Hæstiréttur íslands
Mál nr. 230/2009
Lykilorð
- Skaðabótamál
- Líkamstjón
- Örorkubætur
- Verðtrygging
Reifun
|
Fimmtudaginn 21. janúar 2010. |
|
|
Nr. 230/2009. |
Jón Gunnlaugur Viggósson (Marteinn Másson hrl.) gegn Tryggingamiðstöðinni hf. (Valgeir Pálsson hrl.) |
Skaðabótamál. Líkamstjón. Örorkubætur. Verðtrygging.
J krafði T hf. um bætur vegna umferðarslyss sem hann varð fyrir 7. nóvember 2002. T hf. hafði greitt J bætur miðað við fyrirliggjandi matsgerð í málinu sem J tók við með fyrirvara. Deildu aðilar um það hvernig verðbæta ætti bætur til J fyrir varanlega örorku. Í málinu krafðist J þess að bæturnar yrðu uppreiknaðar miðað við launavísitölu. Í dómi héraðsdóms, sem staðfestur var með vísan til forsendna hans, kom fram að í 15. gr. skaðabótalaga nr. 50/1993 væri kveðið skýrt á um það að fjárhæðir bóta, sem greindar væru í 3. mgr. 7. gr. laganna, skyldu breytast mánaðarlega í hlutfalli við breytingar sem yrðu á lánskjaravísitölu og yrði slíkt viðmið ekki talið brot á jafnræðisreglu stjórnarskrárinnar eða friðhelgi eignarréttarins, sbr. 65. og 72. gr. stjórnarskrárinnar. Þá var ekki talið að sanngirnisrök eða eðli máls ættu að leiða til þess að sjónarmið J um túlkun á umræddum ákvæðum skaðabótalaganna yrði tekið til greina í málinu. Var T hf. því sýknað af kröfu J.
Dómur Hæstaréttar.
Mál þetta dæma hæstaréttardómararnir Ólafur Börkur Þorvaldsson og Jón Steinar Gunnlaugsson og Viðar Már Matthíasson settur hæstaréttardómari.
Áfrýjandi skaut málinu til Hæstaréttar 12. maí 2009. Hann krefst þess að stefndi verði dæmdur til að greiða sér 2.391.917 krónur með 4,5% ársvöxtum frá 7. febrúar 2003 til 30. apríl 2005 og frá þeim degi af 1.626.504 krónum til 10. maí 2008. Þá krefst hann dráttarvaxta samkvæmt 1. mgr. 6. gr. laga nr. 38/2001 um vexti og verðtryggingu af 765.413 krónum frá 30. apríl 2005 til 10. maí 2008 en af 2.391.917 krónum frá þeim degi til greiðsludags. Loks krefst hann málskostnaðar í héraði og fyrir Hæstarétti án tillits til gjafsóknar sem hann nýtur á báðum dómstigum.
Stefndi krefst aðallega staðfestingar hins áfrýjaða dóms og málskostnaðar fyrir Hæstarétti. Til vara krefst hann þess að tildæmd fjárhæð, 2.391.917 krónur, beri 4,5% ársvexti frá 7. febrúar 2003 til dómsuppsögudags í Hæstarétti en dráttarvexti samkvæmt 1. mgr. 6. gr. laga nr. 38/2001 frá þeim degi til greiðsludags og að málskostnaður falli niður.
Með vísan til forsendna hins áfrýjaða dóms verður hann staðfestur.
Þegar litið er til framangreindra málalykta og haft í huga að í máli þessu eru ekki veruleg vafaatriði, sbr. 1. og 3. mgr. 130. gr., sbr. og 166. gr., laga nr. 91/1991 um meðferð einkamála, verður áfrýjanda gert að greiða stefnda málskostnað fyrir Hæstarétti eins og nánar greinir í dómsorði. Gjafsóknarkostnaður áfrýjanda fyrir Hæstarétti greiðist úr ríkissjóði eins og í dómsorði greinir.
Dómsorð:
Hinn áfrýjaði dómur skal vera óraskaður.
Áfrýjandi, Jón Gunnlaugur Viggósson, greiði stefnda, Tryggingamiðstöðinni hf., málskostnað fyrir Hæstarétti, 400.000 krónur.
Allur gjafsóknarkostnður áfrýjanda fyrir Hæstarétti greiðist úr ríkissjóði, þar með talin málflutningsþóknun lögmanns hans, 400.000 krónur.
Dómur Héraðsdóms Reykjavíkur 13. febrúar 2008.
Mál þetta, sem dómtekið var 2. febrúar sl., er höfðað fyrir Héraðsdómi Reykjavíkur, af Jóni Gunnlaugi Viggóssyni, Álfkonuhvarfi 33, Kópavogi, á hendur Tryggingamiðstöðinni hf., Aðalstræti 6-8, Reykjavík, með stefnu áritaðri um birtingu 12. desember 2007.
Dómkröfur stefnanda eru þessar :
Að stefndi verði dæmdur til greiðslu skaðabóta að fjárhæð kr. 2.391.917 með vöxtum skv. 16. gr. skaðabótalaga nr. 50/1993 af kr. 2.391.917 frá 07.02.2003 til 30.04.2005 en af kr. 1.626.504 frá þeim degi til greiðsludags. Þá er krafist dráttarvaxta skv. lögum 38/2001 af kr. 765.413 frá 30.04.2005 til 10.05.2008 en af kr. 2.391.917 frá þeim degi til greiðsludags.
