Hæstiréttur íslands
Mál nr. 250/2002
Lykilorð
- Fiskveiðibrot
- Upptaka
- Matsmenn
|
|
Fimmtudaginn 12. desember 2002. |
|
Nr. 250/2002. |
Ákæruvaldið(Bragi Steinarsson vararíkissaksóknari) gegn Lodve Gjendemsjö (Sigurmar K. Albertsson hrl.) |
Fiskveiðibrot. Upptaka afla. Matsmenn.
L var gefið að sök að hafa veitt 600 tonn af loðnu í íslenskri lögsögu norðvestur af Horni, en ranglega gefið upp að aflinn hafi fengist í grænlenskri lögsögu, sem skipið hafi aldrei farið inn í á umræddu tímabili nema samkvæmt handfærðum og breyttum skráningum í afladagbók. Fóru tilkynningar L um ferðir skipsins út úr og inn í íslenska lögsögu í bága við upplýsingar um staðsetningu skipsins sem bárust Landhelgisgæslu Íslands um sjálfvirkt fjareftirlitskerfi. L undi sakfellingu samkvæmt héraðsdómi en krafðist þess fyrir Hæstarétti að refsing hans yrði lækkuð þar sem brot hans hafi verið framið af gáleysi en ekki ásetningi. Sú viðbára þótti haldlaus og ljóst af málsgögnum að um skýlaust ásetningsbrot væri að ræða. Var niðurstaða héraðsdóms um sakfellingu L staðfest með vísan til forsendna hans, svo og um fjárhæð sektar. Þá var kröfum L sem lutu að upptöku á andvirði afla hafnað. Þóttu lögskýringargögn með lögum nr. 22/1998 eða öðrum lögum, sem heimila upptöku sjávarafla vegna fiskveiðibrota, ekki benda til að stefnt hafi verið að því að sérregla skyldi gilda um fjölda matsmanna á þessu sviði, þannig að þeir væru ætíð tveir eða fleiri óháð umfangi viðfangsefnis þeirra hverju sinni, líkt og L hafði haldið fram.
Dómur Hæstaréttar.
Mál þetta dæma hæstaréttardómararnir Hrafn Bragason, Gunnlaugur Claessen og Ingibjörg Benediktsdóttir.
Ríkissaksóknari skaut málinu til Hæstaréttar 27. maí 2002 í samræmi við yfirlýsingu ákærða um áfrýjun og jafnframt af hálfu ákæruvalds, sem krefst nú staðfestingar héraðsdóms.
Ákærði krefst aðallega ómerkingar héraðsdóms að því er varðar upptöku afla, en til vara sýknu af kröfu ákæruvaldsins um upptöku andvirðis afla. Að því frágengnu krefst hann þess að einungis hluti andvirðis aflans verði gerður upptækur. Í öllum tilvikum krefst hann þess að sekt verði lækkuð.
I.
Ákærði var um sumarið 2001 skipstjóri á norska loðnuveiðiskipinu Inger Hildur M-101-F. Er honum gefið að sök að hafa að kvöldi 6. júlí 2001 og aðfaranótt næsta dags veitt 600 tonn af loðnu í íslenskri lögsögu norðvestur af Horni, en ranglega gefið upp að aflinn hafi fengist í grænlenskri lögsögu, sem skipið hafi aldrei farið inn í á þessu tímabili nema samkvæmt handfærðum og breyttum skráningum í afladagbók. Fyrir og eftir veiðarnar hafi hann vanrækt lögboðna tilkynningaskyldu um staðsetingu skipsins og afla í íslenskri lögsögu og sent rangar tilkynningar um ferðir skipsins út úr og aftur inn í íslenska lögsögu. Með háttsemi sinni var ákærði talinn hafa brotið gegn nánar tilgreindum ákvæðum laga nr. 22/1998 um veiðar og vinnslu erlendra skipa í fiskveiðilandhelgi Íslands, reglugerðar nr. 457/2001 um loðnuveiðar erlendra skipa í fiskveiðilandhelgi Íslands á loðnuvertíðinni 2001/2002 og reglugerðar nr. 299/1975 um fiskveiðilandhelgi Íslands. Er ítarlega rakið í héraðsdómi hvernig upplýsingar um staðsetningu skipsins bárust Landhelgisgæslu Íslands um sjálfvirkt fjareftirlitskerfi á að minnsta kosti einnar klukkustundar fresti á því tímabili dagana 6. og 7. júlí 2001, sem máli skiptir, og hvernig tilkynningar ákærða um ferðir skipsins á sama tíma fóru í bága við upplýsingar úr fjareftirlitskerfinu. Í héraðsdómi var sök ákærða talin sönnuð, eins og þar er nánar lýst. Dómur héraðsdóms var kveðinn upp 12. nóvember 2001 og sama dag féllu einnig dómar í Héraðsdómi Austurlands í málum tveggja annarra norskra loðnuveiðiskipstjóra, þar sem sakargiftir voru sambærilegar þeim, sem leyst var úr í þessu máli. Dómur í máli ákærða var ekki birtur honum í Noregi fyrr en 13. maí 2002 og er yfirlýsing hans um áfrýjun nægilega snemma fram komin. Hinir dómarnir, sem nefndir voru að framan, sæta ekki endurskoðun fyrir Hæstarétti.
