Hæstiréttur íslands

Mál nr. 241/2014


Lykilorð

  • Kærumál
  • Dómkvaðning matsmanns


                                                                                              

Þriðjudaginn 29. apríl 2014.

Nr. 241/2014.

 

LBI hf.

(Jóhannes Sigurðsson hrl.)

gegn

Sigurjóni Þorvaldi Árnasyni

(enginn)

Halldóri Jóni Kristjánssyni

(enginn)

Brit Insurance Ltd.

Liberty Mutual Insurance Europe Ltd.

QBE International Insurance Ltd.

Allianz Global Corporate & Speciality AG

QBE Corporate Ltd.

Alterra Corporate Capital 2 Ltd.

Alterra Corporate Capital 3 Ltd.

Kelvin Underwriting Ltd.

Nameco (No 11) Ltd.

Nameco (No 231) Ltd.

Novae Corporate Underwriting Ltd.

SCOR Underwriting Ltd.

Sorbietrees Underwriting Ltd.

Brian John Tutin

Bridget Anne Carey-Morgan

Carol Jean Harris

David John De Marle Coulthard

Eileen Elsie Hunter

Gary Frederick Sullivan

Ian Richard Posgate

Joseph Elmaleh

John Leon Gilbart

Julian Michael West

Richard Michael Hodgson Read og

Norman Thomas Rea

(Viðar Lúðvíksson hrl.)

 

Kærumál. Dómkvaðning matsmanns.

Kærður var úrskurður héraðsdóms þar sem tekin var til greina beiðni annarra varnaraðila en S og H um dómkvaðningu tveggja matsmanna. L hf. hafði höfðað mál á hendur S og H til heimtu bóta vegna ætlaðs gáleysis þeirra við gerð nánar tiltekins lánssamnings í störfum þeirra sem bankastjórar L hf. og stefnt öðrum varnaraðilum á grundvelli samninga um svokallaðar stjórnenda­tryggingar. Hinir síðarnefndu héldu því fram að S, H og aðrir starfsmenn bankans hefðu brotið gegn upplýsingaskyldu vátryggðs samkvæmt lögum nr. 30/2004 um vátryggingarsamninga við gerð umræddra samninga og þannig veitt varnaraðilum öðrum en S og H, sem vátryggjendum samkvæmt samningunum, rangar eða ófullnægjandi upplýsingar um atriði sem haft hefðu þýðingu við mat á áhættu þeirra. Bæri því að sýkna þá af kröfum L hf. Vegna þessa lögðu þeir fram beiðni um dómkvaðningu matsmanna til þess að svara 11 matsspurningum, m.a. um fjárhagslega stöðu Landsbanka Íslands hf. við gerð umræddra samninga um stjórnendatryggingar. Í úrskurði héraðsdóms, sem staðfestur var með vísan til forsendna hans í Hæstarétti, kom fram að það leiddi af 1. mgr. 46. gr. laga nr. 91/1991 um meðferð einkamála að málsaðilar nytu víðtæks réttar til öflunar matsgerðar til að færa sönnur á staðhæfingar sínar, enda væri sönnunarfærslan hvorki bersýnilega þýðingarlaus né leiddi til óhóflegra tafa við meðferð málsins. Þótt sumar matsspurninganna væru þess eðlis að vera kynni að nauðsynlegar upplýsingar skorti til þess að matsmenn gætu tekið til þeirra afstöðu stæði það ekki í vegi fyrir dómkvaðningu matsmanna eins og málum væri háttað. Væri aðilum og unnt að bera undir dóm ágreiningsatriði er varði framkvæmd matsgerðarinnar, sbr. 1. mgr. 66. gr. laga nr. 91/1991. Að þessu virtu var fallist á beiðni varnaraðila um dómkvaðningu matsmanna. Á hinn bóginn var talið að ein matsspurningin tengdist ekki málsástæðum varnaraðila með nokkrum hætti og því hafnað beiðni þeirra að því leyti.

 

Dómur Hæstaréttar

Mál þetta dæma hæstaréttardómararnir Markús Sigurbjörnsson, Helgi I. Jónsson og Þorgeir Örlygsson.

Sóknaraðili skaut málinu til Hæstaréttar með kæru 27. mars 2014, sem barst réttinum ásamt kærumálsgögnum 8. apríl sama ár. Kærður er úrskurður Héraðsdóms Reykjavíkur 14. mars 2014, þar sem tekin var til greina beiðni um dómkvaðningu matsmanna, sem aðrir fyrrgreindir varnaraðilar en Sigurjón Þorvaldur Árnason og Halldór Jón Kristjánsson gerðu 26. nóvember 2013, að öðru leyti en um tíundu spurninguna, sem matsbeiðni laut að. Kæruheimild er í c. lið 1. mgr. 143. gr. laga nr. 91/1991 um meðferð einkamála. Sóknaraðili krefst þess að beiðni um dómkvaðningu matsmanna verði hafnað. Þá krefst hann málskostnaðar í héraði og kærumálskostnaðar.

Varnaraðilarnir Sigurjón Þorvaldur Árnason og Halldór Jón Kristjánsson hafa ekki látið málið til sín taka fyrir Hæstarétti.

Aðrir varnaraðilar krefjast staðfestingar hins kærða úrskurðar og kærumálskostnaðar.

Með vísan til forsendna hins kærða úrskurðar verður hann staðfestur.

Sóknaraðila verður gert að greiða kærumálskostnað eins og í dómsorði greinir.

Dómsorð:

Hinn kærði úrskurður er staðfestur.

Sóknaraðili, LBI hf., greiði varnaraðilum, Brit Insurance Ltd., Liberty Mutual Insurance Europe Ltd., QBE International Insurance Ltd., Allianz Global Corporate & Speciality AG, QBE Corporate Ltd., Alterra Corporate Capital 2 Ltd., Alterra Corporate Capital 3 Ltd., Kelvin Underwriting Ltd., Nameco (No 11) Ltd., Nameco (No 231) Ltd., Novae Corporate Underwriting Ltd., SCOR Underwriting Ltd., Sorbietrees Underwriting Ltd., Brian John Tutin, Bridget Anne Carey-Morgan, Carol Jean Harris, David John De Marle Coulthard, Eileen Elsie Hunter, Gary Frederick Sullivan, Ian Richard Posgate, Joseph Elmaleh, John Leon Gilbart, Julian Michael West, Richard Michael Hodgson Read og Norman Thomas Rea, samtals 250.000 krónur í kærumálskostnað.

 

Úrskurður Héraðsdóms Reykjavíkur 14. mars 2014.

