Hæstiréttur íslands

Mál nr. 761/2012


Lykilorð

  • Kærumál
  • Þýðing skjals
  • Frávísunarúrskurður felldur úr gildi
  • Aðfinnslur


                                              

Þriðjudaginn 29. janúar 2013.

Nr. 761/2012.

Brimborg ehf.

(Tómas Jónsson hrl.)

gegn

Wilbert Heijnens

(Einar Gautur Steingrímsson hrl.)

Kærumál. Þýðing skjals. Frávísunarúrskurður felldur úr gildi. Aðfinnslur.

Kærður var úrskurður héraðsdóms þar sem máli B ehf. gegn W var vísað frá dómi með vísan til þess að málatilbúnaður B ehf. væri ekki í samræmi við þá reglu að þingmálið væri íslenska. Hafði B ehf. lagt fram íslenska útgáfu af tilteknu skjali sem byggt var á í málinu en ekki löggilta þýðingu. Í dómi Hæstaréttar kom fram að þess væri ekki getið í hinum kærða úrskurði hvaða ágreiningur væri milli aðila um túlkun skjalsins og hvaða þýðingu sá munur hefði fyrir málið. Þar sem engin andmæli eða athugasemdir hefðu komið frá W þegar B ehf. lagði fram íslenska útgáfu skjalsins þar til aðalmeðferð fór fram var lagt til grundvallar að aðilar hefðu báðir unað að þessu leyti við texta þess. Bæri því að leggja þá útgáfu til grundvallar við úrlausn málsins. Var hinn kærði úrskurður því felldur úr gildi.

Dómur Hæstaréttar.

Mál þetta dæma hæstaréttardómararnir Viðar Már Matthíasson og Greta Baldursdóttir og Ingveldur Einarsdóttir settur hæstaréttardómari.

Sóknaraðili skaut málinu til Hæstaréttar með kæru 13. desember 2012, sem barst réttinum ásamt kærumálsgögnum 21. sama mánaðar. Réttinum bárust frekari gögn síðar. Kærður er úrskurður Héraðsdóms Reykjavíkur 30. nóvember 2012, þar sem máli sóknaraðila á hendur varnaraðila var vísað frá dómi. Kæruheimild er í j. lið 1. mgr. 143. gr. laga nr. 91/1991 um meðferð einkamála. Sóknaraðili krefst þess að hinn kærði úrskurður verði felldur úr gildi. Þá krefst hann kærumálskostnaðar.

Varnaraðili krefst staðfestingar hins kærða úrskurðar og kærumálskostnaðar.

I

Mál þetta var þingfest í héraði 2. september 2010. Í stefnu til héraðsdóms kemur fram að sóknaraðili reki bílaleigu undir tilgreindu nafni. Hafi varnaraðili tekið bifreið á leigu hjá honum tímabilið 5. til 24. ágúst 2009 af gerðinni Ford Expedition með skráningarnúmerinu PZU0[7]. Hann hafi ekið bifreiðinni í djúpa á og við það hafi hún skemmst sökum vatns, sem meðal annars hafi flætt inn á vél hennar. Viðgerðarkostnaður vegna þessa hafi verið 1.284.247 krónur en varnaraðili hafi farið af landi brott án þess að greiða kostnaðinn. Reynt hafi verið að innheimta kröfuna en þegar það tókst ekki hafi málshöfðun verið nauðsynleg. Í stefnu er í sérstökum kafla gerð grein fyrir málsástæðum. Þótt sú lýsing sé ýmsum annmörkum háð kemur þar nægilega skýrt fram að stefndi reisi kröfu sína á reikningi vegna viðgerðarkostnaðar á bifreiðinni. Greiðsluskylda stefnda sé reist á samningi aðila, en að auki á reglum skaðabótaréttar utan samninga. Í kafla um lögfræðileg rök er einnig vísað til reglna um skaðabætur innan samninga. Vísað er til skilmála leigusamnings um bifreiðina, 6. gr. d og 24. gr. i, en samkvæmt þeim beri varnaraðili ábyrgð á tjóni sem hlotist gæti af því að hann æki bifreiðinni út í á eða vatnsföll. Í framhaldinu er efni þessara ákvæða leiguskilmálanna rakið nánar.

