Hæstiréttur íslands

Mál nr. 34/2010


Lykilorð

  • Biðlaun


                                                         

Fimmtudaginn 28. október 2010.

Nr. 34/2010.

Skógarbær, hjúkrunarheimili

(Andri Árnason hrl.)

gegn

Kristínu Blöndal

(Karl Axelsson hrl.)

Biðlaun.

K gegndi ýmsum störfum hjá íslenska ríkinu fyrir og eftir gildistöku laga nr. 70/1996, um réttindi og skyldur starfsmanna ríkisins, fram til ársins 2001 er hún réði sig til starfa hjá sjálfseignarstofnuninni H, þaðan sem hún að endingu réði sig til starfa hjá S á árinu 2003. K gegndi starfi hjúkrunarstjóra hjá sjálfseignarstofnuninni S frá árinu 2003 allt fram til þess er staða hennar var lögð niður á árinu 2009. K höfðaði mál þetta gegn S til heimtu biðlauna með vísan til 5. mgr. bráðabirgðaákvæðis laga nr. 70/1996. Upplýst var í málinu að um starfskjör K gilti kjarasamningur S við Félag íslenskra hjúkrunarfræðinga, þar sem mælt var fyrir um að starfsmenn skyldu njóta hliðstæðra réttinda og bera hliðstæðar skyldur og gert væri ráð fyrir í lögum nr. 70/1996. Í dómi Hæstaréttar segir meðal annars að samkvæmt  5. mgr. bráðabirgðaákvæðis laga nr. 70/1996 skyldu þeir ríkisstarfsmenn sem höfðu rétt til biðlauna eftir eldri lögum halda sínum rétti. Á hinn bóginn yrði að líta svo á að með orðinu starf í skilningi ákvæðisins væri átt við það starf sem viðkomandi starfsmaður gegndi í gildistíð eldri laga nr. 38/1954. Kröfu K um greiðslu biðlauna var því hafnað.

Dómur Hæstaréttar.

Mál þetta dæma hæstaréttardómararnir Markús Sigurbjörnsson, Árni Kolbeinsson og Ólafur Börkur Þorvaldsson.

Áfrýjandi skaut málinu til Hæstaréttar 20. janúar 2010. Hann krefst sýknu af kröfu stefndu og málskostnaðar í héraði og fyrir Hæstarétti.

Stefnda krefst staðfestingar héraðsdóms og málskostnaðar fyrir Hæstarétti.

Eins og nánar er rakið í héraðsdómi stendur deila málsaðila um rétt stefndu til biðlauna úr hendi áfrýjanda, en hún gegndi frá 5. ágúst 2003 starfi hjúkrunarstjóra hjá áfrýjanda, þar til staðan var lögð niður 1. júní 2009. Um starfskjör stefndu gilti kjarasamningur áfrýjanda við Félag íslenskra hjúkrunarfræðinga, þar sem mælt var fyrir um að starfsmenn skyldu „njóta hliðstæðra réttinda og bera hliðstæðar skyldur og gert er ráð fyrir í lögum nr. 70/1996“ um réttindi og skyldur starfsmanna ríkisins. Lög nr. 38/1954 um réttindi og skyldur starfsmanna ríkisins féllu niður 1. júlí 1996, er gildi tóku lög nr. 70/1996. Í 1. mgr. 14. gr. fyrrgreindu laganna var svofellt ákvæði: Nú er staða lögð niður, og skal þá starfsmaður jafnan fá föst laun, er starfanum fylgdu, greidd í 6 mánuði frá því að hann lét af starfi, ef hann hefur verið í þjónustu ríkisins skemur en 15 ár, en í 12 mánuði, eigi hann að baki lengri þjónustualdur, enda hafi hann þá ekki hafnað annarri sambærilegri stöðu á vegum ríkisins.“ Í lögum nr. 70/1996 er ekki að finna sambærilega almenna heimild um rétt ríkisstarfsmanna til biðlauna en í 5. mgr. ákvæðis til bráðabirgða við lögin segir: „Sé starf lagt niður á starfsmaður, sem skipaður hefur verið eða ráðinn í þjónustu ríkisins fyrir gildistöku laga þessara og fallið hefur undir lög nr. 38/1954, en telst ekki embættismaður skv. 22. gr. laga þessara, rétt til bóta er nemi launum í sex mánuði, ef hann hefur verið í þjónustu ríkisins skemur en í 15 ár, en ella í tólf mánuði. Að öðru leyti gilda um bótarétt og bótafjárhæð ákvæði 34. gr.“

