Hæstiréttur íslands
Mál nr. 603/2013
Lykilorð
- Erfðaskrá
- Afturköllun
- Lögvarðir hagsmunir
- Málskostnaður
- Frávísun frá héraðsdómi
|
|
Fimmtudaginn 20. febrúar 2014. |
|
Nr. 603/2013.
|
A (Helgi Sigurðsson hrl.) gegn B og (Lárentsínus Kristjánsson hrl.) C (Sigríður Rut Júlíusdóttur hrl.) |
Erfðaskrá. Afturköllun. Lögvarðir hagsmunir. Málskostnaður. Frávísun frá héraðsdómi.
A höfðaði mál gegn B og C og krafðist þess að tilteknar erfðaskrár B yrðu ógiltar auk skiptayfirlýsingar hennar. Í dómi Hæstaréttar kom fram að B hefði með þeirri erfðaskrá sem yngst var afturkallað eldri erfðaskrár sínar. Þá hefði hún gefið skýrslu hjá embætti sérstaks saksóknara eftir að umræddar erfðaskrár voru gerðar þar sem hún taldi sig vera í fullum rétti til að ráðstafa eignum sínum að vild og að breytingar á erfðaskrám hefðu verið gerðar að hennar frumkvæði og enginn haft áhrif á það. Í dóminum sagði að í erfðalögum nr. 8/1962 sé gerður greinarmunur á hæfi til að gera erfðaskrá og afturkalla hana. Eftir 2. mgr. 48. gr. laganna nægi að arfleifandi láti ótvírætt í ljós að hann taki erfðaskrá sína aftur til þess að hún sé fallin úr gildi. Með yngstu erfðaskránni hefði fallið niður réttur A til arfs eftir B en sá réttur hefði byggst á fyrirmælum í eldri erfðaskrám. Þetta hefði legið ótvírætt fyrir við höfðun málsins og hafði áfrýjandi af þeim sökum ekki lögvarða hagsmuni af málshöfðuninni. Var málinu því vísað sjálfkrafa frá héraðsdómi.
Dómur Hæstaréttar
Mál þetta dæma hæstaréttardómararnir Eiríkur Tómasson, Helgi I. Jónsson og Þorgeir Örlygsson.
Áfrýjandi skaut málinu til Hæstaréttar 16. september 2013. Hún krefst þess aðallega að hinn áfrýjaði dómur verði ómerktur og málinu vísað heim í hérað, en til vara að stefndu „verði dæmdar til að þola ógildingu á þremur erfðaskrám stefndu B, dagsettum 6. ágúst 2010, 16. júní 2011 og 20. október 2011.“ Að því frágengnu er þess krafist að stefndu verði dæmdar til að þola ógildingu á tveimur síðastgreindu erfðaskránum, en ella þeirri síðastnefndu. Einnig er þess krafist í öllum þremur tilvikunum „að ógilt [verði] með dómi skiptayfirlýsing dagsett 11. október 2011, sem færð var í þinglýsingabók sýslumannsins í Borgarnesi 14. sama mánaðar og ber númerið M-1613/2011.“ Þá krefst áfrýjandi málskostnaðar í héraði og fyrir Hæstarétti.
Stefndu krefjast staðfestingar hins áfrýjaða dóms og málskostnaðar fyrir Hæstarétti.
Málsatvikum er lýst í hinum áfrýjaða dómi. Eins og þar kemur fram ritaði stefnda B undir erfðaskrá 20. október 2011, þar sem hún arfleiddi stefndu C að öllum eigum sínum og lýsti jafnframt erfðaskrá sína frá 16. júní sama ár „svo og hugsanlega aðrar eldri erfðaskrár úr gildi fallnar.“ Fyrstgreinda erfðaskráin var staðfest með undirritun tveggja arfleiðsluvotta. Stefnda B gaf skýrslu sem vitni hjá embætti sérstaks saksóknara 16. ágúst 2012, þar sem hún taldi sig vera í fullum rétti til að ráðstafa eignum sínum að sinni vild. Breytingar á erfðaskrám sínum hafi verið að sínu frumkvæði og enginn haft áhrif á það. Þá lýsti hún því yfir fyrir dómi, eftir að mál þetta var höfðað, að hún staðfesti að með erfðaskránni 20. október 2011 hafi hún afturkallað fyrri erfðaskrár sínar.
Í erfðalögum nr. 8/1962 er gerður greinarmunur á hæfi manns til að gera erfðaskrá og afturkalla hana. Samkvæmt 2. mgr. 34. gr. þeirra laga er erfðaskrá því aðeins gild að sá, sem gerir hana, sé svo heill heilsu andlega að hann sé fær um að gera þá ráðstöfun á skynsamlegan hátt. Eftir fyrri málslið 2. mgr. 48. gr. laganna nægir á hinn bóginn að arfleifandi láti ótvírætt í ljós að hann taki aftur erfðaskrá sína til þess að hún sé fallin úr gildi.
Eins og að framan greinir kom fram í erfðaskránni, sem stefnda B undirritaði 20. október 2011, að hún afturkallaði eldri erfðaskrár sínar. Staðfesti hún þann vilja sinn við skýrslutöku hjá embætti sérstaks saksóknara 16. ágúst 2012, rúmum tveimur mánuðum áður en mál þetta var höfðað. Samkvæmt 2. mgr. 48. gr. erfðalaga féllu eldri erfðaskrár stefndu B úr gildi við gerð erfðaskrár hennar 20. október 2011 og við það féll niður réttur áfrýjanda til arfs eftir hana, en sá réttur hafði byggst á fyrirmælum í erfðaskrám hennar frá 26. maí 2006, 6. ágúst 2010 og 16. júní 2011. Þegar mál þetta var höfðað 29. og 31. október 2012 lá þetta ótvírætt fyrir og hafði áfrýjandi af þeim sökum ekki lögvarða hagsmuni af málshöfðuninni, sbr. 1. mgr. 25. gr. laga nr. 91/1991 um meðferð einkamála. Samkvæmt því verður að vísa málinu sjálfkrafa frá héraðsdómi.
Eftir þessum málsúrslitum verður áfrýjanda gert að greiða stefndu málskostnað á báðum dómstigum, svo sem fyrir er mælt í 2. mgr. 130. gr., sbr. 166. gr. laga nr. 91/1991, eins og nánar greinir í dómsorði. Við ákvörðun málskostnaðar verður annars vegar litið til þess að hvorug stefnda krafðist frávísunar málsins í héraði og hins vegar að málið var höfðað af þarflausu þannig að áfrýjanda verður gert að greiða stefndu álag á málskostnað samkvæmt 2. mgr., sbr. a. lið 1. mgr. 131. gr. sömu laga.
Dómsorð:
Máli þessu er vísað frá héraðsdómi.
Áfrýjandi, A, greiði stefndu, B og C, hvorri um sig, samtals 2.500.000 krónur í málskostnað í héraði og fyrir Hæstarétti.
Dómur Héraðsdóms Vesturlands 22. júlí 2013.
Mál þetta, sem dómtekið var 27. maí sl. er höfðað með stefnu birtri 29. og 31. október 2012.
Stefnandi er A, [...].
Stefndu eru B, til lögheimilis að [...], [...], og C , [...].
Stefnandi krefst þess aðallega, að stefndu verði dæmdar til að þola ógildingu á þremur erfðaskrám stefndu B, dagsettum 6. ágúst 2010, 16. júní 2011 og 20. október 2011. Jafnframt er krafist ógildingar á skiptayfirlýsingu, dagsettri 11. október 2011, sem færð var í þinglýsingabók sýslumannsins í Borgarnesi 14. sama mánaðar og ber númerið 1613/2011.
Til vara er þess krafist, að stefndu verði dæmdar til að þola ógildingu á tveimur erfðaskrám stefndu B, dagsettum 16. júní 2011 og 20. október 2011. Jafnframt er krafist ógildingar á skiptayfirlýsingu, dagsettri 11. október 2011, sem færð var í þinglýsingabók sýslumannsins í Borgarnesi 14. sama mánaðar og ber númerið 1613/2011.
Til þrautavara er þess krafist, að stefndu verði dæmdar til að þola ógildingu á erfðaskrá stefndu B dagsettri 20. október 2011. Jafnframt er krafist ógildingar á skiptayfirlýsingu, dagsettri 11. október 2011, sem færð var í þinglýsingabók sýslumannsins í Borgarnesi 14. sama mánaðar og ber númerið 1613/2011.
Í öllum tilvikum er þess krafist að stefndu verði dæmdar óskipt til greiðslu málskostnaðar að skaðlausu.
Stefnda B krefst þess að hún verði sýknuð af öllum kröfum stefnanda í máli þessu.
Jafnframt krefst hún málskostnaðar.
Stefnda krefst sýknu og málskostnaðar og gerir og þá kröfu með vísan til 131. gr. laga nr. 91/1991 að dæmt verði álag á málskostnað.
MÁLSATVIK
D, faðir stefndu B, var bóndi í [...], og gekk í hjúskap með E [...]. Fyrir hjúskap átti E dótturina F, sem er móðir stefnanda og stefndu C. F var fædd [...] og dóttir G útgerðarmanns á [...]. D og E eignuðust tvo drengi en annar þeirra fæddist andvana og hinn lést tveggja vikna gamall. Þau bjuggu í [...] og var D þinglýstur eigandi jarðarinnar frá [...]. E lést í [...] en F bjó áfram hjá D stjúpföður sínum [...] og ólst þar upp.
Hinn [...] kvæntist D, H og átti með henni B sem fæddist [...]. H lést [...] en D lést [...]. Stefnda B var einkaerfingi D föður síns og hlaut m.a. í arf jörðina [...] og var stefnda B því þinglýstur eigandi jarðarinnar frá 1973 til 2011, sbr. síðar. B er fædd og uppalin í [...] og hún hefur því búið þar nánast alla sína ævi.
Stefnda B er ókvænt og barnlaus og á því ekki skylduerfingja. En eins og fram er komið ólst F stjúpsystir hennar upp [...] og þær litu ávallt á sig sem systur en eru þó ekki blóðskyldar. Stefnda B gerði erfðaskrá í nóvember 1973 þar sem hún arfleiddi F stjúpsystur sína að öllum sínum eigum. Myndi F ekki lifa stefndu B skyldu eigur hennar renna til barna F að jöfnu til hvers þeirra. Stefnda B gerði nýja erfðaskrá í janúar 1990 og samkvæmt henni skyldi I, sem bjó með stefndu B í [...] um árabil, erfa allan bústofn í [...] en aðrar eigur skyldu I og F erfa að jöfnu. I fékk áfall í apríl 2004 og hefur síðan þá verið á sjúkrastofnunum og er nú í hjúkrunarrými á [...]. F lést 5. maí árið 2006. Hinn 26. maí 2006, eða um þremur vikum eftir að F lést, gerði stefnda B nýja erfðaskrá og samkvæmt henni skyldu stefnandi og stefnda C erfa allar eigur stefndu B að jöfnu.
Árið 2010 kveðst stefnda B hafa orðið vör við að samkomulag þeirra systra þ.e. stefnanda A og stefndu C hafði af einhverjum orsökum farið versnandi og því hafi hún talið sennilegt að það myndi ganga illa ef þær myndu eignast [...] fyrir arf og jörðin yrði óskipt sameign þeirra. En jörðin hafi verið helsta eign stefndu B og sú eign sem henni hafi verið mest umhugað um. Því hafi stefnda B ákveðið að hún skyldi sjálf ákveða hvernig jörðin skyldi skiptast kæmi til þess að hún myndi koma í hlut stefnanda og stefndu C sem arfur, sbr. fyrrgreinda erfðaskrá stefndu B frá 2006. B hafi því gert nýja erfðaskrá hinn 6. ágúst 2010. Samkvæmt þeirri erfðaskrá skyldu stefnandi og stefnda C erfa stefndu B að jöfnu en í erfðaskránni sé kveðið á um skiptingu jarðarinnar [...] og að stefnandi og stefnda C skyldu erfa hvor sinn hluta jarðarinnar.
Í febrúar 2011 hafði J, bróðir stefnanda og stefndu C, þá kröfu fyrir Héraðsdómi Vesturlands að dánarbú E, ömmu nefndra aðila, yrði tekið til opinberra skipta. En E var fyrrum eiginkona D sem var faðir stefndu B og stjúpfaðir F, eins og að framan segir. Stefnda C hafi mótmælt því að dánarbú E yrði tekið til opinberra skipta þar sem skiptum á dánarbúinu væri löngu lokið. Stefnandi hafi hins vegar ekki mótmælt kröfu J og tekið undir málatilbúnað J og stutt hann í málssókn sinni. Þar sem stefnda C hafi mótmælt nefndri kröfu J hafi verið rekið ágreiningsmál fyrir Héraðsdómi Vesturlands. Undir rekstri þess máls í héraði hafi fundist gögn um að dánarbúi E hefði verið skipt á sínum tíma og F hefði fengið móðurarf sinn. Þrátt fyrir það hafi J ákveðið að halda kröfu sinni um opinber skipti á dánarbúi E til streitu en henni hafi verið hafnað með úrskurði Héraðsdóms Vesturlands hinn 9. september 2011. Þann úrskurð hafi J kært til Hæstaréttar Íslands sem hafi staðfest hann með dómi í málinu nr. 517/2011.
