Hæstiréttur íslands

Mál nr. 140/2003


Lykilorð

  • Verksamningur
  • Matsgerð


Fimmtudaginn 16

 

Fimmtudaginn 16. október 2003.

Nr. 140/2003.

Jón Hermann Karlsson

(Gestur Jónsson hrl.)

gegn

Fagsmíði ehf.

(Sigurður Gizurarson hrl.)

 

Verksamningur. Matsgerð.

Aðilar deildu um eftirstöðvar kröfu F ehf. um endurgjald vegna byggingar einbýlishúss J á árunum 2000 til 2001. Hafði J aflað upplýsinga um verðmæti verksins sem bentu til að krafa F ehf. væri of há. Dómkvaddir matsmenn komust að sömu niðurstöðu. Þótti J því hafa sýnt nægilega fram á að endurgjald það sem F ehf. krafði hann um væri ósanngjarnt í skilningi 5. gr. laga nr. 39/1922 um lausafjárkaup, sem hér þóttu eiga við, sbr. 99. gr. núgildandi laga nr. 50/2000 um sama efni. Þar sem hvorugur aðila hafði farið fram á yfirmat var byggt á niðurstöðu hinna dómkvöddu matsmanna varðandi endurgjald fyrir verkið.

 

Dómur Hæstaréttar.

Mál þetta dæma hæstaréttardómararnir Guðrún Erlendsdóttir, Hrafn Bragason og Pétur Kr. Hafstein.

Héraðsdómi var áfrýjað 11. apríl 2003. Áfrýjandi krefst aðallega sýknu en til vara verulegrar lækkunar á fjárkröfum stefnda og komi í því tilviki til skuldajafnaðar gagnkrafa að fjárhæð 384.690 krónur að því marki, sem til þarf. Þá krefst áfrýjandi málskostnaðar í héraði og fyrir Hæstarétti.

Stefndi krefst staðfestingar héraðsdóms og málskostnaðar fyrir Hæstarétti.

I.

Ekki er ágreiningur um málavexti og er þeim lýst í héraðsdómi. Eins og þar greinir tók Gunnar Örn Rúnarsson húsasmíðameistari að sér haustið 2000 að reisa íbúðarhús fyrir áfrýjanda að Ólafsgeisla 41 í Reykjavík, en hann er fyrirsvarsmaður stefnda, sem varð formlegur verktaki við framkvæmdina. Gunnar Örn varð byggingarstjóri og við verkið voru notuð tæki frá Vélaleigu Rúnars og Gunnars sf., sameignarfyrirtæki Gunnars Arnar og föður hans. Ekki var samið um heildarverð fyrir verkið heldur skyldi greitt fyrir það samkvæmt reikningum frá stefnda. Í héraðsdómi er gerð grein fyrir framgangi verksins, þar til það var stöðvað í október 2001, eftir að upp var kominn ágreiningur um reikningsgerð stefnda, en í desember var Gunnari Erni vikið úr stöðu byggingarstjóra. Fyrir liggur, að áfrýjandi hafði þá þegar greitt stefnda samtals 3.488.612 krónur, en kröfur hans vegna þeirra framkvæmda, sem að baki voru, nema 6.443.227 krónum. Í þeirri fjárhæð eru þeir tveir reikningar, sem ógreiddir eru, annar frá 31. ágúst 2001 að fjárhæð 2.404.168 krónur og hinn frá 30. nóvember sama ár að fjárhæð 449.451 króna. Stefndi hefur metið kostnað vegna efnis og mótaleigu á 832.776 krónur og því nemur krafa hans vegna vinnu við byggingarframkvæmdirnar að meðtöldum akstri og verkfæragjaldi samtals 5.610.451 krónu með virðisaukaskatti

Áfrýjandi leitaði til mælingaskrifstofu Meistarafélags húsasmiða haustið 2001. Samkvæmt uppmælingu starfsmanns félagsins nam verðmæti þeirrar vinnu, sem innt hafði verið af hendi, 1.301.227 krónum. Þá fékk áfrýjandi jafnframt kostnaðaráætlun frá ráðgjafarþjónustunni Hannarri í desember 2001, en hún var reist á byggingaverðskrá, sem viðurkennd er af Íbúðalánasjóði. Samkvæmt þeirri áætlun ætti kostnaður vegna vinnu að nema 2.042.824 krónum og vegna efnis 1.059.332 krónum, en síðarnefnda talan er nokkru hærri en stefndi hefur sjálfur metið hæfilegan kostnað vegna efnis og mótaleigu. Loks hafa dómkvaddir matsmenn komist að þeirri niðurstöðu 4. júní 2002, að vinnuliðurinn sé hæfilega metinn 2.950.000 krónur en mat stefnda á efniskostnaði sé eðlilegt.

