Hæstiréttur íslands

Mál nr. 674/2010


Lykilorð

  • Landamerki


Fimmtudaginn 9. júní 2011.

Nr. 674/2010.

Svanfríður Kjartansdóttir

(Hlöðver Kjartansson hrl.)

gegn

Hjálmari Sigmarssyni og

Guðmundi Hjálmarssyni

(Skarphéðinn Pétursson hrl.)

Landamerki.

Aðilar deildu um austurmerki jarðarinnar S gagnvart vesturmerkjum jarðarinnar H. Jörðinni H hafði verið skipt með kaupsamningi og afsali 25. júní 1950 þegar eigandi jarðarinnar, HS, afsalaði bróður sínum svokölluðum úthluta eða vesturhluta jarðarinnar, þar sem stofnað var nýbýlið S. Snerist deila málsaðila um hvernig þau merki lægju, sem lýst var í kaupsamningnum með því að bæjarlækur skipti frá fjalli að túni, enda voru óumdeildir hinir tveir punktar landamerkjalýsingarinnar. Fallist var á rök SK, núverandi eiganda jarðarinnar S, um hvar bæjarlækurinn teldist vera og láta merkin fylgja honum ofan úr fjallinu og þangað sem hann rynni að túni. Talið var að lækurinn hefði runnið að tilteknum hnitapunkti um annan tiltekinn hnitapunkt inn á spildu úr jörðinni H, sem var í eigu G, að sunnanverðu. Var einnig fallist á með SK að í fyrri hnitapunktinum væri hornmark þaðan sem bæjarlækur skipti frá túni suður á fjallsbrún. Var aðalkrafa SK tekin til greina, enda talið að ekki væri hald í þeirri málsástæðu HS og G að þeir hefðu unnið eignarrétt að hinu umdeilda landi fyrir hefð.   

Dómur Hæstaréttar.

Mál þetta dæma hæstaréttardómararnir Garðar Gíslason, Gunnlaugur Claessen og Markús Sigurbjörnsson.

Áfrýjandi skaut málinu til Hæstaréttar 9. desember 2010 að fengnu áfrýjunarleyfi. Hún krefst þess aðallega að viðurkennt verði að landamerki jarðarinnar Stekkjarbóls í Unadal í Skagafirði séu „að utan landamerki Sandfells og Hólkots, að sunnan bæjarlækur sem skiptir frá fjalli að túni, og þaðan í vörðu á siðra melhorni utan við túnið og bein lína úr vörðu þessari ofan í klöpp niður við á“ og að landamerkin að austan og á fjallshrygg afmarkist af línu sem dregin er á milli nánar tilgreindra hnitapunkta P01 til P08, P14 og P15. Til vara krefst hún þess að viðurkennt verði að landamerki sömu jarðar séu „að utan landamerki Sandfells og Hólkots, að sunnan Bæjargil og Bæjarlækur frá fjalli að girðingu, þaðan út á við að næsta skurði sem liggur upp og niður, síðan niður þann skurð að skurði sem liggur út og inn og þá út þann skurð svo langt sem hann nær og þaðan í vörðu á syðra melhorni og bein lína úr vörðu þessari ofan í klöpp niður við á og landamerkin að sunnan og á fjallshrygg afmarkist svo af línu sem dregin er á milli“ nánar tilgreindra hnitapunkta P01 og P02, þaðan austur í enda skurðar í hnitapunkti P02b, þaðan áfram austur í tilgreindan hnitapunkt LM3, þaðan suður eftir skurði í hnitapunkt LM4, þaðan austur eftir girðingu í hnitapunkt P05, en upp frá því suður til fjalls á sama hátt og í aðalkröfu. Í báðum tilvikum krefst áfrýjandi aðallega málskostnaðar í héraði og fyrir Hæstarétti, en til vara að hann verði felldur niður á báðum dómstigum.

Stefndu krefjast staðfestingar héraðsdóms og málskostnaðar fyrir Hæstarétti.

Dómendur í málinu fóru á vettvang 26. maí 2011.

I

Svo sem greinir í héraðsdómi var jörðinni Hólkoti skipt með kaupsamningi og afsali 25. júní 1950 þegar eigandi jarðarinnar, stefndi Hjálmar Sigmarsson, afsalaði bróður sínum Sigurbirni Sigmarssyni svokölluðum úthluta eða vesturhluta jarðarinnar, þar sem stofnað var nýbýli sem hlaut nafnið Stekkjarból. Í samningnum var landamerkjum Stekkjarbóls lýst svo: „... að utan landamerki Sandfells og Hólkots, að sunnan bæjarlækur sem skiptir frá fjalli að túni, þaðan í vörðu á siðra melhorni utan við túnið og bein lína úr vörðu þessari ofan í klöpp niður við á.“ Þessum samningi var þinglýst 24. ágúst sama ár. Sigurbjörn gaf út til sonar síns Magnúsar afsal fyrir Stekkjarbóli 13. júlí 1967 og var því þinglýst sama dag, en þar var einskis getið um landamerki jarðarinnar. Magnús Sigurbjörnsson afsalaði Stekkjarbóli fimm nafngreindum mönnum 25. febrúar 1971 og var þá heldur ekkert getið um landamerki í afsalinu, sem var þinglýst. Einn þeirra er fyrrverandi eiginmaður áfrýjanda.

