Hæstiréttur íslands
Mál nr. 382/2005
Lykilorð
- Ómerking
- Heimvísun
|
|
Fimmtudaginn 9. febrúar 2006. |
|
Nr. 382/2005. |
Samskip hf. (Hörður Felix Harðarson hrl.) gegn Atlantsskipum ehf. (Ásgeir Þór Árnason hrl.) |
Ómerking. Heimvísun.
A ehf. krafði S hf. um greiðslu efndabóta á grundvelli samnings um leigu á rými fyrir tiltekinn fjölda gámaeininga í skipum á vegum A ehf. S hf. krafðist sýknu en til vara lækkunar á kröfum A ehf. Byggðist varakrafan m.a. á því að í samningnum hefði verið kveðið á um að gámaeiningar, sem A ehf. gat ekki flutt vegna bilana eða fullfermis, ættu að koma til frádráttar á viðmiðunum um lágmarksfjölda umsaminna gámaeininga. Ekki var talið að fjallað hefði verið í héraðsdómi um þessa röksemd fyrir varakröfu S hf. Þá var á það fallist að ekki hefði verið tekin nægjanlega rökstudd afstaða til annarrar málsástæðu fyrir varakröfunni sem byggðist á því að S hf. yrði ekki krafið um hærri bætur en sem næmi sannanlegum missi hagnaðar A ehf. Vegna þessara annmarka var héraðsdómur ómerktur og málinu vísað heim í hérað til munnlegs flutnings og dómsálagningar að nýju.
Dómur Hæstaréttar.
Mál þetta dæma hæstaréttardómararnir Gunnlaugur Claessen, Guðrún Erlendsdóttir og Hrafn Bragason.
Áfrýjandi skaut máli þessu til Hæstaréttar 23. ágúst 2005 og krefst þess aðallega að hinn áfrýjaði dómur verði ómerktur og málinu vísað heim í hérað til málflutnings og dómsuppsögu að nýju en til vara að hann verði sýknaður af öllum kröfum stefnda. Í báðum tilvikum er krafist málskostnaðar í héraði og fyrir Hæstarétti. Til þrautavara krefst áfrýjandi lækkunar á kröfu stefnda og að málskostnaður á báðum dómstigum falli niður.
Stefndi krefst staðfestingar héraðsdóms og málskostnaðar fyrir Hæstarétti.
I.
Aðilar málsins gerðu með sér svokallaðan rýmisleigusamning 3. janúar 2001. Á sama tíma undirrituðu áfrýjandi og systurfélag stefnda, Trans Atlantic Lines L.L.C., sams konar samning. Óumdeilt er að viðskipti á grundvelli þessara samninga hófust strax í kjölfarið. Fólu samningarnir í sér að áfrýjandi leigði af stefnda og systurfélaginu rými í skipum þeirra síðarnefndu með skilmálum, sem nánar var um samið, gegn tilteknu endurgjaldi. Nýr samningur var gerður milli aðila 30. apríl 2003 um sama efni þar sem breyting var gerð á landfræðilegri afmörkun samningsins milli áfrýjanda og stefnda. Snýst deila aðila um hvort stefndi eigi rétt á efndabótum þar sem áfrýjandi hafi ekki flutt með skipum stefnda og systurfélagsins þann lágmarksfjölda af gámaeiningum, sem kveðið var á um í samningunum. Samkvæmt samkomulagi aðila 3. desember 2003 samþykkti áfrýjandi að stefndi skyldi fara með þann hluta hinna umdeildu krafna, sem byggðist á samningnum við systurfélag stefnda, og að mál vegna ágreinings út af báðum samningunum yrði rekið í einu máli. Málsatvik eru nánar rakin í hinum áfrýjaða dómi.
Áfrýjandi byggir aðalkröfu sína um ómerkingu hins áfrýjaða dóms á því að þar hafi ekki verið tekin afstaða til nokkurra málsástæðna áfrýjanda. Eigi það einkum við um málsástæður er lúta að varakröfu hans um lækkun á kröfu stefnda. Hafi varakrafan meðal annars byggst á því að gámaeiningar á vegum áfrýjanda, sem ekki var unnt að flytja með skipum stefnda vegna bilana eða fullfermis, hafi samkvæmt samningunum átt að koma til frádráttar á viðmiðunum um lágmarksfjölda umsaminna gámaeininga. Samkvæmt sameiginlegri málflutningsyfirlýsingu aðila 13. apríl 2005 sé um að ræða 154 gámaeiningar, sem áfrýjandi hafi þurft að flytja sjálfur með eigin skipum á milli Íslands og Bandaríkjanna, og 294 gámaeiningar, sem áfrýjandi flutti milli þessara landa með umskipun í Evrópu. Hafi þessi málsástæða komið skýrt fram í greinargerð áfrýjanda auk þess sem henni hafi verið gerð ítarleg skil við aðalmeðferð málsins í héraði. Í niðurstöðukafla héraðsdóms sé hins vegar í engu getið um þetta atriði, sem þó hafi verið tilefni til þar sem ekki hafi verið fallist á aðalkröfu áfrýjanda um sýknu auk þess sem umrædd málsástæða gat leitt til verulegrar lækkunar á kröfu stefnda. Eigi þessi annmarki á héraðsdómi einn og sér að til leiða til ómerkingar hans og heimvísunar málsins. Til stuðnings aðalkröfu sinni vísar áfrýjandi ennfremur til þess að í hinum áfrýjaða dómi hafi ekki verið tekin rökstudd afstaða til þeirrar málsástæðu að stefndi hafi ekki sýnt fram á umfang þess tjóns, sem hann kveðst hafa orðið fyrir vegna ætlaðra vanefnda áfrýjanda. Vísar hann þar til þess að áfrýjandi verði ekki krafinn um hærri bætur en sem nemi sannanlegum missi hagnaðar stefnda.
Stefndi hafnar því að ástæða sé til að ómerkja hinn áfrýjaða dóm og telur að þar sé með skýrum hætti tekin afstaða til þeirra málsástæðna áfrýjanda sem varakrafa hans studdist við. Er einkum vísað til þess að í dóminum komi fram að ósannað sé að þjónusta stefnda hafi verið með þeim hætti að áfrýjanda hafi verið ókleift að uppfylla samningsákvæði um flutningsmagn eða að hann hafi misst viðskiptavini vegna vanefnda stefnda.
II.
Með hinum áfrýjaða dómi var málsástæðum áfrýjanda um sýknu af kröfum stefnda hafnað. Bar því að taka varakröfu áfrýjanda til athugunar með hliðsjón af þeim málsástæðum, sem hann tefldi fram. Í dóminum var afstaða tekin til þeirra röksemda áfrýjanda fyrir varakröfunni að gámaeiningar, sem stefndi flutti fyrir hann til og frá Kanada, ættu að teljast til þess magns, sem stefndi álítur að áfrýjandi hafi skuldbundið sig til að flytja með skipum á vegum stefnda. Hins vegar verður að fallast á með áfrýjanda að í héraðsdómi sé ekki tekin afstaða þeirrar málsástæðu að tiltekinn fjöldi gámaeininga, sem áfrýjandi telur að stefndi hafi ekki getað flutt vegna bilana eða fullfermis, skyldi draga frá lágmarksfjölda umsaminna gámaeininga. Verður ekki talið að fjallað hafi verið um ofangreinda röksemd í umfjöllun héraðsdóms um skort á sönnun um annmarka á þjónustu stefnda. Þá verður að fallast á framangreindar röksemdir áfrýjanda um að ekki hafi verið tekin nægjanlega rökstudd afstaða í héraðsdómi til annarrar málsástæðu hans fyrir varakröfu sinni um lækkun á efndabótakröfu stefnda. Vegna þessara annmarka á hinum áfrýjaða dómi verður ekki hjá því komist að ómerkja hann og vísa málinu heim í hérað til munnlegs flutnings og dómsálagningar að nýju.
Rétt er að hvor aðila beri sinn kostnað af málinu fyrir Hæstarétti.
Dómsorð:
Héraðsdómur er ómerktur og málinu vísað heim í hérað til munnlegs málflutnings og dómsálagningar að nýju.
Málskostnaður fyrir Hæstarétti fellur niður.
Dómur Héraðsdóms Reykjavíkur 23. júní 2005.
I
Mál þetta, sem dómtekið var hinn 21. júní sl., var höfðað fyrir dómþinginu af Atlantsskip ehf., á hendur Samskipum hf., með stefnu þingfestri 4. maí 2004.
Endanlegar dómkröfur stefnanda voru þær aðallega, að stefndi yrði dæmdur til þess að greiða stefnanda 72.311.970 krónur, með dráttarvöxtum samkvæmt III. kafla, sbr. 1. mgr. 6. gr. laga um vexti og verðtryggingu nr. 38/2001, frá 14. apríl 2003 til greiðsludags, auk málskostnaðar eftir framlögðum málskostnaðarreikningi.