II.

Áfrýjandi greiddi stefnda nokkrum sinnum frá því í nóvember 2000 þar til í júlí 2001, ýmist eftir reikningum eða ekki, án þess að gera athugasemdir við framkvæmd verksins eða framsetningu reikninga. Er ekki unnt að fallast á, að með þessu hafi hann verið að ljúka greiðslum fyrir einstaka afmarkaða verkþætti, enda var ekki samið um framvindu verksins í ákveðnum verkþáttum. Greiðslurnar voru innborganir á heildarverk og með þeim firrti áfrýjandi sig ekki rétti til að hafa uppi athugasemdir síðar um réttmæti reikningsgerðar stefnda. Ekki er ágreiningur milli aðila um það, að stefnda beri 832.776 krónur úr hendi áfrýjanda vegna efnis og mótaleigu. Hins vegar er verulegur munur á kröfu stefnda vegna vinnu við framkvæmdirnar og þeim útreikningum á verðmæti vinnunnar, sem áfrýjandi aflaði og raktir hafa verið. Hefur áfrýjandi nægilega sýnt fram á, að vinnulaunakrafa stefnda sé ósanngjörn í skilningi 5. gr. laga nr. 39/1922 um lausafjárkaup, sem hér á við, sbr. 99. gr. núgildandi laga nr. 50/2000 um sama efni.

Eins og áður sagði var niðurstaða dómkvaddra matsmanna sú, að hæfilegt endurgjald fyrir vinnu stefnda væri 2.950.000 krónur. Eins og aðstæðum í málinu er háttað er rétt að leggja niðurstöðu hinna dómkvöddu matsmanna til grundvallar dómi þrátt fyrir andmæli stefnda, en ótvírætt er, að hann átti þess kost að koma öllum sjónarmiðum sínum á framfæri við matsmenn. Áfrýjandi hefur einnig gagnrýnt þessa matsfjárhæð, eins og nánar greinir í héraðsdómi, og telur hana of háa. Hann hefur hins vegar ekki frekar en stefndi óskað yfirmats og eru ekki næg efni til að hagga þessari fjárhæð. Áfrýjanda ber þannig að greiða stefnda það, sem upp á vantar til að fullgreitt teljist fyrir verkið samkvæmt matsgerðinni, eða 294.164 krónur. Rétt þykir, að sú fjárhæð beri lögmælta dráttarvexti frá 1. janúar 2002, enda var þá mánuður liðinn frá því síðasti reikningur stefnda kom fram.

Með skírskotun til forsendna héraðsdóms verður staðfest úrlausn hans um gagnkröfur áfrýjanda til skuldajafnaðar. Kyrrsetning sýslumannsins í Reykjavík 14. desember 2001 á eignarhluta áfrýjanda í Ólafsgeisla 41 er hins vegar ekki til skoðunar fyrir Hæstarétti.

Málskostnaðarákvörðun héraðsdóms er staðfest. Eftir atvikum þykir rétt að láta hvorn aðila bera sinn hluta málskostnaðar fyrir Hæstarétti að öðru leyti en því, að stefndi verður dæmdur til að greiða áfrýjanda kostnað vegna matsgerðar dómkvaddra matsmanna, 409.421 krónu.

Dómsorð:

Áfrýjandi, Jón Hermann Karlsson, greiði stefnda, Fagsmíði ehf., 294.164 krónur með dráttarvöxtum samkvæmt 1. mgr. 6. gr. laga nr. 38/2001 um vexti og verðtryggingu frá 1. janúar 2002 til greiðsludags.

Málskostnaðarákvæði héraðsdóms er staðfest.

Málskostnaður fyrir Hæstarétti fellur niður að öðru leyti en því, að stefndi greiði áfrýjanda kostnað vegna matsgerðar dómkvaddra matsmanna, 409.421 krónu.

 

Dómur Héraðsdóms Reykjavíkur 13. febrúar 2003.

Mál þetta, sem dómtekið var 16. janúar s.l., er höfðað með stefnu birtri 23. september s.l.

Stefnandi er Fagsmíði ehf., [kt.], Hlíðarhjalla 43, Kópavogi.

Stefndi er Jón H. Karlsson, [kt.], Flúðaseli 85, Reykjavík.

Dómkröfur stefnanda eru þær í fyrsta lagi að kyrrsetningargerð sýslumannsins í Reykja­vík nr. 46/2001 frá 14. desember 2001 í húseign stefnda að Ólafsgeisla 41, Reykjavík, verði staðfest.  Í öðru lagi að stefndi verði dæmdur til greiðslu á kr. 3.035.119 ásamt dráttarvöxtum samkvæmt 1. mgr. 6. gr. laga nr. 38/2001 frá 11. desember 2001 til greiðsludags.  Þá er krafist málskostnaðar að mati dómsins.

