Hæstiréttur íslands
Mál nr. 237/2016
Lykilorð
- Kærumál
- Opinber skipti
- Óvígð sambúð
- Frávísun frá héraðsdómi
Reifun
Hæstaréttar.
Mál þetta dæma hæstaréttardómararnir Markús Sigurbjörnsson, Benedikt Bogason og Viðar Már Matthíasson.
Sóknaraðili skaut málinu til Hæstaréttar með kæru 23. mars 2016 en kærumálsgögn bárust réttinum 6. apríl sama ár. Kærður er úrskurður Héraðsdóms Reykjavíkur 9. mars 2016, þar sem leyst var úr nánar tilteknum ágreiningi aðila við opinber skipti til fjárslita þeirra vegna slita á óvígðri sambúð. Kæruheimild er í 1. mgr. 133. gr. laga nr. 20/1991 um skipti á dánarbúum o.fl. Sóknaraðili krefst þess í fyrsta lagi að viðurkennt verði að varnaraðili beri helmings hlut í kostnaði, samtals að fjárhæð 4.636.839 krónur, vegna framkvæmda við fasteign aðila að [...] í [...]. Í öðru lagi krefst sóknaraðili þess að viðurkennt verði að honum beri helmings hlutdeild í leigutekjum af fasteigninni, annars vegar vegna bílskúrs frá 1. ágúst 2012 til 1. apríl 2016, samtals 2.640.000 krónur, og hins vegar vegna íbúðar frá 1. ágúst 2014 til 1. apríl 2016, samtals 1.800.000 krónur. Í þriðja lagi krefst sóknaraðili þess að fá eignina lagða sér út. Í fjórða lagi krefst sóknaraðili þess aðallega að viðurkennt verði að aðilar beri að jöfnu ábyrgð á dómskuld vegna leigu íbúðar í [...] en til vara að kröfu varnaraðila um að sóknaraðili beri einn ábyrgð á skuldinni verði vísað frá héraðsdómi. Í fimmta lagi krefst sóknaraðili þess að aðilum beri að jöfnu að greiða skuld við Íslandsbanka hf., sem hvílir samkvæmt tryggingarbréfi á 3. veðrétti í fyrrgreindri fasteign. Í sjötta lagi krefst sóknaraðili þess að hrundið verði því ákvæði hins kærða úrskurðar að vísa frá dómi kröfu sóknaraðila um að honum beri leiðrétting vegna húsnæðislána að fjárhæð 546.556 krónur. Þá krefst sóknaraðili málskostnaðar úr hendi varnaraðila.
Varnaraðili krefst staðfestingar hins kærða úrskurðar og kærumálskostnaðar.
I
Við opinbert skipti til fjárslita við lok óvígðrar sambúðar koma til skipta samkvæmt 1. mgr. 104. gr. laga nr. 20/1991, ef ekki verða sammæli um annað, þær eignir og þau réttindi aðila sem tilheyrðu þeim á viðmiðunardegi skiptanna. Að auki skulu koma til skipta arður, vextir og annars konar tekjur sem hafa fengist síðar af þeim eignum og réttindum. Með sama hætti skal við skiptin aðeins tekið tillit til skulda aðilanna sem höfðu stofnast en voru ekki greiddar á því tímamarki. Svo fljótt sem verða má eftir skipun skiptastjóra er annast skiptin skal hann boða aðila eða þá sem gæta hagsmuna þeirra til skiptafundar til að leita vitneskju um hverjar eignir geti komið til skipta, hvorum aðilanum þær tilheyri, hvert verðmæti þeirra sé, hvar þær sé að finna og hver fari með umráð þeirra, sbr. 1. mgr. 105. gr. laga nr. 20/1991. Verði ekki sammæli um verðmat eigna og liggi ekki þá þegar fyrir að þeim verði komið í verð við skiptin getur hvor aðilinn sem er krafist þess eftir 3. mgr. sömu greinar að skiptastjóri æski mats á þeim samkvæmt reglum 17. til 23. gr. laganna og njóta þá báðir aðilarnir þeirrar stöðu sem erfingjum er veitt í þeim ákvæðum. Á skiptafundum skal skiptastjóri enn fremur afla upplýsinga um þær skuldir aðilanna sem koma til álita, sbr. 1. mgr. 106. gr. laganna.