II.
Fyrir Hæstarétti unir ákærði sakfellingu, en krefst þess að refsing verði lækkuð. Því til stuðnings teflir hann einkum fram þeim rökum að brotið hafi verið framið af gáleysi en ekki ásetningi. Sú viðbára er haldlaus, en ljóst er af málsgögnum að um skýlaust ásetningsbrot var að ræða. Eru engar forsendur fyrir hendi til að taka til greina kröfu ákærða um að sekt verði lækkuð. Verður niðurstaða héraðsdóms um sakfellingu ákærða staðfest með vísan til forsendna hans, svo og um fjárhæð sektar. Það athugast að um heimfærslu brota ákærða til refsiákvæða hefði auk þeirra, sem getið er í ákæru og héraðsdómi, verið rétt að vísa einnig til 5. gr. laga nr. 22/1998.
Kröfur sínar um að ómerkt verði niðurstaða héraðsdóms um upptöku á andvirði afla eða að ákærði verði sýknaður í þeim þætti málsins styður ákærði við 14. gr. laga nr. 22/1998. Í stað þess að gera afla upptækan samkvæmt greininni sé heimilt samkvæmt 4. málslið 1. mgr. hennar að gera upptæka fjárhæð, sem svari til andvirðis aflans samkvæmt mati dómkvaddra matsmanna. Skýrt sé þarna kveðið á um matsmenn í fleirtölu, en einungis einn matsmaður hafi metið til verðs afla skipsins, sem fékkst á þeim tíma, sem áður er getið. Í dómum Hæstaréttar síðustu árin vegna ólöglegra fiskveiða hafi jafnan tveir matsmenn metið afla, þegar krafist hafi verið upptöku. Hafi ákvæði 14. gr. laga nr. 22/1998 verið ætlað að festa í sessi dómvenju liðinna ára að þessu leyti.
Lög nr. 22/1998 kveða ekki á um mat á afla með öðrum hætti en að framan segir utan þess að í 11. gr. þeirra er að nokkru leyti sambærilegt ákvæði og í 14. gr. Lög nr. 91/1991 um meðferð einkamála hafa hins vegar að geyma meginreglur um þetta efni, en í IX. kafla þeirra er fjallað um matsgerðir. Í 1. mgr. 61. gr. segir að dómari kveðji einn eða tvo matsmenn til að framkvæma mat og í reynd er aðalregla laganna sú að matsmaður er einn. Yfirmatsmenn eru jafnan tveir eða fleiri, sbr. 64. gr. Ræðst fjöldi matsmanna af atvikum hverju sinni, svo sem því hvort matsefnið er einfalt eða flókið. Í áðurnefndum kafla laganna er að öðru leyti fjallað um einstök atriði varðandi dómkvaðningu matsmanna, framkvæmd mats og annað, sem lýtur að þessu efni. Þá er í 63. gr. laga nr. 19/1991 um meðferð opinberra mála regla þess efnis að dómari dómkveðji kunnáttumenn, einn eða fleiri, til að framkvæma mats- eða skoðunargerðir í opinberu máli. Lögskýringargögn með lögum nr. 22/1998 eða öðrum lögum, sem heimila upptöku sjávarafla vegna fiskveiðibrota, benda ekki til að stefnt hafi verið að því að sérregla skyldi gilda um fjölda matsmanna á þessu sviði, þannig að þeir séu ætíð tveir eða fleiri óháð umfangi viðfangsefnis þeirra hverju sinni. Eru ekki efni til annars en að skýra ákvæði 14. gr. laga nr. 22/1998 um mat á andvirði afla með hliðsjón af meginreglum laga á þessu sviði, sem áður var lýst.
Skip ákærða var fært til hafnar á Seyðisfirði 9. júlí 2001 og næsta dag var að kröfu ákæruvalds dómkvaddur matsmaður fyrir Héraðsdómi Austurlands til að meta andvirði aflans. Var tekið fram í dómkvaðningu að matsmaðurinn skyldi gera grein fyrir því hvaða markaðsverð fyrir hvert tonn aflans hann miðaði við í mati sínu. Matsgerð er dagsett 10. júlí 2001. Ekki er haldið fram að hún sé haldin annmörkum og ákærði óskaði ekki eftir yfirmati. Matsefnið var einfalt og verjandi ákærða í héraði gætti réttar hans við dómkvaðninguna. Þá tók mat á verðmæti afla aðeins til þess hluta farms skipsins, sem fékkst í tveimur köstum í lok dags. 6. júlí 2001 og aðfaranótt næsta dags og beinist krafa um upptöku ekki að öðrum afla skipsins. Að virtu öllu því, sem að framan er rakið, verður hafnað kröfum ákærða sem lúta að upptöku á andvirði afla.
