Hæstiréttur íslands
Mál nr. 368/2008
Lykilorð
- Kærumál
- Aðför
- Dómur
|
|
Mánudaginn 1. september 2008. |
|
Nr. 368/2008. |
Brynjar Aðalsteinn Sigurðsson(Benedikt Ólafsson hrl.) gegn Stapa lífeyrissjóði (Árni Pálsson hrl.) |
Kærumál. Aðför. Dómar.
Með dómi Hæstaréttar frá 20. desember 2007 var S dæmdur til að greiða B dráttarvexti af vangreiddum mánaðarlegum örorkulífeyri. Í dómsorðinu höfðu verið taldar upp þær greiðslur sem reikna bæri dráttarvexti af og gjalddagar þeirra, auk frádráttur sem kæmi til vegna staðgreiðslu verðbóta. Eftir dóminn gerði S upp við B í samræmi við útreikning Hæstaréttar samkvæmt forsendum dómsins. B taldi kröfu sína hins vegar ekki að fullu greidda og var að hans kröfu gert fjárnám í fasteign S vegna þessa, en aðfararbeiðni B var reist á dómsorði Hæstaréttar. Deildu aðilar nú á um lögmæti fjárnámsins og hvernig skýra bæri dómsorð Hæstaréttar. Í dómi Hæstaréttar sagði að í forsendum dómsins frá 20. desember 2007 hefði komið fram hvernig reikna skyldi dráttarvexti af skuld S fram til 1. júní 2004, þegar fram fór greiðsla sem varnaraðili taldi ljúka skuldinni. Kæmi þar fram að skuldin svo út reiknuð skyldi teljast hluti stofnkröfunnar, þar sem greiðsla þennan dag hefði fyrst gengið inn á ófyrnda dráttarvexti og ætti sú fjárhæð sem þá stæði eftir að bera dráttarvexti frá þeim tíma. Fyrir mistök hefði framhald dómsorðsins ekki verið í samræmi við þetta en um bersýnilega villu hefði verið að ræða þar sem forsendur dómsins væru skýrar um það hvaða hátt skyldi hafa á við útreikning á kröfunni. Með hliðsjón af 3. mgr. 116. gr. laga nr. 91/1991 gæti dómurinn ekki talist hafa veitt aðfararheimild fyrir hærri skuld en þeirri sem lýst væri með skýrum hætti í forsendum dómsins. Hefði S með greiðslu 7. janúar 2008 gert upp skuld sína við B í samræmi við útreikning samkvæmt forsendum. Var hinn kærði úrskurður um að fella úr gildi umrædda aðfarargerð því staðfestur.
Dómur Hæstaréttar.
Mál þetta dæma hæstaréttardómararnir Ólafur Börkur Þorvaldsson, Hjördís Hákonardóttir og Jón Steinar Gunnlaugsson.
Sóknaraðili skaut máli þessu til Hæstaréttar með kæru 19. júní 2008 sem barst réttinum ásamt kærumálsgögnum 4. júlí sama ár. Kærður er úrskurður Héraðsdóms Norðurlands eystra 5. júní 2008, þar sem felld var úr gildi aðfarargerð sem sýslumaðurinn á Akureyri gerði í eignarhluta varnaraðila í fasteigninni Strandgötu 3, Akureyri, 22. febrúar 2008. Kæruheimild er í 3. mgr. 95. gr. laga nr. 90/1989 um aðför. Sóknaraðili krefst þess að umrædd aðfarargerð verði staðfest. Þá krefst hann málskostnaðar í héraði og kærumálskostnaðar.
Varnaraðili krefst staðfestingar hins kærða úrskurðar og kærumálskostnaðar óskipt úr hendi sóknaraðila og lögmanns hans.
