Hæstiréttur íslands

Mál nr. 209/2010


Lykilorð

  • Kærumál
  • Dánarbússkipti
  • Fasteign
  • Eignarréttur


Miðvikudaginn 5. maí 2010.

Nr. 209/2010.

A

(Hildur Sólveig Pétursdóttir hrl.)

gegn

B

C

D

E

F

G og

(Óskar Sigurðsson hrl.)

H

(enginn)

Kærumál. Dánarbússkipti. Fasteign. Eignarréttur.

A kærði úrskurð héraðsdóms þar sem hafnað var kröfu hans um að viðurkennt yrði við skipti á dánarbúi að hluti jarðar væri í eigu hans. Talið var að eignarhlutinn væri í eigu veiðifélags, en ekki einstakra félagsmanna í félaginu eða einhverra sem leiddu rétt sinn frá þeim. Hafi eigandi jarðarinnar ekki getað ráðstafað rétti til að kaupa eignarhlutann, sem svaraði til þess sem talið hafi verið hlutdeild jarðarinnar í veiðifélaginu, til A sem ekki hafi átt aðild að félaginu. Væri þess þá jafnframt að gæta að veiðiréttur væri forsenda fyrir aðild að veiðifélagi, en sá réttur yrði ekki með þessu móti skilinn frá landareign, sbr. 4. mgr. 2. gr. þágildandi laga nr. 76/1970 um lax- og silungsveiði, sbr. einnig 1. mgr. 9. gr. núgildandi laga nr. 61/2006. Þegar af þessari ástæðu var kröfu A hafnað.

Dómur Hæstaréttar.

Mál þetta dæma hæstaréttardómararnir Markús Sigurbjörnsson, Hjördís Hákonardóttir og Ólafur Börkur Þorvaldsson.

Sóknaraðili skaut málinu til Hæstaréttar með kæru 16. mars 2010, sem barst réttinum ásamt kærumálsgögnum 6. apríl sama ár. Kærður er úrskurður Héraðsdóms Vesturlands 2. mars 2010, þar sem hafnað var kröfu sóknaraðila um að við opinber skipti á dánarbúi I og J yrði viðurkennt að hann sé eigandi að svonefndum [...]hluta [...] í Veiðifélagi [...]. Kæruheimild er í 1. mgr. 133. gr. laga nr. 20/1991 um skipti á dánarbúum o.fl. Sóknaraðili krefst þess að framangreind krafa hans verði tekin til greina og varnaraðilum, öðrum en H, gert að greiða sér málskostnað í héraði og kærumálskostnað.

Varnaraðilarnir B, C, D, E, F og G krefjast staðfestingar hins kærða úrskurðar um annað en málskostnað, sem sóknaraðila verði gert að greiða þeim ásamt kærumálskostnaði.

Varnaraðilinn H hefur ekki látið málið til sín taka fyrir Hæstarétti.

Eins og greinir í hinum kærða úrskurði fékk Veiðifélag [...] afsal fyrir jörðinni [...] 11. september 1990. Því til samræmis verður jörðin ekki talin hafa orðið eign L eða annarra félagsmanna í veiðifélaginu, en með því er þó ekki tekin afstaða til hugsanlegra fjárréttinda hennar, sem jörðinni tengjast. Með þessari athugasemd og að öðru leyti með vísan til forsendna hins kærða úrskurðar verður hann staðfestur, þar með talið ákvæði hans um málskostnað, enda hafa varnaraðilar ekki kært úrskurðinn fyrir sitt leyti.

Rétt er að kærumálskostnaður falli niður.

Dómsorð:

Hinn kærði úrskurður er staðfestur.

Kærumálskostnaður fellur niður.

Úrskurður Héraðsdóms Vesturlands 2. mars 2010.

Mál þetta var þingfest 15. september 2009 og tekið til úrskurðar 11. febrúar 2010. Sóknaraðili er A, [...] í [...]. Varnaraðilar eru D, [...] í [...], B, [...] í [...], F, [...] á [...], C, [...] á [...], G, [...] í [...], H, búsettur í [...], og E, [...] í [...].

