Hæstiréttur íslands

Mál nr. 68/2013


Lykilorð

  • Kærumál
  • Framsal sakamanns


                                              

Þriðjudaginn 12. febrúar 2013.

Nr. 68/2013.

Ákæruvaldið

(Sigríður Friðjónsdóttir ríkissaksóknari)

gegn

X

(Brynjólfur Eyvindsson hdl.)

Kærumál. Framsal sakamanna.

Úrskurður héraðsdóms, sem felldi úr gildi ákvörðun innanríkisráðherra um að X skyldi framseldur til Póllands, var felldur úr gildi og ákvörðun innanríkisráðherra staðfest.

Dómur Hæstaréttar.

Mál þetta dæma hæstaréttardómararnir Þorgeir Örlygsson, Greta Baldursdóttir og Helgi I. Jónsson.

Sóknaraðili skaut málinu til Hæstaréttar með kæru 28. janúar 2013 sem barst réttinum ásamt kærumálsgögnum 31. sama mánaðar. Kærður er úrskurður Héraðsdóms Reykjavíkur 25. janúar 2013, þar sem ákvörðun innanríkisráðherra 6. nóvember sama ár, um að framselja varnaraðila til Póllands, var felld úr gildi. Kæruheimild er í 24. gr. laga nr. 13/1984 um framsal sakamanna og aðra aðstoð í sakamálum. Sóknaraðili krefst þess að hinn kærði úrskurður verði felldur úr gildi og staðfest ákvörðun innanríkisráðherra 6. nóvember 2012 um framsal varnaraðila til Póllands.

Varnaraðili krefst staðfestingar hins kærða úrskurðar og kærumálskostnaðar.

Með skírskotun til forsendna hins kærða úrskurðar er fallist á að skilyrði 1. mgr. 3. gr. laga nr. 13/1984 fyrir framsali varnaraðila sé fullnægt að því er varðar dóm 16. júlí 2003 en ekki hvað varðar dóma 19. janúar 2006 og 9. maí 2007. Þá er og með vísan til forsendna hins kærða úrskurðar staðfest að ekki verði endurskoðað mat innanríkisráðherra á grundvelli 7. gr. laga nr. 13/1984, enda engar líkur að því leiddar í málinu að það mat hafi ekki farið fram með réttum og málefnalegum hætti.

Í II. kafla laga nr. 13/1984 eru ákvæði um meðferð framsalsmála. Þar segir í 17. gr. að þegar að lokinni rannsókn máls um framsalsbeiðni sendi ríkissaksóknari innanríkisráðuneytinu öll gögn þess ásamt álitsgerð um það og taki ráðuneytið síðan ákvörðun um hvort framsal skuli heimilað. Fram kemur í 1. mgr. 14. gr. laganna að maður sá sem óskast framseldur getur krafist úrskurðar Héraðsdóms Reykjavíkur um hvort skilyrði laga fyrir framsali séu fyrir hendi. Að gengnum slíkum úrskurði, eftir atvikum að lokinni kæru til Hæstaréttar samkvæmt 24. gr. laganna, annast stjórnvöld framkvæmd framsals gagnvart því erlenda ríki sem slíka ósk hefur borið fram, ef fallist er á að skilyrðum framsals sé fullnægt. Ber íslenskum stjórnvöldum þá að setja dómsmálayfirvöldum í erlenda ríkinu þau skilyrði sem greinir í 1. mgr. 11. gr. laga nr. 13/1984. Þá geta stjórnvöld samkvæmt 2. mgr. ákvæðisins sett frekari skilyrði fyrir framsali. Getur það því ekki varðað ógildingu ákvörðunar ráðuneytisins um framsal að skilyrða 1. mgr. 11. gr. laganna hafi ekki verið getið í framangreindri ákvörðun þess. Samkvæmt þessu verður staðfest ákvörðun innanríkisráðherra 6. nóvember 2012 um framsal varnaraðila til Póllands.

Samkvæmt 2. mgr. 16. gr. laga nr. 13/1984 greiðist kærumálskostnaður úr ríkissjóði, þar með talin þóknun skipaðs réttargæslumanns varnaraðila vegna meðferðar málsins fyrir Hæstarétti, sem ákveðin verður eins og í dómsorði greinir.

Dómsorð:

Staðfest er ákvörðun innanríkisráðherra 6. nóvember 2012 um framsal varnaraðila, X, til Póllands.

Kærumálskostnaður greiðist úr ríkissjóði, þar með talin þóknun skipaðs réttargæslumanns varnaraðila, Brynjólfs Eyvindssonar héraðsdómslögmanns, 150.000 krónur.