Þegar aflað hefur verið viðhlítandi upplýsinga um eignir og skuldir sem falla undir skiptin fara þau fram með því að greina á milli þeirra eigna sem tilheyra hvorum aðila fyrir sig og þeirra sem tilheyra þeim í sameiningu. Eins skal farið með skuldir hvors þeirra um sig og þær skuldir sem beinast að þeim báðum í senn, sbr. 1. mgr. 109. gr. laga nr. 20/1991. Ef sammæli verða ekki um aðra skipan skal hvor aðili fá í sinn hlut vermæti eigna sem tilheyra honum einum og verðmæti hlutdeildar hans í því sem hann á í sameign með gagnaðila sínum. Frá þessari heildareign hvors aðila um sig skal síðan dregin fjárhæð skulda sem beinast að hvorum þeirra, ásamt hlutdeild hvors í sameiginlegum skuldum, sbr. 2. mgr. 109. gr. laganna. Hvor aðilinn á síðan rétt á að fá eignir í sinn hlut á móti skuldum sínum að því marki sem eignir hans sjálfs, þar á meðal hlutdeild í sameign, hrökkva fyrir skuldum. Ef eignir aðilans nægja hins vegar ekki fyrir skuldum hans verður ekki tekið tillit til þeirra sem umfram eru nema aðilar ákveði annað, sbr. 3. mgr. 109. gr. laganna. Hrein eign kemur síðan til skipta eftir því sem leitt verður af reglum sem gilda um fjármál fólks í óvígðri sambúð. Þegar fundið hefur verið á þennan hátt hversu mikil verðmæti hvor aðili á að fá í sinn hlut skal skiptastjóri samkvæmt 1. mgr. 110. gr. þeirra laga gefa hvorum aðila fyrir sig kost á því á skiptafundi að fá eignir lagðar sér út eftir reglum 2. til 4. mgr. ákvæðisins hafi aðilar ekki þegar komið sér saman um annað. Fer útlagningin fram þegar skiptastjóri telur skilyrði standa til hennar og skulu aðilanum þá lagðar út eignir þegar í stað til frjálsrar ráðstöfunar þótt enn sé óvíst um eignir og skuldir að öðru leyti, enda þyki sýnt að hvorugur aðilinn fái meira í sinn hlut með þessum hætti en hann muni eiga rétt á að endingu. Í samræmi við þetta gefur skiptastjóri út heimildarskjöl um útlagningu ef þeirra er þörf. Að því leyti sem eignir verða ekki lagðar aðilum út skulu teknar ákvarðanir á skiptafundi um ráðstöfun þeirra, sbr. 1. mgr. 111. gr. laga nr. 20/1991.
Ef ágreiningur rís milli aðila við opinber skipti um þau atriði sem hér hafa verið rakin skal skiptastjóri leitast við að jafna hann, sbr. 112. gr. laga nr. 20/1991. Takist það ekki beinir hann málefninu til héraðsdóms eftir ákvæðum 122. gr. laganna. Í kröfu skiptastjóra um úrlausn héraðsdóms skal meðal annars tilgreina um hvað ágreiningur standi og hverjar kröfur hafi komið fram í því sambandi, sbr. 3. tölulið 1. mgr. 122. gr. nefndra laga. Með því móti er sakarefni málsins afmarkað og verður ekki leyst úr öðrum ágreiningsefnum í því, sbr. til hliðsjónar dóm Hæstaréttar 25. janúar 2016 í máli nr. 811/2015.
Samkvæmt 1. mgr. 113. gr. laga nr. 20/1991 hafa aðilar heimild til hvenær sem er að fella niður skiptin ef þeir eru einhuga um það og skiptakostnaður hefur verið greiddur. Eins getur skiptum lokið með samkomulagi aðila og skal skiptastjóri þá gera skriflegan samning milli þeirra og árita hann um skiptalokin, sbr. 2. mgr. sömu greinar. Ef skiptum lýkur ekki með þessu móti skal skiptastjóri svo fljótt sem verða má, eftir að eignir hafa verið lagðar aðilunum út eða þeim hefur verið ráðstafað, gera frumvarp til úthlutunar vegna fjárslitanna, sbr. 3. mgr. 113. gr. laganna. Um efni þess og meðferð fer eftir 77. til 79. gr. laganna. Skiptastjóri tilkynnir síðan héraðsdómi skriflega um skiptalokin, sbr. 1. mgr. 114. gr. laganna.
II
Svo sem greinir í hinum kærða úrskurði hófu aðilar sambúð á árinu 2001 en henni var slitið um áramótin 2011 og 2012. Á sambúðartímanum eignuðust aðilar þrjú börn. Fyrir sambúðarslitin bjuggu aðilar í [...] en eftir þau flutti varnaraðili til Íslands með börnin og hefur búið í fasteign aðila að [...] í [...]. Sóknaraðili var áfram búsettur í [...].
Með úrskurði héraðsdóms 5. febrúar 2013 hófust opinber skipti til fjárslita milli aðila og var skiptastjóri skipaður. Á skiptafundum hefur risið fjölþættur ágreiningur milli aðila um fjárslitin sem ekki hefur tekist að jafna. Með bréfi skiptastjóra 27. júní 2013 var nánar tilteknum ágreiningsefnum vísað til úrlausnar héraðsdóms sem felldi úrskurð á málið 28. maí 2014. Með úrskurðinum var viðurkennt að aðilar ættu að jöfnu fyrrgreinda fasteign en öðrum ágreiningsefnum var vísað frá dómi. Úrskurðinum var ekki skotið til Hæstaréttar og verður hann lagður til grundvallar við skiptin.