Sóknaraðili krefst þess að felld verði úr gildi ákvörðun skiptastjóra dánarbús I frá 24. júní 2009 þess efnis að svonefndur [...]hluti jarðarinnar [...] í [...] [...] sé eign sem tilheyri dánarbúinu og að staðfest verði að þau réttindi séu í eigu sóknaraðila. Jafnframt krefst sóknaraðili málskostnaðar úr hendi varnaraðila.

Varnaraðilar D, B, F og G krefjast þess að kröfu sóknaraðila verði hafnað og að sóknaraðila verði gert að greiða þeim málskostnað.

Varnaraðilar C og E gera þá kröfu að staðfest verði ákvörðun skiptastjóra um að 11,862% eignarhluti í [...] tilheyri dánarbúinu og að þar með verði hafnað kröfu sóknaraðila um að 8,06% eignarhluti tilheyri honum. Jafnframt gera þau kröfu um málskostnað úr hendi sóknaraðila.

Í málinu hefur verið lögð fram skrifleg aðilaskýrsla varnaraðila H, en þar kemur fram að hann fellst á kröfu sóknaraðila.

I.

Hinn [...] andaðist I, bóndi að [...] í [...]. I var kvæntur J en hún lést [...]. Með leyfisbréfi sýslumannsins í [...] 10. ágúst [...] fékk I heimild til setu í óskiptu búi eftir eiginkonu sína. Þegar I féll frá sat hann í óskiptu búi með átta börnum þeirra hjóna, en þau eru aðilar málsins.

Málsaðilar náðu ekki samkomulagi um skiptin og var búið tekið til opinberra skipta með úrskurði dómsins 3. febrúar 2009. Meðal þess sem aðilar deila um við skiptin er hvort [...]hluti jarðarinnar [...] tilheyri dánarbúinu eða sóknaraðila. Um þetta álitaefni var ítarlega fjallað á skiptafundi í dánarbúinu 24. júní 2009 og færðu aðilar rök fyrir máli sínu. Á fundinum var fært til bókar að skiptastjóri liti svo á að umrædd réttindi tilheyrðu búinu en ekki sóknaraðila og til stuðnings því vísaði skiptastjóri til skattframtala hins látna fyrir árin 2005 til 2007. Þar sem ekki tókst að jafna ágreininginn tók skiptastjóri þá ákvörðun að beina honum til dómsins, sbr. 1. mgr. 122. gr. laga um skipti á dánarbúum o.fl., nr. 20/1991.

Með bréfi skiptastjóra 5. ágúst 2009 var málinu vísað til dómsins. Í því erindi kom fram að ekki væri talin ástæða til að dánarbúið ætti aðild að málinu.

II.

Hinn 15. janúar 1958 fékk I afsal frá tengdaföður sínum, K, fyrir fjórðungi jarðarinnar [...]. Á þessum jarðarparti hóf I búskap og stofnaði nýbýlið [...]. Eiginkona I var ein af sex dætrum K og eiginkonu hans, L.

Með afsalinu á jarðarpartinum til stofnunar nýbýlisins fylgdi samsvarandi veiðiréttur [...] í [...]í [...]. Landeigendur, sem eiga veiðirétt í ánni, reka [...] sem skipuleggur veiði í ánni. Samkvæmt arðskrá veiðifélagsins, sem tók gildi árið 1971, var hlutur beggja jarðanna 10,75% og skiptist þannig að [...] fylgdi 8,06% (¾) en [...] 2,69% (¼).

Frá árinu 1975 rak sóknaraðili ásamt foreldrum sínum félagsbú að [...]. Þótt félagsbú væri stofnað um búskapinn var jörðin eftir sem áður þinglýst eign I allt þar til hann andaðist.

Sóknaraðili var í sambúð með M og mun hafa staðið til að þau hæfu búskap á jörðinni [...], sem var í eigu M. Þau áform urðu að engu við slit á sambúð þeirra og í kjölfarið seldi M eignarhluta sinn í jörðinni til [...]hrepps með afsali 7. ágúst 1987. Með í kaupunum fylgdi helmings eignarhlutur í ánni [...].