Af dómi Hæstaréttar 20. desember 2007 í máli nr. 240/2007 er í dómsorði kveðið á um hvernig reikna skuli dráttarvexti af skuld varnaraðila fram til 1. júní 2004, þegar fram fór greiðsla sem varnaraðili taldi ljúka skuldinni. Er í forsendum dómsins sagt að skuldin svo út reiknuð skuli teljast hluti stofnkröfunnar, þar sem greiðsla þennan dag hafi fyrst gengið inn á ófyrnda dráttarvexti. Eigi sú fjárhæð sem þá stóð eftir að bera dráttarvexti frá þeim tíma. Fyrir mistök varð framhald dómsorðsins ekki í samræmi við þetta, þar sem kveðið var þar á um að fjárhæðin sem skyldi bera dráttarvexti frá 1. júní 2004 næmi 3.041.566 krónum en ekki samtölu þeirra dráttarvaxta sem fallið höfðu til fram að þeim degi og mynduðu þá hluta „stofnkröfunnar sem beri dráttarvexti frá þessum tíma“, eins og segir í forsendum hæstaréttardómsins. Hér er um að ræða bersýnilega villu, þar sem forsendur dómsins eru skýrar um hvaða hátt skuli hafa á við útreikning á kröfu sóknaraðila. Með hliðsjón af 3. mgr. 116. gr. laga nr. 91/1991 um meðferð einkamála verður talið að dómurinn veiti ekki aðfararheimild fyrir hærri skuld en þeirri sem samkvæmt framansögðu er lýst með skýrum hætti í forsendum dómsins. Varnaraðili gerði upp skuld sína við sóknaraðila 7. janúar 2008 miðað við útreikning samkvæmt forsendunum. Hefur sóknaraðili ekki hnekkt þeim útreikningi. Hinn kærði úrskurður verður því staðfestur.
Með vísan til 3. mgr. 130. gr., sbr. 4. mgr. 150. gr. og 166. gr. laga nr. 91/1991 verður kærumálskostnaður felldur niður.
Dómsorð:
Hinn kærði úrskurður er staðfestur.
Kærumálskostnaður fellur niður.
Úrskurður Héraðsdóms Norðurlands eystra 5. júní 2008.
I.
Með bréfi sóknaraðila, Stapa lífeyrissjóðs, kt. 601092-2559, Strandgötu 3, Akureyri, dagsettu 12. marz 2008 og mótteknu 13. marz 2008, krafðist hann þess, að felld yrði úr gildi fjárnámsgerð nr. 024-2008-00100 sem sýslumaðurinn á Akureyri hefði hinn 22. febrúar 2008, gert hjá sóknaraðila að kröfu varnaraðilans Brynjars Aðalsteins Sigurðssonar, kt. 021269-5499, Múlasíðu 3b, Akureyri Fjárnámið hefði verið gert í eignarhluta sóknaraðila í fasteigninni Strandgötu 3, Akureyri (fastanúmer 224-5705) fyrir kröfu að fjárhæð kr. 4.190.743 auk áfallandi dráttarvaxta, kostnaðar við gerðina og kostnaðar af frekari fullnustugerðum ef til kæmi. Þá krefst sóknaraðili málskostnaðar úr hendi varnaraðilans Brynjars Aðalsteins Sigurðssonar og Benedikts Ólafssonar hæstaréttarlögmanns in solidum samkvæmt framlögðum málskostnaðarreikningi
Varnaraðilinn Brynjar Aðalsteinn krefst þess að fjárnámsgerðin verði staðfest og sóknaraðili dæmdur til að greiða sér málskostnað að skaðlausu. Benedikt Ólafsson krefst þess að vera sýknaður af málskostnaðarkröfu sóknaraðila og málskostnaðar úr hendi hans.
Málið var tekið til úrskurðar að loknum munnlegum málflutningi hinn 8. maí 2008.
II.
