Hæstiréttur íslands

Mál nr. 225/2009


Lykilorð

  • Kærumál
  • Akstur undir áhrifum ávana- og fíkniefna
  • Sönnunargögn


Þriðjudaginn 12

 

Þriðjudaginn 12. maí 2009.

Nr. 225/2009.

Ákæruvaldið

(Lárus Bjarnason, sýslumaður)

gegn

X

(Stefán Karl Kristjánsson hdl.)

 

Kærumál. Akstur undir áhrifum ávana- og fíkniefna. Sönnunargögn.

Hæstiréttur staðfesti niðurstöðu héraðsdóms þar sem hafnað var kröfu X um að ákæruvaldinu yrði gert óheimilt að leggja fram í málinu niðurstöður rannsókna á þvag- og blóðsýnum, sem tekin voru við rannsókn málsins.

 

Dómur Hæstaréttar.

Mál þetta dæma hæstaréttardómararnir Ólafur Börkur Þorvaldsson og Hjördís Hákonardóttir og Viðar Már Matthíasson settur hæstaréttardómari. 

Varnaraðili skaut málinu til Hæstaréttar með kæru 5. maí 2009, sem barst réttinum ásamt kærumálsgögnum 11. sama mánaðar. Kærður er úrskurður Héraðsdóms Austurlands 5. maí 2009, þar sem hafnað var kröfu varnaraðila um að sóknaraðila yrði gert óheimilt að leggja fram í málinu niðurstöður rannsókna á þvag- og blóðsýnum, sem tekin voru við rannsókn málsins. Kæruheimild er í p. lið 1. mgr. 192. gr. laga nr. 88/2008 um meðferð sakamála. Varnaraðili krefst þess að hinn kærði úrskurður verði felldur úr gildi og að tekin verði til greina krafa hans um að sóknaraðila sé óheimilt að leggja fram áðurnefnd gögn.

Sóknaraðili krefst þess að hinn kærði úrskurður verði staðfestur.

Með vísan til forsendna hins kærða úrskurðar verður hann staðfestur.

Dómsorð:

Hinn kærði úrskurður er staðfestur.

 

 

Úrskurður Héraðsdóms Austurlands 5. maí 2009.

Mál þetta er höfðað með ákæru lögreglustjórans á Seyðisfirði útgefinni 23. mars 2009 á hendur X, kt. [...], [...] „fyrir eftirtalin umferðarlagabrot á Fljótsdalshéraði:

I.  Með því að hafa mánudagskvöldið 19. janúar 2009, ekið bifreiðinni Y, óhæfur til að stjórna ökutæki örugglega vegna áhrifa ávana- og fíkniefna (tetrahýdrókannabínólsýra mældist í þvagi ákærða), um Fagradalsbraut til vinstri inn Kaupvang, þar sem lögregla stöðvaði aksturinn á móts við hús nr. 41.

II.  Með því að hafa síðdegis föstudaginn 23. janúar 2009, ekið bifreiðinni Y, óhæfur til að stjórna ökutæki örugglega vegna áhrifa ávana- og fíkniefna (amfetamín í blóði 100 ng/ml og tetrahýdrókannabínólsýra mældist í þvagi ákærða), frá skemmtistaðnum Tai Tai við Kaupvang 2, norður Kaupvang, þar sem lögreglan stöðvaði aksturinn við hús nr. 1.

Telst þetta varða við 1. mgr. sbr. 2. mgr. 45. gr. a., sbr. 1. mgr. 100. gr. umferðarlaga nr. 50/1987, sbr. breytingalög.

Þess er krafist að ákærði verði dæmdur til refsingar, til greiðslu alls sakarkostnaðar og til sviptingar ökuréttar skv. 101. og 102. gr. umferðarlaga nr. 50/1987, sbr. breytingalög.“

Forföll urðu af hálfu ákærða við þingfestingu málsins, en við fyrirtöku þess 28. apríl sl. neitaði ákærði sök.

Þá krafðist ákærði þess að dómurinn úrskurðaði að ákæruvaldinu yrði gert óheimilt að leggja fram gögn um niðurstöðu blóð- og þvagrannsókna, þar sem þessara gagna hafi verið aflað með ólögmætum hætti. Þá krafðist hann þess að verjanda hans yrði ákvörðuð þóknun vegna þessa þáttar málsins.