Í málinu deilir áfrýjandi, sem nú er eigandi jarðarinnar Stekkjarbóls, við stefndu um austurmerki hennar gagnvart vesturmerkjum Hólkots, til suðurs frá nánar tilteknum stað, sem er „bæjarlækur sem skiptir frá fjalli að túni“ og á fjallshrygg. Stefndi Guðmundur, sonur stefnda Hjálmars, fékk afsal 20. júní 2009 frá föður sínum fyrir landspildu, en sá fyrrnefndi mun nokkrum árum áður hafa fengið hana afhenta til skógræktar og er vestasti hluti hennar nyrsti hluti þrætulandsins. Spildan er beint til suðurs frá heimatúni og bæjarhúsum Hólkots, rúmlega 3,5 ha að stærð, og fékk stefndi Hjálmar heimild til að skipta henni úr jörðinni. Þessi spilda er afgirt og liggur vesturhlið hennar að skurði, sem stefndi Hjálmar og Sigurbjörn bróðir hans kveðast hafa grafið á merkjum jarðanna fljótlega eftir samning þeirra í júní 1950.

Nánar tiltekið snýst deila málsaðila um hvernig þau merki liggi, sem lýst var í samningnum 25. júní 1950 með því að bæjarlækur skipti frá fjalli að túni, enda eru óumdeildir hinir tveir punktar landamerkjalýsingarinnar úr norðri, klöpp við Unadalsá og varða á syðra melhorni. Málsaðilar halda fram hvor sínum punkti þar sem hornmark sé á merkjalínu til austurs frá vörðunni. Áfrýjandi heldur því fram að hornmarkið sé þar sem bæjarlækur hafi komið að túni Hólkots á norðurmörkum spildu stefnda Guðmundar, en þar er hnitapunktur P03 í kröfugerð hennar. Stefndu halda því á hinn bóginn fram að hornmarkið sé á norðvesturmörkum spildunnar í hnitapunkti LM3, merkin fylgi síðan skurði til suðurs svo langt sem hann nái að hnitapunkti LM4, en þaðan fari þau áfram suður til fjalls eftir farvegi bæjarlækjar. Deilan lýtur meðal annars að því hvort landið, sem nú er innan spildu stefnda Guðmundar, hafi kallast tún þegar samningurinn var gerður 1950, en jafnframt er ágreiningur um hvar bæjarlækur teljist hafa runnið úr fjalli.

II

Áfrýjandi styður kröfu sína með því að stefndi Hjálmar hafi margoft lýst því fyrir henni og öðrum að með orðum landamerkjalýsingarinnar í kaupsamningnum og afsalinu 25. júní 1950 hafi verið átt við bæjarlæk Hólkots sem komi úr Bæjargili og enginn vafi hafi verið í huga hennar að lækurinn og Bæjargil réði merkjum jarðanna á þá hlið. Að tilhlutan áfrýjanda gekk verkfræðingur með ætluðum landamerkjum jarðanna 6. september 2008 og teiknaði afstöðumynd með hnitapunktum sem krafa hennar sé reist á. Svo sem greini í skýringum á afstöðumyndinni hafi verið gengið frá klöpp í á, hnitapunkti P01, að vörðu með hnitapunkti P02, en þaðan hafi verið fylgt skurði til austurs að læk sem renni í skurðinn á punkti P03. Læknum hafi síðan verið fylgt upp fjallið og hafi lega hans verið skýr að punkti P06, þar sem tveir lækir frá fjalli hafi sameinast. Fylgt hafi verið eystri kvíslinni sem þá hafi verið mun vatnsmeiri og hafi hún komið úr áberandi gili sem byrji í punkti P07. Þar fyrir sunnan til fjalls hafi lækurinn „ákveðið og eingöngu“ verið í því gili. Frá kletti í þessu gili, P08, hafi verið dregin lína eftir ljósmynd í fjallsegg í punkti P14. Samkvæmt svonefndri örnefnaskrá Hólkots, sem er meðal gagna málsins, komi Bæjarlækur ofan úr fjallinu þar sem heiti Slöð, sem sé grunnt og lítið skálarmót nokkru vestar en Rjúpnaskál og Rjúpnaskriða og sé Bæjargil norðan við Slöð, „upp frá bænum.“ Ennfremur segi um Slöð í örnefnaskránni, þegar lýst er skálum í Ennishnjúk sem blasi við frá Hólkoti, að svo heiti graseggjar ofarlega í fjallinu. Næst komi Rjúpnaskál, þar sem landamerki Hólkots séu til austurs. Bendir áfrýjandi á að Bæjargil sé upp frá bænum að Hólkoti og renni Bæjarlækur úr því eins og Rjúpnalækur renni úr Rjúpnagili. Enginn annar lækur en Bæjarlækur komi til greina sem bæjarlækurinn í landamerkjalýsingunni.