Sóknaraðili lýsir málavöxtum svo, að hann hafi frá því í maí 1998 greitt varnaraðilanum Brynjari Aðalsteini örorkulífeyri. Ágreiningur hafi orðið þeirra í milli um fjárhæð þess lífeyris sem sóknaraðila bæri að greiða samkvæmt samþykktum sínum. Hinn 20. desember 2001 hafi varnaraðili höfðað viðurkenningarmál á hendur sóknaraðila en því máli verið vísað frá dómi hinn 23. maí 2003. Hinn 12. júní hafi varnaraðili höfðað mál að nýju og hinn 18. marz 2004 hafi svo verið dæmt að að við framreikning réttinda varnaraðila skyldi fara eftir grein 19.3 í samþykktum sóknaraðila. Sóknaraðili hafi tilkynnt varnaraðila að hann myndi ekki áfrýja dómnum og hefði hinn 1. júní 2004 greitt varnaraðila 3.536.351 krónu samkvæmt yfirliti er hann hefði gert um breyttan útreikning lífeyris um tímabilið maí 1998 til og með maí 2004. Hafi greiðslan sundurliðazt svo, að 3.041.566 krónur hafi verið vangreiddar örorkubætur á tímabilinu og 494.785 krónur verið verðbætur vegna mánaðarlegra greiðslna sama tímabils. Frá hafi verið dregin staðgreiðsla opinberra gjalda að fjárhæð 1.364.324 krónur og varnaraðili því fengið 2.172.027 krónur í hendur. Hafi sóknaraðili talið sig með þessu hafa gert upp við varnaraðila í samræmi við dóminn.
Varnaraðili hafi hins vegar talið sér vangreitt og hinn 11. nóvember 2005 hafi hann höfðað nýtt mál og krafizt dráttarvaxta af ógreiddum mánaðarlegum lífeyri frá einstökum gjalddögum og einnig byggt á því, að óheimilt hefði verið að draga af honum vegna staðgreiðslu opinberra gjalda. Hann hafi byggt kröfuna svo upp, að reiknaðir hafi verið dráttarvextir frá maí 1998 til 1. júní 2004 sem alls hafi numið 2.353.683 krónum, og vangreiddur lífeyrir hafi numið 3.041.566 krónum og alls 5.395.249 krónur. Frá þeirri fjárhæð hafi varnaraðili svo dregið 2.172.027 krónur sem sóknaraðili hafi greitt honum hinn 1. júní 2004, og höfuðstóll dómkröfunnar því verið 3.223.222 krónur. Í héraði hafi krafan verið tekin til greina og sóknaraðili dæmdur til að greiða umkrafða fjárhæð með dráttarvöxtum frá 1. júní 2004 til greiðsludags.
Sóknaraðili hafi áfrýjað þessum dómi til Hæstaréttar Íslands. Þar hafi málið fengið númerið 240/2007 og dómur í því fallið hinn 20. desember 2007. Í II. kafla dómsins hafi verið komizt að þeirri niðurstöðu að rétt hafi verið hjá sóknaraðila, við greiðsluna hinn 1. júní 2004, að draga frá greiðslufjárhæð 1.364.324 vegna innheimtu opinberra gjalda og hafi varnaraðila ekki borið að fá þá fjárhæð í hendur. Í III. kafla dómsins hafi Hæstiréttur komizt að þeirri niðurstöðu að varnaraðili hafi átt rétt á dráttarvöxtum af ógreiddum lífeyri. Hins vegar hafi hluti dráttarvaxtakröfunnar verið fyrndur og því ætti varnaraðili einungis rétt til dráttarvaxta af ógreiddum lífeyri frá 11. nóvember 2001 en ekki frá því í maí 1998 eins og krafizt hefði verið og héraðsdómur fallizt á. Þá hafi Hæstiréttur tekið fram, að draga skyldi frá 65.455 krónur vegna verðbóta sem sóknaraðili hefði greitt varnaraðila og getið þess að þær skyldi draga frá miðað við 1. júní 2004. Í dómsorði Hæstaréttar hafi hins vegar ekki verið minnzt á frádrátt þeirrar fjárhæðar sem sóknaðili hafi sannanlega greitt varnaraðila hinn 1. júní 2004 eða frádrátt vegna staðgreiðslu opinberra gjalda.
