Hæstiréttur íslands
Mál nr. 78/2015
Lykilorð
- Líkamsárás
- Sönnunarmat
- Ómerking héraðsdóms
- Heimvísun
|
|
Fimmtudaginn 10. september 2015. |
|
Nr. 78/2015.
|
Ákæruvaldið (Hulda Elsa Björgvinsdóttir saksóknari) gegn X (Ásgeir Jónsson hrl.) |
Líkamsárás. Sönnunarmat. Ómerking héraðsdóms. Heimvísun.
X var gefin að sök sérstaklega hættuleg líkamsárás með því að hafa veist að A með ofbeldi og slegið ítrekað í höfuð hans og líkama með þeim afleiðingum að A hlaut tvíbrot á kjálka, skurði á höfuð og mar víðsvegar um bak og síður. Var X sýknaður í héraði þar sem talið var að ákæruvaldið hefði ekki axlað sönnunarbyrði, sem á því hvíldi samkvæmt 108. gr. laga nr. 88/2008 um meðferð sakamála, og lögfull sönnun hefði ekki verið færð fram í málinu, sbr. 1. mgr. 109. gr. sömu laga. Taldi Hæstiréttur að héraðsdómur hefði ekki fellt dóm á málið með tilliti til allra gagna og að líkur væru á að niðurstaða héraðsdóms um sönnunargildi munnlegs framburðar fyrir dómi væri röng svo að máli skipti um málsúrslit. Með vísan til 3. mgr. 208. gr. laga nr. 88/2008 var hinn áfrýjaði dómur því ómerktur og málinu vísað heim í hérað til aðalmeðferðar og dómsálagningar á ný.
Dómur Hæstaréttar.
Mál þetta dæma hæstaréttardómararnir Helgi I. Jónsson og Benedikt Bogason og Ingveldur Einarsdóttir settur hæstaréttardómari.
Ríkissaksóknari skaut málinu til Hæstaréttar 12. janúar 2015. Af hálfu ákæruvaldsins er þess aðallega krafist að ákærði verði sakfelldur samkvæmt ákæru og dæmdur til refsingar, en til vara að hinn áfrýjaði dómur verði ómerktur og málinu vísað heim í hérað.
Ákærði krefst staðfestingar héraðsdóms.
I
Í málinu er ákærða gefin að sök sérstaklega hættuleg líkamsárás með því að hafa aðfaranótt 9. júní 2012, í sumarhúsi sínu að [...] í [...], veist að A með ofbeldi og slegið ítrekað í höfuð hans og líkama, meðal annars með riffli og eða riffilsjónauka, með þeim afleiðingum að A hlaut tvíbrot á neðri kjálka vinstra megin og nokkra skurði á vinstri hlið höfuðs og mar víðsvegar um bak og síður. Er þetta talið varða við 2. mgr. 218. gr. almennra hegningarlaga nr. 19/1940.
Í hinum áfrýjaða dómi er gerð grein fyrir atvikum málsins og framburði ákærða og vitna og öðrum gögnum málsins. Kom fram í niðurstöðu héraðsdóms að ákærði myndi eftir að hafa farið í „sjómann“ við brotaþola og fengi það stoð í framburði hins síðarnefnda og eiginkonu hans. Ákærða og brotaþola bæri saman um það, svo langt sem minni þeirra næði, að þeir hafi verið einir í sumarhúsinu umrætt sinn, að því undanskildu að brotaþoli kannaðist við að eiginkona sín hafi komið þar eftir að hann hafði dvalið þar nokkra stund, en hún staldrað stutt við. Gerð var grein fyrir upplýsingum sem fram komu í svonefndri dagbók lögreglu lengri og rafrænni skráningu símtala umrædda nótt milli Neyðarlínu og fjarskiptamiðstöðvar ríkislögreglustjóra við símanúmer ákærða og lögregluna á Selfossi. Samkvæmt þeim gögnum lægi fyrir að klukkan 2.23.03 hafi „maður að nafni X“ hringt í Neyðarlínu. Aðalvarðstjóri hjá ríkislögreglustjóra hafi tekið við símtalinu klukkan 2.25.36 og hafi það staðið yfir í tæpar sex mínútur, en þá rofnað eftir að heyrðist í konu í bakgrunni. Í framburði eiginkonu brotaþola hafi komið fram að hún hafi komið að honum liggjandi í blóði sínu. Samkvæmt gögnum lögreglu hafi hún svarað símtali fyrrnefnds aðalvarðstjóra í símanúmer ákærða klukkan 2.41.02. Á hinn bóginn hafi lögregla ekki aflað hljóðupptöku af símtölunum úr símanúmeri ákærða. Þá yrði ekki fram hjá því litið að þrátt fyrir að rúmar tíu mínútur hafi liðið frá því fyrra símtalinu lauk þar til eiginkona brotaþola svaraði símtali aðalvarðstjórans hafi rannsókn málsins málsins hvorki beinst að því að upplýsa hvað hafi valdið látum og köllum fyrir utan sumarhús ákærða né í hvaða konu hafi heyrst í bakgrunni rétt áður en samband slitnaði við símanúmer ákærða. Framburður ákærða væri mjög óljós þó svo hann hafi greint frá tilteknum minningarbrotum eða glefsum sem tengdust því að hann hafi handfjatlað sjónauka þann sem vitnið K læknir taldi hafa valdið hálfhringlaga áverka á kinn brotaþola. Að auki hafi mannaferðir í nágrenni sumarhússins ekki verið kannaðar sérstaklega. Enn fremur hafi ekkert komið fram við vettvangsrannsókn eða rannsókn á ákærða eða fötum hans sem tengdi hann við „ákæruatriði.“ Að öllu framangreindu virtu komst héraðsdómur að þeirri niðurstöðu að ákæruvaldið hafi ekki axlað sönnunarbyrði, sem á því hvíldi samkvæmt 108. gr. laga nr. 88/2008 um meðferð sakamála og lögfull sönnun ekki verið færð fram í málinu, sbr. 1. mgr. 109. gr. sömu laga.
Héraðsdómur reisti niðurstöðu sína um sýknu meðal annars á framburði ákærða og vitna. Enda þótt það ekki segi beinum orðum í dóminum og látið við það sitja að vísa til framburðar þeirra er sú niðurstaða reist á sönnunargildi framburðarins. Samkvæmt 2. mgr. 208. gr. laga nr. 88/2008 getur Hæstiréttur ekki endurmetið niðurstöðu héraðsdóms um sýknu á þessum grundvelli til sakfellingar ákærða eins og krafist er af hálfu ákæruvaldsins.
II
Í áðurnefndri dagbók lögreglu lengri var eftirfarandi símtal skráð klukkan 2.26 umrædda nótt: „[...] X hringir, á erfitt í fyrstu með að segja hvar hann er, segir loks að hann sé í [...] og að hann sé miður sín, því hann hafi barið mann, sem liggi nú á gólfi hans. Fór síðan að tala um læti utan hússins, hundgá og köll. Aðspurður um manninn á gólfinu fór X að gráta og kvaðst telja manninn látinn, úr honum kæmi bara blóð og virtist X ekki tilbúinn að kanna betur með hann ... samband slitnaði síðan við X eftir að fór að heyrast í konu í bakgrunni.“ Þá var svofellt símtal skráð klukkan 2.40: „Símasamband næst við konu, C, virðist eiginkona þess slasaða, svarar í síma X. Mjög ölvuð, en skilja má að maður hennar sé illa slasaður en með meðvitund. Höfð á línunni og beðin að veifa til lögreglu, þegar lögregla var farin upp að [...] kom í ljós að sú staðsetning gat ekki passað og kvað C staðsetninguna vera [...].“ Vitnið B aðalvarðstjóri hefur staðfest fyrir dómi að hafa skráð niður fyrrgreindar upplýsingar í framhaldi af símtölunum.
Samkvæmt frumskýrslu lögreglu um málið lá brotaþoli á miðju gólfi sumarhúss ákærða er lögreglumenn komu á vettvang. Var hann með mikla áverka í andliti og alblóðugur, en með skerta meðvitund. Á vettvangi voru einnig ákærði og eiginkona brotaþola. Ákærði hafi verið mjög ölvaður og ekkert sagst hafa vitað hvað gerst hefði. Hann hafi þó tjáð lögreglumönnum síðar að hann hafi hugsanlega barið brotaþola með sjónauka af byssu sinni, en myndi það þó ekki. Sjónaukinn af byssunni lá á gólfinu í um eins metra fjarlægð frá höfði brotaþola. Spýtnabrot voru á gólfinu og við nánari skoðun hafi mátt sjá að þau voru úr byssuskefti, en umrædd byssa fannst „mölbrotin“ þar sem hún lá undir koddum í sófa. Þá liggja fyrir í málinu ljósmyndir lögreglu, þar sem fram kom að blóð hafi verið á riffilskefti, ól á því, aftari enda riffilsjónauka og glerjum hlífar hans.
Samkvæmt læknisvottorði um komu brotaþola á bráðadeild Landspítalans umrædda nótt var brotaþoli með sárabindi vafið um höfuðið, grisjur í kringum eyra og vinstra auga og fjölmarga skurði í andliti, meðal annars skurð á enni, annan skurð rétt fyrir ofan vinstra auga og glóðarauga á því. Tveir skurðir voru á vinstri kinn. Einnig skurður á eyranu og bak við vinstra eyra. Þá var hann með mar á hnakkanum, yfirborðsáverka á brjóstkassa og ofarlega á baki sem virtist vera eftir högg. Brotaþoli hafi greinilega fengið högg á brjóstkassann og ofarlega á bakið og einnig mar á vinstri síðu. Þá var hann með áverka á báðum framhandleggjum og líktust þeir varnaráverkum. Á tölvusneiðmynd sást brot í gegnum kjálkabein í miðlínu sem náði út vinstra megin.