Héraðsdóms Reykjavíkur 25. janúar 2013 í máli nr. R-[...]/2012:

Málið barst dóminum 19. desember síðastliðinn og var þingfest 11. janúar síðastliðinn.  Það var tekið til úrskurðar 17. janúar síðastliðinn.

Sóknaraðili er ríkissaksóknari.

Varnaraðili er X, kennitala [...], til heimilis í [...].

Sóknaraðili krefst þess að staðfest verði ákvörðun innanríkisráðuneytisins frá 6. nóvember síðastliðinn um að framselja varnaraðila til Póllands.

Varnaraðili krefst þess að því verði hafnað að framselja hann til Póllands og þóknun réttargæslumanns síns verði greidd úr ríkissjóði.

II

Í greinargerð ríkissaksóknara er gerð svofelld grein fyrir málavöxtum og lagarökum fyrir því að orðið skuli við kröfu hans:  „Ákvörðun innanríkisráðuneytisins frá 6. nóvember 2012 varðar beiðni pólskra dómsmálayfirvalda um framsal varnaraðila, sem er pólskur ríkisborgari, til Póllands til fullnustu þriggja refsidóma. Samkvæmt framsalsbeiðninni, dags. 30. júlí 2012, og meðfylgjandi gögnum er um að ræða eftirfarandi dóma:

1.      Dómur uppkveðinn 19. janúar 2006 í máli nr. IX K 761/05, fyrir brot gegn 276. gr. pólskra hegningarlaga, með því að hafa haft undir höndum heimildarlaust persónuskilríki tveggja manna og ökuskírteini annars þeirra. Var hann dæmdur í 8 mánaða skilorðsbundið fangelsi til 3 ára.

Með ákvörðun dómsins frá 31. ágúst 2007 var honum gert að afplána fangelsisrefsinguna vegna skilorðsrofa, þar sem hann hafi gerst sekur um brot gegn fíkniefnalögum, sbr. dóminn í 2. lið.

Með ákvörðun dómsins frá 8. desember 2008 var framkvæmd fullnustu refsingarinnar frestað og leit að varnaraðila fyrirskipuð með vísan til þess að hann hafði ekki mætt sjálfviljugur til afplánunar, dvalarstaður hans var ókunnur, og hann leyndist yfirvöldum.

2.      Dómur uppkveðinn 9. maí 2007 í máli nr. II K 234/07, fyrir brot gegn 1. mgr. 62. gr. pólskra fíkniefnalaga, með því að hafa haft í vörslum sínum 0,18 g af kannabis. Var hann dæmdur í 3 mánaða skilorðsbundið fangelsi til 3 ára og til greiðslu 500 PLN sektar til fíkniefnaforvarna.

Með ákvörðun dómsins frá 28. maí 2008 var honum gert að afplána fangelsisrefsinguna vegna skilorðsrofa, þar sem  hann hafði ekki greitt sektina, ekki sinnt því að vera undir eftirliti skilorðsfulltrúa og bjó ekki lengur á dvalarstað sínum.

Með ákvörðun dómsins frá 9. september 2009 var framkvæmd fullnustu refsingarinnar frestað og leit að varnaraðila fyrirskipuð með vísan til þess að hann hafði ekki mætt sjálfviljugur til afplánunar, dvalarstaður hans var ókunnur, og hann leyndist yfirvöldum.

3.      Dómur uppkveðinn 16. júlí 2003 í máli nr. II K 276/03, fyrir brot gegn 1. mgr. 279. gr. pólskra hegningarlaga, með því að hafa í fyrsta lagi brotist inn á læknastofu og stolið þaðan munum að verðmæti 500 PLN og í öðru lagi að hafa brotist inn á læknastofu og stolið þaðan munum að verðmæti 5000 PLN. Var hann dæmdur í 18 mánaða skilorðsbundið fangelsi til 4 ára og til greiðslu skaðabóta að fjárhæð 1.000 PLN.

Með ákvörðun dómsins frá 31. ágúst 2007 var honum gert að afplána fangelsisrefsinguna vegna skilorðsrofa með því að hafa á skilorðstímanum brotið af sér, sbr. dómana í 1. og 2. lið.

Með ákvörðun dómsins frá 8. desember 2008 var framkvæmd fullnustu refsingarinnar frestað og leit að varnaraðila fyrirskipuð með vísan til þess að hann hafði ekki mætt sjálfviljugur til afplánunar, dvalarstaður hans var ókunnur, og hann leyndist yfirvöldum.

Varnaraðila var kynnt framsalsbeiðnin hjá lögreglustjóranum á höfuðborgarsvæðinu þann 8. ágúst 2012. Aðspurður kvað hann beiðnina eiga við sig en mótmælti framsali.

