Hæstiréttur íslands
Mál nr. 599/2008
Lykilorð
- Kærumál
- Vistun á stofnun
|
|
Fimmtudaginn 6. nóvember 2008. |
|
Nr. 599/2008. |
Ríkissaksóknari(Dröfn Kærnested, fulltrúi) gegn X (Bjarni Hauksson hdl.) |
Kærumál. Vistun á stofnun.
Fallist var á úrskurð héraðsdóms um að X yrði gert að sæta áfram vistun á viðeigandi stofnun meðan áfrýjunarfrestur í máli hans væri að líða.
Dómur Hæstaréttar.
Mál þetta dæma hæstaréttardómararnir Jón Steinar Gunnlaugsson, Hjördís Hákonardóttir og Páll Hreinsson.
Varnaraðili skaut málinu til Hæstaréttar með kæru 4. nóvember 2008, sem barst réttinum ásamt kærumálsgögnum degi síðar. Kærður er úrskurður Héraðsdóms Reykjavíkur 4. nóvember 2008, þar sem varnaraðila var gert að sæta áfram vistun á viðeigandi stofnun meðan áfrýjunarfrestur í máli hans er að líða, en þó ekki lengur en til þriðjudagsins 2. desember 2008 kl. 16. Kæruheimild er í 1. mgr. 142. gr. laga nr. 19/1991 um meðferð opinberra mála. Varnaraðili lýsti yfir kæru við uppkvaðningu úrskurðarins. Litið verður svo á að hann hafi kært úrskurðinn í því skyni að hann verði felldur úr gildi.
Sóknaraðili krefst staðfestingar hins kærða úrskurðar.
Með vísan til forsendna hins kærða úrskurðar verður hann staðfestur.
Dómsorð:
Hinn kærði úrskurður er staðfestur.
Úrskurður Héraðsdóms Reykjavíkur 4. nóvember 2008.
Ríkissaksóknari hefur krafist þess að Héraðsdómur Reykjavíkur úrskurði að X, kennitala [...], verði með úrskurði gert að sæta áfram vistun á viðeigandi stofnun meðan á áfrýjunarfresti stendu í máli hans, þó ekki lengur en til þriðjudagsins 2. desember nk, kl. 16.00.
Í greinargerð lögreglu kemur fram að nauðsynlegt þyki að dómfelldi sitji áfram í gæsluvarðhaldi þar til afstaða hans til dómsins liggi fyrir. Með vísan til fyrirliggjandi dóms og með vísan til c liðar. 1. mgr. 103. gr., sbr. 106. gr. laga um meðferð opinberra mál nr. 19/1991, er þess krafist að krafan nái fram að ganga.
Um lagarök vísar ríkissaksóknari til c-liðar 1. mgr. 103. gr., sbr. 106. gr. laga nr. 19/1991 um meðferð opinberra mála, sbr. lokamálslið 110. gr. sömu laga.
Samkvæmt dómi í máli nr. S-966/2008, uppkveðnum nú í dag, hlaut dómfelldi þriggja ára fangelsisdóm fyrir fjölmörg ránsbrot. Hefur dómfelldi sætt gæsluvarðhaldi frá 21. mars 2008 til 1. apríl 2008, er Hæstiréttur úrskurðaði dómfellda til að sæta vistun á viðeigandi stofnun í stað gæsluvarðhalds. Í fyrri úrskurðum hefur því verið lýst að brotaferill ákærða sé samfelldur, hann hafi verið í mikilli óreglu og án atvinnu. Eftir uppsögu dómsins tók dómfelldi sér lögbundinn áfrýjunarfrest. Samkvæmt 106. gr. laga nr. 19/1991, getur dómari úrskurðað að gæsluvarðhald skuli haldast meðan á áfrýjunarfresti stendur, sbr. 2. mgr. 151. gr. laganna.
Í ljósi alls framanritaðs fellst dómurinn á að fullnægt sé skilyrðum 1. mgr. 103. gr. laganna, sbr. 110. gr. sömu laga til þess að dómfelldi sæti áfram vistun á viðeigandi stofnun meðan á áfrýjunarfresti stendur í máli hans, sbr. 106. gr. laga nr. 19/1991. Ber því að fallast á kröfu ríkissaksóknara eins og hún er fram sett og nánar greinir í úrskurðarorði.
Hervör Þorvaldsdóttir héraðsdómari kvað upp úrskurðinn.
Ú R S K U R Ð A R O R Ð
Dómfelldi, X, kennitala [...], sæti áfram vistun á viðeigandi stofnun meðan á áfrýjunarfresti stendur í máli hans, þó ekki lengur en til þriðjudagsins 2. desember nk, kl. 16.00.