Sóknaraðili segist hafa hinn 7. janúar 2008 greitt varnaraðila, á grundvelli þessa dóms, 1.749.595 krónur og hafi þá talið sig hafa fullgreitt í samræmi við dóm Hæstaréttar. Varnaraðili hafi hins vegar talið sóknaraðila bera að greiða 4.190.743 krónur til viðbótar og hinn 22. febrúar 2008 hafi að hans kröfu, en gegn mótmælum sóknaraðila, verið gert fjárnám í fasteign sóknaraðila fyrir slíkri kröfu.
Sóknaraðili segir, að í umræddu hæstaréttarmáli hafi varnaraðili krafizt þess, að sóknaraðili dæmdi sér 3.223.222 krónur ásamt dráttarvöxtum frá 1. júní 2004. Í dóminum hafi verið slegið föstu að sóknaraðila hafi verið rétt að draga af varnaraðila staðgreiðslu opinberra gjalda að fjárhæð 1.364.324 krónur. Þá hafi Hæstiréttur komizt að þeirri niðurstöðu dráttarvextir frá maí 1998 til 11. nóvember 2001 væru fyrndir, og séu það 42 mánuðir af þeim 73 sem myndað hafi höfuðstól kröfunnar. Þrátt fyrir þetta krefjist varnaraðili nú að sóknaraðili greiði sér 4.190.743 krónur til viðbótar við þær 1.749.595 krónur sem sóknaraðili hafi greitt hinn 7. janúar 2008. Ætlist varnaraðili því til að sóknaraðili greiði sér alls 5.940.338 krónur. Þegar litið sé til þess að Hæstiréttur hafi að verulegu leyti tekið til greina þær kröfur sóknaraðila sem leitt hafi til lækkunar á kröfum varnaraðila skjóti það skökku við að hann krefjst nú mun hærri fjárhæðar en hann hafi áður krafizt fyrir dómi. Ætti það eitt og sér að sýna að nokkuð sé bogið við útreikninga varnaraðila.
Eins og áður hefur komið fram, segist sóknaraðili hafa greitt varnaraðila 1.749.595 hinn 7. janúar 2008. Segist hann hafa við útreikning sinn fært inn þann lífeyri sem greiða hafi átt varnaraðila á tilteknum gjalddögum, til að reikna út dráttarvextina í samræmi við dómsorð Hæstaréttar. Það hafi hann gert svo:
|
ógreiddur lífeyrir 1. júní 2004 |
3.041.566 krónur |
|
dráttarvextir til 1. júní 2004 |
1.269.917 krónur |
|
greiðsla sóknaraðila til varnaraðila 1. júní 2004 |
-2.172.027 krónur |
|
afdregin staðgreiðsla vegna opinberra gjalda 1. júní 2004 |
-1.364.324 krónur |
|
frádregnar verðbætur, 1. júní 2004 |
-65.455 krónur |
|
Alls |
709.677 krónur. |
Af þeirri heildarfjárhæð sem varnaraðila hafi borið að fá greiddar hinn 1. júní 2004 hafi 709.677 krónur verið ógreiddar. Hinn 7. janúar 2008 hafi sóknaraðili greitt varnaraðila 1.749.595 sem þannig hafi verið fundnar að auk áðurgreindra 709.677 króna hafi dráttarvextir numið 739.392 krónum og málskostnaður 300.000 krónum. Telji sóknaraðili sig með þessu hafa fullgreitt varnaraðila, og sé þessi aðferð sú sem varnaraðili hafi lagt upp með í því máli sem Hæstiréttur hafi dæmt. Þar hafi varnaraðili lagt saman ógreiddan lífeyri, 3.041.566 krónur, og dráttarvexti frá maí 1998 til 1. júní 2004, og samtals hafi það numið 2.353.683 krónum. Hér sé það einnig gert, en í samræmi við niðurstöðu Hæstaréttar um fyrning hluta dráttarvaxta sé dráttarvaxtaupphæðin talsvert lægri, eða 1.269.917 krónur. Þá hafi varnaraðili í upphaflegu dómsmáli sínu dregið frá 2.172.027 krónur sem hann hefði fengið greiddar frá sóknaraðila, og sama geri sóknaraðili hér. Þá dragi sóknaðili frá, og sé það í samræmi við niðurstöðu Hæstaréttar, 1.364.324 krónur vegna staðgreiðslu og 65.455 krónur vegna verðbóta.
