Hæstiréttur íslands

Mál nr. 185/2015


Lykilorð

  • Kærumál
  • Dómkvaðning matsmanns
  • Afhending gagna


       

Föstudaginn 13. mars 2015

Nr. 185/2015.

Ákæruvaldið

(Hólmsteinn Gauti Sigurðsson saksóknari)

gegn

X og

(Óttar Pálsson hrl.)

Y

(Reimar Pétursson hrl.)

Kærumál. Dómkvaðning matsmanns. Afhending gagna.

Kærður var úrskurður héraðsdóms þar sem hafnað var kröfu X um dómkvaðningu matsmanna og kröfu Y um að sér yrði afhent nánar tilgreind skjöl. Í dómi Hæstaréttar kom fram að tilgangur X með hinu umbeðna mati væri að sýna fram á að tvö hugtaksskilyrði 249. gr. almennra hegningarlaga nr. 19/1940 væru ekki uppfyllt, en hvort tveggja væri lögfræðilegt úrlausnarefni sem dómari legði sjálfur mat á, sbr. 2. mgr. 127. gr. laga nr. 88/2008 um meðferð sakamála. Krafa Y laut í fyrsta lagi að afhendingu tiltekins hluta bréfs, í öðru lagi að nafngreindum yfirlögregluþjónum Á yrðu gert að afhenda sér gögn um samskipti þeirra við nánar tilgreinda aðila og í þriðja lagi að nánar tilgreint félag yrði gert að afhenda sér pósthólf og önnur gögn nafngreindra einstaklinga. Með vísan til dóms Hæstaréttar í máli nr. 739/2014, þar sem hafnað var afhendingu umþrætts bréfs í heild sinni, var talið að sömu sjónarmið ættu að gilda um hluta þess. Hvað varðaði annar kröfuliður Y var talið að gögnin gætu aldrei talist sönnunargögn um atvik máls sem Á væri skylt að leggja fram, sbr. 2. mgr. 134. gr. sömu laga. Loks var talið að meðal þeirra gagna sem vísað væri til í þriðja kröfulið Y væru eðli málsins samkvæmt í ríkum mæli upplýsingar sem leynd yrði að ríkja um. Var hinn kærði úrskurður því staðfestur.

Dómur Hæstaréttar.

Mál þetta dæma Helgi I. Jónsson hæstaréttardómari og Guðrún Erlendsdóttir og Ingveldur Einarsdóttir settir hæstaréttardómarar.

Varnaraðilar skutu málinu til Hæstaréttar með kærum 4. og 6. mars 2015, sem bárust réttinum ásamt kærumálsgögnum 9. sama mánaðar. Kærður er úrskurður Héraðsdóms Reykjavíkur 3. mars 2015, þar sem hafnað var kröfu varnaraðilans Y um að sér verði afhent nánar tilgreind skjöl og kröfu varnaraðilans X um dómkvaðningu matsmanna. Kæruheimild er í c. og o. lið 1. mgr. 192. gr. laga nr. 88/2008 um meðferð sakamála. Varnaraðilinn X krefst þess að umbeðin dómkvaðning fari fram. Varnaraðilinn Y krefst þess að sér verði afhent nánar tilgreind skjöl.

Í I. kafla ákæru sóknaraðila 10. febrúar 2014 eru varnaraðilanum X gefin að sök umboðssvik samkvæmt 249. gr. almennra hegningarlaga nr. 19/1940 með því að hafa 16. nóvember 2007 sem forstjóri og formaður áhættunefndar [...] misnotað aðstöðu sína með því að fara út fyrir heimildir sínar til lánveitinga og stefna fjármunum bankans í verulega hættu þegar hann lét veita [...], síðar [...], 19.538.481.818 króna lán, án fullnægjandi trygginga og í andstöðu við reglur stjórnar bankans og lánareglur hans, þar sem lánið rúmaðist ekki innan viðskiptamarka sem áhættunefnd og ákærði gátu ákveðið.

