Hæstiréttur íslands

Mál nr. 7/2004


Lykilorð

  • Hlutafélag
  • Ábyrgð stjórnarmanna
  • Gjaldþrotaskipti
  • Vanreifun
  • Frávísun frá héraðsdómi


Föstudaginn 18

 

Föstudaginn 18. júní 2004.

Nr. 7/2004.

AGCO Limited

(Hróbjartur Jónatansson hrl.)

gegn

Theodóri Skúla Halldórssyni

(Reimar Pétursson hrl.)

og gagnsök

 

Hlutafélög. Ábyrgð stjórnarmanna. Gjaldþrotaskipti. Vanreifun. Frávísun máls frá héraðsdómi.

 

B ehf. hafði verið tekið til gjaldþrotaskipta og búið reynst eignalaust. Kröfuhafinn A höfðaði þá skaðabótamál á hendur T, fyrrverandi framkvæmdastjóra og stjórnarmanni B ehf. (síðar Í ehf.) en rekstur þess félags hafði verið keyptur af B hf. Í málinu krafðist A skaðabóta úr hendi T vegna þess að honum hafi mátt vera ljóst að B ehf. yrði ófært um að greiða vörur sem pantaðar voru eftir 15. desember 1998. Talið var í ljós leitt að slík skylda hafi hvílt á T eftir 16. mars 1999, en hins vegar lá ekkert fyrir í málinu um það hvort T hafi verið orðið skylt að krefjast skipta á búinu fyrir síðarnefnda tímamarkið. Vegna þessarar vanreifunar var málinu vísað sjálfkrafa frá héraðsdómi.

 

Dómur Hæstaréttar.

Mál þetta dæma hæstaréttardómararnir Gunnlaugur Claessen, Árni Kolbeinsson og Ingibjörg Benediktsdóttir.

Aðaláfrýjandi skaut málinu til Hæstaréttar 8. janúar 2004. Krefst hann þess aðallega að gagnáfrýjandi verði dæmdur til að greiða sér „DM 316.090“ með dráttarvöxtum samkvæmt III. kafla vaxtalaga nr. 25/1987 af þýskum mörkum frá 1. mars 1999 til 30. júní 2001, en III. kafla laga nr. 38/2001 um vexti og verðtryggingu frá þeim degi til greiðsludags og 549.568 krónur með dráttarvöxtum samkvæmt III. kafla laga nr. 38/2001 frá 14. nóvember 2001 til greiðsludags. Til vara krefst aðaláfrýjandi þess að gagnáfrýjandi verði dæmdur til að greiða sér „DM 257.332“ með dráttarvöxtum samkvæmt III. kafla vaxtalaga af þýskum mörkum frá 1. mars 1999 til 30. júní 2001, en III. kafla laga nr. 38/2001 frá þeim degi til greiðsludags og 549.568 krónur með dráttarvöxtum samkvæmt III. kafla laga nr. 38/2001 frá 14. nóvember 2001 til greiðsludags. Að því frágengnu krefst aðaláfrýjandi þess að gagnáfrýjanda verði gert að greiða sér „DM 115.039“ með dráttarvöxtum samkvæmt III. kafla vaxtalaga frá 1. mars 1999 til 30. júní 2001, en III. kafla laga nr. 38/2001 frá þeim degi til greiðsludags og 549.568 krónur með dráttarvöxtum samkvæmt III. kafla laga nr. 38/2001 frá 14. nóvember 2001 til greiðsludags. Þá er krafist málskostnaðar í héraði og fyrir Hæstarétti úr hendi gagnáfrýjanda.

Gagnáfrýjandi áfrýjaði héraðsdómi fyrir sitt leyti 8. mars 2004. Hann krefst sýknu af kröfum aðaláfrýjanda og málskostnaðar í héraði og fyrir Hæstarétti.

I.

Félagið Búvélar ehf. mun hafa gert samning árið 1985 við dótturfélag aðaláfrýjanda um innflutning og sölu á Íslandi á vörum frá aðaláfrýjanda og öðru félagi. Var um að ræða ýmis landbúnaðartæki og þar á meðal dráttarvélar undir nokkrum vörumerkum, svo sem Massey Ferguson og Fendt. Er óumdeilt að gagnáfrýjandi hafi verið framkvæmdastjóri Búvéla ehf. og auk þess stjórnarmaður í félaginu og eini eigandi þess.

Með bréfi 29. júní 1998 sagði dótturfélag aðaláfrýjanda upp viðskiptasamningi sínum við Búvélar ehf. Var vísað til samningsins, sem kvað á um sex mánaða uppsagnarfrest, og tekið fram að hann rynni út jafnskjótt og kostur væri, sem yrði 31. desember 1998. Annað bréf hins erlenda félags til Búvéla ehf. 28. október 1998 er meðal málsgagna, en það virðist hafa verið sent í tilefni af ósk gagnáfrýjanda um að framangreind ákvörðun yrði endurskoðuð. Var í bréfinu vísað til viðskiptaáætlunar Búvéla ehf. og tekið fram að athugun á henni gæfi ekki tilefni til að hverfa frá ákvörðun um uppsögn. Þrátt fyrir þetta lauk viðskiptunum ekki endanlega fyrr en 1. mars 1999 eftir ákvörðun um það á fundi fulltrúa aðila 15. febrúar sama árs. Í fundargerð var tekið fram að viðskiptasambandinu lyki 1. mars 1999 og síðan kveðið meðal annars á um hvernig farið skyldi með þrjár dráttarvélar, sem þá höfðu ekki verið afhendar endanlegum kaupendum þeirra. Ber aðilum saman um að í 2. lið B í fundargerðinni hafi falist val Búvélum ehf. til handa í því efni. Þannig átti félagið þess kost að afhenda vélarnar Ingvari Helgasyni hf., sem þá mun hafa gert samning við aðaláfrýjanda um umboðssölu fyrir hann hér á landi, eða afhenda þær beint til viðskiptamanna, sem kynnu að hafa pantað vélarnar hjá Búvélum ehf. fyrir 15. febrúar 1999. Efni fundargerðarinnar er nánar getið í héraðsdómi.

