Hæstiréttur íslands
Mál nr. 472/2014
Lykilorð
- Kærumál
- Óvígð sambúð
- Fjárslit
|
|
Miðvikudaginn 10. september 2014. |
|
Nr. 472/2014.
|
M (Erlendur Þór Gunnarsson hrl.) gegn K (Jóhannes Ásgeirsson hrl.) |
Kærumál. Óvígð sambúð. Fjárslit.
Kærður var úrskurður héraðsdóms þar sem leyst var úr ágreiningi M og K er risið hafði við opinber skipti til fjárslita þeirra vegna slita á óvígðri sambúð. Deildu aðilar um eignarhald á 14 nánar tilgreindum hrossum. Í úrskurði héraðsdóms, sem staðfestur var í Hæstarétti, var tekin til greina krafa K um að 9 nánar tilgreind hross skyldu teljast sameign M og K að jöfnu, kröfu M um að tilgreint hross yrði talið eign hans og tvö önnur sameign hans og K var hafnað, en tekin til greina krafa hans um að tvö nánar tilgreind hross til viðbótar skyldu teljast sameign hans og K í jöfnum hlutföllum.
Dómur Hæstaréttar
Mál þetta dæma hæstaréttardómararnir Viðar Már Matthíasson, Benedikt Bogason og Þorgeir Örlygsson.
Sóknaraðili skaut málinu til Hæstaréttar með kæru 27. júní 2014 sem barst réttinum ásamt kærumálsgögnum 7. júlí sama ár. Kærður er úrskurður Héraðsdóms Reykjavíkur 16. júní 2014, þar sem leyst var úr ágreiningi aðila við opinber skipti til fjárslita þeirra vegna slita á óvígðri sambúð. Kæruheimild er í 1. mgr. 133. gr. laga nr. 20/1991 um skipti á dánarbúum o.fl. Sóknaraðili krefst þess að hinn kærði úrskurður verði felldur úr gildi og að viðurkennt verði að tíu nánar tilgreindir hestar teljist eign sín, en tveir aðrir nánar tilgreindir hestar sameign sín og varnaraðila. „Fari svo að viðurkennt verði að sameign hafi myndast milli aðila“ vegna níu af fyrsttöldu hestunum, krefst sóknaraðili þess að beita skuli 4. mgr., sbr. 3. mgr., 105. gr. laga nr. 20/1991 við opinber skipti til fjárslita milli aðila svo hestarnir komi ekki til útlagningar. Þá krefst sóknaraðili staðfestingar hins kærða úrskurðar um að tveir nánar tilgreindir hestar til viðbótar séu sameign málsaðila í jöfnum hlutföllum. Í öllum tilvikum krefst hann „málskostnaðar“ í héraði og fyrir Hæstarétti.
Varnaraðili krefst staðfestingar hins kærða úrskurðar og kærumálskostnaðar.
Með vísan til forsendna hins kærða úrskurðar verður hann staðfestur.
Sóknaraðili greiði varnaraðila kærumálskostnað eins og í dómsorði greinir.
Dómsorð:
Hinn kærði úrskurður er staðfestur.
Sóknaraðili, M, greiði varnaraðila, K, 350.000 krónur í kærumálskostnað.
Úrskurður Héraðsdóms Reykjavíkur 16. júní 2014.
Mál þetta var þingfest 29. nóvember 2013 og tekið til úrskurðar að loknum munnlegum málflutningi 20. maí sl.
Sóknaraðili er K, [...], [...].
Varnaraðili er M, [...], [...].
Endanlegar dómkröfur sóknaraðila eru þær aðallega að viðurkenndur verði eignarréttur hennar að níu hrossum og verði hrossin talin sameign sóknaraðila og varnaraðila í jöfnum hlutföllum, en nánar tiltekið eru hrossin; A frá [...], skráningarnúmer IS[...], B frá [...], skráningarnúmer IS[...], C frá [...], skráningarnúmer IS[...], D frá [...], skráningarnúmer IS[...], E frá [...], skráningarnúmer IS[...], F frá [...], skráningarnúmer IS[...], G frá [...], skráningarnúmer IS[...], H frá [...], skráningarnúmer IS[...] og I frá [...], skráningarnúmer IS[...]
Til vara krefst sóknaraðili þess að viðurkenndur verði eignarréttur hennar að hestinum H frá [...], skráningarnúmer IS[...], og að varnaraðili verði dæmdur til að gefa út afsal til sóknaraðila.
Þá krefst sóknaraðili þess að hafnað verði öllum kröfum varnaraðila um eignarhlutdeild í hrossunum J frá [...], skráningarnúmer IS[...], L frá [...], skráningarnúmer IS[...], N frá [...], skráningarnúmer IS[...], og O, óskráðri hryssu.
Loks krefst sóknaraðili málskostnaðar úr hendi varnaraðila að teknu tilliti til virðisaukaskatts.
Varnaraðili krefst þess að öllum kröfum sóknaraðila verði hafnað. Þá gerir varnaraðili eftirfarandi dómkröfur:
- Að viðurkennt verði að hestarnir A frá [...], skráningarnúmer IS[...], B frá [...], skráningarnúmer IS[...], C frá [...], skráningarnúmer IS[...], D frá [...], skráningarnúmer IS[...], E frá [...], skráningarnúmer IS[...], F frá [...], skráningarnúmer IS[...], G frá [...], skráningarnúmer IS[...], frá [...], skráningarnúmer IS[...], H frá [...], skráningarnúmer IS[...] og P frá [...] (óskráður) verði taldir eign varnaraðila við opinber skipti til fjárslita milli aðila.
- Að viðurkennt verði að hestarnir J frá [...], skráningarnúmer IS[...], L frá [...], skráningarnúmer IS[...], N frá [...], skráningarnúmer IS[...], og O (óskráð) verði talin sameign sóknaraðila og varnaraðila í jöfnum hlutföllum.
3. Í þriðja lagi krefst varnaraðili þess að viðurkennt verði, hvað varðar þá hesta sem vísað er til í tölulið 1, að beita beri 4. mgr., sbr. 3. mgr. 105. gr., laga nr. 20/1991 um skipti á dánarbúum o.fl., við opinber skipti til fjárslita milli aðila, þegar verðgildi hesta er metið, svo umræddir hestar komi ekki til útlagningar, fari svo að viðurkennt verði að sameign hafi myndast milli aðila að einhverju leyti vegna þeirra.
Þá krefst varnaraðili í öllum tilvikum málskostnaðar úr hendi sóknaraðila, að teknu tilliti til virðisaukaskatts.
I
Aðilar málsins bjuggu saman á heimili sóknaraðila að [...] í [...]. Sambúð málsaðila hófst árið 2006, en ágreiningur er um það hvenær á árinu sambúðin hafi byrjað. Sóknaraðili heldur því fram að sambúðin hafi byrjað seinni hluta sumars en varnaraðili kveður að hún hafi byrjað í nóvember. Ekki er deilt um að sambúðinni lauk í nóvember 2009. Varnaraðili kveðst þó ekki líta svo á að málsaðilar hafi stofnað til óvígðrar sambúðar, þar sem varnaraðili er skilinn að borði og sæng við eiginkonu sína,Q, en þau hafi aldrei skilið lögskilnaði. Þá mun varnaraðili aldrei hafa átt skráð lögheimili að [...] í [...].
