Hæstiréttur íslands

Mál nr. 265/2015


Lykilorð

  • Tollalagabrot
  • Upptaka
  • Skilorð
  • Aðfinnslur


Dómsatkvæði

                                     

Fimmtudaginn 17. desember 2015.

Nr. 265/2015.

Ákæruvaldið

(Hulda Elsa Björgvinsdóttir saksóknari)

gegn

Gísla Val Gíslasyni

(Jónas Jóhannsson hrl.)

Tollalagabrot. Upptaka. Skilorð. Aðfinnslur.

G var sakfelldur í héraði fyrir hlutdeild í lyfja- og tollalagabroti annarra með því að hafa flutt ólöglega til landsins nánar tiltekin lyf, áfengi og tóbak. Þá var hann sakfelldur fyrir tollalagabrot með því að hafa haft í vörslum á heimili sínu nánar tiltekið magn af sterum og munntóbaki. Var refsing hans ákveðin 30 daga fangelsi skilorðsbundið í tvö ár. Við þingfestingu málsins játað G skýlaust að hafa gerst sekur um þá háttsemi sem honum var gefin að sök en fyrir Hæstarétti var einungis deilt um refsiákvörðun héraðsdóms. Við ákvörðun refsingar var litið til játningar G og þess að brot hans hefðu ekki verið alvarleg. Hefði hann hvorki komið að skipulagningu á innflutningnum né virtist sem hann hefði haft af því broti sérstakan ávinning. Þá var litið til þess að verulegar tafir hefðu orðið á útgáfu ákæru í málinu og rekstri málsins í héraði sem G bæri enga ábyrgð á. Að þessu gættu var ákvörðun refsingar G frestað skilorðsbundið í tvö ár.

Dómur Hæstaréttar.

Mál þetta dæma hæstaréttardómararnir Benedikt Bogason og Karl Axelsson og Ingveldur Einarsdóttir settur hæstaréttardómari.

Ríkissaksóknari skaut málinu til Hæstaréttar 31. mars 2015 í samræmi við yfirlýsingu ákærða um áfrýjun. Af hálfu ákæruvaldsins er þess krafist að refsing ákærða verði þyngd.

Ákærði krefst þess aðallega að honum verði ekki gerð refsing í málinu, en til vara að hún verði milduð.

I

Með hinum áfrýjaða dómi var ákærði sakfelldur fyrir hlutdeild í lyfja- og tollalagabroti annarra með því að hafa 1. júlí 2012 flutt ólöglega til landsins nánar tiltekin lyf, áfengi og tóbak með flutningaskipinu [...]. Þá var ákærði sakfelldur fyrir brot gegn tollalögum með því að hafa haft í vörslum á heimili sínu nánar tiltekið magn af sterum, svokölluðum Kamagra töflum og munntóbaki sem hann vissi eða mátti vita að hefðu verið ólöglega flutt til landsins.

Mál gegn ákærða og samverkamönnum hans var upphaflega höfðað af lögreglustjóranum á höfuðborgarsvæðinu með ákæru 21. desember 2013. Dómur gekk þó ekki fyrr en ári síðar og með dómi Hæstaréttar 21. janúar 2015 í máli nr. 19/2015 var ákærunni vísað frá dómi þar sem lögreglustjórann brast heimild til þess að höfða málið utan umdæmis síns án fyrirmæla frá ríkissaksóknara. Að fengnum þeim fyrirmælum höfðaði lögreglustjórinn mál á ný með ákæru 10. febrúar 2015. Við þingfestingu þess játaði ákærði skýlaust að hafa gerst sekur um þá háttsemi sem honum var gefin að sök í ákæru, en fyrir Hæstarétti er einungis deilt um refsiákvörðun héraðsdóms.

II        

Við ákvörðun refsingar verður að líta til þess að ákærði játaði skýlaust brot sitt, en einnig er þess að gæta að brot ákærða, sem var sakfelldur fyrir hlutdeild í ólöglegum innflutningi samkvæmt ákærulið I og vörslu stera, lyfja og munntóbaks samkvæmt ákærulið II, voru ekki alvarleg og kom hann hvorki að skipulagningu brots samkvæmt fyrri ákæruliðnum né virðist hann hafa haft af því broti sérstakan ávinning. Þá verður að líta til þeirra verulegu tafa sem hafa orðið á málinu, en af gögnum málsins má ráða að rannsókn þess hafi að mestu lokið í ágúst 2012. Ákæruvaldið höfðaði aftur á móti ekki mál gegn ákærða sem var tækt til efnismeðferðar fyrr en í febrúar 2015 en á þeim aðfinnsluverða drætti sem varð á útgáfu ákæru og rekstri málsins í héraði hið fyrra sinn bar ákærði enga ábyrgð. Að þessu gættu er rétt að fresta ákvörðun refsingar á þann hátt sem nánar greinir í dómsorði.

