Hæstiréttur íslands
Mál nr. 94/2011
Lykilorð
- Kærumál
- Gæsluvarðhald. A. liður 1. mgr. 95. gr. laga nr. 88/2008
|
Þriðjudaginn 15. febrúar 2011. |
|
|
Nr. 94/2011. |
Lögreglustjórinn á höfuðborgarsvæðinu (Jón H.B. Snorrason saksóknari) gegn X (Bjarni Hauksson hrl.) |
Kærumál. Gæsluvarðhald. A. liður 1. mgr. 95. gr. laga nr. 88/2008.
Úrskurður héraðsdóms um að X skyldi sæta áfram gæsluvarðhaldi, var staðfestur með vísan til a. liðar 1. mgr. 95. gr. laga nr. 88/2008 um meðferð sakamála.
Dómur Hæstaréttar.
Mál þetta dæma hæstaréttardómararnir Ólafur Börkur Þorvaldsson, Jón Steinar Gunnlaugsson og Páll Hreinsson.
Varnaraðili skaut málinu til Hæstaréttar með kæru 11. febrúar 2011, sem barst réttinum ásamt kærumálsgögnum 14. sama mánaðar. Kærður er úrskurður Héraðsdóms Reykjavíkur 11. febrúar 2011, þar sem varnaraðila var gert að sæta áfram gæsluvarðhaldi allt til föstudagsins 18. febrúar 2011, klukkan 16 og einangrun meðan á gæsluvarðhaldi stendur. Kæruheimild er í l. lið 1. mgr. 192. gr. laga nr. 88/2008 um meðferð sakamála. Varnaraðili krefst þess að hinn kærði úrskurður verði felldur úr gildi.
Sóknaraðili krefst staðfestingar hins kærða úrskurðar.
Með vísan til a. liðar 1. mgr. 95. gr. laga nr. 88/2008 verður hinn kærði úrskurður staðfestur.
Dómsorð:
Hinn kærði úrskurður er staðfestur.
Úrskurður Héraðsdóms Reykjavíkur 11. febrúar 2011.
Lögreglustjórinn á höfuðborgarsvæðinu hefur krafist þess að Héraðsdómur Reykjavíkur úrskurði að X, kt. [...], verði gert að sæta áframhaldandi gæsluvarðhaldi, allt til föstudagsins 18. febrúar 2011 kl. 16:00. Þá er gerð krafa um að kærði sæti einangrun meðan á gæsluvarðhaldinu stendur.
Í greinargerð lögreglustjóra kemur fram að lögreglan hafi að undanförnu haft til rannsóknar innbrot sem framin hafi verið á heimilum og í gistihúsum á höfuðborgarsvæðinu. Við rannsókn málsins hafi fjórir aðilar setið í gæsluvarðhaldi. Einum þeirra, Y, hafi verið birt ákvörðun um brottvísun sem hann hafi tilkynnt að hann muni una og sé því gert ráð fyrir brottför hans af landinu á næstu dögum. Hann sé talinn hafa verið sendur hingað til lands í þeim tilgangi að brjótast inn og koma þýfi í sölu. Þrír einstaklingar, hafi setið í gæsluvarðhaldi og hafi nú viðurkennt um 70 innbrot, þar sem gífurlegum verðmætum hafi verið stolið. Umtalsverð vinna sé eftir við frekari greiningu á hverju innbroti og því hverjir þar hafi staðið að baki. Eins liggi ekki fyrir hvað hafi orðið um allt það þýfi sem tekið hafi verið en í framburðarskýrslum þeirra aðila sem setið hafi í gæsluvarðhaldi hafi komið fram að megnið af þýfinu hafi farið til kærða X og að hann hafi staðgreitt fyrir þýfið með reiðufé. Fyrir liggi símagögn sem staðfesti samskipti á milli þeirra aðila sem sitji í gæsluvarðhaldi og kærða og beri gögnin það með sér að aðilarnir hafi verið að eiga viðskipti með þýfi.
Kærði X hafi sætt gæsluvarðahaldi vegna málsins frá 4. febrúar s.l. nú síðast með dómi Hæstaréttar Íslands nr. 79/2011 til dagsins í dag kl. 16.00.