Eins og greinir í hinum kærða úrskurði var með dómi Hæstaréttar 8. desember 2014 í máli nr. 739/2014 hafnað beiðni varnaraðilans X um dómkvaðningu matsmanna til að meta nánar tilgreind atriði vegna þeirrar háttsemi sem honum er gefin að sök í fyrrnefndum ákærukafla. Af hálfu varnaraðilans kom fram að tilgangur matsins væri að sýna fram á að hann hafi ekki stofnað fjármunum [...] í verulega hættu, en veruleg fjártjónshætta er eitt þriggja hugtaksskilyrða 249. gr. almennra hegningarlaga. Um tilgang matsbeiðni þeirrar, sem hér til úrlausnar, er af hálfu varnaraðilans vísað til þess að hugtaksskilyrði umboðssvika samkvæmt fyrrgreindu ákvæði almennra hegningarlaga séu að „umboðsmaður (ákærði X) hafi misnotað aðstöðu sína og skapað umbjóðanda sínum ([...]) að minnsta kosti verulega fjártjónshættu“. Geti varnaraðilinn ekki fallist á að háttsemi sín, sem lýst sé í ákæru, falli undir framangreind hugtaksskilyrði lagagreinarinnar, en upplýsingar um þau atriði, sem meta eigi, liggi ekki fyrir í málinu. Sé tilgangur matsins að bæta úr því og leitast þannig við að sýna fram á að áðurnefnd hugtaksskilyrði séu ekki uppfyllt. Þá kemur skýrlega fram í greinargerð varnaraðilans til Hæstaréttar að hin nýja matsbeiðni lúti að báðum fyrrgreindum hugtaksskilyrðum umboðssvika.

Tilgangur umbeðins mats er samkvæmt framangreindu að sýna fram á að tvö fyrrgreind hugtaksskilyrði 249. gr. almennra hegningarlaga séu ekki uppfyllt í stað eins samkvæmt fyrri beiðni, en hvort tveggja er lögfræðilegt úrlausnarefni, sem dómari leggur sjálfur mat á, sbr. 2. mgr. 127. gr. laga nr. 88/2008.

Varnaraðilinn Y krefst þess meðal annars að [...], en til vara sóknaraðila, verði gert að afhenda „verjanda ákærða“ gögn þriggja fyrrverandi starfsmanna [...] á tímabilinu frá 1. til 31. ágúst 2008, en um sé að ræða „outlook“ hólf þeirra, sem innihaldi meðal annars alla tölvupósta, dagbókarfærslur og verkefnafærslur, öll vistuð MSN-samskipti og hljóðrituð borðsímtöl, sem þeir hafi átt aðild að á umræddu tímabili. Þessi gögn eru meðal þeirra rafrænu gagna, sem sóknaraðili lagði hald á við rannsókn málsins, og eru þau því í vörslum hans, enda þótt [...] kunni einnig að hafa þau í fórum sínum. Þá er þess að gæta að meðal þessara gagna eru eðli máls samkvæmt í ríkum mæli orðsendingar varðandi fjárhagsmálefni fjölmargra viðskiptamanna bankans, sem leynd verður að ríkja um, og að auki persónulegar orðsendingar, sem starfsmenn félagsins fengu eða sendu og vörðuðu einkalíf þeirra.

Með þessum athugasemdum, en að öðru leyti með vísan til forsendna hins kærða úrskurðar verður hann staðfestur.

Dómsorð:

Hinn kærði úrskurður er staðfestur.

Úrskurður Héraðsdóms Reykjavíkur 3. mars 2015.

Með ákæru embættis sérstaks saksóknara 10. febrúar 2014 voru ákærðu gefin að sök umboðssvik og hlutdeild í umboðssvikum í tengslum við lánveitingar [...] til félaganna [...] og [...], í nóvember 2007 og janúar 2008.