Dómkröfur stefnda eru þær að hann verði sýknaður af öllum kröfum stefnanda í málinu.  Verði stefnda gert að greiða stefnanda einhvern hluta krafna hans er höfð uppi gagnkrafa til skuldajafnaðar að fjárhæð kr. 384.960 fyrir tímabilið 1. janúar 2002 til 30. september sama ár.  Þá er þess krafist að kyrrsetningargerð dagsett 14. desember 2001 verði felld úr gildi, ef dómurinn lítur svo á að hún sé enn í gildi og skaðabóta til skulda­jafnaðar eða sjálfstæðs dóms.  Þá er krafist málskostnaðar samkvæmt reikningi.

Málavextir.

Málavextir eru þeir að stefndi fékk úthlutaðri byggingarlóð að Ólafsgeisla 41 hér í borg og fór hann þess á leit við til Gunnar Örn Rúnarsson haustið 2000 að hann tæki að sér byggingarstjórn við húsbyggingu sína á lóðinni.  Tókst munnlegur samningur milli þeirra þar að lútandi og undirrituðu þeir viljayfirlýsingu hjá byggingar­fulltrúanum í Reykjavík þar sem Gunnar Örn tók verkið að sér, en stefndi og Gunnar Örn munu vera félagar í Karlakór Reykjavíkur.  Við verkið voru notuð tæki frá Véla­leigu Rúnars og Gunnars s.f., en um er að ræða sameignarfyrirtæki í eigu Gunnars Arnar og Rúnars föður hans.  Mun stefndi hafa lagt til hvaða iðnmeistarar kæmu að bygg­ingunni en að kröfu Gunnars mun tengdafaðir hans hafa tekið að sér að vera pípu­lagningameistari hússins.

Um miðjan október árið 2000 mun hafa verið hafist handa um að grafa fyrir húsi stefnda.  Mun verkið hafa gengið þannig fyrir sig að steypt var í sökkla 8. desember 2000 og 15. desember sama ár var fyllingu og grófjöfnun lokið.  Í lok apríl 2001 hófst gröftur fyrir lögnum og grunnplata var steypt 29. maí sama ár.  Í júní og júlí sama ár var slegið upp fyrir neðri hæð og í ágústmánuði sama ár var slegið upp fyrir milliplötu og stiga og jafnframt slegið frá bogavegg.  Í septemberbyrjun sama ár var slegið undir svalir en verkið var síðan stöðvað í byrjun október sama ár.  Um er að ræða 211,9 m² ein­býlishús á tveimur hæðum.  Gert er ráð fyrir að það verði einangrað og klætt að utan.  Húsið er með bogadregnum stiga milli hæða og stigi úti að anddyri er einnig boga­dreginn.  Suðurveggur hússins er stallaður og hallar landi í meginatriðum frá austri til vesturs og er hæðarmismunur milli lóðamarka meira en 5 metrar.  Húsið er ekki niðurgrafið og því er um þriggja metra hár bakki austan við húsið.

Fyrsti reikningur stefnanda var dagsettur 12. október 2000 að fjárhæð kr. 894 og var hann greiddur.  Í október og nóvember sama ár greiddi stefndi stefnanda samtals kr. 500.000 inn á verkið og í janúar 2001 mun hann hafa greitt stefnanda kr. 504.853.  Í sama mánuði mun stefndi hafa greitt Vélaleigu Rúnars og Gunnars kr. 234.008.  Þá mun hann í febrúar 2001 hafa greitt stefnanda kr. 375.120.  Næsti reikningur stefnanda er dagsettur 1. júlí sama ár og er hann að fjárhæð kr. 2.074.634 og greiddi stefndi inn á þann reikning 26. febrúar sama ár, kr. 500.000 og kr. 300.000 26. júní sama ár.  Eftirstöðvarnar, kr. 1.274.635 greiddi stefndi 31. júlí sama ár.  Þessi reikningur mun vera vegna vinnu og efnis frá 14. febrúar til 30. júní 2001.  Stefndi mun um mánaða­mótin júní/júlí hafa greitt stefnanda kr. 155.996 vegna vinnu í apríl og maí sama ár.   Stefnda barst næst reikningur að fjárhæð kr. 2.404.168 frá stefnanda 1. september sama ár, en hann er dagsettur 31. ágúst sama ár og lýtur að vinnu og efni í júlí og ágúst sama ár.  Stefndi heldur því fram að stefnandi hafi rétt áður tjáð honum að hann mætti eiga von á reikningi að fjárhæð um ein milljón króna.   Stefndi hefur ekki greitt þennan reikning og lét í ljós efasemdir við stefnanda um réttmæti hans.  Stefnda barst reikn­ingur frá Vélaleigu Rúnars og Gunnars sf. í byrjun september sama ár að fjárhæð kr. 138.188 vegna vinnu í júlí og ágúst.  Þessi reikningur er ógreiddur en rekið er sérstakt mál á hendur stefnda um þann reikning.  Síðasti reikningur stefnanda til stefnda er dagsettur 30. nóvember sama ár og er að fjárhæð kr. 449.451 vegna vinnu við að slá undir efri plötu í september og október sama ár.  Þessi reikningur er enn ógreiddur og hefur stefnandi höfðað málið til greiðslu á þeim reikningi og áður­greindum reikningi dagsettum 31. ágúst sama ár.