II

Við þingfestingu málsins lagði sóknaraðili fram, auk stefnu og birtingarvottorðs og fleiri gagna um birtinguna á hollensku, dómskjal nr. 3 áðurnefndan leigusamning auk skilmála á ensku, nr. 4 áætlun um viðgerðarkostnað, nr. 5 reikning vegna viðgerðarkostnaðar og nr. 6 og 7 bréf hans til varnaraðila.

Er málið var fyrst tekið fyrir 30. september 2010 eftir þingfestingu þess var bókað að varnaraðili gerði kröfu um að sóknaraðili legði fram þýðingu á þeim skjölum, sem lögð höfðu verið fram á hollensku yfir á íslensku. Þau gögn vörðuðu sem fyrr segir birtingu stefnu. Þá var einnig bókað að varnaraðili krefðist þess að sóknaraðili legði fram frumrit leigusamnings um bifreiðina. Er málið var næst tekið fyrir var meðal annars bókað: ,,Lögmaður [varnaraðila] ítrekar kröfu sína um íslenska þýðingu allra skjala sem lögð hafa verið fram í málinu og ítrekar jafnframt að lagt sé fram frumrit“ leigusamnings á dómskjali nr. 3. Eftir lögmanni sóknaraðila var bókað að hann teldi þegar framlögð skjöl nægjanleg.

Málið var næst tekið fyrir 8. nóvember 2010 en þá lagði sóknaraðili fram sem dómskjal nr. 8 ,,leiguskilmála á íslensku“. Vegna ágreinings um framlagningu þýðinga á skjölum tók dómari málsins rökstudda ákvörðun og var niðurstaðan sú að sóknaraðili skyldi leggja fram íslenska þýðingu á dómskjali nr. 3, leigusamningi að því leyti sem íslensk þýðing hafi ekki þegar verið lögð fram, og íslenska þýðingu dómskjala nr. 4, 5 og 6. Að öðru leyti taldi dómarinn ekki þörf á að þýða skjöl málsins.

Við fyrirtöku í málinu 16. desember 2010 lagði sóknaraðili fram í löggiltri þýðingu þau skjöl sem dómari hafði áður lagt fyrir hann að láta þýða.

Varnaraðili lagði fram greinargerð og ýmis skjöl í þinghaldi 10. febrúar 2011. Í upphafi greinargerðarinnar gerði varnaraðili athugasemd við að kröfu hans um þýðingu birtingarvottorðs hefði verið hafnað og fælist í því mismunun gegn erlendis búsettum aðila. Í greinargerðinni krafðist varnaraðili aðallega frávísunar málsins frá héraðsdómi, til vara sýknu annars vegar vegna aðildarskorts en hins vegar vegna annarra efnisástæðna, en að því frágengnu krafðist hann lækkunar á kröfu sóknaraðila. Frávísunarkrafan var reist á ætlaðri vanreifun málsins af hálfu sóknaraðila. Í greinargerðinni var ekki, að öðru leyti en að framan greinir, að finna mótmæli gegn þegar framlögðum þýðingum eða athugasemdir um að þörf væri frekari þýðinga á gögnum málsins.

Málið var næst tekið fyrir 14. apríl 2011 og fór þá dómari ásamt lögmönnum aðila yfir gögn þess. Engar athugasemdir voru bókaðar um að þörf væri frekari þýðinga á efni málsskjala. Í þessu þinghaldi var bókað að dómari frestaði málinu til flutnings um frávísunarkröfu varnaraðila til 20. september 2011 eða um fimm mánuði. Málið var þó ekki tekið fyrir fyrr en 11. nóvember 2011 en þá hafði annar dómari fengið því úthlutað vegna veikinda fyrri dómara. Kveðinn var upp úrskurður 14. desember 2011 þar sem kröfu um frávísun málsins var hafnað.

