Hæstiréttur íslands

Mál nr. 320/2009


Lykilorð

  • Skaðabætur
  • Dómur
  • Ómerking héraðsdóms
  • Heimvísun


                                                        

Fimmtudaginn 18. mars 2010.

Nr. 320/2009.

Ingjaldur Eiðsson  

(Steingrímur Þormóðsson hrl.)

gegn

Vátryggingafélagi Íslands hf. og 

Þórólfi Óskarssyni

(Skarphéðinn Pétursson hrl.)

Skaðabætur. Dómar. Héraðsdómur ómerktur. Heimvísun.

Úrskurður héraðsdóms var ómerktur og málinu vísað heim í hérað til málflutnings og dómsálagningar að nýju, þar sem í honum hafði ekki verið tekin rökstudd afstaða til hluta af ágreiningsefnum málsaðila, sbr. e. og f. liður 1. mgr. 114. gr. laga nr. 91/1991.

Dómur Hæstaréttar.

Mál þetta dæma hæstaréttardómararnir Ólafur Börkur Þorvaldsson, Hjördís Hákonardóttir og Jón Steinar Gunnlaugsson.  

Áfrýjandi skaut málinu til Hæstaréttar 11. júní 2009. Hann krefst þess aðallega að héraðsdómur verði ómerktur og málinu vísað heim í hérað til meðferðar á ný. Til vara krefst hann þess að stefndu verði sameiginlega dæmd til að greiða sér 36.049.422 krónur með 4,5% ársvöxtum af nánar tilgreindum fjárhæðum frá 12. janúar 2006 til 1. september 2008 en með dráttarvöxtum samkvæmt 1. mgr. 6. gr. laga nr. 38/2001 um vexti og verðtryggingu frá þeim degi til greiðsludags, allt að frádregnum sex greiðslum á tímabilinu frá 27. mars 2006 til 28. september 2008 og tilteknum lífeyris- og dagpeningagreiðslum. Til þrautavara krefst hann 33.393.232 króna með sömu vöxtum og í aðalkröfu og að frádregnum sömu greiðslum og þar getur. Verði ekki á þetta fallist krefst hann greiðslu á 30.357.991 krónu en að því frágengnu 26.878.357 krónum, í báðum tilvikum með sömu vöxtum og að frádregnum sömu innborgunum og fyrr. Þá krefst áfrýjandi málskostnaðar í héraði og fyrir Hæstarétti.

Stefndu krefjast aðallega staðfestingar hins áfrýjaða dóms en til vara að krafa áfrýjanda verði lækkuð. Þá krefjast þeir málskostnaðar fyrir Hæstarétti en til vara að málskostnaður verði felldur niður.

Í máli þessu deila aðilar um fjárhæð bóta fyrir líkamstjón sem áfrýjandi varð fyrir í umferðarslysi 12. janúar 2006. Áfrýjandi höfðaði málið með stefnu 19. nóvember 2007 og var málið þingfest í Héraðsdómi Reykjavíkur 29. nóvember sama ár. Byggði hann kröfur sínar á matsgerð tveggja dómkvaddra matsmanna 1. október 2007 um afleiðingar slyssins. Dómkrafa áfrýjanda í stefnunni nam 58.344.052 krónum auk vaxta og dráttarvaxta en að frádregnum greiðslum sem þá höfðu verið inntar af hendi inn á tjón hans. Eftir að málið var höfðað var aflað margvíslegra gagna um slys áfrýjanda og afleiðingar þess. Stefndi Vátryggingafélag Íslands hf. óskaði eftir dómkvaðningu yfirmatsmanna um örorku áfrýjanda og miskastig eftir slysið sem og um önnur atriði samkvæmt skaðabótalögum nr. 50/1993. Þeir luku matsgerð 30. maí 2008 og er grein gerð fyrir henni í hinum áfrýjaða dómi. Áfrýjandi sjálfur aflaði eftir þingfestingu málsins tveggja matsgerða, annars vegar um tekjur sínar fyrir slysdag og ætlaðar framtíðartekjur og hins vegar um sjúkrakostnað eftir slysið bæði fyrir liðinn tíma og framtíðina. Eru matsgerðir dómkvaddra manna um þessi efni dagsettar 26. maí 2008 og 30. júní sama ár. Hinn 29. ágúst 2008 gerði stefndi Vátryggingafélag Íslands hf. upp bætur til áfrýjanda eins og þessi stefndi taldi þær eiga að vera. Stefndu lögðu síðan fram greinargerð sína á dómþingi 18. september 2008 og byggðu á því að þeir hefðu nú greitt áfrýjanda bætur að fullu vegna tjóns hans. Á dómþingi 6. apríl 2009 lagði áfrýjandi fram nýtt skjal með „endanlegum dómkröfum“ sínum.

Meðal veigamestu ágreiningsefna málsaðila er fjárhæð þeirra árslauna sem miða beri bætur við samkvæmt 7. gr. skaðabótalaga. Þegar málið gekk til dóms í héraði miðaði áfrýjandi kröfu sína við niðurstöðu í matsgerð 26. maí 2008, þar sem meðal annars eru teknar með inn í grundvöll viðmiðunar hagnaður sem fyrirtækið Veituverk ehf. hafði frá stofnun þess í október 2003 til ársloka 2005, en þetta er félag sem áfrýjandi mun hafa stofnað vegna verktakastarfa sinna. Mun hann einn hafa átt allt hlutafé félagsins. Einnig er í matsgerðinni reiknað með söluhagnaði áfrýjanda við sölu á hlutafé í þessu félagi á árinu 2007 og honum dreift á árin fyrir slysið. Áfrýjandi hefur fært fram röksemdir af sinni hálfu fyrir því að leggja beri útreikninga matsgerðarinnar til grundvallar við ákvörðun á örorkutjóni hans. Stefndu hafa mótmælt þessu með rökstuddum hætti og viljað miða við árslaun eftir skattframtölum áfrýjanda sjálfs þrjú síðustu árin fyrir slysið.

Í hinum áfrýjaða dómi er hvorki gerð grein fyrir efni matsgerðarinnar 26. maí 2008 né efni ágreinings málsaðila að því er varðar þau atriði sem þar er fjallað um. Í niðurstöðukafla dómsins er einungis sagt að hið stefnda tryggingafélag hafi greitt áfrýjanda bætur vegna varanlegrar örorku „í samræmi við ákvæði 5, 6, 7 og 9. gr. skaðabótalaga ... “ án þess að tekin sé rökstudd afstaða til framangreindra ágreiningsefna málsaðila. Fer þetta í bága við e. og f. liði 1. mgr. 114. gr. laga nr. 91/1991 um meðferð einkamála og verður hinn áfrýjaði dómur því ómerktur og lagt fyrir héraðsdóm að taka málið til munnlegs málflutnings og dómsálagningar á ný.

Miðað við þessa niðurstöðu þykir rétt að málskostnaður fyrir Hæstarétti falli niður.

Það athugist að í hinum áfrýjaða dómi segir að ekki verði „annað ráðið af gögnum málsins en að bætur fyrir tímabundið atvinnutjón vegna líkamstjóns hafi stefndi greitt í samræmi við árslaunaviðmið á meðalvinnutekjur stefnanda þrjú síðustu almanaksár fyrir 12. janúar 2006 ... “. Þetta virðist vera byggt á misskilningi því í yfirliti stefnda Vátryggingafélags Íslands hf. 29. ágúst 2008 kemur fram að þessar bætur hafi byggt á „meðaltali launa árið fyrir slys eða kr. 295.000 á mánuði.“

Dómsorð:

Hinn áfrýjaði dómur er ómerktur og lagt fyrir héraðsdóm að taka málið til munnlegs málflutnings og dómsálagningar á ný.

Málskostnaður fyrir Hæstarétti fellur niður.

Dómur Héraðsdóms Reykjavíkur 4. maí 2009.

Mál þetta, sem dómtekið var 6. apríl 2009, er höfðað fyrir Héraðsdómi Reykjavíkur af Ingjaldi Eiðssyni, kt.[…], Logafold 178, Reykjavík, gegn Vátryggingafélagi Íslands hf., kt. 690689-2009, Ármúla 3, Reykjavík, og Þórólfi Óskarsyni, kt. […], Fáfnisnesi 11, Reykjavík, með stefnu sem birt var 19. nóvember 2007.

Endanlegar dómkröfur stefnanda eru aðallega að stefndu verði in solidum dæmdir til að greiða stefnanda 36.049.422 krónur ásamt 4,5% ársvöxtum af 13.838.791 krónu frá slysdegi, hinn 12. janúar 2006, til stöðugleikatímapunkts 1. maí 2007, en af 35.267.469 krónum frá þeim degi til 1. ágúst 2008, en af stefnufjárhæðinni 36.049.422 krónum frá þeim degi til 1. september 2008, en með dráttarvöxtum af stefnufjárhæðinni samkvæmt 1. mgr. 6. gr. laga nr. 38/2001 frá þeim degi til greiðsludags.  „Allt að frádregnum kr. 150.000, pr. 27.3. 2006, kr. 500.000, pr. 11.5. 2006, kr. 300.000 pr. 28.7. 2006, kr. 5.000.000 pr. 4.10 2006 og kr. 12.570.127 pr. 28.9. 2008 og kr. 240.200 pr. 17.9. 2008.  Auk þess kemur til frádráttar lífeyrisgreiðslur frá Sjúkratryggingastofnun Íslands kr. 860.431 króna mv. 1. maí 2007 og dagpeningar frá Tr. kr. 302.707 pr. 1. maí 2007.“  Til vara að stefndu verði in solidum dæmdir til að greiða stefnanda 33.393.232 krónur ásamt 4,5% ársvöxtum af 11.353.897 krónum frá slysdegi, hinn 12. janúar 2006, til stöðugleikatímapunkts 21. febrúar 2007, en af 32.087.692 krónum frá þeim degi til 1. ágúst 2008, en af stefnufjárhæðinni 33.393.232 krónum frá þeim degi til 1. september 2008, en með dráttarvöxtum af stefnufjárhæðinni samkvæmt 1. mgr. 6. gr. laga nr. 38/2001 frá þeim degi til greiðsludags.  „Allt að frádregnum kr. 150.000, pr. 27.3. 2006, kr. 500.000, pr. 11.5. 2006, kr. 300.000 pr. 28.7. 2006, kr. 5.000.000 pr. 4.10 2006 og kr. 12.570.127 pr. 28.9. 2008 og kr. 240.200 pr. 17.9. 2008.  Auk þess kemur til frádráttar lífeyrisgreiðslur frá Sjúkratryggingastofnun Íslands kr. 872.179 króna mv. 1. mars 2007 og dagpeningar frá Tr. kr. 302.707 pr. 1. maí 2007.“  Til þrautavara að stefndu verði in solidum dæmdir til að greiða stefnanda 30.357.991 krónu ásamt 4,5% ársvöxtum af 11.341.675 krónum frá slysdegi, hinn 12. janúar 2006, til stöðugleikatímapunkts 21. febrúar 2007, en af 29.052.451 krónu frá þeim degi til 1. ágúst 2008, en af stefnufjárhæðinni [30.357.991] krónum frá þeim degi til 1. september 2008, en með dráttarvöxtum af stefnufjárhæðinni samkvæmt 1. mgr. 6. gr. laga nr. 38/2001 frá þeim degi til greiðsludags.  „Allt að frádregnum kr. 150.000, pr. 27.3. 2006, kr. 500.000, pr. 11.5. 2006, kr. 300.000 pr. 28.7. 2006, kr. 5.000.000 pr. 4.10 2006 og kr. 12.570.127 pr. 28.9. 2008 og kr. 240.200 pr. 17.9. 2008.  Auk þess kemur til frádráttar lífeyrisgreiðslur frá Sjúkratryggingastofnun Íslands kr. 872.179 króna mv. 1. mars 2007 og dagpeningar frá Tr. kr. 302.707 pr. 1. maí 2007.“  Til þrautþrautavara að stefndu verði in solidum dæmdir til að greiða stefnanda 26.878.357 krónu ásamt 4,5% ársvöxtum af 11.353.897 krónum frá slysdegi, hinn 12. janúar 2006, til stöðugleikatímapunkts 21. febrúar 2007, en af 25.572.817 krónum frá þeim degi til 1. ágúst 2008, en af stefnufjárhæðinni 26.878.357 krónum frá þeim degi til 1. september 2008, en með dráttarvöxtum af stefnufjárhæðinni samkvæmt 1. mgr. 6. gr. laga nr. 38/2001 frá þeim degi til greiðsludags.  „Allt að frádregnum kr. 150.000, pr. 27.3. 2006, kr. 500.000, pr. 11.5. 2006, kr. 300.000 pr. 28.7. 2006, kr. 5.000.000 pr. 4.10 2006 og kr. 12.570.127 pr. 28.9. 2008 og kr. 240.200 pr. 17.9. 2008.  Auk þess kemur til frádráttar lífeyrisgreiðslur frá Sjúkratryggingastofnun Íslands kr. 872.179 króna mv. 1. mars 2007 og dagpeningar frá Tr. kr. 302.707 pr. 1. maí 2007.“

