Hæstiréttur íslands
Mál nr. 635/2017
Lykilorð
- Kærumál
- Vistun á stofnun
Reifun
Dómur Hæstaréttar.
Mál þetta dæma hæstaréttardómararnir Helgi I. Jónsson, Benedikt Bogason og Greta Baldursdóttir.
Varnaraðili skaut málinu til Hæstaréttar með kæru 4. október 2017 sem barst réttinum ásamt kærumálsgögnum degi síðar. Kærður er úrskurður Héraðsdóms Reykjavíkur 4. október 2017 þar sem varnaraðila var gert að sæta vistun á viðeigandi stofnun allt til miðvikudagsins 11. október 2017 klukkan 16 og einangrun meðan á henni stendur. Kæruheimild er í l. lið 1. mgr. 192. gr. laga nr. 88/2008 um meðferð sakamála. Varnaraðili krefst þess aðallega að hinn kærði úrskurður verði felldur úr gildi, en til vara að vistuninni verði markaður skemmri tími.
Sóknaraðili krefst staðfestingar hins kærða úrskurðar.
Með vísan til forsendna hins kærða úrskurðar verður hann staðfestur.
Dómsorð:
Hinn kærði úrskurður er staðfestur.
Úrskurður Héraðsdóms Reykjavíkur miðvikudaginn 4. október 2017
Lögreglustjórinn á höfuðborgarsvæðinu hefur krafist þess að Héraðsdómur Reykjavíkur úrskurði X kt. [...] til að sæta vistun á viðeigandi stofnun allt til miðvikudagsins 11. október 2017 kl. 16.00. Þá er þess krafist að kærða verði gert að sæta einangrun á meðan á vistun hans stendur.
Í greinargerð sækjanda kemur fram að lögreglan rannsaki nú alvarlega líkamsárás sem átt hafi sér stað á heimili við [...] í Reykjavík í gærkvöldi. Þegar lögregla hafi komið á vettvang hafi A, hér eftir brotaþoli, legið í stofu íbúðarinnar með stungusár á kviði. Hann hafi í kjölfarið verið fluttur á slysadeild. Í framhaldi hafi upplýsingar borist lögreglu um að fimm menn hefðu hlaupið frá [...] og ekið á brott á bifreiðinni [...]. Öryggismyndavélar séu í sameign hússins og hafi lögregla skoðað myndefni úr þeim. Á upptökunum sjáist fimm menn koma að [...] á bifreiðinni [...] og fara inn í húsið. Stuttu seinna sjáist sömu menn koma hlaupandi út úr húsinu og aka í burtu. Lögregla hafi þekkt einn mann á upptökunum og haft samband við hann. Hann hafi skömmu síðar gefið sig fram við lögreglu og verið handtekinn við [...] á Bíldshöfða. Sá maður kannist við að hafa komið inn á heimili við [...] á þeim tíma er árásin hafi átt sér stað.
Þá er þess getið að lögregla hafi í gærkvöldi yfirheyrt vitni sem statt hafi verið á vettvangi þegar árásin átti sér stað. Fram hafi komið hjá vitninu að það hafi verið ásamt hópi fólks á heimili við [...] þegar þangað hafi ruðst inn 4-5 menn sem hafi sprautað macei framan í vitnið. Segði vitnið að tveir úr hópi árásarmannanna hafi verið með kjöthnífa á lofti. Hafi þeir í framhaldi stungið brotaþola með hnífunum. Vitnið hafi þá sagst ætla að kalla eftir aðstoð lögreglu og þá hafi mennirnir hlaupið út. Framburður annarra vitna sem stödd hafi verið á vettvangi sé til samræmis við framangreint.
Í greinargerð sækjanda kemur einnig fram að brotaþoli málsins lýsi því í skýrslutöku í dag að hafa verið heima hjá félaga sínum þegar þangað hefðu ruðst inn um fimm menn. Í framhaldi hafi tveir mannanna ráðist að honum vopnaðir hnífum og annar þeirra stungið hann. Brotaþoli hafi getað nafngreint þrjá mannanna sem ráðist hafi á sig en segðist ekki kannast við hina. Kærði sé meðal þeirra manna sem brotaþoli nefni að hafi ráðist á sig. Kærði hafi verið yfirheyrður í dag. Hann neiti að hafa verið á vettvangi og neiti að öðru leyti að tjá sig um málið. Hins vegar hafi komið fram hjá honum að hann hefði verið með meðkærða, sem handtekinn hafi verið vegna málsins í gær, á [...] við Bíldshöfða í gærkvöldi.