Til vara gerði stefnandi þær dómkröfur, að stefndi yrði dæmdur til þess að greiða stefnanda 53.447.978 krónur, með dráttarvöxtum samkvæmt III. kafla, sbr. 1. mgr. 6. gr. laga nr. 38/2001, frá 14. apríl 2003 til greiðsludags, auk málskostnaðar úr hendi stefnda.
Dómkröfur stefnda voru þær aðallega, að hann yrði sýknaður af öllum kröfum stefnanda og stefnandi yrði dæmdur til þess að greiða honum málskostnað, samkvæmt framlögðum málskostnaðarreikningi.
Til vara krafðist stefndi þess að fjárkrafa stefnanda yrði lækkuð verulega.
II
Málavextir eru þeir, að stefnandi, sem rekur sjóflutningafyrirtæki og stefndi, sem hefur með höndum sambærilegan rekstur, gerðu með sér svokallaðan rýmisleigusamning hinn 30. apríl 2001 vegna sjóflutninga milli Íslands og Bandaríkjanna. Á sama tíma gerðu stefndi og systurfélag stefnanda, Trans-Atlantic Lines LLC, sams konar samning og fer stefnandi jafnframt með kröfur á hendur stefnda fyrir það félag í máli þessu, samkvæmt samningi málsaðila. Þegar greint er frá samningi aðila í stefnu, er átt við samningana sameiginlega en samningarnir eru efnislega samhljóða.
Í samningnum er kveðið á um samningsskyldur aðila en umfang samningsins skyldi ná til „flutningsþjónustu sem nú er rekin af eiganda milli hafnarinnar í Norfolk Virginíu og hafnanna Njarðvík og Reykjavík á Íslandi með viðkomu í bandarískri höfn á um það bil 24 daga fresti” eins og nánar segir í 4. gr. samningsins við stefnanda, en í sambærilegu ákvæði í samningi við Trans Atlantic Lines LLC, systurfyrirtæki stefnanda, segir að þessi samningur nái til allra sjóflutninga á gámum, fullum eða tómum, milli hafna á Atlatshafsströnd Bandaríkjanna, Kanada/Nýfundnalandi og hafnar á Íslandi. Þá var kveðið á um skyldu stefnanda að hafa tiltekið flutningsrými tækt til notkunar fyrir stefnda, en áréttað í b. lið 6. gr. samningsins að flutningur stefnanda fyrir bandaríska herinn skyldi hafa forgang yfir allan viðskiptafarm.
Viðskipti aðila á grundvelli fyrrgreinds samnings hófust í janúarmánuði árið 2001, en hinn 3. janúar 2001 voru undirritaðir tveir samningar milli aðila um sjóflutninga til N-Ameríku. Annars vegar var um að ræða samning við TAL (Trans Atlantc Lines LLC), dótturfélags stefnanda, og hins vegar samning við Atlantsskip ehf., og eru samningar þessir efnislega samhljóða. Í samningunum er kveðið á um að skip TransAtlantic Lines muni koma við í höfn í Kanada/Nýfundnalandi í hverri ferð bæði austur og vestur nema aðilar komi sér saman um annað og vísað í viðauka 2 við samninginn. Í viðauka 2 er ekki að finna neina fyrirvara á þessari skyldu stefnanda til viðkomu í höfn í Kanada/Nýfundnalandi í hverri ferð. Í viðauka 4 var hins vegar tekið fram að viðauki 2 tæki gildi um leið og 28 daga siglingatíðni hefði verið komið á og varnarliðið samþykkti viðkomu í Kanada. Þessi ákvæði, um viðkomu í Kanada, er ekki að finna í þeim samningi milli aðila sem dagsettur er 30. apríl 2001.
Kveður stefndi að ástæðu þess megi rekja til þess að fyrri samningar aðila hafi vakið fjölmargar spurningar hjá yfirvöldum í Bandaríkjunum sem hafi haft eftirlit með sjóflutningum til og frá landinu (Federal Maritime Commission, eða FMC). Stefnandi hafi gert stefnda grein fyrir þessu vandamáli í tölvupósti, dagsettum 9. apríl 2001, þar sem m.a. sé vísað til þess að fyrri samningar hafi að formi til verið ólíkir því sem FMC sé vant að fást við auk þess, sem upplýsingar um flutninga til og frá Kanada/Nýfundnalandi séu óþarfar í þessum samningi þar sem slíka flutninga þurfi ekki að skrá hjá FMC . Lögð hafi verið áhersla á að hraða undirritun þessa nýja samnings til að fullnægja mætti skyldum til skráningar hjá FMC. Samningurinn hafi síðan verið undirritaður 30. apríl 2001. Fullyrðir stefndi að þessar breytingar, sem og aðrar orðalagsbreytingar frá samningunum frá 3. janúar 2001, hafi ekki átt að hafa áhrif á réttindi og skyldur aðila. Eins og sjá megi af áðurnefndum tölvupósti, hafi einungis verið um formbreytingu á samningi að ræða til þess að fá skráningu hjá FMC.
Stefndi kveður að í samningaviðræðum málsaðila á árinu 2000 hafi verið lögð á það rík áhersla af hálfu stefnda að til þess að af samningi mætti verða milli aðila yrði einkum að mæta tvenns konar þörfum stefnda. Í fyrsta lagi að komið yrði á siglingum á 28 daga fresti í stað þeirra 24 daga sem þá hafi tíðkast hjá stefnanda. Í öðru lagi að skip félagsins hefði viðkomu í Kanada/Nýfundnalandi jafnt á leið til og frá Bandaríkjunum. Stefndi hafi náð þessum markmiðum sínum í samningunum frá 3. janúar 2001, með þeim hætti sem lýst sé í 4. gr. samninganna og viðauka 2 við samningana.
Framkvæmd flutinganna var jafnan með þeim hætti að stefndi tilkynnti stefnanda hversu mikið magn hann hygðist flytja í tilteknum ferðum á vegum stefnanda, eins og venja sé í sambærilegum viðskiptum. Stefnandi kveðst ekki hafa fylgst sérstaklega með flutningsmagni stefnda í hverri ferð, enda hafi hann ráðgert að stefndi myndi uppfylla samningsskyldur sínar þegar upp væri staðið og um viðvarandi samningssamband væri að ræða. Stefnandi gerði stefnda síðan reikning fyrir þessum flutningum þegar áfangastað var náð.
Stefndi kveður að fljótlega eftir að flutningar hófust með stefnanda í upphafi árs 2001 hafi farið að bera á alvarlegum misbrestum í þjónustu stefnanda og telur þar fyrst til, að áætlanir framan af ári hafi illa staðist og hafi skip stefnanda ekki verið á áætlun í 5 af fyrstu 9 ferðum ársins. Tafir hafi orðið allt frá 1 og upp í 9 daga auk þess sem eitt skip stefnanda, Geysir, hafi ekki siglt um lengri tíma þar sem það hafi skort haffærni. Hafi stefndi þá þurft að setja eigið skip inn á leiðina og lágmarka þannig óþægindi og tjón viðskiptamanna félagsins.
Stefndi kveðst oft hafa kvartað undan þjónustu stefnanda, seinkunum og bilunum skipa og m.a. gert grein fyrir mikilvægi þess fyrir viðskiptamenn félagsins að tíðni siglinga yrði lagfærð og að stefnandi stæði einungis að litlu leyti við fyrirheit um viðkomu í Kanada. Þótt stefnanda hafi á endanum tekist að draga verulega úr ónákvæmni í tímasetningum skipa félagsins þá hafi 28 daga siglingatíðni aldrei verið komið á og siglingum félagsins til Kanada/Nýfundnalands hafi nær alfarið verið hætt.
Stefnandi kveður stefnda aldrei hafa komið með formlega kvörtun þess efnis að stefnandi uppfyllti ekki samninginn réttilega af sinni hálfu og reyndi ekki að semja um breytingu á lámarksflutningsmagni stefnanda.
Á árinu 2002 kveðst stefndi hafa átt þann kost einan að leita eftir samstarfi við helsta keppinaut sinn í millilandasiglingum Hf. Eimskipafélag Íslands, um flutninga til og frá N-Ameríku og tókst samkomulag milli félaganna í júlí 2002 um flutningana. Í samningi þessum var sett að skilyrði að stefndi flytti að lágmarki 70 gámaeiningar á ári hverju með Eimskipafélaginu. Kveður stefndi að með því hafi hann haft möguleika til að semja við aðra aðila um flutninga á sömu leið, þar sem skuldbinding hans um flutninga með Eimskipafélaginu hafi aðeins tekið til lítils hluta heildarmagns.
