Hæstiréttur íslands

Mál nr. 751/2009


Lykilorð

  • Virðisaukaskattur
  • Staðgreiðsla opinberra gjalda
  • Skilorð


Mánudaginn 21. júní 2010.

Nr. 751/2009.

Ákæruvaldið

(Kolbrún Sævarsdóttir  saksóknari)

gegn

Ólafi Ólafssyni og

Sigþóri Sigurjónssyni

(Hlöðver Kjartansson hrl.)

Virðisaukaskattur. Staðgreiðsla opinberra gjalda. Skilorð.

Ó og S, sem báðir voru eigendur félagsins S ehf. og önnuðust rekstur þess, voru sakfelldir fyrir brot gegn 2. mgr. 30. gr. laga nr. 45/1987 og 1. mgr. 40. gr. laga nr. 50/1988 með því að hafa á árunum 2005 og 2006 ekki staðið réttilega skil á samtals 29.962.251 krónu í virðisaukaskatt og staðgreiðslu opinberra gjalda launþega félagsins. Félagið hafði greitt samtals vegna þessara vanskila 29.989.181 krónu árið 2006. Í málinu var einkum deilt um það hvernig tollstjórinn ráðstafaði greiðslum sem bárust frá Ó og S eftir eindaga og hvort brot þeirra yrðu felld undir 262. gr. almennra hegningarlaga nr. 19/1940. Í dómi Hæstaréttar var vísað í eldri dóm réttarins frá 30. mars 2006, í máli nr. 428/2005, þar sem Ó og S höfðu sjálfir áfrýjað refsidómi vegna sams konar brota. Þar kæmi fram að samkvæmt fordæmum við úrlausn refsimála vegna vanskila á staðgreiðslu opinberra gjalda og á virðisaukaskatti kæmu innborganir til lækkunar höfuðstól skuldarinnar og dráttarvaxta af henni. Á hinn bóginn skyldu Ó og S njóta innborgana sem ráðstafað var til greiðslu álags á vanskilafé og staðgreiðslu opinberra gjalda þeirra sjálfa, og voru vanskil þeirra lækkuð sem því nemur við ákvörðun refsingar. Talið var að Ó og S hefðu staðið skil á verulegum hluta skattfjárhæðar vegna vangoldinna staðgreiðslu á þeim tímabilum sem ákært var fyrir að undanskildum tveimur tímabilum. Þegar litið var til þess að vanskil Ó og S voru talin nema háum fjárhæðum, sem töldust að verulega leyti greidd utan fyrrgreindra tveggja tímabila, og að um ítrekað brot var að ræða var þeim hvorum um sig gert að sæta skilorðsbundnu fangelsi í tvo mánuði og greiða 5.263.887 krónur í sekt til ríkissjóðs. 

Dómur Hæstaréttar.

Mál þetta dæma hæstaréttardómararnir Ólafur Börkur Þorvaldsson og Hjördís Hákonardóttir og Viðar Már Matthíasson settur hæstaréttardómari.

Ríkissaksóknari skaut málinu til Hæstaréttar 13. október 2009 og krefst þess að refsing ákærðu verði þyngd.

Ákærðu krefjast þess aðallega að málinu verði vísað frá héraðsdómi, en til vara að refsing verði milduð.

I

Rannsókn skattrannsóknarstjóra ríkisins á virðisaukaskattskilum einkahlutafélagsins Sliturs og afdreginni staðgreiðslu opinberra gjalda vegna rekstraráranna 2005 og 2006 hófst 6. maí 2008 og lauk 15. september sama ár. Skattrannsóknarstjóri vísaði málinu til efnahagsbrotadeildar ríkislögreglustjóra 27. október 2008.

Ákærðu voru einu eigendur félagsins og önnuðust rekstur þess sameiginlega. Var ákærði Sigþór skráður stjórnarmaður, en ákærði Ólafur varamaður í stjórn og annaðist hann bókhald og daglegan rekstur félagsins. Bú félagsins var tekið til gjaldþrotaskipta 29. nóvember 2006 og lauk skiptum 27. mars 2008. Virðisaukaskattsskýrslur og skilagreinar vegna staðgreiðslu opinberra gjalda voru afhentar á réttum tíma og bókhald félagsins var fært. Samkvæmt ákæru er ákærðu gefið að sök að hafa á hinn bóginn ekki staðið skil á samtals 29.962.251 krónu að höfuðstól vegna virðisaukaskatts og staðgreiðslu opinberra gjalda launþega félagsins á lögboðnum gjalddögum vegna tilgreindra tímabila á árunum 2005 og 2006, svo sem nánar er lýst í hinum áfrýjaða dómi. Félagið greiddi vegna þessa samtals 28.989.181 krónu á tímabilinu 16. janúar til 14. nóvember 2006. Tollstjórinn í Reykjavík varð síðar við kröfu skiptastjóra þrotabúsins um endurgreiðslur, sem áttu sér stað 25. apríl og 27. september 2007 á samtals 20.445.170 krónum. Framangreindar tölur um vanskil og innborganir eru samkvæmt greinargerð efnahagbrotadeildar ríkislögreglustjóra 18. desember 2008. Þar er í þágu ákærðu ekki litið til þessara endurgreiðslna til þrotabúsins.

