Hæstiréttur íslands
Mál nr. 730/2015
Lykilorð
- Málskostnaðartrygging
- Kærumál
|
|
Mánudaginn 16. nóvember 2015. |
|
Nr. 730/2015. |
Guðmundur
A. Birgisson (Sigurður G. Guðjónsson hrl.) gegn Erlu
S. Árnadóttur (Arnar Þór Stefánsson hrl.) |
Kærumál. Málskostnaðartrygging.
Staðfestur var úrskurður héraðsdóms þar
sem G var gert að setja tryggingu fyrir greiðslu málskostnaðar í máli hans á
hendur E.
Dómur
Hæstaréttar.
Mál þetta dæma hæstaréttardómararnir Ólafur Börkur
Þorvaldsson, Helgi I. Jónsson og Þorgeir Örlygsson.
Sóknaraðili skaut málinu til Hæstaréttar með kæru, sem barst
héraðsdómi 23. október 2015 og Hæstarétti 28. sama mánaðar, en kærumálsgögn
bárust réttinum 5. nóvember sama ár. Kærður er úrskurður Héraðsdóms Suðurlands 12.
október 2015, þar sem fallist var á kröfu varnaraðila um að sóknaraðila
yrði gert að setja tryggingu fyrir greiðslu málskostnaðar við úrlausn
ágreinings um hæfi skiptastjóra í þrotabúi sóknaraðila. Kæruheimild er í 1.
mgr. 179. gr. laga nr. 21/1991 um gjaldþrotaskipti o.fl. Sóknaraðili krefst
þess að hafnað verði kröfu varnaraðila um málskostnaðartryggingu. Þá krefst
hann málskostnaðar í héraði og kærumálskostnaðar.
Varnaraðili krefst staðfestingar hins kærða úrskurðar og
kærumálskostnaðar.
Samkvæmt b. lið 1. mgr. 133. gr. laga nr. 91/1991 um meðferð
einkamála, sem hér gildir, sbr. 2. mgr. 178. gr. laga nr. 21/1991, getur
stefndi krafist þess við þingfestingu máls að stefnandi setji tryggingu fyrir
greiðslu málskostnaðar ef leiða má líkur að því að stefnandi sé ófær um
greiðslu málskostnaðar. Megintilgangur lagaákvæðisins er að tryggja greiðslu á
málskostnaði þeim til handa, sem þarf að taka til varna gegn málsókn og verða
fyrir útgjöldum af vörnum sínum, þótt fyrirfram sé sýnt að sá sem málið sækir
geti ekki greitt málskostnað sem á hann verður felldur. Sóknaraðili hefur ekki
lagt fram gögn til að hnekkja þeim líkum sem leiddar hafa verið að því að hann
sé ófær um greiðslu málskostnaðar. Samkvæmt þessu verður hinn kærði úrskurður
staðfestur á þann hátt sem í dómsorði segir.
Sóknaraðila verður gert að greiða varnaraðila
kærumálskostnað eins og í dómsorði greinir.
Dómsorð:
Hinn kærði úrskurður er staðfestur að öðru leyti en því að
tveggja vikna frestur sóknaraðila, Guðmundar A. Birgissonar, til að setja
tryggingu fyrir greiðslu málskostnaðar hefst við uppsögu dóms þessa.
Sóknaraðili greiði varnaraðila, Erlu S. Árnadóttur, 300.000
krónur í kærumálskostnað.
Úrskurður Héraðsdóms Suðurlands 12.
október 2015.
Mál þetta
var þingfest 28. september sl.
Sóknaraðili
er Guðmundur A. Birgisson, kt. [...], Núpum 3,
Sveitarfélaginu Ölfusi.
Varnaraðili
er Erla Svanhvít Árnadóttir, hæstaréttarlögmaður og skiptastjóri í þrotabúi
sóknaraðila.