Samkvæmt framansögðu og að öðru leyti með vísan til forsendna héraðsdóms verður hann staðfestur. Ákærði skal greiða allan áfrýjunarkostnað málsins eins og nánar greinir í dómsorði.
Dómsorð:
Héraðsdómur skal vera óraskaður.
Ákærði, Lodve Gjendemsjö, greiði allan áfrýjunarkostnað málsins, þar með talin málsvarnarlaun skipaðs verjanda síns fyrir Hæstarétti, Sigurmars Albertssonar hæstaréttarlögmanns, 200.000 krónur.
Dómur Héraðsdóms Austurlands 12. nóvember 2001
Ár 2001, mánudaginn 12. nóvember er á dómþingi Héraðsdóms Austurlands, sem háð er í Dómhúsinu við Lækjartorg í Reykjavík, af Loga Guðbrandssyni, dómstjóra, og meðdómsmönnunum Jónatan Sveinssyni og Róbert Dan Jenssyni kveðinn upp í málinu S 417/2001 svofelldur:
dómur:
Málið, sem var þingfest 11. júlí og dómtekið 10. október 2001, er höfðað með ákæru sýslumannsins á Seyðisfirði, dagsettri 11. júlí 2001, gegn Lodve Gjendemsjö, til heimilis að Haukaaslia 12, Einesvaagen, Noregi, fæddum 15. ágúst 1941 í Noregi, skipstjóra á norska loðnuveiðiskipinu Inger Hildur M-101-F ,,fyrir fiskveiðibrot, með því að hafa á tímabilinu frá kl. 21:30 föstudaginn 6. júlí 2001 til kl. 01:30 aðfaranótt laugardagsins 7. júlí, þá staddur samkvæmt sjálfvirku fjareftirlitskerfi Landhelgisgæslu Íslands á svæði 4,6 til 9,8 sjómílur innan íslenskrar lögsögu austur af Langanesi, veitt og innbyrt samkvæmt afladagbók úr tveimur köstum samtals 600 tonn af loðnu en ranglega gefið upp þann afla veiddan í grænlenskri lögsögu, sem skipið fór aldrei inní á þessu tímabili nema samkvæmt handfærðum og breyttum skráningum í afladagbók. Í aðdraganda þessara veiða og eftir þær vanrækti ákærði því lögboðna tilkynningarskyldu um staðsetningu skips og afla í íslenskri fiskveiðilögsögu, tilkynnti sig í skeyti kl. 19:54 ranglega samkvæmt framansögðu á leið út úr íslenskri lögsögu en í öðru skeyti kl. 00:43 á leið inn í íslenska lögsögu.
Telst þetta varða við 4. gr., sbr. 11., 12. og 14. gr. laga um veiðar og vinnslu erlendra skipa í fiskveiðilandhelgi Íslands nr. 22, 1998, og 8. 9. og 10. gr., sbr. 17. gr. reglugerðar um loðnuveiðar erlendra skipa í fiskveiðilandhelgi Íslands á loðnuvertíðinni 2001/2002 nr. 457, 2001, sbr. reglugerð nr. 299, 1975 um fiskveiðilandhelgi Íslands, sbr. lög nr. 44, 1948, sbr. nú lög um veiðar í fiskveiðilandhelgi Íslands nr. 79,1997.
Þess er krafist að ákærði verði dæmdur til refsingar, fésektar er renni til Landhelgissjóðs Íslands, og til upptöku áðurgreinds óuppgefins afla eða fjárhæðar sem svarar til andvirðis hans samkvæmt mati dómkvadds matsmanns.”
Í þinghaldi þann 10. ágúst 2001 óskaði ákæruvaldið með vísan til 117. gr. laga nr. 19/1991 að leiðrétta það, sem fram kemur í ákærðu, að brot ákærða hafi verið framið á svæði 4,6 til 9,8 sjómílur innan íslenskrar lögsögu austur af Langanesi. Hið rétta sé að þetta hafi átt sér stað þessarar vegalegndar innan íslenskrar lögsögu norð-vestur af Horni.
Við aðalmeðferð málsins gerði ákæruvaldið einnig kröfu um að ákærði yrði dæmdur til að greiða allan sakarkostnað, þ.m.t. málsvarnarlaun.
Af hálfu ákærða gerir verjandi hans aðallega þá kröfu að ákærði verði sýknaður af öllum kröfum ákæruvaldsins en til vara að ákærði verði dæmdur til vægustu refsingar sem lög leyfa. Þá gerir verjandinn kröfu um málsvararlaun að mati réttarins.