Stefnda B kveðst hafa litið svo á að málssókn þessi hafi verið til þess fallin að sverta minningu og mannorð löngu látins manns, D föður stefndu B og stjúpföður F móður stefnanda og stefndu C. Einnig hafi verið reynt að kasta rýrð á æskuheimili stefndu B og halda því fram að þar hefði F stjúpsystur hennar liðið mjög illa. Stefndu B hafi sárnað þetta mjög mikið og hún einnig vitað að stefnda C fylgdi J og stefnanda alls ekki að málum hvað þetta varðaði. B hafi einnig orðið ljóst í kjölfar umrædds málareksturs á milli J, sem stefnandi studdi, og stefndu C að samkomulag þeirra systra þ.e. stefnanda og stefndu C væri ekki gott og myndi eflaust hafa beðið varanlegan skaða.
Að svo komnu hafi stefnda B hvorki talið réttmætt né ástæða til að stefnandi myndi fá jafnan arfshluta eftir sig á móti stefndu C sem ávallt hefði reynst stefndu B mjög vel sem og eiginmaður stefndu C og börn þeirra. Stefnda B hafi því ákveðið að breyta erfðaskránni frá 6. ágúst 2010 og hafi hún gert það með erfðaskrá dagsettri 16. júní 2011. Samkvæmt henni skyldi stefnandi taka í arf íbúð stefndu B að [...], en stefnda C skyldi erfa allar aðrar eigur stefndu B.
Eftir því sem tíminn leið hafi stefndu B sárnað enn meir framganga stefnanda m.a. varðandi ofangreindan málarekstur J sem stefnandi hafi stutt. Stefnda B hafi verið þess fullviss sjálf að sá málatilbúnaður hafi ekki átt við nokkur rök að styðjast, þ.m.t. fullyrðingar sem stefnandi hafi haldið fram fyrir dómi. En hún hafi m.a. sagt í skýrslu sinni fyrir dómi, að F, móðir stefnanda og stefndu C, hefði farið frá [...] um leið og hún hafi getað og aldrei farið þangað aftur til að búa þar. Þá hafi stefnandi sagt að móðir hennar hafi verið mjög reið í lok ævi sinnar ,,yfir mörgu sem hún hafi upplifað í [...] og yfir hvernig framkoman hefði verið við hana.”. Þá hafi móður stefnanda verið sýnd vanvirðing á margan hátt í [...]. Einnig hafi stefnandi haldið því fram fyrir dómi að líklega hefði D faðir stefndu B haldið F, móður stefnanda og stefndu C í [...] vegna móðurarfsins. Af þessum orðum hafi stefnda B dregið þá ályktun að stefnandi hafi verið þeirrar skoðunar að faðir B hafi verið vondur maður og gengið freklega gegn hagsmunum stjúpdóttur sinnar. Varla sé hægt að viðhafa verri eftirmæli um nokkurn mann og telji stefnda B að stefnandi hafi tekið fullan þátt í því að sverta minningu og mannorð D föður hennar. Stefnda B hafi því ákveðið enn einu sinni að breyta erfðaskrá sinni og það hafi hún gert hinn 20. október 2011 og arfleitt stefndu C að öllum sínum eigum. Í ljósi framkomu stefnanda hafi stefndu B þótt að stefnandi hefði ekki unnið til þess að taka arf eftir hana. Því hafi eldri erfðaskrá jafnframt verið afturkölluð.
Haustið 2011 hafi stefnda B ákveðið að það væri best að fyrirframgreiða stefndu C arf á grundvelli þessara erfðagerninga. Hafi hún ákveðið að ganga strax frá arfinum að því leyti að koma jörðinni [...] og öllu því sem henni fylgdi í eigu stefndu C. Í samræmi við það hafi verið gengið frá erfðafjárskýrslu og skiptayfirlýsingu.
Af hálfu stefnanda er því haldið fram að síðla árs 2005 hafi stefnda B verið farin að tapa heilsu. Hún hafi vakið máls á því hvort stefnandi og K eiginmaður hennar vildu flytja til hennar, svo hún gæti búið áfram í [...], og hafið sjálf að undirbúa þá ráðagerð. Árið 2007 hafi stefnda B verið farin að finna til enn meira óöryggis og hnignandi félagslegrar getu, hún hafi kvartað um vaxandi minnisleysi, og átt það til að villast um götur á höfuðborgarsvæðinu þegar hún hafi heimsótt stefnanda. Sökum alls þessa hafi hún selt stefnanda og eiginmanni hennar í hendur 1,5 hektara eignarlóð við hlið íbúðarhússins að [...], en til hafi staðið að hjónin myndu reisa þar hús og flytja búferlum til að geta verið nær gömlu konunni og annast betur um hana. Vegna efnahagsástandsins í landinu hafi ekkert orðið af húsbyggingu um sinn, en á lóðinni sé tilbúinn akvegur, sem liggi um heimreiðina að [...]. Árin 2008-2009 hafi andlegri heilsu stefndu hrakað enn til muna. Stefnandi og eiginmaður hennar hafi hjálpað stefndu B því oft við tilfallandi verk, innanhúss og utan, og iðulega gist hjá henni.
Í ársbyrjun 2010 hafi sjálfstraust stefndu B hrunið; hún hafi hætt að aka bifreið, keypt sér fartölvu með aðstoð eiginmanns stefnanda, en hvorki gertað lært á ritvinnslu- og tölvupóstforrit né hagnýtt sér internetið. Á sama tíma hafi stefnda C og eiginmaður hennar, L klifað á því, að gamla konan ætti við alvarleg minnisvandamál að stríða, sér í lagi tengt nýminnistapi, og að hæfi hennar til almenns skilnings og ákvarðanatöku hefði versnað svo til muna, að nauðsynlegt væri að láta skipa henni fjárhaldsmann. Stefnandi viti ekki hvort tengsl séu á milli, en strax í janúar 2010 hafi C tekið yfir umráð ársgamallar [...] bifreiðar stefndu B og hafi síðan hagnýtt bifreiðina fyrir sig og fjölskyldu sína.
Þótt stefnanda væri ekki um það kunnugt, sem öðrum tveggja náinna aðstandenda stefndu B, hefði það áður gerst, árið 2008, að stefnda B hafi verið send í sneiðmyndatöku af heila, sem framkvæmd hafi verið af Ólafi Þór Gunnarssyni sérfræðingi í öldrunarlækningum. Einnig hefði það gerst, að heimilislæknir hennar, L eiginmaður stefndu C, hafi farið þess á leit við Þorkel Elí Guðmundsson sérfræðing í öldrunarlækningum á deild K2 Landakoti LSH, að hann annaðist um Alzheimer greiningu á atefndu B. Í læknabeiðni L, dagsettri 8. september 2009, sé vísað til „vaxandi minnisvandamála“ stefndu B. Í framhaldi hafi stefnda C mætt hinn 19. nóvember 2009 með stefndu B til viðtals og rannsókna á Landakoti. Hafi Þorkell Elí borið fyrir dómi að hann hafi í kjölfarið greint stefndu B með „væga vitræna skerðingu“, þ.e. röskun á nýminni og vitrænni getu, sem stafaði af taugafrumudauða í heila. Við greininguna hefði Þorkell Elí haft hliðsjón af tveimur matsgerðum dr. Maríu Kristínar Jónsdóttur sérfræðings í taugasálfræði; hinni fyrri frá desember 2008 og hinni seinni um ári síðar, en dr. María hefði greint „marktæka versnun“ á minnisgetu gömlu konunnar á rúmlega einu ári, og væru því auknar líkur á að hér væri um Alzheimer að ræða. Þessu til samræmis hefði Þorkell Elí sett stefndu B á lyfjameðferð við Alzheimer, og hún jafnframt hafið töku á kvíðastillandi lyfjum. Hafi Þorkell Elí sagst hafa útskýrt sjúkdóminn fyrir stefndu B, stefndu C og L lækni í mars 2010, og tjáð þeim að gamla konan væri að öllum líkindum með „byrjandi Alzheimer“.
Þótt ofangreindu ferli hafi verið haldið leyndu fyrir stefnanda, hafi hún glaðst yfir því að K og Þorkell Elí hafi komið því til leiðar að stefnda B hafi í mars 2010 verið vistuð í hjúkrunarrými á [...], sbr. II. kafli reglugerðar nr. 1000/2008 um vistunarmat vegna hjúkrunarrýma, og hafi hún dvalið þar síðan, enda fullreynt að andleg heilsa hennar hafi þá verið svo tæp að hún gæti ekki lengur verið sjálfs sín ráðandi. Hafi þetta reyndar verið staðfest strax 28. janúar 2010, en þann dag hafi Þorkell Elí sent dvalarheimilinu bréf, upplýst að stefnda B væri með versnandi nýminnisgetu og skerta ratvísi, að greinilega hefði orðið breyting til hins verra frá því „áður“, að hún gæti síður bjargað sér sjálf sökum vaxandi nýminnistaps, og að líklega væri hún komin með Alzheimer.
Hinn 15. febrúar 2010 hafi stefnda B undirritað umsókn til Stefáns Skarphéðinssonar sýslumanns og yfirlögráðanda í Borgarnesi um að meðstefnda C yrði skipuð ráðsmaður hennar. Í umsókninni séu rökin fyrir slíkri ráðstöfun sögð „veikindi mín samanber meðfylgjandi læknisvottorð“. Sé skemmst frá því að segja, að umrætt vottorð hafi aldrei litið dagsins ljós, og enn hafi enginn viljað kannast við að hafa slegið umsókn gömlu konunnar inn á tölvu.
Um mánaðamót mars-apríl 2010 hafi stefnandi komist að því að búið væri að greina stefndu B með Alzheimer. Hafi stefnanda fundist ótrúlegt að slíkt skyldi hafa verið gert án hennar vitundar. Hún hafi gengið á stefndu C og L eiginmann hennar og þau játað því að hafa farið með stefndu B í greiningu, en hvorki viljað upplýsa hver annast hefði greininguna né um niðurstöður hennar. Á sama fundi hafi stefnandi fyrst heyrt að hún og stefnda C væru bréferfingjar stefndu B, sem og að búið væri að óska eftir því að stefnda C yrði skipuð ráðsmaður. Hafi stefnda C og eiginmaður hennar sagt að sú skipan mála væri nauðsynleg, svo óprúttnir einstaklingar gætu ekki notfært sér andlega vanheilsu B og haft af henni fé.
Næst hafi það gerst hinn 4. maí 2010, að fulltrúi sýslumannsins í Borgarnesi hafi skipað stefndu C ráðsmann stefndu B með skírskotun til IV. kafla lögræðislaga nr. 71/1997. Hafi ráðsmaðurinn þannig fengið formleg yfirráð yfir [...] ásamt viðskiptum og þjónustu, hlutdeild í Veiðifélagi [...], 53 lóðarleigusamningum, eignarhlut í Kaupfélagi [...], þjónustuíbúð fyrir aldraða að [...] í Reykjavík, átta bankareikningum gömlu konunnar og [...]-bifreið.
Um svipað leyti hafi M, dóttir stefndu C, flutt inn í þjónustuíbúð stefndu B, hafi búið þar síðan, og hagnýtt sér símanúmer stefndu B. Um ástæður þessa viti stefnandi ekki. Hins vegar brjóti sú ráðstöfun augljóslega í bága við reglur um útleigu á slíku húsnæði, en þær leggja bann við því að í þjónustuíbúðum búi einstaklingar undir sextugu.
Stefnda B, þá tæplega 75 ára, hafi undirritað nýja erfðaskrá hinn 6. ágúst 2010. Sé erfðaskráin flókin og yfirgripsmikil. Samkvæmt 1. gr. hennar skyldu stefnandi og ráðsmaðurinn erfa allar eignir gömlu konunnar „að jöfnu“. Í 1. mgr. 2. gr. sé kveðið á um að jörðinni [...] skuli skipt í tvo hluta; 154,5 hektara vesturhluta er falla skyldi til ráðsmanns og 152,3 hektara austurhluta er félli í hlut stefnanda. Samkvæmt 2. mgr. 2. gr. séu síðan stórir skikar úr austurhlutanum lýstir „óskipt sameign“ systranna, með þeim afleiðingum að efnislegt inntak erfðaskrárinnar verði ósamrýmanlegt. Samkvæmt 3. gr. erfðaskrárinnar skyldi erfðaskrá stefndu frá 26. maí 2006 úr gildi falla. Erfðaskráin hafi verið vottuð af Inga Tryggvasyni héraðsdómslögmanni og N framkvæmdastjóra dvalarheimilisins [...]. Arfleiðsluvottorðið sé dagsett og undirritað 5. ágúst 2010, og beri með sér að þann dag hafi vottarnir talið B við heila heilsu, bæði andlega og líkamlega. Sjálf hafi stefnda B þó ekki undirritað erfðaskrána fyrr en 6. ágúst 2010.
Hinn 24. ágúst 2010 hafi stefnda C farið með stefndu B til rannsókna hjá Þorkeli Elí Guðmundssyni öldrunarlækni. Segi í dagál hans, að gamla konan hafi aðallega kvartað undan nýminnistapi og að hún væri stundum „illa áttuð“, en til marks um hið síðarnefnda hafi sérfræðingurinn skráð hjá sér að hún væri „ekki áttuð á ári“.