Gunnar Örn mun mun fljótlega hafa hætt störfum við byggingu stefnda eftir að stefndi lét í ljós efasemdir um réttmæti þeirra reikninga sem ógreiddir eru.  Haustið 2001 leitaði stefndi  til mælingaskrifstofu Meistarafélags húsasmiða.  Samkvæmt upp­mælingu starfsmanns félagsins er verðmæti þeirrar vinnu sem framkvæmd hafði verið kr. 1.301.227, en samkvæmt yfirliti stefnanda er kostnaður vegna vinnu kr. 5.492.695.  Þá leitaði stefndi til Hannarrs ráðgjafaþjónustu, en kostnaðaráætlun þeirra er byggð á bygg­ingaverðskrá sem viðurkennd er af Íbúðalánasjóði.  Verðskrá þeirra byggir á reynslu­tölum til að endurspegla markaðinn hverju sinni en einnig er byggt á töxtum iðnað­armanna og einingarverði efnis.  Samkvæmt útreikningum Hannarrs ætti kostn­aður við þær framkvæmdir sem þegar höfðu átt sér stað að nema kr. 2.042.824 vegna vinnu og kr. 1.059.332 fyrir efni eða samtals kr. 3.102.156.  Það athugast að stefnandi hefur talið efniskostnað og vélaleigu nema kr. 832.776.

Vegna ágreinings aðila málsins var skipt um byggingarstjóra í byrjun desember 2001 og tók Erlendur Elvarsson við því starfi.

Með kyrrsetningarbeiðni dagsettri 11. desember 2001 fór stefnandi þess á leit að sýslu­maðurinn í Reykjavík kyrrsetti fyrir gerðarbeiðanda svo mikið af eignum gerðar­þola að nægði til tryggingar  kröfu að fjárhæð kr. 3.035.119 auk áfallandi dráttarvaxta samkvæmt vaxtalögum til greiðsludags og alls kostnaðar við gerðina og eftirfarandi stað­festingarmáls.  Sýslumaður tók kröfu stefnanda til greina 14. desember sama ár og kyrrsetti eignarhluta stefnda í fasteigninni að Ólafsgeisla 41 hér í borg.  Mál til stað­festingar kyrrsetningunni var þingfest 10. janúar 2002 en lögmanni stefnanda munu hafa orðið á þau mistök að mæta ekki við þinghald í júní s.l. og var málið því fellt niður 5. júní s.l.  Ekki mun hafa tekist að fá málið tekið upp að nýju og því hefur stefnandi þurft að höfða nýtt mál til staðfestingar kyrrsetningunni og hófst hann handa um þá málshöfðun með útgáfu stefnu í máli þessu 23. september s.l., en hún var birt lögmanni stefnda samdægurs.

Með matsbeiðni dagsettri 15. mars 2002 fór stefndi fram á að dómkvaddir yrðu matsmenn til að skoða og meta verk stefnanda og Vélaleigu Rúnars og Gunnars.  Var í fyrsta lagi óskað mats á verði fyrir vinnu matsþola við bygginguna miðað við verkstöðu 10. desember, en þá var búið að slá undir milliplötu.  Í öðru lagi var óskað eftir því að matsmenn legðu mat á efniskostnað og mótaleigu matsþola.  Í þriðja lagi var óskað mats á því hvert væri eðlilegt og sanngjarnt endurgjald fyrir vélavinnu Véla­leigu Rúnars og Gunnars.  Í fjórða lagi var matsmönnum falið að meta hver væri eðli­legur verkhraði miðað við verkstöðuna 10. desember 2001.  Matsgerð þeirra Stefáns Hermanns­sonar, húsasmíðameistara og Sturlaugs Þorsteinssonar, verkfræðings, er dag­sett 4. júní s.l.  Í niðurstöðu þeirra segir að hæfilegt endurgjald fyrir vinnu stefn­anda teljist vera kr. 2.950.000 með virðisaukaskatti.  Þá telja matsmenn efniskostnað kr. 832.776 með virðisaukaskatti vera hæfilegan og sanngjarnan.   Matsmenn voru sam­mála um að kostnaður vegna vélavinnu væri hæfilega metinn kr. 528.192 og eðli­legan verkhraða töldu matsmenn vera frá miðjum október 2000 fram í miðjan ágúst 2001.

