Hæstiréttur íslands
Mál nr. 337/2005
Lykilorð
- Sjúkrahús
- Læknir
- Læknaráð
- Matsgerð
|
|
Fimmtudaginn 9. febrúar 2006. |
|
Nr. 337/2005. |
Guðmundur Helgi Ármannsson (Björgvin Þorsteinsson hrl. Benedikt Ólafsson hdl.) gegn Guðrúnu Vigdísi Sverrisdóttur og (Ragnar Halldór Hall hrl.) Friðjóni Skúlasyni (Kristín Edwald hrl. Heimir Örn Herbertsson hdl.) og Guðrún Vigdís Sverrisdóttir gegn Guðmundi Helga Ármannssyni |
Sjúkrahús. Læknar. Læknaráð. Matsgerð.
GH krafði F um skaðabætur vegna óhapps, sem hann varð fyrir 1992, þegar hann rak annan fótinn í járnbolta, sem festur hafði verið í gólf nýbyggingar þar sem hann var að vinna, og féll í gólfið. Talið var að GH, sem var lærður smiður og hafði unnið við nýbyggingar frá 1987, hafi mátt vera ljóst að ekki var búið að fjarlægja alla járnboltana. Hafi honum borið að sýna aðgát þar sem hann var með fangið fullt af timbri og sá ekki fram fyrir sig. Varð óhappið ekki rakið til sakar F og var hann því sýknaður af kröfum GH. Hann krafði GV einnig um skaðabætur vegna þess að hann taldi að GG, sem GV sat í óskiptu búi eftir, hefðu orðið á mistök við meðhöndlun á áverka á hné GH og að það hafi valdið því að afleiðingar óhappsins hafi orðið meiri en ella hefðu orðið. Í dómi Hæstaréttar var staðfest sú niðurstaða dómkvaddra matsmanna og héraðsdóms, sem skipaður var sérfróðum meðdómsmönnum, að nær útilokað hefði verið, að árangur meðferðar gegn sýkingu í hnénu í kjölfar aðgerðar á því hefði orðið annar, þótt meðferðin hefði hafist fyrr. Þá var staðfest niðurstaða hinna dómkvöddu matsmanna, sem báðir voru bæklunarlæknar, að GG hefði í einu og öllu staðið eðlilega að meðferð GH miðað við þær hefðir, sem voru ríkjandi á þeim tíma, enda hefði álit þeirra ekki verið hrakið. GV var því sýknuð af öllum kröfum GH.
Dómur Hæstaréttar.
Mál þetta dæma hæstaréttardómararnir Gunnlaugur Claessen, Garðar Gíslason, Guðrún Erlendsdóttir, Hrafn Bragason og Markús Sigurbjörnsson.
Aðaláfrýjandi skaut máli þessu til Hæstaréttar 26. júlí 2005. Hann krefst þess aðallega að stefndi Friðjón Skúlason verði dæmdur til að greiða sér 8.312.336 krónur með nánar tilteknum ársvöxtum frá 1. ágúst 2000 til 8. nóvember 2002, en með dráttarvöxtum samkvæmt 1. mgr. 6. gr. laga nr. 38/2001 um vexti og verðtryggingu frá þeim degi til greiðsludags. Þá krefst hann þess að gagnáfrýjandi verði dæmd in solidum með stefnda Friðjóni til að greiða sér af framangreindri fjárhæð 5.541.557 krónur með sömu vöxtum og áður getur. Til vara krefst aðaláfrýjandi þess að stefndi Friðjón og gagnáfrýjandi verði dæmd, in solidum eða pro rata, til að greiða lægri fjárhæð samkvæmt mati dómsins. Þá krefst hann málskostnaðar í héraði og fyrir Hæstarétti, án tillits til gjafsóknar sem honum var veitt fyrir héraðsdómi.
Gagnáfrýjandi áfrýjaði héraðsdómi fyrir sitt leyti 22. ágúst 2005. Hún krefst aðallega sýknu af kröfu aðaláfrýjanda en til vara að hún verði lækkuð verulega. Þá krefst hún málskostnaðar í héraði og fyrir Hæstarétti.
Stefndi Friðjón krefst aðallega staðfestingar héraðsdóms og málskostnaðar fyrir Hæstarétti en til vara að krafa aðaláfrýjanda verði lækkuð og málskostnaðar felldur niður.
Sjóvá-Almennum tryggingum hf. hefur verið stefnt til réttargæslu í málinu.
Fyrir Hæstarétti hefur aðaláfrýjandi fallið frá kröfu um bætur fyrir tímabundið atvinnutjón og lækkað þar með kröfu sína um 2.576.517 krónur.
I.
Eins og fram kemur í héraðsdómi starfaði aðaláfrýjandi, sem er smiður, hjá stefnda Friðjóni við byggingu Setbergsskóla í Hafnarfirði, en stefndi sá um framkvæmdir sem verktaki. Hinn 9. nóvember 1992 var aðaláfrýjandi að bera timbur milli hæða, þegar hann rak annan fótinn í járnbolta, sem festur var í gólfið og stóð upp úr því. Féll hann og fékk timbrið yfir sig, rak hægra hné og vinstri öxl í gólfið og mikill hnykkur kom á hægri fót. Samkvæmt framburði hans var hann með fangið fullt af timbri og sá ekki nógu vel fram fyrir sig og hrasaði þess vegna um boltann. Setbergsskóli er tvær hæðir og var verið að gera hann fokheldan, þegar þetta gerðist. Steyptur stigi var milli hæða og fyrir neðan stigann var áðurnefndur járnbolti, sem stóð um 5-6 sm upp úr gólfinu. Þennan dag var verið að fjarlægja timbur af gólfum, sem notað hafði verið sem stífur við uppsteypu veggja, og skera boltana, sem upp úr stóðu, með slípirokki.
Eins og að framan greinir er aðaláfrýjandi lærður smiður. Hann var búinn að vinna við nýbyggingar frá árinu 1987 og hafði unnið við byggingu Setbergsskóla í 2-3 mánuði þegar umrætt atvik varð. Verið var að fjarlægja timbrið, sem boltarnir höfðu stutt við, og mátti aðaláfrýjanda vera ljóst að ekki væri búið að fjarlægja þá alla og gætu því einhverjir þeirra staðið upp úr gólfinu. Honum bar að sýna aðgát þar sem hann var með fangið fullt af timbri og sá því ekki fram fyrir sig. Óhapp þetta verður ekki rakið til sakar stefnda og er fallist á niðurstöðu héraðsdóms um sýknu hans af kröfu aðaláfrýjanda.
II.
Aðaláfrýjandi reisir bótakröfu sína á hendur gagnáfrýjanda á því, að eiginmaður hennar, Guðmundur J. Guðjónsson læknir, sem hún situr í óskiptu búi eftir, hafi gert skaðabótaskyld mistök í starfi sínu, sem hafi valdið því að afleiðingar áverkans, sem hlaust af slysinu 9. nóvember 1992, hafi orðið meiri en ella hefði orðið. Beri gagnáfrýjandi fulla ábyrgð á þeim hluta tjónsins sem af því stafar og metið hafi verið 2/3 af heildartjóninu.
Í kjölfar slyss aðaláfrýjanda gerði Guðmundur J. Guðjónsson liðþófaaðgerð á hægra hné hans 4. desember 1992. Gekk aðgerðin vel og var hann útskrifaður af sjúkrahúsi sólarhring síðar. Eins og lýst er í héraðsdómi stakk Guðmundur á hnénu 6. desember og dró út 120 ml af blóðlituðum liðvökva. Tvisvar eftir það, 9. og 11. desember, stakk Guðmundur á hnénu og dró út liðvökva, en óvissa ríkir um hvort það var einnig gert 7. desember. Hinn 13. desember var aðaláfrýjandi lagður inn á sjúkrahús vegna sýkingar í hnénu sem komið hafði í ljós við ræktun sýna, sem tekin voru 9. og 11. desember.
Aðaláfrýjandi telur Guðmund J. Guðjónsson hafa gert alvarleg mistök með því að bregðast ekki við hugsanlegri sýkingu með viðeigandi lyfjagjöf fyrr en gert var. Reisir hann kröfu sína á örorkumati Sigurjóns Sigurðssonar læknis 16. september 1998 sem taldi varanlega örorku vegna slyssins vera 15%, þar af væri afleiðing sýkingarinnar 10%.
Guðmundur J. Guðjónsson skráði í sjúkraskrá 19. desember 1992, að aðaláfrýjandi hafi verið hitalaus, er hann stakk á hnénu 6. desember, hnéð hafi verið útblásið en hvorki hiti né roði á því. Liðvökvinn hafi verið blóðlitaður en nokkuð eðlilegur að sjá. Aftur hafi hann stungið á hnénu og dregið út um 100 ml af minna blóðugum vökva en aðeins meira „skýjuðum“ og hafi hann sent tvö glös í ræktun. Það sama hafi verið gert seinna í vikunni. Ekkert hafi ræktast úr sýnunum fyrr en 12. desember, þegar ræktaðist úr einu þeirra, en 13. desember ræktaðist úr öllum fjórum, og var aðaláfrýjandi þá lagður inn á sjúkrahús til sýklalyfjameðferðar, þaðan sem hann útskrifaðist 19. desember á Reykjalund. Sams konar lýsing kom fram í bréfi Guðmundar til heilsugæslunnar á Reykjalundi 8. mars 1993.
Í bréfi Guðmundar J. Guðjónssonar til landlæknisembættisins 24. mars 1998 í tilefni af kvörtun aðaláfrýjanda lýsti hann aðstæðum við ástunguna 6. desember 1992 á sama hátt og að framan getur. Síðan kvaðst hann hafa næst stungið á liðnum 9. desember og dregið út 100 ml af skýjuðum vökva og sent tvö glös í ræktun. Það sama hafi hann gert 11. desember. Þegar ljóst var 13. desember að sýking var komin í liðinn hafi hann lagt aðaláfrýjanda inn á sjúkrahús.
Í áliti landlæknis 29. apríl 1998 og 10. september 2000 kom fram að setja hefði átt aðaláfrýjanda á sýklalyf strax og grunur vaknaði um sýkingu og ekki síðar en við ástunguna 9. desember. Ekki væri unnt að útiloka, að sá dráttur sem var á því að sýklalyfjameðferð hæfist, hafi átt verulegan þátt í óþægindum hans. Byggði álit landlæknis á umsögn Haraldar Briem yfirlæknis, en fyrir liggur að hann hafði ekki undir höndum skýringarnar, sem Guðmundur J. Guðjónsson hafði gefið vegna meðferðar aðaláfrýjanda.
Í áliti læknaráðs 18. nóvember 2003, sem tekið er upp í heild í héraðsdómi, sagði að efni hefðu verið til að hefja sýklalyfjameðferð fyrr en gert var, hugsanlega 9. desember þegar nokkur ástæða var til að gruna sýkingu. Fram er komið að hvorki í læknaráði né réttarmáladeild þess sat bæklunar- eða skurðlæknir við meðferð þessa máls.
Að beiðni gagnáfrýjanda voru dómkvaddir tveir bæklunarlæknar og lagðar fyrir þá sömu spurningar og lagðar voru fyrir læknaráð. Í ítarlegri matsgerð þeirra 24. ágúst 2004 kom fram, að sýkingar í hné eftir liðþófaaðgerðir væru sjaldséðar og hvergi hefði verið sýnt fram á að töf á meðferð hefði bein áhrif á endanlega útkomu. Einn algengasti fylgikvilli opinnar liðþófaaðgerðar væri blæðing í lið og algengt að þörf væri á endurteknum liðástungum til þess að létta á þrýstingi, tæma út blóð og vökva og bæta hreyfigetu í hnéliðnum. Af níu algengum fylgikvillum við opnar liðþófaaðgerðir geti fjórir (blæðing, bólga, æðaáverki og blóðtappi) gefið einkenni svipuð og við sýkingu. Þetta viti reyndur skurðlæknir og verði að vega einkennin hvert á móti öðru. Töldu matsmenn ljóst, að engin ein aðferð til að greina sýkingu í hné á frumstigi eða ein leið til meðferðar væri rétt, hér gætu hinar ýmsu aðferðir leitt til sömu eða svipaðrar niðurstöðu fyrir sjúklinginn. Orðrétt sagði í matsgerðinni: „Miðað við þær meðferðarhefðir sem voru ríkjandi á Landspítalanum í Reykjavík og meðferðarlæknir hafði tileinkað sér og viðhafði ... á umræddum tíma er greining og meðferð innan þess ramma sem kalla má „lege artis”.” Matsmenn tóku fram, að vel sé þekkt að bakteríur úr umhverfinu geti mengað ræktunarsýni og sé ekki unnt að áfellast lækninn fyrir að álíta að svo hafi verið um þann bakteríuvöxt, sem hann fékk upplýsingar um 12. desember 1992. Þeir töldu því, að lækninum hefði ekki verið fullljóst fyrr en 13. desember að um sýkingu væri að ræða og að fyllilega hefði verið réttlætanlegt að bíða eftir endanlegum niðurstöðum ræktunar áður en meðferð var hafin.
Héraðsdómur, sem skipaður var sérfróðum meðdómendum, taldi að gagnáfrýjandi yrði að bera halla af skorti á upplýsingum um ástand aðaláfrýjanda þar sem sjúkraskrárfærsla Guðmundar J. Guðjónssonar á tímabilinu 5. til 13. desember 1992 hafi verið ófullnægjandi. Ekki sé unnt að útiloka, að aðaláfrýjandi hafi haft einkenni við ástungurnar, sem gátu bent til sýkingar, svo sem hækkaðan líkamshita eða hraðan púls. Taldi héraðsdómur því að fullt tilefni hefði verið 9. desember að kanna betur liðvökvann eða hefja sýklalyfjameðferð meðan beðið væri eftir niðurstöðum ræktana. Í síðasta lagi hefði verið rétt að hefja meðferðina 12. desember. Þessi fjögurra sólarhringa dráttur á því að hefja meðferðina yrði því virtur Guðmundi J. Guðjónssyni til sakar. Engu að síður var talið að ekki hafi verið gert líklegt, að varanlegar afleiðingar slyssins 9. nóvember 1992 og aðgerðarinnar 4. desember hafi orðið meiri vegna þessa dráttar. Væri því ósannað, að varanleg örorka aðaláfrýjanda yrði rakin til vanrækslu læknisins.