Skiptastjóri gerði frumvarp 30. október 2014 til úthlutunar vegna skiptanna og er meginefni þess tekið upp í hinum kærða úrskurði. Frumvarpið var lagt fram á skiptafundi 3. nóvember sama ár. Sóknaraðili andmælti frumvarpinu að öðru leyti en því að hann samþykkti að lán sem hvíldu á fasteign aðila kæmu til frádráttar verðmæti eignarinnar og að það skyldi skiptast jafnt milli aðila. Einnig gerði hann þá kröfu að eigninni yrði ráðstafað með sölu. Varnaraðili hafnaði ákvæði frumvarpsins um meðferð veðskulda og áskildi sér rétt til að senda skiptastjóra kröfugerð kæmi til þess að ágreiningsmál yrði rekið. Þá beindi varnaraðili því til skiptastjóra að láta fara fram mat á fasteigninni í samræmi við lög nr. 20/1991. Loks var fært í fundargerð að leitast yrði við að jafna ágreining aðila í tvær vikur en vísa honum að öðrum kosti til úrlausnar héraðsdóms. Kröfugerð varnaraðila barst skiptastjóra ekki fyrr en með bréfi 7. apríl 2015 en þar var fallist á að varnaraðili leysti til sín fasteignina gegn greiðslu eftir verðmati, sem skiptastjóri myndi afla, að frádregnum skuldum sem hvíldu á eigninni. Kröfugerðin tók einnig til þess hvernig varnaraðili taldi að fara ætti með nánar tilgreindar skuldir við skiptin. Með bréfi skiptastjóra 18. maí sama ár var ágreiningi aðila um frumvarpið vísað til héraðsdóms. Í bréfinu var rakin afstaða aðila til frumvarpsins sem kom fram á skiptafundinum 3. nóvember 2014 og þess getið að skiptastjóra hafi borist kröfugerð varnaraðila 7. apríl 2015. Hinn kærði úrskurður gekk síðan 9. mars 2016 eins og áður getur.
III
Eftir þeim reglum sem hér hafa verið raktar ber við opinber skipti til fjárslita vegna slita á óvígðri sambúð að leysa úr því hvaða eignir og skuldir falli undir skiptin. Rísi ágreiningur milli aðila í þeim efnum eða um hvernig farið skuli með eignir og skuldir, án þess að hann verði jafnaður, ber að leita úrlausnar héraðsdóms, sbr. 112. gr. laga nr. 20/1991. Þegar endanlega hefur verið leyst úr slíkum ágreiningi verður ákveðið hvað kemur í hlut hvors aðila að teknu tilliti til skulda þeirra eftir nánari reglum 109. gr. laganna. Samhliða eða eftir því sem skilyrði standa til samkvæmt 110. gr. laganna skulu eignir lagðar aðilum út eða þeim ráðstafað eftir 111. gr. þeirra. Fyrst þegar því er lokið skal skiptastjóri gera frumvarp til úthlutunar vegna skiptanna, sbr. 3. mgr. 113. gr. laganna.
Samkvæmt því sem áður var rakið er ágreiningur með aðilum um hvernig taka eigi tillit til skulda þeirra við fjárslitin. Einnig deila þau um hvort leggja eigi út fasteign þeirra eða ráðstafa henni með sölu. Meðan ekki hefur verið leyst úr þessu verður ekki gert frumvarp til úthlutunar vegna fjárslitanna og því síður verður ágreiningur um slíkt frumvarp borinn undir dóm til að fá leyst úr deilum sem risið hafa við skiptin og hafa áhrif á afdrif þeirra og hvernig þeim verði lokið. Þess í stað ber skiptastjóra eftir að hafa reynt að jafna ágreining að afmarka hann glögglega og vísa honum til úrlausnar fyrir dómi. Að fenginni niðurstöðu um ágreiningsefni og að teknum ákvörðunum um önnur atriði varðandi fjárslitin verður skiptum síðan lokið á grundvelli frumvarps til úthlutunar eftir því sem segir í 113. gr. laganna og áður er rakið. Samkvæmt þessu voru engin efni til að bera málið undir dóm í þeim búningi að ágreiningur stæði um frumvarp til úthlutunar vegna fjárslitanna sem fól aðeins í sér ótímabærar tillögur skiptastjóra um hvernig ljúka mætti skiptunum í heild miðað við tilteknar og breytilegar forsendur. Af þessu leiðir að vísa verður málinu frá héraðsdómi.
Rétt er að málskostnaður á báðum dómstigum falli niður.
Dómsorð:
Máli þessu er vísað frá héraðsdómi.
Málskostnaður í héraði og fyrir Hæstarétti fellur niður.
