Hæstiréttur íslands
Mál nr. 494/2013
Lykilorð
- Kærumál
- Dómkvaðning matsmanns
Kærumál. Dómkvaðning matsmanns.
Kærður var úrskurður héraðsdóms þar sem hafnað var beiðni A um dómkvaðningu matsmanns í máli hans á hendur Í. Málið hafði A höfðað til heimtu miskabóta og til viðurkenningar á bótaskyldu Í vegna tiltekinna aðgerða lögreglu gagnvart honum í tengslum við rannsókn sakamáls sem varðaði ætlaðan innflutning á fíkniefnum. Í dómi Hæstaréttar sagði m.a. að af matsbeiðninni og málatilbúnaðinum mætti ráða að með matsgerð hygðist A sanna að hann hefði orðið fyrir fjártjóni vegna þeirra aðgerða lögreglu sem að honum beindust og hann teldi að leitt hefðu til atvinnumissis. Taldi Hæstiréttur að þegar þetta væri virt ætti A rétt á að fá dómkvadda matsmenn til þess að meta þau atriði er að því lytu og að spurningar matsbeiðninnar hvað þetta varðaði fullnægðu skilyrðum 1. mgr. 61. gr. laga nr. 91/1991 um meðferð sakamála um skýrleika. Hins vegar hefði A ekki uppi kröfur í málinu um bætur vegna líkamstjóns sem hann teldi sig hafa orðið fyrir vegna aðgerða lögreglu. Þær spurningar í matsbeiðni A sem lytu að því hefðu því ekki þau tengsl við sakarefni málsins að svör matsmanna við þeim þjónuðu tilgangi við sönnunarfærslu og var því með vísan til 3. mgr. 46. gr. laganna hafnað kröfu A um að fá dómkvadda matsmenn til að meta þau atriði.
Dómur Hæstaréttar.
Mál þetta dæma hæstaréttardómararnir Markús Sigurbjörnsson, Benedikt Bogason og Þorgeir Örlygsson.
Sóknaraðili skaut málinu til Hæstaréttar með kæru 16. júlí 2013 sem barst réttinum ásamt kærumálsgögnum 19. sama mánaðar. Kærður er úrskurður Héraðsdóms Reykjavíkur 2. júlí 2013, þar sem beiðni sóknaraðila um að dómkvaddir yrðu tveir menn til þess að meta fjártjón hans vegna tiltekinna aðgerða lögreglu var hafnað. Kæruheimild er í c. lið 1. mgr. 143. gr. laga nr. 91/1991 um meðferð einkamála. Sóknaraðili krefst þess að fallist á beiðni hans um dómkvaðningu matsmanna um annað en varanlegan miska. Þá krefst hann málskostnaðar í héraði án tillits til gjafsóknar sem hann nýtur og kærumálskostnaðar.
Varnaraðili krefst staðfestingar hins kærða úrskurðar og kærumálskostnaðar.
I
Sóknaraðili rekur fyrir Héraðsdómi Reykjavíkur skaðabótamál á hendur varnaraðila vegna tiltekinna aðgerða lögreglu gagnvart honum í tengslum við rannsókn sakamáls sem varðaði ætlaðan innflutning á fíkniefnum. Við þá rannsókn beindist grunur að því að sóknaraðili ætti þátt í fyrirhuguðu broti eða hefði vitneskju um það. Gerð var krafa 7. janúar 2010 fyrir héraðsdómi um heimild til að fylgjast með símasamskiptum sóknaraðila. Var sú heimild veitt og hún nýtt við rannsókn málsins allt til 4. febrúar sama ár. Við rannsóknina kom fram að hugsanlega væri sönnunargögn að finna í vistarverum sóknaraðila og við húsleit 11. apríl 2010 á heimili hans, sem gerð var með samþykki hans, fundust meðal annars fíkniefni og taska sem hafði að geyma brot innra byrðis úr ferðatösku ásamt handfangi. Mátti greina hvítar efnisleifar á mununum og reyndust þær vera kókaín. Í framhaldinu var sóknaraðili handtekinn og gert að sæta gæsluvarðhaldi til 16. apríl 2010 með úrskurði héraðsdóms sem Hæstiréttur staðfesti. Með úrskurði héraðsdóms var gæsluvarðhaldið framlengt til 23. apríl sama ár og staðfesti Hæstiréttur einnig þann úrskurð. Héraðsdómur kvað upp úrskurð 11. sama mánaðar þar sem lögreglu var heimilað að afla upplýsinga um fjármál og fjármálaviðskipti sóknaraðila. Lögreglan gerði í framhaldinu leit í bankahólfi sóknaraðila í […] hf. og lagði hald á fjármuni og skartgripi sem þar fundust. Sóknaraðili var yfirheyrður nokkrum sinnum undir rekstri málsins en látinn laus úr haldi 21. apríl 2010.
