Hæstiréttur íslands

Mál nr. 296/2000


Lykilorð

  • Ávana- og fíkniefni


Fimmtudaginn 23

 

Fimmtudaginn 23. nóvember 2000.

Nr. 296/2000.

Ákæruvaldið

(Ragnheiður Harðardóttir saksóknari)

gegn

Ólafi Má Sævarssyni

(Brynjar Níelsson hrl.)

                                                   

Ávana- og fíkniefni.

Ó var ákærður fyrir fíkniefnalagabrot með því að hafa ásamt fleirum í hagnaðarskyni staðið að  innflutningi 630 g af kókaíni sem ætlað var til sölu hérlendis. Var Ó ákærður fyrir skipulagningu innflutningsins og fjármögnun á kaupunum og að hafa keypt  fíkniefnin erlendis og komið þeim til aðila, sem flutti þau til Íslands. Var staðfest niðurstaða héraðsdóms um að eftir framkomnum gögnum og framburði vitna og sakborninga í málinu þætti brot Ó sannað og var hann dæmdur til þriggja ára fangelsisrefsingar. 

 

Dómur Hæstaréttar.

Mál þetta dæma hæstaréttardómararnir Guðrún Erlendsdóttir, Haraldur Henrysson, Hjörtur Torfason, Hrafn Bragason og Pétur Kr. Hafstein.

Málinu var skotið til Hæstaréttar 12. júlí 2000 að ósk ákærða, sem var annar dómfelldra í héraði. Ákæruvaldið krefst staðfestingar á sakfellingu héraðsdóms en þyngingar á refsingu.

Ákærði krefst aðallega sýknu en til vara vægustu refsingar, sem lög leyfi.

Með ákæruskjali ríkissaksóknara 27. janúar 2000 var höfðað opinbert mál á hendur þremur mönnum vegna þeirra sakargifta, sem um er fjallað í málinu. Í þinghaldi 23. maí var bókað, að ekki hafi tekist að birta ákæru fyrir einum þeirra og væri þáttur hans skilinn frá málinu, sbr. 24. gr. laga nr. 19/1991 um meðferð opinberra mála. Ekki er hins vegar fram komið, að fallið hafi verið frá ákæru á hendur honum. Fyrir liggja lögregluskýrslur, sem teknar voru af þessum ákærða, en ekki reynir á sönnunargildi þeirra við úrlausn málsins.

Málavöxtum og framburði sakborninga og vitna er skilmerkilega lýst í héraðsdómi.

Í niðurstöðukafla héraðsdóms um sönnunarmat kemur meðal annars fram, að ákærði Ólafur hafi í ferð sinni til Bandaríkjanna í desember 1998 lagt á sig þann krók að fara til Mexíkó í því skyni að koma á sambandi annars meðákærða við fíkniefnasala þar í landi, þar sem það hafi ekki kostað mikið aukalega og hann hafi viljað gera hinum meðákærða, sem þessa bað, þennan greiða. Við yfirheyrslu hjá lögreglu hafði ákærði Ólafur lýst því, að hann hefði haft væntingar um það, að þessi maður myndi í kjölfar þeirra fíkniefnaviðskipta, sem þarna hefði verið stefnt að, greiða sér skuldir, er stofnast hefðu vegna aðstoðar sinnar við að ná honum úr fangelsi í Mexíkó nokkru áður. Segja má, að ákærði Ólafur hafi efnislega staðfest þessa frásögn fyrir dómi.

Í héraðsdómi segir jafnframt, að framburður Ingvars Jónssonar renni einnig stoðum undir þá fullyrðingu ákæruvaldsins, að ákærði Ólafur hafi fjármagnað hin umræddu fíkniefnakaup, en hann hafi sagt, að nafn ákærða hafi borið á góma, þegar annar meðákærðu hafi rætt fjármögnun þeirra við sig. Ingvar bar á þennan veg hjá lögreglu, en framburður hans um þetta var ekki jafn afdráttarlaus fyrir dómi, þótt hann hafi þar staðfest lögregluskýrsluna.

Hvorugt þessara atriða haggar meginniðurstöðu héraðsdóms um sakarmat, sem verður staðfest með skírskotun til forsendna dómsins að öðru leyti. Þá verður jafnframt fallist á refsiákvörðun héraðsdóms og forsendur hennar. Loks verður ákvörðun héraðsdóms um sakarkostnað staðfest, en upptökukrafa ákæruvaldsins er ekki til endurskoðunar hér fyrir dómi.

Ákærði skal greiða allan áfrýjunarkostnað sakarinnar, eins og nánar greinir í dómsorði.

Dómsorð:

                   Ákærði, Ólafur Már Sævarsson, sæti fangelsi í þrjú ár. Til frádráttar refsivist komi 35 daga gæsluvarðhald ákærða.

Ákvörðun héraðsdóms um sakarkostnað er staðfest.

Ákærði greiði allan áfrýjunarkostnað málsins, þar með talin málsvarnarlaun skipaðs verjanda síns fyrir Hæstarétti, Brynjars Níelssonar hæstaréttarlögmanns, 100.000 krónur.

 

 

Dómur Héraðsdóms Reykjaness 14. júní 2000.

I.

Mál þetta, sem dómtekið var 23. maí sl., er höfðað með ákæruskjali ríkissaksóknara 27. janúar sl. á hendur G, [...], Ólafi Má Sævarssyni, kt. 181071-3119, Fífuhjalla 8, Kópavogi og S, [...] fyrir eftirgreind brot gegn lögum um fíkniefni:

„I.

Fyrir fíkniefnalagabrot með því að hafa í desember 1998 í hagnaðarskyni staðið saman að innflutningi á 630,24 g af kókaíni til landsins.  Ákærðu Ólafur Már og S stóðu saman að skipulagningu innflutningsins, en fíkniefnið ætluðu þeir til sölu hérlendis.  Ákærði S fékk ákærða G til að taka að sér að flytja fíkniefnið inn til landsins.  Ákærði Ólafur Már festi kaup á fíkniefninu í Mexíkó, en fjármagn til kaupanna lagði hann að mestu leyti út sjálfur, og afhenti hann efnið þar ákærða G.  Ákærði G bjó um fíkniefnið í tréplöttum og flutti það þannig inn til landsins, kunnugt um að efnið væri ætlað til sölu hérlendis, en það fannst við komu hans til Keflavíkurflugvallar 21. desember 1998.

 

Telst þetta varða við 173. gr. a. almennra hegningarlaga nr. 19, 1940, sbr. lög nr. 64, 1974.

 

II.

Gegn ákærðu Ólafi Má og S fyrir skjalafals eins og hér greinir:

1)            Með því að hafa í nóvember 1998, staðið saman að því að nota falsaðan víxil að fjárhæð kr. 250.000 í viðskiptum við Sparisjóð Kópavogs, sem ákærði S var greiðandi að, en ákærði Ólafur Már hafði falsað með því að rita nafn sambýliskonu sinnar, Elínar Bjargar Guðmundsdóttur, sem ábekings á víxilinn.

 

2)            Með því að hafa í nóvember 1998, staðið saman að því að nota falsaðan víxil að fjárhæð kr. 450.000 í viðskiptum við Sparisjóð Kópavogs, sem ákærði Ólafur Már var greiðandi að, en hann  hafði falsað með því að rita nafn Jóhanns Inga Pálssonar sem útgefanda á víxilinn og ákærði S hafði falsað með því að rita nafn Þormóðs Inga Pálssonar, sem ábekings á víxilinn.

 

Telst þetta varða við 1. mgr. 155. gr. almennra hegningarlaga rn. 19, 1940.

 

III.

Þess er krafist að ákærðu verði dæmdir til refsingar.  Ennfremur er þess krafist að 630,24 g af kókaíni verði gerð upptæk, samkvæmt 6. mgr. 5. gr. laga um ávana- og fíkniefni nr. 65, 1974 og 2. mgr. 10. gr. reglugerðar um sölu og meðferð ávana- og fíkniefna nr. 16, 1986.”

Við aðalmeðferð gerði ákæruvaldið sömu kröfur og tilgreindar eru í ákæru auk þess sem krafa var gerð um að ákærðu greiði allan sakarkostnað.

Við aðalmeðferð lýsti sækjandi því yfir að ákæruvaldið félli frá ákærulið II.  Sá þáttur ákærunnar kemur því ekki til frekari skoðunar í þessu máli.

Þrátt fyrir ítrekaðar tilraunir, meðal annars með aðstoð Interpol, hefur ekki tekist að hafa upp á ákærða S.  Við aðalmeðferð féll sækjandi því, að svo stöddu, frá þeim þætti ákærunnar sem snýr að ákærða S.

 

Ákærði G gerir þá kröfu að hann verði dæmdur til vægustu refsingar sem lög frekast leyfa og að refsing verði ákveðin skilorðsbundin. Ennfremur krefst hann hæfilegra málsvarnarlauna að mati dómsins handa skipuðum verjanda sínum svo og að allur sakarkostnaður verði greiddur úr ríkissjóði.

 

Ákærði Ólafur Már gerir þá kröfu að hann verði sýknaður af þeirri sök sem honum er gerð í ákæru og til vara að hann verði dæmdur í vægustu refsingu sem lög leyfa.  Að auki er krafist málsvarnarlauna sem greiðist úr ríkissjóði. 

 

Ákærði G var úrskurðaður í gæsluvarðhald í Héraðsdómi Reykjavíkur þann 22. desember 1998 til 24. febrúar 1999 en þann dag hafnaði Héraðsdómur Reykjavíkur framlengingu varðhalds.