Í aðdraganda að sölu jarðarinnar [...] var fjallað um viðskiptin á vettvangi [...]. Var fyrst fjallað um málið á stjórnarfundi í veiðifélaginu 25. mars 1987, en á þann fund mættu fulltrúar hreppsnefndarinnar og kynntu að jörðin væri til sölu. Rætt var um að veiðifélagið og hreppsnefndin stæðu sameiginlega að kaupum á jörðinni og var ákveðið að kanna nánar vilja félagsmanna í þeim efnum. Hinn 28. júlí sama ár var síðan haldinn almennur félagsfundur í veiðifélaginu, en þá hafði félaginu borist erindi frá hreppsnefndinni þar sem jörðin var boðin til kaups ef hreppurinn neytti forkaupsréttar. Á fundinum var samþykkt einróma að kaupa jörðina. Einnig var samþykkt að veita stjórn félagsins umboð til að taka lán fyrir hluta af kaupverðinu, auk þess sem stjórninni var falið að öðru leyti að útvega fjármagn til kaupanna. Í fundargerð frá fundinum kemur fram að varnaraðili F sótti fundinn fyrir hönd ömmu sinnar, L, sem þá var eigandi [...].

Hinn 11. september 1990 gaf [...]hreppur út afsal til [...] fyrir jörðinni [...]. Í afsalinu kemur fram að jörðin hafi verið afhent kaupanda 1. september 1987. Eftir að veiðifélagið hafði eignast jörðina var gefin út sérstök arðskrá félagsins vegna jarðarinnar.

Þegar [...]hreppur ráðstafaði jörðinni [...] til [...] átti sveitarfélagið aðild að veiðifélaginu í skjóli eignarhalds á jörðinni [...]. Í samræmi við það fékk hreppurinn hlutdeild í arðskrá vegna jarðarinnar [...] eftir að jörðin komst í eigu veiðifélagsins og nam sá hlutur 8,99%. Hinn 31. maí 1994 gaf hreppurinn út afsal til veiðifélagsins fyrir þessum hlut í [...] og hækkaði hlutur annarra sem svaraði til þess.

Á aðalfundi [...] 14. maí 1994 var fjallað um kaup á hlut hreppsins í jörðinni [...], en þá hafði félagið og hreppurinn skipst á tilboðum um söluverðið. Á fundinum var einnig rætt um að stofna sérstakt félag um eignarhaldið á [...]. Var samþykkt að fela stjórn félagsins að kanna nánar þá tilhögun og leggja tillögu fyrir félagsfund. Ekki kom til þess að slíkt félag yrði stofnað.

III.

Í kjölfar ákvörðunar [...] 28. júlí 1987 um að kaupa jörðina [...] undirrituðu sóknaraðili og L svohljóðandi samning 3. ágúst sama ár: 

Við undirrituð L og A viljum staðfesta með þessum samningi munnlegt samkomulag varðandi væntanleg kaup [...] á jörðinni [...] í [...].

1. gr.          L framselur A kauparétt [...] til kaupa á hluta [...] (ca. 7,8%) í jörðinni [...] í [...].

2. gr.          A tekur á sig allar þær fjárhagsskuldbindingar og kvaðir sem fylgja þessum kaupum á [...], sem ella hefðu hvílt á eigendum [...].

3. gr.          Á A hvílir sú skylda að halda bókhald yfir þessi eignaskipti.

4. gr.          L gefur A leyfi til að hafa eignina á sínu nafni fyrst um sinn.

Hinn 29. maí 1993 andaðist L, en hún sat í óskiptu búi eftir eiginmann sinn, K. Við skipti á því dánarbúi fékk móðir sóknaraðila í arf 1/6 hluta jarðarinnar [...].