Að stefndi verði dæmdur til greiðslu málskostnaðar stefnanda að skaðlausu, að mati dómsins eða samkvæmt málskostnaðarreikningi sem mun lagður fram við aðalmeðferð málsins, ef til hennar kemur, auk álags á málskostnað er nemi virðisaukaskatti, eins og mál þetta væri eigi gjafsóknarmál.
Dómkröfur stefnda eru þær að verða sýknaður af öllum kröfum stefnanda. Þá krefst stefndi þess að stefnandi verði dæmdur til að greiða stefnda málskostnað samkvæmt mati dómsins, en til vara að málskostnaður verði felldur niður.
Málsatvik
Atvik þessa máls eru þau, að þann 7. nóvember 2002 ók stefnandi bifreið sinni vestur Jaðarsel. Sökum hálku missti stefnandi stjórn á bifreið sinni með þeim afleiðingum að hún rann yfir á öfugan vegarhelming og framan á almenningsvagn, sem ekið var úr gagnstæðri átt. Bifreið stefnanda skemmdist mjög mikið við áreksturinn og hlaut stefnandi margvíslega áverka í slysinu, eins og fyrirliggjandi læknisvottorð bera með sér. Á slysdegi var bifreið stefnanda, IO 825, tryggð lögboðinni ábyrgðartryggingu og slysatryggingu ökumanns hjá stefnda. Bótaskylda stefnda vegna slyssins er óumdeild.
Með sameiginlegri matsbeiðni aðila, dags. 15. febrúar 2005, var læknunum Atla Þór Ólasyni og Leifi N. Dungal falið að meta tjón stefnanda vegna slyssins. Samkvæmt matsgerð þeirra, dags. 16. mars 2005, var varanlegur miski stefnanda metinn 12% og varanleg örorka 8%. Stefndi greiddi stefnanda bætur vegna slyssins á grundvelli matsgerðarinnar með uppgjöri þann 15. apríl 2005.
Við uppgjör málsins var ágreiningslaust að við útreikning á bótum vegna varanlegrar örorku skyldi leggja til grundvallar sem árslaunaviðmið lágmarkslaunaviðmið 3. mgr. 7. gr. skaðabótalaga nr. 50/1993. Stefnandi krafðist þess að umrætt viðmið yrði verðbætt samkvæmt launavísitölu til stöðugleikapunkts, ásamt því að bætt yrði við 6% vegna mótframlags vinnuveitanda í lífeyrissjóð. Þessari kröfu hafnaði stefndi og reiknaði út bætur vegna varanlegrar örorku þannig að lágmarkslaunaviðmið skaðabótalaga væri verðbætt samkvæmt lánskjaravísitölu til stöðugleikapunkts. Stefnandi tók við bótum með fyrirvara um m.a. matsgerð og tekjuviðmiðun.
Með matsbeiðni stefnanda, dags. 17. mars 2008, var þess óskað að dómkvaddir yrðu tveir hæfir og óvilhallir matsmenn til að meta, í samræmi við ákvæði skaðabótalaga varanlegan miska og varanlega örorku stefnanda vegna slyssins. Dómkvaddir voru þeir Sigurður Thorlacius, sérfræðingur í heila- og taugasjúkdómum og Ingvar Sveinbjörnsson hrl. Samkvæmt matsgerð þeirra, dags. 9. apríl 2008, var varanlegur miski stefnanda metinn 15% og varanleg örorka 25%.
Stefndi hefur fallist á niðurstöður hinna dómkvöddu matsmanna og greitt bætur á þeim grundvelli til stefnanda þó þannig að við útreikning skaðabóta vegna varanlegrar örorku var tekjuviðmiðun örorkubóta samkvæmt 3. mgr. 7. gr. skaðabótalaga nr. 50/1993 með sama hætti og varð við fyrra bótauppgjör aðila þann 15. apríl 2005. Stefnandi hefur ekki sætt sig við þann útreikningsgrundvöll, sem er ágreiningsefni aðila og sakarefni málsins, sem eftir stendur, þ.e. við hvaða tekjur beri að miða bætur stefnanda vegna varanlegrar örorku samkvæmt 5.7. gr. skaðabótalaga.