III.
Eins og að framan greinir skráði Guðmundur J. Guðjónsson læknir í sjúkraskrá 19. desember 1992 lýsingu á ástungu þeirri, sem hann gerði á hné aðaláfrýjanda 6. sama mánaðar. Þar sagði, að hann hafi verið hitalaus og hvorki hiti né roði á hnénu og hafi verið dregnir út 120 ml af blóðlituðum liðvökva. Guðmundur lýsti einnig síðari ástungum en tók þá ekkert fram um útlit hnésins eða líkamshita aðaláfrýjanda. Þótt skráningar í sjúkraskrá frá þessu tímabili séu ófullkomnar, hefur ekkert komið fram, sem gefur til kynna að þar hafi verið látið ógert að geta um atriði, sem gátu gefið vísbendingar um staðbundin sýkingareinkenni. Verður því ekki fallist á það með héraðsdómi að neinu varði fyrir sönnunarbyrði í málinu að sjúkraskrá hafi ekki verið svo ítarleg sem rétt hefði verið. Hinir dómkvöddu matsmenn, sem báðir eru bæklunarlæknar, komust að þeirri eindregnu niðurstöðu að Guðmundur hafi í einu og öllu staðið að meðferð aðaláfrýjanda með eðlilegum hætti í samræmi við þær hefðir, sem ríkjandi voru á þeim tíma. Hefur þetta álit ekki verið hrakið. Matsmennirnir töldu einnig, eins og héraðsdómur, að nær útilokað væri, að árangur meðferðar gegn sýkingunni hefði orðið annar, þótt hún hefði hafist fyrr. Samkvæmt framansögðu verður gagnáfrýjandi sýknuð af kröfu aðaláfrýjanda.
Eftir atvikum er rétt að málskostnaður falli niður bæði í héraði og fyrir Hæstarétti, en um gjafsóknarkostnað aðaláfrýjanda í héraði fer eins og segir í dómsorði.
Dómsorð:
Stefndi, Friðjón Skúlason, og gagnáfrýjandi, Guðrún Vigdís Sverrisdóttir, eru sýkn af kröfum aðaláfrýjanda, Guðmundar Helga Ármannssonar.
Málskostnaður í héraði og fyrir Hæstarétti fellur niður.
Gjafsóknarkostnaður aðaláfrýjanda í héraði greiðist úr ríkissjóði, þar með talin málflutningsþóknun lögmanns hans með þeirri fjárhæð, sem greinir í hinum áfrýjaða dómi.
Dómur Héraðsdóms Reykjavíkur 18. febrúar 2005.
Mál þetta var höfðað með stefnu birtri 8. nóvember 2002 og dómtekið 21. janúar sl. Stefnandi er Guðmundur Helgi Ármannsson, Reykjamel 2, Mosfellsbæ. Stefndu er Friðjón Skúlason, Hjallabraut 35, Hafnarfirði og Guðrún Vigdís Sverrisdóttir vegna dánarbús Guðmundar J. Guðmundssonar, Bakkavör 18, Seltjarnarnesi. Til réttargæslu er stefnt Sjóvá-Almennum tryggingum hf., Kringlunni 5, Reykjavík.
Stefnandi krefst þess aðallega að stefndi Friðjón verði dæmdur til að greiða stefnanda 10.888.853 krónur með vöxtum skv. 7. gr. laga nr. 25/1987 um vexti og verðtryggingu frá 1. ágúst 2000 til 1. júlí 2001, en með vöxtum skv. 8. gr. laga nr. 38/2001 um vexti og verðtryggingu frá 8. nóvember 2002 til 1. júlí 2001 sem hér segir: með 1,4% vöxtum frá 1. ágúst 2000 til 1.september 2000, með 1,5%, vöxtum frá þeim degi til 1. desember 2000, með 1,8% vöxtum frá þeim degi til 1. maí 2001, með 1,5% vöxtum frá þeim degi til 1. júní 2001, með 1,6% vöxtum frá þeim degi til 1. júlí 2001, með 9,5% vöxtum frá þeim degi til 1. maí 2002, með 8,5% vöxtum frá þeim degi til 1. júní 2002, með 8% vöxtum frá þeim degi til 1. september 2002, með 7,7% vöxtum frá þeim degi til 1. október 2002, með 7,0% vöxtum frá þeim degi til 1. nóvember 2002, með 6,7% vöxtum frá þeim degi til 8. nóvember 2002 en með hæstu löglegu dráttarvöxtum skv. III. kafla laga nr. 38/2001 frá þeim degi til greiðsludags. Þess er krafist að stefnda Guðrún verði dæmd til að greiða, sameiginlega með stefnda Friðjóni, 7.259.235 krónur af framangreindri fjárhæð með sömu vöxtum og áður greinir. Til vara er þess krafist að stefndu verði dæmd til að greiða sameiginlega aðra og lægri fjárhæð samkvæmt mati dómsins með sömu vöxtum og áður greinir og með skiptingu greiðsluábyrgðar í sömu hlutföllum og aðalkrafa gerir ráð fyrir. Stefnandi krefst einnig málskostnaðar eins og málið væri eigi gjafsóknarmál.
Stefndu krefjast aðallega sýknu af kröfum stefnanda, en til vara verulegrar lækkunar. Þeir krefjast einnig málskostnaðar.
Af hálfu réttargæslustefnda eru engar kröfur gerðar og eru engar kröfur gerðar gegn honum.
I.
Málsatvik
Stefnandi, sem er lærður smiður, starfaði sem slíkur hjá stefnda Friðjóni við byggingu Setbergsskóla í Hafnarfirði, en stefndi Friðjón sá þar um framkvæmdir sem byggingarverktaki. Hinn 9. nóvember 1992 var stefnandi við vinnu sína á byggingarstað og fékkst við að bera timbur á milli hæða. Rak hann þá annan fótinn í járnbolta sem steyptur hafði verið ofan í gólfið og stóð upp úr því, en ekki hafði enn verið lagt í gólfið. Féll hann þá á gólfið, fékk timbrið ofan á sig og rak hægra hné og vinstri öxl í gólfið auk þess sem mikill hnykkur kom á hægri fót að því er fram kemur í lögregluskýrslu stefnanda 11. apríl 1997. Samkvæmt því sem fram kom í munnlegum skýrslum stefnanda og stefnda Friðjóns við aðalmeðferð málsins átti slysið sér stað á annarri hæð nýbyggingarinnar. Stóð umræddur bolti um 5-6 sm upp úr gólfinu og var staðsettur beint fyrir framan tröppur þar sem gengið var upp á aðra hæð nýbyggingarinnar, um 70-100 sm frá tröppunum. Samkvæmt skýrslu stefnda Friðjóns var á þessum tíma unnið við að fjarlægja timbur (battinga) af gólfum sem notað hafði verið sem stífur við uppsteypu veggja á annarri hæð. Voru boltarnir svo teknir með slípirokki. Stefndi Friðjón kvað að sér hefði orðið kunnugt um slysið daginn eftir. Ekki var óskað eftir rannsókn Vinnueftirlitsins vegna slyssins.
Eftir slysið fór stefnandi á Heilsugæslustöðina í Mosfellsbæ og var hann í framhaldi af því sendur til Guðmundar J. Guðjónssonar bæklunarlæknis á Reykjalundi sem greindi hann með líklegt liðþófarask í innanverðu hné. Hinn 4. desember 1992 gerði Guðmundur liðspeglun á hægra hné og í beinu framhaldi af liðspegluninni opna aðgerð á hnénu (arthrotomia), þar sem stærstur hluti af liðþófa innanvert í hné var fjarlægður (partial meniscectomia). Áður hafði hluti liðþófa innanvert í hægra hné verið fjarlægður með aðgerð árið 1989. Daginn eftir aðgerðina var stefnandi sendur heim. Í stefnu segir að stefnandi hafi strax fundið til verkjar og hita í fætinum og látið Guðmund vita af því. Stefnandi hafi reynt að ná í Guðmund eftir að hann var kominn heim. Stefnandi hafi tekið inn verkjalyf sem hann hafi fengið með sér af spítalanum og hafi þau slegið á verkina og lækkað hita. Reynt hafi verið að ná sambandi við Guðmund sama kvöld og stefnandi kom af spítalanum en þá hafi ekki náðst í hann. Þegar náðst hafi í Guðmund daginn eftir, það er sunnudaginn 6. desember 1992, hafi hann ákveðið að þeir skyldu hittast á Reykjalundi þá um kvöldið vegna verkja stefnanda. Hafi þá verið tekinn liðvökvi og hið sama hafi verið gert annan hvern dag vikuna á eftir.
Í stefnu segir að sýni hafi verið tekið úr hnénu vikuna eftir aðgerðina og sent í ræktun hjá rannsóknarstofu Háskólans. Hins vegar hafi ekki verið gerðar neinar fyrirbyggjandi ráðstafanir til að hindra framgang sýkingarinnar þrátt fyrir grunsemdir Guðmundar þar um. Afleiðingarnar hafi verið þær að stefnandi fékk mjög alvarlega ígerð í hnéð og hafi hann verið lagður inn á St. Jósefsspítala að nýju 13. desember 1992. Hafi þá verið tappað af hnénu, það skolað með sýklalyfjum og stefnandi settur á öfluga sýklalyfjameðferð í æð. Hinn 19. sama mánaðar hafi stefnandi svo verið sendur á Reykjalund til áframhaldandi sýklalyfjameðferðar.
Í dagbókarfærslu Guðmundar J. Guðjónssonar vegna útskriftar stefnanda 19. desember 1992 segir eftirfarandi um meðferð stefnanda á St. Jósefsspítala:
Eins og fram kemur í journal þá fékk Guðmundur sýkingu í hægra hnéð, þ.e.a.s. streptococcus sanguinis sem er hluti af munnflóru allra að sögn bakteriologa. Heldur ótrúlegt að það komi frá sjúklingi sjálfum því hann er með falskar tennur þannig að það er langsótt að slíkt komi blóðleiðina. Þetta hefur borist í hann annað hvort við aðgerðina eða við punctionina á sunnudeginum sem gerð var á Reykjalundi af undirrituðum en eftir að hann útskrifaðist þá smá versnaði honum í hnénu og ég fór upp á Reykjalund á sunnudeginum þ. 06.12 og var þá hnéð útblásið, hann var hitalaus, það var ekki hiti á því eða roði og dró ég þá út 120 ml af liðvökva, blóðlituðum en með nokkuð eðlilegu útliti að sjá, eins og hann getur verið fyrst eftir aðgerð. Guðmundi létti mikið við það og fór hann heim. Síðan hafði hann samband við mig aftur næsta dag og var þá aftur kominn svipaður vökvi í liðinn og dró ég þá út um 100 ml af minna blóðugum vökva en aðeins meira skýjuðum. Sendi því 2 glös í ræktun. Sama var gert aftur seinna í vikunni og þegar reynt var að hafa samband við sýkladeildina á Lsp. hafði ekkert ræktast en svo aftur á laugardeginum hafði ræktast úr einni skál og á sunnudeginum úr þeim öllum 4 og bakterían eins og áður segir sem streptococcus sanguinis, hluti af munnflóru og skv. upplýsingum var hún næm fyrir Penicillini, því var Guðmundur lagður inn á St. Jósefsspítala í Hafnarfirði og byrjað að gefa honum kristalinkst Penicillin 2 millj. ein. á 4 tíma fresti i.v. og ég gaf honum einnig 2 millj. inn í liðinn í byrjun. Hann var kominn með hitavellu, subfebrill, verkirnir í hnénu voru mjög slæmir. Antibiotica meðferðin sló mjög fljótt á hitanna og einnig minnkuðu verkirnir á næsta sólarhring og líðan hans varð öll önnur. Ég puncteraði hnéð þ. 18.12. og í dag hefur ekkert ræktast úr því sýni. Hann flyst nú á Reykjalund í áframhaldandi meðferð. Við komu var sökk 94 en hækkaði fljótlega upp í um 100. Hnéð er núna mikið mýkra og hann hefur ekki hreyft það neitt undanfarið en nú ætla ég að leyfa honum að smá hreyfa það eftir því sem ástand hans leyfir.
Samskonar frásögn kemur fram í bréfi Guðmundar 8. mars 1993. Í bréfi Guðmundar til aðstoðarlandlæknis 24. mars 1998, sem ritað var í tilefni af fyrirspurn lögmanns stefnanda, segir eftirfarandi um umrædda meðferð stefnanda á St. Jósefsspítala:
Ég gerði aðgerð á hné Guðmundar á St. Jósefsspítala þann 04.12.92, arthroscopiu og síðan gerði ég minitomiu, fór í gegnum gamla örið og tók meniscrest úr hnénu innanverðu. Aðgerðin sem gekk mjög fljótt og vel fyrir sig var ósköp venjuleg. Stasi (Esmark) var settur á klukkan 12.26, tekinn af kl. 13.08, aðgerðin hófst kl. 12.35 og lauk kl. 13.12. þ.e.a.s. þá var búið að búa um fótinn og setja á hann þrýsting, aðallega um hnéð. U.þ.b. sólarhring seinna þá útskrifaðist sjúklingur af St. Jósefsspítala heim til sín við eðlilega líðan, bæði almennt og í fætinum.