Ákærði var yfirheyrður hjá lögreglu síðdegis 9. júní 2012 að viðstöddum verjanda sínum. Kvaðst hann hafa boðið brotaþola upp á rauðvínsglas kvöldið áður. Eftir það myndi hann sáralítið eða ekki neitt „nema það að á einhverjum tímapunkti kemur upp svona einhver ... skelfileg hræðslutilfinning hjá mér og mig minnir einhvern veginn en þetta er svona í minningunni og að ég þurfi að verja mig en ég man ekki eftir að hann gæfi mér nokkuð tilefni til þess. Eins og ég segi ég man bara alveg ákaflega lítið eftir þessu, eitthvert stundarbrjálæði bara ... sem að heltekur mig þarna og man ekki atburðarásina því miður.“ Fyrir dómi kvaðst ákærði muna mjög lítið eftir þessu kvöldi annað en að brotaþoli hafi komið og ákærði boðið honum rauðvínsglas. Eftir öðru myndi hann sáralítið. Aðeins komi „glefsa“ þegar eiginkona brotaþola kom á staðinn og var að hringja, sennilega þá í lögregluna eða Neyðarlínuna, og svo væru örfáar „glefsur“ eftir að lögreglan kom og síðan myndi hann eftir sér í lögreglubifreið niður á lögreglustöð. Aðspurður hvort ákærði neitaði að hafa ráðist á brotaþola svaraði hann því til að hann ætti erfitt með að viðurkenna það alveg skýlaust, þar sem hann myndi það ekki, hvorki aðdragandann né atburðinn sjálfan, þó að líkur væru fyrir því. Ákærði kvaðst muna eftir „hræðslutilfinningunni“ en ekki hafa hugmynd um af hverju hún stafaði. Ákærði kvaðst ekki muna eftir öðru en að hann og brotaþoli hafi verið einir í húsinu. Þá myndi hann eftir að þeir hafi farið í „sjómann“. Hann kvaðst eiga riffil þann, sem um ræðir í málinu, en áfastur honum hafi verið sjónauki. Spurður um hvort hann hafi verið með áverka eftir nóttina kvaðst ákærði halda að hægri hönd sín hafi verið stokkbólgin „alveg frá kannski úlnlið eða eitthvað svoleiðis og hnúar eða einhvers staðar hérna í kring.“
Vitnið C, eiginkona brotaþola, kvaðst hafa komið við í sumarhúsi ákærða að kvöldi 8. júní 2012 og þá allt virst í góðu lagi hjá honum og brotaþola. Þeir hafi verið að fara í „sjómann“ og eitthvað verið að ræða um tækni í því sambandi. Hafi hún þá farið aftur í sumarhús sitt. Um nóttina hafi hún farið að undrast um brotaþola og þá haldið á ný í sumarhús ákærða og komið að brotaþola liggjandi í blóði sínu. Vitnið kvaðst hafa séð byssu í tveimur hlutum á gólfinu við hlið brotaþola. Hafi ákærði sett hana eða hent í sófann.
Vitnið K læknir gaf skýrslu fyrir dómi um áverka brotaþola á grundvelli læknisvottorðs, ljósmynda frá bráðamóttöku Landspítalans, ljósmynda af riffli, sjónauka og hlífðargleri hans og áverkum á brotaþola, teknum að lokinni skýrslutöku 11. júní 2012. Vitnið kvað hálfhringslega áverka hafa verið á kinn brotaþola sem gæti passað við hálfhringinn eða hringinn sem er á enda riffilsjónaukans. Erfiðara væri að segja til um hina áverkana, skurði sem komu á enni og kinn, en þeir gætu verið eftir ávalt áhald. Um marga áverka hafi verið að ræða sem hafi komið í skömmtum, en sá sérkennilegasti verið á kinninni og passaði hann alveg ágætlega við kíkisendann.
III
Eins og áður greinir var hringt klukkan 2.23 umrædda nótt í Neyðarlínuna úr síma ákærða, sem kynnti sig með nafninu X, og þaðan gefið samband við fjarskiptamiðstöð ríkislögreglustjóra klukkan 2.25. Getur ekki leikið vafi á því að ákærði hafi verið á hinum enda línunnar, en símtalið var skráð í beinu framhaldi af því. Í símtalinu skýrði ákærði frá því að hann hafi barið mann, sem lægi á gólfinu. Aðspurður um manninn fór ákærði að gráta og kvaðst telja hann látinn, úr honum kæmi bara blóð. Símtal þetta stóð yfir í um sex mínútur og lauk klukkan 2.31 þegar heyra mátti í konu í bakgrunni. Þá kom fram í rafrænni skráningu úr tölvukerfi ríkislögreglustjóra að svarað hafi verið í síma ákærða klukkan 2.35. Klukkan 2.41 náðist síðan samband við eiginkonu brotaþola í símann og mátti skilja á henni að eiginmaður hennar lægi illa slasaður á gólfi sumarhúss ákærða. Skömmu eftir síðara símtalið komu lögreglumenn á vettvang og lá brotaþoli þá á gólfinu í blóði sínu. Við hlið hans var sjónauki af riffli og spýtnabrot í kringum hann, en riffillinn fannst síðan í sófa, falinn undir koddum. Hefur eiginkona brotaþola borið að ákærði hafi tekið riffilinn, sem hafi verið í tveimur hlutum, af gólfinu og sett hann í sófann. Samkvæmt læknisvottorði var brotaþoli með marga áverka víðsvegar um líkamann, þar á meðal tvíbrotinn á kjálka, nokkra skurði á vinstri hlið höfuðs og mar um bak og síður. Vitnið K læknir kvað hálfhringslega áverka hafa verið á kinn brotaþola sem gæti passað við hálfhringinn eða hringinn sem var á enda sjónauka riffilsins. Erfiðara væri að segja til um hina áverkana, skurði sem komu á enni og kinn, en þeir gætu verið eftir ávalt áhald. Um marga áverka hafi verið að ræða sem hafi komið í skömmtum, en sá sérkennilegasti verið á kinninni og passaði hann alveg ágætlega við kíkisendann. Þá hefur ákærði borið að hægri hönd sín hafi verið stokkbólgin eftir nóttina. Engar vísbendingar eru um að aðrir en ákærði og brotaþoli hafi verið í sumarhúsi hins fyrrnefnda eða grennd við það áður en eiginkona brotaþola og lögregla komu á brotavettvang. Ákærði hefur borið við minnisleysi vegna áfengisneyslu, en þó skýrt frá því að hann hafi um nóttina verið gripinn hræðslutilfinningu, án þess að hann gerði sér grein fyrir af hverju hún stafaði.
Af þeim ástæðum sem að framan greinir hefur héraðsdómur ekki fellt dóm á málið með tilliti til allra gagna, sem fyrir honum lágu, og verður að telja líkur á að niðurstaða héraðsdóms um sönnunargildi munnlegs framburðar fyrir dómi kunni að vera röng svo að máli skipti um málsúrslit. Með vísan til 3. mgr. 208. gr. laga nr. 88/2008 verður því að ómerkja hinn áfrýjaða dóm og meðferð málsins frá upphafi aðalmeðferðar og vísa því heim í hérað til meðferðar á ný.
Ákvörðun sakarkostnaðar í héraði bíður nýs efnisdóms í málinu. Allur áfrýjunarkostnaður málsins verður lagður á ríkissjóð, þar með talin málsvarnarlaun skipaðs verjanda ákærða, sem ákveðin verða að meðtöldum virðisaukaskatti eins og í dómsorði greinir.
Dómsorð:
Hinn áfrýjaði dómur er ómerktur og er málinu vísað heim í hérað til aðalmeðferðar og dómsálagningar á ný.
Allur áfrýjunarkostnaður greiðist úr ríkissjóði, þar með talin málsvarnarlaun verjanda ákærða, Ásgeirs Jónssonar hæstaréttarlögmanns, 496.000 krónur.
Dómur Héraðsdóms Suðurlands 15. desember 2014.
Mál þetta, sem þingfest var þann 2. október 2014 og dómtekið 18. nóvember sama ár, er höfðað með ákæru ríkissaksóknara, dagsettri 21. ágúst 2014, á hendur X, kennitala [...], til heimils að [...], [...], „fyrir sérstaklega hættulega líkamsárás með því að hafa, aðfaranótt 9. júní 2012, í sumarhúsi sínu að [...], [...], veist að A, kennitala [...], með ofbeldi og slegið ítrekað í höfuð hans og líkama, m.a. með riffli og eða riffilsjónauka. Afleiðingar árásarinnar urðu þær að [...] hlaut tvíbrot í neðri kjálka vinstra megin svo hann þurfti að undirgangast aðgerð þann 6. september 2012. Þá hlaut hann nokkra skurði á vinstri hlið höfuðs sem sauma þurfi saman og mar víðsvegar um bak og síður.
Telst þetta varða við 2. mgr. 218. gr. almennra hegningarlaga nr. 19/1940.