Meðan aðilar bjuggu saman keyptu þau nokkra hesta. Við slit á sambúð aðila var varnaraðili skráður eigandi að níu hrossum í gagnagrunni Bændasamtaka Íslands, WorldFeng. Nánar tiltekið er um að ræða hestana A frá [...], skráningarnúmer IS[...], B frá [...], skráningarnúmer IS[...], C frá [...], skráningarnúmer IS[...], D frá [...], skráningarnúmer IS[...], E frá [...], skráningarnúmer IS[...], F frá [ ], skráningarnúmer IS[...], G frá [...], skráningarnúmer IS[...], I frá [...], skráningarnúmer IS[...], og H frá [...], skráningarnúmer IS[...]. Varnaraðili kveðst einnig vera eigandi óskráða hestsins P frá [...]. Sóknaraðili var skráð eigandi hestanna J frá [...], skráningarnúmer IS[...], L frá [...], skráningarnúmer IS1995288576, N frá [...], skráningarnúmer IS[...] og var einnig eigandi óskráða hestsins O. Þá var sóknaraðili skráð eigandi hestsins R frá [...], en honum hefur verið slátrað.
Ekki er um það deilt að sóknaraðili keypti hestinn H frá [...]. Að öðru leyti er verulegur ágreiningur milli aðila um málsatvik. Aðilar málsins deila um fjárframlög þeirra til kaupa og reksturs umræddra hesta. Sóknaraðili kveðst hafa staðið að stórum hluta straum af kostnaði vegna hestanna, en varnaraðili hafi þar lítið lagt af mörkum. Varnaraðili hafnar þessu og kveðst hafa greitt að öllu eða nánast öllu leyti þann kostnað sem hlaust af þeim hestum sem hann var skráður eigandi að.
Með stefnu, birtri 20. september 2010, höfðaði sóknaraðili almennt einkamál fyrir Héraðsdómi Reykjavíkur á hendur varnaraðila. Aðalkrafa sóknaraðila var sú að viðurkenndur yrði eignarréttur hennar í níu tilteknum hrossum og að þau yrðu talin sameign málsaðila í jöfnum eignarhlutföllum. Til vara krafðist sóknaraðili þess að varnaraðili yrði dæmdur til að greiða henni 1.885.175 krónur með dráttarvöxtum samkvæmt 1. mgr. 6. gr. laga nr. 38/2001 frá 15. mars 2010 til greiðsludags. Til þrautavara krafðist sóknaraðili þess að viðurkenndur yrði eignarréttur hennar að einu tilteknu hrossi og að varnaraðili yrði dæmdur til að gefa út afsal til sóknaraðila. Varnaraðili tók til varna í málinu og krafðist aðallega sýknu af aðal- og varakröfu sóknaraðila og frávísunar þrautavarakröfu hans. Til vara krafðist hann sýknu af öllum kröfum sóknaraðila og til þrautavara var krafist skuldajafnaðar með tilteknum hætti við fjárkröfur sóknaraðila, að því marki sem þær kynnu að verða teknar til greina.
Á árinu 2010 voru skráð eigendaskipti að þeim níu hestum sem varnaraðili var eigandi að við lok sambúðar aðila. Hinn 7. október það ár voru hestarnir B, A og I skráðir á nafn S en 11. október sama ár voru hestarnir D, F, E, C og G skráðir á nafn Q.
Héraðsdómur leysti efnislega úr kröfum aðila með dómi 15. september 2011 í máli nr. E-6156/2010. Var fallist á aðalkröfu sóknaraðila og viðurkenndur eignarréttur hennar að öllum hrossunum í sameign við varnaraðila, í jöfnum eignarhlutföllum. Varnaraðili áfrýjaði þessum dómi til Hæstaréttar Íslands. Með dómi réttarins 20. september 2012 í máli nr. 67/2012 var málinu vísað frá héraðsdómi á þeim grundvelli að ágreiningur aðila snerist um eignamyndun á sambúðartíma þeirra, en ekki væri unnt í almennu einkamáli að fá leyst úr því hvort almenn eignamyndun hefði átt sér stað í óvígðri sambúð.
Með úrskurði Héraðsdóms Reykjavíkur 8. maí 2013 var fallist á kröfu sóknaraðila um opinber skipti til fjárslita vegna slita á óvígðri sambúð aðila og var T héraðsdómslögmaður skipuð skiptastjóri. Með erindi sem móttekið var 11. september 2013 vísaði skiptastjórinn ágreiningi málsaðila til héraðsdóms þar sem ekki hafði náðst samkomulag milli aðila á skiptafundi, sbr. 122. gr. laga nr. 20/1991 um skipti á dánarbúum o.fl.
Málsaðilar komu fyrir dóm við munnlegan flutning málsins og gáfu skýrslur. Einnig gáfu skýrslu fyrir dóminum vitnin S, Q og U, auk þess sem vitnin V, W, X, Y, Z hdl., Þ, Æ, Ö, Á og Ð gáfu skýrslu í gegnum síma. Verður vitnað til þeirra eftir því sem þurfa þykir.
II
Sóknaraðili vísar til þess að litið sé á sambúðarfólk sem tvo sjálfstæða einstaklinga og því fari um fjármál þeirra eftir almennum reglum fjármunaréttar. Sóknaraðili byggi kröfur sínar á óskráðum meginreglum um fjárskipti við slit óvígðrar sambúðar. Við slit óvígðrar sambúðar taki hvor aðila það sem hann sannanlega eigi. Jafnt í fræðum sem dómaframkvæmd hafi verið litið svo á að líta beri fram hjá formlegum eignarheimildum við fjárskipti milli sambúðarfólks, fari þær ekki saman við fyrirliggjandi gögn um framlög þeirra til eignamyndunarinnar. Þetta eigi ekki hvað síst við í tilvikum þar sem sambúð hafi staðið stutt og ekki stofnast til verulegrar fjárhagslegrar samstöðu milli sambúðarfólks.
Ekki sé um það deilt að þau níu hross sem tilgreind séu í dómkröfum sóknaraðila hafi verið keypt á sambúðartíma aðila og sóknaraðili hafi lagt umtalsverða peninga til að auka verðgildi þeirra, svo og til fóðrunar þeirra og umhirðu. Þá hafi sóknaraðili lagt mikla vinnu í að annast þessi hross og á hana hafi fallið töluverður kostnaður sem óhjákvæmilega fylgi því að annast um hross sem séu víðs vegar. Þá hafi sóknaraðili ein greitt fyrir eitt hrossið sem varnaraðili hafi tekið í sína vörslu.
Á sambúðartímanum blandist eigur og framlög aðila saman með ýmsum hætti og feli í sér eignamyndun. Sanngirni mæli með að í skiptum sambúðarmakanna öðlist hvor þeirra um sig hlutdeild í eignamynduninni vegna framlaga sinna. Þetta leiði oft til sameignar aðila.