Ég tek það sérstaklega fram að ekki var nein óeðlileg þensla á liðnum eða roði, því ég skoða alltaf hné hjá þessum sjúklingum áður en þeir útskrifast og ef eitthvað óeðlilegt hefði verið þá hefði hann ekki verið sendur heim þennan laugardag. Síðan hringdi hann heim til mín næsta dag, þ.e. sunnudag, náði ekki í mig en sjúklingum mínum er yfirleitt uppálagt að hringja á sjúkrahúsið þar sem ég er með kalltæki þaðan. Þegar ég frétti af þessu hafði ég samband við hann og um kvöldið mættumst við á heilsugæslunni Reykjalundi. Þar skoðaði ég Guðmund og dró síðan 120 ml af nánast hreinu blóði úr liðnum og hafði hann greinilega fengið svæsna hemarthrosu einhvern tímann á tímabilinu frá útskrift og fram að þessum tíma. Liðurinn var mjög þaninn en hvorki rauður né heitur og sjúklingur var ekki með hita. Þegar búið var að draga úr liðnum þetta mikla magn af blóði leið Guðmundi snöggtum betur en eftir sátu eðlilegir aðgerðarverkir og eymsli vegna þessarar miklu þenslu á liðnum.
Það hlýtur að hafa opnast lítil slagæð, annað hvort á leiðinni heim eða fljótlega á eftir, sem dældi inn í liðinn og þandi hann út, mechanisminn er ekkert ósvipaður dúnkraftsverkun eins og þegar lítið holrúm dælir inn í annað stærra. Þegar búið var að draga þetta úr liðnum þá létti honum og líðanin var öll önnur, ef ekki hefði svo verið þá hefði ég gert ráðstafanir til að leggja sjúkling inn á sjúkrahús.
Á eftir setti ég þrýsting á liðinn eins og venja er og gaf honum ráðleggingar og fyrirmæli. N.k. miðvikudag hafði hann samband við mig og fór ég þá upp á Reykjalund aftur. Um kl. 20.30 dró ég úr liðnum 100 ml af skýjuðum vökva og var það ósköp eðlilegt útlit vökva miðað við að það hafði blætt inn í liðinn og var blóðið farið að leysast upp og hemolyserast, það var liturinn á vökvanum og sér maður slíkt oft eftir að hafa stungið á lið, sem hefur blætt inn í t.d. vegna meiðsla og þykist ég þekkja mun á gruggugum liðvökva og liðvökva sem er blandaður blóði bæði nýju og gömlu, segi þetta af gefnu tilefni. Ég sendi 2 reagens glös í ræktun, hringdi áður á Landspítalann og fékk að vita að um miðnætti kæmi fólk og yrði þá innihald glasanna tekið í ræktun. Þau voru komin á Landspítalann um kl. 23.00, svarið er merkt og sagt að það hafi komið þangað þann 10.12.92 þannig að því er að sjá sáð eftir miðnætti. Aftur fór ég upp á Reykjalund á föstudeginum og var þar um klukkan 14.00, dró þá úr liðnum vökva, sendi aftur í ræktun til öryggis, en ekkert hafði vaxið ennþá úr fyrra sýni.
Á laugardagsmorgni hringdi ég, en ég hringdi yfirleitt x 1-2 á dag upp eftir til að spyrjast fyrir um útkomu ræktunar. Þá hafði vaxið örlítið úr einni skál og sagði stúlkan mér að þetta væri að öllum líkindum contamination að ræða þar sem hinar skálarnar væru hreinar. Á sunnudagsmorgni hringdi ég og þá hafði vaxið örlítið úr öllum skálunum og auðvitað lagði ég sjúkling þá inn og hóf strax kröftuga meðferð í samráði við bacteriolog. Þegar Guðmundur var lagður inn á St. Jósefsspítala var hann með 37.7 í hita, sökk sem tekið var næsta dag var 96 og fjöldi hvítra blóðkorna 6.800, segment 54%. Eftir að Guðmundur var lagður inn og kominn á meðferð batnaði líðanin strax. Þessi litli hiti féll og var hann orðinn hitalaus næsta dag. Að kvöldi komudags þ.e. 13.12. þá dró ég út 20 al af blóðugum vökva, sem er að hemolyserast og var það allt sem náðist úr liðnum. Samkvæmt skrá hjúkrunarmats 14.12.: Líðan góð í dag, engir verkir. Penicillin breytt í x 6 á sólarhring. Þann 15.12. er hiti kominn í 36.9. Sjúklingur bað um að hann yrði fluttur nær heimili sínu, því jól voru að nálgast, hann býr í Mosfellsbæ.
Eftir að búið var að hafa samband við Svein Má Gunnarsson lækni á Reykjalundi þá var hann fluttur þangað. Ég stundaði Guðmund hvað varðar sýkinguna í hnénu áfram í samráði við bacteriologa.
Í stefnu segir að um áramótin 1993/1994 hafi stefnandi reynt að hefja á ný störf sem smiður, en hafi orðið að hætta því vegna einkenna í hnénu. Stefnandi hafi hafið störf á nýjan leik í apríl 1994 sem vaktmaður hjá Reykjalundi. Hann hafi orðið fyrir öðru slysi þegar hann hrasaði við að hreinsa sundlaugarbotninn. Er ekki ástæða til að greina frekar frá því slysi hér. Í stefnu segir að stefnandi hafi aldrei náð sér að neinu marki eftir slysið og ekki getað sinnt þeirri iðn sem hann hafi menntað sig til. Stefnandi hafi þurft að gangast undir fleiri aðgerðir eftir slysið. Vegna þessara aðgerða hafi hann orðið slæmur af asthma og því verið á steralyfjum sl. fimm ár.
Hinn 3. mars 1993 kvað tryggingaráð Tryggingastofnunar ríkisins upp úrskurð, þar sem talið var, með vísan til f. liðs 24. gr. laga nr. 117/1993, að stefnandi hefði hlotið varanlegan skaða vegna læknisaðgerðarinnar 4. desember 1992. Var varanleg örorka stefnanda vegna aðgerðarinnar talin vera 15%.
Stefnandi óskaði eftir að Sigurjón Sigurðsson læknir mæti afleiðingar slyssins og aðgerðarinnar á heilsu hans. Niðurstaða Sigurjóns í matsgerð dagsettri 16. september 1998 er að stefnandi hafi hlotið 100% tímabundna örorku frá 9. nóvember 1992 til 1. apríl 1994, en að varanleg örorka hans sé 15%. Í bréfi frá lækninum dagsettu 6. nóvember 2001 kemur fram að hann telji að varanleg örorka stefnanda hefði orðið 5% ef aðgerðin hefði gengið eðlilega fyrir sig.
Með bréfi 6. nóvember 1997 leitaði lögmaður stefnanda eftir því að landlæknir aðstoðaði við öflun sjúkraskýrslna vegna umræddrar aðgerðar og jafnframt að hann tjáði sig um hvort um læknamistök hefði verið að ræða. Aðstoðarlandlæknir svaraði bréfi lögmannsins 29. apríl 1998, eftir að hafa aflað umsagnar Haralds Briem, þá yfirlæknis á smitsjúkdómadeild Sjúkrahúss Reykjavíkur og kynnt erindið fyrir Guðmundi. Er umsögn Haralds dagsett 6. janúar 1998 og bréf stefnanda til aðstoðarlandlæknis 24. mars sama árs. Í umsögn Haralds og bréfi aðstoðarlandlæknis kemur fram það álit að Guðmundi hefði ekki verið rétt að bíða eftir ræktunarsvari þegar hann sendi fyrst sýni í ræktun. Væri ekki hægt að útiloka að sá dráttur sem varð á því að sýklalyfjameðferð hæfist hefði átt verulegan þátt í þeim óþægindum sem stefnandi hafi haft í hnénu. Guðmundur gerði margvíslegar athugsemdir við afstöðu aðstoðarlandlæknis og lýsingu staðreynda í áðurgreindri umsögn Haralds Briem með bréfi 28. ágúst 2000, en þá hafði honum borist kröfubréf frá lögmanni stefnanda dagsett 1. ágúst 2000. Aðstoðarlandlæknir svaraði bréfi Guðmundar með bréfi 10. september sama árs og er þar vísað til álits ráðgefandi sérfræðings sem falið hafði verið að skoða athugasemdir Guðmundar. Ekki er ástæða til að rekja efni framangreindra bréfa sérstaklega.
Eins og áður greinir setti stefnandi fram bótakröfu sína við Guðmund með bréfi lögmanns hans 1. ágúst 2000. Sama dag var St. Jósefsspítala sent bréf þar sem óskað var eftir afstöðu spítalans til hugsanlegrar bótakröfu. Af þessu tilefni ritaði Guðmundur framkvæmdastjóra St. Jósefsspítala bréf 26. ágúst 2000 þar sem fram kemur afstaða hans til málsins. Fylgja einnig með bréfinu álit tveggja bæklunarlækna sem styðja mál Guðmundar. Ekki er ástæða til að rekja þessi gögn efnislega.
Stefnandi beindi fyrst bótakröfu að stefnda Friðjóni með birtingu stefnu í málinu. Bú stefnda Friðjóns var tekið til gjaldþrotaskipta með úrskurði 4. nóvember 2002. Eftir því sem fram er komið í málinu er skiptum ólokið.
Við aðalmeðferð málsins gáfu stefnandi og stefndi Friðjón aðilaskýrslur. Þá komu fyrir dóminn sem vitni Ingunn Bergþórsdóttir, eiginkona stefnanda, dómkvaddir matsmenn, Brynjólfur Y. Jónsson og Júlíus Gestsson, og Haraldur Briem læknir. Ekki er ástæða til að rekja þessar skýrslur sérstaklega.
II.
Álit læknaráðs og niðurstöður dómkvaddra matsmanna
Að frumkvæði stefndu Guðrúnar var við fyrirtöku málsins 29. september 2003 ákveðið að leita sérfræðilegrar umsagnar læknaráðs. Læknaráð fjallaði um málið á fundi 18. nóvember 2003 og voru svör ráðsins sem hér segir:
Guðmundur Helgi hafði nokkra sögu um áverka á hægra hné og var fjarlægður hluti af hliðlægum hnéþófa (lateral meniscus) árið 1989. Hann lenti síðan í vinnuslysi síðla árs 1992 með áverka á hnéð. Liðspeglun þann 4. desember, gerð af Guðmundi Guðjónssyni bæklunarlækni, leiddi í ljós rifinn miðlægan liðþófa og var í kjölfar þess gerð opin aðgerð og rifni liðþófinn fjarlægður miðlægt úr hnénu. Aðgerðin gekk mjög vel og stóð í tæpar 40 mínútur. Sólarhring síðar var Guðmundur Helgi útskrifaður af St. Jósefsspítala heim til sín við eðlilega líðan eða eins og segir í sjúkraskránni: "Sjúklingur nokkuð hress, sjálfbjarga með hækjur, útskrifast í dag." Sjúklingur kveðst hafa verið með verki útskriftardag en þeir hafi síðan magnast daginn eftir. Guðmundur sá síðan nafna sinn sama kvöld á heilsugæslunni á Reykjalundi. Var hnéliðurinn mjög þaninn en hvorki rauður né heitur að sögn læknisins. Dregnir voru um 120 ml af mjög blóðugum vökva út úr liðnum og hafði ljóslega blætt þar inn. Sýni voru ekki send til rannsóknar þetta kvöld. Guðmundi Helga létti við stunguna, en þann 9.12. hafði hann aftur samband við lækninn vegna þenslu og verkja í liðnum. Að kvöldi þess dags dró Guðmundur um 100 ml af skýjuðum vökva út úr liðnum. Var hann sendur í ræktun á sýkladeild, barst þangað um miðnætti og var því skráður inn þann 10.12. Við smásjárskoðun á þeim vökva reyndust vera +++ af kleyfkjarnabólgufrumum og + af einkjarnafrumum, en bakteríur greindust ekki við Gram litun. Óþægindi og verkir Guðmundar Helga héldu áfram og þann 11.12. var aftur dreginn vökvi úr liðnum, en ekkert hafði þá vaxið úr fyrra sýninu. Daginn eftir eða þann 12.12. hringdi Guðmundur á sýkladeild og fékk þá þær upplýsingar að örlítið hefði vaxið úr einni skál. Daginn eftir, þann 13.12., var kominn vöxtur á öllum skálum. Var þá Guðmundur Helgi lagður inn á St. Jósefsspítala í Hafnarfirði. Ekkert er skráð um ofangreind samskipti en við komu á spítalann er skráð eftir Guðmundi að hann hafi verið mjög slæmur af verkjum þennan tíma og verið rúmliggjandi og enn fremur hafði "hiti verið í kringum 38° á morgnana." Við komu var hiti 37.7°, sökk 96 mm/klst., fjöldi hvítra blóðkorna 6800. Sýkillinn reyndist vera Streptococcus sanguis og var strax hafin viðeigandi sýklalyfjameðferð með penicillini. Hiti féll og líðan batnaði. Úr vökva sem dreginn var úr liðnum eftir að meðferð hófst ræktaðist ekkert. Guðmundur Helgi hafði síðan langvinn óþægindi í hnénu og hefur verið metinn til örorku vegna þessa. Sýkillinn sem um ræðir, Streptococcus sanguis, er eðlilegur hluti munnflóru. Hann hefur líklega borist í skurðsárið við aðgerð, en þó er mögulegt að hann hafi borist blóðleiðina eftir að blæða tók inn í liðinn, það er þó ólíklegra, ekki hve síst vegna þess að Guðmundur Helgi er með gervitennur.
