Hæstiréttur íslands
Mál nr. 353/2005
Lykilorð
- Samningur
- Skaðabætur
- Matsgerð
- Sératkvæði
|
|
Fimmtudaginn 1. desember 2005. |
|
Nr. 353/2005. |
Íslenska ríkið(Einar Karl Hallvarðsson hrl.) gegn Bjarna Sigurbjörnssyni (Stefán Bjarni Gunnlaugsson hrl.) |
Samningur. Skaðabætur. Matsgerð. Sératkvæði.
Aðilar gerðu samning í maí árið 2000 um myndlistarsýningu í Stekkjargjá á Þingvöllum, þar sem verk B skyldi sýnt meðal annarra. Í ákvað að framlengja sýninguna frá því sem sagði í samningnum, án þess að bera það undir B, en á þeim tíma skemmdist listaverk B í hvassviðri. Var fallist á með B að ríkið væri, samkvæmt almennum reglum um skaðabótaskyldu í tengslum við efndir samninga, bótaskylt vegna þess tjóns sem varð á listaverkinu, þó að ljóst væri að starfsmenn þess ættu enga sök á þeim atvikum sem tjóninu ollu. Samkvæmt fyrrgreindum samningi skyldi Í sjá um að tryggja listaverkið skaðatryggingu fyrir tiltekna upphæð, en ekki var talið unnt að takmarka bætur við þá fjárhæð, heldur yrði að bæta skaða sem varð eftir að umsömdum sýningartíma var lokið með fullum fébótum. Í matsgerð sem B reisti kröfur sínar á í héraði var verkið metið ónýtt og bætur miðaðar við að verkið væri „selt beint opinberu safni eða safnara listaverka.“ Var höfð hliðsjón af matsgerðinni við mat á tjóni B. Þeir annmarkar sem voru á matsgerðinni voru ekki taldir þess eðlis að henni yrði hafnað sem sönnunargagni um ástand listaverksins eftir tjónsatburðinn.
Dómur Hæstaréttar.
Mál þetta dæma hæstaréttardómararnir Guðrún Erlendsdóttir, Hrafn Bragason og Jón Steinar Gunnlaugsson.
Áfrýjandi skaut málinu til Hæstaréttar 10. ágúst 2005. Hann krefst aðallega sýknu af kröfu stefnda og málskostnaðar í héraði og fyrir Hæstarétti en til vara að dæmdar bætur verði lækkaðar og málskostnaður felldur niður á báðum dómstigum.
Stefndi krefst staðfestingar héraðsdóms og málskostnaðar fyrir Hæstarétti.
Í samningi málsaðila 15. maí 2000 um myndlistarsýninguna í Stekkjargjá á Þingvöllum var tekið fram að sýningin yrði opnuð 1. júlí árið 2000 og henni skyldi ljúka 1. september sama ár. Fyrir liggur að Kristnihátíðarnefnd ákvað að framlengja sýninguna til 15. september án þess að bera það undir stefnda og afla samþykkis hans. Þá er óumdeilt að listaverk stefnda skemmdist í hvassviðri eftir að hinum umsamda sýningartíma lauk en meðan sýningin stóð ennþá yfir samkvæmt þessari ákvörðun nefndarinnar. Við þessar aðstæður verður fallist á það með stefnda, að áfrýjandi sé samkvæmt almennum reglum um skaðabótaskyldu í tengslum við efndir samninga bótaskyldur vegna tjóns þess sem varð á listaverkinu, þó að ljóst sé að starfsmenn hans eigi enga sök á þeim atvikum sem tjóninu ollu.
Aðila greinir á um, hvort bótaskylda áfrýjanda takmarkist við þá fjárhæð sem í samningi þeirra greindi, þar sem sagði, að Kristnihátíðarnefnd skyldi sjá um að tryggja listaverkið skaðatryggingu að upphæð 500.000 krónur. Verður fallist á það með stefnda að sú takmörkun hafi, hvað sem öðru líði, ekki getað talist gilda eftir að umsömdum sýningartíma var lokið. Skaða sem varð eftir það verði áfrýjandi að bæta fullum fébótum, það er að segja með fjárhæð sem nemur því fjártjóni sem tjónsatburðurinn telst hafa valdið stefnda.
Stefndi byggði kröfur sínar í héraði á matsgerð dagsettri 11. nóvember 2003 sem gerð er grein fyrir í hinum áfrýjaða dómi. Komust matsmenn að þeirri niðurstöðu að listaverkið væri ónýtt eftir að hafa fallið um koll í óveðrinu og mölbrotnað. Töldu þeir að „hæfilegt bótagjald fyrir þetta tiltekna verk, miðað við að það væri selt beint opinberu safni eða safnara listaverka, væri kr. 2.200.000.“ Héraðsdómur, sem skipaður var embættisdómara ásamt tveimur sérfróðum meðdómendum, féllst á niðurstöðu matsmanna um að listaverkið væri ónýtt og hafði síðan hliðsjón af matsgerðinni við mat á tjóni stefnda.
Fallist verður á það með áfrýjanda að annmarkar séu á matsgerð hinna dómkvöddu matsmanna, þar sem þeir í umfjöllun sinni fara út fyrir matsefnið og tjá sig jafnvel um réttarstöðu málsaðila í lögskiptum þeirra. Þessir annmarkar eru á hinn bóginn ekki þess eðlis, að matsgerðinni verði hafnað sem sönnunargagni um ástand listaverksins eftir tjónsatburðinn eða um það verð sem unnt hefði verið að fá fyrir verkið með sölu. Meginefni niðurstaðna matsmanna um þetta hefur ekki verið hnekkt með yfirmati. Með þessum athugasemdum verður fallist á niðurstöðu héraðsdóms um að verkið teljist hafa verið ónýtt eftir atburðinn og um fjárhæð bótakröfu stefnda en dóminum hefur ekki verið gagnáfrýjað.
Samkvæmt þessu verður hinn áfrýjaði dómur staðfestur.
Áfrýjandi verður dæmdur til að greiða stefnda málskostnað fyrir Hæstarétti svo sem í dómsorði greinir.
