Hæstiréttur íslands
Mál nr. 215/2003
Lykilorð
- Kærumál
- Gjaldþrotaskipti
- Útivist
- Kæruheimild
- Frávísun frá Hæstarétti
|
|
Miðvikudaginn 4. júní 2003. |
|
Nr. 215/2003. |
Ólafur Hafsteinsson(Grétar Haraldsson hrl.) gegn Landsbanka Íslands hf. (enginn) |
Kærumál. Gjaldþrotaskipti. Útivist. Kæruheimild. Frávísun máls frá Hæstarétti.
Héraðsdómur kvað upp úrskurð um að bú Ó. skyldi tekið til gjaldþrotaskipta. Af hálfu Ó var ekki sótt þing í héraði þegar málið var tekið fyrir. Brast því heimild til að kæra málið og var því vegna þessa vísað frá Hæstarétti.
Dómur Hæstaréttar.
Mál þetta dæma hæstaréttardómararnir Markús Sigurbjörnsson, Gunnlaugur Claessen og Ingibjörg Benediktsdóttir.
Sóknaraðili skaut málinu til Hæstaréttar með kæru 24. maí 2003, sem barst réttinum ásamt kærumálsgögnum 2. júní sl. Kærður er úrskurður Héraðsdóms Reykjavíkur 17. mars 2003, þar sem bú sóknaraðila var tekið til gjaldþrotaskipta. Um kæruheimild vísar sóknaraðili til 179. gr. laga nr. 21/1991 um gjaldþrotaskipti o.fl. Hann krefst þess að hinn kærði úrskurður verði felldur úr gildi.
Varnaraðili hefur ekki látið málið til sín taka fyrir Hæstarétti.
Sóknaraðili sótti ekki þing í héraði þegar beiðni varnaraðila um gjaldþrotaskipti var tekin fyrir 5. mars 2003. Gekk hinn kærði úrskurður í framhaldi af því. Í dómi Hæstaréttar, sem birtur er í dómasafni 1992 bls. 2028, sbr. og meðal annars dóma 4. desember 2001 í málinu nr. 432/2001, 8. apríl 2002 í málinu nr. 158/2002, 30. sama mánaðar í málinu nr. 189/2002 og 4. desember sama árs í málinu nr. 535/2002, voru ákvæði laga nr. 21/1991 skýrð með hliðsjón af 4. mgr. 96. gr. laga nr. 91/1991 um meðferð einkamála á þann veg að heimild brysti til kæru máls sem þessa þegar þannig stæði á. Ber samkvæmt því að vísa málinu sjálfkrafa frá Hæstarétti.
Dómsorð:
Máli þessu er vísað frá Hæstarétti.
Úrskurður Héraðsdóms Reykjavíkur 17. mars 2003.
Með bréfi sem barst Héraðsdómi Reykjavíkur 15. nóvember 2002 hefur Landsbanki Íslands hf., kt: 540291-2259, Austurstræti 11, Reykjavík, krafist þess að bú Ólafs Hafsteinssonar, kt: 261153-5139, Klapparstíg 1, Reykjavík, verði tekið til gjaldþrotaskipta.
Skiptabeiðandi kveðst eiga kröfu á hendur skuldaranum. Í bréfi hans er skuldin sögð nema samtals 2.523.543,30 krónum. Gert hafi verið árangurslaust fjárnám hjá skuldara 2. október 2002.
Af hálfu skuldara hefur ekki verið sótt þing þrátt fyrir lögmæta boðun og ber því með vísan til 2. mgr. 70. gr. laga nr. 21/1991 að líta svo á að hann viðurkenni að fullyrðingar skiptabeiðanda séu réttar. Er því fullnægt skilyrðum 1. tl. 2. mgr. 65. gr. sömu laga til að verða við kröfu skiptabeiðanda og er bú skuldarans tekið til gjaldþrotaskipta.
Páll Þorsteinsson héraðsdómari, kveður upp úrskurð þennan.
Ú R S K U R Ð A R O R Ð :
Bú Ólafs Hafsteinssonar, kt: 261153-5139, Klapparstíg 1, Reykjavík, er tekið til gjaldþrotaskipta.