Mál þetta var höfðað með stefnu birtri 1. og 5. júní 2011. Stefnandi er LBI hf., Austurstræti 16, Reykjavík. Stefndu eru Sigurjón Þ. Árnason, Granaskjóli 28, Reykjavík og Halldór J. Kristjánsson, með óþekkt heimilusfang í Kanada. Einnig er í málinu stefnt 25 aðilum, með lögheimili í Stóra-Bretlandi og Þýskalandi, sem seldu stefnanda, sem áður starfaði sem fjármálafyrirtæki undir heitinu Landsbanki Íslands hf., sameiginlega ábyrgðartryggingu fyrir stjórnendur hans og starfsmenn. Þessir aðilar eru eftirfarandi: Brit Insurance Ltd., Liberty Mutual Insurance Europe Ltd., QBE Int Insurance Ltd., Allianz Global Corp & Specialty AG, QBE Corp Ltd., Alterra  Corp Capital 2 Ltd., Alterra Corp Capital 3 Ltd., Kelvin Underwriting Ltd., Nameco Ltd., Nameco Ltd., Novae Corp Underwriting Ltd., SCOR Underwriting Ltd., Sorbietrees Underwriting Ltd., Brian John Tutin, Bridget A. Carey Morgan, Carol Jean Harris, David John De Marle Coulthard, Eileen Elsie Hunter, Gary F. Sullivan, Ian Richard Posgate, Joseph Elmaleh, John Leon Gilbart, Julian Michael West, Richard Michael Hodgson Read og Norman Thomas Rea (hér eftir vísað til sem „stefndu Brit Insurance Ltd. ofl.“)

Við fyrirtöku málsins 25. september 2013 lögðu stefndu Brit Insurance Ltd. ofl. fram beiðni um dómkvaðningu tveggja matsmanna með vísan til IX. kafla laga nr. 91/1991 til þess að svara matsspurningum í 11 liðum sem þar voru nánar tilgreindar og rökstuddar. Af hálfu stefnanda og annarra stefndu voru við þessa fyrirtöku málsins gerðir fyrirvarar við beiðni um dómkvaðningu matsmanna eða beiðninni mótmælt. Munnlegar athugasemdir um matsbeiðni stefnanda voru gerðar í þinghaldi 4. október 2013.

Með úrskurði héraðsdóms 11. október 2013 var matsbeiðni stefndu Brit Insurance Ltd. o.fl. hafnað. Í forsendum úrskurðarins sagði að eins og málið lægi fyrir teldi dómurinn að líta yrði á matsbeiðni þessara stefndu sem eina heild. Var það niðurstaða dómsins, í ljósi þeirra viðmiða sem nánar greindi í úrskurðinum, að stefndu Brit Insurance Ltd. o.fl. hefðu ekki sýnt nægilega fram á að matsspurningar, eins og þær væru fram settar, hefðu þýðingu fyrir sakarefni málsins. Var matsbeiðni því hafnað í heild sinni og ekki tekin afstaða til þess hvort tilteknir matsliðir kynnu allt að einu að fela í sér lögmætan grundvöll dómkvaðningar. Hins vegar var tekið fram í forsendum úrskurðarins að litið væri til þess að stefndu Brit Insurance Ltd. o.fl. væri heimilt að leggja fram nýja og endurskoðaða matsbeiðni undir rekstri málsins þar sem gætt hefði verið þeirra reglna einkamálaréttarfars um öflun mats sem raktar höfðu verið í forsendum úrskurðarins.

Við fyrirtöku málsins 26. nóvember 2013 lögðu stefndu Brit Insurance Ltd. o.fl. fram nýja beiðni um dómkvaðningu matsmanna þar sem meðal annars kom fram að spurningum hefði verið breytt frá fyrri matsbeiðni og gætt hefði verið þeirra viðmiða sem fram komu í áðurnefndum úrskurði héraðsdóms. Vegna tilrauna stefnanda og stefndu Brit Insurance Ltd. o.fl. til þess að ná samkomulagi um skiptingu sakarefnis ákvað dómari að fresta því að taka afstöðu til beiðni um mat. Þegar fyrir lá að ekki yrði um að ræða samkomulag um skiptingu sakarefnis og að stefndu Brit Insurance Ltd. o.fl. myndu halda matsbeiðni sinni til streitu var beiðnin tekin fyrir og var aðilum gefinn kostur á munnlegu athugasemdum í  þinghaldi 26. febrúar 2014. Í því þinghaldi áréttuðu stefnandi og aðrir stefndu mótmæli sín gegn framkominni beiðni um mat. Ágreiningur aðila um dómkvaðningu matsmanna var að því búnu tekinn til úrskurðar.

A

Mál þetta var þingfest 29. september 2011. Meðferð málsins á reglulegu dómþingi lauk þegar stefndu Brit Insurance Ltd. o.fl. lögðu fram greinargerð sína 27. september 2012 og var málið fyrst tekið fyrir, eftir úthlutun til dómara, 16. október þess árs. Við þá fyrirtöku málsins var málinu frestað til gagnaöflunar stefnanda sem meðal annars taldi sig þurfa að bregðast við framkominni áskorun stefndu Brit Insurance Ltd. o.fl. um framlagningu gagna. Við þá fyrirtöku málsins kom einnig fram að aðilar töldu ekki þörf á því að svo stöddu að tekin væri afstaða til skiptingar sakarefnis eða frestunar málsins vegna opinberrar rannsóknar, svo sem krafist hafði verið af stefndu Brit Insurance Ltd. o.fl.

Við fyrirtöku málsins 17. desember 2012 var aðilum gefinn kostur á að tjá sig um mögulega frestun málsins á grundvelli 3. mgr. 102. gr. laga nr. 91/1991 þar til niðurstaða rannsóknar sérstaks saksóknara í ákveðnum málum væri fengin svo og niðurstaða í máli stefnanda á hendur Pricewaterhouse Coopers hf. Ekki var þó tekin formleg ákvörðun um frestun málsins á grundvelli 3. mgr. 102. gr. laga nr. 91/1991 af dómara og var málinu frestað til gagnaöflunar stefnanda til 25. febrúar 2013. Við þá fyrirtöku málsins var málinu frestað til gagnaöflunar stefndu til 11. mars þess árs. Við fyrirtöku málsins þann dag kynnti dómari aðilum að hann hygðist, í ljósi þess að gagnaöflun væri mjög langt komin, taka formlega afstöðu til framkominnar beiðni um frestun málsins á grundvelli 3. mgr. 102. gr. laga nr. 91/1991 eða skiptingu sakarefnis.

Munnlegar athugasemdir voru gerðar um þetta atriði 8. apríl 2013 en 29. mars 2013 ákvað dómurinn að hafna kröfu stefndu Brit Insurance Ltd. ofl. um frestun málsins með vísan til 3. mgr. 103. gr. laga nr. 91/1991, að svo stöddu. Einnig var hafnað óskum aðila um skiptingu sakarefnis málsins samkvæmt 1. mgr. 31. gr. sömu laga. Við þessa fyrirtöku málsins var málinu frestað til gagnaöflunar eða framlagningar beiðni um dómkvaðningu matsmanns að ósk stefndu Brit Insurance Ltd. ofl. til 25. september 2013. Óskuðu þá aðrir aðilar eftir því að færð yrðu til bókar mótmæli við hvers kyns ráðagerð um dómkvaðningu matsmanns með vísan til þess að sú beiðni væri of seint fram komin.

