðingum slyssins eftir 1. desember 2000 og sé upphaf varanlegrar örorku miðað við það tímamark. Þá var stefnandi 26 ára og 345 daga gamall. Samkvæmt því sé við útreikning á bótum samkvæmt þessum lið notaður reiknistuðullinn 14,1833, sbr. 6. gr. skaðabótalaga.

Svo sem fyrr greinir var stefnandi að ljúka námi sínu í lögfræði við Háskóla Íslands er hann lenti í slysinu. Stefnandi telur að í hans tilviki verði að meta árslaun sérstaklega, þar sem launatekjur hans síðustu þrjú almanaksár fyrir slys séu rangur mælikvarði á líklegar framtíðartekjur tjónþola. Stefnandi telur að ekki verði fundinn betri mælikvarði á framtíðartekjur hans heldur en þær tekjur, sem hann raunverulega hafi aflað sér á árinu 2001, sem var fyrsta starfsár hans sem lögfræðingur. Tekjur hans voru kr. 3.873.317, sbr. framlagt skattframtal hans árið 2002. Við bætist kr. 445.431 vegna 11,5% framlags vinnuveitanda í lífeyrissjóð. Sem gögn um þetta framlag vinnuveitanda, sem sé hið sama til allra lögfræðinga í þjónustu ríkis og sveitarfélaga, séu lögð fram ljósrit ákvæða um þetta í kjarasamningi Launanefndar sveitarfélaga og Stéttarfélags lögfræðinga og í samþykktum Lífeyrissjóðs starfsmanna ríkisins. Þannig reiknist árslaunin ti1 viðmiðunar alls 4.318.748 kr., sbr. 2. mgr. 7. gr. skaðabótalaga.  Bætur vegna varanlegrar örorku reikist því þannig:  4.318.748 kr. x 14,1833 x 8% = 4.900.328 kr.

1. Varakrafa:

Varakrafa nr. 1 sé að fjárhæð 5.294.513 kr.  Krafan sé óbreytt frá því er greini í aðalkröfu og er vísað til sundurliðunar og útlistunar hennar hér að framan, að öðru leyti en hvað varðar bætur vegna varanlegrar örorku.

Hér reiknist bætur vegna varanlegrar örorku 4.601.473 kr.  Útreikningsforsendur séu þær sömu og í aðalkröfu, að því frátöldu að í stað þess að miða árslaun samkvæmt 2. mgr. 7. gr. skaðabótalaga við tekjur stefnanda, sé miðað við meðaltalsárslaun karl­lögfræðinga í Stéttarfélagi lögfræðinga, sem starfa í þjónustu ríkis og sveitarfélaga, á árinu 1999 (almanaksárinu fyrir slysdag), framreiknuð samkvæmt launavísitölu. Upp­lýsingar um þessi meðaltalslaun komi fram í fréttariti kjararannsóknarnefndar opin­berra starfsmanna (KOS) nr. 22, útg. í maí 2000. Þessi meðaltalsárslaun séu 3.343.189 kr.  Við bætist 384.467 kr. vegna 11,5% framlags vinnuveitanda í lífeyrissjóð. Þannig reiknist heildarárslaunin alls 3.727.656 kr. Fjárhæðina beri að leiðrétta m.v. launavísitölu, sem var 198 stig í desember 2000 en 182 stig að meðaltali á árinu 1999. Að teknu tilliti til þessa reiknist heildarárslaunin 4.055.362 kr. Samkvæmt þessum útreikningsforsendum reiknist bætur vegna varanlegrar örorku 4.601.473 kr. (þ.e. 4.055.362 x 14,1833 x 8%).

2. varakrafa:

Varakrafa nr. 2 alls að fjárhæð 5.110.634 kr.  Krafan sé óbreytt frá því er greinir í aðalkröfu og 1. varakröfu, nema hvað varðar bætur vegna varanlegrar örorku. Þessi krafa sé eingöngu sett fram í því tilviki að komist verði að niðurstöðu um að leggja beri meðaltekjur lögfræðinga til grundvallar en rétt þyki að miða við meðalárslaun lögfræðinga síðustu 3 ár fyrir slysdag stefnanda en ekki eins árs, eins og gert sé ráð fyrir í 1. varakröfu.