Í bréfi ríkissaksóknara 6. júlí 2010 til sóknaraðila var vitnað til þess að ríkissaksóknari hefði haft til meðferðar gögn lögreglurannsóknar í nánar tilgreindu máli sem fram hefði farið vegna innflutnings á fíkniefnum til landsins 10. apríl 2010 og að við þá rannsókn hefði sóknaraðili haft réttarstöðu sakbornings. Þá sagði í bréfi ríkissaksóknara: „Gengið hefur verið úr skugga um að rannsókn málsins sé lokið, sbr. 145. gr. laga um meðferð sakamála nr. 88/2008. Þykir það sem fram kom við rannsóknina varðandi meint brot yðar ekki nægilegt eða líklegt til sakfellis og er málið því hér með fellt niður hvað yður varðar.“ Með bréfi til ríkislögmanns 28. mars 2011 krafðist sóknaraðili bóta vegna handtöku sinnar og þeirra þvingunarúrræða sem hann sætti samkvæmt framansögðu. Þeirri kröfu hafnaði ríkislögmaður með bréfi 4. maí 2011 og vísaði í þeim efnum til 2. mgr. 228. gr. laga nr. 88/2008.
II
Með stefnu 6. júní 2012 höfðaði sóknaraðili mál þetta á hendur varnaraðila til heimtu miskabóta og viðurkenningar á bótaskyldu varnaraðila vegna tjóns af atvinnumissi sem sóknaraðili taldi sig hafa orðið fyrir vegna lögreglurannsóknarinnar. Meginmálsástæða sóknaraðila er sú að þar sem hann hafi verið sviptur frelsi að ósekju og mál hans síðar fellt niður beri honum fullar bætur úr ríkissjóði samkvæmt 1. mgr., 2. mgr. og 5. mgr. 228. gr. laga nr. 88/2008, enda hafi hann hvorki valdið né stuðlað að þeim aðgerðum sem hann reisi kröfur sínar á.
Krafa sóknaraðila um miskabætur er að fjárhæð 4.000.000 krónur og er hún nánar sundurliðuð í stefnu. Krefst hann 2.500.000 króna vegna frelsissviptingar, handtöku, handjárnunar, halds og einangrunar í óhæfri vist, 400.000 króna vegna yfirheyrslna nánar tilgreinda daga, 300.000 króna vegna húsleitar og haldlagningar, 200.000 króna vegna aðgangs lögreglu að upplýsingum um fjármál, 300.000 króna vegna rannsóknar á bankahólfi og haldlagningu og 300.000 króna vegna símahlerana. Þá krefst sóknaraðili eins og í stefnu greinir viðurkenningar á því að varnaraðili sé bótaskyldur gagnvart sér „fyrir atvinnumissi sem leiddi af sakamálarannsókn lögreglunnar á höfuðborgarsvæðinu ... sem að honum beindist frá 7. janúar til 6. júlí 2010.“ Viðurkenningarkrafan er samkvæmt stefnu á því reist að sóknaraðili hafi vegna aðgerða lögreglu misst atvinnu sína. Kveðst sóknaraðili hafa starfað sem [...] í [...] og hann þar haft mannaforráð en hann sé [...] og [...] að mennt. Vinnuveitandi sóknaraðila hafi hins vegar talið að hann gæti ekki gegnt starfi sínu eftir varðhaldsvistina og krafist afsagnar hans og því hafi 26. apríl 2010 verið gerður starfslokasamningur við sóknaraðila. Hafi honum verið nauðugur einn kostur að fallast á starfslokasamninginn eða sæta einhliða samningsslitum ella. Hann hafi verið sviptur frelsi og ekki getað gengt starfsskyldum meðan á því stóð en einkum af því að málið komst í hámæli og honum hafi verið gert ómögulegt að rækja starf sitt eða fá annað starf.