Ákvæði hins áfrýjaða dóms um sakarkostnað ákærða verður staðfest.

Eftir þessum úrslitum málsins verður ákærða gert að greiða helming áfrýjunarkostnaðar málsins, þar á meðal af málsvarnarlaunum skipaðs verjanda síns, sem ákveðin eru  að meðtöldum virðisaukaskatti eins og segir í dómsorði.

Dómsorð:

Ákvörðun refsingar ákærða, Gísla Vals Gíslasonar, skal frestað og hún falla niður að liðnum 2 árum frá uppsögu þessa dóms haldi hann almennt skilorð 57. gr. almennra hegningarlaga nr. 19/1940, sbr. 4. gr. laga nr. 22/1955.

Ákvæði héraðsdóms um sakarkostnað ákærða verður staðfest.

Ákærða verður gert að greiða helming áfrýjunarkostnaðar málsins, sem samtals er  511.377 krónur að meðtöldum málsvarnarlaunum skipaðs verjanda hans, Jónasar Jóhannssonar hæstaréttarlögmanns, 496.000 krónur.

Dómur Héraðsdóms Suðurlands 10. mars 2015.

                Mál þetta er höfðað með ákæru lögreglustjórans á höfuðborgarsvæðinu dagsettri 10. febrúar sl., á hendur ákærðu, Gísla Val Gíslasyni, kt. [...], til heimilis að Vesturvegi 11b, Vestmannaeyjum, X, kt. [...], til heimilis að [...] og Y, kt. [...], til heimilis að [...],

„[f]yrir eftirgreind áfengis-, lyfja og tollalagabrota framin sunnudaginn 1. júlí 2012:

I.

Gegn ákærðu Gísla Val, X og Y fyrir ólögmætan innflutning lyfja, áfengis og tóbaks, með því að hafa með komu flutningaskipsins [...], sem ákærðu Y og X eru skipverjar á, til [...], sunnudaginn 1. júlí 2012, smyglað hingað til lands samtals 12 lítrum af léttvíni, 24 lítrum af sterku áfengi, 3 kartonum af Winston blue sígarettum, 200 stungulyfjaglös [sic] af vefaukandi sterum (samtals 740 mg) og 10.158 töflum er innihalda lyfið octopamine, án þess að gera tollgæslunni grein fyrir varningnum. Ákærðu Y og X stóðu saman að skipulagningu innflutningsins. Ákærði Y greiddi fyrir varninginn og fékk hann afhentan erlendis, kom honum fyrir í skipinu og gekk frá honum í þar til gerða brúsa. Þegar skipið nálgaðist [...] kastaði ákærði Y varningnum af skipinu með aðstoð nafngreinds skipverja. Ákærði X og meðákærði Gísli Valur sigldu með trillunni [...] út á haf og tóku brúsana úr sjónum. Ákærðu X og Gísli Valur voru handteknir er þeir gengu af bryggju að landi í [...] með hluta af ofangreindum varningi. Ákærði Y var handtekinn við komu [...] í Sundahöfn í Reykjavík síðar sama dag. 

Telst brot þetta varða við 1. mgr. og 4. mgr. 27. gr., sbr. 1. mgr. 170[.] gr. tollalaga nr. 88/2005, sbr. 6. og 12. gr. reglugerðar nr. 630/2008 um ýmis tollfríðindi, 5. mgr., sbr. 1. og 2. mgr. 51. gr., sbr. 1. mgr. 68. gr. lyfsölulaga nr. 30/1963, 7. gr., sbr. 48. gr. lyfjalaga nr. 93/1994 og 1. gr. og 2. gr., sbr. 7. gr. reglugerðar nr. 212/1998 um innflutning einstaklinga á lyfjum til eigin nota, allt sbr. 22. gr. almennra hegningarlaga nr. 19/1940 að því er varðar ákærða Gísla Val.

II.

Gegn ákærða Gísla fyrir brot gegn tollalögum, með því að hafa að Vesturvegi 11b í Vestmannaeyjum, haft í vörslum sínum 68 stykki af vefaukandi sterum, 23 stykki af Kamagra töflum og 10 stykki af munntóbaki, sem ákærði vissi eða mátti vita að hefðu verið ólöglega flutt til landsins, sem fannst við leit á heimili Gísla.