Sóknaraðili segir, að í dómsorði Hæstaréttar séu taldar upp þær greiðslur sem reikna beri dráttarvexti af og gjalddagar þeirra. Aðeins sé þar tekið fram að draga beri frá 65.455 krónur en ekki sagt að draga beri frá 2.172.027 krónur sem sóknaraðili hafi áður greitt varnaraðila og 1.363.324 vegna staðgreiðslu, sem Hæstiréttur taki þó fram í dómi sínum að beri að fallast á með sóknaraðila að gera skuli. Ekki sé gott að segja hvers vegna rétturinn geti ekki um þessa frádráttarliði í dómsorðinu en hugsanlega hafi rétturinn ekki talið þess þurfa þar eð ekki væri um þá tölulegur ágreiningur. Greiðslan sem Hæstiréttur nefni sé sú eina sem rétturinn hafi breytt að tölu, og sé hugsanlegt að það sé skýringin. En þó ekki sé ljóst hvers vegna rétturinn nefni ekki þessa frádráttarliði í dómsorði sínu sé ljóst af lestri dómsins að draga beri þær frá, svo rétt niðurstaða fáist í málið. Verði byggt á útreikningum varnaraðila sé niðurstaðan sú að Hæstiréttur hafi farið út fyrir dómkröfur varnaraðila og væri slík túlkun í andstöðu við 111. gr. laga nr. 91/1991 um meðferð einkamála. Telji sóknaraðili sig því hafa fullnægt greiðsluskyldu sinni við varnaraðila og beri því að ógilda fjárnámsgerðina.
Sóknaraðili styður kröfu sína á hendur lögmanni varnaraðila með vísan til 130. og 131. gr. laga nr. 91/1991 sbr. 94. gr. laga nr. 90/1989 um aðför. Augljóst sé, að kröfur varnaraðila á hendur sóknaraðila gangi ekki upp, en hann geri hærri greiðslu en hann hafi upphaflega krafizt í dómsmálinu og það eins þó Hæstiréttur hafi að verulegu leyti fallizt á sjónarmið sóknaraðila sem leitt hafi til lækkunar dómkrafna. Þó byggi varnaraðili á dómsorðinu og virðist auk þess hafna frádrætti 2.172.027 króna, sem hann hafi þó sjálfur dregið frá þegar hann hafi reiknað út dómkröfur sínar. Falli slík kröfugerð undir c lið 1. mgr. 131. gr. laga nr. 91/1991 og með vísan til 4. mgr. 131. gr. laganna beri að dæma lögmanninn til að greiða málskostnaðinn með umbjóðanda sínum. Í munnlegum málflutningi fullyrti lögmaður sóknaraðila að lögmaður varnaraðila héldi í málinu fram kröfum sem hann ekki aðeins mætti vita að væru rangar, heldur vissi beinlínis.
III.
Varnaraðili segist byggja á því að krafa sín á hendur sóknaraðila sé ekki að fullu greidd og mótmæla útreikningum sóknaraðila þess efnis sem röngum og að engu hafandi. Aðfararbeiðni sín sé reist á dómsorði Hæstaréttar Íslands í máli nr. 240/2007 og greiðslur þær, sem sóknaraðili hafi innt af hendi til varnaraðila áður en dómur réttarins hafi verið kveðinn upp hafi komið fram í gögnum málsins og verið til umfjöllunar fyrir réttinum. Í 2. mgr. 114. gr. laga nr. 91/1991 sé ætlazt til þess að dómi fylgi ályktarorð, dómsorð, þar sem dregin sé saman aðalniðurstaða máls og taki dómstóllinn þar sjálfur afstöðu til þess hvaða lokaniðurstaða felist í úrlausn hans. Þá segist varnaraðili byggja á því að í 1. tl. 1. mgr. laga nr. 90/1989 felist sú meginregla að heimild til aðfarar á grundvelli dóms sé bundin við þær kröfur sem fram komi í ályktarorði úrlausnarinnar, dómsorði, en nái ekki til atriða sem aðeins sé til um í forsendum hennar. Varnaraðili kveðst vísa til 1. mgr. 1. gr. laga nr. 90/1989 vegna aðfararheimildar og styðja málskostnaðarkröfu sína við 1. mgr. 130. gr. laga nr. 91/1991.