Í stefnu kemur fram að sóknaraðili telur sig hafa hlotið töluvert heilsutjón af fangavistinni og rannsókninni, bæði á sál og líkama. Hann byggi þó eins og í stefnu segir „ekki kröfur á ákvæðum skaðabótalaga um bætur fyrir líkamstjón en áskilur sér að leita réttar síns vegna varanlegrar örorku.“ Framangreindur grundvöllur málshöfðunar sóknaraðila er ítrekaður í greinargerð hans til Hæstaréttar en þar segir að málið sé höfðað „til heimtu miskabóta og til viðurkenningar á bótaskyldu fyrir atvinnumissi en við málshöfðun lágu ekki fyrir upplýsingar til útreiknings þess tjóns.“ Sóknaraðili byggi ekki kröfur á ákvæðum skaðabótalaga en áskilji sér að leita réttar síns vegna varanlegrar örorku. Varnaraðili telji ósannað að sóknaraðili hafi orðið fyrir nokkru tjóni vegna rannsóknaraðgerða og sé honum því nauðsynlegt að afla gagna og upplýsinga í málinu um tjón sitt og orsakir þess. Hafi hann í því skyni beðið um dómkvaðningu matsmanna, en skilyrði séu nú til að reikna út tjónið. Ætlun hans sé síðan að höfða framhaldssök til heimtu bóta.
III
Eins og greinir í hinum kærða úrskurði lagði sóknaraðili í þinghaldi 13. mars 2013 fram beiðni um dómkvaðningu matsmanna. Varnaraðili mótmælti beiðninni með bókun í þinghaldi 3. maí sama ár. Málið var flutt um þetta ágreiningsatriði 4. júní 2013 og með hinum kærða úrskurði var beiðni sóknaraðila hafnað. Matsbeiðni sóknaraðila er svohljóðandi: „Með vísan til 61. gr. l. nr. 91/1991 er þess krafist að dómkvaddir verði tveir hæfir og óvilhallir matsmenn til að skoða og meta það sem á eftir greinir. Hvert er heildarfjártjón matsbeiðanda af aðgerðum lögreglunnar á höfuðborgarsvæðinu gegn honum frá 11. apríl til 6. júlí 2010 – frelsissviptingu, handjárnun og haldi 11. apríl, gæsluvarðhaldi og einangrun á lögreglustöðinni í Reykjavík 11. 4. - 21. 4. 2010, yfirheyrslum 11., 14. og 20. apríl og 7. júlí. – með eftirfarandi starfslokum. 1. Hefur stefnandi orðið fyrir tekjumissi vegna framangreinds. 2. Þess er óskað að matsmenn sundurliði tjónið með eftirgreindum hætti. 2.1. Þegar útlagður kostnaður og áætlaður framtíðar útlagður kostnaður. 2.2. Mismunur áætlaðra ævitekna m.v. að atburðurinn hefi ekki orðið samanborið við áætlaðar ævitekjur m.v. forsendur nú. Þess er óskað að hvorutveggja verði sundurliðað. 3. Hvort stefndi hafi orðið fyrir tímabundnu atvinnutjóni í skilningi 2. gr. l. nr. 50/1993, varanlegum miska í skilningi 4. gr. s.l. og varanlegri örorku í skilningi 5. gr. s.l. 3.1. Þess er óskað að matsmenn meti hvort hversu mikið tekjur hafi lækkað af þessum sökum á heildina litið og hversu mikið tekjutapið sé eftir stöðugleikapunkt núvirðisreiknað til þess dags m.v. stuðla skaðabótalaga. 3.2. Þess er óskað að matsmenn meti hver sé varanlegur miski, varanleg örorka og stöðugleikapunktur. 4. Telji matsmenn að stefnandi hafi orðið fyrir frekara fjártjóni en fellur undir 2 – 5. gr. l. nr. 50/1993 er þess óskað að metið verði hversu mikið það sé í fjárhæðum talið. Þess er óskað að það verði núvirðisreiknað m.v. 21. apríl 2010, stöðugleikapunkt og útreikningsdag. Þess er óskað að núvirðisreikningurinn verði annarsvegar skv. reglum skaðabótalaga og hins vegar að matsmenn meti þá raunhæfu vaxtaprósentu sem matsbeiðandi gæti fengið á eingreiðslu að teknu tilliti til fjármagnstekjuskatts. 5. Þess er óskað að matsmenn meti hversu mikið af félagslegum greiðslum (s.s. Tryggingastofnun og lífeyrissjóðir) stefndi hefur fengið upp í bætur sem rekja megi til tjóns skv. framangreindum liðum og hversu mikilla greiðslna hann megi vænta í framtíðinni af þeim sökum. Undirrituðum sýnist rétt að dómkveðja geðlækni með mikla þekkingu á vinnumarkaðnum og tryggingastærðfræðing sem þekkir vel til útreikninga í félagslega kerfinu og reglur þess. Með matsbeiðni þessari hyggst stefnandi sanna að hann hafi orðið fyrir fjárhagstjóni og miska og fjárhæð þess.“
IV
Áður hefur verið gerð grein fyrir þeim grundvelli sem málshöfðun sóknaraðila hvílir á og hverjar kröfur hann hefur uppi í málinu. Eins og þar kemur fram er málsóknin á því reist að sóknaraðili eigi rétt til bóta úr hendi varnaraðila samkvæmt ákvæðum 228. gr. laga nr. 88/2008 og er kröfugerðin tvíþætt. Í fyrsta lagi er krafist miskabóta tilgreindrar fjárhæðar vegna þeirra aðgerða lögreglu sem sóknaraðili sætti og áður er gerð grein fyrir. Í öðru lagi er krafist viðurkenningar á bótaskyldu varnaraðila vegna fjártjóns sem sóknaraðili telur sig hafa orðið fyrir og rekja megi til atvinnumissis hans en þann missi telur hann að leitt hafi af sakamálarannsókninni.