Telst brot þetta varða við 1. mgr. 171. gr., sbr. 169. gr., tollalaga nr. 88/2005.

III.

Gegn ákærða X fyrir brot gegn tollalögum, með því að hafa í bifreiðinni [...] haft í vörslum sínum 424 stykki af Kamagra og 142 stykki af Kamagra Oral jelly (samtals 710 mg), sem ákærði vissi eða mátti vita að hefðu verið ólöglega flutt inn til landsins, sem lögreglumenn fundu við leit í bifreiðinni.

Telst brot þetta varða við 1. mgr. 171. gr., sbr. 169. gr., tollalaga nr. 88/2005.

Þess er krafist að ákærðu verði dæmdir til refsingar, til greiðslu sakarkostnaðar. Krafist er upptöku á samtals 12 lítrum af léttvíni, 24 lítrum af sterku áfengi, 3 kartonum af Winston Blue sígarettum, 200 stungulyfjaglös [sic] (samtals 740 mg) af vefaukandi sterum, 10.158 töflum er innihalda lyfið octopamine, 424 stykkjum af Kamagra, 142 stykki [sic] af Kamagra Oral jelly (samtals 710 mg), 68 stykki [sic] af vefaukandi sterum, 23 stykki [sic] af Kamagra og 10 stykkjum af munntóbaki, með vísan til 3. mgr. 48. gr. lyfjalaga nr. 93/1994, 1. mgr. 181. gr. tollalaga nr. 88/2005 og 3. mgr. 28. gr. áfengislaga nr. 75/1998.“

                Mál þetta var þingfest þann 5. mars sl. Rétt þykir að geta þess að mál var höfðað gegn ákærðu vegna brota þeirra er lýst er í ákæru þann 21. desember 2013, en því máli var vísað frá dómi með úrskurði uppkveðnum 15. desember 2014, sem staðfestur var í Hæstarétti Íslands þann 21. janúar sl.

                Við þingfestingu málsins mættu ákærðu X og Y ásamt Ólafi Björnssyni hrl., sem skipaður var verjandi þeirra beggja að þeirra ósk, enda ekki talið að vörn þeirra yrði áfátt vegna þessa. Þá mætti ákærði Gísli Valur ásamt Jónasi Jóhannssyni hrl., sem skipaður var verjandi ákærða að hans ósk.

Ákærðu viðurkenndu allir skýlaust að hafa gerst sekir um þá háttsemi sem þeim er gefin að sök í ákæru. Með vísan til skýlausrar játningar ákærðu allra og þar sem dómari taldi ekki ástæðu til að draga í efa að játning þeirra væri sannleikanum samkvæm var farið með málið í samræmi við ákvæði 1. mgr. 164. gr. laga nr. 88/2008 um meðferð sakamála, eftir að sækjanda og verjendum ákærðu hafði verið gefinn kostur á að tjá sig um lagaatriði og ákvörðun viðurlaga. Kom fram í máli verjanda ákærða Gísla Vals að hluta sakarkostnaðar væri mótmælt, þ.e. reikningi Lyfjastofnunar, er sækjandi lagði fram við þingfestingu. Þá afsalaði verjandinn sér þóknun vegna málsins. Báðir verjendur vísuðu til þess að mikill dráttur hefði verið á málinu, er rétt væri að taka tillit til við ákvörðun refsingar. 

Um málavexti vísast til ákæruskjals. Sannað er að ákærðu hafa gerst sekir um þá háttsemi sem þeim er gefin að sök í ákæru og þar þykir rétt færð til refsiákvæða, þó að teknu tilliti til þess að refsiákvæði lyfjalaga sem áður var í 48. gr. er nú í 49. gr. laganna. Rétt þykir að geta þess, að þó ákæra beri með sér að brot ákærðu sé meðal annars áfengislagabrot, eru brot þeirra ekki heimfærð til áfengislaga. Ákærðu hafa með háttsemi sinni unnið sér til refsingar.

Samkvæmt framlögðu sakavottorði ákærða Gísla Vals hefur ákærði einu sinni áður sætt refsingu, en honum var þann 14. september 2005 gerð sekt vegna nytjastuldar og umferðarlagabrota, auk þess sem hann var sviptur ökurétti tímabundið. Samkvæmt framlögðum sakavottorðum ákærðu X og Y hefur hvorugur þeirra áður sætt refsingu.