Með undirritun erfðaskrár 16. júní 2011 hafi verið kveðið svo á um að stefnandi skyldi aðeins erfa þjónustuíbúð stefndu B að [...], en ráðsmaðurinn stefnda C erfa allar aðrar eignir gömlu konunnar. Í erfðaskránni hafi stefnanda þó, líkt og áður, verið tryggður umferðarréttur að eignarlóð sinni um heimreiðina við [...]. Erfðaskráin sé vottuð af Inga Tryggvasyni lögmanni og Brynjólfi Guðmundssyni bónda að Hlöðutúni, Borgarbyggð. Í vottorðinu sé ekki vikið sérstaklega að andlegri heilsu gömlu konunnar.
Næst hafi það gerst 11. október 2011, að stefnda hafi undirritað svokallaða skiptayfirlýsingu, sem samin hafi verið af Inga Tryggvasyni lögmanni beggja, en samkvæmt henni lýsti stefnda B því einhliða yfir að hún gæfi ráðsmanninum, sem fyrirframgreiddan arf, jörðina [...] ásamt öllu sem jörðinni tilheyri, þ.m.t. hlutdeild í veiðirétti [...], 20 hektara leigulóð BSRB og allar aðrar leigulóðir. Í yfirlýsingunni segi að ráðsmaðurinn sé erfingi samkvæmt erfðaskrá og að skjalinu skuli þinglýst til staðfestingar á breyttu eignarhaldi. Gjafabréfið hafi verið móttekið til þinglýsingar 13. október, gefið númerið 1613/2011 og fært í þinglýsingabók degi síðar. Hafi þannig nær skuldlaus 250 milljón króna eign færst til ráðsmanns.
Með erfðaskrá, dagsettri 20. október 2011, hafi stefnda B lýst því yfir, þá 76 ára, að ráðsmaðurinn stefnda C sé einkaerfingi hennar. Í arfleiðsluvottorði Inga lögmanns og Brynjólfs bónda sé ekki vikið sérstaklega að andlegri heilsu stefndu B. Hins vegar segi, að tilgreind ástæða gömlu konunnar fyrir hinni nýju erfðaskrá „sé aðallega sú að henni hafi gramist mjög mál sem J bróðir C hafi farið í varðandi dánarbú ömmu þeirra E fyrr á þessu ári. A systir þeirra hafi stutt málatilbúnað J í því máli.“. Með erfðaskránni hafi umferðarréttur stefnanda að eignarlóð sinni við bæinn [...] verið felldur brott.
Stefnandi telji einsætt, að tilvitnuð orð séu ekki runnin undan rifjum stefndu B, og að fjarstætt sé að hún hafi verið gröm út í stefnanda fyrir að rækja vitnaskyldu í umræddu dómsmáli. Hafi stefnandi alla sína tíð verið í nánu sambandi við stefndu B, og ekki orðið á því breyting eftir að stefnda hafi vistast á hjúkrunarheimilinu í [...], en þangað hafi stefnandi og K eiginmaður hennar heimsótt stefndu B með reglulegu millibili, yfirleitt á tveggja vikna fresti. Séu stefnanda sérstaklega minnisstæðar hlýjar móttökur gömlu konunnar 22. október 2011, þ.e. tveimur dögum eftir ætlaða gerð síðustu erfðaskrárinnar. Stefnda B hafi og átt margar „dásamlegar samverustundir“ með stefnanda, eiginmanni og dætrum, hún hafi mætt í veislur og stórafmæli, verið tíður gestur á heimili stefnanda og gist þar, nú síðast tvær nætur í september 2012, þegar stefnda B hafi komið í brúðkaup O dóttur stefnanda.
Stefnanda hafi því eðlilega brugðið 25. apríl 2012, er hún hafi lesið tölvupóst frá Inga Tryggvasyni lögmanni stefndu beggja, en í téð skipti kvaðst lögmaðurinn vera að ganga erinda stefndu B og hafi beint þeim tilmælum til stefnanda að hún og K eiginmaður hennar skyldu hætta að eiga samskipti við stefndu og ekki heimsækja hana oftar á hjúkrunarheimilið í [...]. Sé skemmst frá því að segja, að stefnandi og eiginmaður hennar hafi óbreytt heimsótt gömlu konuna reglulega, og ávallt verið einstaklega vel tekið á móti þeim.
Stefnandi hafi vakið máls á því í maí 2010, þá er hún hafi farið á fund sýslufulltrúa í Borgarnesi, að hún teldi mikið óráð að skipa stefndu C sem ráðsmann stefndu B, enda væri hagsmunum gömlu konunnar þannig stefnt í hættu. Hafi stefnanda verið ráðlagt að fylgjast vel með framvindu mála. Þegar stefnandi hafi síðan frétt að hinn skipaði ráðsmaður væri orðinn þinglýstur eigandi [...] hafi henni verið nóg boðið. Í framhaldi hafi hún leitað upplýsinga hjá yfirlögráðanda í Borgarnesi og krafið hann skýringa á fjölmörgum atriðum, sem greinilega hefðu farið úrskeiðis við stjórnsýslumeðferð á umsókn stefndu B um skipun ráðsmann, leitaði ásjár innanríkisráðuneytisins við að rétta hlut B, og freistað þess að knýja fram fjárræðissviptingu á hendur stefndu B, svo víkja mætti téðum ráðsmanni til hliðar. Hafi stefnandi mætt litlum skilningi, og á stundum verulegu andstreymi. Ráðuneytið hefði þó fengið að vita, 2. október 2012, að ráðuneytið hefði snemmsumars lagt fyrir yfirlögráðanda að afturkalla ráðsmannsskipun stefndu C, og hafi það verið gert 28. júní. Verði að ætla, að stefnda B sýsli nú ein með bankareikninga sína, eignarhlut í Kaupfélagi [...], títtnefnda [...]-bifreið og innheimtu leigutekna af þjónustuíbúð sinni, enda telji yfirlögráðandi ekki lengur ástæðu til að stefnda B hafi ráðsmann.
Hinn 21. maí 2012 hafi stefnandi kært stefndu C til embættis sérstaks saksóknara og farið þess á leit að rannsökuð yrðu ætluð stórfelld auðgunarbrot í starfi ráðsmanns. Með bréfi dagsettu 21. ágúst hafi stefnanda verið tilkynnt að rannsókn málsins hefði verið hætt, og hafi hún kært þá ákvörðun til ríkissaksóknara hinn 6. september. Með bréfi 11. október hafi ríkissaksóknari staðfest fyrri ákvörðun ákæruvaldsins. Hafi þá legið fyrir lögregluskýrsla stefndu B frá 16. ágúst 2012 þar sem fram komi að hún hafi sjálf ritað hinar umþrættu erfðaskrár, sem og skiptayfirlýsinguna frá 11. október 2011, en ástæðan fyrir téðum gjafagerningi hafi verið sú að hún hafi ekki treyst sér lengur til að sinna fjármálarekstri og þjónustu í [...], og því ákveðið að gefa ráðsmanninum sömu eignir og rekstur. Hún hafi skýrt erfðaskrárbreytingar á þá leið, að ráðsmaðurinn „hefði alveg hugsað um hana“ og því ætti ráðsmaðurinn skilið að erfa allar eigur hennar. Stefnandi ætti á hinn bóginn ekkert gott skilið, hún og K eiginmaður hennar væru „fram í fingurgóma full af ágirnd, og væru bara að hugsa um að komast yfir eigur hennar“. Þess utan hefðu samskipti stefndu B við stefnanda ávallt verið lítil, þau minnkað verulega eftir að hún hafi breytt erfðaskránum, og væru nú nánast engin en stefnda B hefði lítinn áhuga á að vera í samskiptum við stefnanda. Aðspurð hafi stefnda B ekki fylgst náið með stöðu á bankareikningum sínum. Hún hafi sagst fá greiddan ellilífeyri og hafa „einhverjar tekjur af íbúð sinni í Reykjavík“. Hún bar og, að stefnda C myndi annast um eignir hennar til dauðadags. Af síðastgreindu telur stefnandi nærtækt að álykta, að stefnda B hafi þá verið búin að gleyma að hún hafi sjálf óskað eftir því skömmu áður að ráðsmannsskipun meðstefndu yrði afturkölluð.
Hinn 25. september 2012 hafi Þorkell Elí Guðmundsson öldrunarlæknir borið vitni fyrir dómi í vitnamáli nr. V-24/2012. Á grundvelli þess er þá hafi komið fram telji stefnandi sig knúna til að höfða ógildingarmál þetta á hendur stefndu báðum.
MÁLSÁSTÆÐUR
Stefnandi kveðst reisa kröfugerð sína á fimm meginmálsástæðum, sem eigi jafnt við um aðalkröfu, varakröfu og þrautavarakröfu, nema annað sé tekið fram. Sé vafalaust að stefnandi hafi nægilegra lagahagsmuna að gæta til að höfða málið, enda hafi hún verið annar tveggja bréferfingja stefndu B samkvæmt þremur elstu erfðaskránum og muni taka til bréfarfs að nýju eftir stefndu B, nái stefnukröfur fram að ganga. Sé hún því greinilega rétthafi að þeim hagsmunum, sem leitað sé dómsúrlausnar um.
Stefnandi byggir á því, að Ingi Tryggvason héraðsdómslögmaður hafi verið vanhæfur til vottaumsýslu fyrir stefndu B samkvæmt 2. mgr. 41. gr. erfðalaga nr. 8/1962 vegna hagsmunatengsla við meðstefndu C, en fyrir liggi að lögmaðurinn vinni og hafi löngum unnið fyrir meðstefndu að lögmannsstörfum og geti því ekki talist óvilhallur til vottaumsýslu erfðaskráa stefndu B dagsettra 6. ágúst 2010, 16. júní 2011 og 20. október 2011, enda erfðaskrárnar gerðar til einstakra hagsbóta og fríðinda fyrir hinn meðstefnda umbjóðanda hans. Þá liggi og fyrir sambærileg og ósamrýmanleg hagsmunatengsl sama lögmanns við stefndu B, enda einsætt af frásögn lögmannsins sjálfs, að hann þekki stefndu B vel og hafi unnið fyrir hana í mörg ár. Þótt lögmanninum hafi verið rétt að semja allar erfðaskrárnar, sem hann og hafi gert, geti hann ekki talist óvilhallur umsýsluvottur erfðaskránna í skilningi 2. mgr. 41. gr. erfðalaganna. Sé hér um svo brýna formkröfu að ræða, að erfðaskrárnar geti ekki talist gildar, og beri þegar af þeirri ástæðu að ógilda þær allar með dómi að kröfu stefnanda.
Að því er varðar skiptayfirlýsinguna frá 11. október 2011, byggir stefnandi fyrst og fremst á því, að sú yfirlýsing eigi eðli máls samkvæmt að sæta ógildingu samhliða ógildingu erfðaskrár stefndu B frá 16. júní 2011, enda sæki yfirlýsingin stoð sína í þá erfðaskrá.
Stefnandi bendir jafnframt á, að hin sameiginlega yfirlýsing stefndu beggja feli í raun í sér einhliða og óafturkræfa lífsgjöf í formi fyrirframgreidds arfs, sem Ingi Tryggvason lögmaður stefndu beggja hafi íklætt búning gagnkvæms samnings. Telji stefnandi ámælisvert að lögmaðurinn hafi jafnframt vottað erfðagerninginn, enda hafi hann með umsýslu sinni gætt stórkostlegra hagsmuna stefndu beggja, sem rík hætta hafi verið á að aldrei færu saman, sbr. 11. gr. siðareglna Lögmannafélags Íslands. Erfðalögin nr. 8/1962 geri ekki skýrum orðum ráð fyrir að goldinn sé arfur fyrirfram til annarra en skylduerfingja, því síður til bréferfingja er ekki standa í lögerfðatengslum við arfleifanda, og enn síður að með slíkum arfi séu hundruð milljón króna verðmæti færð úr eignarráðum arfleifanda yfir til óskylds aðila. Byggir stefnandi á því að hér gildi sömu eða náskyld sjónarmið og hvíli að baki ógildingu erfðaskráa samkvæmt 2. mgr. 41. gr. erfðalaganna, sem leiða beri til ógildingar umrædds erfðagernings fyrir sakir lögjöfnunar, enda um sambærilegar erfðaráðstafanir að ræða og órofa tengsl milli gjafagerningsins og erfðaskrár stefndu B frá 16. júní 2011.