B

Í máli þessu krefur stefnandi stefndu Sigurjón og Halldór sameiginlega um greiðslu skaðabóta að fjárhæð 11.552.000.000 krónur, auk nánar tiltekinna vaxta og dráttarvaxta, vegna ætlaðs gáleysis þeirra við gerð lánssamnings að fjárhæð 19 milljarða króna milli stefnanda og Straums-Burðaráss fjárfestingarbanka hf., dagsettur 30. september 2008 en undirritaður 1. október 2008. Stefndu störfuðu sem bankastjórar stefnanda þegar samningurinn var gerður og liggur fyrir að lánssamningurinn var gerður í því skyni að fjármagna kaup fjárfestingarbankans á fjórum dótturfélögum stefnanda. Grundvallar stefnandi útreikning skaðabótakröfu sinnar á því að bankinn hafi selt kröfuna samkvæmt lánssamningnum með 60,8% afföllum eða fyrir fjárhæð sem nam 39,2% af raunvirði kröfunnar.

Stefnandi, þ.e. Landsbanki Íslands hf., keypti ábyrgðartryggingu fyrir starfsmenn sína og stjórnendur fyrir milligöngu bresks vátryggingamiðlara með gildistíma frá 1. febrúar 2008 til 31. janúar 2009. Eru stefndu Brit Insurance Ltd., sem og áðurgreindir meðstefndir 24 aðilar, vátryggjendur samkvæmt tryggingarsamningnum sem er í þremur sjálfstæðum hlutum. Bera þeir sameiginlega ábyrgð gagnvart vátryggðum, en ábyrgð að ákveðinni tiltölu sín í milli. Gerir stefnandi greiðslukröfu gegn þessum aðilum í samræmi við þetta hlutfall auk nánar tiltekinna vaxta og dráttarvaxta. Af hálfu allra stefndu er krafist sýknu af kröfum stefnanda.

C

Af hálfu stefndu Brit Insurance Ltd. o.fl. er krafa um sýknu meðal annars rökstudd með vísan til þess að ábyrgð samkvæmt fyrrgreindri tryggingu sé fallin niður, tryggingin sé ógild eða ógildanleg, henni hafi verið sagt upp eða slitið eða þá að ábyrgð samkvæmt henni sé fallin niður með öðrum hætti. Í því sambandi byggja þessi stefndu einkum á því að við töku tryggingarinnar í janúar 2008 hafi stefnandi, meðstefndu og aðrir vátryggðir brotið gróflega gegn upplýsingaskyldu samkvæmt lögum nr. 30/2004 um vátryggingarsamninga, einkum 19. og 20. gr. laganna, almennum óskráðum reglum og ákvæðum vátryggingarsamningsins.  Hafi stefnandi, meðstefndu og aðrir vátryggðir þannig veitt stefndu Brit Insurance Ltd. o.fl. ýmist rangar eða ófullnægjandi upplýsingar um atriði sem höfðu verulega þýðingu við mat á áhættu tryggingarsamningsins.

Stefndu Brit Insurance Ltd. o.fl. telja að framkomin matsbeiðni þeirra lúti að atriðum sem tengjast framangreindum málsástæðum. Þessir stefndu vísa sérstaklega til þess að á því sé byggt að stefnandi, meðstefndu og aðrir vátryggðir hafi ekki veitt upplýsingar og/eða tæmandi upplýsingar um fjölmörg atriði sem spurt var um í umsóknareyðublaði fyrir trygginguna og atvik sem þeir vissu eða máttu vita að hefðu verulega þýðingu fyrir mat þessara stefndu á áhættunni. Einnig er vísað til þess að stefnandi, meðstefndu og aðrir vátryggðir hafi veitt rangar upplýsingar við töku tryggingarinnar og hafi hinar röngu upplýsingar meðal annars komið fram í umsókn um trygginguna, glærukynningu stefnanda, ársreikningum, árshlutareikningum og ársskýrslum stefnanda 2006 og 2007, fréttatilkynningum o.fl., en þau gögn hafi haft verulega þýðingu við mat stefndu á áhættunni, verið grundvöllur tryggingarinnar og talist hluti vátryggingarsamningsins, sbr. m.a. gr. VIII. í skilmálum tryggingarinnar.

Stefndu Brit Insurance Ltd. o.fl. telja að matsbeiðnin lúti samkvæmt þessu að að sönnun um stórkostleg og alvarleg brot í starfsemi stefnanda bæði fyrir og eftir töku tryggingarinnar sem þeir hafi ekki verið upplýstir um. Í þessu sambandi vísa téðir stefndu í fyrsta lagi til þess að við töku tryggingarinnar hafi stefnandi átt í gríðarlegum lausafjárvandræðum og hafi stefnt í greiðsluþrot. Í öðru lagi hafi stefnandi við töku tryggingarinnar átt hlut í sjálfum sér, beint og óbeint, umfram lögbundið 10% hámark miðað við nafnverð innborgaðs hlutafjár. Í þriðja lagi hafi stefnandi brotið alvarlega gegn ákvæðum 30. gr. laga nr. 161/2002 um fjármálafyrirtæki, en þar sé kveðið á um að áhætta vegna eins eða fleiri innbyrðis tengdra viðskiptamanna megi ekki fara fram úr 25% af eiginfjárgrunni fjármálafyrirtækis, sbr. 84. og 85. gr. laganna. Í fjórða lagi hafi stefnandi ítrekað veitt lán í bága við eigin reglur um lánveitingar og andstætt ákvæðum í lögum nr. 161/2002 um fjármálafyrirtæki og lögum nr. 2/1995 um hlutafélög. Í fimmta lagi hafi stefnandi ekki fylgt reglum laga nr. 161/2002 um fjármálafyrirtæki, einkum X. kafla laganna, er snúa að útreikningi eigin fjár, meðal annars við lánveitingar vegna hlutafjárkaupa í stefnanda sjálfum.  Í sjötta lagi hafi gæði lánasafns stefnanda rýrnað verulega án þess að gerð væri nein grein fyrir því í ársreikningum stefnanda. Í sjöunda lagi hafi upplýsingar í ársreikningum og árshlutareikningum stefnanda verið rangar í verulegum atriðum, meðal annars að því er varðar framangreind atriði.