Samkvæmt þessu skyldu þeir ríkisstarfsmenn sem höfðu rétt til biðlauna eftir eldri lögum halda sínum rétti. Á hinn bóginn verður að líta svo á að með orðinu starf í síðarnefnda ákvæðinu sé átt við það starf sem viðkomandi starfsmaður gegndi í gildistíð laga nr. 38/1954. Önnur framkvæmd fjármálaráðuneytisins, sem rakin er í héraðsdómi, á þessu ákvæði getur ekki bundið áfrýjanda sem er sjálfseignarstofnun. Eins og nánar er rakið í héraðsdómi hafði stefnda gegnt ýmsum störfum hjá ríkinu, bæði fyrir og eftir gildistöku laga nr. 70/1996, fram til ársins 2001 er hún réði sig til starfa hjá Holtsbúð ses. Stefnda réði sig síðan til starfa hjá áfrýjanda á árinu 2003. Því verður fallist á með áfrýjanda að aðstæður stefndu hafi ekki verið með þeim hætti að hún geti byggt rétt sinn til biðlauna úr hendi áfrýjanda á 5. mgr. ákvæðis til bráðabirgða við lög nr. 70/1996. Verður áfrýjandi af þeirri ástæðu sýknaður af kröfu stefndu, en rétt er að hvor aðili beri sinn kostnað af málinu bæði í héraði og fyrir Hæstarétti.

Dómsorð:

Áfrýjandi, Skógarbær hjúkrunarheimili, er sýkn af kröfu stefndu, Kristínar Blöndal.

Málskostnaður í héraði og fyrir Hæstarétti fellur niður.

Dómur Héraðsdóms Reykjavíkur 21. desember 2009.

I

Mál þetta sem var dómtekið 11. desember 2009, var höfðað 29. júní 2009.  Stefnandi er Kristín Blöndal, Smáraflöt 41, Garðabæ, en stefndi er Skógarbær, hjúkrunarheimili, Árskógum 4, Reykjavík.

Dómkröfur stefnanda eru að viðurkenndur verði réttur hennar til biðlauna úr hendi stefnda í 12 mánuði frá og með 1. júní 2009, vegna niðurlagningar á stöðu stefnanda sem hjúkrunarforstjóra hjá stefnda frá og með þeim degi.  Þá krefst stefnandi málskostnaðar úr hendi stefnda.

Dómkröfur stefnda eru að hann verði sýknaður af kröfu stefnanda.  Þá krefst stefndi málskostnaðar úr hendi stefnanda.

II

Stefnandi er hjúkrunarfræðingur að mennt.  Samkvæmt gögnum málsins starfaði hún samhliða námi sem hjúkrunarnemi hjá Landspítala Háskólasjúkrahúsi. Þegar stefnandi lauk hjúkrunarprófi hóf hún störf hjá heilsugæslustöðinni á Hellu og starfaði þar árin 1979 til 1980 í 50-75% starfi sem hjúkrunarfræðingur.  Árið 1981 starfaði hún í 60-80% starfi sem hjúkrunarfræðingur á lyflækningadeild Landspítala Háskólasjúkrahúss. Árin 1986 til 1989 var stefnandi við störf við Fjölbrautarskólann í Breiðholti sem framhaldskólakennari í hlutastarfi en árin 1988 til 1990 starfaði hún einnig sem deildarstjóri í 60% starfi á barnadeild Landspítala Háskólasjúkrahúss. 

Árin 1990 til loka árs 1999 starfaði stefnandi í fullu starfi sem framhaldsskólakennari við Fjölbrautarskólann í Breiðholti. Í byrjun árs 2000 hóf stefnandi á ný störf sem hjúkrunarfræðingur hjá Landspítala Háskólasjúkrahúsi, þá á líknardeild, og starfaði í 80-100% starfi þar fram til seinni hluta árs 2001. Kveður stefnandi að af framangreindu sé ljóst að stefnandi hafi verið ríkisstarfsmaður og notið réttarstöðu sem slíkur samfellt frá árinu 1986 fram til ársins 2001 er hún hóf störf sem hjúkrunarfræðingur hjá dvalar- og hjúkrunar­heimilinu Holtsbúð og starfaði þar til ársins 2003. Hjúkrunarheimilið er sjálfseignarstofnun sem stefnandi kveður hafa verið stofnað árið 1998 og hafi það tekið til starfa í janúar 2000.