Ákærði Ólafur Már var úrskurðaður í gæsluvarðhald í Héraðsdómi Reykjavíkur þann 23. desember 1998 til 20. janúar 1999.  Þann dag féllst Héraðsdómur Reykjavíkur á framlengingu gæsluvarðhalds hans til 17. mars s.á.  Þann 26. janúar felldi Hæstiréttur þann úrskurð úr gildi.

 

 

II.

Málsatvik.

Samkvæmt frumskýrslu lögreglunnar í Reykjavík bárust henni þann 20. desember 1998 upplýsingar, frá ónafngreindum manni, þess efnis að ákærði G kæmi til Íslands frá Bandaríkjunum og myndi hafa í fórum sínum töluvert magn fíkniefna. Heimildarmaðurinn kvað G hafa farið skömmu áður til Bandaríkjanna með manni, sem hann vissi þó ekki nafnið á og væri G trúlega burðardýr.

Starfsmenn tollgæslunnar á Keflavíkurflugvelli voru látnir vita af þessari tilkynningu og við komu G til landsins leituðu þeir í farangri hans.  Þar fannst meðal annars tréplatti.  Við skoðun í röntgentæki virtist honum vera skipt í tvö hólf sem innihéldu eitthvað.  G kvaðst aðspurður hafa verið beðinn að flytja tréplattann til Íslands.  Taldi hann líklegt að í honum væru ólögleg efni en hann ætti að afhenda tréplattann seinna þennan dag.

Við rannsókn tæknideildar lögreglunnar í Reykjavík kom í ljós að í plattanum voru falin 630.24 grömm af kókaíni.  Á umbúðum utan um efnið fundust nokkrir fingrafarapartar.  Tveir af þeim voru samkenndir við fingraför hægri þumals og hægri vísifingur G.

G féllst á að fara í samstarf við lögreglu um það að hann afhenti gervifkniefnapakka undir eftirliti og stjórn lögreglu.  Sú fyrirætlan gekk þó ekki eftir. Í lögregluskýrslu kvaðst S hafa verið í Leifsstöð og séð tollverðina taka G til leitar. S hafi því hvorki svarað símhringingum né símboðum og ekki látið ná í sig.  Að kvöldi 21. desember hafi hann greint eftirlit lögreglu og þá vitað fyrir víst að G hafi verið tekinn.  S kveðst einnig hafa sagt Ólafi frá þessu þegar Ólafur hafi hringt í hann 21. desember til að vita hvernig aðgerðin gengi.  S kveðst hafa skilið bílaleigubílinn, sem flytja átti fíkniefnin í, eftir í hverfinu og sent lykilinn til bílaleigunnar í pósti.

Vegna rannsóknar þessa máls var Ólafur handtekinn við komu sína til landsins þann 23. desember 1998 og fundust í fórum hans ýmsir munir tengdir málinu.  Í upphafi kvaðst hann ekki hafa neina vitneskju um þennan fíkniefnainnflutning.

 

Við rannsókn málsins voru lagðar inn tvær kærur vegna falsaðra víxla og bárust böndin að Ólafi og S.  Þormóður Ingi Pálsson, kunningi S, kærði fölsun nafns síns sem ábekings á víxil nr. 124399, að upphæð 450.000 krónur sem var gefinn út 13. nóvember 1998 en með gjalddaga 15. febrúar 1999.  Ennfremur kærði Jóhann Hilmarsson, fölsun síns nafns sem útgefanda og framseljanda sama víxils.  Við rithandarrannsókn þóttu litlar líkur til að Jóhann og Þormóður Ingi hefðu ritað nöfn sín á víxilinn, hinsvegar þóttu nokkrar líkur til að Ólafur hefði ritað nafn Jóhanns og S hefði ritað nafn Þormóðs Inga.  Ólafur notaði þennan víxil í viðskiptum við Sparisjóð Kópavogs í nóvember 1998.

Elín Björg Guðmundsdóttir, sambýliskona Ólafs, kærði fölsun á sínu nafni sem ábekings á víxil nr. 124390 að upphæð 250.000 krónur sem var gefinn út 3. nóvember 1998 en með gjalddaga 3. febrúar 1999.  Rithandarrannsókn sýndi að litlar líkur voru á því að Elín hefði skrifað sitt nafn á víxilinn en líkurnar voru yfirgnæfandi að Ólafur hefði ritað nafn hennar.  S notaði þennan víxil í viðskiptum við Sparisjóð Kópavogs í nóvember 1998.

 

Eins og fram kemur í ákæru tengjast þrír menn þessu fíkniefnasmygli, ákærðu G og Ólafur og svo S, en fallið hefur verið frá ákæru á hendur honum að svo stöddu.  Svo sem vænta má greinir þá á um það hvert hafi verið hlutverk hvers um sig í smyglinu, svo og hver hefði lagt fé til kaupanna. Þar sem ekki er unnt að styðjast við framburð S byggist málsatvikalýsing á aðdraganda ferðarinnar og gang mála í Mexíkó á framburðum G og Ólafs fyrir lögreglu.

 

 

Framburður ákærða G.

Við yfirheyrslu kvaðst G vera burðardýr undir þau fíkniefni sem falin höfðu verið í tréplattanum, fyrir þá S og Ólaf Má Sævarsson.  G kvaðst eiga, innan tveggja daga frá komu sinni til landsins, að koma fíkniefnunum fyrir í sumarbústað í Grímsnesi.  Það hefði verið ákveðið áður en hann fór utan.

G kvaðst hafa þekkt S frá sumrinu 1997, þá hafi S selt honum kókaín.  Þeir hafi ekki talast við lengi eftir þetta, þar til S hafi komið skilaboðum til G um að hafa samband við sig.  G hélt þá að hann myndi bjóða honum fíkniefni til sölu.  Það hafi orðið úr að S kom á heimili G og greindi honum frá því að til stæði að flytja kókaín inn til landsins en fjármagn vantaði.  Ef G gæti lagt fé til kaupanna fengi hann það tvöfalt til baka.  G kvaðst ekki hafa fé til að leggja í slíkt en gaf þó ekki eindregið afsvar. G taldi S hafa leitað til sín vegna þess að G hefði haft góðar tekjur 1997 þegar hann og S þekktust. 

Að sögn G kom S aftur nokkrum dögum seinna á heimili hans en þar var þá staddur bróðir G, I.  Hafi S enn verið að leita eftir fjármögnun um það bil 300- 400.000 krónum og meðal annars stungið upp á að vinir G legðu fé í innflutninginn.  Einnig hafi hann stungið upp á að G falsaði víxla, það væri auðvelt því S og félagi hans hefðu gert það með góðum árangri.  Það eina sem þyrfti að gera væri að finna út kennitölur á einhverjum í fjölskyldunni sem ætti eignir og fá víxil út á það.  Eigendurnir myndu ekki vita neitt.  G kvað S hafa beitt sig miklum þrýstingi og því hafi hann látist vera að hugsa málið.  Honum hafi hinsvegar fundist þetta vera mikið fé og því hafi hann að lokum gefið Si algert afsvar.

G segir að það hafi ekki verið fyrr en eftir að hann hafi neitað að leggja fé í innflutninginn sem S hafi boðið honum að gerast burðardýr í innflutningnum.  S hafi boðið honum 200 stykki sem greiðslu og taldi G að hann ætti við 200 grömm af kókaíni eða um 10% af því sem ætlunin væri að flytja inn.  S hafi boðið G 3.000.000 króna þegar G leitaði eftir því að fá frekar greitt í peningum en efni, fjárhæðin færi þó eftir því hversu sterkt kókaín þeim tækist að flytja inn.  G kvað S hafa talað um að flytja inn 1-1,5 kíló af kókaíni.  Það færi þó eftir því hversu miklu fé tækist að safna fyrir ferðina.

G kvaðst hafa fallist á að gerast burðardýr gegn áðurnefndri peningagreiðslu. S hafi þá sagt honum að líklegt væri að ferðin yrði farin fyrir áramót, hann myndi tala við félaga sinn og síðan myndu þeir þrír hittast.  G sagði að honum hefði fundist sem allt ylti á þessari ferð fyrir S og Ólaf, þeir hafi talað um  hversu peningalitlir þeir væru.

G kvað þá S og Ólaf síðan hafa komið á heimili G nokkru seinna og hafi hann þá í fyrsta sinn séð Ólaf.  Þarna hafi þeir rætt skipulagningu á fyrirhuguðum innflutningi á fíkniefnum, meðal annars um það að Ólafur færi út nokkrum dögum á undan G og gengi frá því sem þyrfti.  G kæmi síðan til Mexíkó og yrði afhentur pakki til að koma með til Íslands.  G kvaðst ekki hafa spurt frekar um áhættuna af þessu þar sem S og Ólafur hafi rætt um að þessi leið væri örugg, þeir hefðu gert þetta áður.  Í þetta sinn hefði Ólafur sagt G að hlutur hans yrði ekki undir 150 grömmum það færi þó eftir því hversu mikið þeim tækist að flytja inn.  S hafi ítrekað að hann fengi greiðslu sem næmi 3.000.000 krónum.  Í þetta sinn hafi einnig verið ákveðið að hittast næsta sunnudag til að sýna G felustaðinn fyrir fíkniefnin þegar hann væri kominn með þau til landsins.

Þann 4. desember 1998 kveðst G hafa keypt, að beiðni S, hollensk gyllini fyrir Ólaf að verðmæti rúmlega 600.000 íslenskar krónur.  Kvaðst G ekki vita til hvaða hluta féð var ætlað og ekkert fengið fyrir greiðann.  Í skýrslu lögreglu kemur fram að sama dag hafi Ólafur Már keypt hollensk gyllini, að eigin sögn, fyrir kunningja sinn Davíð Garðarsson sem síðar var handtekinn með 2 kíló af amfetamíni í Þýskalandi.

