Hæstiréttur íslands

Mál nr. 113/2008


Lykilorð

  • Vinnuslys
  • Líkamstjón
  • Örorka
  • Skaðabætur
  • Vextir
  • Gjafsókn


                                     

Fimmtudaginn 13. nóvember 2008.

Nr. 113/2008.

Byko hf.

(Kristín Edwald hrl.)

gegn

Hönnu Bryndísi Heimisdóttur

(Anton B. Markússon hrl.

og gagnsök

 

Vinnuslys. Líkamstjón. Örorka. Skaðabætur. Vextir. Gjafsókn.

H krafði B um skaðabætur vegna slyss sem hún var fyrir í vinnu sinni hjá B. Tildrög slyssins voru þau að H og önnur stúlka fluttu þungt vörubretti á hjólatrillu. Til að forða því að trillan lenti á viðskiptavini urðu þær breyta akstursstefnu trillunnar með þeim afleiðingum að H klemmdist. Óumdeilt er að þungi varningsins á vörubrettinu sem H flutti með trillunni milli staða í verslun B hefði verið u.þ.b. 1,6 tonn. Vitni báru að stúlkurnar hefðu áður flutt farm á milli staða í versluninni á trillunni. Stúlkurnar sögðu þó báðar fyrir dómi að ekki hefði fyrr verið um svo þungan farm að ræða. Talið var sannað með framburði H og samstarfsfólks hennar að stúlkurnar hefðu ekki fengið leiðbeiningar um það hvernig þær hefðu átt að bera sig að við flutninginn. B andmælti þeirri staðhæfingu H að þær hefðu fengið tilmæli um að fara með farminn á trillunni umrætt sinni. B byggði þó ekki á því að ætluð sök H hefði falist í því að hafa notað trilluna umrætt sinn, heldur eingöngu á því að stúlkurnar hefðu farið of hratt yfir. Sönnun um bein fyrirmæli umrætt sinn skipti því ekki máli við úrlausn málsins. Fallist var á með H að verkið hefði verið ofvaxið líkamlegu atgervi hennar og að það hefði verið andsætt a. og d. liðum 1. mgr. 62. gr. laga nr. 46/1980 að fela henni að vinna það. Samkvæmt þessu var B dæmt til að greiða H skaðabætur. Ekki var talið sannað að H og samstarfskona hennar hefðu sýnt af sér gáleysi með því að fara of hratt yfir með trilluna og var því ekki talið efni til að lækka bætur til H vegna eigin sakar.

Dómur Hæstaréttar.

Mál þetta dæma hæstaréttardómararnir Jón Steinar Gunnlaugsson og Hjördís Hákonardóttir og Símon Sigvaldason héraðsdómari.

Aðaláfrýjandi skaut málinu til Hæstaréttar 26. febrúar 2008. Hann krefst aðallega sýknu af kröfu gagnáfrýjanda og málskostnaðar í héraði og fyrir Hæstarétti. Til vara krefst hann lækkunar á kröfu gagnáfrýjanda og að málskostnaður verði í því tilviki felldur niður. 

Gagnáfrýjandi áfrýjaði fyrir sitt leyti 2. maí 2008. Hún krefst þess að aðaláfrýjandi verði dæmdur til að greiða sér 5.579.823 krónur með 4,5% ársvöxtum af 905.475 krónum frá 9. júní til 9. október 2004, en af 5.579.823 krónum frá þeim degi til 8. júní 2007, en með dráttarvöxtum samkvæmt 1. mgr. 6. gr. laga nr. 38/2001 um vexti og verðtryggingu af sömu fjárhæð frá þeim degi til greiðsludags allt að frádregnum greiðslum 768.089 krónum 23. febrúar 2006 og 737.167 krónum 25. apríl 2006. Þá krefst gagnáfrýjandi staðfestingar á niðurstöðu héraðsdóms um gjafsóknarkostnað og málskostnað. Loks krefst hún málskostnaðar fyrir Hæstarétti eins og málið væri ekki gjafsóknarmál, en gagnáfrýjanda var hinn 26. maí 2008 veitt gjafsókn vegna meðferðar málsins fyrir Hæstarétti.

Málsatvikum er lýst í hinum áfrýjaða dómi. Í málinu nýtur engra gagna um gerð trillunnar sem gagnáfrýjandi slasaðist við. Fyrir Hæstarétti hefur aðaláfrýjandi meðal annars stutt aðal- og varakröfur sínar með því að gagnáfrýjandi hefði getað beitt búnaði á trillunni til að láta vörubrettið falla niður á gólfið hefði trillan þá stöðvast þegar í stað. Hann byggði ekki á þessari málsástæðu í héraði. Ef hann hefði gert það og gagnáfrýjandi mótmælt henni hefði gefist tilefni til að afla gagna um gerð trillunnar að þessu leyti við meðferð málsins. Málsástæða sem að þessu lýtur telst nú of seint fram komin og kemur ekki til álita við úrlausn málsins fyrir Hæstarétti.

