Hæstiréttur íslands
Mál nr. 743/2015
Lykilorð
- Kærumál
- Gæsluvarðhald. A. liður 1. mgr. 95. gr. laga nr. 88/2008
Reifun
Dómur Hæstaréttar.
Mál þetta dæma hæstaréttardómararnir Greta Baldursdóttir og Helgi I. Jónsson og Ingveldur Einarsdóttir settur hæstaréttardómari.
Varnaraðili skaut málinu til Hæstaréttar með kæru 30. október 2015, sem barst réttinum ásamt kærumálsgögnum 2. nóvember sama ár. Kærður er úrskurður Héraðsdóms Reykjaness 30. október 2015, þar sem varnaraðila var gert að sæta gæsluvarðhaldi allt til föstudagsins 13. nóvember 2015 klukkan 16 og einangrun meðan á því stendur. Kæruheimild er í l. lið 1. mgr. 192. gr. laga nr. 88/2008 um meðferð sakamála. Varnaraðili krefst þess að hinn kærði úrskurður verði felldur úr gildi.
Sóknaraðili krefst staðfestingar hins kærða úrskurðar.
Með vísan til forsendna hins kærða úrskurðar verður hann staðfestur.
Dómsorð:
Hinn kærði úrskurður er staðfestur.
Úrskurður Héraðsdóms Reykjaness 30. október 2015.
Lögreglustjórinn á höfuðborgarsvæðinu hefur í dag krafist þess að kærða, X, kt. [...]-[...], verði gert að sæta gæsluvarðhaldi allt til föstudagsins 13. nóvember nk. kl. 16:00 og einangrun á meðan á gæsluvarðhaldinu stendur.
Í greinargerð lögreglustjóra kemur fram að hinn 22. október sl. hafi verið kallað eftir aðstoð lögreglu að [...] í [...] vegna ráns. Þegar lögregla hafi komið á vettvang hafi gerendur verið farnir á brott en starfsmaður verslunarinnar hafi skýrt lögreglu frá því að hann hefði verið við vinnu í herbergi sem sé inn af versluninni þegar hann hefði séð mann með hettu yfir andlitinu nálgast sig og hefði annar árásarmannanna öskrað á hann að leggjast niður. Því næst hafi starfsmaðurinn séð hvar hann lyfti öxi eins og hann væri að reiða hana til höggs og slá sig með henni. Starfsmaðurinn hafi komist út úr versluninni á hlaupum en þá tekið eftir að annar maður var einnig inni í versluninni að hreinsa út úr skartgripaskápum. Þegar starfsmaðurinn hafi verið fyrir utan húsið eftir ránið hafi hann tekið eftir að hvítum jeppling hafi verið ekið upp [...] og að tveir menn með hettur fyrir andlitum hafi verið í framsætum bifreiðarinnar. Hafi starfsmaðurinn talið sig þekkja manninn sem meintan geranda úr innbroti í verslunina 26. september sl. Hafi starfsmaðurinn ekki getað gert sér grein fyrir verðmæti þeirra hluta sem stolið hefði verið né magni þeirra á þeirri stundu.
Meðkærði A hafi verið handtekinn vegna málsins að kvöldi 22. október sl. Í kjölfarið hafi honum verið gert að sæta gæsluvarðhaldi allt til föstudagsins 6. nóvember nk.
Í gær hafi lögregla farið að [...] í Reykjavík til að gera þar húsleit vegna rannsóknar málsins. Hafi kærði komið til dyra, en sagst aðspurður ekki vera húsráðandi þar. B, húsráðandi, hafi heimilað leit í íbúðinni, en í íbúðinni hafi einnig verið C. Á gangi íbúðarinnar hafi fundist svartur bakpoki sem innihaldið hafi fartölvu, heyrnarskjól og hvítt skartgripabox merkt [...], [...], og hafi verið gullhringur í boxinu. Hafi enginn viðstaddur kannast við pokann. Kærði hafi þó sagt að vinur hans ætti pokann, en ekki nefnt frekar hver þessi vinur hans væri. Að mati lögreglumanna hafi kærði orðið mjög óstyrkur þegar hann hafi verið spurður um pokann og hver ætti hann. Í kjölfarið hafi verið haft samband við forráðamann [...] sem hafi borið kennsl á hringinn sem einn af þeim hringum sem stolið hefði verið í ráninu 22. október sl.