Í þinghaldi 17. desember 2014 hafði ákærði, Y, uppi kröfu um að ákæruvald myndi afhenda verjanda hans alla þá hluta í bréfi er sérstakur saksóknari sendi ríkissaksóknara þann 4. febrúar 2014, er vörðuðu málefni A. Í þessum hlutum bréfsins væru rakin atvik sem styddu það að fullnægt hefði verið því skilyrði 5. gr. laga nr. 135/2008 um embætti sérstaks saksóknara, með því að A hefði átt frumkvæði að því að bjóða eða láta í té upplýsingar. Til viðbótar krafðist ákærði þess að yfirlögregluþjónarnir B og C, báðir hjá embætti sérstaks saksóknara, myndu afhenda ákærða öll gögn um samskipti við aðra starfsmenn embættisins, A og lögmann hans, frá því skýrslutöku af A lauk, 16. júní 2011 til 4. febrúar 2014. Um væri að ræða alla tölvupósta sem fælu í sér samskipti sem þessi sem og minnispunkta sem þeir hefðu ritað um þetta eða önnur samsvarandi gögn um málið. Eins krafðist ákærði þess að [...] yrði gert að afhenda ákærða gögn fyrrverandi starfsmanna [...], þeirra A og nánustu samstarfsmanna hans, D og E, frá tímabilinu 1. ágúst til 31. ágúst 2008, en um væri að ræða endurheimt ,,outlook“ hólf þeirra, sem innihéldi m.a. alla tölvupósta, dagbókarfærslur og verkefnafærslur frá tímabilinu. Þá að bankinn myndi afhenda ákærða öll vistuð MSN-samskipti og hljóðrituð borðsímtöl sem þeir hefðu átt aðild að á umræddu tímabili. Yrði ekki á þessar kröfur fallist, gagnvart yfirlögregluþjónunum og [...] var þess krafist til vara að ákæruvald myndi afhenda umrædd gögn, sbr. 37. gr. og 134. gr. laga nr. 88/2008. Í þinghaldi 17. febrúar sl. krafðist ákærði þess til þrautavara, að því er varðaði ofangreind gögn varðandi yfirlögregluþjónana, að ákæruvald myndi veita verjanda aðgang að umræddum gögnum. Þá hafði ákærði uppi þá kröfu í þinghaldi 17. febrúar sl., að honum yrði veittur aðgangur að öllum rafrænum gögnum sem haldlögð hafi verið í þágu rannsóknar málsins í því horfi og með þeim tækjabúnaði til leitar sem lögregla hefði notað við rannsókn málsins. Sækjandi hefur mótmælt öllum ofangreindum kröfum ákærða.

Í þinghaldi 13. janúar 2015 lagði ákærði, X, fram beiðni um dómkvaðningu matsmanna, þar sem þess var krafist að héraðsdómur dómkveddi tvo sérfróða og óvilhalla matsmenn með reynslu og menntun á sviði fjármála, endurskoðunar og/eða áhættustýringar, til að láta í té rökstutt sérfræðiálit á áhrifum tilgreindra viðskipta á efnahag [...] að teknu tilliti til reglna sem gildi um mat og lýsingu á áhættu í rekstri fjármálafyrirtækja. Sækjandi mótmælti beiðninni um dómkvaðningu.

Mál þetta var flutt um ágreining um afhendingu gagna og dómkvaðningu matsmanna 17. febrúar sl. og það tekið til úrskurðar í framhaldi.

I

Að því er varðar kröfu ákærða, Y, um afhendingu gagna, lýtur krafan í meginatriðum að því að ákæruvald afhendi verjandanum alla þá hluta bréfs sérstaks saksóknara til ríkissaksóknara frá 4. febrúar 2014, er varði málefni A, þar sem rakin séu atvik því til stuðnings að fullnægt hafi verið því skilyrði 5. gr. laga nr. 135/2008, með því að A hafi átt frumkvæði að því að bjóða eða láta í té upplýsingar. Byggir ákærði á því að dómur Hæstaréttar í máli nr. 739/2014 fyrirbyggi ekki kröfugerð hans.

