Hæstiréttur íslands

Mál nr. 218/2011


Lykilorð

  • Kærumál
  • Gæsluvarðhald. C. liður 1. mgr. 95. gr. laga nr. 88/2008


Þriðjudaginn 12. apríl 2011.

Nr. 218/2011.

Lögreglustjórinn á höfuðborgarsvæðinu

(Jón H.B. Snorrason saksóknari)

gegn

X

(Brynjólfur Eyvindsson hdl.)

Kærumál. Gæsluvarðhald. C. liður 1. mgr. 95. gr. laga nr. 88/2008.

Úrskurður héraðsdóms um að X skyldi gert að sæta gæsluvarðhaldi, á grundvelli c. liðar 1. mgr. 95. gr. laga nr. 88/2008 um meðferð sakamála, var staðfestur.

Dómur Hæstaréttar.

Mál þetta dæma hæstaréttardómararnir Jón Steinar Gunnlaugsson, Páll Hreinsson og Viðar Már Matthíasson.

Varnaraðili skaut málinu til Hæstaréttar með kæru 10. apríl 2011, sem barst réttinum ásamt kærumálsgögnum 11. sama mánaðar. Kærður er úrskurður Héraðsdóms Reykjavíkur 10. apríl 2011, þar sem varnaraðila var gert að sæta gæsluvarðhaldi til föstudagsins 6. maí 2011 klukkan 16. Kæruheimild er í l. lið 1. mgr. 192. gr. laga nr. 88/2008 um meðferð sakamála. Varnaraðili krefst þess aðallega að hinn kærði úrskurður verði felldur úr gildi en til vara að gæsluvarðhaldinu verði markaður skemmri tími.

Sóknaraðili krefst þess að hinn kærði úrskurður verði staðfestur.

Með vísan til forsendna hins kærða úrskurðar verður hann staðfestur.

Dómsorð:

Hinn kærði úrskurður er staðfestur.

                                                        

Úrskurður Héraðsdóms Reykjavíkur 10. apríl 2011.

Lögreglustjórinn á höfuðborgarsvæðinu hefur krafist þess að héraðsdómur Reykjavíkur úrskurði X, kt. [...], til að sæta gæsluvarðhaldi í 26 daga eða til föstudagsins 6. maí 2011 kl. 16.00.

Í greinargerð lögreglustjóra kemur fram að kærði X hafi verið handtekinn á milli klukkan 05:00 og 06:00 í nótt. Ástæða og tilefni handtöku X í nótt hafi verið eftirlýsing til lögreglu á hendur honum til þess að birta honum ákvörðun Útlendingastofnunar frá 7. janúar s.l., um brottvísun og endurkomubann til 2 ára. Þá séu einnig til rannsóknar og ákærumeðferðar auðgunar- og líkamsárásarmál á hendur kærða sem ekki hafi tekist að ljúka meðferð á vegna þess að erfiðlega hafi gengið að hafa upp á kærða til þess að ljúka rannsókn og meðferð mála á hendur honum.

Kærði hafi komið til Íslands á árinu 2008 og verið á því ári í vinnu stuttan tíma og þegið bætur í framhaldi af því fram á árið 2009. Samkvæmt rannsókn Útlendingastofnun á stöðu og högum kærða hér á landi segi í úrskurði Útlendingastofnunar; „Útlendingastofnun hefur farið yfir áðurgreinda dóma héraðsdóms Reykjavíkur þar sem X var dæmdur fyrir fjölmörg brot gegn 244. gr. almennra hegningarlaga nr. 19/1944.  Voru brotin framin á mismunandi stöðum, nokkuð reglulega allt frá því ári sem hann kom til Íslands og til ársins 2010, en brotin fólust flest í þjófnaði úr verslunum.  Samkvæmt bréfi lögreglustjórans á höfuðborgarsvæðinu eru enn fleiri mál til rannsóknar hjá lögreglu sem framin voru á síðasta ári.