Þá krefst stefnandi málskostnaðar samkvæmt framlögðu málskostnaðaryfirliti eins og mál þetta væri ekki gjafsóknarmál.

Dómkröfur stefndu eru aðallega að stefndu verði sýknaðir af öllum kröfum stefnanda og tildæmdur málskostnaður að mati dómsins.  Til vara að stefnukröfur verði lækkaðar og málskostnaður felldur niður.

Stutt yfirlit um atvik að baki máli þessu og ágreinisefni í því: Stefndi, Þórólfur Óskarsson, ók að morgni dags, hinn 12. janúar 2006, bifreið sinni ZX-187 suður Rauðarárstíg og varð það á að aka á stefnanda, Ingjald Eiðsson.  Í skýrslu lögreglunnar samdægurs um umferðaróhappið er þess getið að við höggið hafi stefnandi kastast upp á vélarhlíf og framrúðu bifreiðarinnar, sem mun vera Volkswagen Vento, árgerð 1996, fjögurra dyra fólksbifreið, með þeim afleiðingum að framrúðan brotnaði.  Við svo búið hefði stefnandi fallið í götuna með talsverða áverka.  Þá segir í skýrslunni um vettvang og aðkomu lögreglunnar: „Bifreiðin ZX-187 var staðsett á akbrautinni framan við hús nr. 36.  Í hægri vegkanti, hægra megin við ZX-187 var bifreiðin RR-224 og voru aðvörunarljós hennar blikkandi.  Aftan í bifreiðinni RR-224 var tengivagninn, VB-802.  Á tengivagninum voru vökvadæla og steinsög.  Framan við bifreiðina mátti greina tvo litla blóðpolla, en þar mun slasaði hafa legið.  Höfuð slasaða vísaði í vestur átt.  Derhúfa slasaða lá á götunni við vinstra framhjól ZX-187.  Í bifreiðastæði móts við Austurbæjar apótek var 6 kg. gaskútur, gulur að lit.  En vegfarandi mun hafa fært hann þangað eftir óhappið.  Áðurnefndur loki sem slasaði var að vinna við er á miðri akbrautinni.  Er hann 4 metra frá hægri vegkanti.“ Í skýrslunni er einnig m.a. greint er frá því að [stefndi] Þórólfur hafi tjáð lögreglunni að hafa ekið hægum hraða suður Rauðarárstíg er hann skyndilega hefði fundið fyrir höggi á framverðri bifreiðinni.  Hann hafi þá snögghemlað en ekki orðið var við [stefnanda] Ingjald fyrr en við áreksturinn.

Í lögregluskýrslu greinir einnig frá því að lögreglan hafi náð tali af Ingjaldi á slysadeild; orðrétt segir: „Ingjaldur var í rannsókn er við komum en þegar tími gafst til höfðum við af honum tal.  Kvaðst hann muna vel eftir atviki þessu og kvaðst hann hafa verið staddur á miðri akbrautinni og hann hafi verið að vinna við að opna lok sem þarna er á akbrautinni vegna stíflaðs vatnsinntaks.  Var hann að vinna fyrir Orkuveitu Reykjavíkur.  Kvaðst hann hafa haft meðferðis gulan gaskút.  Þar sem hann var að vinna á akbrautinni kvaðst hann skyndilega hafa séð bifreið koma á mikilli ferð suður Rauðarárstíg.  Kvaðst hann ekki hafa náð að bregðast við í tíma og hafi bifreiðin ekið á hann með fyrrgreindum afleiðingum. - Ingjaldur kvaðst hafa verið á bifreiðinni RR-224 og hafði hann lagt henni í hægri vegkanti.  Kvaðst hann hafa kveikt á aðvörunarljósum bifreiðarinnar.“  Um klæðnað Ingjalds er hann slasaðist segir í lögregluskýrslunni að hann hafi verið í svörtum jakka, dökkbláum buxum og dökkblárri skyrtu, með ljósa derhúfu en ekkert endurskin á fatnaði.  Þá er rakin er frásögn vitnis, Júlíusar Þorbergssonar, með eftirfarandi hætti: „Júlíus er eigandi verslunarinnar Draumur hf., Rauðarárstíg 41.  En hann tilkynnti slysið til 112.  Kvaðst hann hafa verið staddur í verslun sinni og verið að fylla á kælinn sem staddur er sunnan megin í búðinni.  Hægra megin við kælinn er gluggi sem vísar til vesturs.  Þar sem hann hafi verið að fylla á kælinn kvaðst hann hafa veitt athygli Ingjaldi þar sem hann var á miðri akbrautinni.  Kvaðst Júlíus hafa séð þegar bifreið sem var ekið suður Rauðarárstíg á litlum hraða hafi ekið á Ingjald.“

Hinn 19. janúar 2006 tók lögreglan sérstaka skýrslu af stefnda, Þórólfi Óskarssyni.  Honum var kynnt vitnaskyldan og ábyrgð í því sambandi.  Jafnframt var honum kynnt ákvæði 51. gr. laga nr. 19/1991.  Þórólfur kvaðst vilja tjá sig um málið og síðan er haft eftir Þórólfi:  „Hann hafi ekið suður Rauðarárstíg á 20 – 30 km/klst.  Hann hafi ekki tekið eftir Ingjaldi fyrr en bifreiðin skall á honum.  Hann hefði séð Ingjald lenda upp á framrúðu, falla síðan framfyrir bílinn og til vinstri.  Kveðst Þórólfur hafa hraðað sér út úr bílnum til að hlú að Ingjaldi.  Þá hefði vegfarandi komið að og segir Þórólfur að hann hafi þá hraðað sér að versluninni Draumurinn til að láta hringja eftir sjúkrabíl.  Verslunarmaðurinn hefði sagt að hann væri búinn að því og segir Þórólfur að hann hafi þá hraðað sér til baka til að hlú að hinum slasaða og einnig til að vara aðra ökumenn við þar sem Ingjaldur lá á akbrautinni. - Þórólfi eru sýndar ljósmyndir sem teknar voru á vettvangi.  Þórólfur kveðst gera athugasemd við mynd nr. 7.  Þar er sýndur gaskútur sem sagt er að Ingjaldur hafi verið með. - Þórólfur kveðst draga mjög í efa að Ingjaldur hafi verið með þennan gaskút, bifreiðin hefði ekki lent á kútnum og hann muni ekki eftir að hafa séð þennan kút úti á götunni, hann muni eftir kútnum það sem kúturinn er sýndur.  Kveðst Þórólfur halda að Ingjaldur hafi ætlað að fara að vinna með gaskútinn austan við götuna. - Þórólfur kveðst einnig draga í efa að Ingjaldur hafi verið að vinna við loka í götunni, það hafi ekki verið sjáanleg nein verkfæri á götunni.  Einnig hafi klæðnaður Ingjalds ekki borið það með sér að hann hafi ætlað að fara að vinna við loka úti á miðri götu.  Ingjaldur hafi verið dökkklæddur, án endurskinsmerkja í lélegri birtu.“

Hinn 20. febrúar 2006 tók lögreglan sérstaka skýrslu af vitninu Júlíusi Þorbergssyni.  Þar segir:  „Júlíus greinir frá því að það hefði verið kolsvarta myrkur og rigning.  Hann hefði verið inni í versluninni Draumurinn og verið að fylla á kælinn og jafnframt verið að fylgjast með umferðinni út um gluggann.  Hann hefði verið búinn að taka eftir jeppa vestan við götuna með kerru.  Hann hefði séð mann koma gangandi á milli kerrunar og bílsins.  Maðurinn hefði gengið hiklaust, líkt og í einhverju hugsunarleysi, út á götuna.  Í sama augnabliki hefði hann séð að bíl var ekið frekar rólega norður Rauðarárstíg og á manninn sem þá var kominn út á götuna.  Segir Júlíus að hann hefði séð manninn kastast frá bílnum og hafna í götunni.  Segir Júlíus að hann hefði strax séð að það var slys og hringt á sjúkrabíl. - Júlíus er spurður hvort hann hefði tekið eftir manninum að vinna í götunni áður en slysið varð.  Júlíus kveðst ekki hafa tekið eftir manninum fyrr en hann sá hann ganga á milli bílsins og kerrunnar. - Júlíus er spurður hvort hann hafi séð hver hafi verið með gulan gaskút sem var á vettvangi.  Júlíus kveðst ekki hafa séð það. - Júlíus er spurður hvort hann geti sagt til um hraðann á bílnum.  Júlíus segir að hann geti ekki sagt nákvæmlega til um það en hann telji að bílnum hafi verið ekið á 20 – 25 km/klst.“

Með beiðni dagsettri 5. mars 2007, fór stefnandi fram á dómkvaðningu matsmanna samkvæmt XII. kafla laga nr. 91/1991.  Beðið var um mat á tilteknum níu atriðum um afleiðingar umferðarslyssins, hinn 12. janúar 2005, fyrir stefnanda.