Málsatvik eru þau að norska loðnuveiðiskipið Inger Hildur var á loðnuveiðum Norð-vestur af Íslandi í byrjun júlímánaðar 2001 og var ákærði skipstjóri skipsins í þessari veiðiferð. Þann 6. júlí 2001 kl. 19.54 samkvæmt tímasetningu, sem nefnd er Universal Time Coordinate (utc) sendi skipið út svokallað “out” skeyti en það merkti að skipið hefði aðeins verið að sigla í gegnum íslenska lögsögu og væri á leið út úr henni. Sendi skipið kl. 20.00 svokallað “in” skeyti til grænlenskra yfirvalda um að það yrði í grænlenskri lögsögu kl. 23.20 að utc tíma. Kl. 00.42 að utc tíma þann 7. júlí 2001 gaf skipið út “Exit” skeyti til grænlenskra yfirvalda og var þá á leið út úr grænlenskri lögsögu. Samkvæmt því skeyti var afli um borð í skipinu 580 tonn af loðnu. Einni mínútu eftir að hafa sent grænlenskum yfirvöldum framangreint skeyti sendi skipið svokallað “Entry” skeyti til stjórnstöðvar Landhelgisgæslunnar og var þá á leið inn í íslenska lögsögu á siglingu sinni til heimahafnar skipsins í Noregi. Var skipinu beint að athugunarstað þar sem það skyldi mæta varðskipi frá Landhelgisgæslunni til eftirlits. Þegar skipið kom að athugunarstaðnum fóru skipverjar frá varðskipinu Ægi um borð í skipið og skoðuðu þar afladagbók skipsins, leiðardagbók og skeyti þau sem send höfðu verið frá skipinu. Við skoðun á þessum gögnum vaknaði grunur um að skeytasendingar og staðarákvarðanir í afladagbók væru rangar og var þá kallað eftir gögnum frá sjálfvirku fjareftirlitskerfi sem var um borð í skipinu. Misræmi reyndist vera á milli staðsetningar skipsins samkvæmt sjálfvirka fjareftirlitskerfinu og þeirra staðarákvarðana sem skráð voru í skeyti frá skipinu til stjórnstöðvar Landhelgisgæslunnar og grænlenskra yfirvalda og skráningar í afladagbók. Var í framhaldi af því ákveðið að vísa skipinu til hafnar á Seyðisfirði þar sem fram fór lögreglurannsókn á ætluðu fiskveiðibroti ákærða.
Í skýrslu ákærða fyrir dómi sagðist ákærði kannast við að hafa sem skipstjóri Inger Hildur sent kl. 19.54 að utc tíma þann 6. júlí 2001 svokallað “out” skeyti til stjórnstöðvar Landhelgisgæslu, en það merkti að skipið hefði einungis verið á gegnumsiglingu um lögsögu Íslands og hefði verið á leið út úr íslenskri lögsögu á áætluðum stað sem var 67 ° 44´ N og 23 ° 55´ V. Þá kannaðist ákærði einnig við að hafa sex mínútum síðar sent skeyti til grænlenskra yfirvalda um að skipið yrði í grænlenskri lögsögu á áætluðum tíma.
Í skýrslu ákærða sagðist hann hafa ranglega skráð staðsetningu í afladagbók þegar hann skráði að skipið hefði fengið 500 tonn af loðnu í einu kasti þann 6. júlí kl. 21.30 að utc tíma en samkvæmt afladagbókinni hafði hann skráð staðsetningu skipsins á þeim tíma 67° 34 ´ N og 24° 40´ V, en sá staður er 0,8 sjómílur innan íslenskrar lögsögu. Hafi mistökin átt sér stað vegna þess hversu aðstæður hafi verið erfiðar. Afli þessi hafi hins vegar verið veiddur innan grænlenskrar lögsögu. Þá sagðist ákærði ekki hafa verið í íslenskri lögsögu þegar hann veiddi þennan sama dag kl. 23.30 að utc tíma 100 tonn og hafi skráning á staðsetningu verið rétt í afladagbók en þar var skráð að skipið hefði verið 67° 34´ N og 24° 41´ V. Ákærði sagðist ekki hafa neinar skýringar á því hvers vegna sjálfvirka eftirlitskerfið hafi sýnt hann talsvert innan íslenskrar lögsögu á þeim tíma sem skipið var við þessar veiðar. Sagðist ákærði hafa notast sjálfur við GPS-tæki til staðarákvörðunar.
Ákærði skýrði svo frá því að hann telji að stýrimaður skipsins hafi skráð ranga staðsetningu í símskeyti til grænlenskra yfirvalda kl. 00.42 að utc tíma þann 7. júlí. Hafi staðsetning hans á þessum tíma verið rétt samkvæmt afladagbók og að skipið hafi ekki verið á ferð á þessum tíma.
