Hæstiréttur íslands
Nr. 2023-104
Lykilorð
- Áfrýjunarleyfi
- Fíkniefnalagabrot
- Ákvörðun refsingar
- Hafnað
Ákvörðun Hæstaréttar
1. Samkvæmt 4. mgr. 16. gr. laga nr. 50/2016 um dómstóla standa að ákvörðun þessari hæstaréttardómararnir Karl Axelsson, Ása Ólafsdóttir og Björg Thorarensen.
2. Með beiðni 23. júlí 2023 leitar Anna Lefik-Gawryszczak leyfis Hæstaréttar, á grundvelli 1. mgr., sbr. 4. mgr. 215. gr. laga nr. 88/2008 um meðferð sakamála, til að áfrýja dómi Landsréttar 23. júní sama ár í máli nr. 71/2023: Ákæruvaldið gegn Önnu Lefik-Gawryszczak. Leyfisbeiðanda var birtur dómurinn 19. júlí 2023. Ákæruvaldið leggst gegn beiðninni.
3. Leyfisbeiðandi var ákærð fyrir stórfellt fíkniefnalagabrot samkvæmt 173. gr. a almennra hegningarlaga nr. 19/1940 með því að hafa staðið að innflutningi á samtals 3800 millilítrum af amfetamínbasa, sem hafði 40-43% styrkleika, ætluðum til söludreifingar hér á landi í ágóðaskyni. Fíkniefnin flutti leyfisbeiðandi til landsins í fjórum vínflöskum með flugi frá Varsjá í Póllandi til Keflavíkurflugvallar.
4. Leyfisbeiðandi var sakfelld í héraðsdómi og dæmd til fimm og hálfs árs fangelsisvistar en með dómi Landsréttar var refsing hennar milduð í fjögurra ára fangelsi. Landsréttur komst að þeirri niðurstöðu að framburður leyfisbeiðanda í heild sinni væri ótrúverðugur. Samræmdist hann ekki að öllu leyti framburði vitnis sem ferðaðist með leyfisbeiðanda til landsins og ætti sér heldur ekki stoð í rannsóknargögnum. Taldi rétturinn ljóst að ásetningur leyfisbeiðanda hefði staðið til þess að flytja fíkniefnin til landsins og með hliðsjón af magni og styrkleika efnanna þætti ljóst að þau hefðu verið ætluð til sölu og dreifingar hér á landi í ágóðaskyni. Ekki var fallist á með leyfisbeiðanda að meðferð málsins fyrir héraðsdómi hefði dregist úr hófi og var við ákvörðun refsingar vísað til dómaframkvæmdar.
5. Leyfisbeiðandi byggir á því að áfrýjun lúti að atriðum sem hafi verulega almenna þýðingu og mikilvægt sé að fá úrlausn Hæstaréttar um. Þá sé dómur Landsréttar bersýnilega rangur bæði að formi og efni til. Vísar leyfisbeiðandi einkum til þess að hún hafi verið sakfelld fyrir skipulagningu og fjármögnun á innflutningi fíkniefna. Með því hafi verið farið út fyrir efni ákæru við sakfellingu hennar þar sem skilja verði ákæru þannig að hún hefði flutt vökvann til landsins fyrir aðra sem hefðu fjármagnað og skipulagt brotið. Þá hafi henni verið ákvörðuð of þung refsing en það kunni að skýrast af því að sakfelling hafi miðað við að hún hafi skipulagt og fjármagnað brotið. Þá telur hún að meðferð málsins fyrir héraðsdómi hafi dregist úr hófi en ekki hafi verið tekið tillit til þess við ákvörðun refsingar í Landsrétti.
6. Að virtum gögnum málsins verður hvorki séð að það lúti að atriðum sem hafi verulega almenna þýðingu né að mjög mikilvægt sé af öðrum ástæðum að fá úrlausn Hæstaréttar um þannig að fullnægt sé skilyrðum 2. málsliðar 4. mgr. 215. gr. laga nr. 88/2008. Þá eru ekki efni til að beita heimild 3. málsliðar 4. mgr. sömu lagagreinar í málinu. Niðurstaða Landsréttar um sakfellingu leyfisbeiðanda byggir jafnframt að verulegu leyti á mati á sönnunargildi munnlegs framburðar en það mat verður ekki endurskoðað fyrir Hæstarétti, sbr. 5. mgr. 215. gr. laga nr. 88/2008. Beiðni um áfrýjunarleyfi er því hafnað.