Fallast verður á þessi rök áfrýjanda um hvar bæjarlækurinn teljist vera og láta merkin fylgja honum ofan úr fjallinu og þangað sem hann rennur að túni. Eins og fyrr greinir er tveir kostir um hvar lækurinn teljist hafa komið að túni, annaðhvort í hnitapunkti P03 á norðurlínu spildu stefnda Guðmundar eða LM4 á suðvesturhorni hennar. Á vettvangi verða ekki séð nein merki um að lækurinn hafi runnið að síðarnefnda hnitapunktinum, en augljós farvegur liggur að þeim fyrrnefnda. Verður því að fallast á að lækurinn hafi runnið þangað um hnitapunkt P05 inn á spildu stefnda Guðmundar að sunnanverðu. Í því sambandi er þess og að gæta að í landamerkjalýsingunni segir að varðan í syðra melhorni sé „utan við túnið“, sem miðað við staðhætti hlýtur fremur að eiga við heimatún Hólkots en spildu stefnda Guðmundar fyrir sunnan það. Framhjá því verður heldur ekki litið að í skýrslu fyrir héraðsdómi lýsti stefndi Guðmundur að spildan hafi ekki verið tún heldur engi og í afsalinu til hans 20. júní 2009 var hún kölluð óræktuð landspilda. Í ljósi þessa verður spilda stefnda Guðmundar ekki kölluð tún og því ekki fallist á að landamerkjapunkturinn sé þar sem bæjarlækur sker suðurhlið hennar. Verður því fallist á með áfrýjanda að í hnitapunkti P03 sé hornmark þaðan sem bæjarlækur skiptir frá túni suður á fjallsbrún.

Stefndi Hjálmar hefur haldið því fram að strax eftir samninginn 1950 hafi þeir bræður hafist handa um að gera áveituskurð, þar sem þeir töldu landamerki jarðanna vera innan túna, og afmarka úthaga með girðingu upp á fjall suður í svonefnt Merkjagil. Bræðurnir hafa með undirskrift sinni staðfest þessi merki á uppdrætti sem gerður var í janúar 2005. Miðað við það sem að framan er rakið um bæjarlækinn úr Bæjargili og hvernig hann hefur runnið að túni í hnitapunktinum P03 fær ekki staðist að skurður milli hnitapunkta LM3 og LM4 hafi verið grafinn á merkjunum, sem lýst var í samningnum 25. júní 1950. Að því frágengnu halda stefndu því fram að þeir bræður hafi gert með sér samkomulag um að breyta merkjunum á þennan hátt. Hafi svo verið var slíkri breytingu hvorki þinglýst né getið í síðari afsölum og hefur hún því ekkert gildi gagnvart síðari eigendum Stekkjarbóls, þar með talinni áfrýjanda. Verður aðalkrafa hennar því tekin til greina, enda er ekki hald í þeirri málsástæðu stefndu að þeir hafi unnið eignarrétt að hinu umdeilda landi fyrir hefð.

Eftir þessum úrslitum málsins verður stefndu gert að greiða áfrýjanda hluta málskostnaðar í héraði og fyrir Hæstarétti, sem ákveðinn er í einu lagi að teknu tilliti til hagsmuna í málinu eins og nánar greinir í dómsorði.

Dómsorð:

Landamerki milli jarðanna Hólkots og Stekkjarbóls í Unadal í Skagafirði skulu ráðast af línu sem dregin er frá klöpp við Unadalsá í hnitapunkti P01, 600118 og 486364, að vörðu á syðra melhorni utan við tún í hnitapunkti P02, 599925 og 486347, að hnitapunkti P03, 599847 og 486542, þar sem bæjarlækur fellur í skurð, þaðan eftir farvegi lækjarins um hnitapunkt P04, 599732 og 486511, að hnitapunkti P05, 599681 og 486524, þar sem lækur fer undir girðingu, þaðan í hnitapunkt P06, 599542 og 486541, þar sem tveir lækir frá fjalli renna saman, þaðan eftir Bæjargili frá hnitapunkti P07, 599417 og 486628, um hnitapunkt P08, 599308 og 486648, og í fjallshrygg í hnitapunkti P14, 598285 og 486468.

Stefndu, Hjálmar Sigmarsson og Guðmundur Hjálmarsson, greiði í sameiningu áfrýjanda, Svanfríði Kjartansdóttur, samtals 500.000 krónur í málskostnað í héraði og fyrir Hæstarétti.

Dómur Héraðsdóms Norðurlands vestra 24. júní.

I

Mál þetta, sem tekið var til dóms 28. maí sl., var höfðað af Svanfríði Kjartansdóttur, Norðurbakka 25b, Hafnarfirði, á hendur Hjálmari Sigmarssyni, Hólkoti, Skagafirði, og Guðmundi Hjálmarssyni, Dalatúni 2, Sauðárkróki, með stefnu birtri 9. og 11. febrúar 2010.

Dómkröfur

Stefnandi krefst þess að viðurkennt verði að landamerki jarðarinnar Stekkjarbóls í Unadal í Skagafirði, landnúmer 146589, séu „að utan landamerki Sandfells og Hólkots, að sunnan bæjarlækur sem skiptir frá fjalli að túni, og þaðan í vörðu á syðra melhorni utan við túnið og bein lína úr vörðu þessari ofan í klöpp niður við á“ og landamerkin að sunnan og á fjallshrygg afmarkist svo af línu sem dregin er milli eftirgreindra hnitsettra punkta:

Punktur                                              

Norðurhnit

Austurhnit

P01

600118                                                  

486364

P02

599925

486347

P03

599847                                                  

486542

P04

599732                                                  

486511

P05

599681

486524

P06

599542

486541

P07

599417

486628

P08

599308                                                  

486648

598285                                                  

486468

598507                                                  

486209

               

Þá krefst stefnandi þess að stefndu verði sameiginlega gert að greiða honum málskostnað að viðbættum virðisaukaskatti.