   Hinn 25. maí 2007 var á dómþingi Ingvar Sveinbjörnsson hrl. og Tómas Zoëga geðlæknir kvaddir til að framkvæma umbeðið mat.  Matsgerð þeirra er dagsett 1. október 2007.  Þar segir undir fyrirsögninni Samantekt:

Í umferðarslysinu 12. janúar 2006 varð Ingjaldur Eiðsson, ..., fyrir alvarlegum áverkum.  Aðaláverkarnir eru bundnir við hægri fót, vinstra herðablað og öxl og loks höfuðáverki.

Ingjaldur hefur gengist undir aðgerðir á hægri fæti og hann er með töluverða áverka í kjölfar slyssins, með verki í fætinum, gönguþol er mjög skert og hann verður að ganga með staf.

Varðandi áverka á vinstra herðablaði og öxl er ljóst að hann er enn með verki eftir slysið sem sjálfsagt er kominn til að vera.  Aðgerð á vinstri öxl gat aukið hreyfifærni hans sem þó enn er aðeins takmörkuð.

Við höfuðáverkann er ljóst að hann hefur fengið beinbrot í framhluta höfuðs.  Ekki greinist alvarleg merki um áfallastreituröskun, en hann er áfram með væg þunglyndiseinkenni.

Gert hefur verið taugasálfræðilegt mat, en niðurstöður þess eru ekki óyggjandi.

Í mati á afleiðingum við höfuðslysið er áberandi að verulegur munur er á afleiðingum slyssins eftir því hvort Ingjaldur talar um það eða ættingjar hans lýsa.  Ingjaldur talar um vægan einbeitingarskort, áhugaleysi, minnkaða tilhlökkun, erfiðleika við ákvarðanatöku, en bæði eiginkona hans og tengdasonur lýsa mun meiri breytingum og þau tala um gjörbreytingar á persónuleika.  Hann hafi breyst frá því að vera mjög virkur einstaklingur með óþrjótandi kraft og frumkvæði í það að vera atkvæðalítill og framtakslítill maður, viðkvæmur og frumkvæðalítill á flestan hátt.

Einkenni þessi geta samrýmst því sem stundum sést við áverka á framhluta heilans, en það eru einkenni sem umhverfið tekur mun meira eftir en einstaklingurinn sjálfur.

Matsmenn telja tímabært að leggja mat á afleiðingar slyssins og telja matsmenn að heilsufar hafi orðið stöðugt 01.05.2007 um það leyti er hann hóf störf að nýju.

Tímabil óvinnufærni að fullu er talið vera frá slysdegi 12.01.2006 til 01.05.2007.  Matsmenn taka ekki afstöðu til þess hvert hafi verið fjártjón.  Matsmenn telja að málsaðilar eigi að semja um það á grundvelli fyrirliggjandi gagna eða ella vísa ágreiningi um það til dómstóls til úrlausnar.

Tímabil þjáninga án rúmlegu telst vera hið sama og tímabil óvinnufærni og þar af telst Ingjaldur vera rúmliggjandi tímabilin 12.01.2006-03.03.2006 og 21.08.2006-25.08.2006 og að auk þess 24.04.2004 er hann var inniliggjandi yfir daginn og 21.11.2006 vegna aðgerðar í vinstri öxl.  Mat á rúmlegu er miðað við þá daga eða tímabil sem hann var inniliggjandi á sjúkrastofnun eða rúmliggjandi vegna aðgerðar.

Við mat á varanlegum miska er miðað við afleiðingar brots á hægri fótlegg, brots á vinstra herðablaði með áverka á vinstri öxl og afleiðingar höfuðáverka.  Varanlegur miski er metinn 45%.

Við mat á varanlegri örorku er litið til aðstæðna tjónþola og afleiðinga slyssins.  Matsmenn hafa metið honum 45% miska vegna alvarlegra áverka.  Hann er fyrrum sjómaður með skipstjórnarréttindi en hafði í mörg ár fyrir slysið unnið sem verktaki hjá Orkuveitu Reykjavíkur.  Mat á starfsgetu er miðað við þann bakgrunn.  Hann hefur nýhafið störf við eftirlit hjá Orkuveitu Reykjavíkur og er ekki komin nein reynsla á starfsgetu hans en hann telur reyndar sjálfur að hann eigi að geta unnið létt eftirlitsstörf.  Matsþoli vinnur síðan 1. maí 2007 “fulla” vinnu hjá Orkuveitu Reykjavíkur.  Um er að ræða tímabundna vinnu en metið verður í haust hvort hann getur fengið áframhaldandi vinnu hjá Orkuveitunni.  Ljóst er að matsþoli er óvinnufær til allra erfiðisstarfa.  Augljóst er að hann getur ekki snúið aftur til starfa líkum þeim sem hann gegndi áður.  Ef Orkuveitan getur haldið áfram að nota reynslu hans eins og hún gerir í sumar gjörbreytir það atvinnumöguleikum matsþola.  Atvinnumöguleikar matsþola utan Orkuveitu virðast sáralitlar.  Með hliðsjón af þessu telja matsmenn rétt að meta honum verulega varanlega örorku og áætla matsmenn að hann hafi í heild rétt rúmlega hálfa starfsorku og er varanleg örorka metin 45%.

Matsmenn telja að metin örorka nái ekki 50% samkvæmt reglugerð nr. 379/1999.

Matsmenn telja að þeir reikningar yfir kostnað sem lagðir hafa verið fram (heimild 21) geti vel komið heim og saman við líklegan sjúkrakostnað fram að batahvörfum en um er að ræða kostnað að fjárhæð kr. 85.668.-  Í því sambandi er þó rétt að taka fram að um getur verið að ræða hærri útlagðan kostnað þar sem ekki er víst að allar nótur vegna sjúkrakostnaðar hafi verið lagðar fram auk þess sem ljóst er að tjónþoli hefur farið margar ferðir í einkabíl í sjúkraþjálfun og í heimsóknir á sjúkrastofnanir.  Varðandi framtíðarsjúkrakostnað taka matsmenn fram að afar erfitt sé að reikna slíkan kostnað.  Þegar um minni slys er að ræða er almennt ekki um að ræða slíkan kostnað þar sem tjónþolar geti haldið við bata með eigin æfingum.  Þegar um alvarlegri slys sé að ræða megi gera ráð fyrir að tjónþoli geti annað slagið haft þörf fyrir sérhæfða meðferð af hálfu sjúkraþjálfara.  Í þessu máli telja matsmenn ekki óraunhæft að ætla að tjónþoli þurfi annað hvert ár að hafa þörf fyrir sérhæfða meðferð sjúkraþjálfara og áætla matsmenn að það geti verið 15 skipti í meðferð annað hvert ár.

Varðandi það hver séu eðlileg viðmiðunarlaun taka matsmenn fram að það geti ekki verið hlutverk dómkvaddra matamanna að svara til um það.  Um sé að ræða máefni sem málsaðilar komi sér saman um eða vísi ella til dómstóls til úrlausnar.

Undir fyrirsögninni Afstaða til matsspurninga sbr. bréf frá 2007 segir að lokum í matsgerðinni:

1.                       Líkamlegir annmarkar eru samkvæmt gögnum og skoðun aðallega bundnar við hægri fót og vinstri öxl.  Nákvæmar lýsingar á þeim áverkum liggja fyrir.  Skoðun matsmanna er að matsþoli hafi breytingar á starfsemi framheila við slysið.  Auk þunglyndiseinkenna eru aðrar breytingar á matsþola, sem aðrir verða meira varir við en matsþoli sjálfur.

2.                       Stöðugleikapunkti er náð 1. maí 2007 en þá hefur matsþoli störf hjá Orkuveitu Reykjavíkur.

3.                       Tímabil óvinnufærni er 100% tímabilið 12.01.2006-01.05.2007.

4.                       Sama og tímabil óvinnufærni og þar af rúmliggjandi 12.01.2006-03.03.2006, 24.04.2006, 21.08.2006-25.08.2006 og 21.11.2006.

5.                       Varanlegur miski er 45%

6.                       Varanleg örorka er 45%

7.                       Örorka nær ekki 50% skv. reglugerð nr. 379/1999.

8.                       Sjá samantekt

9.                       Sjá samantekt.

Af hálfu stefnda, Vátryggingafélagi Íslands hf., var með bréfi, dagsettu 15. október 2007, beðið um dómkvaðningu yfirmatsmanna til að meta hvort og þá að hvaða marki matsþoli, Ingjaldur Eiðsson, hafi orðið fyrir líkamstjóni sem rekja mætti til slysins 12. janúar 2006.  Nánar tiltekið var óskað eftir mati á tilteknum sex atriðum.

Á dómþingi, hinn 30. nóvember 2007, voru þau Áslaug Björgvinsdóttir lögfræðingur, Ágúst Kárason bæklunarlæknir og Kristinn Tómasson geðlæknir kvödd til að framkvæma hið umbeðna mat.  Matsgerðin er dagsett 30. maí 2008.  Undir fyrirsögninni Afstaða til matsefnis segir:

1.               Almennar læknisfræðilegar ályktanir um afleiðingar slyssins 12. janúar 2006

Matsþoli var frískur og hraustur þegar hann lenti [í] slysinu þann 12.01.2006 þegar bifreið ók á hann þar sem hann var við störf sín fyrir Orkuveituna.

Við slysið fékk matsþoli opið kurlað beinbrot á hægri sköflungi og kurlbrot í vinstra herðablaði inn að vinstri axlarlið.  Þá kom sprunga í höfuðkúpubotn yfir vinstri augntóft og fékk hann mar við augu (glóðaraugu) og skurð á vinstri augabrún auk skráma og marbletta.

Brotið á fótlegg var neglt en gróandi varð lélegur fyrst í stað auk þess sem brot í vinstri herðablaði hamlaði mjög hreyfigetu.  Gera þurfti tvær aðrar aðgerðir á sköflungsbrotinu þann 24.04.2006 og þann 21.08.2006 til þess aðbrotið næði að gróa.  Eftir situr hins vegar stirðleiki í hægri ökkla auk þess sem hann stingur við og þreytist verulega við gang vegna verkja í sköflungi líklegast vegna örmyndunar.

Varðandi vinstri öxlina var framkvæmd aðgerð þann 21.11.2006 til að bæta liðleika í öxlinni og minnka verki.  Þó matsþoli sé fær um flestar athafnir daglegs lífs þá getur hann illa unnið upp fyrir sig eða beitt öxlinni með álagi vegna stirðleika í henni, minnkaðrar hreyfigetu og minnkað krafts.  Hann hefur verið í virkri sjúkraþjálfun vegna einkenna og óþæginda frá hægri ganglim og vinstri öxl.