Í málinu liggur fyrir yfirlit yfir úthlutun arðs frá [...] fyrir árið 1993. Á því yfirliti kemur fram að eignarhluti J vegna [...] og [...] var 4,03125%. Einnig kemur fram að hlutur hverrar af fimm systrum J vegna [...] var 1,34375% eða samtals 6,71875%. Alls var því hlutur [...] og [...] 10,75%. Einnig liggur fyrir í málinu yfirlit yfir skiptingu arðs veiðifélagsins vegna jarðarinnar [...] fyrir árið 1992. Samkvæmt því yfirliti er skráður í einu lagi 10,75% hlutur á J vegna beggja jarðanna. Í kjölfar þess að veiðifélagið leysti til sín 8,99% hlut [...]hrepps vegna jarðarinnar hækkaði þessi hlutur sem því nam í 11,862%. Eftir að J andaðist árið 1999 hefur þessi hluti í veiðifélaginu vegna [...] verið skráður á nafn I í bókum félagsins sem og hlutdeild í arðskrá félagsins fyrir [...] í [...] vegna [...] og 1/6 hluta [...].

IV.

Sóknaraðili vísar til þess að L, amma hans, hafi ekki viljað nýta sér rétt sinn til að festa kaup á hlut í jörðinni [...] í samræmi við hlut hennar í [...] þegar þau viðskipti fóru fram á vegum veiðifélagsins. Þess í stað hafi verið gerður munnlegur samningur, að frumkvæði L og J, móður sóknaraðila, um framsal kaupréttar á hlut [...] í [...]. Með þessu móti hafi þær mæðgur viljað styrkja sóknaraðila til búsetu í sveitinni. Um það leyti sem kaupin voru afráðin í lok júlí 1987 hafi J orðið þess áskynja að eiginmaður hennar og faðir málsaðila, I, ætlaði ekki að virða samkomulagið. Því hafi verið brugðið á það ráð að gera skriflegan samning um þetta fyrirkomulag og hafi sá samningur verið undirritaður 3. ágúst 1987 eða rétt tæpri viku eftir að kaupin voru samþykkt í veiðifélaginu 28. júlí. Þar sem kaupin stóðu aðeins til boða félagsmönnum í veiðifélaginu og vegna reglna félagsins um skráningu hlutarins á lögbýli hafi L veitt sóknaraðila heimild til að hafa hlutinn á sínu nafni, sbr. 4. gr. samningsins. Þessu hafi þó verið breytt og hluturinn skráður hjá félaginu á nafn J þar sem hún átti aðild að félagsbúinu á [...].

Sóknaraðili vísar til þess hann hafi ásamt foreldrum sínum rekið félagsbú á jörðinni [...]. Félagsbúið hafi ávallt verið rekið í nafni og á kennitölu I, föður málsaðila, og hafi veiðitekjur frá [...] verið taldar félagsbúinu til tekna. Það ásamt því hvernig hagað var skattframtali telur sóknaraðili hins vegar engu breyta um að hann eigi hluta [...] í [...] í samræmi við samninginn frá 3. ágúst 1987. Tekur sóknaraðili fram í því sambandi að tekjur hans af rekstri félagsbúsins hafi runnið til að standa straum af þessum kaupum.

Sóknaraðili bendir á að samningurinn um kaupréttinn frá 3. ágúst 1987 hafi ekki aðeins verið undirritaður af L heldur einnig vottaður af J og þremur systrum hennar. Um þetta hafi því verið fullt samkomulag í móðurfjölskyldu sóknaraðila.

V.

Svo sem áður greinir tekur varnaraðili H undir málatilbúnað sóknaraðila og fellst á kröfu hans. Að því slepptu verða hér á eftir raktar í einu lagi málsástæður annarra varnaraðila.

Varnaraðilar vísa til þess að I hafi talið til eignar í skattframtölum fyrir tekjuárin 2005 til 2007 eignarhluta í jörðinni [...]. Telja varnaraðilar að þetta staðfesti að þessi eign tilheyri dánarbúinu.

