Hæstiréttur íslands

Mál nr. 142/2002


Lykilorð

  • Frelsissvipting
  • Lögræðislög
  • Skaðabætur
  • Gjafsókn


Fimmtudaginn 31

 

Fimmtudaginn 31. október 2002.

Nr. 142/2002.

X

(Sigurður Gizurarson hrl.)

gegn

lögreglustjóranum í Reykjavík og

(Guðrún Margrét Árnadóttir hrl.)

Erni Kristjáni Snorrasyni

(Skúli Bjarnason hrl.)

 

Frelsissvipting. Lögræðislög. Skaðabætur. Gjafsókn.

X krafðist miskabóta úr hendi stefndu vegna þeirra ráðstafana E, sem var sérfræðingur í geðlækningum, að hafa tvisvar gegn vilja X staðið að því að láta handtaka hana og færa á geðdeild Landspítalans og þeirrar háttsemi lögreglu að handtaka hana og flytja þangað í umrædd sinn. Taldi X að þessar athafnir hafi falið í sér meingerð gagnvart sér sem skylt væri að bæta samkvæmt 26. gr. skaðabótalaga. Málsástæðu X um að E hafi, á grundvelli samnings við X um læknisfræðilega aðstoð, verið vanhæfur til að taka ákvörðun um nauðungarvistun X var hafnað sem of seint fram kominni, en ekki hafði verið byggt á þeirri málsástæðu í héraði. E hafði í júní 2000 metið ástand X svo að óhjákvæmilegt væri að leggja hana inn vegna sjúkdóms hennar. Hafði X þá komið tvívegis á heimili hans án sýnilegs tilefnis og haft þar, að sögn E, í hótunum. Óskaði E eftir að X yrði flutt og lögð inn á geðdeild Landspítalans. Vakthafandi læknir, sem tók á móti X á bráðaþjónustu, treysti sér ekki í kjölfar geðskoðunar á X til að leggja hana inn. X hafði komið í viðtöl til E um fjögurra ára skeið en við skoðun læknis þess er tók á móti henni á geðdeild, sem ekki var sérfræðingur í geðlækningum, var ekki stuðst við sjúkragögn um X. Stóð sú skoðun yfir í hálfa klukkustund. Áður en E óskaði eftir flutningi X á geðdeild hafði hann leitað samráðs yfirlæknis á geðdeild. Meðal annars með vísan til þessa var fallist á þá niðurstöðu héraðsdóms að ekki væri í ljós leitt að ástand X hafi ekki verið með þeim hætti sem áskilið sé í lögræðislögum fyrir nauðungarvistun og voru stefndu sýknaðir af kröfu X.

 

Dómur Hæstaréttar.

Mál þetta dæma hæstaréttardómararnir Guðrún Erlendsdóttir og Ingibjörg Benediktsdóttir og Arnljótur Björnsson fyrrverandi hæstaréttardómari.

Áfrýjandi skaut málinu til Hæstaréttar 21. mars 2002. Hún krefst þess aðallega að stefndu verði dæmdir óskipt til þess að greiða sér skaðabætur að fjárhæð 2.000.000 krónur ásamt dráttarvöxtum samkvæmt III. kafla vaxtalaga nr. 25/1987 frá 16. september 1999 af 1.000.000 krónum og af 2.000.000 krónum frá 13. júní 2000 til 1. júlí 2001 en samkvæmt 1. mgr. 6. gr. laga nr. 38/2001 um vexti og verðtryggingu frá þeim degi til greiðsludags. Þá krefst hún málskostnaðar fyrir héraðsdómi og Hæstarétti.

Stefndu krefjast aðallega staðfestingar héraðsdóms og málskostnaðar fyrir Hæstarétti en til vara er þess krafist að stefnukröfur verði lækkaðar og málskostnaður fyrir héraðsdómi og Hæstarétti felldur niður.

I.

Í máli þessu krefst áfrýjandi miskabóta úr hendi stefndu vegna þeirra ráðstafana stefnda Ernis Kristjáns Snorrasonar að hafa 16. september 1999 og 13. júní 2000 gegn vilja áfrýjanda staðið að því að láta handtaka hana og færa á geðdeild Landspítalans og þeirrar háttsemi lögreglu að handtaka hana og flytja þangað í umrædd sinn. Telur áfrýjandi að þessar athafnir stefndu hafi falið í sér meingerð gagnvart sér sem skylt sé að bæta samkvæmt 26. gr. skaðabótalaga nr. 50/1993.

Fyrir Hæstarétti reisir áfrýjandi kröfu sína um bætur meðal annars á þeirri málsástæðu að munnlegur samningur hafi komist á milli áfrýjanda og stefnda Ernis um læknisfræðilega aðstoð. Hafi hann á grundvelli þessa samnings verið vanhæfur samkvæmt II. kafla stjórnsýslulaga nr. 37/1997 um sérstakt hæfi til að taka ákvörðun um nauðungarvistun áfrýjanda. Á þessari málsástæðu var ekki byggt í héraði og hafa stefndu mótmælt henni sem of seint fram kominni. Þegar af þeirri ástæðu verður ekki á henni byggt í málinu.

II.

Með vísan til forsendna héraðsdóms verður staðfest niðurstaða hans um handtöku og nauðungarvistun áfrýjanda 16. september 1999.