Komist dómur að þeirri niðurstöðu að vanhæfi Inga Tryggvasonar lögmanns leiði ekki til ógildingar erfðaskráanna, byggir stefnandi í öðru lagi á því, að stefndu B hafi brostið arfleiðsluhæfi til að gera og undirrita erfðaskrár dagsettar 6. ágúst 2010, 16. júní 2011 og 20. október 2011, sem og til að taka og undirrita ákvörðun um hinn fyrirframgreidda arf til meðstefndu C með skiptayfirlýsingu 11. október 2011, enda hafi stefnda B ekki verið svo heil heilsu andlega, að hún hafi verið fær um að gera þær ráðstafanir á skynsamlegan og upplýstan hátt, sbr. 2. mgr. 34. gr. erfðalaga. Beri í öllum tilvikum að miða arfleiðsluhæfi við það dagsetta tímamark, er stefnda B undirritaði erfðagerningana. Stefnda B hafi verið greind með byrjandi heilabilun (dementia) eigi síðar en í mars 2010, líklegast af tegundinni Alzheimer, sem sé ólæknandi taugahrörnunarsjúkdómur og leiði til óafturkræfra breytinga á vitsmunalegri getu, minni og dómgreind hlutaðeigandi sjúklings sökum stórfellds taugafrumudauða í heila. Heilabilun af slíkum toga hefjist ávallt mörgum árum áður en unnt sé að greina hann með aðferðum læknisfræðinnar, og hafi þá þegar valdið verulegum skemmdum á heila sjúklingsins. Í tilviki stefndu B megi ætla að sjúkdómseinkenna hafi fyrst orðið vart árið 2005, og aldrei síðar en 2007. Byggir stefnandi á því að sjúkdómur stefndu hafi þannig grasserað í a.m.k. tvö ár fyrir greiningu, en í kjölfar hennar hafi verið hafin sérhæfð lyfjameðferð við Alzheimer. Sú staðreynd ein og sér bendi eindregið til þess að hér sé á ferð heilabilun af tegundinni Alzheimer, þótt ekki skipti það sköpum fyrir málatilbúnað stefnanda hverrar tegundar heilabilun stefndu B sé. Hitt skipti meira máli, að í allmörg ár hafi stefnda átt við vaxandi heilabilun að etja, sem óhjákvæmilega skerði æðri vitsmunastarfsemi hennar, leiði af sér minnkandi áttun í daglegu lífi, brenglað mat á mönnum og málefnum, vaxandi félagslegt ósjálfstæði, vaxandi minnisskerðingu og nýminnistap, sköddun á verðmætaskyni, minnkandi getu til að standast utanaðkomandi áhrif og þrýsting, og síðast en ekki síst, getuleysi til að sjá fyrir afleiðingar eigin gerða. Byggir stefnandi á því að heilabilun stefndu hafi, í mars 2010, verið á bilinu „Þó nokkur“ til „Mikil“ (dskj. 54), og að sökum þessa hafi andlegt atgervi stefndu á ofangreindum sviðum verið orðið svo bágborið, að hana hafi brostið hæfi til að taka skynsamlegar og yfirvegaðar ákvarðanir um meðferð og ráðstöfun eigna sinna, sem og brostið forsendur og hæfi til að endurskoða fyrri ákvarðanir sama efnis. Er í þessu sambandi mótmælt sem staðleysu því áliti Þorkels Elí Guðmundssonar öldrunarlæknis um að stefnda hafi í ágúst 2012 verið „með fulla dómgreind“, enda beri önnur gögn málsins að einum brunni um verulega skerta dómgreind stefndu allmörg undanfarin ár. Þá er og mótmælt þeirri staðhæfingu læknisins, að frá 19. nóvember 2009 hafi orðið lítil breyting á hæfi stefndu til að „gera eigin ráðstafanir ... hvað varðar sín fjármál og eigur“ (dskj. 12), enda bar sami læknir skömmu síðar fyrir dómi að hann vissi lítið annað um eignir stefndu en það, að hún hefði falið „frænku sinni“ að annast um fjármálin, enda sjálf verið orðin gleymin. Bar læknirinn og, að hann hefði aldrei spáð í fjármál og eignir stefndu, aldrei lagt fyrir hana próf til könnunar á eiginlegu fjármálahæfi, og sjálfur haft í huga með tilvitnuðu orðalagi, að hann hefði treyst gömlu konunni til að „borga einhverja hluti úti í búð eða svoleiðis“ (dskj. 11).
Um erfðaskrá stefndu B frá 6. ágúst 2010, byggir stefnandi á því að fyrir liggi samdóma álit tveggja sérfræðinga á sviði heilahrörnunarsjúkdóma, annars vegar Þorkels Elí Guðmundssonar öldrunarlæknis og hins vegar Maríu Kristínar Jónsdóttur doktors í taugasálfræði, um að í ársbyrjun 2010 hafi verið búið að staðreyna marktæka versnun á nýminnisgetu stefndu frá því árinu áður, og hún því verið síður hæf til að bjarga sér á eigin spýtur sökum vitrænnar skerðingar. Hafi stefnda staðfest þetta sjálf við læknisskoðun 24. ágúst 2010; kvartað sérstaklega undan vaxandi minnistapi og sagt að stundum slægi illa út í fyrir sér. Sama dag hafi öldrunarlæknir hennar og fært til bókar, að hún væri ekki áttuð á stað og stund. Telur stefnandi framangreind atriði bera þess svo óræk merki að stefndu hafi brostið arfleiðsluhæfi, þá er hún 18 dögum áður undirritaði hina mótsagnakenndu erfðaskrá 6. ágúst, að ógilda beri erfðaskrána, sem og hina þrjá umþrættu erfðagerninga er á eftir fylgdu, með vísan til 1. mgr. 45. gr. erfðalaga.
Að því marki, sem vafi kunni að leika á arfleiðsluhæfi stefndu B 6. ágúst 2010, byggir stefnandi jafnframt á því að arfleiðsluvottorð Inga Tryggvasonar héraðsdómslögmanns og N framkvæmdastjóra dvalarheimilisins [...] fullnægi ekki ófrávíkjanlegum skilyrðum 1. mgr. 40. gr. og 1. og 2. mgr. 42. gr. erfðalaganna um form og vottun erfðaskráa. Samkvæmt lögunum sé erfðaskrá helsta sönnunargagnið um fullnægjandi arfleiðsluhæfi og skuli því bera með sér að arfleiðsluvottorð séu í fyllsta samræmi við skýr fyrirmæli laganna. Samkvæmt 1. mgr. 40. gr. skuli arfleifandi þannig undirrita erfðaskrá í votta viðurvist, samkvæmt 1. mgr. 42. gr. skuli arfleiðsluvottorð undirritað eftir að arfleifandi hefur kennst við erfðaskrá, og samkvæmt 2. mgr. 42. gr. skuli votta að arfleifandi hafi verið svo heill heilsu andlega, við undirritun, að ekki orki tvímælis um gerhæfi á undirritunardegi.
Texti erfðaskrárinnar sé ritaður á tvær blaðsíður, og allt meginmál, 1.-3. gr., skráð á fyrri blaðsíðuna, án þess að stefnda hafi kennst við þann texta og arfleiðsluvottarnir vottfest hann. Til að bæta gráu ofan á svart, beri erfðaskráin glöggt með sér að nefndir arfleiðsluvottar hafi, þvert á svig við fyrirmæli erfðalaganna, undirritað vottorð sitt áður en stefnda undirritaði erfðaskrána, að þeir hafi ekki verið viðstaddir undirritun hennar, og að þeir hafi hvorki vottað af né á um andlegt atgervi hennar 6. ágúst 2010. Telur stefnandi að hér sé um svo alvarlega formgalla að ræða, að líta beri á efnisatriði umrædds arfleiðsluvottorðs sem óskráð væru, og ógilda skuli erfðaskrána af þeirri ástæðu einni.
Komist dómur að þeirri niðurstöðu að erfðaskráin skuli gild, þrátt fyrir ofangreinda formgalla, byggir stefnandi á því, að sökum hinna alvarlegu formgalla, þess að andlegir hagir stefndu voru ekki kannaðir með læknisfræðilegum prófunum við undirritun erfðaskrárinnar, sem og þeirrar staðreyndar að í grennd við sama tímamark sló stundum illa út í fyrir stefndu, beri hún og meðstefnda C alfarið sönnunarbyrði um arfleiðsluhæfi gömlu konunnar við undirritun erfðaskrárinnar 6. ágúst 2010, sbr. 2. mgr. 45. gr. erfðalaganna.
Að því er varðar erfðaskrár stefndu B dagsettar 16. júní og 20. október 2011 vísar stefnandi til alls þess er segir hér að framan um erfðaskrána frá 6. ágúst 2010. Jafnframt byggir hún á þeirri læknisfræðilegu staðreynd, að elli- og vitglöp af völdum heilabilunar gangi aldrei til baka, heldur sé um hægfara og neikvæða þróun að ræða, sem að lokum dragi sjúklinginn til dauða, yfirleitt á 7-8 árum frá greiningu. Fyrir liggi að stefnda B hafi verið greind með heilabilun í janúar 2010, og að 24. ágúst sama ár hafi hún ekki verið áttuð á stað og stund og kvartað undan vaxandi minnistapi. Verði að ætla, að á þeim 9-13 mánuðum er síðan liðu fram að gerð og undirritun erfðaskránna 16. júní og 20. október 2011 hafi vitsmunalegri getu stefndu hrakað enn frekar, ekki síst sökum vaxandi minnisskerðingar, minni áttunar í daglegu lífi, og skerts hæfis til hversdagslegra athafna, og að því séu yfirgnæfandi líkur á að téðir erfðagerningar eigi rót að rekja til sjúklegra haga stefndu, og hafi af þeim sökum verið óyfirvegaðir og hvatvíslegir.
Ofangreindu til stuðnings bendir stefnandi á, að við gerð fyrri erfðaskráa stefndu, þ.e. 14. nóvember 1973, 26. janúar 1990 og 26. maí 2006, hafi verið rökréttur aðdragandi og skynsamlegur tilgangur. Því sé á hinn bóginn ekki til að dreifa varðandi hinar umþrættu erfðaskrár. Efni þeirra sé tortryggilegt, engar haldbærar upplýsingar liggi fyrir um aðdraganda þeirra og tilgang, og skýringar stefndu á gerningunum séu mótsagnakenndar. Hvað sem því líði, verði erfðaskrárbreytingar 16. júní og 20. október 2011 alltént ekki skýrðar á þann veg sem stefnda haldi fram enda á köflum reist á ranghugmyndum stefndu, ekki síst um að meðstefnda C „hefði alveg hugsað um hana“. Þótt stefnandi ætli ekki að metast við meðstefndu um hvor þeirra standi í nánara sambandi við stefndu, byggir stefnandi óskorað á því, að samband hennar og gömlu konunnar hafi ávallt verið náið; líkt og samband móður og dóttur, og gegni að breyttu breytanda svipuðu máli um samband gömlu konunnar við eiginmann og dætur stefnanda (dskj. 6). Til marks um þetta bendi stefnandi á að stefnda hafi beðið stefnanda og eiginmann hennar að flytja í [...] til að geta verið nær henni, að gamla konan hafi leitað fulltingis stefnanda og eiginmanns hennar í landamerkjadeilu 2007, að þau hjónin hafi hjálpað gömlu konunni við heimilisstörf 2008-2009, verið sérstakir gestir hennar á héraðsþorrablótum 2008-2010, dvalið hjá henni í [...] áramótin 2009-2010, og loks þess að þrátt fyrir tíðar erfðaskrárbreytingar 2010-2011 hafi aldrei borið skugga á samband „mæðgnanna“.
Að öllu þessu virtu, byggir stefnandi á því, að engar haldbærar ástæður séu fyrir hendi, sem skýri aðdraganda og tilgang erfðaskráa dagsettra 16. júní og 20. október 2011, og að hvorug þeirra verði réttlætt eða skýrð á þann veg, að í þeim felist eðlileg umbun til stefndu C fyrir sérstaka umönnun eða aðhlynningu stefndu B, enda hafi gamla kona búið á hjúkrunarheimili síðastliðin tæp þrjú ár og greitt fyrir daglega umönnun með eigin fé. Eins og sakir standa megi ekki leggja mikið upp úr ætluðum vilja stefndu við undirritun erfðaskránna, enda stefnda B með skerta vitsmunastarfsemi af völdum heilabilunar og takmarkað innsæi í eigið sjúkdómsástand, og því hvorki bær til að skilja þýðingu téðra erfðagerninga né sjá fyrir réttaráhrif þeirra og aðrar afleiðingar. Beri af þessum sökum að ógilda báðar erfðaskrárnar, sem og skiptayfirlýsinguna frá 11. október 2011, með vísan til 2. mgr. 34. gr., sbr. 1. mgr. 45. gr. erfðalaga.