Dómsorð:
Héraðsdómur skal vera óraskaður.
Áfrýjandi, íslenska ríkið, greiði stefnda, Bjarna Sigurbjörnssyni, 350.000 krónur í málskostnað fyrir Hæstarétti.
Sératkvæði
Hrafns Bragasonar
Ég er sammála atkvæði meirihluta dómara um bótaskyldu áfrýjanda og að honum beri að bæta skaða stefnda með fjárhæð sem tjónsatburðurinn telst hafa valdið honum. Ég er jafnframt sammála afstöðu þeirra til mats dómkvaddra matsmanna, það er um galla þess og að því hafi ekki verið hnekkt um söluverð verksins. Er því óhrakið að selja hafi mátt verkið óskemmt fyrir 2.200.000 krónur. Hins vegar tel ég að taka verði til nánari skoðunar, eins og aðdraganda sýningarhaldsins var háttað og staðsetningu hennar, hvort bætur eigi algjörlega að miða við hugsanlegt söluverðmæti. Einnig að taka verði afstöðu til málsástæðu áfrýjanda um að af lýsingu verksins og smíði þess sé ljóst að það sé hæft til endurgerðar.
Fyrir liggur að verkinu var komið fyrir í Stekkjargjá af sérstöku tilefni og ekki ætlað að vera þar nema takmarkaðan tíma. Veðrið, sem gerði á Þingvöllum og varð til þess að verkið eyðilagðist, var ekki verra en oft verður á Íslandi, sem bendir til að verkið hefði orðið að styrkja ætlaði stefndi að selja það sem útilistaverk. Verður ekki fram hjá því litið að hér greind atriði hlutu að hafa áhrif á sölumöguleika verksins og kostnað við að búa því annan stað. Þá verður ekki fram hjá því litið að þótt verkið hafi útaf fyrir sig verið ónýtt eftir veðrið, sem gerði á Þingvöllum haustið 2000, svo sem um er getið í matsgerðinni, þá er hugverkið enn eign stefnda. Í mati dómkvaddra matsmanna kemur fram að endurgerð verksins sé ekki áhugaverð þar sem það eyðilagðist vegna þess að það var ekki tekið niður í tæka tíð. Í matinu kemur hins vegar ekki fram að endurgerð þess eftir lýsingum og uppdráttum sé ómöguleg. Endurgert verkið þarf vissulega ekki að vera með öllu sama verkið og var í Stekkjargjá á Þingvöllum á Kristnihátíð, en þar sem upprunalega verkið er glatað verður að ætla að endurgert verkið verði til muna verðmætara en annars. Verk sem glatast eða eyðileggjast eru víða endurgerð, séu þau til þess fallin, og fá að minnsta kosti að hluta verð- og minjagildi upphaflega verksins. Sé unnt að endurgera verkið, sem telja verður líklegt, næmi tjón stefnda nánast, eins og hér háttaði til, vinnu hans og kostnaði við gerð verksins. Ekki er fjallað um þessi sjónarmið í héraðsdómi en verulegar líkur eru á því að þau eigi að leiða til lækkunar á bótafjárhæð til viðbótar þeim lækkunarástæðum, sem rakin eru í dómnum. Verður því að ómerkja héraðsdóm og vísa málinu á ný í hérað. Meirihluti dómara hefur ekki á þetta fallist og hef ég því þann kost einan að færa bótafjárhæðina niður að álitum. Tel ég óþarft að marka þann frádrátt með sérstakri fjárhæð, þar sem meiri hlutinn hefur komist að annarri niðurstöðu.
Ég er sammála ákvörðun héraðsdóms um vexti og málskostnað og ákvörðun meirihluta dómara um málskostnað fyrir Hæstarétti.
Dómur Héraðsdóms Reykjavíkur 23. maí 2005.
Mál þetta var höfðað með stefnu birtri 19. júní 2004 og dómtekið 25. apríl sl. Stefnandi er Bjarni Sigurbjörnsson, Flúðaseli 89, Reykjavík. Stefndi er forsætisráðherra fyrir hönd íslenska ríkisins, Stjórnarráðshúsinu, Lækjartorgi, Reykjavík.
Stefnandi krefst þess að stefndi verði dæmdur til greiðslu 1.700.000 króna með 1,5% vöxtum frá 12. september 2000 til 1. desember sama árs, með 1,8% vöxtum frá þeim degi til 1. júní 2001, með 1,5% vöxtum frá þeim degi til 1. júlí sama árs, með vöxtum samkvæmt 1. mgr. 8. gr. laga nr. 38/2001 um vexti og verðtryggingu frá þeim degi til 8. janúar 2004, en með dráttarvöxtum samkvæmt 1. mgr. 6. gr. sömu laga frá þeim degi til greiðsludags. Hann krefst einnig málskostnaðar.
Stefndi krefst aðallega sýknu af kröfu stefnanda, en til vara að krafa hans verði stórlega lækkuð. Hann krefst einnig málskostnaðar.
Mál þetta var upphaflega einnig höfðað gegn Kristnihátíðarnefnd, en fallið var frá kröfum gegn nefndinni með samkomulagi aðila í þinghaldi 8. mars sl.
I.
Málsatvik
Stefnandi og Kristnihátíðarnefnd gerðu með sér samning 15. maí 2000, þar sem Kristnihátíðarnefnd veitti stefnanda fjárstyrk til að vinna myndlistarverk á myndlistarsýningu á Þingvöllum sumarið 2000 í tilefni af þúsund ára kristni á Íslandi. Samningurinn var áritaður um samþykki af hálfu forsætisráðuneytisins. Var stefnandi einn af fjórtán myndlistarmönnum, sem fengnir voru til að vinna verk á sýninguna, en meginstef hennar var „dyggðirnar sjö að fornu og nýju“.