Eins og greint er frá í héraðsdómi leitaði áfrýjandi til stefnda Ernis vorið 1996, en fram er komið að hann hefur lokið meistaraprófi í lífeðlisfræði og er sérfræðingur í geðlækningum. Kom áfrýjandi til hans í viðtöl um fjögurra ára skeið. Í skýrslu hans fyrir dómi kemur fram að áfrýjandi hafi frá upphafi verið mjög erfiður sjúklingur. Hann hafi talið nauðsynlegt að áfrýjandi fengi frekari meðferð vegna ranghugmynda sem hún hafi verið haldin, en hún ekki fengist til þess. Í skýrslu geðlæknisins 14. september 1999, sem hann ritaði í tilefni af beiðni hans um nauðungarvistun áfrýjanda 15. sama mánaðar, kemur fram að hún hafi verið haldin verulegum ranghugmyndum, þegar hún leitaði til hans í maí 1996.

Í svokallaðri dagnótu dagsettri kl. 00.20 14. júní 2000 frá vakthafandi lækni, sem tók á móti áfrýjanda á bráðaþjónustu geðdeildar Landspítalans, er lögregla kom með hana þangað, kemur fram að hún hafi „krónisk paranoid“ einkenni, sem væri ekkert nýtt. Hafi hún sagst hafa hringt í stefnda Erni að kvöldi 13. júní en engar ógnanir haft í frammi. Einnig hafi hún sagt að hún þyrfti að tala við Davíð Oddsson vegna einhverra kvartana. Um rannsókn læknisins á áfrýjanda segir meðal annars í dagnótunni að fram komi hjá henni ákveðnar „paranoid“ ranghugmyndir. Er eftir henni haft að hún sé í mikilli baráttu við „kerfið“ og telji sig ekki hafa fengið leiðréttingu sinna mála. Í niðurlagi dagnótunnar segir meðal annars að áfrýjandi hafi verið samvinnugóð í viðtalinu og sýnt „góðan kontakt, það gæti þó verið hennar frontur, en maður hefur ekkert annað í höndunum að byggja á, en þessa geðskoðun.“ Er fram komið að læknirinn treysti sér ekki til að leggja áfrýjanda inn í kjölfar þessarar geðskoðunar. Fyrir dómi skýrði hann svo frá að skoðunin hafi tekið um hálfa klukkustund og hann hafi ekki haft fyrri sjúkraskýrslur áfrýjanda undir höndum. Hafi hann einungis lýst ástandi sjúklingsins eins og það kom honum fyrir sjónir. Fram kom í vætti hans að á þessum tíma hafi hann ekki verið orðinn sérfræðingur í geðlækningum. Í framburði yfirlæknis geðdeildarinnar kom fram að stefndi Ernir hafði samráð við hann áður en áfrýjandi var flutt á deildina. Staðfesti vitnið að áfrýjandi hefði fyrir þennan atburð verið haldin ofsóknarhugmyndum og sagði að í símtölum væri hún mjög ógnandi og hótandi, og gæti hann ímyndað sér að hún gerði marga hrædda.

III.

Stefndi Ernir, sem hafði verið læknir áfrýjanda um árabil, mat ástand hennar svo að kvöldi 13. júní 2000 að óhjákvæmilegt væri að leggja hana inn vegna sjúkdóms hennar. Hafði áfrýjandi þá komið tvívegis á heimili hans án sýnilegs tilefnis og haft þar, að hans sögn, í hótunum. Í framburði læknis þess, sem skoðaði áfrýjanda, við komu á geðdeild, kemur fram að alþekkt sé að sjúklingur geti fyrir læknisskoðun hafa verið í allt öðru ástandi en þegar skoðun fer fram. Eins og að framan er rakið stóð skoðun læknisins, sem ekki var sérfræðingur í geðlækningum, á áfrýjanda yfir í hálfa klukkustund og við þá skoðun var ekki stuðst við sjúkragögn um hana. Svo sem áður greinir leitaði stefndi Ernir samráðs yfirlæknisins á geðdeildinni áður en hann óskaði eftir að hún yrði flutt og lögð inn á geðdeild í kjölfar þess að hún kom í annað sinn á heimili hans umrætt kvöld. Bar yfirlæknirinn fyrir dómi að sér hafi sýnst alveg einsætt mál eftir þeirri sögu, sem stefndi Ernir sagði honum, og hann hafi enga ástæðu til að draga í efa, að mjög eðlilegt væri að lögregla hefði verið tilkvödd. Með vísan til þess, sem nú var rakið, verður að fallast á þá niðurstöðu héraðsdóms að ekki sé leitt í ljós að ástand áfrýjanda hafi ekki verið með þeim hætti sem áskilið er í 2. mgr. 19. gr. lögræðislaga nr. 71/1997, sem kveður á um að læknir geti ákveðið að sjálfráða maður verði vistaður nauðugur í sjúkrahúsi ef hann er haldinn alvarlegum geðsjúkdómi eða verulegar líkur eru á að svo sé eða ástand hans þannig að jafna megi til alvarlegs geðsjúkdóms. Þegar allt framangreint er virt og að öðru leyti með vísan til forsendna héraðsdóms verður niðurstaða hans um handtöku og nauðungarvistun áfrýjanda 13. júní 2000 staðfest svo og um málskostað.

Rétt þykir að málskostnaður fyrir Hæstarétti falli niður. Gjafsóknarkostnaður áfrýjanda greiðist úr ríkissjóði, eins og nánar greinir í dómsorði.

Dómsorð:

        Hinn áfrýjaði dómur skal vera óraskaður.