Þess er krafist að ákærði verði dæmdur til refsingar og til greiðslu alls sakarkostnaðar.“
Í ákæru er tekin upp einkaréttarkrafa A, en krafan er svohljóðandi:
„Einkaréttarkrafa:
Af hálfu A er þess krafist að ákærði verði dæmdur til að greiða honum bætur að fjárhæð kr. 2.027.547, auk vaxta skv. 8. gr. vaxtalaga nr. 38/2001 frá tjónsdegi til þess dags er mánuður er liðinn frá dagsetningu bótakröfunnar, og dráttarvaxta samkvæmt 9. gr. sömu laga frá þeim degi til greiðsludags sbr. 6. gr. vaxtalaga. Verði brotaþola ekki skipaður réttargæslumaður er þess krafist að ákærði verði dæmdur til að greiða lögmannskostnað brotaþola samkvæmt tímaskýrslu auk virðisaukaskatts, sem lögð verður fram við aðalmeðferð málsins fyrir dómi eða að mati dómsins. Verði lögmannskostnaður dæmdur að mati dómsins þá er farið fram á að tekið verði tillit til skyldu brotaþola til greiðslu virðisaukaskatts og málsflutningsþóknun [sic]. Krafan er gerð með vísan til 3. mgr. 176. gr. laga nr. 88/2008 um meðferð sakamála. Verði bótakröfunni vikið til meðferðar fyrir dómi í sérstöku einkamáli gerir brotaþoli kröfu um málskostnað að skaðlausu úr hendi ákærða samkvæmt framlögðum málskostnaðarreikningi eða að mati dómsins og við þá ákvörðun verði tekið tillit til skyldu brotaþola til greiðslu virðisaukaskatts á málflutningsþóknun.“
Með bréfi dagsettu 24. október sl., fól ríkissaksóknari lögreglustjóranum á [...] að fara með málið af hans hálfu fyrir dómi. Ákæruvaldið gerir þær kröfur sem að framan greinir. Ákærði krefst aðallega sýknu af öllum kröfum ákæruvaldsins. Til vara er krafist vægustu refsingu sem lög leyfa. Þá er krafist málsvarnarlauna til handa verjanda og að málsvarnarlaun og annar sakarkostnaður málsins verði greiddur úr ríkissjóði. Ákærði krefst þess aðallega að einkaréttarkröfu verði vísað frá dómi, en til vara að krafan verði lækkuð verulega.
Mál þetta var þingfest þann 2. október 2014. Ákærði mætti fyrir dóm og var Jónína Guðmundsdóttir héraðsdómslögmaður skipuð verjandi ákærða að hans ósk. Þar sem ákærði kvaðst ekki muna eftir þeim atvikum sem lýst er í ákæru fór málið í aðalmeðferð. Málinu var frestað til 14. sama mánaðar en aðalmeðferð hófst þann 11. nóvember sl., með því að teknar voru skýrslur af átta þeirra níu vitna sem boðuð voru fyrir dóm. Framhald aðalmeðferðar fór fram 18. nóvember sl., og var málið dómtekið að loknum munnlegum málflutningi.
Málsatvik.
Af frumskýrslu lögreglu og svokallaðri dagbók lögreglu lengri, sem lögð var fram fyrir aðalmeðferð málsins, og upplýsingum frá fjarskiptamiðstöð ríkislögreglustjóra um símtöl milli símanúmers ákærða, [...], og neyðarlínunnar og í framhaldinu við fjarskiptamiðstöð ríkislögreglustjóra aðfaranótt 9. júní 2012, sem lögð var fram fyrir framhalds aðalmeðferð málsins, liggur fyrir að klukkan 02:23:03 var hringt úr framangreindu símanúmeri í neyðarlínuna og tilkynnt um slasaðan mann. Neyðarlínan vísaði símtalinu til fjarskiptamiðstöðvar ríkislögreglustjóra sem móttók símtalið klukkan 02:25:36. Fyrir svörum var B aðalvarðstjóri. Í bókun hans um símtalið segir: „[...] X hringir,á erfitt í fyrstu með að segja hvar hann er, segir loks að hann sé í [...] og að hann sé miður sín, því hann hafi barið mann, sem liggi nú á gólfi hans. Fór síðan að tala um læti utan hússins, hundgá og köll. Aðspurður um manninn á gólfinu fór X að gráta og kvaðst telja manninn látinn, úr honum kæmi bara blóð og virtist X ekki tilbúinn að kanna betur með hann.“ Í framhaldinu hafi lögregla og sjúkralið verið sent á vettvang. Fram kemur að símsamband við X hafi slitnað eftir að, eins og segir í bókunni, „fór að heyrast í konu í bakgrunni“, en þá hafði símtalið staðið yfir í rúmar 8 mínútur. Þá kemur fram í upplýsingum frá neyðarlínu og fjarskiptamiðstöð ríkislögreglustjóra, svokallaðri sjálfvirkri rafrænni skráningu símtala, að náðst hafi símsamband við símanúmer ákærða klukkan 02:41:02. Um það símtal bókaði áðurnefndur B. „Símasamband næst við konu, C, virðist eiginkona þess slasaða, svarar í síma X. Mjög ölvuð, en skilja má að maður hennar sé illa slasaður en með meðvitund. Höfð á línunni og beðin að veifa til lögreglu, þegar lögregla var farin upp að [...] kom í ljós að sú staðsetning gat ekki passað, og kvað C staðsetninguna vera [...].“ Í dagbók lögreglu lengri kemur fram að klukkan 02:47, eða 24 mínútum eftir að hringt var í neyðarlínuna, hafi lögregla komið á vettvang. Eins og áður segir lagði ákæruvaldið fram yfirlit um sjálfvirka rafræna skráningu símtala milli símanúmers ákærða annars vegar og neyðarlínu og fjarskiptamiðstöðvar ríkislögreglustjóra hins vegar, fyrir framhalds aðalmeðferð málsins. Hins vegar voru upptökur af framangreindum símtölum ekki lengur til staðar hjá framangreindum stofnunum þegar ákæruvaldið leitaði eftir því.
Í frumskýrslu lögreglu segir um vettvang að brotaþoli hafi legið á miðju gólfinu með skerta meðvitund og mikla áverka í andliti og alblóðugur. Auk hans hafi ákærði og eiginkona brotaþola, sem hafi verið mjög ölvuð, verið á vettvangi. Brotaþoli hafi verið fluttur með sjúkrabifreið á bráðamóttöku í Fossvogi. Að öðru leyti var vettvangi þannig lýst í frumskýrslu lögreglu. „Sjónaukinn af byssunni lá á gólfinu í um meters fjarlægð frá höfði A þar sem hann hafði legið á gólfinu. Ýmis spítubrot [sic] voru á gólfinu og þegar betur var að gáð mátti sjá að þau voru úr byssuskefti, en umrædd byssa lá undir koddum í sófanum í stofunni og var hún öll mölbrotinn [sic].“ Meðal gagna málsins eru ljósmyndir sem D, rannsóknarlögreglumaður sem einnig kom á vettvang, tók innan dyra í sumarhúsinu, auk ljósmynda af riffli, sjónauka og hlífðargleri sjónaukans, en framangreindir munir fundust á vettvangi. Meðal rannsóknargagna lögreglu eru ljósmyndir sem sýna áverka á brotaþola og teknar voru eftir yfirheyrslu yfir honum á lögreglustöðinni á Selfossi þann 11. júní 2012.
Samkvæmt gögnum málsins var blóðsýni tekið úr ákærða á lögreglustöðinni á Selfossi klukkan 04:36 umrædda nótt. Í vottorði Rannsóknarstofu í lyfja- og eiturefnafræði segir að endanleg niðurstaða alkóhólákvörðunar í blóði ákærða hafi verið 1,60. Blóðsýni var einnig tekið úr brotaþola umrædda nótt, nánar tiltekið klukkan 04:15, á bráðamóttöku. Í vottorði Rannsóknarstofu í lyfja- og eiturefnafræði segir að endanleg niðurstaða alkóhólákvörðunar í blóði brotaþola hafi verið 2,35.
Meðal rannsóknargagna er læknisvottorð E, tannlæknis og kjálkaskurðlæknis, sem sinnti eftirfylgd með brotaþola. Í vottorði E segir m.a: „Við skoðun 11. júní 2012 bar sjúklingur sig vel en kvartaði undan bólgu og óþægindum vinstra megin í andliti. Skoðun leiddi í ljós að sjúklingur var með tvíbrotinn neðri kjálka á subcondylarsvæði vinstra megin og synthesusvæði (miðlínu), brotin voru ótilfærð og bit í lagi. Sjúklingur var einnig með skurði í andliti sem búið var að sauma. Fyrsta meðferð fólst í fljótandi fæði og að forðast álag á kjálkana. Við almenna eftirmeðferð á stofu undirritaðs kom í ljós brot í miðlínu (synthesu) var ekki að gróa sem skyldi og því var ákveðið að opna inn á brotið og fixera það með titan skrúfum og spöngum. Sjúklingur var lagður inn á deild A-4 á LSH Fossvogi og aðgerðin framkvæmd þann 6. september 2012 í svæfingu.“ Í lok vottorðsins kemur fram að brotaþoli hafi gróið sára sinna vel og hafi við síðustu skoðun verið með gott bit og græðsla á brotum verið eðlileg. Hins vegar sé brotaþoli með skyntruflanir í neðri vör vinstra megin.