Samkvæmt 3. gr. samningsins skyldi stefnandi vinna myndlistaverk um dyggðina „hugrekki“ fyrir sýninguna sem haldin yrði í Stekkjargjá á Þingvöllum. Kristnihátíðarnefnd skyldi sjá um að flytja verkið milli vinnustofu listamanns á höfuðborgarsvæðinu og Þingvalla og jafnframt aðstoða stefnanda við uppsetningu og að taka listaverkið niður. Kristnihátíðarnefnd skyldi sjá um að við uppsetningu listaverksins væri til staðar allt að 300 m af stálvír, sextán strekkjarar, tuttugu hælar og fjórir aðstoðarmenn í hálfan dag. Þá segir að Kristnihátíðarnefnd sjái um að tryggja listaverkin skaðatryggingu að fjárhæð 500.000 krónur og almennri ábyrgðartryggingu. Samkvæmt 4. gr. samningsins skyldi styrkur Kristnihátíðarnefndar vegna verkefnisins nema samtals 200.000 krónum. Þá sagði að fjárhagslegar skuldbindingar Kristnihátíðarnefndar takmörkuðust við framangreindar fjárhæðir. Í 4. gr. samnings sagði að stefnandi ábyrgðist að fullnægjandi leyfi væru fyrir notkun heimilda og öðrum þáttum tilheyrandi verkefninu og að ekki kæmu fram kröfur frá þriðja aðila um höfundarrétt eða annan rétt. Í 5. gr. samningsins kom m.a. fram að Kristnihátíðarnefnd skyldi sjá um kynningu sýningarinnar. Í 6. gr. samningsins kom fram að Kristnihátíðarnefnd öðlaðist endurkröfurétt vegna greiddra fjárhæða ef verkinu væri ekki skilað fyrir 15. júní 2000. Í 8. gr. var kveðið á um að stefnanda bæri að skila Listasafninu á Akureyri endurgjaldslaust frumdrögum, skissum og ljósmyndum, málverkum eða módelum eftir því sem við ætti vegna sýningar safnsins sem opna ætti 30. júní 2000. Samningnum fylgdi lýsing á starfsemi og markmiðum Kristnihátíðarnefndar og nánari lýsing á umræddu verki. Samkvæmt lokaorðum 3. gr. samningsins skyldu þessi skjöl teljast hluti samningsins.
Ekki er um það deilt í málinu að stefnandi stóð við framangreindan samning fyrir sitt leyti og var verk hans „Hugrekki“ til sýnis á Þingvöllum sumarið 2000. Í aðilaskýrslu stefnanda svo og vitnaskýrslu Ingvars Blængssonar tæknifræðings kom fram að sá síðarnefndi, sem starfaði á vegum Kristnihátíðarnefndar, hefði verið í samskiptum við stefnanda meðan á vinnu við verkið stóð og meðal annars leiðbeint honum um byggingu verksins með tilliti til styrkleika þess.
Í málinu er einnig ágreiningslaust að af hálfu Kristnihátíðarnefndar var ákveðið að framlengja umrædda sýningu fram yfir umsaminn sýningartíma. Þá er ekki um það deilt að ekki var aflað sérstaks samþykkis stefnanda eða annarra höfunda listaverkanna í Stekkjargjá fyrir framlengingu. Hins vegar er um það deilt hvort tilkynning um framlengingu var auglýst í fjölmiðlum og að hvaða marki stefnanda og öðrum höfundum listaverka varð eða mátti vera kunnugt um framlenginguna. Í aðilaskýrslu stefnanda kom fram að honum hefði ekki verið kunnugt um framlengingu sýningarinnar fyrr en haft var samband við hann um að taka verkið niður. Í málinu hafa ekki verið lögð fram gögn um að tilkynning um framlengingu hafi verið birt í fjölmiðlum.
Samkvæmt því sem fram kom í munnlegum skýrslum við aðalmeðferð málsins óskaði Jóhannes Júlíus Hafstein, framkvæmdastjóri Kristnihátíðarnefndar, eftir því við Þórð Ásgeirsson, trésmið, sem starfaði fyrir Kristnihátíðarnefnd, að hann hlutaðist til um að taka niður myndlistarverkin í Stekkjargjá. Samkvæmt skýrslu Þórðar var byrjað að taka verkin niður 15. september 2000 og var haft samband við höfunda verkanna fyrir eða eftir þann tíma. Ágreiningslaust er að verk stefnanda var skemmt þegar það var tekið niður. Þá er ágreiningslaust að þessar skemmdir urðu annað hvort í veðri sem gekk yfir Þingvelli 8. eða 12. september 2000.
Í framhaldi af þessum atburðum krafðist stefnandi þess að Kristnihátíðarnefnd bætti honum að fullu tjónið á verkinu. Kristnihátíðarnefnd taldi hins vegar að ábyrgð nefndarinnar takmarkaðist við 500.000 krónur í samræmi við framangreindan samning aðila. Hinn 5. október 2001 voru dómkvaddir tveir matsmenn, Sverrir Kristinsson löggiltur fasteignasali og Ólafur Jónsson framkvæmdastjóri, til þess að skoða og meta m.a. umrætt listaverk stefnanda og ætlað söluverð þess áður en tjónsatburðurinn átti sér stað. Í matsgerð dómkvaddra matsmanna 11. nóvember 2003, var komist að þeirri niðurstöðu, að verkið væri ónýtt og ætlað söluverð þess, áður en það eyðilagðist í september 2000, hefði verið 2.200.000 krónur. Samkvæmt gögnum málsins ákvað stefndi að greiða stefnanda 500.000 krónur 5. apríl 2004 í samræmi við skilning stefnda á framangreindum samningi aðila. Af hálfu stefnanda var tekið við þeirri greiðslu með fyrirvara.
Við aðalmeðferð málsins gaf stefnandi aðilaskýrslu. Þá komu fyrir dóm sem vitni Þuríður Fannberg myndlistamaður, Ingvar Blængsson byggingatæknifræðingur, Sverrir Kristinsson dómkvaddur matsmaður, Ólafur Jónsson dómkvaddur matsmaður, Þórður Ásgeirsson trésmiður, Sigurður Oddsson þjóðgarðsvörður, Hannes Sigurðsson forstöðumaður Listasafns Akureyrar, Magnús Hallgrímsson verkfræðingur og Jóhannes Júlíus Hafstein fyrrv. framkvæmdastjóri kristnihátíðarnefndar. Ekki er ástæða til að rekja þessar skýrslur sérstaklega.