Síðustu mánuðina áður en viðskiptum lauk pöntuðu Búvélar ehf. og fengu afhentar vörur, sem aðaláfrýjandi hefur ekki fengið greiddar. Telur hinn síðastnefndi gagnáfrýjanda skaðabótaskyldan sem framkvæmdastjóra og stjórnarmanns í félaginu vegna þess hvernig að þessum viðskiptum var staðið og nánar greinir í II. kafla á eftir. Krafðist aðaláfrýjandi þess 20. mars 2001 að bú Búvéla ehf. yrði tekið til gjaldþrotaskipta, en úrskurður um það var ekki kveðinn upp fyrr en 14. nóvember sama árs. Var aðaláfrýjandi langstærsti einstaki kröfuhafinn í þrotabúinu, sem reyndist eignalaust. Var skiptum lokið 1. mars 2002 án þess að greiðsla fengist upp í lýstar kröfur í búinu.

II.

Aðalkrafa aðaláfrýjanda er reist á 21 reikningi, sem dagsettur er á tímabilinu frá 15. desember 1998 til 24. febrúar 1999. Eru fjórir þeirra hver um sig fyrir mun hærri fjárhæð en hinir reikningarnir, en viðskipti að baki þessum fjórum voru í öllum tilvikum kaup á dráttarvél auk annars búnaðar. Varakrafan er fyrir þremur þessara reikninga, en þrautavarakrafan er vegna tveggja síðustu dráttarvélanna, sem Búvélar ehf. keyptu í þessum viðskiptum.

Hinn fyrsti áðurnefndra fjögurra reikninga á hendur Búvélum ehf. er dagsettur 21. desember 1998. Segir í texta hans að pöntun kaupandans hafi verið gerð 23. nóvember sama árs. Gjaldfrestur var ákveðinn 90 dagar, sem var einnig tekið fram í hinum reikningunum þrem. Farmskírteini, útgefið af farmflytjanda, er dagsett 28. desember 1998. Annar reikningurinn er dagsettur 4. febrúar 1999 og pöntun sögð hafa verið gerð 2. nóvember 1998. Farmbréf var gefið út 8. febrúar 1999. Þriðji reikningurinn er frá 17. febrúar 1999, en samkvæmt honum var varan pöntuð 13. ágúst 1998. Farmbréf er dagsett 22. febrúar 1999. Fjórði og síðasti reikningurinn er dagsettur 24. febrúar 1999 og pöntun sögð vera frá 21. desember 1998. Farmbréf liggur ekki fyrir, en fyrirmæli til flutningsmiðlara um að afhenda Búvélum ehf. farmskírteini eru dagsett sama dag og reikningurinn var útgefinn. Fyrir Hæstarétti kom fram af hálfu gagnáfrýjanda að í öllum tilvikum hafi varan verið afhent samkvæmt fob. skilmálum í Þýskalandi.

Nafni Búvéla ehf. var breytt í Ísaro ehf. 22. febrúar 1999. Var gagnáfrýjandi áfram framkvæmdastjóri félagsins og eini stjórnarmaðurinn í því. Nýtt félag, Búvélar hf., var síðan stofnað 1. mars 1999 og 16. sama mánaðar var undirritaður kaupsamningur milli félaganna, þar sem Ísaro ehf. seldi Búvélum hf. öll umboð, sem seljandinn hafði „(að undanskildu Fendt umboðinu og umboði fyrir Grammer skrifstofustóla)“. Var tekið fram að öll innlend og erlend viðskiptasambönd seljandans fylgdu í kaupunum, innréttingar, skrifstofuáhöld, viðskiptamannabókhald, skrifborð,  skrifstofustólar og fleira. Kaupverðið var 7.000.000 krónur, en verð vörubirgða 10.050.000 krónur. Af hálfu gagnáfrýjanda er komið fram að söluverðinu hafi einkum verið varið til að greiða ýmsar skuldbindingar félagsins og þar á meðal skuldir við dótturfélag aðaláfrýjanda vegna eldri viðskipta.

III.

Aðaláfrýjandi reisir kröfur sínar á því að í desember 1998 hafi gagnáfrýjanda mátt vera ljóst að einkahlutafélag hans yrði ófært um að greiða vörur, sem hann pantaði fyrir þess hönd og dótturfélag aðaláfrýjanda afhenti frá 15. desember 1998 til loka febrúar 1999. Hafi staða félagsins sýnilega verið orðin mjög erfið, sem sjáist meðal annars af því að gagnáfrýjandi hafi á þessum tíma orðið að sæta því að gangast persónulega í ábyrgð fyrir einhverjum eða öllum rekstrarlánum Búvéla ehf. Hann hafi sýnilega metið það svo sjálfur að félagið gæti ekki starfað áfram að óbreyttu og staðið við skuldbindingar sínar því hann hafi þegar í janúar 1999 reynt að selja félagið eða rekstur þess eftir að ljóst varð að ekki fengjust aðrir til að taka við rekstri þess með honum. Allt hafi bent til að félagið væri ógjaldfært og því hafi gagnáfrýjanda borið skylda til að gefa bú þess upp til gjaldþrotaskipta samkvæmt 64. gr. laga nr. 21/1991 um gjaldþrotaskipti o.fl. Þrátt fyrir þessa stöðu hafi hann pantað vörur fyrir hönd einkahlutafélags síns gegn gjaldfresti, selt þær og nýtt andvirðið til að greiða öðrum kröfuhöfum, meðal annars í því skyni að losna undan persónulegum ábyrgðum. Hafi gagnáfrýjandi þannig með saknæmum hætti bakað aðaláfrýjanda tjón, sem svari til ógreiddra vörukaupareikninga, sem gefnir voru út frá 15. desember 1998 til loka febrúar 1999. Hafi einhver minnsti vafi verið um ásetning gagnáfrýjanda í þessu efni hafi honum hvað sem öðru líði verið eytt eftir að komið var fram í miðjan febrúar 1999. Þá hafi sýnilega skapast skýr ásetningur gagnáfrýjanda um að komast frá rekstri einkahlutafélags síns og greiða upp þær kröfur, sem voru honum sjálfum erfiðastar. Gagnáfrýjandi hafi ekki valið þann kost að afhenda óseldar dráttarvélar nýjum umboðsmanni aðaláfrýjanda og lækka þannig skuldir við hann, heldur þvert á móti hafið lokaáfanga að því að leggja af rekstur félagsins með því að breyta nafni þess og selja allan rekstur nýju félagi með sama nafni. Hafi gagnáfrýjanda verið fullkomlega ljóst að söluverð eigna félagsins dygði með engu móti til að greiða skuldir, sem á því hvíldu. Engra annarra tekna hafi verið að vænta úr rekstri félagsins en af sölu dráttarvélanna. Viðtaka gagnáfrýjanda á þeim, sala og ráðstöfun söluverðsins til greiðslu annarra krafna hafi falið í sér ásetning um að hafa fé af aðaláfrýjanda með saknæmum og ólögmætum hætti. Um skaðabótaskyldu gagnáfrýjanda vísar aðaláfrýjandi til 108. gr. laga nr. 138/1994 um einkahlutafélög auk 64. gr. laga nr. 21/1991.