Málsástæður og lagarök stefnanda
Stefnandi tekur fram, til skýringar á endanlegri kröfugerð sinni í málinu, að stefndi hafi fallist á niðurstöður hinna dómkvöddu matsmanna og greitt bætur á þeim grundvelli til stefnanda, þó þannig að við útreikning skaðabóta vegna varanlegrar örorku var tekjuviðmiðun örorkubóta samkvæmt 3. mgr. 7. gr. skaðabótalaga nr. 50/1993 eingöngu kr. 1.622.500 í stað kr. 2.170.602 með sama hætti og varð við fyrra bótauppgjör aðila þann 15. apríl 2005. Þessi munur sé ágreiningsefni aðila og sakarefni málsins, þ.e. við hvaða tekjur beri að miða bætur stefnanda vegna varanlegrar örorku samkvæmt 5. 7. gr. skaðabótalaga. Í málinu byggir stefnandi m.ö.o. á því að í bótagreiðslu stefnda skorti bætur er nemi þessum mun (2.170.602 1.622.500 = 548.102) útreiknuðum samkvæmt reglum 6. gr. skaðabótalaga. Óumdeilt sé að aldursstuðull stefnanda samkvæmt 6. gr. skaðabótalaga sé 17,456. Jafnframt sé óumdeilt að hinn svokallaði stöðugleikatímapunktur, þ.e. það tímamark sem upphaf varanlegrar örorku miðast við, sé 7. febrúar 2003. Loks sé óumdeilt að varanleg örorka stefnanda sé 25%. Krafa stefnanda reiknast því svo:
548.102 (viðbót við tekjuviðmiðun) x 17,456 (aldursstuðull) x 25% (örorka)
Krafa stefnanda um dráttarvexti miðast við að þeir séu reiknaðir af kröfunni í tveim hlutum. Annars vegar af þeim hluta bóta sem hefðu átt að greiðast við uppgjör árið 2005 og miðuðust við 8% örorku (548.102 x 17,456 x 8% = 765.413) en upphafsdagur þeirrar kröfu miðast, samkvæmt 9. gr. laga nr. 38/2001, við þann dag er mánuður var liðinn frá framsetningu bótakröfu. Hins vegar sé krafist dráttarvaxta af þeim hluta bóta sem greiddar voru 6. maí 2008 og miðuðust við þá 17% örorku sem var enn óbætt (548.102 x 17,456 x 17% = 1.626.504) en upphafsdagur þeirrar kröfu miðast, samkvæmt 9. gr. laga nr. 38/2001, við þann dag er mánuður var liðinn frá því að stefnda var send niðurstaða hinna dómkvöddu matsmanna.
Krafa um vexti samkvæmt 16. gr. skaðabótalaga takmarkast af framangreindri dráttarvaxtakröfu og miðast við alla bótafjárhæðina fram að fyrra bótauppgjöri aðila, en frá þeim degi þær bætur sem ekki bera dráttarvexti til þess dags er síðara bótauppgjör fór fram.
Fallist dómurinn ekki á kröfu stefnanda um dráttarvexti þannig að upphafsdagur þeirra verði ákvarðaður síðar en krafist sé þá felist í kröfu stefnanda sú varakrafa að dæmdar bætur verði látnar bera vexti samkvæmt 16. gr. skaðabótalaga nr. 50/1993 frá 7. febrúar 2003 og fram til þess tíma er dráttarvextir séu viðurkenndir, en ella fram til greiðsludags ef dráttarvaxtakröfu stefnanda verði alfarið hafnað.
Stefnandi byggir á því að við ákvörðun örorkubóta hans beri að miða við lágmarkstekjur samkvæmt 3. mgr. 7. gr. skaðabótalaga, verðbættar með launavísitölu frá gildistöku skaðabótalaganna þann 1. júlí 1993 til og með 7. febrúar 2003 er hinum svokallaða stöðugleikatímapunkti var náð og eigi því að nema kr. 2.170.602 en ekki kr. 1.622.500, eins og stefndi hefur haldið fram.
Stefnandi byggir á því að með niðurstöðu Hæstaréttar Íslands í máli nr. 363/2003 hafi ákvæði skaðabótalaganna verið túlkuð með bindandi hætti á þá lund að lágmarkstekjuviðmiðun samkvæmt 3. mgr. 7. gr. skuli lúta öllum þeim sömu reglum og gildi um verðtryggingu atvinnutekna samkvæmt 1. mgr. 7. gr. laganna. Þegar af þeirri ástæðu beri að fallast á kröfur stefnanda að þessu leyti. Komi þessi skilningur enda orðrétt fram í forsendum dómsins. Sé áréttað hér að sakarefnið í dóminum laut ekki að því hvaða vísitölu ætti að miða við, það var einfaldlega ekki um það deilt. Niðurstaðan sé jafn skýr þrátt fyrir það. Ekki verði bæði sleppt og haldið. Annaðhvort gildi verðtryggingarreglur 1. mgr. 7. gr. fullum fetum eða ekki þegar lágmarksviðmiðun 3. mgr. sé annars vegar.
Stefnandi bendir á að orðalag 3. mgr. 7. gr. beri beinlínis með sér að ákvæðið tengist 1. mgr. órjúfanlegum böndum og þá bæði varðandi tímabil verðbóta og þá vísitölu sem þar sé tilgreind, þ.e. launavísitöluna. Ákvæðið sé fyllingarákvæði við 1. og 2. mgr. 7. gr. og feli, samkvæmt orðanna hljóðan, í sér að atvinnutekjur samkvæmt 1. mgr. eigi aldrei að miðast við lægri fjárhæðir en tilgreindar séu í ákvæðinu. Að öðru leyti skuli tekjuviðmiðun fara eftir þeim reglum sem fram koma í 1. mgr. 7. gr., þ.e. að leiðrétta beri hana “samkvæmt launavísitölu til þess tíma sem upphaf varanlegrar örorku miðast við”. Um þetta snúist niðurstaða Hæstaréttar í fyrrnefndum dómi. Lögskýringargögn um ákvæðið standi ekki gegn þessari afstöðu stefnanda fremur en áðurnefndri niðurstöðu Hæstaréttar um tímamark verðtryggingarinnar. Með öðrum orðum beri að skýra ákvæði 1. mgr. 7. gr. rúmt þannig að verðtryggingarreglan öll eigi einnig við um 3. mgr. 7. gr.
