Hæstiréttur íslands
Mál nr. 120/2015
Lykilorð
- Kærumál
- Vanreifun
- Frávísunarúrskurður staðfestur
|
|
Mánudaginn 16. mars 2015. |
|
Nr. 120/2015.
|
Sverrir Einar Eiríksson (Skúli Sveinsson hdl.) gegn Hraðpeningum ehf. og Skorra Rafni Rafnssyni (Jóhannes Sigurðsson hrl.) |
Kærumál. Vanreifun. Frávísunarúrskurður staðfestur.
Kærður var úrskurður héraðsdóms þar sem kröfu S, um að viðurkennt yrði með dómi að hann væri einn af hluthöfum H ehf., var vísað frá dómi. Samkvæmt fylgiskjali með ársreikningi H ehf. fyrir árið 2011 var félagið J Ltd. skráð eini hluthafi H ehf. Í niðurstöðu Hæstaréttar kom fram að S hefði getað beint málsókn að H ehf. með dómkröfu um að í hluthafaskrá félagsins yrði fært að S væri hluthafi í því og ætti þar þriðjung heildarhlutafjár. Hann hefði einnig getað beint máli að J Ltd. og haft uppi sömu kröfu og hann gerði í máli þessu á hendur H ehf. og SR. Hvorugt hefði S hins vegar gert. Þá yrði hvergi í málatilbúnaði hans fundin viðhlítandi skýring á ástæðum þess að hann hefði uppi fyrrgreinda kröfu í málinu og beindi henni þar að auki að H ehf. og SR. Var það því niðurstaða dómsins að reifun málsins væri svo áfátt af hendi S að staðfesta yrði niðurstöðu hins kærða úrskurðar.
Dómur Hæstaréttar.
Mál þetta dæma hæstaréttardómararnir Markús Sigurbjörnsson og Þorgeir Örlygsson og Karl Axelsson settur hæstaréttardómari.
Sóknaraðili skaut málinu til Hæstaréttar með kæru 9. febrúar 2015, sem barst réttinum ásamt kærumálsgögnum 16. sama mánaðar. Kærður er úrskurður Héraðsdóms Reykjavíkur 4. febrúar 2015, þar sem máli sóknaraðila á hendur varnaraðilum var vísað frá dómi. Kæruheimild er í j. lið 1. mgr. 143. gr. laga nr. 91/1991 um meðferð einkamála. Sóknaraðili krefst þess að hinn kærði úrskurður verði felldur úr gildi og lagt fyrir héraðsdóm að taka málið til efnismeðferðar. Þá krefst hann kærumálskostnaðar.
Varnaraðilar krefjast staðfestingar hins kærða úrskurðar og kærumálskostnaðar.
I
Samkvæmt gögnum málsins gerðu sóknaraðili og varnaraðilinn Skorri Rafn Rafnsson ásamt Gísla Rúnari Rafnssyni stofnskrá fyrir varnaraðilann Hraðpeninga ehf. 16. desember 2009 og héldu þá jafnframt stofnfund, en samþykktir höfðu þeir áður gert fyrir félagið 16. ágúst sama ár. Eftir þessum gögnum áttu stofnendurnir þrír hver sinn þriðjung í félaginu og tóku allir sæti í stjórn þess, varnaraðilinn Skorri sem formaður og hinir sem meðstjórnendur, en að auki var þeim hverjum fyrir sig veitt prókúruumboð. Í tilkynningu 16. desember 2009 um stofnun félagsins til fyrirtækjaskrár ríkisskattstjóra kom meðal annars fram að allt hlutafé, 1.500.000 krónur, hafi verið innborgað með peningum. Eins og greinir í hinum kærða úrskurði halda varnaraðilar því fram að hvorki hafi þó sóknaraðili né Gísli efnt hlutafjárloforð sín og kveðst varnaraðilinn Skorri því hafa staðið skil á hlutafé þeirra beggja. Um þetta vísar sá síðastnefndi til framlagðrar yfirlýsingar löggilts endurskoðanda varnaraðilans Hraðpeninga ehf. frá 17. september 2013, þar sem fram kemur að varnaraðilinn Skorri hafi innt af hendi sitt hlutafé í desember 2009, en hlutafé hinna hluthafanna tveggja 27. janúar 2010.
Fyrirtækjaskrá barst 7. janúar 2010 tilkynning um breytingu á stjórn varnaraðilans Hraðpeninga ehf., þar sem fram kom að varnaraðilinn Skorri sæti orðið einn í stjórn félagsins og væri varamaður hans Þorgeir Þorgeirsson, en tilkynning þessi var undirrituð af sóknaraðila, varnaraðilanum Skorra, Þorgeiri og fyrrnefndum Gísla. Sama dag var einnig tilkynnt til fyrirtækjaskrár að varnaraðilinn Skorri væri framkvæmdastjóri varnaraðilans Hraðpeninga ehf. svo og að hann færi einn með prókúruumboð fyrir félagið.