Krafan nú beinist einvörðungu að afhendingu þeirra hluta bréfsins frá 4. febrúar 2014 sem feli í sér upplýsingar um nánar greind atvik máls. Fyrri krafa ákærða hafi beinst að bréfinu í heild sinni. Nú byggi ákærði á því að sérstök sönnunarstaða í málinu veiti honum rétt til aðgangs að hluta tillögunnar í máli A. Rannsóknargögn málsins í 22 möppum hafi ekki legið fyrir Hæstarétti er rétturinn hafi kveðið upp dóm sinn. Óvarlegt sé að álykta að Hæstiréttur hafi útkljáð að ákærði gæti engan rétt átt til aðgangs að einu einasta atriði í bréfinu frá 4. febrúar 2014. Telji ákærði mikilvægt að fá allar upplýsingar um atvik sem varði ,,frumkvæði“ A að veitingu upplýsinga í skilningi 5. gr. laga nr. 135/2008. Framburður A í málinu sé einkar ótrúverðugur, svo sem af yfirheyrslum hjá lögreglu verði ráðið. Telji ákærði að A hafi átt frumkvæði að breyttum framburði til að fá fráfall saksóknar á hendur sér. Hafi A talið sig í þröngri stöðu til að verja ákvörðun sína um kaup þess bréfs sem málið snúist um og hafi hann brugðist við með því að beina fingri að ákærða. Eins kunni lögregla að hafa átt visst frumkvæði að breyttum framburði.

Að því er varðar kröfur ákærða um að yfirlögregluþjónarnir B og C, en til vara sérstakur saksóknari, afhendi gögn byggir ákærði á því að í 135. gr. laga nr. 88/2008 segi að sé skjal eða annað sýnilegt sönnunargagn í vörslum manns sem ekki sé aðili að máli, geti ákærði krafist þess að fá það afhent til framlagningar, enda megi ætla að það hafi sönnunargildi í málinu og vörslumanni sé skylt og heimilt að bera vitni um efni þess. Með bréfi 4. febrúar 2014 hafi ríkissaksóknari fallið frá saksókn á hendur A, með vísan til 5. gr. laga nr. 135/2008. Yfirlögregluþjónarnir hafi annast yfirheyrslur yfir A 16. nóvember 2010, 16. júní 2011 og 23. nóvember 2011, en framburður A hafi tekið verulegum breytingum í yfirheyrslunni 23. nóvember. Ákærði telji framlagningu gagnanna mikilvæga til að varpa ljósi á þau samskipti sem átt hafi sér stað í tengslum við yfirheyrslurnar. Annars vegar geti gögnin upplýst með hvaða hætti samskipti á milli yfirlögregluþjónanna og starfsmanna embættis sérstaks saksóknara hafi verið og hins vegar um samskiptin milli yfirlögregluþjónanna og A eða lögmanns hans í tengslum við þær breytingar sem urðu á framburði A og fráfalli saksóknar.

  Kröfuna um að [...], en til vara sérstakur saksóknari, afhendi gögn byggir ákærði líkt og áður á 135. gr. laga nr. 88/2008. Hann hafi vitneskju um að [...] fari með vörslur gagna í eigu [...] sem varði starfsemi hans áður en skuldir og eignir hafi verið færðar til [...] með ákvörðun Fjármálaeftirlitsins 14. október 2008. Með vísan til þess krefjist ákærði þess að bankinn afhendi honum til framlagningar gögn fyrrverandi starfsmanna [...], sem kröfugerðin lúti að. Varakröfu og þrautavarakröfu rökstyður ákærði út frá sömu málsástæðum og hér að framan.

Kröfum sínum til stuðnings vísar ákærði til c. liðar 3. mgr. 6. gr. mannréttindasáttmála Evrópu, sbr. lög nr. 62/1994, 70. gr. stjórnarskrár og 37. gr., 2. mgr. 134. gr. og 135. gr. laga nr. 88/2008.