Eftir það var málið tekið fyrir 11. janúar 2012. Þá var bókað að lögmenn teldu öflun sýnilegra sönnunargagna lokið. Að því búnu var málinu frestað til aðalmeðferðar, sem fram skyldi fara 8. júní 2012. Dómari sá, sem upphaflega fór með málið, tók við því að nýju 1. febrúar sama ár. Aðalmeðferð fór ekki fram 8. júní það ár, eins og áður hafði verið ákveðið, heldur var málinu frestað ,,utan réttar“ til 5. október 2012 og fór aðalmeðferð þess þá fram. Eftir að þrjú vitni höfðu gefið skýrslu fór fram munnlegur málflutningur. Bókað var að lögmaður varnaraðila teldi misræmi milli ensku og íslensku skilmálanna í leigusamningi. Var bókað að vegna fyrirspurnar frá dómara samsinntu báðir lögmenn því að íslensk útgáfa skilmála leigusamningsins væri ekki þýðing á hinni ensku útgáfu þeirra.

Tæpum átta vikum eftir að aðalmeðferð lauk var hinn kærði úrskurður kveðinn upp eftir að gætt hafði verið ákvæða 1. mgr. 115. gr. laga nr. 91/1991.

III

Svo sem fram er komið varðar mál þetta ætlaða kröfu sóknaraðila vegna skemmda sem hann kveður varnaraðila hafa valdið á bifreið, sem hann leigði af sóknaraðila. Varnaraðili undirritaði forhlið leigusamnings og skilmála um leigu bifreiðarinnar á ensku. Lagt var fram skjal sem nefnt var ,,leiguskilmálar á íslensku“ en samningurinn sjálfur, það er forhlið hans, hefur verið lagður fram í löggiltri þýðingu.

Sakarefni máls þessa er einfalt og afmarkað. Varnaraðila bar að setja fram andmæli við framlögðum gögnum þar með ef hann taldi að þýðingu skjala væri ábótavant þegar í greinargerð sinni, eða strax og tilefni gæfist til, væru þýðingar lagðar fram síðar, sbr. 5. mgr. 101. gr. laga nr. 91/1991. Kom ekki fram í greinargerð hans eða annars staðar að hann teldi vörnum sínum hafa verið áfátt vegna þess að þýðing skilmála leigusamningsins var ekki löggilt þýðing á enskri útgáfu þeirra, heldur íslensk útgáfa.

Í hinum kærða úrskurði er þess hvorki getið að hvaða leyti aðilar deili um túlkun á 24. gr. i í leiguskilmálum né hver efnislegur munur eigi að vera á íslensku og ensku útgáfu skilmálanna og hvaða þýðingu sá munur hefði fyrir málið. Verður, í ljósi þess að engin andmæli eða athugasemdir komu frá varnaraðila frá 8. nóvember 2010 og þar til aðalmeðferð málsins fór fram tæpum tveimur árum síðar, að leggja til grundvallar að báðir aðilar hafi unað við þann texta sem að þessu leyti kom fram í íslenskri útgáfu skilmálanna. Ber því að leggja hana til grundvallar við úrlausn málsins.

Samkvæmt þessu verður hinn kærði úrskurður felldur úr gildi og lagt fyrir héraðsdómara að taka málið til löglegrar meðferðar.

Varnaraðili greiði sóknaraðila kærumálskostnað eins og í dómsorði greinir.

Það athugast að eftir að aðilarnir lögðu fram greinargerðir fyrir Hæstarétti hvor fyrir sitt leyti lagði varnaraðili fram svonefndar athugasemdir til að svara málatilbúnaði í greinargerð sóknaraðila og lagði sá síðarnefndi einnig fram athugasemdir fyrir sitt leyti í kjölfarið. Fyrir þessum skriflega málflutningi aðilanna er engin lagaheimild og er hann aðfinnsluverður.