IV
Aðfararbeiðni varnaraðila styðst við dóm Hæstaréttar Íslands í máli milli aðila. Er það fullgild aðfararheimild sbr. 1. tl. 1. mgr. 1. gr. laga nr. 91/1989 um aðför.
Samkvæmt 2. mgr. 114. gr. laga nr. 91/1991 um meðferð einkamála skal dómstóll draga aðalniðurstöðu hvers dómsmáls saman í dómsorð. Gerði Hæstiréttur Íslands það í máli því milli aðila er rétturinn dæmdi hinn 20. desember 2007, máli nr. 240/2007. Segir Hæstiréttur þar, að sóknaraðili þessa máls skuli greiða varnaraðila dráttarvexti samkvæmt 1. mgr. 6. gr. laga nr. 38/2001 um vexti og verðtryggingu af nánar greindum fjárhæðum, fyrst af 1.654.114 krónum frá 11. nóvember 2001 til 1. desember 2001, en svo af nýrri og nýrri fjárhæð frá mánuði til mánaðar, allt þar til greiddir skuli dráttarvextir af 3.041.566 krónum frá 1. júní 2004 til greiðsludags. Um frádrátt frá þessari greiðsluskyldu segir Hæstiréttur að þetta skuli greiða „allt að frádregnum 65.455 krónum sem greiddar voru 1. júní 2004“. Þá er sóknaraðila gert að greiða varnaraðila 300.000 krónur í málskostnað fyrir Hæstarétti.
Í aðfararbeiðni varnaraðila er krafa hans sett fram samhljóða dómsorði Hæstaréttar.
Eins og kemur fram í greinargerð sóknaraðila, segir Hæstiréttur ekkert um það í dómsorði sínu að frá greiðsluskyldu sóknaraðila skuli dragast þær fjárhæðir er sóknaraðili nefnir, það er að segja 2.172.027 krónur sem sóknaraðili segist áður hafa greitt varnaraðila og 1.363.324 vegna staðgreiðslu opinberra gjalda. Sóknaraðili telur að það beri engu að síður að gera og lagði við munnlegan málflutning áherzlu á að dóm Hæstaréttar yrði að skoða í heild sinni en ekki dómsorðið eitt. Yrði dómsorð Hæstaréttar lagt eitt til grundvallar fengist að mati sóknaraðila röng niðurstaða sem meðal annars leiddi til þess að varnaraðili fái greidda hærri fjárhæð en hann krafðist fyrir dómi.
Samkvæmt 1. tl. 1. mgr. 1. gr. laga nr. 91/1989 má gera aðför til fullnustu íslenzkra dóma. Eru þeir aðfararhæfir samkvæmt dómsorði sínu en ekki samkvæmt einstökum atriðum í megintexta sínum, enda er það er hvorki hlutverk né á valdi þess er aðförina framkvæmir að leggja mat á forsendur dómsins og bera þær saman við dómsorð. Kunna ýmsar ástæður jafnan að valda því að niðurstaða dóms um einstök málsatvik rati ekki í það dómsorð þar sem dómurinn dregur saman aðalatriði málsins. Er því meginregla, að sá sem hefur í höndum endanlegan dóm þess efnis að hann eigi rétt á tiltekinni greiðslu úr hendi annars manns, á rétt á heimtu hennar með beinni aðfarargerð.