Á sóknaraðila hvílir sönnunarbyrði um að hann hafi orðið fyrir miska og fjártjóni vegna sakamálarannsóknar þeirrar sem að honum beindist. Hefur hann í þeim efnum frjálsar hendur um öflun sönnunargagna og getur í því skyni meðal annars aflað matsgerða samkvæmt IX. kafla laga nr. 91/1991 að gættu því að samkvæmt 3. mgr. 46. gr. sömu laga getur dómari meinað honum um sönnunarfærslu ef talið er bersýnilegt að atriði sem aðili vill sanna skipti ekki máli eða gagn sé tilgagnslaust til sönnunar. Þá er sá áskilnaður gerður í 1. mgr. 61. gr. laganna að í matsbeiðni skuli skýrlega koma fram hvað meta eigi og hvað aðili hyggist sanna með mati.
Matsbeiðni sóknaraðila er engan veginn svo skýr sem skyldi og málatilbúnaður hans í heild er mjög á reiki. Af matsbeiðninni og málatilbúnaðinum má þó ráða að með matsgerð hyggist sóknaraðili sanna að hann hafi orðið fyrir fjártjóni vegna þeirra aðgerða lögreglu sem að honum beindust og hann telur að leitt hafi til atvinnumissis. Hins vegar hefur sóknaraðili ekki uppi kröfur í málinu um bætur vegna þess líkamstjóns sem hann telur sig hafa orðið fyrir vegna aðgerða lögreglu. Þegar þetta er virt verður lagt til grundvallar að svör matsmanna við spurningum nr. 1, 2.2 og 5 í matsbeiðninni geti haft þýðingu við sönnunarfærslu í málinu um ætlað fjártjón sóknaraðila vegna atvinnumissis og að spurningarnar uppfylli nægjanlega skilyrði 1. mgr. 61. gr. laga nr. 91/1991 um skýrleika. Verður því að fallast á með sóknaraðila að hann eigi rétt á að fá dómkvadda menn til þess að meta þau atriði sem í þessum spurningum greinir. Spurningar í 3. og 4. lið matsbeiðni lúta á hinn bóginn að bótum fyrir ætlað líkamstjón sóknaraðila vegna aðgerða lögreglu. Hafa þær því ekki þau tengsl við sakarefnið að svör matsmanna við þeim þjóni tilgangi við sönnunarfærslu í málinu. Spurning nr. 2.1 í matsbeiðni er sama marki brennd. Verður því með vísan til 3. mgr. 46. gr. laga nr. 91/1991 hafnað kröfu sóknaraðila um að fá dómkvadda menn til að meta þau atriði sem í þeim spurningum greinir.
Eftir framangreindum málsúrslitum verður varnaraðili dæmdur til að greiða sóknaraðila kærumálskostnað eins og nánar greinir í dómsorði, en ekki eru efni til að dæma sóknaraðila málskostnað í héraði sérstaklega vegna þessa þáttar málsins.
Dómsorð:
Tekin er til greina krafa sóknaraðila, A, um að fá dómkvadda matsmenn til að svara spurningum nr. 1, 2.2 og 5 í matsbeiðni hans.
Varnaraðili, íslenska ríkið, greiði sóknaraðila 250.000 krónur í kærumálskostnað.