Meðan á meðferð málsins fyrir dómi stóð aflaði ákæruvaldið læknisvottorðs um brotaþola frá bráðamóttöku Landspítala, háskólasjúkrahúss Fossvogi. Vottorðið er undirritað af F, sérfræðilækni á bráðamóttöku Landspítala, háskólasjúkrahúss Fossvogi, og byggt á nótum deildarlæknis sem sinnti brotaþola við komu á deildina. Þar kemur fram að við komu hafi brotaþoli verið með eðlilegan blóðþrýsting og púls, súrefnismettun hafi verið eðlileg og meðvitundarskor samkvæmt GCS 14 af 15. Þá hafi brotaþoli svarað eða opnað augun þegar talað var til hans. Þó hafi verið erfitt að ræða við hann, líklega vegna áfengisneyslu. Þá segir. „Hann er með fjölmarga árverka í andliti, meðal annars skurð á enni, skurð rétt fyrir ofan vinstra auga, glóðarauga á vinstra auga. Tveir skurðir á vinstri kinn. Einnig skurður á eyranu og bak við vinstra eyra. Þá er hann með mar á hnakkanum en ekki opna skurði á hnakka eða hægra megin í andliti. [...] Engin merki um eymsli í hálsliðum eða baki. Hann er með yfirborðsáverka á brjóstkassa og ofarlega á baki sem virðist vera eftir högg. Ekki er þó hægt að sjá út frá þessum marblettum hvaða vopni hefur verið beitt. Hann hefur greinilega fengið högg á brjóstkassann og ofarlega á bakið. Einnig mar á vinstri síðu. Öndun er í lagi og engir verkir við djúpa innöndun. Ekkert athugavert við skoðun á kvið eða mjaðmagrind. Hann er með áverka á höndum, framhandleggjum beggja vegna og líkjast þeir varnaráverkum samkvæmt nótu læknis.“ Fram kemur að niðurstöður tölvusneiðmyndar af höfði hafi ekki sýnt merki um blæðingu innankúpu, en greinilegir mjúkpartaáverkar hafi verið undir húð, einkum vinstra megin á höfði. Tölvusneiðmynd af hálshrygg hafi ekki sýnt brot á hálshryggnum en hins vegar hafi sést brot í gegnum kjálkabein í miðlínu sem náð hafi út vinstra megin. Þá hafi tölvusneiðmynd hvorki sýnt áverka á brjóstkassa né kviðarholi. Niðurstaða greiningar er eftirfarandi: „Brot á kjálka á fleiri en einum stað, S02.6. Mörg sár á höfði, S01.7. Margir yfirborðsáverkar á höfði, S00.7“. Í vottorðinu kemur fram að brotaþoli hafi dvalið á bráðadeild í nokkra klukkutíma. Skurðir í andliti hafi verið saumaðir þ.e. sex spor á enni, níu spor við vinstri augabrún, fimm spor rétt neðan við vinstri augabrún, sex spor á eyra og fimm spor bak við eyra og þrjú spor í skurði þar. Þá hafi skurðir á kinn verið saumaðir, annars vegar með tveimur sporum og hins vegar einu spori. Með framangreindu læknisvottorði fylgdu tíu ljósmyndir sem teknar voru af brotaþola við komu á sjúkrahúsið og sýna áverka á höfði og baki brotaþola.
Framburður ákærða og vitna fyrir dómi.
Ákærði, sem kvaðst hafa verið töluvert mikið ölvaður umrædda nótt, kvaðst lítið muna eftir atvikum. Hann muni þó að brotaþoli hafi komið til hans í sumarhúsið og þegið rauðvínsglas. Þá kvaðst ákærði muna eftir þegar kona brotaþola hafi líklega verið að hringja í lögreglu. Sérstaklega aðspurður hvort hann neiti því alfarið að hafa veist að brotaþola umrædda nótt sagði ákærði að þó líkur væri fyrir því að svo hafi verið geti hann ekki skýlaust viðurkennt umrædda háttsemi þar sem hann muni hvorki aðdraganda né atburðinn sjálfan. Hann hafi oft hugsað um þennan atburð til að reyna átta sig á því hvað hafi gerst þar sem líkur séu fyrir því að hann sé sekur.
Ákærði kvaðst ekki vita hver ástæða heimsóknar brotaþola hafi verið en ákærði staðfesti að hafa á þessum tíma átt hvolp sem í nokkur skipti hafi farið til brotaþola þegar brotaþoli dvaldi í sumarhúsi sínu. Ákærði kvaðst ekki muna klukkan hvað brotaþoli hafi komið til sín umrætt kvöld. Í skýrslutöku hjá lögreglu síðari hluta laugardagsins 9. júní 2012 greindi ákærði frá því að heimildarþætti um Bubba, sem sýndur var í sjónvarpinu þetta kvöld, hafi verið lokið þegar brotaþoli kom. Fyrir dómi taldi ákærði sig hafa skýrt rétt frá um þetta atriði enda hafi ölvunarástand hans ekki verið slæmt þegar brotaþoli kom. Ástæðu minnisleysis kvað ákærði líklega fyrst og fremst hafa verið vegna ölvunarástand hans í umrætt sinn. Ákærði upplýsti að eftir töluverða áfengisneyslu komi fyrir að hann muni ekki eftir atvikum daginn eftir. Þá kvaðst hann aldrei hafa lent í slagsmálum.
Eftirfarandi framburður hjá lögreglu var borinn undir ákærða. Í fyrsta lagi það sem kom fram í sjálfstæðri frásögn ákærða í upphafi skýrslutökunnar: „...ég bauð honum upp á rauðvínsglas sem hann þáði en síðan hérna síðan eru svona man ég sáralítið eða ekki neitt nema það að á einhverjum tímapunkti kemur upp svona einhver, einhver skelfileg hræðslutilfinning hjá mér og mig einhvern veginn en þetta er svona í minningunni og að ég þurfi að verja mig en ég man ekki eftir að hann gæfi mér nokkuð tilefni til þess. Eins og ég segi ég man bara alveg ákaflega lítið eftir þessu, eitthvert stundarbrjálæði bara sem að sem að heltekur mig þarna og og man ekki atburðarásina því miður.“ Ákærði kvaðst muna eftir hræðslutilfinningunni en hvorki vita hver ástæða þeirrar tilfinningar hafi verið né geta lýst henni nánar, enda hafi hann aldrei upplifað neitt slíkt áður. Þá gat hann ekki gert grein fyrir á hvaða tímamarki umrædd tilfinning hafi gripið hann. Sérstaklega aðspurður kvaðst ákærði ekki muna hvort brotaþoli hafi ógnað honum, hrætt hann, þeir rifist eða lent í átökum. Aðspurður hvað hann hafi átt við með stundarbrjálæði í framangreindri skýrslutöku sagði ákærði að þar sem líkur séu fyrir því að hann hafi verið valdur að umræddri háttsemi þá hljóti eitthvað slíkt að hafa átt sér stað.
Ákærði kvaðst ekki muna eftir öðru en að hann og brotaþoli hafi verið einir í sumarhúsinu. Þá muni hann ekki eftir að kona brotaþola hafi komið til þeirra fyrr um kvöldið. Ákærða var kynnt að í skýrslutöku hjá lögreglu hafi hann greint frá því að þeir, þ.e. ákærði og brotaþoli, hafi farið í sjómann. Staðfesti ákærði að muna eftir því, en hvorki geta gert grein fyrir tilefni þess né því hvernig leikurinn fór fram fram eða lauk. Ákærði kvaðst ekki muna hvar þeir sátu meðan á þessu stóð en taldi líklegt að þeir hafi setið við borðstofuborðið.
Aðspurður um riffil þann sem haldlagður var í málinu kvaðst ákærði eiga hann og yfirleitt geyma hann uppi á lofti í sumarhúsinu. Umrædda nótt hafi riffillinn hins vegar verið í horni við borðstofuborðið þar sem ákærði hafi nokkrum dögum áður verið að hreinsa hann. Umrætt kvöld hafi riffillinn verið heill og sjónaukinn fastur á honum. Þá minnti vitnið að hann hafi, þegar framangreind hræðslutilfinning hafi gripið hann og honum fundist að hann þyrfti að verja sig, tekið um báða enda á kíkinum í þeim tilgangi að losa hann frá. Ítrekað spurður kvaðst ákærði ekki vera viss um að hann hafi brotið kíkinn af rifflinum og í minningunni sé hann alls ekki viss um að hann hafi handleikið riffilinn, allt sé óljóst og þá nefndi ákærði að hann myndi einhverjar glefsur, en minnið væri gloppótt. Ákærði staðfesti að blóð hafi ekki verið á rifflinum og ekki hafi verið skotið úr honum í langan tíma. Eftirfarandi framburður hjá lögreglu var borinn undir ákærða. „En það er svona, það er svona, mér bara einhvern veginn finnst það svona ég, ég er, ég get ekki svarið fyrir þetta sko en, en ég óljóst, óljóst eða ég held, ég hélt alla vega að ég hafi tekið í kíkirinn [sic] á rifflinum svona um báða enda.[...] Upp á það að snúa hann af eða eitthvað ég.“ Ákærði ítrekaði minnisleysi sitt varðandi meðferð á umræddum kíki og kvaðst ekki geta sagt til um það hvort brotaþoli hafi handleikið riffilinn. Ákærða var kynnt að riffillinn hafi fundist í sófanum en ákærði kvaðst ekki geta skýrt það. Í framhaldi af svari ákærða var eftirfarandi framburður ákærða hjá lögreglu borinn undir hann. „Heyrðu ég man eftir þessu, af því að ég, ég veit ekki af hverju púðar voru yfir, ég tók þessa púða af, þess vegna fannst hann.“ Ákærði kvaðst ekki muna eftir þessu.