Gagnáfrýjandi mótmælir kröfum og málsástæðum aðaláfrýjanda. Hafi hann hvorki fyrir ásetning eða svik látið hjá líða að gefa bú Búvéla ehf. upp til gjaldþrotaskipta á þeim tíma, sem hér skipti máli. Reyni þá ekki á hvort um bótaskylt gáleysi hafi verið að ræða, enda sé ekki á því byggt í málatilbúnaði aðaláfrýjanda. Kveður gagnáfrýjandi ekkert tilefni hafa gefist til að ætla annað í lok árs 1998 og á fyrstu mánuðum ársins 1999 en að unnt yrði að reka Búvélar ehf. áfram. Í því samhengi skipti tímasetningar verulegu máli, en um það gæti ónákvæmni hjá aðaláfrýjanda. Það hafi fyrst verið þegar umboðið fyrir aðaláfrýjanda var afturkallað 15. febrúar 1999 með gildistöku 1. mars sama árs sem gagnáfrýjandi hafi gert sér grein fyrir að reksturinn kynni að verða erfiðari. Þrátt fyrir það hafi ekki legið fyrir að ókleift yrði að greiða kröfuhöfum og er í því sambandi nefnt að félagið hafi átt útistandandi kröfur, sem síðar gekk illa að innheimta án þess að það væri fyrirsjáanlegt. Þær hafi ekki fylgt með í sölunni til Búvéla hf., auk þess sem nokkur lager og umboð fyrir skrifstofustóla hafi ekki heldur fylgt. Segir gagnáfrýjandi að sér hafi ekki orðið ljóst fyrr en um sumarið 1999 að einkahlutafélag sitt ætti ekki fyrir skuldum. Eftir að reksturinn var seldur 16. mars 1999 hafi ýmsar kröfur verið greiddar og hafi ekki verið óeðlilegt að greiða skuldir, sem komnar voru í gjalddaga. Hafi ekki verið skylt að greiða kröfur aðaláfrýjanda í málinu, enda hafi 90 daga greiðslufrestur verið á reikningum hans. Mótmælir gagnáfrýjandi að háttsemi sín geti varðað við ákvæði 108. gr. laga nr. 138/1994. Hann hafi ekki borið ábyrgð á heildarskuldbindingum einkahlutafélagsins, sbr. 1. gr. síðastnefndra laga, og ábyrgð gagnáfrýjanda hafi verið takmörkuð við hlutafé hans í félaginu. Þurfi verulega mikið til að koma svo einstakir hluthafar eða stjórnendur verði gerðir persónulega ábyrgir fyrir skuldbindingum félags eða hugsanlegu tjóni annarra. Hafi aðaláfrýjandi með engum hætti sýnt fram á að gagnáfrýjandi hafi sýnt af sér bótaskylda háttsemi. Það tímamark, sem skipti máli við mat á gerðum sínum, sé þegar dráttarvélarnar voru pantaðar og það hafi jafnan verið eftir að kaupandi fékkst að þeim hér á landi. Langur afgreiðslufrestur hafi verið á vélunum, en með öllu sé ósannað að einkahlutafélag hans hafi verið ófært um að greiða þegar þær voru pantaðar. Beri einnig að miða við það tímamark um yfirfærslu eignarréttar á vélunum, en tekið sé fram í þýðingu fundargerðar frá 15. febrúar 1999 að Búvélar ehf. „eigi“ vélarnar. Málsástæður aðilanna eru að öðru leyti nánar raktar í héraðsdómi.

IV.

Samkvæmt 2. mgr., sbr. 1. mgr. 64. gr. laga nr. 21/1991 er skuldara, sem er bókhaldsskyldur, skylt að krefjast gjaldþrotaskipta á búi sínu ef hann getur ekki staðið í fullum skilum við lánadrottna sína þegar kröfur þeirra falla í gjalddaga, enda verði ekki talið sennilegt að greiðsluörðugleikar hans líði hjá innan skamms tíma. Skylda sú, sem hér um ræðir, ræðst eftir hljóðan ákvæðisins eingöngu af fyrirsjáanlegri getu skuldarans til að standa í skilum með greiðslu skuldbindinga sinna þegar þær falla í gjalddaga. Takist skuldara það, hvort sem er með því að verða sér úti um fé með aflahæfi sínu eða með því að ganga á eignir sínar eða taka fé að láni er honum hvorki rétt né skylt samkvæmt ákvæðinu að krefjast gjaldþrotaskipta á búi sínu. Gildir þá einu út af fyrir sig hvort tap hefur orðið af atvinnurekstri hans eða andvirði eigna hrökkvi ekki fyrir skuldum.