Aðila greinir ekki á um að þungi áburðarins á vörubrettinu, sem gagnáfrýjandi og samstarfsstúlka hennar fluttu með trillunni milli staða í verslun aðaláfrýjanda umrætt sinn, hafi verið um það bil 1,6 tonn. Gagnáfrýjandi og aðrir starfsmenn aðaláfrýjanda, sem komu fyrir dóm, báru að stúlkurnar hefðu áður flutt farm á milli staða í versluninni á trillunni. Stúlkurnar sögðu báðar fyrir dómi að ekki hefði fyrr  verið um svo þungan farm að ræða. Gagnáfrýjandi hefur staðhæft að einhver hafi falið þeim að fara með farminn á trillunni umrætt sinn. Aðaláfrýjandi mótmælir þessu sem ósönnuðu. Hann hefur allt að einu byggt á því að algengt hafi verið að gagnáfrýjandi og starfsfélagi hennar hafi flutt vörur innan verslunarinnar á umræddri trillu. Hann hefur ekki byggt á því að ætluð sök gagnáfrýjanda felist í því að hafa notað trilluna umrætt sinn, heldur eingöngu á því að stúlkurnar hafi farið of hratt yfir. Samkvæmt þessu verður lagt til grundvallar að notkun stúlknanna á trillunni til flutnings á áburðarfarminum hafi verið í samræmi við tilætlun aðaláfrýjanda um það hvernig þær leystu starf sitt af hendi. Skiptir þá sönnun um bein fyrirmæli umrætt sinn ekki máli við úrlausn málsins. Við flutning á svo þungum farmi með hjólatrillu er augsýnilega hætta á að verulega líkamskrafta þurfi til að stöðva hana ef eitthvað óvænt hendir. Því verður fallist á með gagnáfrýjanda, sem var 17 ára gömul þegar slysið varð, að verkið hafi verið ofvaxið líkamlegu atgervi hennar og að það hafi verið andstætt a. og d. liðum 1. mgr. 62. gr. laga nr. 46/1980 um aðbúnað, hollustuhætti og öryggi á vinnustöðum að fela henni að vinna það. Hinn áfrýjaði dómur verður því staðfestur um að aðaláfrýjandi beri skaðabótaábyrgð á tjóni gagnáfrýjanda.

Bæði aðaláfrýjandi og vitnin Ingibjörg Anna Sigurðardóttir og Jón Örvar van der Linden notuðu í yfirheyrslum fyrir dómi orðið „gönguhraði“ um hraðann sem var á trillunni þegar slysið varð. Aðaláfrýjandi hefur ekki fært fram sönnur í málinu um að stúlkurnar hafi sýnt af sér gáleysi með því að fara of hratt yfir með trilluna. Eru því ekki efni til að lækka bætur til gagnáfrýjanda vegna eigin sakar.

Aðaláfrýjandi mótmælir þeim hætti í dómsorði héraðsdóms og dómkröfum gagnáfrýjanda fyrir Hæstarétti að draga greiðslur örorkubóta úr slysatryggingu launþega og frá Tryggingastofnun ríkisins frá dæmdum skaðabótum miðað við greiðsludaga þessara bóta 23. febrúar og 25. apríl 2006. Byggir hann mótmælin á því að um greiðslur á hluta höfuðstóls kröfunnar hafi verið að ræða og beri því að draga þær frá höfuðstólnum áður en hann tekur að bera vexti. Krafa gagnáfrýjanda á hendur aðaláfrýjanda er skaðabótakrafa sem byggist á því sjónarmiði að bæta beri fullt tjón gagnáfrýjanda. Ef fallist yrði á sjónarmið aðaláfrýjanda um þetta efni myndi það leiða til þess að gagnáfrýjandi nyti engra vaxta af þeim hluta kröfu sinnar sem samsvarar fjárhæð þessara greiðslna tímabilið frá tjónsdegi til nefndra greiðsludaga. Verður fallist á með gagnáfrýjanda að vextir samkvæmt kröfu hennar þetta tímabil teljist til fjárhagslegs tjóns hennar og að aðaláfrýjanda beri að bæta henni það.

Aðilar deila ekki fyrir Hæstarétti um að upphafsdagur dráttarvaxta skuli vera sá sem greinir í dómsorði hins áfrýjaða dóms. Vaxtakröfu sína frá slysdegi til upphafsdags dráttarvaxtanna byggir gagnáfrýjandi á 16. gr. skaðabótalaga nr. 50/1993. Aðaláfrýjandi fellst á réttmæti þessa háttar við vaxtakröfuna. Verður fallist á hann.

Ákvæði hins áfrýjaða dóms um málskostnað og gjafsóknarkostnað verða staðfest.

Gjafsóknarkostnaður gagnáfrýjanda fyrir Hæstarétti ákveðst eins og í dómsorði greinir.

Aðaláfrýjandi verður með vísan til 1. mgr. 130. gr., sbr. 166. gr. laga nr. 91/1991 um meðferð einkamála dæmdur til að greiða málskostnað fyrir Hæstarétti í ríkissjóð svo sem kveðið verður á um í dómsorði.

Dómsorð:

Aðaláfrýjandi, Byko hf., greiði gagnáfrýjanda, Hönnu Bryndísi Heimisdóttur, 5.579.823 krónur með 4,5% ársvöxtum af 905.475 krónum frá 9. júní 2004 til 9. október 2004, en af 5.579.823 krónum frá þeim degi til 8. júní 2007, en með dráttarvöxtum samkvæmt 1. mgr. 6. gr. laga nr. 38/2001 um vexti og verðtryggingu af sömu fjárhæð frá þeim degi til greiðsludags allt að frádregnum greiðslum á 768.089 krónum 23. febrúar 2006 og 737.167 krónum 25. apríl 2006.

Ákvæði hins áfrýjaða dóms um gjafsóknarkostnað og málskostnað eru óröskuð.

Gjafsóknarkostnaður gagnáfrýjanda greiðist úr ríkissjóði, þar með talin þóknun lögmanns hennar, Antons Björns Markússonar hæstaréttarlögmanns, 600.000 krónur.

Aðaláfrýjandi greiði 600.000 krónur í málskostnað fyrir Hæstarétti sem renni í ríkissjóð.

Dómur Héraðsdóms Reykjaness 27. nóvember 2007.

I.