Fyrir liggur að ekki var gerður skriflegur ráðningarsamningur við stefnanda þegar hún hóf störf hjá Holtsbúð heldur var ráðningin gerð á munnlegum grundvelli.  Í málinu liggur fyrir yfirlýsing forstöðumanns launavinnslu Holtsbúðar, Helgu Elíasdóttur, sem dagsett er 22. apríl 2009.  Þar kemur fram að ráðning stefnanda hafi verið gerð munnlega og að samkomulag hafi verið um milli stefnanda og Holtsbúðar að stefnandi nyti sömu réttinda og starfsmenn ríkisins samkvæmt lögum nr. 70/1996.  Hafi þannig verið samið um að réttur hennar til biðlauna ætti ekki að skerðast við ráðningu hennar hjá Holtsbúð.  Þá liggur fyrir í málinu yfirlýsing Ethel Sigurvinsdóttur sem kveðst hafa verið hjúkrunarfræðingur á Holtsbúð á sama tíma og stefnandi og hefði henni verið kunnugt um að stefnandi hefði sömu réttindi og hún, þ.e. sömu stöðu og starfsmenn ríkisins, meðal annars réttindi til biðlauna.

Árið 2003 hóf stefnandi störf hjá stefnda hjúkrunarheimilinu Skógarbæ, sem einnig er sjálfseignarstofnun.  Var gerður skriflegur ráðningarsamningur við stefnanda og var hann undirritaður 3. október 2003.  Í honum kemur fram að um launagreiðslur, launa­flokk, starfsaldur til launa og önnur starfskjör, fari eftir ráðningarsamningum og kjarasamningi Félags íslenskra hjúkrunarfræðinga, að öðrum skilyrðum uppfylltum, en stefnandi hefur verið félagsmaður í Félagi íslenskra hjúkrunarfræðinga frá árinu 1988. Í 4. gr. kjarasamningsins kemur fram að réttarstaða félagsmanna skuli að öllu leyti vera hliðstæð réttindum og skyldum ríkisstarfsmanna samkvæmt ákvæðum laga nr. 70/1996.

Með bréfi 12. febrúar 2009 var stefnanda tilkynnt að vegna skipulagsbreytinga á stjórn hjúkrunardeilda hjá stefnda yrði staða hjúkrunarstjóra lögð niður frá og með 1. júní 2009.  Vegna þessara aðgerða yrði starfi stefnanda sem hjúkrunarstjóra því sagt lausu og tæki uppsögnin gildi 1. mars 2009. 

Lögmaður Bandalags háskólamanna ritaði lögmanni stefnda tölvubréf 6. apríl 2009 þar sem óskað var eftir afstöðu hans til kröfu stefnanda um greiðslu  biðlauna úr hendi stefnda.  Hafnaði lögmaður stefnda því í tölvubréfi sama dag.  Í framhaldi af fyrri tölvupóstasamskiptum sendi lögmaður stefnanda lögmanni stefnda bréf 19. maí 2009 þar sem óskað var eftir því að fallist yrði á rétt stefnanda til biðlauna frá og með 1. júní 2009.  Lögmaður stefnda svaraði bréfinu með bréfi 2. júní 2009, þar sem kröfum stefnanda um biðlaun var hafnað.

III

Stefnandi byggir kröfur sínar í fyrsta lagi á því að hún njóti réttar til biðlauna óháð ráðningu  sinni hjá Holtsbúð árin 2001 til 2003. Byggir stefnandi þennan rétt sinn á 5. mgr. bráðabirgðaákvæðis í lögum nr. 70/1996 sem sé svohljóðandi:

„Sé starf lagt niður á starfsmaður, sem skipaður hefur verið eða ráðinn í þjónustu ríkisins fyrir gildistöku laga þessara og fallið hefur undir lög nr. 38/1954, en telst ekki embættismaður skv. 22. gr. laga þessara, rétt til bóta er nemi launum í sex mánuði, ef hann hefur verið í þjónustu ríkisins skemur en í 15 ár, en ella í tólf mánuði. Að öðru leyti gilda um bótarétt og bótafjárhæð ákvæði 34. gr.“