II.
Málsástæður og lagarök stefnanda
Stefnandi reisir málatilbúnað sinn á því að stefndi beri skaðabótaábyrgð gagnvart stefnanda vegna tjóns á umræddu myndlistarverki. Listaverkið hafi verið sett upp samkvæmt leiðbeiningum og undir umsjón tæknifræðings á vegum Kristnihátíðarnefndar. Byggt er á því aðallega að Kristnihátíðarnefnd hafi í upphafi haft listaverkið að láni til afnota, en síðan heimildarlaust í sínum umráðum og vörslum eftir 1. september 2000 þegar tjónsatburðurinn átti sér stað. Byggist bótaskylda stefndu því á reglunni „casus mixtus cum culpa“. Verði ekki fallist á þetta er á því byggt að líta verði svo á að stefndi hafi haft verkið að láni til afnota þegar tjónsatburðurinn átti sér stað og að bótaskylda stefndu byggist þá á reglum um lán til afnota, sbr. einkum 16. kap. þjófabálks Jónsbókar.
Stefnandi telur að verk hans sé ónýtt og geti hann aðeins fengið tjón sitt að fullu bætt með því að bótafjárhæð sé miðuð við ætlað söluverð verksins. Stefnandi telur ekki að ákvæði 3. mgr. 3. gr. samnings aðila um að Kristnihátíðarnefnd sjái um að tryggja verkið skaðatryggingu að fjárhæð 500.000 krónur og almennri ábyrgðartryggingu feli í sér samningsbundna takmörkun á bótum til stefnanda eða að bótaskyldan geti eingöngu byggst á ákvæðinu. Þá bendir stefnandi á að Kristnihátíðarnefnd hafi vanrækt skyldu sína til að taka umrædda vátryggingu og geti þetta ákvæði því ekki haft neina þýðingu. Einnig takmarki 4. gr. samningsins bótaábyrgð stefndu ekki með neinum hætti. Loks leiði einhliða ákvörðun stefnda um að lengja sýninguna fram yfir umsaminn lánstíma til þess, hvað sem öðru líði, að ábyrgð stefnda sé ótakmörkuð eftir þann tíma, jafnvel þótt talið yrði að hún hefði verið takmörkuð á umsömdum lánstíma.
Stefnandi skýrir framangreindan samning svo að stefnandi hafi ljáð Kristnihátíðarnefnd umrætt verk endurgjaldslaust til afnota á sýninguna í Stekkjargjá, en þegið styrk að fjárhæð 200.000 krónur. Hafi því ekki verið um kaup eða leigu á verkinu að ræða. Þá telur stefnandi að umræddan samning beri að skýra svo að Kristnihátíðarnefnd hafi haldið sýninguna og því verið með umrætt verk í láni. Telur hann þennan skilning fá stoð í áðurgreindum ákvæðum 3. gr. samningsins svo og 4. gr. samningsins um að stefnandi ábyrgist að fullnægjandi leyfi séu fyrir notkun heimilda og öðrum þáttum tilheyrandi verkefninu og að ekki komi fram kröfur frá þriðja aðila um höfundarrétt eða annan rétt. Telur stefnandi að þetta ákvæði hefði verið óþarft og með öllu þýðingarlaust ef Kristnihátíðarnefnd hefði ekki verið með verkið að láni og stefnandi hefði sjálfur verið að halda sýninguna, líkt og haldið sé fram af hálfu stefnda. Stefnandi vísar í þessu sambandi einnig til þess að stefnandi hafi komið hvergi nærri sýningarhaldinu sem slíku. Hins vegar hafi Kristnihátíðarnefnd annast allt skipulag, auglýsingar og kynningu á sýningunni, svo og boð á hana, opnun hennar, stjórnun og gæslu á sýningarsvæðinu o.s.frv., og hafi að öðru leyti haft með höndum alla umsjón með sýningunni og listaverkunum. Vísar stefnandi m.a. til þess að hann hafi fengið boðskort í nafni Kristnihátíðarnefndar á sýninguna. Þá hafi Kristnihátíðarnefnd skuldbundið sig til að vátryggja verkið. Að því er varðar túlkun umrædds samnings bendir stefnandi á að hann hafi ekki notið lögfræðilegrar aðstoðar við gerð samningsins og hafi viðsemjandi hans haft yfirburðastöðu með tilheyrandi mannafla og sérfræðinga á sínum snærum.
Stefnandi byggir sem fyrr segir aðallega á því að Kristnihátíðarnefnd hafi haft listaverkið heimildarlaust í sínum umráðum og vörslum eftir 1. september 2000 þegar tjónsatburðurinn átti sér stað, en samkvæmt framangreindum samningi hafi átt að skila verkinu 1. september 2000. Hafi Kristnihátíðarnefnd því farið öðruvísi með umrætt verk en hún mátti og verði því að svara til alls þess skaða er verkið hafi orðið fyrir án tillits til sakar. Tjón sem hafi orðið á verkinu eftir umsaminn lánstíma sé alfarið á ábyrgð stefnda og beri stefndi sönnunarbyrðina fyrir að stefnandi hafi heimilað eða veitt samþykki fyrir áframhaldandi sýningu verksins eftir 1. september 2000.
Verði ekki fallist á framangreint sjónarmið um heimildarlaus afnot eftir 1. september 2000 er á því byggt að líta verði svo á að stefndi hafi haft verkið að láni til afnota þegar tjónsatburðurinn átti sér stað og að bótaskylda stefndu byggist þá á reglum um lán til afnota, sbr. einkum 16. kap. þjófabálks Jónsbókar. Hafi Kristnihátíðarnefnd borið að skila verkinu, að umsömdum lánstíma loknum, í sama ástandi og nefndin fékk það í. Það hafi ekki verið gert og beri stefndi því bótaábyrgð á tjóni stefnanda á verkinu, hvernig sem tjónið kom til.
