Hæstiréttur íslands
Mál nr. 40/2007
Lykilorð
- Kærumál
- Aðalmeðferð
- Kæruheimild
|
|
Miðvikudaginn 24. janúar 2007. |
|
Nr. 40/2007. |
Ákæruvaldið(enginn) gegn X (Kristinn Bjarnason hrl.) |
Kærumál. Aðalmeðferð. Kæruheimild.
X kærði ákvörðun héraðsdóms, sem fól í sér að endurtaka skyldi skýrslugjöf hans og vitna í máli ákæruvaldsins gegn honum, en það hafði þá tvívegis verið munnlega flutt og dómtekið. Ekki var talið að ákvörðun sem þessi væri kæranleg til Hæstaréttar, sbr. 2. mgr. 142. gr. laga nr. 19/1991 um meðferð opinberra mála, og málinu því vísað frá Hæstarétti.
Dómur Hæstaréttar.
Mál þetta dæma hæstaréttardómararnir Garðar Gíslason, Árni Kolbeinsson og Ólafur Börkur Þorvaldsson.
Varnaraðili skaut málinu til Hæstaréttar með kæru 12. janúar 2007, sem barst réttinum ásamt kærumálsgögnum 17. sama mánaðar. Kærð er ákvörðun Héraðsdóms Vestfjarða 10. janúar 2007, þar sem hafnað var kröfu varnaraðila um að aðalmeðferð og skýrslutaka í máli sóknaraðila gegn varnaraðila skyldi ekki fara fram að nýju, eins og settur dómstjóri Héraðsdóms Vestfjarða hafði boðað 22. desember 2006. Um kæruheimild vísar varnaraðili til 142. gr. laga nr. 19/1991 um meðferð opinberra mála. Hann krefst þess að hin kærða ákvörðun verði felld úr gildi og að skýrslutökur og málflutningur í framangreindu máli skuli ekki fara fram að nýju.
Sóknaraðili hefur ekki látið málið til sín taka fyrir Hæstarétti.
Aðalmeðferð í máli þessu fór fram á dómþingi 16. janúar 2006, sem haldið var af dómstjóra Héraðsdóms Vestfjarða, og það dómtekið að því loknu. Það var aftur tekið fyrir 22. júlí sama ár og fór munnlegur málflutningur þá fram að nýju án þess að varnaraðili og vitni gæfu skýrslu fyrir dómi. Að því loknu var málið dómtekið. Dómur í því hafði ekki verið kveðinn upp þegar settur dómstjóri tók við málinu í nóvember 2006. Með framangreindu bréfi 22. desember 2006 tilkynnti hann að endurtaka þyrfti skýrslutökur og málflutning óháð því hver myndi að lokum leggja dóm á málið. Boðaði hann því til nýrrar aðalmeðferðar er skyldi fara fram 30. janúar 2007.
Aðalmeðferð í þessu máli hófst samkvæmt framansögðu 16. janúar 2006 og hefur það tvívegis verið munnlega flutt og dómtekið. Hin kærða ákvörðun felur í raun í sér að endurtaka eigi skýrslugjöf ákærða og vitna fyrir dómi, en ekki að hefja eigi aðalmeðferð á nýjan leik. Samkvæmt 2. mgr. 142. gr. laga nr. 19/1991 verða úrskurðir og ákvarðanir dómara eftir að aðalmeðferð máls er hafin ekki kærðir til Hæstaréttar, nema um þau atriði, sem sérstaklega eru tilgreind í einstökum stafliðum málsgreinarinnar, eða að vikið sé frá þessari reglu í öðrum ákvæðum laganna. Í lögum nr. 19/1991 er ekki vikið að því hvort ákvörðun sem þessi sé kæranleg til Hæstaréttar, en heimild til kæru hennar verður ekki reist á fyrirmælum 2. mgr. 142. gr. laganna. Hin kærða ákvörðun sætir því ekki kæru og ber að vísa málinu sjálfkrafa frá Hæstarétti.
Dómsorð:
Máli þessu er vísað frá Hæstarétti.