Meðal ganga málsins sé upplýsingaskýrsla vegna símanotkunar meðkærða A. Þar komi fram að A hafi verið í miklum samskiptum við símanúmerið [...]. A hafi verið í samskiptum við símanúmerið nokkrum mínútum fyrir ránið og strax eftir það. Í húsleitinni að [...] í gær hafi fundist silfurlitaður Samsung-sími sem kærði X verið sagður eiga og hafi símanúmerið í þeim síma reynst vera [...]. Þyki lögreglu því ljóst að bein tenging sé á milli kærða og A.
Kærði sé nú undir rökstuddum grun um rán með því að hafa fimmtudaginn 22. október sl. í félagi við tvo aðra menn staðið að ráni í verslun [...] að [...] í [...] þar sem meðkærði A hafi ruðst inn í verslunina ásamt öðrum manni og hafi annar þeirra verið vopnaður exi, og haft á brott með sér óþekkt magn skartgripa.
Í greinargerð lögreglustjóra segir að rannsókn málsins sé á frumstigi. Kærði hafi verið handtekinn í gær og yfirheyrður vegna málsins í dag. Ætla megi að ef hann verður látinn laus muni hann eiga þess kost að torvelda rannsókn málsins, svo sem með því að hafa samband við meinta samverkamenn í málinu. Lögregla hafi einungis fundið einn hring úr ráninu, en annað þýfi sé ófundið og sé ástæða til að ætla að kærði hafi falið það eða komið í hendur samverkamanna. Lögregla telji brýnt fyrir framgang málsins að fallist verði á framkomna kröfu um gæsluvarðhald á grundvelli rannsóknarhagsmuna svo unnt sé að hafa uppi á samverkamönnum og ná framburði þeirra, m.a. um þátt kærða í hinu meinta broti og til að finna þýfið. Af framangreindum ástæðum sé einnig farið fram á að kærði sæti einangrun á meðan á gæsluvarðhaldi stendur.
Ætlað sakarefni sé talið varða 252. gr. almennra hegningarlaga nr. 19/1940.
Með vísan til framangreinds, framlagðra gagna og a-liðar 1. mgr. 95. gr. laga 88/2008 um meðferð sakamála, og b-liðar 1. mgr. 99. gr., sbr. 2. mgr. 98. gr. sömu laga, sé þess krafist að krafan nái fram að ganga eins og hún er sett fram.
Varnaraðili er undir rökstuddum grun um brot sem varðað getur fangelsi. Rannsókn málsins er á frumstigi og á eftir að hafa uppi á ætluðum samverkamönnum og finna þýfið úr ráninu. Hætta þykir á að kærði kunni að torvelda rannsókn málsins svo sem með því að skjóta undan munum eða hafa áhrif á samverkamenn eða vitni gangi hann laus. Er því fullnægt skilyrðum a-liðar 1. mgr. 95. gr. laga nr. 88/2008 um meðferð sakamála til að fallast á kröfu lögreglustjóra um að kærða verði gert að sæta gæsluvarðhaldi og einangrun, sbr. b-lið 99. gr., sbr. 2. mgr. 98. gr., sömu laga, eins og krafist er og nánar greinir í úrskurðarorði.
Úrskurð þennan kveður upp Ragnheiður Bragadóttir héraðsdómari.
Úrskurðarorð:
Kærði, X, skal sæta gæsluvarðhaldi allt til föstudagsins 13. nóvember nk., kl. 16:00.
Kærði sæti einangrun meðan á gæsluvarðhaldinu stendur.