Af hálfu ákæruvalds var þess krafist að kröfu ákærða yrði hafnað og að jafnframt yrði honum gert að greiða saksóknarlaun í ríkissjóð  vegna meðferðar þessa þáttar málsins.

Málið var tekið til úrskurðar um þennan ágreining, að loknum munnlegum málflutningi, 28. apríl 2009.

I

Málavextir verða nú raktir, að því marki sem þeir verða taldir skipta máli fyrir það ágreiningsefni sem hér er til úrlausnar.

Þann 19. janúar sl. var ákærði færður á lögreglustöð vegna gruns um akstur undir áhrifum ávana- og fíkniefna. Er í skýrslu lögreglu, sem dagsett er 17. febrúar sl., m.a. greint frá að ákærði hafi umrætt sinn gefið þvagsýni. Þegar það sýni hafi gefið jákvæða svörun við „neyslu Cannabis“ hafi ákærði verið færður á heilbrigðisstofnun Austurlands þar sem honum hafi verið dregið blóð og að því loknu hafi verið tekin af honum skýrsla. Rannsókn framangreindra sýna hafi leitt í ljós að tetrahýdrókannabínólsýra hafi fundist í þvagsýni, en ekki verið í mælanlegu magni í blóðsýni. Þá er loks bókað í frumskýrslu: „Þess ber að geta að X var fremur ósamvinnuþýður og erfiður í samskiptum við lögreglu.“

Þann 23. janúar sl. var ákærði handtekinn og færður á ný á lögreglustöð m.a. vegna gruns um akstur undir áhrifum ávana- og fíkniefna. Er m.a. frá því greint í skýrslu lögreglu, dags. 17. febrúar sl., að á lögreglustöðinni hafi ákærði hringt í Stefán Karl Kristjánsson hdl. og hafi ákærði sagt lögreglu að lögmaðurinn hefði tjáð sér að hann þyrfti ekki að gefa þvag- eða blóðsýni, nema að undangengnum dómsúrskurði. Hafi Óskar Bjartmarz yfirlögregluþjónn rætt við lögmanninn. Stuttu síðar hafi lögmaðurinn hringt í ákærða og eftir það samtal hafi ákærði fallist á að leyfa lögreglu að taka blóð- og þvagsýni úr sér. Læknir hafi komið á lögreglustöðina til töku blóðsýnis. Ákærði hafi fallist á að taka „Tox Cup fíkniefnapróf“ og hafi prófið sýnt jákvæða svörun varðandi kannabis og amfetamín. Í varðstjóraskýrslu sem tekin var af ákærða í umrætt sinn tjáir hann sig ekki um sakarefnið, en eftir honum er bókað: „Ég vil taka það fram að blóð og þvagsýni voru tekin án þess að ég vildi gefa samþykki til þess. Gegn mínum vilja.“

II

Af hálfu ákærða er á því byggt að við setningu laga nr. 88/2008 um meðferð sakamála hafi verið mælt fyrir um að líkamsrannsókn í þágu rannsóknar opinbers máls gæti ekki farið fram án samþykkis grunaðs manns, nema að undangengnum úrskurði dómara. Byggt er á því að samþykki þurfi að vera afdráttarlaust og þögn grunaðs manns verði ekki metin sem samþykki hans. Hafi við gildistöku laganna verið felld út ákvæði í eldri lögum, sem gert hafi þetta heimilt ef hætta hafi talist á sakarspjöllum. Vísaði ákærði til 2. mgr. 93.. gr. laga nr. 19/1991, sem og 96. gr. sömu laga. Ekki væru í núgildandi lögum sambærileg undanþáguákvæði við þeirri skyldu til að leita úrskurðar dómara, ef taka eigi lífsýni og væri skyldan því fortakslaus eftir gildistöku laga nr. 88/2008. Þá taldi hann að ákvæði 47. gr. umferðarlaga nr. 50/1987 veittu lögreglu aðeins heimild til að gera öndunarpróf og til töku svita- og munnvatnssýna, en ekki til töku blóð- og þvagsýna, en byggði og á að umræddri reglu hefði verið vikið til hliðar við gildistöku laga nr. 88/2008, að því marki sem hér skipti máli. Geti ákæruvaldið því ekki byggt sönnun á niðurstöðum rannsókna sem gerðar hafi verið á umræddum blóð- og þvagsýnum, þar sem þeirra hafi verið aflað með ólögmætum hætti. Beri dómara því að hafna framlagningu skjalanna fyrir dóminn.