Sunnudaginn 6. desember 1998 fóru, að sögn G, hann, S og Ólafur að sumarbústað í Grímsnesi.  Á leiðinni hafi S og Ólafur mælst til þess við G að hann leigði sér bílaleigubíl þegar hann kæmi til baka til landsins og kæmi fíkniefnunum síðan fyrir í sumarbústaðnum.  Hætt hafi verið við þessa ráðagerð þar sem G hafi ekki getað framvísað greiðslukorti til tryggingar bílaleigubílnum.  S hafi haft lyklana að sumarbústaðnum og hafi verið ákveðið að G léti fíkniefnin undir skúringafötu í ruslageymslu bústaðarins.  Á heimleiðinni hafi Ólafur sýnt G útprent af flugáætlun fyrir ferðalag G.  Á útprentinu hafi verið heimilisfang sem ekki var heimilisfang G.  G segir S hafa sagt að Ólafur léti hann hafa peninga og myndi hann einnig greiða algerlega fyrir mat og hótel á ferðalaginu.  Ennfremur hafi þeir ákveðið að hittast ekki aftur fyrr en erlendis, þó hafi S sagst myndu láta G hafa fé fyrir flugmiðanum.

Að sögn G hitti hann S við vinnustað S daginn fyrir brottför og hafi S látið hann hafa rúmlega 100.000 íslenskar krónur og sagt honum að fara á Ferðaskrifstofu stúdenta til að ganga frá flugmiðanum sem G kveðst hafa gert.  Farmiðinn hafi kostað 97.000 þannig að hann hafi átt 3.000 krónur til að taka með til Mexíkó.  G segir S hafa sagt sér í þetta skipti að hann, S, hafi, ásamt vini sínum, verið handtekinn úti í Mexíkó vegna meðhöndlunar á kókaíni og að sá sem hafi sagt til þeirra hafi verið drepinn úti í Mexíkó.  G telur S ekki hafa meint þetta sem hótun heldur hafi hann sagt honum þetta til þess að hvetja hann til að gæta sín.

G kveðst hafa sagt sínum nánustu rangt til um tilgang ferðarinnar.  Hann hafi beðið I bróður sinn að aka sér á flugvöllinn.  Á leiðinni þangað hafi þeir stoppað á vinnustað bróður þeirra GO.  G hafi móttekið þar símboð frá S og hafi þeir I farið að hitta hann.  Hafi S verið að tryggja sér að allt væri í lagi með farseðla og að G ætlaði örugglega utan.  Segir G að þarna hafi I bróðir hans aftur hitt S.

Tveimur dögum áður en G fór til Mexíkó segist hann hafa rætt við bróður sinn GO um það að GO útvegaði bílaleigubíl í gegnum kunningja sinn.  Hann hafi jafnframt sagt GO að tækist þetta myndi kunningi G ná í bifreiðina og koma henni upp á flugvöll.  Þetta kveðst G hafa ítrekað við GO daginn sem hann fór af landi brott.

Á leiðinni á Keflavíkurflugvöll segir G þá I hafa komið við á kaffihúsi.  Þar hafi G skrifað bréf, sem hann lét I hafa, með þeim skilaboðum að kæmi eitthvað fyrir hann ætti I að láta lögreglu hafa bréfið.  Í þessu bréfi hafi verið upplýsingar um fyrirhugaðan innflutning fíkniefna, þó hafi G ýkt stórlega tölur um efnismagn og fjárhæðir til að ganga í augun á bróður sínum.  Hann kvaðst ætíð hafa haft minnimáttarkennd gagnvart bróður sínum sem hefði vegnað betur í lífinu en sér og hefði hann haft þörf til að mikla sig í augum bróður síns.

G segir Ólaf hafa tekið á móti sér á flugvellinum í Mexíkó.  Þeir hafi farið á hótel Ólafs þar sem þeir hafi deilt herbergi, þó án þess að G væri skráður gestur hótelsins. G kveður þá hafa farið út að skemmta sér þetta kvöld og að Ólafur hafi greitt allt fyrir þá tvo í þetta sinn eins og hann hafi gert í allri þessari ferð.  Hann hafi haft mikið fé handa á milli.  Ólafur hafi auk þess verið með tvö greiðslukort, annað á eigin nafni en hitt á nafni bróður síns.  Hafi G margoft séð Ólaf taka háar fjárhæðir út með þessum greiðslukortum í hraðbönkum og sagt að það vantaði upp á féð til fíkniefnakaupanna.

Annan daginn í Mexíkó kveður G þá Ólaf hafa þvælst mikið um til að reyna að ná sambandi við mann að nafni Hector.  Á þriðja degi hafi þeir hitt Hector á matsölustað og þar hafi Hector sagt Ólafi að um þessar mundir gæti hann ekki útvegað honum gott efni. Ólafur hafi þá nefnt José, þann sem hafi setið með S í fangelsi í Mexíkó og hafi þeir seinna hitt José á kaffihúsi.  Þar hafi Ólafur rætt við hann um að útvega fíkniefni.  Þeir hafi í framhaldi af þessu farið heim til José þar sem Ólafur hafi fengið kókaínprufu.  Þar sem hún hafi verið léleg hafi ekkert orðið úr kaupunum.

Næsta dag kveður G þá Ólaf hafa hitt José og nágranna hans, sem var sagður geta útvegað gott efni frá fólki úti í sveit.  Í framhaldi af þessu hafi þeir farið allir saman í veglegt hús úti í sveit þar sem Ólafur hafi rætt fíkniefnaviðskipti við konu sem þar réði ríkjum.  Prufa af kókaíni sem Ólafur hafi fengið hafi reynst mjög sterk.  G kveðst sjálfur hafa prófað þetta efni og það hafi verið mjög „gott.”  G kveðst hafa heyrt Ólaf og konuna ræða um 800 grömm. G kvaðst ekki hafa tekið þátt í neinni samningagerð um fíkniefnakaupin.  Hann hafi setið til hliðar, eiginlega verið alveg útilokaður þegar hinir hafi rætt saman, en José hafi þurft að túlka samtal Ólafs og konunnar. Úr þessum viðskiptum hafi það orðið að Ólafur hafi ekið José heim, farið á hótelið og náð í fé í öryggishólfið.  Síðan hafi þeir tveir farið í verslunarmiðstöð þar sem þeir hafi hitt konuna og afhent henni féð.  G kveðst hafa spurt Ólaf hvernig fyrirkomulagið ætti að vera eftir þetta en hann hafi svarað með einhverri þvælu. Segir hann Ólaf hafa verið mjög stressaðan og pirraðan yfir þessu öllu.  Þeir hafi síðan náð í José sem hafi leigt herbergi á hóteli eina nótt og hafi ætlunin verið að José pakkaði fíkniefnunum þar.

G segir að í upphafi hafi það ekki verið ætlunin að hann tæki svona mikinn þátt í þessum fíkniefnakaupum.  Ólafur hafi bara sagt sér fyrir verkum og hafi hann ekki þorað öðru enda verið upp á Ólaf kominn þarna úti.

Þegar þarna hafi verið komið hafi Ólafur yfirgefið G og José en áður látið G hafa símakort og sagt honum að hringja á hótelið þegar allt væri frágengið.  G kveðst síðan hafa beðið með José á torgi nokkru uns maður frá konunni á sveitasetrinu hafi komið og hitt þá.  Kókaíninu hafi verið komið fyrir í hótelherberginu sem José hafi leigt.  José hafi síðan ekki treyst hótelherberginu.  Þeir hafi því farið með kókaínið heim til José og þaðan hafi G hringt í Ólaf.  Ólafur hafi komið og rætt eitthvað við José.  Þeir Ólafur hafi síðan farið með kókaínið á sitt hótelherbergi.  Kveðst G þá hafa sagt að hann gæti ekki tekið á móti kókaíninu svona til flutnings og hafi Ólafur sagt honum að þetta myndi allt „reddast.”  Daginn eftir hafi Ólafur sagt honum að José væri að „redda” pökkun fíkniefnanna.  Síðan hafi Ólafur pakkað farangri sínum og skráð sig út af hótelinu.  Fyrir það hafi hann greitt með greiðslukorti bróður síns.

G kveðst hafa rætt peningaleysi sitt við Ólaf úti í Mexíkó.  Ólafur hafi sagt að hann myndi láta G hafa 50.000 íslenskar krónur daginn eftir að hann kæmi heim svo G hefði eitthvað fé yfir jólin.  Ekki kvaðst hann hafa rætt frekar við Ólaf um greiðslur fyrir flutning fíkniefnanna.  G segir að úti í Mexíkó hafi Ólafur einnig sagt við sig að hann skyldi láta pakka kókaíninu í tvær pakkningar, 300 gramma og 500 gramma.  Þegar til Íslands væri komið ætti G að setja stærri pakkann í sumarbústaðinn en láta Ólaf hafa minni pakkann.  Þetta yrði að vera svona því Ólafur væri búinn að leggja svo mikinn pening í innflutninginn.  G hefur eftir Ólafi að fíkniefnin hafi verið dýrari í innkaupum en þeir hafi ætlað og þetta (tveggja pakka úrræði) sé eina leiðin til að ná peningunum til baka.  G myndi líka fá eitthvað aukalega fyrir þetta.