Stefndu krefjast sýknu af kröfum stefnanda og málskostnaðar úr hendi hans.

II

Atvik máls

Með kaupsamningi og afsali dagsettu 25. júní 1950 seldi stefndi Hjálmar Sigmarsson bróður sínum Sigurbirni Sigmarssyni úthluta (vesturhluta) jarðar sinnar Hólkots í Unadal í Skagafirði. Þessi partur jarðarinnar heitir nú Stekkjarból. Sigurbjörn seldi syni sínum Magnúsi Sigurbjörnssyni jörðina á árinu 1967. Magnús seldi síðan jörðina fimm mönnum fjórum árum síðar en einn þeirra var þáverandi eiginmaður stefnanda. Stefnandi eignaðist fjórðung jarðarinnar á árinu 1986, annan fjórðung á árinu 1998 og síðan þann helming sem eftir var á árinu 2002. Í nefndum kaupsamningi vegna sölunnar frá 25. júní 1950 er landamerkjum úthlutans lýst svo: „Landamerki hins seljandi (sic) hluta jarðarinnar eru að utan landamerki Sandfells og Hólkots, að sunnan bæjarlækur sem skiptir frá fjalli að túni, þaðan í vörðu á siðra (sic) melhorni utan við túnið og bein lína úr vörðu þessari ofan í klöpp niður við á.“ Með afsali dagsettu 20. júní 2009 seldi stefndi Hjálmar stefnda Guðmundi 35.257 fermetra spildu úr landi Hólkots. Afsali þessu var þinglýst án athugasemda hjá sýslumanninum á Sauðárkróki um miðjan ágúst 2009 en áður hafði Sveitarstjórn Skagafjarðar samþykkt söluna og þá hafði Landbúnaðarráðuneytið leyst jarðarpartinn úr landbúnaðarnotum og staðfest landskiptin.

Ekki er ágreiningur milli aðila um hvar lína sem nær frá klöpp niður við á í vörðu á melhorni skuli dregin. Hins vegar er ágreiningur um línu sem dregin er frá vörðunni að þeim stað sem stefna er tekin á fjallið og að mörkum á því. Liggur meginágreiningur aðila í því hversu langt sú lína skuli dregin til austurs. Land það sem stefndi Guðmundur telur sig eiga er að stórum hluta innan þeirra marka sem stefnandi telur að tilheyri sér.

III

Málsástæður og lagarök

Stefnandi reisir málatilbúnað sinn á því að landamerki Stekkjarbóls að sunnan og eftir fjallshrygg séu eins og fram komi í dómkröfum hans. Stefnandi segir að hnitsettir punktar í dómkröfum hans, sem mældir voru af Sighvati Elefsen verkfræðingi í september 2008, tengist með landamerkjalýsingu í afsali fyrir jarðarpartinum þannig að punktur 1 sé klöpp niður við á. Punktur 2 sé varða á syðra melhorni. Punktur 3 Bæjarlækur að túni sem þar hann fellur í skurð. Punktur 4 sé í Bæjarlæk en farvegur hans sé skýr að punkti 6. Punktur 5 sé þar sem Bæjarlækur fer undir girðingu. Punktur 6 sé þar sem tveir lækir frá fjalli sameinist. Punktur 7 sé við eystri og vatnsmeiri kvísl úr áberandi gili sem byrjar í þessum punkti. Punktur 8 sé klettur í gili 1 sem byrjar í þessum punkti. Síðan sé punktur 9 tekinn á fjallshrygg að austan og loks sá síðasti sunnar á fjallshryggnum.

Stefnandi vísar til þess að þegar stefndi Hjálmar seldi stefnda Guðmundi spildu hafi hann með bréfi dagsettu 14. ágúst gert báðum stefndu grein fyrir því að hann teldi spilduna ganga inn á sitt land. Engin viðbrögð hafi hins vegar orðið við bréfinu og þrátt fyrir ítrekaðar tilraunir til sátta, m.a. með atbeina sýslumannsins á Sauðárkróki, hafi ekki tekist að ná sátt í málinu.

Stefndi heldur því fram að landamerki milli Stekkjarbóls og Hólkots séu þau sem fram komi í þinglýstum kaupsamningi og afsali frá árinu 1950. Annað hafi ekki verið tekið fram um landamerki jarðanna þegar Sigurbjörn Sigmarsson seldi syni sínum Magnúsi Sigurbjörnssyni jörðina á árinu 1967 og heldur ekki er Magnús seldi jörðina nokkrum aðilum á árinu 1971 en stefnandi leiði rétt sinn yfir jörðinni frá þeim. Stefnandi byggir á því að landamerki jarðanna hafi ekki breyst frá árinu 1950 og sá sem haldi öðru fram beri sönnunarbyrði fyrir því.

Stefnandi vísar einnig til þess að stefndi Hjálmar hafi sagt henni og eiginmanni hennar og fleiri að tilgreindur Bæjarlækur í landamerkjalýsingunni sé bæjarlækur Hólkots sem kemur úr Bæjargili og hann ráði merkjum milli Hólkots og Stekkjarbóls.