Mikilvægt sé að horfa til stöðu aðila við upphaf og lok sambúðar. Varnaraðili hafi verið eignalaus í upphafi sambúðarinnar en við lok hennar hafi hann talið sig einan eiga hrossin sem málið snúist um.
Málsástæður sóknaraðila séu studdar framlögðum gögnum og framburði vitna í fyrrnefndu héraðsdómsmáli. Sóknaraðili veki sérstaklega athygli á framburði vitnanna V, W og X. Öll þessi vitni hafi stutt málatilbúnað sóknaraðila, hvort heldur litið sé til greiðslna fyrir tamningu og umhirðu hrossanna, sameiginlegrar ákvarðanatöku um meðferð hrossanna eða mats á verðgildi þeirra.
Við mat á eignarhlutdeild málsaðila í hrossunum beri að líta til þess hvað hvort þeirra um sig hafi sameiginlega lagt fram til kaupa á þeim og til tamningar, þjálfunar, fóðrunar og annars kostnaðar er fallið hafi til vegna hrossanna á sambúðartíma aðila.
Varakrafan byggi á því að sóknaraðili hafi sannanlega keypt fyrir eigið fé hestinn H frá [...]. Lögmaður sóknaraðila sagði við munnlegan flutning málsins að fráleitt væri að sóknaraðili hefði keypt hestinn á 700.000 krónur og gefið hann varnaraðila. Einnig sé fráleitt að varnaraðili hafi selt hesta á 50.000 krónur hvern og ótrúverðugt að S, sem hafi á þeim tíma verið búsettur í [...] og verið atvinnulaus, hafi staðgreitt 150.000 krónur fyrir hesta. Þá sé ekki trúverðugt að varnaraðili hafi gengið til skuldauppgjörs við fyrri eiginkonu sína, Q, rétt eftir stefnubirtingu í fyrra máli aðila.
Framlag sóknaraðila til sameiginlegrar eignamyndunar nemi samtals 1.885.175 krónum. Auk beinna greiðslna fyrir rekstrarkostnað hrossanna og framlaga til eignaaukningar hafi sóknaraðili lánað varnaraðila, sem hafi verið illa haldinn fjárhagslega undir lok sambúðartímans og ekki getað staðið við sinn hluta af rekstrarkostnaði hrossanna, samtals 500.000 krónur. Fram kom hjá lögmanni sóknaraðila við munnlegan flutning málsins að frásögn varnaraðila af fjárhag sínum væri ótrúverðug. Varnaraðili hafi verið atvinnulaus, en kostnaður við hvern hest hafi numið tugum þúsunda króna á mánuði. Sóknaraðili vísi til forsendna Héraðsdóms Reykjavíkur í máli nr. E-6156/2010 milli aðila.
Varðandi lagarök vísi sóknaraðili til meginreglna samningaréttarins um skuldbindingargildi loforða og skyldu til að efna samninga, en reglur þessar fái m.a. stoð í lögum nr. 7/1936 um samningsgerð, umboð og ógilda löggerninga auk almennra reglna kröfuréttarins um efndir fjárskuldbindinga. Krafa um dráttarvexti sé byggð á III. kafla laga nr. 38/2001 um vexti og verðtryggingu. Krafa um málskostnað styðjist við ákvæði XXl. kafla laga nr. 91/1991 um meðferð einkamála. Krafa um virðisaukaskatt á málflutningsþóknun sé reist á lögum nr. 50/1988 um virðisaukaskatt, þar sem lögmönnum sé gert að innheimta virðisaukaskatt af þjónustu sinni. Sóknaraðili sé ekki virðisaukaskattskyld og beri henni því nauðsyn til að fá dóm fyrir skattinum.
III
Varnaraðili vísar til þess að engar lögfestar reglur séu í gildi um fjárskipti milli aðila sem hafi verið í óvígðri sambúð. Af þeim sökum gildi meginreglur fjármunaréttar um fjárskipti milli slíkra aðila auk viðmiða sem þróast hafi í dómaframkvæmd síðastliðinna ára og áratuga. Samkvæmt meginreglum um fjárskipti milli sambúðarfólks í lifanda lífi eigi sambúðarmaki að fá hlutdeild í þeirri eignamyndun sem verði til á sambúðartíma og hann hafi stuðlað að með beinum peningagreiðslum, vinnu, lánsfé, afborgunum af lánum, yfirtöku skulda o.s.frv. Til þess að hægt sé að veita sóknaraðila hlutdeild í hestum sem séu skráð eign varnaraðila sé nauðsynlegt að sýnt sé fram á, í fyrsta lagi að sóknaraðili hafi veitt atbeina sinn að verðmætasköpun og í öðru lagi að verðmæti hestanna hafi aukist á sambúðartíma svo einhverju nemi. Ekki sé því nægilegt til að eignarhlutdeild sé viðurkennd að verðmæta hafi verið aflað á sambúðartíma.
Varnaraðili hafi greitt fyrir hestana A frá [...], B frá [...], C frá [...], D frá [...], E frá [...], F frá [...], G frá [...], I frá [...] og P frá [...]. Varnaraðili hafi hins vegar ekki greitt fyrir H frá [...]. Til þess að hægt sé að sýna skýrlega fram á eignaaukningu sem stafi af framlögum sóknaraðila sé nauðsynlegt að kalla til dómkvaddan matsmann eða að heimildir 3. mgr. 105. gr. laga nr. 20/1991, um skipti á dánarbúum o.fl., til þess að láta fara fram verðmat með atbeina skiptastjóra, séu nýttar. Ekkert bendi til þess að hestarnir séu verðmeiri í dag en þegar þeir hafi verið keyptir, en nauðsynlegt sé að sýna fram á aukið verðgildi þeirra. Ekki sé hægt að líta svo á að hestarnir verði smátt og smátt að eign sóknaraðila með smávægilegum framlögum til tamningar og fóðrunar hestanna. Varnaraðili sé skráður eigandi hestanna og sönnunarbyrði um myndun sameignar hvíli því á sóknaraðila.
Nokkrir hestanna hafi verið keyptir á síðustu mánuðum sambands aðila. G frá [...] hafi verið keypt 1. desember 2008, I frá [...] 10. september 2009 og P frá [...] hafi verið keyptur á sama tíma, tveimur mánuðum fyrir sambúðarslit. Sóknaraðili þurfi sérstaklega að sýna fram á veruleg framlög til þessara hesta svo mögulegt sé að veita henni hlutdeild í þeim. Þá hafi engin gögn verið lögð fram um kostnað sóknaraðila af hestum eftir 1. desember 2008. Ekkert bendi því til þess að henni beri hlutdeild í þessum hestum.
