Hæstiréttur íslands

Mál nr. 652/2014


Lykilorð

  • Kærumál
  • Gæsluvarðhald. 2. mgr. 95. gr. laga nr. 88/2008


                               

Þriðjudaginn 7. október 2014.

Nr. 652/2014.

 

Ákæruvaldið

(Hulda Elsa Björgvinsdóttir saksóknari)

gegn

X

(Guðrún Sesselja Arnardóttir hrl.)

 

Kærumál. Gæsluvarðhald. 2. mgr. 95. gr. laga nr. 88/2008.

X var gert að sæta áfram gæsluvarðhaldi samkvæmt 2. mgr. 95. gr. laga nr. 88/2008 um meðferð sakamála þar til dómur gengi í Hæstarétti í máli ákæruvaldsins á hendur honum.

 

Dómur Hæstaréttar.

Mál þetta dæma hæstaréttardómararnir Benedikt Bogason og Helgi I. Jónsson og Ingveldur Einarsdóttir settur hæstaréttardómari.

Varnaraðili skaut málinu til Hæstaréttar með kæru 2. október 2014 sem barst réttinum 6. sama mánaðar. Kærður er úrskurður Héraðsdóms Reykjavíkur 1. október 2014 þar sem varnaraðila var gert að sæta áframhaldandi gæsluvarðhaldi á meðan mál hans er til meðferðar í Hæstarétti Íslands, þó ekki lengur en til fimmtudagsins 30. janúar 2015. Kæruheimild er í b. lið 2. mgr. 192. gr. laga nr. 88/2008 um meðferð sakamála. Varnaraðili krefst þess aðallega að hinn kærði úrskurður verði felldur úr gildi en til vara að gæsluvarðhaldinu verði markaður skemmri tími. Þá krefst hann kærumálskostnaðar.

Sóknaraðili krefst staðfestingar hins kærða úrskurðar.

Með vísan til forsendna hins kærða úrskurðar verður hann staðfestur á þann veg sem greinir í dómsorði.

Kærumálskostnaður dæmist ekki, sbr. 3. mgr. 220. gr. laga nr. 88/2008.

Dómsorð:

Varnaraðili, X, sæti áfram gæsluvarðhaldi þar til dómur gengur í Hæstarétti í máli ákæruvaldsins á hendur honum, þó ekki lengur en til fimmtudagsins 30. janúar 2015 klukkan 16.

 

Úrskurður Héraðsdóms Reykjavíkur 1. október 2014.

Ríkissaksóknari hefur krafist þess að Héraðsdómur Reykjavíkur úrskurði að X, kt. [...], verði gert að sæta áframhaldandi gæsluvarðhaldi á meðan mál hans er til meðferðar í Hæstarétti Íslands, þó eigi lengur en til fimmtudaginn 30. janúar 2015.

Í greinargerð kemur fram að Ríkissaksóknari hafi höfðað sakamál með ákæru dagsettri 14. febrúar 2014 á hendur dómfellda fyrir frelsissviptingu, líkamsárás, nauðgun og hótanir gagnvart A, barnsmóður ákærða og fyrrverandi unnustu, hinn 25. desember 2013 á heimili hennar að [...], [...]. Þá hafi hann jafnframt verið ákærður fyrir valdstjórnarbrot með því að hafa hótað nafngreindum lögreglumanni á vettvangi er lögregla hugðist reyna inngöngu í íbúðina til að tryggja velferð stúlkubarnsins B, tveggja ára dóttur dómfellda og A, sem hafi verið innandyra í íbúðinni með ákærða eftir að móður hennar hafði tekist að flýja úr íbúðinni.

Sé því lýst í ákæru að dómfelldi hafi haldið A nauðugri í íbúð hennar frá um miðnætti og fram til um klukkan 06 að morgni jóladags, en þá hafi A tekist að flýja úr íbúðinni og leita skjóls hjá nágranna. Dómfelldi hafi hótað A og B, tveggja ára dóttur hans og A, lífláti og ákærði hafi beitt A ofbeldi og rispað hana með hnífi á meðan frelsissviptingu stóð. Dómfelldi hafi varnað því að A gæti hringt í lögreglu og kallað til aðstoð og tekið af henni síma og varnað því jafnframt að hún gæti tekið stúlkubarnið með sér út úr íbúðinni. Þá sé því lýst í ákæru að ákærði hafi með ofbeldi og hótunum þröngvað A til samræðis og annarra kynferðismaka í eldhúsi íbúðarinnar. Dómfelldi hafi fyrst þröngvað A til munnmaka með því að hóta að hann myndi skera hana léti hún ekki að vilja hans. Í kjölfarið hafi hann rifið nærbuxur hennar og þröngvað henni svo til samræðis og haldið hnífi að hálsi hennar á meðan. Vísist að öðru leyti til fyrirliggjandi dóms Héraðsdóms Reykjavíkur.

