Hæstiréttur íslands

Mál nr. 364/2007


Lykilorð

  • Kærumál
  • Gæsluvarðhald. A. liður 1. mgr. 103. gr. laga nr. 19/1991


Miðvikudaginn 11

 

Miðvikudaginn 11. júlí 2007.

Nr. 364/2007.

Lögreglustjórinn á höfuðborgarsvæðinu

(Stefán Eiríksson lögreglustjóri)

gegn

X

(Jón Höskuldsson hrl.)

 

Kærumál. Gæsluvarðhald. a. liður 1. mgr. 103. gr. laga nr. 19/1991.

Úrskurður héraðsdóms um að X skyldi sæta gæsluvarðhaldi á grundvelli a. liðar  1. mgr. 103. gr. laga nr. 19/1991 um meðferð opinberra mála  var staðfestur.

 

Dómur Hæstaréttar.

Mál þetta dæma hæstaréttardómararnir Gunnlaugur Claessen, Garðar Gíslason og Ingibjörg Benediktsdóttir.

Varnaraðili skaut málinu til Hæstaréttar með kæru 9. júlí 2007, sem barst réttinum ásamt kærumálsgögnum 10. sama mánaðar. Kærður er úrskurður Héraðsdóms Reykjavíkur 9. júlí 2007, þar sem varnaraðila var gert að sæta gæsluvarðhaldi allt til miðvikudagsins 18. júlí 2007 kl. 16. Kæruheimild er í 1. mgr. 142. gr. laga nr. 19/1991 um meðferð opinberra mála. Varnaraðili krefst þess að hinn kærði úrskurður verði felldur úr gildi.

Sóknaraðili krefst staðfestingar hins kærða úrskurðar.

Með vísan til forsendna hins kærða úrskurðar verður hann staðfestur.

Dómsorð:

Hinn kærði úrskurður er staðfestur.

 

Úrskurður Héraðsdóms Reykjavíkur 9. júlí 1007.

Lögreglustjórinn á höfuðborgarsvæðinu hefur krafist þess að X, kt. [...], verði gert að sæta gæsluvarðhaldi, allt til miðvikudagsins 18. júlí 2007 kl. 16:00.

Í greinargerð lögreglustjóra kemur fram að borist hafi tilkynning frá fjarskiptamiðstöð lögreglunnar sunnudagskvöldið 8. júlí sl. kl. 23:44 um að rán væri yfirstandandi í verslun 10-11 við Barónsstíg í Reykjavík og liggi kærði og tveir aðrir menn undir rökstuddum grun um að hafa framið ránið vopnaðir skammbyssu. Samkvæmt framburði starfsmanna verslunarinnar hafi þrír menn komið inn í verslunina og hafi einn mannanna otað skammbyssu að afgreiðslustúlkum og heimtað peninga.  Mennirnir hafi haft á brott með sér óþekkta upphæð af reiðufé. Myndbandsupptökuvél sé í versluninni og sjáist þar til kærða og félaga hans inn í versluninni.  Kærði hafi svo verið handtekinn stuttu seinna við verslunina Aktu-Taktu á Sæbraut í Reykjavík, en lýsing á mönnunum sem frömdu ránið  hafi passað við klæðaburð kærða við handtöku. Kærði hafi verið yfirheyrður vegna málsins og neiti sök.

Í greinargerð lögreglustjóra segir einnig að rannsókn málsins sé skammt á veg komin og snúi rannsókn nú að því að finna meinta samverkamenn kærða. Þá þurfi að finna vopnið og ránsfenginn. Þörf sé á ítarlegum skýrslum af kærða og meintum samverkamönnum hans. Tæknivinnu á einnig eftir að klára, auk þess sem eftir eigi að taka skýrslur af starfsmönnum verslunarinnar. 

Að mati lögreglu má ætla að ef kærði verði látinn laus muni hann eiga þess kost að torvelda rannsókn málsins, svo sem með því að afmá merki eftir brot og skjóta undan munum, en ekki liggi ljóst fyrir hversu mikið af fjármunum ránsmennirnir höfðu á brott með sér. Þá sé mikil hætta á því að kærða verði kleift að hafa áhrif á vitni eða hugsanlega samverkamenn, gangi hann laus. Þá eigi eftir að finna vopnið og ránsfenginn. Rannsóknarhagsmunir séu þannig ríkir á þessu stigi málsins og sé þar af leiðandi talið mikilvægt að orðið verði við kröfu embættisins.

Um sé að ræða mjög alvarlegt brot þar sem mjög alvarlegri aðferð var beitt og getur brotið varðað allt að 16 ára fangelsi ef sök sannast.

Samkvæmt því sem rakið er í greinargerð lögreglustjóra liggur fyrir rökstuddur grunur um að kærði hafi gerst sekur um brot sem getur varðað fangelsisrefsingu.  Rannsókn málsins stendur yfir og verður að telja að rann­sóknar­hagsmunir krefjist þess að kærði sæti gæsluvarðhaldi til að hann geti ekki torveldað rannsókn málsins. Teljast skilyrði a- liðar  1. mgr. 103. gr. laga nr. 19/1991 um meðferð opinberra mála uppfyllt og verður krafa lögreglustjórans á höfuðborgarsvæðinu tekin til greina eins og hún er fram sett.

Ingimundur Einarsson héraðsdómari kvað upp úrskurðinn.

Ú r s k u r ð a r o r ð:

Kærði, X, kt. [...], er gert að sæta gæsluvarðhaldi allt til miðvikudagsins 18. júlí 2007 kl. 16:00.