Stefnandi byggir á því að ákvæði 7. gr. skaðabótalaga, eins og því var breytt með 6. gr. laga nr. 37/1999, hafi falið í sér veigamikil nýmæli um reikniforsendur örorkubóta. Með 11. gr. laga 37/1999 var lokamálsliður 2. mgr. 15. gr. skaðabótalaganna jafnframt felldur úr gildi vegna sömu breytinga, en þar var kveðið á um verðtryggingu örorkubóta. Verðtryggingarregla 1. mgr. 7. gr. hafi því komið í stað lokamálsliðar 2. mgr. 15. gr. að öllu leyti, enda hafi ekkert annað sambærilegt ákvæði um verðtryggingu örorkubóta verið sett í lögin í stað þess sem fellt var út. Telur stefnandi augljóst að tilgangur löggjafans með breytingunum hafi verið að setja eina almenna reglu um verðtryggingu örorkubóta í stað fyrri reglu lokamálsliðar 2. mgr. 15. gr. og þá vitaskuld óháð því hvort örorkubætur væru miðaðar við raunverulegar atvinnutekjur eða lágmarksviðmiðun. Byggir stefnandi á því að túlka beri ákvæði skaðabótalaganna til samræmis við þennan augljósa tilgang laganna.
Framangreindu til enn frekari áréttingar telur stefnandi að mistök eða yfirsjón af hálfu löggjafans hafi valdið því að 1. mgr. 15. gr. var ekki breytt í samræmi við aðrar breytingar sem leiddu af lögum nr. 37/1999. Fyrir gildistöku þeirra var í 3. mgr. 7. gr. skaðabótalaganna ákvæði um hámarksfjárhæð tekjuviðmiðunar. Þessi málsgrein varð að 4. mgr. 7. gr. með breytingunum og telur stefnandi augljóst að það hafi láðst að breyta 1. mgr. 15. gr. til samræmis við þetta. Þannig hafi í raun verið ætlunin að í 1. mgr. 15. gr. yrði vísað til 4. mgr. 7. gr. ekki 3. mgr. 7. gr. eftir breytingar. Önnur niðurstaða sé í raun fráleit að mati stefnanda. Lokamálsliður 2. mgr. 15. gr., sem fjallaði áður um verðtryggingu örorkubóta hafi verið felldur niður og eins sé það vitaskuld fráleitt að löggjafinn hafi ætlað að gera fjárhæðina í 4. mgr. 7. gr. óverðtryggða. Byggir stefnandi á því að túlka verði lögin með hliðsjón af þessu og leiðrétta hið augljósa misræmi sem þarna sé uppi, sbr. einnig áðurnefndan dóm Hæstaréttar í máli nr. 363/2003.
Stefnandi byggir einnig á því að algild sjónarmið um samræmingu við túlkun á lögum leiði hér til sömu niðurstöðu. Ákvæði skaðabótalaganna verði að túlka samstætt. Í hverju einstöku tilfelli geti komið til álita við útreikning bóta hvort tjónþoli eigi að njóta lágmarksréttarins eða hvort bætur hans verði miðaðar við meðaltal atvinnutekna. Ótækt sé með öllu að ósamræmi sé í verðtryggingu tekjuviðmiðunar örorkubóta. Sömu reglur þurfi að gilda um allar örorkubætur óháð þeim grundvelli sem þær byggjast á.
Stefnandi telur jafnframt að hér beri að leggja til grundvallar almennar meginreglur um jafnræði, sbr. 65. gr. stjórnarskrárinnar. Mikill munur sé á verðgildi launavísitölu og lánskjaravísitölu. Breyting á launavísitölu frá 1. júlí 1993 til 1. október 2007 nemur 147,22% en breyting á lánskjaravísitölu fyrir sama tímabil nemur ekki nema 66,45%. Yrði fallist á afstöðu stefnda hefði það í för með sér að tilteknum hópi tjónþola, þeim sem lægstar tekjur hafa, yrði mismunað gróflega. Minnt sé á að það hafi eingöngu verið ungur aldur stefnanda sem réð atvinnu- og tekjusögu hans. Það sama eigi við um flest annað fólk sem lendir í slysum á sama eða svipuðum aldri og stefnandi. Þessi hópur lendi nær undantekningarlaust í lágmarkstekjuviðmiðum 3. mgr. 7. gr. skaðabótalaganna og verði þannig fyrir barðinu á þessari mismunun. Sama megi t.d. segja um þá sem falla undir skilgreiningu 8. gr. skaðabótalaganna og hafa, af einhverjum sökum, haft takmarkaðar vinnutekjur á því tímabili sem máli skiptir. Að mati stefnanda væri þetta raunar einnig brot á meginreglu 72. gr. stjórnarskrárinnar um friðhelgi eignarréttarins. Skaðabætur vegna líkamstjóns, þ.m.t. verðtrygging slíkra bóta, séu eignarréttindi í skilningi ákvæðisins. Þessi eignarréttindi verði ekki skert með þeim hætti sem hér sé til umfjöllunar. Slík skerðing yrði í raun aldrei lögmæt nema því aðeins að hún væri almenn, byggð á veigamiklum rökum með skírskotun til almannahagsmuna og jafnframt byggð á skýrum og skilmerkilegum lagaákvæðum. Þessi skilyrði séu ekki uppfyllt að mati stefnanda og raunar telur stefnandi að álykta verði sem svo að allan hugsanlegan óskýrleika skaðabótalaganna um þetta verði að túlka honum í vil.