Brotastarfsemi sem framin er með svo reglubundnum hætti og einbeittum brotavilja eins og um ræðir í þessu máli er almennt til þess fallin að fela í sér ógn við allsherjarreglu og almannaöryggi. X hefur sýnt af sér persónubundna háttsemi sem felur í sér ógn gagnvart grundvallarþjóðfélagshagsmunum með því að stela talsverðum verðmætum á hinum ýmsu stöðum en eignaréttur nýtur verndar stjórnarskrár Íslands, sbr. 72. gr.

Samkvæmt bréfi lögreglustjórans á höfuðborgarsvæðinu, dags. 10.09.2010, er það mat þess embættis að X sé líklegur til þess að brjóta af sér aftur hér á landi. Fær það mat stoð í því að þrátt fyrir ítrekuð afskipti lögreglu og refsidóma hafi hann haldið brotastarfsemi áfram.  Þá verður ekki séð að X hafi unnið fyrir sér hér á landi nema um mjög skamman tíma.  Með vísan til þessa er það mat Útlendingastofnunar að X hafi sýnt af sér háttsemi sem gefi til kynna að hann muni brjóta af sér aftur hér á landi.“.

Á grundvelli þessa sé úrskurður Útlendingastofnunar byggður um það að „X, kt. [...], ríkisborgara [...], er vísað brott frá Íslandi á grundvelli 1. og 2. mgr. 42. Gr. laga um útlendinga nr. 96/2002.“.

Eftirgreind mál séu til rannsóknar og meðferðar á hendur kærða;

1)            Mál 007-2010-48716.  Kæra vegna þjófnaðar í verslun [...] [...], Reykjavík 30. Júlí 2010.  Kæra barst frá starfsfólki verslunarinnar vegna þjófnaðar á GSM-síma.  Kærði var yfirheyrður grunaður um þjófnaðarbrotið þar sem lögreglumenn töldu sig þekkja kærða af myndum frá þjófnaðarvettvangi.  Við yfirheyrslu viðurkenndi kærði að hafa stolið farsímanum.  Hann kvaðst ekki geta skilað símanum vegna þess að hann hefði selt símann einhverjum pólverja sem hann þekkti ekkert.

2)            Mál 007-2010-76818.  Kæra vegna líkamsárásar frá 21. nóvember 2010.  Kærði er grunaður um að hafa veitt A áverka með því að ráðast á hann og að hafa ásamt tveim öðrum gerendum sparkað í höfðu A ítrekað eftir að A féll í jörðina.  Kærði ber við að kærandi og fleiri hafi ráðist á sig.  Hann kveður A hafa ætlað að slá sig en ekki náð því og hefði hann þá slegið A.  Hann neitar að hafa sparkað í A liggjandi.  Tveir lögreglumenn voru vitni að því þegar kærði X sparkar í höfuð A.  Brotið er talið varða við 218. gr. almennra hegningarlaga og er það nú til ákærumeðferðar.

3)            Mál 007-2011-19889. Kæra [...] [...], Reykjavík.  Kærði er grunaður um að hafa ásamt B að hafa stolið ilmvatnsglösum fyrir að vermæti kr. 88.838 þann 3. þ.m. Kæra hefur verið yfirheyrður um málið en kannast ekki við málið.  Lögregla fær mynddisk úr eftirlitsmyndavél.  Öryggisvörður á staðnum sem kveðst þekkja kærða með nafni vegna ítrekaðra afskipta ber að myndir úr eftirlitsmyndavél sýni kærða án nokkurs vafa standa að þjófnaðinum.

4)            Kæra frá [...] vegna þjófnaðar á blöndunartækjum í verslun [...] [...] þann 8. apríl s.l. Á eftirlitsmyndavélum sést kærði skoða blöndunartæki en ganga út úr versluninni í beinu framhaldi.  Starfsmenn skoðuðu kassann strax á eftir og voru þá blöndunartækin horfin.  Rannsókn málsins er á frumstígi og á eftir að yfirheyra starfsmenn [...] vegna málsins.  Þessi kærða hefur ekki verið borin undir kærða þar sem kæra barst lögreglu fyrir stundu.