Málskostnaður fyrir Hæstarétti fellur niður. Gjafsóknarkostnaður áfrýjanda, X, greiðist úr ríkissjóði, þar með talin þóknun lögmanns hennar, Sigurðar Gizurarsonar hæstaréttarlögmanns, 300.000 krónur.

 

 

Dómur Héraðsdóms Reykjavíkur 28. janúar 2002.

Mál þetta, sem dómtekið var 4. janúar sl., var höfðað með stefnu, þingfestri 24. apríl sl.

Stefnandi er X, kt. [...], [...], Reykjavík.

Stefndu eru lögreglustjórinn í Reykjavík, kt. 450269-7519, Hverfisgötu 113-15, Reykjavík og Ernir Kristján Snorrason, kt. 170344-2199, geðlæknir, Stigahlíð 80, Reykjavík.

Dómkröfur stefnanda:

Að stefndu verði dæmdir in solidum til þess að greiða stefnanda skaðabætur að fjárhæð 2.000.000 kr. ásamt dráttarvöxtum samkvæmt III. kafla laga nr. 25/1987 frá 16. september 1999 af 1.000.000 kr. og af 1.000.000 kr. frá 13. júní 2000 til 1. júlí 2001 en samkvæmt III. kafla laga nr. 38/2001 frá þeim degi til greiðsludags.

Auk þess krefst stefnandi þess að henni verði dæmdur hæfilegur málskostnaður óskipt úr hendi stefndu að teknu tilliti til viðisaukaskatts.

Dómkröfur stefnda, lögreglustjórans í Reykjavík:

Þessi stefndi krefst aðallega sýknu af öllum kröfum stefnanda og að honum verði tildæmdur málskostnaður úr hendi stefnanda að mati réttarins.

Til vara er þess krafist að stefnukröfur verði stórkostlega lækkaðar og málskostnaður verði í því tilviki látinn niður falla.

Dómkröfur stefnda, Ernis K. Snorrasonar:

Þessi stefndi krefst aðallega sýknu af öllum kröfum stefnanda og að honum verði tildæmdur málskostnaður að mati réttarins.

Til vara er þess krafist að stefnukröfur verði stórlega lækkaðar og í því tilviki verði málskostnaður látinn niður falla.

Við aðalmeðferð málsins gáfu stefnandi og stefndi, Ernir Snorrason, skýrslu fyrir dómi, svo og vitnin, Tómas Zoëga læknir, Lúðvík Ólafsson læknir, Ómar Hjaltason læknir, Jón Torfason Ágústsson leigubílstjóri, Guðbrandur Sigurðsson lögreglumaður og Hermann Þór Baldursson lögreglumaður.

 Málavextir

Á árinu 1996 hóf stefnandi að ganga til stefnda, Ernis Snorrasonar geðlæknis.

Hinn 14. sept. 1999 gaf stefndi, Ernir, út læknisvottorð til dóms- og kirkjumálaráðuneytisins vegna beiðni um nauðungarvistun. Hinn 16. sept. ákvað dómsmálaráðuneytið að stefnandi skyldi vistuð á sjúkrahúsi. Sama dag fór stefndi, Ernir, með tveim lögreglumönnum á heimili stefnanda að [...]. Í framhaldi af því var stefnandi flutt á geðdeild Landspítalans. Hinn 27. sept. 1999 var kveðinn upp úrskurður í Héraðsdómi Reykjavíkur þar sem staðfest var sú ákvörðun dómsmálaráðuneytisins frá 16. sept. 1999 að stefnandi skyldi vistast á sjúkrahúsi. Úrskurður þessi var staðfestur með dómi Hæstaréttar, uppkveðnum 1. okt. 1999.    

Beiðni Félagsþjónustunnar í Reykjavík um að stefnandi skyldi svipt sjálfræði í 6 mánuði svo vista mætti hana gegn vilja hennar á geðdeild Landspítalans var hafnað með úrskurði Héraðsdóms Reykjavíkur, uppkveðnum 13. okt. 1999. Í forsendum úrskurðarins segir m.a. svo: "Ekki verður heldur talið að óyggjandi vísbending hafi komið fram í málinu um það að varnaraðili sé beinlínis hættuleg sjálfri sér og öðrum eða þá að hún sé sturluð. Loks bendir framkoma hennar á sjúkrahúsinu eða fyrir dómi ekki til þess heldur. Þegar þetta er allt metið verður að telja að ekki hafi verið sýnt fram á að varnaraðili sé algerlega ófær um að ráða persónulegum högum sínum eða að brýn þörf sé til þess að svipta hana sjálfræði…"

Að sögn stefnanda hóf hún að nýju að ganga til stefnda, Ernis, nokkrum dögum eftir að hún losnaði út af Landspítalnum um haustið 1999.

Að kvöldi hins 13. júní 2000 fór stefnandi í leigubíl tvívegis að heimili stefnda, Ernis. Í fyrra skiptið var stefndi ekki heima en að sögn stefnanda sagði kona stefnda að stefnandi mætti koma aftur seinna. Þá er stefnandi kom aftur um hálftíma síðar hitti hún stefnda, Erni. Þeim stefnanda og stefnda, Erni, ber ekki saman um samskipti þeirra að kvöldi 13. júní 2000. Í framhaldi af heimsókn þessari hafði stefndi, Ernir, samband við lögreglu og óskaði eftir því að stefnandi yrði flutt á geðdeild Landspítalans. Lögreglumenn fóru að heimili stefnanda sem opnaði ekki en hringdi í lögregluna til þess að leggja fram kvörtun. Þá var stefnandi hvött til þess að koma niður á lögreglustöð að Hverfisgötu 113. Þá er stefnandi kom þangað kl. 23.19 var hún flutt á geðdeild Landspítalans.