Varðandi höfuðáverkann og það álitaefni hvort matsþoli hafi hlotið heilaskaða er rétt að horfa til þess að í lögregluskýrslu kemur fram að matsþoli muni vel eftir atvikum.  Hann lýsir því að hann hafi verið að vinna við að opna lok á akbrautinni vegna stíflaðs vatnsinntaks.  Hann hafi skyndileg séð bifreið koma á mikilli ferð suður Rauðarárstíg og hann hafi ekki náð að bregðast við með fyrrgreindum afleiðingum.  Þá skiptir einnig máli að því er lýst að hann hafi verið fulláttaður við skoðun læknis á slysadeild.  Segulómun af heila sýnir engin áverkamerki á heila og taugasálfræðileg próf gefa ekki óyggjandi vísbendingu um að hann hafi fengið heilaáverka.  Ættingjar matsþola lýsa hins vegar verulegum breytingum á honum þó að persónan sé sú sama, þá sé frumkvæði matsþola minna og hann sinnulítill.  Hann sé ekki lengur leiðtogi fjölskyldunnar.  Matsþoli fékk eftir slysið endurupplifanir sem hann síðar náði að bæla niður en samhliða einangrun sem fylgdi slysinu ber á vaxandi depurð og leiða.  Erfiðleikum við ákvörðunartöku, einbeitingar örðugleikum og öðrum þunglyndiseinkennum er lýst bæði í taugasálfræðilega matinu sem og í mati Tómasar Zoëga og Ingvars Sveinbjörnssonar.

Í ljósi fyrstu skoðuna á matsþola eftir slysið og lýsingum hans sjálfs verður að ætla að hann hafi fengið heilahristing við slysið samfara broti á höfuðkúpu.  Hins vegar er eins og áður sagði segulómun af höfði eðlileg, taugasálfræðileg próf er ekki afgerandi um heilaskaða og klínísk skoðun Tómasar Zoëga og Marinós Hafstein bendir ekki til þess að hann hafi fengið beinan skaða á heilavef.

Framangreindar skoðanir og möt sem og eigin lýsing matsþola benda eindregið til þess að hann hafi fengið þunglyndi í kjölfar þeirrar skerðingar á líkamlegri getu sem hann hlaut eftir slysið og viðvarandi verkja.  Þunglyndi getur vel skýrt frumkvæðisskort, einbeitingarerfiðleika sem lýsa sér í minnistruflunum auk annarra geðeinkenna sem hann lýsir.

Matsþoli hefur leitað sér kerfisbundið aðstoðar vegna líkamlegra einkenna en ekki vegna þunglyndiseinkenna.  Ljóst er að þunglyndiseinkenni sem hann hefur í dag hamla að nokkru getu hans auk þess sem þau skerða lífsgæði hans verulega.  Gera má ráð fyrir að með kerfisbundinni meðferð eða með tímanum þá lagist þessi einkenni verulega, þó svo að geðheilsa hans verði alltaf eitthvað viðkvæmari fyrir en áður var, m.a. vegna viðvarandi verkjasögu og skerðingar á líkamlegri færni.

2.               Stöðugleikatímamark

Í matsbeiðni er óskað mats á því hvenær heilsufar matsþola hafi orðið stöðugt vegna afleiðinga slyssins þann 12. janúar 2006.  Samkvæmt 3. gr. skaðabótalaga skulu bætur fyrir þjáningar miðaðar við tímann frá því að tjón varð þar til heilsufar tjónþola er orðið stöðugt.  Mat á því hvenær heilsufar telst stöðugt er m.ö.o. læknisfræðilegt mat á því hvenær varanlegar afleiðingar tjóns hafa tekið við af þeim tímabundnu, nánar tiltekið þegar ekki er að vænta frekari bata, og þá almennt að lokinni læknismeðferð og endurhæfingu.  Matsþoli fór í aðgerð á vinstri öxl þann 21.11.2006 og hefur eftir að hann jafnaði sig á þeirri aðgerð búið við stöðugt ferli.  Í ljósi eðlis áverkanna og einkenna matsþola er það niðurstaða matsmanna að heilsufar matsþola hafi verið orðið stöðugt þann 21.02.2007.

3.               Tímabundin óvinnufærni

Þá er óskað svars við því hversu lengi matsþoli hafi verið óvinnufær vegna afleiðinga umferðarslyssins þann 12. janúar 2006.  Ákvæði 2. gr. skaðabótalaga, sbr. 1. gr. laga nr. 37/1999, hefur að geyma reglu um ákvörðun bóta fyrir tímabundið atvinnutjón, þ.e. bætur til handa tjónþola vegna tímabundins missis launatekna af völdum líkamstjóns.  Í ákvæðinu segir að ákveða skuli bætur fyrir atvinnutjón fyrir tímann frá því að tjón varð þangað til tjónþoli getur hafið vinnu að nýju eða þar til heilsufar hans er orðið stöðugt.  Samkvæmt ákvæðinu er um tvo mögulega tímapunkta að ræða varðandi lok réttar til bóta vegna tímabundins atvinnutjóns, þ.e. annars vegar tímamarkið þegar tjónþoli getur byrjað aftur starf að verulegu leyti í sama mæli og áður og hins vegar þegar heilsufar hans telst hafi verið orðið stöðugt, sem venjulega myndi teljast það tímamark þegar svo er komið að áliti lækna að ólíklegt sé að tjónþoli læknist frekar af afleiðingum líkamstjóns, eins og það er orðað í greinargerð með frumvarpi að skaðabótalögum.  Það er niðurstaða matsmanna að miða eigi tímabundna óvinnufærin matsþola við það þegar heilsufar hans telst hafa orðið stöðugt, þ.e. frá 12.1.2006 til 21.02. 2007, enda ljóst að fyrir þann tíma var ekki um það að ræða að hann gæti hafið vinnu að nýju.

4.               Þjáningatímabil

Samkvæmt 3. gr. skaðabótalaga nr. 50/1993, sbr. lög nr. 37/1999, skal greiða þjáningabætur fyrir tímabilið frá því að tjón varð þar tilheilsufar tjónþola er orðið stöðugt.  Sikilyrði bóta er að tjónþoli sé veikur, þar sem greint er á milli veikinda þar sem tjónþoli er rúmfastur og veikindi án rúmlegu, en samkvæmt 2. málslið ákvæðisins er heimilt að greiða þjáningabætur þegar sérstaklega stendur á, þótt tjónþoli sé vinnufær.  Í ljósi áverkanna sem [tjónþoli] hlaut í slysinu og þeim læknisfræðilegu gögnum sem fyrir liggja um líðan hans og dvöl á sjúkrahúsi eftir slys telja matsmenn rétt að miða þjáningatímabil [tjónþola] það sama og óvinnufærni [hans] eða til 21.02.2007, þar af rúmliggjandi í fjóra mánuði.

5.               Varanlegur miski

Samkvæmt 4. gr. skaðabótalaga nr. 50/1993 er varanlegur miski metinn út frá læknisfræðilegu sjónarmiði og til þess litið, hversu miklum erfiðleikum tiltekið tjón veldur í lífi tjónþolans.  Miða á við heilsufar tjónþola þegar það er orðið stöðugt.  Um er að ræða almennt mat í þeim skilningi að sambærileg meiðsl eiga almennt að leiða til sama miskastigs hjá tveimur eða fleiri einstaklingum, enda þótt svigrúm sé til frávika þegar sérstakar aðstæður eru fyrir hendi.

Örorkunefnd hefur samið töflur, þar sem miskastig vegna ýmiss konar líkamstjóns er metið með almennum hætti.  Hafa töflur þessar verulegt gildi til leiðbeiningar við mat á varanlegum miska einstakra tjónþola, þótt ekki séu þær bindandi og heldur ekki tæmandi.  Hér er byggt á töflum þessum að því marki sem unnt er, en ella reynt að draga af þeim ályktanir um meginstefnu.  Sé það ekki hægt er leitast við að haga mati þannig, að samræmi sé í því og miskastigum samkvæmt töflunum.

Við mat á miska leggja matsmenn til grundvallar meiri háttar áverka á hægri sköflung og talsverðan áverka [á] hægri öxl af völdum slyssins þann 12. janúar [2006] sem munu valda langtíma skerðingu.  Skerðingin fyrir matsþola er fyrst og fremst fólgin í að allur þungur burður er illmögulegur eftir slysið og hreyfingar upp fyrir axlarhæð eru takmarkaðar.  Þá er göngugeta og álagsþol á ganglim verulega skert.  Einnig verður að horfa til þess að matsþoli býr í dag við þunglyndi sem matsmenn telja að verði rakið til afleiðinga slyssins.  Geðrænu einkennin lýsa sér m.a. sem skortur á frumkvæði, einbeitingarörðugleikum og minnisvandræðum auk lækkaðs geðslags.  Matsmenn gera ráð fyrir að geðrænu einkennin geti batnað verulega með meðferð en telja þó ljóst að matsþoli muni þrátt fyrir það vera talsvert viðkvæmari fyrir en áður.

Samkvæmt framanrituðu telja matsmenn, að varanlegur miski matsbeiðanda, sbr. 4. gr. skaðbótalaga, sé réttilega metinn 35 stig – 35%.

6.               Varanleg örorka

Samkvæmt 1. og 2. mgr. 5. gr. skaðabótalaga á tjónþoli rétt á bótum fyrir varanlega örorku sökum líkamstjóns, eftir að heilsufar hans er orðið stöðugt, valdi tjónið varanlegri skerðingu á getu til að afla vinnutekna.  Við mat á tjóni vegna þeirrar örorku skal líta til þeirra kosta, sem tjónþoli á til að afla sér tekna með vinnu, og sanngjarnt er að ætlast til að hann starfi við.  Hér þarf með öðrum orðum að leysa úr því hvaða afleiðinga viðkomandi líkamstjón muni hafa á tekjumöguleika tjónþolans sem um ræðir í framtíðinni og matið er algerlaga einstaklingsbundið.  Matið snýst um það að áætla, á grundvelli fyrirliggjandi gagna og rökstuddrar spár um framtíð tjónþolans, hver sé varanleg skerðing á getu hans til að afla launatekna í framtíðinni vegna hlutaðeigandi tjóns  - eða, að öðrum kosti, að staðreina að ekki sé um þess háttar skerðingu að ræða.  Nánar tiltekið að leitast við að meta hver orðið hefði framvinda í lífi tjónþolans, ef líkamstjónið hefði ekki orðið, og hins vegar að spá fyrir um hvernig líklegt sé að framtíð hans verði í kjölfar líkamstjónsins.  Hér þarf m.a. að skoða félagslega stöðu tjónþola, aldur hans, atvinnu- og tekjusögu, menntun, heilsufar, eðli líkamstjónsins og varanleg áhrif þess auk þess sem meta þarf möguleg starfstækifæri tjónþola.  Jafnframt ber að gæta þess, að samkvæmt grunnreglum skaðabótaréttar hvílir sú skylda á tjónþola að takmarka tjón sitt eins og unnt er að ætlast til af honum miðað við aðstæður.