Kærði hafi verið handtekinn að morgni 4. febrúar sl., á heimili sínu að [...] í [...] ásamt bróður sínum Z og hafi lögregla framkvæmt húsleit á vettvangi í kjölfar handtökunnar. Við húsleitina hafi lögregla fundið ýmsa muni sem taldir séu þýfi, þar á meðal tölvur, sjónvarp, peninga og skilríki. Þá hafi lögregla einnig fundið kvittanir sem bendi til útflutnings á peningum og handskrifaða lista þar sem taldir séu upp ýmsir munir og verð. Einnig hafi verið framkvæmd húsleit í bílskúr að [...] sem kærði sé leigutaki að og hafi þar fundist ýmsir munir sem taldir séu þýfi. Hafi lögregla nú rakið hluta af framangreindum munum til innbrota sem hún hafi haft til rannsóknar og hafi þeir sakborningar sem nú sitji í gæsluvarðhaldi vegna málsins játað aðild sína að hluta þessara innbrota.
Kærði hafi neitað sök í skýrslutöku þann 4. febrúar 2011 og kveðst ekki tengjast málinu. Varðandi ofangreinda muni kveðst hann hafa keypt munina á netinu og af félögum sínum auk þess sem annar félagi hans hafi komið með hluta af mununum til hans og beðið hann að selja þá. Kveðist hann ekki geta gert grein fyrir neinum þessara félaga sinna. Kveðist hann ekki hafa vitað að um þýfi hafi verið að ræða en þó sagst hafa getað gert sér það í hugarlund.
Um mjög umfangsmikla rannsókn sé að ræða og sé töluverð rannsóknarvinna eftir hvað varði þátt kærða en lögregla eigi m.a. eftir að hafa upp á miklu magni af þýfi sem kærði sé grunaður um að hafa átt viðskipti með, vinna frekar úr bankaupplýsingum sem hún hafi undir höndum varðandi kærða og hafi fengið með dómsúrskurði, fara enn betur yfir símagögn til þess að tímasetja símtöl kærða við þá sakborninga sem nú séu í gæsluvarðhaldi vegna málsins og taka skýrslur af nokkrum einstaklingum sem undanfarið hafi millifært töluverður fjárhæðir inn á bankareikning kærða.
Lögregla telji ljóst að brýnt sé að vernda rannsóknarhagsmuni á þessu stigi málsins með því að varna því að kærði gangi laus en veruleg hætta sé talin á að hann kunni að torvelda áframhaldandi rannsókn málsins gangi hann laus, t.d. með því að koma undan þýfi sem leitað sé að og hafa áhrif þá aðila sem lögregla eigi eftir að taka skýrslur af. Afar mikilvægt sé að lögregla fái svigrúm til þess að ljúka rannsókn á þætti kærða í málinu án þess að kærði geti á einhvern hátt spillt rannsókninni.
Til rannsóknar í máli þessu sé ætlað brot gegn 254. gr. og/eða 244. gr. almennra hegningarlaga nr. 19/1940 hvað kærða varði, sem varðað geti allt að 6 ára fangelsi. Það sé því brýnt og nauðsynlegt með vísan til alls framanritaðs og gagna málsins að öðru leyti að kærða verði með vísan til a-liðar 1. mgr. 95. gr. laga um meðferð sakamála nr. 88/2008 gert að sæta áframhaldandi gæsluvarðhaldi til föstudagsins 18. febrúar 2011 kl. 16.00 og til að sæta einangrun samkvæmt b. lið 1. mgr. 99. gr. sömu laga.
Rannsókn máls þessa er skammt á veg komin og er fallist á að kærði, sem er undir rökstuddum grun um að hafa framið brot sem geta varðað hann fangelsisrefsingu, geti torveldað rannsókn málsins með því að koma undan sönnunargögnum eða hafa áhrif á vitni eða samseka, gangi hann laus. Þegar litið er til rannsóknargagna svo og þess sem hér að framan segir telur dómurinn að uppfyllt séu skilyrði a og b liðar 1. mgr. 95. gr. laga 88/2008 um meðferð sakamála. Er því fallist á kröfu lögreglustjóra um eins og hún er fram sett. Þá er með sömu rökum fallist á að kærði sæti einangrun skv. b. lið 1. mgr. 99. gr. laga nr. 88/2008.
Allan Vagn Magnússon héraðsdómari kveður upp úrskurðinn
Ú R S K U R Ð A R O R Ð
Kærði, X, skal sæta áfram gæsluvarðhaldi til föstudagsins 18. febrúar 2011 kl., 16:00. Kærði sæti einangrun meðan á gæsluvarðhaldinu stendur.