Sagði ákærði að hann hefði jafnan skráð staðsetningar í afladagbók eftir á. Venjulega skrái hann staðsetningar á minnisblað en í þetta skiptið hafi hann ekki haft tíma til þess. Sagði ákærði að þetta gæti hafa leitt til ónákvæmni í skráningu í afladagbók. Hafi hann skráð staðsetningar eftir minni þegar hann færði inn í afladagbók. Skráði hann upplýsingar bæði í afladagbók og dagbók en í þá síðarnefndu skráði hann m.a. hvar hann hæfi veiðar hverju sinni. Hefði hins vegar ekki verið samræmi í skráningum í þessum bókum þegar skipið var við veiðar í grænlensku lögsögunni sem skýrðist af hinum erfiðu aðstæðum sem voru á veiðisvæðinu.
Ákærði upplýsti að sjálfvirki eftirlitsbúnaðurinn í skipinu hafi verið settur í bátinn fyrir tveimur árum síðan. Sagðist ákærði ekki hafa neina vitneskja um hvernig þessi búnaður virkaði.
Ákærði sagði að það tæki um klukkutíma að kasta út nót á loðnutorfu og þar til að nótin væri kominn í skipið aftur. Þá sagði ákærði að skipið gæti náð um 16,5 til 17 sjómílna hraða á klukkustund. Ákærði sagðist sjálfur færa inn afladagbók skipsins.
Þá skýrði ákærði svo frá að þrír menn frá Landhelgisgæslunni hafi komið að skipinu og hafi tveir komið um borð um kl. 21.30 að norskum tíma. Hafi þeir skoðað radar og kortvél og hafi honum virst sem farið hefði verið í tölvu skipsins. Sagðist ákærði hafa verið undrandi hversu langan tíma þetta hefði tekið. Síðar hafi komið í ljós að gögn hefðu horfið úr þessum tækjum og tilraunir til þess að endurheimta þessar upplýsingar reyndust árangurslausar. Hafi skipinu verið beint til Seyðisfjarðar en þangað kom skipið um klukkan 5 um morguninn. Ákærði sagði að eftir að Landhelgisgæslan hafi komið um borð hefði honum ekki verið kynnt réttarstaða sín. Hafi ákærða verið meinað að nota síma á leiðinni til Seyðisfjarðar.
Vitnið Vilbergur Magni Óskarsson, yfirstýrimaður hjá Landhelgisgæslunni skýrði svo frá, að hann hefði verið skipherra á varðskipinu Ægi, þegar beiðni frá stjórnstöð Landhelgisgæslunnar barst þann 8. júlí 2001 um að varðskipið yrði á athugunarstað norskra skipa sem væru á leið úr íslenskri landhelgi austur fyrir Langanes. Var öllum norskum loðnuskipum sem voru á leið til heimahafnar frá veiðum í íslenskri landhelgi og fóru þessa leið safnað saman á þessum athugunarstað.
Þegar skip ákærða kom á athugunarstað fóru vitnið við þriðja mann frá varðskipinu um borð í skipið og skoðaði skipsbækurnar. Kom þá í ljós að misræmi væri á milli afladagbóka og skeytasendinga til stjórnstöðvar Landhelgisgæslunnar. Var ákærða þá gerð grein fyrir þessu og hann beðinn um að eiga ekki við siglingatölvu skipsins. Fengu starfsmenn Landhelgisgæslunnar þá leyfi til þess að skoða siglingartölvu skipsins og óskuðu þeir jafnframt eftir því að fá afhentar afladagbækur skipsins. Í framhaldi af þessu sendi stjórnstöð Landhelgisgæslunnar upplýsingar um staðsetningar skipsins úr sjálfvirka fjareftirlitskerfinu. Kom þá í ljós mikið misræmi á gögnum úr fjareftirlitskerfi annars vegar og afladagbók og skeytasendingum til stjórnstöðvar Landhelgisgæslunnar hins vegar. Var þá hafinn rannsókn á öllum skráningum í afladagbók og þær bornar saman við siglingarleið skipsins samkvæmt sjálfvirka fjareftirlitskerfinu. Þegar í ljós kom að þar var ekki allt með felldu var í samráði við stjórnstöð Landhelgisgæslunnar ákveðið að færa skipið til hafnar á Seyðisfirði.
Vitnið skýrði svo frá því að á meðan athugun Landhelgisgæslunnar stóð hafi skipverjum á skipinu verið meinað að nota fjarskiptatæki. Um leið og tekin var ákvörðun um að færa skipin til hafnar var hömlum á notkun fjarskiptatækja aflétt. Var skipið látið bíða á framangreindum athugunarstað þangað til að varðskipið hafði skoðað öll þau erlendu skip sem lokið höfðu veiðum og voru á leið úr íslenskri landhelgi. Liðu allt að 40 klukkustundir frá því að fyrsta skipið kom á athugunarstað þar til að skoðun á síðasta skipinu var lokið. Var skip ákærða þá fyrst fært til hafnar til Seyðisfjarðar ásamt tveimur öðrum norskum loðnuskipum þar sem einnig lá fyrir grunur um að samskonar brot hefðu verið framin.