Fram kom hjá ákærða, sem kvaðst vera rétthentur, að hann teldi sig hafa verið stokkbólginn á hægri hendi frá úlnlið fram á hnúa eftir atburðinn en mundi ekki hvort blætt hafi úr honum. Ákærði kvaðst ekki hafa leitað læknis vegna þessa.
Ákærða var kynnt að í gögnum málsins komi fram að hann hafi hringt í neyðarlína og tilkynnt um atburðinn. Ákærði kvaðst ekkert minnast þessa, en staðfesti að símanúmer það sem tilgreint sé í dagbók lögreglu lengri, þ.e. [...], sé hans símanúmer. Þá kvaðst hann ekki minnast þess að hafa greint frá því í framangreindu símtali að hann hafi barið mann sem lægi á gólfinu hjá honum og að hann teldi manninn látinn, úr honum kæmi bara blóð, eins og segir í umræddri dagbókarfærslu.
Ákærði taldi að um 200-250 metrar loftlína sé milli sumarhúss hans og brotaþola. Þá séu fleiri sumarhús á svæðinu, en ákærði taldi að umrædda nótt hafi enginn verið í nærliggjandi sumarhúsum. Þá upplýsti ákærði að hann sé 1,74 metrar á hæð og hafi verið um 100 kg á umræddum tíma.
Ákærði ítrekaði að honum hafi liðið mjög illa eftir atburð þennan en ekki leitað sér aðstoðar. Hann sé öryrki, hafi skertan mátt í öðrum fætinum, sé með vefja- og slitgigt og búinn að fara í mjaðmaskipti og hnéaðgerð. Þá eigi hann við þunglyndi að stríða og sé mest innan dyra.
Vitnið og brotaþolinn, A, kvaðst hafa, ásamt sambýliskonu sinni, komið í sumarhús sitt, sem sé í um 200 metra fjarlægð frá sumarhúsi ákærða, um klukkan 20:30 kvöldið fyrir umræddan atburð. Eftir að hafa komið sér fyrir og fengið sér nokkra bjóra með 5% styrkleika, og e.t.v. sterkt áfengi, hafi hann, líklega milli klukkan 23:00 og 23:30, farið einn í sumarhús ákærða til að skila hundi sem ákærði átti og komið hafi til þeirra fyrr um kvöldið. Ákærði hafi komið til dyra og tekið á móti honum, þeir spjallað saman og fengið sér rauðvín og vel farið á með þeim. Brotaþola minnti að kveikt hafi verið á sjónvarpinu en þeir ekki horft á það. Þeir hafi verið einir í sumarhúsinu þar til sambýliskona hans hafi, líklega klukkutíma síðar, komið en hún hafi dvalið stutta stund. Um það leyti sem sambýliskona hans hafi komið hafi þeir, þ.e. brotaþoli og ákærði, ákveðið að fara í sjómann. Þeir hafi setið við borðstofuborðið og kvaðst brotaþoli hafa setið með bakið í sófann. Vitnið, sem kvaðst vera 1,77 að hæð og 64 kg að þyngd, mundi ekki hvor hafi haft betur eða hvernig sjómanninum hafi lokið. Eftir það kvaðst brotaþoli, líklega vegna áfengisneyslu, ekki muna eftir atvikum og ekki muna eftir sér fyrr en á bráðamóttöku. Staðfesti brotaþoli að hann hafi áður misst minnið eftir áfengisneyslu. Aðspurður kvaðst brotaþoli ekki hafa séð riffil á staðnum. Þá kvaðst hann hvorki minnast þess að hafa ógnað ákærða eða áreitt hann.
Brotaþoli staðfesti að hafa farið í aðgerð vegna brots á kjálka en kvaðst enn vera með doða í vör og niður í kjálka. Þá sé hann með ör í andliti og jafnvægi hans hafi versnað eftir þennan atburð en vegna þessa hafi hann þó ekki leitað læknis.
Brotaþoli taldi að umrætt kvöld og nótt hafi fólk ekki verið í nágrannasumarhúsum en líklega hafi einhver verið í húsunum innar í götunni. Brotaþoli kvaðst ekki hafa orðið var við mannaferðir á leið sinni til ákærða. Þá greindi brotaþoli frá því að hafa hitt ákærða nokkrum sinnum áður en engar deilur hafi verið milli þeirra.
Vitnið C, sambýliskona brotaþola, kvað lítil samskipti hafa verið milli hennar og ákærða en greindi frá því að hafa fengið að hlaða tæki hjá ákærða og þá hafi ákærði komið að sækja hundinn sinn til þeirra. Vitnið lýsti aðdraganda þess að brotaþoli hafi farið heim til ákærða með sama hætti og brotaþoli. Fram kom að vitnið hafi verið að tala við konu að nafni G í símanum þegar brotaþoli fór. Vitnið, sem kvaðst hafa neytt áfengis umrædda nótt, kvaðst mikið hafa verið í símanum umrætt kvöld og nótt en farið upp í bústað að vitja um brotaþola eftir nokkurn tíma, líklega milli klukkan hálf tólf og tólf. Ákærði og brotaþoli hafi þá setið í sófanum við rauðvínsdrykkju en fært sig að borðstofuborði og farið í sjómann og verið að ræða tæknileg atriði varðandi þann leik. Hún hafi stoppað stutt við, líklega ekki nema fimm mínútur. Þar sem allt hafi verið í lagi og vel hafi farið á með þeim, hafi hún farið aftur til baka. Sérstaklega aðspurð kvað vitnið hvorki ákærða né brotaþola hafa sýnt af sér ógnandi hegðun meðan hún dvaldi í húsinu. Aðspurð sagði vitnið að hvorki ákærði né brotaþoli hafi verið dauðadrukknir. Þá hafi legið vel á brotaþola þegar hann fór til ákærða. Ekkert hafi bent til þess sem síðar gerðist.
Eftir að vitnið kom aftur í sumarhús sitt hafi hún m.a. hringt í H vinkonu sína og líklega hafi þær rætt saman í rúman klukkutíma. Eftir það hafi hún hringt í I, móður H, en hún hafi ekki svarað. Þá kvaðst vitnið hafa ákveðið að kanna ástæðu þess að brotaþoli væri ekki kominn heim, enda hafi hún saknað brotaþola og viljað hafa hann hjá sér. Þegar í sumarhúsið kom hafi brotaþoli legið á bakinu í blóði sínu á gólfinu við hornið á borðstofuborðinu en ákærði staðið innar í húsinu nær eldhúsi. Engir aðrir hafi verið þar í húsinu. Hún hafi reynt að vekja brotaþola en síðan beðið ákærða um síma og hafi það verið einu orðaskiptin þeirra í milli. Hafi ákærði lagt símann á borðstofuborðið og hún hringt í neyðarlínu. Vitnið var spurt um framburð hennar í símaskýrslu sem hún gaf lögreglu daginn eftir atburðinn þess efnis að einhver hlutur hafi verið við hliðina á brotaþola. Vitnið kvað umræddan hlut, sem legið hafi á gólfinu við hliðina á brotaþola, hafa verið trébyssu, líklega riffill. Vopnið hafi verið í tveimur hlutum við hliðina á brotaþola en ákærði tekið vopnið upp og sett það í sófann. Aðspurð af hverju hún hafi ekki greint frá þessu í skýrslutöku hjá lögreglu kvaðst vitnið hafa verið í miklu uppnámi. Þá hafi lögreglan hringt á vinnustað hennar, en mikið hafi verið að gera og hún þurft að fara út á bílastæði til að ræða við lögreglu. Eftir símtalið hafi hún munað eftir að umræddur hlutur hafi verið byssa eins og hún hafi nú greint frá. Orðrétt lýsti vitnið atvikum þannig „Ég alla vega, ég kem þarna ég kem inn, hann er úti í blóði og þessi hlutur sem þú ert að tala um, ég kalla á X að láta mig hafa símann til að ég geti sem sagt hringt á neyðarlínuna. Hann setur hann á borðbrúnina, eldhúsborðbrúnina, við hliðina á mér liggur byssan í tveimur eða já og hann tók það og hent setti það í sófann og ég fór að hugsa, ég verð að muna eftir að segja löggunni og svo bara gleymdist það og ég er að tala hringi í neyðarlínuna og sé er ég bara í samskiptum við neyðarlínuna.“ Vitnið kvað athygli sína fyrst og fremst hafa beinst að brotaþola en muna eftir að ákærði hafi gengið um gólf. Vitnið kannaðist ekki við að ákærði hafi hringt í neyðarlínuna. Vitnið ítrekaði að þegar hún hafi komið inn í sumarhúsið hafi hún séð brotaþola liggjandi í blóði sínu, hún reynt að vekja hann og beðið ákærða um síma, ákærði látið hana fá síma og hún hringt í neyðarlínuna.
Ítrekað aðspurð kvaðst vitnið hafa hringt í neyðarlínuna í umrætt sinn og verið í símasambandi við hana þar til sjúkrabifreið og lögregla kom á staðinn. Vitnið kvaðst hafa verið í miklu áfalli og m.a. haft áhyggjur af því að lögregla og sjúkrabifreið gætu ekki opnað hlið að hverfinu þar sem til þess þurfi sérstakan búnað. Vitnið kannaðist ekki við að ákærði hafi hringt í neyðarlínuna og ítrekaði að hann hafi ekkert rætt við hana meðan beðið var eftir aðstoð.