Vakthafandi læknir á geðdeildinni, Ómar Hjaltason, skoðaði stefnanda. Eftir skoðun læknisins fékk stefnandi að fara heim. Í dagnótu læknisins, dags. 14. júní 2000, kl. 13.09, segir m.a. um samskipti læknisins við stefnanda sama dag, kl. 00.20,: "Kona sem lá hér í haust og fékk greininguna Delusional disorder. Hefur Paranoid einkenni í grunninn, sem til staðar eru en a.ö.l. róleg og með ofangreinda geðskoðun í huga tel ég mér ekki á neinn hátt  fært að svipta þessa manneskju inn á deild."

Málsástæður og rökstuðningur stefnanda

Stefnandi kveðst að ástæðulausu tvívegis hafa verið svipt frelsi. Á þeirri ólöglegu og saknæmu meingerð beri annars vegar stefndi, Ernir K. Snorrason, ábyrgð og hins vegar stefndi, lögreglustjóraembættið í Reykjavík. Ábyrgð þeirra sé óskipt.

Aðför stefnda, Ernis K. Snorrasonar, sem og lögreglunnar í Reykjavík hafi verið tilefnislaus með öllu bæði í september 1999 og í júní 2000.

Stefnandi hafi ekki gert neitt á hlut stefnda, Ernis, er geti réttlætt tiltektir hans. Stefnandi hafi hvorki í september 1999 né í júní 2000 haft í hótunum við hann né heldur hafi stefnandi beitt fjölskyldu hans eða eignir ofbeldi. Staðhæfingar þessa stefnda um hótanir stefnanda séu ósannaðar svo og staðhæfingar þessa stefnda um að stefnandi hafi skemmt bifreið hans.

Stefnandi hafi hvorki 16. september 1999 né 13. júní 2000 gefið neitt tilefni til þess að hún yrði óforvarandis handtekin og flutt nauðug á geðdeild Landspítala við Hringbraut í Reykjavík. Í hvorugt skiptið hafi stefnandi sýnt af sér í orði eða verki þá framkomu er gæfi tilefni til þess að handtaka hana og færa nauðuga á geðsjúkrahús.

Beiðni stefnda, Ernis, um handtöku og nauðungarflutning á geðdeild Landspítala annars vegar í september 1999 og hins vegar í júní 2000 hafi hvorki stuðst við lögræðislög nr. 17/1997 né lög nr. 91/1991 um meðferð opinberra mála. Beiðnirnar hafi ekki haft stoð í neins konar sannaðri meingerð stefnanda í garð þess stefnda. Því hafi þarna verið um ólöglegt athæfi að ræða og saknæmt gagnvart stefnanda.

Ekki hafi legið fyrir rökstuddur grunur um að stefnandi hefði framið brot sem sætt gæti ákæru og handtaka hennar hafi ekki heldur verið nauðsynleg til að koma í veg fyrir brot, tryggja návist hennar og öryggi eða koma í veg fyrir að hún spillti sönnunargögnum, sbr. 1. mgr. 97. gr. laga nr. 19/1991. Ekki hafi heldur verið skilyrði til handtöku hennar samkvæmt öðrum málsgreinum 97. gr. laganna né heldur samkvæmt 98. eða 99. gr. laganna.

Með úrskurði Héraðsdóms Reykjavíkur uppkveðnum 13. október 1999 hafi verið hafnað beiðni Félagsþjónustunnar í Reykjavík um 6 mánaða sjálfræðissviptingu stefnanda í því skyni að vista hana með nauðung á geðsjúkrahúsi haustið 1999. Handtaka og nauðungarflutningur 13. júní 2000 hafi ekki getað gerst löglega nema búið hefði verið að fá stefnanda svipta sjálfræði með dómi. Ekkert hafi þá breyst frá því að úrskurðurinn 13. október 1999 var kveðinn upp. Beiðni stefnda, Ernis, um handtöku eða nauðungarvistun á nýjan leik í júní 2000 stangist á við úrskurð Héraðsdóms Reykjavíkur.

Samþykki stjórnenda lögreglunnar í Reykjavík annars vegar í september 1999 og hins vegar í júní 2000 við beiðni stefnda, Ernis, aðstoð við handtöku og nauðungarflutning stefnanda á geðdeild hafi verið ástæðulaus og ekki stuðst við nein haldbær gögn. Það hafi því ekki haft fullnægjandi stoð í lögum og því verið ólöglegt og saknæmt athæfi gagnvart stefnanda.

Um lagastoð kröfu sinnar vísar stefnandi til 26. gr. skaðabótalaga nr. 50/1993. Títtnefndar handtökur og nauðungarflutningar 16. sept. 1999 og 13. júní 2000 á geðdeild Landspítalans hafi verið mikil meingerð í garð stefnanda. Sá skaði sem henni hafi þar með verið valdið sé miklu meiri en sá skaði sem almennt hljótist af ólöglegri handtöku. Slík aðför sem hafi að forsendu að stefnandi sé geðveik, sé annars vegar til þess fallin að brjóta niður sjálfsvirðingu og sjálfstraust og draga svo kjark úr stefnanda að hún treysti sér ekki til að lifa eðlilegu lífi. Slík aðför sé til þess fallin að eyðileggja þjóðfélagslega stöðu hennar og álit í augum samborgaranna sem aftur hafi valdið erfiðleikum í samskiptum við annað fólk og torveldað mjög að stefnandi fengi lifað eðlilegu lífi. Þessi aðför raski svo stöðu stefnanda og högum að henni sé orðið mjög örðugt að fá og halda vinnu þótt hún hafi fulla starfsorku og hafi hvarvetna getið sér orð fyrir dugnað á vinnustað.