Ákærðu byggja kröfu sína um frávísun málsins á því að rannsókn þess hafi verið áfátt hjá skattrannsóknarstjóra og síðar hjá efnahagsbrotadeild ríkislögreglustjóra meðal annars þar sem ekki hafi verið rannsakaðir þættir sem gætu orðið ákærðu til hagsbóta, ekki hafi verið gætt jafnræðis og ekki samræmis með tilliti til viðurlagameðferðar sambærilegra mála. Gögn málsins styðja ekki framangreindar málsástæður ákærðu og verður ekki á frávísunarkröfu þeirra fallist.

II

Ágreiningur í máli þessu snýst einkum um það hvernig tollstjórinn ráðstafaði greiðslum sem bárust frá ákærðu eftir eindaga og hvort brot ákærðu verði felld undir 262. gr. almennra hegningarlaga nr. 19/1940. Framangreindar greinargerðir efnahagsbrotadeildar ríkislögreglustjóra um vangoldnar greiðslur og innborganir voru bornar undir ákærðu við skýrslutöku hjá því embætti og gerðu þeir ekki athugasemdir við niðurstöður þeirra. Ákærðu telja sig þó hafa greitt gjöldin áður en rannsókn hófst, en þeir hafa ekki útfært skilgreiningu á einstökum greiðslum og meðferð þeirra. Verður að leggja greinargerðir efnahagsbrotadeildar ríkislögreglustjóra til grundvallar við úrvinnslu málsins.

Upplýst er að ákærðu nutu aðstoðar lögmanns við að semja við tollstjóraembættið um greiðslur eftir gjalddaga og að þeir gerðu ítrekað fyrirvara um að innborganir skyldu greiðast inn á höfuðstól virðisaukaskatts og staðgreiðslu opinberra gjalda. Í málinu eru óundirrituð drög frá þeim að greiðslusamningi 5. maí 2006 við tollstjóra þar sem gerður er almennur fyrirvari um að greiðslur vanskila skuli ganga „fyrst upp í höfuðstól“. Með tölvubréfi sama dag var  þessum drögum hafnað af tollstjóra á þeim forsendum meðal annars að tilgreindur fyrirvari væri andstæður „verklagsreglum okkar“. Hinn 10. maí var síðan undirrituð yfirlýsing um greiðslu vanskila þar sem þessum fyrirvara var sleppt. Ákærðu var því fullljóst þegar greiðslur voru inntar af hendi að ekki var fallist á fyrirvara um að þær færu fyrst inn á höfuðstól vanskila. Jafnframt var þeim kunnugt um dóm Hæstaréttar 30. mars 2006 í máli nr. 428/2005, sem birtur er á bls. 1539 í dómasafni réttarins 2006, þar sem þeir höfðu sjálfir áfrýjað refsidómi vegna sams konar brota og hér eru til umfjöllunar. Í þeim dómi segir að samkvæmt fordæmum við úrlausn refsimála vegna vanskila á staðgreiðslu opinberra gjalda og virðisaukaskatti komi innborganir til lækkunar höfuðstól skuldarinnar og dráttarvaxta af henni. Er því ekki fallist á með ákærðu að þeir hafi getað gefið bindandi fyrirmæli sem leiða eigi til þess að greiðslur sem ráðstafað var inn á vexti reiknist sem greiðslur inn á höfuðstól. Á hinn bóginn skulu þeir njóta innborgana sem ráðstafað var til greiðslu álags á vanskilafé og staðgreiðslu opinberra gjalda ákærðu sjálfra, og lækka vanskil þeirra sem því nemur við ákvörðun refsingar. 