Aðspurð kvaðst vitnið ekki hafa verið búin að drekka mikið þegar hún fór í fyrra skiptið í sumarhús ákærða, en hún hafi drukkið töluvert eftir það.
Vitnið kvaðst ekki vita hvort fólk hafi dvalið í nærliggjandi sumarhúsum. Engir aðrir hafi komið að sumarhúsi ákærða í tengslum við síðari ferð hennar þangað né þegar lögregla kom á staðinn. Sérstaklega aðspurð kvaðst vitnið ekki hafa heyrt hávaða frá sumarhúsi ákærða umrætt kvöld eða nótt.
Vitnið F, sérfræðilæknir á Bráðamóttöku Landspítala háskólasjúkrahúsi Fossvogi, staðfesti að hafa ritað framlagt læknisvottorð varðandi brotaþola en tók fram að hann hafi ekki verið við störf þegar brotaþoli kom inn á deildina. Jafnframt staðfesti vitnið að ljósmyndir sem fylgdu vottorðinu hafi verið teknar af áverkum brotaþola umrædda nótt. Vitnið kvaðst ekki geta tjáð sig um tilurð áverka á brotaþola þar sem hann hafi ekki skoðað hann. Með vísan til greiningar í vottorðinu kom fram hjá vitninu að um hafi verið að ræða grófa líkamsárása með miklu ofbeldi. Í slíkum tilfellum geti skipt máli hvar högg lendi. Í þessu máli hafi tölvusneiðmynd sýnt fram á sjúklingur hafi ekki verið í bráðri lífshættu.
Vitnið J, lögreglumaður, kvaðst hafa sinnt útkalli í máli þessu. Við komu á vettvang hafi brotaþoli, sem legið hafi alblóðugur og með skerta meðvitund á maganum á gólfinu, blasað við þeim þegar inn kom. Ákærði hafi þá setið á rúmi sem þar hafi verið. Þeir hafi hlúð að brotaþola og tryggt vettvang. Ákærði hafi greint frá því að hann myndi lítið eftir atvikum. Hins vegar hafi hann sagt að hann teldi sig hafa slegið brotaþola með kíki af byssu og hafi slíkt áhald legið skammt frá brotaþola. Á gólfinu hafi verið spýtnabrot eða flísar og þeir fundið byssu, brotna í tvennt, undir púðum í sófa. Auk ákærða og brotaþola hafi C, kona brotaþola, verið á vettvangi. Hafi konan verið greinilega ölvuð og í sjokki. Aðspurður kvaðst vitnið ekki muna hvort hann hafi orðið var við fólk úr nærliggjandi sumarhúsum, en engir aðrir hafi komið á vettvang.
Ákærði hafi borið þess merki að hafa neytt áfengis, en þó ekki verið ofurölvi. Hann hafi svarað spurningum þeirra, verið mjög rólegur en frekar „sjokkeraður“, en viðurkennt að hafa lent í átökum. Vitnið kvaðst hvorki muna eftir því hvort blætt hafi úr ákærða né hvort hann hafi verið með einhverja áverka. Vitnið var sérstaklega spurður um eftirfarandi texta í frumskýrslu sem vitnið ritaði. „X hafði samband við neyðarlínuna og tjáði þeim að hann væri staðsettur í sumarhúsi sínu í [...], hafði hann lent í áflogum við gestkomandi hjá sér, lægi sá í gólfinu meðvitundarlaus og blæddi mjög úr höfði hans. X kvaðst halda að hann hefði drepið viðkomandi.“ Vitnið kvaðst hafa fengið tilgreindar upplýsingar frá neyðarlínunni. Hins vegar minnti vitnið að ákærði hafi á vettvangi sagst hafi drepið brotaþola. Vitnið staðfesti frumskýrslu sína.
Vitnið I, lögreglumaður, lýsti afskiptum sínum af málinu með líkum hætti og vitnið J en upplýsti að hún myndi ekki vel eftir atvikum. Vitnið kvað ákærða hafa verið mjög ölvaðan en mundi ekki hvort hann hafi rætt við þau. Framburður vitnisins varðandi byssuna var í öllum megin atriðum með sama hætti og hjá vitninu J. Vitnið kvaðst ekki hafa orðið vör við mannaferðir í nærliggjandi sumarhúsum og ekki muna hvort blóð hafi verið á ákærða.
Vitnið D, rannsóknarlögreglumaður, kvaðst hafa stýrt rannsókn málsins og komið á vettvang eftir að brotaþoli hafði verið fluttur af vettvangi í sjúkrabifreið. Ákærði hafi hins vegar verið á vettvangi, tveir lögreglumenn og sambýliskona brotaþola. Vitnið kvaðst hafa tekið ljósmyndir af vettvangi, m.a. af riffli sem hafi verið brotinn í tvennt. Þá hafi kíkir eða sjónauki af rifflinum legið á gólfinu sem og glerhlífar tilheyrandi sjónaukanum. Vitnið kvaðst einnig hafa tekið myndir af brotaþola eftir skýrslutöku 11. júní 2012. Aðspurður hvort ummerki hafi verið á vettvangi um átök kvað vitnið svo ekki hafa verið að því undanskildu að blóð hafi verið á gólfi. Vitnið kvað það hafa legið fyrir þegar hann kom á vettvang að ákærði og brotaþoli hafi verið einir í húsinu að því undanskildu að áðurnefnd C hafi komið þangað. Vitnið kvaðst ekki hafa orðið var við annað fólk í nágrenninu en það hafi ekki hafi verið kannað sérstaklega. Vitnið kvaðst ekki hafa orðið var við að dvalið hafi verið í nærliggjandi sumarhúsum.
Aðspurður um ástand ákærða á vettvangi kvað vitnið ákærða hafa sagt fátt og virst beygður. Hann hafi hins vegar greint frá því að hann væri ekki viss um hvað gerst hafi en þó sagst hafa haldið á riffli. Ákærði hafi virst talsvert ölvaður en að mati vitnisins hafi ekki svo verið miðað við niðurstöðu áfengismagns í blóði ákærða. Sérstaklega aðspurður kvaðst vitnið hafa skoðað það sérstaklega hvort áverkar hafi verið sýnilegir á ákærða, s.s. á höndum, en svo hafi ekki verið. Þá hafi blóð ekki verið sýnilegt á fötum ákærða. Aðspurður um það sem fram kemur í framburði ákærða síðar sama dag að hann væri bólginn á hægri hendi kvaðst vitnið ekki muna hvort svo hafi verið.
Vitnið staðfesti að það hafi verið blóð á riffilskeftinu við brotið, ólinni, sjónaukanum, hlífunum og á mjög takmörkuðu svæði á gólfinu. Vitnið kvaðst ekki minnast þess að hafa orðið var við flísar úr byssunni á gólfinu. Varðandi tímasetningar kvaðst vitnið hafa stuðst við upplýsingar úr síma sambýliskonu brotaþola til að átta sig á ferðum hennar í sumarhús ákærða. Vitnið taldi að C hafi farið í fyrri ferðina á tímabilinu 00:29 og 00:53. Vitnið gat ekki tjáð sig um hvað langur tími hafi liðið frá því ætluðum átökum hafi lokið þar til haft hafi verið samband við neyðarlínu. Þá hafi hann ekki kannað það sérstaklega hvað fyrsta símtal við neyðarlínu hafi staðið lengi yfir.
Vitnið B, aðalvarðstjóri á fjarskiptamiðstöð ríkislögreglustjóra, staðfesti að hafa tekið á móti símtali úr símanúmeri ákærða klukkan 02:26 umrædda nótt. Vitnið kvaðst ekkert muna eftir málinu en hafa kynnt sér skráningu þess í kerfi lögreglunnar. Kvaðst hann yfirleitt skrá upplýsingar um símtöl í beinu framhaldi af símtali. Þar sem öll símtöl sé tekin upp sé megin tilgangur skráningar að ljóst sé um hvað mál snúist og ástæður þess að starfsmaður kalli til lögreglu. Aðspurður um lengd umrædds símtals benti vitnið á að annað kerfi varðveiti rafrænar upplýsingar um lengd símtala.
Vitnið E, tannlæknir og sérfræðingur í munn- og kjálkaskurðlækningum, staðfesti framlagt vottorð um brotaþola og þá áverka sem þar er lýst. Um hafi verið að ræða tvíbrotinn neðri kjálka sem nauðsynlegt hafi verið að meðhöndla í aðgerð. Vitnið staðfesti að væntanlega sé doðatilfinning sú sem brotaþoli hafi fengið tilkomin vegna áverka á taug og komin til að vera, fyrst doðinn hafi ekki gengið til baka fyrstu sex mánuði eftir atburðinn. Aðspurt kvað vitnið ástæðu brotsins væntanlega hafa verið afleiðingar höggs vinstra megin á kjálka, t.d. í kjölfar hnefahöggs eða að beitt hafi verið áhaldi. Fram kom hjá vitninu að nokkuð mikið þurfi til að brjóta neðri kjálka í heilbrigðum einstaklingi og því hafi þurft að beita nokkuð miklu afli í tilviki brotaþola. Vitnið kvaðst ekki hafa séð brotaþola við komu á sjúkrahús og því ekki geta tjáð sig nánar um ástand hans þá.