Úrskurður Héraðsdóms Reykjavíkur 9. mars 2016
Máli þessu var beint til héraðsdóms af skiptastjóra við sambúðarslit K, [...], [...], sóknaraðila, og M, [...], [...], varnaraðila. Erindið barst dóminum 28. maí 2015. Málið var tekið til úrskurðar að lokinni aðalmeðferð 22. febrúar sl.
Í bréfi skiptastjóra segir að frumvarp hans að úthlutun hafi verið lagt fram 30. október 2014 og rætt á skiptafundi 3. nóvember.
Samkvæmt frumvarpinu eru ekki aðrar eignir í búinu en fasteignin [...] í [...].
Skuldir eru:
1. Skuld við Íbúðalánasjóð sem hvílir á 1. veðrétti á fasteigninni.
2. Skuld við Íslandsbanka hf. sem hvílir á 2. veðrétti.
3. Skuld við Íslandsbanka sem tryggt er með 3. veðrétti samkvæmt tryggingarbréfi.
4. Skuld vegna húsaleigu samkvæmt dómi [...]-réttar 4. mars 2014.
5. Skuld vegna endurgreiðslu gjalda vegna frístundaheimilis eða leikskólagjalda.
Skiptastjóri kveðst hafa lagt til að eign búsins, íbúð að [...] yrði skipt að jöfnu milli málsaðila. Þá hafi hann lagt til eftirfarandi:
1. Skiptastjóri aflar verðmats á fasteigninni að [...] frá óhlutdrægum og löggiltum fasteignasala. það mat verður lagt til grundvallar við úthlutun.
2. Áhvílandi lán á fasteigninni að [...] dragast frá verðmæti eignarinnar miðað við stöðu þeirra við úthlutun.
3. Mismunur á verðmæti fasteignarinnar skv. 1. tl. og áhvílandi lána skv. 2. tl. skiptist jafnt á milli aðila.
4. K leysir til sín eignarhlut M í fasteigninni að [...]. Innlausn skal greidd annars vegar með yfirtöku áhvílandi lána og hins vegar með greiðslu í peningum.
5. Frá greiðslu K skv. 4. tl. dregst frá hlutdeild M í ógreiddum leikskólagjöldum (50%) og skuld skv. dómi [...]-réttar (50%).
6. Frá greiðslu til M dregst jafnframt frá hlutdeild hans (50%) í skiptakostnaði.
7. K sér um að greiða ógreiddar skuldir og kostnað skv. 5. og 6. tl. samtímis innlausn.
8. Gangi úthlutun skv. 1.7. tl. ekki eftir innan eins mánaðar frá samþykki frumvarps þessa verður fasteignin að [...] seld á almennum markaði. Söluandvirði verður nýtt til greiðslu skulda búsins og kostnaðar samkvæmt sömu forsendum og að framan greinir. Þá bera aðilar í öllum tilvikum að jöfnu þann kostnað sem af ráðstöfun eignarinnar kann að hljótast (s.s. þinglýsingarkostnaður og söluþóknun).
Þá sagði í bréfinu að aðilar hafi fellt sig við ákvörðun um eignarhlut í fasteigninni og skiptingu áhvílandi skulda. Vísaði skiptastjóri nánar til úrskurðar héraðsdóms í máli nr. Q-16/2013. Að öðru leyti hefði varnaraðili, M, hafnað frumvarpinu og krafist þess að fasteignin yrði seld á almennum markaði. Þó myndi hann fella sig við 8. tl. frumvarpsins að undanskilinni skuld vegna frístundaheimilis.
Loks segir að lögmaður sóknaraðila, K, hafi hafnað afstöðu skiptastjóra til 3. tl. Þá hafi lögmaðurinn lagt til skiptastjóra sérstaka skriflega kröfugerð.
Endanlegar kröfur sóknaraðila koma fram í greinargerð hennar. Þær eru:
a. Að staðfest verði frumvarp skiptastjóra til úthlutunar eins og það var lagt fram á skiptafundi þann 30. október 2014 að öðru leyti en því að:
b. Hafnað verði tillögu skiptastjóra þar sem kveðið er á um að 50% skuldar vegna vangoldinnar húsaleigu varnaraðila samkvæmt dómi [...]/[...] verði dregin frá greiðslu sóknaraðila til varnaraðila. Þess í stað er þess krafist að viðurkennt verði að varnaraðili beri einn ábyrgð á greiðslu skuldarinnar þannig að hún komi öll til lækkunar á greiðslu sóknaraðila til varnaraðila við innlausn eignarinnar.
c. Hafnað verði tillögu skiptastjóra um að aðeins 50% skuldarinnar við Íslandsbanka, samkvæmt tryggingarbréfi að fjárhæð 1.700.000, útgefið 15. júní 2005 skuli dragast frá verðmæti fasteignarinnar að [...], [...] og koma þannig til lækkunar á eignarhlut sóknaraðila. Þess í stað verði viðurkennt að varnaraðili beri einn ábyrgð á greiðslu skuldarinnar og komi þá aðeins til lækkunar á hans eignarhlut í fasteigninni.
d. Sóknaraðila verði gert að greiða málskostnað að skaðlausu.