Hinn 25. október 2002 sagði stefndi upp samningnum við stefnanda. Var í samningnum gert ráð fyrir 180 daga uppsagnarfresti, þannig að endi væri bundinn á samningssamband aðilanna hinn 23. apríl 2003, en í uppsögninni var uppsagnarfrestur sagður til 24. mars 2003. Í uppsagnarbréfinu koma fram ávirðingar á hendur stefnanda þess efnis að hann hafi gerst brotlegur við ákvæði samningsins. Var því haldið fram þar að áætlanir stæðust ekki, lágmarkspláss stefnda væri ótryggt og stefndi hefði ekki viljað hafa viðkomu í höfninni á St. Johns í Kanada.
Með bréfi, dagsettu 20. mars 2003, mótmælti stefnandi meintu samningsbroti sínu við stefnda og ítrekaði að hann teldi sig hafa í einu og öllu staðið við skuldbindingar sínar.
Í 8. gr. samningsins, viðauka 4 í samningi Trans-Atlantic LLC, var að finna ákvæði um tiltekið lágmarksmagn flutninga sem stefndi skuldbatt sig til að flytja með stefnanda á samningstímanum á flutningsleiðinni milli Íslands og Atlantshafsstrandar Bandaríkjanna. Var stefnda sendur reikningur fyrir endurgjald fyrir það magn sem stefnandi taldi að vantaði til þess að samningurinn teldist réttilega uppfylltur. Stefndi mótmælti reikningnum með bréfi dagsettu 11. apríl 2003, og mótmælti að umsamið flutningsmagn hefði vantað á samningstímanum. Taldi stefndi stefnanda um að kenna að úr flutningsmagni hefði dregið á flutningsleiðinni. Þá taldi stefndi að ekki hefði borið að líta til flutningsmagns til Bandaríkjanna einvörðungu heldur bæri og að taka með Kanada.
Ágreiningslaust er að 1465 gámaeiningar vantaði upp á að flutningsmagni yrði náð, eftir túlkun stefnanda á samningi aðila.
Samkvæmt samkomulagi aðila er málið rekið fyrir Héraðsdómi Reykjavíkur.
III
Stefnandi byggir kröfur sínar á rýmisleigusamningi aðila og skyldu stefnda til að uppfylla þær samningsskyldur sem hann hafi þar undirgengist. Krefst stefnandi efndabóta sem miðist við að gera hann eins settan og hann hefði orðið ef stefndi hefði uppfyllt skyldur sínar samkvæmt samningi aðila. Aðilar hafi samið um lágmarksflutningsmagn sem stefndi skyldi flytja með skipum stefnanda á samningstímanum. Hafi lágmarksflutningsmagnið verið haft til hliðsjónar og verið ákvarðandi um þau kjör sem stefndi hafi notið samkvæmt samningnum. Hafi við samningsgerðina verið miðað við að lágmarksmagnið væri vel innan þess magns sem stefndi hefði árin á undan flutt á sömu siglingaleið með Eimskipafélagi Íslands hf. og hafi aðilum verið ljóst við samningsgerðina að stefnda yrði unnt að uppfylla þessar samningsskyldur sínar án vandkvæða.
Stefnandi telur, að ef flutningur SÍF með stefnda hefði haldið áfram hefði stefndi örugglega farið mjög nálægt því að uppfylla skyldur sínar um lágmarksflutningsmagn, en þeir flutningar hafi flust yfir til Eimskipa á sama tíma og rýmisleigusamningurinn hafi verið gerður.
Stefnandi telur það hafa verið á ábyrgð stefnda að uppfylla þá samningsskyldu að flytja 1200 TEU gámaeiningar með stefnanda á hverju ári. Við samningsgerðina hafi stefndi tekið áhættuna af því að honum tækist að selja viðskiptamönnum sínum nægilegt flutningsmagn til þess að geta uppfyllt lágmarksskyldur um flutningsmagn gagnvart stefnanda. Forsenda stefnanda við samningsgerðina hafi verið að stefndi flytti a.m.k. 100 TEU gámaeiningar á mánuði á siglingaleiðinni. Líta beri til þess að stefndi hafi haft það val að reka eigið skip á siglingaleiðinni eða að flytja í gegnum viðkomuhafnir á meginlandi Evrópu, en það hefði stefndi áður gert. Stefndi hafi hins vegar talið vænlegast að gera samning við stefnanda um flutninga og skuldbinda sig þar með til að flytja tilgreint lágmarksflutningsmagn með stefnanda. Stefnandi bendir á, að hann hefði aldrei gert umrædda rýmisleigusamninga við stefnda ef honum hefði ekki verið tryggðar lágmarkstekjur.
Í 8. gr. rýmisleigusamningsins segi svo:
„Umfang skuldbindinga
a) hvað varðar rýmisskuldbindingu eiganda samkvæmt samningnum fellst leigutaki á að hann muni flytja minnst áttatíu prósent (80%) gáma sinna í beinum flutningum milli Íslands og Bandaríkjanna á vegum eiganda í þjónustunni.
b) Leigutaki samþykkir enn fremur að hann muni leigja minnst 1.200 pláss (TEU) fyrir flutning á hlöðnum gámum á hverju samningsári og hlutfallslega fyrir hvern árshluta með 15% magnyfirfærslu milli ára.”
Sambærilegt ákvæði sé að finna í rýmisleigusamningi stefnda við Trans Atlantic Lines TLC, samanber viðauka 4 við saming aðila þar sem segir: „Samskip skuldbindur sig til að flytja minnst 80% af farmi sínum beint milli Íslands og Bandaríkjanna. Samt sem áður skuldbindur Samskip sig til að leigja rými fyrir lestaða gáma að því magni sem nemur 1200 TEU á ári milli Íslands og Bandaríkjanna með magnyfirfærslu milli ára upp á 15%.”
Miðað við ofangreint mætti ætla að lágmarksflutningsmagn stefnda hefði átt að vera 2.400 gámaeiningar á ári (þ.e. 1.200 gámaeiningar fyrir hvorn samning) en stefnandi telur aðila hafa verið sammála um að leggja samingana sameiginlega til grundvallar að þessu leyti, þ.a. lágmarksflutningsmagn skyldi vera 1.200 gámaeiningar á ári. Það var þetta flutningsmagn, 1.200 gámaeiningar á ári, sem hafi verið forsenda stefnanda í samingsgerðinni við stefnda. Greiðslukjör stefnda fyrir hina keyptu flutningsþjónustu af stefnanda hafi verið miðuð við þetta lágmarksflutningsmagn enda hafi leigusamningar stefnda um skip, sem annast hafi átt flutninga fyrir hann á siglingaleiðinni, m.a. verið miðaðir við þetta umsamda magn. Stefnandi fullyrðir að stefnda hafi verið ljósar þessar forsendur stefnanda um væntanlegt flutningsmagn við samningsgerðina.
Krafa stefnanda sé miðuð við þær forsendur að á samningstíma aðila, alls 26 mánuðum, hefði stefnda borið að flytja að lágmarki 2.600 gámaeiningar með stefnanda á siglingaleiðinni. Sé því miðað við þær forsendur að stefnda hefði átt að flytja 100 gámaeiningar (TEU) fyrir hvern mánuð samningstímans.
Stefndi hafi hins vegar ekki flutt svo margar gámaeiningar á samningstímanum. Byggir stefnandi aðalkröfu sína á því, að 1.426 TUS gámaeiningar vanti uppá til þess að stefndi hafi uppfyllt samningsskyldur sínar um flutninga milli Bandaríkjanna og Íslands. Samkvæmt viðauka 1 við samning málsaðila hafi stefnda borið að greiða USD 1.250 fyrir hverja 40 feta gámaeiningu, svokallaða FEU einingu. Í hverri FEU einingu séu tvær TUS gámaeiningar. Sundurliðar stefnandi aðalkröfu sína þannig: 1426 TUS gámaeiningar / 2 x USD 1.250 eða samtals USD 891.250. Krafist sé greiðslu í íslenskum krónum miðað við miðgengi USD á útgáfudegi reiknings, þ.e. 79,74 kr. að viðbættu 1,75% álagi eða samkvæmt genginu 81.14 kr. fyrir hvern USD. Því er krafist greiðslu á 891.250 x 81,14 kr. eða samtals 72.316.025 kr. að höfuðstól.
Varakröfu sína byggir stefnandi á því, að flutningur milli Kanada og Íslands eigi að draga frá aðalkröfu stefnanda og að stefnda verði þá gert að greiða 53.447.978 kr. Byggir stefnandi á því að samkomulag hafi verið um að stefndi flytti og greiddi fyrir 620 TUS gámaeiningar milli Kanada og Íslands. Samkvæmt viðauka 2 við samning málsaðila hafi stefnda borið að greiða USD 750 fyrir hverja FEU einingu á þeirri siglingaleið.