Ekkert bendi til þess að sóknaraðili hafi borið meiri kostnað af rekstri heimilisins en varnaraðili. Sóknaraðili geri ekkert til að sýna fram á þá staðhæfingu að hún hafi borið meginþunga af samneyslu aðila, nema vísa til þess að hún hafi verið með hærri tekjur en varnaraðili samkvæmt skattframtölum. Það eitt og sér sýni ekki að hún hafi borið meiri kostnað við sameiginlegan heimilisrekstur aðila. Varnaraðili telji að lítil sem engin fjárhagsleg samstaða hafi verið milli aðila á því tímabili sem hann hafi búið á heimili sóknaraðila. Þau hafi til að mynda ekki verið samsköttuð. Í framlögðu yfirliti yfir millifærslur frá varnaraðila til sóknaraðila megi finna fjölda millifærslna, sem m.a. séu greiðsla á leigu og annar kostnaður við heimilið, svo og greiðsla vegna útlagðs kostnaðar sóknaraðila vegna hesta varnaraðila. Yfirlit yfir úttektir í reiðufé af reikningi varnaraðila sýni að verulegir fjármunir séu teknir út í reiðufé sem augljóslega séu nýttir til heimilishalds. Einnig séu lagðir fram reikningar vegna kaupa varnaraðila á þjónustu og lausafé sem hafi nýst sóknaraðila, viðhald á bílum hennar og greiðsla fyrir innbúsmuni á heimilinu. Þessa muni hafi varnaraðili ekki tekið með sér af heimilinu, enda hafi hann litið svo á að með kaupum á þessum munum væri hann m.a. að greiða leigu til sóknaraðila. Samtals nemi þessir reikningar 563.748 krónum. Þá hafi varnaraðili keypt hnakk handa sóknaraðila 30. apríl 2008 fyrir 148.750 krónur.
Meginágreiningur aðila snúist um eignarhald á hestunum A frá [...], B frá [...], C frá [...], D frá [...], E frá [...], F frá [...], G frá [...], I frá [...], H frá [...] og P frá [...]m. Umræddir hestar, að frátöldum P, hafi verið skráðir eign varnaraðila á vef Búnaðarfélags Íslands, WorldFeng allt frá því þeir hafi verið keyptir þar til sambandi aðila hafi lokið. Sá sem haldi fram að skráning eignar sé með öðrum hætti en eigendaskráning bendi til beri sönnunarbyrði fyrir þeirri staðhæfingu.
Krafa varnaraðila varðandi umrædda hesta byggist á því að hann hafi verið eigandi þeirra við lok sambands aðila. Sóknaraðili eigi enga lögvarða kröfu til eignarréttar á þeim. Burtséð frá gildi framlagðra reikninga sem stafi frá sóknaraðila telji varnaraðili að svo hægt sé að viðurkenna kröfu sóknaraðila þurfi hún að sýna fram á stöðugar greiðslur sem eðlilega verði til vegna hestanna og sýni að í hverjum mánuði, eða með öðrum reglubundnum hætti, hafi hún greitt fyrir fóður, hesthús, tamningu o.fl. sem nauðsynlegt sé við umhirðu hesta. Þá þurfi sóknaraðili að sanna að reikningarnir séu vegna uppihalds umræddra hesta, en ekki hesta í eigu sóknaraðila sjálfrar. Ekkert í framlögðum gögnum bendi til þess að sóknaraðili hafi lagt út fyrir hesthúsaplássum, hagagöngu og fóðri nema hugsanlega í örfáar vikur á þriggja ára tímabili, og jafnvel sé óljóst vegna hvaða hesta þeir reikningar séu.
Sóknaraðili leggi fram töluverðan fjölda reikninga sem hún telji vera vegna umræddra hesta. Þeirra á meðal séu sjö reikningar frá É ehf., vegna tamningar og járninga ótiltekinna hesta. Einungis á einum reikningi, nr. 36, komi skýrlega fram hvaða hest greitt sé fyrir, B, en á reikningi nr. 32 hafi einnig verið handskrifað nafnið „B“. Óljóst sé hvort kröfuhafinn eða sóknaraðili sjálf hafi gert það. Að frátöldum reikningi nr. 36 sýni reikningar frá É ehf. því eingöngu að sóknaraðili hafi einhvern tímann borgað fyrir tamningu og járningu á hestum, en óljóst sé fyrir hvaða hesta. Sóknaraðili hafi átt nokkurn fjölda hesta meðan á sambandi aðila hafi staðið. Reikningarnir gætu allt eins verið vegna þeirra. Í skýrslutökum í héraðsdómsmáli nr. E-6156/2010 hafi fyrirsvarsmaður É ehf. verið spurð út í umrædda reikninga og hún hafi ekki getað fullyrt vegna hvaða hesta reikningarnir væru. Hún hafi m.a. sagt að hún hefði verið með hestinn R í tamningu, sem hafi verið skráð eign sóknaraðila.
Jafnframt séu lagðir fram þrír reikningar frá Í. Sóknaraðili haldi því fram að hún hafi greitt reikninga frá Í fyrir varnaraðila, vegna uppihalds hesta í hans eigu. Ekki komi fram á reikningunum vegna hvaða hesta þeir séu. Þrátt fyrir þetta hafi varnaraðili greitt hluta þessara reikninga með millifærslum á reikning sóknaraðila, þótt þeir hafi verið stílaðir á hana. Varnaraðili hafi sannarlega greitt reikninga nr. 1000065 að fjárhæð 60.950 krónur og nr. 1000179 að fjárhæð 35.120 krónur. Hinn 25. mars 2008 hafi varnaraðili millifært samtals 180.000 krónur í tveimur færslum inn á reikning sóknaraðila sem greiðslu m.a. fyrir fyrrnefnda reikninginn. Hinn 6. maí 2008 hafi varnaraðili millifært 80.000 krónur inn á reikning sóknaraðila sem greiðslu m.a. fyrir síðarnefnda reikninginn.
Einnig sé lagður fram reikningur frá Ó í [...] vegna kaupa á hliðgrind og öðru smálegu vegna gerðar á rétt fyrir hagagöngu í landi Ö að [...] í [...]. Á reikningnum komi ekki fram hver hafi greitt fyrir umræddar vörur. Nóta sem virðist hafa verið heftuð við sé einnig svo ólæsileg að ómögulegt sé að greina hver sé rétthafi kortsins sem greitt sé með fyrir vörurnar. Þá hafi sóknaraðili ekki sýnt fram á að vörurnar hafi einvörðungu nýst varnaraðila, en ekki sóknaraðila og hennar hestum. Fyrir liggi að sóknaraðili hafi á þessum tíma átt a.m.k. fjögur hross sem einnig hafi verið sett í hagagöngu á þetta svæði. Í versta falli hafi sóknaraðili verið að greiða sína hlutdeild í hagagöngunni hjá Ö. Þá hafi Ö staðfest að varnaraðili hafi greitt fyrir hagagöngu 2006-2009. Flestir hafi hestarnir verið átta árið 2009 og hagaganga hafi verið greidd með verkframlagi, girðingavinnu, bílaviðgerðum o.fl.