Vitnið Thorben Lund, stýrimaður hjá Landhelgisgæslunni, skýrði svo frá, að hann hefði verið um borð í varðskipinu Ægi, þegar beiðni barst frá stjórnstöð Landhelgisgæslunnar um að skoða þau skip, sem höfðu verið á loðnuveiðum í íslenskri fiskveiðilandhelgi og voru á leið úr íslenskri landhelgi. Var þeim safnað saman á athugunarstað austur af Langanesi, þar sem skoðun Landhelgisgæslunnar fór fram. Skýrði vitnið svo frá, að hann hefði ásamt tveimur öðrum starfsmönnum Landhelgisgæslunnar farið um borð í skip ákærða og skoðað þar skipsgögn, s.s. afladagbækur, skeyti og leiðarbækur. Þá voru þessi gögn borin saman við leið skipsins samkvæmt sjálfvirku fjareftirlitskerfi. Kom í ljós við þá athugun að talsvert misræmi var á milli staðarákvörðunar í afladagbók og leiðar skipsins samkvæmt sjálfvirka fjareftirlitsskipsins auk þess sem innbyrðis misræmi var á milli skipsgagnanna. Var skipið látið bíða á athugunarstað þar til að athugun hafði verið lokið á öðrum skipum, sem voru á leið til athugunarstaðar á leið sinni til heimahafnar í Noregi. Var skipinu að því búnu vísað til hafnar á Seyðisfirði.
Þegar skipið var komið til hafnar var gerð athugun á staðsetningartækjum skipsins og kom í ljós að þau sýndu réttar staðarákvarðanir. Einnig voru staðsetningar frá sjálfvirka eftirlitskerfinu athugaðar og kom í ljós að kerfið gaf upp hárréttar staðsetningar.
Aðspurður sagði vitnið að ákærða hafi verið gert grein fyrir stöðu sinni og rétti um leið og kom í ljós hvernig málum var háttað og nauðsynlegt væri að halda rannsókn á skipinu áfram. Sagði vitnið, að ákærði hefði veitt starfsmönnum Landhelgisgæslunnar leyfi til þess að skoða gögn skipsins og skipstölvuna ásamt staðsetningartækjum.
Niðurstaða:
Fyrir dóminn hafa verið lögð gögn um sjálfvirka fjareftirlitskerfið og eru gögn þessi studd vitnisburði þeirra Halldórs Benóný Nellets og Gylfa Geirssonar, starfsmanna Landhelgisgæslunnar, og Kolbeins Gunnarssonar, rafmagnsverkfræðings, fyrir dómi. Sjálfvirka fjareftirlitskerfið er að grunni byggt á svokölluðu NEAFC kerfi, (North East Atlantic Fisheries Commission). Var kerfi þetta tekið í notkun með samningi Íslands og Noregs sem undirritaður var af hálfu norskra stjórnvalda þann 28. júní 2000 en af hálfu íslenskra stjórnvalda þann 28. júlí 2000 og gekk í gildi þann 1. ágúst 2000. Kerfið hafði verið prófað í heilt ár áður en gengið var frá samningnum. Byggir fjareftirlitskerfið staðsetningar á GPS gervihnöttum og fjarskiptum frá skipum til landstöðva á Inmarsat C gervihnöttum. Skip, sem tengt er við sjálfvirka fjareftirlitskerfið, sendir sjálfvirkt tilkynningu til gervihnattar, sem síðan sendir hana áfram til jarðstöðar, sem sendir staðsetningu skipsins beint til eftirlitsstöðvar. Þessi sjálfvirki eftirlitsbúnaður, skipsins, hafði innbyggt GPS-staðsetningartæki sem sendi nákvæma staðarákvörðun skipsins með skeytinu. Í samræmi við framangreindan samning Norðmanna og Íslendinga sendir fjareftirlitskerfið skeyti til eftirlitsstöðvar Landhelgisgæslu Íslands um leið og fjareftirlitskerfi Noregs fær staðsetningu frá norsku sem er innan íslenskrar lögsögu. Frá þeim tímapunkti og þar til að skipið fer aftur út úr íslenskri lögsögu framsendir fjareftirlitskerfið staðsetningarskeyti frá skipinu til eftirlitsstöðvar Landhelgisgæslunnar á a.m.k. klukkustunda fresti.
Í áðurnefndum samningi á milli íslenskra stjórnvalda og norskra segir að skekkjumörk á staðsetningum skipa samkvæmt sjálfvirka fjareftirlitskerfinu megi ekki vera meiri en 500 metra. Samkvæmt vitnisburði Kolbeins Gunnarssonar rafmagnsverkfræðings eru skekkjumörk kerfisins langt innan þeirra marka.