Hefur stefnandi sundurliðað varakröfu sína með eftirgreindum hætti: Frá aðalkröfu verði dregnar 18.311.970 kr., sem sundurliðist þannig; 620 TUS gámaeiningar / 2 x USD 750 eða samtals USD 232.500. Á sama hátt og í aðalkröfu sé reiknað með íslenskum krónum miðað við miðgengi USD á útgáfudegi reiknings, þ.e. 79,74 krónur að viðbættu 1,75% álagi eða samkvæmt genginu 81,14 kr. fyrir hvern USD. Því sé reiknað með að frá aðalkröfu verði dregnar 232.500 x 81,14 kr. eða samtals 18.865.050 kr.
Stefnandi telur að ekki verði lögð á hann sú skylda að hann hefði frá upphafi viðskipta aðila átt að haga reikningsgerð sinni með tilliti til umsamins lágmarksflutningsmagns og krefja á hverjum tíma greiðslna í samræmi við það vegna þeirra mánaða er stefndi flutti minna magn. Samningur aðila var viðvarandi viðskiptasamningur og hafi stefndi haft heimildir til að flytja umsamið magn á milli mánaða og réði því hvenær samningstímans hann kysi að flytja hið umsamda magn.
Stefnandi mótmælir þeim röksemdum sem koma fram í bréfi stefnda frá því 11. apríl 2003, en þar segi m.a., að viðkoma í St. John á Nýfundnalandi hafi verið ein af forsendum stefnda við samningsgerðina við stefnanda. Bendir stefnandi á að stefnda hafi átt að vera ljóst að stefnandi hafi ekki getað lofað viðkomu á Nýfundnalandi. Í 2. mgr. 4. gr. rýmisleigusamningsins segi enda, að stefnandi íhugi: „Þá breytingu á þjónustu að hún nái til ákveðinna hafna í Nova Scotia og á Nýfundnalandi í Kanada. Þegar þessum viðkomustöðum sé bætt við og ef Bandaríkjaher samþykki þá, verði þjónustan á að giska 28 daga þjónusta með brottför frá Íslandi fjórða hvern föstudag.” Stefnda hafi því verið fullljóst þegar við samningsgerðina, að langstærsti viðskiptavinur stefnanda á siglingaleiðinni var Bandaríkjaher. Hafi stefnandi því ekki getað lofað stefnda neinu um breytingar á siglingaleiðinni, nema því aðeins að Bandaríkjaher samþykkti slíkar breytingar. Það hafi herinn hins vegar ekki gert, eins og stefnda sé fullkunnugt um, sem verið hafi alger forsenda breyttrar siglingaleiðar.
Stefnandi hefur grundvallað útreikning sinn á viðskiptayfirliti við stefnda, komutilkynningum og farmbréfum. Stefnandi mótmælir þeirri fullyrðingu sem fram koma í tilvitnuðu bréfi stefnda frá 11. apríl 2003: „Á þessu stigi verður látið nægja að benda á að við útreikning á flutningsmagni verður að líta til flutninga til Bandaríkjanna og Kananda en ekki Bandaríkjanna eingöngu. Af hálfu Samskipa hf. var því lýst yfir á fyrstu mánuðum samstarfsins að ekki fengist staðist að líta á Bandaríkin sem einangruð í þessu samhengi.” Bendir stefnandi á að samningurinn sé ótvíræður að þessu leyti. Í samningnum sé ótvírætt einvörðungu fjallað um Bandaríkin í tengslum við téð lágmarksflutningsmagn, en ekki jafnframt Kanada. Stefnandi hafi einfaldlega ekki getað tryggt stefnda flutning til Kanada. Þar af leiðandi sé fráleitt að hann hefði samþykkt að miða lágmarksflutningsmagn stefnda við viðkomuhöfn sem stefnandi hafi ekki getað bundið sig við að sigla til. Samningur aðila gangi á ótvíræðan hátt út á flutninga milli Íslands og Bandaríkjanna og lágmarksmagn þar á milli. Stefnandi hafnar öllum tilraunum stefnda til að setja þar undir flutninga til Kananda, flutninga sem stefnandi hafi ekki getað ábyrgst að framkvæma. Ef stefndi hefði viljað breyta samningnum, hefði hann þurft að fá samþykki stefnanda fyrir slíkum breytingum og setja fram slíkar beiðnir um breytingar á skriflegan hátt, en það hafi hann ekki gert. Í þessu sambandi verði að benda á að fullljóst megi vera að ef stefnandi hefði getað skuldbundið sig til að hafa reglubundna viðkomu skipa sinna í Kanada hefði stefndi þurft að tryggja stefnanda lágmarksflutningsmagn á slíkar hafnir og hefði það lágmarksflutningsmagn einfaldlega komið til hækkunar á skuldindbingarmagni stefnda samkvæmt samningi aðila. Fyrir viðkomu í Kanada hafi jafnframt verið samið um lágmarksgjald USD 10.000 fyrir hverja viðkomu, en skip á vegum stefnanda hafi nokkrum sinnum átt viðkomu í Kanada, þegar siglingaáætlun stefnanda gagnvart Bandaríkjaher hafi leyft slíkar viðkomur.
Stefnandi telur stefnda hafa fengið mjög góð kjör hjá stefnanda fyrir flutningana miðað við þau kjör sem stefndi hafi áður notið á siglingaleiðinni. Hefði því átt að vera sóknarfæri fyrir stefnda eftir samninginn við stefnanda, umfram það flutningsmagn sem stefndi hafi þegar haft á flutningsleiðinni, en þar hafi verið um að ræða magn sem hafi verið verulega umfram 1.200 TEU gámaeiningar á ári.
Þegar litið sé til flutningsmagnsins á leiðinni verði að líta til þeirrar staðreyndar að stefnandi hafi haft ákveðnar rekstrarforsendur í huga er hann hafi gengið til samninga við stefnda, magn sem stefnandi hafi þurft að tryggja, þannig að samningar við stefnda yrðu rekstrarlega hagkvæmir fyrir hann. Hefðu því þessar upplýsingar þurft að liggja fyrir er hann hafi tekið ákvaraðanir um stærð skipa á siglingaleiðinni og hafi stefnda verið það ljóst, enda sjálfur starfað um árabil á þessum markaði.
Um lagarök vísar stefnandi til meginreglna kröfuréttarins um skuldbindingargildi samninga og um efndir fjárskuldbindinga. Krafa stefnanda um skaðabætur er miðuð við að hann sé eins settur og ef samningur aðila hefði réttilega verið efndur af hálfu stefnda.
Kröfu um dráttarvexti byggir stefnandi á lögum nr. 38/2001, um vexti og verðtryggingu.
Kröfu um málskostnað byggir stefnandi á 1. mgr. 130. gr. laga um meðferð einkamála.
IV
Aðalkröfu sína byggir stefndi á því að ákvæði rýmisleigusamningsins verði ekki skýrð svo að til greiðsluskyldu stefnda hafi stofnast við það að magnákvæði samningsins hafi ekki verið uppfyllt. Í viðauka 4 við samninginn frá 3. janúar 2001 hafi verið tekið fram að stefndi skuldbindi sig til að flytja minnst 80% af farmi sem fluttur sé beint milli Íslands og Bandaríkjanna með stefnanda. Þá hafi með sambærilegum hætti verið tekið fram að stefndi væri skuldbundinn til að leigja sem svarar 1200 gámaeiningum á hverju ári en flytja hafi mátt 15% af því magni milli ára.
Stefndi vísar til þess að tilgangur með skuldbindingu af þessu tagi um lágmarksmagn hafi verið að tryggja tiltekna hollustu stefnda við stefnanda. Heimildir stefnda til að semja við önnur félög um flutninga á umræddri leið á samningstímanum hafi því verið takmarkaðar og það sama hafi gilt um eigin flutninga stefnda. Hins vegar sé vakin athygli á því að áfram hafi verið gert ráð fyrir því að stefndi flytti vörur til Bandaríkjanna með því að flytja þær fyrst til Evrópu með eigin skipum og síðan með öðrum skipafélögum til Bandaríkjanna og öfugt (svokallaður TAS flutningur). Samningur aðila hafi tekið, samkvæmt efni sínu, einungis til beinna flutninga milli Bandaríkjanna/Kanada og Íslands. Skuldbindingar stefnda til þess að flytja 80% af öllum farmi til og frá Bandaríkjunum hafi tekið til beins flutnings („cargo moving directly between Iceland and USA”). Jafnframt hafi verið gert ráð fyrir því að stefndi væri með eigin skip í siglingum á sömu leið, sbr. ákvæði 6.3. Til þess hafi þó ekki komið.