Málsástæður og lagarök.

Stefnandi byggir á meginreglum um samninga og skuldbindingargildi þeirra og vísar til laga nr. 7/1936 og 5. gr. laga nr. 39/1922.  Stefnandi hafi með munnlegum samn­ingi tekið að sér framkvæmdir við byggingu íbúðarhússins að Ólafsgeisla 41 hér í borg.  Verkið hafi ekki verið boðið út heldur skyldi það unnið sem reikningsvinna.  Hafi reikningar verið samdir á grundvelli vinnu- og efnisskýrslna.  Stefndi hafi neitað að greiða reikninga stefnanda dagsetta 31. ágúst og 30. nóvember 2001 en ekki fært fram haldbær rök fyrir neitun sinni, en reikningarnir hafi verið gerðir á sama grund­velli og fyrri reikningar stefnanda sem stefndi hafi greitt.

Stefndi byggir sýknukröfu sína á því að hann hafi þegar greitt stefnanda meira en honum beri fyrir unnið verk.  Skipti þá ekki máli hvort horft sé til útreiknings Meistara­félags húsasmiða eða Hannarrs ráðgjafaþjónustu.  Stefndi vísar til 5. gr. eldri kaupa­laga og 45. gr. núgildandi kaupalaga nr. 50/2000.  Enginn samningur eða tilboð liggi fyrir og því beri að greiða það verð sem upp er sett nema telja verði það ósann­gjarnt.  Stefndi, sem ekki sé byggingafróður, hafi engar upplýsingar fengið frá stefnanda um áætlað kostnaðarverð, þrátt fyrir ítrekaðar óskir þar að lútandi.  Með greiðslu á fyrri reikningum hafi stefndi einvörðungu verið að greiða inn á verkið í heild án þess að hann hafi hafi gert sér í hugarlund hve langt það væri komið eða hver heildarkostnaður vinnunnar yrði.  Stefnda hafi blöskrað gjaldtaka stefnanda þegar hann fékk reikninginn dagsettan 31. ágúst 2001 í hendur og hafi hann strax látið stefnanda vita af því.  Stefnandi áskilji sér 322% hærri upphæð en uppmæling fagfélags hans geri ráð fyrir og 169% hærri fjárhæð sé miðað við útreikning Hannarrs ráð­gjafar­þjónustu.  Með vísan til þessara útreikninga beri því að sýkna stefnda af kröfum stefnanda.

      Stefndi segist ósáttur við mat dómkvaddra matsmanna og gerir helst at­huga­semdir við aðstöðusköpun og rekstur vinnusvæðis sem matsmenn meta á kr. 350.000, en Hannarr hafi metið þennan lið á kr. 256.308.  Ekki verði ráðið af matinu eða fram­lögðum gögnum hvernig þessi fjárhæð sé fundin og liggi fyrir að vinnuskúr hafi verið fluttur á svæðið í apríl 20001 og hæpið sé að 20 tímar hafi farið í aðstöðusköpun.  Þá telur stefndi að liðurinn fundir með hönnuðum, byggingafulltrúa og verkkaupa sem metinn er á kr. 150.000 sé órökstuddur með öllu.  Í tímaskráningu stefnanda sé ekki að finna nema 12 til 14 tíma sem geti fallið undir þennan lið.  Ætti þessi liður að hámarki að vera kr. 43.568.  Í þriðja lagi telur stefndi að liðurinn kostnaður vegna aðstæðna í verkbyrjun kr. 150.000 sé órökstuddur með öllu og beri að hafna honum.  Þá telur stefndi að liðurinn kostnaður vegna vöntunar á teikningum kr. 150.000 geti ekki átt við rök að styðjast og hafi hönnuður mótmælt því að einhver dráttur hafi orðið á verki vegna vöntunar á samþykktum teikningum.  Matsmenn ákvarði matsfjárhæð fyrir 1. og 2. tl. matsbeiðni samtals að fjárhæð kr. 3.782.776, en stefndi hafi þegar greitt kr. 3.488.612 og sé því ógreitt miðað við matsfjárhæð kr. 294.164, en að virtum at­huga­semdum við órökstuddar fjárhæðir í mati hafi stefndi þegar greitt umfram eðlilegan kostnað og beri því að sýkna hann.