Að því marki, sem vafi kunni að leika á arfleiðsluhæfi stefndu B, hvort heldur 16. júní eða 20. október 2011, byggir stefnandi jafnframt á því að arfleiðsluvottorð Inga Tryggvasonar lögmanns og Brynjólfs Guðmundssonar bónda fullnægi ekki því ófrávíkjanlega skilyrði 2. mgr. 42. gr. erfðalaga, að í slíku vottorði sé skilmerkilega getið „hvort arfleifandi hafi verið svo heill heilsu andlega, að hann hafi verið hæfur til að gera erfðaskrá“. Báðar erfðaskrárnar beri ótvírætt með sér að nefndir arfleiðsluvottar hafi í hvorugt skipti lagt sérstakt mat á andlega heilsu stefndu við undirritun erfðaskránna og liggi því ekkert fyrir um andlegt atgervi stefndu þegar hún hafi undirritað gerningana. Breyti engu í þessu sambandi almennt orðalag téðra vottorða um að stefnda hafi verið „heil heilsu“, enda ótvírætt hlutverk nefndra votta að ganga úr skugga um og staðreyna andlega heilsu gömlu konunnar. Sé stefnanda ekki til efs, að hér sé um svo alvarlega annmarka að tefla, að líta beri á efnisatriði beggja vottorða viðvíkjandi heilsu stefndu, sem óskráð væru. Að þessu gættu, því að andlegir hagir stefndu hafi ekki verið kannaðir sérstaklega með prófunum við undirritun erfðaskránna eða í grennd við sama tímamark, þeirri staðreynd að stefnda hafi lengi átt við alvarleg vitglöp að stríða, og loks því að á stundum hafi stefnda ekki verið áttuð á stað og stund, beri hún og meðstefnda C alfarið sönnunarbyrði um arfleiðsluhæfi gömlu konunnar bæði 16. júní og 20. október 2011, sbr. 2. mgr. 45. gr. erfðalaganna.
Komist dómur að þeirri niðurstöðu að stefnda B hafi verið arfleiðsluhæf við undirritun erfðaskránna 6. ágúst 2010, 16. júní og 20. október 2011, sem og þegar hún 11. október 2011 afsalaði sér stórbýlinu [...] með gjafagerningi til skipaðs ráðsmanns síns, meðstefndu C, byggir stefnandi í þriðja lagi á því að stefndu hafi brostið almennt gerhæfi til löggerningsgerðar í skilningi fjármunaréttarins, enda hvorki gert sér grein fyrir umfangi eigna sinna né eðli, skynsemi og afleiðingum téðra erfðaráðstafana vegna andlegrar vanheilsu á háu stigi.
Stefnda B hafi í janúar 2010 verið greind með heilabilun sem óhjákvæmilega skerði vitræna getu, hún hafi þrívegis breytt erfðaskrá sinni með skömmu millibili eftir að ráðsmaður tók við umsjón eigna hennar, og um róttækar breytingar hafi verið að ræða, sér í lagi með erfðaskrám dagsettum 16. júní og 20. október 2011 og gjafagerningi 11. október 2011, sem ekki verði skýrðar á vitrænan hátt. Sé útilokað að góður, gegn og meðalgreindur einstaklingur geti talið umræddar erfðaráðstafanir eðlilegar og skynsamlegar fyrir hagsmuni stefndu B. Þvert á móti beri að leggja til grundvallar að erfðagerningarnir hafi allir orðið til vegna beinna áhrifa frá sjúkdómi stefndu B og alvarlegum elliglöpum, enda beri efni þeirra þess glögg einkenni. Beri einnig hér að líta framhjá áliti stefndu B á skynsemi gerninganna, enda meðal einkenna heilabilunar, að sjúklingurinn geri sér far um að leyna sjúkdómnum og hafi skert innsæi í eigið ástand. Telur stefnandi að framangreind rök beri öll að einum brunni um að ógilda skuli erfðagerningana fjóra á grundvelli ólögfestra reglna fjármunaréttarins um gerhæfisskort vegna andlegrar vanheilsu löggerningsgjafa.
Stefnandi byggir í fjórða lagi á því, að meðstefnda C hafi eigi síðar en í mars 2010 vitað að stefnda B væri haldin heilabilun, líklega af völdum Alzheimer, sem og að meðstefndu hafi frá sama tíma verið kunnugt um einkenni og óhjákvæmilega framvindu sjúkdómsins. Hafi meðstefnda þannig beinlínis vitað um alvarleg minnisglöp stefndu B og ört versnandi hæfi til ákvarðanatöku um hversdagsleg málefni, og því einnig vitað eða mátt vita að gamla konan væri óhæf til að taka á skynsamlegan hátt þær ákvarðanir, sem falist hafi í gerð og undirritun erfðaskráa dagsettra 6. ágúst 2010, 16. júní og 20. október 2011, sem og gerð og undirritun gjafagernings frá 11. október 2011 um stórbýlið [...]. Meðstefnda hafi engu að síður, sem náinn aðstandandi og skipaður ráðsmaður stefndu B, misnotað gróflega stöðu sína og traustsamband við gömlu konuna, og með ótilhlýðilegum hætti notað sér bágindi hennar og skert hæfi til umsýslu með fjármuni, ýmist til að áskilja eða afla sér hundruð milljón króna hagsmuna í formi hinna umþrættu erfðagerninga, án þess að nokkuð endurgjald kæmi eða skyldi koma fyrir þá hagsmuni. Samhliða hafi meðstefnda talið stefndu B ranglega trú um að gerningarnir væru henni hagstæðir, að meðstefnda myndi annast um stefndu til dauðadags, og jafnframt alið eða reynt að ala á óvild og reiði gömlu konunnar í garð stefnanda. Telur stefnandi engum blöðum um það að fletta, að stefnda B hafi þannig sætt misneytingu við gerð og undirritun erfðagerninganna fjögurra, að stofnast hafi til þeirra á röngum forsendum, að þeir hafi verið gerðir undir ótilhlýðilegum og óhæfilegum áhrifum frá meðstefndu C, og að gamla konan hafi hvorki gert sér grein fyrir efni, þýðingu né afleiðingum gerninganna. Beri af þessum ástæðum einnig að ógilda erfðagerningana, hvort heldur á grundvelli 1. mgr. 37. gr. og 38. gr., sbr. 1. mgr. 45. gr. erfðalaga, og/eða samkvæmt 31. gr. laga nr. 7/1936 um samningsgerð, umboð og ógilda löggerninga.
Stefnandi byggir loks á því, að erfðagerningarnir fjórir séu óvenjulegs efnis og óskynsamlegir frá almennum sjónarhóli, en með þeim hafi stefnda B gert róttækar breytingar á fyrri erfðaráðstöfunum án þess að nokkur eðlileg skýring lægi að baki. Gerningarnir hafi verið meðstefndu C einkar hagstæðir og gjafagerningurinn um [...] stefndu B ekki aðeins óhagstæður heldur beinlínis óþarfur, enda hafi meðstefndu borið lögbundin skylda sem ráðsmaður og opinber sýslunarmaður að hafa umsjón með jörðinni, þjónustu og viðskiptum henni tengdri og þáði væntanlega þóknun fyrir starfann. Meðstefnda hafi vitað um alvarleg elli- og vitglöp stefndu B við gerð erfðaskránna 6. ágúst 2010, 16. júní og 20. október 2011, sem og við undirritun gjafagernings 11. október 2011, og einnig vitað eða mátt vita að gamla konan gerði sér ekki grein fyrir efni gerninganna og afleiðingum. Í ljósi alls þessa geti meðstefnda ekki öðlast rétt samkvæmt hinum umþrættu erfðagerningum. Beri einnig af þeirri ástæðu að ógilda þá alla með dómi, sbr. 33. gr. samningalaga nr. 7/1936, en ellegar að víkja erfðagerningunum til hliðar, sbr. 36. gr. sömu laga, enda í senn ósanngjarnt, óheiðarlegt, og andstætt almennri réttar- og siðgæðisvitund að bera löggerningana fyrir sig vegna andlegrar vanheilsu stefndu B.
Lagarök:
Um lagarök vísar stefnandi til erfðalaga nr. 8/1962, einkum VI. kafla laganna, laga nr. 7/1936 um samningsgerð, umboð og ógilda löggerninga, einkum 31., 33. og 36. gr. laganna, sbr. breytingarlög nr. 11/1986 og nr. 14/1995, lögræðislaga nr. 71/1997, einkum IV. kafla laganna, reglugerðar nr. 1000/2008 um vistunarmat vegna hjúkrunarrýma, einkum 5., 7., 10., 12. og 14. gr. reglugerðarinnar, og til ólögfestra reglna fjármunaréttarins um ógildingu löggerninga vegna gerhæfisskorts löggerningsgjafa.
Málskostnaðarkröfuna styður stefnandi við 129. og 130. gr. laga nr. 91/1991 um meðferð einkamála, sem og lög nr. 50/1988 um virðisaukaskatt, en stefnandi nýtur lögmannsaðstoðar, er sjálf ekki virðisaukaskattskyldur aðili, og ber því nauðsyn að fá dóm fyrir slíkum skatti á lögmannsþóknun úr hendi stefndu beggja.
Um varnarþing vísast til 1. mgr. 32. gr. og 1. mgr. 42. gr. laganna um meðferð einkamála.
Krafa stefndu B um sýknu byggir aðallega á aðildarskorti og að stefnandi eigi ekki lögvarða hagsmuni í málinu. Einnig er byggt á því að erfðaskráin frá 20. október 2011 og skiptayfirlýsingin frá 11. október 2011 séu í fullu gildi og að rétt hafi verið staðið að gerð allra erfðagerninga þar á undan verði talið að það skipti máli. Stefnandi hafi ekki bent á neina annmarka á þeim skjölum sem deilt er um eða aðdraganda eða gerð þeirra, sem varðað geti ógildi þeirra. Þá er byggt á því að gildi erfðaskráa stefndu B eigi ekki að koma til skoðunar fyrr en eftir hennar daga.
Stefnandi krefjist ógildingar á tveimur erfðaskrám stefndu B sem séu ekki í gildi þ.e. frá 6. ágúst 2010 og 16. júní 2011. Dómkrafa um að ógilt verði skjöl sem ekki eru í gildi og hafa sannanlega verið felld úr gildi af þeim sem til þess hafði fulla heimild skjóti mjög skökku við og sé vart dómtæk.
Ekki sé ljóst hvaða þýðingu það gæti haft þó skiptayfirlýsingin yrði dæmd ógild að kröfu stefnanda. Réttaráhrif þeirrar yfirlýsingar hafi þannig þegar komið fram þ.e. eignatilfærsla fyrir arf frá stefndu B og yfir til stefndu C. Þó skiptayfirlýsingin verði dæmd ógild sé ekki þar með sagt að þessi eignatilfærsla gangi til baka. Þá verði samt sem áður í gildi erfðafjárskýrsla sem skiptayfirlýsingin byggi á. Samkvæmt erfðafjárskýrslunni sé ljóst að stefnda C hafi tekið í arf eftir stefndu B jörðina [...] ásamt öllu sem henni tilheyri þ.m.t. lóðir. Því verði ekki breytt með því að ógilda einvörðungu skiptayfirlýsinguna. Stefnda C hafi m.a. greitt erfðafjárskatt af nefndum arfi og arfskiptum hvað jörðina [...] varði sé að fullu lokið. Þeim verði ekki komið á núllpunkt ef svo megi segja með því einu að ógilda umrædda skiptayfirlýsingu. Þá sé augljóst að ef hafnað verði kröfum um ógildingu erfðaskránna sé botninn dottinn úr kröfu um ógildingu skiptayfirlýsingarinnar vegna aðildarskorts, burtséð frá öðrum efnislegum ástæðum og framangreindum röksemdum.
Ágreiningslaust sé að stefnandi er ekki lögerfingi stefndu B, hvað þá skylduerfingi. Það eina sem geti skapað stefnanda rétt til arfs eftir stefndu B sé að vilji B sjálfrar standi til slíks og frá því sé gengið af B sjálfri með lögformlegum hætti. Hvorugu sé til að dreifa.
Stefnanda sé því algjörlega óviðkomandi hvernig stefnda B ráðstafi sínum eignum og geti enga aðild átt að kröfugerð eins og þeirri sem hún setur fram í máli þessu. Stefnda B geti selt eigur sínar, gefið þær eða arfleitt einhvern að þeim án þess að það komi stefnanda nokkurn skapaðan hlut við. Það komi í raun stefndu C ekki heldur við. Þó að vilji stefndu B hafi þannig staðið til þess á ákveðnu tímabili að arfleiða stefnanda að hluta eigna sinna skapi það stefnanda engan rétt fyrr en þá að óbreyttu og eftir atvikum á því tímamarki sem viðkomandi erfðaskrá hefði átt að koma til framkvæmda. Það yrði að öllu jöfnu ekki fyrr en eftir daga stefndu B. Bréferfingi hafi ekkert yfir væntanlegum arfi samkvæmt erfðaskrá að segja fyrr en komi að úthlutun arfs. Enda hafi arfleiðandi undir venjulegum kringumstæðum fulla heimild til að breyta erfðaskrá allt fram á dánarstundu eða ef vill, að gefa eigur sínar inter vivos að vild a.m.k. án eftirmála frá bréferfingjum. Eftir andlát viðkomandi arfleiðanda komi fyrst í ljós hvort bréferfingi og hugsanlega, en þó síður, fyrrum bréferfingi eigi einhverra hagsmuna að gæta. Stefnandi eigi því ekki aðild að því máli sem hér er til umfjöllunar sem leiðir til þess að ekki verður hjá því komist að sýkna stefndu B af öllum kröfum stefnanda þegar af þeirri ástæðu.