Á því sé byggt af hálfu stefnanda að ýmis önnur sanngirnisrök og eðli máls mæli einnig með því að sjónarmið hans um túlkun á umræddum ákvæðum skaðabótalaganna verði tekin til greina í málinu. Í fyrsta lagi felist í niðurstöðu Hæstaréttar í áðurnefndum dómi að tímabil verðtryggingar örorkubóta sé stytt verulega, enda geti oft langur tími liðið frá hinum svokallaða stöðugleikatímapunkti og þar til bótafjárhæð sé ákveðin. Slík stytting sé hvorki sanngjörn né eðlileg nema að launavísitala verði lögð til grundvallar í öllum tilfellum. Í öðru lagi sé óhjákvæmilegt að taka tillit til þess að lágmarksfjárhæðir 3. mgr. 7. gr. skaðabótalaganna séu fyrst og fremst reiknaðar út frá launum eins og þau voru hér á landi á þeim tíma er skaðabótalögin voru sett í öndverðu. Með breytingu á lögunum árið 1999 var hætt að verðbæta örorkubætur sem slíkar en í stað þess farið að verðbæta sérstaklega sjálfa tekjuviðmiðun örorkubótanna, þ.e. þau laun sem lögð séu til grundvallar við ákvörðun bóta. Á þessu sé meginmunur að mati stefnanda. Alkunna sé að lánskjaravísitala sé ekki í neinum tengslum við launaþróun í landinu. Launavísitala sé eini rétti og eðlilegi mælikvarðinn sem nýtilegur sé í þessu skyni, sbr. einnig lög um launavísitölu nr. 89/1989. Minnt sé á að allar reikniforsendur örorkubóta miði að því að bæta tjónþolum tekjutap sitt til frambúðar. Munurinn á milli lánskjaravísitölu og launavísitölu aukist í hverjum mánuði. Verði ekki fallist á kröfur stefnanda rýrni bótaréttur þeirra sem búi við lágmarkstekjuviðmiðun skv. 3. mgr. 7. gr. smám saman í samanburði við þá sem séu á vinnumarkaði eða hafa hærri tekjur. Þetta þýðir vitaskuld einnig að sú ákvörðun löggjafans að miða við tiltekin lágmarkslaun í krónum talið verði sífellt innihaldsminni eftir því sem tíminn líður. Það sé hvorki sanngjarnt, eðlilegt né í samræmi við tilgang laganna.
Stefnandi byggir í málinu á lögfestum og ólögfestum reglum skaðabótaréttarins, auk ákvæða skaðabótalaga nr. 50/1993, umferðarlaga nr. 50/1987 og eldri laga um vátryggingasamninga nr. 20/1954 eða núgildandi laga um sama efni nr. 30/2004 eftir atvikum. Einnig byggir stefnandi á reglum 65. og 72. gr. stjórnarskrárinnar um jafnræði og friðhelgi eignarréttarins. Um dráttarvexti er byggt á lögum um vexti og verðtryggingu nr. 38/2001. Um réttarfar, málskostnað, gjafsókn o.fl. er byggt á ákvæðum laga um meðferð einkamála nr. 91/1991. Krafa um álag á málskostnað er nemi virðisaukaskatti er byggð á lögum nr. 50/1988.
Málsástæður og lagarök stefnda
Stefndi krefst þess að verða sýknaður af kröfum stefnanda. Með þeim greiðslum sem stefndi innti af hendi þann 15. apríl 2005 og 6. maí 2008 hafi líkamstjón stefnanda vegna slyssins 7. nóvember 2002 verið að fullu bætt samkvæmt ákvæðum skaðabótalaga nr. 50/1993 með síðari breytingum.
Miðað við breytta kröfugerð stefnanda í málinu standi það ágreiningsefni eitt eftir sem varðar fyrirkomulag um verðtryggingu tekjuviðmiðs við útreikning örorkubóta. Stefndi mótmælir kröfu stefnanda þar um.
Stefndi byggir á því að við útreikning á bótum vegna varanlegrar örorku stefnanda sé óumdeilt að leggja beri til grundvallar svokallað lágmarkslaunaviðmið skaðabótalaga, sbr. 3. mgr. 7. gr. laga nr. 50/1993. Stefndi mótmælir þeirri aðferðarfræði sem stefnandi leggur til grundvallar í málatilbúnaði sínum, þ.e. að verðbæta beri umrætt viðmið samkvæmt launavísitölu frá gildistöku skaðabótalaga fram til 7. febrúar 2003, eða þegar svokölluðum stöðugleikapunkti var náð. Stefndi telur engan lagagrundvöll fyrir slíku.
Í fyrsta lagi bendir stefndi á, að skaðabótalögin sjálf taki af öll tvímæli um það hvernig verðlagsbreytingum lágmarkslaunaviðmiðsins skuli háttað. Í 1. mgr. 15. gr. skaðabótalaga, sem fjallar um verðlagsbreytingar, segir með algjörlega ótvíræðum hætti að fjárhæðir bóta sem greindar eru í 3. mgr. 7. gr. (þ.e. lágmarkslaunaviðmið) skuli breytast mánaðarlega í hlutfalli við breytingar á lánskjaravísitölu frá gildistöku laganna. Hér sé því allur vafi tekinn af um hvernig haga beri umræddum útreikningum. Ber þegar af þessari ástæðu að sýkna stefnda af kröfu stefnanda.
Í öðru lagi bendir stefndi á 29. gr. skaðabótalaga, sem til samræmis við framangreint kveði á um að fjárhæðir samkvæmt lögunum séu miðaðar við lánskjaravísitölu og taki sömu breytingum og mælt sé fyrir um í 15. gr. Ákvæði 29. gr. taki því algjörlega af skarið um að verðtryggingarákvæði 15. gr. sé sú meginregla sem beri að beita við verðleiðréttingu viðmiðunarfjárhæða sem koma fram í lögunum, nema annað sé tekið fram.