Úrskurður Héraðsdóms Reykjavíkur þriðjudaginn 2. júlí 2013.
Í þinghaldi þann 13. mars s.l. lagði lögmaður stefnanda, sem er sóknaraðili í þessum þætti málsins, fram beiðni um dómkvaðningu matsmanna. Lögmaður varnaraðila mótmælti framlagðri matsbeiðni með bókun í þinghaldi þann 3. maí. Aðilar málsins fluttu málið um þetta ágreiningsefni þann 4. júní sl. og var málið tekið til úrskurðar að því loknu.
Sóknaraðili rekur skaðabótamál á hendur varnaraðila vegna tjóns sem hann telur sig hafa orðið fyrir vegna aðgerða lögreglu í tengslum við rannsókn sakamáls. Dómkröfur hans eru annars vegar þær að sóknaraðili verði dæmdur til að greiða honum 4.000.000 kr. ásamt nánar greindum vöxtum og dráttarvöxtum. Sú krafa er miskabótakrafa sem er nánar sundurliðuð í stefnu. Hins vegar krefst sóknaraðili viðurkenningar á því að varnaraðili sé skaðabótaskyldur vegna atvinnumissis sóknaraðila. Byggir hann þá kröfu á því að hann hafi misst atvinnu sína vegna aðgerða lögreglunnar tímabilinu 7. janúar til 6. júlí 2010.
Í matsbeiðni sóknaraðila er óskað eftir því að tveir óvilhallir matsmenn meti hvert sé heildarfjártjón sóknaraðila af aðgerðum lögreglunnar á höfuðborgarsvæðinu gegn honum á tímabilinu frá 11. apríl til 6. júlí 2010; frelsissviptingu, handjárnun og haldi þann 11. apríl, gæsluvarðhaldi og einangrun á lögreglustöðinni í Reykjavík 11. til 21. apríl 2010, yfirheyrslum 11., 14. og 20. apríl og 7. júlí sama ár með eftirfarandi starfslokum. Síðan eru settar fram 5 númeraðar spurningar og undirspurningar sem lúta að mati á ætluðu tjóni sóknaraðila, m.a. útlögðum kostnaði í fortíð og framtíð, mati á mismun ævitekna miðað við þá atburðarrás sem varð annars vegar og þeirrar sem hefði orðið ef ekki hefðu komið til aðgerðir lögreglunnar. Þá er óskað mat á afleiðingum líkamstjóns á grundvelli skaðabótalaga nr. 50/1993, tímabundnum tekjumissi, varanlegri örorku og miska. Þá er óskað eftir núvirðisreikningi á tjóni stefnanda miðað við ýmsar forsendur og mismunandi tíma auk þess sem óskað er mats á frádráttarliðum bótakröfu vegna greiðslna frá þriðja aðila. Í niðurlagi matsbeiðninnar kemur fram að sóknaraðili hyggst með matsbeiðni sanna að hann hafi orðið fyrir fjárhagstjóni og miska og hver fjárhæð tjónsins sé. Sóknaraðili fer fram á að til matsins verði dómkvaddur geðlæknir með þekkingu á vinnumarkaði og tryggingarstærðfræðingur sem þekki vel til útreikninga í félagslega kerfinu og reglna þess.
Varnaraðili, stefndi í málinu, gerir kröfu um það að beiðni um dómkvaðningu matsmanna verði synjað. Byggir varnaraðili þá kröfu sína á því að matsbeiðnin fari út fyrir efni sem málsins sem er til úrslausnar í málinu. Sóknaraðili hafi lagt málið í tiltekin farveg með stefnu sinni og matsbeiðnin sé ekki í samræmi við þann málatilbúnað. Þá sé óljóst hvort beðist sé mats á miska sem krafist er í stefnu eða hvort meta eigi að öðru leyti miska á grundvelli skaðabótalaga. Mat á réttmæti og fjárhæð miskabótakröfu í stefnu sé lagalegt mat sem eigi undir dómara og mat á bótarétti á grundvelli skaðabótalaga nr. 50/1993 sé máli þessu óviðkomandi. Að því leyti sem líta megi svo á að beiðni sóknaraðila snúi að mati á fjártjóni vegna atvinnumissis þá sé sú beiðni of óskýr til að hægt sé að taka hana til greina. Þá mótmælir varnaraðili forsendum sem fram koma í matsbeiðninni og telur rétt, ef matbeiðnin nái fram að ganga, að dómkvaddur verði lögmaður með reynslu af matsgerðum.