Erfðaskrár eigi eðli máls samkvæmt ekki að koma til umfjöllunar fyrr en arfleifandi er látinn og annað sé beinlínis óheimilt. Þessi regla endurspeglist m.a. í 45. gr. erfðalaga nr. 8/1962. Því eigi ekki að fjalla um gildi erfðaskráa stefndu B fyrir dómi fyrr en í fyrsta lagi eftir hennar daga og ótækt sé að henni sé gert að verja löggerning sem frá henni stafar og sem lýsi einbeittum vilja hennar sjálfrar, vegna árása á þann gerning frá einstaklingi sem telur rétt sinn einmitt grundvallast á gerningi sem stafi einnig frá sömu stefndu B. Málsókn stefnanda sé í eðli sínu með öllu óskiljanleg og í henni sjálfri sé fólgin gríðarleg lítilsvirðing við stefndu B því byggt sé á því og það víðar heldur en bara í því máli sem rekið er hér fyrir dómi, að einstaklingur sem er í fullu fjöri sé í raun ósjálfbjarga og viljalaus og örugglega með öllu ófær um að ráðstafa hagsmunum sínum. Í málsókninni sé því fólgin alvarleg meingerð og ærumeiðing af hálfu stefnanda gagnvart stefndu B sem áskilji sér allan rétt vegna þess. Hvernig stefnandi rökstyðji að hún sé með málarekstri þessum að gæta hagsmuna stefndu B á einhvern máta sé stefndu sjálfri enn hulin ráðgáta og sá erindrekstur sé þá örugglega óumbeðinn en einnig með öllu óskiljanlegur nema ef horft sé til hagsmuna stefnanda sjálfrar.
Erfðaskrá stefndu B sem nú gildi sé frá 20. október 2011. Þá erfðaskrá hafi stefnda B haft fulla heimild og hæfi til að gera og erfðaskráin uppfylli öll formskilyrði. Sama megi segja um hinar tvær erfðaskrárnar sem stefnandi krefjist ógildingar á en eins og áður hafi komið fram sé vandséð hvernig stefnandi telji sig geta krafist ógildingar á löggerningum sem þegar séu úr gildi fallnir. Þar sem fyrrgreind erfðaskrá stefndu B frá 20. október 2011 sé í fullu gildi verði einnig af þeirri ástæðu ekki hjá því komist að sýkna hana af öllum kröfum stefnanda.
Um málsástæður stefnanda til stuðnings kröfu um ógildingu á þeim erfðaskrám og skiptayfirlýsingu sem stefnandi krefst ógildingar á sé það að segja að stefnda B líti svo á að aðeins sé verið að fjalla um gildi erfðaskrárinnar frá 20. október 2011 þar sem aðrar erfðaskrár séu ekki í gildi. Líti dómurinn hins vegar svo á að stefnandi geti krafist ógildingar á erfðaskrám sem ekki séu í gildi eigi sömu sjónarmið stefndu B við um allar erfðaskrárnar og skiptayfirlýsinguna.
Um sérstakt vanhæfi Inga Tryggvasonar hdl. arfleiðsluvotts telji stefnda B að lögmaðurinn sem og aðrir sem að vottun umræddra erfðaskráa komu hafi uppfyllt allar kröfur og gætt allra lagaskilyrða við vottun skránna. Það sé fráleit fullyrðing hjá stefnanda að tengsl Inga Tryggvasonar hdl. við báðar stefndu geti valdið því að lögmaðurinn sé ekki hæfur arfleiðsluvottur að erfðaskrám stefndu B. Stefnda B hafi kynnst lögmanninum fljótlega eftir að hann hafi flust til Borgarness og hafið þar lögfræðistörf 1993 og með þeim hafi tekist góður kunningsskapur og traust sem aldrei hafi borið skugga á. Störf lögmannsins fyrir stefndu B hafi í sjálfu sér ekki verið umfangsmikil í gegnum tíðina og verið aðallega fólgin í skjalagerð vegna umsýslu með lóðir í [...]. Stefnda hafi kunnað vel að meta öll hans störf í hennar þágu og treysti honum mjög vel til að sinna og gæta hennar hagsmuna. Það hefði því í raun verið mjög úr takti ef stefnda B hefði falið einhverjum öðrum að tryggja réttan frágang þeirra skjala sem hér séu dregin fram til skoðunar og hafi reyndar ekki hvarflað að henni. Stefnda hafi einfaldlega treyst Inga Tryggvasyni best til þess að gæta hagsmuna hennar í þessum málum og tryggja að hennar vilji og fyrirmæli væru framkvæmd. Líti stefnda svo á, byggt á kynnum við Inga Tryggvason, að hann myndi aldrei ganga gegn hennar vilja eða hagsmunum. Tengsl stefndu B við Inga Tryggvasonar hdl. og störf hans fyrir hana hafi eðli máls samkvæmt aldrei verið neitt feimnismál og alveg fráleitt hjá stefnanda að reyna að gera þau tortryggileg. Stefnda B staðfesti að þau lögmannsstörf sem Ingi hafi unnið fyrir hana hafa öll verið unnin samkvæmt hennar fyrirmælum og lögmaðurinn hafi gætt hennar hagsmuna í hvívetna. Undir venjulegum kringumstæðum og eðli máls samkvæmt þyrfti ekki á umfjöllun sem þessari að halda en sem fyrr kalli óhefðbundinn málatilbúnaður stefnanda á óhefðbundin andsvör.
Ingi Tryggvason hdl. hafi ekki þekkt stefndu C fyrr en eftir að J bróðir hennar hafði farið í þann málarekstur sem áður hefur verið vikið að. Eflaust hafi hún komið með stefndu B einhverju sinni á skrifstofu lögmannsins þegar stefnda B hafi þurft að hitta hann. Það hafi hins vegar verið þegar J fór í umrætt mál að stefnda C hafi fyrst leitað til lögmannsins sem gætti hagsmuna hennar fyrir héraðsdómi. Eftir það muni lögmaðurinn hafa unnið einhver smávægileg lögmannsstörf fyrir stefndu C en sé ekki í neinum öðrum hagsmunatengslum við hana frekar en stefndu B. Ingi, sem starfi einnig sem löggiltur fasteignasali, sé einnig með eina lóð, sem sé í eigu stefndu C, í [...] til sölumeðferðar.
Varðandi skiptayfirlýsinguna og umfjöllun stefnanda um hana megi spyrja hvað sé einhliða og óafturkræf lífsgjöf og hvað hafi verið klætt í búning í þessu tilfelli? Séu gjafir ekki yfirleitt einhliða og óafturkræfar? Gefi stefnandi afturkræfar gjafir? Hvar stæði síðan stefnandi ef þessi gerningur lögráða einstaklings hefði ekki verið klæddur í neinn annan þann búning en að vera hreinlega einhliða og óafturkræf lífsgjöf? Í umræddu tilviki hafi reyndar verið um fyrirframgreiddan arf að ræða, sem sé ekki það sama og lífsgjöf, og það hafi ekki verið klætt í neinn búning. Gerð hafi verið erfðafjárskýrsla og greiddur erfðafjárskattur af arfinum lögum samkvæmt.
Það sé rangt hjá stefnanda að það sé ekki heimilt að fyrirfram greiða arf til annarra en skylduerfingja þar sem erfðalögin nr. 8/1962 geri ekki ráð fyrir því eða heimili það sérstaklega. Sérstaklega ekki sé um mikil verðmæti að ræða. Það sé ekkert sem banni að fyrirfram greiða arf til annarra en skylduerfingja og þá samkvæmt erfðaskrá en slíkt sé alþekkt í framkvæmd. Einu lagaákvæðin í lögunum um fyrirframgreiðslu snúi að vernd gagnvart skylduerfingjum ef sá kostur sé valinn að greiða út arf fyrirfram. Í þessu sambandi skipti auðvitað engu máli um heimildina hvort um sé að ræða mikil eða lítil verðmæti enda megi spyrja hver ætti að meta það hvort um mikil eða lítil verðmæti væri að ræða? Fráleitt sé og að halda því fram að aðrar lagareglur eigi að gilda í þessu sambandi eftir því um hvaða verðmæti sé að tefla, þó væri „ekki nema“ andspænis jafnræðisreglu stjórnarskrárinnar.
Varðandi vanhæfi Inga Tryggvasonar hdl. sem arfleiðsluvotts á hinar umdeildu erfðaskrár veki athygli að stefnandi skuli þá ekki einnig krefjast ógildingar á erfðaskrá stefndu B dags. 26. maí 2006 en þá erfðaskrá hafi sami lögmaður vottað og samið. Ef fullyrðingar stefnanda um vanhæfi lögmannsins standist hljóti þessi erfðaskrá einnig að vera ógild. En af óútskýrðum ástæðum en kannski skiljanlegum frá hennar bæjardyrum telji stefnandi þrátt fyrir allt að svo sé ekki og vilji að sú erfðaskrá haldi gildi þótt vanhæfi lögmaðurinn hafi bæði skrifað og vottað þá erfðaskrá.
Stefnandi telji að B hafi verið svo vanheil andlega að hún hafi ekki getað gert þær erfðaskrár og skiptayfirlýsinguna sem krafist er ógildingar á. Stefnandi hafi hins vegar ekki lagt fram nein gögn til sönnunar á þessari fullyrðingu sinni. Þvert á móti hafi hann lagt fram gögn sem sýni hið gagnstæða. Til að hrinda þessari fullyrðingu stefnanda nægi í raun að vísa til vottorðs Þorkels E. Guðmundssonar öldrunarlæknis dagsetts 5. september 2012 og framburðar hans fyrir dómi í vitnamáli og hér fyrir dómi. Í vottorðinu segi að B hafi komið til hans ,,19. nóvember 2009 vegna vaxandi minnisvandamála. Rannsóknir og klínískt mat benti til þess að hér væri um væga minnisskerðingu að ræða sem gæti verið að þróast í Alzheimer sjúkdóm þrátt fyrir að hér væri ekki um heilabilun að ræða. Hún var því sett á viðeigandi meðferð. Þrátt fyrir sína minnisskerðingu þá er hún með fulla dómgreind, fær um að gera eigin ráðstafanir varðandi sig og einnig hvað varðar fjármál og eigur. Þetta hefur lítið breyst í gegnum árin og hún var hér síðast í eftirliti hjá mér þann 21. ágúst 2012.“
Þrátt fyrir þetta fullyrði stefnandi að stefnda B hafi verið greind með heilabilun eigi síðar en í mars 2010. En í ofangreindu vottorði læknisins segi að ekki sé um heilabilun að ræða. Þannig setji stefnandi fram fullyrðingar ekki bara án stuðnings í gögnum málsins heldur þvert á staðreyndir og gögn málsins. Það sama gerist í rafbréfi lögmanns stefnanda til sýslumannsins í Borgarnesi 12. október 2012. ,,Til upplýsinga skal áréttað, það sem undirritaður hefur áður vakið athygli embættis yðar á, að B var greind með hinn ólæknandi heilahrörnunarsjúkdóm Alzheimer í janúar 2010, og hefur þetta nú verið endanlega staðfest fyrir dómi með vitnisburði þess öldrunarlæknis, sem annaðist greininguna.“ Vegna þessa skuli tekið fram að læknirinn hafi sagt fyrir dómi að stefnda B gerði sér fullkomlega grein fyrir sínum ráðstöfunum. Þá hafi læknirinn sagst ,,halda“ að stefnda B væri með byrjandi Alzheimer í ágúst 2012. Það að halda að einhver sé kominn með ákveðinn sjúkdóm þýði ekki það sama og sjúklingurinn hafi verið greindur með sjúkdóminn. Fullyrðingar stefnanda um heilsufar stefndu B séu því beinlínis rangar og sé það auðvitað ámælisvert hjá stefnanda að halda fram röngum fullyrðingum þvert á staðreyndir og gögn málsins. Stefnandi telji sig meira að segja bæra til þess að mótmæla fullyrðingum læknis, sem hafi annast stefndu B, um heilsufar hennar. Það verði að teljast sérstakt svo ekki sé meira sagt að stefnandi, sem ekki sé læknismenntuð svo vitað sé, telji að hún geti mótmælt vottorði og framburði læknis um manneskju sem hann hafi annast.
Af einhverjum óskiljanlegum ástæðum telji stefnandi að ,,samdóma“ álit Þorkels Elí Guðmundssonar öldrunarlæknis og Maríu Kristínar Jónsdóttur doktors í taugasálfræði bendi til þess að í ársbyrjun 2010 hafi verið þannig komið fyrir stefndu B að hún hafi ekki getað gert erfðaskrá 6. ágúst það ár. Þessi fullyrðing stefnanda sé röng enda styðjist hún ekki við nein gögn. Það að stefnda B sé hugsanlega með nýminnistap hafi ekkert með arfleiðsluhæfi hennar að gera.
Stefnandi blandi af einhverjum ástæðum saman arfleiðsluhæfi stefndu B og arfleiðsluvottun. Stefnandi telji m.a., án sjáanlegs rökstuðnings, að ekki megi rita erfðaskrár á tvær blaðsíður án þess að hver blaðsíða sé vottuð sérstaklega. Þannig vilji til í þessu tilviki að ekki sé vitað til þess að ágreiningur sé um efni erfðaskrárinnar og arfleiðsluvottarnir geti vottað það hvað þeir vottuðu enda sé það líka ágreiningslaust. Áður hafi komið fram skýring á mismunandi dagsetningum á nefndri erfðaskrá. Ef stefnandi telji að það sé tortryggilegt sé honum það frjálst. Sú skoðun hans hafi hins vegar enga þýðingu í málinu. Arfleiðsluvottarnir geti væntanlega einnig vottað um það að stefnda B hafi verið hinn 6. ágúst 2010 og sé enn í dag fullfær andlega til þess að ráðstafa sínum málum m.a. með erfðaskrá.