Í ljósi ofanskráðrar sögu eru svör læknaráðs við spurningum héraðsdómara eftirfarandi:
1. Telur Læknaráð að vinnubrögð Guðmundar Guðjónssonar læknis hafi við framkvæmd aðgerðar á Guðmundi Ármannssyni 4. desember 1992 og eftirmeðferð hans í kjölfar þeirrar aðgerðar verið í samræmi við viðurkennda starfshætti læknis (lege artis)? Svar: Nei ekki að öllu leyti. Aðgerðin gekk vel og Guðmundur sinnti nafna sínum mjög vel í kjölfar aðgerðar, hann lagði sig fram um að meðhöndla fylgikvillana og ekki kemur fram að hann hafi sýnt vísvitandi hirðuleysi, síður en svo. Miðað við gang mála og lýsingu í sjúkraskrá voru hins vegar efni til að hefja sýklalyfjameðferð fyrr en gert var, mögulega þann 9.12., þegar nokkur ástæða var til að gruna sýkingu. Þann 11.12. var sjúkdómsgangur, miðað við upplýsingar í sjúkraskrám, orðinn þannig að sýkingargrunur hlaut að vera enn ákveðnari. Eftir að sýkingin uppgötvaðist var Guðmundi sinnt mjög vel.
2. Telur Læknaráð að læknirinn hafi haft ástæðu til að setja sjúklinginn á sýklalyfjagjöf strax að lokinni aðgerð á hné hans 4. desember 1992? Svar: Nei, engin ástæða var til þess. Aldrei eru ábendingar fyrir verndandi sýklalyfjagjöf við þá aðgerð sem gerð var á Guðmundi.
3. Telur Læknaráð að það hafi almennt verið tíðkað við ástungur á hné í kjölfar aðgerða eins og Guðmundur Ármannsson gekkst undir 4. desember 1992 að setja sjúklinga á sýklalyfjagjöf án tillits til gruns um sýkingar? Svar: Nei, Læknaráð telur að svo hafi ekki verið, sjá einnig svar við spurningu 2.
4. Telur Læknaráð að almennt hafi á þessum tíma verið tíðkað að setja sjúklinga á sýklalyfjagjöf strax eftir slíkar ástungur í hné ef læknir sem framkvæmdi ástunguna ákvað af varúðarástæðum að senda vökva úr liðnum í ræktun? Svar: Nei. Almenna reglan er sú að sé liðvökvi dreginn úr hné, næstum án tillits til ástæðu, er ástæða til að senda vökvann í ræktun, og jafnvel nokkrar grundvallarrannsóknir svo sem frumutalningu o.fl. Slík ákvörðun leiðir ekki sjálfkrafa til ákvörðunar um sýklalyfjagjöf vegna gruns um sýkingu, klínískar aðstæður eða upplýsingar sem fást úr rannsóknum á liðvökvanum (öðrum en ræktunum) geta haft áhrif þar á.
5. Telur Læknaráð að það hafi á þessum tíma verið eðlileg varúðarráðstöfun læknis að senda vökvasýni úr liðástungu í ræktun þótt ekki væri grunur um liðsýkingu? Svar: Já, sjá einnig svar við spurningu 4.
6. Telur Læknaráð hægt að fullyrða að aðgerðarlækninum, Guðmundi Guðjónssyni, hafi átt að vera ljóst að sýking væri í hnélið sjúklingsins áður en sýking ræktaðist úr innsendum sýnum? Ef svo var, telur Læknaráð sig fært að segja til um það hvenær lækninum hefði átt að vera þetta ljóst? Svar: Já, talsverðar klínískar líkur voru á að sýking gæti verið til staðar, eins og rakið er hér að ofan, nokkur efni voru til þess að gruna sýkingu þann 9.12., en sterkari grunur dagana þar á eftir.
Það athugast að samkvæmt öðrum gögnum málsins var það hluti miðlægs liðþófa sem var fjarlægður í aðgerðinni 1989, en ekki hluti hliðlægs liðþófa, eins og sagt er í framangreindu áliti læknaráðs.
Hinn 15. desember 2003 ritaði lögmaður stefndu Guðrúnar læknaráði bréf og óskaði upplýsinga um hverjir sætu í réttarmáladeild ráðsins og ráðinu sjálfu. Læknaráð svaraði bréfi lögmannsins 6. janúar 2004. Kemur meðal annars fram í bréfinu að forseti læknaráðs sé Sigurður Guðmundsson landlæknir, sérfræðingur í lyflækningum og smitsjúkdómum. Samkvæmt bréfinu sat hvorki í læknaráði né réttarmáladeild ráðsins bæklunar- eða skurðlæknir.
Að beiðni stefndu Guðrúnar voru Brynjólfur Y. Jónsson bæklunarlæknir og Júlíus Valsson bæklunarlæknir kvaddir til að meta tiltekin atriði málsins. Skiluðu þeir matsgerð 24. ágúst 2004. Niðurstöður hinna dómkvöddu matsmanna og svör þeirra við matsspurningum eru svohljóðandi:
Spurning nr. 1: Telja matsmenn að vinnubrögð Guðmundar J. Guðjónssonar, læknis við framkvæmd aðgerðar á Guðmundi Ármannssyni þann 4. desember 1992 og eftirmeðferð hans í kjölfar þeirrar aðgerðar verið í samræmi við viðurkennda starfshætti læknis (lege artis). Svar: Já. Matsmenn telja að framkvæmd aðgerðarinnar þann 4. desember 1992 svo sem lýst er í sjúkradagbók hafi alfarið verið innan þeirra viðmiða sem almennt hafi tíðkast á þeim tíma fyrir lækna af kynslóð meðferðarlæknis og var almennt samþykkt sem frambærileg meðferð. Eins og getið var um hér að ofan var blæðing inn í lið algengasti fylgikvilli eftir opnar hnéaðgerðir og meðferðin við þeim blæðingum var tæming á vökvainnihaldi liðarins. Blæðing í lið kemur yfirleitt strax en sýking greinist venjulega ekki fyrr en seinna eftir aðgerð þannig að matsmenn telja meðferðarlækni hafa metið aðstæður rétt og brugðist rétt við þegar hann fór að gruna sýkingu.
Spurning 2: Telja matsmenn að læknirinn hafi haft ástæðu til þess að setja sjúklinginn á sýklalyfjagjöf strax að lokinni aðgerð á hné hans þann 4. desember 1992? Svar: Nei. Það var engin ástæða til að setja hann á sýklalyf að lokinni aðgerð þann 4. desember. Hafi verið talin þörf á sýklalyfjagjöf við aðgerðina hefði átt að gefa sýklalyfjaskammt sem forvörn um hálfri klst. fyrir aðgerð. Almennt er ekki talin þörf á sýklalyfjaforvörn (prophylaxix) við minni háttar hnéaðgerðir eins og liðþófatöku. Vafasamt er hvort slíkt svari kostnaði ef haft er í huga að mjög lág tíðni er á sýkingum og að venjulegasta sýklalyfjagjöfin er ekki virk gegn öllum hugsanlegum sýklum. Það er almennt viðurkennt að besta sýkingarvörnin við þær aðgerðir eins og gerð var 04.12.92. þegar gerð er opin aðgerð í beinu framhaldi af speglun að endurþvo og dúka upp á nýtt. Matsmenn fá ekki annað séð en að slíkt hafi verið gert. Í málsskjali nr. 18 í aðgerðarlýsingu stendur: „"Því er gerð meniscectomia á venjulegan hátt eftir frekari undirbúning".
Spurning nr. 3: Telja matsmenn að það hafi almennt verið tíðkað við ástungur á hné í kjölfar aðgerða eins og Guðmundur Ármannsson gekkst undir þann 4. desember 1992 að setja sjúkling á sýklalyfjagjöf án tillits til gruns um sýkingar. Svar: Nei. Matsmenn telja að almennt hafi ekki verið tíðkað að setja sjúkling á sýklalyfjagjöf eftir liðástungur 1992. Það hefur ekki tíðkast fyrir 1992 og tíðkast ekki enn þann dag í dag. Ef nokkuð eru læknar almennt nú mun varkárari með að setja inn sýklalyf "til vonar og vara", því að ljóst er að slíkt hefur orðið til að rækta fram fjölónæma sýkla sem engin sýklalyf bíta á. Því er tilhneigingin nú að reyna að forðast forvamarsýklalyfjagjafir nema við stærri inngrip s.s. hryggskekkjuaðgerðir og liðskiptaaðgerðir.
Spurning nr. 4: Telja matsmenn að almennt á þessum tíma hafi tíðkast að setja sjúkling á sýklalyfjagjöf strax eftir slíkar ástungur í hné ef læknir sem framkvæmdi ástunguna ákvað af varúðarráðstöfunum að senda vökva úr liðnum í ræktun? Svar: Nei. Hafi vaknað sterkur grunur um sýkingu í lið var og er rétt ráðstöfun að hefja meðferð, helst með sýklalyfjagjöf og/eða skolun á liðnum strax. Sé hins vegar ekki um neinn sterkan grun um sýkingu að ræða en læknir ákveði samt sem áður að setja liðvökva í ræktun er það álit matsmanna að ekki sé þörf á frekari meðferð s.s. sýklalyfjagjöf eða skolun. Þarna ræður klíniskt ástand sjúklings mestu. Í tilfelli stefnda virðist meðferðarlæknir, sem á þessum tíma hafði langa reynslu af hnéaðgerðum og meðferð fylgikvilla þeirra, ekki hafa sterkan grun um sýkingu. Sýklalyfjameðferð ein sér án liðástungu eða liðskolunar getur við liðsýkingar hæglega slegið á sýkingarummerki án þess að uppræta sýkinguna, lengt tímabil virkrar sýkingar, tafið að róttækari meðferð sé beitt og þar með valdið meiri skemmdum á liðnum.
Spurning 5: Telja matsmenn að það hafi á þessum tíma verið eðlileg varúðarráðstöfun læknis að senda vökvasýni úr liðástungu í ræktun þótt ekki væri grunur um liðsýkingu? Svar: Já. Eins og fram hefur komið í matsgerðinni geta liðsýkingar eftir skurðaðgerðir verið erfiðar í greiningu. Af þeim ástæðum er ekki hægt að áfellast meðferðarlækninn að kanna þann möguleika þó svo grunur um sýkingu sé ekki fyrir hendi.
Spurning 6: Telja matsmenn hægt að fullyrða að aðgerðalækninum Guðmundi J. Guðjónssyni, hefði átt að vera ljóst að sýking væri í hnélið sjúklings áður en sýking ræktaðist úr innsendum sýnum? Ef svo var, telja matsmenn sér fært að segja til um það hvenær lækninum hefði átt að vera þetta ljóst? Svar. Nei: Matsmenn hafa áður bent á að greining á liðsýkingu í hné eftir aðgerð er ekkert sjálfgefið né auðvelt mál. Eins og matsmenn hafa áður bent á líða yfirleitt nokkrir dagar frá aðgerð þar til ljóst er að sýking er í lið. Sérlega ef um bakteríur sem valda hægfara þróun sýkingarummerkja er að ræða. Samkvæmt málsskjölum var tekið sýni og sent til ræktunar þann 9. desember 1992 og svo aftur þann 11. Úr fyrra sýninu óx streptococcus sanguis á einni ræktunarskál af tveim 12.12. 92 samkvæmt greinargerð meðferðarlæknis. Vel þekkt er að bakteríur úr umhverfinu geta mengað ræktunarsýni. Þannig er ekki hægt að áfellast meðferðarlækni fyrir að álíta að svo sé um þann bakteríuvöxt sem hann fékk upplýsingar um 12.12.92. Þegar sama baktería vex í fjórum sýnum 13.12.92 styður það sterklega að um sýkingu sé að ræða og liðsýkingarmeðferð var hafin þann dag. Matsmenn telja því að meðferðarlækni hafi ekki verið fulljóst fyrr en 13.12.92 að um sýkingu væri að ræða. Ræktunarniðurstaðan 12.12.92 gæti hafa vakið grun um sýkingu, en að bíða eftir endanlegum niðurstöðum ræktunar áður en meðferð var hafin var fyllilega réttlætanlegt að mati matsmanna. Sú seinkun er heldur ekki líkleg til að hafa breytt marktækt meðferðarlengd eða eftirköstum sýkingarinnar.
III.
Málsástæður og lagarök stefnanda
Stefnandi byggir bótakröfur sínar á hendur stefnda Friðjóni á almennum reglum skaðabótaréttar, meðal annars reglu skaðabótaréttar um að sjálfstæðir verktakar beri sem verkstjórnendur og umsjónaraðilar ábyrgð á forsvaranlegum aðbúnaði og varúðar- og öryggisráðstöfunum við nýbyggingar og saknæmri háttsemi þeirra sem hjá þeim starfa (húsbóndareglunni). Þannig hafi skapast hættuástand á vinnustað stefnanda og hinn saknæmi vanbúnaður hafi beinlínis verið orsök slyss hans ásamt ófullnægjandi varúðarráðstöfunum og verkstjórn í heild. Aðstæður fyrir umgengi fyrir starfsmenn við nýbygginguna Setbergsskóla í Hafnarfirði hafi verið óforsvaranlegar. Stefnanda hafi borið að gæta betur að byggingarsvæðinu svo hætta stafaði ekki af því fyrir þá sem unnu við nýbygginguna svo og aðra þá sem þar fóru um. Stefnandi byggir bótarétt sinn á því að stefndi Friðjón beri sem sjálfstæður verktaki ábyrgð á tjóni stefnanda í heild sinni vegna þess að stefndi hafði ekki gætt nægilega að því að framfylgja þeim ráðstöfunum, sem nauðsynlegar voru til að afstýra hættuástandi því sem skapaðist af umræddum nýbyggingarframkvæmdum. Stefnandi vísar til þess að það sé viðurkennd vinnuregla að láta fjárlægja bolta af gólfflötum um leið og hlutverki þeirra sé lokið, en því teljist lokið þegar uppistöðuveggir hafa verið steyptir upp. Boltar þessir séu boltaðir annars niður í gólfflöt nýbygginga á víð og dreif og því mikil hætta á að starfsmenn rekist á þá og hrasi eða jafnvel detti. Þannig hafi slys stefnanda einmitt borið að, þar sem hann var með fangið fullt af timbri á leið sinni upp á næstu hæð, þegar hann rak fótinn í járnbolta, sem láðst hafði að láta fjarlægja af gólfinu. Afleiðingarnar hafi orðið eins og áður greinir 15% varanleg örorka auk alls annars. Stefnandi byggir á því að með réttri verkstjórn hefði verið hægt að halda vinnusvæðinu forsvaranlegu og beri því stefndi ábyrgð samkvæmt reglu skaðabótaréttarins um vinnuveitendaábyrgð (húsbóndareglunni).