Í málinu liggur fyrir ársreikningur varnaraðilans Hraðpeninga ehf. fyrir 2009, sem dagsettur var 21. september 2010. Samkvæmt fylgiskjali með reikningnum var eini hluthafinn í félaginu á þeim tíma varnaraðilinn Skorri, sem átti jafnframt sæti í stjórn þess ásamt áðurnefndum Þorgeiri. Einnig liggur fyrir ársreikningur 2010, dagsettur 7. október 2011, en í hliðstæðu fylgiskjali með því kom fram að varnaraðilinn Skorri ætti allt hlutafé í félaginu, svo og að hann ætti ásamt Fjölvari Darra Rafnssyni sæti í stjórn þess. Loks er þess að geta að í fylgiskjali með ársreikningi félagsins 2011, sem var dagsettur 19. febrúar 2013, kom fram að stjórnarmenn í því væru fyrrnefndur Fjölvar og Óskar Þorgils Stefánsson, en eini hluthafinn í félaginu væri Jumdon Micro Finance Ltd. á Kýpur. Í málinu liggja ekki fyrir nýrri ársreikningar fyrir varnaraðilann Hraðpeninga ehf. en sá, sem hér var síðast getið, en í málatilbúnaði varnaraðila er staðhæft að umrætt erlent félag sé enn eini hluthafinn í Hraðpeningum ehf.
Í bréfi, sem sóknaraðili beindi 15. júlí 2013 til varnaraðilans Hraðpeninga ehf., var vísað til þess að nokkru áður hafi birst í fjölmiðli frétt um að eignarhald að félaginu „hafi verið flutt til eignarhaldsfélags á Kýpur.“ Hann kvaðst ekki kannast við að hafa selt hlut sinn í félaginu, en hann hafi verið meðal stofnenda þess og átt þriðjung hlutafjár. Af þessum sökum krefðist hann þess að haldinn yrði hluthafafundur í félaginu en því var hafnað. Að undangengnum frekari bréfaskiptum aðilanna höfðaði sóknaraðili mál þetta á hendur varnaraðilum 23. júní 2014 og krafðist þess að viðurkennt yrði að hann væri eigandi að hlutafé í varnaraðilanum Hraðpeningum ehf. að fjárhæð 500.000 krónur. Með hinum kærða úrskurði var orðið við kröfum varnaraðila um að málinu yrði vísað frá dómi.
II
Svo sem ráðið verður af áðursögðu byggir sóknaraðili á því í málinu að hann hafi sem einn af stofnendum varnaraðilans Hraðpeninga ehf. orðið hluthafi í félaginu í öndverðu og sé hann enn í röðum hluthafa, enda hafi hann ekki ráðstafað hlutafé sínu til annarra. Í málinu leitar hann dóms til viðurkenningar á því.
Málsókn í þeim tilgangi, sem að framan greinir, hefði sóknaraðili getað beint að varnaraðilanum Hraðpeningum ehf. með dómkröfu um að í hlutaskrá félagsins yrði fært að sóknaraðili væri hluthafi í því og ætti þar þriðjung heildarhlutafjár, sbr. að nokkru til hliðsjónar dóm Hæstaréttar 12. febrúar 2008 í máli nr. 68/2008. Hann hefði einnig getað beint máli að Jumdon Micro Finance Ltd. og haft þar uppi sömu dómkröfu og hann gerir í þessu máli á hendur varnaraðilum. Hvorugt þetta hefur sóknaraðili gert. Í málatilbúnaði hans verður hvergi fundin viðhlítandi skýring á ástæðum þess að hann hafi uppi fyrrgreinda kröfu í máli þessu og beini henni að auki að varnaraðilum. Reifun málsins er af þessum sökum svo áfátt af hendi sóknaraðila að staðfesta verður niðurstöðu hins kærða úrskurðar.
Sóknaraðila verður gert að greiða varnaraðilum kærumálskostnað eins og í dómsorði greinir.
Dómsorð:
Hinn kærði úrskurður er staðfestur
Sóknaraðili, Sverrir Einar Eiríksson, greiði varnaraðilum, Hraðpeningum ehf. og Skorra Rafni Rafnssyni, hvorum fyrir sig 200.000 krónur í kærumálskostnað.
Úrskurður Héraðsdóms Reykjavíkur 4. febrúar 2015.
I.
