Hæstiréttur íslands

Mál nr. 821/2017

Lögreglustjórinn á höfuðborgarsvæðinu (Guðmundur Þórir Steinþórsson aðstoðarsaksóknari)
gegn
X (Snorri Sturluson hdl.)

Lykilorð

  • Kærumál
  • Reynslulausn
  • Skilorðsrof
  • Fullnusta refsingar

Reifun

Staðfestur var úrskurður héraðsdóms um að X skyldi gert að afplána eftirstöðvar fangelsisrefsingar.

Dómur Hæstaréttar.

Mál þetta dæma hæstaréttardómararnir Helgi I. Jónsson, Benedikt Bogason og Ólafur Börkur Þorvaldsson.

Varnaraðili skaut málinu til Hæstaréttar með kæru 21. desember 2017, sem barst réttinum ásamt kærumálsgögnum degi síðar. Kærður er úrskurður Héraðsdóms Reykjavíkur 21. desember 2017, þar sem varnaraðila var gert að afplána 270 daga eftirstöðvar fangelsisrefsingar samkvæmt dómum Héraðsdóms Reykjavíkur [...] nóvember 2015 og „[...] mars 2015“, en hann var látinn laus til reynslu með ákvörðun Fangelsismálastofnunar ríkisins 6. febrúar 2017. Kæruheimild er í 2. mgr. 82. gr. laga nr. 15/2016 um fullnustu refsinga. Varnaraðili krefst þess að hinn kærði úrskurður verði felldur úr gildi

Sóknaraðili krefst staðfestingar hins kærða úrskurðar.

Samkvæmt skýrslu lögreglu 21. desember 2017 barst henni klukkan 7.48 sama dag tilkynning um mann sem væri að reyna að brjótast inn í bifreið við [...] í Reykjavík. Er lögregla kom á vettvang var varnaraðila, sem var mjög æstur, haldið niðri af mönnum sem voru að vinna við nýbyggingu í götunni. Sá sem tilkynnti lögreglu um atburðinn skýrði svo frá að hann hafi séð varnaraðila vera að „gramsa í bifreið.“ Eigandi bifreiðarinnar, sem lögregla ræddi við á vettvangi, sagði að hún hafi verið ólæst, þar sem samlæsing hafi verið biluð, farið hafi verið inn í hana, en engu stolið. Þá hafi afturhleri bifreiðarinnar verið opinn. Samkvæmt þessu er varnaraðili undir sterkum grun um brot gegn 244. gr., sbr. 1. mgr. 20. gr., almennra hegningarlaga nr. 19/1940, sem varðar allt að sex ára fangelsi. Er þannig fullnægt skilyrðum 2. mgr. 82. gr. laga nr. 15/2016 til þess að varnaraðila verði gert að afplána 270 daga eftirstöðvar refsingar samkvæmt dómum Héraðsdóms Reykjavíkur [...] nóvember 2015 og [...] desember 2016, sem honum var veitt reynslulausn á með ákvörðun Fangelsismálastofnunar ríkisins 6.  febrúar 2017. Verður hinn kærði úrskurður því staðfestur á þann hátt sem í dómsorði greinir.

Dómsorð:

Varnaraðili, X, skal afplána eftirstöðvar 270 daga refsingar samkvæmt dómum Héraðsdóms Reykjavíkur [...] nóvember 2015 og [...] desember 2016, sem honum var veitt reynslulausn á með ákvörðun Fangelsismálastofnunar ríkisins 6. febrúar 2017.

 

 

Úrskurður Héraðsdóms Reykjavíkur fimmtudaginn 21. Desember

Lögreglustjórinn á höfuðborgarsvæðinu hefur krafist þess að Héraðsdómur Reykjavíkur úrskurði að X, kt. [...], verði á grundvelli 2. mgr. 82. gr. laga um fullnustu refsinga gert að sæta afplánun á 270 daga eftirstöðvar refsingar samkvæmt dómum Héraðsdóms Reykjavíkur frá [...] nóvember 2015 og [...]. mars 2015, sem honum var veitt reynslulausn á með ákvörðun Fangelsismálastofnunar þann 6. febrúar 2017.