Orðalag ákvæðisins sé ekki hægt að skýra öðruvísi en svo að tvö skilyrði þurfi að vera uppfyllt svo að viðkomandi starfsmaður öðlist rétt til biðlauna.  Þau séu annars vegar að starf viðkomandi hjá ríkinu hafi verið lagt niður og hins vegar að viðkomandi starfsmaður hafi verið skipaður eða ráðinn í þjónustu ríkisins fyrir gildistöku laganna og þar með fallið undir lög nr. 38/1954, en teljist ekki embættismaður.

Stefnandi telji sig uppfylla bæði skilyrðin.  Hvað varði fyrra skilyrðið blasi við að því sé fullnægt, enda sé vart deilt um það í máli þessu. Í 4. gr. kjarasamnings Félags íslenskra hjúkrunarfræðinga við stefnda frá 28. nóvember 2001, sem hafi verið í gildi er stefnandi hóf störf hjá stefnda, komi fram að réttarstaða félagsmanna sem störfuðu hjá stefnda skyldi að öllu leyti vera hliðstæð réttindum og skyldum ríkisstarfsmanna samkvæmt ákvæðum laga nr. 70/1996 svo og laga nr. 37/1993.  Sé því óumdeilt að stefnandi hafi notið allra þeirra réttinda og skyldna sem tilgreind séu í lögum nr. 70/1996 við störf sín hjá stefnda, þar með talið réttar til biðlauna vegna niðurlagningar stöðu. Hafi kjarasamningur Félags íslenskra hjúkrunarfræðinga við Samtök fyrirtækja í heilbrigðisþjónustu frá 9. september 2005 ásamt síðari breytingum engu breytt þar um enda hafi það verið tryggt í samningnum að starfsmenn skyldu halda þeim réttindum sem þeir höfðu öðlast fyrir samningsgerðina.  Telji stefnandi því ljóst að staða hennar hafi verið lögð niður í skilningi 5. mgr. bráðabirgðaákvæðisins.

Stefnandi byggir á því að síðara skilyrði 5. mgr. bráðabirgðaákvæðisins sé einnig fullnægt en eins og að framan sé rakið hafi stefnandi óumdeilanlega verið í þjónustu ríkisins í yfir 15 ár.  Hvorki verði ráðið af orðalagi 5. mgr. bráðabirgðaákvæðis né lögskýringargögnum að viðkomandi þurfi að hafa starfað við sama starf hjá ríkinu fram að niðurfellingu stöðu né að skylt sé að starf viðkomandi hafi verið samfellt hjá ríkinu fram að niðurfellingu stöðu svo réttur viðkomandi til biðlauna skerðist ekki.

Stefnandi telji því að vegna starfa sinna sem ríkisstarfsmaður frá árinu 1986  til ársins 2001 uppfylli hún einnig síðara skilyrði 5. mgr. og hafi sá réttur ekki skerst vegna starfa hennar hjá dvalar- og hjúkrunarheimilinu Holtsbúð árin 2001 til 2003. Engu máli skipti þótt hún hafi um tímabil starfað hjá öðrum aðila en ríkinu.  Þá telji stefnandi sig eiga rétt til biðlauna í allt að 12 mánuði þar sem samanlagður starfstími hennar hjá ríkinu hafi verið lengri en 15 ár. 

Stefndi hafi hafnað kröfu stefnanda um greiðslu biðlauna á grundvelli þess að stefnandi hafi ekki verið ríkisstarfsmaður meðan hún starfaði hjá Holtsbúð árin 2001 til 2003. Í tölvubréfi frá 6. apríl 2009 frá stefnda til lögmanns Bandalags háskólamanna komi sú afstaða stefnda fram að með starfi sínu hjá Holtsbúð hafi stefnandi ekki lengur fallið sjálfkrafa undir 5. mgr. bráðabirgðaákvæðis í lögum nr. 70/1996 og þurfi því að leiða rétt sinn til biðlauna af kjarasamningi eða ráðningar­samningi.