Stefnandi hafnar því að bótaábyrgð stefnda hafi verið takmörkuð í umræddum samningi. Bendir stefnandi á að til þess að víkja frá reglum fjármunaréttar um bótaskyldu eða fjárhæð bóta hefði þurft afdráttarlaust ákvæði í samningi um takmörkun bóta. Ekkert ákvæði sé í samningnum sem fullnægi þeim áskilnaði. Ákvæði 4. gr. samnings aðila um „að fjárhagslegar skuldbindingar Kristnihátíðarnefndar takmarkist við framangreindar fjárhæðir“ verði að skýra svo að engar aðrar greiðslur en sá styrkur, sem kveðið var á um í samningnum, komi fyrir tilbúning verksins og engar sérstakar greiðslur fyrir sýningu þess eða afnot. Að því er varðar ákvæði samningsins um vátryggingu og ábyrgðartryggingu sérstaklega telur stefnandi að samkvæmt umræddum samningi hafi sú skylda hvílt á Kristnihátíðarnefnd að taka skaðatryggingu hjá löggiltum vátryggjanda og hafi þetta verið í samræmi við það sem almennt tíðkast í slíkum tilvikum um að sýningarhaldarinn vátryggi verk og greiði iðgjaldið. Á hinn bóginn sé jafnljóst af orðalagi ákvæðisins að Kristnihátíðarnefnd eða íslenska ríkið hafi ekki átt að vera vátryggjandi sjálfur, enda hafi þeir ekkert leyfi eða heimild til að stunda vátryggingarstarfsemi. Bótaskylda stefndu byggist á áðurnefndum bótareglum fjármunaréttarins, en ekki umræddu samningsákvæði og hafi ákvæðið því ekki þýðingu. Stefnandi telur að líta verði til þess að öll verk á sýningunni átti að tryggja með sömu fjárhæð og hafi tilgangurinn verið að auðvelda aðgang myndlistarmanna að bótum, t.d. ef skaði yrði á verkinu vegna sýningargests. Þá hafi tilgangurinn verið sá að tryggja verkin ábyrgðartryggingu ef tjón yrði af völdum verksins. Stefnandi telur að jafnvel þótt umrætt ákvæði um vátryggingu yrði skilið þannig að það takmarkaði með einhverjum hætti bótaskyldu stefnda bæri að líta til þess að Kristnihátíðarnefnd hafi vanefnt þá skyldu sína að tryggja verk stefnanda. Geti því engin réttaráhrif verið bundin við umrætt ákvæði. Auk þess sé ljóst að slík takmörkun geti ekki haft gildi eftir að umsaminn lánstími var liðinn og verkið var í heimildarlausum umráðum Kristnihátíðarnefndar.
Stefnandi vísar til matsgerðar dómkvaddra matsmanna því til stuðnings að verkið „Hugrekki“ sé ónýtt. Jafnframt vísar hann til matsgerðar um að ætlað söluverð verksins, áður en það eyðilagðist í september 2000, hafi verið 2.200.000 krónur. Stefnandi bendir á að umrætt verk hafi haft fjárhagslegt gildi fyrir stefnanda og beri að meta gildi verksins með hliðsjón af ætluðu söluverði. Sé hér um að ræða hagsmuni sem teljist eignarréttindi og njóti verndar skaðabótareglna og beri að meta þá til fjár samkvæmt almennum reglum. Er mótmælt því sjónarmiði stefnda að bótaréttur stefnanda takmarkist við þá fjárhæð sem kostar að gera við eða endurgera verkið. Bendir hann á að verðmæti listaverka ráðist ekki af efniskostnaði eða tímavinnu. Eðli málsins samkvæmt sé ekki unnt að búa til sama verk á ný og sé með öllu óvíst hvaða verðgildi eftirgerð verksins myndi hafa.
Stefnandi sundurliðar kröfu sína svo að tjón stefnanda nemi 2.200.000 krónum. Höfuðstóll kröfunnar sé lækkaður sem nemi greiðslu stefnda að fjárhæð 500.000 krónur 5. apríl 2004. Af hálfu stefnanda sé litið svo á að sá hluti kröfu stefnanda, sem stefndu hafi greitt, sé að fullu uppgerður ásamt vöxtum, dráttarvöxtum og kostnaði. Höfuðstóll stefnukröfunnar sé því 1.700.000 krónur. Krafist sé vaxta frá tjónsdegi 12. september 2000 til 8. janúar 2004, sbr. 7. gr. vaxtalaga nr. 25/1987, sbr. 2. gr. laga nr. 67/1989, en með vísan til 1. mgr. 8. gr., sbr. 11. gr. laga nr. 38/2001, um vexti og verðtryggingu, frá gildistöku þeirra 1. júlí 2001. Krafist sé dráttarvaxta frá þeim degi til greiðsludags, sbr. 1. mgr. 6. gr. laga nr. 38/2001, en þann dag hafi verið liðinn mánuður frá því að stefndi var krafinn um greiðslu á grundvelli áðurnefndrar matsgerðar.
III.
Málsástæður og lagarök stefnda
Stefndi telur að engum grundvelli til greiðslu bóta sé til að dreifa á þann hátt sem byggt sé á af hálfu stefnanda. Stefndi hafi þegar greitt fullnaðarbætur í samræmi við ákvæði umrædds samnings og þannig efnt samninginn að fullu. Hafi ábyrgð stefnda takmarkast við samningsbundna fjárhæð og sé engri bótaskyldu til að dreifa samkvæmt almennum reglum.
Stefndi vísar til þess að samkvæmt umræddum samningi stefnanda við Kristnihátíðarnefnd hafi nefndin tekið að sér að tryggja listaverkin skaðatryggingu að upphæð 500.000 krónur og almennri ábyrgðartryggingu. Ákvæði í samningnum um skaðatryggingu hafi hins vegar ekki falið í sér skyldu fyrir stefnda að kaupa tryggingu hjá vátryggingafélagi. Stefndi hafi ekki viðurkennt bótaskyldu í málinu svo sem skýrt hafi komið fram í bréfum af hálfu stefndu og Kristnihátíðarnefndar og sé fullyrðingu um annað af hálfu stefnanda mótmælt.