Miðað er við í máli þessu, að miðlína milli fiskveiðilögsögu Íslands og Grænlands á þessum stað sé bein lína milli eftirfarandi punkta í þessari röð:
67°49´.5 N 23°21´.6 V,
67°37´.8 N 24°26´.5 V,
67°22´.9 N 25°36´.0 V,
sbr. samning milli Íslands og Danmerkur og Grænlands um afmörkun landgrunnsins og fiskveiðilögsögu á svæðinu milli Íslands og Grænlands frá 11. nóvember 1997.
Í ákæru er ákærða gefið að sök að hafa verið við loðnuveiðar í íslenskri lögsögu á tímabilinu frá kl. 21.30 föstudaginn 6. júlí 2001 til kl. 01.30 aðfaranótt laugardagsins 7. júlí en ranglega gefið aflann upp sem veiddan í grænlenskri lögsögu og vanrækt þannig lögboðna tilkynningarskyldu um staðsetningar skips og afla í íslenskri fiskveiðilögsögu.
Samkvæmt 4. gr. laga nr. 22/1998 er erlendum veiðiskipum skylt að tilkynna Landhelgisgæslu Íslands með sex klukkustunda fyrirvara um komu sína í og siglingu út úr fiskveiðilandhelgi Íslands og gefa upp staðsetningu.
Þá er þeim erlendu skipum sem stunda loðnuveiðar í fiskveiðilandhelgi Íslands á loðnuvertíðinni 2001/2002 skylt skv. ákvæði 8. gr. reglugerðar nr. 457/2001 að senda Landhelgisgæslunni daglega tilkynningar þar sem m.a. skuli koma upplýsingar um nafn skips, skráningarmerki, kallmerki, dagsetningu, tíma og staðsetningu í breidd og lengd þegar tilkynning er send, heildarafla um borð auk afla síðasta sólarhrings eða afla frá því að skipið kom inn í fiskveiðilandhelgi Íslands.
Þá ber skipi sem lýkur veiðum í fiskveiðilandhelgi Íslands að tilkynna það Landhelgisgæslunni þar sem sömuleiðis skal upplýsa um dag- og tímasetningu, staðsetningu og afla um borð, sbr. 9. gr. reglugerðar nr. 457/2001.
Ákærði hefur haldið sig fast við þann framburð að skipið Inger Hildur hafi verið á veiðum í grænlenskri lögsögu. Hefur ákærði sagt að skráning í afladagbók sé rétt. Hins vegar var skipið samkvæmt gögnum frá sjálfvirku fjareftirlitskerfi Landhelgisgæslunnar kl. 21.37 að utc tíma þann 6. júlí á stað sem er 67° 31´ N og 24° 23 ´ V eða 4,6 sjómílur innan íslenskrar lögsögu. Ákærði hafði hins vegar skráð í afladagbók að skipið hefði verið statt 67° 34´ N og 24° 40´ V kl. 21.30 að utc tíma, eða í 6.6 sjómílna fjarlægð frá þeim stað sem fjareftirlitskerfið staðsetti skipið 7 mínútum síðar.
Þá er skráð í afladagbók skipsins að skipið hafi þann sama dag kl. 23.30 að utc tíma verið á stað sem er 67° 34´ N og 24° 41´ V. Hins vegar var skipið samkvæmt sjálfvirku fjareftirlitskerfi Landhelgisgæslunnar kl. 23.37 að utc tíma, eða sjö mínútum síðar, á stað sem er 67° 31´ N og 24° 23 ´ V eða í 7.2 sjómílna fjarlægð frá þeim stað skipið var skráð í afladagbókina en þessi staður er 6.2 sjómílum innan íslenskrar lögsögu. Í afladagbók skipsins er það skráð að skipið hafi verið á veiðum á þessum sama stað til kl. 01.00 að utc tíma aðfaranótt 7. júlí en samkvæmt sjálfvirka fjareftirlitskerfinu var skipið kl. 01.38 að utc tíma statt 12.9 sjómílur frá þeim stað eða á 67° 30´ N og 24 ° 23´ V sem er 9,8 sjómílur innan íslenskrar lögsögu.
Hafa verður í huga í máli þessu, að ákærði hefur ekki verið staðinn að ólöglegum veiðum í venjulegum skilningi, heldur byggist ákæra á gögnum, sem fengin eru frá hinu sjálfvirka fjareftirlitskerfi.