Stefndu Brit Insurance Ltd. o.fl. vísa til þess að staða mála hjá stefnanda á ákveðnum dagsetningum skipti miklu. Þannig hafi ársreikningur fyrir árið 2006 tekið mið af stöðunni 31. desember þess árs, en sá ársreikningur hafi verið meðal þeirra gagna sem vátryggjendum voru látin í té og hafi talist grundvöllur tryggingarinnar. Í ársreikningnum hafi hins vegar verið rangar upplýsingar og mikilvægum upplýsingum hafi þar verið sleppt.  Sama eigi við, að breyttum breytanda, um ársreikning fyrir árið 2007 sem hafi miðast við 31. desember þess árs. Vísað er til þess að 9. janúar 2008 sé dagsetning tryggingarinnar og 1. febrúar þess árs hafi henni verið ætlað að taka gildi. Þá er vísað til þess að 31. mars þess árs hafi árshlutareikningur stefnanda verið gefinn út, en stefndu Brit Insurance Ltd. o.fl. telja að í þessum reikningi hafi einnig verið rangar upplýsingar og mikilvægum upplýsingum verið sleppt.

D

Í matsbeiðni eru settar fram eftirfarandi spurningar:

1)       (i) Gáfu (a) ársreikningur Landsbanka Íslands hf. fyrir árið 2006, (b) ársreikningur hans fyrir árið 2007 og (c) árshlutareikningur hans vegna fyrstu þriggja mánaða ársins 2008 rétta mynd af eigin fé og eiginfjárhlutfalli hans miðað við (a) 31. desember 2006, (b) 31. desember 2007 og (c) 31. mars 2008?  Ef ekki, hversu miklu munaði í hverju tilviki?

(ii) Gáfu (a) ársreikningur Landsbanka Íslands hf. fyrir árið 2006, (b) ársreikningur hans fyrir árið 2007 og (c) árshlutareikningur hans vegna fyrstu þriggja mánaða ársins 2008 rétta mynd af því hversu mikill hluti af eigin fé og eiginfjárhlutfalli Landsbanka Íslands hf. miðað við (a) 31. desember 2006, (b) 31. desember 2007 og (c) 31. mars 2008 samanstóð af lánveitingum til 20 stærstu hluthafa í Landsbanka Íslands hf. og aðila tengdum þeim, og þá einnig hversu mikið var umfram lögbundið 25% hámarkshlutfall af eiginfjárgrunni?  Ef ekki, hver var munurinn þar á milli í hverju tilviki?

                (iii) Hefði verið rétt að draga eftirfarandi þætti frá eigin fé Landsbanka Íslands hf. á framangreindum dagsetningum (31. desember 2006, 31. desember 2007 og 31. mars 2008) og, ef svo er, hver hefðu áhrif þess verið á framangreind reikningsskil Landsbanka Íslands hf.?

(a)     Eignarhlutir aflandsfélaga í Landsbanka Íslands hf.

(b)     Eigin hlutir Landsbanka Íslands hf. á svokölluðum LI-Hedge reikningi.

(c)     Aðrir eigin hlutir Landsbanka Íslands hf. í sjálfum sér.

(d)     Hækkun á virði TRS samninga í reikningum Landsbanka Íslands hf.

(e)     Virðisrýrnun að því marki sem dómkvaddir matsmenn telja að hún hefði átt að vera á hverjum tíma.

Óskað er eftir því að umfjöllun dómkvaddra matsmanna um matsspurningu nr. 1) taki m.a. mið af ákvæðum 30., 84. og 85. gr. laga nr. 161/2002 um fjármálafyrirtæki, viðeigandi bókhalds- og endurskoðunarreglum og öðrum reglum sem voru í gildi á viðkomandi dagsetningum, eftir því sem við á.

2)       (i) Gáfu (a) ársreikningur Landsbanka Íslands hf. fyrir árið 2006, (b) ársreikningur hans fyrir árið 2007 og (c) árshlutareikningur hans vegna fyrstu þriggja mánaða ársins 2008 rétta mynd af því hversu margir hlutir og hversu stórt hlutfall af heildar hlutafé í Landsbanka Íslands hf. var í eigu bankans sjálfs (A) með beinum hætti og (B) með óbeinum hætti (svo sem í gegnum önnur hlutafélög, einkahlutafélög, aflandsfélög, fjárhaldsfélög, önnur félög, sjóði eða aðra aðila), miðað við (a) 31. desember 2006, (b) 31. desember 2007 og (c) 31. mars 2008?  Ef ekki, hversu miklu munaði í hverju tilviki?

(ii) Hversu margir hlutir og hversu stórt hlutfall af heildar hlutafé í Landsbanka Íslands hf. var í eigu bankans sjálfs (A) með beinum hætti og (B) með óbeinum hætti (svo sem í gegnum önnur hlutafélög, einkahlutafélög, aflandsfélög, fjárhaldsfélög, önnur félög, sjóði eða aðra aðila), miðað við 9. janúar 2008?

(iii) Hvert var eignarhald eftirfarandi aðila að hlutum í Landsbanka Íslands hf. þann (a) 31. desember 2006, (b) 31. desember 2007, (c) 9. janúar 2008 og (d) 31. mars 2008:

-          Landsbankinn Luxembourg S.A.

-          LI Hedge reikningur

-          Aflandsfélög:

o    Fjárhaldsfélög:

·   Empennage Inc (Panama).

·   Zimham Corp (Panama).

·   North Investors Global Inc/Cay Investors Global Inc (Panama).

·   Teneo Trading Ltd.

·   Kargile Portfolio Inc (Bresku Jómfrúreyjar).

·   Kimball Associated Inc. (Panama).

·   Proteus Global Holdings S.A. (Bresku Jómfrúreyjar).

·   Marcus Capital Ltd. (Bresku Jómfrúreyjar).

·   Signy Holding Corp (Panama).

·   Peko Investment Company Ltd. (Bresku Jómfrúreyjar).

·   Trine Ltd. (Kýpur).

·   LB Holding Ltd. (Bresku Jómfrúreyjar).

·   NBI Holding Ltd./ZVV Holdings Ltd. (Guernsey).

o    Sjálfseignarfélög / sjálfseignarsjóðir (e. trusts):

·         The Aurora Trust (Bresku Jómfrúreyjar)

·         The Artemis Trust (Guernsey)

·         The Madatum Trust (Guernsey)

·         The Peko Trust (Bresku Jómfrúreyjar)

·         The Tithonus Trust (Bresku Jómfrúreyjar)

·         The 1886 LB Trust (Guernsey)

o    Eignarhaldsfélög:

·         LB Holding Ltd.

·         LB Holding Ltd. forward

·         Kargile Portfolio Inc.

·         Marcus Capital Ltd.

·         Empennage Inc.

·         Zimham Corporation

·         Peko Investment Company Ltd.

·         Proteus Global Holding S.A.

·         Kimball Associated Inc.

·         Trine Lúx.

(iv) Hver voru stjórnunartengsl og eignatengsl framangreindra aðila við Landsbanka Íslands hf. á framangreindum dagsetningum?

Óskað er eftir því að umfjöllun dómkvaddra matsmanna um matsspurningu nr. 2) taki m.a. mið af ákvæðum 29. gr. laga nr. 161/2002 um fjármálafyrirtæki, 55. gr. laga nr. 2/1995 um hlutafélög, viðeigandi bókhalds- og endurskoðunarreglum og öðrum reglum sem voru í gildi á viðkomandi dagsetningum.