Stefndi mótmælir því að Kristnihátíðarnefnd hafi komið fram sem galleríhaldari og fengið verk að láni til sýningar. Hvergi komi fram í umræddum samningi að um lánssamning sé að ræða. Slíkt réttarsamband hafi ekki stofnast með aðilum. Sjáist það meðal annars af því að samkvæmt samningnum hafi ekki verið lögð á hendur stefndu sú skylda að skila verkinu, heldur þvert á móti mælt fyrir um að stefnandi skyldi fá aðstoð við að setja það upp og taka niður. Á þessu annars vegar og skyldu til að skila lánshlut hins vegar sé reginmunur. Það hafi því verið stefnanda að taka verkið niður og hafa að því frumkvæði, hvort sem það var innan þeirra tímamarka sem ráðgert var í upphafi að sýningin skyldi vara eða ekki.
Stefndi mótmælir því einnig að um hafi verið að ræða samning um umráð eða geymslu listaverksins fyrir stefnanda á þann hátt sem reglan um „casus mixtus cum culpa“ sé reist á. Öllum fullyrðingum stefnanda um hlutlæga bótaábyrgð stefnda er mótmælt. Vísar stefndi til nánari ákvæða umrædds samnings um að réttarsambandi stefnanda og Kristnihátíðarnefndar verði ekki jafnað til láns.
Umræddur samningur hafi falið í sér styrk til handa stefnanda og það að aðilar hans ættu með sér samstarf um sýningarhald á Þingvöllum. Sé því óraunhæf sú fullyrðing stefnanda að hann hafi hvergi komið nærri sýningarhaldinu sem slíku. Sú skylda hafi hvílt á stefnanda að taka verkið niður og hafi verkið því ekki verið heimildarlaust í umráðum og vörslum Kristnihátíðarnefndar eftir 1. september 2000. Stefnandi hafi ekki tekið verkið niður eða kallað eftir aðstoð við það. Stefnanda hafi hlotið að vera ljóst að verkið stæði áfram í gjánni á Þingvöllum, ellegar hefði hann sjálfur tekið niður verkið eins og ákvæði samningsins kváðu á um. Telur stefndi því að stefnandi hafi samþykkt fyrir sitt leyti að verkið skyldi áfram standa á Þingvöllum í september 2000. Hafi verkið því alfarið verið á ábyrgð stefnanda á þessum tíma.
Stefndi byggir einnig sýknukröfu sína á því að stefnanda mátti frá upphafi vera ljóst að listaverk sem stillt var upp utandyra um langa hríð, eða um a.m.k. tveggja mánaða skeið, kynni að skemmast af alls kyns ástæðum, t.d. af mannavöldum eða vegna veðurs. Tjón stefnanda á verki sínu sé því að völdum óhappatilviljunar og/eða þeirrar áhættu stefnanda sjálfs að verkinu yrði stillt upp utandyra. Bæði af myndum að dæma, lýsingu á verkinu, t.d. í matsgerð, megi augljóslega ráða að verkið hafi ekki þolað mikið veður. Veðurlýsingar frá Veðurstofu gefi til kynna að ekki hafi verið um ofsaverður að ræða.
Stefndi byggir á því að hvernig sem á réttarsamband aðila sé litið liggi fyrir að í samningi aðila hafi verið skýrt kveðið á um að ekki kæmu til hærri bætur en 500.000 krónur vegna skaða. Hann vísar til þess að samið hafi verið um skaðatryggingu að umræddri fjárhæð og í 4. gr. samningsins hafi auk þess verið áréttað að fjárhagslegar skuldbindingar takmörkuðust við þær fjárhæðir sem nánar greindi í samningnum. Þá verði bréf stefnanda 15. september 2000 ekki skilið öðru vísi en svo að hann viðurkenni þetta sjónarmið stefnda. Því sé alfarið mótmælt að Kristnihátíðarnefnd hafi haft yfirburðastöðu við samningsgerð. Stefnandi sé listamaður með reynslu af sýningarhaldi og því ekki síður sérfróður um samninga af þessu tagi. Fjárhæðin hafi falið í sér mat beggja aðila á hámarksverðmæti verksins og hafi stefnandi fengið styrk til gerðar þess óháð umræddri fjárhæð. Því sé mótmælt að tryggingin hafi sérstaklega verið sett vegna hættu á að sýningargestir skemmdu það, heldur hafi verið um almenna skilmála að ræða um skaðatryggingu. Hafi ákvæðið verið almennt og gildistími samningsins að þessu leyti ekki takmarkaður við þann tíma sem sýningin sjálf skyldi vara. Allt að einu hafi stefnanda verið ljóst að sýningin hafi verið framlengd. Ákvæði um almenna ábyrgðartryggingu sé hins vegar óviðkomandi deilu aðila. Samkvæmt framansögðu sé samningurinn skuldbindandi fyrir stefnanda og sé ekki til að dreifa frekari rétti til bóta vegna tjónsins.
Málsástæðum stefnanda, byggðum á 16. kap. þjófabálks Jónsbókar er mótmælt með sömu rökum og fyrr greinir, enda telur stefndi engum lánssamningi til að dreifa.
Stefndi mótmælir ætluðu tjóni stefanda. Stefndi telur tjón á listaverki horfa öðruvísi við þegar listamaðurinn sjálfur á í hlut og því rök til að takmarka verðmæti þess almennt við viðgerðarkostnað. Hafi stefnandi ekki sýnt fram á að kostnaður, hvort sem var hans sjálfs eða aðkeyptur, hafi í raun verið meiri en nam 500.000 krónum. Ætlað tjón stefnanda geti ekki falist í söluverðmæti verksins. Stefnandi hefði getað gert við verkið með fullnægjandi hætti eða endurgert það. Einnig er á því byggt að stefnandi hafi enga sönnun fært fram um að hann hefði getað selt verkið. Listaverkið virðist skapað fyrir þær aðstæður þar sem það var sýnt og tilefnisins vegna. Dragi það úr líkum á því að það hefði með góðu móti selst opinberri stofnun eða listaverkasafnara. Varpi þetta nokkru ljósi á þær staðreyndir að stefnanda hafi verið veittur sérstakur styrkur til gerðar verksins og að hafi báðir aðilar metið það til tiltekinnar hámarksfjárhæðar, ef verkið yrði fyrir tjóni.