Af hálfu ákæruvaldsins var þessum skilningi ákærða mótmælt og vísað einkum til þess að umferðarlög séu sérlög, sem gangi framar lögum um meðferð sakamála sem verði að telja almenn lög um þetta efni. Þá var og vísað til þess að í greinargerð með X. kafla frumvarps þess sem varð að lögum nr. 88/2008, sé sérstaklega tekið fram að ákvæði 96. gr. laga nr. 19/1991 sé fellt brott þar sem það teljist óþarft þar sem sérreglur í lögum gangi framar almennum reglum. Hafi það því ekki verið vilji löggjafans að víkja til hliðar þeim sérreglum um líkamsrannsókn sem mælt sé fyrir um í 3. mgr. 47. gr. umferðarlaga nr. 50/1987. Hafi lögregla í umrædd skipti því tvímælalaust haft heimild til að taka viðkomandi lífsýni og hafi ákærða verið skylt að hlíta þeirri rannsókn. Sé skýrt kveðið á um þetta í 3. mgr. 47. gr. umferðarlaga nr. 50/1987. Þá var á það bent af hálfu ákæruvalds að ekki væri fyrir að fara í íslenskum rétti heimild fyrir dómara til að neita ákæruvaldi um framlagningu gagna á þeim grunni að þeirra hafi verið aflað með ólögmætum hætti. Slík gagnaöflun kynni þó eftir atvikum að varða ríkissjóð bótaábyrgð, en slíkt sé ekki úrlausnarefni dómsins í þessu máli.

III

Í 134. gr. laga um meðferð sakamála nr. 88/2008 segir í 1. mgr. að aðilar leggi fram þau skjöl og önnur sýnileg sönnunargögn sem þeir vilji að tekið verði tillit til við úrlausn máls. Þá segir m.a. í 2.mgr. sama lagaákvæðis að ákærandi leggi fram þau skjöl og önnur sýnileg sönnunargögn sem aflað hafi verið við rannsókn og sönnunargildi hafi að hans mati. Í 3. mgr. 110. gr. sömu laga er kveðið á um að ef dómari telji bersýnilegt að atriði, sem aðili vilji sanna, skipti ekki máli eða að gagn sé tilgangslaust til sönnunar geti hann meinað aðila um sönnunarfærslu.

Ákærða er í málinu gefið að sök að hafa í tvígang gerst sekur um akstur bifreiðar óhæfur til að stjórna ökutæki örugglega vegna áhrifa ávana- og fíkniefna, eins og nánar er rakið í ákæru málsins. Þau gögn sem ákærði krefst að ákæruvaldi verði meinuð framlagning á varða mælingu á magni ávana- og fíkniefna í blóði og þvagi hans í umrædd skipti og eru því grundvallargögn um það sakarefni sem er til umfjöllunar í málinu. Með vísan til þeirra lagagaákvæða sem að framan eru rakin verður talið að ákæruvaldið hafi að meginstefnu forræði á sönnunarfærslu sinni fyrir dómi og hefur dómari ekki heimildir til að takmarka sönnunarfærslu þess umfram það sem mælt er fyrir um í fyrrgreindri 3. mgr. 110. gr. laga nr. 88/2008. Verður ekki talið að umrædd gögn skipti ekki máli eða geti talist tilgangslaus fyrir sönnunarfærslu í máli þessu og geta sjónarmið ákærða um hvernig gagnanna var aflað ekki haggað þeirri niðurstöðu. Þegar af framangreindum ástæðum verður kröfu ákærða hafnað.

Ekki eru efni til að kveða sérstaklega á um greiðslu sakarkostnaðar eða mæla fyrir um greiðslu þóknunar verjanda ákærða nú og býður sú ákvörðun efnislegra lykta málsins.

Engin heimild er í lögum til að úrskurða ákærða til greiðslu saksóknarlauna.

Halldór Björnsson dómstjóri kveður upp úrskurð þennan.

Úrskurðarorð:

Hafnað er kröfu ákærða, X, um að ákæruvaldi verði gert óheimilt að leggja fram í dómi niðurstöður rannsókna á þvag- og blóðsýnum, sem teknar voru við rannsókn málsins.