Varnaraðilar benda á að í samningi 3. ágúst 1987 sé vísað til munnlegs samkomulags en varnaraðilar telja óljóst um efni þess samkomulags. Jafnframt benda varnaraðilar á að gert hafi verið ráð fyrir því í samningnum að sóknaraðili tæki yfir tiltekin réttindi sem og skuldbindingar, en varnaraðilar telja að sóknaraðili hafi ekki sýnt fram á að þetta hafi gengið eftir eða að greitt hafi verið fyrir réttindin. Þannig hafi sóknaraðili ekki tekið á sig neinar fjárskuldbindingar eða aðrar kvaðir sem fylgdu kaupunum, sbr. 2. gr. samningsins, auk þess sem sóknaraðili hafi ekki haldið bókhald yfir þessi eignaskipti, sbr. 3. gr. samningsins. Þá benda varnaraðilar á að engin gögn hafi verið lögð fram um að eignin hafi verið skráð á nafn sóknaraðila eða að hann hafi fengið greiddan arð fyrir hlutinn í [...]. Því séu engin lagaskilyrði til að taka kröfu sóknaraðila til greina heldur þvert á móti staðfesti gögn málsins að I hafi talið sig eiganda þessara réttinda.

Af hálfu varnaraðila er á því byggt að L hafi ekki haft heimild til þeirrar ráðstöfunar sem greinir í samningnum frá 3. ágúst 1987. Til stuðnings því er bent á að [...] hafi keypt jörðina [...] og því hafi eingöngu félagið sem þinglýstur eigandi getað ráðstafað eigninni, en það hafi félagið gert til foreldra málsaðila en ekki L. Í þessu sambandi benda varnaraðilar á að [...]hlutinn hafi aldrei verið skráður á [...], en það bendi til þess að foreldrar málsaðila hafi keypt hlutinn sem L stóð til boða sem eiganda [...]. Jafnframt sé þess að gæta að arðgreiðslur til L hafi ekki verið skertar vegna kaupanna eins og hjá öðrum félagsmönnum í veiðifélaginu. Aftur á móti halda varnaraðilar því fram að arðgreiðslur til foreldra málsaðila til að standa straum af kaupum á hlut í [...] bæði vegna hlutar [...] og [...].

Varnaraðilar halda því einnig fram að þinglýsingalög, nr. 39/1978, og aðrar traustfangsreglur standi í vegi þess að sóknaraðili geti átt tilkall til umræddra réttinda úr dánarbúinu. Þessi réttindi hafi verið talin til eigna foreldra málsaðila allar götur frá árinu 1987 og til andláts I árið 2007 eða í rúm tuttugu ár. Það sama leiði einnig af reglum hefðarlaga, nr. 46/1905.

Enn fremur halda varnaraðilar því fram að sóknaraðila hafi verið í lófa lagið að gera athugasemdir við föður sinn meðan hann lifði ef sóknaraðili taldi til þessara réttinda. Það hafi hann ekki gert og fyrst hreyft þessu við opinber skipti búsins. Með þessu hafi sóknaraðili sýnt af sér slíkt tómlæti að hafna beri kröfu hans. Í þessu sambandi benda varnaraðilar á að beint tilefni hafi verið til að gera kröfu í þessa veru þegar félagsbúið var gert upp árið 2003 og hlutafélag stofnað um [...]búið. Þar fyrir utan sé ljóst að I hafi farið með og talið sig eiga hlutinn í [...] þar sem hann hafi með samningi 14. janúar 2003 leigt varnaraðila G beitarrétt sem fylgdi eignarhlutanum. Í öllu falli sé ljóst að tómlæti sóknaraðila orki á alla sönnunarfærslu málsins þannig að sú byrði falli á sóknaraðila.

VI.