3)       (i) Gáfu (a) ársreikningur Landsbanka Íslands hf. fyrir árið 2006, (b) ársreikningur hans fyrir árið 2007 og (c) árshlutareikningur hans vegna fyrstu þriggja mánaða ársins 2008 rétta mynd af því hversu margir hlutir og hversu stórt hlutfall af hlutafé Landsbanka Íslands hf. höfðu verið sett bankanum að veði og stóðu til tryggingar kröfum bankans á hendur öðrum aðilum miðað við (a) 31. desember 2006, (b) 31. desember 2007 og (c) 31. mars 2008?  Ef ekki, hversu miklu munaði í hverju tilviki?

(ii) Hvað námu lánveitingar Landsbanka Íslands hf. gegn veðum í hlutum í bankanum sjálfum stórum hluta af eigin fé bankans á framangreindum dagsetningum (sundurliðað eftir einstökum lánum og eftir því hvaða lán voru einungis tryggð með veði í hlutum í bankanum sjálfum og hvaða lán voru einnig tryggð með öðrum hætti, og þá hverjum). 

(iii) Hversu margir hlutir í Landsbanka Íslands hf. (bæði fjöldi og hlutfall af heildar hlutafé í Landsbanka Íslands hf.) stóðu á framangreindum dagsetningum til tryggingar lánum, sem viðskiptamenn höfðu fengið hjá Landsbanka Íslands hf. til kaupa á hlutum í bankanum sjálfum?

(iv) Hvaða áhrif hefðu þær lánveitingar, sem fjallað er um í lið (ii) í þessari matsspurningu, með réttu átt að hafa á útreikning eigin fjár og eiginfjárhlutfalls Landsbanka Íslands hf., sbr. matsspurningu nr. 1)?  Gáfu (a) ársreikningur Landsbanka Íslands hf. fyrir árið 2006, (b) ársreikningur hans fyrir árið 2007 og (c) árshlutareikningur hans vegna fyrstu þriggja mánaða ársins 2008 rétta mynd af þeim áhrifum?  Ef ekki, hversu miklu munaði í hverju tilviki?

Óskað er eftir því að umfjöllun dómkvaddra matsmanna um matsspurningu nr. 3) taki m.a. mið af ákvæðum 29. gr. laga nr. 161/2002 um fjármálafyrirtæki, 55. gr. laga nr. 2/1995 um hlutafélög, viðeigandi bókhalds- og endurskoðunarreglum og öðrum reglum sem voru í gildi á viðkomandi dagsetningum.

4)       (i) Gáfu lausafjárskýrslur Landsbanka Íslands hf., dags. 30. nóvember 2007, 31. desember 2007, 31. janúar 2008, 29. febrúar 2008 og 31. mars 2008, ársreikningur hans fyrir árið 2007 (miðað við 31. desember 2007) og árshlutareikningur hans vegna fyrstu þriggja mánaða ársins 2008 (miðað við 31. mars 2008) rétta mynd af lausafjárstöðu Landsbanka Íslands hf. á viðkomandi dagsetningum?  Ef ekki, hversu miklu munaði í hverju tilviki?

(ii) Var laust fé Landsbanka Íslands hf. á tímabilinu 30. nóvember 2007 til 31. mars 2008 nægilegt til að bankinn gæti innt af hendi úttektir á innlánsfé og aðrar greiðslur sem starfsemi bankans fylgdu á hverjum tíma, sbr. m.a. þágildandi 83. gr. laga nr. 161/2002 um fjármálafyrirtæki?

Óskað er eftir því að umfjöllun dómkvaddra matsmanna um matsspurningu nr. 4) taki m.a. mið af ákvæðum 84. og 85. gr. laga nr. 161/2002 um fjármálafyrirtæki, viðeigandi bókhalds- og endurskoðunarreglum og öðrum reglum sem voru í gildi á viðkomandi dagsetningum.

5)       (i) Gáfu (a) ársreikningur Landsbanka Íslands hf. fyrir árið 2006, (b) ársreikningur hans fyrir árið 2007 og (c) árshlutareikningur hans vegna fyrstu þriggja mánaða ársins 2008 rétta mynd af því hversu margir hlutir og hversu stórt hlutfall af heildar hlutafé í Landsbanka Íslands hf. hafði verið boðið stjórnendum og starfsmönnum bankans í gegnum kaupréttarsamninga, ráðningarsamninga og/eða annars konar afkastahvetjandi launakerfi og stóð þeim til boða miðað við (a) 31. desember 2006, (b) 31. desember 2007 og (c) 31. mars 2008?  Ef ekki, hversu miklu munaði í hverju tilviki?

(ii) Hversu margir hlutir og hversu stórt hlutfall af heildar hlutafé í Landsbanka Íslands hf. hafði verið boðið stjórnendum og starfsmönnum bankans í gegnum kaupréttarsamninga, ráðningarsamninga og/eða annars konar afkastahvetjandi launakerfi og stóð þeim til boða miðað við 9. janúar 2008?

6)       (i) Hver var skuld eftirtalinna aðila við Landsbanka Íslands hf. á hverjum eftirtalinna daga:

a.       31. desember 2006.

b.       31. desember 2007.

c.        31. mars 2008.

A.                    Björgólfur Thor Björgólfsson og tengdir aðilar (þ.m.t. félög í beinni eða óbeinni eigu eða undir stjórn hans, dótturfélög slíkra félaga o.s.frv.).

B.                    Björgólfur Guðmundsson og tengdir aðilar (þ.m.t. félög í beinni eða óbeinni eigu eða undir stjórn hans, dótturfélög slíkra félaga o.s.frv.).

C.                    AC Capital.

D.                    Actavis Group.

E.                    Novator International Holding Ltd.

F.                     Novator Asset Management.

G.                    Novator Finland.

H.                   Novator Pharma Holding.

I.                      Novator (í tengslum við yfirtöku á Actavis).

J.                      Samson Holding / Samson eignarhaldsfélag ehf.

K.                    Grettir Holding / Grettir eignarhaldsfélag.

L.                    Fjárfestingarfélagið Grettir.

M.                  Baugur Group og tengdir aðilar (þ.m.t. félög í beinni eða óbeinni eigu eða undir stjórn þess félags, dótturfélög slíkra félaga o.s.frv.).

N.                    Fjárfestingafélagið Gaumur ehf. og tengdir aðilar (þ.m.t. félög í beinni eða óbeinni eigu eða undir stjórn þess félags, dótturfélög slíkra félaga o.s.frv.).