Erfðaskráin frá 6. ágúst 2010 sé ekki lengur í gildi og allar afturkallanir og yfirlýsingar stefndu B um fyrri erfðaskrár haldi vitaskuld gildi sínu, bæði með vísan til vilja arfláta og viljakenningar erfða- og kröfuréttar en einnig þess að afturköllun erfðaskráar sé ekki formbundinn gerningur. Því sé í raun ástæðulaust að eyða tíma í ágreining um gildi hennar eða annarra skjala og gerninga sem hafi verið afturkölluð af stefndu B og enginn ágreiningur geti verið um.
Stefnandi virðist standa í þeirri trú að það sé skylda að kanna andlegt ástand arfleifanda með læknisfræðilegri athugun. Það sé auðvitað misskilningur og engum rökum stutt þvert ofan í áratuga framkvæmd og skýran lagatexta, en á hinn bóginn liggi það fyrir með læknisfræðilegum gögnum að stefnda B sé enn fær um að gera erfðaskrá. Sönnun þar um liggi því fyrir af hennar hálfu þótt ekki sé hún nauðsynleg.
Um erfðaskrár frá 16. júní og 20. október 2011 fari stefnandi enn og aftur ranglega með staðreyndir og fullyrði að stefnda B hafi verið með heilabilun í janúar 2010 og ,,24. ágúst sama ár hafi hún ekki verið áttuð á stað og stund ....“ . Þetta sé rangt og eigi sér ekki stoð í gögnum málsins. Stefnandi telji að yfirgnæfandi líkur séu til þess að rekja megi erfðaskrárnar frá 16. júní og 20. október 2011 til sjúklegra haga stefndu B og hafi af þeim sökum verið óyfirvegaðar og hvatvíslegar. Þetta sé einnig rangt og eigi sér ekki heldur stoð í gögnum málsins. Eins og rakið hafi verið hafi þær breytingar sem stefnda B gerði á erfðaskrám sínum átt sér ákveðinn aðdraganda og skýringar. Þar vegi stærst sú staðreynd að stefnandi hafi tekið þátt í aðför að minningu og mannorði D föður stefndu B eins og rakið hafi verið. Þá megi spyrja hvort það sé ógildingarástæða hvað erfðaskrá varðar að efni hennar sé ,,óyfirvegað“ eða ,,hvatvíslegt“. Það eigi reyndar ekki við um erfðaskrár stefndu B. Hver sé líka bær til þess að segja að erfðaskrá sé ,,óyfirveguð“ eða ,,hvatvísleg“.? Í samninga- og kröfurétti yrði því seint haldið fram að hægt væri að falla frá eða telja óskuldbindandi samninga eða aðra gerninga sem sá sem gerði þá eða þriðji aðili teldi eftirá hafa verið gerða að óyfirveguðu ráði eða af hvatvísi. Enn síður geti, á sviði erfðaréttar, bréferfingjar haldið slíku fram löngu eftir erfðagerning og andlát arfláta. Augljóst megi þá vera að réttarúrræði þeirra sem mislíki einhverra hluta vegna erfðagerningur á slíkum forsendum séu síðan engin þegar arfláti sé lifandi lögráða einstaklingur sem sé í ofanálag viðkomandi algjörlega ósammála.
Allar þær erfðaskrár sem stefnda B hafi gert eigi sínar skýringar og aðdraganda. Hvernig geti stefnandi fullyrt að framburður stefndu B hjá sérstökum saksóknara í ágúst 2012 sé rangur? Sé það á valdi stefnanda að fullyrða að það sem stefnda B segi sé rangt og ,,á köflum reist á ranghugmyndum stefndu ... .“ ? Stefnanda finnist að hún geti fullyrt að samband hennar og stefndu B hafi ávallt verið náið og telji að svo sé enn í dag. Stefnandi telji því að samband þeirra hafi engan hnekki beðið þrátt fyrir stefnandi hafi tekið fullan þátt í því að sverta mannorð og minningu föður stefndu B og tala illa um æskuheimili hennar í [...] þegar hún var að alast þar upp. Þá telji stefnandi að það skipti engu máli að hann hafi nú síðastliðin ár haldið því fram að andleg heilsa stefndu B sé með þeim hætti að hún viti nánast ekkert hvað hún geri og sé aldeilis ófær um að ráðstafa sínu lífi. Þá skipti það og heldur engu máli þó stefnandi hafi orðið valdur að því að stefnda B, sem sé fullorðin kona og megi ekki vamm sitt vita, hafi algerlega að ástæðulausu verið boðuð í skýrslutöku hjá sérstökum saksóknara vegna tilefnislausrar kæru stefnanda á hendur stefndu C. En tilefnisleysið hafi fengist fullkomlega staðfest þegar stefnda B hefði gefið sína skýrslu og málið fellt niður hjá sérstökum saksóknara strax í kjölfarið og sú niðurfelling staðfest af ríkissaksóknara þrátt fyrir mikla andstöðu stefnanda.
Stefnandi hafi að undanförnu gert allt til þess að sýna fram á að stefnda B hafi verið mjög andlega vanheil síðustu ár og ef taka ætti mark á fullyrðingum stefnanda hvað þetta varðar yrði ekki annað ályktað en að stefnda B sé svo andlega vanheil að hún sé alfarið ófær um að stjórna sínu daglega lífi. Stefnandi hafi uppi málarekstur á ýmsum stöðum og fullyrði þar að stefnda B sé mjög andlega vanheil. Þar megi nefna að stefnandi hafi m.a. rekið erindi varðandi stefndu B hjá sýslumanninum í Borgarnesi, innanríkisráðuneytinu, sérstökum saksóknara og félagsþjónustu [...]. Fyrir öllum þessum stofnunum hafi stefnandi ítrekað haldið því fram að stefnda B sé mjög andlega vanheil. Stefnandi virðist telja að þessi framkoma öll eigi engin áhrif að hafa á samskipti hennar og stefndu B. Auðvitað sé það ekki svo og stefndu B hafi misboðið mjög það sem sannarlega megi kalla aðför stefnanda að stefndu B.
Því verði aldrei mótmælt að stefndu B hafi verið hlýtt til stefnanda um áratugaskeið og beri þær erfðaskrár þar sem hún arfleiddi stefnanda merki um það. Það hafi því verið algerlega ónauðsynlegt fyrir stefnanda að leggja fram fjölda ljósmynda sem væntanlega eigi að sýna fram á gott samband stefnanda og stefndu B.
Það sé rangt hjá stefnanda að arfleiðsluvottun á erfðaskránum frá 16. júní eða 20. október 2011 sé ekki fullnægjandi vegna þess að þar segi ekkert um andlega heilsu stefndu B sem arfleiðanda. Í arfleiðsluvottuninni á báðum þessum erfðaskrám segi að stefnda B hafi ritað undir þær ,,af fúsum og frjálsum vilja og heil heilsu.“ Ekki sé ljóst hvers vegna stefnandi haldi því fram að arfleiðsluvottarnir hafi ekki vottað um heilsu arfleiðandans. Stefnandi virðist vera á þeirri skoðun að það að vera heill heilsu eigi bara við um líkamlega heilsu en ekki andlega. Stefnandi virðist því standa í þeirri trú að þegar arfleiðsluvottar séu að votta erfðaskrá að þá séu þeir fyrst og fremst að votta um líkamlega heilsu arfleiðandans en ekki andlega. Því sé auðvitað öfugt farið
Stefnandi telji að hafi stefnda B verið arfleiðsluhæf þegar hún gerði erfðaskrár sínar hafi hana brostið almennt gerhæfi ,,vegna andlegrar vanheilsu á háu stigi.“ Þessi fullyrðing sé auðvitað út í hött og röng. Í þessu sambandi fullyrði stefnandi enn og aftur ranglega að stefnda B hafi verið greind með heilabilun í janúar 2010 sem sé rangt.
Stefnandi telji að ráðstafanir stefndu B með erfðaskránum og arfleiðslunni verði ekki skýrðar á vitrænan hátt. Það sé þannig að stefnda B sjálf meti hvort ráðstafanir sem hún gerir séu skynsamlegar og sem betur fer þurfi hún ekki að treysta á stefnanda í því sambandi. Hún hafi í gegnum lífið treyst á sjálfa sig og geri það enn. Ekki telji stefnda B ástæðu til þess að treysta ráðleggingum stefnanda miðað við þá aðför að henni sem stefnandi hafi tekið þátt í á undanförnum misserum. Grundvallaratriði í öllu þessu máli sé að hvorki stefnandi eða stefnda C eigi sjálfkrafa að lögum kröfu eða tilkall til eigna B að henni genginni. Það geti einungis gerst fyrir tilstilli B sjálfrar og stefnda B hafi enn í dag fulla getu og ótvíræða heimild að lögum til að gera hverja þá breytingu á skipan þessara mála sem hún kjósi að gera. Að minnsta kosti þurfi hún ekki undir neinum kringumstæðum að leita eftir heimild stefnanda í þeim efnum.
Stefnda B fullyrði að stefnda C hafi aldrei beitt hana misneytingu á einn eða annan hátt. Þvert á móti hafi stefnda C reynst stefndu B mjög vel alla tíð og gert allt sem í valdi stefndu C hafi staðið til þess að láta stefndu B líða sem best. Stefnda B viti ekki til þess að hún sé haldin einhverjum þeim sjúkdómi sem hafi valdið því að hún hafi ekki getað gætt sinna hagsmuna sjálf. Að halda því fram að stefnda C hafi nýtt sér veikindi stefndu B sér til framdráttar sé út í hött og enn ein rangfærslan af hálfu stefnanda. Stefnda B hafi allt fram á þennan dag ákveðið og framkvæmt sínar ákvarðanir sjálf og enginn hvorki stefnda C né einhver annar hafi beitt hana þrýstingi til að gera eitthvað.
Það sé fjarri sanni að umræddar erfðaskrár séu óvenjulegar að efni til og óskynsamlegar frá almennu sjónarmiði. Stefnanda sé auðvitað frjálst að hafa þá skoðun að þær séu óskynsamlegar án þess að séð verði hver ástæðan geti verið, almennt séð. Stefnda B telji að þeir gerningar sem hún hafi gert séu skynsamlegir og það sé hennar að meta það en hvorki stefnanda né einhvers annars. Stefnda B mótmæli því að hún sé með alvarleg elli- og vitglöp og þannig hafi verið ástatt um hana þegar hún hafi gert umræddar erfðaskrár. Stefnda B geri sér fulla grein fyrir hvaða ráðstafanir hún hafi gert með umræddum erfðaskrám og í þeim komi ekkert annað fram en hennar vilji. Skoðanir stefnanda á skynsemi þeirra ráðstafana sem stefnda B hafi gert í gegnum tíðina varði hana engu.
Til stuðnings sýknukröfu sinni vísar stefnda B aðallega til aðildarskorts og lögvarinna hagsmuna sbr. 2. mgr. 16. gr. og 25. gr. laga nr. 91/1991 um meðferð einkamála. Um gildi erfðaskránna og þá aðallega þeirrar sem enn er í gildi er vísað til erfðalaga nr. 8/1962, aðallega VI. og V. kafla laganna og sérstaklega 40. - 42. gr. og 45. gr. Um hæfi, óhæði og hlutverk arfleiðsluvotta, efni erfðaskráa, formleysi afturköllunar á erfðaskrá og fleiri meginreglur er vísað til erfðalaga og meginreglna erfðaréttar en einnig samninga- og kröfuréttur m.a. um misneytingu og gerhæfi. Einnig er vísað til reglna í um sönnunarbyrði, bæði almennra reglna en einnig reglna sem gilda sérstaklega í málum sem þessum. Ljóst er að sönnunarbyrðin hvílir öll á stefnanda fyrir þeim staðhæfingum sem hann heldur fram í málinu.
Vísað er til meginreglna um sjálfsákvörðunarrétt lögráða einstaklinga í sínum málum og inntak hans. Einnig til 65 og 71. 73. gr. stjórnarskrárinnar.
Kröfu um málskostnað styður stefnda B við 1. mgr. 130. gr. laga nr. 91/1991 um meðferð einkamála. Krafist er álags á málskostnað þar sem málssókn þessi sé með öllu tilhæfu- og tilefnislaus og einungis til þess fallin að valda stefndu B miklum kostnaði, ama og ónæði sem hún geti alveg verið án og eigi alls ekki að þurfa að sæta. Einnig er vísað til þess að stefna málsins og annað sem frá stefnanda hefur komið sé fullt af rangfærslum og ósönnum og órökstuddum fullyrðingum. Ekki sé sanngjarnt annað en stefnandi beri ábyrgð á eigin framkomu hvað þetta varði. Krafa um virðisaukaskatt af málskostnaði byggi á lögum nr. 50/1988.