Stefndi mótmælir matsgerð dómkvaddra matsmanna sem rangri og þýðingarlausri. Telur hann að matsmenn leggist á sveif með stefnanda hvað varðar rök fyrir bótaskyldu stefndu og vísar hann til nánar tiltekinna atriða í umfjöllun dómkvaddra matsmanna þessu til stuðnings. Telur stefndi að umrædd matsgerð sé ekki í samræmi við IX. kafla laga nr. 91/1991 og verði því ekki á henni byggt.
Verði ekki fallist á sýknukröfu stefndu er krafist stórfelldrar lækkunar með vísan til ofangreindra sjónarmiða um verðmæti verksins frá sjónarhóli stefnanda sem geti endurgert verkið. Þá sé einnig á því byggt að skipta beri sök þar sem stefnandi hafi einnig staðið að sýningu verksins og hafi samið um að hann myndi taka það niður. Hafi ætlað tjón því einnig verið á ábyrgð og áhættu stefnanda.
Stefndi mótmælir vaxtakröfum stefnanda og dráttarvaxtakröfum, einkum upphafstíma þeirra.
Stefndi bendir á að Kristnihátíðarnefnd hafi lokið störfum sínum og sé ekki lengur til. Sé nægilegt að stefna stefnda einum til varnar í málinu.
IV.
Niðurstaða
Þau lögskipti aðila sem til umfjöllunar eru í máli þessu grundvallast á samningi stefnanda og Kristnihátíðarnefndar 15. maí 2000 sem áður hefur verið gerð grein fyrir. Þegar litið er til efnis þessa samnings, svo og gagna málsins í heild sinni, verður umræddur samningur ekki túlkaður á aðra leið en að með honum hafi stefnandi tekið að sér að vinna og afhenda Kristnihátíðarnefnd myndlistaverkið „Hugrekki“ gagngert fyrir myndlistarsýningu sem var haldin og skipulögð að tilhlutan og á ábyrgð Kristnihátíðarnefndar. Gildir einu í þessu sambandi hvort stefnandi skuldbatt sig til að setja sjálfur verkið upp og taka það niður með aðstoð starfsmanna Kristnihátíðarnefndar, eða hvort sú skylda hvíldi að meginstefnu á starfsmönnum nefndarinnar. Verður því að hafna þeirri túlkun stefnda á umræddum samningi að með honum hafi stefnandi verið styrktur til að gera umrætt myndlistarverk og honum heimilað að halda sjálfur sýningu á því ásamt öðrum myndlistarmönnum. Er það því álit dómara að Kristnihátíðarnefnd hafi með umræddum samningi tekist á hendur allar venjulegar skyldur sem sýningarhaldari myndlistarverks stefnanda, enda væri ekki um annað kveðið í samningi aðila.
Að mati dómsins verður réttarsambandi myndlistarmanns og sýningarhaldara ekki fyllilega jafnað til lánsgernings samkvæmt 16. kapítula þjófabálks Jónsbókar, jafnvel þegar ekki koma til peningagreiðslur frá sýningahaldara til myndlistamanns. Lítur dómurinn þá til þess að réttarsamband myndlistarmanns og sýningarhaldara grundvallast í ríkum mæli á gagnkvæmum hagsmunum, þ.e. annars vegar augljósum hagsmunum sýningarhaldara af því að fá í sín umráð myndlistarverk til sýningar, en hins vegar hagsmunum listamanns á því að njóta kynningar og, í sumum tilvikum, möguleika á sölu á verkum sínum. Er samningur um sýningu myndlistaverks þannig ekki örlætisgerningur myndlistamanns líkt og hin hlutræna bótaábyrgðarregla 16. kapítula þjófabálks Jónsbókar miðast við. Verður því ekki talið að sýningarhaldari beri hreina hlutræna ábyrgð á myndlistarverki sem hann hefur í umráðum sínum til sýningar. Samkvæmt almennum reglum kröfuréttar verða hins vegar almennt gerðar strangar kröfur til sýningarhaldara um að hann geri viðeigandi ráðstafanir til að tryggja varðveislu myndlistarverks sem hann hefur í umráðum sínum. Samkvæmt almennum reglum kröfuréttar verður einnig að miða við að fari sýningarhaldari með myndlistarverk á annan veg en leiðir af samningi aðila, beri hann ábyrgð án sakar á því tjóni sem af slíku samningsbroti kann að hljótast.
Með hliðsjón af þeim almennu reglum sem áður greinir var nauðsynlegt fyrir Kristnihátíðarnefnd að takmarka skaðabótaábyrgð sína með skýrum og ótvíræðum ákvæðum í samningi aðila, ef vilji nefndarinnar stóð til slíkrar takmörkunar. Hefðu slík ákvæði þá einnig getað orðið tilefni fyrir stefnanda að afla sér sérstakrar tryggingar fyrir verk sitt, teldi hann þá tryggingavernd, sem kveðið var á í samningi aðila, ófullnægjandi. Í samningi aðila kemur hins vegar einungis fram að Kristnihátíðarnefnd taki að sér að tryggja verk stefnanda skaðatryggingu að fjárhæð 500.000 krónur og almennri ábyrgðartryggingu, en að mati dómara verða engar ályktanir dregnar af þessu ákvæði um takmörkun á skaðabótaábyrgð Kristnihátíðarnefndar innan eða utan samninga. Í 4. gr. samningsins var kveðið á um styrk Kristnihátíðarnefndar til stefnanda vegna gerðar verksins og tekið fram að fjárhagslegar skuldbindingar Kristnihátíðarnefndar takmörkuðust við framangreindar fjárhæðir. Að mati dómara verður þetta ákvæði skilið þannig að Kristnihátíðarnefnd lýsi því yfir að ekki verði um frekari greiðslur en umrædda styrki að ræða vegna afnota af verki stefnanda. Af ákvæðinu verða hins vegar engar ályktanir dregnar um takmörkun á skaðabótaábyrgð Kristnihátíðarnefndar, sem sýningarhaldara, innan eða utan samninga. Samkvæmt þessu verður ekki talið að í umræddum samningi komi fram að Kristnihátíðarnefnd undanþiggi sig þeim almennum skyldum og þeirri ábyrgð sem skipuleggjandi og umsjónarmaður myndlistarsýningar ber gagnvart þeim myndlistarmönnum sem leggja fram verk til sýningar.