Á grundvelli framangreindra sjónarmiða hafi bætur stefnanda við uppgjör verið reiknaðar þannig að lágmarkslaunaviðmið skaðabótalaga hafi verið verðbætt samkvæmt lánskjaravísitölu til stöðugleikapunkts, þann 7. febrúar 2003. Stefnandi hafi tekið við bótum með fyrirvara við þetta atriði og telur að verðbæta beri lágmarkslaunaviðmið laganna, eins og áður segir, samkvæmt launavísitölu til stöðugleikapunkts.
Stefnandi byggir kröfu sína öðru fremur á ummælum Hæstaréttar í dómi frá 4. mars 2004 í máli nr. 363/2003. Stefnandi bendir reyndar sjálfur á að í umræddu máli hafi hvorki verið til umfjöllunar né deilt um við hvaða vísitölu verðbætur ættu að miðast. Í málinu hafi einungis verið deilt um það hvort uppreikna bæri verðbætur á lágmarkslaun til stöðugleikapunkts eða uppgjörsdags, annað ekki. Stefnandi kýs hins vegar að taka setningarbrot úr forsendum dómsins og draga af því þá ályktun að verðbæta beri lágmarkslaunaviðmið samkvæmt launavísitölu en ekki lánskjaravísitölu, þrátt fyrir að það álitaefni hafi á engan hátt verið til úrlausnar í dóminum.
Setningarbrotið sem stefnandi vísar til er eftirfarandi: „[...] er óhjákvæmilegt að líta svo á að verðtrygging þeirra fjárhæða sem koma fram 3. mgr. 7. gr., þurfi að hlíta sömu reglum og verðtrygging atvinnutekna samkvæmt 1. mgr. ákvæðisins [...]“
Stefndi telur túlkun stefnanda á tilvitnuðu textabroti ekki standast og jaðra við útúrsnúning. Þegar forsendur dómsins séu skoðaðar í heild sinni megi vera augljóst að Hæstiréttur sé að fjalla um að sömu reglur gildi um tímabil verðtryggingar, sama hvort um launatekjur eða lágmarkslaunaviðmið sé að ræða, þ.e. í báðum tilfellum skuli verðbæta viðmiðunarfjárhæð til stöðugleikapunkts. Umrætt setningarbrot hafi þar af leiðandi enga þýðingu við úrlausn þess hvaða vísitölu beri að styðjast við þegar lágmarkslaunaviðmið skaðabótalaga sé verðbætt.
Stefnandi telur að í framangreindum forsendum dóms Hæstaréttar felist, að annaðhvort gildi verðtryggingarreglur 1. mgr. 7. gr. fullum fetum um 3. mgr. 7. gr. eða alls ekki og bendir á að ekki verði bæði sleppt og haldið. Þessu mótmælir stefndi, enda engar efnislegar vísbendingar að finna í dóminum þessa efnis. Þá sé ýmsu á annan veg farið við beitingu þessara tveggja gjörólíku reglna og því alls ekki svo að það verði að sleppa eða halda. Nægi þar í dæmaskyni að nefna að ekki beri að reikna með framlag vinnuveitanda í lífeyrissjóð á lágmarkslaun, sbr. dóm Hæstaréttar frá 27. nóvember 2003 í máli nr. 223/2003. Það sé því fráleitt að einhver rökbundin nauðsyn leiði til þeirrar niðurstöðu að sömu reglur gildi á allan hátt um lágmarkslaunaviðmið sem gilda um tekjuviðmið samkvæmt 1. mgr. 7. gr. Reyndar verði ekki séð af málatilbúnaði stefnanda að hann haldi því fram að sömu sjónarmið eigi við að öðru leyti en því að sama vísitala eigi að gilda um verðbætur.
Í stefnu komi fram að stefnandi telji lögskýringargögn ekki standa gegn afstöðu sinni varðandi verðbætur á lágmarkslaun. Þetta sé alrangt og vísar stefndi af þessu tilefni til skýringa með frumvarpi því sem varð að lögum nr. 37/1999, en með þeim lögum voru m.a. gerðar breytingar á reglum skaðabótalaga um ákvörðun tekjuviðmiðs við útreikning á bótum vegna varanlegrar örorku. Með 6. gr. laga nr. 37/1999 voru gerðar breytingar á 7. gr. skaðabótalaga og meðal nýmæla var lágmarkslaunaviðmið 3. mgr. 7. gr. Í umfjöllun frumvarpsins um hið nýja lágmarkslaunaviðmið segir m.a. í athugasemdum við 6. gr: „Gerð er tillaga um að í fyrsta lagi verði í 7. gr. tekin inn lágmarksárslaun sem viðmiðun við ákvörðun bóta og verði þau 1.200.000 kr. miðað við grunnvísitölu skaðabótalaganna.“ Það sé því alveg ljóst af lögskýringargögnum hver vilji löggjafans hafi verið að þessu leyti, þ.e. að verðbæta skyldi lágmarkslaunaviðmiðið samkvæmt grunnvísitölu skaðabótalaganna, sem sé lánskjaravísitala eins og áður var rakið, sbr. 15. og 29. gr. laganna.