Stefnandi hafnar mótbárum stefnda Hjálmars þess efnis að strax eftir kaup Sigurbjörns bróður hans á hluta Hólkots hafi verið ráðist í að gera áveituskurð þar sem þeir töldu landamerki jarðanna vera innan túna og þeir afmarkað úthaga með girðingu út frá túngirðingu upp í fjall í svonefnt Merkigil. Stefnandi hafnar því einnig að síðari eigendur Stekkjarbóls hafi mátt ætla að landamerki jarðanna væru á þessum stað og segir að lýsing stefnda Hjálmars á landamerkjum jarðanna sem eftir honum er höfð í örnefnaskrá fyrir Hólkot hafi ekki þýðingu í málinu. Örnefnin Merkjagil og Merkjalækur, sem fram koma í örnefnaskránni, séu nýyrði og hvorki Sigurbjörn Sigmarsson né síðari eigendur Stekkjarbóls hafi samþykkt þau. Stefnandi hafnar því að í þessum nafngiftum séu fólgin tilgreind mörk milli jarðanna. Þá heldur stefndi því fram að loftmynd, þar sem merki jarðanna hafa verið merkt með línu og stefndi Hjálmar og bróðir hans Sigurbjörn rita báðir nafn sitt á árið 2006, hafi enga þýðingu í máli þessu, enda sé sú lína ekki í samræmi við landamerki jarðanna eins og þeim er lýst í afsali.

Hvað lagarök varðar vísar stefnandi til 122. gr. laga um meðferð einkamála nr. 91/1991. Málið sé sótt í þeirri þinghá þar sem fasteignin er, sbr. 1. mgr. 34. gr. nefndra laga nr. 91/1991. Þeim sem telja sig hafa þinglýstar eignarheimildir yfir landi stefnanda sé stefnt í málinu en eign stefnanda sé varin af 72. gr. stjórnarskrár lýðveldisins Íslands. Krafa um málskostnað úr hendi stefndu er reist á 3. mgr. 129. og 1. og 3. mgr. 130. gr. laga um meðferð einkamála. Krafa um virðisaukaskatt á málflutningsþóknun er reist á lögum nr. 50/1988 um virðisaukaskatt.

Stefndu reisa kröfu sína um sýknu á því að enginn ágreiningur sé um að merkin hafi frá upphafi verið eins og þau eru dregin á loftmynd frá árinu 2005. Stefnandi leiði rétt sinn frá upphaflegum eiganda Stekkjarbóls sem ásamt stefnda Hjálmari lagði þau mörk sem þeir voru sammála um að skyldu gilda. Í 60 ár hafi sömu mörk skipt jörðunum og aldrei þar til nú hafi verið ágreiningur um þau. Margir eigendur hafi verið að Stekkjarbóli en enginn þeirra hafi haldið því fram að merkin sem áveituskurðurinn og girðingin mörkuðu hafi verið röng. Stefnandi hafi átt eignaraðild að Stekkjarbóli frá árinu 1986 og samþykkt þessi merki í tæp 25 ár. Raunar hafi eiginmaður stefnanda verið einn þeirra sem keyptu Stekkjarból 1971 og því megi halda því fram að hún hafi um áratugaskeið samþykkt að landamerki jarðanna væru við áveituskurðinn og girðinguna.

Stefndu halda því fram að stefnandi hafi sönnunarbyrði fyrir því að fullyrðingar hans um breytt landamerki skuli teknar til greina og því þurfi þeir ekki að sýna fram á að kröfur stefnanda séu rangar.

Stefndu byggja á því að hvorki sé sannað né viðurkennt að sú lína sem stefnandi heldur fram að sé landamerki jarðanna sé hin sama og eigendur jarðanna komu sér saman um á árinu 1950. Því sé ofmælt hjá stefnanda að um þinglýst landamerki milli Stekkjarbóls og Hólkots sé að ræða. Þrátt fyrir að afsalinu frá 1950 hafi verið þinglýst segi það ekkert um það að túlkun stefnanda á landamerkjum jarðanna sé nær lagi en þau mörk sem sett voru með áveituskurðinum og girðingunni. Allt eins megi halda því fram að þau mörk séu einmitt hin þinglýstu merki jarðanna, enda hafi þáverandi eigendur jarðanna verið sammála um að þessi merki skyldu gilda. Í þessu sambandi benda stefndu á að lækur sá sem skiptir engjum samkvæmt upphaflegum kaupsamningi hafi runnið töluvert innar en núverandi merkja- og áveituskurður, frá vörðunni á melhorninu. Stefndi Hjálmar hafi látið bróður sinn hafa talsvert land til ræktunar þannig að merkjaskurðurinn er nær heimalandi Hólkots en upphaflega var um samið. Þá halda stefndu því fram að aðstæður allar séu þannig að fráleitt geti talist að stefndi Hjálmar hafi með sölu á úthluta jarðarinnar selt allt fjallið og heimaland niður að bæ en við skoðun á aðstæðum megi sjá að slíkt sé fráleitt. Sé skilningur stefnanda réttur megi sjá að fjárhús stefnda Hjálmars hefðu nánast fallið til Stekkjarbóls og brynningarkostir Hólkots úr vatnsbóli hefðu þá verið seldir frá jörðinni. Af þessu megi ráða að krafa stefnanda sé öfgafull og röng.

