Hæstiréttur íslands
Mál nr. 140/2012
Lykilorð
- Kærumál
- Vanreifun
- Aðild
- Frávísunarúrskurður staðfestur
|
|
Mánudaginn 12. mars 2012. |
|
Nr. 140/2012.
|
Sturla Hólm Jónsson (sjálfur) gegn Hjördísi Önnu Sigurðardóttur (Jón Auðunn Jónsson hrl.) |
Kærumál. Vanreifun. Aðild. Frávísunarúrskurður héraðsdóms staðfestur.
S höfðaði mál gegn H, ritara lögmannsstofu, til heimtu skaðabóta vegna innheimtubréfs sem hún sendi S vegna ætlaðrar skuldar hans við banka, en lögmannsstofunni hafði verið falin innheimta kröfunnar. S taldi að í bréfinu hefði falist meingerð í hans garð. Staðfestur var úrskurður héraðsdóms um frávísun málsins frá dómi vegna vanreifunar á aðild málsins.
Dómur Hæstaréttar.
Mál þetta dæma hæstaréttardómararnir Ólafur Börkur Þorvaldsson, Greta Baldursdóttir og Jón Steinar Gunnlaugsson.
Sóknaraðili skaut málinu til Hæstaréttar með kæru 27. febrúar 2012 sem barst héraðsdómi sama dag og Hæstarétti ásamt kærumálsgögnum 2. mars sama ár. Kærður er úrskurður Héraðsdóms Reykjaness 14. febrúar 2012, þar sem máli sóknaraðila á hendur varnaraðila var vísað frá dómi. Kæruheimild er í j. lið 1. mgr. 143. gr. laga nr. 91/1991 um meðferð einkamála. Sóknaraðili krefst þess að hinn kærði úrskurður verði felldur úr gildi og að lagt verði fyrir héraðsdóm að taka málið til efnismeðferðar. Þá krefst hann kærumálskostnaðar.
Varnaraðili krefst staðfestingar hins kærða úrskurðar og kærumálskostnaðar.
Ekki eru efni til að verða við kröfu sóknaraðila um að kærumál þetta verði flutt munnlega.
Sóknaraðili hefur meðal annars dregið í efa að lögmaður varnaraðila hafi haft umboð til að reka málið fyrir hana. Samkvæmt 1. mgr. 21. gr. laga nr. 77/1998 um lögmenn telst lögmaður sem sækir dómþing fyrir aðila hafa umboð til að gæta þar hagsmuna aðilans nema það gagnstæða sé sannað. Með þessari athugasemd en að öðru leyti með vísan til forsendna hins kærða úrskurðar verður hann staðfestur.
Sóknaraðili verður dæmdur til að greiða varnaraðila kærumálskostnað eins og í dómsorði greinir.
Dómsorð:
Hinn kærði úrskurður er staðfestur.
Sóknaraðili, Sturla Hólm Jónsson, greiði varnaraðila, Hjördísi Önnu Sigurðardóttur, 200.000 krónur í kærumálskostnað.
Úrskurður Héraðsdóms Reykjaness 14. febrúar 2012.
Mál þetta, sem tekið var til úrskurðar um frávísunarkröfu stefndu þann 23. janúar sl., var höfðað 21. október 2011.
Stefnandi er Sturla Hólm Jónsson, Tröllaborgum 7, Reykjavík.
Stefnda er Hjördís Anna Sigurðardóttir, Háahvammi 15, Hafnarfirði.
Stefnandi krefst þess að stefnda verði dæmd til að greiða honum 500.000 krónur ásamt dráttarvöxtum frá 15. ágúst 2011 til greiðsludags.
Stefnandi krefst málskostnaðar.
Stefnda krefst þess aðallega að málinu verði vísað frá dómi en til vara að hún verði sýknuð af öllum dómkröfum stefnanda.
Stefndi krefst málskostnaðar sem verði ákveðinn með álagi.
Stefnandi krefst þess að frávísunarkröfu stefnda verði hafnað.
I.