Af hálfu ákæruvaldsins hafi verið lögð áhersla á að málinu verði hraðað eins og kostur sé. Ákæra hafi sem fyrr segi, verið gefin út hinn 14. febrúar 2014 og málið hafi verið þingfest 5. mars í Héraðsdómi Reykjavíkur. Dómfelldi hafi neitaði sök. Málið hafi verið dómtekið hinn 9. maí að lokinni aðalmeðferð. Dómur hafi fallið í málinu 30. maí síðastliðinn. Dómfelldi hafi verið sakfelldur samkvæmt ákæru og dæmdur í 6 ára fangelsi. Hann hafi  áfrýjað dómi Héraðsdóms til Hæstaréttar og hafi áfrýjunarstefna verið gefin út þann 23. júní 2014. Dómsgerðir hafi borist ríkissaksóknara þann 29. september síðastliðinn frá Héraðsdómi Reykjavíkur. Nú sé unnið að ágripsgerð og muni ákæruvaldið stefna að því að senda ágrip til Hæstaréttar á allra næstu dögum.

Dómfelldi hafi verið úrskurðaður í gæsluvarðhald á grundvelli rannsóknarhagsmuna með úrskurði Héraðsdóms Reykjavíkur strax hinn 25. desember 2013, sem staðfestur hafi verið með dómi Hæstaréttar. Þá hafi dómfelldi verið úrskurðaður í áframhaldandi gæsluvarðhald á grundvelli 2. mgr. 95. gr. laga um meðferð sakamála með úrskurði Héraðsdóms Reykjavíkur hinn 2. janúar sl. Hæstiréttur hafi þrívegis fallist á að lagaskilyrði séu fyrir beitingu gæsluvarðhalds á grundvelli 2. mgr. 95. gr. nefndra laga, sbr. dóm Hæstaréttar nr. 5/2014 frá 6. janúar 2014 og dóm nr. 71/2014 frá 4. febrúar 2014 og nú síðast með dómi 337/2014 frá 16. maí. Í dómi Hæstaréttar nr. 5/2014 sé þess getið að sterkur grunur leiki á að dómfelldi hafi framið brot sem varðað geti við 1. mgr. 194. gr. almennra hegningarlaga nr. 19/1940. Séu brot dómfellda þess eðlis að telja verði nauðsynlegt að hann sæti gæsluvarðhaldi með tilliti til almannahagsmuna.

Það sé mat ríkissaksóknara að lagaskilyrðum 2. mgr. 95. gr. laga nr. 88/2008 sé fullnægt, enda hafi dómfelldi verið sakfelldur fyrir brot sem varðað getur allt að 16 ára fangelsi og sé þess eðlis að almannahagsmunir krefjist gæsluvarðhalds. Gangi ákærði laus sé talið að það muni valda ótta og hneykslun í samfélaginu og særa réttarvitund almennings. Með vísan til framangreinds, framlagðra gagna og 2. mgr. 95. gr., sbr. 3. mgr. 97. gr. laga nr. 88/2008 um meðferð sakamála sé þess krafist að krafan nái fram að ganga.

Með dómi Héraðsdóms Reykjavíkur uppkveðnum 30. maí sl. var dómfelldi fundinn sekur um brot gegn 1. mgr. 194. gr. almennra hegningarlaga, auk brots gegn valdstjórninni, og dæmdur til að sæta fangelsi í sex ár.  Í dómum Hæstaréttar Íslands frá 6. janúar 2014 í málinu nr. 5/2014, 4. febrúar 2014 í málinu nr. 71/2014 og 16. maí 2014 í málinu nr. 337/2014 var komist að þeirri niðurstöðu að brot dómfellda væri þess eðlis að telja yrði nauðsynlegt með tilliti til almannahagsmuna að hann sætti gæsluvarðhaldi á grundvelli 2. mgr. 95. gr. laga um meðferð sakamála nr. 88/2008. Ekkert hefur komið fram sem breytt getur niðurstöðu Hæstaréttar Íslands um að því skilyrði ákvæðisins sé ekki fullnægt.

Dómfelldi áfrýjaði dómnum til Hæstaréttar og var áfrýjunarstefna gefin út 23. júní 2014. Fram er komið að frumgögn málsins hafa þegar borist ríkissaksóknara og mun ágrip verða til fljótlega. Ekki er talið að um óeðlilegan drátt sé að ræða.

 Með vísan til alls framangreinds og 3. mgr. 97. laga nr. 88/2008 er fallist á kröfu ríkissaksóknara eins og hún er sett fram og nánar greinir í úrskurðarorði. Ekki þykir ástæða til að marka gæsluvarðhaldi skemmri tíma.

Ú R S K U R Ð A R O R Ð: 

X, kt. [...], sæti áframhaldandi gæslu­varðhaldi á meðan mál hans er til meðferðar í Hæstarétti Íslands, þó eigi lengur en til fimmtudaginn 30. janúar 2015.