Ljóst sé af framansögðu að stefndi Friðjón beri fulla fébótaábyrgð á öllu tjóni stefnanda og sennilegum afleiðingum þess á grundvelli reglna hins almenna skaðabótaréttar m.a. á grundvelli reglunnar um ábyrgð vinnuveitenda auk reglna skaðabótaréttarins sem gildi um sjálfstæða verktaka og ábyrgð þeirra á þeim aðilum, sem þeir ráða til verka undir sinni stjórn. Telja verði að ábyrgð stefnda taki til alls slyssins og til alls afleidds tjóns þess.
Stefnandi byggir bótakröfu sína á hendur stefndu Guðrúnu á því, að vinnubrögð Guðmundar J. Guðjónsson læknis sem sérfræðings á sviði bæklunarlækninga hafi við framkvæmd aðgerðarinnar og sérstaklega við alla eftirmeðferð leitt til þess heilsutjóns sem að framan er lýst. Öll meðferðin hafi verið óforsvaranleg og meðhöndlun eftir aðgerðina vítaverð og til þess fallin að auka á örorku stefnanda um 10% umfram það, sem slysið hefði getað leitt af sér ef fagleg meðferð læknisins sem sérfróðs aðila hefði verið forsvaranleg og hann gert þær varúðarráðstafanir sem eðlilegar og nauðsynlegar máttu teljast og voru til þess fallnar að hindra svo alvarlegar afleiðingar af slysinu og aðgerðinni sem raun ber vitni.
Af gögnum málsins frá ýmsum fagaðilum komi fram að bakteríusýking í liðamótum og þá sérstaklega í burðarliðum sé mjög alvarlegt mál og beri því sérfróðum lækni við minnsta grun um sýkingu að gera ráðstafanir þegar í stað til að hindra að til sýkingar kæmi með öllum tiltækum ráðum. Í læknaskýrslum frá Guðmundi og í læknabréfi dags. 8. mars 1993 komi fram að þann 6. desember 1992 þegar stefnandi loks náði sambandi við Guðmund upp á Reykjalundi, þá hafi Guðmundur dregið út 120 ml af liðvökva „blóðlituðum en með nokkuð eðlilegu útliti að sjá“. Næsta dag hafi Guðmundur dregið enn á ný út „um 100 ml af minna blóðugum vökva en aðeins meira skýjuðum“. Á þessu tímamarki og alls ekki seinna hafi Guðmundur átt að grípa til varúðaraðgerða og setja stefnanda á sýklalyf. Sérstaklega hafi ábyrgðin verið mikil þar sem hann sem sérfræðingur vissi hversu alvarlegar afleiðingar bakteríusýkingar í burðarliðum geti haft. Til séu lyf með það breiða verkun að þau vinni á flestum þekktum bakteríusýkingum og hafi Guðmundi borið sem sérfræðingi að setja stefnanda umsvifalaust á þessi lyf, auk þess sem hann átti að setja í rannsókn sýni af liðvökvanum. Þess í stað hafi hann ákveðið að bíða með lyfjagjöf þar til niðurstaða lá fyrir frá rannsóknarstofu. Allar líkur séu á því að hægt hefði verið að komast hjá hinum afdrifaríku afleiðingum ef rétt hefði verið staðið að eftirmeðferð vegna hennar. Komi þetta meðal annars fram í örorkumati Sigurjóns Sigurðssonar um að ef ekki hefði komið ígerð í hnéð hefði stefnandi trúlega getað snúið til fyrri starfa og aðeins hlotið 5% örorku í stað 15%.
Á því er byggt af hálfu stefnanda að Guðmundi hafi, sem grandvörum sérfræðingi í læknisfræði, borið að viðhafa allar varúðarráðstafanir, sem tiltækar voru til að hindra að sýking kæmist í hnéð. Sérstaklega hafi honum sem sérfræðingi átt að vera ljóst hversu alvarlegar afleiðingar gætu leitt af því að sýking kæmist í burðarlið. Á því er einnig byggt, að skv. 9. gr. læknalaga nr. 53/1988 beri lækni að sinna störfum sínum af árvekni og trúmennsku, halda við þekkingu sinni og fara nákvæmlega eftir henni. Hann beri ábyrgð á greiningu og meðferð þeirra sjúklinga, sem til hans leiti eða hafi til umsjónar.
Kröfur sínar um skaðabætur úr hendi stefndu Guðrúnar styður stefnandi einnig þeim rökum, að um skaðabótaskylt tilvik sé að ræða vegna mistaka í starfi á grundvelli almennra reglna skaðabótaréttar og ábyrgð sé þeim mun ríkari, þar sem um sérfróðan aðila sé að ræða. Fyrir liggi álit embættis landlæknis, bréf frá þáverandi tryggingayfirlækni 25. október 1994, auk úrskurðar tryggingarráðs og fjölda annarra læknabréfa sem gefi til kynna að um mistök í starfi hafi verið að ræða.
Stefnandi hafi kynnt Guðmundi J. Guðjónssyni bótakröfur sínar með bréfi 1. ágúst 2000. Guðmundur hafi hafnað allri bótaskyldu með bréfi 26. ágúst sama ár. Þar sem telja verði sannað að stefnandi hefði ekki hlotið nema 5% örorku vegna umrædds slyss séu afleiðingar læknamistakanna því 10% viðbótarörorka og þar sem Guðmundur J. hafi hafnað allri bótaskyldu sé stefna þessi óhjákvæmileg. Af þeim sökum sé þess krafist í málinu að stefnda Guðrún, sem sitji í óskiptu búi eftir andlát eiginmanns síns Guðmundar J. Guðjónssonar, verði dæmd sameiginlega ásamt Friðjóni Skúlasyni verktaka til greiðslu 10% af 15% örorku er stefnandi hlaut vegna slyss hinn 9. nóvember 1992 og vávænna afleiðinga þess.
Aðalkrafa stefnanda byggir á örorkutjónsútreikningi Guðjóns Hansens tryggingafræðings 5. október 2001 og er sundurliðuð með eftirfarandi hætti:
Aðalkrafa stefnanda sundurliðast með eftirfarandi hætti:
Varanleg örorka 15% kr. 7.121.005,-
Tímabundið örorkutap frá slysdegi
til marsloka 1994 kr. 2.576.517,-
Samtals kr. 9.697.522,-
Greitt inn á frjálsa ábyrgðartr. kr. -105.343,-
Atvinnuslysatrygging launþega kr. -346.957,-
Útlagður kostnaður kr. 82.811,-
Töpuð lífeyrisréttindi kr. 560.820,-
Miski skv. 264. gr. alm.hgl. kr.\ 1.000.000,-
Samtals kr. 10.888.853,-
Í framangreindum útreikningum tryggingafræðingsins er annars vegar miðað við tekjur þriggja síðustu starfsára stefnanda fyrir slys, þ.e. vinnutekjur áranna 1989-1991, en hins vegar við tekjur áranna 1988-1989 og tekjurnar umreiknaðar með tilliti til almennra launabreytinga að meðtöldum ókomnum hækkunum sem almennt var samið um á almennum vinnumarkaði. Aðalkrafa stefnanda er byggð á vinnutekjum áranna 1988-1989 sem stefnandi telur gefa betri mynd af tekjum sínum með hliðsjón af því að árið 1990 vann hann að byggingu eigin húsnæðis. Varakrafa stefnanda byggir á útreikningi tryggingastærðfræðingsins miðað við tekjuárin 1989-1991.
Stefnandi telur eðlilegt að miða við að frádráttur vegna eingreiðslu og skattahagræðis bóta verði ekki hærra en 15% þar sem allar líkur séu á að stefnandi hefði getað haldið þeim launum, sem hann hafði þegar slys varð, ef slysið hefði ekki orðið. Krafa stefnanda um miskabætur er sögð byggja á því að meiðsli stefnanda hafi haft alvarleg óþægindi og þjáningar í för með sér. Þannig hafi stefnandi þjáðst af verulegum verkjum í fæti og afleiðingar af slysinu og mistökunum leitt til þess að stefnandi hafi þurft að gangast undir hverja aðgerðina á fætur annarri og þ.a.l. svæfingar, en það hafi sýnt sig að ítrekaðar svæfingar geti aukið asma verulega. Hið sama eigi við um notkun verkjalyfja sem stefnandi þurfi að nota. Hann þurfi nú að taka fleiri tegundir lyfja á hverjum degi eingöngu vegna asmans. Eins og framlögð vottorð beri með sér hafi stefnandi verið undir læknishendi vegna afleiðinga slyssins. Hann hafi neyðst til að segja starfi sínu lausu vegna þessa og hafi aldrei fengið starf, sem hann geti unnið við vegna slyssins og afleiðinga þess. Stefnandi sé í dag 100% öryrki eins og fyrr greinir.
Stefnandi byggir kröfur sínar á almennum reglum skaðabótaréttarins, sérstaklega hinni almennu sakarreglu og reglunni um húsbóndaábyrgð og reglna skaðabótaréttarins um ábyrgð sérfróðra á störfum sínum. Jafnframt er byggt á þeirri meginreglu skaðabótaréttar að bótaskyldur aðili beri að bæta tjónþola allt tjón hans. Einnig er byggt á því sjónarmiði við ákvörðun bótafjárhæðar að beri að gæta jafnræðis og hlutlægni. Þá vísar stefnandi til læknalaga og til 2. tl. 28. gr. laga nr. 75/1981. Miskabótakrafan er studd við 264. gr. almennra hegningarlaga nr. 19/1940. Kröfur um vexti, dráttarvexti og vaxtavexti styður stefnandi við reglur vaxtalaga nr. 25/1987 og frá 1. júlí 2001 við lög um vexti og verðtryggingu nr. 38/2001.
IV.
Málsástæður og lagarök stefnda Friðjóns
Af hálfu stefnda Friðjóns var í upphafi meðferðar málsins byggt á aðildarskorti hans, en bú hans var tekið til gjaldþrotaskipta með úrskurði héraðsdóms 4. nóvember 2002. Af hálfu stefnda Friðjóns var fallið frá málsástæðum um aðildarskort af þessum sökum svo og málsástæðu um vanlýsingu í þrotabú hans við munnlegan flutning málsins.
Stefndi Friðjón byggir sýknukröfu sína á því að hann beri ekki ábyrgð á tjóni stefnanda, þar sem ósannað sé að slysið verði rakið til atvika sem hann beri skaðabótaábyrgð á að lögum. Stefnandi beri alfarið sönnunarbyrði um orsök tjóns síns og umfang þess. Er því mótmælt að verkstjórn og varúðarráðstafanir hafi verið ófullnægjandi sem og að um vanbúnað á vinnustað hafi verið að ræða.
Stefndi Friðjón telur að ekki verði annað ráðið af gögnum málsins, en að slys þetta verði alfarið rakið til óvarkárni stefnanda sjálfs og ef til vill óhappatilviljunar. Stefnandi sé lærður smiður og hafi starfað lengi sem slíkur. Alkunna sé að í húsum sem verið sé að byggja kunni ýmislegt að vera á gólfum, t.d. efni, áhöld eða annað, og hafi stefnanda því borið að sýna tilhlýðilega varkárni. Stefnanda hafi mátt vera ljóst að teknu tilliti til aldurs hans og reynslu að óvarlegt gæti verið að hafa ekki gætur á gönguleið sinni í nýbyggingunni þegar hann var með fangið fullt af timbri.
Því er mótmælt að vinnuregla sé að fjarlægja járnboltana af gólfi án tafar. Þvert á móti telur stefndi Friðjón að boltarnir séu látnir vera í, enda hverfa þeir í flestum tilvikum undir yfirborð steypu þegar lagt er í gólfin og þau pússuð. Fullyrðingum stefnanda í stefnu um að óhappið verði rakið til ófullnægjandi varúðarráðstafana eða ófullnægjandi verkstjórnar er alfarið mótmælt sem órökstuddum og ósönnuðum sem og að aðbúnaður á vinnustað hafi verið ófullnægjandi. Vísar stefndi Friðjón til þess að stefnandi hafi sönnunarbyrði fyrir þessum fullyrðingum sínum. Verði stefnandi að bera hallann af öllum þeim vafa sem nú sé uppi um atvik máls þessa þar sem svo langur tími leið frá óhappinu þar til stefnandi gerði bótakröfu á hendur stefnda. Hafi tómlæti stefnanda sjálfs skapað þennan vafa.
Þá byggir stefndi Friðjón á því að ósannað sé að líkamlegt ástand stefnanda verði rakið til óhappsins 9. nóvember 1992. Er örorkumati Sigurjóns Sigurðssonar læknis mótmælt sérstaklega, þar sem ekkert samráð hafi verið haft við stefnda áður en matsins var óskað. Telur stefndi að hvort tveggja sé ósannað í máli þessu, að aðgerð sú er stefndi undirgengst 4. desember 1992 hafi verið nauðsynleg sökum afleiðinga óhappsins og eins að stefnandi hafi hlotið varanlega örorku vegna slyssins. Bendir stefndi Friðjón á að þvert á móti megi ráða það af gögnum málsins, að eldri áverkar kunni að hafa leitt til þess að nauðsynlegt var að framkvæma umrædda aðgerð á stefnanda, þannig komi m.a. fram að stefnandi hafi fyrir umstefnt óhapp, hlotið áverka og farið í aðgerð á hægra hné. Stefndi byggir einnig á því að í mati Júlíusar Valssonar tryggingayfirlæknis komi fram að óþægindi stefnanda verði að mestu leyti rakin til þeirrar sýkingar sem hann fékk í hnéð eftir aðgerðina og hafi örorka stefnanda verið metin 15% af þeim sökum. Sama niðurstaða komi fram í úrskurði tryggingaráðs.