Við skýrslutöku hjá skiptastjóra í þrotabúi Ísaro ehf. 14. desember 2001 skýrði gagnáfrýjandi svo frá að félagið hafi síðast verið með rekstur á árinu 1999, „sennilega í febrúar“, en þá hafi reksturinn verið seldur Búvélum hf. á Selfossi. Verður lagt til grundvallar að eftir 16. mars 1999 hafi engum rekstri verið til að dreifa, svo sem einnig má ráða af því hvert söluandlagið var í viðskiptunum þann dag og áður var rakið. Við þær aðstæður var þess ekki að vænta að úr fjárhagsörðugleikum rættist með eigin tekjuöflun eða lántöku einkahlutafélags gagnáfrýjanda og ekki hefur heldur verið skotið stoðum undir að með innheimtu á útistandandi kröfum eða sölu hugsanlegra eigna yrði því marki náð. Er samkvæmt því nægilega í ljós leitt að hinn 16. mars 1999 var gagnáfrýjanda skylt að gefa bú Ísaro ehf. upp til gjaldþrotaskipta og að ráðstafanir hans á fjármunum félagsins voru honum óheimilar frá því tímamarki.

Þótt í ljós sé leitt að skylda til að gefa bú Ísaro ehf. upp til gjaldþrotaskipta var orðin virk áðurnefndan dag skýtur það ekki loku fyrir að hún hafi orðið það fyrr. Að virtum málatilbúnaði aðaláfrýjanda sýnist þá einkum geta komið til álita tímabilið frá því að Búvélar ehf. pöntuðu áðurnefndar dráttarvélar fram til þess að félagið fékk afhent umráð þeirra við útgáfu og sendingu farmskírteinis til Búvéla ehf., sem jafnan virðist hafa verið gert samhliða útgáfu reiknings fyrir kaupverðinu eða fáum dögum síðar. Afhendingartími vélanna frá pöntun til útgáfu reiknings var mjög misjafnlega langur í þessum fjórum tilvikum eða frá tæplega einum mánuði upp í rúmlega sex mánuði. Engar skýringar eru fram komnar á þessu og þá hvort seljandinn hafi einhliða ákveðið hvenær hann afhenti hverja vél eða hvort Búvélar ehf. hafi í raun stjórnað því eftir aðstæðum í hverju tilviki. Engin gögn liggja fyrir um skuldbindingar félagsins við aðra á tímabilinu frá 15. desember 1998 til 16. mars 1999, hvenær gjalddagi þeirra var og um hvaða fjárhæðir var að tefla. Hinu sama gegnir um samanburð við tekjuöflun félagsins þá og fyrr á starfstíma þess, stöðu á bankareikningum þess, heimild til yfirdráttar á þeim, hvort það hafi átt aðrar eignir sem fyrir 16. mars 1999 var ráðstafað með öðrum hætti eða hvort félagið hafi annars átt kost á lánsfé. Liggur því ekkert fyrir í málinu til að unnt sé að meta hvort gagnáfrýjanda hafi verið orðið skylt vegna ákvæða 64. gr. laga nr. 21/1991 að krefjast gjaldþrotaskipta á búi félagsins fyrir 16. mars 1999. Ræðst niðurstaða um málsástæður aðaláfrýjanda af því hvort gagnáfrýjanda hafi á fyrri stigum mátt vera ljóst að Búvélar ehf. myndu ekki geta staðið í skilum við aðaláfrýjanda og aðra lánardrottna félagsins. Er málið því svo vanreifað að þessu leyti að óhjákvæmilegt er að vísa því sjálfkrafa frá héraðsdómi. Reynir þá ekki sérstaklega á hvort aðaláfrýjanda hafi verið heimilt að gera kröfu um greiðslu í mynt, sem ekki er lengur gildur gjaldmiðill, eða hvort hann hafi gert fullnægjandi grein fyrir aðild sinni að málinu.

Rétt er að aðilarnir beri hvor sinn kostnað af málinu í héraði og fyrir Hæstarétti.

Dómsorð:

Máli þessu er vísað frá héraðsdómi.

Málskostnaður í héraði og fyrir Hæstarétti fellur niður.

 

Dómur Héraðsdóms Reykjavíkur 17. október 2003.

I

        Málið var höfðað 4. mars sl. og tekið til dóms 23. september sl.

        Stefnandi er AGCO Ltd., 62 Banner Lane, Coventry, Englandi.

        Stefndi er Theodór Skúli Halldórsson, Brekkuseli 29, Reykjavík.

        Stefnandi krefst þess aðallega að stefndi greiði sér 316.090 þýsk mörk. Fyrsta vara­­krafa er sú að stefndi greiði stefnanda 257.332 þýsk mörk og önnur varakrafa er sú að stefndi greiði stefnanda 115.039 þýsk mörk.  Í öllum tilfellum er krafist dráttar­vaxta samkvæmt III. kafla vaxtalaga nr. 25/1987 frá 1. mars 1999 til 30. júlí 2001, en samkvæmt III. kafla laga nr. 38/2001 um vexti og verðtryggingu frá þeim degi til greiðslu­dags.  Þá krefst stefnandi þess að stefndi greiði sér 549.568 krónur auk dráttar­vaxta samkvæmt III. kafla laga nr. 38/2001 um vexti og verðtryggingu frá 14. nóvember 2001 til greiðsludags.  Loks er krafist málskostnaðar.

        Stefndi krefst aðallega sýknu en til vara að stefnukröfurnar verði lækkaðar.  Þá krefst hann málskostnaðar.