Mál þetta, sem tekið var til úrskurðar 7. janúar sl. um frávísunarkröfu stefndu, er höfðað af Sverri Einari Eiríkssyni, 53 Burnley Road, London, Bretlandi, á hendur Hraðpeningum ehf., Ármúla 29, Reykjavík, og Skorra Rafni Rafnssyni, Gvendargeisla 102, Reykjavík, með stefnu birtri 23. júní 2014.
Stefnandi krefst þess að viðurkennt verði með dómi að hann sé eigandi að hlutafé í félaginu Hraðpeningum ehf. að fjárhæð 500.000 krónur. Þá krefst hann málskostnaðar sér að skaðlausu úr hendi stefndu.
Stefndu krefjast þess aðallega að málinu verði vísað frá dómi en til vara að þeir verði sýknaðir. Jafnframt krefjast þeir málskostnaðar úr hendi stefnanda.
Stefnandi krefst þess í þessum þætti málsins að frávísunarkröfum stefndu verði hafnað og að stefndu verði gert að greiða honum málskostnað.
II.
Ágreiningur máls þessa lýtur að því hvort stefnandi teljist eigandi að þriðjungi hlutafjár að nafnvirði 500.000 krónur í hinu stefnda félagi, Hraðpeningum ehf. Samkvæmt tilkynningu um stofnun þess félags, sem móttekin var hjá fyrirtækjaskrá ríkisskattstjóra 17. desember 2009, var félagið stofnað 16. sama mánaðar og voru stofnendur og stjórnarmenn sagðir vera Gísli Rúnar Rafnsson, stefndi Skorri Rafn og stefnandi Sverrir Einar, hver með 33,333% hlut í félaginu. Jafnframt kemur fram í tilkynningunni að hlutafjársöfnun væri lokið og allt hlutafé félagsins, 1.500.000 krónur, væri greitt.
Með tilkynningu til fyrirtækjaskrárinnar, sem dagsett er 6. janúar 2010, og móttekin var daginn eftir, er upplýst að samkvæmt fundi í félaginu þann dag skuli stjórn þess þannig skipuð að formaður stjórnar og eini stjórnarmaður verði stefndi Skorri Rafn en varamaður Þorgeir Þorgeirsson. Undir þessa tilkynningu rita allir ofangreindir stofnendur félagsins auk framangreinds varamanns í stjórn.
Samkvæmt fyrirliggjandi ársreikningum stefnda Hraðpeninga ehf. fyrir reikningsárin 2009 og 2010 er stefndi Skorri Rafn sagður eigandi alls hlutafjár í félaginu en samkvæmt ársreikningi ársins 2011 er erlent félag með heitið Jumdon Micro Finance Ltd., með heimili á Kýpur, sagt eigandi að öllu hlutafé í félaginu.
III.
Stefnandi byggir kröfu sína á því að samkvæmt meginreglum félaga- og samningaréttar sé hann réttmætur eigandi að þeim 500.000 króna hlut í stefnda Hraðpeningum ehf., sem hann sé skráður fyrir í framangreindum stofngögnum félagsins. Tilkynning félagsins til fyrirtækjaskrár, með áritun löggilts endurskoðanda félagsins, sé staðfesting þess, sbr. 1. mgr. 11. gr. og 1. mgr. 9. gr. laga nr. 138/1994 um einkahlutafélög, að stefnandi hafi greitt hlutaféð að fullu. Þar sem hann hafi ekki á neinn hátt samþykkt ráðstöfun hlutafjárins eða afsalað sér rétti til þess til annars aðila sé hann enn réttmætur eigandi þess. Telji stefnandi að stefndi, Skorri Rafn, hafi misnotað aðstöðu sína með ólögmætum hætti, beitt blekkingum og slegið eign sinni á hlutafjáreign stefnanda og breytt hlutahafaskrá félagsins í samræmi við það.
Stefndu halda því fram að stefnandi hafi ekki staðið við skuldbindingu sína um að greiða hlutafjárloforð í stefnda, Hraðpeningum ehf., í samræmi við undirritun sína þar um í stofnskjölum félagsins og geti hann því ekki talið til réttar yfir hlutafénu. Hafi stefnandi, þrátt fyrir áskoranir þar um, ekki getað lagt fram nein gögn sem sýni að hann hafi greitt fyrir þennan hlut í félaginu. Ljóst sé að endurskoðandi félagsins hafi treyst orðum þeirra sem hlutafjárloforðin gáfu um að þeir hefðu greitt fyrir hlutaféð. Hins vegar taki yfirlýsing endurskoðandans frá 17. september 2013 af allan vafa um þetta atriði enda komi þar fram að meðstefndi, Skorri Rafn, hafi við stofnun félagsins greitt 500.000 krónur af hlutafénu og síðan skrifað sig fyrir afganginum af hlutafénu, 1.000.000 króna, þegar vanskil stefnanda lágu fyrir og hlutafjárloforð hans hefði verið fellt niður.