O.                    Sund ehf. og IceCapital ehf.

P.                     Elliðahamar ehf. og Elliðatindar ehf.

Q.                    Straumborgir ehf. og Norvest ehf.

R.                    Jakob Valgeir ehf.

S.                     Bygg Invest ehf.

T.                    Imon ehf.

U.                    Eignarhaldsfélagið Oddaflug ehf.

V.                    Eimskipafélags Íslands hf.

W.                  ISP.

X.                    FL Group.

Y.                    Bakkavör Group og tengdir aðilar (þ.m.t. félög í beinni eða óbeinni eigu eða undir stjórn þess félags, dótturfélög slíkra félaga o.s.frv.).

Z.                    Exista.

AA.               Icelandic Group.

BB.               Primus.

CC.               Daybreak Acquisitions Ltd..

DD.               Sigurður Bollason ehf. og Sigurður Bollason persónulega.

EE.                Hunslow S.A.

FF.                 Bruce Assets Limited.

GG.               Pro-Invest Partners Corp.

HH.              Straumur / Straumur Burðarás.

II.                   MP fjárfestingabanki.

JJ.                   Gift.

KK.               Aflandsfélögin LB Holding Ltd., Kargile Portfolio Inc., Marcus Capital Ltd., Empennage Inc., Zimham Corporation, Peko Investment Company Ltd., Proteus Global Holding S.A. og Kimball Associated Inc.

 

                (ii) Hver voru tengsl milli aðila á framangreindum lista við Landsbanka Íslands hf. og innbyrðis á framangreindum dögum, og hverjar voru samanlagðar áhættuskuldbindingar tengdra aðila á listanum eftir því sem matsmenn telja rétt á hverjum tíma, meðal annars með hliðsjón af ákvæðum laga nr. 161/2002 um fjármálafyrirtæki?

                (iii) Gáfu (a) ársreikningur Landsbanka Íslands hf. fyrir árið 2006, (b) ársreikningur hans fyrir árið 2007 og (c) árshlutareikningur hans vegna fyrstu þriggja mánaða ársins 2008 rétta mynd af því hversu háar framangreindar áhættur / lán Landsbanka Íslands hf. voru til framangreindra aðila sem hlutfall af eigin fé og eiginfjárgrunni (sbr. þágildandi 30., 84., og 85. gr. laga nr. 161/2002 um fjármálafyrirtæki) Landsbanka Íslands hf. miðað við (a) 31. desember 2006, (b) 31. desember 2007 og (c) 31. mars 2008?  Ef ekki, hversu miklu munaði í hverju tilviki?

7)       (i) Gáfu (a) ársreikningur Landsbanka Íslands hf. fyrir árið 2006, (b) ársreikningur hans fyrir árið 2007 og (c) árshlutareikningur hans vegna fyrstu þriggja mánaða ársins 2008 rétta mynd af virði lánasafns Landsbanka Íslands hf. miðað við (a) 31. desember 2006, (b) 31. desember 2007 og (c) 31. mars 2008?  Ef ekki, hversu miklu munaði í hverju tilviki?

(ii) Tók afskriftareikningur Landsbanka Íslands hf. í árslok 2006 og 2007 og í árshlutareikningi 31. mars 2008 mið af eðlilegri niðurfærslu á útistandandi kröfum bankans?

(iii) Var tilefni til að virðisrýra lánasafn Landsbanka Íslands hf. við gerð reikningsskila bankans þann 31. desember 2006, 31. desember 2007, 31. mars 2008 eða 30. júní 2008?  Ef svo er, hversu há átti virðisrýrnunin að vera í hverju tilviki?

8)       (i) Gáfu (a) ársreikningur Landsbanka Íslands hf. fyrir árið 2007 og (b) árshlutareikningur hans vegna fyrstu þriggja mánaða ársins 2008 rétta mynd af skuldbindingum Landsbanka Íslands hf. samkvæmt lánssamningum bankans, sem fyrirsjáanlegt var að féllu í gjalddaga eða greiða þyrfti afborganir af á árinu 2008?  Ef ekki, hversu miklu munaði í hverju tilviki?

(ii) Var fjárhagsleg staða Landsbanka Íslands hf. þann 31. desember 2007, 9. janúar 2008 og 1. febrúar 2008 með þeim hætti að fyrirsjáanlegt væri að bankinn gæti staðið við allar skuldbindingar sínar á árinu 2008?  Ef ekki, hversu líklegt var á þessum dagsetningum að bankinn gæti staðið við allar skuldbindingar sínar á árinu 2008?

9)       (i) Gáfu (a) ársreikningur Landsbanka Íslands hf. fyrir árið 2007, (b) árshlutareikningur hans vegna fyrstu þriggja mánaða ársins 2008 og (c) árshlutareikningur hans vegna fyrstu sex mánaða ársins 2008 rétta mynd af heildarskiptasamningum (e. Total return swaps) bankans og stöðu þeirra á árunum 2007 og 2008?

(ii) Var Landsbanka Íslands hf. heimilt á árinu 2007 eða 2008 að nota viðmiðunarvexti við reikningsskil vegna heildarskiptasamninga byggða á „ásættanlegu tapi“ fremur en markaðsaðstæðum?

(iii) Ef færsla / reikningsskil Landsbanka Íslands hf. á árinu 2007 eða 2008 vegna heildarskiptasamninga var ekki í samræmi við þágildandi reglur þar um (sbr. liði 9)(i) og (ii) hér að framan), hver hefðu áhrif þess verið á ársreikning bankans 2007 og árshlutauppgjör hans fyrir fyrsta ársfjórðung 2008 og fyrir fyrstu sex mánuði ársins 2008 ef færslan / reikningsskilin hefðu verið í samræmi við þágildandi reglur?

Þess er meðal annars óskað að matsmenn hafi hliðsjón af þágildandi IFRS staðli, lögum nr. 3/2006 um ársreikninga, reglum um reikningsskil, reikningsskilavenjum o.fl. eftir því sem við á við umfjöllun sína um matsspurningu nr. 9).

10)   Var tilefni fyrir endurskoðendur að gera athugasemdir í áritun á ársreikning Landsbanka Íslands hf. fyrir árið 2006 eða 2007 um neðangreinda þætti:

(a)     Að eignarhlutir aflandsfélaga í Landsbanka Íslands hf. hafi ekki verið dregnir frá eigin fé bankans.

(b)     Að eignarhlutir á svokölluðum LI-Hedge reikningi hafi ekki með fullnægjandi hætti verið dregnir frá eigin fé bankans.

(c)     Að ekki hafi verið upplýst með fullnægjandi hætti um skuldbindingar og viðskipti Björgólfs Guðmundssonar og Björgólfs Thors Björgólfssonar við Landsbanka Íslands hf.

Í matsbeiðni er óskað eftir því að umfjöllun dómkvaddra matsmanna um allar matsspurningar taki mið af viðeigandi bókhalds- og endurskoðunarreglum og öðrum reglum sem voru í gildi á viðkomandi dagsetningum. Þá er þess beiðst að sundurliðaðir og rökstuddir útreikningar fylgi öllum niðurstöðum matsmanna.

                Í matsbeiðni eru færð nánari rök fyrir tengslum hverrar og einnar matsspurningar við málsástæður stefndu og sakarefnið, svo og hvað stefndu hyggjast sanna með matinu.