Samkvæmt ákvæðum framangreinds samnings skyldi sýningunni ljúka 1. september 2000. Dómarar vísa til þess að venjulegt er að verk séu tekin niður mjög skömmu eftir sýningu. Samkvæmt þessu hefði Kristnihátíðarnefnd verið rétt að gera reka að því að taka umrætt verk niður á upphafsdögum september 2000, annað hvort með því að gera stefnanda viðvart um að verkið yrði tekið niður á tilteknum tíma eða með því að tilkynna stefnanda um að honum væri heimilt að taka niður verkið og aðstoð væri honum tiltæk í samræmi við nánari ákvæði í samningi aðila. Í málinu er hins vegar fram komið að Kristnihátíðarnefnd ákvað að framlengja sýningu á verki stefnanda til 15. september 2000, án þess að samþykkis stefnanda væri aflað.
Samkvæmt framangreindu liggur fyrir brot Kristnihátíðarnefndar á samningi hennar við stefnanda 15. maí 2000 sem fólst í því að verk stefnanda var haft til sýnis 15 dögum lengur en samið hafði verið um. Ágreiningslaust er að það tjón sem varð á verki stefnanda átti sér stað á umræddum tíma, það er annað hvort 8. eða 12. september 2000. Dómarar telja fram komið að ef rétt hefði verið staðið að framkvæmd umrædds samnings hefði verið lokið við að taka umrætt verk niður og hefði tjónið því ekki orðið. Ekki er fram komið að stefnandi hafi sýnt af sér gáleysi við gerð eða uppsetningu verksins eða að gerð eða eðli verksins hafi verið þeim hætti að skemmdir á því verði taldar á ábyrgð stefnanda. Verður stefndi, sem óumdeilt er að ber fjárhagslega ábyrgð á störfum Kristnihátíðarnefndar, því talinn skaðabótaskyldur af þessum ástæðum. Þarf þá ekki fjalla um hvort af almennar skyldur um varðveislu og eftirliti með verki stefnanda verið vanræktar með saknæmum hætti hálfu Kristnihátíðarnefndar.
Á það verður fallist með stefnda að í framlagðri matsgerð sé vikið að atriðum sem ekki voru meðal matsefna samkvæmt matsbeiðni. Að mati dómara eru þessir annmarkar þó ekki svo verulegir að ekki verði höfð hliðsjón af matsgerðinni við mat á tjóni stefnanda.
Dómarar fallast á með dómkvöddum matsmönnum að verk stefnanda sé ónýtt. Verður því ekki bætt úr tjóni stefnanda með viðgerð eða endurgerð verksins. Þótt ljóst sé að myndlistarverk, eins og það sem hér um ræðir, sé ekki auðvelt í sölu telja dómarar þó að ganga verði út frá því að mögulegt hefði verið að selja verk stefnanda þegar til lengri tíma er litið. Er það því álit dómara að skylt sé að leggja mat á fjárhagslegt tjón stefnanda með hliðsjón af gangverði umrædds verks á tjónsdegi í samræmi við almennar reglur kröfuréttar, sbr. til hliðsjónar 38. gr. laga nr. 20/1954 um vátryggingasamninga. Dómarar fallast á meginniðurstöðu dómkvaddra matsmanna um mat á ætluðu söluverði og þar með gangverði verks stefnanda á tjónsdegi. Dómarar telja þó að frá áætluðu söluverði verksins samkvæmt matsgerð beri að draga ýmsan kostnað sem líklegt er að hljótist af sölu, jafnvel til safns eða opinbers aðila, svo sem sölu, geymslu- og flutningskostnað. Að teknu tilliti þessara atriða er það niðurstaða dómara að heildarbætur til stefnanda séu hæfilega metnar 1.760.000 krónur, en frá þeirri fjárhæð ber að draga 500.000 krónur í samræmi við málatilbúnað stefnanda. Með vísan til málsástæðna og lagaraka stefnanda verður að fullu fallist á kröfu hans um vexti og dráttarvexti, allt eins og nánar greinir í dómsorði.
Eftir úrslitum málsins verður stefndi dæmdur til að greiða stefnanda málskostnað sem þykir hæfilega ákveðinn 450.000 krónur að teknu tilliti til tímaskýrslu lögmanns stefnanda. Er þá ekki tekið tillit til virðisaukaskatts.
Af hálfu stefnanda flutti málið Jónas Þór Guðmundsson hdl.
Af hálfu stefnda flutti málið Einar Karl Hallvarðsson hrl.
Skúli Magnússon héraðsdómari kveður upp dóm þennan ásamt meðdómendunum Eiríki Þorlákssyni forstöðumanni og Viktori Smára Sæmundssyni forverði.
D Ó M S O R Ð
Stefndi, íslenska ríkið, greiði stefnanda, Bjarna Sigurbjörnssyni, 1.260.000 krónur með 1,5% vöxtum frá 12. september 2000 til 1. desember sama árs, með 1,8% vöxtum frá þeim degi til 1. júní 2001, með 1,5% vöxtum frá þeim degi til 1. júlí sama árs, með vöxtum samkvæmt 1. mgr. 8. gr. laga nr. 38/2001 um vexti og verðtryggingu frá þeim degi til 8. janúar 2004, en með dráttarvöxtum samkvæmt 1. mgr. 6. gr. laga nr. 38/2001 frá þeim degi til greiðsludags.
Stefndi greiði stefnanda 450.000 krónur í málskostnað.