Í greinargerð sækjanda kemur fram að kærði liggi undir sterkum grun um að hafa í morgun brotist inn í bifreiðar að [...] í Reykjavík og stolið þaðan ýmsum munum, en einn eigandi bifreiðanna hafi komið að kærða inni í bifreið hans og haldið honum í tökum er lögregla hafi komið á vettvang.

Að mati lögreglu hafi kærði með þessu rofið gróflega almennt skilyrði reynslulausnarinnar enda liggi fyrir sterkur grunur um að hann hafi gerst sekur um brot sem geti varðað allt að 6 ára fangelsi, sbr. 244. gr. almennra hegningarlaga nr. 19/1940. Kærða hafi verið veitt reynslulausn þann 6. febrúar sl. á 270 daga eftirstöðvum refsingar samkvæmt ofangreindum dómum Héraðsdóms.

Kærði sé undir sterkum grun um brot gegn 244. gr. almennra hegningarlaga nr. 19/1940. Með vísan til framanritaðs, framlagðra gagna og loks með vísan til 2. mgr. 82. gr. laga nr. 15/2016 um fullnustu refsinga, er þess farið á leit að krafan verði tekin til greina eins og hún sé sett fram. 

                Niðurstaða

                Fyrir liggur að kærði fékk reynslulausn með ákvörðun Fangelsisstofnunar 6. febrúar 2017 á 270 daga eftirstöðvum refsingar sem honum var gerð með dómum Héraðsdóms Reykjavíkur frá [...]. mars 2015 og [...] nóvember 2015. Reynslutími var ákveðinn tvö ár. Það er almennt skilyrði reynslulausnar að maður gerist ekki sekur um nýtt brot á reynslutíma. Samkvæmt 2. mgr. 82. gr. laga nr. 15/2016, um fullnustu refsinga, getur dómstóll úrskurðað að kröfu ákæranda að maður, sem hlotið hefur reynslulausn, skuli afplána eftirstöðvar refsingar ef hann á reynslutíma rýfur gróflega almennt skilyrði reynslulausnar, enda liggi fyrir sterkur grunur um að viðkomandi hafi framið brotið, sem varðað geti allt að sex ára fangelsi eða að brotið varði við 1. mgr. 218. gr. almennra hegningarlaga. 

                Af rannsóknargögnum verður ráðið að snemma í morgun hafi verið tilkynnt um að maður væri að reyna að brjótast inn í bifreið við [...]í Reykjavík. Á vettvangi var kærði sem var í annarlegu ástandi og mjög æstur og lá hnífur í jörðinni við hlið hans. Tilkynnandi kvaðst hafa séð kærða „gramsa“ í bifreið. Þegar lögregla kom á vettvang var kærði með bakpoka meðferðis sem í voru ýmsir munir, m.a. kveikjuláslyklar að bifreið sem kærði gat ekki gert grein fyrir. Að þessu gættu og með vísan til þess sem að framan er rakið og rannsóknargagna málsins verður fallist á að varnaraðili sé undir sterkum grun um að hafa í morgun gerst sekur um þjófnað samkvæmt 244. gr. almennra hegningarlaga nr. 19/1940. Slíkt brot varðar allt að sex ára fangelsi. Dómurinn telur að fallast verði á það með lögreglustjóra að kærði hafi með þessari háttsemi sinni rofið gróflega almennt skilyrði reynslulausnar í skilningi 2. mgr. 82. gr. laga nr. 15/2016. Verður því fallist á kröfu lögreglustjórans á höfuðborgarsvæðinu svo sem nánar greinir í úrskurðarorði.

Arnfríður Einarsdóttir héraðsdómari kveður upp þennan úrskurð.

Ú R S K U R Ð A R O R Ð :

Kærða, X, kt. [...], er gert að sæta afplánun á 270 daga eftirstöðvum refsingar samkvæmt dómum Héraðsdóms Reykjavíkur frá [...] nóvember 2015 og [...]. mars 2015, sem honum var veitt reynslulausn á með ákvörðun Fangelsismálastofnunar þann 6. febrúar 2017.