Af tölvubréfinu 6. apríl 2009 megi skýrlega ráða þá afstöðu stefnda að sanni stefnandi að hún hafi notið réttarstöðu ríkisstarfsmanna samkvæmt lögum nr. 70/1996 þegar hún starfaði hjá Holtsbúð eigi hún tilkall til biðlauna.  Hins vegar virðist stefndi telja að sönnun um það hafi ekki tekist. Ef ekki verði fallist á að stefnandi eigi rétt á biðlaun­um, óháð starfi hennar hjá Holtsbúð, þá standi meginágreiningur máls þessa um þetta atriði.

Stefnandi telji sig hafa sannað að hún hafi án nokkurs rofs notið réttarstöðu ríkisstarfsmanns og þar með rétt sinn til biðlauna.  Í málinu liggi fyrir yfirlýsing Helgu Elísdóttur 22. apríl 2009, en hún starfi sem forstöðumaður launavinnslu hjá Holtsbúð og hafi komið að ráðningu stefnanda.  Í yfirlýsingunni komi fram staðfesting á því að ekki hafi verið gerður skriflegur ráðningarsamningur við stefnanda heldur hafi ráðningin verið á munnlegum grundvelli.  Muni það almennt séð hafa verið svo við ráðningar hjá Holtsbúð að ekki hafi verið gerðir skriflegir ráðningarsamningar við starfsmenn. Eigi slíkt þó ekki að hafa áhrif á réttarstöðu starfsmanns enda njóti munnlegir samningar sömu stöðu og skriflegir samkvæmt lögum nema annað sé tekið fram.

Í yfirlýsingunni komi fram að samist hafi svo milli aðila að stefnandi skyldi njóta sömu réttinda og hún nyti sem starfsmaður ríkisins samkvæmt lögum nr. 70/1996. Þannig ætti réttur hennar til biðlauna ekki að skerðast vegna starfa hennar hjá Holtsbúð.  Þá megi ráða af dómum Hæstaréttar frá 19. febrúar 2009 í máli nr. 320/2008 og frá 19. desember 1999 í máli nr. 156/2000 að undir almenna tilvísun í ráðningarsamningi eða kjarasamningi, um að starfsmenn njóti sambærilegrar réttar­stöðu og þeir starfsmenn ríkisins sem lög nr. 70/1996 taki beinlínis til, falli einnig réttur til biðlauna samkvæmt 5. mgr. sé ekki tilgreint sérstaklega að slík réttindi skuli falla þar utan.

Með yfirlýsingunni telji stefnandi sig hafa fært lögfulla sönnun fyrir því að hún hafi notið sömu réttarstöðu og ríkisstarfsmaður og eigi því tilkall til biðlauna úr hendi stefnda.  Staðfesting þess aðila sem annaðist ráðningu stefnanda hljóti að jafngilda skrif­legri ráðningu hennar enda sé vart tækt að stefnandi njóti bersýnilega lakari réttar en ella af þeirri ástæðu að vinnuveitandi hafi látið undir höfuð leggjast að gera við hana skriflegan ráðningarsamning þegar fyrir liggi staðfesting á innihaldi ráðningar­kjara hennar.

Stefnandi geri í málinu kröfu um viðurkenningu á rétti til biðlauna í 12 mánuði úr hendi stefnda vegna niðurlagningar stöðu hennar frá og með 1. júní 2009.  Hafi staða hennar verið lögð niður frá tilgreindu tímamarki.  Sæki stefnandi heimild til að gera viðurkenningarkröfu þessa til 2. mgr. 25. gr. laga nr. 91/1991 um meðferð einkamála.  Um lagarök að öðru leyti vísar stefnandi til laga nr. 70/1996 um réttindi og skyldur starfsmanna ríkisins, sérstaklega 5. mgr. bráðabirgðaákvæðis, meginreglna vinnuréttar og meginreglna samningaréttar. Kröfu um málskostnað styður stefnandi við 1. mgr. 130. gr. laga nr. 91/1991 um meðferð einkamála.

IV

Stefndi byggir kröfu sína um sýknu á því að stefnandi uppfylli ekki það skilyrði 5. mgr. ákvæðis til bráðabirgða laga nr. 70/1996, eins og það hafi verið túlkað í framkvæmd, að hafa starfað í þjónustu ríkisins óslitið frá því lögin tóku gildi, og eigi þannig ekki rétt til biðlauna úr hendi stefnda, þrátt fyrir ákvæði 2. gr. kjarasamnings stefnda og Félags íslenskra hjúkrunarfræðinga.

