Hæstiréttur íslands

Mál nr. 784/2017

Lögreglustjórinn á höfuðborgarsvæðinu (Kári Ólafsson fulltrúi)
gegn
X (Grétar Dór Sigurðsson hrl.)

Lykilorð

  • Kærumál
  • Gæsluvarðhald. A. liður 1. mgr. 95. gr. laga nr. 88/2008

Reifun

Staðfestur var úrskurður héraðsdóms um að X skyldi sæta gæsluvarðhaldi á grundvelli a. liðar 1. mgr. 95. laga nr. 88/2008 um meðferð sakamála.

Dómur Hæstaréttar.

Mál þetta dæma hæstaréttardómararnir Helgi I. Jónsson, Benedikt Bogason og Karl Axelsson.

Varnaraðili skaut málinu til Hæstaréttar með kæru 12. desember 2017, sem barst réttinum ásamt kærumálsgögnum degi síðar. Kærður er úrskurður Héraðsdóms Reykjavíkur 12. desember 2017, þar sem varnaraðila var gert að sæta gæsluvarðhaldi allt til föstudagsins 22. desember 2017 klukkan 16 og einangrun meðan á því stendur. Kæruheimild er í l. lið 1. mgr. 192. gr. laga nr. 88/2008 um meðferð sakamála. Varnaraðili krefst þess aðallega að hinn kærði úrskurður verði felldur úr gildi, til vara að vægara úrræði verði beitt, en að því frágengnu að gæsluvarðhaldinu verði markaður skemmri tími og honum ekki gert að sæta einangrun meðan á því stendur.

Sóknaraðili hefur ekki látið málið til sín taka fyrir Hæstarétti.

Með vísan til forsendna hins kærða úrskurðar er fallist á að fram sé kominn rökstuddur grunur um að varnaraðili hafi gerst sekur um háttsemi sem fangelsisrefsing er lögð við og að  fullnægt sé skilyrðum a. liðar 1. mgr. 95. gr. laga nr. 88/2008 til þess að honum verði gert að sæta gæsluvarðhaldi þann tíma sem krafist er. Verður úrskurðurinn því staðfestur.

Dómsorð:

Hinn kærði úrskurður er staðfestur.         

 

 

 

Úrskurður Héraðsdóms Reykjavíkur þriðjudaginn 12. desember 2017

Lögreglustjórinn á höfuðborgarsvæðinu hefur krafist þess að Héraðsdómur Reykjavíkur úrskurði að X, kt. [...], verði gert að sæta gæsluvarðhaldi allt til föstudagsins 22. desember nk. kl. 16:00. Þá er þess krafist að kærða verði gert að sæta einangrun á meðan á gæsluvarðhaldinu stendur.

Í greinargerð lögreglu kemur fram að lögreglustjórinn á höfuðborgarsvæðinu hafi haft til rannsóknar um nokkurt skeið mál er varði skipulagða brotastarfsemi sem tengist innflutningi fíkniefna og peningaþvætti. Rannsókn lögreglu hafi verið unnin í samstarfi við pólsk og hollensk yfirvöld. Rannsókn málsins beinist að eigendum fyrirtækisins [...] ehf. sem reki þrjár matvöruverslanir að [...], [...] og [...]. Fyrirtækið sé í eigu Y og Z. Z sé bróðir kærða og búsettur í Hollandi. Lögreglan hafi við rannsókn sína aflað upplýsinga og gagna þess efnis að verslunin hafi verið stofnuð fyrir fjármuni sem hafi verið ágóði af brotastarfsemi Y, meðeiganda hans Z og fleiri aðila er tengist versluninni þ.á.m. kærða X.

Lögreglu hafi einnig borist upplýsingar um að kærði X eigi aðild í innflutningi fíkniefna hingað til lands. Þá hafi peningaþvættisskrifstofu einnig borist tilkynningar vegna reiðufjárumsvifa hans. Við rannsókn málsins hafi lögregla aflað m.a. bankagagna frá bankareikningum kærða og megi þar sjá mikil fjárhagsleg umsvif sem virðist ekki vera í samræmi við skráðar tekjur og gefi tilefni til frekari rannsóknar. Niðurstaða greiningar lögreglu á fjármálum kærða á þessu tímabili sé sú  að verulegur munur sé á tekjum samkvæmt opinberri skráningu og raunverulegum fjárumsvifum. Þá veki sérstaka athygli lögreglu háar reiðufjárinnlagnir á bankareikning hans vegna þess tímabils sem þegar hafi verið skoðað. Einnig sé ljóst af þeim gögnum sem lögregla hafi aflað að um sé að ræða veruleg gjaldeyriskaup af hálfu kærða.