Stefnandi kveður stefndu hafa sent sér innheimtubréf 15. ágúst 2011 og notað til þess bréfsefni frá Lögmönnum Thorsplani, Fjarðargötu 7, Hafnarfirði. Innheimtubréf stefnanda vísi til meintrar skuldar stefnanda við Byr hf., kt. 620410-0200. Stefnandi kannist hins vegar ekki við að hafa tekið lán hjá Byr hf. Stefnda hafi ekki framvísað neinum löggiltum skuldaskjölum með innheimtubréfinu, þó lög kveði á um að slíkt afrit skuli fylgja ef innheimtubréf er sent út. Umboði stefndu til að taka að sér innheimtu fyrir Byr hf. hafi heldur ekki verið framvísað við stefnanda,
Stefnandi álíti innheimtubréfið alvarlega meingerð, þar sem stefnandi, hafi frá því bréfið barst, barist við svefnleysi, kvíða, streitu og magaverki, sem hafi valdið því að stefnandi hafi lent á sjúkrahúsi. Þetta hafi einnig komið niður á friðhelgi heimilis stefnanda og valdið heimiliserjum..
Stefnandi krefjist þess að málið verði sent lögreglu til rannsóknar ef dómari vísar málinu frá.
Um lagarök vísar stefnandi til 26. gr. laga nr. 50/1993 varðandi skaðabætur og meingerð. Um skuldskeytingar og umboð vísar stefnandi til Jónsbókar frá 1281, Kap. 23. Um vexti vísar stefnandi til IV. kafla vaxtalaga nr. 38/2001. Um dómaframkvæmd einkamála vísar stefnandi til 2. mgr. 50. gr. laga nr. 91/1991. Um samræmda evrópska dómaframkvæmd vísar stefnandi til 3. og 6. gr. laga nr. 2/1993. Um störf dómara og friðhelgi einkalífs vísar stefnandi til 61. og 71. gr. Stjórnarskrár lýðveldisins Íslands nr. 33/1944.
II.
Frávísunarkröfu sína byggir stefnda á því að málatilbúnaður stefnanda á hendur henni standist engar þær kröfur sem gerðar séu í lögum um meðferð einkamála og sé því vanreifaður. Nái það til allra þátta málsins, þ.e.a.s. kröfugerðarinnar sjálfrar, tilgreiningar málsástæðna og tengingu þeirra við málsaðila og dómkröfur, tilgreiningar lagaákvæða eða réttarreglna sem málatilbúnaðurinn byggist á og til framlagðra sönnunargagna. Málshöfðunin og málatilbúnaðurinn allur fari þannig í bága við ákvæði d, e, f og g liðar 1. mgr. 80. gr. laga nr. 91/1991 um meðferð einkamála.
Í málinu segist stefnandi gera kröfu um að stefnda greiði honum bætur. Hins vegar komi hvorki fram í stefnu né framlögðum gögnum hver grundvöllur bótakröfunnar sé. Ekkert samningssamband sé á milli aðila og því verði að álykta sem svo að krafist sé bóta vegna tjóns af völdum réttarbrota utan samninga. Í stefnu komi fram að stefnda hafi sent stefnanda innheimtubréf. Þessi fullyrðing sé alröng. Stefnda hafi sjálf aldrei sent stefnanda nein bréf, hvorki innheimtubréf né önnur bréf. Í raun hafi hún aldrei, hvorki fyrr né síðar átt nokkur samskipti við stefnanda. Fullyrðingum stefnanda um hið gagnstæða sé mótmælt sem röngum, villandi og ósönnuðum. Innheimtubréfið sem vísar er til í stefnu hafi verið sent af lögaðilanum Lögmenn Thorsplani s.f. Stefnda sé ekki eigandi þess félags og beri enga ábyrgð á neinu sem gert sé í þess nafni.
Engin tilraun sé gerð í stefnu til þess að sýna fram á saknæmi þess að undirrita innheimtubréf fyrir vinnuveitanda sinn og senda það í pósti. Ef um tilhæfulausa kröfugerð hefði verið að ræða hefði sökin væntanlega legið hjá kröfuhafanum, Byr hf., og síðan hjá Lögmönnum Thorsplani s.f. sem umboðsmanni hans. Ekki sé heldur sýnt fram á að um tilhæfulausa kröfugerð sé að ræða. Stefnandi hafi sannanlega fengið lánað fé, sbr. framlögð gögn, og hafi ekki greitt af því láni á réttum gjalddögum. Krafa þessi sé í eigu Byrs hf. samkvæmt ákvörðun FME, sem var til þess bært stjórnvald að lögum að færa þessa eign frá Byr sparisjóði.