Stefndi byggir á því ákvæði að 5. mgr. ákvæðis til bráðabirgða laga nr. 70/1996 um réttindi og skyldur starfsmanna ríkisins sé undantekning frá þeirri meginreglu laganna að einungis embættismenn eigi rétt til biðlauna vegna niðurlagningar starfs.  Ákvæðið beri því að túlka þröngt.  Almennir ríkisstarfsmenn, þ.e. aðrir en embættismenn, eigi þannig ekki rétt til biðlauna nema því aðeins að þeir falli undir 5. mgr. bráðabirgða­ákvæðis laganna.  Aðrir starfsmenn en embættismenn og ríkisstarfsmenn, falli þannig ekki undir ákvæði 5. mgr. ákvæðis til bráðabirgða laganna og eigi því ekki biðlaunarétt, nema sá réttur þeirra verði leiddur af skýrum heimildum, svo sem kjarasamningi eða ráðningarsamningi.  Ljóst sé að stefnandi byggi rétt sinn til bið­launa á fyrrgreindri 2. gr. kjarasamnings stefnda við Félag íslenskra hjúkrunar­fræðinga.

Stefndi byggi hins vegar á því að þó starfsmaður geti leitt rétt sinn til biðlauna af slíku ákvæði í kjarasamningi, þurfi hann jafnframt að uppfylla þau skilyrði sem þeir starfsmenn ríkisins sem heyri undir ákvæði 5. mgr. til bráðabirgða laganna þurfi að uppfylla.  Að öðrum kosti væru réttindin ekki hliðstæð réttindum þeirra starfsmanna er undir lögin heyri heldur betri.  Stefnandi byggi á því að skilyrði ákvæðisins séu tvö, annars vegar að starf viðkomandi starfsmanns hjá ríkinu hafi verið lagt niður, og hins vegar að starfsmaður hafi verið skipaður eða ráðinn í þjónustu ríkisins fyrir gildistöku laganna og hafi þannig fallið undir lög nr. 38/1954.  Óumdeilt sé að stefnandi uppfylli þau skilyrði.

Stefndi byggi hins vegar á því að auk tveggja fyrrnefndra skilyrða hafi það einnig verið áskilið við túlkun ákvæðisins hjá fjármálaráðuneytinu að starfsmaður, sem leiða vill biðlaunarétt af ákvæðinu, hafi starfað í þjónustu ríkisins óslitið frá gildistöku laganna og fram til þess tíma er staða hans er lögð niður, þannig að ekki hafi orðið rof í ráðningu hans hjá ríkinu.  Þetta skilyrði telji stefndi raunar að leiði af eðli máls, þ.e. að starfsmaður sem hætti sjálfviljugur störfum hjá ríkinu falli eðli málsins samkvæmt ekki lengur undir ákvæði laga nr. 70/1996 og missi þannig rétt sinn til biðlauna samkvæmt ákvæðinu.  Ákvæðið hafi lengi verið túlkað með þessum hætti, sbr. upp­lýs­ingar á heimasíðu starfsmannaskrifstofu fjármálaráðuneytisins.

Óumdeilt sé að stefnandi starfaði hjá ríkinu fram til ársins 2001.  Sama ár hafi hún hafið störf hjá sjálfseignarstofnuninni Holtsbúð í Garðabæ, og svo árið 2003 hjá stefnda.  Því sé ljóst að stefnandi hafi ekki starfað óslitið í þjónustu ríkisins frá gildistöku laga nr. 70/1996, og þar til staða hennar var lögð niður hjá stefnda 2009.  Með hliðsjón af dómi Hæstaréttar í máli nr. 320/2008, byggi stefndi á því að til að stefnandi geti uppfyllt framangreint skilyrði verði hún að sýna fram á að hún hafi óslitið frá gildistöku laga nr. 70/1996, átt hliðstæð réttindi og ríkisstarfsmaður.

Á starfstíma stefnanda hjá Holtsbúð virðist sem hún hafi tekið laun samkvæmt kjarasamningi Félags íslenskra hjúkrunarfræðinga við fjármálaráðherra, dagsettum 25. júlí 2001, en þar sé ekki að finna sambærilegt ákvæði, og finna megi í 2. gr. kjarasamnings stefnda við Félags íslenskra hjúkrunarfræðinga þess efnis að starfsmenn sem taki laun eftir samningnum eigi hliðstæð réttindi og starfsmenn sam­kvæmt lögum nr. 70/1996. 