Mál þetta, sem dómtekið var að lokinni aðalmeðferð 30. október sl., var höfðað fyrir dómþinginu af Hönnu Bryndísi Heimisdóttur, Hólmatúni 3, Álftanesi, gegn Byko hf., Skemmuvegi 2a, Kópavogi, og Sjóvá-Almennum tryggingum hf., Kringlunni 5, Reykjavík, til réttargæslu, með stefnu áritaðri um birtingu í maí sl.

Dómkröfur stefnanda eru þær að stefndi Byko hf. verði dæmdur til að greiða stefnanda 5.703.723 krónur ásamt vöxtum af 1.029.375 krónum frá 9. júní 2004 til 9. október 2004 og af 5.703.723 krónum frá þeim degi til 1. febrúar 2006 en með dráttarvöxtum samkvæmt 1. mgr. 6. gr., sbr. 9. gr. laga nr. 38/2001 um vexti og verðtryggingu frá þeim degi til greiðsludags. Þá krefst stefnandi málskostnaðar samkvæmt framlögðum málskostnaðarreikningi eða að mati réttarins eins og mál þetta væri eigi gjafsóknarmál. Þess er jafnframt krafist að tekið verði tillit til skyldu stefnanda til að greiða virðisaukaskatt af málflutningsþóknun þar sem stefnandi er ekki virðisaukaskattskyld. Ekki eru gerðar sérstakar kröfur á hendur réttargæslustefnda.

Við aðalmeðferð málsins gerði stefnandi þær breytingar á kröfum sínum að frá framangreindum dómkröfum dregst innborgun Sjóvár-Almennra trygginga hf. að fjárhæð 768.089 krónur þann 23. febrúar 2006 og greiddar bætur Tryggingastofnunar ríkisins að fjárhæð 737.167 krónur þann 25. apríl 2006.

Með bréfi dómsmálaráðherra dagsettu 22. júní 2006 var stefnanda veitt gjafsóknarleyfi vegna reksturs málsins fyrir héraðsdómi.

Stefndi Byko hf. gerir þær dómkröfur aðallega hann verði sýknaður af öllum kröfum stefnanda og að stefnandi verði dæmd til að greiða málskostnað. Til vara er þess krafist að kröfur stefnanda verði lækkaðar verulega og að málskostnaður verði felldur niður.

Réttargæslustefndi gerir engar kröfur í málinu.

II.

Stefnandi lýsir málavöxtum þannig að þann 9. júní 2004 hafi hún orðið fyrir slysi við vinnu sína hjá Byko í Breiddinni í Kópavogi. Slysið hafi orðið með þeim hætti að stefnandi flutti á hjólatrillu vörubretti með áburði, um það bil 1,6 tonn að þyngd, inn á lager ásamt annarri ungri stúlku, Ingibjörgu Önnu Sigurðardóttur. Þegar viðskiptavinur hafi orðið á vegi þeirra, hafi stefnandi beygt trillunni til hægri til að rekast ekki utan í manninn. Stúlkurnar hafi hins vegar ekki náð að stöðva brettið sem hafi við það að stefnandi beygði, skollið utan í vegg á milli múrdeildar og kaffihorns verslunarinnar og stefnandi þá klemmst föst þar sem brettið þrýsti henni upp að veggnum. Stefnandi kveðst við slysið hafa orðið fyrir meiðslum á baki, hægri hendi og vinstri fæti. Samkvæmt framlögðu læknisvottorði Einars Hjaltasonar læknis á slysa- og bráðadeild Landspítala kom stefnandi á slysadeild kl. 18:09 þann 9. júní 2004 en tímasetning slyss er skráð kl. 17:50 sama dag.

Stefnandi óskaði eftir afstöðu réttargæslustefnda til bótaskyldu stefnda og svaraði réttargæslustefndi fyrirspurn lögmanns stefnanda með tölvupósti 3. nóvember 2004 á þann veg að hann teldi stefnda enga bótaábyrgð bera á slysinu heldur yrði það rakið til óhapps og aðgæsluleysis stefnanda.

Afleiðingar slyssins hafa verið metnar af Sigurjóni Sigurðssyni bæklunarlækni í matsgerð dagsettri 30. janúar 2006. Helstu niðurstöður hans eru að varanlegur miski stefnanda sé 15% og varanleg örorka 15%. Þá var það niðurstaða bæklunarlæknisins að stefnandi hafi ekki getað vænst frekari bata eftir 9. október 2004. Þann 1. febrúar 2006 var matsgerð ásamt kröfu send til réttargæslustefnda og þann 23. sama mánaðar gerði réttargæslustefndi upp umrætt slys úr slysatryggingu launþega, stefnanda, með greiðslu 768.089 króna vegna varanlegrar læknisfræðilegrar örorku.

Stefndu kveða málsatvik vera að mestu leyti í samræmi við framangreinda lýsingu stefnanda að öðru leyti en því að stefnandi hafi tekið að sér að eigin frumkvæði að flytja vörubrettið en ekki fengið um það bein fyrirmæli frá yfirmönnum sínum. Stefnandi hafi flutt vörubrettið á hjólatrillu ásamt samstarfskonu sinni með þeim hætti að stefnandi hafi gengið á undan og dregið trilluna en Ingibjörg Anna hafi ýtt henni á undan sér. Þegar þær hafi komið fyrir horn hafi stefnandi séð viðskiptavin koma á móti þeim en þá hafi stúlkurnar verið á of miklum hraða til að stöðva trilluna. Stefnandi hafi því ekki náð að bregðast við með réttum hætti með því að beygja frá og stöðva trilluna. Hún hafi farið allt of hratt miðað við þann þunga sem var á trillunni og hafi Jón Örvar van der Linden, þáverandi verslunarstjóri stefnda, kallað á eftir stúlkunum og skipað þeim að hægja ferðina.