Varnaraðili gerir í greinargerð sinni þessar kröfur:
a. Að dómurinn viðurkenni að sóknaraðili beri helmings-hlut í þeim kostnaði sem varnaraðili hafi lagt út vegna byggingar á húsi og bílskúr við [...]. Þennan kostnað telur varnaraðili nema 7.923.677 krónum og beri sóknaraðila að greiða helming hans, eða 3.961.839 krónur. Kostnaðinn sundurliðar hann svo:
Byko 881.369
Verkfræðingur 600.000
Arkitekt 550.000
Smiður 2.600.000
Jarðvegsvinna 886.442
Gluggar og hurðir 335.011
Steypa og járn 622.341
Innrétting 270.000
Gatnagerðargjöld 1.178.514
b. Að viðurkennt verði að honum beri helmingur leigutekna vegna bílskúrs við húsið, en þær nemi 120.000 krónum á mánuði frá 1. ágúst 2012 til 31. október (2015), samtals 4.680.000 krónum. Hans hluti nemi því 2.340.000 krónum, „eða þangað til dæmt verður í málinu“.
c. Að viðurkennd verði helmingshlutdeild hans í leigutekjum á íbúðinni að [...]. Telur hann hlutdeildina nema 1.350.000 krónum.
d. Að viðurkennt verði að sóknaraðili skuldi varnaraðila „fullan og óskertan hlut í greiðslu lána, fasteignagjalda, trygginga og orkuveitu frá 1. janúar 2012 til 1. ágúst að upphæð 1.075.000 sem varnaraðili greiddi fyrir sóknaraðila þrátt fyrir að hafa ekki verið búsettur þar. Eða að sóknaraðili greiði varnaraðila leigu fyrir umrætt tímabil.“
e. Að staðfest verði tillaga skiptastjóra um dóm [...]-réttar [...]/[...].
f. Að vísað verði frá kröfu sóknaraðila um greiðslu á skuld hennar vegna leikskólagjalda.
g. Jafnframt er þess krafist að dómurinn staðfesti tillögu skiptastjóra um að lán á 1. og 2. veðrétti séu að öllu óbreyttu skuld beggja aðila og einnig að tryggingarbréf á 3. veðrétti sé einnig skuld beggja aðila.
h. Varnaraðili mótmælir kröfu sóknaraðila um að hún fái að leysa til sín íbúðina.
Varnaraðili lagði fram viðbótarkröfugerð við fyrirtöku málsins 11. desember 2015. Krafðist hann þess að sóknaraðili greiddi leigu af íbúðinni að fjárhæð 160.000 krónur á mánuði frá 1. janúar 2012 til 10. desember 2015. Ennfremur að leiðrétting vegna húsnæðislána á hans eignarhluta kæmi honum einum til tekna. Hafi leiðréttingin numið 546.556 krónum. Loks að hann fengi greitt fyrir vinnu við bílskúr við húsið við [...], annars vegar 1.125.000 krónur auk virðisaukaskatts (250 tímar á 4.500), hins vegar 225.000 krónur auk virðisaukaskatts (50 tímar raflagnavinna á 4.500)
Sóknaraðili mótmælti þessum kröfum sem of seint fram komnum.
Málsaðilar hófu sambúð á árinu 2001. Þau eignuðust þrjú börn á sambúðartímanum. Þau bjuggu fyrst í leiguíbúð í [...], en fluttu til [...] og bjuggu þar uns þau skildu. Þau slitu sambúðinni í [...] 2012. Er sambúðinni var slitið flutti sóknaraðili til Íslands með öll börn þeirra, en varnaraðili bjó áfram í [...].
Með úrskurði héraðsdóms 5. febrúar 2013 hófust opinber skipti til fjárslita milli aðila. Var Grétar Dór Sigurðsson hdl. skipaður skiptastjóri.
Á árinu 2004 höfðu aðilar keypt íbúð að [...] í [...]. Ágreiningi um þá íbúð var lokið að hluta með úrskurði héraðsdóms 28. maí 2014. Varð niðurstaðan sú að málsaðilar ættu íbúðina saman og að jöfnu. Í úrskurðinum var vísað frá dómi kröfu sóknaraðila um að hún leysti til sín eignarhluta varnaraðila í fasteigninni samkvæmt tilteknu verðmati. Þá var einnig vísað frá dómi kröfu um að viðurkennt yrði að varnaraðili bæri einn ábyrgð á skuld við Íslandsbanka sem hvíldi á 3. veðrétti á íbúðinni. Loks var vísað frá dómi kröfu um viðurkenningu á hlutdeild varnaraðila í skuld vegna leikskólagjalda í [...].
Málsástæður og lagarök sóknaraðila
Sóknaraðili kveðst fallast á tillögu skiptastjóra um mat á íbúðinni. Telur hún að miðað skuli við gangverð. Byggir sóknaraðili á því að íbúðin sé í óskiptri sameign aðila í jöfnum hlutföllum.