      Stefndi byggir sýknukröfu sína m.a. á sjónarmiðum um hvað teljist eðlilegt og sann­gjarnt endurgjald fyrir umsamda vinnu.  Stefndi hafi strax mótmælt reikningi dags­ettum 30. nóvember 2001, sbr. meginreglu 47. gr. núgildandi kaupalaga, áður 6. gr. eldri kaupalaga, en tilkynningaskyldan sé þó ekki fyrir hendi ef uppsett verð er ósanngjarnt og eigi það við um fyrri reikninga stefnanda.  Þá beri að líta til þess að um sam­fellt verk er að ræða.  Jafnvel þótt stefnandi ætti rétt á þóknun miðað við upp­mæl­ingu hafi stefndi greitt honum langt umfram eðlilegt og sanngjarnt verð þannig reiknað.  Stefndi telur sig einnig geta byggt sýknukröfu sína á grundvelli meginreglna samninga- og kröfuréttar um að stefnandi eigi ekki kröfu á að fá annað en sanngjarnt verð fyrir vinnu sína.  Hafi stefndi því greitt stefnanda langt umfram það sem eðlilegt og sanngjarnt geti talist, hvort sem miðað er við útreikninga fagfélags stefnanda eða ráð­gjafaþjónustunnar.

      Verði stefndi þrátt fyrir allt talinn standa í skuld við stefnanda krefst hann skulda­jafnaðar að því marki sem til þurfi á grundvelli vaxtamismunar á lánsfjárhæð sem hann hafi tekið í Landsbanka Íslands til að fjármagna bygginguna og hann hafi mátt ætla að hann gæti breytt í húsbréfalán í árslok 2001.  Ósanngjarnar kröfur stefnanda og kyrrsetning hafi valdið því að stefndi hafi verið bundinn í báða fætur og ekki getað lokið fokheldi til að verða sér út um húsbréfalán.  Áfallnir vextir fram­kvæmda­lánsins að fjárhæð kr. 6.000.000 fyrstu 9 mánuði ársins séu kr. 684.889, en vextir og verðbætur af húsbréfaláni sömu fjárhæðar séu kr. 299.929.  Mismunurinn, kr. 384.960, sé tjón stefnda og er krafist skuldajafnaðar svo sem til þarf, allt að þeirri fjárhæð.  Þá krefst stefndi skuldajafnaðar að álitum á grundvelli tjóns sem hann hafi orðið fyrir vegna kyrrsetningar á eign stefnda.  Hafi hún leitt til þess að stefndi hafi ekki getað ráðstafað eigninni og þannig hugsanlega orðið af hagkvæmri sölu.  Þótt stefndi geti ekki sýnt fram á tjón með ákveðinni fjárhæð hafi hann sannanlega verið bundinn með fjármuni sem unnt sé að meta til verðmæta að álitum, sbr. 42. og 43. gr. laga nr. 31/1990.

      Stefndi byggir á því að stefnandi hafi látið framkvæma kyrrsetningu í eign stefnda 14. desember 2001.  Réttarstefna í staðfestingarmáli hafi verið gefin út innan viku frá lokum gerðar í samræmi við ákvæði 1. mgr. 36. gr. laga nr. 31/1990.  Það mál hafi verið fellt niður og stefnanda hafi ekki tekist að fá það tekið upp aftur.  Stefndi lítur svo á að kyrrsetningin hafi þar með fallið niður.  Verði talið að kyrrsetningin sé enn í gildi beri að fella hana úr gildi þar sem ekkert sé komið fram í málinu sem gefi tilefni til að ætla að fjárhagur stefnda sé þannig að hann sé eða hafi verið ógjaldfær þegar kyrrsetning fór fram eða ástæða hafi verið til að óttast að hann reyndi að skjóta eign­um sínum undan.  Hafi því ekki verið sýnt fram á að skilyrði kyrrsetningar séu fyrir hendi, sbr. 1. mgr. 5. gr. laga nr. 31/1990.  Kyrrsetningin hafi hins vegar bakað stefnda tjón og krefst hann bóta að álitum til skuldajafnaðar eða sjálfstæðs dóms á grund­velli 1. mgr. 43. gr., sbr. 42. gr. sömu laga.

      Stefndi vísar um málskostnað til XXI. kafla, einkum e-liðar 1. mgr. 129. gr., 1. mgr. 130. gr. og b-liðar 1. mgr. 131. gr. laga nr. 91/1991.

Niðurstaða.