Til viðbótar rannsókn lögreglu þá hafi pólsk lögregluyfirvöld haft til rannsóknar mál er varði skipulagða brotastarfsemi og hafi þau formlega óskað eftir aðstoð lögreglu hér á landi við rannsókn málsins. Í máli pólsku lögreglunnar sé kærði undir rökstuddum grun um aðild að stórfelldu fíkniefnalagabroti þar sem kærði hafi á skipulegan hátt með öðrum aðilum komið að inn- og útflutningi á ótilgreindu magni af fíkniefnum frá Póllandi til Íslands. Telji pólska lögreglan að kærði hafi hagnast um tíu milljónir króna á þess konar ólöglegum viðskiptaháttum. Hafi pólsk yfirvöld óskað formlega eftir því við íslensk yfirvöld að kærði verði handtekinn og yfirheyrður vegna þessa.

Í greinargerðinni kemur fram að nánar sé vísað í fyrirliggjandi gögn hvað varði  rökstuðning lögreglu með kröfu um gæsluvarðhald á grundvelli rannsóknarhagsmuna.

Í ljósi ofangreinds og þeirra gagna sem lögreglan hafi aflað sé kærði undir rökstuddum grun um aðild að stórfelldu fíkniefnalagabroti sem og peningaþvætti. Kærði hafi verið handtekinn fyrr í dag og leit framkvæmd á heimili hans, hjá öðrum sakborningum og í verslunum [...]. Við leitirnar hafi verið lagt hald á mikið magn af gögnum, símum, tölvum, bókhald félagsins ofl. og sé ljóst að lögregla þurfi nú að fara yfir haldlögð gögn og sé mjög mikilvægt að lögreglan fái tækifæri til að bera gögnin undir kærða sjálfstætt á meðan hann sæti gæsluvarðhaldi. Talsvert reiðufé, sem nemi andvirði nokkurra milljóna króna, hafi fundist á heimili kærða og annarra sakborninga. Telji lögregla brýna nauðsyn á því að kærði sæti gæsluvarðhaldi, í einangrun, á þessu stigi máls þar sem ljóst sé að ef kærði gengur laus þá geti hann sett sig í samband við meinta samverkamenn, eða þeir sett sig í samband við hann, sem og möguleg vitni. Þá geti kærði einnig komið undan gögnum með sönnunargildi sem lögreglu hafi ekki tekist að leggja hald á nú þegar. 

Með vísan til framangreinds, framlagðra gagna og a-liðar 1. mgr. 95. gr. laga um meðferð sakamála nr. 88/2008 og til að sæta einangrun samkvæmt b. lið 1. mgr. 99. gr., sbr. 2. mgr. 98. gr. sömu laga,  sé þess krafist að krafan nái fram að ganga eins og hún er sett fram.

Niðurstaða

Í greinargerð lögreglu kemur fram að lögreglustjórinn á höfuðborgarsvæðinu hafi haft til rannsóknar um nokkurt skeið mál er varði skipulagða brotastarfsemi sem tengist innflutningi fíkniefna og peningaþvætti. Rannsókn lögreglu hafi verið unnin í samstarfi við pólsk og hollensk yfirvöld. Rannsókn lögreglu hafi beinst að fyrirtækinu [...] ehf. og aðilum er tengist því. Fyrirtækið sé í eigu Z og Y. Z er bróðir kærða og búsettur í Hollandi. [...] ehf. sem reki þrjár matvöruverslanir staðsettar að [...], [...] og [...]. Lögreglan hafi við rannsókn sína aflað upplýsinga og gagna þess efnis að verslunin hafi verið stofnuð fyrir fjármuni sem voru ágóði af brotastarfsemi kærða og meðeiganda hans Z, en hann sé búsettur í Hollandi. Samkvæmt upplýsingum og gagna sem lögregla hafi aflað við rannsókn sína komi fram að verslunin hafi verið stofnuð fyrir fjármuni sem hafi verið ágóði af brotastarfsemi framangreindra aðila og fleir sem tengist versluninnni.