Matsþoli hefur leitað [til] lækna og gengist undir sérstakar aðgerðir eftir slysið auk þess sem hann hefur borið sig eftir nýju og léttara starfi hjá fyrri vinnuveitanda og síðar verkakaupa, Orkuveitu Reykjavíkur, eftir að hann sá sig tilneyddan að selja fyrirtæki sitt sem hann hafði áður haft að lífsviðurværi að starfa við.  Það er því álit matsmanna að matsþoli hafi sinnt þeirri skyldu sinni að mestu að leitast við að takmarka tjón sitt.

Þegar matsþoli varð fyrir umferðarslysinu þann 12. janúar 2006 var hann tæplega fimmtíu og fimm ára.  Hann er lærður stýrimaður og var á sjó til ársins 1976 þegar hann hóf störf hjá Orkuveitu Reykjavíkur við jarðvinnu og vinnuvélastörf, s.s. á gröfum og loftpressum.  Allt bendir til, að matsþoli hafi haft gott starfsþrek áður en slysið varð og hafi búið við góða heilsu síðustu árin fyrir slysið.  Með tilliti til þess og starfsferils matsþola verður að ætla að matsþoli hefði rekið verktakafyrirtækið, Veituverk ehf., til loka starfsævinnar, en vegna afleiðinga slyssins sá hann sig tilneyddan til að selja fyrirtækið... .  Þannig má segja að afleiðingar slyssins hafi leitt til þess að fótunum var kippt undan matsþola hvað fyrri starfsgrundvöll varðar.

Þegar horft er til menntunar og einhæfrar starfsreynslu matsþola er ljóst að framangreindur miski matsþola af völdum slyssins þann 12. janúar 2006 hefur skert starfs- og tekjuöflunarmöguleika hans verulega þar sem hann býr ekki lengur yfir því líkamlega atgervi og úthaldi sem þau störf sem hann hefur menntun og reynslu af krefjast.  Matsþoli getur að vísu talist fær um að sinna léttari störfum, s.s. á skrifstofu og eftirlitstörfum, en í raun telja matsmenn að fyrir matsþola komi einungis til greina tiltölulega létt hlutastörf.  Það álit matsmanna að slysið hafi verulega dregið úr raunverulegum möguleikum matsþola á starfsvali í framtíðinni.

Enda þótt matsþoli hafi nú í ár sinnt 100% starfi hjá Orkuveitu Reykjavíkur verður að ætla að matsþoli hafi í raun fyrst og fremst boðist umrætt starf hjá Orkuveitunni vegna velvildar og til reynslu enda er starf hans til athugunar eins og fram kemur í starfslýsingu deildarstjóra garðyrkjudeildar Orkuveitunnar frá 4. mars 2008.  Matþoli hefur látið í ljós skýran vilja til að minnka við sig starfshlutfall og í ljósi framangreindra einkenna sem matsþoli býr við vegna afleiðinga slyssins verður að telja það eðlilega ákvörðun í ljósi einkennanna sem hann býr við af völdum slyssins.  Það er álit matsmanna að matsþoli muni ekki öðlast líkamlegt og andlegt þrek til þess á komandi árum að stunda neitt starf í fullu starfshlutfalli.

Að teknu tilliti til framanritaðs telja matsmenn að slysið sem matsbeiðandi varð fyrir þann 12. janúar 2006 hafi leitt til þess að hann hafi glatað tæplega helmingi af starfsgetu sinni.  Að öllum gögnum virtum og með tilliti til aldurs matsbeiðanda, eðli áverkans, menntunar, starfsreynslu og framtíðaráætlana ásamt með tjónstakmörkunarskyldu og sanngirniskröfu telja matsmenn rétt að meta varanlega örorku matsbeiðanda 45%.

7.               Örorka samkvæmt lögum um almannatryggingar

Í matsbeiðni er loks óskað eftir því að matsmenn leggi mat á það hvort örorka matsþola vegna slyssins þann 12. janúar 2006 náði 75% örorku samkvæmt staðli reglugerðar nr. 379/1999, sbr. lög um almannatryggingar nr. 117/1993.  Ef því sé svarða neitandi er spurt hvort örorka nái 50% örorku samkvæmt staðlinum.

Fyrri hluti staðalsins fjallar um líkamlega færni og þarf að fá 15 stig samanlagt til að teljast a.m.k. 75% öryrki.  Í þeim hluta eru 14 þættir.  Gefin eru stig fyrir eitt atriði í hverjum þætti og þau síðan lögð saman.  Þó eru ekki gefin stig bæði fyrir þættina „að ganga á jafnsléttu“ og „að ganga í stiga“, heldur er valinn sá þáttur sem gefur fleiri stig.  Síðari hluti staðalsins lýtur að andlegri færni.  Þá leggjast öll stig saman og þarf 10 stig til að teljast a.m.k. 75% öryrki.  Nái umsækjandi ekki tilskildum stigafjölda í öðrum hluta staðalsins, getur hann samt verið metinn a.m.k. 75% öryrki, nái hann a.m.k. 6 stigum í hvorum hluta staðalsins.

Það er niðurstaða matsmanna að gera megi ráð fyrir að örorka matsþola yrði metin 75% samkvæmt staðli reglugerðar nr. 378/1999, sbr. lög um almannatryggingar nr. 117/1993.

Niðurstaða matsmanna var í stuttu máli þessi:  Heilsufar matsþola varð stöðugt hinn 21. febrúar 2007; tímabundið atvinnutjón var frá 12. janúar 2006 til 21. febrúar 2007; þjáningartímabilið frá 12. janúar 2006 til 21. febrúar 2007; varanlegur miski 35%; varanleg örorka 45%.  Þá var niðurstaða matsmanna að gera mætti ráð fyrir að örorka matsþola yrði metin 75% samkvæmt staðli reglugerðar nr. 379/1999, sbr. lög um almannatryggingar nr. 117/1993.

Aðila greinir á um hvort stefndi, Vátryggingafélag Íslands hf. hafi greitt stefnda fullar bætur eða ekki.

Helstu málsástæður stefnanda og réttarheimildir er hann byggir á:  Stefnandi byggir á því að hafa ekki fengið fullar bætur vegna líkamstjóns er hann varð fyrir er stefndi, Þórólfur Óskarsson, ók bifreið sinni YP-557 á hann, hinn 12. janúar 2006, en bifreiðin var tryggð ábyrgðartryggingu hjá stefnda, Vátryggingafélagi Íslands hf.  Einnig er reist á því að Þórólfur hafi sýnt af sér stórkostlegt gáleysi umrætt sinn.  Um réttarheimildir vísar stefnandi til 88. gr. umferðalaga nr. 50/1987, 3. mgr. 90. gr. sömu laga, sbr. 91. gr. og 1. mgr. 95. gr. sömu laga, sbr. og 97. gr.  Þá er byggt á reglugerð nr. 392/2003, 26. gr. skaðabótalaga nr. 50/1993 og 48. gr. laga um vátryggingarsamninga nr. 30/2004, sbr. dskj. nr. 58, sem er kröfubréf stefnanda frá 4. október 2007.  Einnig er skírskotað til 1. til og með 7. gr. skaðabótalaga og til meginreglana sakaðbótaréttar um fullar bætur.  Þá er vísað til 12. gr. og til 5. tl. 1. mgr. 26. gr. laga um vátryggingastarfsemi nr. 60/1994, sem og til ákvæða laganna um aðild íslenskra tryggingafélaga að markmiðum þeim sem sett hafi verið með ökutækjatilskipununum EBE (sic.). „Þá skírskotar stefnandi til lagaáskilnaðarreglunnar (lögmætisreglunnar) og tilgangs- og lagasamræmisskýringa EBE-réttar og til fordæma Mannréttindadómstóla Evrópu í því sambandi.  Einnig er vísað til ökutækjatilskipana EBE.“

Stefnandi greinir nánar frá bótakröfu sinni með eftirfarandi hætti:

a.                        Aðalkrafa stefnanda er byggð á mati dómkvaddra undirmatsmanna frá 1. október 2007 á dómskjali nr. 57, þe. Undirmatsgerð málsins. Samkvæmt undirmatsgerðinni er stöðugleikatímapunktur 1. maí 2007.  Miskastig vegna áverkanna er 45 stig.

1. Miskabætur: 6.658.135 x45 stig

2.996.160 kr.

2.  Bætur f. varanl. örorku: 7.068.400x6,330x330x45%

20.134.337 kr.

3.Tímabundinörorka

8.246.462 kr.

4. Þjáningabætur

596.169 kr.

5.  Annað fjártjón og sjúkrakostnaður:

      Kostnaðurm v. 1.maí 2007

523.587 kr.

      Kostnaður e. 2. maí 2007

781.953 kr.

6. Framtíðar sjúkrakostnaður:

770.754 kr.

7. Bætur skv. 26. grein skbl.

2.000.000 kr.

Samtals krafa

36.049.422 kr.

1.        Miskabætur.  Byggt er á ákvæðum 15. greinar laga nr. 50/1993, þ.e. þegar miskabótakrafan er ákveðin með undirmatinu, þann 1. okt. 2007, 4.000.000 x lánskjaravst. í október 2007, þe. 5463, deilt með lánskjaravísitölu í júlí 1993, 5463/3282=6.658.135.

2.        Varanleg örorka er 45% skv. undirmatinu.  Stefnandi byggir viðmiðunarlaun sín á mati dómkvaddra matsmanna, Magnúsar Thoroddsen, hrl. og Vigfúsar Ásgeirssonar, tryggingastærðfræðings, frá 26. maí, dómskjal nr. 73, bls 5, en þar meta þeir svo að tekjur stefnanda þrjú ár fyrir slysið hafi verið á verðlagi á stöðugleikatímapunkti, 1. maí 2007: Kr. 7.310.995 árið 2003, kr. 6.558.455 árið 2004 og kr. 6.135.454 árið 2005.  Meðaltekjur eru því 6.668.301 króna.  Að viðbættu 6% iðgjaldi í lífeyrissjóð 7.068.400 krónur.  Stuðull miðað við aldur á stöðugleikapunkti, en þá var stefnandi 56 ára og rúmlega tveggja mánaða gamall, er settur 6,330.

3.        Bætur fyrir tímabundna örorku:  Stefnandi miðar við meðallaun sín þrjú ár fyrir slys, samanber hér að ofan 7.068.400/12=589.033 á mánuði.  Hann hafi verið óvinnufær skv. undirmatinu í 15 mánuði og 18 daga, þe. frá 12. jan 2006 til 1. maí 2007.  Frá þessu tímabili dregur stefnandi einn mánuð og 18 daga, þar sem hann starfaði einn í félaginu, þannig er reiknað með einum og hálfum mánuði sumarleyfi.  Reiknast krafan því þannig 589.033x14=8.246.462.

4.        Þjáningabætur.  Skv. undirmati er þjáningatímabil frá slysdegi 12. janúar 2006 til 1. maí 200[7] eða alls 468 dagar.  Þar af eru 51 dagur sem stefnandi er rúmliggjandi (468-51=417).  Þannig reiknað, án rúmlegu 700 x 5463/3282=1.165x417=485.805 og rúmliggjandi 51x1.300x5463/3282 eða 2.164x51=110.364.  Alls þjáningabætur 596.169 krónur.