Grundvöllur bótakröfunnar sé óútskýrður með öllu, hvort sem hann eigi að byggjast á reglum innan eða utan samninga.
Engin tilraun sé gerð í stefnu eða framlögðum gögnum til þess að sýna fram á að stefnandi hafi orðið fyrir tjóni. Hvað þá heldur að það tjón megi rekja til verknaðar sem stefnda beri ábyrgð á. Í stefnu sé því slegið fram að í innheimtubréfinu felist alvarleg meingerð án þess að skýra það með nokkrum hætti eða rökstyðja. Fullyrt sé að stefnandi hafi barist við svefnleysi frá því að bréfið barst. Meint orsakasamhengi sé hér alveg látið liggja milli hluta auk þess sem fullyrðingin sé alveg ósönnuð.
Stefnandi lýsi því einnig að hann hafi þjáðst af kvíða. Fyrir hverju hann kvíði svo mjög sé hins vegar ekki útskýrt og heldur ekki hvernig móttaka innheimtubréfsins komi þar við sögu. Þá eigi hann að hafa þjáðst af streitu og magaverkjum og að hafa lagst inn á sjúkrahús af þess völdum. Enga frásögn sé heldur að finna af því hvernig meint magapína stefnanda tengist móttöku innheimtubréfsins.
Þá segi í stefnu að innheimtubréfið hafi valdið erjum á heimili stefnanda. Um hvað þau hjón kíta sé hins vegar ekki fjallað. Varla geti það verið um uppruna skuldarinnar eða tilvist hennar þar sem eiginkona stefnanda áritaði veðskuldabréfið í upphafi og einnig tvær breytingar sem gerðar voru á því. Hvernig þessar erjur hjónanna varði stefndu sé ekki skýrt og engin tilraun sé gerð til að skýra það.
Sú krafa sé gerð í íslenskum rétti að sá sem krefur annan um fébætur sýni fram á bótagrundvöllinn, hvert tjón hans sé og hver fjárhæð þess sé. Ljóst sé að stefnandi hefur ekki sýnt fram á neinn grundvöll fyrir því að hann geti krafist bóta úr hendi stefndu né gert tilraun til þess. Hið sama gildi um meint tjón hans og fjárhæð þess. Ekki sé hægt að greina hvort stefnandi telji sig hafa orðið fyrir miska eða fjártjóni. Ef um meintan miska eigi að vera að ræða sé óútskýrt hvernig fjárhæð hans er fundin. Telji hann sig hafa orðið fyrir fjártjóni skorti alveg á að hann rökstyðji í hverju það felst og hvernig hann fái út að fjárhæð þess samsvari dómkröfunni.
Tilvísanir stefnanda til laga séu alveg óskiljanlegar og engin leið að átta sig á því hvernig þær reglur sem vísað er til eigi að tengjast kröfugerð hans og málatilbúnaði. Einkum eigi þetta við um vísun til reglna Jónsbókar um skuldskeytingu og umboð. Þá sé vísan í ákvæði laga nr. 38/2001 beinlínis röng þar sem um vexti af bótakröfum sé fjallað í IV. kafla laganna en ekki III. kafla.
Þessi málatilbúnaður sé í raun réttri óboðlegur. Sú spurning vakni óhjákvæmilega hvort málið sé höfðað af alvöru eða í þeim tilgangi einum að hæðast að réttarkerfinu í landinu. Stefnandi hafi ítrekað lýst því á opinberum vettvangi að hann geti stefnt öllum, einstaklingum, lögmönnum og dómurum svo dæmi séu tekin. Það sé gott og blessað en stefnandi verði um leið að gæta að því að misnota ekki með því dómskerfið eða valda öðrum tjóni að ósekju. Það sé ábyrgðarhluti.