Við rannsókn málsins hafi lögreglu borist upplýsingar þess efnis að kærði standi að innflutningi á fíkniefnum hingað til lands. Þá kemur jafnframt fram í greinargerð að peningaþvættisskrifstofu hafi borist tilkynningar um reiðufjárumsvif kærða. Rannsókn lögreglu á bankagögnum hafi leitt í ljós að fjárhagsleg umsvif kærða séu ekki í samræmi við skráðar tekjur og háar reiðufjárinnlagnir á reikning hans á því tímabili sem hafi verið skoð. Einnig séu um veruleg gjaldeyriskaup af hálfu kærða að ræða.

Til viðbótar rannsókn lögreglu þá hafi pólsk lögregluyfirvöld haft til rannsóknar mál er varði skipulagða brotastarfsemi og hafi þau formlega óskað eftir aðstoð lögreglu hér á landi við rannsókn málsins. Í máli pólsku lögreglunnar sé kærði undir rökstuddum grun um aðild að stórfelldu fíkniefnalagabroti þar sem kærði hafi á skipulegan hátt með öðrum aðilum komið að inn- og útflutningi á ótilgreindu magni af fíkniefnum frá Póllandi til Íslands og Bretlands. Telji pólska lögreglan að kærði hafi hagnast um hundruð milljóna króna á þess konar ólöglegum viðskiptaháttum. Hafi pólsk yfirvöld gefið út evrópska handtökuskipun á hendur kærða vegna þessa máls og óskað eftir því formlega við íslensk lögregluyfirvöld að kærði verði handtekinn hér á landi.

Kærði var handtekinn fyrr í dag og leit framkvæmd á heimili hans og í verslunum [...] ehf. sem og hjá öðrum sakborningum. Við leitirnar hafi verið lagt hald á mikið magn af gögnum, símum, tölvum, bókhald félagsins ofl. og sé ljóst að lögregla þurfi nú að fara yfir haldlögð gögn og sé mjög mikilvægt að lögreglan fái tækifæri til að bera gögnin undir kærða sjálfstætt á meðan hann sæti gæsluvarðhaldi.

Fallist er á það með lögreglu að kærði sé í ljósi ofangreinds og þeirra gagna sem lögreglan hefur aflað sér að kærði sé undir rökstuddum grun um aðild að stórfelldu fíkniefnalagabroti sem og peningaþvætti. Ætluð brot kærða eru talin varða við 175. gr. a, 173. gr. a og 264.gr. almennra hegningarlaga og geta varðað allt að 6 ára fangelsi og eftir atvikum 12 ára fangelsi.

Þá er fallist á að brýna nauðsyn beri til að kærði sæti gæsluvarðhaldi í einangrun á þessu stigi máls þar sem kærði gæti sett sig í samband við meinta samverkamenn eða þeir haft samband við hann, og möguleg einnig vitni. Þá er nauðsynlegt að tryggja kærði nái ekki að spilla  eða koma undan gögnum er lögreglu hefur ekki þegar tekist að leggja hald á nú þegar. Dómari fellst ekki á með verjanda að vægari úrræði komi til greina í máli þessu. Þá eru ekki á þessu stigi efni til að marka gæsluvarðhaldi skemmri tíma þar sem með hliðsjón af atvikum öllum, gögnum málsins og því sem rakið hefur verið, bendir allt til að rannsókn verði umfangsmikil og teygi sig til annarra landa.

  Með vísan til framangreinds, framlagðra gagna, alvarleika málsins og a-liðar 1. mgr. 95. gr. laga 88/2008 um meðferð sakamála er fallist á að krafan skuli ná fram að ganga eins og hún er sett fram og nánar greinir í úrskurðarorði. Um heimild til einangrunar meðan á gæsluvarðhaldinu stendur er vísað til 2. mgr. 98. gr. og b-liðar 1. mgr. 99. gr., sbr. 2.mgr. 98. gr. sömu laga en eins og rakið hefur verið  krefjast brýnir rannsóknarhagsmunir þess að kærði sæti einangrun meðan á gæsluvarðhaldi stendur.

Þórður Clausen Þórðarson héraðsdómari kveður upp úrskurð þennan.

Ú R S K U R Ð A R O R Ð

Kærði, X, skal sæta gæsluvarðhaldi, allt til föstudagsins 22. desember 2017, kl. 16:00. Kærði sæti einangrun meðan á gæsluvarðhaldinu stendur.