Sóknaraðili krefst þess að hún fái að leysa til sín íbúðina á matsverði samkvæmt framansögðu. Hún telur sig hafa meiri þörf fyrir íbúðina. Hún fari með forsjá þriggja barna aðila, en varnaraðili búi í [...] og hyggist búa þar áfram. Þá hafi hún greitt af veðskuldum á íbúðinni og öll fasteignagjöld og vátryggingar. Hún krefst þess hins vegar að frestur til að ljúka frágangi kaupanna verði ákveðinn tveir mánuðir í stað eins, það sé óraunhæft að unnt sé að ganga frá yfirtöku veðskulda á svo skömmum tíma.
Sóknaraðili mótmælir því að tekið verði tillit til skuldar við Íslandsbanka sem hvíli á 3. veðrétti samkvæmt tryggingabréfi. Varnaraðili hafi ekki sýnt fram á að sóknaraðili beri ábyrgð á skuldinni sem hér sé að baki. Við fjárslitin beri hvorum aðila að taka þær eignir og skuldir sem tilheyrðu honum við upphaf sambúðar eða hann eignaðist á meðan hún stóð. Varnaraðili beri sönnunarbyrðina fyrir því að krafan sé til og að sóknaraðili beri ábyrgð á henni. Þótt hún hafi borið ábyrgð á skuld við bankann sé sú skuld nú uppgreidd. Tryggingarbréfið tryggi nú skuldir sem varnaraðili hafi stofnað til.
Sóknaraðili krefst þess að skuld samkvæmt dómi [...]-réttar verði öll dregin frá greiðslu hennar, þannig að varnaraðili beri einn þessa skuld. Skuldin sé vegna ógreiddrar húsaleigu fyrir tímabilið frá 1. mars 2012 til 31. ágúst sama ár. Varnaraðili hafi búið einn í íbúðinni á þessu tímabili. Skipti engu þótt sóknaraðili sé samningsbundin gagnvart leigusala.
Sóknaraðili mótmælir öllum kröfum varnaraðila. Sérstaklega mótmælir hún sem of seint fram komnum þeim kröfum sem lagðar voru fram sem viðbótarkröfugerð. Hún krefst þess aðallega að kröfunum verði vísað frá dómi, til vara að þeim verði hafnað.
Málsástæður og lagarök varnaraðila
Varnaraðili krefst þess að viðurkennt verði að sóknaraðila beri að endurgreiða honum við skiptin 3.961.839 krónur, sem sé helmingur kostnaðar sem hann hafi lagt út vegna byggingar á húsi og bílskúr þeirra við [...]. Þessi krafa er ekki rökstudd frekar, en hún er sundurliðuð og lagði varnaraðili fram reikninga og nótur til stuðnings henni.
Kröfu um viðurkenningu á helmings- hlutdeild í leigutekjum vegna bílskúrs og íbúðarinnar rökstyður varnaraðili ekki sérstaklega í greinargerð en vísar þó til þess að skipt sé til helminga á milli aðila. Hann áætlar leigutekjur vegna íbúðarinnar, en segir að sóknaraðili hafi ekki viljað upplýsa hver leigufjárhæðin hafi verið.
Varnaraðili byggir kröfu um viðurkenningu á skuld sóknaraðila við hann vegna greiðslu lána o.fl. á árinu 2012 á því að hann eigi endurkröfurétt á hendur sóknaraðila samkvæmt dómi héraðsdóms um 50% eignarhluta í fasteigninni [...].
Varðandi húsaleiguskuld samkvæmt dómi byggir varnaraðili á því að sóknaraðili hafi verið aðalleigjandi samkvæmt samningnum og hún hafi ekki tilkynnt leigusala að hún væri að flytja úr íbúðinni. Því hafi hún enn verið leigutaki samkvæmt samningnum. Til vara krefst varnaraðili þess að þessum lið verði vísað frá dómi þar sem dæmt hafi verið um málið í öðru landi og það eigi ekki heima á varnarþingi í Reykjavík.
Varnaraðili styður frávísun kröfu um greiðslu á skuld vegna leikskólagjalda við þá staðreynd að þetta sé skuld sóknaraðila, en hans nafn komi hvergi fram í skjölum þessa máls.
Varnaraðili krefst staðfestingar á tillögu skiptastjóra um áhvílandi veðskuldir. Sóknaraðili hafi ekki sýnt fram á að tryggingarbréfið á 3. veðrétti hafi verið notað til að greiða skuldir varnaraðila. Það hafi fyrst verið notað á árinu 2012.
Varnaraðili mótmælir því að sóknaraðili hafi meiri þörf en hann fyrir að fá íbúðina í sinn hlut. Hún hafi nú flutt til móður sinnar með börn þeirra og búi ekki í íbúðinni.
