Hæstiréttur íslands
Mál nr. 529/2005
Lykilorð
- Kærumál
- Gæsluvarðhald. A. liður 1. mgr. 103. gr. laga nr. 19/1991
|
|
Föstudaginn 16. desember 2005. |
|
Nr. 529/2005. |
Lögreglustjórinn í Reykjavík(Ingimundur Einarsson varalögreglustjóri) gegn X (Eyvindur Sólnes hdl. ) |
Kærumál. Gæsluvarðhald. A. liður 1. mgr. 103. gr. laga nr. 19/1991.
Úrskurður héraðsdóms um að X skyldi sæta gæsluvarðhaldi á grundvelli a. liðar 1. mgr. 103. gr. laga nr. 19/1991 um meðferð opinberra mála var staðfestur.
Dómur Hæstaréttar.
Mál þetta dæma hæstaréttardómararnir Árni Kolbeinsson, Ingibjörg Benediktsdóttir og Jón Steinar Gunnlaugsson.
Varnaraðili skaut málinu til Hæstaréttar með kæru 14. desember 2005, sem barst réttinum ásamt kærumálsgögnum 15. sama mánaðar. Kærður er úrskurður Héraðsdóms Reykjavíkur 14. desember 2005, þar sem varnaraðila var gert að sæta gæsluvarðhaldi allt til miðvikudagsins 21. desember 2005 kl. 16. Kæruheimild er í 1. mgr. 142. gr. laga nr. 19/1991 um meðferð opinberra mála. Varnaraðili krefst þess aðallega að hinn kærði úrskurður verði felldur úr gildi en til vara að honum verði gert að sæta farbanni í stað gæsluvarðhalds. Þá krefst hann kærumálskostnaðar.
Sóknaraðili krefst þess að úrskurður héraðsdóms verði staðfestur.
Varnaraðili hefur viðurkennt að hafa komið til landsins tiltekinn dag og hafa þá framvísað vegabréfi sem hann kvað vera með mynd af sér en á nafni annars manns, sem hann þekki ekki. Varnaraðili var handtekinn er hann hafði móttekið póstsendingu, sem meðal annars hafði að geyma breskt vegabréf með mynd, er hann kveður vera af sér. Gögn málsins benda til þess að síðarnefnt vegabréf sé einnig falsað. Varnaraðili hefur borið að hann heiti X en hvorugt fyrrgreindra vegabréfa er gefið út á það nafn. Með vísan til framangreinds verður að telja að kominn sé fram rökstuddur grunur um að varnaraðili hafi framið brot sem getur varðað fangelsisrefsingu samkvæmt 1. mgr. 155. gr. almennra hegningarlaga nr. 19/1940. Telja verður eins og frásögn varnaraðila er háttað og atvikum málsins að öðru leyti að einnig liggi fyrir rökstuddur grunur um að hann eigi sér vitorðsmenn og í ljósi þess megi ætla að hann geti torveldað rannsókn málsins gangi hann laus, til dæmis með því að reyna að hafa áhrif á hugsanleg vitni og samseka. Er því fallist á með sóknaraðila að skilyrði a. liðar 1. mgr. 103. gr. laga nr. 19/1991 séu uppfyllt til að varnaraðila verði gert að sæta gæsluvarðhaldi. Verður niðurstaða hins kærða úrskurðar því staðfest.
Kærumálskostnaður verður ekki dæmdur.
Dómsorð:
Hinn kærði úrskurður er staðfestur.
Úrskurður Héraðsdóms Reykjavíkur 14. desember 2005.
Lögreglustjórinn í Reykjavík hefur krafist þess að X, afganskur ríkisborgari fæddur [...] 1976, sæta gæsluvarðhaldi til miðvikudagsins 21. desember 2005 kl. 16:00.
Í greinargerð rannsóknara kemur fram að við tollskoðun hafi fundist falsað vegabréf sem hafði verið komið fyrir í útskorinni bók. Var sendingin stíluð á Shah Kamal og kom síðar í ljós að kærði átti von á sendingunni. Kærði X var handtekinn í gær kl 12.55. Kærði hafði í fórum sínum afganskt vegabréf þar sem kom fram annað nafn en kærði hefur gefið upp, en hann kveðst hafa komið hingað til lands 7. desember sl. Í greinargerð rannsóknara er haft eftir kærða að hann kveðjist hafa greitt fyrir þessa ferð og vegabréfin 18. þúsund dollara til einhverra ótilgreindra aðila. Rannsóknari vísar til þess að búið sé að taka skýrslu af kærða en ljóst sé að þörf sé á frekari skýrslutöku og frekari rannsókn til að athuga hver hinn kærði raunverulega er. Telja verði að gæsluvarðhald sé nauðsynlegt til að unnt verði að vinna að rannsókn málsins án þess að grunaði nái að tala við hugsanlega vitorðsmenn, spilla hugsanlegum sönnunargögnum eða fari úr landi en hann kvaðst vera á leiðinni til Kanada. Einnig þurfi að kanna gegnum alþjóðadeild Ríkislögreglustjóra við Interpool í Haag um hvort lögregla hafi áður átt afskipti af kærða. Rannsóknari vísar til þess að verið sé að rannsaka ætlað brot á h- lið 2. mgr. 57. gr. laga um útlendinga nr. 96/2002 og 1. mgr. 155. gr. hegningarlaga sem getur varðað fangelsisrefsingu ef sök sannast. um heimild til gæsluvarðhalds er vísað til a- og b- liða 1. mgr. 103. gr. laga um meðferð opinberra mála nr. 19/1991.
Af hálfu kærða er einkum vísað til þess að kærði hafi játað það sem máli skipti í málinu og séu því engir rannsóknarhagsmunir til staðar. Þá hafi kærði alls ekki í hyggju að fara úr landi í þeim tilgangi að koma sér undan málsókn. Langur tími hafi nú liðið frá því málið var tekið til rannsóknar.
Í máli þessu liggur fyrir rökstuddur grunur um að kærði hafi framið fleiri brot sem varðað getur fangelsisrefsingu, sbr. m.a. 1. mgr. 155. gr. hegningarlaga. Rannsókn málsins er skammt á veg komin og verður fallist á það með rannsóknara að rannsóknarhagsmunir geri það nauðsynlegt að kærði sæti gæsluvarðhaldi. Er því fullnægt skilyrði a. liðar 1. mgr. 103. gr. laga nr. 19/1991 til gæsluvarðhalds sem er markaður hæfilegur tími í kröfu rannsóknara eins og nánar greinir í úrskurðarorði.
Skúli Magnússon héraðsdómari kvað upp úrskurðinn.
Úrskurðarorð:
Kærði, X, skal sæta gæsluvarðhaldi til miðvikudagsins 21. desember 2005 kl. 16:00.