Hæstiréttur íslands

Mál nr. 570/2008


Lykilorð

  • Kærumál
  • Sjálfræðissvipting
  • Fjárræði


                                     

Föstudaginn 31. október 2008.

Nr. 570/2008.

A

(Björgvin Þórðarson hdl.)

gegn

B og

C

(Þórdís Bjarnadóttir hdl.)

 

Kærumál. Sjálfræðissvipting. Fjárræðissvipting.

Hæstiréttur staðfesti úrskurð héraðsdóms um að A yrði svipt sjálfræði og fjárræði í sex mánuði á grundvelli a. liðar 4. gr. og 5. gr. lögræðislaga nr. 71/1997.

  

Dómur Hæstaréttar.

Mál þetta dæma hæstaréttardómararnir Árni Kolbeinsson, Gunnlaugur Claessen og Ólafur Börkur Þorvaldsson.

Sóknaraðili skaut málinu til Hæstaréttar með kæru 17. október 2008, sem barst réttinum ásamt kærumálsgögnum 21. sama mánaðar. Kærður er úrskurður Héraðsdóms Reykjaness 10. október 2008, þar sem sóknaraðila var gert að sæta sviptingu fjárræðis og sjálfræðis í 6 mánuði frá 22. september 2008 að telja. Kæruheimild er í 1. mgr. 16. gr. lögræðislaga nr. 71/1997. Sóknaraðili krefst þess aðallega að hinn kærði úrskurður verði felldur úr gildi en til vara að henni verði einungis gert að sæta sjálfræðissviptingu í 6 mánuði. Þá er þess krafist að skipuðum verjanda sóknaraðila verði dæmd þóknun í héraði og fyrir Hæstarétti. 

Varnaraðilar krefjast staðfestingar hins kærða úrskurðar. Þær krefjast einnig hækkunar á þóknun skipaðs talsmanns þeirra í héraði ásamt kærumálskostnaði.

Varnaraðilar hafa ekki kært úrskurð héraðsdóms fyrir sitt leyti og kemur krafa þeirra um endurskoðun á þóknun talsmanns þeirra í héraði því ekki til álita.

Með vísan til forsendna hins kærða úrskurðar verður hann staðfestur.

Samkvæmt 1. mgr. 17. gr. lögræðislaga greiðist þóknun skipaðs verjanda sóknaraðila og skipaðs talsmanns varnaraðila fyrir Hæstarétti úr ríkissjóði, sem er hæfilega ákveðin eins og í dómsorði greinir.

Dómsorð:

Hinn kærði úrskurður er staðfestur.

Þóknun skipaðs verjanda sóknaraðila, Björgvins Þórðarsonar héraðsdómslögmanns, og skipaðs talsmanns varnaraðila, Þórdísar Bjarnadóttur héraðsdómslögmanns, fyrir Hæstarétti, 120.000 krónur handa hvoru, greiðist úr ríkissjóði.

 

Úrskurður Héraðsdóms Reykjaness 10. október 2008.

Með beiðni dagsettri 18. september sl., hafa þær B, [heimilisf.], Reykjavík og C, [heimilisf.], Hafnarfirði krafist þess að móðir þeirra A, kt. [...], [heimilisf.], Hafnarfirði verði svipt lögræði, bæði fjárræði og sjálfræði í 6 mánuði.

Einnig er þess krafist að þóknun talsmanns sóknaraðila verði greidd úr ríkissjóði.

Málavextir og málsástæður sóknaraðila:

Varnaraðili er móðir sóknaraðilja, sem eru einu börn varnaraðila.  Varnaraðili er ekki í hjúskap. 

Varnaraðili hefur að sögn sóknaraðilja um nokkurt skeið þjáðst af geðhvarfasjúkdómi.  Geðlæknir hennar, Kjartan J. Kjartansson, hefur fylgst með henni um fjögurra ára skeið.  Hann kveður hana haldna alvarlegum geðsjúkdómi og hafi verið með geðrofseinkenni við innlögn á geðdeild í lok ágúst sl.  Varnaraðili var nauðungarvistuð 1. september s.l.  Hún kærði þá nauðungarvistun sem var staðfest í héraði. Úrskurð héraðsdóms kærði hún til Hæstaréttar sem einnig staðfesti nauðungarvistunina.  Nauðungarvistun varnaraðila rann út 21. september sl.

Það er mat meðferðarlæknis varnaraðila, framangreinds Kjartans, sem fram kemur í meðfylgjandi læknisvottorði, dags. 17. september 2008, að brýnt og óhjákvæmilegt sé að vista varnaraðila áfram á geðdeild vegna alvarlegs geðsjúkdóms, geðhvarfa, svo hægt sé að koma við meðferð og tryggja öryggi hennar og annarra.  Að mati læknisins hefur varnaraðili takmarkað innsæi í sinn sjúkdóm, meðferðarheldni hefur verið lítil og geðrofseinkenni hafa komið æ betur í ljós eftir því sem liðið hefur á dvöl hennar í núverandi legu.  Það er jafnframt mat læknisins að vegna geðrofsástands síns sé hún mögulega hættuleg sjálfri sér eða öðrum og hún sé ófær að ráða högum sínum vegna veikinda sinna.