Samkvæmt framangreindu byggir stefndi Friðjón á því að það sé í raun ósannað að stefnandi hafi hlotið varanlega örorku vegna slyssins 9. nóvember 1992. Þvert á móti bendi gögn málsins til þess að örorku stefnanda megi rekja til líkamlegs ástands hans sem var tilkomið fyrir umstefnt slys og afleiðinga þeirrar sýkingar sem stefnandi hlaut, en á hvorugu beri stefndi ábyrgð að lögum. Stefndi Friðjón leggur áherslu á þá staðreynd að fyrst var haft samband við stefnda vegna þessa máls þegar nær 10 ár voru liðin frá því að slysið átti sér stað. Útilokað sé að gera sér grein fyrir því, þegar svo langt er um liðið frá slysdegi, hvort og þá að hvaða marki sjúkdómar, önnur slys eða óhöpp sem stefnandi kann að hafa orðið fyrir á þessu langa tímabili, hafi orsakað þá vanlíðan sem stefnandi á við að glíma í dag.
Í upphaflegum málatilbúnaði sínum byggði stefndi Friðjón á því að hugsanleg bótakrafa stefnanda gegn honum væri fallin niður fyrir fyrningu samkvæmt 29. gr. laga nr. 20/1954 um vátryggingasamninga. Í munnlegum málflutningi kvað lögmaður stefnda Friðjóns sjónarmið um fyrningu hins vegar aðeins eiga við um ábyrgð réttargæslustefnda samkvæmt ábyrgðartryggingu stefnda Friðjóns.
Stefndi Friðjón byggir varakröfu sína um lækkun í fyrsta lagi á því að meginorsök tjóns stefnanda sé að rekja til atvika sem stefndi beri ekki ábyrgð á. Verði því ekki lögð á hann bótaábyrgð á öllu tjóninu heldur einungis á þeim hluta sem rakinn verður til óhappsins. Samkvæmt áliti Sigurjóns Sigurðssonar læknis megi rekja 2/3 hluta tjóns stefnanda til aðgerðar þeirrar sem stefnandi fór í 4. desember 1992. Eigi stefndi því ekki að bera ábyrgð á tjóni stefnanda nema að 1/3 hluta. Byggir stefnandi á því að í raun sé um sjálfstæðar tjónsorsakir að ræða og komi því sameiginleg ábyrgð ekki til greina. Þá er einnig byggt á því að sá hluti tjóns stefnanda sem rekja megi til læknisaðgerðarinnar sé ekki sennileg afleiðing af óhappinu sem varð á vinnustað stefnda. Sýking vegna læknisverks sé ekki afleiðing sem stefndi hafi getað séð fyrir eða mátt sjá fyrir. Sé því skilyrði skaðabótaréttar um sennilega afleiðingu ekki uppfyllt að þessu leyti. Stefndi Friðjón byggir kröfu um lækkun jafnframt á því að mestan hluta tjóns stefnanda vegna óhappsins sé að rekja til gáleysis stefnanda sjálfs og óhappatilviljunar. Beri því að lækka bótakröfu til samræmis við það.
Stefndi Friðjón mótmælir útreikningum og forsendum bótakröfu stefnanda. Sérstaklega mótmælir stefndi því að ekki séu lagðar til grundvallar við útreikning á stefnukröfu stefnanda tekjur hans síðustu þrjú ár fyrir slys eins og löng venja sé fyrir í málum af þessu tagi. Engin rök séu fyrir því að stefnandi velji úr þau tvö ár sem hann hefur hærri tekjur og leggi þau til grundvallar. Mati á tímabundinni örorku stefnanda er mótmælt en fram komi í gögnum málsins að hann hafi hafið störf fyrr en 1. apríl 1994. Samkvæmt dómvenju beri ekki að greiða bætur vegna tímabundinnar örorku nema tjónþoli hafi raunverulega orðið fyrir tekjumissi. Stefndi byggir á því að lækka beri bætur fyrir varanlega örorku vegna skattfrelsis og eingreiðsluhagræðis. Bætur fyrir varanlega örorku séu skattfrjálsar og í því skattfrelsi eigi ekki að felast fjárhagslegur ávinningur fyrir tjónþola. Miða eigi við dómvenju hvað það varðar og telur stefndi að sá frádráttur eigi ekki að vera lægri en 40%. Þá sé miskabótakrafa stefnanda mjög fjarri lagi miðað við dómafordæmi. Líta beri til þess að í örorkumati lækna sé að jafnaði fólginn nokkur miski. Beri því að lækka miskabætur verulega. Upphafstíma dráttarvaxta er mótmælt.
V.
Málsástæður og lagarök stefndu Guðrúnar
Stefnda Guðrún telur að gögn málsins beri með sér að umrædd aðgerð hafi verið framkvæmd á tíðkanlegan hátt og hún gengið eðlilega fyrir sig. Eftir aðgerðina hafi líðan stefnanda verið eins og algengt er eftir slíkar aðgerðir og hafi hann verið útskrifaður af sjúkrahúsinu daginn eftir og þá fengið upplýsingar um hvernig hann gæti náð sambandi við lækninn, ef á þyrfti að halda. Því er mótmælt að stefnandi hafi lent í vandræðum með að ná til Guðmundar símleiðis, eins og látið sé að liggja í stefnu. Er bent á að 4. desember 1992 hafi verið föstudagur. Stefnandi hafi því verið útskrifaður á laugardeginum 5. desember, en á sunnudagskvöldinu 6. desember hafi Guðmundur komið upp á Reykjalund til að draga liðvökva úr stefnanda eins og lýst sé í gögnum málsins.
Stefnda Guðrún telur að meðferð Guðmundar á stefnanda hafi í alla staði verið í samræmi við það sem tíðkaðist við meðhöndlun slíkra sjúklinga á þeim tíma sem aðgerðin var framkvæmd. Eigi það bæði við aðgerðina sjálfa og framkvæmd hennar og eftirmeðferð alla. Því er harðlega mótmælt að Guðmundur hafi vegna seinagangs við að gera varúðarráðstafanir vegna hugsanlegrar sýkingar valdið stefnanda tjóni þannig að bótaskylt sé. Vísast um þetta sérstaklega til læknabréfs Guðmundar til lækna á heilsugæslustöðinni á Reykjalundi 8. mars 1993, en það er ritað þegar stefnandi var um það bil að byrja þar í endurhæfingarmeðferð. Því er sérstaklega mótmælt, sem haldið er fram í stefnu, að Guðmundur heitinn hafi haft grunsemdir um sýkingu í hnélið stefnanda án þess að bregðast við því með viðeigandi hætti. Í ljósi þess að málið er ekki höfðað fyrr en raun ber vitni, rétt tæpum 10 árum eftir umrædda aðgerð og að Guðmundi látnum, verði að leggja alla sönnunarbyrði um slíkar fullyrðingar á þann sem haldi þeim fram.
Stefnda Guðrún telur fullyrðingu stefnanda um ætlaðar grunsemdir Guðmundar um sýkingu sóttar í umsögn aðstoðarlandlæknis 29. apríl 1998 sem áður greinir í lýsingu málsatvika. Stefnda Guðrún telur meginmál umsagnarinnar mótsagnakennt. Þannig segi í upphafi umsagnarinnar: „Ekki verður annað ráðið en að Guðmundur hafi lagt sig fram um að meðhöndla fylgikvillana á sem bestan hátt og engin merki eru um að hann hafi sýnt vísvitandi hirðuleysi.“ Litlu neðar segi hins vegar: „Hins vegar er gerð sú athugasemd að sjúklinginn hefði átt að setja á sýklalyf strax og minnsti grunur vaknaði um að sýking gæti verið í liðnum og þá ekki síðar en við ástunguna 10.12.1997 (sic). Ekki verður annað ráðið af sjúkraskrá en að sjúklingur hafi haft hitavellu heima. Læknirinn hefur augljóslega haft einhvern grun um sýkingu enda sendi hann þá liðvökva í ræktun. Ekki var rétt að bíða eftir ræktunarsvari með ráðstafanir gegn hugsanlegri sýkingu ... “.
Í greinargerð stefndu Guðrúnar er fjallað ítarlega um málsmeðferð landlæknisembættisins sem hún telur ábótavant. Telur stefnda ljóst að Haraldur Briem, þáverandi yfirlæknir á smitsjúkdómadeild Sjúkrahúss Reykjavíkur, hafi ekki haft greinargerð Guðmundar til að styðjast við í þeirri umsögn sem hann gaf landlæknisembættinu og stuðst er við í framangreindu bréfi aðstoðaryfirlandlæknis. Af hálfu stefndu er því einnig harðlega mótmælt sem fram komi í umsögn Haralds að liðvökvi sem tekinn var úr stefnanda 10. desember 1992 hafi verið "gruggugur", en í öðrum gögnum málsins sé þessum vökva lýst sem blóðblönduðum og skýjuðum (haemolyseraður vökvi). Stefnda Guðrún telur einnig að umrædd umsögn landlæknisembættisins sé í aðalatriðum byggð á áliti læknis sem ekki hafi sérmenntun í bæklunarlækningum eða öðrum skurðlækningum. Stefnda Guðrún telur einnig að andmælaréttur hafi verið brotinn á Guðmundi samkvæmt 13. gr. stjórnsýslulaga nr. 37/1993 með því að honum var ekki gefinn kostur á að tjá sig um umrædda umsögn Haralds Briem áður en aðstoðarlandlæknir gerði álitið að sínu.
Stefnda Guðrún telur efni umræddrar umsagnar aðstoðarlandlæknis ranga í ýmsum atriðum auk þess sem umsögnin sé ekki byggð á viðhlítandi gögnum eða nauðsynlegri sérþekkingu. Engin gögn í málinu styðji þá fullyrðingu að Guðmundur J. Guðjónssonar hafi haft "grun um sýkingu" í þeim liðvökva sem hann dró úr stefnanda og ákvað til öryggis að senda til ræktunar 10. desember 1992. Þetta sé rækilega útlistað í greinargerð Guðmundar heitins til framkvæmdastjóra St. Jósefsspítala, sem greint er frá í lýsingu málsatvika hér að framan, og hafi einnig verið áréttað rækilega í skrifum hans til landlæknisembættisins. Því er einnig mótmælt, sem aðstoðarlandlæknir gengur út frá í umsögn sinni, að í sjúkraskrá stefnanda komi fram sönnun um að sjúklingurinn hafi haft „hitavellu“ heima þessa daga. Þetta sé beinlínis rangt eins og fram komi í samantekt í greinargerð Guðmundar J. Guðjónssonar 26. ágúst 2000 og læknabréfi hans 8. mars 1993 sem ritað sé 3 mánuðum eftir umrædda aðgerð. Stefnda Guðrún telur að notkun orðsins „hitavella“ í áliti aðstoðarlandlæknis sé afar lítt upplýsandi og að það hafi ekki neina ákveðna læknisfræðilega merkingu. Af þeirri ástæðu sé allsendis óvíst hvað átt sé við með þessari orðnotkun.
Af hálfu stefndu er lögð á það áhersla að það sé ekki og hafi ekki verið almennt tíðkað að setja menn á sýklalyf við eftirmeðferð í framhaldi af aðgerðum, eins og þeirri sem framkvæmd var á stefnanda, þó svo að blæði inn á liðinn og stinga þurfi á til að draga vökva út úr liðnum. Vísar stefnda um þetta til vottorðs Hauks Árnasonar bæklunarlæknis sem fylgdi greinargerð Guðmundar J. Guðjónssonar til landlæknisembættisins árið 2000. Stefnda telur að Guðmundur hafi verið þess fullviss að sjúklingurinn væri hvorki með né hefði verið með hita þegar hann dró vökvann úr liðnum 10. desember 1992 og útlit hnésins hafi ekki bent til þess að sýking hefði átt sér stað.
Stefnda Guðrún vísar til þess að Guðmundur J. Guðjónsson hafi þegar eftir móttöku álits aðstoðarlandlæknis farið þess á leit að embættið tæki málið til nánari skoðunar, en þeirri málaleitan hafi verið hafnað með bréfi 7. maí 1998. Í niðurlagi bréfs aðstoðarlandlæknis segi að afgreiðsla landlæknis sé einungis rökstutt álit, en ekki dómur og málið sé ekki þess eðlis að um áminningu né aðrar aðgerðir verði að ræða frá landlækni. Eftir að Guðmundi hafi borist áskorun lögmanns stefnanda í ágúst 2000 hafi hann enn sent aðstoðarlandlækni bréf um málið og skýrt það frekar frá sínum sjónarhóli. Landlæknir hafi leitað til sama sérfræðings og áður til að fara yfir þessar athugasemdir og taki efni bréfs sérfræðingsins orðrétt upp í svar sitt til Guðmundar sem dagsett sé 10. september 2000 og geri það að sínu svari. Í bréfi aðstoðarlandlæknis sé tekið fram að hér sé um að ræða svar landlæknisembættisins. Komi málið fyrir dóm verði væntanlega leitað nýs álits.
Stefnda Guðrún mótmælir því að umrædd umsögn landlæknisembættisins teljist sönnunargagn sem jafnað verði til matsgerðar dómkvaddra matsmanna eða viðlíka sönnunargagna, enda komi skýrt fram í framangreindu bréfi landlæknisembættisins að embættið telji að betur þurfi að skoða þetta mál ef málið fer fyrir dóm.