Þá hafi enginn skriflegur ráðningarsamningur verið gerður við stefnanda þar sem kveðið hafi verið á um að réttindi hennar væru hliðstæð réttindum þeirra er féllu undir lög nr. 70/1996.  Stefnandi byggi í þessu sambandi á yfirlýsingu fyrrverandi starfsmanns Holtsbúðar, þess efnis að stefnandi hafi notið þessara réttinda samkvæmt munnlegu samkomulagi við ráðningu hennar.  Stefndi fallist ekki á að hugsanlegar munnlegar yfirlýsingar við ráðningu stefnanda til Holtsbúðar árið 2001 geti veitt stefnanda rétt til biðlauna úr hendi þriðja aðila, þ.e. stefnda.  Aðrir starfsmenn en embætt­is­menn og ríkisstarfsmenn, eigi ekki biðlaunarétt, nema sá réttur verði leiddur af skýrum heimildum.  Sú yfirlýsing er stefnandi byggi á geti ekki talist skýr heimild í þessu sambandi. 

Byggi stefndi þannig á því að þar sem ekki sé unnt að líta svo á að stefnandi hafi starfað óslitið í þjónustu ríkisins, eða að hún hafi óslitið notið sambærilegra réttinda og ríkisstarfsmenn, sé skilyrðum 5. mgr. ákvæðis til bráðabirgða ekki fullnægt, og stefnandi eigi því ekki biðlaunarétt samkvæmt 2. gr. kjarasamnings stefnda og Félags íslenskra hjúkrunarfræðinga.  Réttur stefnanda til biðlauna hafi fallið niður við starfs­lok hennar hjá ríkinu og hann verði ekki endurvakinn.  Að öllu framan­greindu virtu verði að sýkna stefnda af kröfum stefnanda.

Um lagarök vísar stefndi til laga nr. 38/1954 og laga nr. 70/1996 um réttindi og skyld­ur starfsmanna ríkisins o.fl.  Um málskostnaðar­kröfu vísar hann til XXI. kafla laga nr. 91/1991 um meðferð einkamála, einkum 129., 130. og a. lið 1. mgr. 131. gr. laganna.

V

Eins og rakið hefur verið snýst meginágreiningur í máli þessu um það hvort stefnandi eigi rétt til biðlauna úr hendi stefnda á grundvelli 5. mgr. bráðabirgðaákvæðis í lögum nr. 70/1986 um réttindi og skyldur starfsmanna ríkisins sem er svohljóðandi:

„Sé starf lagt niður á starfsmaður, sem skipaður hefur verið eða ráðinn í þjónustu ríkisins fyrir gildistöku laga þessara og fallið hefur undir lög nr. 38/1954, en telst ekki embættismaður skv. 22. gr. laga þessara, rétt til bóta er nemi launum í sex mánuði, ef hann hefur verið í þjónustu ríkisins skemur en í 15 ár, en ella í tólf mánuði.  Að öðru leyti gilda um bótarétt og bótafjárhæð ákvæði 34. gr.“

Samkvæmt orðanna hljóðan ákvæðis þessa eru skilyrði til að njóta bóta samkvæmt ákvæðinu þau annars vegar að starf sé lagt niður og hins vegar að viðkomandi starfsmaður hafi verið skipaður eða ráðinn í þjónustu ríkisins fyrir gildistöku laganna og þar með fallið undir lög nr. 38/1954 en teljist ekki embættismaður. 

Óumdeilt er að stefnandi uppfyllir bæði þessi skilyrði ákvæðisins.  Stefndi hins vegar telur að auk þessara tveggja skilyrða hafi það verið áskilið við túlkun ákvæðisins að starfsmaður þurfi að hafa starfað í þjónustu ríkisins, eða notið réttinda sem slíkur, óslitið frá gildistöku laganna og fram til þess tíma er staða hans er lögð niður þannig að ekki hafi orðið rof í ráðningu starfsmannsins já ríkinu.  Telur stefndi að þetta skilyrði leiði af eðli máls þannig að sá starfsmaður sem hætti sjálfviljugur störfum hjá ríkinu falli eðli málsins samkvæmt ekki lengur undir ákvæði laganna og missi þannig rétt sinn til biðlauna.  Þar sem ekki sé unnt að líta svo á að stefnandi hafi starfað óslitið í þjónustu ríkisins, eða óslitið notið sambærilegra réttinda og ríkisstarfsmenn, eigi hún ekki biðlaunarétt samkvæmt 2. gr. kjarasamnings stefnda og Félags íslenskra hjúkrunarfræðinga.