Stefnandi höfðar mál þetta annars vegar til staðfestingar á kyrrsetningargerð og hins vegar til greiðslu á tveimur reikningum ásamt áföllnum vöxtum og kostnaði vegna starfa sinna við húsbyggingu stefnda að Ólafsgeisla 41 hér í borg frá haustinu 2000 þar til stefnandi hvarf frá verkinu í byrjun október 2001.  Ágreiningur aðila snýst í fyrsta lagi um það hvort umrædd kyrrsetning sé enn í gildi, en mál sem stefnandi höfðaði til staðfestingar hennar 10. janúar 2002 var fellt niður sökum útivistar stefn­anda 5. júní s.l.  Hins vegar snýst ágreiningur aðila um réttmæti tveggja reikninga sem stefnandi hefur gert stefnda vegna vinnu við bygginguna og efniskostnaðar mánuðina júlí til október 2001.  Heldur stefndi því fram að reikningar stefnanda séu fjarri lagi og hafi hann þegar greitt stefnanda meira en honum ber sé miðað við útreikninga Meistara­félags húsasmiða og Hannarrs ráðgjafaþjónustu.  Sé miðað við niðurstöðu dóm­kvaddra matsmanna eigi stefndi eftir að standa stefnanda skil á kr. 294.164, en stefndi hefur uppi skuldajafnaðarkröfur, annars vegar að fjárhæð kr. 384.960 vegna vaxta­munar á framkvæmdaláni og almennu láni Íbúðalánasjóðs og hins vegar kröfu að álitum í samræmi við ákvæði 43. gr., sbr. 42. gr. laga nr. 31/1990, þar sem kyrr­setning hafi fallið niður og stefnandi ekki hirt um að höfða nýtt mál til staðfestingar á henni innan tilskilins frests.

Samkvæmt gögnum málsins höfðaði stefnandi mál til staðfestingar umræddri kyrr­setningargerð innan viku frá lokum gerðar í samræmi við ákvæði 1. mgr. 36. gr. laga nr. 31/1990 og var það mál þingfest 10. janúar 2002.  Í þinghaldi 5. júní s.l. var ekki sótt þing af hálfu stefnanda og forföll höfðu ekki verið boðuð.  Í samræmi við ákvæði b-liðar 1. mgr. 105. gr. laga nr. 91/1991 var málið fellt niður.  Stefnandi lýsir því í stefnu að þess hafi verið freistað að fá málið tekið upp aftur, en dómarinn hafi komist að þeirri niðurstöðu að ekki væru lagaleg tök á því.  Höfðaði stefnandi því mál að nýju m.a. til staðfestingar á kyrrsetningargerðinni með stefnu út gefinni 23. september s.l. sem birt var lögmanni stefnda samdægurs.  Málið var þingfest daginn eftir. 

Í 3. mgr. 39. gr. laga nr. 31/1990 segir að verði staðfestingarmál ekki þingfest gerðar­beiðanda að vítalausu, því er vísað frá dómi eða það er hafið með samkomulagi máls­aðila, stendur gerðin í eina viku frá því honum urðu þau málalok kunn.  Að loknum þeim fresti fellur gerðin sjálfkrafa úr gildi, nema gerðarbeiðandi hafi áður fengið stefnu gefna út á ný til staðfestingar henni.  Stefnandi hefur ekki haldið því fram að stefna í máli þessu til staðfestingar gerðinni hafi verið gefin út innan viku frá því honum varð kunnugt um niðurfellingu málsins.  Verður við það að miða að hinn lög­boðni vikufrestur hafi verið löngu liðinn er stefnandi freistaði þess að höfða nýtt mál til staðfestingar gerðinni.  Var kyrrsetningargerðin því fallin úr gildi með vísan til megin­reglunnar í 3. mgr. 39. gr. laganna og ber því að vísa kröfu stefnanda um stað­festingu gerðarinnar frá dómi.

Óumdeilt er í málinu að stefndi greiddi reikninga stefnanda athugasemdalaust í fyrstu og er ekki annað fram komið en honum hafi verið kunnugt um framvindu verksins á hverjum tíma.  Stefndi gerði fyrst athugasemdir við reikningsgerð stefnanda þegar hann fékk reikning að fjárhæð kr. 2.404.168, en sá reikningur laut að vinnu og efni í júlí og ágúst 2001.  Samkvæmt fylgiskjali með reikningnum er um að ræða vinnu þriggja manna í 170 klukkutíma á 2.500 króna tímagjaldi eða samtals kr. 425.000, vinnu tveggja manna í 401 klukkutíma á 2.300 króna tímagjaldi eða samtals kr. 922.300 og vinnu eins manns í 175 klukkutíma á 1.700 króna tímagjaldi eða samtals kr. 297.500 eða samtals kr. 1.731.363.  Þá leggur stefnandi á þessa fjárhæð 5% véla- og verkfæragjald, kr. 86.568 og með akstri kr. 9.750 er vinnuliðurinn samtals kr. 1.827.683 eða kr. 2.275.465 með virðisaukaskatti.  Með efni og efnisleigu kr. 128.703 er reikningurinn að fjárhæð kr. 2.404.168.  Reikningurinn dagsettur dagsettur 30. nóvember 2001 laut að vinnu o.fl. í september og október sama ár og er um að ræða vinnu þriggja manna í 108 klukkutíma á 2.500 króna tímagjaldi eða samtals kr. 270.000 og vinnu eins manns í 43 klukkutíma á 1.700 króna tímagjaldi eða samtals kr. 73.100.  Þá er 5% verkfæragjald kr. 17.155 og akstur kr. 750.  Með virðisaukaskatti er reikn­ingurinn því að fjárhæð kr. 449.451.