E

Af hálfu allra annarra málsaðila er matsbeiðni stefndu Brit Insurance Ltd. o.fl. mótmælt. Jafnframt taka þessir aðilar málsins undir sjónarmið hvers annars því til stuðnings að hafna beri beiðni um dómkvaðningu matsmanna.

                Af hálfu umræddra aðila er í fyrsta lagi vísað til þess að málsóknin hafi átt sér langan aðdraganda eða allt frá árslokum og málið verið höfðað í júlí 2011. Það hafi verið tekið fyrir fjölmörgum sinnum fyrir dómi, bæði á reglulegu dómþingi og eftir að málinu var úthlutað til dómara. Ærið tilefni hafi verið fyrir stefndu Brit Insurance Ltd. o.fl. að afla mats áður en dómsmálið var höfðað eða a.m.k. að leggja fram matsbeiðni á fyrri stigum þess. Matsbeiðnin sé því of seint fram komin. Á því er einnig byggt að margar þær upplýsingar sem stefndu Brit Insurance Ltd. o.fl. óski eftir að verði aflað liggi þegar fyrir í gögnum málsins, t.d. upplýsingar um lausafjárstöðu. Þá er á það bent að hin fyrirhugaða sönnunarfærsla stefndu Brit Insurance Ltd. o.fl. sé þýðingarlaus fyrir sakarefni málsins með hliðsjón af því að vanræksla á upplýsingaskyldu af hálfu vátryggingataka, þ.e. stefnanda, geti aldrei skert rétt meðvátryggðra, þ.e. annarra stefndu en Brit Insurance Ltd. o.fl., sbr. einkum 1. mgr. 41. gr. laga nr. 30/2004 um vátryggingasamninga.

Á það er bent að umrædd matsbeiðni sé úr öllu hófi og jafnvel sé fyrirsjáanlegt að taka muni fleiri ár að ljúka við mati samkvæmt henni. Við munnlegan málflutning kom einnig fram það sjónarmið að af hálfu stefndu Brit Insurance Ltd. væri með matsbeiðninni vísvitandi reynt að tefja fyrir meðferð málsins.

                Að öðru leyti er á því að byggt að einstakar matsspurningar séu þess eðlis að ekki sé heimilt að dómkveðja matsmenn til að svara þeim. Tilteknar spurningar lúti að hreinum lagalegum atriðum sem dómari eigi að fjalla um samkvæmt 2. mgr. 60. gr. laga nr. 91/1991. Í öðrum tilvikum er því haldið fram að matsspurningar séu óljósar eða ekki sé nægilega vel afmarkað á hvaða forsendum matsmenn eigi að svara spurningum. Í enn öðrum tilvikum er talið að spurningar séu tilgangslausar fyrir sakarefni málsins eða tengist því ekki.

Niðurstaða

Eins  og meðal annars verður ráðið af 2. mgr. 99. gr. laga nr. 91/1991 skal stefndi í almennu einkamáli tefla fram þeim sönnunargögnum sem hann vill reisa kröfur sínar á annað hvort við framlagningu greinargerðar sinnar eða svo fljótt sem kostur er eftir það. Samkvæmt þessu ber málsaðila að leggja fram gögn, eða óska dómkvaðningu matsmanna, til öflunar gagna eftir því sem tilefni er til, en getur að öðrum kosti þurft að sæta því að litið sé fram hjá slíkum gögnum við efnislega úrlausn. Í dómaframkvæmd hefur málsaðilum allt að einu verið játað verulegu svigrúmi til afla matsgerðar á síðari stigum málsmeðferðar og hefur þá jafnan verið vísað til þess að viðkomandi matsbeiðandi beri áhættu af sönnunargildi matsgerðar samhliða kostnaði af öflun hennar. Samkvæmt þessu verður ekki á það fallist að  stefndu Brit Insurance Ltd. o.fl. hafi borið að afla matsgerðar með slíkum fyrirvara að þeim væri kleift að leggja hana fram með greinargerð sinni.

Í málinu háttar svo til að stefndu Brit Insurance Ltd. o.fl. áskildu sér rétt til framlagningar matsbeiðni í greinargerð sinni og settu fram beiðni þar að lútandi í beinu framhaldi af því að dómari synjaði kröfu þeirra um skiptingu sakarefnis málsins. Þótt þessari beiðni um mat hafi verið synjað með úrskurði héraðsdóms 11. október 2013 er á það að líta að í forsendum þess úrskurðar var áréttað að stefndu væri heimilt að leggja fram nýja og endurskoðaða matsbeiðni undir rekstri málsins þar sem gætt hefði verið þeirra viðmiða sem raktar voru í forsendum úrskurðarins. Kom ný matsbeiðni stefndu Brit Insurance Ltd. o.fl. og fram í beinu framhaldi af uppkvaðningu þessa úrskurðar. Samkvæmt þessu telur dómari beiðni stefndu Brit Insurance Ltd. o.fl. um mat ekki svo seint fram komna að henni beri að hafna af þeim ástæðum.

Samkvæmt grunnreglu 1. mgr. 46. gr. laga nr. 91/1991 um meðferð einkamála hafa málsaðilar forræði á sönnunarfærslu í einkamáli og ráða því hvernig þeir færa sönnun fyrir atvikum sem þar er um deilt. Í samræmi við þetta njóta stefndu Brit Insurance Ltd. o.fl. víðtæks réttar til að afla matsgerða til að færa sönnur á staðhæfingar sínar, enda beinist matsbeiðni að þeim atriðum sem kveðið er á um 1. mgr. 60. gr. laga nr. 91/1991 og matið sé ekki bersýnilega þýðingarlaust fyrir sakarefni málsins.

                Framangreindur réttur stefndu Brit Insurance Ltd. o.fl. til þess að afla mats takmarkast af öðrum meginreglum einkamálaréttarfars, meðal annars reglunni um að hraða beri meðferð máls eftir föngum, sbr. dóm Hæstaréttar 21. október 2011 í máli nr. 558/2011. Verður þá einnig að horfa til þess að sú meginregla styðst ekki aðeins við þá opinberu hagsmuni, sem tengjast skilvirkri starfsemi dómstóla og allsherjarreglu, heldur lýtur hún einnig að rétti manna til að fá úrlausn um réttindi sín og skyldur með réttlátri málsmeðferð innan hæfilegs tíma fyrir óháðum og óhlutdrægum dómstóli samkvæmt 1. mgr. 70. gr. stjórnarskrár lýðveldisins Íslands nr. 33/1944, sbr. 8. gr. stjórnarskipunarlaga nr. 97/1995, og 1. mgr. 6. gr. mannréttindasáttmála Evrópu, sbr. lög um lögfestingu sáttmálans nr. 62/1994.