Stefndi tilkynnti slysið til Vinnueftirlits ríkisins 11. september 2004 en starfsmenn Vinnueftirlitsins rannsökuðu það ekki sérstaklega.

III.

Af hálfu stefnanda er í fyrsta lagi á því byggt að stefndi Byko hf. beri fulla ábyrgð á slysinu. Samkvæmt almennum reglum skaðabótaréttar og skaðabótalögum nr. 50/1993 eigi stefnandi rétt á fullum bótum úr hendi stefnda vegna líkamstjóns sem hún varð fyrir. Um líkamstjón vísar stefnandi til matsgerðar Sigurjóns Sigurðssonar læknis.

Í öðru lagi byggir stefnandi á því að vinnuaðstæður hafi ekki verið fullnægjandi. Stefnandi hafi verið látin vita að fara þyrfti með vörubrettið úr deildinni en það hefði áður verið fært um staðinn með hjólatrillu. Stefnandi hafi ásamt annarri stúlku framkvæmt verkið á þann hátt að önnur ýtti og hin hélt í handfang trillunnar. Þegar stefnandi hafi beðið hina stúlkuna um að hætta að ýta, hafi þær ekki ráðið við þyngd brettisins og slysið orðið. Ljóst sé að umrædd vinnubrögð séu ekki eðlileg þegar flytja þurfi þungan hlut á milli staða í verslun. Stefndi hafi brotið skyldur sínar samkvæmt lögum og reglum um öryggi á vinnustöðum með því að haga vinnuaðstæðum og verklagi með þessum hætti. Stefnandi, sem var ófaglærður starfsmaður, hafi ekkert haft um það að segja hvernig aðstæður á vinnustaðnum voru og hvaða verk henni voru falin. Stefndi hafi haft yfirumsjón með vinnustaðnum og hann því borið fulla ábyrgð á aðstæðum og verkstjórn gagnvart starfsmönnum sínum. Ljóst sé að þessum þáttum hafi verið verulega ábótavant.

Stefnandi byggir í þriðja lagi á því að slys stefnanda megi rekja til saknæmrar háttsemi starfsmanns eða starfsmanna stefnda og stefndi beri því bótaábyrgð á tjóni stefnanda á grundvelli reglunnar um vinnuveitandaábyrgð.

Í fjórða lagi hafi leiðbeiningar- og aðgæsluskyldu stefnda verið verulega ábótavant. Hafi stefnandi einungis verið 17 ára þegar slysið varð og beri stefndi ábyrgð á því að hún og fleiri unglingar voru látnir vinna verk sem var ofvaxið líkamlegu og andlegu atgervi þeirra. Fyrir hendi hafi verið slysahætta sem gera hefði mátt ráð fyrir að unglingar gætu átt í erfiðleikum með að átta sig á eða forðast vegna andvaraleysis eða skorts á reynslu eða þjálfun. Stefndi hafi brotið gegn ákvæðum a- og d-liða 62. gr. laga nr. 46/1980 um aðbúnað, hollustuhætti og öryggi á vinnustöðum og reglum tengdum þeim. Stefndi hafi ekki gætt þess með fullnægjandi hætti að unglingum væru ekki falin slík hættuleg verk. Slysið verði rakið til þess að stefnanda var falið verk sem var ekki við hennar hæfi og það að henni var falið verkið, megi rekja til fyrrgreinds skorts á leiðbeiningum og aðgæslu af hálfu stefnda. Þá hafi eftirliti með störfum stefnanda verið ábótavant.

Í fimmta lagi mótmælir stefnandi því að um óhappatilviljun hafi verið að ræða. Ástæða slyssins sé sú að stefnanda hafi verið falið verk sem henni var ofviða og hefði réttilega átt að fela það eldri og reynslumeiri starfsmönnum. Í lögum nr. 46/1980 sé skýrt kveðið á um að óheimilt sé að ráða ungmenni til vinnu sem unnin sé við slíkar aðstæður. Verði það að teljast saknæm háttsemi stefnda að hafa engu að síður ráðið ungmenni til þessara starfa og beri stefndi alfarið ábyrgð á því. Af þessu leiði að stefndi beri fulla ábyrgð á tjóni því sem stefnandi varð fyrir umrætt sinn og vísar stefnandi því alfarið á bug að hún hafi ekki sýnt nægilega aðgæslu eða að slysið megi rekja til eigin sakar hennar að einhverju leyti.

Loks vísar stefnandi til þess að hvorki lögregla né Vinnueftirlit ríkisins hafi verið kölluð til þegar slysið varð eins og skylt sé lögum samkvæmt og beri því stefndi hallann af sönnunarskorti um aðstæður og tildrög slyssins.

Stefnandi miðar dómkröfur sínar við að henni beri fullar skaðabætur úr hendi stefnda og að skaðabæturnar eigi að taka mið af framlagðri matsgerð þar sem fram komi að varanleg örorka hennar sé 15% og varanlegur miski 15%. Dómkröfurnar sundurliðast þannig:

Þjáningabætur:

122 (dagar án rúmlegu) x 1050 krónur

kr.           128.100

Varanlegur miski (15%): 

6.008.500 x 15%

kr.            901.275

Varanleg örorka (15%) 1.701.000 x 18.32 x 15%=8.164.962

kr.     4.674.348

                                                                                   Samtals              

kr.     5.703.723

   Frá dragist innborgun réttargæslustefnda þann 23. febrúar 2006 að fjárhæð 768.089 krónur auk þess sem bætur frá Tryggingastofnun ríkisins þann 25. apríl 2006 að fjárhæð 737.167 krónur dragist einnig frá kröfufjárhæðinni.