Þá séu lagðar fram upplýsingar um millifærslur á nokkra aðila. Sóknaraðili telji að greitt hafi verið fyrir tamningar og járningar hesta varnaraðila. Hvergi í þessum millifærslum komi fram fyrir hvað hafi verið greitt, eða vegna hvaða hesta. Ómögulegt sé að ráða af þeim að þessar millifærslur hafi verið að einhverju leyti tengdar varnaraðila eða hestum í hans eigu. Eina af millifærslunum hafi varnaraðili þó sannarlega greitt fyrir. Hinn 22. janúar 2007 hafi sóknaraðili lagt 32.000 krónur inn á Ú. Þremur dögum áður hafi varnaraðili lagt 30.000 krónur inn á reikning sóknaraðila sem greiðslu vegna þessa reiknings. Millifærsla 5. júlí 2007 að fjárhæð 24.000 krónur telji varnaraðili að sé ekki vegna hesta hans. Millifærslan sé á V, vinkonu sóknaraðila til margra ára. Millifærslan gæti verið til komin af fjölda ástæðna. Leggja verði sönnunarbyrðina á sóknaraðila að sýna fram á að greiðslan sé í raun vegna hesta varnaraðila. Millifærsla 5. júlí 2007 á X sé að sama skapi órökstudd og óljóst fyrir hvað greitt hafi verið. Hinn 5. júní 2007 hafi sóknaraðili millifært 22.000 krónur inn á X. Hinn 11. júní 2007 hafi varnaraðili millifært inn á sóknaraðila 10.000 krónur vegna umræddrar millifærslu. Það sem út af standi hafi sóknaraðili átt að greiða. Hinn 8. júlí 2008 hafi sóknaraðili millifært 15.607 krónur inn á X. Þá hafi X lýst því fyrir dómi í máli E-6156/2010 að hún hefði séð um tamningu hesta beggja aðila og gæti þessi millifærsla allt eins verið vegna hesta sóknaraðila.
Einnig séu lagðir fram þrír reikningar frá Ý ehf. vegna mánaðarleigu á stíum fyrir tímabilið janúar til mars 2008. Varnaraðili hafi greitt þessa reikninga með millifærslum á reikning sóknaraðila. Á eindaga reiknings að fjárhæð 28.000 krónur, 12. febrúar 2008, hafi varnaraðili lagt 40.000 krónur inn á reikning sóknaraðila. Á eindaga reiknings að fjárhæð 28.000 krónur, 12. mars 2008, hafi varnaraðili lagt 100.000 krónur inn á reikning sóknaraðila. Á eindaga reiknings að fjárhæð 28.000 krónur, 14. apríl 2008, hafi varnaraðili lagt 150.000 krónur inn á reikning sóknaraðila.
Sóknaraðili leggi ekki fram nein gögn af öðru tagi um kostnað vegna leigu á hesthúsi, fóðurkostnað eða annað, nema á umræddu þriggja mánaða tímabili, janúar til mars 2008. Um sé að ræða verulega lágar fjárhæðir sem sóknaraðili hafi hugsanlega lagt til hestanna.
Varnaraðili hafi að meginstefnu séð um alla þá hesta sem hafi verið skráðir á hann, auk þess sem hann hafi séð um hesta sóknaraðila að hluta. Útlagður kostnaður vegna þeirra hesta sem skráðir hafi verið á hann 2006-2009 sé afar mikill. Varnaraðili hafi greitt sóknaraðila stóran hluta þess útlagða kostnaðar sem til staðar sé hjá henni og tengist hestamennsku.
Á árinu 2009 hafi útlagður kostnaður varnaraðila vegna hesta í hestavöruversluninni AA numið 210.932 krónum með virðisaukaskatti. Tölur frá öðrum tímabilum séu ekki aðgengilegar, en ætla megi að kostnaðurinn sé svipaður árin 2006-2008.
Varnaraðili hafi greitt hesthúsaleigu hjá BBí peningum en þær millifærslur séu eingöngu fyrir hluta ársins 2008, samtals 224.000 krónur. Greiðsla fyrir árið 2007 og hluta ársins 2008 hafi verið greidd með reiðufé og fóðri. U hafi verið greitt með heyrúllum sem U hafi nýtt fyrir sína eigin hesta. Hagagangan hjá Ö hafi verið greidd með verkframlagi varnaraðila og efniskaupum.
Fullyrðing sóknaraðila um að hún hafi lagt út fyrir allri tamningu hesta varnaraðila sé röng, enda bendi framlögð gögn ekki til þess. Varnaraðili hafi tamið sín hross að hluta til sjálfur og einnig greitt öðrum fyrir tamningu sinna hesta.
Haustið 2009 hafi varnaraðili verið með á leigu hesthús á vegum [...]bæjar þar sem hestar aðila hafi verið geymdir. Varnaraðili hafi borið allan kostnað af leigunni, bæði greiðslu á hita og rafmagni, fasteignagjöldum og öðrum gjöldum.
Hvað varði hestinn H frá [...] krefjist sóknaraðili í aðalkröfu einungis 50% eignarréttar í hestinum. Í því felist viðurkenning á að varnaraðili eigi a.m.k. helming í þeim hesti og beri því af þeim sökum að hafna varakröfu sóknaraðila sem varði útlagðan kostnað vegna hestsins. Kröfugerð með þessum hætti varði frávísun án kröfu, enda sé krafist ríkari réttinda í varakröfu heldur en í aðalkröfu.
Óumdeilt sé að sóknaraðili hafi greitt fyrir umræddan hest. Varnaraðili telji hins vegar að sóknaraðili hafi gefið honum hestinn og leggi fram tvær yfirlýsingar því til stuðnings. Þennan hest hafi varnaraðili séð um allt frá því að hann hafi verið keyptur. Þá hafi hann greitt þann kostnað sem fylgt hafi hestinum vegna fóðurs og húsaskjóls. Það bendi ótvírætt til eignarréttar varnaraðila að umræddir hestar hafi verið skráðir á hann í skráningarkerfi Búnaðarfélags Íslands. Sóknaraðili hafi ekki véfengt eignarhald hans fyrr en með málatilbúnaði í byrjun árs 2010. Fullyrðingar sóknaraðila um að ofríki varnaraðila hafi orðið til þess að skráningin hafi verið með þessum hætti meðan á sambandi þeirra hafi staðið séu bæði haldlausar og órökstuddar.
Hrossin A og C hafi verið keypt í júlí 2006, fyrir sambúð málsaðila. Meðal gagna málsins sé yfirlýsing S, sem hafi séð um frumtamningu hestanna, sem staðfesti að hestarnir hafi verið í eigu varnaraðila áður en hann hafi flutt inn á heimili sóknaraðila.
Varnaraðili telji sig vera eina eiganda hestsins P frá [...], sem sé óskráður. Sóknaraðili hafi keypt hestinn, ásamt hestinum I frá [...], af CC haustið 2009. Sóknaraðili geri ekki kröfu um eignarhlutdeild í hestinum. Varnaraðili hafi sett hestinn í hagagöngu hjá Ð að [...] í [...] haustið 2012. Degi áður en varnaraðili hafi ætlað að ná í hestinn hafi hann fengið þær upplýsingar frá Ð að sóknaraðili hefði náð í hestinn og flutt hann á brott í hestakerru. Hinn 11. október hafi lögmaður varnaraðila, með bréfi til lögmanns sóknaraðila, krafist þess að hestinum yrði skilað. Bréfinu hafi verið svarað með tölvubréfi þar sem fram hafi komið að óljóst væri um eignarrétt á hestinum. Með því viðurkenni sóknaraðili að hafa tekið hestinn á þessum tíma. Lögmaður varnaraðila hafi svarað tölvubréfi lögmanns sóknaraðila og ítrekað kröfur varnaraðila um skil á hestinum. Engin viðbrögð hafi borist við tölvubréfinu.