G kveður Ólaf hafa ekið sér á hótelið Day’s Inn, þar sem G hafi skráð sig inn og Ólafur greitt fyrir gistingu hans þar í þrjá daga.  Þeir tveir hafi að því búnu farið heim til José til að athuga með pökkunina á kókaíninu og þar hafi José sagt að pakkinn yrði tilbúinn innan klukkutíma.  G segir Ólaf hafa látið hann hafa alls 6.000 pesósa og sagt honum að greiða José 1.500 pesósa fyrir pökkunina og kunningja José 500 pesósa.  Síðan hafi Ólafur flogið burt frá Mexíkó.  G segir að sér hafi fundist Ólafur vera mjög hræddur um að vera handtekinn þarna úti í Mexíkó og hafi því verið feginn að fara þaðan í burtu.  Kvað hann Ólaf hafa verið höstugan og farinn að tala um handtökuna á S.  Ólafur hafi hinsvegar hringt í G á hótelið daginn eftir til að athuga hvernig pökkunin á kókaíninu gengi.

Að sögn G gekk mikið á við pökkun kókaínsins, m.a. hafi fyrirframákveðnar umbúðir um kókaínið týnst og því hafi allt kókaínið verið sett í timbur-plattann.  Þegar timburplattinn hafi verið tilbúinn kveðst G hafa greitt José og vini hans umrædda pesósa.  Hann kveður José hafa afhent honum miða með nafni, heimilisfangi og símanúmeri José ásamt skilaboðum til S um að hann ætti að koma 1.500 pesósum til José.  Þessi miði fannst í fórum G við handtöku.

Við handtöku G fannst einnig ljósmyndafilma sem var framkölluð af lögreglu.  Á henni má meðal annars sjá tvo menn pakka hvítu efni í timburplattann sem kókaínið fannst í.  G kveður þessa menn vera José og kunningja hans.  G segir S hafa sagt honum fyrir utanförina að Ólafur myndi útvega G „Waves Spray” í farangurstösku til að dreifa athyglinni frá kókaíninu.  Hinsvegar hafi það verið José sem hafi látið hann hafa þennan úða enda hafi hann átt nóg til á heimili sínu eins og sjáist af ljósmyndum.   Slíkur úði fannst í fórum G við handtöku.

G segist hafa millilent í Bandaríkjunum á leiðinni heim.  Kveðst hann hafa hringt í bróður sinn, GO, frá Mexíkó til að láta hann vita að kunningi hans myndi nálgast bílaleigubílinn.

Við rannsókn málsins fundust engin merki þess að G hefði reynt að fjármagna ferðina til Mexíkó, hvorki með íslenskum né erlendum gjaldeyri.  Hollensku gyllinin, sem hann keypti 4. desember 1998 kveðst hann hafa keypt fyrir ákærða Ólaf.  G segist vera illa staddur fjárhagslega, eigi engar eignir en eigi hinsvegar ógreiddar skammtímaskuldir að andvirði um 1.000.000 króna auk ógreidds skatts, lögreglusekta og barnameðlaga.

 

Framburður ákærða Ólafs Más.

Í rannsóknarskýrslu lögreglu kemur fram að í upphafi hafi Ólafur ekki sagst hafa neina vitneskju um það sakarefni sem á hann hafi verið borið.  Hann hafi þó fljótlega breytt framburði sínum til þess sem hér verður greint frá.

Ólafur kveður hlutverk sitt í desemberferðinni til Mexíkó hafa verið að koma G í tengsl við José, sem hafi meðal annars útvegað fíkniefni að beiðni S.  Ólafur kveðst hafa gert sér grein fyrir að hann væri að aðstoða við innflutning fíkniefna en hann hafi gert það til þess að geta fengið endurgreidda peningaskuld S við sig, sem hafi stofnast þegar S var handtekinn í Mexíkó í september.  Þá hafi José útvegað S fíkniefni sem þeir hafi síðan verið handteknir með. Ólafur segist hafa, að beiðni móður S, aðstoðað S við að losna úr fangelsi, greitt lögfræðikostnað, flugfar, uppihald og fleira.  Móðir S hafi lofað að greiða Ólafi þegar heim kæmi en hafi ekki staðið við það.  Ólafur kvaðst því hafa bundið væntingar við það að S greiddi þessa skuld þegar hann hefði selt fíkniefnin enda hafi hann ekki séð fram á að S gæti greitt sér ella.

Ólafur segist hafa ákveðið í endaðan nóvember 1998 að fara til Bandaríkjanna til að hitta Sheilu, stúlku sem hann hafi kynnst í ferð sinni til Puerto Vallarta í Mexíkó í nóvember 1998.  Kvaðst hann hafa rætt þessi mál við Sheilu.  Yfirlit yfir símhringingar Ólafs sýna þó að hann ræddi aðeins einu sinni við umrædda stúlku í síma frá því hann kom frá Puerto Vallarta og þar til hann flaug til Mexíkó í desember 1998.

Að sögn Ólafs var það nokkrum dögum eftir að hann nefndi þessa fyrirætlun sína við S að S spurði hann hvort hann væri ekki tilbúinn að koma íslendingi í samband við José í Mexíkó og kvaðst Ólafur hafa sagt S að hann væri reiðubúinn til þess.  Ólafur segist ekki hafa spurt um ástæðuna fyrir þessari beiðni en sig hafi grunað að þetta væri vegna fíkniefnaviðskipta þar sem hann þekkti José frá því S var í Mexíkó í september 1998.

Ólafur kveðst hafa farið á ferðaskrifstofu og gengið frá flugmiða sínum 3. eða 4. desember 1998.  Hann hafi jafnframt farið, að beiðni S, á Ferðaskrifstofu stúdenta til að taka ferðatilhögun fyrir G, sem S hefði þá verið búinn að skipuleggja með starfsmönnum skrifstofunnar.

Sunnudaginn 6. desember 1998 kveðst Ólafur hafa náð í S á heimili hans í Kópavogi.  Þeir tveir hafi síðan náð í G á heimili hans og hafi það verið í fyrsta sinn sem hann og G hafi hist.  Fyrst hafi þeir ekið stefnulaust um bæinn en markmiðið hafi verið að stofna kynni Ólafs og G.  Ólafur kveðst síðan hafa ekið austur fyrir fjall, að beiðni S.  Á leiðnni hafi S og G rætt um fyrirhugað fíkniefnasmygl en þó ekki magn eða tegund.  Ólafur segist hafa séð G rétta S umslag með kvittunum fyrir gjaldeyriskaup en S hafi ekkert vilja með það hafa.  Að sögn Ólafs ræddu G og S heilmargt í sumarbústaðnum sem ekið var að og hafi þeir meðal annars skoðað geymslu fyrir utan bústaðinn.  Ólafur hafi ekkert skipt sér af þessu.  Kveður hann þá ekki hafa rætt neitt á heimleiðinni.

Að sögn Ólafs hitti hann S fyrir utan vinnustað S 8. desember 1998 og hafi S þá verið með útprent af ferðaplani G.  Ólafur segir þá hafa hist um kvöldið á matsölustað til að ræða hlutverk Ólafs, að koma G í samband við José í Mexíkó.  Ólafur segir kunningja S, Jóhann Hilmarsson, hafa verið með honum og hafi hann því heyrt allt sem þeim fór á milli.  Við yfirheyrslu kvaðst Jóhann einungis hafa átt erindi á staðinn og hafi hann ekki heyrt neinar samræður S og Ólafs.  Þann 10. desember kveðst Ólafur enn hafa hitt S fyrir utan vinnustað S.  S hafi þá látið hann hafa blað með nafni og heimilisfangi José og fyrirmæli um að segja José að G væri kominn til að kaupa fíkniefni.

Ólafur kveðst hafa farið til bróður síns, Jóns Gunnlaugs Sævarssonar, og fengið að láni hjá honum greiðslukort, Visa-Gullkort, til þess að vera öruggari í ferðinni.  Sagðist hann áður hafa fengið kortið að láni hjá bróður sínum, í september 1998.  Þá hafi hann reyndar tekið svo mikið fé út með kortinu að leitt hafi til óvináttu með þeim bræðrum.

Á leiðinni til Mexíkó kveðst Ólafur hafa millilent í Bandaríkjunum.  Hann hafi haft samband við Sheilu og sagt henni frá ferð sinni í Bandaríkjunum og að hann myndi heimsækja hana eftir nokkra daga.  Í Mexíkó segist Ólafur hafa hringt í tvo félaga sína frá september 1998, þá Manzanares lögfræðing og Hector.  Hann hafi síðan tekið á móti G á flugvellinum og ekið honum á annað hótel en sitt, til gistingar.  Þeir hafi síðar hist og farið saman út að borða.  Segist Ólafur hafa reynt að ná símasambandi við José fyrir G en það hafi ekki gengið eftir í þetta sinn.  Að sögn Ólafs greiddi G fyrir sig í þetta sinn eins og hann hafi gert í allri ferðinni.  Næsta degi kveðst Ólafur hafa eytt með G og reynt að ná sambandi við José en það hafi ekki gengið.  Á þriðja degi hafi hann náð símasambandi við José og þeir síðan hitt hann á kaffihúsi.  Þar kveðst Ólafur hafa sagt José að G væri kominn til að kaupa fíkniefni.  Hafi José sagst ætla að kanna hvað hann gæti gert og hann myndi vera í sambandi.  Daginn eftir hafi José hringt og viljað hitta G á heimili sínu.  Hafi Ólafur ekið G þangað og skilið við hann án þess að fara með honum inn.