Eins og stefnandi nefnir í stefnu var lokamálsliður 2. mgr. 15. gr. skaðabótalaga felldur út með þeim breytingum sem gerðar voru með lögum nr. 37/1999. Breytingin á 15. gr. hafi verið nauðsynleg vegna þeirra nýju reglna sem tóku gildi, m.a. um ákvörðun tekjuviðmiðs við útreikning á bótum vegna varanlegrar örorku. Það virðist samt sem ekki hafi verið gerðar allar þær breytingar á ákvæðum 1. mgr. 15. gr. sem þörf hafi verið á samhliða lagasetningunni. Þannig sé t.a.m. vísað í ákvæðinu til 1. mgr. 4. gr. laganna, en sú tilvísun eigi berlega við 2. mgr. 4. gr. eftir þær breytingar sem gerðar voru. Þá vísaði 1. mgr. 15. gr. fyrir breytinguna 1999 til hámarkslaunaviðmiðs laganna, sem var að finna í 3. mgr. 7. gr. Við breytinguna færðist hámarkslaunaviðmiðið síðan í 4. mgr. 7. gr., en lágmarkslaunaviðmið hafi í staðinn komið í 3. mgr. Stefnandi dragi mjög víðtækar ályktanir af þessum breytingum að mati stefnda. Stefndi telur blasa við að það sem misfarist hafi við þessa breytingu hafi einungis verið að bæta við tilvísun til hámarkslaunaviðmiðs 4. mgr. 7. gr. í 1. mgr. 15. gr. Engin tilefni séu til að draga víðtækari ályktanir um vilja löggjafans af þessu atriði og ekkert sem bendi til þess að tilgangurinn með breytingunum hafi verið að binda verðtryggingu lágmarkslauna við launavísitölu.
Stefndi mótmælir því að harðlega að sú aðferð sem lögð var til grundvallar við uppgjör aðila við ákvörðun bóta vegna varanlegrar örorku teljist brot á jafnræðisreglu stjórnarskrárinnar eða friðhelgi eignarréttarins sbr. 65. og 72. gr. stjórnarskrárinnar, eins og stefnandi heldur fram. Sú staðreynd að fjárhæðir samkvæmt 3. mgr. 7. gr. skaðabótalaga verðbætist með öðrum hætti en fjárhæðir samkvæmt 1. mgr. 7. gr. feli ekki í sér að mismunandi reglur gildi um þá sem eins standi á um og því sé ekki um brot á jafnræðisreglum að ræða. Beiting mismunandi reglna um þessa tvo hópa sé þar að auki algjörlega málefnaleg og byggist á skýrum forsendum, enda augljóst að sömu reglum verði ekki beitt að öllu leyti um þá sem hafa tekjusögu og þá sem hafa hana ekki, þegar bætur vegna varanlegrar örorku séu ákvarðaðar. Þá sé bent á að með lögum nr. 12/1995 um vísitölu neysluverðs, voru gerðar þær breytingar, að eftir 1. apríl 1995 hækka fjárhæðir skaðabótalaga í samræmi við vísitölu neysluverðs. Það verður með engu móti séð að í þeirri aðferð að binda tekjuviðmið við vísitölu neysluverðs, þ.e. þá vísitölu sem mælir breytingar á verðlagi einkaneyslu, felist skerðing á stjórnarskrárvörðum eignarrétti stefnanda.
Þá mótmælir stefndi því að sanngirnisrök eða eðli máls eigi að leiða til þess að fallist verði á kröfur stefnanda. Efnahagsaðstæður hafi verið þær á Íslandi undanfarin ár að þensla hafi ríkt á vinnumarkaði þannig að laun hafi hækkað umfram verðlag. Hins vegar sé alls ekki hægt að ganga út frá því að slíkt ástand sé ríkjandi til frambúðar, hvorki til skemmri eða lengri tíma. Á árunum 1980-1990 hafi kaupmáttur launa rýrnað t.a.m. um 15% til samanburðar, þótt laun hefðu hækkað mikið. Með öðrum orðum verðlag hafi hækkað umfram laun. Sveiflur í efnahagslífinu, þensla, samdráttur, verðbólga, aðstæður á vinnumarkaði o.s.frv. séu breytilegar stærðir sem hafi áhrif á þróun verðlags og launa. Ekki sé hægt að gefa sér að sú staða sem hafi verið að þessu leyti á landinu undanfarin ár verði uppi á teningnum á næstu árum. Reyndar bendir margt til hins gagnstæða. Það megi velta fyrir sér hvort stefnandi telji undir slíkum kringumstæðum eðlilegt að skipta aftur um kúrs og miða við lánskjaravísitölu með þeim rökum að hún hafi hækkað meira en launavísitala. Það megi vera ljóst að þessi röksemdarfærsla gangi ekki upp. Horfa verði til þess hvaða reglur löggjafinn hafi sett um verðbætingu lágmarkslaunaviðmiðs skaðabótalaga, ekki hvort hagstæðara eða sanngjarnara sé að miða við einhverja aðra vísitölu á tilteknu tímabili.
Með vísan til alls þess sem rakið er að framan krefst stefndi þess að verða sýknaður af öllum kröfum stefnanda.
Um lagarök er vísað til skaðabótalaga nr. 50/1993 og umferðarlaga nr. 50/1997. Um málskostnaðarkröfu er vísað til XXI. kafla laga nr. 91/1991.