Varnaraðili byggi á því að hann hafi greitt að stærstum hluta fyrir hesthúsapláss, hagagöngu og annan kostnað sem fallið hafi til vegna hestanna J frá [...], L frá [...], N frá [...] og O, sem sé óskráð. Þá hafi sóknaraðili sjálf lýst því fyrir dómi í máli E-6156/2010 að hún hafi litið svo á að aðilar væru saman í hestamennskunni og hefðu verið saman með alla þá hesta sem um sé rætt, þ.m.t. fyrrnefnda fjóra hesta. Varnaraðili telji fráleita þá aðferðafræði sóknaraðila að henni beri hlutdeild í eignum varnaraðila en varnaraðila beri ekki að fá sambærilega eignarhlutdeild í hestum sóknaraðila.
Loks deili aðilar um beitingu 4. mgr. 105. gr. laga nr. 20/1991 um skipti á dánarbúum o.fl. við opinber skipti milli aðila. Varnaraðili sé ekki lengur skráður eigandi hestanna A frá [...], B frá [...], C frá [...], D frá [...], E frá [...], F frá [...], G frá [...], I frá [...], P frá [...] og H frá [...]. Aðilar deili um hvort um málamyndagerninga sé að ræða eða ekki. Varnaraðili telji ekki staðfest að um málamyndagerninga sé að ræða. Til að slík staðfesting lægi fyrir hefði sóknaraðili þurft að stefna varnaraðila, og þeim aðilum sem hestarnir hafi verið seldir, til viðurkenningar á því að um málamyndagerninga sé að ræða. Því sé nægilegt að fyrir liggi að hestarnir séu ekki lengur skráð eign hans svo skylt sé að beita 4. mgr. 105. gr. laga nr. 20/1991 vegna hestanna, við opinber skipti vegna fjárskipta milli aðila.
Fái sóknaraðili viðurkennda hlutdeild í eignum varnaraðila þurfi að fara fram mat skv. 3. mgr. 105. gr. laga nr. 20/1991 á hestunum og hlutdeild sóknaraðila í hestunum metin til fjár sem yrði tekin inn í heildaruppgjör aðila og eftir atvikum jöfnuð með peningagreiðslum.
Varnaraðili byggi kröfur sínar á meginreglum hjúskaparréttar er varði fjárskipti í lifanda lífi við sambúðarslit. Þá vísi varnaraðili til XIV. kafla laga nr. 20/1991, sérstaklega 105. gr. Krafa um málskostnað byggist á XXI. kafla laga nr. 91/1991 um meðferð einkamála. Krafa um virðisaukaskatt byggist á ákvæðum laga nr. 50/1988 um virðisaukaskatt, en varnaraðili sé ekki virðisaukaskattskyldur og honum sé því nauðsynlegt að fá skattinn dæmdan úr hendi sóknaraðila.
IV
Í aðalkröfu sinni krefst sóknaraðili þess að viðurkennt verði að meðal annars hrossið H frá [...], skráningarnúmer IS[...], verði talið sameign málsaðila í jöfnum hlutföllum. Til vara krefst sóknaraðili þess að viðurkenndur verði eignarréttur hennar að hestinum og að varnaraðili verði dæmdur til að gefa út afsal til sóknaraðila. Varakrafa sóknaraðila gengur þannig lengra en aðalkrafa hennar. Er varakrafa sóknaraðila því ekki dómtæk og verður henni því vísað frá dómi án kröfu.
Engar lögfestar reglur eru um skipti eigna og skulda við slit óvígðrar sambúðar. Litið hefur verið á sambúðarfólk sem tvo sjálfstæða einstaklinga í þessu tilliti og þeirri meginreglu slegið fastri við fjárskipti vegna slita á óvígðri sambúð að hvor aðili taki sínar eignir og beri ábyrgð á sínum skuldum. Er almennt litið svo á að opinber skráning og þinglýsing eignarheimilda gefi sterka vísbendingu um raunveruleg eignarráð og að sá sem haldi fram eignarráðum sem ekki samræmist slíkri skráningu beri sönnunarbyrði fyrir réttmæti slíkra fullyrðinga. Þessum sjónarmiðum hefur verið lýst með almennum hætti sem meginreglum á þessu sviði í nokkrum dómum Hæstaréttar Íslands um fjárslit vegna óvígðrar sambúðar, sbr. t.d. dóma réttarins í málum nr. 163/2014, 718/2012 og 704/2012. Þrátt fyrir framangreint hefur í dómaframkvæmd Hæstaréttar verið viðurkennt að sambúðarmaki geti átt tilkall til hlutdeildar í eignum hins, hvernig sem háttað er skráningu og þinglýsingu eignarheimilda, sýni sá sambúðarmaki fram á að eignamyndun hafi orðið á sambúðartíma sem báðir aðilar hafi lagt sitt af mörkum til.
Aðalkrafa sóknaraðila lýtur að því að viðurkennt verði að níu nánar tilgreindir hestar séu sameign aðila í jöfnum hlutföllum. Varnaraðili krefst þess hins vegar að viðurkennt verði að hestarnir séu hans eign. Ágreiningslaust er að umræddir níu hestar voru allir keyptir á sambúðartíma aðila, utan þess að varnaraðili heldur því fram að hestarnir A og C hafi verið keyptir í júlí 2006, sem hann telur að hafi verið áður en aðilar hafi stofnað til sambúðar. Hestarnir voru allir skráðir eign varnaraðila í gagnabankanum WorldFeng, sem mun vera upprunaættbók íslenska hestsins sem inniheldur upplýsingar og skrá um hreinræktuð íslensk hross, sbr. reglugerð nr. 442/2011 um uppruna og ræktun íslenska hestsins. Samkvæmt framburði aðila og vitna fyrir dóminum eru það að jafnaði seljendur sem skrá nýja eigendur hesta í gagnagrunninn. Engin gögn er að finna í málinu um kaup framangreindra hesta.
Samkvæmt yfirlýsingu seljanda hestanna A, C, B, E og F, Ö, dags. 23. febrúar 2014, taldi hann sig vera að selja báðum málsaðilum framangreinda hesta. Þá kemur fram í yfirlýsingu hans að varnaraðili hafi krafist þess að hrossin yrðu skráð á hans nafn. Ö staðfesti framangreint í skýrslu fyrir dóminum. Hann kvað aðila alltaf hafa komið saman að kaupa hestana. Sóknaraðili hafi haft peninga meðferðis, en varnaraðili hafi rétt þá til sín.