II

        Stefnandi, sem er dreifingaraðili á landbúnaðartækjum, þar með töldum drátt­ar­vélum, í Evrópu skýrir svo frá málavöxtum að umboðsmaður hans hér á landi hafi verið fyrirtækið Búvélar ehf.  Einkaeigandi, stjórnarmaður og jafnframt fram­kvæmda­stjóri Búvéla ehf. var stefndi.  Búvélar ehf. og stefnandi áttu með sér viðskipti frá árinu 1985 og fram í febrúar 1999 en stefnandi kveðst hafa ákveðið um mitt ár 1998 að flytja söluumboð sitt fyrir dráttarvélar til annars fyrirtækis hérlendis.  Stefnandi kveðst hafa afgreitt til fyrirtækis stefnda á tímabilinu frá 15. desember 1998 til 24. febrúar 1999 samkvæmt pöntunum fjórar dráttarvélar, tæki, búnað og efni, samtals að verðmæti 316.090 þýsk mörk sem ekki hefur fengist greitt. 

        Stefnandi kveðst ítrekað hafa krafið Búvélar ehf. um greiðslu en þegar þeim kröfum var ekki sinnt hafi lögmanni verið falið að innheimta skuldina.  Við innheimtu lög­mannsins hafi komið í ljós að búið var að breyta um nafn á fyrirtækinu án þess að stefn­anda hefði verið tilkynnt um það.  Við nánari eftirgrennslan hafi komið í ljós að 22. febrúar 1999 hafði nafni fyrirtækisins verið breytt í Ísaró ehf. en vörubirgðir, inn­réttingar, viðskiptavild og annar rekstur verið seldur öðrum fyrirtækjum um svipað leyti og eiginlegum rekstri verið hætt í sama mánuði.  Þar sem innheimtutilraunir reyndust árangurslausar hafi verið krafist gjaldþrotaskipta hjá Ísaró ehf. og var skiptum lokið 1. mars 2002 án þess að nokkuð fengist upp í kröfur á hendur fyrir­tækinu en stefnandi kveðst hafa átt kröfur á hendur því að fjárhæð tæpar 18 milljónir króna sem voru nær 78% allra krafna.

        Stefnandi kveður fulltrúa sinn hafa átt fund með stefnda 15. febrúar 1999 þar sem form­lega hafi verið gengið frá slitum á umboði Búvéla ehf.  Í fundargerð, sem undir­rituð var í lok þessa fundar, komi fram að söluumboð stefnanda flytjist 1. mars til nýs aðila.  Jafnframt sé staðfest að engar kröfur stofnist vegna þessa á hendur stefnanda.  Þá er í þessu samkomulagi og kveðið á um flutning á varahlutalager og ýmsum búnaði frá Búvélum ehf. til nýs aðila og verð ákveðið í þeim skiptum.  Þá komi fram að þennan tiltekna dag hafi Búvélar ehf. átt þrjár óseldar dráttarvélar á hafnarsvæði og um það samið að yrðu þær enn óseldar á yfirfærsludegi, þ.e. 1. mars, þá tæki hinn nýi dreif­ingaraðili við þeim en reikningurinn yrði bakfærður á kostnaðarverði.  Þannig hafi Búvélar ehf. getað létt af sér öllum skuldbindingum vegna þessara þriggja dráttar­véla með einfaldri yfirfærslu til nýs umboðsmanns stefnanda.  Þá sé í fundargerðinni stað­fest að létt sé af Búvélum ehf. ábyrgðarskuldbindingum vegna áður seldra tækja en um leið áréttað að öll önnur viðskiptaleg vandamál/skuldbindingar séu áfram á ábyrgð Búvéla ehf.  Stefnandi bendir á að ekkert í þessari fundargerð vísi til þess að fyrirtæki stefnda sé við það að hætta starfsemi heldur er ábyrgð þess gagnvart skuld­bind­ingum við stefnanda þvert á móti áréttuð og undirstrikuð með því að hann fái um það val að skila af sér þessum dráttarvélum eða selja þær sjálfur fram til 1. mars. 

        Í framhaldi af þessum fundi kveður stefnandi stefnda hafa selt eignir félagsins og í skýrslu hans hjá skiptastjóra síðar komi fram að rekstur þess hafi verið erfiður, sérstak­lega eftir að það missti umboð fyrir dráttarvélar í árslok 1998.  Tap hafi verið á rekstr­inum það ár og fyrirséð hafi verið að missir umboðsins mundi auka þá erfið­leika.  Tilraunir stefnda til að fá nýja aðila að félaginu hafi mistekist og skömmu síðar hafi hann selt nýju félagi, sem tók upp gamla nafnið Búvélar ehf., öll umboð eldra fél­ags­ins auk ýmislegs annars.  Við þessi kaup voru viðskiptatengslin við stefnanda þó und­an­skilin.  Í framhaldi af þessu hafi stefndi síðan breytt nafni síns félags í Ísaró ehf. 