Með hliðsjón af umræddri meginreglu verður að túlka fyrirliggjandi dómaframkvæmd á þá leið að rúm heimild aðila til öflunar matsgerðar sé háð þeirri forsendu að hin umbeðna sönnunarfærsla leiði ekki til óhóflegra tafa við meðferð máls. Við þær aðstæður að óskað er eftir tímafreku og kostnaðarsömu mati, með hliðsjón af umfangi málsins, telur dómurinn því að gera verði ríkar kröfu til þess að fyrir liggi að matsspurningar beinist að þeim atriðum sem kveðið er á um í 1. mgr. 60. gr. laga nr. 91/1991, að þær hafi raunverulega þýðingu fyrir sakarefni málsins og að matsgerð muni þjóna tilgangi fyrir sönnunarfærslu aðila, sbr. 3. mgr. 46. gr. laga nr. 91/1991.

Ekki fer á milli mála að stefndu Brit Insurance Ltd. o.fl. byggja málatilbúnað sinn á því að aðrir stefndu hafi, sem stjórnendur Landsbanka Íslands hf., borið ábyrgð á þeim upplýsingum sem veittar voru af hálfu bankans í tengslum við gerð framangreinds vátryggingasamnings. Vísa stefndu Brit Insurance Ltd. o.fl. bæði til þess að telja eigi meðstefndu, sem stjórnendur bankans, til formlegs vátryggingataka sem beri milliliðalaust ábyrgð á þessum upplýsingum, en einnig er talið að reglur um samsömum leiði til sömu niðurstöðu. Var áréttað við munnlegan flutning í þessum þætti málsins að stefndu Brit Insurance Ltd. o.fl. teldu ábyrgð þessara stefndu til staðar með vísan stöðu þeirra hjá bankanum án tillits til raunverulegrar vitneskju þeirra um réttmæti þeirra upplýsinga sem veittar voru. Að þessu virtu getur það ekki staðið í vegi fyrir því að beiðni stefndu Brit Insurance Ltd. o.fl. um mat verði tekin til greina að aðrir stefndu kunna að byggja málatilbúnað sinn á því að háttsemi formlegs vátryggingartaka, þ.e. Landsbanka Íslands hf., geti aldrei haft áhrif á vátryggingavernd þeirra, sbr. einkum 1. mgr. 41. gr. laga nr. 30/2004. Bíður ágreiningur aðila um þetta atriði málsins efnisúrlausnar.

Með beiðni sinni leitast stefndu Brit Insurance Ltd. o.fl. að meginstefnu við að fá mat á réttmæti þeirra upplýsinga um fjárhagslega stöðu Landsbanka Íslands hf. sem veittar voru við gerð framangreinds vátryggingarsamnings eða voru aðgengilegar þessum stefndu á þeim tíma. Er því ekki lengur um það að ræða að matsbeiðni hafi það að meginmarkmiði að matsmenn útbúi frá grunni ný gögn, svo sem ársreikninga og önnur bókhaldsleg gögn miðað við ákveðið tímamark, svo sem átti við um þá matsbeiðni sem hafnað var í úrskurði héraðsdóms 11. október 2013.

Horfa verður til þess að matsmenn leysa almennt úr matsspurningum á grundvelli gagna sem aðilar leggja fram eða matsmenn kunna að ákveða að afla sjálfir samkvæmt 2. mgr. 62. gr. laga nr. 91/1991. Njóta matsmenn ákveðins svigrúms til þess að afmarka matsspurningar nánar. Eins hlýtur matsgerð eðli málsins samkvæmt að takmarkast við þau svör sem unnt er að veita við matsspurningum á grundvelli gagna sem tiltæk eru matsmönnum. Verður því engin skylda lögð á matsmenn að afla sjálfir gagna umfram það sem þeir telja eðlilegt eða mögulegt. Er aðila matsmáls unnt að bera undir dóm ágreiningsatriði er varða framkvæmd matsgerðar að þessu leyti, svo sem hvort það hafi verið metið sem skyldi meta samkvæmt dómkvaðningu, sbr. 1. mgr. 66. gr. laga nr. 91/1991.

Samkvæmt framangreindu getur það ekki staðið í vegi fyrir dómkvaðningu þótt sumar matsspurningar séu þess eðlis að upplýsingar kunni að skorta til að taka afdráttarlausa afstöðu til þeirra. Stefndu Brit Insurance Ltd. o.fl. er einnig heimilt að óska eftir því að matsmenn skýri frá ákveðnum atriðum í matsgerð jafnvel þótt upplýsingar um þessi atriði kunni einnig að koma fram í gögnum sem unnt væri að leggja fram sem slík fyrir dómi. Þá verður ekki talið að spurningar í matsbeiðni séu svo  matskenndar eða óljósar að matsönnum sé fyrirmunað að afmarka þær nánar og taka afstöðu til þeirra.

Á það verður fallist að með sumum matsspurningum sé öðrum þræði óskað eftir því hvort farið hafi verið að réttarreglum við reikningsskil Landsbanka Íslands hf. Að mati dómara getur það haft þýðingu við mat á réttmæti ýmissa gagna sem tengjast reikningsskilum hvort farið hefur verið að lagareglum við gerð þeirra. Verður því ekki talið að stefndu Brit Insurance Ltd. o.fl. sé óheimilt að óska eftir mati á því hvort tiltekin gögn samræmist tilteknum settum reglum þegar tekin er afstaða til réttmætis þeirra. Gæti það og ekki bundið hendur dómara ef matsmenn leggja ranga skilning á slíkum reglum til grundvallar mati sínu á slíkum gögnum.

Sú beiðni um dómkvaðningu matsmanna, sem hér er um að ræða, á sér fá fordæmi með tilliti til umfangs og líklegrar tímalengdar matsstarfa. Verður þannig ótvírætt að gera ríkar kröfur til umræddrar matsbeiðni samkvæmt þeim meginreglum sem áður ræðir. Hins vegar  verður að horfa til þess að mál þetta beinist að verulegum hagsmunum og matsbeiðni lýtur að að stærstum hluta að meginmálsástæðum stefndu Brit Insurance Ltd. o.fl.

Að öllu virtu er það niðurstaða dómsins að stefndu Brit Insurance Ltd. o.fl. verði ekki meinað að afla umbeðinnar matsgerðar, enda bera þessir aðilar sjálfir kostnað af matsgerðinni og því hvort hún komi þeim að notum. Þetta á þó ekki við um tíundu spurningu í matsbeiðni sem ekki verður séð að tengist málsástæðum stefndu Brit Insurance Ltd. o.fl. í málinu með nokkrum hætti. Að öðru leyti verður samkvæmt þessu fallist á umrædda beiðni um dómkvaðningu matsmanna.

Skúli Magnússon héraðsdómari kveður upp úrskurð þennan.

Úrskurðarorð

Fallist er á beiðni stefndu Brit Insurance Ltd. o.fl. 26. nóvember 2013 um dómkvaðningu matsmanna að frátaldri tíundu spurningu í matsbeiðni.