Æ, sem seldi hestinn D, lýsti því fyrir dóminum að hún hefði talið sig vera að selja báðum aðilum hestinn. Þau hefðu komið fram sem ein heild við þessi kaup. Það hefði svo verið tekin ákvörðun um að skrá hestinn á varnaraðila.
Þ greindi frá því að hún hefði haft umsjón með sölu hestsins I, ásamt öðrum óskráðum hesti. Sóknaraðili hefði haft samband við sig og aðilar hafi svo komið saman og skoðað hestana og ákveðið að kaupa þá. Þau hafi einnig komið saman og sótt þá. Hún vissi hins vegar ekki hvort þeirra hefði greitt fyrir hestana. Hún hefði látið þau fá reikningsnúmer eigandans til þess að leggja inn hjá honum.
Á staðfesti undirritun sína á yfirlýsingu, dags. 4. október 2010, um að hann hefði selt varnaraðila hestinn G í september 2009. Hann kvaðst þó ekki vita neitt um það hvor aðila hefði keypt hestinn. Hann muni ekki betur en hann hafi rætt um kaupin við báða aðila. Varnaraðili hafi afhent sér peningana.
Óumdeilt er að sóknaraðili greiddi fyrir hestinn H. Varnaraðili heldur því hins vegar fram að hún hafi gefið sér hestinn. Því til staðfestingar hefur hann lagt fram tvær yfirlýsingar, annars vegar yfirlýsingu U, dags. 6. október 2010, og hins vegar yfirlýsingu S, dags. 1. október 2010. Kemur fram í þeim báðum að þeir hafi ítrekað heyrt sóknaraðila lýsa því að hún hefði gefið hestinn varnaraðila. Bæði U og S staðfestu framangreindar yfirlýsingar fyrir dóminum. Y skýrði frá því fyrir dóminum að hann hefði selt aðilum hestinn H. Sóknaraðili hefði greitt fyrir hestinn, en aðilar hafi verið saman í hestamennskunni og ekki hafi verið hugað sérstaklega að því á hvort þeirra hesturinn væri skráður. Eiginkona hans, V, hefði hins vegar gengið frá eigendaskiptunum og skráð hestinn á varnaraðila. Sóknaraðili hefur staðfastlega neitað því að hún hafi gefið varnaraðila hestinn. Gegn andmælum hennar þykir ekki komin fram lögfull sönnun þess að um gjöf til varnaraðila hafi verið að ræða.
Eins og fram hefur komið er umdeilt hvenær á árinu 2006 sambúð aðila hófst. Þar sem engum gögnum er til að dreifa um kaup hestanna, og með hliðsjón af yfirlýsingu seljanda hestanna A og C, verður talið að allir þeir níu hestar sem aðalkrafa sóknaraðila lýtur að hafi verið keyptir á sambúðartíma aðila. Framburður þeirra sem komu fyrir dóminn bendir eindregið til þess að aðilar hafi staðið saman að kaupum framangreindra hesta. Ekkert hefur komið fram um það hvort þeirra greiddi í raun fyrir hestana, að hestinum H frátöldum, og engin ótvíræð gögn liggja fyrir um það. Aðilar eru þó sammála um að greiðsla fyrir hestana I og P hafi farið af reikningi varnaraðila, en sóknaraðili kveðst áður hafa lagt sömu fjárhæð á reikning hans vegna kaupanna og hefur lagt fram reikningsyfirlit því til staðfestingar. Hins vegar liggur fyrir framburður fjölmargra vitna um það að aðilar hafi staðið saman að rekstri og umhirðu hestanna. Samkvæmt framburði V komu aðilar saman til hennar til þess að láta temja hesta. Meðal annars hafi verið um að ræða hestana D, E, F, B, A og G. Hún hafi einnig haft hestinn R í tamningu. Reikningar vegna tamningarinnar hafi verið stílaðir á sóknaraðila. W, sem var með hestana D, F og E í tamningu á árinu 2007 eða 2008, kvaðst hafa átt samskipti við báða aðila. Þau hafi bæði tekið ákvarðanir og greitt fyrir tamninguna, en sóknaraðili hafi oftast komið með peninga. X kvaðst hafa verið með A, C, N, O og R í tamningu. Hún taldi aðila hafa tekið sameiginlegar ákvarðanir um hestana, en sóknaraðili hafi alltaf greitt. U skýrði frá því að aðilar hefðu leigt tvö pláss í hesthúsi hjá honum. Varnaraðili hafi séð um greiðslur, en þær hafi verið í heyi eða peningum. Hann geti ekki fullyrt um það hvort sóknaraðili hafi einhvern tíma greitt, en engar kvittanir hafi verið gefnar. Aðilar hafi hins vegar hirt hesthúsið í bland. Ð kvaðst hafa haft tvo fola frá aðilum í hagagöngu hjá sér. Hann mundi ekki eftir því hvort varnaraðili hefði greitt þegar hann hafi sótt annan hestinn árið 2011. Árið 2012 hafi varnaraðili boðað að hann myndi sækja hinn hestinn. Hann hafi þá hringt í sóknaraðila og látið hana vita, enda hafi aðilar átt hestana saman. Þegar þau hafi komið með hestana hafi verið rætt um það að þau ættu þá saman, sóknaraðili hafi haft forgöngu um kaupin og greitt fyrir hestana.
Í samræmi við allt framangreint verður talið að um sé að ræða eignamyndun á sambúðartíma aðila. Skráning í gagnabankann WorldFeng þykir ekki veita óyggjandi sönnun þess hvernig eignarhaldi framangreindra hesta er háttað, en eins og fram hefur komið geta eigendur sjálfir breytt skráningu á hestum sínum, án þess að nokkur gögn séu á bak við þá skráningu.
Varnaraðili heldur því fram að hann hafi selt þrjá af framangreindum hestum, B, A og I, vini sínum, S, fyrir 150.000 krónur, um haustið 2010. Fyrir liggur að á framangreindum tíma var S búsettur í [...]. Hestarnir voru áfram á sama stað og áður og varnaraðili sá um þá. Í framburði S fyrir dóminum kom fram að hestarnir væru nú í hesthúsi í [...]. Q, sé jafnframt með hesta sína þar. Aðspurður um hvers vegna hann hafi verið tregur til að greina frá verustað hestanna í fyrra máli milli aðila kvaðst hann ekki hafa viljað blanda óviðkomandi aðilum inn í deiluna. Þá heldur varnaraðili því fram að hann hafi selt fyrrverandi eiginkonu sinni, Q, fimm hesta, D, F, E, C og G. Hestarnir hafi verið greiðsla á skuld hans við Q vegna framfærslueyris sem gert hafi verið samkomulag um við skilnað þeirra að borði og sæng í [...]. Spurð um það fyrir dóminum hvers vegna hún hafi verið treg til að greina frá verustað hestanna í fyrra máli milli aðila kvaðst Q ekki hafa séð hvað það hefði með eignarhaldið að gera og hún hefði ekki viljað að þeir sem væru að sinna hestunum lentu inni í málinu. Hestarnir væru nú í hesthúsi hjá S. Hún hefði séð um uppihald þeirra frá því hún hefði tekið við við þeim árið 2010. Kostnaður við þá sé um 100.000 krónur á mánuði. Varnaraðili komi stundum í hesthúsið og fari á bak. Hún hafi ekki stundað hestamennsku á þeim tíma sem hún hafi tekið við hestunum en sé nú „aðeins að byrja“ að fara á bak. Hún hafi „ekki farið í alvarlegar hugleiðingar“ með að selja hestana. Þá kom fram hjá varnaraðila fyrir dóminum að hann hefði gefið DD hestinn H.