Vitnið K, lyflæknir og fyrrverandi læknir á bráðamóttöku Landspítala í Fossvogi, gaf skýrslu fyrir dómi. Við skýrslugjöfina hafði vitnið undir höndum læknisvottorð F, ljósmyndir teknar af brotaþola við komu á bráðamóttöku, ljósmyndir teknar af brotaþola eftir yfirheyrslu hjá lögreglu þann 11. júní 2012 og ljósmyndir af riffli, sjónauka og hlífðargleri sjónaukans. Vitnið kvaðst ekki muna hvort hann hafi skoðað brotaþola umrædda nótt en af gögnum sjúkrahússins sé ljóst að deildarlæknir, sem hafi skoðað brotaþola, hafi spurt vitnið álits og vitnið væntanlega skoðað brotaþola lauslega. Þá staðfesti vitnið að hafa farið yfir og samþykkt þær upplýsingar sem skráðar hafi verið um ástand brotaþola meðan hann dvaldi á sjúkrahúsinu.
Vitnið var innt eftir því hvort áverkar á brotaþola gætu samræmst því að hann hafi orðið fyrir höggum með riffli og eða riffilsjónauka. Vitnið kvað myndir sýna hálfhringlaga áverka á kinn brotaþola og taldi vitnið þann áverka vel geta samrýmst því að vera eftir enda riffilsjónaukans á myndum lögreglu sem sé hringlaga. Um aðra áverka í andliti brotaþola sé hins vegar erfitt að segja til um. Þeir séu allir vinstra megin á andliti sem bendi til þess að rétthentur maður hafi veitt þá. Sama eigi við um brot á kjálka. Skurðir á enni og kinn geti verið eftir ávalt áhald eða krepptan hnefa því við slík högg geti sprungið fyrir á húð eftir lengdarás bareflis. Sama gildi um skurð á eyra. Til að valda slíkum áverkum þurfi ekki bitvopn. Þá sé langur skurður á enni og stjörnulagaður skurður þar fyrir neðan væntanlega eftir barefli en ekki eggvopn enda geti húð sprungið með sama hætti og þarna hafi orðið eftir hnefahögg. Þá bendi mikið mar þar í kring til þess að um hafi verið að ræða höggáverka. Aðspurður um hringlaga áverka á búk, sbr. myndir teknar af brotaþola á lögreglustöð 11. júní 2012, kvað vitnið þann áverka óskýrari og erfitt að segja til um eftir hvað hann sé. Aðspurður hvort um hafi verið að ræða eitt eða mörg högg kvað vitnið ljóst að um hafi verið að ræða mörg högg, enda margir áverkar á andliti og á efri hluta líkamans. Þá sjáist netform, eða munstur, á baki brotaþola sem bendi til þess að brotaþoli hafi verið í fötum þegar högg hafi lent á honum. Aðspurður um alvarleika áverkanna kvað vitnið kjálkabrotið vera alvarlegasta áverkann og hafa kallað á aðgerð. Hins vegar þurfi ekki mikið afl til að valda slíkum áverka, sæmilegt kjaftshögg dugi. Brotaþoli hafi hvorki fengið innri áverka eða blæðingu á heila né kvið- eða brjóstholi, þannig að aðrir áverkar hafi verið á yfirborði líkamans. Brotaþoli hafi verið hart leikinn en ekki í lífshættu. Af útliti brotaþola við komu, þ.e.a.s. fjölda áverka, hafi fyrirfram mátt búast við hinu versta og þess vegna hafi hann verið í nokkra klukkustundir undir eftirliti. Vitnið staðfesti að vegna ytra útlits brotaþola og þeirra óvissu aðstæðna sem brotaþoli hafi komið úr hafi verið teknar sneiðmyndir af höfði, brjóstholi og kvið. Sérstaklega aðspurður kvaðst vitnið telja ólíklegt að brotaþoli hafi sjálfur valdið sér umræddum áverkum, alla vega geti það ekki átt við um áverka á baki. Þegar sjálfsáverkar eigi í hlut sé ekki algengt að um fjölda áverka sé að ræða, sérstaklega ekki áverka eins og þann sem hafi verið á eyra brotaþola og vinstra megin á höfði, jafnvel þótt brotaþoli hafi beitt hægri hendi. Slíkt væri hægt að gera með áhaldi, eitt eða tvö skipti, en ekki mörgum sinnum. Vitnið kvað áverka á efri hluta líkamans benda til þess að spörkum hafi ekki verið beitt en þau lendi yfirleitt á neðri hluta líkamans. Hvort fall innan húss hafi valið umræddum áverkum, kvað vitnið það ólíklegt enda um að ræða áverka bæði á baki og andliti, en vitnið kvaðst þó ekki geta tjáð sig um það nánar, slíkt myndi rannsókn á vettvangi líklega leiða í ljós. Aðspurður hvort áverkar hafi verið á brotaþola sem rekja megi til þess að hann hafi verið að verja sig. Vitnið staðfesti það sem fram kemur í vottorðinu um áverka sem taldir hafi verið varnaráverkar, en tók fram að erfitt sé um það að segja þar sem langt sé um liðið og engar myndir sýni slíkt. Vitnið staðfesti að vottorð F sé í samræmi við gögn málsins hjá sjúkrahúsinu.
Niðurstaða.
Ákærði, sem gefið er að sök sérstaklega hættuleg líkamsárás, hefur borið við minnisleysi. Hann kvaðst þó muna eftir að brotaþoli, sem er nágranni hans, hafi komið í heimsókn til hans í sumarhúsið að [...] í umrætt sinn, en þeir hafi hist nokkrum sinnum áður. Ákærði mundi eftir að hafa farið í sjómann við brotaþola og fær það stoð í framburði brotaþola og sambýliskonu hans, vitnisins C, en ákærði gat ekki borið um hvernig þeirri viðureign hafi lokið. Brotaþoli kvað erindið í sumarhús ákærða hafa verið að koma hundi ákærða til síns heima. Ákærði hafi boðið honum inn, vel hafi farið á með þeim og ákærði boðið honum upp á vín. Brotaþoli gat hins vegar hvorki greint frá tilefni þess að hann og ákærði fóru í sjómann né hvernig þeirri viðeign lauk. Ekkert hefur kom fram í málinu um að ákærði og brotaþoli hafi átt í deilum eða ágreiningi fyrir þennan atburð, en u.þ.b. 200 metra eru milli sumarhúsa þeirra. Bæði ákærða og brotaþola ber saman um það, svo langt sem minni þeirra nær, að þeir hafi verið einir í sumarhúsinu umrætt sinn, að því undanskildu að brotaþoli kannast við að vitnið C hafi komið þangað eftir að brotaþoli hafði dvalið þar nokkra stund, en hún stoppaði stutt við. Vitnið C bar fyrir dómi að á þeim tíma hafi ákærði og brotaþoli rætt um tækni við sjómann og fært sig úr sófa að borðstofuborði og vel hafi farið á með þeim. Af upplýsingum sem liggja frammi um símanotkun vitnisins C má gera ráð fyrir að tæp ein og hálf klukkustund hafi liðið frá því hún yfirgaf sumarhús ákærða þar til hún kom þangað aftur og fann brotaþola slasaðan. Vitnið C og lögreglumennirnir og vitnin J og I, sem komu fyrst á vettvang, eða 24 mínútum eftir að neyðarlínu barst tilkynning um atburðinn, kváðust ekki hafa orðið vör við mannaferðir við sumarhús ákærða. D rannsóknarlögreglumaður, sem stýrði rannsókn málsins, og kom á vettvang eftir að brotaþoli hafði verið fluttur með sjúkrabifreið á bráðamóttöku, en áður en ákærði var fluttur af vettvangi, upplýsti fyrir dómi að fljótlega hafi legið fyrir að ákærði og brotaþoli hafi verið einir í húsinu að því undanskildu að vitnið C hafi komið þar við. Vitnið kvað mannaferðir í nágrenninu ekki hafa verið kannaðar sérstaklega.
Ákærði og brotaþoli lýstu því báðir hjá lögreglu og fyrir dómi að minnisleysi þeirra á atburði umræddrar nætur hafi stafað af áfengisneyslu og báðir greindu þeir frá því að hafa áður misst minnið eftir neyslu áfengis. Vitnið C, sem upplýsti að hafa neytt áfengis umrædda nótt, kvað ákærða og brotaþola ekki hafa verið dauðadrukkna þegar hún kom í sumarhúsið um það leyti sem þeir voru að fara í sjómann. Samkvæmt niðurstöðum Rannsóknarstofu í lyfja- og eiturefnafræði reyndist alkóhólmagn í blóði ákærða klukkan 04:36, eða tæpum tveimur tímum eftir að neyðarlínu var tilkynnt um atburðinn, hafa verið 1,60. Vitnið og lögreglumaðurinn J kvað greinilegt að ákærði hafi verið búinn að drekka, en hann hafi ekki verið ofurölvi og svarað spurningum stuttlega. Vitnið og lögreglumaðurinn I lýsti ákærða sem mjög ölvuðum og vitnið og rannsóknarlögreglumaðurinn D kvað ákærða hafa verið talsvert ölvaðan, greinagóðan en fámálan. Að framansögðu virtu eru ekki forsendur til að draga framburð ákærða um minnisleysi um atvik máls í efa. Samkvæmt niðurstöðum Rannsóknarstofu í lyfja- og eiturefnafræði reyndist alkóhólmagn í blóði brotaþola klukkan 04:15, eða tæpum tveimur tímum eftir að neyðarlínu barst tilkynning um atburðinn, hafa verið 2,35. Í ljósi framangreindrar niðurstöðu og ástands brotaþola að öðru leyti eru ekki forsendur til að draga framburð brotaþola um minnisleysi í efa.