Stefnda Guðrún mótmælir því að bréf frá þáverandi tryggingayfirlækni 25. október 1994, auk úrskurðar tryggingaráðs og „fjölda annarra læknabréfa“ gefi til kynna að um mistök hafi verið ræða hjá Guðmundi J. Guðjónssyni í starfi, eins og fram komi í stefnu. Þetta er beinlínis rangt. Þannig sýni bréf tryggingayfirlæknis að bréfritarinn, Júlíus Valsson tryggingayfirlæknir, telji alls ekki að um læknamistök hafi verið að ræða. Í úrskurði tryggingaráðs sé fjallað um beitingu 5. málsliðs 1. mgr. 24. gr. laga nr. 117/1993, en þar segi að þeir sem tryggðir eru samkvæmt ákvæðinu séu sjúklingar sem hafa orðið fyrir heilsutjóni eða örorku þegar það stafar af læknisaðgerðum eða mistökum starfsfólks sem starfa á stofnunum sem starfa samkvæmt lögum um heilbrigðisþjónustu. Tryggingaráð hafi lagt mat á gögn málsins og niðurstaða þess hafi verið sú að stefnandi hafi hlotið varanlegan skaða vegna læknisaðgerðar, án þess að læknamistök séu nefnd.
Samkvæmt framangreindu telur stefnda Guðrún að Guðmundur J. Guðjónsson hafi í einu og öllu staðið réttilega (lege artis) að meðhöndlun stefnanda fyrir og eftir aðgerðina 4. desember 1992. Jafnframt er því haldið fram að sýking sú sem stefnandi fékk í hnéliðinn í kjölfar aðgerðarinnar sé fylgikvilli sem stundum komi fram eftir slíkar aðgerðir og að hann eða afleiðingar hans verði hvorki rakin til mistaka né rangrar meðhöndlunar af hálfu Guðmundar. Stefnda telur hins vegar að afleiðingar fylgikvillans séu hluti þess líkamstjóns sem stefnandi varð fyrir við vinnu sína 9. nóvember 1992. Er því alfarið vísað á bug sem röngu og meiðandi sem segi í stefnu að „öll meðferðin hafi verið óforsvaranleg og meðhöndlun eftir aðgerðina vítaverð“. Þá sé því vísað á bug að Guðmundur J. Guðjónsson hafi við meðferð stefnanda brotið gegn skyldum sínum samkvæmt 9. gr. læknalaga nr. 53/1988 eða öðrum réttarreglum sem geti orðið grundvöllur undir bótakröfur stefnanda.
Stefnda Guðrún leggur áherslu á að við úrlausn um hugsanlega bótaábyrgð læknis vegna ætlaðra mistaka við meðferð sjúklings beri stefnandi sönnunarbyrðina fyrir því að bótaskylda sé fyrir hendi, þ.e. að viðkomandi læknir hafi af ásetningi eða stórfelldu gáleysi gert ráðstafanir eða látið hjá líða að gera tilteknar ráðstafanir og sjúklingurinn orðið fyrir tjóni af þeim ástæðum. Stefnda Guðrún telur fyrirliggjandi gögn engan veginn benda til að skilyrði bótaábyrgðar séu uppfyllt, hvað þá að bein sönnun liggi fyrir um slíkt. Skerpa verði á sönnunarkröfum gagnvart stefnanda um þessi atriði þegar svo hátti til sem hér að stefnandi hafi dregið málssókn sína svo lengi sem raun ber vitni og læknirinn er ekki lengur til staðar til að bera af sér sakirnar.
Stefnda Guðrún styður sýknukröfu sína einnig við það að Guðmundur J. Guðjónsson hafi við framkvæmd aðgerðarinnar á St. Jósefsspítala 4. desember 1992 verið ríkisstarfsmaður og framkvæmd aðgerðarinnar hafi verið hluti skyldustarfs hans hjá Ríkisspítölum. Íslenska ríkið hafi því sem vinnuveitandi Guðmundar borið ábyrgð á því tjóni sem hér um ræði og hafi stefnandi valdið stefndu Guðrúnu tjóni með því að stefna ekki ríkinu í málinu. Bendir stefnda Guðrún á að þegar málið var höfðað hafi verið orðið svo skammt eftir af fyrningarfresti bótakröfunnar að ekki hafi lengur verið unnt að hafa uppi kröfur á hendur ríkinu. Beri stefnandi ábyrgð á því að kröfuréttur á hendur ríkinu sé fallinn niður og þar með á tjóni stefndu af þessum sökum. Sömu sjónarmið eigi við um hugsanlega bótaábyrgð vegna starfa Guðmundar á Reykjalundi.
Varakrafa stefndu Guðrúnar er í fyrsta lagi studd þeim rökum að þeirrar matsgerð sem stefnandi byggi kröfur sínar á hafi verið aflað án samráðs við Guðmund J. Guðjónsson eða stefndu. Er því mótmælt að hún verði lögð til grundvallar bæði að því er varðar varanlega örorku og tímabundið atvinnutjón. Vísar stefnda Guðrún til sömu sjónarmiða að því er þessi atriði varðar og áður greinir um málsástæður og lagarök stefnda Friðjóns. Telur stefnda Guðrún að meðan stefnandi hafi ekki aflað matsgerðar dómkvaddra manna um varanlega örorku sína sé ekki fram komið nothæft sönnunargagn af hans hálfu um tjón hans. Hefur stefnda Guðrún skorað á stefnanda að afla slíkrar matsgerðar.
Í greinargerð stefndu Guðrúnar kemur fram að ástæða sé til að ætla að stefnandi hafi orðið fyrir slysaáverkum á báðum hnjám bæði fyrir og eftir aðgerðina 4. desember 1992 og kunni þessir áverkar að hafa haft meiri áhrif á heilsu stefnanda en hann vilji vera láta. Stefnda Guðrún bendir á að stefnandi hafi leitað til Guðmundar vegna eymsla í hægra í hné örfáum dögum fyrir slysið 9. nóvember 1992, eins og fram komi í dagbókarnótu Guðmundar frá þeim degi. Hefur stefnda Guðrún skorað á stefnanda að leggja fram gögn um þessi atriði.
Stefnda Guðrún mótmælir örorkutjónsútreikningi stefnanda með sömu rökum og stefndi Friðjón. Þá telur stefnda Guðrún að draga beri frá bótum fleiri liði en gert sé í sundurliðun á kröfu hans. Hefur stefnda Guðrún skorað á stefnanda að leggja fram gögn um greiðslur sem hann hefur fengið vegna umrædds líkamstjóns frá lífeyrissjóðum og Tryggingastofnun ríkisins og þess krafist að þær greiðslur komi til frádráttar kröfum hans með fullri krónutölu.
Stefnda Guðrún telur að frádráttur vegna hagræðis sem felst í eingreiðslu bóta og skattfrelsi örorkubóta eigi að nema 35%. Loks telur stefnda Guðrún að lækka beri bótagreiðslur samkvæmt almennri heimild til lækkunar bóta í tilvikum þar sem bersýnilega er ósanngjarnt að leggja fulla bótaábyrgð á þann sem krafinn er um greiðslu. Þá er miskabótakröfu og kröfu um dráttarvexti mótmælt. Vegna dráttarvaxtakröfu stefnanda bendir stefnda Guðrún á að bréf lögmanns stefnanda til Guðmundar J. Guðjónsson 1. ágúst 2000 hafi ekki verið krafa um greiðslu bóta heldur áskorun um að ganga til samninga um bætur. Þegar sú áskorun hafi verið send hafi þau gögn sem stefnandi leggi til grundvallar kröfugerð sinni í málinu ekki verið til.
VI.
Niðurstaða um kröfur stefnanda gegn stefnda Friðjóni
Eins og áður greinir hefur stefndi Friðjón fallið frá þeirri málsástæðu sinni að kröfu í máli þessu hafi átt að beina að þrotabúi hans, en ekki honum persónulega. Kemur aðildarskortur hans af þessum sökum því ekki til skoðunar. Sama á við um þá málsástæðu hans að krafa stefnanda sé fallin niður vegna vanlýsingar í þrotabúið.
Eftir því sem fram er komið í málinu lauk stefnandi sveinsprófi í smíðum árið 1978. Hann hafði unnið við nýbyggingar á Reykjavíkursvæðinu frá árinu 1987 og í tvo eða þrjá mánuði við byggingu Setbergsskóla þegar slysið varð á byggingarstað skólans 9. nóvember 1992. Óumdeilt er að umrædd bygging var ekki orðin fokheld á slysdegi og voru gólf byggingarinnar ófrágengin. Á gólfum byggingarinnar voru leifar af timbri sem notað hafði verið sem hluti af stífum við uppsteypu veggja á annarri hæð og hafði timbrið (svokallaðir battingar) verið boltað niður með múrboltum. Var unnið að því að hreinsa þetta timbur af gólfum og stóðu þá eftir múrboltar sem gengu um 5-6 sm upp úr gólfinu. Samkvæmt aðilaskýrslu Friðjóns Skúlasonar var á þessum tíma jafnframt unnið að því að fjarlægja boltana með slípirokki. Að hans sögn átti annað hvort eftir að fjarlægja þann bolta sem stefnandi hnaut um eða það hafði gleymst.
Að mati dómara má jafnan búast við ójöfnum á ófrágengnum gólfum nýbygginga. Verður það ekki virt stefnda Friðjóni, eða mönnum sem hann bar ábyrgð á, til sakar að hafa ekki komið upp sérstökum viðvörunum við umræddan bolta eða hafa fjarlægt hann um leið og timbrið, sem boltinn hafði haldið, var fjarlægt. Hins vegar verður að gera þá kröfu til faglærðra iðnaðarmanna, líkt og stefnanda, að þeir geti farið klakklaust yfir ófrágengin gólf nýbygginga. Einnig má til þess ætlast að þeir sýni sérstaka aðgæslu ef þeir þurfa að fara um án þess að sjá hvar þeir stíga niður fæti. Á þetta því frekar við þegar menn þekkja til á byggingarstað, eins og telja verður að stefnandi hafi gert þegar umrætt slys varð.
Samkvæmt framangreindu verður ekki á það fallist að stefndi Friðjón eða menn á hans vegum hafi sýnt af sér saknæma háttsemi þegar stefnandi varð fyrir slysinu 9. nóvember 1992. Þá hafa ekki verið færð rök að því að stefndi Friðjón beri ábyrgð á frekari afleiðingum slyssins af öðrum ástæðum, svo sem vegna tengsla hans við atvik málsins eftir að slysið átti sér stað eða þá læknismeðferð sem stefnandi fékk. Verður hann því sýknaður af kröfu stefnanda.
VII.
Niðurstaða um kröfur stefnanda gegn stefndu Guðrúnu
Í málinu liggur fyrir að stefnda Guðrún fékk 30. nóvember 2001 leyfi til setu í óskiptu búi eftir eiginmann sinn, Guðmund J. Guðjónsson lækni. Ber hún ábyrgð á skuldum dánarbús eiginmanns síns sem um eigin skuldir væri að ræða. Er henni réttilega stefnt til varnar í málinu vegna dánarbús nefnds Guðmundar samkvæmt 12. gr. erfðalaga nr. 8/1962, sbr. 7. gr. laga nr. 48/1989.
Eins og áður greinir var umrædd aðgerð á hné stefnanda gerð laust eftir hádegi föstudaginn 4. desember 1992 og var stefnandi útskrifaður um sólarhring síðar. Eiginkona stefnanda náði sambandi við Guðmund J. Guðjónsson daginn eftir útskrift stefnanda, það er sunnudaginn 6. sama mánaðar, og kom stefnandi í framhaldi af því til skoðunar hjá Guðmundi á heilsugæslustöðinni að Reykjalundi þá um kvöldið. Samkvæmt nótu Guðmundar J. Guðjónssonar við útskrift stefnanda af St. Jósefsspítala 19. sama mánaðar var stefnandi hitalaus við skoðunina 6. desember 1992. Hné hans var útblásið, en ekki hiti á því eða roði. Þá segir í færslunni að Guðmundur hafi gert ástungu á hnénu og dregið út 120 ml af liðvökva, blóðlituðum, en með nokkuð eðlilegu útliti með hliðsjón af því hve stutt var liðið frá aðgerð. Í málinu liggur fyrir að sýni af umræddum liðvökva var ekki sent til rannsóknar. Af hálfu stefnanda hefur því hins vegar verið mótmælt að hann hafi verið hitalaus þennan dag og hiti hafi ekki verið í hnénu. Þá hefur verið á það bent að hann hafi verið á hitalækkandi lyfjum og hafi Guðmundi verið kunnugt um það og borið að taka tillit til þess við mat á hugsanlegri sýkingu.
Gögnum málsins ber ekki saman um hvort Guðmundur hafi skoðað stefnanda daginn eftir, það er mánudaginn 7. desember 1992. Samkvæmt framangreindri nótu framkvæmdi Guðmundur að nýju ástungu á hné stefnanda mánudaginn 7. desember 1992 og dró þá út 100 ml af minna blóðugum vökva, en aðeins meira skýjuðum. Segir í nótunni að hann hafi þá sent tvö glös í ræktun. Sama fullyrðing, orðuð með nákvæmlega sama hætti, kemur fram í bréfi Guðmundar 8. mars 1993. Eins og síðar greinir liggja þó engin gögn fyrir í málinu sem staðfesta að umrædd ástunga hafi verið gerð eða að sýni hafi verið send til sýklafræðideildar. Í þessum gögnum kemur einnig fram að ástunga hafi verið gerð aftur síðar í vikunni og þá hafi sýni að nýju verið sent til rannsóknar. Þegar haft hafi verið samband við sýklafræðideild Landspítalans hafi ekkert verið búið að ræktast fyrr en á laugardeginum þegar ræktast hafði á einni skál. Á sunnudeginum hafi svo verið búið að ræktast á öllum fjórum skálum og hafi þá legið fyrir að um var að ræða sýkilinn Streptococcus sanguis. Af bréfi Guðmundar til aðstoðarlandlæknis 24. mars 1998, sem ritað var í tilefni af fyrirspurn lögmanns stefnanda, verður hins vegar ráðið að eftir ástunguna sunnudagskvöldið 6. desember 1992 hafi Guðmundur ekki hitt stefnanda fyrr en miðvikudagskvöldið 9. sama mánaðar. Hafi hann þá gert ástungu á nýjan leik og sent tvö sýnaglös í ræktun hjá sýklafræðideild. Föstudaginn 11. sama mánaðar hafi annað sýni verið sent í ræktun í öryggisskyni eftir að stungið hafði verið á hnénu. Í greinargerð Guðmundar til framkvæmdastjóra St. Jósefsspítala 26. ágúst 2000, sem einnig var rituð í tilefni af fyrirspurn lögmanns stefnanda, kemur sambærileg lýsing atvika fram sem og í bréfi hans 28. ágúst 2000 til aðstoðarlandlæknis.