Hér reiknist bætur vegna varanlegrar örorku 4.417.594 kr.  Upplýsingar um árslaunin sem miðað sé við komi fram í fréttaritum KOS nr. 18, útg. í júní 1998, nr. 20, útg. í júlí 1999 og nr. 22.  Fjárhæðir í útreikningnum séu þessar:

 

Meðalárslaun 1997 voru 2.557.621 kr., sem að meðtöldu 11,5% lífeyrissjóðsframlagi reiknast 2.851.747 kr.  Framreiknuð m.v. launavísitölu (198/155,8) til upphafsdags varanl. örorku (198/155,8) sé fjárhæðin 3.624.172 kr.

Meðalárslaun 1998 voru 3.087.672 kr., sem að meðtöldu 11,5% lífeyrissjóðsframlagi vinnuveitanda reiknast 3.442.754 kr.  Framreiknuð m.v. launavísitölu til upphafsdags varanl. örorku (198/170,4) sé fjárhæðin 4.000.383 kr.

Meðalárslaun 1999 voru 3.343.189 kr., sem að meðtöldu 11,5% lífeyrissjóðsframlagi vinnuveitanda reiknast kr. 3.727.656. Framreiknuð m.v. launavísitölu til upphafsdags varanlegrar örorku (198/182) sé fjárhæðin 4.055.362 kr.

 

Meðaltalsárslaun lögfræðinga árin 1997-1999 samkvæmt þessu eru 3.893.306 kr. og reiknast bætur vegna varanlegrar örorku samkvæmt því 4.417.594 kr. (þ.e. 3.893.306 x 14,1833 x 8%).

3. varakrafa:

Varakrafa nr. 3 sé að fjárhæð 2.533.874 kr.  Hún sé óbreytt frá fyrri kröfum stefnanda að því undanskildu að krafist er bóta vegna varanlegrar örorku að fjárhæð 1.840.834 kr.  Krafan sé í samræmi við greiðslutilboð stefnda, Lloyd's, dags. 7. febrúar 2003. Um útreikningsforsendur er vísað til útlistunar á aðalkröfu og lágmarkslaunaviðmiðs l. og 3. málsgr. 7. gr. skaðabótalaga. Það athugist að greiðsla hefur ekki borist í samræmi við tilboðið. Um aðra kröfuliði er vísað til útlistunar í aðalkröfu.

Aðrar kröfur

Kröfur stefnanda um 4,5% ársvexti séu reistar á 16. gr. skaðabótalaga nr. 50/1993. Samkvæmt ákvæðinu reiknist ársvextirnir af kröfuliðunum bótum fyrir þjáningar og varanlegan miska frá slysdegi en af bótum vegna varanlegrar örorku frá upphafsdegi hennar (svonefndum stöðugleikapunkti) 1. desember 2000. Dráttarvaxta sé krafist af heildarfjárhæðum frá 20. janúar 2003, þ.e. mánuði eftir að kröfubréf lögmanns stefnanda var sent. Lagastoð fyrir dráttarvaxtakröfu stefnanda sé í III. og IV. kafla laga nr. 38/2001 um vexti og verðtryggingu, sérstaklega er vísað til 1. mgr. 6. gr. og 9. gr. laganna.

Málskostnaðarkrafa stefnanda eigi sér stoð í l. mgr. 129. gr. og 1. og 3. mgr. 130. gr. laga um meðferð einkamála nr. 91/1991. Krafan um virðisaukaskatt á málflutningsþóknun sé reist á lögum nr. 50/1988. Stefnandi sé ekki virðisauka­skattskyldur og sé því nauðsynlegt að taka tillit til virðisaukaskattsins við ákvörðun málskostnaðar. Það athugist að í aðalkröfu sé krafist útlagðs matskostnaðar og kostn­aðar við læknisvottorð á grundvelli 1. gr. skaðabótalaga, en verði ekki á það fallist er þess krafist að gætt verði að þessum útlagða kostnaði við ákvörðun lögmanns­kostnaðar.