Að öllu framansögðu sé því ljóst að málatilbúnaður stefnanda stenst engar þær kröfur sem réttarfarsreglur gera um glöggan og ljósan málatilbúnað. Málið sé fullkomlega vanreifað og gefi stefndu ekki kost á að taka til eðlilegra varna. Því beri að vísa því frá dómi.
III.
Í munnlegum málflutningi um frávísunarkröfu stefndu ítrekaði stefnandi þau sjónarmið sín að umboði stefndu hafi ekki verið framvísað þó lög kveði á um slíkt og þá hafi lögmannsréttindum lögmanns stefndu og starfsleyfi heldur ekki verið framvísað þó um það hafi verið beðið af stefnanda.
Byggir stefnandi á því að stefnda hafi sent stefnanda innheimtubréf og notað til þess bréfsefni frá Lögmönnum Thorsplani s.f. Innheimtubréfið hafi varðað meinta skuld stefnanda. Stefnda hafi ekki framvísað neinum löggiltum skjölum með innheimtubréfi sínu, ekki einu sinni veðbókarvottorði, þar sem þó komi fram hver veðskuldareigandi er. Hefði veðbókarvottorðinu verið framvísað hefði mátt sjá að Byr hf. er ekki skuldareigandi, þar sem áritun samkvæmt ákvörðun Fjármálaeftirlitsins, um ráðstöfun eigna og skulda, frá 22. apríl er ekki á umræddu veðbókarvottorði, sbr. þinglýsingarlög nr. 39/1978, 34 og 48. gr.
Stefnandi ítrekaði enn og aftur að eigi hafi verið framvísað umboði stefndu til að taka að sér innheimtu meintrar skuldar, né öðrum skjölum, skilríkjum og/eða vottun er rennt gætu stoðum undir lögmæti stefndu til innheimtu meintrar skuldar. Stefnda hafi eigi sýnt á neinn hátt fram á eða sannað aðild sína að málinu né leyfi til innheimtu meintrar skuldar og líti stefnandi því slíka sendingu sem ógn við friðhelgi einkalífs og heimilis. Stefnandi vitnaði síðan í málflutningi sínum til laga um neytendalán, 71. gr. Stjórnarskrár lýðveldisins Íslands, mannréttindasáttmála Evrópu, mannréttindayfirlýsingar Sameinuðu þjóðanna frá 10. desember 1948, laga um Evrópska efnahagssvæðið nr. 2/1991 og til laga um fjármálafyrirtæki nr. 161/2002 án þess þó að sýna fram á hvaða þýðingu þær tilvitnanir hafi varðandi úrlausn ágreinings í þessum þætti málsins. Þykja ekki efni til að gera þeim tilvitnunum sérstök skil. Í málflutningi sínum vék stefnandi á hinn bóginn lítið að þeim málsástæðum sem teflt er fram af hálfu stefndu til stuðnings frávísunarkröfu hennar.
IV.
Í 1. mgr. 80. gr. laga nr. 91/1991 um meðferð einkamála, stafliðum a- k, er kveðið á um hvað skuli greina í stefnu svo glöggt sem verða má. Samkvæmt staflið d skal í stefnu greina dómkröfur stefnanda, svo sem fjárhæð kröfu í krónum, bætur fyrir tiltekið skaðaverk án fjárhæðar ef enn er óvíst um hana, vexti ef því er að skipta, viðurkenningu á tilteknum réttindum, ákvörðun á eða lausn undan tiltekinni skyldu, refsingu fyrir tilgreind orð eða athafnir, ómerkingu tiltekinna ummæla, málskostnað o.s.frv. Samkvæmt staflið e skal í stefnu greina málsástæður sem stefnandi byggir málssókn sína á, svo og önnur atvik sem þarf að greina til þess að samhengi málsástæðna verði ljóst, en þessi lýsing skal vera gagnorð og svo skýr að ekki fari milli mála hvert sakarefnið er. Samkvæmt staflið f skal í stefnu koma fram tilvísun til helstu lagaákvæða eða réttarreglna sem stefnandi byggir málatilbúnað sinn á. Samkvæmt staflið g skal í stefnu greina helstu gögn sem stefnandi hefur til sönnunar og þau gögn sem telur að enn þurfi að afla.