Dómsorð:

Hinn kærði úrskurður er felldur úr gildi og lagt fyrir héraðsdómara að taka málið til löglegrar meðferðar.

Varnaraðili, Wilbert Heijnens, greiði sóknaraðila, Brimborg ehf., kærumálskostnað, 300.000 krónur.

Úrskurður Héraðsdóms Reykjavíkur 30. nóvember 2012.

Mál þetta sem var dómtekið 5. október sl. var höfðað með birtingu stefnu 2. júní 2010. Stefnandi er Brimborg ehf., Bíldshöfða 6, Reykjavík. Stefndi er Wilbert Heijnens, Lavendelheide 8, Grubbenvorst, Limburg, Hollandi.

Stefnandi gerir þær dómkröfur að stefndi verði dæmdur til að greiða stefnanda skuld að fjárhæð 1.284.247 krónur, auk dráttarvaxta samkvæmt 1. mgr. 6. gr. laga nr. 38/2001 um vexti og verðtryggingu, af 1.284.247 krónum frá 2. desember 2009 til greiðsludags. Þá krefst stefnandi málskostnaðar að mati réttarins.

Endanlegar dómkröfur stefnda eru þær að hann verði sýknaður af öllum kröfum stefnanda. Til vara krefst hann lækkunar á kröfum stefnanda, þ.e. að honum verði aðeins gert að greiða stefnanda 353.262 krónur. Í báðum tilvikum krefst stefndi málskostnaðar að skaðlausu að mati réttarins.

Málið var þingfest 2. september 2010. Stefnda var veittur frestur til að skila greinargerð til 30. september s.á. Þá skoraði stefndi á stefnanda að leggja fram þýðingu á skjölum sem lögð höfðu verið fram á hollensku og enn fremur að frumrit samnings aðila yrði lagt fram. Stefnanda var veittur frestur til 28. október s.á. Þá lýsti lögmaður stefnanda því yfir að hann teldi framlögð gögn nægileg. Málinu var frestað til 8. nóvember s.á. Þá lagði stefnandi fram leiguskilmála á íslensku og flutningur fór fram um þá kröfu stefnda að lögð yrði fram íslensk þýðing allra skjala sem lögð hefðu verið fram í málinu á erlendum málum svo og frumrit samnings sem lagður hafði verið fram við þingfestingu málsins. Þann 9. nóvember 2010 tók dómari ákvörðun um að stefnandi skyldi leggja fram íslenska þýðingu á tilteknum skjölum og frumrit samnings með vísan til 3. mgr. 10. gr. laga nr. 91/1991. Stefnanda var veittur frestur til 9. desember s.á. í því skyni. Þann dag fékk stefndi frest til 16. desember s.á. til að leggja fram greinargerð. Þegar málið var tekið fyrir þann dag voru lögð fram gögn af hálfu stefnanda og stefnda enn veittur frestur til að skila greinargerð til 10. febrúar 2011, sem hann gerði þann dag, og fór málið þá þegar í úthlutun til dómstjóra. 

Undirritaður dómari tók málið fyrst fyrir 14. apríl 2011 og var málinu frestað til flutnings um frávísunarkröfu stefnda til 20. september s. á. Málinu var síðan frestað utan réttar til 11. nóvember s. á. vegna veikindaleyfis dómara en nýr dómari tók við málinu 30. september 2011. Málið var flutt um frávísunarkröfu stefnda 5. desember 2011 og 14. desember s. á. var frávísunarkröfu hans hafnað. Málinu var að svo búnu frestað til 8. júní 2012. Undirritaður dómari tók að nýju við málinu 1. febrúar 2012 og var því frestað til aðalmeðferðar utan réttar til 5. október s. á. Að loknum málflutningi var málið dómtekið.