Stefndu beri óskipta ábyrgð á handtökum og nauðungarflutningum stefnanda 16. sept. 1999 og 13. júní 2000. Í báðum tilvikum hafi lögreglustjóraembættið í Reykjavík fallist á beiðni stefnda, Ernis, og framkvæmt hana samdægurs. Þar með hafi lögreglustjóraembættið gerst samábyrgt stefnda, Erni. Þessir tveir aðilar hafi staðið í sameiningu að framkvæmd handöku og nauðungarflutnings stefnanda á geðdeild Landspítalans. Vegna þess beri þeir óskipta ábyrgð á ólöglegri framkvæmd handtöku og nauðungarflutnings.

Sá miski sem stefnanda hafi verið gerður með framangreindum handtökum og nauðungarflutningum sé mikill en erfitt sé að meta skaðann til peninga. Í lögfræðilegum skilningi teljist vera um ófjárhagslegt tjón að ræða. Ljóst sé þó að röskunin á stöðu og högum sé fjárhagslegs eðlis sem líkleg sé til að lýsa sér í því að stefnandi standi um lengri eða skemmri tíma uppi atvinnulaus. Þrátt fyrir það stilli stefnandi kröfugerð sinni mjög í hóf og krefjist aðeins skaðabóta að fjárhæð 1.000.000 kr. fyrir handtöku og nauðungarflutning í september 1999 og skaðabóta að fjárhæð 1.000.000 kr. fyrir handtöku og nauðungarflutning í júní 2000.

Málsástæður og rökstuðningur stefnda, lögreglustjórans í Reykjavík

Af hálfu þessa stefnda er því mótmælt, að afskipti lögreglu í þeim tveim tilvikum sem málið er af risið, hafi verið ólögmæt eða falið í sér ólögmæta meingerð í garð stefnanda. Er bótakröfu stefnanda á  hendur þessum stefnda því eindregið vísað á bug.

Samkvæmt 26. gr. skaðabótalaga sé heimilt að láta þann sem ábyrgð ber á ólögmætri meingerð greiða miskabætur til þess sem misgert er við. Skilyrði fyrir því að miskabætur verði dæmdar vegna meingerðar sé að um sé að ræða ólögmæta og saknæma hegðun og þurfi gáleysi að vera verulegt til þess að tjónsatvik geti talist ólögmæt meingerð. Þau bótaskilyrði séu ekki uppfyllt í málinu hvað varðar stefnda, lögreglustjórann í Reykjavík, og hann beri heldur ekki að lögum ábyrgð á gerðum meðstefnda né starfsliðs sjúkrahúsa.

Í 32. gr. lögræðislaga nr. 71/1997 sé sérákvæði um skaðabætur úr ríkissjóði varðandi nauðungarvistun sjálfráða manns komi í ljós að lögmælt skilyrði hafi brostið til slíkrar aðgerðar, hún hafi staðið lengur en efni stóðu til eða að henni staðið á óþarflega hættulegan, særandi eða móðgandi hátt. Af hálfu stefndanda sé bótakrafa ekki reist á þessu lagaákvæði og ljóst að kröfu á þeim lagagrundvelli verði heldur ekki beint að stefnda, lögreglustjóranum í Reykjavík, sem fari ekki með fyrirsvar vegna ríkissjóðs í slíkum málum heldur fjármálaráðherra fyrir hönd íslenska ríkisins, sbr. 5. mgr. 17. gr. laga um meðferð einkamála í héraði.

Samkvæmt 1. mgr. 19. gr. lögræðislaga verði sjálfráða maður ekki vistaður nauðugur í sjúkrahúsi. Samkvæmt 2. mgr. geti læknir þó ákveðið að sjálfráða maður skuli færður og vistaður nauðugur í sjúkrahúsi ef hann er haldinn alvarlegum geðsjúkdómi eða verulegar líkur eru taldar á að svo sé eða ástand hans sé þannig að jafna megi til alvarlegs geðsjúkdóms. Frelsisskerðing samkvæmt þeirri málsgrein megi ekki standa lengur en 48 klukkustundir nema til komi samþykki dómsmála-ráðuneytisins samkvæmt 3. mgr. Samkvæmt 4. mgr. 19. gr. sé lögreglu skylt að verða við beiðni læknis um aðstoð við að flytja mann nauðugan í sjúkrahús samkvæmt 2. og 3. mgr. og skuli læknir þá fylgja honum ef nauðsyn þyki bera til.

Lögreglumenn hafi sinnt lögboðinni skyldu sinni samkvæmt 4. mgr. 19. gr. lögræðislaga er þeir veittu aðstoð við að flytja stefnanda á geðdeild. Í fyrra skiptið hafi þeir gert það að beiðni stefnda, Ernis, og samkvæmt ákvörðun dómsmálaráðuneytisins. Atbeini lögreglu hafi því í einu og öllu verið að lögum og af og frá að gerðir lögreglu umrætt sinn hafi mótast af meingerð í garð stefnanda. Engri ólögmætri eða saknæmri háttsemi hafi verið fyrir að fara af þeirra hálfu. Beri því að sýkna stefnda, lögreglustjórann í Reykjavík, af öllum  bótakröfum stefnanda reistum á 26. gr. skaðabótalaga vegna þessa atviks.