Refsing ákærða Gísla Vals er hæfilega ákveðin fangelsi í 30 daga. Að virtum atvikum máls og að teknu tilliti til skýlausrar játningar ákærða og þess að nokkur dráttur hefur orðið á málinu, þykir rétt að fresta fullnustu refsingarinnar og skal hún falla niður að liðnum tveimur árum haldi ákærði almennt skilorð 57. gr. almennra hegningarlaga nr. 19/1940, með áorðnum breytingum.

Refsing ákærða X er hæfilega ákveðin fangelsi í 60 daga. Að virtum atvikum máls og að teknu tilliti til skýlausrar játningar ákærða, þess að hann hefur ekki áður sætt refsingu og að því virtu að nokkur dráttur hefur orðið á málinu, þykir rétt að fresta fullnustu refsingarinnar og skal hún falla niður að liðnum tveimur árum haldi ákærði almennt skilorð 57. gr. almennra hegningarlaga nr. 19/1940, með áorðnum breytingum.

Refsing ákærða Y er hæfilega ákveðin fangelsi í 60 daga. Að virtum atvikum máls og að teknu tilliti til skýlausrar játningar ákærða, þess að hann hefur ekki áður sætt refsingu og að því virtu að nokkur dráttur hefur orðið á málinu, þykir rétt að fresta fullnustu refsingarinnar og skal hún falla niður að liðnum tveimur árum haldi ákærði almennt skilorð 57. gr. almennra hegningarlaga nr. 19/1940, með áorðnum breytingum.

Með vísan til 3. mgr. 49. gr. (áður 48. gr.) lyfjalaga nr. 93/1994, 1. mgr. 181. gr. tollalaga nr. 88/2005 og 3. mgr. 28. gr. áfengislaga nr. 75/1998, er fallist á kröfu ákæruvalds um upptöku, líkt og greinir í dómsorði.

Ekki er fallist á það með verjanda ákærða Gísla Vals að kostnaður vegna flokkunar Lyfjastofnunar er gerð var í málinu teljist ekki til sakarkostnaðar skv. 216. gr. laga nr. 88/2008 um meðferð sakamála, enda er að mat dómsins að flokkunin hafi verið nauðsynleg til að upplýsa um hvort umræddar töflur féllu undir ákvæði lyfjalaga. Með vísan til framangreinds og 218. gr. laga nr. 88/2008 um meðferð sakamála, sbr. og. 2. mgr. 219. gr. sömu laga, ber að dæma ákærðu til greiðslu alls sakarkostnaðar óskipt, sem nemur samkvæmt yfirliti lögreglu og framlagðra gagna, samtals 164.719 kr. Með vísan til 1. mgr. 219. gr. laga nr. 88/2008, skulu ákærðu X og Y, þar að auki greiða óskipt þóknun skipaðs verjanda síns, sem er ákveðin 225.060 kr. að teknu tilliti til virðisaukaskatts.

Sólveig Ingadóttir, löglærður aðstoðarmaður dómara, kveður upp dóm þennan.

 D ó m s o r ð :

Ákærði, Gísli Valur Gíslason, sæti fangelsi í 30 daga, en fresta skal fullnustu refsingarinnar og skal hún falla niður að liðnum tveimur árum haldi ákærði almennt skilorð 57. gr. almennra hegningarlaga nr. 19/1940.

Ákærði, X, sæti fangelsi í 60 daga, en fresta skal fullnustu refsingarinnar og skal hún falla niður að liðnum tveimur árum haldi ákærði almennt skilorð 57. gr. almennra hegningarlaga nr. 19/1940.

Ákærði, Y, sæti fangelsi í 60 daga, en fresta skal fullnustu refsingarinnar og skal hún falla niður að liðnum tveimur árum haldi ákærði almennt skilorð 57. gr. almennra hegningarlaga nr. 19/1940.

Gerðir eru upptækir samtals 12 lítrar af léttvíni, 24 lítrar af sterku áfengi, 3 karton af Winston Blue sígarettum, 200 stungulyfjaglös (samtals 740 mg) af vefaukandi sterum 10.158 töflur er innihalda lyfið octopamine, 424 stykki af Kamagra, 142 stykki af Kamagra Oral jelly (samtals 710 mg), 68 stykki af vefaukandi sterum, 23 stykki af Kamagra og 10 stykki af munntóbaki, sem lagt var hald á við rannsókn málsins.

Ákærðu greiði allir óskipt sakarkostnað að fjárhæð 164.719 krónur. Ákærðu X og Y greiði þar að auki óskipt, þóknun skipaðs verjanda síns, Ólafs Björnssonar hrl., sem nemur 225.060 krónum, að teknu tilliti til virðisaukaskatts.