Stefnandi kveður bætur fyrir varanlega örorku vera reiknaðar út á grundvelli lágmarkslauna samkvæmt skaðabótalögum. Þjáningabætur og bætur vegna varanlegs miska séu uppreiknaðar fram til 1. febrúar 2006 þegar örorkumat Sigurjóns Sigurðssonar læknis var sent til réttargæslustefnda og krafist var bóta úr slysatryggingu launþega vegna slyssins en skaðabótaskyldu hafi verið hafnað fyrir þann tíma.

Krafist sé greiðslu vaxta vegna miska og þjáninga frá tjónsdegi þann 9. júní 2004 til 1. febrúar 2006 og vegna varanlegrar örorku frá stöðugleikapunkti þann 9. október 2004 til 1. febrúar 2006 en á þeim tíma hafi matsgerð Sigurjóns Sigurðssonar læknis verið send til réttargæslustefnda. Dráttarvaxta sé krafist samkvæmt 1. mgr. 6. gr., sbr. 9. gr., laga nr. 38/2001 um vexti og verðtryggingu frá þeim degi til greiðsludags.

Um lagarök vísar stefnandi til ákvæða skaðabótalaga nr. 50/1993 og almennra reglna skaðabótaréttar, þ.á m. reglunnar um vinnuveitandaábyrgð. Þá vísar stefnandi til laga nr. 46/1980 um aðbúnað, hollustuhætti og öryggi á vinnustöðum og reglna settum með stoð í lögunum. Um aðild stefnda Byko hf. er vísað til III. kafla laga nr. 91/1991 um meðferð einkamála en aðild réttargæslustefnda er byggð á 21. gr. sömu laga. Um varnarþing vísar stefnandi til V. kafla einkamálalaga og um málskostnað til ákvæða 129. og 130. gr. laganna. Kröfu um virðisaukaskatt reisir stefnandi á ákvæðum laga nr. 50/1988, kröfu um vexti á 16. gr. skaðabótalaga og kröfu um dráttarvexti á vaxtalögum. 

IV.

Stefndi Byko hf. byggir aðalkröfu sína um sýknu annars vegar á því að ósannað sé að tjónið megi rekja til saknæmrar háttsemi stefnda eða starfsmanna hans eða annarra atvika sem stefndi beri ábyrgð á en hins vegar á því að stefnandi verði sjálf að bera tjón sitt að fullu vegna eigin sakar. Byggir stefndi á því að orsök tjóns stefnanda hafi verið óhappatilviljun og/eða óaðgæsla hennar sjálfrar.

Stefndi byggir á því að ósannað sé að tjón stefnanda megi rekja til atvika sem stefndi beri skaðabótaábyrgð á að lögum. Samkvæmt meginreglu skaðabótaréttar beri stefnandi sönnunarbyrðina fyrir orsök tjóns síns. Mótmælir stefndi því að skilyrði séu til að víkja frá þeirri meginreglu og leggja sönnunarbyrðina á stefnda. Stefndi hafi tilkynnt slysið til Vinnueftirlits ríkisins 11. september 2004 en það hafi ekki komið á vettvang til að rannsaka slysið frekar. Geti stefndi enga ábyrgð borið á starfsháttum Vinnueftirlitsins og geti því ekki borið hallann af ætluðum sönnunarskorti um tildrög slyssins. Þá mótmælir stefndi því að hann beri hallann af því að hafa ekki tilkynnt um slysið fyrr en raun varð. Fyrir liggi að stefnanda var ekið á bráðamóttöku Landspítala strax eftir slysið en hún hafi mætt aftur til vinnu mánudaginn 14. júní 2004 og því aðeins verið frá vinnu í tvo daga. Hafi ekkert gefið stefnda ástæðu til að tilkynna fyrr um slysið þar sem ekkert benti til þess að stefnandi hefði orðið fyrir langvinnu eða varanlegu heilsutjóni, sbr. 1. mgr. 79. gr. laga nr. 46/1980. Þá hafi aðstæður á vinnustaðnum og tildrög slyssins verið að fullu upplýst og hefði það því engu breytt þótt tilkynning hefði borist Vinnueftirlitinu fyrr. Þar fyrir utan geti það ekki haft áhrif á sönnunarfærslu í málinu þótt tilkynning hafi ekki borist fyrr en 11. september 2004 þar sem Vinnueftirlitið mæti almennt ekki á vinnustaði til að rannsaka tildrög slysa ef nokkrir dagar líða frá slysi og þar til tilkynning um það berst.

Stefndi mótmælir því sem röngu og ósönnuðu að vinnuaðstæður, verkstjórn og leiðbeiningar hafi verið ófullnægjandi. Ekkert sé óeðlilegt við það að vörubretti séu flutt til innan verslunar og lagers með hjólatrillum og hafi það viðgengist oft áður án vandkvæða og slysa. Um sé að ræða tiltölulega einfalt starf sem krefjist lítillar þekkingar eða reynslu. Þá liggi fyrir að stefnandi hafi áður notað hjólatrilluna m.a. til þess að flytja vörubretti með áburði eins og komi fram í lögregluskýrslu sem tekin var af stefnanda. Stefnandi hafi því haft reynslu af þvílíkum flutningum á hjólatrillu og hefði hún aldrei gert athugasemdir við þessa tilhögun eða neitað slíkri vinnu sem henni hefði þó verið í lófa lagið að gera ef hún taldi vinnuaðstæður óforsvaranlegar. Engir aðrir starfsmenn stefnda hafi gert athugasemdir við þessa vinnuaðferð og hafi hún því síður en svo verið hættuleg eða til þess fallin að valda hættu.