Í fyrrgreindum dómi Hæstaréttar var orðalagið „verulegum hluta skattfjárhæðar“ í 2. mgr. 30. gr. laga nr. 45/1987 um staðgreiðslu opinberra gjalda og 1. mgr. 40. gr. laga nr. 50/1988 um virðisaukaskatt, eins og þeim var breytt með 1. gr. og 3. gr. laga nr. 134/2005, þannig skýrt að við mat á því hvort innborgun teljist veruleg verði að skoða hvað vangoldið hafi verið samkvæmt hverri skilagrein fyrir sig og að eigi minna en þriðjungur þess sem gjaldfallið er hafi verið greitt. Samkvæmt þessu og þegar staðgreiðsla vegna beggja ákærðu hefur verið dregin frá og greiðslur vegna álags dregnar frá höfuðstóli, þá teljast ákærðu hafa staðið skil á verulegum hluta skattfjárhæðar vegna vangoldinnar staðgreiðslu á þeim tímabilum sem ákært er vegna að undanteknu júní 2006 sem nam 660.037 krónum og vegna vangoldins virðisaukaskatts tímabilið janúar-febrúar 2006 sem nam 3.390.511 krónum.

Vanskil ákærðu námu í heild háum fjárhæðum en teljast hafa verið greidd að verulegu leyti fyrir útgáfu ákæru utan framangreind tvö tímabil. Einnig verður að líta til þess að með fyrrgreindum dómi Hæstaréttar 30. mars 2006 voru ákærðu dæmdir fyrir samskonar brot sem metin voru meiriháttar. Var þeim hvorum um sig gert að sæta fangelsi í fjóra mánuði, sem var skilorðsbundið í tvö ár frá uppsögu dómsins, auk þess að greiða háa fésekt. Þegar allt þetta er virt og einkum það að um ítrekað brot er að ræða verður ekki hjá því komist að telja brot þeirra falla undir 262. gr. almennra hegningarlaga.

Refsing ákærðu verður ákveðin þannig að hvor sæti fangelsi í tvo mánuði en þó þykir mega binda fangelsisrefsinguna skilorði eins og í dómsorði segir. Þá verður ákærðu gert að greiða sekt samtals að fjárhæð 10.527.774 krónur eða 5.263.887 krónur hvorum innan fjögurra vikna frá uppsögu dóms þessa, en sæta ella fangelsi í þrjá mánuði.

Ákvæði héraðsdóms um sakarkostnað verður staðfest.

Ákærðu greiði óskipt allan áfrýjunarkostnað málsins þar með talin málsvarnarlaun verjanda síns fyrir Hæstarétti, sem ákveðin verða að meðtöldum virðisaukaskatti allt eins og nánar greinir í dómsorði.

Dómsorð:

Ákærðu, Ólafur Ólafsson og Sigþór Sigurjónsson, sæti hvor um sig fangelsi í tvo mánuði en fresta skal fullnustu refsingarinnar og hún falla niður að liðnum þremur árum frá uppsögu dóms þessa haldi þeir almennt skilorð 57. gr. almennra hegningarlaga nr. 19/1940.

Ákærðu greiði hvor um sig 5.263.887 krónur í sekt í ríkissjóð innan fjögurra vikna frá uppsögu dóms þessa, en sæti ella fangelsi í þrjá mánuði. 

Ákvæði héraðsdóms um sakarkostnað skal vera óraskað.

Ákærðu greiði óskipt allan áfrýjunarkostnað málsins fyrir Hæstarétti, samtals 340.712 krónur, þar með talin málsvarnarlaun skipaðs verjanda síns fyrir Hæstarétti, Hlöðvers Kjartanssonar hæstaréttarlögmanns, 313.750 krónur.

Dómur Héraðsdóms Reykjavíkur 29. september 2009.

Mál þetta var höfðað með ákæru ríkislögreglustjóra, dags. 12. febrúar 2009, á hendur Ólafi Ólafssyni, kt. [...], Reykjavík, og Sigþóri Sigur­jóns­­syni, kt. [...].  Málið var dómtekið 11. september sl. 

Ákærðu er gefið að sök

                … meiri háttar brot gegn skattalögum framin í rekstri einkahlutafélagsins Slitur, kennitala 500276-0299, sem ákærði Ólafur var varamaður í stjórn og prókúruhafi fyrir og ákærði Sigþór var stjórnarmaður og prókúruhafi fyrir, með því að hafa:

                1. Eigi staðið ríkissjóði skil á virðisaukaskatti sem innheimtur var í rekstri einkahlutafélagsins vegna uppgjörstímabilanna september-október og nóvember-desember 2005 og janúar-febrúar og mars-apríl 2006, í samræmi við fyrirmæli IX. kafla laga um virðisaukaskatt nr. 50/1988, samtals að fjárhæð kr. 19.412.651, sem sundurliðast ...