Af hálfu stefndu C er í fyrsta lagi krafist sýknu vegna aðildarskorts sem sé fyrir hendi bæði sóknar- og varnarmegin. Stefnandi sé ekki erfingi stefndu B og hafi ekki rétt til að krefjast þeirra hagsmuna sem mál þetta snúi að. Hún eigi ekki lögvarða hagsmuni enda hvorki lögerfingi né bréferfingi stefndu B. Fullsannað sé í málinu að stefnda B hafi verið bær til að gera og breyta erfðaskrá og ráðstafa eignum sínum eins og hún hafi gert. Þá sé stefnda C heldur ekki sú sem beina ætti kröfum um ógildingu að þar sem hún hafi hvorki tekið þátt í gerð þeirra eða vottun. Þá séu kröfur vart dómtækar. Krafist sé ógildingar á erfðaskrám frá 16. júní 2011 og 6. ágúst 2010 sem þegar hafi verið afturkallaðar m.a. með erfðaskrá frá 20. október 2011.
Vottun á erfðaskrám þeim sem getur í máli þessu sé í fullu samræmi við ákvæði laga. Ósannað sé að Ingi Tryggvason héraðsdómslögmaður hafi verið vanhæfur til vottaumsýslu samkvæmt 2. mgr. 41. gr. erfðalaga nr. 8/1962 og einnig vegna hagsmunatengsla við stefnu C og B. Tengsl hans hafi ekki verið með þeim hætti að valdi vanhæfi hans sem arfleiðsluvottur en hann hafi sinnt bæði gerð erfðaskráa og fyrirframgreiðslu arfs að beiðni stefndu B vitandi það að hún væri heil heilsu og fær um að ráðstafa eignum sínum með eðlilegum hætti.
Við mat á því hvort ógilda eigi erfðaskrá á grundvelli 2. mgr. 34. gr. erfðalaga vegi vilji arfleiðanda afar þungt og í þessu máli liggi hann afar skýrt fyrir en stefnda B hafi bæði hér fyrir dómi og ítrekað hjá ýmsum yfirvöldum að vilji hennar stæði til þeirra ráðstafana sem hún hafi gert. Séu þær enda bæði eðlilegar og skynsamlegar.
Þá telji stefnda að óheimilt sé að höfða vefengingar- eða ógildingarmál á erfðaskrám á meðan arfleifandi sé á lífi. Stefnda B sé enn fjár síns ráðandi og hafi fullt lögræði og sjálfræði og sé málatilbúnaður stefnanda með öllu óskiljanlegur. Ekkert tilefni sé fram komið til andmæla við erfðaskrá fyrr en að arfláta látnum sem því sé ekki fyrir að fara hér.
Það sé grundvallaratriði í máli þessu að stefnda B hafi rétt til að ráða málum sínum og hagsmunum sjálf enda hafi hún fullt sjálfræði, fjárræði og lögræði til þess og fullt hæfi til allra sinna ráðastafana. Dómstólar hafi ekki heimild til að ákveða fyrir stefndu, sem enn sé á lífi , hvernig hún eigi að haga arfi á eigum sínum eftir sinn dag eða með ráðstöfun fyrirframgreidds arfs. Sér í lagi ef slík ráðstöfun fari í bága við skýran vilja stefndu sjálfrar.
Stefnda telur að óljóst sé hvernig stefnandi hafi aflað sér eintaks erfðaskrár frá 20. október 2011 en efni erfðaskráa sé undirorpið friðhelgi einkalífs þess sem erfðaskrá geri, einkum á meðan arfleifandi sé á lífi. Feli málssókn stefnanda því í sér friðhelgisbrot enda geri stefnandi efni erfðagerninga stefndu B opinbert án heimildar stefndu.
Rangt sé að erfðalög nr. 8/1962 geri ekki ráð fyrir að goldinn sé arfur fyrirfram til annarra en skylduerfingja og er á því byggt að fyrirframgreiðsla bréfarfs sé á grundvelli heimildar í erfðalögum. Fjölmörg fordæmi séu fyrir því að þessi háttur hafi verið hafður á og er vísað til þeirra sem áratuga venju í þessum efnum. Skiptayfirlýsing hafi verið þinglýst án athugasemda og réttaráhrif hennar komið fram þar sem eignatilfærslan hafi átt sér stað.
Með öllu sé ósannað að stefndu B hafi brostið arfleiðsluhæfi. Umfjöllun af hálfu stefnanda um andlega heilsu stefndu B sé mótmælt sem rangri og ósannaðri. Gögn málsins sanni reyndar hið gagnstæða en fyrir liggi vottorð, álit og framburður lækna sem staðfesti þetta. Stefnandi beri sönnunarbyrði fyrir þeirri fullyrðingu sinni að stefnda B hafi skort arfleiðsluhæfi og gera verði strangar kröfur um sönnun einkum með hliðsjón af því að stefnda B er á lífi og hefur ítrekað lýst yfir vilja sínum í þessum efnum. Er á því byggt að stefnda B hafi verið nægilega heil heilsu sbr. 34. gr. erfðalaga til þess að gera ráðstafanir þær sem krafist er ógildingar á.
NIÐURSTAÐA
Í máli þessu hefur stefnandi uppi dómkröfur vegna þess að ákvörðun stefndu B í erfðaskrá sem þessi stefnda gerði hinn 26. maí 2006 um að stefnandi skyldi erfa B að jöfnu ásamt meðstefndu C, systur stefnanda, var breytt með erfðaskrám frá 6. ágúst 2010, 16. júní 2011 og 20. október 2011. Séu erfðaskrár þessar allar ógildanlegar annars vegar vegna þess að formgalli sé á vottun þeirra og hins vegar vegna þess að andlegri heilsu stefndu B hafi verið þannig háttað að hún hafi ekki gert sér grein fyrir þýðingu ráðstafana sinna. Þá sé skiptayfirlýsing frá 11. október 2011 ógildanleg. Verður við það að miða að takist stefnanda sönnun um það að atvik séu með þeim hætti sem hún heldur fram eigi hún lögvarða hagsmuni af því að fá úrlausn dómsins um þessar kröfur sínar og sömuleiðis, þegar litið er til þess að stefnda C hefur hagsmuni af úrlausn málsins, sé henni réttilega stefnt og eigi hún aðild að máli þessu.
Af hálfu stefnanda er því haldið fram að Ingi Tryggvason héraðsdómslögmaður hafi verið vanhæfur til vottaumsýslu fyrir stefndu B vegna hagsmunatengsla við meðstefndu C. Á það verður engan vegin fallist með stefnanda að störf lögmannsins fyrir stefndu C og stefndu B hafi verið með þeim hætti að leiði til vanhæfis hans til að votta umræddar erfðaskrár. Kemur ekki annað fram í máli þessu en að verk þau sem lögmaðurinn innti af hendi fyrir stefndu hafi verið í samræmi við eðlilega lögmannshætti og er þeirri málsástæðu stefnanda, að atvik er varða lögmanninn leiði til ógildingar gerninga þeirra sem hér er fjallað um, því hafnað.
Þá verður ekki fallist á það með stefnanda að lög girði fyrir fyrirframgreiðslu arfs svo sem hér hefur átt sér stað með yfirlýsingu 11. október 2011.
Fyrir liggur vottorð Þorkels Elí Guðmundssonar öldrunarlæknis frá 5. september 2012 þar sem fram kemur að stefnda hafi leitað til hans á minnismóttökuna á Landakoti hinn 19. nóvember 2009 vegna vaxandi minnisvandamála. Rannsóknir og klíniskt mat benti til þess að hér væri um væga minnisskerðingu að ræða sem gæti verið að þróast í Alzheimer sjúkdóm þrátt fyrir að hér væri ekki um heilabilun að ræða. Hún hafi því verið sett á viðeigandi meðferð. Þá segir að þrátt fyrir sína minnisskerðingu þá sé hún með fulla dómgreind, fær um að gera eigin ráðastafanir varðandi sig og einnig hvað varðar sín eigin fjármál og eigur þetta hafi lítið breyst í gegnum árin en hún hafi síðast verið í eftirliti hjá lækninum hinn 21. ágúst 2012.
Vitnið Þorkell Elí Guðmundsson öldrunarlæknir sagði í skýrslu sinni í sérstöku vitnamáli hinn 25. september 2012 þar sem hann staðfesti framangreint vottorð sitt, sérstaklega aðspurður, að hann teldi stefndu B hafa haft fulla dómgreind og verið fær um að ráðstafa eigin fjármálum.
Vitni þetta kom aftur fyrir dóm í þessu máli og sagði, þegar spurt var hvort hann hefði skipt um skoðun frá því sem greinir í vottorði hans frá 5. september 2012, að svo væri ekki. Honum hafi alltaf fundist stefnda B alveg gera sér grein fyrir þessu. Honum hafi í raun og veru ekkert hafa breyst hjá henni þann tíma sem hún kom til vitnisins á göngudeildina utan ef til vill örlítið núna síðast 2012, þá hafi honum fundist henni eitthvað vera að fara aftur. En ekki að það hafi skipt neinu máli, aðallega hafi þetta verið nýminni sem verið hafi að hrjá hana.
Vitnið María K. Jónsdóttir taugasálfræðingur sem skoðaði stefndu B í desember 2008 og fór yfir taugasálfræðileg próf sem fyrir hana voru lögð 2009 og 2011 kvaðst ekki hafa lagt sérstakt mat á dómgreind B en sagði aðspurð að hún hefði ekki haft áhyggjur af því að hún æki bifreið er hún hitti hana en það hafi verið 2008. Stefnda hafi verið haldin vægri vitrænni skerðingu og líklega með byrjandi Alzheimer en heilabilun væri ekki fyrir að fara.
Vitnið Aðalsteinn Guðmundsson öldrunarlæknir skoðaði stefndu B í janúar 2013 að beiðni lögmanns hennar og lagði mat á hæfni hennar til að ráða málum sínum hvað varðar fjármál og eignir og þá sérstaklega hvort hún teldist hæf til að ráðstafa eignum sínum með erfðaskrá og sé svo heil heilsu andlega að hún sé fær um að gera slíka ráðstöfun á skynsamlegan hátt. Segir í niðurstöðu hans að stefnda B hafi verið að þróa með sér Alzheimer sjúkdóm síðustu ár. Þróun einkenna hafi verið mjög hæg og sjúkdómurinn ennþá á vægu stigi. Hún hafi að öllu jöfnu gert sér góða grein fyrir gjörðum sínum á árinu 2011 og verið fær um að ráðstafa eignum sínum á skynsamlegan hátt. Hún sé sátt við síðustu erfðaskrá sína og virðist efnisinnihald endurspegla vilja hennar. Vitnið staðfest þetta álit sitt fyrir dómi og skýrsla hans hnígur að sömu niðurstöðu og hér er rakin.
Vitnið P yfirlæknir á heilsugæslunni [...] sem annast stefnda B sagði spurð um hvort stefnda B væri fær um að taka ákvarðanir eins og þær sem hér er fjallað um að stefnda væri mjög ábyrg, hún hafi sjálf talað um að það væri rétt að fara á minnismóttöku, hún sjálf hafi fundið fyrir því hvenær hún ætti að hætta að keyra, hún hafi sjálf beðið um að fá að fara í hvíldarinnlagnir þegar henni hafi fundist vera þörf á því. Hún virtist vel gera sér grein fyrir ástandi sínu. Vitnið kvað hana vera alveg nægilega vel með á nótunum til þess að taka svona ákvarðanir fyrir sjálfa sig. Innsæi B væri í raun og veru ennþá mjög gott í dag.
Þegar litið er til framburðar vitna þeirra sem hér eru greind og gagna um heilsufar stefndu B sem fram hafa verið lögð í málinu fer því að mati dómsins víðs fjarri að sýnt sé fram á það hér að stefnda B hafi ekki verið svo heil heilsu andlega að hún væri fær um að geta ráðstafað eignum sínum með erfðaskrá eða með öðrum hætti. Kemur og hér til að stefnda B hefur komið fyrir dóminn og lýst vilja sínum í þessum efnum og aðdraganda þeirra ákvarðana sem hún tók. Hefur framburður hennar verið skýr og ótvíræður um þetta og ekki borið þess nein merki að dómgreind hennar væri áfátt.
Þá þykir dóminum og ósannað að högum stefndu B hafi verið þannig háttað að meðstefnda C hafi getað beitt hana misneytingu.
Samkvæmt öllu framansögðu verða stefndu sýknaðar af öllum kröfum stefnanda og eftir úrslitum málsins verður stefnandi dæmdur til að greiða stefndu B 3.000.000 króna í málskostnað þ.m.t. virðisaukaskattur og stefndu C 3.000.000 krónur í málskostnað. Hins vegar þykja ekki alveg nægjanleg efni til þess að dæma stefnanda til greiðslu álags á málskostnað skv. 2. mgr. 131. gr. laga um meðferð einkamála.
Við uppsögu dóms er gætt ákvæða 1. mgr. 115. gr. laga nr. 91/1991 um meðferð einkamála.
Allan Vagn Magnússon dómstjóri og meðdómendurnir Arna Rún Óskarsdóttir og Ragnheiður Halldórsdóttir læknar kváðu upp þennan dóm.
D Ó M S O R Ð
Stefndu, C og B, eru sýknar af kröfum stefnanda, A.
Stefnandi greiði stefndu C þrjár milljónir krónur og stefndu B þrjár milljónir króna í málskostnað.