Í síðara skiptið hafi aðstoð komið til í kjölfar þess að stefndi, Ernir, hafi krafist þess að stefnandi yrði flutt á geðsjúkrahús þar sem hún væri geðveik, í slæmu andlegu  ástandi og hættuleg umhverfi sínu. Nauðungarflutningur hafi þá farið fram að undangengnu samráði við vakthafandi lækni á geðdeild Landspítalans. Fái þannig ekki á nokkurn hátt staðist að sú aðgerð hafi falið í sér ólögmæta meingerð af hálfu lögreglu né sé unnt að virða það lögreglunni til saknæms gáleysis varðandi meinta ólögmæta meingerð stefnda, Ernis, að lögreglan veitti atbeina sinn til flutnings í það skiptið, þótt læknir sá er tók við stefnanda á geðdeild Landspítalans hafi ekki talið forsendur fyrir því að halda stefnanda inni á spítalanum að lokinni skammri dvöl og skoðun þar. Beri þannig einnig að sýkna stefnda, lögreglustjórann í Reykjavík, vegna þess atviks og af öllum kröfum stefnanda í máli þessu.

Verði ekki á sýknukröfu fallist er varakrafa þessa stefnda sú að kröfur stefnanda honum á hendur verði stórkostlega lækkaðar. Í því sambandi er á því byggt í fyrsta lagi að sýkna beri vegna annars hvors tilviksins. Kröfur stefnanda séu úr öllu hófi og er krafist stórkostlegrar lækkunar miskabótakrafna stefnanda fari svo að dómurinn fallist á bótaskyldu að einhverju leyti.

Vakin er athygli á því að frelsissvipting stefnanda vegna atviksins 13. júní 2000 hafi staðið í mjög skamman tíma. Þá er því mótmælt að stefnandi geti átt rétt til dráttarvaxta frá fyrri tíma en þingfestingu máls þessa en það hafi verið fyrst við stefnu í málinu að stefnandi hafði uppi bótakröfu á hendur stefnda, lögreglustjóranum í Reykjavík.

Málsástæður og rökstuðningur stefnda, Ernis K. Snorrasonar

Stefndi, Ernir, telur að eins og málið liggur fyrir snúist það í grunninn einkum um tvennt, annars vegar um það hvernig heilsu stefnanda var háttað á umræddum tímabilum þegar til frelsissviptingar kom og svo hins vegar hvort atbeini hans að flutningi stefnanda á sjúkrahús í framhaldinu hafi verið með einhverjum þeim hætti að það kunni að skapa stefnanda bótarétt og þá stefnda bótaskyldu að einhverju marki.

Stefndi telur hafið yfir allan vafa að stefnandi hafi um langt árabil átt við að stríða alvarlega geðbilun sem á köflum a.m.k. hafi fylgt ranghugmyndir, veruleikafirring og ofsóknarhugmyndir. Eins og ástandi stefnanda hafi verið háttað leiki enginn vafi á því að hún hafi verið hættuleg sjálfri sér og umhverfi sínu þegar verst stóð á. Það hafi átt við í báðum þeim tilvikum þegar stefndi, Ernir, ljáði atbeina sinn að vistun hennar á sjúkrahúsi af því tilefni í september 1999 og júní 2000. Í báðum tilvikum hafi stefnandi þurft á lyfjameðferð að halda, sem ómögulegt hafi verið að standa að án þess að vista hana á sjúkrahúsi. Vegna viðkvæmni málsins vilji stefndi af tillitssemi við stefnanda hvorki leggja fram sjúkraskrá stefnanda né greina frá einstökum tilvikum sem beri vott um hennar andlegu vanheilsu umfram það sem þegar komi fram í gögnum málsins.

Sjúkrasaga stefnanda spanni miklu lengri tíma en þau ár sem stefndi, Ernir, hefur sinnt henni. Heilsubresturinn hafi markað allt líf og lífsgæði stefnanda og nægi þar að nefna að henni hafi gengið illa að haldast á vinnu og húsnæði jafnframt því sem henni hafi reynst lítill stuðningur í fjölskyldu sinni, a.m.k. hin seinni árin. Stefnandi sé þannig í raun einstæðingur sem stefndi, Ernir, hafi kennt í brjósti um og því a.m.k. á stundum lagt sig fram um að hjálpa langt umfram þær skyldur sem að honum hafi snúið sem lækni. Um það vitni m.a. komur hennar til hans á læknastofuna vorið 2000 eftir að stefndi, Ernir, hafði hlutast til um vistun hennar hið fyrra skiptið og þrátt fyrir að stefnandi hafi borið þungan hug til hans af því tilefni.

Að því er varðar matið á því hvort stefndi, Ernir, hafi í umræddum tilvikum farið út fyrir þær heimildir/skyldur sem hann hafi í þessu sambandi og einkum sé að finna í 2. mgr. 19. gr. lögræðislaga er vakin athygli á eftirfarandi þáttum:

Tilvitnuð lagaheimild veiti öllum læknum aðgang að því úrræði að koma sjúklingi á sjúkrahús gegn vilja hans enda sé vistunin í framhaldinu ávallt háð mati annarra aðila og eftir atvikum borin undir dómstóla. Stefndi, Ernir, sé hins vegar sjálfur fjölmenntaður sérfræðingur á sviði geðlæknisfræði og ætti því að öðru jöfnu að geta staðið að traustara mati á sjúklingum að þessu leyti en læknar sem ekki eru sérmenntaðir.