Stefndi mótmælir því sem röngu og ósönnuðu að stefnanda hafi verið falið af yfirmanni sínum eða verkstjóra að flytja vörubrettið umrætt sinn. Í lögregluskýrslu sem tekin var af stefnanda komi fram að hún hafi ekki fengið bein fyrirmæli um að færa brettið heldur hafi hún og Ingibjörg Anna ákveðið að færa það að eigin frumkvæði. Stefnanda hafi því ekki verið sérstaklega falið þetta verkefni. Þá mótmælir stefndi því að leiðbeiningar- og aðgæsluskyldu stefnda hafi verið ábótavant. Umrætt verk hafi ekki falið í sér flókna framkvæmd sem krafist hafi sérþekkingar eða sérstakrar reynslu. Þá mótmælir stefndi því sérstaklega að verkið hafi verið ofvaxið líkamlegu og andlegu atgervi stefnanda, sbr. a-lið 1. mgr. 62. gr. laga nr. 46/1980, eða að stefnandi hafi verið of ung til að sinna starfinu, sbr. d-lið 1. mgr. sömu lagagreinar. Ákvæði 63. gr. laganna eigi ekki við í þessu tilviki. Í ljósi þess að um mjög einfalt verk var að ræða og að stefnandi hafði áður leyst það af hendi, sé útilokað að fallast á að stefnanda hafi stafað sérstök hætta af starfinu. Þá beri einnig að líta til þess að stefnandi hafði starfað hjá stefnda í rúm tvö ár þegar slysið varð og því hafi hún haft töluverða starfsreynslu þrátt fyrir ungan aldur.

Stefndi tekur fram að Jón Örvar van der Linden, þáverandi starfsmaður stefnda, hafi fyrirskipað stefnanda og Ingibjörgu Önnu að draga úr hraða þegar þær voru að flytja vörubrettið umrætt sinn en þær hafi ekki sinnt því. Þá hafi Magnús Andrésson, þáverandi aðstoðarverslunarstjóri, einnig ítrekað áminnt ungt starfsfólk stefnda, þ.á m. stefnanda, um að fara varlega með hjólatrilluna og nota hana alls ekki sem leiktæki. Reynt sé eftir fremsta megni að tryggja öryggi starfsmanna stefnda og takmarka slysahættu á vinnustaðnum og alltaf hafi verið brugðist við athugasemdum starfsmanna.

Af framansögðu telur stefndi ljóst að ekki liggi annað fyrir en að aðbúnaður á vinnustaðnum hafi verið fullnægjandi og að ekki hefði verið fyrir hendi sérstök slysahætta ef stefnandi hefði gætt að sér eins og hún hafði verið hvött til. Slys stefnanda verði því alfarið rakið til óhappatilviljunar og/eða atvika sem stefndi geti ekki borið ábyrgð á.

Stefndi byggir jafnframt á því að tjón stefnanda megi að öllu leyti rekja til aðgæsluleysis hennar sjálfrar. Hún hafi verið að flytja töluverðan þunga á hjólatrillu og hafi af þeim sökum borið að fara hægt og varlega enda ljóst að erfitt geti reynst að stöðva hjólatrillu þegar hún hefur náð miklum hraða ef þungi hennar er mikill og þetta hafi stefnanda mátt vera ljóst. Hún hafi engu að síður farið alltof geyst með trilluna þannig að hún hefði illa geta brugðist við þegar viskiptavinurinn birtist. Þegar litið sé til þess og framburðar Ingibjargar Önnu hjá lögreglu um að hún væri ekki viss um að karlmaður hefði getað komið í veg fyrir slys sem þetta, sé ljóst að hraðinn hafi verið umtalsverður og alltof mikill miðað við þungann á vörubrettinu.

Stefndi bendir á að stefnanda hefði, í ljósi starfsreynslu sinnar og þekkingar, auk ítrekaðra tilmæla yfirmanna hennar um aðgæslu, mátt vera fullkunnugt um aðstæður og mátt vera ljóst að hún þyrfti að sýna aðgát við vinnuna. Af öllu framangreindu sé því ljóst að slysið og það tjón, sem stefnandi varð fyrir í kjölfarið, verði alfarið rakið til eigin sakar stefnanda.

Varakröfu sína um verulega lækkun rökstyður stefndi með þrennum hætti. Í fyrsta lagi byggir hann á því að bætur beri að lækka verulega vegna eigin sakar stefnanda eins og áður er rakið. Í öðru lagi mótmælir stefndi kröfu stefnanda um þjáningabætur sem of hárri enda sýni gögn málsins að stefnandi var óvinnufær í tvo daga eftir slysið, þ.e. 10. og 11. júní 2004, en hún hafi mætt á ný til vinnu 14. sama mánaðar. Byggir stefndi á því að stefnandi geti aðeins talist veik í skilningi 3. gr. skaðabótalaga á því tímabili. Að þessu virtu sé því mótmælt að stefnandi geti átt rétt á þjáningabótum fyrir lengra tímabil en tvo daga og geti bæturnar því aðeins numið 2.100 krónum.

Í þriðja lagi sé dráttarvaxtakröfu stefnanda mótmælt frá fyrra tímabili en 8. júní 2007 þegar mánuður var liðinn frá því að kröfubréf stefnanda var sent stefnda, sbr. ákvæði 9. gr. vaxtalaga.

Um lagarök vísar stefndi einkum til reglna skaðabótaréttar um sönnun tjóns og sönnunarbyrði, gáleysi og eigin sök tjónþola, auk skaðabótalaga nr. 50/1993, sbr. lög nr. 37/1999, og vaxtalaga nr. 38/2001.  

V.