Stefndu benda máli sínu til stuðnings á skýrt boð 1. gr. landamerkjalaga nr. 41/1919 en þar komi fram að eigendum jarða sé skylt að setja glögg merki milli jarða, svo sem með girðingum, skurðum eða vörðum. Þetta hafi eigendur Stekkjarbóls og Hólkots gert með áðurnefndum áveituskurði og girðingu til fjalls. Þannig hafi eigandi Stekkjarbóls samþykkt og gengið frá merkjum til marks um það land sem hann var að kaupa. Síðari eigendur Stekkjarbóls geti ekki 60 árum síðar haldið því fram að túlkun þeirra á merkjum jarðanna sé réttari en túlkun þess manns sem upphaflega keypti jörðina. Stefnandi eigi ekki meiri og víðtækari réttindi en upphaflegur eigandi jarðarinnar átti, en hann hafi sjálfur afmarkað land sitt. Stekkjarból hafi allt frá upphafi gengið kaupum og sölum með þessum sömu merkjum.

Stefndu benda einnig á orðalag kaupsamningsins frá árinu 1950. Þar sé tekið fram að verið er að selja úthluta jarðarinnar Hólkots. Af skjali því sem kaupandi og seljandi undirrituðu á árinu 2006 megi ráða að þegar úthlutinn var seldur hafi hvor jörðin um sig verið rétt rúmir 100 hektarar að stærð. Að mati stefndu samræmist það þeirri staðreynd að ekki hafi staðið til að leggja niður búskap á Hólkoti eða þrengja svo að jörðinni að þar yrði ekki búið lengur. Að sama skapi hafi Stekkjarból átt að hafa þokkalegt landrými og hluta túna. Nái kröfur stefnanda fram að ganga yrði land Stekkjarbóls 127 hektarar að stærð en Hólkots 87 hektarar. Þessi niðurstaða samrýmist ekki orðalagi í afsali þess efnis að úthluti jarðarinnar sé seldur, þvert á móti hefði með þessum gerningi verið seldur meginpartur jarðarinnar Hólkots.

Stefndu vísa máli sínu til stuðnings einnig til þess að frá árinu 1972 hafi legið fyrir lýsing stefnda Hjálmars á merkjum jarðanna í örnefnaskrá. Þar séu landamerki dregin eftir áveituskurðinum og landamerkjagirðingunni. Í örnefnaskránni sé þess einnig getið að land Stekkjarbóls hafi átt að vera á bilinu þriðjungur til helmings af landi Hólkots. Engin andmæli hafi komið fram gegn þessari lýsingu frá því að hún var gerð.

Varðandi málsástæðu stefnanda þess efnis að gil það sem skilur jarðirnar að sé, í örnefnaskrá, nefnt Merkigil og lækurinn sem úr því rennur sé nefndur Merkjalækur en um sé að ræða nýyrði segja stefndu að það sé ekki óeðlilegt að þessar nafngiftir hafi komið til einmitt vegna þess að verið var að skipta Hólkoti í tvær jarðir. Því séu þessar nafngiftir eðlilegar og réttar. Stefnandi haldi því ekki fram að gilið eigi að bera annað nafn eða eldra. Bæjargil sem nefnt er í stefnu sé hins vegar þekkt og hafi heitið því nafni frá ómunatíð. Stefndu halda því fram að afar ólíklegt sé að þess hefði ekki verið getið ef það átti að ráða merkjum milli jarðanna, enda þekkt kennileiti.

Stefndu benda einnig á að sýslumaðurinn á Sauðárkróki og landbúnaðar-ráðuneytið hafi staðfest sölu stefnda Hjálmars til stefnda Guðmundar úr landi Hólkots og afsali hafi verið þinglýst án athugasemda. Einungis stefnandi hafi aðra túlkun á merkjum jarðanna, en fyrri eigendur Stekkjarbóls hafi ekki túlkað merkin með sama hætti og stefnandi.

Stefndu halda því einnig fram, burtséð frá túlkun á landamerkjalýsingunni í upphaflegu afsali er tekur til Stekkjarbóls, að stefndi Hjálmar hafi öðlast eignarrétt yfir öllu landi innan marka áveituskurðarins og girðingarinnar, svo og merkjalínunnar til fjalls, fyrir hefð. Í 1. gr. hefðarlaga komi fram að vinna megi eignarrétt með hefð yfir hvaða hlut sem er án tillits til þess hvort hann var áður í eigu einstaklings eða opinber eign. Meginskilyrði fyrir hefð sé 20 ára óslitið eignarhald að uppfylltum ákveðnum skilyrðum. Hvað fasteign varðar séu skilyrðin í fyrsta lagi aðgerðarleysi rétthafans gagnvart hefðanda. Í öðru lagi beiting hefðanda á rétti eiganda, þ.e. óslitið eignarhald hefðanda (eða forvera hans) á viðkomandi eign í fullan hefðartíma, sbr. 1. gr. laga um hefð. Með eignarhaldi eða beitingu réttar sé hér átt við að hefðandinn verði að hafa ráðið yfir viðkomandi eign eða eignarhluta. Hefðandinn verði að hafa haft full verkleg og lagaleg umráð yfir eigninni og farið með hana sem sína eign eins og hann ætti beinan eignarrétt yfir eigninni allan hefðartímann. Í þriðja lagi sé það skilyrði að hefðandi hafi ekki náð rétti eða umráðum yfir viðkomandi eign með glæp eða óráðvandlegu atferli, sbr. 2. mgr. 2. gr. laga um hefð. Í fjórða lagi sé þess krafist að hefðandi hafi ekki fengið viðkomandi eign að veði, til geymslu, til láns eða leigu, sbr. 3. mgr. 2. gr. laga um hefð. Loks sé það skilyrði að hefðandi sé grandlaus um betri rétt eigandans.