        Stefnandi gerir svofellda grein fyrir kröfu sinni að á tímabilinu frá 15. desember 1998 til 24. febrúar 1999 hafi hann sent Búvélum ehf. samkvæmt pöntunum, 21 vöru­sendingu að andvirði 316.090 þýskra marka sem ekki hafi fengist greidd og er það aðalkrafa hans að stefndi verði dæmdur til að greiða honum þá fjárhæð.  Hinar ógreiddu sendingar hafi verið leystar út á tímabilinu allt fram til 22. mars 1999 en þá hafi eiginlegum rekstri Búvéla ehf. verið hætt fyrir nokkru.  Af þessum sendingum voru fjórar verðmætastar, þ.e. fjórar dráttarvélar sem leystar voru úr tolli á tímabilinu frá 13. janúar til 22. mars 1999 en verðmæti þeirra hafi verið 308.645 þýsk mörk.  Af þessari fjárhæð hafi verðmæti þeirra þriggja dráttarvéla, sem vísað er til í sam­komulaginu frá 15. febrúar og þá sagðar óseldar, verið samtals 257.732 þýsk mörk og er það fyrri varakrafa stefnanda að stefnda beri að greiða honum þá fjárhæð.  Síðasta dráttar­vélin af þessum þremur hafi verið leyst út 22. mars 1999 eða þremur vikum eftir að umboð, lager og búnaður Búvéla ehf. hafði verið seldur og starfseminni þannig í raun hætt.  Höfuðstóll kröfu stefnanda vegna þessarar vélar með þeim búnaði sem henni fylgdi er 115.039  þýsk mörk og er það önnur varakrafa stefnanda að stefnda beri að greiða honum þá fjárhæð.   Þá hafi verið liðnar þrjár vikur frá því að nýr aðili tók við umboði fyrir framleiðsluvörur stefnanda en það var það tímamark sem fyrrgreint samkomulag setti sem viðmið fyrir því hvenær óseldum dráttarvélum skyldi skilað til nýs umboðsmanns gegn greiðslu kostnaðarverðs þeirra eða þær yfir­teknar af stefnanda gegn bakfærslu reiknings.

        Stefnandi kveður að þegar hann hafi hafið innheimtutilraunir á hendur einka­hluta­félagi stefnda, er þá hafði breytt um nafn og hét Ísaró ehf., hafi komið í ljós að það var eignalaust og var það tekið til gjaldþrotaskipta að kröfu stefnanda 14. nóvember 2001.  Krafa stefnanda vegna þessa sundurliðast þannig að 377.000 krónur eru dæmdur málskostnaður í innheimtumáli á hendur fyrirtækinu, 150.000 þúsund krónur eru tryggingarfé vegna gjaldþrotaskiptanna, 7.000 krónur eru dómsmálagjöld og 15.568 krónur eru sagðar annar kostnaður, þar af 11.500 krónur vegna fjárnáms. 

 

        Stefndi gerir þær athugasemdir við framangreinda málavaxtalýsingu stefnanda  að sá háttur hafi jafnan verið hafður á í viðskiptum Búvéla ehf. og stefnanda að þegar Búvélar ehf. höfðu fundið kaupanda að dráttarvélum eða öðrum tækjum þá hafi félagið pantað vörurnar frá stefnanda.  Búvélar ehf. hafi þannig sjaldnast haft vörur á lager.  Það fyrirkomulag hafi verið á greiðslum stefnda á vörum sem hann pantaði frá stefnanda að stefnandi gaf út reikninga með greiðslufresti í 90 daga að jafnaði.  Stefndi kveður Búvélar ehf. hafa pantað fjórar dráttarvélar frá stefnanda á árinu 1998 og hafi hann, sem fyrr, verið búinn að finna ákveðna kaupendur að vélunum áður en hann pantaði þær.  Þess vegna sé það rangt að stefndi hafi byrjað að selja dráttar­vél­arnar eftir fundinn 15. febrúar 1999. 

        Stefndi kveður stefnanda hafa tilkynnt á árinu 1998 að umboðið fyrir drátt­ar­vél­arnar yrði hugsanlega fært til annars aðila.  Ekkert hafi þó orðið af því og engin ákvörðun tekin þar að lútandi en samkvæmt samningi stefnanda og Búvéla ehf. varð um­boðið ekki tekið af Búvélum ehf. með minna en 6 mánaða fyrirvara.  Þegar sam­komu­lagið var gert 15. febrúar 1998 var á hinn bóginn ákveðið að umboðið yrði ekki lengur hjá Búvélum ehf. en til 1. mars 1999.  Það sé því rangt að Búvélar ehf. hafi misst umboðið 1998.  Nafni Búvéla ehf. hafi verið breytt í Ísaró ehf. 22. febrúar 1999 og frá 1. mars það ár hafi fyrirtækið ekki lengur haft umboð fyrir dráttarvélar frá stefnanda.  Um svipað leyti hafi stefndi ákveðið að selja félagið eftir að kauptilboð hafi borist í það.  Stefndi kveður það rangt að hann hafi ítrekað reynt að selja félagið heldur hafi honum borist að fyrra bragði kauptilboð frá öðrum aðila. 

III

             Stefnandi byggir aðalkröfu sína á því að stefnda hafi mátt vera ljóst í desember 1998 að einkafyrirtæki hans, Búvélar ehf., gæti ekki greitt fyrir vörur, er hann pantaði hjá stefnanda og afhentar voru frá 15. desember 1998 til 24. febrúar 1999.  Á þessum tíma hafi stefndi talið stöðu fyrirtækisins þannig að hann yrði að fá til liðs við sig nýja aðila að rekstrinum og þá hafi hann þurft að gangast í persónulegar ábyrgðir.  Allt hafi því bent til þess að fyrirtækið yrði ógjaldfært innan skamms og hafi stefnda því borið að gefa það upp til gjaldþrotaskipta.  Þrátt fyrir þetta hafi stefndi pantað vörur frá stefnanda, selt þær og nýtt andvirðið til að greiða öðrum kröfuhöfum, m.a. til að losna sjálfur undan ábyrgðum.  Byggir stefnandi á því að með þessu hafi stefndi vísvitandi bakað stefnanda tjón sem svarar til andvirðis ógreiddra vörukaupareikninga frá framan­greindu tímabili.  Skýrasta dæmi um ásetning stefnda kveður stefnandi vera þegar aðilar hafi samið um ráðstöfun þriggja óseldra dráttarvéla 15. febrúar 1999.  Stefndi hafi selt þær og látið andvirðið renna til fyrirtækisins en ekki greitt stefnanda þrátt fyrir að í samkomulaginu hafi stefnda verið gefinn kostur á að þær yrðu seldar á þann hátt að andvirðið rynni til stefnanda.  Um svipað leyti hafi hann verið að vinna að sölu fyrirtækisins og í því skyni breytt nafni þess 22. febrúar og í framhaldinu selt reksturinn og birgðir.  Eftir það hafi stefndi vart mátt vænta þess að fyrirtækið aflaði tekna til að greiða stefnanda.  Samkvæmt framansögðu byggir stefnandi á því að stefndi beri persónulega ábyrgð á greiðslu fyrir þær vörur, sem hann pantaði hjá stefnanda á framangreindu tímabili fyrir hönd fyrirtækis síns og voru ekki greiddar.  Máli sínu til stuðnings vísar stefnandi til meginreglna skaðabótaréttarins svo og til 108. gr. laga nr. 138/1994 um einkahlutafélög.