Lágmarksviðmið, sem sett hafi verið inn í samninginn, hafi tekið mið af flutningsmagni stefnda síðustu árin áður en samningurinn var gerður. Á árinu 1998 hafi félagið flutt 2.579 gámaeiningar á þessari leið, 2.674 gámaeiningar á árinu 1999 og 2.448 gámaeiningar á árinu 2000. Þótt magn í beinum flutningum á árinu 2000 hafi verið umtalsvert lægra en árin á undan þá hafi heildarmagn einungis lækkað lítillega. Á árinu 2000 hafi óvenjuhátt hlutfall farmsins verið flutt um Evrópu en ástæðu þess hafi m.a. mátt rekja til þess að samningur stefnda við Hf. Eimskipafélag Íslands um flutninga til og frá N-Ameríku hafi runnið sitt skeið á árinu. Af þeim sökum hafi verið ljóst að svigrúm til beinna flutninga með stefnanda hafi verið umtalsvert meira en tölur ársins 2000 yfir beina flutninga stefnda bendi til. Tölur þessara þriggja síðustu ára fyrir samningsgerðina við stefnanda beri það skýrt með sér að ekki hafi verið nein vandkvæði á því að uppfylla viðmið um flutninga á 1.200 gámaeiningum á ári hverju í beinum flutningum.
Stefndi telur ljóst að tryggðarákvæði af þessu tagi verði ekki skýrt svo að stefnda hafi verið ætlað að greiða fyrir þær gámaeiningar sem upp á vantaði til að lágmarksmagni væri náð. Í samningnum sé hvergi tiltekið að stefndi skuli greiða fyrir gáma sem ekki hafi verið fluttir. Athygli er vakin á því að í viðaukum 1 og 2 við samninginn sé tekið fram að verð fyrir flutninga á tómum gámum sé 50-60% lægra en verð fyrir flutninga á fullum gámum. Gámarnir þurfi sama rými í skipinu í báðum tilvikum en tekið sé tillit til þess að til þess geti komið að flytja þurfi tóma gáma. Engin rök standi til þess í sama samningi að kveðið sé á um fulla greiðslu fyrir gáma sem aldrei hafi verið fluttir. Hafi ætlun aðila verið sú að stefndi greiddi fyrir þá gáma sem upp á vantaði hafi borið að taka það fram með skýrum hætti í samningnum. Ákvæði af slíku tagi sé afar íþyngjandi og allan vafa á því hvernig skýra beri samninginn að þessu leyti beri að virða stefnda í hag.
Stefndi vekur athygli á því í þessu sambandi að það hafi ekki falist í samningi aðila að stefnandi réðist í breytingar á skipakosti sínum vegna samningins við stefnda. Stefnandi hafi á þessum tíma þurft að halda úti tveimur skipum í reglubundnum siglingum milli Íslands og Bandaríkjanna vegna samnings stefnanda um flutning fyrir varnarliðið á Keflavíkurflugvelli. Að mati stefnda hafi stefnandi af þessum sökum verið með nokkuð vannýtta afkastagetu. Með samningi við stefnda hafi stefnandi leitast við að fullnýta afkastagetu þeirra skipa. Allir helstu kostnaðarliðir í rekstri stefnanda hafi verið þeir sömu fyrir og eftir samning við stefnda.
Ef fallist verði á, að skýra beri magnákvæði rýmisleigusamningsins með þeim hætti sem stefnandi haldi fram, að stefndi hafi skuldbundið sig til að greiða fyrir ónýtt pláss, byggir stefndi á því, að víkja beri umræddu ákvæði samningsins til hliðar. Svo sem rakið hafi verið hér að framan þá liggi fyrir að umfang flutninga stefnda milli Íslands og N-Ameríku á árunum 1998, 1999 og 2000, hafi verið langt umfram þau lágmörk sem skilgreind hafi verið í samningi aðila. Þegar samningurinn hafi verið gerður hafi fátt bent til þess að flutningar stefnda á umræddri leið myndu dragast jafn mikið saman og raunin hafi orðið.
Á árunum 2001 hafi stefndi flutt í allt 1.834 gámaeiningar milli Íslands og Bandaríkjanna/Kanada. Þrátt fyrir að stefndi hafi dregið verulega úr flutningum milli Bandaríkjanna og Íslands um Evrópu, eða úr 1.102 einingum á árinu 2000 í 446 einingar á árinu 2001, hafi stefndi vart náð að flytja umræddar 1.200 einingar í beinum flutningum. Ástæðu þessara miklu sviptinga hafi fyrst og fremst verið að rekja til tveggja þátta. Annars vegar hafi á þessum tíma farið að gæta töluverðs samdráttar í flutningum almennt frá Bandaríkjunum vegna hás gengis dollara. Af framlögðu yfirliti um flutning skipafélaganna milli Íslands og Bandaríkjanna/Kanada, megi sjá að magn beinna flutninga að flutningum fyrir varnarliðið undanskildum, hafi fallið úr 4.061 gámaeiningu á árinu 2000 í 2.491 gámaeiningu á árinu 2001. Um gríðarlegan samdrátt hafi verið að ræða hjá öllum þremur íslensku skipafélögunum sem verið hafi með reglubundna flutninga á umræddri leið.
Samdráttur í flutningum hjá stefnda hafi hins vegar ekki einungis verið vegna þróunar á mörkuðum heldur hafi mikinn hluta samdráttarins verið að rekja til þess að félagið hafi tapað viðskiptavinum á árinu 2001 til keppinauta. Hafi þar vegið þyngst að Sölusamband íslenskra fiskframleiðenda (SÍF) hafi flutt viðskipti sín alfarið yfir til Hf. Eimskipafélags Íslands. Stefndi hafi átt í viðskiptum við SÍF og forvera þess SÍS til fjöldamargra ára. Eftir að samstarf um flutninga hófst við stefnanda hafi hins vegar veður skipast þannig að SÍF hafi séð sig knúið til að hætta viðskiptum við stefnda. Til að setja mikilvægi þessara flutninga stefnda fyrir SÍF í eitthvert samhengi þá nefnir stefndi, að félagið hafi flutt um 750 gámaeiningar fyrir SÍF á árinu 1999 og sambærilegt magn á árinu 2000.
Stefndi kveður ástæðu þess að SÍF hætti viðskiptum við stefnda á árinu 2001 hafa verið að rekja til þess að SÍF hafi ekki talið treystandi á áætlanir stefnanda og að áætlun stefnanda, ef hún héldist, hafi auk þess ekki gefið kost á brottför frá Íslandi á sama vikudegi á tveggja vikna fresti. Slík reglubundin áætlun hafi verið SÍF mikilvæg, þar sem um flutninga á hráefni til vinnslu í verksmiðju erlendis hafi verið að ræða. Sem fyrr segi hafi frávik frá áætlunum stefnanda í fyrstu ferðum ársins 2001 hins vegar verið umtalsverð.
Stefndi kveðst hafa lagt á það ríka áherslu í samningaviðræðum við stefnanda að stefnandi breytti siglingum á umræddri leið þannig að í stað þess að siglt væri á 24 daga fresti þá yrði siglt á 28 daga fresti. Ástæðu þessa hafi m.a. verið að rekja til þarfa SÍF og telur stefndi að stefnanda hafi verið fullkunnugt um mikilvægi þessa þáttar. Raunar hafi fjölmargir aðrir þættir mælt með því að tekin yrði upp 28 daga áætlun. Þessum kostum hafi m.a. verið lýst þannig af stefnanda sjálfum í upphafi árs 2001, að með því væri um fasta brottfarardaga að ræða og ávallt sami tími milli brottfara, flutningar til Bandaríkjanna yrðu með þessu samkeppnishæfari og þjónusta við viðskiptavini betri og öruggari.
Þrátt fyrir að aðilar hafi virst sammála um mikilvægi þess að ná fram þessu markmiði, og stefndi hafi talið að yfirlýsing í fskj. 1 og 2 við samning aðila staðfesti að áætlunum yrði breytt, hafi aldrei komið til þess að stefnandi breytti áætlunum sínum. Um ástæðu þessa geti stefndi lítt sagt en af tilsvörum stefnanda hafi helst mátt ráða að varnarliðið hafi ekki fallist á þessar breytingar. Stefndi hafi ekki upplýsingar um það hvort og þá hvaða viðræður stefnandi hafi átt við varnarliðið til að fá þessar breytingar í gegn en dregur í efa að stefnandi hafi fylgt þessu fast eftir. Ástæðu þeirra efasemda sé fyrst og fremst að rekja til þess að af einhverjum ástæðum virðist það hafa verið auðsótt fyrir Hf. Eimskipafélagið áður, nú Eimskipafélagið ehf., að halda sínum reglubundnu 28 daga áætlunum í siglingum fyrir varnarliðið. Félagið hafi sinnt þessum flutningum fyrir varnarliðið áður en Atlantsskip hafi fengið þá flutninga alla og nú hafi Eimskipafélagið fengið hluta flutninganna aftur og haldi sömu áætlun. Vera megi að sú staðreynd að samningar stefnanda við varnarliðið hafi verið lausir á árinu 2001 hafi gert það að verkum að þessu máli hafi ekki verið fylgt fast eftir af ótta við að slíkar breytingar kynnu að falla í grýttan jarðveg.