Að sögn Ólafs hafði hann aðeins einu sinni samband við G, eftir að hann kom á kynnum þeirra José, en þá hafi hann látið G vita af brottför sinni frá Mexíkó.  Segist hann hafa spurt G af forvitni hvernig gangi og hafi G sagt José vera að vinna í þessum málum.  Ólafur segist jafnframt hafa hringt í konu sína, Elínu Björgu Guðmundsdóttur, frá Mexíkó og sagt henni hvar hann væri en myndi þó útskýra það betur er hann kæmi heim.  Sagði hann enga sérstaka ástæðu vera fyrir þessu símtali við konu sína.  Hann kvaðst einnig hafa hringt í S til að láta vita hvernig ferðalagið hefði gengið fyrir sig.

Ólafur tók háar fjárhæðir út í Mexíkó.  Skýrir hann þær þannig að hann hafi ætlað að greiða 6 mánaða leigu húsnæðis í Reykjavík fyrirfram með reiðufé. Í framburði föður verðandi leigusala kemur fram að alltaf hafi staðið til að Ólafur greiddi fyrir húsaleiguna með greiðslukortasamningi.  Ólafur kveðst hafa ætlað að skipta mexíkósku pesósunum í bandaríkjadollara vegna betri stöðu pesósa gagnvart dollar.  Vegna umfangs peninganna segist hann hafa sett andvirði um 4-5.000 bandaríkjadollara í ferðatösku sína er hann fór frá Mexíkó til Bandaríkjanna.  Hann kvaðst ekki hafa áttað sig á þeim möguleika að skipta peningunum í verðmeiri og umfangsminni seðla sem hann gæti haft innanklæða í fluginu.  Hann segir peninga-töskuna síðan hafa týnst í fluginu frá Mexíkó til Bandaríkjanna.  Hann hafi gefið skýrslu um það í Cincinnati og þá hafi hann tilkynnt um peningana.  Við athugun kom í ljós að Ólafur tilkynnti ekki að þetta fé hefði verið í töskunni þegar hann tilkynnti hana tapaða í Cincinnati.

Að sögn Ólafs náði hann sambandi við Sheilu í Cincinnati og dvaldi hjá henni þar til hann fór heim til Íslands.  Hann kveðst hafa hringt í G til að athuga hvernig honum liði og einnig S til að upplýsa hann um gang mála.  Ólafur segist hafa frestað heimkomu sinni um einn dag í þeirri von að töskur hans myndu finnast í Cincinnati en það hafi ekki gengið eftir.  Hann sagðist einnig hafa greint konu sinni, Elínu Björgu, frá töskutapinu og einnig frá því að í töskunni hafi verið umtalsverðir fjármunir.  Í framburði sínum segir Elín Björg hinsvegar að Ólafur hafi ekki minnst á að í týndu töskunni hafi verið umtalsverðir fjármunir.

Við handtöku var Ólafur með 2.380 bandaríkjadollara í sínum fórum, í hvítu umslagi.  Segist hann hafa tekið þessa peninga út á greiðslukort sitt í Bandaríkjunum til þess að eiga einhvern framfærslueyri við heimkomu enda stutt til jólahátíðarinnar.

Af þeim ljósmyndum sem G tók í Mexíkó og Ólafi voru sýndar við rannsókn málsins kvaðst hann þekkja annan manninn, José, þann sem hann hafi komið G í tengsl við.

Við rannsókn málsins kom í ljós að Ólafur tók út alls 1.089.505 íslenskar krónur með greiðslukorti í ferð sinni til Mexíkó og Bandaríkjanna.  Með greiðslukorti bróður síns, Jóns Gunnlaugs Sævarssonar, 700.461 krónu og með eigin greiðslukorti 389.044 krónur. Auk þess hafði  hann keypt talsverðan gjaldeyri, bandaríska dollara í nóvember 1998 og hollensk gyllini í desember 1998. Skammtímaskuldir hans á þessum tíma við íslenskar lánastofnanir námu 1.500.000 krónum og hann var nýbúinn að selja íbúð sína til að greiða skuldir.

 

III.

Framburður G fyrir dómi.

Í framburði sínum fyrir dóminum bar ákærði G mjög á sama veg og hann gerði í lögregluskýrslum.  Hann kvað þær háu fjárhæðir sem hann tilgreindi í bréfinu sem hann afhenti bróður sínu eiga rót bæði í hræðslu og mikilmennskubrjálæði.  Það stafaði af því að hann hefði reynt að draga til baka loforð sitt um það að fara til Mexíkó.  Það hefði verið of seint og S hefði sagt honum að þegar S hafi verið í Mexíkó þá hafi einhver mexíkói sagt mexíkósku lögreglunni til S. Uppljóstrarinn hefði fengið það endurgreitt því hafi verið tekinn af lífi af fíkniefnasölum.  Ólafur sagðist hafa skrifað bréfið af hræðslu við að eitthvað sambærilegt henti hann, að einhver segði til hans.  Allar tölur í bréfinu væru rangar.  Hann hefði ekki haft hugmynd um hvað í vændum væri.

Ennfremur kom fram að G taldi öruggt að Ólafur hefði til viðbótar við eigið fé haft meðferðis fé frá S. G kvaðst hafa spurt Ólaf að því hvað hann hefði greitt fyrir fíkniefnin en Ólafur hafi ekki viljað svara því.  G kvað Ólaf hafa sagt sér þegar þeir voru á hótelinu í Mexíkó að Ólafur ætti hönk upp í bakið á S.  Í því skyni að fá það fé greitt hefði Ólafur tekið þátt í fíkniefnasmyglinu og lagt fé til kaupanna.

G lýsti taugastríði því sem fylgdi afhendingu fíkniefnanna.  Ólafur hafi verið orðinn svo brjálaður á biðinni á torginu þar sem átti að afhenda efnin að hann hafi skilið G eftir með símakort og sagt honum að hringja á hótelið þegar allt væri um garð gengið.  Þegar José hafi verið kominn með fíkniefnin og þeir tveir verið komnir á hótelherbergið sem hafði verið leigt sérstaklega til að pakka þar fíkniefnunum kveðst G sjálfur hafa verið orðinn svo stressaður og hræddur að hann hafi hringt í Ólaf og beðið hann að sækja sig.  Ólafur hafi ekki viljað ná í þá þar heldur á heimili José.

G kveður samskipti hans og José hafa farið fram með bendingum. José hafi nánast ekkert kunnað í ensku og G ekki heldur.  Þetta hafi gengið því það hafi verið búið að segja José hvað hann ætti að gera.

Misræmi á milli fyrstu og annarar skýrslu fyrir lögreglu um það hvort G hafi tekið þátt í pökkun efnisins skýrir G með því að við fyrstu lögregluskýrslu hafi hann verið í miklu uppnámi og hafi því ekki skýrt þar rétt frá öllu.  Fyrir dóminum kvaðst hann ekki hafa komið að pökkuninni að öðru leyti en því að hann hafi rétt José einhverja pappíra þar sem hann vantaði fyllingarefni utan um efnið inn í tréplattann.  Hann hafi að öðru leyti horft á José og annan mann ganga frá efnunum. 

Aðspurður sagði G að á leiðinni heim úr sumarbústaðnum í Grímsnesinu hefði svo samist milli hans, Ólafs og S að í Mexíkó ætti hann einvörðungu að bíða á hótelinu eftir því að honum yrði afhentur pakki.  Að öðru leyti ætti hann ekki að taka neinn þátt í kaupum.  Hann kvaðst hafa reynt að komast hjá því að vera með Ólafi á meðan hann hafi verið að leita uppi fíkniefnasala.  Ólafur hafi hinsvegar gert honum ljóst að hann, G, yrði að fylgjast með honum.  Hann kvaðst heldur ekki hafa átt annarra kosta völ en að fylgja málinu eftir þegar Ólafur var farinn frá Mexíkó þrátt fyrir að verksvið hans hefði með því verið komið langt út fyrir það sem lagt hafi verið upp með.

Miðann með nafni og heimilisfangi José sem fannst í vasa G við heimkomuna sagði hann að José hefði afhent sér við brottförina frá Mexíkó.

G kvaðst hafa hringt frá Mexíkó í I bróður sinn af hótelinu Day´s Inn. Hann kvað þann framburð bróður síns réttan að hann hefði grátið í símann, sagt honum að hann væri með fíkniefni og að hann væri hræddur.

Aðspurður sagðist G hafa reynt að villa um fyrir tollvörðum fyrst og hafa logið því að hann ætti að koma efninu til manns í Mjóddinni. G kvaðst hafa ákveðið að segja satt og rétt frá og farið í samstarf við lögreglu um að hitta S þegar undirbúningur að því að hann hitti „upplogna” manninn undir eftirliti lögreglu hafi verið hafinn.

 

Framburður Ólafs fyrir dómi.

Í vitnisburði sínum fyrir dóminum bar ákærði Ólafur mjög líkt því sem hann gerði við rannsókn málsins hjá lögreglu.

Aðspurður kvaðst hann ekki hafa skýringar á því af hverju þörf hefði verið á sinni milligöngu milli José og G, þ.e. afhverju S hringdi ekki einfaldlega í José frá Íslandi. S hafi, þegar hann frétti af því að Ólafur ætlaði til Bandaríkjanna farið þess á leit við Ólaf að hann tæki á sig krók og kæmi tilteknum manni í samband við José.