Varnaraðili segir að eðlilegast væri að inn í skiptin yrði tekinn allur kostnaður við húsið og bílskúrinn og allar tekjur og gert upp til helminga.
Varnaraðili segir að aðilar hafi samið munnlega um að varnaraðili fengi greiddar leigutekjur upp í útlagðan kostnað vegna byggingar og endurbóta. Sóknaraðili hafi ekki staðið við þetta samkomulag.
Varnaraðili segir að sóknaraðili hafi greitt af lánum og reikninga vegna fasteignarinnar, en það komi í sama stað niður og greiðsla húsaleigu. Hann hefði getað greitt helming þessa kostnaðar gegn því að fá leigutekjur. Hann hafi greitt þetta allt frá því að þau keyptu íbúðina 23. ágúst 2004 og fram í september 2012.
Niðurstaða
Ágreiningur aðila reis við skipti til fjárslita eftir sambúð þeirra. Málinu var beint til dómsins af skiptastjóra samkvæmt 122. gr. laga nr. 20/1991. Öðru máli um ágreining aðila var lokið með úrskurði 28. maí 2014. Þar var því slegið föstu að málsaðilar ættu fasteignina [...] að jöfnu í óskiptri sameign, en kröfum um önnur ágreiningsefni var vísað frá dómi.
Ágreiningurinn er afmarkaður í bréfi skiptastjóra og kröfugerð sem höfð var uppi í greinargerðum aðila. Varnaraðili lagði fram greinargerð með kröfugerð þann 23. október 2015. Hann lagði síðan fram viðbótarkröfugerð þann 11. desember 2015, sem sóknaraðili mótmælti sem of seint fram kominni. Samkvæmt 2. mgr. 130. gr. laga nr. 20/1991 eiga kröfur varnaraðila að koma fram í greinargerð. Vegna þessa verður að vísa frá dóminum þeim viðbótarkröfum sem hann hafði uppi 11. desember sl.
Í málinu verður að fjalla um þær eignir og skuldir sem skiptastjóri telur að komi til skipta. Ekki er hægt að fjalla um aðrar kröfur sem varnaraðili hefur uppi. Í bréfi skiptastjóra er ekki vikið að öðrum athugasemdum varnaraðila en að hann hafni frumvarpi að úthlutun. Ekki er sagt frá því að hann geri eða hafi gert athugasemdir við uppskrift búsins. Þá er umfjöllun við skiptin í meginatriðum takmörkuð við stöðu mála er sambúð aðila var slitið, sbr. 1. mgr. 104. gr. laga nr. 20/1991. Í þessu máli er almennt ekki unnt að fjalla um fjárhagsleg samskipti þeirra eftir það tímamark. Þannig verður að kröfu sóknaraðila að vísa frá dóminum kröfum varnaraðila sem lýst er hér að framan sem liðum b, c og d, en þar krefst hann skiptingar milli aðila á leigutekjum og kostnaði sem kom til eftir að sambúð var slitið.
Í a-lið kröfugerðar varnaraðila krefst hann viðurkenningar á því að sóknaraðili beri helmings-hlut í kostnaði af byggingu húss og bílskúrs að [...]. Hefur hann lagt fram kvittanir og reikninga fyrir þessum útgjöldum, sem hann kveðst hafa greitt einn. Þessi útgjöld féllu til á sambúðartímanum og er ekki unnt að endurmeta nú framlög hvors aðila til eignamyndunar og framfærslu aðila og barna þeirra á þeim tíma. Verður þessari kröfu varnaraðila hafnað.
Í áðurgreindum úrskurði var, eins og áður segir, ákveðið að fasteign aðila skildi skipta til helminga milli þeirra. Af málflutningi aðila verður ekki annað ráðið en að þeir vilji báðir byggja almennt á sömu reglu um skuldir sínar, þ.e. að þær skuldir sem hvíldu á þeim er sambúðinni var slitið skuli skiptast jafnt á milli þeirra með því að þær verði dregnar frá verðmæti íbúðarinnar. Ekkert hefur heldur komið fram sem getur rökstutt aðra skiptingu.
Sóknaraðili krefst þess að skuld aðila samkvæmt dómi [...]-réttar reiknist sem skuld varnaraðila eins, en að hún beri ekki ábyrgð á henni. Varnaraðili krefst þess að þau greiði skuld þessa að jöfnu. Samkvæmt dóminum sem lagður hefur verið fram voru þau bæði dæmd til að greiða þessa skuld. Af öðrum gögnum verður séð að meginhluti skuldarinnar er ógreidd leiga á sex mánaða tímabili frá 1. mars 2012. Þetta varðar því fjárskuldbindingar aðila eftir að sambúð var slitið. Þar sem þeir virðast þó sammála um að leyst verði úr ágreiningi um þessa skuld er rétt að úrskurða um hana, sbr. upphafsorð 1. mgr. 104. gr. laga nr. 20/1991. Miða verður við að þótt sóknaraðili hafi verið skuldbundin til greiðslu samkvæmt húsaleigusamningnum, hafi varnaraðili skuldbundið sig til að standa skil á leigunni með því að búa áfram einn í íbúðinni. Verður því að fallast á kröfu sóknaraðila um að þessi skuld reiknist sem skuld varnaraðila eins.