Í 2. gr. kjarasamnings milli stefnda og Félags íslenskra hjúkrunarfræðinga segir að hjúkrunarfræðingar njóti hliðstæðra réttinda og beri hliðstæðar skyldur og gert sé ráð fyrir í lögum nr. 70/1996, reglugerð nr. 411/1989 um veikindaforföll starfsmanna ríkisins og reglugerð nr. 410/1989 um barnsburðarleyfi starfsmanna ríkisins.  Verður af málatilbúnaði stefnda ráðið að ekki sé ágreiningur um að stefnandi hefði átt biðlaunarétt ef hún hefði starfað óslitið í þjónustu ríkisins eða notið sambærilegra réttinda og ríkisstarfsmenn frá gildistöku laga nr. 70/1996 og þar til staða hennar var lögð niður 1. júní 2009.  En þar sem rof hafi orðið á ráðningu hennar hjá ríkinu þegar hún hóf störf hjá Holtsbúð hafi hún fyrirgert þeim rétti. 

Af skýrum texta umdeilds 5. mgr. bráðabirgðaákvæðis laga nr. 70/1996 verður ekki séð að það sé skilyrði að starfsmaður þurfi að hafa starfað óslitið hjá ríkinu, eða óslitið notið sambærilegra réttinda og ríkisstarfsmenn, frá gildistöku laganna fram til þess tíma er staða hans er lögð niður.  Þá verður sú túlkun heldur ekki leidd af lög­skýr­ingar­gögnum eða eðli máls.  Þá verður ekki séð að túlkun fjármálaráðuneytis­ins gangi framar skýrum texta lagaákvæðisins að þessu leyti eða að túlka beri ákvæði þetta þrengra en orðalag þess gefur tilefni til.  Hafi það verið vilji löggjafans að réttindi samkvæmt umdeildu ákvæði væru bundin því skilyrði að starfsmaður þyrfti að hafa starfað óslitið hjá ríkinu frá gildistöku laganna þar til starf hans væri lagt niður hefði þurft að taka það sérstaklega fram.

Þá verður ekki séð að þessi túlkun á lagaákvæðinu veiti þeim, sem leiða rétt sinn til biðlauna af ákvæðinu, betri rétt en þeim sem heyra undir lögin.

Eins og að framan er rakið er ekki ágreiningur um að stefnandi fullnægi þeim tveim skilyrðum sem lagaákvæðið krefst og að því virtu sem nú hefur verið rakið á stefnandi þegar af þeirri ástæðu rétt til biðlauna.  Þá er ekki um það deilt, enda bera gögn málsins það með sér, að stefnandi hafði unnið í meira en 15 ár hjá ríkinu þegar hún ákvað að ráða sig í vinnu til Holtsbúðar.  Að þessu virtu og því að með samningi sínum við stefnda um að hún nyti hliðstæðra réttinda og gert er ráð fyrir í lögum nr. 70/1996 verður krafa stefnanda tekin til greina eins og nánar greinir í dómsorði.

Eftir þessari niðurstöðu verður stefndi dæmdur til að greiða stefnanda málskostnað sem þykir hæfilega ákveðinn 500.000 krónur, þar með talinn virðisaukaskattur.

Af hálfu stefnanda flutti málið Heimir Örn Herbertsson hrl. en af hálfu stefnda flutti málið Stefán A. Svensson hdl.

Greta Baldursdóttir héraðsdómari kveður upp dóminn.

D Ó M S O R Ð

Viðurkenndur er réttur stefnanda, Kristínar Blöndal, til biðlauna úr hendi stefnda, Skógarbæ, hjúkrunarheimili, í 12 mánuði frá og með 1. júní 2009.

Stefndi greiði stefnanda 500.000 krónur í málskostnað.