 

Málsástæður stefnda

Aðalkröfu sína byggja stefndu á því að leggja beri örorkumat læknanna, Stefáns Carlssonar og Atla Þórs Ólasonar, dags. 24. janúar 2002, til grundvallar bótauppgjöri við stefnanda. Matsins hafi verið aflað með sameiginlegri beiðni aðila, gagngert í því skyni að fá álit tveggja virtra sérfræðinga í bæklunarlækningum á hugsanlegum afleiðingum slyssins 14. júlí 2000 fyrir stefnanda. Að mati læknanna, var stefnandi talinn hafa hlotið óverulegan miska, eða 8%. Þá hafi það verið álit beggja hinna virtu sérfræðinga, að varanlegri örorku væri ekki til að dreifa hjá stefnanda, enda hefði hann hvorki tafist í námi af völdum óhappsins, né hafði slysið haft þær afleiðingar að hann hefði misst eitthvað úr vinnu. Hafi þar verið stuðst við frásögn stefnanda sjálfs.  Mati þessu hafi ekki verið hnekkt.

Í stefnu sé því haldið fram, að um staðreyndavillur sé að ræða í matsgerð sérfræðinganna, sem geri hana ómarktækta. Umræddar staðreyndavillur séu raktar í bréfi stefnanda til örorkunefndar, dags. 29. mars 2002, og lúti að því að stefnandi hafi aldrei öklabrotnað, eins og sagt sé í matinu, að stefnandi hafi verið tvö ár í Fjöl­brautar­skóla Suðurlands, en ekki eitt, og að námsskeiði til öflunar lögmannsrétt­inda hafi lokið í júní 2001. Engin af þessum svokölluðu staðreyndavillum hafi haft nokkur áhrif á niðurstöðu matsmannanna og verði henni því ekki vikið til hliðar á þessum atriðum.

Álit örorkunefndar, dags. 10. desember 2002, sem aflað hafi verið af stefnanda einum, sbr. beiðni dags. 29. mars 2002, nægi heldur ekki til að víkja til hliðar sam­eiginlega umbeðnu mati læknanna Atla Þórs og Stefáns Carlssonar. Af áliti nefndar­innar sé svo að sjá sem einungis tveir af þremur nefndarmönnum hafi framkvæmt hina eiginlegu mats- og skoðunargjörð. Varðandi miska komist þeir að sömu niðurstöðu og hinir sérfróðu læknar, en varðandi varanlega örorku greini nefndina á við sérfræð­ingana.

Í greinargerð með lögum nr. 37/1999, 9. gr., sem fjallar um breytingu á 10. gr. skaðabótalaganna, komi fram það mat löggjafans að það skuli vera aðalregla að aðilar afli sjálfir sérfræðilegs álits um örorku- og/eða miskastig og þá læknisfræðilegu þætti sem meta þurfi samkvæmt 2. og 3. gr. laganna svo að ljúka megi bótauppgjöri.  Sér­fræðilegu mati sem annar aðila aflar geti hvor aðila um sig borið undir örorkunefnd. Mismunandi mat nefndarinnar og hinna sérfróðu lækna á hugsanlegum afleiðingum slyss fyrir tjónþola sé því ekki nægilegt til að víkja sérfræðilegu og sameiginlega öfluðu örorkumati málsaðila til hliðar. Því beri að leggja það til grundvallar bótauppgjöri aðila.