Af hálfu ákæruvalds er kröfu ákærða mótmælt. Vísað er til þess að Hæstiréttur hafi, í dómi sínum í máli nr. 739/2014, skorið úr um þau álitaefni sem hér sé fjallað um.  Kröfur í þessu máli séu efnislega sambærilegar og áður. Hvað varði kröfu um aðgang að bréfi embættis sérstaks saksóknara frá 4. febrúar 2014, þá geti það bréf ekki talist vera sönnunargagn í skilningi laga nr. 88/2008, sbr. 2. mgr. 124. gr. laganna. Við aðalmeðferð málsins sé unnt að spyrja vitni út í atriði sem tengst hafi ákvörðun um fráfall saksóknar á hendur A. Hafi Hæstiréttur í máli nr. 609/2012 fjallað um skjal sem hefði sambærilega stöðu og ekki verið talið sönnunargagn.

Að því er varði kröfur um að yfirlögregluþjónum embættis sérstaks saksóknara verði gert að afhenda persónuleg gögn, þá tilheyri þau gögn embættinu sjálfu en ekki yfirlögregluþjónunum persónulega. Yrðu þeir ekki krafðir um gögnin. Svo væri um að ræða gögn vegna samskipta yfirlögregluþjónanna í starfi sem væru innri gögn embættisins. Féllu þau ekki undir að vera skjöl eða önnur sýnileg sönnunargögn sem ákæruvaldi væri skylt að leggja fram, sbr. 2. mgr. 134. gr. laga nr. 88/2008. Ætti tilvísun í dóm Hæstaréttar í máli nr. 609/2012 hér einnig við.

Sömu sjónarmið og hér að framan eru rakin ættu einnig við um kröfu ákærða þess efnis að [...] yrði gert að afhenda gögn í málinu. Þá sé ekki unnt að verða við kröfu ákærða um aðgang að heildarsafni rafrænna gagna. Gögn sem veita eigi aðgang að verði að takmarkast við ákærða sjálfan. Ákærði hafi þegar fengið í hendur öll þau sönnunargögn sem lögð hafi verið fram í málinu. Sé það í samræmi við ákvæði laga nr. 88/2008.

Niðurstaða:

Ákærði krefst hér fyrir dómi aðgangs að tilteknum hlutum bréfs sérstaks saksóknara til ríkissaksóknara 4. febrúar 2014, er varða málefni A, en í kjölfar þessa bréfs tók ríkissaksóknari ákvörðun um að nýta heimild í 5. gr. laga nr. 135/2008 um að falla frá saksókn á hendur A. Ákærði krafðist þess í þinghaldi 26. júní 2014 að honum yrði veittur aðgangur að bréfinu í heild sinni. Með dómi Hæstaréttar í máli nr. 739/2014 var þeirri kröfu ákærða hafnað með vísan til þess að bréfið væri ekki sönnunargagn um atvik máls, sem ákæruvaldi væri skylt að leggja fram í samræmi við 2. mgr. 134. gr. laga nr. 88/2008. Að mati dómsins verður, eðli máls samkvæmt, það sama að gilda um þá hluta þessa skjals, þar sem rakin eru atvik máls. Verður því ekki hjá því komist að hafna kröfu ákærða um afhendingu þessa skjals.

Næst krefst ákærði þess að tilgreindum yfirlögregluþjónum hjá embætti sérstaks saksóknara, en til vara sérstökum saksóknara, verði gert að afhenda ákærða öll gögn um samskipti yfirlögregluþjónanna við aðra starfsmenn sama embættis, A eða lögmann hans, á tilgreindu tímabili fram að ritun ofangreinds bréfs. Í kröfunni er sérstaklega vísað til þess að um sé að ræða öll bréf og alla tölvupósta sem feli í sér samskipti sem þessi og minnispunkta sem þeir hafi ritað eða önnur samsvarandi gögn. Með vísan til dóms Hæstaréttar í máli nr. 739/2014 verður að telja að kröfu þessari verði að hafna þegar af þeirri ástæðu að slík gögn gætu aldrei talist sönnunargögn um atvik máls, sem ákæruvaldi væri skylt að leggja fram. Á sama grundvelli verður ákærða ekki sérstaklega veittur aðgangur að þessum gögnum hjá lögreglu, en ákærða gefst færi á við aðalmeðferð málsins að spyrja vitni út í atvik málsins.