Fjármál varnaraðila hafa farið úr böndum að undanförnu.  Hún hefur verið í mikilli eyðslu og eytt langt um efni fram. Frá þessu er jafnframt greint í fyrrgreindu læknisvottorði.  Telja sóknaraðiljar mikla hættu á að hún missi allar eigur sínar ef fram heldur sem horfir, því telja þeir nauðsynlegt að varnaraðili verði auk sjálfræðis jafnframt svipt fjárræði.  Meðfylgjandi er listi sóknaraðilja yfir eyðslu og breytta hegðun varnaraðila. 

Með vísan til framangreinds og meðfylgjandi læknisvottorðs verður að telja nauðsynlegt að svipta varnaraðila tímabundið lögræði.

Vísað er til II. kafla lögræðislaga nr. 71/1997, sérstaklega  4., 5., 10. og 17. gr. laganna. 

Af hálfu varnaraðila er á því byggt að ekki séu fyrir hendi skilyrði 4. og 5. gr. lögræðislaga til lögræðissviptingar hennar. Varnaraðili gaf skýrslu hér fyrir dóminum í dag og kannaðist við að hafa verið þunglynd en sagði ekki hafa borið á geðhvörfum. Varnaraðili kvaðst vera fullfær um að ráða högum sínum sjálf og mótmælti því að hún yrði svipt lögræði og þvinguð til lyfjatöku.

Niðurstaða.

Í málinu liggur frammi læknisvottorð Kjartans J. Kjartanssonar geðlæknis dagsett 17. september 2008 sem hann hefur staðfest fyrir dóminum. Þar segir m.a. að hann hafi verið læknir varnaraðila undanfarin 4 ár. Í vottorðinu kemur m.a. fram að varnaraðili hafi við innlögn þann 30. ágúst sl. haft greinileg geðrofseinkenni, fundist hún ofsótt af lögreglu og verið ógnandi við samsjúklinga og haft í hótunum við ættingja. 

Niðurstaða læknisins er sú að brýnt sé að nauðungarvistun varnaraðila haldi áfram á geðdeild vegna alvarlegs geðsjúkdóms svo unnt sé að koma við meðferð og tryggja öryggi hennar og annarra. Telur læknirinn jafnframt að vegna geðrofsástands sé varnaraðili óútreiknanleg og mögulega hættulega sjálfri sér og öðrum.

Dómari hlutaðist til um það að ósk varnaraðila að annar læknir yrði fenginn til þess að kanna hagi hennar og geðheilsu í því skyni að meta hvort það væri henni fyrir bestu að sæta lögræðissviptingu eins og krafist er í málinu. Var til þess fenginn Tómas Zoëga geðlæknir og lét hann dóminum í té læknisvottorð, dags. 1. október sl. sem liggur frammi í dóminum. Átti hann við hana þrjú viðtöl 26., 29. og 30. september sl. Staðfesti Tómas ítarlegt læknisvottorð sitt fyrir dóminum en samkvæmt því kemst hann að þeirri niðurstöðu að varnaraðili sé vegna alvarlegs geðsjúkdóms ófær um að ráða persónulegum högum sínum og að brýna nauðsyn beri til að meðhöndla hana um einhvern tíma gegn vilja hennar á geðsjúkrahúsi. Er Tómas því meðmæltur að fram-komin krafa um lögræðissviptingu nái framgangi.

Þegar litið er til þess sem að framan er rakið, framagnreindra læknisvottorða, vættis geðlækna hér fyrir dóminum er það niðurstaða dómsins að uppfyllt séu skilyrði a-liðar 4. gr. og 5. gr. lögræðislaga fyrir tímabundinni lögræðissviptingu varnaraðila eins og krafist er. Rétt þykir að miða upphaf sviptingar við lok nauðungarvistunar sem lauk 21. september 2008.

Í samræmi við 17. gr. lögræðislaga greiðist þóknun skipaðs talsmanns sóknaraðilja og skipaðs verjanda varnaraðila úr ríkissjóði eins og nánar segir í úrskurðarorði.

Sveinn Sigurkarlsson héraðsdómari, kveður upp úrskurð þennan.

Úrskurðarorð

Varnaraðili, A, skal sæta lögræðissviptingu, bæði fjárræðis og sjálfræðis í 6 mánuði frá 22. september 2008 að telja.

Þóknun talmanns sóknaraðila Þórdísar Bjarnadóttur héraðsdómslögmanns og verjanda varnaraðila Björgvins Þórðarsonar héraðsdómslögmanns, að fjárhæð 99.600 krónur til hvors um sig, greiðist úr ríkissjóði og hefur þá verið tekið tillit til virðisaukaskatts.