Eins og áður segir verður að miða við að allar skuldir beggja dragist frá heildareignum þeirra við skiptin, og að miða skuli við stöðu mála er sambúðinni var slitið. Ágreiningur er um skuld við Íslandsbanka sem hvílir á 3. veðrétti á íbúðinni samkvæmt tryggingarbréfi, en með því eru tryggðar allar skuldir varnaraðila við bankann. Skiptastjóri leggur til að skuldin dragist frá heildareignum þannig að aðilar beri hana að jöfnu.
Upplýsingar um þessa skuld eru af skornum skammti í skjölum málsins. Í frumvarpi skiptastjóra til úthlutunar segir að skuldin hafi numið 2.973.411 krónum þann 20. júní 2014. Lagt var fram afrit af stefnu þar sem bankinn höfðaði mál á hendur sóknaraðila til staðfestingar á veðrétti í hennar eignarhluta í íbúðinni. Þar er því lýst að skuldir varnaraðila við bankann séu vegna innistæðulausra færslna á tvo bankareikninga hans, sem stofnaðir voru í mars 2003 og maí 2006. Síðan segir hver skuldin hafi verið er reikningunum var lokað 27. mars 2013.
Ekki kemur fram hver skuldin hafi verið þegar sambúð aðila var slitið, en sú fjárhæð ætti með réttu að dragast frá verðmæti íbúðarinnar. Skiptastjóri skýrir ekki afstöðu sína sérstaklega. Það stóð varnaraðila nær að upplýsa um þessar skuldir, hvenær til þeirra hefði verið stofnað og hver staða þeirra var í ársbyrjun 2012. Verður að líta svo á að varnaraðili hafi ekki sannað að skuldin hafi verið komin til fyrir sambúðarslitin. Verður því að breyta tillögu skiptastjóra og fella þennan lið úr frumvarpinu eins og sóknaraðili krefst.
Sóknaraðili krafðist þess í byrjun að skuld vegna endurgreiðslu leikskólagjalda yrði lögð á varnaraðila einan. Hún féll síðar frá kröfunni og báðir aðilar krefjast þess nú að tillaga skiptastjóra verði staðfest. Er hér enda um að ræða skuld sem stofnaðist á sambúðartímanum vegna kostnaðar við umönnun barna aðila, sem báðum bar að standa straum af.
Sóknaraðili krefst þess að henni verði heimilað að leysa til sín íbúðina sem þau eiga í óskiptri sameign. Vísar hún til þess að hún hafi meiri þörf fyrir íbúðina þar sem hún fari með forsjá þriggja barna þeirra, en að varnaraðili hyggist búa áfram erlendis. Mótmæli varnaraðila við þessu eru ekki haldbær, en hann hefur ekki reifað nein sjónarmið um þörf sína fyrir að leysa íbúðina til sín. Verður að fallast á þessa kröfu sóknaraðila og staðfesta tillögu skiptastjóra. Ekki er ástæða til þess að lengja frest sóknaraðila til að ganga frá yfirtöku skulda.
Það er ekki á valdi dómsins í þessu máli að staðfesta frumvarp skiptastjóra sem úthlutunargerð. Hér er mælt fyrir um tilteknar breytingar á frumvarpinu, en það er á valdi skiptastjóra að ljúka skiptum með úthlutun.
Samkvæmt þessum niðurstöðum þar sem fallist er í meginatriðum á kröfur sóknaraðila verður varnaraðila gert að greiða henni 400.000 krónur í málskostnað. Hefur þá verið tekið tillit til virðisaukaskatts.
Jón Finnbjörnsson héraðsdómari kveður upp úrskurð þennan.
Ú r s k u r ð a r o r ð
Framangreindum kröfum varnaraðila, M, um endurgreiðslu kostnaðar, um leigugreiðslur, um leiðréttingu vegna húsnæðislána, um hlutdeild í leigutekjum og um viðurkenningu á skuld, er vísað frá dómi.
Staðfest er tillaga skiptastjóra um að sóknaraðila, K, gefist kostur á að leysa til sín íbúðina að [...] með þeim skilmálum sem í frumvarpi að úthlutun greinir.
Ákvæði frumvarpsins um skuld samkvæmt dómi [...]-réttar er breytt og skal hún reiknast sem skuld varnaraðila eins.
Ákvæði frumvarpsins um skuld samkvæmt tryggingarbréfi á 3. veðrétti er breytt og skal varnaraðili bera þá skuld einn.
Varnaraðili greiði sóknaraðila 400.000 krónur í málskostnað.
Jón Finnbjörnsson