Við opinber skipti á dánarbúi I, sem sat í óskiptu búi eftir eiginkonu sína, J, reis ágreiningur milli erfingja um hvort svonefndur [...]hluti jarðarinnar [...] innan [...] tilheyrði dánarbúinu eða sóknaraðila. Þar sem ekki tókst að jafna ágreininginn var honum vísað til úrlausnar dómsins, sbr. 1. mgr. 122. gr. laga um dánarbúskipti o.fl., nr. 20/1991. Þótt skiptastjóri hafi á skiptafundi 24. júní 2009 látið uppi og bókað afstöðu sína til þessa ágreiningsefnis fólst ekki í því nein ákvörðun sem borin verður undir dóminn. Kemur því ekki til álita kröfugerð málsaðila um að ákvörðun skiptastjóra verði staðfest eða hnekkt. Aftur á móti verður leyst úr þeim réttarágreiningi sem vísað hefur verið til dómsins.

Hinn 28. júlí 1987 samþykkti [...] að kaupa jörðina [...], sem boðin hafði verið félaginu til kaups af [...]hreppi. Afsal til félagsins var gefið út nokkru síðar eða 11. september 1990. Innan félagsins hafa verið áform um að stofna sérstakt félag um [...] en til þess hefur þó ekki komið. Allt að einu hefur verið farið sérstaklega með þessa eign á vegum félagsins. Þannig tók L, amma málsaðila í móðurætt, sem þá átti [...], ekki þátt í kaupum á jörðinni. Einnig liggur fyrir að veiðifélagið leysti til sín hlut [...]hrepps í [...] og fékk afsal fyrir þeim réttindum 31. maí 1994. Í samræmi við þetta hefur sérstök arðskrá verið í gildi innan félagins vegna[...].

Svo sem hér hefur verið rakið liggur ágreiningslaust fyrir í málinu að L stóð utan við kaup [...] á [...]. Í samræmi við það mun L hafa haldið óskertum arði meðan greiðslur til þeirra sem tóku þátt í kaupunum lækkaði til að fjármagna þau. Í málinu heldur sóknaraðili því fram að hann hafi greitt fyrir hlut [...] í [...]. Þessu mótmæla varnaraðilar aðrir en H og halda því fram að foreldrar málsaðila hafi staðið straum af þessum greiðslum.

Á arðskrá veiðifélagsins vegna [...] var hlutur [...] og [...] skráður á J, móðir málsaðila, þar til hún andaðist árið 1999, en eftir það var þessi hlutur skráður á nafn eftirlifandi eiginmanns hennar, sem fengið hafði leyfi til setu í óskiptu búi. Að þessu gættu er mál þetta réttilega rekið eftir XVII. kafla laga um skipti dánarbúa o.fl., nr. 21/1991, sbr. 122. gr. laganna.

Samkvæmt framansögðu er jörðin [...] í eigu [...] en ekki einstakra félagsmanna í félaginu eða einhverra sem leiða rétt sinn frá þeim. Skiptir þá engu máli þótt innan félagsins hafi verið farið með eignarhaldið eins og jörðin væri í óskiptri sameign fleiri eigenda innan veiðifélagsins eða sérstakt félag væri um jörðina. Að þessu gættu gat L sem eigandi jarðarinnar [...] ekki ráðstafað rétti til að kaupa hlut úr [...], sem svaraði til þess sem talið var hlutdeild [...] í veiðifélaginu, til sóknaraðila sem átti ekki aðild að félaginu. Er þess þá jafnframt að gæta að veiðiréttur er forsenda fyrir aðild að veiðifélagi en sá réttur verður ekki með þessu móti skilinn frá landareign, sbr. 4. mgr. 2. gr. þágildandi laga um lax- og silungsveiði, nr. 76/1970, sbr. einnig 1. mgr. 9. gr. gildandi laga um sama efni, nr. 61/2006. Þegar af þessari ástæðu verður hafnað kröfu sóknaraðila um að viðurkennt verði að svonefndur [...]hluti jarðarinnar [...] í [...] sé í eigu sóknaraðila.

Eftir atvikum og að öllu virtu þykir rétt að málskostnaður falli niður.

Benedikt Bogason, héraðsdómari, kveður upp úrskurð þennan.

ÚRSKURÐARORÐ:

Hafnað er kröfu sóknaraðila, A, um að viðurkennt verði að [...]hluti jarðarinnar [...] sé í eigu hans.

Málskostnaður fellur niður.