Niðurstaða
Í máli þessu stendur það ágreiningsefni eitt eftir með hvaða hætti skuli verðbæta bætur til stefnanda fyrir varanlega örorku samkvæmt lágmarkslaunaviðmiði 3. mgr. 7. gr. skaðabótalaga nr. 50/1993. Samkvæmt bótauppgjöri stefnda eru bætur uppreiknaðar miðað við lánskjaravísitölu, en stefnandi telur að miða skuli við launavísitölu.
Í 15. gr. laga nr. 50/1993 er fjallað um verðlagsbreytingar. Þar er kveðið á um það m.a. að fjárhæðir bóta, sem greindar eru í 3. mgr. 7. gr. laganna skuli breytast mánaðarlega í hlutfalli við breytingar sem verða á lánskjaravísitölu frá gildistöku laganna. Þá segir í 29. gr. laganna að fjárhæðir samkvæmt lögunum séu miðaðar við lánskjaravísitölu eins og hún var 1. júlí 1993 (3282) og taki þær sömu breytingum og mælt sé fyrir um í 15. gr. laganna. Verður því fallist á það sjónarmið stefnda að verðtryggingarákvæði 15. gr. laga feli í sér þá meginreglu sem lögð sé til grundvallar við verðbætur viðmiðunarfjárhæða samkvæmt lögunum.
Til stuðnings sjónarmiðum sínum um að miða skuli verðbætur örorkubóta við launavísitölu vísar stefnandi til dóms Hæstaréttar í máli nr. 363/2003 þar sem deilt var um það við hvaða tímamark ætti að miða verðbætur á lágmarkstekjuviðmiðun samkvæmt 3. mgr. 7. gr. skaðabótalaganna. Í málinu var ekki til umfjöllunar né deilt um það við hvaða vísitölu verðbæturnar ættu að miðast. Sú niðurstaða Hæstaréttar að líta beri svo á að verðtrygging þeirra fjárhæða, sem fram koma í 3. mgr. 7. gr., þurfi að hlíta sömu reglum og verðtrygging atvinnutekna samkvæmt 1. mgr. ákvæðisins byggist á því að til álita getur komið við útreikning skaðabóta hvort tjónþoli eigi að njóta þess lágmarksréttar, sem felst í 3. mgr. 7. gr. skaðabótalaga, fremur en að reikna bætur handa honum eftir meðaltali atvinnutekna hans á þriggja ára tímabili, sbr. 1. mgr. 7. gr. Sú ályktun verður ekki af þeirri niðurstöðu dregin að einnig beri að miða við sömu vísitölu og kveðið er á um í 1. mgr. 7. gr. skaðabótalaganna og er þeirri málsástæðu stefnanda hafnað.
Í 15. gr. laga nr. 50/1993 er kveðið skýrt og ótvírætt á um það að fjárhæðir bóta, sem greindar eru í 3. mgr. 7. gr. laganna skuli breytast mánaðarlega í hlutfalli við breytingar sem verða á lánskjaravísitölu og þar við situr. Er og engan veginn unnt að fallast á lögskýringarsjónarmið stefnanda um annað. Þá verður ekki fallist á þau rök stefnanda að sú aðferð sem lögð var til grundvallar við uppgjör aðila við ákvörðun bóta vegna varanlegrar örorku teljist brot á jafnræðisreglu stjórnarskrárinnar eða friðhelgi eignarréttarins sbr. 65. og 72. gr. stjórnarskrárinnar. Fjárhæðir samkvæmt 1. og 3. mgr. 7. gr. skaðabótalaga taka til hópa, sem ekki stendur eins á um og þótt mismunandi reglur gildi um þá þegar bætur vegna varanlegrar örorku eru ákvarðaðar er ekki um brot á jafnræðisreglum að ræða. Verðbótaviðmið þau sem hér um ræðir eru ekki eignarréttindi í skilningi 72. gr. stjórnarskrárinnar. Þá verður ekki fallist á að sanngirnisrök eða eðli máls eigi að leiða til þess að sjónarmið stefnanda um túlkun á umræddum ákvæðum skaðabótalaganna verði tekin til greina í málinu. Hér gilda þær reglur sem löggjafinn hafi sett um verðbætingu bóta samkvæmt skaðabótalögum, sem eru skýrar eins og fyrr greinir.
Samkvæmt framansögðu verður að telja að tjón stefnanda sé að fullu bætt og ber því að sýkna stefnda af kröfum hans í málinu.
Eftir atvikum þykir rétt að málskostnaður falli niður. Allur gjafsóknarkostnaður stefnanda greiðist úr ríkissjóði, þar með talin þóknun lögmanns hans, Halldórs H. Backman hrl., sem ákveðst 516.842 kr. með virðisaukaskatti og útlagður kostnaður matsmanna 482.675 kr. samkvæmt reikningum. Við ákvörðun lögmannsþóknunar var tekið tillit til þess að greidd hafði verið innheimtuþóknun af stefnda að fjárhæð 369.909 kr. samkvæmt bótauppgjöri 6. maí 2008.
Eggert Óskarsson héraðsdómari kvað upp dóm þennan.
D Ó M S O R Ð :
Stefndi, Tryggingamiðstöðin hf., skal vera sýkn af kröfum stefnanda, Jóns Gunnlaugs Viggóssonar, í máli þessu.
Málskostnaður fellur niður.
Allur gjafsóknarkostnaður stefnanda greiðist úr ríkissjóði, þar með talin þóknun lögmanns hans, Halldórs H. Backman hrl., 516.842 kr. með virðisaukaskatti og útlagður kostnaður matsmanna 482.675 kr. samkvæmt reikningum.