Varakrafa

Fari svo ólíklega að ekki verði fallist á framangreind rök stefndu, sé varakrafa þeirra byggð á þeirri forsendu að leggja beri lágmarkslaun samkvæmt 3. mgr. 7. gr. skaðabótalaga til grundvallar bótauppgjöri aðila. Benda stefndu á að slys stefnanda eigi sér stað eftir að breytingar voru gerðar á skaðabótalögunum með lögum nr. 37/1999, einkum 8. gr. þeirra laga, þar sem bótaréttur barna og þeirra sem að verulegu leyti nýta vinnugetu sína þannig að þeir hafi engar eða litlar tekjur, sé samræmdur rétti þeirra sem njóta bótaréttar eftir ákvæðum 5.-7. gr. laganna. Jafnframt var með breytingunni sett í 3. mgr. 7. gr. laganna ákvæði sem eigi að tryggja að einstaklingar með litla eða enga tekjusögu fái lágmarksbætur, og hafi fjárhæðin verið miðuð við meðaltekjur verkafólks.

Hæstiréttur hafi með dómafordæmum, grundvölluðum á lögunum fyrir breyt­ingar, með lögum nr. 37/1999, markað þá stefnu að beita bæri ákvæðum þágildandi 8. gr. laganna þegar ekki væri fyrir hendi nærliggjandi viðmiðun við árslaun til að ákveða bætur fyrir varanlega örorku samkvæmt 5.-7. gr. skaðabótalaganna.  Með breytingum þeim sem gerðar voru með lögum nr. 37/1999 hafi þeirri viðmiðun nú verið bætt inn í lögin.

Þegar stefnandi slasaðist, var hann námsmaður, sem hafði haft óverulegar tekjur á árunum næst á undan slysinu.  Afleiðingar slyssins verði að teljast óverulegar enda hafi þær í engu hamlað stefnanda, hvorki í námi né vinnu.  Stefnanda hafi af örorku­nefnd verið metinn óveruleg örorka, eða 8%, sem í tíð eldri laga hefði ekki komið til álita við bótagreiðslur, sbr. áður gildandi 8. gr. laganna.

Við mat á því hvort beita beri ákvæði 2. eða 3. mgr. 7. gr. skaðabótalaga, verði að líta heildstætt á alla þá þætti sem markað geti tjónþola bætur. Ekki nægir að líta eingöngu til þess hvort um breytta tekjusögu sé að ræða.

Samkvæmt skýru ákvæði 1. mgr. 5. gr. skaðabótalaga þurfi að vera fyrir hendi varanleg skerðing á getu tjónþola til að afla vinnutekna, þegar ástand hans sé orðið stöðugt. Að eigin sögn stefnanda, sé slík skerðing ekki fyrir hendi, þrátt fyrir niðurstöðu örorkunefndar. Stefnandi sé nú þegar að vinna við það sem hann hafi aflað sér starfsmenntunar til.  Forsendur 2. mgr. 5. gr. sömu laga til að meta stefnanda tjón af völdum örorku séu því ekki fyrir hendi.  Engin töf hafi orðið á námsframvindu stefnanda, og hvergi í gögnum málsins finnst þess nein stoð, að stefnandi hafi þurft að hafna yfirvinnu hvað þá að hlífa sér á annan hátt í þeim störfum sem hann hafi gegnt frá því slysið varð á árinu 2000. Þá komi það fram í áliti örorkunefndar að í núverandi starfi taki stefnandi föst laun án tillitis til hversu mikil yfirvinna sé unnin. Af framantöldu verði því ekki séð að fyrir hendi séu neinar svo óvenjulegar aðstæður í máli stefnanda að beita beri ákvæðum 2. mgr. 7. gr. skaðabótalaga.

Varakrafa stefndu er við það miðuð að uppgjör fari fram á grundvelli álits örorkunefndar og með hliðsjóna af 3. mgr. 7. gr. skaðabótalaga.

Stefndu hafna því, hvort heldur aðal- eða varakrafa þeirra verði lögð til grundvallar bótauppgjöri, að þar með sé verið að fjarlægjast eðlilega, sanngjarna og lögbundna nálgun á tjóni stefnanda. Hvað sem áliti örorkunefndar líður hafi stefnandi ekki sýnt fram á að hann hafi orðið fyrir fjárhagslegu tjóni af völdum slyssins 14. júlí 2000.