Í greinargerð sækjanda er tekið fram að lögregla hafi á þessu stigi máls ekki haft upp á einum þeirra manna sem brotaþoli hafi nafngreint í skýrslutökunni í dag og þá hafi ekki verið unnt að finna út á þessu stigi hverjir hinir tveir séu sem hafi komið með kærða á vettvang í gærkvöldi. Unnið sé að því að greina myndir úr eftirlitsmyndavélum og fara yfir þau gögn sem liggi fyrir til að reyna að finna út hverjir þeir séu. Þá hafi lögregla ekki fundið meint árásarvopn.
Það sé mat lögreglustjóra að lagaskilyrðum rannsóknargæslu sé fullnægt í máli þessu, enda kærði undir rökstuddum grun um alvarlega líkamsárás sem talin sé varða við 2. mgr. 218. gr. almennra hegningarlaga nr. 19/1940 og geti varðað allt að 16 ára fangelsi. Þá sé rannsókn málsins hvergi nærri lokið en ekki hafi tekist að hafa upp á þremur af árásarmönnunum. Kærði hafi neitað að tjá sig um málið og árásarvopnin séu ófundin. Að mati lögreglu sé því afar brýnt að kærða verði gert að sæta gæsluvarðhaldi og einangrun þannig að hann hafi ekki tækifæri til að torvelda rannsókn málsins, svo sem með því að hafa áhrif á möguleg vitni, koma undan munum, hafa áhrif á aðra samseka og samræma framburð sinn við þeirra sem enn hafi ekki tekist að hafa upp á.
Með vísan til aldurs kærða sé það mat lögreglu að forsendur séu til þess að í stað gæsluvarðhalds verði honum gert að sæta vistun á viðeigandi stofnun. Með vísan til framangreinds, framlagðra gagna, a-liðar 1. mgr. 95. gr. og 100. gr. og b-liðar 1. mgr. 99. gr. laga nr. 88/2008 um meðferð sakamálamála, sé þess krafist að krafan nái fram að ganga.
Niðurstaða:
Í málinu liggur fyrir að brotaþoli bendir á kærða sem einn þeirra manna sem veist hafi að honum með þeim afleiðingum meðal annars að hann fékk stungusár með hníf á kvið. Kveður sóknaraðili að umræddur áverki hafi verið lífshættulegur. Kærði neitar alfarið sök. Fyrir liggja í málinu myndir úr eftirlitsmyndavél sem sóknaraðili telur sýna að kærði hafi verið einn þeirra manna sem um ræðir.
Þykir framangreint nægilegt til að telja að fram sé kominn rökstuddur grunur um að kærði hafi átt þátt í afbroti sem varðað geti fangelsisrefsingu, enda þótt ekki liggi endanlega fyrir hver þáttur hans kunni að hafa verið. Fyrir liggur að rannsókn málsins er á frumstigi og atvik enn ekki upplýst og að ekki hefur tekist að finna alla þá menn sem taldir eru hafa verið á vettvangi. Leiðir af framangreindu að skilyrði 1. mgr. 95. gr., sbr. a. lið greinarinnar teljast uppfyllt. Þá er við kröfugerð sóknaraðila gætt að ungum aldri kærða og var upplýst að tiltækt væri pláss á Stuðlum fyrir hann meðan á vistun hans stendur. Eru því fyrir hendi skilyrði til að beita heimild í 100. gr. laga nr. 88/2008 um vistun á viðeigandi stofnun. Ekki þykja efni til að marka vistuninni skemmri tíma en sóknaraðili krefst. Þá þykir ekki vafi á að rannsóknarhagsmunir liggja til þess að kærða verði gert að sæta einangrun eins og krafist er, sbr. b. lið 99. gr. laga nr. 88/2008.
Þá er og rétt að minna á að þrátt fyrir það tímamark sem dómurinn ákveður hvílir sú skylda á lögreglu samkvæmt lögum að aflétta einangrun og eftir atvikum vistun þegar rannsóknarhagsmunir krefjast þess ekki lengur að úrræðunum sé beitt.
Halldór Björnsson héraðsdómari kveður upp úrskurð þennan.
Ú R S K U R Ð A R O R Ð
Kærði, X, kt. [...], skal sæta vistun á viðeigandi stofnun allt til miðvikudagsins 11. október 2017 kl. 16.00. Kærði skal sæta einangrun á meðan á vistun hans stendur.