Af ofangreindum ástæðum hafi stefnda verið ómögulegt að uppfylla áskilnað í samningi aðila um 1.200 gámaeiningar á ári hverju. Þann ómöguleika sé annars vegar að rekja til ytri aðstæðna sem bitnað hafi jafnt á öllum sem sinntu flutningum á umræddri leið og hins vegar til atvika sem vörðuðu stefnda sérstaklega, þ.e. missis viðskipta við SÍF, sem stefndi hafi ekki getað ráðið neinu um. Ásæðu þess að SÍF hafi hætt viðskiptum við stefnda virðist einkum mega rekja til þess að þjónusta stefnanda hafi ekki uppfyllt þarfir félagsins. Að mati stefnda geti stefnandi við þessar aðstæður ekki sett fram kröfu um greiðslu þess magns sem vantað hafi upp á að lágmarksákvæðum samningsins væri náð og vísar stefndi einkum til 36. gr. laga nr. 7/1936, um samningsgerð, umboð og ógilda löggerninga.
Stefndi vísar og til þess að meðal þess sem ráðið hafi ákvörðun stefnda um að semja við stefnanda hafi annars vegar verið fyrirheit stefnanda um að taka upp 28 daga áætlun og hins vegar viðkoma í Kanada. Það hafi verið á ábyrgð stefnanda að efna þessi loforð en bæði hafi verið vanefnd. Ljóst sé að stefndi hefði ekki samið um flutninga við stefnanda nema gegn því að þessi skilyrði yrðu uppfyllt. Þetta telur stefndi að stefnanda hafi verið fullkomlega ljóst enda áréttað í samningaferlinu öllu og í texta endanlegs samnings aðila.
Þrátt fyrir vanefndir stefnanda og verulegar breytingar á heildarmagni flutninga stefnda til og frá N-Ameríku hafi stefndi flutt yfir 80% alls þess sem flutt hafi verið beint milli Íslands og N-Ameríku með stefnanda. Viðmiði um 1.200 gámaeiningar hafi hins vegar ekki verið fyllilega náð af framangreindum ástæðum.
Krafa stefnanda um greiðslu fyrir það sem upp á vantaði til að tilskildu lágmarki væri náð sé að mati stefnda einstaklega óeðlileg og ósanngjörn, einkum við þær aðstæður sem hér hafi verið lýst. Krafa stefnanda sé upp á um 70 milljónir króna auk dráttarvaxta og kostnaðar. Til að þessi fjárhæð verði sett í eitthvert samhengi þá hafi heildargreiðslur stefnda til stefnanda vegna flutninga á öllu samningstímabilinu verið um 101 milljón króna. Verði stefndi nú dæmdur til þess að greiða stefnufjárhæðina sé ljóst að hver flutt eining á samningstímabilinu muni reynast stefnda óheyrilega dýr og ekki í nokkru samræmi við þau verð sem tíðkast hafi í þessum flutningum. Tjón stefnda yrði því umtalsvert. Til að undirstrika enn frekar hversu óeðlileg þessi krafa stefnanda sé megi m.a. benda á að á samningstímanum hafi stefnanda tekist að ná til sín nokkrum viðskiptamanna stefnda, m.a. húsgagnaverslununum Bústoð ehf. og Húsgagnalager sætir sófar ehf. og EK. Með þessu móti hafi stefnanda tekist að auka eigið magn en krefji nú stefnda einnig um greiðslu fyrir sömu gámaeiningar.
Stefndi áréttar einnig að með samningi við stefnda hafi stefnandi ráðstafað rými sem ella hefði að stórum hluta verið ónýtt. Kostnaður stefnanda af samningum hafi því ekki verið nokkur ef frá sé talinn sá kostnaður sem tengja megi beint við flutning á hverjum og einum gámi. Það hafi ekki verið svo að stefnandi hafi haldið frá rými fyrir stefnda sem af þeim sökum hafi ekki tekist að nýta. Skylda stefnanda til að taka frá rými fyrir stefnda hafi tekið til 60 gámaeininga í hverri ferð. Stefnda hafi hins vegar borið að tilkynna stefnanda með a.m.k. 6 daga fyrirvara um magn til flutnings í hverri ferð til að stefnanda gæfist ráðrúm til að skipuleggja eigin flutninga með hliðsjón af því. Auk þess hafi í viðaukum við samninginn verið tekið fram að flutningur varnarliðsins hafi haft forgang fram yfir eigin flutning stefnanda og flutninga fyrir stefnda. Til þess hafi nokkrum sinnum komið að þurft hafi að skilja eftir vörur stefnda ef yfirbókað var í skipin.
Stefndi telur ljóst að umsamin verð í samningnum við stefnanda hafi ekki verið lægri en verð sem viðgengist hafi á markaðnum á þessum tíma. Stefndi hafi áður notið sambærilegra kjara hjá Hf. Eimskipafélagi Íslands. Að mati stefnda hafi ekkert bent til þess að stefnanda hafi verið nauðsyn á að ná tilteknum fjölda gámaeininga til flutnings frá stefnda á hverju ári. Stefnandi hafi ekki getað bent á neinar mögulegar ástæður fyrir því að gera það lágmark að ákvörðunarástæðu fyrir samningsgerðinni. Stefndi hafi enda alla tíð talið að ákvæðið hefði einungis verið sett til að tryggja enn frekar hollustu stefnda.
Með vísan til framangreinds sé þess krafist að ákvæði um flutning á 1.200 gámaeiningum að lágmarki, verði það skilið með þeim hætti sem stefnandi krefst, verði vikið til hliðar með vísan til ólögfestrar meginreglna samningaréttar um brostnar forsendur og 36. gr. samningalaga.
Í þriðja lagi telur stefndi að skilyrði til greiðslu efndabóta séu ekki uppfyllt. Af því sem að framan sé rakið sé ljóst að það verði ekki rakið til sakar starfsmanna stefnda að viðmiðun um 1.200 gámaeiningar hafi ekki verið náð. Þvert á móti megi rekja það að stórum hluta til vanefnda stefnda og annmarka á þjónustu stefnanda.
Þá telur stefndi að stefnandi hafi ekki sýnt fram á að hann hafi orðið fyrir raunverulegu fjártjóni við það að umræddu lágmarki hafi ekki verið náð. Ekkert tjón hafi orðið á munum og stefnandi ekki þurft að leggja út í neinar kostnaðarsamar aðgerðir vegna viðskiptanna við stefnda. Eina fjárfestingin sem stefnandi hafi skuldbundið sig til að ráðast í hafi verið að auka við tengi fyrir frystigáma (e. reefer plugs), sbr. viðauka 4 við samninginn. Þá skyldu hafi stefnandi vanrækt og farið svo að stefndi hafi orðið að kaupa öll viðbótartengi sjálfur. Kostnaður af því að flytja ekki gáma sé augljóslega enginn. Ekki hefur verið sýnt fram á að stefnanda hafi ekki tekist að nýta rými sem hann hefði ella getað nýtt. Stefnandi hafi flutt allt það magn sem hann mögulega gat sjálfur haft til flutnings.
Í fjórða lagi telur stefndi, að tómlæti stefnanda eigi að leiða til sýknu. Þrátt fyrir að þegar á árinu 2001 hafi verið ljóst að stefndi gæti ekki uppfyllt viðmið um 1.200 gámaeiningar þá hafi stefnandi ekki áskilið sér rétt til greiðslu vegna þessa fyrr en með bréfi, dagsettu 20. mars 2003, eða um 5 mánuðum eftir að stefndi hafi sagt upp samningnum við stefnanda. Að mati stefnda hafi verið afar rík ástæða til þess fyrir stefnanda að setja þennan skilning á ákvæðinu fram fyrr á samningstímanum. Ef miðað sé við skilning stefnanda á ákvæðinu þá hafi a.m.k. gefist tilefni til þess strax um áramótin 2001/2002 að krefja stefnda um greiðslur fyrir þær gámaeiningar sem upp á vantaði. Í hinu umdeilda samningsákvæði hafi verið vísað til þess að flytja mætti 15% magnsins milli ára. Ljóst sé að þótt tekið væri tillit til þessarar tilfærslu þá hafi enn vantað upp á að tilskildu magni væri náð á árinu 2001, samkvæmt túlkun stefnanda. Aftur hafi gefist tilefni til að setja slíka kröfu fram um áramótin 2002/2003, en engin krafa hafi borist frá stefnanda og þessum skilningi hafi aldrei verið haldið á lofti gagnvart stefnda. Stefndi hafi gefið stefnanda sérstakt tilefni til að fylgjast með fluttu magni með því að láta vita af því að í það stefndi að magn myndi lækka þar sem félagið hefði misst stóra viðskiptavini vegna vanefnda stefnanda.