Þrautavarakrafa

Með vísan til þeirra raka sem að framan hafa verið rakin leggja stefndu það í mat dómsins að lækka bætur til stefnanda. Stefndu mótmæla því að reikna beri 11.5% álag á laun stefnda vegna lífeyrismótframlags vinnuveitanda, eins og krafist sé, í stað hefðbundinnar lögformlegra 6%.  Þó stefndi njóti þessara kjara í dag, sé með öllu óvíst að það muni verða viðvarandi hjá stefnanda. Þá benda stefndu á að þrátt fyrir ýmis lagafyrirmæli um viðbótarlífeyrissparnað, hefur ekki verið vikið frá þeirri meðalreglu að reikna eingöngu 6% álag vegna lífeyrissjóðsframlags vinnuveitanda.

Auk lagaákvæða sem vísað sé til í meginmáli greinargerðar stefndu vísa stefndu til 130. gr., sbr. 129 gr. s. l. um málskostnað.

 
Niðurstaða

Óumdeilt er að stefndu beri fébótaábyrgð gagnvart stefnanda samkvæmt 1. mgr. 88. gr. og 89. gr. umferðarlaga nr. 50/1987, sbr. einnig 1. og 3. mgr. 90. gr. sömu laga, að því er stefndu, Júlíönu Jónsdóttur, varðar, og samkvæmt l. mgr. 95. gr., sbr. 1. mgr. 91. gr. umferðarlaga, að því er stefnda, Lloyd´s, varðar. Félaginu er stefnt samhliða stefndu, Júlíönu, í samræmi við ákvæði 1. mgr. 97. gr. umferðarlaga.

Í málinu er ágreiningur með aðilum um það hvort stefnandi eigi rétt á bótum fyrir varanlega örorku og túlkun ákvæða 7. gr. skaðabótalaganna nr. 50/1993 í því sambandi.

Í örorkumati læknanna Atla Þórs Ólafssonar og Stefáns Carlssonar, sérfræð­inga í bæklunarlækningum, dags. 24. janúar  2002, segir svo um stefnanda í samantekt og áliti: “Við slysið þann 14.07.2000 hlaut Friðrik tognunaráverka á háls og bak auk áverka á brjóstkassa sem hann í dag ber ekki nein einkenni frá. Varanlegur miski er metinn 8%. Við mat á varanlegri örorku þá kemur fram að Friðrik tafðist ekkert við nám sitt og útskrifaðist á tilteknum tíma. Það kemur auk þess fram að hann hefur ekki misst neitt úr vinnu né þurft að hlífa sér við yfirvinnu þegar hún hefur boðist. Matsmenn telja að slys það sem er til umfjöllunar komi ekki til með að hafa áhrif á tekju­öflunarmöguleika Friðriks í framtíðinni. Varanleg örorka er metin engin.”