Ríkissaksóknari sendi innanríkisráðuneytinu gögn málsins ásamt álitsgerð varðandi lagaskilyrði framsals, dags. 8. október 2012. Voru skilyrði framsals samkvæmt lögum nr. 13/1984 talin uppfyllt að því er varðaði verknaðinn samkvæmt dóminum frá 16. júlí 2003. Skilyrðin voru hins vegar ekki talin fyrir hendi varðandi verknaðina samkvæmt dómunum frá 19. janúar 2006 og 9. maí 2007. Var talið skorta á skilyrði 1. mgr. 3. gr. laganna að því er varðar hinn fyrrnefnda verknað og á skilyrði 1. tl. 3. mgr. 3. gr. laganna að því er varðar hinn síðarnefnda.

Sem fyrr greinir tók innanríkisráðuneytið ákvörðun í máli þessu með bréfi, dags. 6. nóvember 2012. Að mati ráðuneytisins þóttu ekki nægjanlegar ástæður fyrir hendi til að réttmætt væri að synja um framsal á grundvelli mannúðarákvæðis 7. gr. framsalslaganna nr. 13/1984 og féllst ráðuneytið því á framsalsbeiðnina.

Ákvörðun ráðuneytisins var kynnt varnaraðila þann 8. nóvember sl. hjá lögreglustjóranum á höfuðborgarsvæðinu. Sama dag barst ríkissaksóknara bréf varnaraðila um kröfu hans um úrskurð Héraðsdóms Reykjavíkur.

Um skilyrði framsals samkvæmt I. og II. kafla laga nr. 13/1984 er vísað til áðurnefndrar álitsgerðar ríkissaksóknara frá 8. október sl. og ákvörðunar innanríkisráðuneytisins frá 6. nóvember sl. 

Rétt er að geta þess að samkvæmt kerfi lögreglunnar á varnaraðili nú nokkur ólokin mál hjá lögreglustjóranum á höfuðborgarsvæðinu, sem upp hafa komið einkum síðustu tvo mánuði. Um er að ræða þjófnaði og fjársvik í nokkrum tilvikum, líkamsárás og brot gegn valdstjórninni. Ákæra hefur ekki verið gefin út vegna brotanna og því stendur 10. gr. laga nr. 13/1984 ekki í vegi fyrir framsali.“

III

Varnaraðili skýrir svo frá málavöxtum að hann hafi komið til Íslands haustið 2007 í atvinnuleit. Frá komu sinni hafi hann unnið á ýmsum stöðum milli þess sem hann hafi verið á atvinnuleysisbótum. Hann kveðst vera einhleypur, en eiga dóttur í [...] sem hann sendi peninga. Hann kveðst ekki eiga ættingja hér á landi.Varnaraðili kveðst kannast við dómana, sem eru grundvöllur framsalsbeiðninnar og að þeir hafi verið bundnir skilorði. Hann tekur undir það álit sóknaraðila að fyrri dómarnir tveir geti ekki verið grundvöllur framsals.Varðandi dóminn frá 16. júlí 2003 tekur varnaraðili fram að hann hafi þá verið nýorðinn 17 ára og því hafi verið um bernskubrek að ræða. Auk þess hafi verðmæti hins stolna verið lítið. Þá tekur hann fram að hann hafi verið sér þess meðvitaður, þegar hann yfirgaf Pólland, að þessum málum hans væri ólokið og með dvöl sinni hér á landi hafi hann í raun leynst þarlendum yfirvöldum.    

Varnaraðili byggir á því að hagsmunir hans af því að verða ekki framseldur séu ríkari en pólska ríkisins af því að fá hann framseldan. Hér á landi hafi hann stundað vinnu og ekki verið dæmdur fyrir afbrot. Þá eigi hann barn erlendis sem hann framfæri að hluta til. Af þessu leiði að framsal hans myndi raska stöðu hans verulega og hljóti það að vega þyngra en hagsmunir pólskra yfirvalda af því að fá hann framseldan vegna gamals afbrots.

Einnig byggir hann á því að ekki liggi fyrir staðfesting á því að honum verði ekki gert að afplána refsingu samkvæmt þeim tveimur dómum sem innanríkisráðuneytið og ríkissaksóknari töldu ekki uppfylla skilyrði til að vera grundvöllur framsals, komi til þess að hann verði framseldur. Vísar hann til 1. mgr. 11. gr. laga nr. 13/1984 og kveður innanríkisráðuneytinu hafa borið að binda samþykki framsals því skilyrði að honum yrði ekki gert að afplána refsingu samkvæmt þessum dómum. Þar eð það var ekki gert beri að hafna kröfu um framsal. Loks vísar varnaraðili til meðalhófsreglu 12. gr. stjórnsýslulaga nr. 37/ 1993 og til ákvæða laga nr. 13/1984.