Ólafur kvaðst ekki hafa komið að undirbúningi ferðarinnar fyrir G að öðru leyti en því að hann hafi ekið G og S að sumarbústað í Grímsnesi þar sem koma hafi átt efnunum fyrir.  Gögn málsins sýna að hringt hafi verið úr síma Ólafs í Ferðaskrifstofu stúdenta þrisvar sinnum 8. desember og í framhaldi af því hafi ferð G verið staðfest.  Skýringar á því kvað Ólafur þær að S hefði oft fengið síma hans lánaðan.  Gögn sýna einnig að tvisvar hafi verið hringt úr síma Ólafs í Ferðaskrifstofu stúdenta 10. desember og þann dag hafi verið bókað inn á að ferðin yrði greidd þann dag.  Hann gaf sömu skýringar á þessum hringingum, hann og S hafi verið saman þessa daga.  Gögn málsins sýna ennfremur að S hringdi úr sínum síma í bæði G og Ólaf á sömu mínútum og Ólafur segir hann hafa verið að hringja úr síma Ólafs í Ferðaskrifstofu stúdenta.  Ólafur kvað þá skýringu líklegasta að S hefði talað til skiptis úr þessum símum, staddur á sama stað en Ólafur mundi þó ekki eftir að hafa séð S gera þetta.

Ólafur kvaðst ekki hafa haft hugmynd um hvernig greiða átti fyrir fíkniefnin.  Eins og í lögregluskýrslu gaf hann þær skýringar á fjárúttektum í Mexíkó, 560.000 krónur með greiðslukorti bróður síns og 161.000 krónur með sínu eigin korti, að hann hefði sett mikið fé í ferðatösku sem hann hefði týnt og einnig hefði hann tekið út fé til að eiga fyrir húsaleigu sem hann þurfti að greiða við heimkomuna.  Skýringar á því að vitni bæru að aldrei hefði annað staðið til en að húsaleigan yrði greidd með raðgreiðslu kvað hann þær að á þessum tíma hefði hann verið búinn með sína raðgreiðsluheimild og því hefði þurft að taka fé út af kortinu til að geta greitt sex mánuða húsaleigu fyrirfram. 

Að sögn Ólafs var ástæða þess að hann hann tók svo mikið út af pesóum í Mexíkó, gjaldmiðli sem ekki er unnt að skipta í íslenskum bönkum, hafa verið þá að gengi pesóans hafi verið þannig að hagstætt hafi verið að skipta honum í dollara í Bandaríkjunum og bandarísku dollurunum í íslenskar krónur þegar heim kæmi.  Auk þess hafi verið nauðsynlegt fyrir hann að ná þessu fé út áður en nýtt úttektartímabil greiðslukorta hæfist.

Ólafur sagði að sér fyndist ekkert óeðlilegt við það að senda fé milli landa í ferðatösku.  Hann kvaðst ekki hafa tilkynnt að fé væri í töskunni þegar hann tilkynnti að hún hefði týnst því hann hefði verið hræddur um að einhver starfsmaður flughafnarinnar myndi stela fénu.  Ástæðu þess að hann hefði ekki skýrt konu sinni frá því að hann hefði týnt nokkur hundruð þúsundum kvað hann þá að hann hafi ekki viljað valda henni meiri áhyggjum.

Úti í Mexíkó kveðst Ólafur ekki hafa haft samskipti við José og G, eftir að hann hefði komið á kynnum þeirra, fyrr en rétt áður en hann hafi farið frá Mexíkó.  Hann kvaðst aldrei hafa farið að skoða efnið.

Í Bandaríkjunum kvaðst hann hafa dvalið hjá Sheilu í fjóra daga.

 

Vitnisburðir annarra en ákærðu.

Fyrir dóminn komu einnig rannsóknarlögreglumennirnir, Sólberg Bjarnason, sem stjórnaði rannsókn málsins og Kristinn Sigurðssonar, sem vann að rannsókn þess. Þeir lýstu rannsóknaraðferðum og staðfestu skýrslur sínar en bættu engu efnislega við þær.

 

I, bróðir ákærða G, gaf skýrslur við rannsókn málsins.  Hann kvaðst hafa verið staddur á heimili G þegar S hafi komið þangað viku eða tíu dögum áður en G hafi farið til Mexíkó.  S og G hafi farið í annað herbergi til að ræða saman en þar sem I hafi grunað S um að vera að ræða fíkniefnamál hafi hann lagt hlustir við herbergishurðina og heyrt S lofa G greiðslu fyrir verkið.  G hafi einnig staðfest þegar I hafi gengið á hann, eftir að S var farinn, að S hefði boðið honum að gerast burðardýr á fíkniefnum, ná í pakka til Mexíkó og koma með til Íslands gegn vænni peningagreiðslu þannig að hann yrði laus úr fjárhagsvanda sínum.  I vissi ekki hversu margir voru í tengdir þessum innflutningi en G hafi alltaf sagst vera að  ná í pakka fyrir „þá.”  I sagði frá því að G hefði hringt í hann frá Mexíkó og hefði hann verið grátandi í símanum.  Hann hefði sagst vera kominn með efnin, en vera svo hræddur um að vera handtekinn með þau að hann væri að hugsa um að henda þeim.  Væri hann að velta fyrir sér hvort ekki væri betra að vera handtekinn með þau í Mexíkó en að vera drepinn þegar hann kæmi heim fyrir það að koma ekki með efnin.

Í vitnisburði sínum fyrir dóminum bætti vitnið ekki öðru við skýrsluna en hann kvaðst einnig hafa hitt ákærða Ólaf heima hjá G þegar Ólafur hafi komið þangað með S.  Sagði hann að sér hefði fundist að G hefði hálfpartinn verið þvingaður til þessara verka. Um ferðalagið á flugvöllinn bar hann eins og G hafði gert og staðfesti að S hefði komið og rætt við G þegar þeir voru staddir á vinnustað GO, bróður G og I.  I staðfesti einnig að G hefði afhent honum bréf sem hann hefði beðið hann að afhenda lögreglu ef eitthvað kæmi fyrir G.  I kvaðst hinsvegar ekki hafa litið á það fyrr hann var beðinn að afhenda það eftir að G hafði verið handtekinn.

 

Jón Gunnlaugur Sævarsson, bróðir ákærða Ólafs, gaf skýrslu hjá lögreglu við rannsókn málsins og bar einnig vitni fyrir dóminum.  Hann kvaðst ekki hafa vitað að bróðir hans væri að fara til Mexíkó, hann hefði sagst vera að fara til Noregs.  Vitnið kvaðst hafa lánað bróður sínum, Ólafi, greiðslukort sitt þar sem Ólafur hafi ætlað að kaupa fyrir hann geislaskrifara í fríhöfninni.  Eftir beiðni Ólafs kvaðst hann hafa leyft honum að taka út andvirði 50.000 íslenskra króna. Kvað hann Ólaf hafa tekið 800.000 út af kortinu í ferðinni og hafi hann ekki endurgreitt neitt af því.  Hann kvaðst auk þess sitja uppi með allar skuldir bróður síns sem hann hefði ábyrgst.  Vitnið grunaði bróður sinn um að hafa tekið féð út með kortinu til að kaupa fíkniefni.

 

Ingvar Jónsson, gaf skýrslu hjá lögreglu við rannsókn málsins.  Þar kemur fram að S hafi komið að máli við hann í október 1998 og sagt honum frá fyrirhugaðri ferð til Mexíkó.  S hefði þar tengsl við fólk sem gæti útvegað kókaín og óskaði hann eftir því að Ingvar legði fé til kaupanna.  S átti von á því að Ingvar gæti þrefaldað það fé sem hann legði til kaupanna og hafði sagt að burðardýr kæmi með efnið til landsins.  Ingvar kvaðst eftir umhugsun hafa ákveðið að blanda sér ekki inn í þetta mál.  Í einhverju samtala þeirra S kvaðst Ingvar hafa spurt S hvort Ingvar yrði eini peningamaðurinn í þessum innflutningi.  S hafi þá sagt að Ólafur í fótboltanum, Óli í Besta ætti pening til að leggja í þessi kaup vegna þess að hann hefði nýlega selt íbúð sína.  Ingvar sagði S einnig hafa sagt sér að tveir menn færu út, annar 10. desember 1998 og hinn daginn eftir.  Ingvar staðfesti þessa skýrslu fyrir dóminum en bætti engu við hana efnislega.

 

Elín Björg Guðmundsdóttir er sambýliskona ákærða Ólafs.  Í skýrslu hennar fyrir lögreglu kom fram að í öll þrjú skiptin sem Ólafur hafi farið til Mexíkó árið 1998 hafi hann sagt henni, sem og öllum öðrum, rangt til um áfangastað sinn og tilgang ferðanna.  Hún kvað fjárhagsstöðu þeirra Ólafs afar slæma.  Henni hafði ekki verið kunnugt um að Ólafur hafi í septemberferðinni til Mexíkó tekið andvirði 600.000 króna út með greiðslukorti bróður síns, Jóns Gunnlaugs, og endurgreitt þá fjárhæð á mjög skömmum tíma. Hún kvað Ólaf hafa sagt sér að hann hefði týnt tösku á ferðalaginu en ekki að peningar væru í töskunni.  Vitnið staðfesti einnig að til hefði staðið að greiða húsaleiguna með raðgreiðslum af greiðslukorti en ekki með reiðufé. Elín Björg staðfesti skýrsluna fyrir dóminum og bætti í framburði sínum fyrir dóminum engu við efni hennar.

Ágúst Arnar Einarsson og Anna Gréta Grétarsdóttir, eigendur þeirrar íbúðar sem Ólafur og Elín hugðust leigja komu fyrir dóminn.  Þau staðfestu að til hefði staðið að greiða sex mánuði af húsaleigunni fyrirfram, 40.000 krónur á mánuði, með raðgreiðslum með greiðslukorti.

 

IV.

Niðurstaða.