Mál þetta á
rót sína að rekja til aðfinnslna sem þrotamaður hafði um störf skiptastjóra í
bréfi til dómsins, dagsettu 17. september sl. Farið var með málið eins og fyrir
er mælt um í 1. og 2. mgr. 76. gr. laga nr. 21/1991 um gjaldþrotaskipti o.fl.
Þar sem dómari féllst ekki á víkja skiptastjóra úr starfi, krafðist sóknaraðili
úrskurðar héraðsdómara um brottvikningu skiptastjóra úr starfi með vísan til
þess að að skiptastjóri fullnægði ekki
skilyrðum 2. mgr. 75. gr. laga nr. 21/1991. Var mál þetta þingfest í kjölfarið.
Þá krefst sóknaraðili málskostnaðar úr hendi varnaraðila.
Varnaraðili
mótmælti kröfum sóknaraðila við þingfestingu málsins og krafðist þess að
sóknaraðila verði gert að leggja fram málskostnaðartryggingu að fjárhæð
1.500.000 krónur. Í þessum þætti málsins er eingöngu tekin til úrlausnar
framangreind krafa varnaraðila.
Sóknaraðili
krefst þess aðallega að kröfu um málskostnaðartryggingu verði hafnað. Þá verður
málflutningur sóknaraðila skilinn þannig að komi til þess að dómurinn fallist á
kröfu varnaraðila, verði úrskurðað um verulega lægri tryggingafjárhæð.
Lögmenn
aðila reifuðu málsástæður og lagarök í þessum þætti málsins í þinghaldi
fimmtudaginn 1. október sl. Að málflutningi loknum var krafan tekin til úrskurðar.
I.
Til
stuðnings kröfunni vísar varnaraðili til b-liðar 1. mgr. 133. gr. laga um
meðferð einkamála nr. 91/1991, og þess að bú sóknaraðila hafi með úrskurði
Héraðsdóms Suðurlands verið tekið til gjaldþrotaskipta þann 20. desember 2013.
Þá standi skiptameðferð enn yfir. Nýlega hafi komið í ljós að þrotamaður eigi
eignir á Spáni og í Bandaríkjunum en þrotamaður hafi neitað að veita
skiptastjóra upplýsingar varðandi framangreindir eignir og einnig að svara
spurningum skiptastjóra hér fyrir dómi, sbr. málið nr. V- 1/2015. Vísar
varnaraðili til þess að afstaða til lýstra krafna hafi legið fyrir í rúmt ár og
sé það mat varnaraðila að um tilefnislaus málaferli sé að ræða af hálfu
sóknaraðila, sem að mati varnaraðili geti hvorki átt aðild að kröfu um brottvikningu
skiptastjóra né eigi hann hagsmuna að gæta í málinu. Þá hafnaði varnaraðili því
að stjórnarskrá Íslands og 6. gr. mannréttindasáttmála Evrópu standi í vegi
fyrir að krafa hans nái fram að ganga enda séu ákvæði um málskostnaðartryggingu
algeng í aðildarríkum sáttmálans.
Sóknaraðili
kvað tilefni máls þessa fyrst hafa vaknað eftir að þrotabúið hafi farið með mál
fyrir dómstóla í Bandríkjunum. Þá sé til þess að líta að lögmannsstofan Lex, sem sé að hluta í eigu skiptastjóra, vinni fyrir tvo
stærstu kröfuhafa í búinu. Sóknaraðili vísar til þess að ákvæði 133. gr. laga
nr. 21/1991 sé undantekningarákvæði sem beri að túlka þröngt og til réttar
einstaklinga til að bera mál sín undir dómstóla, sbr. 70. gr.
stjórnarskrárinnar og 6. gr. mannréttindasáttmála Evrópu. Við mat á heimild
133. gr. laga nr. 91/1991 verði að líta heildstætt á málið, þ.e. fjárhag
sóknaraðila, tilefni málshöfðunar og þeirra hagsmuna sem sóknaraðili hafi af
því að fá leyst úr kröfu sinni í málinu. Ótækt sé að girða fyrir það að þrotamaður
láti reyna á hæfi skiptastjóra og undirstriki það mikilvægi þess að kröfu um
málskostnaðartryggingu verði hafnað.
