Hæstiréttur íslands

Mál nr. 87/2016

Lögreglustjórinn á höfuðborgarsvæðinu (Jón H. B. Snorrason saksóknari)
gegn
X (Brynjólfur Eyvindsson hdl.)

Lykilorð

  • Kærumál
  • Gæsluvarðhald. C. liður 1. mgr. 95. gr. laga nr. 88/2008

Reifun

Staðfestur var úrskurður héraðsdóms um að X skyldi sæta gæsluvarðhaldi á grundvelli c. liðar 1. mgr. 95. gr. laga nr. 88/2008 um meðferð sakamála.

Dómur Hæstaréttar.

Mál þetta dæma hæstaréttardómararnir Benedikt Bogason og Karl Axelsson og Ingveldur Einarsdóttir settur hæstaréttardómari.

Varnaraðili skaut málinu til Hæstaréttar með kæru 2. febrúar 2016, sem barst réttinum ásamt kærumálsgögnum degi síðar. Kærður er úrskurður Héraðsdóms Reykjavíkur 2. febrúar 2016, þar sem varnaraðila var gert að sæta gæsluvarðhaldi allt til þriðjudagsins 1. mars 2016 klukkan 16. Kæruheimild er í l. lið 1. mgr. 192. gr. laga nr. 88/2008 um meðferð sakamála. Varnaraðili krefst þess aðallega að hinn kærði úrskurður verði felldur úr gildi en til vara að að gæsluvarðhaldi verði markaður skemmri tími.

Sóknaraðili krefst staðfestingar hins kærða úrskurðar.

Með vísan til forsendna hins kærða úrskurðar verður hann staðfestur.

Dómsorð:

Hinn kærði úrskurður er staðfestur.                   

                                                                 

               

Úrskurður Héraðsdóms Reykjavíkur 2. febrúar 2016.

Lögreglustjórinn á höfuðborgarsvæðinu hefur krafist þess að Héraðsdómur Reykjavíkur úrskurði að X, kt. [...], verði gert að sæta gæsluvarðhaldi allt til þriðjudagsins 1. mars 2016 kl. 16.00.

                Í greinargerð lögreglustjóra kemur fram að kærði hafi verið handtekinn kl. 07.00 í morgun, grunaður um innbrot stuttu áður. Frá 18. ágúst sl. er kærði grunaður um eftirfarandi brot:

„Mál nr. 007-2016-[...]

Þriðjudaginn 2.febrúar 2016 barst lögreglu tilkynning um mann í annarlegu ástandi á Laugavegi og væri hann með sjónvarp með sér. Fyrir utan veitingastaðinn [...], Laugavegi [...] lá kærði, við hlið hans var Philips sjónvarp og plastpoki með bjór. Við leit á honum fannst flugmiði og sjónvarpsfjarstýring. Að Laugavegi [...]var búið að spenna upp og brjóta glugga. Kærði hefur játað að hafa brotist inn og stolið stolið sjónvarpi, fjarstýringu auk einhverra pappíra og áfengi.

Mál nr. 007-2016-[...]

Laugardaginn 30. janúar 2016 barst lögreglu tilkynning um mann í annarlegu ástandi á göngu við braggana að Þórðarhöfða. Höfð afskipti af kærða sem var nokkuð lyfjaður og á reiðhjóli með fartölvu í bakpoka en auk þess fannst í bakpokanum krukka með ætluðu amfetamíni. Við skýrslutöku hjá lögreglu játaði kærði að hafa farið inn í ólæstan bragga nr. [...] og stolið þaðan fartölvu og reiðhjóli.

Mál nr. 007-2016-[...]

Laugardaginn 23. janúar 2016 var farsíma stolið á [...] hostel, [...], Reykjavík, sést til kærða á myndbandsupptökum. Kærði hefur viðurkennt brotið.

Mál nr. 007-2015-[...]

Þriðjudaginn 15. desember 2015 var tilkynnt um þjófnað á snyrtivörum í verslun [...] samtals að verðmæti kr. 11.748. Kærði neitar sök, en lögregla bíður þess að fá myndbandsupptökur sendar úr versluninni.

Mál nr. 007-2015-[...]

Föstudaginn 27. nóvember 2015, kærði var handtekinn við Hverfisgötu [...] með þýfi, verkfæri, borvél, stingsög, hleðslubatterí, töng, koparkapal og vinnugalla sem hann játaði að hafa í félagi við annan aðila stolið úr sendibifreið sem lagt var þarna í nágrenninu.

Mál nr. 007-2015-[...]

Þriðjudaginn 24. nóvember 2015, stolið tveimur hangikjötslærum úr kæli í verslun [...] við [...]. Kærði þekkir sjálfan sig af myndbandsupptökum úr versluninni og játar sök.

