Hæstiréttur íslands

Nr. 2024-184

Gunnhildur Loftsdóttir (Friðbjörn E. Garðarsson lögmaður)
gegn
Landsvirkjun (Guðjón Ármannsson lögmaður)

Lykilorð

  • Áfrýjunarleyfi
  • Fasteign
  • Eignarréttur
  • Sameign
  • Viðurkenningarkrafa
  • Hafnað

Ákvörðun Hæstaréttar

1. Samkvæmt 4. mgr. 16. gr. laga nr. 50/2016 um dómstóla standa að ákvörðun þessari hæstaréttardómararnir Sigurður Tómas Magnússon, Ása Ólafsdóttir og Skúli Magnússon.

2. Með beiðni 27. desember 2024 leitar Gunnhildur Loftsdóttir leyfis Hæstaréttar, á grundvelli 1. mgr. 176. gr. laga nr. 91/1991 um meðferð einkamála, til að áfrýja dómi Landsréttar 5. desember sama ár í máli nr. 554/2023: Gunnhildur Loftsdóttir gegn Landsvirkjun. Gagnaðili leggst gegn beiðninni.

3. Ágreiningur aðila lýtur að því hvort systkinum leyfisbeiðanda, sem áttu 80% eignarhluta í jörðinni Breiðanesi í óskiptri sameign, hafi verið heimilt að selja gagnaðila á leigu tiltekin eignarréttindi í jörðinni án samþykkis leyfisbeiðanda sem átti 20% hlut. Fyrir liggur að síðar var jörðinni Hólmabakka skipt úr Breiðanesi. Krafa leyfisbeiðanda snýr að því að viðurkennt verði að gagnaðili eigi ekki tilkall til tiltekinna eignarréttinda í jörðinni Hólmabakka, þar með talið til vatnsréttinda í Þjórsá.

4. Með dómi Landsréttar var héraðsdómur staðfestur um sýknu gagnaðila af kröfu leyfisbeiðanda með vísan til forsendna en að viðbættum frekari röksemdum. Landsréttur rakti að samningar gagnaðila við systkini leyfisbeiðanda bæru ekki annað með sér en að þau hefðu einungis ráðstafað fyrir sitt leyti hlutdeild í tilteknum réttindum. Það hefði þeim verið heimilt þótt leyfisbeiðandi hefði verið mótfallinn þeim ráðstöfunum. Landsréttur taldi að gagnaðili væri á grundvelli fyrrgreindra samninga handhafi 80% hlutdeildar í þeim réttindum í landi jarðarinnar sem lýst væri í samningunum.

5. Leyfisbeiðandi byggir á því að skilyrði 1. mgr. 176. gr. laga nr. 91/1991 séu uppfyllt og telur úrslit málsins hafa verulegt almennt gildi auk þess sem að dómur í því hefði verulega þýðingu um réttarstöðu sameigenda í óskiptri sameign. Málið varði grundvallarreglur sem gildi um réttarstöðu sameigenda enda þurfi samþykki þeirra allra til óvenjulegra og meiri háttar ráðstafana. Telur leyfisbeiðandi að málið hafi þýðingu fyrir framtíðarmál af sama toga. Þá hafi Landsréttur ekki fyllilega tekið á þeim málsástæðum sem leyfisbeiðandi tefldi fram. Til viðbótar byggir leyfisbeiðandi á að dómur Landsréttar sé bersýnilega rangur að efni til þar sem sameigendur hennar hafi ekki getað án hennar samþykkis ráðist í þær meiri háttar framkvæmdir sem þeir heimiluðu gagnaðila með samningum sínum. Loks byggir leyfisbeiðandi á því að úrslit málsins varði sérstaklega mikilvæga hagsmuni hennar.

6. Að virtum gögnum málsins verður hvorki litið svo á að úrslit þess hafi verulegt almennt gildi né að það varði sérstaklega mikilvæga hagsmuni leyfisbeiðanda í skilningi 1. mgr. 176. gr. laga nr. 91/1991. Þá verður ekki séð að dómur Landsréttar sé bersýnilega rangur, sbr. 4. málslið sömu málsgreinar. Beiðni um áfrýjunarleyfi er því hafnað.