II.
Mál þetta
er rekið samkvæmt XXIV. kafla laga nr. 21/1991 um gjaldþrotaskipti o.fl., sbr.
3. mgr. 169. gr. sömu laga. Að því
leyti sem annað leiðir ekki af ákvæðum laga nr. 21/1991, gilda almennar reglur
um meðferð einkamála í héraði um meðferð mála samkvæmt áðurnefndum kafla.
Bú sóknaraðila var tekið til gjaldþrotaskipta 20. desember 2013 með úrskurði
Héraðsdóms Suðurlands og var varnaraðili, Erla Svanhvít Árnadóttir, skipaður
skiptastjóri búsins. Eins og fram kemur í bréfi sóknaraðila til dómsins nema
lýstar kröfur í búið samtals 3.568.487.659 krónum.
Í b-lið 1.
mgr. 133. gr. laga um meðferð einkamála nr. 91/1991, kemur fram að stefndi getur í máli krafist
málskostnaðartryggingar úr hendi stefnanda ef leiða má líkur að því að
stefnandi sé ófær um greiðslu málskostnaðar. Ákvæði þetta er
undantekningarákvæði og hvílir sönnunarbyrði um ógjaldfærni stefnanda á
stefnda.
Í máli
þessu liggur fyrir að sóknaraðili er þrotamaður og að skiptameðferð í búi hans
er ekki lokið. Fyrir liggur að þrotabúið mun ekki láta þetta mál til sín taka
og í munnlegum málflutningi kom fram af hálfu varnaraðila að þrotabúið mun ekki
ábyrgjast greiðslu kostnaðar af rekstri þessa máls. Með hliðsjón af 2. mgr.,
sbr. 1. mgr. 130. gr. laga nr. 21/1991, liggur því fyrir að sóknaraðili rekur
mál þetta á eigin ábyrgð.
Ákvæði
b-liðar 133. gr. laga nr. 91/1991 var nýmæli á sínum tíma. Segir í greinargerð
með lögunum að nýmælið verði að telja eðlilegt enda séu dæmi af þeim tilvikum í
framkvæmd að stefndi sé nauðbeygður til að taka til varnar gegn tilefnislausri
eða tilgangslítilli málsókn og verða fyrir útgjöldum af þeim völdum, þótt
fyrirfram sé sýnt að útilokað sé að stefnandi geti greitt honum þann
málskostnað, sem hann verður fyrirsjáanlega dæmdur til. Til framangreindra
ummæla vísaði varnaraðili í málflutningi sínum. Þrátt fyrir ummæli í
greinargerð verður ekki horft fram hjá afdráttarlausu ákvæði b-liðar 1. mgr. 133.
gr., um þá skyldu stefnda að leiða líkur að því að stefnandi sé ófær um
greiðslu málskostnaðar.
Að virtu
því sem að framan er rakið hefur varnaraðili, að mati dómsins, leitt að því
fullnægjandi líkur að sóknaraðili kunni að vera ófær um greiðslu málskostnaðar
og því beri að fallast á kröfu hans um málskostnaðartryggingu með vísan til
b-liðar 1. mgr. 133. gr. laga nr. 91/1991. Um fjárhæð tryggingar, form og frest
til að leggja hana fram fer eins og í úrskurðarorði greinir.
Ragnheiður
Thorlacius héraðsdómari kveður upp úrskurð þennan.
Ú r s k u r ð a r o r ð:
Sóknaraðila,
Guðmundi A. Birgissyni, er skylt að setja tryggingu að fjárhæð 600.000 krónur,
fyrir greiðslu málskostnaðar í málinu nr. X-4/2015. Ber honum að leggja fram
tryggingu í formi peningagreiðslu eða bankaábyrgðar í síðasta lagi fyrir
klukkan 16:00 mánudaginn 26. október 2015.