Krafa stefndu um frávísun er á því byggð að stefnandi hafi ekki gætt þess að stefna inn í málið þeim aðila sem sé eigandi hins umdeilda hlutafjár. Eins og fram komi í stefnu og fram lögðum ársreikningum sé Jumdon Micro Finance Ltd. skráður eigandi alls hlutafjár hins stefnda félags. Um þetta sé ekki ágreiningur með málsaðilum. Til þess að fá úrslausn um álitaefnið, þ.e. hvort stefnandi sé eigandi 33,3% hlutar í félaginu, hefði hann þurft að stefna Jumdon Micro Finance Ltd. til þess að þola dóm í málinu. Í raun eigi hið stefnda félag, Hraðpeningar ehf., ekki aðild að þeirri kröfu sem málið byggi á. Hinu stefnda félagi sé eingöngu skylt að halda hlutaskrá í félaginu og samkvæmt henni sé Jumdon Micro Finance Ltd. skráður hluthafi. Í málinu sé ekki gerð krafa um að nafn stefnanda sé fært í hluthafaskrá félagsins. Ef talið verði að hið stefnda félag og Jumdon Micro Finance Ltd. hafi sameiginlegar skyldur eða réttindi vegna kröfugerðar stefnanda beri að vísa málinu frá dómi, sbr. 1. og 2. mgr. 18. gr. laga um meðferð einkamála nr. 91/1991.
Stefnandi hafnar kröfu stefndu um að málinu verði vísað frá dómi. Segir hann ekkert liggja fyrir um hver sé nú handhafi umræddra hluta. Engin gögn finnist um félagið Jumdon Micro Finance Ltd., sem tilgreint sé í ársreikningum Hraðpeninga ehf. að sé nú skráð fyrir öllu hlutafé félagsins og sé skráð á Kýpur. Við nánari eftirgrennslan stefnanda hafi komið í ljós að Jumdon Micro Finance Ltd. sé ekki skráð á Kýpur og ekkert sé heldur vitað um hverjir séu forsvarsmenn þess. Af þeim sökum hafi stefnanda verið ókleift að stefna því félagi inn í málið að svo stöddu. Með hliðsjón af framangreindu, og þar sem stefndu hafi sjálfir þrátt fyrir áskoranir stefnanda ekki gert grein fyrir því hver sé skráður eigandi hlutafjár Hraðpeninga ehf., líti stefnandi svo á að stefndi Skorri Rafn sé enn raunverulegur eigandi alls hlutafjár í framangreindu félagi.
IV.
Niðurstaða
Eins og áður er lýst liggur fyrir að samkvæmt ársreikningum stefnda Hraðpeninga ehf. er félagið Jumdon Micro Finance Ltd. skráður eigandi að öllu hlutafé í fyrrnefnda félaginu. Enda þótt stefnandi byggi kröfu sína á því „að stefndi, Skorri, sé enn raunverulegur eigandi alls hlutafjár í stefnda“ er ljóst að krafa stefnanda, um að viðurkennt verði með dómi að stefnandi sé eigandi að hlutafé í félaginu Hraðpeningum ehf. að fjárhæð 500.000 krónur, verður ekki tekin til greina án þess að sá aðili sem samkvæmt gögnum þess félags er skráður eigandi alls hlutafjár í félaginu komi þar jafnframt að. Bar því nauðsyn til, sbr. ákv. 2. mgr. 18. gr. laga nr. 91/1991 um meðferð einkamála, að stefna jafnframt framangreindu félagi, Jumdon Micro Finance Ltd., í því skyni að gefa því kost á að svara til sakar í máli þessu. Breytir engu í því sambandi þótt stefnanda hafi ekki tekist að hafa uppi á skráðu heimili þess félags eða forsvarsmönnum þess, enda átti hann þess kost að birta stefnu fyrir félaginu í Lögbirtingablaði á grundvelli heimildar 89. gr. laga nr. 91/1991, að fullnægðum þeim skilyrðum sem þar eru sett. Með hliðsjón af framangreindu verður að vísa máli þessu frá dómi.
Stefnandi greiði stefndu hvorum fyrir sig 200.000 krónur í málskostnað.
Ásgeir Magnússon héraðsdómari kveður upp úrskurð þennan.
Úrskurðarorð:
Máli þessu er vísað frá dómi.
Stefnandi, Sverrir Einar Eiríksson, greiði stefndu, Hraðpeningum ehf. og Skorra Rafni Rafnssyni, hvorum fyrir sig 200.000 krónur í málskostnað.