Samkvæmt endurriti úr dagbók sýklafræðideildar Landspítalans bárust fyrstu sýni frá Guðmundi (merkt nr. 540 og 541) ekki fyrr en fimmtudaginn 10. desember 1992. Þá liggur fyrir í málinu ljósrit af beiðni Guðmundar um sýklarannsókn vegna umræddra sýna (merkt nr. 540 og 541) og eru þau sögð tekin kl. 20.30 miðvikudaginn 9. desember 1992. Samræmist þetta þeirri frásögn Guðmundar, sem fram kemur í framangreindri greinargerð og bréfum hans til aðstoðarlandlæknis, að fyrsta sýnataka til ræktunar hafi farið fram að kvöldi miðvikudagsins 9. desember 1992 og hafi sýnin borist sýklafræðideild laust eftir miðnætti sama kvöld. Dagsetning svars sýklafræðideildar er tilgreint mánudagurinn 14. desember 1992 í umræddu endurriti dagbókar deildarinnar og á áðurnefndri ræktunarbeiðni Guðmundar. Samræmist sú dagsetning því að Guðmundur hafi fengið upplýsingar um það símleiðis sunnudaginn 13. sama mánaðar að vöxtur væri kominn upp í sýnunum. Í málinu liggur einnig fyrir beiðni Guðmundar og svar sýklafræðideildar um rannsókn á sýni sem sagt er hafa verið tekið kl. 14.00 föstudaginn 11. sama mánaðar (merkt nr. 542), en þetta sýni kemur hins vegar ekki fram á umræddu endurriti dagbókar sýklafræðideildar.
Samkvæmt framangreindu telja dómarar fram komið að eftir skoðun Guðmundar á stefnanda að kvöldi sunnudagsins 6. desember 1992, þar til hann var lagður inn að nýju á St. Jósefsspítala sunnudaginn 13. sama mánaðar, hafi Guðmundur að minnsta kosti tvívegis skoðað stefnanda, gert ástungur á hnénu og sent sýni til rannsóknar, í fyrra skiptið að kvöldi miðvikudagsins 9. desember 1992 og í síðara skiptið um miðjan dag föstudaginn 11. sama mánaðar. Hins vegar ríkir óvissa um hvort Guðmundur skoðaði stefnanda eða gerði ástungu á hnénu mánudaginn 7. desember 1992. Liggja ekki fyrir í málinu skrifleg frumgögn um þetta, svo sem samtímameðferðarnótur læknis. Á raunar hið sama við um þær liðástungur sem gerðar voru 6., 9. og 11. sama mánaðar.
Það er álit dómara að ekkert sé fram komið í málinu sem bendi til þess að saknæm mistök hafi átt sér stað í aðdraganda eða við framkvæmd þeirrar aðgerðar sem gerð var á stefnanda 4. desember 1992. Enn fremur er það álit dómara að útskrift stefnanda 5. sama mánaðar og fyrstu viðbrögð Guðmundar J. Guðjónssonar við kvörtunum hans í kjölfar útskriftar hafi verið eðlileg.
Dómarar telja að við skoðun Guðmundar á stefnanda miðvikudagskvöldið 9. desember 1992, þegar Guðmundur kveðst hafa dregið út úr hnénu 100 ml af skýjuðum vökva, hafi ekki legið fyrir að komin væri sýking í hnéð. Af gögnum málsins verður hins vegar ekki ráðið hvort stefnandi hafi umrætt kvöld haft almenn eða staðbundin sýkingareinkenni, svo sem hækkaðan líkamshita eða hraðan púls eða að hnéð hafi verið óeðlilega heitt, aumt eða roði hafi verið yfir því. Með hliðsjón af ófullnægjandi sjúkraskrárfærslu Guðmundar á tímabilinu 5. til 13. desember 1992 verður stefnda Guðrún að bera hallann af skorti á upplýsingum um ástand stefnanda að þessu leyti á umræddu tímabili.
Miðvikudagskvöldið 9. desember 1992 hafði Guðmundur þegar stungið á hnénu einu sinni eða tvisvar, það er að kvöldi 6. desember og hugsanlega einnig 7. desember. Voru þessar ástungur, jafnvel þó nauðsynlegar væru, til þess fallnar að auka hættu á sýkingu í hnénu eftir aðgerðina. Ágreiningslaust er að kvöldið 9. desember 1992 var enn mikill vökvi í hnénu og sá vökvi sem dreginn var út var skýjaður. Þá er ekki unnt að útiloka að stefnandi hafi haft önnur einkenni sem bent gátu til sýkingar, svo sem hækkaðan líkamshita eða hraðan púls, en eins og áður segir verður stefnda Guðrún að bera hallann af skorti um sönnun varðandi þessi atriði. Að öllu þessu virtu telja dómarar að kvöldið 9. desember 1992 hafi verið fullt tilefni til að láta kanna liðvökva þegar í stað með tilliti til hugsanlegrar sýkingar, svo sem með Grams-litun sem hefði getað sýnt fram á að bakteríur væru í liðnum, eða hefja sýklalyfjameðferð þegar í stað meðan beðið var eftir niðurstöðum ræktana. Dómarar telja að í allra síðasta lagi hafi verið rétt að hefja slíka meðferð laugardaginn 12. sama mánaðar þegar ljóst var að sýklavöxtur var á einni skál. Telja dómarar ekki réttlætanlegt að læknir byggi ákvörðun um að hefja ekki sýklalyfjameðferð á mati meinatæknis um að líklega sé um mengun í sýnaskál að ræða.
Samkvæmt framangreindu er það niðurstaða dómara, með hliðsjón af þeim ströngu kröfum sem gera verður til sérfræðings á því sviði lækninga sem hér um ræðir, að sá fjögurra sólarhringa dráttur sem varð á því að hefja sýklalyfjameðferð á stefnanda verði virtur Guðmundi J. Guðjónssyni lækni til sakar. Kemur því næst til skoðunar hvort umræddur dráttur hafi verið til þess fallinn að hafa áhrif á varanleg einkenni stefnanda, en spurningu um þetta atriði var hvorki beint til læknaráðs né dómkvaddra matsmanna.
Samkvæmt gögnum málsins var stefnandi með sögu um verki í hægra hné. Gekkst stefnandi undir aðgerð á Landspítalanum um mitt ár 1989, þar sem fjarlægður var hluti af liðþófa úr hnénu. Heppnaðist sú aðgerð vel og var stefnandi að eigin sögn einkennalaus eftir þá aðgerð. Þrátt fyrir þessa fullyrðingu stefnanda verður að líta til þess að stefnandi hafði einkenni nokkrum dögum fyrir slysið 9. nóvember 1992 sem bent gátu til liðþófarasks innanvert í hægra hné og hafði leitað til Guðmundar J. Guðjónssonar læknis af þeim sökum. Lét hann gera röntgenrannsókn á hnjám stefnanda 13. nóvember 1992 sem sýndi þynningu (lækkun) á liðbrjóski innanvert í hægra hné. Telja dómarar, tímans vegna, að sú lækkun geti ekki verið afleiðing slyssins 9. nóvember 1992, en gæti að einhverju eða öllu leyti verið afleiðing fyrri áverka á hnéð.
Samkvæmt framangreindu telja dómarar að hægra hné stefnanda hafi ekki verið með öllu heilbrigt fyrir slysið 9. nóvember 1992 og því líklegra að það slys sem þá varð hefði varanlegar afleiðingar. Þá telja dómarar einnig að þótt aðgerð, eins og sú sem stefnandi gekkst undir 4. desember 1992, heppnist fullkomlega, megi búast við einhverjum varanlegum einkennum, svo sem óþægindum og hreyfiskerðingu í hné.
Hinn 28. september 1993 gerði Stefán Carlsson bæklunarlæknir liðspeglun á hné stefnanda. Í vottorði Stefáns 20. janúar 1994 segir að við liðspeglun hafi komið í ljós mikið af samvöxtum í hnénu og slit á liðfleti lærleggjarins innanverðum. Hafi þá verið gerð aðgerð meðfram speglunartækinu, þar sem þessir samvextir voru hreinsaðir burtu. Dómarar telja að af þessu vottorði Stefáns verði ekki ráðið að skemmdir hafi orðið á liðbrjóski umfram það sem búast mátti við eftir slysið 9. nóvember 1992 að teknu tilliti til einkennasögu stefnanda.
Sá sýkill sem hér um ræðir er hægvirkur og myndar ekki umtalsvert magn ensíma (próteolytísk ensím) sem geta skemmt eða eytt liðbrjóski á skömmum tíma. Sú töf sem varð á því að hefja sýklalyfjameðferð telst að mati dómara vera í mesta lagi um fjórir sólarhringar, eins og áður segir, og er ólíklegt og með öllu ósannað að töfin hafi aukið marktækt skemmdir á liðnum. Þegar litið er til þessa, svo og þeirra atriða sem að framan greinir, er það álit dómara að ekki hafi verið gert líklegt að varanlegar afleiðingar slyssins 9. nóvember 1992 og aðgerðarinnar 4. desember sama árs hafi orðið meiri sökum þess að framangreindur dráttur varð á því að hefja sýklalyfjameðferð. Hefur stefnanda því ekki tekist að sanna að varanleg örorka hans verði rakin til vanrækslu Guðmundar J. Guðjónssonar læknis.
Að því er varðar kröfu stefnanda um tímabundna örorku verður að líta til þess að blæðingar í lið við aðgerð, eins og þá sem stefnandi gekkst undir 4. desember 1992, eru mögulegur fylgikvilli sem ekki er fyrirfram hægt að útiloka. Verður Guðmundi J. Guðjónssyni því ekki um það kennt þótt blætt hafi inn á liðinn að lokinni aðgerðinni. Blæðingin í hnélið stefnanda var til þess fallin að gera hreyfingar sársaukafullar, valda hreyfiskerðingu og samvöxtum í liðnum. Mátti því ætla að stefnandi yrði tímabundið óvinnufær og þyrfti á endurhæfingu að halda, jafnvel þótt engin sýking kæmi upp. Dómarar telja ekki fram komið að tímabil endurhæfingar og tímabundinnar óvinnufærni hafi orðið lengra sökum þess að dregið var að meðhöndla stefnanda með sýklalyfjum í fjóra sólarhringa. Verður því ekki fallist á kröfu stefnanda um bætur fyrir tímabundna örorku.
Það er álit dómara að umræddur dráttur á því að hefja sýklalyfjameðferð hafi valdið stefnanda tímabundnum þjáningum á líkama, en fyrir liggur í málinu að eftir að sýklalyfjameðferð hófst 13. desember 1992 breyttist líðan stefnanda fljótt til batnaðar. Telja dómarar skilyrðum 264. gr. almennra hegningarlaga nr. 19/1940 fullnægt til að dæma stefnanda miska af þessum sökum. Er hann hæfilega metinn 350.000 krónur með hliðsjón af fyrirliggjandi upplýsingum um líðan stefnanda þá fjóra sólahringa sem hér um ræðir. Með vísan til 2. málsliðar 15. gr. vaxtalaga nr. 25/1987 verða dráttarvextir dæmdir frá dómsuppsögu.
Eftir atvikum þykir rétt að málskostnaður falli niður. Stefnandi fékk gjafsóknarleyfi 23. janúar 2001 vegna reksturs málsins fyrir héraðsdómi. Allur gjafsóknarkostnaður stefnanda, þar með talin þóknun lögmanns hans, Elínborgar J. Björnsdóttur hdl., sem þykir hæfilega ákveðin 996.000 krónur að teknu tilliti til virðisaukaskatts, greiðist því úr ríkissjóði. Samkvæmt upplýsingum lögmanns stefnanda nemur útlagður kostnaður hans 119.857 krónum er gjafsóknarkostnaður því samtals 1.115.857 krónur.
Af hálfu stefnanda flutti málið Elínborg J. Björnsdóttir hdl.
Af hálfu stefnda Friðjóns flutti málið Kristín Edwald hdl.
Af hálfu stefndu Guðrúnar flutti málið Ragnar H. Hall hrl.
Skúli Magnússon héraðsdómari kveður upp dóm þennan ásamt meðdómsmönnunum Halldóri Baldurssyni bæklunarlækni og Sigurði B. Þorsteinssyni sérfræðingi í lyflækningum og smitsjúkdómum.
D Ó M S O R Ð
Stefndi, Friðjón Skúlason, er sýkn af kröfum stefnanda, Guðmundar Helga Ármannssonar.
Stefnda, Guðrún V. Sverrisdóttir, greiði stefnanda 350.000 krónur með dráttarvöxtum samkvæmt 1. mgr. 6. gr. laga nr. 38/2001 frá dómsuppsögu að telja.
Málskostnaður fellur niður.
Gjafsóknarkostnaður stefnanda, samtals að fjárhæð 1.115.857 krónur, greiðist úr ríkissjóði.