        Fyrri varakrafa stefnanda byggir, auk framangreinds, á því að sala stefnda á þremur dráttarvélum, sem hann leysti úr tolli og seldi á tímabilinu 25. febrúar til 22. mars 1999, hafi verið brot á samkomulagi aðila frá 15. febrúar.  Stefnda hafi verið ljóst, þegar hann seldi vélarnar, að hann gæti ekki staðið í skilum við stefnanda léti hann andvirði þeirra renna til fyrirtækisins, sem hann og gerði, í stað þess að greiða stefnanda.  Þetta hafi stefndi gert þrátt fyrir að samkomulagið gæfi honum kost á að haga málum þannig að stefnandi yrði skaðlaus að viðskiptum með þessar vélar.  Stefndi hafi því af ásetningi bakað stefnanda tjón með því að hafa af honum fjármuni.  Hann beri því persónulega ábyrgð á tjóni stefnanda.

        Síðari varakrafa stefnanda er, auk þess sem að framan er rakið um aðalkröfu og fyrri varakröfu, byggð á því að með viðtöku og sölu á tveimur dráttarvélanna eftir 1. mars 1999 hafi stefndi bakað stefnanda tjón, enda hafi hann ekki greitt honum and­virði vélanna, eins og rakið var.  Á þessum tíma hafi stefndi verið búinn að breyta nafni fyrirtækis síns og hættur eiginlegum rekstri.  Honum hafi því hlotið að vera fullljóst að hann var að brjóta gegn samkomulagi aðila með því að greiða ekki stefnanda andvirði vélanna, sem hann tók við og seldi.  Stefndi hafi á sviksamlegan hátt brotið af sér gagnvart stefnanda og þannig haft af honum fé.  Beri hann því per­sónu­lega ábyrgð á því.

        Krafa stefnanda um greiðslu kostnaðar vegna innheimtutilrauna byggir hann á því að sér hafi verið skylt að beina kröfum að einkafyrirtæki stefnda, Ísaró ehf.  Það hafi fyrst verið við gjaldþrotaskipti á því að komið hafi fram gögn, er sýnt hafi fram á sak­næmt og ólögmætt framferði stefnda gagnvart stefnanda.  Stefnandi hafi orðið fyrir fjár­tjóni við að halda fram kröfunni og það beri stefnda að bæta sér.

        Stefnandi vísar, kröfum sínum til stuðnings, til almennu skaðabótareglunnar, ákvæða 108. gr. laga nr. 138/1994 um einkahlutafélög og 2. mgr. 64. gr. laga nr. 21/1991 um gjaldþrotaskipti o.fl.

 

        Stefndi byggir sýknukröfu sína á því að hann hafi ekki sýnt af sér saknæmt athæfi í viðskiptum sínum við stefnanda og ekki bakað honum tjón, hvorki af ásetningi né gáleysi.  Stefndi bendir á að hann hafi haft réttmætar ástæður til að ætla að fjár­hags­erfið­leikar fyrirtækis hans myndu líða hjá innan skamms.  Hann hafi verið að reyna að fá nýja aðila til liðs við sig auk þess sem hann hafi gengið í persónulegar ábyrgðir fyrir fyrirtækið en í þeim hafi hann raunverulega verið allt frá því hann hóf reksturinn.  Bent er á að stefndi hafi í mars 1999 gengið í persónulega ábyrgð fyrir fyrirtækið og sýni það að hann hafi ekki verið að valda stefnanda tjóni sjálfum sér til hagsbóta.  Stefndi byggir á því að sér hafi fyrst orðið ljóst þegar stefnandi afturkallaði umboð hans 15. febrúar 1999 að erfiðleikar kynnu að vera framundan í rekstrinum en fjarri því að gjaldþrot væri yfirvofandi.  Hann hafi pantað vörur þær frá stefnanda, sem málið fjallar um, haustið 1998 og þá engan veginn verið ljóst að fyrirtækið myndi lenda í rekstrarerfiðleikum.

        Eftir að stefndi seldi fyrirtækið hafi hann fyrst greitt þær skuldir, sem næstar voru í gjalddaga og geti það vart talist óeðlilegt.  Hann hafi t.d. greitt stefnanda vegna eldri skulda. Þá bendir hann á að 90 daga greiðslufrestur hafi verið á andvirði dráttar­vélanna og því ekki komið að því að greiða þær. 

        Stefndi byggir á því að hann hafi rekið einkahlutafélög og af því leiði að hann hafi ekki borið persónulega ábyrgð á heildarskuldbindingum þeirra.  Stefnandi byggi á því að stefndi hafi valdið honum tjóni með ásetningi og svikum en það sé ósannað með öllu.  Ákvæði í samningi aðila frá 15. febrúar 1998 um að fyrirtæki stefnda hafi átt að láta dráttarvélarnar ganga til nýs umboðsmanns stefnanda hafi ekki þýðingu þar eð fyrirtæki stefnda hafi verið skuldbundið til að efna samninga við þá, er pantað höfðu vélarnar.  Það sé því rangt að vélarnar hafi verið óseldar.  Búið hafi verið að ráð­stafa þeim, enda hafi fyrirtæki stefnda aldrei pantað dráttarvélar fyrr en kaupandi hafði fengist að þeim.