Í stefnu segir að umkrafin skuld sé samkvæmt reikningi nr. 108942 og sé tilkomin vegna viðskipta stefnda við stefnanda en stefnandi reki m.a. bílaleigu undir nafninu Dollar Thrifty. Reikningurinn sé byggður á leigusamningi nr. L21582 en þann 30. apríl 2009 hafi stefndi skrifað undir fyrrgreindan samning um leigu á bifreiðinni PZU09 af stefnanda, fyrir tímabilið 5. ágúst 2009 til 24. ágúst 2009. Á leigutímanum hafi stefndi ekið bifreiðinni, sem var af gerðinni Ford Expedition, út í djúpa á og þannig brotið gegn skilmálum samningsins. Við þetta hafi bifreiðin skemmst töluvert og viðgerðarkostnaður af þeim sökum nemi 1.284.247 króna. Stefndi hafi horfið af landi brott án þess að greiða fyrir skemmdirnar þrátt fyrir loforð um það. Tilraunir til að innheimta skuldina hafi reynst árangurslausar.

Stefnandi heldur því fram að stefnda beri að bæta honum framangreindan viðgerðarkostnað samkvæmt samningi aðila og almennum reglum skaðabótaréttarins. Hann byggir kröfuna á reglum samninga- og kröfuréttar um loforð og efndir fjárskuldbindinga auk meginreglna skaðabótaréttar, almennu skaðabótareglunnar og almennra reglna um skaðabætur innan samninga. Tekið sé fram í samningi aðila að stefndi beri ábyrgð á tjóni í tilvikum sem þessu. Samkvæmt samningsskilmálum hafi leigutaka verið bannað að keyra út í ár og hann beri því alfarið ábyrgð á skaðanum sem hlotist hafi af því, sbr. gr. 6.d og 24.i. Annars vegar sé samkvæmt d-lið 6. gr. bannað að keyra í eða yfir ár eða vötn. Bannið gildi þó ekki um allar bifreiðar sem hægt sé að leigja en slíkur akstur sé þó alltaf á ábyrgð leigutaka. Í 24. gr. samningsskilmálanna sé fjallað um kaskótryggingu bifreiða sem leigðar séu og í i. lið þeirrar greinar sé tekið fram að tryggingin nái ekki yfir þegar bifreið sé ekið um svæði þar sem akstur sé bannaður samkvæmt samningi, eins um hafi verið að ræða í þessu tilfelli. Stefnda beri að standa við skyldur sínar samkvæmt samningnum sem hann hafi undirritað samkvæmt almennum reglum samninga- og kröfuréttar um loforð og efndir fjárskuldbindinga. Dráttarvaxtakrafa stefnda miðast við útgáfudag reikningsins, þ.e. 2. desember 2009 og er byggð á III. kafla laga um vexti og verðtryggingu nr. 38/2001. Krafa stefnanda um málskostnað byggir á 129. og 130. gr. laga nr. 91/1991 um meðferð einkamála.

Stefnandi lagði fram frumrit samningsins, sem hann byggir reikningskröfuna á og þar með dómkröfu, eftir að málið var þingfest og einnig íslenska þýðingu á honum. Um er að  ræða skjal sem ber heitið „Rental contract L21582 SVN 068333“ (í íslenskri þýðingu: „Leigusamningur L21582 SVN 068333“). Viðheft er  annað skjal sem ber yfirskriftina „Car Rental Agreement – Terms and Conditions“. Ólæsilegar undirritanir eru bæði á samningnum og skilmálunum undir yfirskriftinni renter. Stefndi kannast við að hafa undirritað samninginn og mótmælir því ekki að hafa undirritað skilmálana. Segir hins vegar ósannað að honum hafi verið kynnt efni þeirra á þeim tíma hann sé sagður hafa undirritað þá.