Ákærði G hefur játað að hafa framið það brot sem lýst er í ákæru að því undanskildu að hann kveðst ekki hafa búið um efnin.

Ákærði Ólafur Már hefur viðurkennt að hafa átt þátt í að kaupin komust á en neitar að hafa staðið að skipulagningu og fjármögnun kaupanna eins og honum er gefið að sök í ákæru.

Ákærðu G og Ólafur greina eins frá nokkrum þáttum þessa máls, svo sem ferðinni í sumarbústaðinn, að Ólafur hafi tekið á móti G í Mexíkó og að þeir hafi hitt Hector, annan þeirra manna sem aðstoðaði Ólaf við að leysa S úr fangelsi í Mexíkó. Þá greinir hinsvegar mjög á um hlutverkaskipti, annars vegar hlutverkaskipti S og Ólafs í aðdraganda ferðarinnar og hins vegar hlutverkaskipti G og Ólafs í Mexíkó.

 

Sönnunarmat.

Fyrstu viðbrögð ákærða G voru að neita því að hann væri með ólögleg efni en hann ákvað fljótlega að segja allt af létta.  Að frátöldum þessum fyrstu viðbrögðum hefur hann frá upphafi haldið sig við sama framburð fyrir lögreglu og fyrir dómi. Frásögn hans er heilsteypt og trúverðug og samrýmist nánast að öllu leyti gögnum málsins. Eina ósamræmið milli frásagnar hans og framlagðra gagna kemur fram í bréfi sem hann afhenti bróður sínum, Ingibergi, á leiðinni út á flugvöll.  Þær fjárhæðir sem þar eru tilgreindar eru svo háar að þær geta ekki átt sér stoð í raunveruleika. Fallist er á þá skýringu G að hann hafi í metingi við bróður sinn ýkt stórlega andvirði þeirra fíkniefna sem hann ætti von á að koma með til baka og einfaldlega logið því að hann hefði meðferðis 13 milljónir króna.  Gjaldeyriskaup G voru sérstaklega athuguð og kom ekki annað fram en kaup á hollenskum gyllinum.  Hann kvaðst hafa keypt þau fyrir Ólaf og hefur sú fullyrðing ekki verið rengd.   Ekkert annað en þetta bréf hvorki í gögnum málsins né framburði vitna rýrir trúverðugleika frásagnar hans.  Það styður einnig þá frásögn hans að hann hafi verið uppá náð Ólafs kominn í Mexíkó að meðferðis hafði hann nánast ekkert reiðufé og er fákunnandi í tungumálum. Framburður I, bróður G, styður einnig þann framburð að G hafi hvorki skipulagt né fjármagnað þetta fíkniefnasmygl heldur einungis borið með sér þau efni sem honum voru fengin.

Ólafur hefur neitað að hafa nokkuð komið að undirbúningi ferðar G til Mexíkó.  Hringingar úr síma Ólafs í Ferðaskrifstofu stúdenta hefur hann skýrt með því að S hafi fengið síma Ólafs lánaðan.  Gögn sýna einnig að nokkrum mínútum áður en og nokkrum mínútum eftir að S á að sögn Ólafs að vera að tala úr síma Ólafs við Ferðaskrifstofu stúdenta er S að tala úr eigin síma annars vegar við G og hins vegar við Ólaf.  Miðað við frásögn Ólafs á S að standa við hliðina á Ólafi, fá síma hans lánaðan og hringja síðan í G.  Vegna símhringinga S úr eigin síma til Ólafs er ólíklegt að þeir tveir hafi verið saman á þessu tímamarki og S hafi fengið síma Ólafs lánaðan til að hringja í ferðaskrifstofuna. Berast böndin því að Ólafi og eru yfirgnæfandi líkur fyrir því að það hafi verið hann sem hringdi úr eigin síma í Ferðaskrifstofu stúdenta til að ganga frá farmiða G.   

Í gögnum málsins er greiðslukvittun frá Ferðaskrifstofu stúdenta vegna ferðar G til Bandaríkjanna og Mexíkó.  Á hana er Fífuhjalli  8, Kópavogi, skráður sem heimilisfang G.  Þetta heimilisfang var hinsvegar hvorki lögheimili né dvalarstaður G heldur heimili Ólafs samkvæmt þjóðskrá svo og framburði hans sjálfs í lögregluskýrslu.  Það símanúmer sem gefið var upp sem sambandsnúmer vegna kaupa á farseðli Ólafs er sama símanúmer og gefið var upp sem sambandsnúmer vegna farseðilskaupa G.  Ólafur segir í lögregluskýrslu að móðir hans sé skráð fyrir þessu símanúmeri en hann fái þennan síma lánaðan dag og dag þegar hann þurfi nauðsynlega á síma að halda. Eiginkona Ólafs segir að þau Ólafur noti þennan síma alfarið eins og sinn eigin. Gögn málsins grafa því undan þeirri fullyrðingu Ólafs að hann hafi ekkert komið að undirbúningi ferðar Ólafs til Mexíkó.

Ólafur heldur því einnig fram að hann hafi engin afskipti haft hvorki af G né af José eftir að hann hafði komið á kynnum milli þeirra á þriðja degi dvalar sinnar í Mexíkó.  Fram er komið að Ólafur fór til Mexíkó bæði í september og nóvember 1998.  Í september dvaldist hann í Mazatlan, sömu borg og hann og G dvöldust í í desemberferðinni.  Í septemberferðinni kynntist Ólafur José, fíkniefna-miðlara, vini S.  Í það sinn kynntist Ólafur einnig borginni og ýmsu fólki þar eins og kemur fram í lögregluskýrslum.  Hann viðurkenndi að hafa endurnýjað kynnin við þetta fólk í desemberferðinni.  G hafði hinsvegar ekki komið áður til Mazatlan og þekkti þar ekki nokkurn mann.  

G bar að Ólafur hefði gert upp reikninginn á hótelinu sem þeir dvöldu saman á með greiðslukorti bróður hans, Jóns Gunnlaugs Sævarssonar. Gögn frá greiðslukortafyrirtæki sýna að svo var.  Þessa vitneskju hefði G ekki haft ef Ólafur hefði ekki haft nein afskipti af honum eftir að hann hafði komið á kynnum José og Gs.  Gögn frá Mexíkó gefa einnig til kynna að þeir hafi dvalið saman á hótelinu í Mexíkó.

Útskýringar Ólafs á gjaldeyriskaupum hans í Mexíkó eru með miklum ólíkindum.  Í fyrsta lagi segist hann hafa þurft að eiga reiðufé til að greiða húsaleigu þegar heim kæmi.  Fullyrðingin ein og sér er ótrúverðug.  Því til viðbótar kemur að þrjú vitni báru, þar af tvö fyrir dómi, að aldrei hafi annað staðið til en að leigan fyrir húsnæðið yrði greidd með greiðslukortasamningi um raðgreiðslur.  Þegar þetta var borið undir Ólaf bar hann því við að hann hefði verið búinn með raðgreiðsluheimild sína og því hafa þurft að greiða leiguna með peningum.  Ólafur tók mörg hundruð þúsund íslenskar krónur, miklu meira en sem nam húsaleigunni, út í mexíkóskum pesóum, gjaldmiðli sem ekki er unnt að skipta í íslenskum bönkum.  Ástæðu þess kvað hann þá að gengi dollars hefði verið þannig að þetta hefði verið hagstætt. Vegna eðlis gjaldeyrisviðskipta er ekkert mark takandi á þessari skýringu.  Það fást jafnmargar krónur fyrir pesóa hvort sem pesóanum er skipt í krónur beint eða fyrst í dollar og svo í krónur.  Þessu til viðbótar kemur að í hvert skipti sem gjaldeyri er skipt tekur bankinn þóknun, t.d. ákveðinn hundraðshluta af því sem keypt er.  Til að breyta pesóum í krónur hefði Ólafur þurft að greiða slíka þóknun tvisvar.  Ennfremur tekur greiðslukortafyrirtækið gjald fyrir úttektir í erlendum gjaldeyri.  Menn tapa því á því að taka út fé í erlendri mynt til að skipta því í íslenskar krónur þegar heim er komið og tapið er enn meira ef tekið er út með greiðslukorti.  Skýring á þessum fjárúttektum sem byggist á hagstæðu gengi dollars er því haldlaus.

Það er ennfremur ótrúverðugt að menn keppist við að taka út fé með greiðslukortum áður en nýtt kortatímabil hefst, en einnig með þeim rökum skýrði Ólafur fyrir dóminum háar úttektir í pesóum með greiðslukorti.

Við heimkomuna hafði Ólafur þetta fé ekki meðferðis.  Hann skýrir það með því að hann hafi sett pesóana í ferðatösku sem hafi týnst á ferðalaginu frá Mexíkó til Bandaríkjanna. Ekki verður lagður trúnaður á þessa skýringu.  Jafnvel byrjandi í utanlandsferðum fer ekki svo glæfralega með háar fjárhæðir en umrædd ferð var sjötta utanlandsferð Ólafs á árinu 1998 og þar af sú þriðja til Mexíkó á síðasta fjórðungi þess árs.  Til viðbótar kemur að Ólafur hefur ekki greint neinum nema lögreglunni frá þessu fé.  Hann skýrði konu sinni ekki frá því að hann hefði glatað 300-350.000 krónum og ekki tók hann heldur fram, þegar hann tilkynnti töskuna týnda, að í henni ætti að vera talsvert fé.