IV          

Samkvæmt 1. gr. laga nr. 13/1984 um framsal sakamanna og aðra aðstoð í sakamálum er heimilt að framselja mann ef hann er í erlendu ríki grunaður, ákærður eða dæmdur fyrir refsiverðan verknað. Þær upplýsingar og gögn sem kveðið er á um í 12. gr. laganna að fylgja skuli framsalsbeiðni eru öll til staðar í máli þessu. 

Samkvæmt 1. mgr. 3. gr. laganna er framsal á manni því aðeins heimilt ef verknaður eða sambærilegur verknaður getur varðað fangelsi í meira en 1 ár samkvæmt íslenskum lögum. Brot varnaraðila, sem hann var dæmdur fyrir með dóminum 16. júlí 2003, varðar við 244. gr. almennra hegningarlaga. Refsing fyrir brot gegn henni getur orðið allt að 6 ára fangelsi. Skilyrði 1. mgr. 3. gr. laganna um framsal varnaraðila eru því uppfyllt varðandi þennan dóm. Hinir dómarnir tveir fullnægja ekki skilyrðum laganna fyrir framsali eins og getið er um í greinargerð ríkissaksóknara. Þá liggur fyrir ákvörðun af hálfu dómstóls í Póllandi um að varnaraðili skuli afplána refsinguna og er því einnig uppfyllt skilyrði 2. mgr. 3. gr. laganna. Þá er ekkert það komið fram sem gefur ástæðu til að ætla að einhver þeirra atriða sem um getur í 5. mgr. 3. gr. laganna eigi við. Loks er þess að geta að sök er ófyrnd og því uppfyllt skilyrði 9. gr. laganna.  

Varnaraðili byggir á því að hagsmunir hans af því að verða ekki framseldur séu mun ríkari en pólska ríkisins af að fá hann framseldan, eins og rakið var. Hér að framan var komist að því að skilyrði 3. gr. laganna væru uppfyllt og verður þessari málsástæðu varnaraðila því hafnað. Í framangreindri ákvörðun innanríkisráðherra er tekin rökstudd afstaða til þess hvort mannúðarástæður eigi að leiða til þess að kröfu um framsal verði hafnað.  Í ákvörðuninni er fjallað um þær ástæður, sem varnaraðili telur að við eigi og hvernig þær horfa við samkvæmt skýringu á 7. gr. Þetta mat ráðherra verður ekki endurskoðað, enda hafa ekki verið leiddar líkur að því að aðstæður varnaraðila hafi ekki verið metnar með réttum og málefnalegum hætti. Þá ber að geta þess að varnaraðili hefur verið kærður til lögreglu á síðasta ári og þessu fyrir brot á hegningarlögum og áfengislögum en með því að ekki hefur verið gefin út ákæra á hendur honum stendur 10. gr. laganna ekki í vegi fyrir framsali.

Eins og að framan var rakið krefjast pólsk yfirvöld þess að varnaraðili verði framseldur til að hægt sé að fullnusta refsingu vegna þriggja framangreindra dóma. Tveir dómanna uppfylla ekki skilyrði íslenskra laga, sbr. 1. mgr. 3. gr. laga nr. 13/1984 eins og rakið var. Í 1. mgr. 11. gr. laganna segir að setja skuli þar greind skilyrði fyrir framsali og þeirra á meðal er að hinn framseldi maður verði ekki látinn taka út refsingu fyrir annan refsiverðan verknað sem framinn var áður en til framsals kom. Eins og atvikum er háttað í þessu máli bar innanríkisráðuneytinu að setja þau skilyrði í ákvörðun sinni að varnaraðili yrði ekki látinn afplána refsingar samkvæmt framangreindum dómum. Með því að ráðuneytið gætti ekki að þessum skilyrðum laganna er óhjákvæmilegt að fella ákvörðun þess úr gildi.

Samkvæmt framansögðu er kröfu sóknaraðila hafnað og ákvörðun innanríkisráðuneytisins frá 6. nóvember 2012 um að framselja varnaraðila til Póllands felld úr gildi. 

Þóknun réttargæslumanns varnaraðila skal greidd úr ríkissjóði eins og nánar greinir í úrskurðarorði.

Arngrímur Ísberg héraðsdómari kvað upp úrskurðinn.

Ú R S K U R Ð A R O R Ð

       Ákvörðun innanríkisráðuneytisins frá 6. nóvember 2012 um að framselja varnaraðila, X, til Póllands er felld úr gildi.

Þóknun réttargæslumanns varnaraðila, Brynjólfs Eyvindssonar hdl., 251.000 krónur að meðtöldum virðisaukaskatti, skal greidd úr ríkissjóði.

Arngrímur Ísberg