Mál nr. 007-2015-[...]

Miðvikudaginn 21. september 2015, stolið peysu að verðmæti kr. 29.990 í verslun [...], Bankastræti. Kærði játar sök.

Mál nr. 007-2015-[...]

Föstudaginn 21. ágúst 2015, stolið fjórum tölvuleikjum úr verslun [...] í [...], að andvirði kr. 41.480. Kærði játar sök.

Mál nr. 007-2015-[...]

Þriðjudaginn 18. ágúst 2015, í félagi við annan aðila, brotist inn í bifreiðina [...]. Kærði hefur játað sök.“

Þá hafi Héraðssaksóknari eftirfarandi mál til afgreiðslu:

„Mál nr. 007-2014-[...] Þar er kærða gefið að sök glæfraakstur norður Kringlumýrarbraut við gatnamót Háaleitisbrautar, með því að hafa ekið langt yfir hámarkshraða og ekið á nokkar bifreiðar með því að aka á milli þeirra og stofna með því umferðaröryggi í hættu, brotið kann að varða við 4. mgr. 220. gr. almennra hegningarlaga nr. 19/1940.“

Lögreglustjóri bendir á að kærði eigi að baki þó nokkurn sakaferil fyrir auðgunarbrot og sérrefsilagabrot. Kærði hafi síðast hlotið dóm í Héraðsdómi Reykjavíkur árið 2012 þar sem hann hafi verið dæmdur í 3 ára og 6 mánaða fangelsi fyrir þrjú rán og ránstilraunir þar sem hann hafi beitt sömu aðferð, að ógna fólki með [...]. Kærði hafi lokið afplánun þann 15. júlí sl. Við meðferð málsins fyrir dómi hafi farið fram geðrannsókn á kærða þar sem hann hafi verið metinn sakhæfur og hvorki 15. né 16. gr. almennra hegningarlaga nr. 19/1940 talin eiga við í máli hans. Með dómi Héraðsdóms Reykjavíkur í máli nr. [...]2008 frá árinu 2008 hafi kærði verið dæmdur í 3 ára fangelsi og hafi þá einnig farið fram geðrannsókn á kærða þar sem hann hafi verið metinn sakhæfur, en að ástand hans væri slíkt að 1. mgr. 16. gr. almennra hegningarlaga ætti við hann. Í dómi Héraðsdóms Reykjavíkur nr. [...]/2007, upp kveðnum 5. júlí 2007 hafi kærði verið metinn ósakhæfur skv. 15. gr. almennra hegningarlaga en sætt öryggisráðstöfunum á grundvelli 62. gr. sömu laga.

Með vísan til brotaferils kærða sé það mat greglustjóra að yfirgnæfandi líkur séu á því að kærði muni halda áfram brotastarfsemi fari hann frjáls ferða sinna en hann sé í mikilli neyslu lyfja. Það sé því að mati lögreglu brýnt að kærði sæti gæsluvarðhaldi uns málum hans sé lokið hjá lögreglu og eftir atvikum fyrir héraðsdómi. Með vísan til framangreinds, framlagðra gagna og c.-liðar 1. mgr. 95. gr. laga 88/2008 um meðferð sakamála sé þess krafist að krafan nái fram að ganga.

Um lagarök telji lögreglustjóri sakarefni málanna varða við 244. gr. og 4. mgr. 220. gr. almennra hegningarlaga nr. 19/1940, auk umferðarlaga nr. 50/1987 og laga um ávana- og fíkniefni en brot gegn ákvæðunum geti varðað fangelsi allt að 6 árum ef sök sannist. Um heimild til gæsluvarðhalds sé vísað til c-liðar 1. mgr. 95. gr. laga um meðferð sakamála nr. 88/2008.

Niðurstaða:

Með vísun til þess sem að framan var rakið úr greinargerð lögreglustjóra er fallist á það með honum að ætla megi að kærði muni halda áfram brotum fái hann að ganga laus. Til rannsóknar eru brot er varðað geta fangelsisrefsingu og er kærði undir rökstuddum grun um að hafa framið þau, eins og fram er komið. Samkvæmt þessu er fallist á með lögreglustjóra að skilyrði c-liðar 1. mgr. 95. gr. laga 88/2008 um meðferð sakamála, séu uppfyllt. Krafa lögreglustjóra um gæsluvarðahald er því tekin til greina eins og nánar greinir í úrskurðarorði, en vegna sakaferils kærða eru ekki efni til að marka gæsluvarðhaldinu skemmri tíma en krafist er.

Arngrímur Ísberg héraðsdómari kveður upp þennan úrskurð.

Ú R S K U R Ð A R O R Ð

Kærði, X, kt. [...], skal sæta gæsluvarðhaldi allt til þriðjudagsins 1. mars 2016 kl. 16.00.