                2. Eigi staðið ríkissjóði skil á staðgreiðslu opinberra gjalda, í samræmi við fyrirmæli í III. kafla laga um staðgreiðslu opinberra gjalda nr. 45/1987, sem haldið var eftir af launum starfsmanna einkahlutafélagsins vegna tímabilanna nóvember til og með desember 2005 og janúar til og með mars 2006 og júní 2006, samtals að fjárhæð kr. 10.549.600, sem sundurliðast ...

Brot ákærðu eru talin varða við 1. mgr. 262. gr. almennra hegningarlaga nr. 19/1940, sbr. 1. gr. laga nr. 39/1995, sbr. einnig að því er fyrri liðinn varðar við 1. mgr. 40. gr. laga nr. 50/1988, sbr. 3. gr. laga nr. 42/1995 og 3. gr. laga nr. 134/2005.  Að því er seinni liðinn varðar einnig við 2. mgr. 30. gr. laga nr. 45/1987, sbr. 2. gr. laga nr. 42/1995 og 1. gr. laga nr. 134/2005. 

Fyrir dómi staðfestu ákærðu að þeir hefðu átt einkahlutafélagið Slitur saman.  Þeir hafi haft þá stöðu hjá félaginu sem segir í ákæru, þ.e. að ákærði Sigþór hafi setið í stjórn, en ákærði Ólafur verið varamaður í stjórn.  Þá hafi þeir báðir haft prókúru fyrir félagið.  Fram kom hjá þeim báðum að ákærði Ólafur hafi séð um daglegan rekstur félagsins, fjármál og bókhald hafi verið á hans könnu.  Ákærði Sigþór kvaðst ekki hafa komið neitt nálægt fjármálum.  Hann hafi hins vegar unnið hjá félaginu, séð að mestu um framleiðslu og sölu.  Hann hafi ekki haft neitt með skattskil að gera. 

Ákærði Ólafur kvaðst fyrir dómi ekki draga í efa þær tölur um vanskil sem fram koma í ákæru.  Hann kvaðst telja að höfuðstóll gjaldanna hefði verið greiddur að fullu síðar.  Ákærði Sigþór kvaðst fyrir dómi ekki geta tjáð sig neitt um þær tölur um vanskil sem raktar eru í ákæru. 

Ágreiningur í máli þessu varðar í raun einungis ákvörðun refsingar.  Deilt er um það hvort og þá að hve miklu leyti margföldunarreglum 1. mgr. 40. gr. laga nr. 50/1988 og 2. mgr. 30. gr. laga nr. 45/1987 skuli beitt.  Eru málflytjendur annars sammála því að dómvenja standi til þess að sekt miðist við 10% af vangreiddri fjárhæð, hafi verulegur hluti verið greiddur síðar. 

Þá telur dómurinn að draga verði frá staðgreiðsluhlutanum gjöld vegna ákærðu sjálfra, að draga verði gjöld beggja frá hjá þeim báðum, þannig að þeir standi jafnt að vígi. 

Vangreiddur virðisaukaskattur er samkvæmt ákæru og gögnum málsins þessi:

september og október 2005

7.475.699 krónur

nóvember og desember 2005

5.754.665 krónur

janúar og febrúar 2006

3.390.511 krónur

mars og apríl 2006

2.791.776 krónur

Samkvæmt gögnum málsins voru greiddar samtals 18.882.228 krónur á tíma­bilinu frá 19. maí til 14. nóvember 2006.  Innheimtumaður virðist samkvæmt gögnum hafa ráðstafað 747.569 krónum sem greiðslu álags og 917.981 krónu upp í dráttarvexti og kostnað.  Gagnvart ákvörðun viðurlaga verður að meta allar innborganir sem greiðslu inn á höfuðstól.  Teljast þá ógreiddar 530.423 krónur af höfuðstól.  Því teljast gjöld þriggja tímabila hafa verið greidd og gjöld síðasta tímabilsins að verulegum hluta. 