5.        Annað fjártjón og sjúkrakostnaður:  Samkvæmt niðurstöðu dómkvaddra matsmanna, Vigfúsar Ásgeirssonar, tryggingastærðfræðings og Guðrúnar Karlsdóttur, endurhæfingarlæknis, sjúkrakostnaður og annað fjártjón stefnanda samtals að fjárhæð 1.305.540 krónur, þar af falla 523.587 krónur fyrir 1. maí 2007 og eftir það fram að matsgerð 781.953 krónur.

6.        Framtíðarsjúkrakostnaður:  Þessi krafa er byggð á ofangreindu mati þeirra Vigfúsar og Guðrúnar, en þau meta framtíðarsjúkrakostnað mv. 1. maí 2007 að fjárhæð 770.754 krónur.

b. 1. varakrafa er byggð á yfirmatinu og stöðugleikatímapunkt yfirmats, þann 21. febrúar 2007, sem hefur áhrif á aðra bótaþætti einnig, sbr. tölulega útlistun hér að neðan.

1. Miskabætur: 6.988.421 x 35 stig

2.455.947 kr.

2.  Bætur f varanl. örorku: 6.965.846x6,371x45%

19.970.073 kr.

3.Tímabundin örorka

6.385.500 kr

4. Þjáningabætur

522.450 kr.

5. Annað fjártjón og sjúkrakostnaður:

1.305.540 kr.

6. Framtíðar sjúkrakostnaður

763.722 kr.

7. bætur skv. 26. greinskbl.

2.000.000 kr

Samtals 1. varakrafa

33.393.232 kr.

1. varakrafa, töluleg útlistun

  1. Bætur fyrir miska eru miðaðar við útgáfu yfirmatsins í maí 2008, en þá var lánskjaravist. 5734, þannig : 4.000.000x5734/2382=6.988.421.
  2. Viðmiðunarlaun eru þau sömu [og] í aðalkröfu, fyrir utan að launin eru nú uppfærð til 21. febrúar 2007, sbr. útreikninga Vigfúsar Ásgeirssonar frá 17. mars 2007, þannig: Árið 2003, kr. 7.204.871, árið 2004 kr. 6.463.255 og árið 2005 kr. 6.046.394.  Meðaltekjur 6.571.553.  Að viðbættu iðgjaldi í lífeyrissjóð 6% samtals kr. 6.965.846.  Miðað er við stuðulinn 6,371.
  3. Tímabundin örorka.  Skv. yfirmati frá 12.1.2006 til 21.2.2007 eða 369 dagar eða 12 mánuðir og 9 dagar.  Reiknast tjón stefnanda vegna tímabundinnar örorku þannig:  Meðallaun 3 ár fyrir slys 6.965.846 eða á mánuði=580.500x11=6.385.500.
  4. Þjáningabætur sbr. dskj. nr. 75.
  5. Annað fjártjón og sjúkrakostnaður.  Sjá útreikninga Vigfúsar Ásgeirssonar frá 17. mars 2009.
  6. Framtíðarsjúkrakostnaður.  Sjá útreikninga Vigfúsar Ásgeirssonar frá 17. mars 2008, mv. 21.2.2007 kr. 763.722.

c. 2. varakrafa er að öllu leyti eins og 1. varakrafa nema launaviðmið er byggt á metnum framtíðarlaunum sbr. 3. mgr. 7. greinar skaðabótalaga.

1.Miskabætur:6.988.421x35stig

2.455.947 kr.

2.  Bætur f. varanl. örorku: 5.906.916x6,371x45%

16.934.832 kr.

3.Tímabundin örorka

6.385.500 kr.

4. Þjáningabætur

522.450 kr.

5. Annað fjártjón og sjúkrakostnaður:

1.305.540   1

6. Framtíðar sjúkrakostnaður:

763.722 kr.

7. Bætur skv. 26.grein skbl.

2.000.000 kr.

Samtals 2. varakrafa

30.357.991 kr.

d. 2. varakrafa er byggð eins og 1. varakrafa að því frátöldu, að miðað er við framtíðarlaun skv. mati þeirra Vigfúsar Ásgeirssonar og Magnúsar Thoroddsen, hrl. frá „á verðlagi 21. Febrúar 2007.“  Byggt er á 3. mgr. 7. greinar skbl.

Viðmiðunarlaun reiknast þannig:

5.572.563x106%=5.906.916

e. 3. varakrafa.  Fylgt er útreikningum stefndu í greinargerð þeirra hvað viðkemur miska, þjáningabótum og varanlegri örorku, sbr. dskj. nr. 75, aðrir liðir eru eins og í 2. varakröfu.

1.  Miskabætur:

2.433.725 kr.

2.Bætur f .varanl. örorku:

13.467.420 kr.

3.Tímabundin örorka

6.385.500 kr.

4. Þjáningabætur

522.450 kr.

5. Annað fjártjón og sjúkrakostnaður:

1.305.540 kr.

6.Framtíðar sjúkrakostnaður:

763.722 kr.

7. Bætur skv. 26. greinskbl.

2.000.000 kr.

Samtals 3. varakrafa

26.878.357 kr.

d.  Ársvaxtakrafan er samkvæmt 1. mgr. 16. greinar skbl. sem kveður á um að vextir reiknist af þjáningabótum, miska og atvinnutjóni frá því slysið varð, að öðru leyti reiknast vextir frá stöðugleikapunkti.  Miski kr. 2.996.160+tímabundið atvinnutjón kr. 8.246.462+þjáningabætur kr. 596.169+bætur skv. 26.  Grein 2.000.000 = 13.838.791.  Af eftirtöldu bótaþáttum reiknast vextir frá stöðugleikapunkti bótum fyrir varanlega örorku kr. 20.134.337+bætur f.  Annað fjártjón og sjúkrakostnaður kr. 523.587 + framtíðarsjúkrakostnaður kr. 770.754=21.428.678 (13.838.791 + 21.428678=35.267.469).  Þá er reiknaðir vextir af öðru fjártjóni og sjúkrakostnaði að fjárhæð kr. 781.953 frá 1. ágúst (30. júlí 2008).  Dráttarvaxtakrafa er gerð frá 1. september 2008, en þá hafi hið stefnda félag haft í höndum allar upplýsingar um bótakröfu stefnanda.  Varakröfur eru settar fram á sama hátt, en með öðrum fjárhæðum.

e.  Innágreiðslur eru tilgreindar í stefnu.  Auk þeirra greiðslna sem þar eru tilgreindar greiddi hið stefnda félag inná kröfuna eins og tilgreint er á dómskjali 75, inn á bótakröfuna 11.871.891 krónu, þar af voru 666.938 krónur lögmannsþóknun + vaskur 163.400, samtals 830.338.  Er sú fjárhæð tekin inná lögmannsþóknun sbr. málskostnaðarreikning, en 11.041.553 til frádráttar bótakröfunni + 1.528.574 inná tímabundið tekjutjón, samtals er tekið til frádráttar (11.041.553+1.528.574) 12.570.127, þann 29.8. 2008.  Þann 17.9. 2008 greiddi hin stefnda félag síðan 240.200 inná kröfuna og er þessi fjárhæð tekin til frádráttar mv. þann dag.

Þá hefur komið í ljós að Ingjaldur á rétt á lífeyrisgreiðslum frá Sjúkratryggingum Íslands sem reiknast til frádráttar skv. útreikningum Vigfúsar Ásgeirssonar kr. 302.707 frá Tr.

Helstu málsástæður stefndu og réttarheimildir er þau byggja á:  Stefndu byggja á því að tjón stefnanda vegna umferðaslyssins, hinn 12. janúar 2006, hafi verið bætt að fullu.  Uppgjörið er sundurliðað þannig:

Samkvæmt yfirmatsgerð var varanlegur miski metinn 35%.  Til samræmis við þá niðurstöðu var greitt til stefnanda 2.433.725 krónur (6.953.500 * 35%).  Telja stefndu að það sé í samræmi við [upphaflega] kröfugerð stefnanda að því breyttu að yfirmat lækkaði varanlegan miska úr 45% í 35%.

Samkvæmt yfirmatsgerð var varanleg örorka metin 45%.  Árslaunaviðmið stefndu taka mið af meðaltekjum stefnanda sl. 3. ár fyrir slys skv. reiknuðu endurgjaldi og tekjum stefnanda á mánuði að viðbættu 6% framlagi í lífeyrissjóð eða kr. 295.00 á mánuði.  Til samræmis við þá niðurstöðu var greitt til stefnanda 13.467.420 krónur (4.697.473* 6,37100* 45%).  Telja stefndu að það sé í samræmi við [upphaflega] kröfugerð stefnanda að því breyttu að stefndu hafna alfarið árslaunaviðmiði stefnanda sem röngu, ósönnuðu og vanreifuðu í stefnu.

Bætur fyrir tímabundna örorku greiða stefndu til samræmis við árslaunaviðmið, sbr. rökstuðning vegna varanlegrar örorku, kr. 3.970.000 (295.000* 13,46 mánuði), en frá því dregst réttur stefnanda til dagpeninga frá TR, kr. 302.707 (1.117*271) og réttur hans til veikindalauna frá vinnuveitanda í fjóra mánuði, kr. 1.290.000 (295*4), samtals voru því greiddar kr. 2.377.993.  Telja stefndu að það sé í samræmi við [upphaflega] kröfugerð stefnanda að því breyttu að stefndu hafna alfarið árslaunaviðmiði stefnanda sem röngu, ósönnuðu og vanreifuðu í stefnu.  Hafna stefndu dskj. 73, sem er mat á tekjum og framtíðartekjum stefnanda algerlega.  Í fyrsta lagi er engin stoð fyrir því í skaðabótalögum að miða við matskenndar framtíðartekjur, heldur er tekjuviðmiðið og aðferðin við að finna það lögbundið í 7. gr. laganna og í öðru lagi er forsendum matsins þar sem teknar eru inn söluhagnaður af fyrirtæki og öðru harðlega hafnað sem sjónarmiði um framtíðartekjur, enda hljóti söluhagnaður að vera einskiptishagnaður, því varla selur stefnandi fyrirtækið á hverju ári!

Stefndu telja reyndar að stefnandi hljóti að verða að breyta kröfugerð sinni hvað varðar tekjuviðmið, ætli hann sér að halda þessari málsástæðu til streitu.  Áskilja stefndu sér því allan rétt til þess að leggja fram bókanir og mótmæla slíkum kröfum sem og hafa uppi allar málsástæður þeim til varnar þar sem óvíst er hvernig þeim muni verða háttað.

Þjáningabætur greiða stefndu miðað við stöðugleikapunkt yfirmatsgerðar, 21. febrúar 2007, og miða við að stefnandi fái greitt fyrir 405 daga án rúmlegu eða kr. 522.450, sem er hærri fjárhæð en stefnandi krefur um í stefnu.