Heimsóknir stefnanda á heimili stefnda, Ernis, að kvöldi 13. júní hafi verið með ógnandi hætti. Stefndi telur stefnanda hafi sönnunarbyrði um það að hún hafi haft lögmætt og eðlilegt erindi í tvígang sama kvöldið á heimili hans. Lánist henni ekki sú sönnun hljóti að eiga að ganga út frá því að um hafi verið að ræða annarlega heimsókn sjúklings á heimili geðlæknis síns.

Tilvitnuð 2. mgr. 19. gr. lögræðislaga sé fullkomlega þýðingarlaus ef sá sem fer fram á flutning þurfi ævinlega að tryggja sér fyrir fram að sá sem framkvæmir geðskoðun í kjölfarið sé sammála og fallist á innlögn. Það hljóti m.ö.o. að vera lagt í mat þess læknis sem óskar aðstoðar í byrjun hvort flytja eigi sjúkling á sjúkrahús til frekari skoðunar, a.m.k. meðan það sé sæmilega sennilegt að krafan um aðstoðina sé ekki gjörsamlega að tilefnislausu. Að mati stefnda megi umorða þessu reglu þannig að það þurfi a.m.k. stórkostlegt gáleysi að vera fyrir hendi af hálfu þess sem óski aðstoðar eða illfýsi sem stjórnist af annarlegum og ómálefnalegum hvötum ef um bótskyldu eigi að geta verið að ræða skv. 26. gr. skaðabótalaga. Öllum öðrum bótasjónarmiðum og bótagrundvelli er mótmælt af hálfu stefnda. Fráleitt sé að gáleysi eigi hér við vegna þekkingar stefnda á högum stefnanda og enn síður illfýsi þar sem stefndi, Ernir, hafi ávallt borið hagsmuni stefnanda fyrir brjósti. Það sé sérstaklega mikilvægt að dómstólar skýri þessar heimildir með þeim hætti að þeir skapi ekki hræðslu hjá læknum til frambúðar við það að beita þessum úrræðum. Það velti á miklu að læknar geti gripið fljótt og örugglega inn í tvísýna atburðarráðs, enda sé framhaldið alltaf háð mati annarra aðila með einum eða öðrum hætti og þannig tryggt að hugsanleg misbeiting heimildarinnar eigi aðeins að hafa í för með sér lágmarkstjón.

Af hálfu stefnda, Ernis, er því haldið fram að þá er stefnandi kom heim til hans að kvöldi 13. júní 2000 hafi stefnandi haft uppi ógnandi tilburði og líflátshótanir. Umrædda hegðun hafi stefndi, Ernir, talið vera órækan vott um það að andlegu ástandi stefnanda hefði hrakað svo að það væri ábyrgðarhluti, með tilliti til hagsmuna stefnanda fyrst og fremst, að hafast ekkert að þar sem stefnandi væri augljóslega illa haldin og hættuleg umhverfinu og sjálfri sér. Vegna þessa hafi hann óskað eftir því við lögregluna í Rekjavík, eftir að hafa haft samráð við Tómas Zoëga geðlækni og Ómar Hjaltason, vakthafandi geðlækni á Landspítalanum, að stefnandi yrði flutt þangað. Stefndi, Ernir, telur það ekki eiga að breyta neinu hvort hótun stefnanda um líflát hafi beinst gegn honum sjálfum eða einhverjum öðrum. Hann hefði brugðist nákvæmlega eins við ef hótanirnar og aðförin 13. júní 2000 hefðu beinst gegn einhverjum  örðum. Hann hafi hvorki farið fram í máli þessu af eigingjörnum né annarlegum  hvötum enda hafi hann fyrst og fremst borið hag sjúklingsins fyrir brjósti. Ákvörðunin um að óska eftir liðsinni lögreglunnar hafi ekki grundvallast eingöngu á þessari einu uppákomu heldur hafi legið þar að baki heildstætt mat á högum og heilsu sjúklingsins. Ef undanþiggja ætti atvik sem beinast gegn lækninum sjálfum þyrfti að undanþiggja það alveg sérstaklega í lögum.

Ekki sé ástæða til sérstakrar umfjöllunar um fyrri vistunina í september 1999. Þar hafi verið staðið þannig að málum að ábyrgðin hljóti alfarið að vera hjá dómsmálaráðuneytinu, ef um einhverja ábyrgð væri að ræða þar sem ráðuneytið hafi tekið sjálfstæða ákvörðun um vistun áður en til flutnings kom á grundvelli 3. mgr., sbr. 2. mgr. 19. gr. lögræðislaga. Það að dómstólar staðfestu vistunarkröfu ráðuneytisins hljóti einnig með sama hætti að gera sjálfstæða skoðun á sjálfum flutningnum á sjúkrahúsið óþarfa.

Bótkröfu er alfarið hafnað þar sem bótagrundvöll skorti. Verði þrátt fyrir það talið að stefnanda beri einhverjar bætur er bótakröfunni mótmælt sem allt of hárri og órökstuddri. Í því sambandi er bent á að í fyrra tilvikinu hafi vistunin verið úrskurðuð í héraðsdómi og staðfest í Hæstarétti en í síðara tilvikinu hafi líklega einungis verið um tveggja klukkutíma dvöl stefnanda á sjúkrahúsinu að ræða, en stefnandi hafi komið af fúsum og frjálsum vilja á lögreglustöðina.