Kærði hafi neitað sök í framangreindum málum nema í máli 007-2010-48716, þar sem hann játi sök. Í hinum þrem telji lögregla og ákæruvald að sönnun byggi á framburði vitna og myndum af eftirlitsmyndavélum.

Kærði neiti alfarið að gefa upp dvalarstað sinn. Kærði segist framfleyta sér með því að vinna svarta vinnu og hafi hann gert það meira og minna í dvöl sinni hér á landi eða frá því á árinu 2009.

Kærði hafi hlotið tvo dóma hér á landi sem sé dómur héraðsdóms í máli nr. S-1169/2009, þar sem X hafi verið sakfelldur fyrir sex þjófnaðarbrot. Með dómi Héraðsdóms Reykjavíkur í málinu nr. S-512/2010, hafi kærði hlotið 30 daga fangelsisdóm fyrir tvö þjófnaðarbrot, en hafi dómurinn verið skilorðsbundinn til tveggja ára.  Í júní s.l. hafi verið gerð sátt við kærða vegna fleiri brota gegn 244. gr. alm.hgl.

Ætluð brot sem lögreglustjórinn á höfuðborgarsvæðinu hafi nú til meðferðar á hendur kærða séu talin varða við 244. gr. og 218. gr. almennra hegningarlaga nr. 19/1940 og varði fangelsi allt að 6 árum. Það sé mat lögreglu að kærði hafi framfærslu sína af afbrotum og að samfelld brotastarfsemi kærða sé í vegi fyrir því fyrir því að unnt sé að ljúka málum á hendur honum. Þá sé mat lögreglu að kærði fái óskilorðsbundið fangelsi vegna þeirra mála sem kappkostað sé að koma fyrir dómstóla með ákæru áður en kærði verði laus eða vísað úr landi sbr. ákvörðun Útlendingastofnunar sem hann ætli að kæra samkvæmt yfirlýsingu.

Með vísan til framangreinds, framlagðra gagna og c. liðar 1. mgr. 95. gr., laga nr. 88/2008 um meðferð sakamála sé þess krafist að kærði verði úrskurðaður til þess að sæta gæsluvarðhaldi allt til föstudagsins 6. maí n.k. klukkan 16:00.

Kærði sem er litháískur ríkisborgari hefur dvalið hér á landi frá árinu 2008. Hann hefur þó neitað að gefa upp heimilisfang sitt og gefur ekki upp hvort eða hvar hann er með atvinnu. Er það mat lögreglu að kærði hafi framfærslu sína af afbrotum. Fyrir liggur að með ákvörðun Útlendingastofnunar sem birt var kærða nú í dag hefur honum verið vísað brott frá Íslandi með skírskotun til almannaöryggis skv. 42. gr. útlendingalaga nr. 96/2002.  Þá liggur fyrir rökstuddur grunur um að kærði hafi gerst sekur um auðgunarbrot og líkamsárás á undanförnum mánuðum, sem varðað geta fangelsisrefsingu  allt að sex árum. Með vísan til alls framangreinds og gagna málsins að öðru leyti er fallist á það að líkur séu til þess að kærði haldi áfram brotastarfsemi fari hann frjáls ferða sinna.  Samkvæmt því er fallist á að skilyrðum til c – liðar 1. mgr. 95. gr. laga nr. 88/2008 um meðferð sakamála sé fullnægt til að verða við kröfu lögreglustjórans á höfuðborgarsvæðinu, eins og hún er fram sett og nánar greini í úrskurðarorði.  Ekki þykja efni til að marka varðhaldinu skemmri tíma en krafist er.

Hervör Þorvaldsdóttir héraðsdómari kveður upp úrskurð þennan.

Úrskurðarorð:

X, kt. [...], skal sæta gæsluvarðhaldi í 26 daga eða til föstudagsins 6. maí 2011 kl. 16.00.