Annað fjártjón stefnanda byggir á 1. mgr. 1. gr. skaðabótalaga nr. 50/1993, en þar kemur meðal annars fram að sá er bótaábyrgð beri á líkamstjóni skuli greiða eðlilegan og nauðsynlegan sjúkrakostnað sem leiðir af lækningu tjónþola.

Batahvörf eða stöðugleikatímapunktur er sá tímapunktur er heilsa tjónþola er orðin stöðug og ekki er að vænta frekari bata, meðferð er lokið og læknar og aðrir heilbrigðisstarfsmenn hafa gert það sem hægt er að gera til að bæta heilsu tjónþola.  Ekki ber að taka tillit til hægfara bata eða styrkingar við greiðslu sjúkrakostnaðar heldur meta hvenær batahvörf voru óháð þessum framförum.

Stefnandi telur sig hafa þegar bætt allan þann kostnað sem stefnandi geti átt í þessu máli byggðan á 1. gr. skaðabótalaga.  Stefndu hafa greitt fyrir læknisvottorð sbr. dskj. 54 og 76.  Öðru sem stefnandi leggur fram með stefnu er mótmælt að stefndu beri ábyrgð á enda felst engin lækning sem slík í kaupum á verkjalyfjum og öðru sem tiltekið er af stefnanda og engin skylda eða heimild er í skaðabótalögum til þess að greiða þennan kostnað.  Stefndu mótmæla mati Guðrúnar og Vigfúsar um sjúkrakostnað harðlega, dskj. 74 og telja bæði tilefni þess að það var aflað sem og niðurstöðuna algerlega á ábyrgð stefnanda.  Lýsa stefndu þeirri skoðun sinna að matið sé þarflaust og aflað alfarið á ábyrgð stefnanda sem þá einnig ber af því kostnað.  Reyndar fellur matskostnaður af þessu mati sem og tekjumati þeirra Magnúsar og Vigfúsar, dskj. 73 ekki undir skilgreiningu skaðabótalaga um fjártjón, heldur útlagðan kostnað og ætti því að koma fram í málskostnaði en ekki kröfugerð stefnanda.  Er þessum kostnaði harðlega mótmælt, en reyndar greiddu stefndu fyrir taugasálfræðimatið, dskj. 13, enda var það framkvæmt um og við stöðugleikapunkt og kom til álita í yfirmatsgerð, kvittun er í dskj. 76.

Stefndu hafna alfarið greiðsluskyldu vegna bóta á grundvelli 26. gr. skaðabótalaganna, enda er bæði krafan og fjárhæðin algerlega vanreifuð.  Þvert á móti sýndi stefnandi vítaverða hegðun með því að æða út á götu í dökkum fötum án endurskinsmerkja í myrkri og rigningu.  Ekkert hefur hins vegar komið fram í málinu annað en að stefndi Þórólfur hafi sýnt fyllstu aðgát.

Öllum fjárkröfum stefnanda umfram það sem stefndu hafa greitt er almennt mótmælt sem röngum og ósönnuðum.

Varakröfu sína styðja stefndu við sömu sjónarmið og aðalkröfu um sýknu, en bótakrafa stefnanda er allt of há, þótt fallist yrði á einhverja frekari greiðsluskyldu stefndu.  Er áskilinn réttur til þess að reifa einstakar lækkunarkröfur og mótmæla einstökum reikningum og mötum við aðalmeðferð málsins.

Vextir, vaxtafótur og upphaf dráttarvaxta: Kröfu um dráttarvexti er andmælt frá fyrri tíma en dómsuppsögudegi þar sem fyrst þá er ljóst um bótaskyldu stefnda, enda var kröfugerð stefnanda ekki nærri því ljós þá.  Eftir þingfestingu hefur stefnandi fengið tvö möt og enn er ekki útséð með endanlega kröfugerð.  Verði ekki fallist á þá kröfu ber ekki að dæma dráttarvexti fyrr en mánuði frá stefnubirtingu, enda hafi stefnda ekki fyrr en þá verið ljós hugsanleg bótakrafa.

Málkostnaður:  Krafa stefnda um málskostnað er reist á 1. og 3. mgr. 129. gr. og 1.mgr. 130 gr., báðar greinar í lögum nr. 91/1991.  Um virðisaukaskatt á málskostnað vísast til laga nr. 50/1988.

Niðurstaða:  Vigfús Ásgeirsson tryggingastærðfræðingur bar fyrir rétti að hann hafi ásamt Magnúsi Thoroddsen hrl. unnið matsgerð varðandi tekjur matsbeiðandans, stefnanda í máli þess, sbr. dskj. nr. 73, og ásamt Guðrúnu Karlsdóttur, endurhæfingarlækni, unnið matsgerð um sjúkrakostnað stefnanda vegna umferðarslyssins hinn 12. janúar 2006, sbr. dskj. nr. 74.  Hann sagði m.a. að söluhagnaður einkahlutafélags stefnanda, Veituverka, hafi verið talið með tekjum stefnanda í matsgerðinni um tekjur, þ.e. stofnfé í fyrirtækinu, 500.000 kr., söluverð 2.500.000 kr., mismunurinn eignarmyndun á þeim tæpu fjórum árum sem stefnandi átti Veituverk.

Stefnandi bar fyrir rétti að muna ekki þegar hann fékk höggið frá bílnum við slysið hinn 12. janúar 2006, en aftur á móti muni hann þegar hann var að reyna að standa upp af götunni og gat það ekki.  Hann kvaðst hafa verið að vinna á svæðinu fyrir Orkuveitu Reykjavíkur og hafi lokið störfum í götunni og hafi ætlað að ganga yfir götuna að bifreið sinni, sem lagt hafði verið hinum megin við götuna með ‘hassardljósum’ eins og það er kallað og toppljósum blikkandi á bílnum.  Hann hafi verið með stóran gulan 20 kílóa gaskút í höndunum.  Hann kvaðst ekki minnast þess að hafa séð bifreiðina koma.

Stefnandi sagði að vinna hans sem verktaka hefði ekki breyst við stofnun Veituverka ehf. nema bókhaldslega og skattalega.  Stofnun félagsins hafi verið til hagræðingar í sambandi við skatta og til að gera fyrirtækið seljanlegra seinna meir.  Hann hafi einn starfað hjá fyrirtækinu.  Hann kvaðst engar tekjur hafa haft eftir slysið 12. janúar 2006.  Sonur hans hafi tekið við rekstri Veituverka ehf. og þáði þau laun sem hann hafði áður haft.  Hann kvaðst ekki hafi verið í stéttarfélagi á þessum tíma.

Stefnandi kvaðst nú vera tvisvar í viku í sjúkraþjálfun og nota svefnlyf að staðaldri og verkjalyf.  Hann hafi ekki notað svona lyf áður.

Stefnandi kvaðst muna eftir þegar hann fór í umrætt sinn á staðinn til að vinna.  Og eftir slysið sé honum minnisstætt þegar hann var að reyna að standa upp af götunni en gat það ekki.  Eftir það sé margt óljóst.  Eftir að bráðaliðar komu á staðinn þá hafi verið dælt í hann þvílíkum eiturefnum að hann hafi verið í rús.

Vísað var til þess að lögreglan hefði rætt við hann á slysadeildinni, sbr. dskj. nr. 3, og þar sé m.a. haft eftir honum í lögregluskýrslunni: „Þar sem hann var að vinna á akbrautinni kvaðst hann skyndilega hafa séð bifreið koma á mikilli ferð suður Rauðarárstíg.  Kvaðst hann ekki hafa náð að bregðast við í tíma og hafi bifreiðin ekið á hann með fyrrgreindum afleiðingum.“  Stefnandi sagði að þegar maður er á slysadeild og búið að dæla í mann svona lyfjum eins og gert var væri rangt að taka lögregluskýrslu af manni í þannig ástandi.  Hann muni ekki hvað hann sagði við þessa skýrslutöku.

Stefnandi kvaðst hafa á tímabili eftir slysið endurlifað það aftur og aftur, en svo væri ekki í dag.  Hann kvaðst ekki kunna að skýra þessar martraðir að öðru leyti en því að hann hafi alltaf verið að vakna og enn í dag sé hann að vakna margsinnis upp á nóttinni.  Á einhverju tímabili hafi slysið endurlifnað í huga hans aftur og aftur.  Hann muni þetta óljóst.

Stefnandi kvaðst ekki hafa leitað til geðlæknis út af áfallaröskun sinni eftir slysið þrátt fyrir ráðleggingar Marinós Péturs Hafsteinssonar læknis.  Hann kvaðst ekki vilja taka geðlyf þrátt fyrir þunglyndi.

Ingvar Sveinbjörnsson hrl. kom fyrir dóm.  Hann staðfesti að hafa unnið matsgerðina, er liggur fyrir í málinu sem dskj. nr. 57, ásamt Tómasi Zoëga geðlækni.

Lögð var fyrir Ingvar örorkumatsgerð Sjúkratrygginga Íslands, dags 11. desember 2008, varðandi stefnanda vegna slyssins 12. janúar 2006, sbr. dskj. nr. 79.  Vísað var til þess að heildarslysaörorka vegna slyssins sé þar metin 51%.  Og beðið var um skýringu á mun á mati dómkvaddra matsmanna og mati Sjúkratrygginga Íslands.

Ingvar sagði að þegar um mjög alvarlega fjöláverkar væri að ræða væri erfitt að meta varanlegan miska.  Í þessu tilviki hafi þeir komist að þeirri niðurstöðu að um væri að ræða 45% eða 45 stig í miska.  Eðlileg skekkjumörk séu í svona mötum og mat tryggingarstofnunar geti skýrst af því auk þess sem hugsanlegt sé að í því mati sé ekki tekið tillit til svokallaðra samlegðaráhrifa sem talað er um varðandi mat á miska þegar um er að ræða marga áverka.  Ekki væri hægt að meta miska þannig að hver einstakur áverki sé metinn óháð öðrum áverkum.

Ingvar sagði að hann og Tómas hafi talið að þarna væri um að ræða þrjá alvarlega áverka:  Fyrst og fremst mjög alvarlegt fótbrot, nokkuð alvarlegur áverki á vinstri öxl og höfuðkúpubrot með óljósum afleiðingum.  Í einu lagi hafi þeir metið þetta til 45% miska.  Erfitt hafi verið að koma fótbrotinu inn í töflur með vitrænum hætti vegna þess að ekki sé þannig að tekið sé í miskatöflum hvað eigi að gefa fyrir alvarlegt sköflungsbrot, en þeir hefðu valið að líta á ástand fótarins í heild.  Fóturinn væri stefnanda ekki mikils virði eins og hann væri í dag.  Að vísu hangi hann á en göngugetan sé ekki mikil.  Meta mætti fótbrotið til allt að 15% miska, höfuðáverkan til allt að 25% en hann teldi það of hátt og axlaráverkan á bilinu 5 til 10%.