Í álitsgerð örorkunefndar samkvæmt 10. gr. laga nr. 50/1993 varðandi stefn­anda, dags. 10. desember 2002, segir svo í niðurstöðu: “Tjónþoli, Friðrik Friðriksson, hefur í umferðarslysi, sem varð þann 14. júlí 2000, hlotið tognun á háls og brjóst­hrygg, auk maráverka á bringu. Tjónþoli var ökumaður bifreiðar á Reykjanesbraut við Hafnarfjörð er ekið var á kyrrstæða bifreið við gatnamót Kaldárselsvegar og kastaðist sú bifreið í veg fyrir bíl tjónþola þannig að úr varð harður árekstur. Tjónþoli var með öryggisbelti spennt en það gaf sig við áreksturinn og kastaðist tjónþoli fyrst fram á stýrið og rak fætur undir mælaborð. Hann átti upphaflega erfitt með andardrátt og fann mest til fyrir brjósti en síðan komu til verkir bæði í hálsi og á milli herðablaða. Tjónþoli leitaði á Slysadeild slysdaginn, þar sem hann, auk mars á brjósti og bringu, var álitinn hafa hlotið háls- og brjóstbakstognun. Tjónþoli átti bókað flug til Dan­merkur, þar sem hann var búsettur um þessar mundir, fjórum dögum eftir slysið en varð að fresta þeirri ferð um tvær vikur. Eftir að til Danmerkur kom fór tjónþoli í sjúkraþjálfunarmeðferð, sem hjálpaði lítið. Hann fór seinna í bæði sjúkraþjálfun og einnig meðferð hjá kiropraktor án teljandi árangurs. Hefur tjónþoli haft viðvarandi stoðkerfiseinkenni í kjölfar slyssins, einkum verki í brjóstbaki, sem versna við álag, en einnig verki í hálsi og herðum sem leita upp í háls meira vinstra megin. Þá hefur tjónþoli búið við skert setuþol og einnig fær hann aukin óþægindi við langar göngur.

Skoðun leiðir meðal annars í ljós lítils háttar skerðingu á hreyfingu í hálshrygg við virkar hreyfingar, eymsli í vöðvafestingum í hnakka og í herðavöðvum, en einnig eru eymsli yfir liðamótum vinstra viðbeins, bæði við herðablað og bringubein. Tauga­skoðun er eðlileg.

Örorkunefnd telur, að eftir l. desember 2000 hafi tjónþoli ekki getað vænst frekari bata, af afleiðingum slyss þess sem hann varð fyrir þann 14. júlí 2000, en þá var orðinn. Að öllum gögnum virtum telur nefndin varanlegan miska tjónþola, vegna afleiðinga umferðarslyssins þann 14. júlí 2000, hæfilega metinn 8% - átta af hundraði.

Tjónþoli var á slysdegi 26 ára gamall og lauk lögfræðinámi nokkrum mánuðum eftir þann dag. Telja verður að störf hans í framtíðinni muni verða tengd því námi. Örorkunefnd telur að afleiðingar slyssins séu þess eðlis að þær dragi nokkuð úr úthaldi tjónþola til þeirra starfa í framtíðinni og má einkum ætla að svo verði þegar líður á starfsævi hans. Samkvæmt því er varanleg örorka hans vegna afleiðinga slyssins metin 8% - átta af hundraði-

Stefnandi kom til viðtals og skoðunar til læknanna, Brynjólfs Mogensen og Magnúsar Ólasonar, þann 9. október 2002, en þeir stóðu að álitsgerð örorkunefndar ásamt Sveini Sveinssyni hrl. Um ástand stefnanda og heilsu segir m.a. svo í álitsgerðinni  :”Tjónþoli kveðst í dag vera misjafn en hafa dagleg óþægindi, verk milli herðablaða sem versnar við álag. Tjónþoli kveðst vera verri eftir mikla yfirvinnu, til dæmis setu við tölvu og magnist þá verkirnir upp og leiti upp í háls og stundum í hnakka, meira vinstra megin. Þá kveður tjónþoli verk stundum leiða niður í mjóbak og komi sá verkur einnig við langar setur eða göngur.  Vegna framangreindra einkenna kveðst tjónþoli eiga erfitt með að taka upp þunga hluti og hann kveðst verða að forðast langar setur. Kveðst hann eiga meðal annars erfitt með að sitja lengi við tölvu.

Tjónþoli kveðst í núverandi starfi vera á föstum launum og hafi hann sambærileg laun og áður þrátt fyrir minni yfirvinnu. Hann kveður vera meiri hreyfanleika í þessu starfi, en þetta gæti allt breyst þegar kjarasamningaviðræður væru í gangi. Tjónþoli kveðst telja að afleiðingar slyssins komi til með að skerða möguleika sína á starfsvali í framtíðinni þar sem hann geti ekki unnið jafnmikið og ef til vill væri æskilegt og á hann þar við yfirvinnu og þess háttar.”