Af hálfu stefndu er á því byggt að ekkert komi fram í gögnum málsins sem sýni fram á einhverjar aðgerðir af hálfu eigenda Stekkjarbóls gagnvart fullum notum stefnda Hjálmars af landinu. Stefndi Hjálmar heldur því fram að hann hafi allt frá árinu 1950 nýtt þann hluta Hólkots sem stefnandi telur nú að tilheyri Stekkjarbóli. Af þessu megi ráða að liðinn sé þrefaldur sá tími sem krafist er í lögum um hefð. Jafnvel þótt eingöngu yrði miðað við þann tíma sem stefnandi hefur átt Stekkjarból sé fullur hefðartími liðinn en hann hafi átt jörðina í 23 ár þegar stefndi Hjálmar seldi stefnda Guðmundi spildu úr Hólkoti og því séu liðin 24 ár frá því að stefnandi eignaðist Stekkjarból og þar til hann höfðar mál þetta. Stefndu telja augljóst að önnur þau skilyrði fyrir hefð sem fjallað er um séu uppfyllt. Það er því mat stefndu að hver svo sem túlkun landamerkjalýsingarinnar verður þá hafi stefndi Hjálmar hefðað eignarrétt innan þeirra marka sem hann telur falla innan landamerkja Hólkots. Loks benda stefndu á að stefnandi hafi haft meira en 20 ár til að gera athugasemdir við ríkjandi landamerki en hann hafi kosið að gera það ekki og ekki einu sinni nefnt að vera kunni að ágreiningur sé um merkin. Því verði að telja að stefnandi hafi, vegna vítaverðs tómlætis, fyrirgert öllum sínum rétti til að hafa uppi ágreining þennan. Allt framangreint leiði til þess að sýkna verði stefndu af kröfum stefnanda.

Hvað lagarök varðar vísa stefndu til meginreglna íslensks réttar um sönnun og sönnunarbyrði. Þeir reisa mál sitt einnig á meginreglum landamerkjalaga nr. 4/1919 og lögum um hefð nr. 46/1905. Krafa um málskostnað úr hendi stefnanda er reist á 1. og 3. mgr. 129. gr. og 1. mgr. 130. gr. laga nr. 91/1991 um meðferð einkamála. Krafa um virðisaukaskatt á málskostnað er byggð á lögum nr. 50/1988 um virðisaukaskatt.

IV

Niðurstaða

Við aðalmeðferð málsins fór dómari málsins á vettvang ásamt fulltrúum aðila og lögmönnum þeirra. Við vettvangsgönguna mátti glögglega sjá aðstæður allar, m.a. skurðinn sem stefndu segja vera á merkjum jarðanna en hann mun hafa verið grafinn árið 1953. Vestan skurðarins er ræktað land sem í daglegu tali myndi nú kallast tún en austan hans er nokkuð þýfð spilda sem stefndi Guðmundur telur sig eiga í dag. Af ummerkjum af vettvangi mátti sjá að áður fyrr var nánast allt land Hólkots frekar þýft líkt og spildan sem stefndi Guðmundur heldur fram að sé í hans eigu. Ofan við túnið og spilduna er girðing sem liggur í austur-vestur og afmarkar úthaga jarðanna. Ekki er um það deilt að girðing hafi verið á þessum stað í áratugi. Af hálfu stefndu er því haldið fram að girðing hafi verið reist frá áðurnefndum skurði í átt til fjalls og hún hafi ráðið merkjum milli jarðanna. Við munnlegan flutning málsins lýsti lögmaður stefnanda efasemdum um að girðing hafi verið á þessum stað. Stefnandi hefur lagt fram skjal þar sem hann gerir athugasemdir við örnefnaskrá. Í því skjali kemur m.a. fram að stefndi Hjálmar hafi tekið girðingar sem voru á milli bæjanna og verður ekki annað ráðið en að þar sé verið að tala um girðingu þá sem stefndu halda fram að sé á merkjum. Að þessu virtu og framburði stefndu fyrir dóminum og vitnisins xx Hjálmarssonar telst sannað að girðing hafi í áratugi staðið þar sem stefndu halda fram að merki jarðanna liggi. Við vettvangsgönguna mátti einnig glögglega sjá læk þann sem stefnandi telur að ráði merkjum en hann rennur í gegnum spilduna, sem stefndi Guðmundur telur sig eiga, í skurð sem liggur í austur-vestur skammt ofan við íbúðarhúsið í Hólkoti. Þá mátti einnig sjá að lækurinn skiptist í þrjár sprænur í fjallshlíðinni en stefnandi telur að merki jarðanna ráðist af læknum þar sem hann rennur úr gili sem hann kallar Bæjargil. Stefndu hafa haldið því fram að lækurinn hafi áður runnið á öðrum stað inn á túnið. Af framangreindu má ráða að af staðháttum var auðvelt að greina hvar stefnandi telur merki jarðanna liggja og þá mátti einnig mjög skýrt greina hvar stefndu telja að merki jarðanna séu.

