Hæstiréttur íslands

Mál nr. 206/2008


Lykilorð

  • Kærumál
  • Gæsluvarðhald. A. liður 1. mgr. 103. gr. laga nr. 19/1991


         

Miðvikudaginn 16. apríl 2008.

Nr. 206/2008.

Lögreglustjórinn á Suðurnesjum

(Júlíus Magnússon, fulltrúi)

gegn

X

(Unnar Steinn Bjarndal hdl.)

 

Kærumál. Gæsluvarðhald. A. liður 1. mgr. 103. gr. laga nr. 19/1991

Talið var að skilyrði væru fyrir hendi til að X sætti áfram gæsluvarðhaldi á grundvelli a. liðar 1. mgr. 103. gr. laga nr. 19/1991 um meðferð opinberra mála. Var úrskurður héraðsdóms því staðfestur.

 

Dómur Hæstaréttar.

Mál þetta dæma hæstaréttardómararnir Ólafur Börkur Þorvaldsson, Hjördís Hákonardóttir og Páll Hreinsson.

Varnaraðili skaut málinu til Hæstaréttar með kæru 11. apríl 2008, sem barst réttinum ásamt kærumálsgögnum 15. sama mánaðar. Kærður er úrskurður Héraðsdóms Reykjaness 11. apríl 2008, þar sem varnaraðila var gert að sæta áfram gæsluvarðhaldi allt til föstudagsins 2. maí 2008 kl. 16. Kæruheimild er í 1. mgr. 142. gr. laga nr. 19/1991 um meðferð opinberra mála. Varnaraðili krefst þess aðallega að hinn kærði úrskurður verði felldur úr gildi, en til vara að gæsluvarðhaldi verði markaður skemmri tími.

Sóknaraðili krefst staðfestingar hins kærða úrskurðar.

Með vísan til forsendna hins kærða úrskurðar er fallist á að skilyrði a. liðar 1. mgr. 103. gr. laga nr. 19/1991 séu uppfyllt til að varnaraðila verði gert að sæta áfram gæsluvarðhaldi og þykja ekki efni til að marka því skemmri tíma en þar er gert. Verður hinn kærði úrskurður því staðfestur.

Dómsorð:

Hinn kærði úrskurður er staðfestur.

         

 

Úrskurður Héraðsdóms Reykjaness 11. apríl 2008.

Með beiðni lögreglustjórans á Suðurnesjum, dagsettri í dag, er þess krafist X, fd. [...], búsettur í Póllandi, verði með úrskurði Héraðsdóms Reykjaness gert að sæta áframhaldandi gæsluvarðhaldi allt til föstudags 2. maí 2008 kl. 16.00.

Í greinargerð lögreglustjórans segir að lögreglan á Suðurnesjum hafi til rannsóknar aðild kærða að meintu stórfellu broti á lögum nr. 65/1974 um ávana- og fíkniefni og brot gegn 173. gr. a almennra hegningarlaga nr. 19/1940. Þá sé kærði grunaður um brot gegn endurkomubanni til Íslands sem lagt var á hann með ákvörðun Útlendingastofnunar 20. mars 2003 og staðfest af dómsmálaráðuneytinu 21. maí það ár. Kærði hafi verið handtekinn vegna rökstudds gruns um aðild að innflutningi á umtalsverðu magni af amfetamíni en við komu til landsins með flugi frá Stokkhólmi föstudaginn 28. mars s.l. fundust í fórum samferðamanna hans, A og B, samanlagt 983 grömm af amfetamíni. Skýrslum hinna kærðu beri ekki saman um fíkniefnainnflutninginn en atriði í framburði meðkærðu, sérstaklega B, í skýrslu dags. 9. apríl s.l., þykji gefa sterka vísbendingu um að kærði hafi staðið að innflutningi fíkniefnanna, sem samferðafólk hans bar á sér. Eru þessi kærðu því talin í sameiningu hafa staðið að hinum ólöglega innflutningi fíkniefna.

Rannsókn þessa máls sé ekki lokið, en búist sé við að henni ljúki fljótlega. Meðal þess sem ólokið sé að rannsaka séu tengsl aðila innbyrðis og hugsanleg tengsl aðila við aðra hugsanlega vitorðsmenn á Íslandi eða erlendis. Kærði er erlendur maður og þyki mega ætla að hann muni reyna að komast úr landi eða leynast verði honum ekki gert að sæta áframhaldandi gæsluvarðhaldi. Það magn fíkniefna, sem fannst í fórum samferðafólks kærða þykir benda til að um stórfellt brot sé að ræða sem falli undir 173. gr. a almennra hegningarlaga nr. 19/1940, sem varðað getur allt að 12 ára fangelsi. Þá er kærði einnig grunaður um brot gegn útlendingalögum, sem varðar fangelsi. Lögregla telur með vísan til ofanritaðs nauðsynlegt að kærða verði með úrskurði gert að sæta áframhaldandi gæsluvarðhaldi allt til þess að rannsókn málsins verði lokið, ákæra gefin út og dómur gengur í málinu, þó eigi lengur en til föstudagsins 2. maí 2008 kl. 16.00.

Kærða var með úrskurði Héraðsdóms Reykjaness dagsettum 29. mars s.l. gert að sæta gæsluvarðhaldi til kl. 16:00 í dag.

Þegar litið er til framangreinds og rannsóknargagna málsins, einkum skýrslna af meðkærðu, verður að fallast á það með lögreglustjóra að kærði sé undir rökstuddum grun um að hafa framið verknað sem fangelsisrefsing er lögð við. Rannsókn er ólokið og verður fallist á það með lögreglustjóra að rannsóknarhagsmunir séu enn til staðar í málinu. Þá er kærði erlendur og verður að telja hættu á að hann muni reyna að koma sér undan áður en meðferð málsins lýkur. Vegna rannsóknarhagsmuna telst farbann ekki koma til greina að svo stöddu. Að þessu virtu teljast uppfyllt skilyrði a- og b- liða 1. mgr. 103. gr. laga nr. 19/1991 um meðferð opinberra mála, sbr. 173. gr.a almennra hegningarlaga nr. 19/1940 og laga nr. 65/1974 um ávana- og fíkniefni. Ekki þykja efni til að marka gæsluvarðhaldinu skemmri tíma. Verður krafa lögreglustjóra því tekin til greina eins og hún er fram sett og nánar greinir í úrskurðarorði.

Arnfríður Einarsdóttir héraðsdómari kveður upp úrskurð þennan.

Úrskurðarorð

Kærði, X, sæti áfram gæsluvarðhaldi allt til kl. 16.00 föstudaginn 2. maí 2008.