Þegar framangreindar álitsgerðir eru virtar, svo og þau læknisgögn, sem þær byggja á, og frásögn stefnanda um líðan sína, verður fallist á að afleiðingar slyssins séu til þess fallnar að skerða starfsorku hans til lengri tíma litið. Er því fallist á álit örorkunefndar um 8% varanlega örorku stefnanda vegna afleiðinga slyssins.  Stefn­andi á því rétt á bótum fyrir varanlega örorku samkvæmt ákvæðum 5.-7. gr. laga nr. 50/1993.

Stefnandi var að ljúka námi sínu í lögfræði við Háskóla Íslands er hann varð fyrir slysinu og hafði lágar launatekjur. Eftir útskrift frá lagadeild Háskóla Íslands haustið 2000 hóf stefnandi störf sem lögfræðingur hjá Innheimtustofnun sveitarfélaga og starfaði þar allt til septemberloka 2002.  Frá þeim tíma hefur hann starfað sem lög­fræðingur hjá Reykjavíkurborg.  Vegna þessara aðstæðna stefnanda, þegar slysið varð, verða árslaun til ákvörðunar bóta honum til handa ekki miðuð við meðalatvinnu­tekjur hans þrjú síðustu almanaksárin fyrir slysdag samkvæmt 1. mgr. 7. gr. laga nr. 50/1993.  Við þær aðstæður skal meta árslaunin sérstaklega í samræmi við 2. mgr. 7. gr. laganna.  Ekki liggur annað fyrir en að stefnandi muni starfa í fram­tíðinni sem lögfræðingur, svo sem hann hefur gert frá því að hann lauk embættisprófi í lögfræði.  Eftir atvikum þykir því rétt að miða árslaun til ákvörðunar bóta við þær tekjur sem hann raunverulega aflaði sér á árinu 2001, sem var fyrsta starfsár hans sem lögfræðingur.  Verður að telja að það sé réttur mælikvarði á líklegar framtíðartekjur stefnanda.  Er því fallist á aðalkröfu stefnanda í málinu að miða við tekjur hans árið 2001, sem  eru 3.873.317 kr. samkvæmt skattframtali. Þar við bætist framlag vinnu­veitanda í lífeyrissjóð, sem rétt þykir að miðist við 6%, eða 232.399 kr.  Árslaun til viðmiðunar reiknast því alls vera 4.105.716 kr.

Bætur vegna varanlegrar örorku reiknast því þannig: 

4.105.716 x 14.1833 x 8% = 4.658.608 kr.

Kröfuliðum samkvæmt töluliðum 1-3, að fjárhæð 693.040 krónur, útlagður kostnaður, þjáningarbætur og varanlegur miski, hefur ekki verið andmælt og verða teknir til greina. 

Samkvæmt framansögðu verða stefndu dæmd til að greiða stefnanda óskipt 5.351.648 kr. með þeim vöxtum sem krafist er og nánar greinir í dómsorði.

Þá ber að dæma stefndu til að greiða stefnanda málskostnað, sem telst hæfilega ákveðinn 600.000 kr.   Hefur þá verið tekið tillit til virðisaukaskatts.

Eggert Óskarsson héraðsdómari kvað upp dóm þennan.

 

D Ó M S O R Ð:

Stefndu, Júlíanna Jónsdóttir og Lloyd´s of London, greiði óskipt stefnanda, Friðriki Friðrikssyni, 5.351.648 kr. auk 4,5% vaxta á ári af 561.740 kr. frá 14. júlí 2000 til 1. desember 2000, en af 5.220.348 kr. frá þeim degi til 20. janúar 2003, en dráttarvaxta samkvæmt l. málsgr. 6. gr. laga nr. 38/2001 um vexti og verðtryggingu af 5.351.648 kr. frá 20. janúar 2003 til greiðsludags og 600.000 kr. í málskostnað.