Þegar sýslumaðurinn á Akureyri tók fyrir aðfararbeiðni varnaraðila, mótmælti sóknaraðili beiðninni og kvað skuld sína samkvæmt þeim dómi, sem varnaraðili reisti aðfararbeiðni sína á, vera að fullu greidda. Krafa varnaraðila, sem beint er tekin úr dómsorði Hæstaréttar, er eins og áður sagði um greiðslu dráttarvaxta samkvæmt 1. mgr. 6. gr. laga nr. 38/2001 af ýmsum fjárhæðum, fyrst af 1.654.114 krónum frá 11. nóvember 2001 til 1. desember 2001, en svo af nýrri og nýrri fjárhæð frá mánuði til mánaðar, allt þar til greiddir skuli dráttarvextir af 3.041.566 krónum frá 1. júní 2004 til greiðsludags. Var aðfararbeiðni varnaraðila byggð á því að þessir dæmdu dráttarvextir væru allir ógreiddir og útreikningar sóknaraðila um annað því rangir.
Óumdeilt er að hinn 7. janúar 2008 greiddi sóknaraðili varnaraðila 1.749.595 krónur, og eins og áður sagði telur sóknaraðili að þar með eigi varnaraðili ekki frekari kröfu á sig.
Fyrir liggur að hinn 1. júní 2004 greiddi sóknaraðili varnaraðila 2.172.027 krónur. Um þessa greiðslu segir Hæstiréttur í dómi sínum: „Þegar afstaða er tekin til kröfu [varnaraðila] um dráttarvexti eftir 1. júní 2004 verður að líta svo á að greiðsla [sóknaraðila] þann dag hafi gengið fyrst inn á áfallna ófyrnda dráttarvexti og verður við úrlausn málsins að leggja til grundvallar að eftir hafi þá staðið hluti stofnkröfunnar sem beri dráttarvexti frá þessum tíma.“ Er því hér slegið föstu að með greiðslu sinni hinn 1. júní 2004 hafi sóknaraðili staðið varnaraðila skil á öllum þeim ófyrndu dráttarvöxtum sem þá hafi verið fallnir til og hafi stofnkrafa varnaraðila einnig minnkað. Í samræmi við framanritað verður að telja, að sóknaraðila hafi við uppgjör til varnaraðila vegna dómsins verið heimilt að telja að með greiðslu sinni hinn 1. júní 2004 hafi hann greitt varnaraðila alla þá dráttarvexti sem þá voru á fallnir, og að þá hafi einungis staðið eftir hluti stofnkröfu hans sem bæri dráttarvexti frá þeim tíma. Þegar horft er til greiðslu sóknaraðila hinn 7. janúar 2008, og þeirra útreikninga sem hann hefur lagt fram og ekki þykir hafa verið hnekkt en þykja sennilegir, þykir mega leggja til grundvallar að sóknaraðili hafi gert upp við varnaraðila í samræmi við dóm Hæstaréttar hinn 20. desember 2007. Verður því ekki komizt hjá því að fella úr gildi það fjárnám sem gert var til tryggingar greiðslu samkvæmt dóminum hinn 22. febrúar 2008.
Í málinu hefur sóknaraðili krafizt þess að lögmanni varnaraðila verði gert að greiða málskostnað in solidum með umbjóðanda sínum og staðhæfir að lögmaðurinn hafi ekki verið að vinna hefðbundið lögmannsverk fyrir umbjóðandann heldur vísvitandi reynt að innheimta kröfu sem hann vissi að ætti ekki við nein rök að styðjast. Þó hér hafi orðið sú niðurstaða að fella beri hið umdeilda fjárnám úr gildi þykir dóminum sem þessi ásökun á hendur lögmanni varnaraðila hafi ekki verið sönnuð í málinu og verður ekki orðið við þessari kröfu.
Rétt þykir að allur málskostnaður falli niður.
Þorsteinn Davíðsson héraðsdómari kveður upp úrskurð þennan.
ÚRSKURÐARORÐ
Fjárnámsgerð sú, nr. 024-2008-00100, sem sýslumaðurinn á Akureyri gerði hinn 22. febrúar 2008, að kröfu varnaraðila, Brynjars Aðalsteins Sigurðssonar, í eignarhluta sóknaraðila, Stapa lífeyrissjóðs, í fasteigninni Strandgötu 3, Akureyri, er felld úr gildi.
Málskostnaður fellur niður.