Krafa stefnanda á hendur stefnda byggð á reikningi vegna viðgerðarkostnaðar hinnar leigðu bifreiðar. Stefnandi heldur því fram að á grundvelli þeirra skyldna sem stefndi hafi gengist undir samkvæmt fyrrgreindum samningi og samningsskilmálunum beri honum að greiða viðgerðarkostnaðinn.  Í stefnu er eins og áður sagði m.a. byggt á því að 24. gr. skilmálanna fjalli um kaskótryggingu bifreiða sem leigðar séu og í i-lið þeirrar greinar sé tekið fram að tryggingin nái ekki yfir þegar bifreið sé ekið um svæði þar sem akstur sé bannaður samkvæmt samningi eins og um hafi verið að ræða í því tilviki sem hér um ræðir. 

Við flutning málsins deildu aðilar m.a. um túlkun i-liðar 24. gr. i skilmálanna en 24. gr. þeirra hefur að geyma lista yfir atriði sem kaskótryggingin nær ekki yfir.  Af hálfu lögmanns stefnda var bent á það að misræmi væri á milli ensku og íslensku skilmálanna. Íslensku skilmálarnir væru ekki þýðing á ensku skilmálunum. Lögmaður stefnanda staðfesti það.

Stefnandi lagði fram umrætt skjal með sem ber yfirskriftina „Leiguskilmálar“ þann 8. nóvember 2010 í kjölfar ítrekaðra áskorana stefnda um að stefnandi legði fram þýðingu allra skjala sem lögð hefðu verið fram í málinu. Í þinghaldi 14. apríl 2011 fór dómari yfir gögn málsins með lögmönnum aðila vegna skorts á skýrleika í bókun framlagðra gagna í þingbók áður en málinu var úthlutað til dómara. Það var bókað að íslensku skilmálarnir sem stefnandi lagði fram 8. nóvember 2010 væru „íslensk þýðing á leiguskilmálum bílaleigusamnings“.

Í umdeildum samningi er að finna ákvæði sem hljóðar svo í íslenskri þýðingu: „Kaskótrygging sjálfsábyrgð: 195.000“. Eins og fram hefur komið snýst ágreiningur aðila m.a. um hvort þau sérstöku frávik sem kveðið er á um í i-lið 24. gr. ensku skilmálanna eigi við með hliðsjón af atvikum málsins. Samkvæmt 10. gr. laga nr. 91/1991 um meðferð einkamála hefði því þurft að leggja þýðingu á ensku samningsskilmálunum. Það hefur stefnandi ekki gert og þrátt fyrir þá ákvörðun dómara 9. nóvember 2010 að stefnandi skyldi leggja fram þýðingu á nánar tilgreindum dómskjölum, þ.á m. umræddum skilmálum sem lagðir höfðu verið fram í afriti við þingfestingu málsins, og að því leyti sem íslensk þýðing hefði ekki verið lögð fram nú þegar.

Þessi málatilbúnaður stefnanda er í andstöðu við 10. gr. laga nr. 91/1991 og er með þeim hætti að stefnda er gert erfitt um vik að færa fram varnir sínar gegn kröfum stefnanda og þá ekki síður dómara að dæma um réttmæti þeirra. Málinu er því vísað frá dómi án kröfu.

Í samræmi við niðurstöðu málsins og með vísan til 2. mgr. 130. gr. laga nr. 91/1991 ber stefnanda að greiða stefnda málskostnað sem þykir eftir atvikum og umfangi málsins hæfilega ákveðinn 700.000 krónur.

Uppkvaðning úrskurðarins hefur dregist fram yfir frest samkvæmt 1. mgr. 115. gr. laga nr. 91/1991. Aðilar og dómari töldu hins vegar ekki þörf á því að málið yrði flutt að nýju.

Áslaug Björgvinsdóttir héraðsdómari kveður upp úrskurðinn.

ÚRSKURÐARORÐ:

Máli þessu er vísað frá dómi.

Stefnandi, Brimborg ehf., greiði stefnda, Wilbert Hejnens, 700.000 krónur í málskostnað.