Það hefði skipt stefnda miklu að fá þessa túlkun stefnanda fram fyrr á samningstímabilinu, m.a. þar sem mögulegt hefði verið að fela stefnanda hluta af þeim flutningum sem venjulega fari frá Bandaríkjunum um Evrópu til Íslands og lækka þar með hugsanlegar kröfur stefnanda. Það hefði vitanlega verið mun hagstæðara fyrir stefnda að flytja vörurnar með stefnanda en að greiða fyrir flutning um Evrópu og greiða einnig fyrir ónýtt rými hjá stefnanda.
Stefndi kveður, að hefði honum verið það ljóst strax í upphafi samstarfs aðila að stefnandi teldi flutninga til og frá Kanada ekki telja með við mat á lágmarksmagni og að krafist yrði greiðslu fyrir það magn sem upp á vantaði hefði stefndi átt þann kost að flytja alla gámana til Norfolk og þaðan beint til Íslands með stefnanda. Með því móti hefði það magn augljóslega verið talið með auk þess sem það hafi verið mun ódýrari leið fyrir stefnda en að greiða fyrir flutning um Evrópu og greiða einnig fyrir vannýtta rýmið hjá stefnanda. Til þess hafi hins vegar aldrei komið.
Stefndi byggir varakröfu sína um verulega lækkun á því að stefnandi hafi vantalið verulega þann fjölda gámaeininga sem með réttu hafi borið að telja til flutnings samkvæmt samningi aðila. Beri þar fyrst að nefna að stefnandi hafi ekki viljað viðurkenna að til flutninganna beri að telja gámaeiningar sem fluttar hafi verið til eða frá Kanada. Samningur aðila hafi samkvæmt efni sínu, grein 4, tekið til flutninga milli hafna á Atlantshafsströnd Bandaríkjanna, Kanada eða Nýfundnalands og Íslands. Í viðauka 2 við samninginn sé að finna nánari ákvæði um flutninga stefnanda til Kanada/Nýfundnalands. Í viðauka 4 hafi verið kveðið á um skyldu stefnanda til að taka þátt í kostnaði við að flytja gáma frá Kanada/Nýfundnalandi til Norfolk í tilvikum þar sem stefnandi hefði ekki viðkomu í Kanada. Stefnandi hefði ekki getað gert athugasemdir við að gámar sem fluttir yrðu með þessum hætti yrðu taldir með. Heildarfjöldi gáma sem fluttir hafi verið með Atlantsskipum til og frá Kanada/Nýfundnalandi hafi verið 488(467+21). Þá hafi stefndi þurft að flytja 300 gáma á sömu leið með eigin skipum (248+52) en til þess komið eingöngu vegna þess að ferðir hafi fallið niður hjá stefnanda eða fullfermi hafi verið hjá stefnanda vegna mikilla flutninga fyrir varnarliðið.
Í viðauka 4 við samning aðila hafi verið tekið fram að til frádráttar viðmiðum um lágmarksfjölda gámaeininga kæmu þær einingar sem ekki hafi verið unnt að flytja með Atlantsskipum. Til þessa kom m.a. vegna fullfermis hjá stefnanda og sökum þess að eitt skip stefnanda hafi verið óhaffært um tíma. Stefnandi hafi af þessum sökum flutt 70 gámaeiningar frá Bandaríkjunum og 300 gámaeiningar frá Kanada. Af sömu ástæðu hafi þurft að flytja 382 gámaeiningar af Norfolksvæðinu um Evrópu til Íslands. Slíkir flutningar hafi verið stefnda bæði dýrir og tímafrekir en beinir flutningar með stefnanda hafi einungis komið til þegar vörur hafi ekki komist með skipum stefnanda.
Í allt hafi þetta verið 2.492 gámaeiningar sem stefndi telur að falli undir þau viðmið sem sett hafi verið í samningi aðila um lágmarksfjölda gámaeininga. Stefndi krefst þess að umræddar 2.492 gámaeiningar verði lagðar til grundvallar við útreikning á kröfu stefnanda, ef á annað borð verði fallist á að slík krafa geti verið fyrir hendi.
Stefndi mótmælir þeirri aðferð stefnanda að bæta 1.75% álagi við gengi bandaríkjadollars við útreikning stefndufjárhæðar. Því er mótmælt að slíkt álag sé venjubundið enda hafi stefndi til að mynda aldrei notað slíkt álag í eigin flutningum. Þá verði ekki séð að svo hafi um samist milli aðila að slíkt álag yrði á gengi bandaríkjadollars.
Stefndi telur að bætur til stefnanda geti aldrei numið hærri fjárhæð en sem nemur hugsanlegum ágóða stefnanda af flutningi hverrar og einnar gámaeiningar sem upp á vantaði. Ekkert liggi fyrir um það hver hagnaður stefnanda hefði orðið af flutningi hverrar og einnar gámaeiningar. Til þess beri einnig að líta að stefnanda hafi borið að leita allra leiða til að nýta rými sem ekki nýttist til flutninga fyrir aðra og lágmarka þannig hugsanlega missi hagnaðar.
Stefndi krefst þess og að bætur verði lækkaðar vegna eigin sakar stefnanda og vísar einkum til þess að ástæða þess að stefndi hafi ekki náð tilskildum mörkum hafi að stórum hluta verið að rekja til annmarka á þjónustu stefnanda.
Stefndi mótmælir og sérstaklega upphafstíma dráttarvaxta og krefst þess að þeir miðist við dómsuppsögu í héraði eða eftir atvikum Hæstarétti.
Kröfu sína um málskostnað byggir stefndi á 130. gr. laga nr. 91/1991, um meðferð einkamála.
V
Ágreiningur máls þessa lýtur að flutningi stefnanda fyrir stefnda á siglingaleiðinni milli Íslands, Bandaríkjanna og Kananda, frá árinu 2001 til ársins 2003.
Aðilar gerðu með sér skriflegan samning um þessa flutninga, sem áður hefur verið greint frá hér að framan. Er þar kveðið á um að stefndi skuldbindi sig til þess að flytja minnst 80% af farmi sínum beint milli Íslands og Bandaríkjanna. Segir þar og, að samt sem áður skuldbindi stefndi sig til að leigja rými fyrir lestaða gáma að því magni sem nemur 1200 TEU á ári milli Íslands og Bandaríkjanna með magnyfirfærslu milli ára upp á 15%.
Undir rekstri málsins gáfu aðilar sameiginlega málflutningsyfirlýsingu þess efnis að gildistími flutningasamninga aðila hafi verið frá 1. janúar 2001 til 23. apríl 2003 eða samtals 27 mánuði og 23 daga. Í samningnum hafi verið við það miðað að stefndi flytti 1200 gámaeiningar (TEU) á ári eða 2.776 gámaeiningar á gildistíma samningsins. Á þeim tíma flutti stefndi með skipum stefnanda, og greiddi fyrir, 1.350 gámaeiningar á siglingaleiðinni milli Bandaríkjanna og Íslands. Stefnandi byggir á því að 1.426 gámaeiningar vanti upp á til þess að stefndi hafi uppfyllt samningsskyldur sínar.
Fyrir liggur að stefndi flutti með skipum stefnanda, og greiddi fyrir 620 gámaeiningar á siglingaleiðinni milli Kanada og Íslands. Stefndi byggir á því að þeir flutningar eigi að fullu að teljast flutningar samkvæmt samningum aðila og því vanti einungis 806 gámaeiningar upp á þann heildarfjölda, þ.e. 2.776 gámaeiningar.
Eins og áður greinir byggir stefndi m.a. á því að vanefndir stefnanda á samningskuldbindingum sínum hafi leitt til þess að stefnda verði ekki gert að bæta stefnanda fyrir þær gámaeiningar sem upp á vantar, hvort sem þær teljist 1426 eða 806. Í því sambandi byggir stefndi á því, að hann hafi orðið að flytja gámaeiningar með öðrum hætti en með stefnanda svo sem hér greinir:
Með eigin skipi milli Bandaríkjanna og Íslands á árinu 2001, 154 gámaeiningar.
Með eigin skipi milli Kanada og Íslands á árunum 2001 og 2002, 358 gámaeiningar.
Með öðrum skipafélögum milli Bandaríkjanna og Íslands með umskipun í Evrópuhöfn (TAS) á árunum 2001, 2002 og 2003, 294 gámaeiningar, samtals 806 gámaeiningar, sem stefnandi lýsti yfir að hann véfengdi ekki tölulega.