Niðurstaða
Samkvæmt 1. mgr. 46. gr. laga nr. 91/1991 hefur aðili rétt á að afla og leggja fram í einkamáli þau sönnunargögn sem hann telur málstað sínum til framdráttar. Um öflun matsgerða gilda reglur IX kafla sömu laga auk þess sem hafa verður hliðsjón af öðrum ákvæðum laganna, m.a. 3. mgr. 46. gr. sem heimilar dómara að takmarka sönnunarfærslu aðila.
Í 1. mgr. 63. gr. laganna kemur fram hvaða kröfur eru gerðar til efnis og forms matsbeiðna en þar segir að beiðni skuli vera skriflega og í henni skuli skýrlega koma fram hvað eigi að meta, hvar það sé sem meta eigi og hvað aðili hyggist sanna með matinu. Að mati dómsins skortir talsvert á að matsbeiðnin í heild sem hér er deilt um sé svo skýrlega fram sett sem gera má kröfu um á grundvelli framangreinds ákvæðis einkamálalaga. Annars vegar er í beiðninni gerð krafa um að metið verði heildarfjártjón matsbeiðanda af aðgerðum lögreglunnar á tilteknu tímabili og hins vegar eru settar fram nánari matspurningar í fimm tölusettum liðum. Ekki er ljóst hvort númeruðu spurningar eru nánari sundurliðun á spurningunni um heildarfjártjónið eða hvort spurt sé um þær til viðbótar henni. Þá verður ekki séð að sú matsspurning sé í samræmi við kröfugerð. Þá eru númeruðu spurningarnar víða óskýrar, s.s. í fyrsta spurningin þar sem beðið er um mat á áætluðum útlögðum kostnaði, án þess að afmarka nánar við hvaða kostnað er átt, í önnur spurning þar sem óskað er eftir útreikningi á mismun á ævitekjum miðað við tvær ólíkar forsendur og sundurliðun þess mismunar án þess að ljóst sé hvað sá útreikningur eigi að sanna eða hvað eigi að sundurliða.
Þá verður mats ekki aflað um atriði sem telja verður þýðingarlaus fyrir úrslit málsins. Samkvæmt 3. mgr. 46. gr. einkamálalaga getur dómari meinað aðila um sönnunarfærslu ef hann telur bersýnlegt að atiðið sem aðili vill sanna skipti ekki máli. Í matsbeiðni sóknaraðila er krafist matsgerðar um ætlað tjón hans á grundvelli skaðabótalaga nr. 50/1993, einkum í spurningum 3-5. Í stefnu kemur hins vegar fram að sóknaraðili byggi ekki kröfur á ákvæðum skaðabótalaga um bætur fyrir líkamstjóns en áskilji sér þó rétt til að leita réttar síns vegna varanlegrar örorku. Í málflutningi um kröfu um dómkvaðningu matsmanna kom fram í máli sóknaraðila að matgerðin sé öðrum þræði hugsuð sem grundvöllur framhaldsstefndu í málinu. Að mati dómsins verður matsbeiðni, sem óskað er eftir í máli sem þegar er rekið fyrir dómi, ekki metin út frá öðru en fyrirliggjandi kröfugerð í málinu óháð því hvort og þá hvaða kröfur kæmust að í málinu með útgáfu framhaldsstefnu á grundvelli 29. gr. laga nr. 91/1991. Eins og málatilbúnaðar sóknaraðila liggur fyrir í stefnu verður ekki séð að mat á tjóni á grundvelli skaðabótalaga hafi þýðingu fyrir úrslit málsins.
Á sóknaraðila hvílir sönnunarbyrði fyrir því að hann hafi orðið fyrir miska og fjártjóni vegna atvinnumissis í samræmi við kröfugerð í stefnu. Hefur hann í því efni frjálsar hendur um öflun sönnunargagna og getur m.a. aflað matgerðar vegna þessa. Matsbeiðnin eins og hún er úr garði gerð verður hins vegar ekki talin koma að gagni í þeirri sönnunarfærslu vegna þeirra annmarka sem að framan eru raktir. Ber því að hafna beiðni sóknaraðila um dómkvaðningu matsmanna.
Ingibjörg Þorsteinsdóttir héraðsdómari kvað upp þennan úrskurð.
Ú r s k u r ð a r o r ð:
Beiðni sóknaraðila um dómkvaðningu matsmanna er hafnað.