Vangreidd staðgreiðsla samkvæmt gögnum málsins er þessi, en innan sviga er staðgreiðsla vegna launa ákærðu sjálfra: 

nóvember 2005                              

2.323.214 krónur (249.554)

desember 2005                               

1.125.755 krónur (179.108)

janúar 2006

2.031.650 krónur (355.788)

febrúar 2006

1.940.612 krónur (355.788)

mars 2006

2.319.466 krónur (355.788)

júní 2006

808.903 krónur (148.866)

Samtals nemur vangreidd staðgreiðsla 10.549.600 krónum.  Þar af nemur stað­greiðsla af launum ákærðu 1.644.892 krónum.  Samkvæmt gögnum málsins hafa greiðst eftir gjalddaga samtals 10.106.953 krónur.  Hafa því vanskilin greiðst að fullu, utan síðasti gjalddaginn, sem greiðst hefur að verulegu leyti. 

Í greinargerð ákærðu er vísað til þess að skýrslum vegna virðisaukaskatts og staðgreiðslu hafi verið skilað og að þær hafi verið réttar.  Þeir hafi ekki notið hagnaðar af brotum sínum.  Þeir hafi orðið fyrir miklu tjóni vegna ábyrgða fyrir Slitur ehf.  Bú þeirra beggja hafi verið tekin til gjaldþrotaskipta.  Þá hafi ríkissjóður ekki orðið fyrir tjóni, a.m.k. ekki verulegu. 

Mál var höfðað á hendur ákærðu á árinu 2005 fyrir sams konar brot og þeir eru hér sakfelldir fyrir.  Voru þeir dæmdir í héraði 20. júní 2005.  Dómnum var áfrýjað og gekk Hæstaréttardómur 30. mars 2006.  Var báðum gert að sæta fangelsi í fjóra mánuði, skilorðsbundið, og að greiða 34.000.000 króna sekt.  Vararefsing var ákveðin fangelsi í sjö mánuði. 

Ákærði Sigþór sat í stjórn félagsins og bar skyldur samkvæmt 44. gr. laga nr. 138/1994.  Ákærði Ólafur annaðist í raun bókhald og skattskil félagsins.  Ákærðu verða báðir sakfelldir samkvæmt ákæru, en brotin eru þar réttilega færð til refsi­ákvæða.  Brot ákærðu eru stórfelld og því átti ekki við að málum þeirra yrði lokið á stjórnsýslustigi.  Við ákvörðun refsingar er litið til þess er áður segir um greiðslur eftir gjalddaga. 

Ákveða verður refsingu ákærðu sem hegningarauka, nema að því er varðar virðisaukaskatt fyrir tímabilið mars og apríl 2006 og staðgreiðslu fyrir mars og júní 2006.  Með þeim brotum hafa ákærðu rofið skilorð dómsins.  Verður samkvæmt 60. gr. almennra hegningarlaga að taka upp hinn skilorðsbundna hluta dómsins frá 2006 og ákveða nú fangelsisrefsingu í einu lagi fyrir þau brot sem þá var sakfellt fyrir og þau brot sem hér er sakfellt fyrir.  Verður refsing hvors um sig ákveðin fangelsi í sex mánuði.  Er rétt að fresta fullnustu undir almennu skilorði til tveggja ára.  Þá verður hvorum þeirra gert að greiða 1.500.000 krónur í sekt til ríkissjóðs. Vararefsing er ákveðin fangelsi í 48 daga.  Sektarrefsing þessi verður ekki bundin skilorði, enda væri slík niðurstaða í algeru ósamræmi við dómvenju. 

Við ákvörðun málsvarnarlauna er ekki unnt að taka tillit til vinnu verjanda við hagsmunagæslu gagnvart skattyfirvöldum.  Er rétt að ákveða verjandanum réttar­gæslu- og málsvarnarlaun, sem að viðbættum virðisaukaskatti og kostnaði eru ákveðin 725.000 krónur.  Ber að dæma ákærðu til að greiða þennan kostnað óskipt. 

Jón Finnbjörnsson héraðsdómari kveður upp dóm þennan. 

D ó m s o r ð

Ákærðu, Ólafur Ólafsson og Sigþór Sigurjónsson, sæti hvor um sig fangelsi í sex mánuði, en fresta skal fullnustu þeirrar refsingar og hún falla niður að liðnum tveimur árum frá birtingu dóms þessa, haldi ákærðu almennt skilorð 57. gr. almennra hegningarlaga. 

Ákærðu greiði hvor um sig 1.500.000 krónur í sekt til ríkissjóðs innan fjögurra vikna frá birtingu dóms þessa, en sæti ella fangelsi í 48 daga. 

Ákærðu greiði óskipt réttargæslu- og málsvarnarlaun verjanda síns, Hlöðvers Kjartanssonar hæstaréttarlögmanns, 725.000 krónur.