Engin gögn liggja fyrir um framangreind viðskipti. Fyrir liggur að varnaraðili gat fært hestana á nöfn annarra aðila án nokkurrar staðfestingar. Framangreind tvö vitni, S og Q, eru annars vegar vinur varnaraðila til fjögurra áratuga og hins vegar fyrrverandi eiginkona hans, sem hann skildi við að borði og sæng árið 2006. Ekki hefur enn verið gengið frá lögskilnaði milli þeirra hjóna þrátt fyrir ákvæði í skilnaðarsamkomulagi þeirra um framfærslueyri á meðan á skilnaði að borði og sæng standi. Þá liggur fyrir að til hafi staðið að þau tækju aftur upp sambúð, en þau neita því bæði að af því hafi orðið. Hins vegar kom fram hjá vitni fyrir dóminum að það teldi þau hafa tekið upp samband að nýju. Framburður framangreindra tveggja vitna fyrir dóminum verður ekki talinn trúverðugur. Fram kom hjá nokkrum vitnum að þau teldu verðgildi hestanna hafa verið langt umfram það verð sem varnaraðili kveður hestana hafa verið selda á. Þá voru hestarnir allir skráðir á nýja eigendur eftir að sóknaraðili birti varnaraðila stefnu 20. september 2010 þar sem hún krafðist viðurkenningar á eignarhlutdeild sinni í hestunum. Samkvæmt öllu framangreindu verður talið að afsal varnaraðila á hestunum til framangreindra aðila í gagnabankanum WorldFeng hafi verið til málamynda og til þess gert að koma hestunum undan skiptum. Verður því fallist á aðalkröfu sóknaraðila um að þar tilgreindir níu hestar verði taldir sameign aðila að jöfnu.
Varnaraðili hefur krafist þess að óskráður hestur, P frá [...], verði talinn eign hans við opinber skipti til fjárslita milli aðila. Sóknaraðili hefur hafnað þessari kröfu varnaraðila. Hún lýsti því fyrir dóminum að hún kallaði þennan óskráða hest EE. Hann væri eign hennar og í hennar umráðum. Umræddur hestur var keyptur á sama tíma og hesturinn I. Eins og að framan var lýst greindi Þ frá því fyrir dóminum að hún hefði haft umsjón með sölu þessara hesta. Sóknaraðili hafi verið í sambandi við hana, en aðilar hafi komið saman til að skoða hestana og til að sækja þá. Hún hafi hins vegar ekki upplýsingar um hvort þeirra hafi greitt. Óumdeilt er að varnaraðili millifærði greiðslu vegna hestanna á reikning seljanda, en sóknaraðili hefur vísað til millifærslu sinnar inn á reikning varnaraðila af þessu tilefni. Með hliðsjón af framangreindu verður ekki talið að varnaraðili hafi sýnt fram á að hann hafi greitt fyrir hestinn umfram sóknaraðila. Verður kröfu hans um viðurkenningu á því að hesturinn P sé eign hans því hafnað.
Varnaraðili hefur jafnframt krafist þess að hestarnir J frá [...], L frá [...], N frá [...] og O, sem er óskráð, verði talin sameign sóknaraðila og varnaraðila í jöfnum hlutföllum. Það er ágreiningslaust að sóknaraðili átti hestana N og O áður en til sambúðar aðila var stofnað. Þótt varnaraðili kunni að hafa borið einhvern kostnað vegna hestanna getur það ekki leitt til þess að hann öðlaðist eignarhlutdeild í þeim. Verður kröfu varnaraðila vegna þessara tveggja hesta því hafnað.
Óumdeilt er að hestarnir J og L voru keyptir á sambúðartíma aðila. Engin gögn liggja fyrir um kaup á þeim hestum. Sóknaraðili bar fyrir dóminum að þessir hestar hefðu líklega verið skráðir á hennar nafn þar sem varnaraðila hafi þótt þeir ómerkilegir. Með vísan til þess sem að framan er rakið, og þar sem ekki verður annað ráðið af gögnum málsins en að aðilar hafi átt þessa hesta í sameiningu, verður fallist á kröfu varnaraðila um eignarhlutdeild í framangreindum hestum.
Að lokum krefst varnaraðili viðurkenningar þess, hvað þá hesta varði sem vísað sé til í 1. tölulið kröfugerðar hans, að beita beri 4. mgr., sbr. 3. mgr. 105. gr., laga nr. 20/1991 um skipti á dánarbúum o.fl., við opinber skipti til fjárslita milli aðila, þegar verðgildi hesta er metið, svo umræddir hestar komi ekki til útlagningar, fari svo að viðurkennt verði að sameign hafi myndast milli aðila að einhverju leyti vegna þeirra. Krafa varnaraðila byggir á því að hann sé ekki lengur skráður eigandi umræddra hesta. Dómurinn hefur komist að þeirri niðurstöðu að raunverulegt afsal hestanna hafi ekki farið fram. Verður þessari kröfu varnaraðila því hafnað þegar af þeim sökum.
Eftir þessum úrslitum verður varnaraðila gert að greiða sóknaraðila hluta málskostnaðar sem þykir, eftir atvikum og með hliðsjón af umfangi málsins, vera hæfilega ákveðinn 400.000 krónur.
Barbara Björnsdóttir héraðsdómari kveður upp þennan úrskurð.
Ú R S K U R Ð A R O R Ð:
Varakröfu sóknaraðila er vísað frá dómi.
Viðurkennt er að hestarnir A frá [...], skráningarnúmer IS[...], B frá [...], skráningarnúmer IS[...], C frá [...], skráningarnúmer IS[...], D frá [...], skráningarnúmer IS[...], E frá [...], skráningarnúmer IS[...], F frá [...], skráningarnúmer IS[...], G frá [...], skráningarnúmer IS[...], H frá [...], skráningarnúmer IS[...], og I frá [...], skráningarnúmer IS[...], eru sameign sóknaraðila, K, og varnaraðila, M, að jöfnu.
Kröfu varnaraðila, um viðurkenningu þess að óskráði hesturinn P frá [...] verði talinn eign hans, er hafnað.
Kröfu varnaraðila, um viðurkenningu þess að hestarnir N frá [...], skráningarnúmer IS[...] og óskráði hesturinn O verði talin sameign sóknaraðila og varnaraðila í jöfnum hlutföllum, er hafnað.
Viðurkennt er að hestarnir J frá [...], skráningarnúmer IS[...], og L frá [...], skráningarnúmer IS[...], eru sameign sóknaraðila og varnaraðila í jöfnum hlutföllum.
Varnaraðili greiði sóknaraðila 400.000 krónur í málskostnað.