Þá krefst ákærði þess að [...], en til vara sérstökum saksóknara, verði gert að afhenda ákærða endurheimt ,,outlook“ hólf  A, D og E, frá tímabilinu 1. ágúst til 31. ágúst 2008, sem inniheldur alla tölvupósta, dagbókarfærslur og verkefnafærslur frá umræddu tímabili, öll vistuð MSN-samskipti og hljóðrituð borðsímtöl sem þeir hafi átt aðild að á umræddu tímabili. Hvað þessa kröfu ákærða varðar þá beinist hún ekki að tilgreindum skjölum og öðrum sönnunargögnum, heldur öllum skjölum og samskiptum þessara einstaklinga á umræddu tímabili. Ákæruvaldi verður ekki gert að leggja þessi gögn fram, þar sem þau kunna í einhverjum tilvikum að varða aðra en ákærða. Verður kröfum ákærða um afhendingu þessara gagna því hafnað.

Loks krefst ákærði þess að honum verði veittur aðgangur að öllum rafrænum gögnum sem hafi verið haldlögð í þágu rannsóknar málsins í því horfi og með þeim tækjabúnaði til leitar sem lögregla hafi notað við rannsókn málsins. Kröfu þessari er einnig beint að ótilgreindum gögnum máls, hvort sem það varðar ákærða eða aðra. Verður ákæruvaldi ekki gert að veita ákærða aðgang að gögnum er varða aðra en ákærða sjálfan. Ákæruvaldi verður ekki gert, að kröfu ákærðu, að búa til yfirlit um rannsóknargögn máls, sem ekki liggja þegar fyrir. Með samsvarandi hætti verður ákæruvaldi ekki gert að veita aðgang að rafrænum gögnum með tækjabúnaði til leitar sem lögregla notar við rannsókn máls. Í samræmi við ofangreint verður kröfum ákærða um aðgang að rafrænum gögnum hafnað. 

Með vísan til þessa verður öllum kröfum ákærða, sem tilgreindar eru hér að framan, hafnað.

II

Ákærði, X, hefur krafist þess að héraðsdómur dómkveðji tvo sérfróða og óvilhalla matsmenn, með reynslu og menntun á sviði fjármála, endurskoðunar og/eða áhættustýringar, til að láta í té rökstutt sérfræðiálit á áhrifum tilgreindra viðskipta á efnahag [...] að teknu tilliti til reglna sem gilda um mat og lýsingu á áhættu í rekstri fjármálafyrirtækja. Í beiðninni er vísað til þess að [...] hafi 16. nóvember 2007 veitt [...], sem síðar varð [...], 19.538. milljóna króna lán í þeim tilgangi að fjármagna kaup á 78% af kaupum [...] á um 4,3% hlut í [...] og um 4,1% hlut í [...]. Hlutabréfin hafi verið keypt af [...] sjálfum. Fjárhæð þeirra viðskipta hafi numið alls 25.038 milljónum króna. Til tryggingar hafi bankanum verið sett að veði hlutabréfin í [...] og allt hlutafé [...]. Að öðru leyti hafi hlutabréfakaup [...] verið fjármögnuð með víkjandi láni frá [...] að fjárhæð 2,5 milljarðar króna í gegnum félagið [...], víkjandi láni frá [...] að fjárhæð 1 milljarður króna og eiginfjárframlagi hluthafa [...] að fjárhæð 2 milljarðar króna. Hafi [...] við það eignast 32,5% hlutafjár í félaginu. Þann 16. nóvember 2007 hafi gengi hlutabréfa í [...] verið á markaði 25,5 krónur á hlut og gengi hlutabréfa í [...] 22,05 krónur á hlut. Markaðsvirði hinna seldu hluta í [...] hafi því verið 16.320 milljónir króna og markaðsvirði hinna seldu hluta í [...] 8.379 milljónir króna. Alls hafi markaðsvirði hlutabréfa sem [...] hafi selt því numið 24.699 milljónum króna. Hlutabréfin hafi verið seld á 25.038 milljónir króna og [...] því innleyst 339 milljónir króna í hagnað við söluna.