Vaxtakröfu er mótmælt frá fyrri tíma en þingfestingu málsins enda hafi stefndi, Ernir, ekki áður verið krafinn um bætur.

Niðurstaða

Um lagastoð kröfu sinnar vísar stefnandi til 26. gr. skaðabótalaga nr. 50/1993. Eftir breytingu á skaðabótalögum nr. 50/1993 með lögum nr. 37/1999, 13. gr., er grein þessi svohljóðandi:

"Heimilt er að láta þann sem:

   a.   af ásetningi eða stórfelldu gáleysi veldur líkamstjóni eða

   b.ábyrgð ber á ólögmætri meingerð gegn frelsi, friði, æru eða persónu annars manns greiða miskabætur til þess sem misgert var við.

Þeim sem af ásetningi eða stórfelldu gáleysi veldur dauða annars manns má gera að greiða maka, börnum eða foreldum miskabætur."

Í greinargerð með skaðabótalögum segir að í skilyrði 26. gr. um ólögmæta meingerð felist að um saknæma hegðun sé að ræða. Gáleysi mundi þurfa að vera verulegt til þess að tjónatvik yrði talið ólögmæt meingerð.

Fyrst verður tekin afstaða til kröfugerðar stefnanda vegna atviksins í september 1999.

Áður en stefndi, Ernir, hlutaðist til um nauðungarvistun stefnanda í september 1999 hafði hann gefið út læknisvottorð, dags. 14. sept. 1999, til dóms- og kirkjumálaráðuneytisins vegna beiðni um nauðungarvistun skv. heimild í 3. mgr., sbr. 2. mgr. 19. gr. lögræðislaga nr. 71/1997. Hinn 16. sept. 1999 ákvað dómsmálaráðuneytið að stefnandi skyldi vistuð á sjúkrahúsi. Ákvörðun þessi var staðfest með úrskurði, uppkveðnum í Héraðsdómi Reykjavíkur 27. sept. s.á. Úrskurður þessi var staðfestur með dómi Hæstaréttar, uppkveðnum 1. okt. 1999.

Verður ekki séð annað en að hegðun stefnda, Ernis, í sambandi við flutning stefnanda á sjúkrahús 16. sept. 1999 hafi að öllu leyti verið lögum samkvæmt. Sama er um atferli lögreglumannanna sem stóðu að flutningi stefnanda. Samkvæmt 4. mgr. 19. gr. lögræðislaga er lögreglu skylt að verða við beiðni læknis um aðstoð við að flytja mann nauðugan í sjúkrahús. Ekki er því haldið fram að lögreglumennirnir hafi á nokkurn hátt hagað sér á annan veg en þeim bar í samskiptum þeirra við stefnanda. Ber því að sýkna stefndu af öllum kröfum stefnanda vegna frelsissviptingar í september 1999.

Þá verður tekin afstaða til kröfugerðar stefnanda vegna atviksins 13. júní 2000.

Fram er komið að áður en stefndi, Ernir, leitaði til lögreglunnar í Reykjavík um aðstoð við að koma stefnanda á sjúkrahús hinn 13. júní 2000 hafði hann haft samband við Tómas Zoëga, yfirlækni geðdeildar Landspítalans. Yfirlæknirinn mundi ekki hvort hann hafði samband við vakthafandi lækni vegna væntanlegrar innlagnar stefnanda. Vakthafandi læknir taldi eftir skoðun á stefnanda ekki ástæðu til nauðungarvistunar stefnanda á geðdeild. Það að vakthafandi læknir á geðdeildinni komst að annarri niðurstöðu varðandi ástand stefnanda en stefndi, Ernir, sannar ekkert um saknæma hegðun stefnda, Ernis, né ólögmæta meingerð hans gegn stefnanda. Það að Héraðsdómur Reykjavíkur hafnaði  með úrskurði, uppkveðnum 13. október 1999, kröfu Félagsþjónustunnar í Reykjavík um að svipta stefnanda sjálfræði í 6 mánuði segir ekkert um þörf á sjúkrahúsvistun stefnanda 13. júní 2000. Af því sem fram er komið undir rekstri málsins þykir ljóst að ástand stefnanda hafi verið mismunandi frá einum tíma til annars.

Með vísan til þess sem hér hefur verið rakið telst ósannað að stefndi, Ernir, hafi farið út fyrir heimildir þær sem læknum eru veittar með 2. mgr. 19. gr. lögræðislaga. Jafnframt er ósannað að hegðun stefnda, Ernis, gagnvart stefnanda feli í sér ólögmæta meingerð gagnvart stefnanda. Ber því að sýkna stefnda, Erni, af öllum kröfum stefnanda í máli þessu.

Hvað varðar þátt lögreglunnar þá er stefnandi var flutt á sjúkrahús 13. júní 2000 á við það sama og rakið var vegna atviksins 16. september 1999.

Niðurstaða málsins er því sú að stefndu eru sýknaðir af öllum kröfum stefnanda í máli þessu.

Eftir atvikum þykir rétt að fella málskostnað niður.

Auður Þorbergsdóttir héraðsdómari dæmir málið.

D ó m s o r ð:

Stefndu, lögreglustjórinn í Reykjavík og Ernir Snorrason, skulu vera sýkn af kröfum stefnanda, X, í máli þessu.

Málskostnaður fellur niður.