Fyrir liggur að vitnið D kom á vettvang eftir að brotaþoli hafði verið fluttur á sjúkrahús. Á ljósmyndum sem vitnið tók af vettvangi innan húss, hinum brotna riffli, riffilsjónauka og hlífðarglerjum af sjónaukanum, má sjá blóð á gólfi við borðstofuborð, á byssuskefti, á festingu fyrir ól á byssuskeftinu, á festingu sjónaukans og á glerhlífum riffilssjónaukans. Samkvæmt framburði ákærða fyrir dómi hafði hann, nokkrum dögum fyrir umræddan atburð, hreinsað umræddan riffil. Hafi riffillinn, sem staðið hafi í horni við borðstofuborðið, verið heill, hreinn og með áfestum sjónauka. Engin rannsókn var gerð á umræddum blóðblettum. Vitnið D bar fyrir dómi að ekki hafi verið hægt að merkja að stórkostleg átök hafi átt sér stað í sumarhúsinu, að undanskildum framangreindum munum og blóði á afmörkuðu svæði á gólfinu við borðstofuborðið. Enga áverka hafi verið að sjá á ákærða en vitnið kvaðst hafa athugað sérstaklega hvort um slíkt væri að ræða á höndum ákærða og bar vitnið að blóð hafi ekki verið merkjanlegt á ákærða eða fötum hans. Frekari rannsókn fór hins vegar ekki fram.
Hinni meintu líkamsárás er þannig lýst í ákæru að ákærði hafi veist að brotaþola með ofbeldi og slegið ítrekað í höfuð hans og líkama, m.a. með riffli og eða riffilsjónauka, með þeim afleiðingum sem nánar greinir í ákæru.
Í málavaxtalýsingu er ítarlega gerð grein fyrir upplýsingum sem koma fram í svokallaðri dagbók lögreglu lengri og rafrænni skráningu símtala umrædda nótt milli neyðarlínu og fjarskiptamiðstöðvar ríkislögreglustjóra, sem tók við málinu, við símanúmer ákærða, sem og við viðbragðsaðilann, lögregluna á Selfossi. Um er að ræða upplýsingar um símhringingar, símtöl, lengd símtala og bókanir starfsmanns. Samkvæmt þeim gögnum liggur fyrir að klukkan 02:23:03 bókaði SGG-8738 að maður að nafni X hafi hringt í neyðarlínu. Upplýst var fyrir dómi að um var að ræða starfsmann fjarskiptamiðstöðvar ríkislögreglustjóra, vitnið B aðalvarðstjóra, sem tók við símtalinu klukkan 02:25:36. Umrætt símtal stóð yfir í 5 mínútur og 59 sekúndur, eða allt þar til sambandið slitnaði klukkan 02:31:35 eftir að heyrðist í konu í bakgrunni, eins og segir í bókun vitnisins. Vitnið C lýsti því fyrir dómi að hafa komið að brotaþola liggjandi á gólfinu í blóði sínu, reynt að vekja hann og síðan beðið ákærða um síma, sem hann hafi afhent henni, og hún þá hringt í neyðarlínuna. Samkvæmt gögnum lögreglu svaraði vitnið C símtali B klukkan 02:41:02 en í millitíðinni reyndi B ítrekað að ná sambandi við símanúmer ákærða. Vitnið B mundi ekki eftir framangreindum símtölum þegar hann gaf skýrslu fyrir dómi, en lýsti verklagi í máli sem þessu og kvaðst strax í kjölfar símtala skrá niður það sem fram komi hjá tilkynnanda til upplýsinga fyrir viðbragðsaðila. Þá staðfesti vitnið að hafa skráð þær upplýsingar sem raktar eru í málavaxtalýsingu hér að framan, m.a. þá frásögn umrædds X að hann sé miður sín því hann hafi barið mann sem liggi á gólfinu og blæði úr. Þrátt fyrir að það hafi legið fyrir strax að lokinni skýrslutöku lögreglu af brotaþola þremur dögum eftir umræddan atburð, að hvorki ákærði né brotaþoli gátu greint af eigin raun frá atvikum eftir að vitnið C yfirgaf sumarhús ákærða eftir fyrri ferð sína þangað, aflaði lögregla ekki hljóðupptöku af áðurgreindum símtölum úr símanúmeri ákærða. Þá verður ekki fram hjá því litið að þrátt fyrir að rúmar 10 mínútur liðu frá því framangreindu símtalinu lauk þar til vitnið C svaraði símtali vitnisins B aðalvarðstjóra, beinist rannsókn málsins hvorki að því að upplýsa hvað hafi valdið látum og köllum fyrir utan sumarhús ákærða né í hvaða konu hafi hreyst í bakgrunni rétt áður en samband slitnaði við símanúmer ákærða, en umræddar upplýsingar koma fram í dagbók lögreglu lengri.
Ákærði kvaðst, bæði hjá lögreglu og fyrir dómi, muna eftir að hafa fundið fyrir hræðslutilfinningu en gat ekki gert grein fyrir tilefni hennar eða á hvaða tímapunkti sú tilfinning hafi gripið hann og ekki muna hvort brotaþoli hafi ógnað honum. Þá kvaðst ákærði muna óljóst eftir, á þeim tímapunkti þegar hann hafi verið gripinn hræðslutilfinningu og fundist að hann þyrfti að verja sig, að hafa tekið um báða enda sjónaukans í þeim tilgangi að brjóta sjónaukann af rifflinum. Nánar aðspurður bar ákærði við minnisleysi og tók fram að allt væri þetta óljóst. Ákærði kannaðist við að hafa, í skýrslutöku hjá lögreglu daginn eftir atburðinn, sagt að eitthvert stundarbrjálæði hafi heltekið hann. Aðspurður fyrir dómi hvað hann hafi átt við með því, svaraði ákærði því til að þar sem líkur væru fyrir því að hann hafi verið valdur að umræddum verknaði, þó svo hann muni það ekki, hljóti eitthvað slíkt að hafa orðið þess valdandi að atburðurinn átti sér stað. Framangreindur framburður ákærða, sem hefur hvorki neitað né játað að hafa framið áðurgreindan verknaðinn, er mjög óljós þó svo hann hafi greint frá tilteknum minningabrotum eða glefsum sem tengjast því að hann hafi handfjatlað sjónauka þann sem vitnið K læknir taldi að hafi valdið hálfhringlaga áverka á kinn brotaþola. Eins og áður er rakið hefur brotaþoli ekki borið um það af eigin raun hver hafi ráðist að honum og enginn annar er til frásagnar um það sem fram fór í sumarhúsinu, en samkvæmt rannsóknargögnum og framburði lögreglumanna, sem komu á vettvang, voru mannaferðir í nágrenni sumarhússins ekki kannaðar sérstaklega, en umrætt sumarhús er staðsett í sumarhúsahverfi. Þá kom ekkert fram við vettvangsrannsókn eða rannsókn á ákærða eða fötum hans sem tengir hann við ákæruatriði.
Þegar allt framangreint er virt og þau sönnunargögn sem færð voru fram við meðferð málsins fyrir dómi, hefur ákæruvaldið að mati dómsins ekki axlað þá sönnunarbyrði sem á því hvílir samkvæmt 108. gr. laga nr. 88/2008 um meðferð sakamála. Með vísan til þess er ekki unnt að fallast á það með ákæruvaldinu að lögfull sönnun hafi verið færð fram í málinu um að ákærði hafi framið það afbrot sem hann er sakaður um, sbr. 1. mgr. 109. gr. áðurnefndra laga, og verður ákærði því sýknaður af öllum kröfum ákæruvaldsins í máli þessu.
Með vísan til framangreindrar niðurstöðu ber að vísa einkaréttarkröfu A frá dómi, sbr. 2. mgr. 176. gr. laga nr. 88/2008.
Með vísan til niðurstöðu málsins, sbr. 2. mgr. 218. gr. laga um meðferð sakamála nr. 88/2008, verður allur sakarkostnaður í máli þessu felldur á ríkissjóð, þ.e. útlagður sakarkostnaður vegna læknisvottorðs samkvæmt yfirliti, 28.900 krónur, 3.138 krónur vegna vinnu verjanda á rannsóknarstigi og 317.000 króna málsvarnarlaun verjanda ákærða, Jónínu Guðmundsdóttur, hdl., að meðtöldum virðisaukaskatti, vegna starfa verjanda á rannsóknarstigi og fyrir dómi. Með vísan til 3. mgr. 176. gr. laga nr. 80/2008, greiðist einnig úr ríkissjóði þóknun vegna vinnu réttargæslumanns brotaþola á rannsóknarstigi og fyrir dómi, Sigurðar Sigurjónssonar hrl., 517.000 krónur að meðtöldum virðisaukaskatti.
Grímur Hergeirsson, fulltrúi lögreglustjórans á Selfossi, flutti málið af hálfu ákæruvaldsins.
Ragnheiður Thorlacius héraðsdómari kveður upp dóm þennan.
D ó m s o r ð
Ákærði, X, er sýkn af öllum kröfum ákæruvaldsins.
Einkaréttarkröfu A er vísað frá dómi.
Allur sakarkostnaður greiðist úr ríkissjóði, þar með talin málsvarnarlaun skipaðs verjanda ákærða, Jónínu Guðmundsdóttur hdl., 317.000 krónur að meðtöldum virðisaukaskatti og þóknun skipaðs réttargæslumanns brotaþola, Sigurðar Sigurjónssonar hrl., 517.000 krónur að meðtöldum virðisaukaskatti.