Í máli þessu hefur ákæruvaldið lagt fram gögn um áræðanleika hins sjálfvirka fjareftirlitsbúnaðar. Hafa þau gögn verið stutt af vætti sérfróðra manna á því sviði fyrir dómnum. Af hálfu verjanda ákærða hefur sönnunargildi þessara gagna verið mótmælt. Hins vegar hafa engin slík rök verið færð fram af hálfu ákærða sem gefur tilefni til að bera brigður á þær staðarákvarðanir sem gefnar eru upp samkvæmt sjálfvirka fjareftirlitskerfinu. Ákærða var kunnugt um að þessi búnaður var um borð í skipinu. Ekki verður ráðið af samningi norskra og íslenskra stjórnvalda um fjareftirlitskerfið að óheimilt sé að nota gögn um staðsetningu skips frá kerfinu sem sönnunargagn fyrir dómi. Þvert á móti verður að telja að slík notkun sé heimil ef haft er til hliðsjónar að tilgangur kerfisins er að hafa eftirlit með veiðum erlendra skipa í íslenskri lögsögu. Þá eru engin ákvæði í lögum eða reglugerðum, sem girða fyrir notkun gagna úr fjareftirlitskerfinu sem sönnunargagna fyrir dómi og má í því sambandi hafa í huga, að staðarákvarðanir þessar stafa frá tækjum í skipinu sjálfu, enda þótt þær séu sendar sjálfvirkt frá því.
Með hliðsjón af framangreindu verður, þrátt fyrir neitun ákærða, ekki talið varhugavert að leggja til grundvallar um staðsetningu skipsins, þegar það var á veiðum, upplýsingar og gögn úr sjálfvirka fjareftirlitskerfinu um sönnun þess hvort skráningar á staðsetningu skipsins í afladagbók séu réttar, eins og ákærði hefur haldið fram.. Ljóst er að ef afladagbókin er borin saman við gögn frá sjálfvirka fjareftirlitskerfinu þá geta skráningar í afladagbókina með engum móti staðist. Verður með vísan til þess talið fullsannað að ákærði hafi skráð ranga staðsetningu á skipinu í afladagbók og að skipið hafi í raun verið við veiðar í íslenskri lögsögu en ekki í grænlenskri eins og ákærði hefur haldið fram. Skiptir hér engu hvort ákærði skráði ranga staðsetningu fyrir mistök eða af ásetningi.
Vanrækti ákærði því að tilkynna til íslenskra yfirvalda um veiðar sínar eins og honum bar að gera í samræmi við ákvæði 8. 9. og 10. gr. reglugerðar nr. 45//2001. Varðar brot ákærða við framangreind ákvæði reglugerðarinnar, sbr. 17. gr. hennar.
Ennfremur er sannað með hliðsjón af ofangreindu, að ákærði tilkynnti ranglega að skipið væri á leið út úr íslenskri lögsögu með skeyti til Landhelgisgæslunnar, dags. 6. júlí kl. 19.54. Einnig að ákærði tilkynnti ranglega í skeyti frá 7. júlí kl. 00.43, að skipið væri á leið inn í íslenska lögsögu. Varðar þetta við ákvæði 4. gr. laga nr. 22/1998, sbr. 11., 12. og 14. gr. s.l.
Er þannig komin fram lögfull sönnun fyrir því, að ákærði hefur gerst sekur um þau brot, sem honum eru gefin að sök í ákæru og eru þau þar rétt færð til refsiákvæða.
Ekki liggur fyrir sakavottorð fyrir ákærða og verður því gengið út frá, að hann hafi ekki framið nein þau brot, sem ítrekunarverkun hafa í þessu máli.
Hæfileg refsing ákærða er sekt 2.500.000 krónur, sem renna skal til Landhelgissjóðs Íslands og komi fjögurra mánaða fangelsi í stað sektarinnar verði hún eigi greidd innan fjögurra vikna frá birtingu dóms þessa.
Upptækt skal til ríkissjóðs Íslands andvirði ólögmæts afla, 600 tonna af loðnu, sem nam að mati dómkvadds matsmanns 4.500.000 krónur.
Ákærði greiði allan sakarkostnað, þar með talin málsvarnarlaun skipaðs verjanda síns, Jónasar A. Þ. Jónssonar, hdl. 150.000 krónur.
Dóm þennan dæma Logi Guðbrandsson, dómstjóri, ásamt meðdómendunum Jónatan Sveinssyni, hæstaréttarlögmanni og fyrrverandi skipstjóra og Róbert Dan Jenssyni, sjómælingamanni og fyrrverandi skipstjóra. Uppkvaðning dóms hefur dregist fram yfir lögskilinn tíma vegna embættisanna dómsformannsins.
Dómsorð:
Ákærði, Lodve Gjendemsjö, greiði 2.500.000 króna sekt til Landhelgissjóð Íslands og komi fjögurra mánaða fangelsi í stað sektarinnar, verði hún ekki greidd innan fjögurra vikna frá birtingu dóms þessa.
Upptæk eru gerð til ríkissjóðs Íslands andvirði ólögmæts afla, 600 tonna af loðnu, 4.500.000 krónur.
Ákærði greiði allan sakarkostnað, þar með talin málsvarnarlaun skipaðs verjanda síns 150.000 krónur.