Ingvar sagði að mat þeirra á að stöðugleikapunkti hafi verið náð 1. maí 2007 hafi verið byggt á gangi mála, meðferð eftir slysið og ef til vill fyrst og fremst á áliti meðferðarlæknis, Brynjólfs Jónssonar, sem mat það sem svo haustið 2006, að stöðugleikapunkti væri ekki náð, og talar um að það yrði í fyrst lagi 12 til 15 mánuðum eftir slysið.

Guðrún Karlsdóttir endurhæfingarlæknir kom fyrir dóm.  Hún staðfesti að hafa ásamt Vigfúsi Ásgeirssyni, tryggingastærðfræðingi, unnið matsgerð um sjúkrakostnað stefnanda vegna umferðarslyssins, hinn 12. janúar 2006, sbr. dskj. nr. 74.

Ágúst Kárason bæklunarlæknir gaf skýrslu símleiðis fyrir dómi.  Hann staðfesti að hafa ásamt Áslaugu Björgvinsdóttur lögfræðingi og Kristni Tómassyni geðlækni unnið yfirmatsgerð, dags. 30. maí 2008, sem fram kemur á dskj. nr. 72.  Hann sagði m.a. að hann hefði ekki fundið merki um heilaskaða hjá stefnanda.

Kristinn Tómasson geðlæknir bar fyrir rétti að hafa ásamt Áslaugu Björgvinsdóttur lögfræðingi og Ágústi Kárasyni bæklunarlækni unnið yfirmatsgerð, dags. 30. maí 2008, sem fram kemur á dskj. nr. 72.

Kristinn sagði m.a. að stefnandi hafi fengið veruleg þunglyndiseinkenni í framhaldi af slysinu.  Þunglyndið hafi verið verulega íþyngjandi og truflandi fyrir hann.  Gögn varðandi heilaáverka hafi hins vegar verið flókin og leitt til vafa.  Segulómun af heila hafi ekki sýnt áverkamerki á heila.  Taugasálfræðilegu prófin eins og þau voru kynnt hefðu ekki gefið óyggjandi vísbendingu um að stefnandi hefði fengið heilaáverka.

Áslaug Björgvinsdóttir lögfræðingur bar fyrir rétti að hafa ásamt Ágústi Kárasyni bæklunarlækni og Kristni Tómassyni geðlækni unnið yfirmatsgerð, dags. 30. maí 2008, sem fram kemur á dskj. nr. 72.

Í stefnu málsins, er birt var hinn 19. nóvember 2007, eru dómkröfur stefnanda að Vátryggingafélag Íslands verði dæmt til að greiða stefnanda 54.344.052 krónur ásamt 4,5% ársvöxtum frá slysdegi „þeim 12. janúar 2006“ til 4. nóvember 2007, en með dráttarvöxtum skv. 1. mgr. 6. gr. laga nr. 38/2001 frá þeim degi til greiðsludags.  Allt að frádregnum eftirtöldum greiðslum, 150.000 krónum þann 27.3. 2006, 500.000 krónum þann 11.5. 2006, 300.000 krónum þann 28.7. 2006 og 5.000.000 krónum þann 4.10. 2006.  Fjárhæðin, 54.344.052 krónur, er sundurgreind í stefnu með eftirfarandi hætti:

1. Miskabætur:6.465.569 x 45%

2.909.506 kr.

2.  Bætur fyrir varanlega örorku:

10.904.762x6,678x45%

32.769.990 kr.

3. Tímabundin örorka

13.903.356 kr.

4. Þjáningabætur

501.200 kr.

5. Annað fjártjón og sjúkrakostnaður

1.260.000 kr.

6. Framtíðasjúkrakostnaður og annað fjártjón

5.000.000 kr.

7. Krafa samkvæmt 26. gr. skaðabótalaga

2.000.000 kr.

Hver liður var rökstuddur eins og greint er frá í stefnu.

Á dómþingi, hinn 18. september 2008, lögðu stefndu fram greinargerð sína þar sem stefnukröfum var andmælt og þeim rökstuðningi og lagasjónarmiðum sem þar var byggt á.  Við upphaf aðalmeðferðar, hinn 6. apríl 2009, var hins vegar af hálfu stefnanda lagt fram nýtt skjal í málið upp á sjö blaðsíður undir heitinu Endanlegar dómkröfur stefnanda.  En efni þeirra er rakið hér að framan.  Þar kemur m.a. fram að krafist er miskabóta að fjárhæð 2.996.160 kr. og þjáningabóta að fjárhæð 596.169 kr., sem eru hærri fjárhæðir fyrir þessa liði en krafist var í stefnu.  Við flutning málsins var af hálfu stefndu mótmælt hækkun kröfuliða í þessa veru.  Fallist er á með stefndu að stefnanda sé ekki heimilt að auka við þessa kröfuliði, enda verður að meta stefnanda til vanrækslu að hafa ekki greint frá þessu í stefnu, sbr. 29. gr. laga nr. 91/1991.

Stefnandi byggir aðalkröfu sína á mati dómkvaddra undirmatsmanna frá 1. október 2007.  Stefndu styðja hins vegar málsvörn sína við yfirmatsgerðina frá 30. maí 2008.  Ekki hefur verið sýnt fram á ágalla á yfirmatsgerðinni.  Að öllu jöfnu hlýtur sönnunargildi yfirmatsgerðar þriggja matsmanna að vega þyngra við mat á sönnun en undirmat tveggja matsmanna.  Telur dómurinn, sem skipaður er tveimur sérfróðum meðdómendum, að yfirmatsgerðin sé ítarleg og vönduð.  Verður því yfirmatsgerðina lögð til grundvallar ákvörðun skaðabóta til handa stefnanda.

Stefnandi greinir frá því að til frádráttar komi: 150.000 krónur þann 27.3. 2006, 500.000 krónur þann 11.5. 2006, 300.000 krónur þann 28.7. 2006 og 5.000.000 krónur þann 4.10. 2006.  Auk þess hafi stefndi, Vátryggingafélag Íslands hf., greitt bætur að fjárhæð 11.871.891 krónu.  Lögmannsþóknun með virðisaukaskatti, samtals að fjárhæð 830.338 krónur, hafi komið til frádráttar en 11.041.553 krónur til greiðslu bóta til stefnanda.  Síðan hafi tryggingafélagið greitt stefnanda 1.528.740 krónur fyrir tímabundið tekjutjón hinn 29. ágúst 2008.  Og þá hafi tryggingafélagið greitt stefnanda til viðbótar 240.200 krónur hinn 17. september 2008.  Þá hafi komið í ljós að stefnandi eigi rétt á lífeyrisgreiðslum frá Sjúkratryggingum Íslands að fjárhæð 860.431 krónu miðað við 1. maí 2007 og fengið greitt á óvinnufærnitímanum 302.707 krónur.

Samkvæmt yfirmatsgerðinni var heilsufar stefnanda orðið stöðugt hinn 21. febrúar 2007.  Tímabundið atvinnutjón stóð því frá 12. janúar 2006 til 21. febrúar 2006.  Og ekki verður annað ráðið af gögnum málsins en að bætur fyrir tímabundið atvinnutjón vegna líkamstjóns hafi stefndi greitt í samræmi við árslaunaviðmið á meðalatvinnutekjur stefnanda þrjú síðustu almanaksár fyrir 12. janúar 2006 að frádregnum greiðslum til stefnanda eða rétti stefnanda til greiðslna skv. 2. mgr. 2. gr. skaðabótalaga.

Þjáningabætur greiddu stefndu miðað við stöðugleikapunkt yfirmatsgerðar, hinn 21. febrúar 2007, og miðað við 405 daga án rúmlegu, eða 522.450 krónur sem er í samræmi við kröfu stefnanda.

Tryggingafélagið greiddi stefnanda bætur vegna varanlegs miska að fjárhæð 2.433.725 krónur.  Verður að telja að það sé í samræmi við kröfugerð stefnanda að því breyttu að yfirmatið lækkaði varanlegan miska úr 45% í 35%.

Þá greiddi tryggingafélagið stefnanda bætur vegna varanlegrar örorku að fjárhæð 13.467.420 krónur í samræmi við ákvæði 5, 6,7 og 9. gr. skaðabótalaga nr. 50/1993 með síðari breytingum.

Stefnandi krefst bóta fyrir annað fjártjón og sjúkrakostnað að fjárhæð 1.305.540 krónur á grundvelli 1. mgr. 1. gr. skaðabótalaga.  Af hálfu stefndu er hins vegar talið að stefndu hafi þegar bætt allan þann kostnað sem stefnandi geti átt í þessu veru.  Í því sambandi vísa stefndu til þess að hafa greitt fyrir læknisvottorð, sbr. dskj. nr. 54 og 76, og fyrir taugasálfræðimat, sbr. dskj. nr. 13 og 76, samtals að fjárhæð 322.200 krónur.

Stefnandi hefur borið sjúkrakostnað og annað fjártjón vegna slyssins.  En með kostnaði á grundvelli 1. mgr. 1. gr. skaðabótalaga verður hvorki talinn kostnaður vegna matsgerða né kostnaður stefnanda vegna sjúkraþjálfun eftir 21. febrúar 2007.  Og telja verður að í greiðslu bóta fyrir miska og varanlega örorku felist endanlegar bætur fyrir sjúkrakostnað og annað fjártjón sem stefnandi muni verða fyrir í framtíðinni vegna slyssins hinn 12. janúar 2006.

Atvikum að umferðarslysinu er lýst hér að framan.  Stefndi, Þórólfur Óskarsson, gætti ekki nægilega að sér þegar hann ók bifreið sinni á stefnanda umrætt sinn. Af gögnum málsins verður þó ekki ráðið að mistök stefnda við aksturinn hafi verið svo óvenjuleg eða sérstök að gáleysi hans geti talist stórkostlegt í skilningi 26. gr. skaðabótalaga.

Niðurstaða dómsins er samkvæmt þessu sú að tjón stefnanda hafi að fullu verið bætt og því beri að sýkna stefndu af kröfum stefnanda.  Ákveðið er að málskostnaður skuli falla niður.

Gjafsóknarkostnaður stefnanda greiðist úr ríkissjóði þar með talin þóknun lögmanns stefnanda, Steingríms Þormóðssonar hrl., sem þykir hæfilega ákveðin 1.000.000 krónur án virðisaukaskatts.

Mál þetta dæma Páll Þorsteinsson héraðsdómari, Gunnar Kr. Guðmundsson læknir og Páll E. Ingvarsson læknir.

DÓMSORÐ:

Stefndu, Vátryggingafélag Íslands hf. og Þórólfur Óskarsson, eru sýkn af kröfum stefnanda, Ingjalds Eiðssonar.

Málskostnaður fellur niður.

   Gjafsóknarkostnaður stefnanda greiðist úr ríkissjóði þar með talin þóknun lögmanns stefnanda, Steingríms Þormóðssonar hrl., 1.000.000 krónur.