Matsgerð hinna dómkvöddu matsmanna lýtur að verði fyrir vinnu stefnanda við bygg­inguna miðað við verkstöðu 10. desember 2001.  Hins vegar nýtur ekki við sérstaks mats á þeirri vinnu sem stefnandi innti af höndum á því tímabili sem hinir um­deildu reikningar taka til eða mánuðina júlí til október 2001.  Eins og að framan er rakið greiddi stefndi reikninga stefnanda í fyrstu athugasemdalaust og gerði fyrst athuga­semdir þegar reikningurinn dagsettur 31. ágúst sama ár barst honum.

Samkvæmt 99. gr. laga nr. 50/2000 um lausafjárkaup öðluðust  lögin gildi 1. júní 2001 og gilda þau einvörðungu um þá samninga sem gerðir verða eftir gildistöku lag­anna.  Hinn munnlegi samningur málsaðila var gerður haustið 2000 og gilda því um lög­skipti þeirra hin eldri lög um lausafjárkaup nr. 39/1922 með lögjöfnun.  Samkvæmt 5. gr. þeirra laga ber kaupanda, hafi ekkert verið fastákveðið um hæð kaup­verðs, að greiða það verð sem seljandi heimtar, ef eigi verður að telja það ósanngjarnt.  Að mati dómsins hefur stefnda ekki tekist að sýna fram á að umræddir reikn­ingar séu ósanngjarnir og verður hann því dæmdur til greiðslu þeirra með vöxt­um eins og í dómsorði greinir. 

Stefndi hefur uppi gagnkröfur til skuldajafnaðar, annars vegar á grundvelli fjár­hags­legs tjóns sem hann telur sig hafa orðið fyrir og hins vegar krefst hann bóta að álitum vegna tjóns sem stefndi telur að kyrrsetningargerðin hafi bakað honum.  Stefndi byggir á því að ósanngjarnar kröfur stefnanda og kyrrsetning hafi valdið því að stefndi hafi ekki getað náð því byggingarstigi að hann ætti rétt á húsbréfaláni vegna bygg­ing­arinnar.  Gerir hann kröfu um vaxtamismun á framkvæmdaláni og almennu láni Íbúða­lána­sjóðs.  Að mati dómsins hefur stefnda ekki tekist að sanna að stefnandi beri bóta­ábyrgð á tjóni stefnda að þessu leyti.  Stefnda var í lófa lagið að greiða kröfu stefnanda með fyrirvara og freista þess að ná ætluðum rétti sínum gagnvart honum með málsókn.  Er því ósannað að stefnandi beri á því ábyrgð að stefndi tók dýrari lán en ella hefðu fengist miðað við eðlilegan framgang byggingarinnar. 

Samkvæmt 4. mgr. 42. gr. laga nr. 31/1990 skal gerðarbeiðandi bæta tjón með þeim hætti sem í 1. mgr. segir ef kyrrsetningargerð hefur ekki verið réttilega haldið til laga samkvæmt fyrirmælum VI. kafla laganna og talið verður að ekki hafi verið tilefni til gerðarinnar.  Eins og að framan er rakið var kröfu stefnanda um staðfestingu kyrr­setn­ingargerðar vísað frá dómi og eins og mál þetta liggur fyrir hefur ekki verið tekin afstaða til þess hvort tilefni hafi verið til gerðarinnar.  Samkvæmt framansögðu verður gagnkröfum stefnda því hafnað.

Með vísan til afdrifa kröfu stefnanda um staðfestingu á kyrrsetningargerð og að öðru leyti með hliðsjón af atvikum öllum þykir rétt að málskostnaður falli niður.

Hjörtur O. Aðalsteinsson, héraðsdómari kvað upp dóminn.

DÓMSORÐ:

Kröfu stefnanda, Fagsmíði ehf., um staðfestingu kyrrsetningargerðar nr. 46/2001, sem sýslumaðurinn í Reykjavík heimilaði í húseign stefnda, Jóns H. Karlssonar, að Ólafs­geisla 41, Reykjavík, er vísað frá dómi.

Stefndi greiði stefnanda kr. 3.035.119 ásamt dráttarvöxtum samkvæmt 1. mgr. 6. gr. laga nr. 38/2001 frá 11. desember 2001 til greiðsludags.

Málskostnaður fellur niður.