Framburður Ingvars Jónssonar rennir einnig stoðum undir þá fullyrðingu ákæruvaldsins að Ólafur hafi fjármagnað kaupin.  Ingvar segir S hafa sagt sér þegar hann leitaði eftir fjármagni frá Ingvari að Ingvar yrði ekki eini peningamaðurinn í innflutningnum heldur ætti Ólafur í fótboltanum, Óli í Besta, lausan pening til að leggja í þessi fíkniefnakaup vegna sölu á húsnæði.  Á þessum tíma vann ákærði Ólafur í fyrirtækinu Besta og lék knattspyrnu.

 

Í lögregluskýrslum og fyrir dómi sagði Ólafur að erindi hans af landi brott hefði verið að heimsækja í Bandaríkjunum konu, sem hann hefði kynnst þegar hann var í Mexíkó í nóvember 1998.  Jafnframt sagði hann að S hefði komið að máli við sig þegar hann frétti að Ólafur ætlaði í þessa ferð og beðið sig að skreppa til Mexíkó í leiðinni til þess að koma á sambandi milli tiltekins íslendings og José, sem Ólafur hafi kynnst þegar hann var fyrr í Mexíkó.  Fyrir dóminum kvaðst Ólafur hafa verið tilleiðanlegur til að leggja þennan krók á sig þar sem hann kostaði ekki mikið aukalega og hann vildi gera S vini sínum þennan greiða. 

Ólafur hafði gert ferðaáætlun áður en hann fór utan og er hún í gögnum málsins.  Samkvæmt henni ætlaði hann sér aðeins að dvelja alls þrjá daga með Sheilu í Cincinnati en þó kvað hann aðaltilgang ferðarinnar vera að hitta hana.  Hann seinkaði heimferðinni að vísu um einn dag en að eigin sögn ekki vegna þess að hann vildi vera lengur með Sheilu heldur vegna þess að hann vonaðist eftir því að ferðataska hans kæmi í leitirnar.  Ólafur hafði hinsvegar planlagt að dvelja heila viku í Mexíkó.  Að eigin sögn kom hann G í samband við José á þriðja degi dvalar sinnar.  Hann segist síðan ekki hafa verið að gera neitt sérstakt það sem eftir var vikunnar þar til hann flaug til Bandaríkjanna. Hann lengdi því leið sína um mörg þúsund kílómetra og þriggja daga ferð um eina viku til þess eins að gera vini sínum þann greiða að koma á kynnum tveggja manna.  Ýmislegt þykir gera þessa vinargreiðaskýringu ótrúverðuga.  Fyrst er til að taka að Ólafur tók þá ákvörðun fyrirfram að viðbótarkrókurinn, dvölin í Mexíkó, yrði vika en hann ætlaði ekki að verja nema þremur dögum í aðaltilgang ferðarinnar, stefnumótið við Sheilu.  Annað er að Ólafur flaug frá Keflavík til New York, þaðan til Phoenix, Arizona, þaðan til Mazatlan, Mexíkó.  Leiðin til baka var flóknari en þá fór hann frá Mazatlan til Monterrey, Mexíkó, þaðan til Houston, Texas, þaðan til Cincinnati, Ohio.  Flugferðin yfir hafið til New York tekur 6 tíma og aðra tvo tekur að komast þaðan til Cincinnati.  Viðbótarflugtími aðra leið frá New York til Mazatlan með millilendingu í Phoenix er um það bil 15 tímar.  Tvöfalda þá fyrirhöfn lagði Ólafur á sig til að gera vini sínum, S, þann greiða að koma á kynnum tveggja manna. Sú fullyrðing að lítill aukakostnaður hafi falist í því að bæta Mexíkóferðinni við stenst ekki heldur skoðun.  Í gögnum málsins eru reikningar vegna kaupa ákærðu á farmiðum.  Af þeim má sjá að fargjaldið frá New York til Mazatlan er nánast jafndýrt og ferðin yfir hafið.  Af gögnum málsins sést einnig að hótelkostnaður var ekki svo lágur sem ætla mátti af frásögn Ólafs eða sem næst 50.000 krónum fyrir Ólaf einan.  Lítið haldreipi er því í þeirri skýringu að ferðin til Mazatlan, Mexíkó, hafi verið lítill og ódýr krókur á leiðinni til Cincinnati, Ohio. Ódýr getur ferðin að minnsta kosti ekki hafa verið fyrir mann sem var skuldum vafinn, átti ekkert reiðufé í banka og var kominn langt yfir heimildir á greiðslukorti sínu.  Er ekki hægt annað en fallast á að hann hafi lagt allan þennan tíma, fé sitt og fyrirhöfn í eitthvað annað og meira en að koma á kynnum tveggja manna.

 

Sannað þykir með játningu ákærða Gs og gögnum málsins að hann hafi gerst sekur um þá háttsemi sem honum er gefin að sök í ákæru að öðru leyti en því að fallist er á framburð hans um að hann hafi ekki búið um fíkniefnin í tréplattanum.

Eftir framkomnum gögnum og framburðum vitna og sakborninga þykir sannað að ákærði Ólafur hafi gerst sekur um þá háttsemi sem honum er gefin að sök í ákæru. 

Brot beggja ákærðu eru rétt heimfærð til refsiákvæða í ákæru.

 

Ákvörðun refsingar.

Ákærði G hefur unnið sér til refsingar samkvæmt 2. mgr. 173. gr. a almennra hegningarlaga nr. 19/1940, sbr. 1. mgr. sama ákvæðis, sbr. lög nr. 65/1974.  Ákærði Ólafur Már hefur einnig unnið sér til refsingar samkvæmt sömu ákvæðum almennra hegningarlaga.

 

Ákærði G hefur frá árinu 1991 ellefu sinnum komist í kast við lögin og hefur meðal annars sætt refsingum fyrir meiriháttar líkamsárás,  minniháttar líkamsárás, þjófnað, fjársvik og skjalafals og fimm sinnum gengist undir sátt eða fengið dóm fyrir brot gegn umferðarlögum.  Ekkert þessara brota hefur áhrif í því máli sem nú er til dóms.

Við ákvörðun refsingar ákærða er annarsvegar litið til þess hversu alvarlegt brot hans er, sbr. sbr. 1., 3. og 7. tl. 1. mgr. 70. gr. almennra hegningarlaga og hinsvegar til þess að hann játaði brot sitt af hreinskilni og þess að með samvinnu sinni við lögregluna stuðlaði hann að því að upplýsa málið, sbr. 5. og 8. tl. sama ákvæðis.  Að teknu tilliti til þessara þátta er refsing ákærða hæfilega ákveðin tvö ár en til frádráttar refsingunni komi 65 daga gæsluvarðhald hans, sbr. 76. gr. almennra hegningarlaga.  Brot hans er það stórfellt að skilorðsbinding refsingarinnar þykir ekki koma til álita.

Þá ber að dæma ákærða til greiðslu sakarkostnaðar in solidum með ákærða Ólafi þar með talin málsvarnarlaun skipaðs verjanda, Helga Jóhannessonar, hrl., 100.000 krónur.

 

Sakaferill ákærða Ólafs Más hefur ekki áhrif í þessu máli en hann hefur frá árinu 1989 þrisvar sinnum gengist undir sátt og einu sinni fengið dóm fyrir brot gegn umferðarlögum.  Við ákvörðun refsingar ákærða verður litið til þess hversu alvarlegt brot það er að flytja inn svo mikið magn af svo sterku fíkniefni í því skyni að afla sér fjár, sbr. 1., 3. og 7. tl. 1. mgr. 70. gr. almennra hegningarlaga.  Að teknu tilliti til þessara þátta þykir refsing ákærða hæfilega ákveðin þrjú ár en til frádráttar refsingunni komi 35 daga gæsluvarðhald hans, sbr. 76. gr. almennra hegningarlaga. Skilorðsbinding refsingarinnar þykir ekki koma til álita.

Þá ber að dæma ákærða til greiðslu sakarkostnaðar in solidum með ákærða G þar með talin málsvarnarlaun skipaðs verjanda, Brynjars Níelssonar, hrl., 100.000 krónur.

 

Með vísan í 6. mgr. 5. gr. laga um ávana- og fíkniefni nr. 65/1974 og 2. mgr. 10. gr. reglugerðar um sölu og meðferð ávana- og fíkniefna nr. 16/1986 skulu upptæk til ríkissjóðs 630,24 grömm af kókaíni.

Nokkrar tafir hafa orðið á þessu máli.  Ákæra var ekki gefin út fyrr en rúmu ári eftir að málið kom upp.  Stöfuðu þær tafir af því að reynt var að afla upplýsinga um ferðir ákærðu Ólafs og S til Mexíkó í september og október.  Tafir sem orðið hafa á málinu eftir útgáfu ákæru stafa af fjarveru S, en árangurslaust hefur verið reynt að hafa upp á honum.

Gunnar Aðalsteinsson, héraðsdómari, kvað upp þennan dóm.

 

DÓMSORÐ

Ákærði G sæti fangelsi í tvö ár.  Frá refsivist hans dragist 65 daga gæsluvarðhald. 

Hann greiði kostnað sakarinnar óskipt með ákærða Ólafi Má, þar með talin málsvarnarlaun skipaðs verjanda síns, Helga Jóhannessyni, hrl., 100.000 krónur.

Ákærði Ólafur Már Sævarsson sæti fangelsi í þrjú ár.  Frá refsivist hans dragist 35 daga gæsluvarðhald.

Hann greiði kostnað sakarinnar óskipt með ákærða G þar með talin málsvarnarlaun skipaðs verjanda síns, Brynjari Níelssyni, hrl., 100.000 krónur.

Upptæk skulu til ríkissjóðs 630,24 grömm af kókaíni.