Í máli þessu er kröfugerð þannig háttað að stefnandi krefst þess að merki jarðanna verði ákveðin eftir hnitsettum punktum sem hann hefur látið merkja á kort sem er meðal gagna málsins. Stefndu krefjast aftur á móti sýknu af kröfum stefnanda en hafa ekki gert kröfu um að merkin verði dregin með þeim hætti sem þeir telja að þau séu. Við aðalmeðferð málsins leitaði dómari eftir sjónarmiðum aðila um hvort efni væru til að dómari ákvæði merki með öðrum hætti en lýst er í kröfu stefnanda ef hann teldi að rétt væri að taka kröfu stefnanda ekki til greina eins og henni er lýst í stefnu. Stefnandi lýsti því yfir af þessu tilefni að hann féllist ekki á að þannig væri farið með málið. Þá leitaði dómari einnig eftir sjónarmiðum stefndu varðandi það hvort hinir hnitsettu punktar í stefnu væru rétt merktir á kortið. Stefndu töldu ekki ástæðu til að draga í efa að punktarnir væru réttir en ítrekuðu að þeir teldu línuna dregna á röngum stað. 

Að framan er rakið hvernig merkjum er lýst í kaupsamningi milli stefnda Hjálmars og Sigurbjörns bróður hans frá árinu 1950. Merkjum jarðanna er ekki lýst í öðrum kaupsamningum eða afsölum þegar Stekkjarból eða hlutar ganga kaupum og sölum. Áður er þess getið að ekki er ágreiningur milli aðila um fyrstu tvo punktana sem nefndir eru í stefnu, þ.e. línu sem dregin er frá klöpp við ána í vörðu á syðra melhorni. Hins vegar er ágreiningur um hvar merki jarðanna liggja frá vörðunni og til fjallseggjar. Í kaupsamningi bræðranna segir að Bæjarlækur skipti landi frá fjalli að túni og þaðan í vörðu á syðra melhorni utan við túnið. Til þess að leysa úr kröfu verður ekki hjá því komist að ákvarða hvar mörk fjalls og túns eru þar sem lækurinn rennur inn á túnið. Hér verður að horfa til þess hvernig staðhættir voru á þeim tíma sem stefndi Hjálmar seldi bróður sínum úthluta Hólkots og við hvað var átt þegar talað var um tún í kaupsamningi bræðranna. Þegar landamerkjabréfið var gert voru ekki ræktuð tún ofan við Hólkot heldur nokkuð þýft land sem kallað var tún, enda var það slegið með orfi og ljá. Þá bendir orðalagið í kaupsamningnum, í þá veru að varðan á syðra melhorni hafi staðið utan við túnið, eindregið til þess að verið sé að vísa til þessa sama túns, enda var þarna á þessum tíma ekki ræktað land eins og það er í dag. Að þessu virtu og með tilliti til staðhátta er það mat dómsins að í kröfugerð sinni hefði stefnanda borið að draga línu úr vörðunni á syðra melhorni í þann stað þar sem Bæjarlækur rennur undir girðingu (punktur 05) en þar voru mörkin milli fjalls og túns þegar kaupsamningurinn var gerður, hafi lækurinn á annað borð runnið inn á túnið á sama stað og hann gerir nú en stefndu hafa andmælt því. Hafi lækurinn runnið eins og hann gerir nú er kröfugerð stefnanda þannig háttað að hann dregur línu of mikið til austurs og þaðan til suðurs eftir læknum í stað þess að draga línuna beint úr vörðunni til suðausturs í lækinn þar sem hann rennur inn á túnið. Þegar af þeirri ástæðu að kröfugerð stefnanda er ekki í samræmi við lýsingu landamerkja eins og hann telur þau vera í upphaflegum kaupsamningi ber að sýkna stefndu af kröfum stefnanda. Að mati dómsins er þessi niðurstaða innan marka kröfugerðar stefndu en þeir héldu því fram í greinargerð sinni að ágreiningur væri milli aðila um línu sem liggur frá vörðunni og að þeim stað sem stefna er tekin á fjallið og að mörkum á því. Meginágreiningur aðila liggi í því hversu langt sú lína er dregin til austurs, enda ráðist af því hversu mikið land Stekkjarbóls stækkar á kostnað Hólkots. Af þessu leiðir að í máli þessu verður ekki tekin afstaða til annarra málsástæðna stefndu sem þeir telja að leiði til sýknu.

Með hliðsjón af þessari niðurstöðu verður stefnandi dæmdur til að greiða hvorum stefndu um sig 251.000 krónur í málskostnað að meðtöldum virðisaukaskatti. Við ákvörðun málskostnaðar hefur verið tekið tillit til þess að áður hefur verið leyst úr ágreiningi um þinglýsingu stefnu svo og þess tíma sem fór í ferðalag lögmanns stefndu við aðalmeðferð málsins.

Af hálfu stefnanda flutti málið Hlöðver Kjartansson hæstaréttarlögmaður en af hálfu beggja stefndu Skarphéðinn Pétursson hæstaréttarlögmaður.

Halldór Halldórsson dómstjóri kveður upp dóm þennan. 

Dómsorð

Stefndu, Hjálmar Sigmarsson og Guðmundur U. D. Hjálmarsson, eru sýkn af kröfum stefnanda, Svanfríðar Kjartansdóttur.

Stefnandi greiði stefndu hvorum um sig 251.000 krónur í málskostnað.