Ekki er í máli þessu deilt um afleiðingar slyss þess sem stefnandi varð fyrir 9. júní 2004. Hins vegar greinir aðila á um það hver eigi sök á slysinu og þá hefur stefndi einnig mótmælt viðmiðun stefnanda að því er varðar tímalengd á óvinnufærni hennar í kjölfar slyssins sem og upphafsdegi dráttarvaxta.

Óumdeilt er að stefnandi, sem þá var 17 ára, varð fyrir tjóni þegar hún og Ingibjörg Anna, samstarfskona hennar, fluttu á hjólatrillu vörubretti með 1,6 tonni af áburði og stefnandi klemmdist við að breyta akstursstefnu hjólatrillunnar til að forða því að trillan lenti á viðskiptavini. 

Hjá stefnanda hefur komið fram að hún hafi unnið hjá stefnda með skóla og í sumarvinnu um tveggja ára skeið. Bæði stefnandi og Ingibjörg Anna kváðust fyrir dóminum margoft hafa flutt vörur á trillum en fullyrtu jafnframt að þær hefðu aldrei áður flutt svo þunga byrði sem raunin var umrætt sinn.

Við skýrslutöku hjá lögreglu 5. apríl 2005 sagði stefnandi að hún hefði ekki fengið bein fyrirmæli um að færa brettið en að það hafi verið sagt að brettið þyrfti að fara úr árstíðadeildinni þar sem hún vann. Vitnið Ingibjörg Anna sagði við skýrslutöku hjá lögreglu 8. apríl 2005 að hún myndi hvorki hvort einhver hefði sagt þeim stefnanda að færa brettið né hvort það þyrfti að færa það. Bæði stefnandi og Ingibjörg Anna báru fyrir dóminum að þær hefðu fengið fyrirmæli um að flytja brettið án þess að þær gætu sagt til um það hver gaf þau. Lögregluskýrslur voru ekki teknar af stúlkunum fyrr en rúmum þremur ársfjórðungum eftir að slysið varð en fram er komið að stefndi tilkynnti Vinnueftirliti ríkisins ekki um atvikið fyrr en 11. september 2004. Telja verður að stefnda hafi borið að tilkynna slysið án ástæðulausrar tafar samkvæmt ákvæðum 79. gr. laga nr. 46/1980 um aðbúnað, hollustuhætti og öryggi á vinnustöðum. Þótt ekki liggi fyrir hver gaf stúlkunum tveimur fyrirmæli um flutninginn umrætt sinn, verður að miða við lýsingu þeirra fyrir dóminum um að þær hafi fengið fyrirmæli, bein eða óbein, um að færa hið þunga áburðarbretti.

Stúlkunum bar saman um að þær hefðu ekki fengið leiðbeiningar um það hvernig þær ættu að bera sig að við flutninginn og fær sá framburður stoð í vætti Jóns Örvars van der Linden, þáverandi aðstoðarverslunarstjóra, um að engum væri kennt sérstaklega á svokallaða vinnutjakka eða trillur þar sem talið væri að slík tæki væru einföld í notkun og að ungum starfsmönnum væri ekki heldur leiðbeint um að fara ekki hratt. Jafnframt kom fram hjá vitninu Magnúsi Andréssyni, fyrrverandi verslunarstjóra Byko hf., að starfsmenn fengju hvorki þjálfun né sérstaka kennslu þegar þeir hæfu störf.

Með framangreindum framburði stefnanda og vætti vitna er í ljós leitt að stúlkurnar fengu ekki leiðbeiningar um flutninginn umrætt sinn. Fram kom hjá stefnanda að hún hefði unnið hjá stefnda í sumarleyfum og með skóla í tvö ár þegar slysið varð og kvaðst hún margoft hafa flutt vörubretti á trillum en hún hefði þó aldrei flutt svo mikinn þunga. Vitnið Ingibjörg Anna bar á sama veg um að hún hefði aldrei áður flutt svo þunga byrði með trillu. Hún kvað hafa verið mjög erfitt að koma trillunni af stað vegna þungans. Óumdeilt er að áburðurinn var 1,6 tonn að þyngd.

Það starf, sem stefnandi vann umrætt sinn, er í senn einfalt en gat verið hættulegt ef ekki var gætt fyllstu varúðar. Þótt stefnandi hefði margoft notað hjólatrillu eins og þá, sem notuð var umrætt sinn, er það mat dómsins að með hliðsjón af ungum aldri stefnanda og óvenjulega þungum varningi sem flytja átti, að stefnda hafi sem vinnuveitanda stefnanda borið að gæta þess að þær stefnandi og Ingibjörg Anna fengju leiðbeiningar við umræddan flutning.

Eins og áður er fram komið er óumdeilt að stefnandi varð fyrir tjóni þegar hún gat ekki stöðvað hjólatrilluna með þeim afleiðingum að stefnandi klemmdist milli trillunnar og veggjar. Í ljósi framanritaðs verður því að fallast á það með stefnanda að stefndi beri skaðabótaábyrgð á tjóni því sem stefnandi varð fyrir vegna slyssins.

Samkvæmt vætti Jóns Örvars og Magnúsar, fyrrverandi starfsmanna stefnda, var hjólatrillan umrætt sinn á of miklum hraða miðað við þunga áburðarins sem á henni var. Einnig kom fram hjá Jóni Örvari að hann hefði kallað til þeirra stefnanda og Ingibjargar Önnu og sagt þeim að hægja ferðina. Í ljósi þessa verður fallist á það með stefnda að slysið megi að einhverju leyti rekja til aðgæsluleysis stefnanda sem hafi mátt gera sér nokkra grein fyrir því að við flutning svo þungrar vöru sem hér um ræðir, bæri að sýna sérstaka aðgæslu. Verður stefnanda því gert að bera tjón sitt vegna eigin sakar að 1/5 hluta.