Samkvæmt I. kafla ákæru séu ákærða, X, gefin að sök umboðssvik með því að hafa 16. nóvember 2007, sem forstjóri og formaður áhættunefndar [...] misnotað aðstöðu sína með því að fara út fyrir heimildir sínar til lánveitinga og stefna fjármunum bankans í verulega hættu. Það hafi hann gert þegar hann hafi látið bankann veita [...] 19.538.481.818 króna lán, án fullnægjandi trygginga og í andstöðu við reglur stjórnar bankans og lánareglur bankans, þar sem lánið hafi ekki rúmast innan þeirra viðskiptamarka sem áhættunefnd og ákærði hafi getað ákveðið. Eitt af skilyrðum þess að háttsemi geti talist til umboðssvika, samkvæmt 249. gr., sbr. 543. gr. laga nr. 19/1940, sé að háttsemi umboðsmanns hafi skapað umbjóðanda hans, að minnsta kosti, verulega fjártjónshættu.

Ákærði geti ekki fallist á að hann hafi valdið [...] verulegri fjártjónshættu með lánveitingunni. Hyggist hann á þeim grundvelli halda uppi vörnum í málinu. Mat á áhættuþáttum í starfsemi fjármálafyrirtækis fari fram samkvæmt lögum um fjármálafyrirtæki og stjórnvaldsfyrirmælum settum á grundvelli þeirra. Aðalmælikvarðinn á áhættu sé hlutfallið milli eiginfjárgrunns og áhættugrunns (eiginfjárhlutfall). Hátt eiginfjárhlutfall gefi vísbendingar um fjárhagslegan styrk fjármálafyrirtækis og takmarkaðar líkur á greiðsluþroti þess. Af þeim sökum sé afar mikilvægt, við mat dómsins á því hvort ofangreind hugtaksskilyrði umboðssvika séu uppfyllt, að fyrir liggi hvaða áhrif viðskiptin, sem lýst sé í I. kafla matsbeiðni og lánveiting sú, sem ákært er vegna, sé hluti af, hefðu haft á umræddar stærðir í efnahag [...], þ.e. áhættugrunn, eiginfjárgrunn og eiginfjárhlutfall, og þar með fjárhagslegan styrk og áhættu bankans. Upplýsingar um þessi atriði liggi ekki fyrir í gögnum málsins og verði ekki lesin úr þeim án sérfræðilegrar greiningar. Mati sé ætlað að bæta úr því. Fyrir matsmenn sé lagt að lýsa og leggja mat á þær breytingar sem viðskiptin hefðu haft á áhættugrunn [...], lýsa og leggja mat á þær breytingar sem viðskiptin hefðu haft á eiginfjárgrunn [...] og lýsa og leggja mat á þær breytingar sem viðskiptin hefðu haft á eiginfjárgrunn [...] sem hlutfall af áhættugrunni (eiginfjárhlutfall).

