Hæstiréttur íslands
Mál nr. 315/2015
Lykilorð
- Kærumál
- Vitni
|
|
Mánudaginn 4. maí 2015. |
|
Nr. 315/2015.
|
Ákæruvaldið (Daði Kristjánsson saksóknari) gegn X (Vilhjálmur Hans Vilhjálmsson hrl.) |
Kærumál. Vitni.
Staðfestur var úrskurður héraðsdóms þar sem hafnað var kröfu X um að leiða þrjú nafngreind vitni fyrir héraðsdóm.
Dómur Hæstaréttar.
Mál þetta dæma Helgi I. Jónsson hæstaréttardómari og Ingveldur Einarsdóttir og Karl Axelsson settir hæstaréttardómarar.
Varnaraðili skaut málinu til Hæstaréttar með kæru 25. apríl 2015, sem barst réttinum ásamt kærumálsgögnum 30. sama mánaðar. Kærður er úrskurður Héraðsdóms Reykjavíkur 24. apríl 2015, þar sem hafnað var kröfu varnaraðila um að þrjú nafngreind vitni yrðu leidd fyrir dóminn. Kæruheimild er í n. lið 1. mgr. 192. gr. laga nr. 88/2008 um meðferð sakamála. Varnaraðili krefst þess að framangreind krafa verði tekin til greina.
Sóknaraðili krefst staðfestingar hins kærða úrskurðar.
Með dómi Hæstaréttar 5. mars 2015 í máli nr. 488/2014, þar sem héraðsdómur var ómerktur, var lagt fyrir sóknaraðila að leiða D fyrir dóm um þau atvik er hann lýsti hjá lögreglu. Þar sem ekki var þar mælt fyrir um frekari munnlega sönnunarfærslu verður þegar af þeirri ástæðu staðfest niðurstaða hins kærða úrskurðar.
Dómsorð:
Hinn kærði úrskurður er staðfestur.
Úrskurður Héraðsdóms Reykjavíkur 24. apríl 2015.
Með ákæru ríkissaksóknara 4. febrúar 2014 var ákærða gefið að sök kynferðisbrot. Var brotið talið varða við 1. og 2. mgr. 194. gr. laga nr. 19/1940. Með dómi héraðsdóms 5. júní 2014 var ákærði sakfelldur og dæmdur í 4 ára fangelsi. Ákærði áfrýjaði héraðsdómi til Hæstaréttar, sem með dómi í máli nr. 488/2014 ómerkti héraðsdóm og vísaði málinu heim í hérað á ný til löglegrar meðferðar og dómsálagningar.
Við fyrirtöku málsins á dómþingi 22. apríl sl. gerði verjandi ákærða þá kröfu að vitnin A, B og C, sem öll komu fyrir héraðsdóm við síðustu aðalmeðferð málsins, kæmu fyrir dóminn á nýjan leik. Var þeirri kröfu mótmælt af hálfu sækjanda. Var málið í framhaldi flutt um þá kröfu ákærða. Var málið tekið til úrskurðar að loknum málflutningi.
Ákærði, sem í þessum þætti er varnaraðili, krefst þess að vitnin A, B og C, komi fyrir dóminn á nýjan leik.
Ríkissaksóknari, sem í þessum þætti er sóknaraðili málsins, krefst þess að kröfu varnaraðila um vitnaleiðslur verði hafnað.
Af hálfu varnaraðila er á því byggt að hin nafngreindu vitni séu lykilvitni í málinu, en þau hafi öll verið að [...]. Vitnin A og B hafi augljóslega ruglað saman vitnunum C og D og talið D hafa verið rekstraraðila staðarins. Ætlunin sé að leiða þessi atriði til lykta í endurtekinni vitnaskýrslu. Þá skipti máli að verjandinn fái að spyrja þessi lykilvitni, en verjandinn hafi ekki verið með málið fyrir héraðsdómi á fyrra stigi. Með því móti geti hann tryggt hagsmuni ákærða sem best. Miklu skiptir að málið sé rannsakað nægjanlega.
Af hálfu sóknaraðila er kröfu ákærða mótmælt á þeirri forsendu að Hæstiréttur hafi í máli sínu um ómerkingu héraðsdóms mælt fyrir um hvaða vitni skyldu koma fyrir dóminn. Sé það einungis D. Úr dómi réttarins megi lesa að ekki hafi verið gert ráð fyrir að frekari vitnaleiðslur færu fram. Þá hafi varnaraðili ekki skýrt nægjanlega hvaða ástæða sé til að fá hin nafngreindu vitni fyrir dóminn á nýjan leik. Þau atriði sem varnaraðili vísi til séu fremur málflutningsatriði fremur en þörf á endurteknum skýrslum. Loks eigi verjandaskipti ekki að leiða til þess að vitni þurfi að koma fyrir dóminn aftur. Algengt sé að skipt sé um verjanda í sakamálum og leiði það eitt og sér ekki til endurtekinnar skýrslutöku. Af endurritum megi glöggt ráða hver fyrri framburður vitna hafi verið.
Niðurstaða:
Í dómi Hæstaréttar í máli nr. 488/2014, sem ómerkti héraðsdóm í því máli sem hér er til meðferðar, sagði að héraðsdómi hafi borið að leggja fyrir ákæruvald að leiða fyrir dóminn vitni til skýrslugjafar um þau atvik er vitnið D lýsti fyrir lögreglu, sbr. 2. mgr. 110. gr. og 1. mgr. 111. gr. laga nr. 88/2008 um meðferð sakamála. Var hinn áfrýjaði dómur ómerktur og lagt fyrir héraðsdóm að leggja dóm á málið að nýju, að undangenginni skýrslugjöf ofangreinds manns fyrir dómi.
Vitni þau sem varnaraðili vísar til komu fyrir dóminn við fyrri aðalmeðferð málsins og gáfu þar nokkuð ítarlegar skýrslur. Vitnin C og D, voru bæði stödd að [...], en vitnið C var rekstraraðili staðarins [...]. Af gögnum málsins má ráða að D hafi starfað á staðnum en samkvæmt óformlegri skýrslu hans hjá lögreglu vísaði hann ákærða og brotaþola út af staðnum um bakdyr. Kann það skýra hugsanlega villu vitnanna A og B um hlutverk vitnisins á staðnum. Það gerir hins vegar ekki kröfu um að vitni þessi komi fyrir dóminn á nýjan leik til þess eins að þeim verði gerð fyrir því að vitnið var einungis starfandi á staðnum. Varnaraðili hefur ekki bent á önnur atriði sem leiða eigi til þess að vitnin komi fyrir dóminn. Verður ekki séð að þörf sé á frekari vitnaleiðslum í máli þessu en Hæstiréttur hefur mælt sérstaklega fyrir um og leiðir skipun nýs verjanda ekki til þess að þörf sé á endurteknum skýrslugjöfum. Verður kröfum varnaraðila um vitnaleiðslur því hafnað.
Símon Sigvaldason, héraðsdómari kveður upp úrskurð þennan.
Ú r s k u r ð a r o r ð:
Kröfu varnaraðila, X, um að vitnin A, B og C, komi fyrir dóminn til skýrslugjafar, er hafnað.