Ekki er ágreiningur með aðilum um mat á varanlegum miska að fjárhæð 901.275 krónur og varanlegri örorku að fjárhæð 4.674.348 krónur og verður því við þær fjárhæðir miðað. Hins vegar hefur stefndi mótmælt kröfu stefnanda um þjáningabætur sem of hárri með vísan til þess að hún eigi einungis rétt á þjáningabótum fyrir þá tvo daga sem hún var frá vinnu. Fallist er á það með stefnda að stefnandi á einungis rétt til þjáningabóta fyrir það tímabil sem hún telst óvinnufær í skilningi 3. gr. skaðabótalaga nr. 50/1993. Gögn málsins eru ekki á einn veg um óvinnufærni stefnanda í kjölfar slyssins. Í framlagðri matsgerð segir að við mat á tímabili þjáninga sé miðað við að ekki hafi orðið breytingar á líðan stefnanda um það bil 4 mánuðum eftir slysið og sé stöðugleikapunktur því miðaður við það tímamark. Niðurstaða læknisvottorðs frá því í desember 2004 er sú að stefnandi hafi verið óvinnufær í 10 daga eftir slysið. Við aðalmeðferð málsins kvaðst stefnandi hins vegar hafa mætt til vinnu aftur 2 dögum eftir slysið og fram kemur í gögnum málsins að veikindi voru skráð á hana í skráningarkerfi stefnda 10. og 11. júní 2004 og kemur þar jafnframt fram að stefnandi hafi komið til starfa mánudaginn 14. júní sama ár. Þá er í tilkynningu stefnda til Vinnueftirlits ríkisins dagsettri 11. september sama ár tiltekið að fjarverudagar stefnanda hafi verið fjórir og loks segir í tilkynningu stefnda til Sjóvár-Almennra trygginga hf. dagsettri 1. október sama ár að fjarvera vegna slyssins hafi verið 10. til 14. júní. Að þessu virtu verður talið að miða beri við síðastnefnd gögn, sem stafa frá stefnda sjálfum, og á stefnandi því rétt á þjáningabótum miðað við fjóra daga að fjárhæð 4.200 krónur.

Samkvæmt framansögðu telst tjón stefnanda nema 5.579.823 krónum. Af því ber stefnda að greiða stefnanda 4/5 hluta eða 4.463.858 krónur. Kröfu stefnanda um vexti er ekki mótmælt og verður hún því tekin til greina eins og nánar greinir í dómsorði. Með vísan til ákvæða 9. gr. vaxtalaga nr. 38/2001 verður krafa stefnanda um dráttarvexti tekin til greina frá 8. júní 2007 eins og nánar greinir í dómsorði. Frá dragast tvær innborganir, annars vegar innborgun Sjóvár-Almennra trygginga hf. að fjárhæð 768.089 krónur þann 23. febrúar 2006 og innborgun vegna bóta Tryggingastofnunar ríkisins að fjárhæð 737.167 krónur þann 25. apríl 2006.

Í dómi þessum er ekki tekin afstaða til þess hvernig standa eigi að endanlegu uppgjöri á kröfu stefnanda. Er þar um til þess að líta að fyrir því er langvarandi venja að í dómi um peningakröfu, sem greidd hefur verið að hluta, sé látið við það sitja að kveða á um skyldu skuldara til að greiða upphaflegan höfuðstól kröfunnar með nánar tilgreindum vöxtum, án þes að mælt sé berum orðum fyrir um af hvaða fjárhæð þeir skuli reiknast á hverjum tíma, en allt að frádreginni einni eða fleiri innborgunum, sem hafi verið inntar af hendi á tilteknum dögum. Er þá gengið út frá því að við endanlegt uppgjör kröfunnar verði að öðru jöfnu farin sú leið að reikna út stöðu kröfunnar eins og hún var hverju sinni þegar innborganir voru inntar af hendi og þeim ráðstafað til að greiða fyrst áfallinn kostnað og vexti, en að þeim liðum frágengnum gangi þær til lækkunar á höfuðstól kröfunnar, sem borið geti vexti upp frá því. Má um þetta vísa til dóms Hæstaréttar í máli nr. 230/2002.

Gjafsóknarkostnaður stefnanda, sem er þóknun lögmanns hennar, Óðins Elíssonar hdl., sem telst hæfilega ákveðin 800.000 krónur að meðtöldum virðisaukaskatti, og útlagður kostnaður 29.550 krónur, skal greiddur úr ríkissjóði.

Stefndi Byko hf. greiði 829.550 krónur í málskostnað sem rennur í ríkissjóð.

Arnfríður Einarsdóttir héraðsdómari kveður upp dóm þennan.

D ó m s o r ð :

Stefndi, Byko hf., greiði stefnanda, Hönnu Bryndísi Heimisdóttur, 4.463.858 krónur með vöxtum samkvæmt 8. gr. laga nr. 38/2001 af 724.380 krónum frá 9. júní 2004 til 9. október 2004 og af 4.463.858 krónum frá þeim degi til 8. júní 2007 en með dráttarvöxtum samkvæmt 1. mgr. 6. gr., sbr. 9. gr. laga nr. 38/2001 af sömu fjárhæð frá þeim degi til greiðsludags, allt að frádreginni innborgun 23. febrúar 2006 að fjárhæð 768.089 krónur og innborgun 25. apríl 2006 að fjárhæð 737.167 krónur. 

Gjafsóknarkostnaður stefnanda, sem er þóknun lögmanns hennar, Óðins Elíssonar hdl., 800.000 krónur að meðtöldum virðisaukaskatti, og útlagður kostnaður 29.550 krónur, greiðist úr ríkissjóði.

Stefndi Byko hf. greiði 829.550 krónur í málskostnað sem rennur í ríkissjóð.