Ákæruvald hefur mótmælt því að umbeðið mat fari fram. Með matsbeiðninni leitist ákærði við að fá matsgerð um atriði sem Hæstiréttur hafi þegar dæmt um og hafnað í máli nr. 739/2014. Hið umbeðna mat sé áfram tilgangslaust til sönnunar í málinu, sbr. 3. mgr. 110. gr. laga nr. 88/2008 og matsmönnum ætlað að leggja mat á atvik, sem ekki hafi orðið og ákæra og sakarefni málsins byggi ekki á. Sé dómara að meta skjalleg sönnunargögn í málinu við meðferð þess fyrir dómi. Eigi það m.a. við mat á sönnun um skilyrði fjártjónshættu og fjártjóns. Þannig leggi dómari sjálfur mat á atriði er krefjist almennrar þekkingar og menntunar eða lagaþekkingar, sbr. 2. mgr. 127. gr. laga nr. 88/2008. Komi til aðalmeðferðar málsins muni ákærðu og vitni gefa skýrslur fyrir dóminum. Sé í verkahring dómara að leggja mat á hvort lögfull sönnun verði færð fram um skilyrði umboðssvika, þ.á m. um fjártjónshættu. Sé það ekki verk matsmanna að leggja mat á ákæru, röksemdir í málinu og sönnunargögn málsins.

Niðurstaða:

Ákærði hafði uppi þá kröfu í þinghaldi 26. júní 2014 að dómkvaddir yrðu matsmenn til að meta tilgreind atriði í tengslum við sakarefni málsins. Þeirri dómkvaðningu var hafnað með dómi Hæstaréttar í máli nr. 739/2014. Í dómi Hæstaréttar sagði meðal annars að við úrlausn um hvort heimila bæri mat dómkvaddra matsmanna á því sem síðari liður fyrsta matsliðar lyti að, sem og annar, þriðji og fjórði liður, yrði að horfa til þess að mat á fjártjónshættu í skilningi 249. gr. laga nr. 19/1940 væri lögfræðilegt úrlausnarefni. Öll þau atriði sem fram kæmu undir síðari lið fyrsta liðar matsbeiðni, sem og öðrum og fjórða lið hennar væru því marki brennd að þau væru hluti af sönnunarfærslu í sakamálinu og vörðuðu ýmist sönnunargögn í málinu, sem dómara bæri að leggja sjálfstætt mat á, eða ímyndaða atburðarás, líkt og fjórði liður hennar, og vörðuðu ekki sakarefni málsins. Það væri hlutverk dómara að leggja mat á sönnunargögn málsins og atriði sem krefðust almennrar þekkingar og lögfræðiþekkingar, sbr. 2. mgr. 127. gr. laga nr. 88/2008. Matsbeiðnin væri tilgangslaus til sönnunar, sbr. 3. mgr. 110. gr. laga nr. 88/2008.

Í matsbeiðni þeirri sem nú er til umfjöllunar er ætlun ákærða að fá mat sérfróðra aðila á áhrifum þeirra viðskipta sem ákært er fyrir í I. kafla ákæru á efnahag [...], að teknu tilliti til reglna sem þá hafi gilt um mat á lýsingu á áhættu í rekstri bankans. Þannig væri þeim gert að leggja mat á breytingar sem viðskiptin hefðu haft á áhættugrunn, eiginfjárgrunn og eiginfjárhlutfall bankans. Í dómi Hæstaréttar í máli nr. 739/2014 sagði að mat á fjártjónshættu í skilningi 249. gr. laga nr. 19/1940 væri lögfræðilegt úrlausnarefni. Með því að fá mat sérfróðra aðila á því hvaða áhrif viðskipti sem ákært er vegna hafi haft á áhættugrunn, eiginfjárgrunn og eiginfjárhlutfall bankans er óhjákvæmilega verið að leggja mat á fjártjónshættu bankans í viðskiptunum. Verður að telja það fara gegn 2. mgr. 127. gr. laga nr. 88/2008, svo sem Hæstiréttur hefur skýrt umrætt ákvæði í dómi í máli nr. 739/2014. Verður því að hafna kröfu ákærða um dómkvaðningu matsmanna.

Úrskurð þennan kveður upp Símon Sigvaldason héraðsdómari.

Ú r s k u r ð a r o r ð:

Hafnað er kröfu ákærða, Y, um afhendingu tilgreindra skjala og aðgang að tilgreindum gögnum.

Hafnað er kröfu ákærða, X, um dómkvaðningu matsmanna.