Stefndi flutti auk framangreinds samtals 1.058 gámaeiningar frá vesturströnd Bandaríkjanna með umskipun í Evrópuhöfn á gildistíma flutningasamninga málsaðila.
Eins og áður greinir liggur fyrir samningsákvæði þess efnis að stefndi skuldbindi sig til þess að leigja rými fyrir lestaða gáma að því magni sem nemi 1200 TEU á ári milli Íslands og Bandaríkjanna. Hefur stefndi haldið því fram að túlka beri þetta ákvæði í samningunum sem tryggðaákvæði og því beri að sýkna af bótakröfu. Verður ekki annað séð en orðalag samningsins sé skýrt að þessu leyti og þurfi ekki túlkunar við, enda ekkert það ákvæði í samningi aðila, sem bendir til þess að skýra beri umdeilt samningsákvæði með öðrum hætti en þar er skýrlega orðað. Kemur og hvergi fram í samningnum að ákvæðið sé ekki skuldbindandi fyrir stefnda eða beri að líta á sem viljayfirlýsingu, sem þó hefði verið eðlilegt, ef ætlan aðila hefði verið að semja svo.
Þá byggir stefndi á því að forsenda samningsins hafi m.a. verið sú að komið yrði á 28 daga siglingaáætlun með viðkomu í Kanada, en stefnandi hafi ekki staðið við það. Samkvæmt hinum skriflega samningi var 28 daga siglingaáætlun markmið samningsaðila, en eins og þar kemur fram var sú áætlun háð samþykki Bandaríkjahers. Hins vegar er ekki samið svo um milli aðila að siglingaáætlun skyldi vera 28 dagar heldur þvert á móti var kveðið á um 24 daga siglingaáætlun. Með orðalagi samningsins verður því ekki séð að breytt siglingaáætlun hafi verið forsenda fyrir gildi samningsins, enda háð samþykki þriðja aðila. Framburður aðila fyrir dómi sem og gögn málsins styðja og ekki þessa fullyrðingu stefnda að 28 daga siglingaáætlun hafi verið forsenda fyrir gildi samningsins gagnvart stefnda, án þess að þess hafi verið getið í skriflegum samningi aðila. Verður því ekki litið svo á að þó svo að siglingaáætlun hafi ekki breyst á samningstímanum, hafi stefnandi með því vanefnt samninginn þannig að önnur ákvæði hans væru óskuldbindandi fyrir stefnda.
Stefndi byggir sýknukröfu sína einnig á því að víkja beri ákvæðum samningsins til hliðar, þar sem honum hafi verið ómögulegt að flytja meira en hann gerði, m.a. þar sem dregið hafi úr innflutningi frá Bandaríkjunum vegna þess að gengi dollarsins hafi hækkað og stefndi hafi misst marga góða viðskiptavini sína yfir til stefnanda og aðra viðskiptavini hafi stefndi misst sökum þess að ekki hafi verið hægt að treysta siglingaáætlun stefnanda. Allt þetta hafi orðið til þess að flutningar stefnda hafi gersamlega hrunið og stefnandi átt stóran þátt í því að stefnda hafi ekki verið unnt að standa við samninginn. Beri því að víkja umdeildu ákvæði um flutningsmagn til hliðar.
Við mat á því hvort víkja eigi samningi til hliðar, ber að líta til efnis samnings, stöðu samningsaðila, atvika við samningsgerð og atvika sem síðar komu til. Málsaðilar eru í sambærilegum rekstri og hafa báðir atvinnu af sjóflutningum milli landa .Af því sem fram er komið í málinu og rakið hefur verið sem og öðrum gögnum málsins og vitnisburði fyrir dómi verður ekki annað séð en að seinkun á ferðum skipa stefnanda hafi helst verið í byrjun samningstímans. Þá liggja ekki fyrir skrifleg gögn þess efnis að stefnandi hafi með sannanlegum hætti á samningstímanum kvartað við stefnanda yfir þjónustu hans. Er alls ósannað að þjónusta stefnanda hafi verið með þeim hætti að stefnda hafi verið ómögulegt að uppfylla samningsákvæði um flutningsmagn eða að hann hafi misst viðskiptavini vegna vanefnda stefnanda á samningi þeirra. Þá er ekki unnt að líta svo á að atvik sem gera mátti ráð fyrir áður en aðilar undirrituðu umrædda samninga, svo sem breytt gengi gjaldmiðla eða missir viðskiptamanna leiði til þess að beita beri undantekningarákvæði samningalaga um að víkja beri gildum samningi til hliðar.
Einnig byggir stefndi á því að skilyrði efndabóta séu ekki til staðar þar sem stefnandi, bótakrefjandi, hafi átt stóran þátt í því að samningurinn var ekki efndur, og vanefnd hans verði ekki rakinn til sakar starfsmanna stefnda. Þá hafi stefndi ekki sýnt fram á fjártjón en krafa stefnanda sé í reynd krafa um missi hagnaðar. Þegar framanritað er virt hefur hvorki verið fallist á að ómöguleiki né vanefnd stefnanda hafi valdið því að stefndi uppfyllti ekki magnákvæði samningsins, en eins og mál þetta er vaxið þarf hins vegar hvorki að sýna fram á sök starfsmanna stefnda né missi hagnaðar stefnanda.
Þá byggir stefndi sýknukröfu sína á því að tómlæti stefnanda varðandi það að setja skýrlega fram við stefnda, á samningstímanum, að ákvæðum samningsins um tilskilið flutningsmagn væri ekki framfylgt af stefnda, eigi að leiða til sýknu, þar sem það hafi valdið því að stefndi nýtti sér ekki rétt sinn til að takmarka tjón sitt. Eins og að framan er rakið var um viðvarandi viðskipti aðila að ræða samkvæmt umdeildum samningi. Litið hefur verið svo á að samningurinn sé skýr um það að stefndi hafi lofað að flytja að lágmarki ákveðinn fjölda gáma á ári með skipum stefnanda, sem heimilt var að hluta að flytja milli ára. Í ljósi þess verður ekki talið að stefnandi hafi með tómlæti glatað rétti til að krefja stefnda um efndir samnigsins, á þeim tíma sem gert var.
Stefnandi telur ákvæði samnings aðila um flutningsmagn eigi eingöngu við flutning á milli Íslands og Bandaríkjanna en stefndi byggir varakröfu sína á því að flutningar frá Kanada og Nýfundnalandi eigi einnig undir samninginn hvað varði flutningsmagn og litið hafi verið á flutninginn sem Ameríkuflutning. Hinir skriflegu samningar aðila kveða og skýrt á um að verið var að semja um flutningsmagn milli Íslands og Bandaríkjanna, en ekki annarra landa. Er ekki unnt að líta svo á að verið sé að semja um flutningsmagn milli annarra landa einnig, enda hefði stefnda, sem stundað hafi siglingar á þessari leið átt að vera ljóst að þó svo að Kanada sé í Norður Ameríku telst landið ekki til Bandaríkjanna, enda voru einnig ákvæði í samningum aðila um flutninga milli Kananda og Íslands, en hins vegar er einungis tekið fram um lágmarksmagn í flutningum milli Bandaríkjanna og Íslands.
Með vísan til framanritaðs er það niðurstaða dómsins að stefndi hafi vanefnt umdeildar samningsskyldur. Verður því fallist á kröfu stefnanda um að hann eigi rétt á efndabótum úr hendi stefnda. Samkvæmt því ber að fallast á kröfu stefnanda, að öðru leyti en því, að gegn mótmælum stefnda, verður ekki fallist á að reikna skuli sérstakt álag á samningsfjárhæðina, umfram það sem samið var um milli aðila. Samkvæmt því verður krafa stefnanda tekin til greina með 71.068.275 krónum, en ekki er tölulegur ágreiningur milli aðila. Þá verður stefndi dæmdur til þess að greiða stefnanda dráttarvexti, frá gjalddaga kröfunnar, eins og krafist er í stefnu.
Samkvæmt þessari niðurstöðu ber að dæma stefnda til að greiða stefnanda málskostnað, sem þykir hæfilega ákveðinn, með hliðsjón af hagsmunum sem um er deilt, 4.000.000 krónur.
Hervör Þorvaldsdóttir héraðsdómari kvað upp dóm þennan.
D Ó M S O R Ð :
Stefndi, Samskip hf., greiði stefnanda, Atlantsskip ehf., 71.068.275 krónur, ásamt dráttarvöxtum samkvæmt 1. mgr. 6. gr. laga nr. 38/2001 frá 14. apríl 2003 til greiðsludags.
Stefndi greiði stefnanda 4.000.000 krónur í málskostnað.