Í máli þessu er upplýst að lögmönnum Thorsplani sf. var falin innheimta á skuld stefnanda við Byr hf. Byr hf. eignaðist kröfuna á hendur stefnanda samkvæmt ákvörðun Fjármálaeftirlitsins sem til þess bært stjórnvald færði þessa eign til Byrs hf. frá Byr sparisjóði. Er því ljóst að ekki var um tilhæfulausa kröfugerð af hálfu Byrs hf. að ræða, en Byr hf. fól Lögmönnum á Thorsplani sf. innheimtu kröfunnar. Af hálfu lögmannsstofunnar var stefnanda sent innheimtubréf það sem stefnandi byggir málssókn sína á og undirritaði ritari á lögmannsstofunni, stefnda í máli þessu, bréfið fyrir lögmannsstofuna. Stefnandi þykir hvorki hafa sýnt fram á réttarsamband milli hans og stefndu né önnur þau atvik sem réttlæti málssókn hans á hendur stefndu. Þykir stefnandi engin rök hafa fært fyrir heimild sinni til að stefna starfsmanni lögmannsstofu fyrir það eitt að sinna þeim starfskyldum sínum að senda stefnanda innheimtubréf lögmannsstofunnar. Þykir aðildarþáttur málsins verulega vanreifaður af stefnanda.
Stefnandi krefur stefndu um bætur að fjárhæð 500.000 krónur en á hinn bóginn kemur hvorki fram í stefnu hver sé bótagrundvöllur bótakröfunnar, hvort um sé að ræða krafa um bætur vegna réttarbrots innan eða utan samninga. Þykir grundvöllur bótakröfunnar því óútskýrður með öllu.
Þá er í stefnu hvorki sýnt fram á að um tilhæfulausa innheimtu lögmannsstofunnar hafi verið að ræða né sýnt fram saknæmi þess að ritari lögmannsstofunnar undirriti innheimtubréf fyrir vinnuveitanda sinn og sendi stefnanda i pósti.
Með öllu þykir skorta á rökstuðning fyrir því að í umræddu innheimtubréfi hafi falist meingerð í garða stefnanda og þykir stefnandi ekki hafa sýnt fram á að hann hafi orðið fyrir tjóni er rekja megi til verknaðar er stefnda beri ábyrgð á. Staðhæfingar stefnanda um að hann hafi þjáðst af streitu og magaverkjum og lagst inn á spítala af völdum innheimtubréfsins eru óútskýrðar og vanreifaðar. Stefnandi þykir hvorki hafa sýnt fram á grundvöll bótakröfu sinnar, né hvernig fjárhæð bótakröfunnar er fundin. Af málssókn stefnanda verður ekki ráðið hvort stefnandi telji sig hafa orðið fyrir miska eða fjártjóni. Þá verður að telja tilvísanir stefnanda til laga óskýrar torvelt að átta sig á því hvernig flestar þær reglur sem stefnandi vísar til tengist kröfugerð stefnanda og málatilbúnaði.
Að öllu því virtu sem að framan hefur verið rakið þykja þvílíkir annmarkar vera á málatilbúnaði stefnanda og málið svo vanreifað af hans hálfu og í andstöðu við meginreglur einkamálaréttarfars um glöggan og skýran málflutning, að ekki verður komist hjá því að vísa málinu frá dómi.
Er niðurstaða dómsins því sú að vísa beri máli þessu frá dómi.
Eftir framangreindum úrslitum verður stefnandi dæmdur til að greiða stefndu málskostnað sem þykir hæfilega ákveðinn 125.500 krónur. Hefur þá verið tekið tillit til 25,5% virðisaukaskatts á málflutningsþóknun. Ekki þykja ekki efni til að dæma álag á málskostnað.
Finnbogi H. Alexandersson héraðsdómari kveður upp úrskurð þennan.
Úrskurðarorð:
Máli þessu er vísað frá dómi.
Stefnandi, Sturla Hólm Jónsson, greiði stefndu Hjördísi Önnu Sigurðardóttur, 125.500 krónur í málskostnað.