        Verði fallist á skaðabótaskyldu stefnda byggir hann á því að stefnandi hafi ekki orðið fyrir fjárhagslegu tjóni, er rekja megi til háttsemi stefnda.  Hefði stefndi gefið Búvélar ehf. upp til gjaldþrotaskipta, eins og stefnandi byggir á að honum hafi borið að gera, hefði stefnandi ekki fengið neitt upp í kröfu sína.  Enn fremur bendir stefndi á að þegar hann hafi selt dráttarvélar hafi hann tekið eldri vélar upp í og eigi það við um þær vélar, sem þetta mál fjallar um.  Ósannað sé hvað stefnandi hefði getað fengið fyrir þær.

        Þá byggir stefndi á því að verði hann talinn skaðabótaskyldur sé ljóst að tjón stefn­anda stafi eingöngu af eigin gáleysi hans og eftir atvikum tómlæti.  Fyrir­svars­mönn­um stefnanda hafi ekki getað dulist að umboð Búvéla ehf. fyrir dráttarvélar hafi verið mikilvægur þáttur í rekstri fyrirtækisins.  Stefnandi hafi samt sem áður, eftir að hafa í júní 1998 ákveðið að taka umboðið af fyrirtækinu, og þrátt fyrir að hafa í hönd­um ársreikninga og viðskiptaáætlanir fyrirtækisins, afhent því umræddar dráttarvélar í byrjun árs 1999.  Stefnandi verði sjálfur að bera hallann af þessum viðskiptum, telji hann sig hafa orðið fyrir tjóni af þeim.

        Loks er á því byggt, verði fallist á bótaskyldu stefnda, að bætur verði færðar veru­lega niður með hliðsjón af 3. mgr. 108. gr. laga um einkahlutafélög.  Stefndi sé ekki lang­skólagenginn en sé nú námsmaður.  Hann hafi rekið fyrirtæki þar sem brugðið hafi getað til beggja vona og það yrði honum mjög þungbært ef honum yrði gert að greiða stefnanda skaðabætur.

        Kröfu um sýknu af kröfunni um endurgreiðslu innheimtukostnaðar byggir stefndi á því að hann verði ekki gerður ábyrgur fyrir ákvörðunum stefnanda um það hvernig hann hagi innheimtuaðgerðum sínum.

IV

        Eins og rakið var starfrækti stefndi einkahlutafélag og átti viðskipti við stefnanda.  Stefndi var einn eigandi félagsins, var þar stjórnarmaður og framkvæmdastjóri.  Samkvæmt 1. mgr. 1. gr. laga nr. 138/1994 um einkahlutafélög ber enginn félags­manna persónulega ábyrgð á heildarskuldbindingum einkahlutafélags.  Hér að framan var gerð grein fyrir á hverju stefnandi byggir kröfugerð sína á hendur stefnda.

        Meðal gagna málsins er skýrsla skiptastjóra í þrotabúi Ísaró ehf. sem tekin var 25. febrúar 2002.  Þar skýrir stefndi svo frá, spurður um það hvenær honum hafi orðið ljóst að félagið væri í greiðsluþroti, að í lok árs 1998 hafi legið fyrir að félagið myndi missa umboðið fyrir dráttarvélarnar og þá hafi verið talið að erfiðleikar yrðu í rekstr­inum.  Þegar umboðið var tekið af félaginu í ársbyrjun 1999 hafi verið ákveðið að reyna að fá nýja aðila inn í reksturinn en þegar það gekk ekki hafi verið ákveðið að selja hann.  Spurður um það hvernig hafi átt að greiða stefnanda fyrir vörur frá honum svarar stefndi:  "Það var meiningin að greiða fyrir vörurnar út úr rekstrinum.  Þær vörur sem komu voru dráttarvélar, sem fóru beint til kaupenda þeirra, sem höfðu pantað þær á árinu 1998.  Andvirðið fór beint inn í rekstur félagsins." 

        Hér að framan var minnst á fund, sem stefndi og sölustjóri stefnanda héldu 15. febrúar 1999.  Rituð var fundargerð á þessum fundi á ensku en í þýðingu löggilts skjal­þýðanda segir að Búvélar hf. (svo) dragi sig út úr FENDT (vörumerki stefnanda) samn­ingnum frá og með 1. mars 1999.  Síðar í fundargerðinni segir orðrétt í þýð­ingunni:  "Búvélar hf. eiga þrjár (handskrifað) óseldar dráttarvélar á lager (Höfn).  Séu þær óseldar á þeim degi sem Búvélar hf. draga sig út úr samningnum verða þessar einingar skuldfærðar eða framseldar til nýja dreifingaraðilans á kostnaðarverði.  Einingar sem kunna að hafa verið pantaðar af viðskiptavinum til dagsins í dag skulu afhentar viðkomandi viðskiptavinum af Búvélum hf."

        Stefndi bar að hann hefði haft þann hátt á að panta dráttarvélar og önnur stærri tæki eftir að hann hafði fengið kaupendur að þeim.  Þannig hafi og staðið á með fram­angreindar þrjár dráttarvélar.  Þá er og komið fram í málinu að viðskipti stefnanda og Búvéla ehf. voru með þeim hætti að fyrirtækinu var veittur 90 daga greiðslufrestur á vörum sem það pantaði.

        Af gögnum málsins má ráða að rekstur stefnda hafi lengi ekki gengið sem skyldi og af framburði sölustjóra stefnanda verður ekki annað ráðið en að stefnanda hafi verið það ljóst.  Þá bar hann og að stefnandi hafi verið óánægður með stefnda og taldi hann ekki sinna sölumennskunni með þeim hætti sem samrýmdist hagsmunum hans en stefnanda var ljóst að stefndi sinnti fyrirtækinu sem hlutastarfi.

        Stefnandi krefst þess að stefndi verði dæmdur til að greiða honum andvirði varnings, sem stefnandi sendi Búvélum ehf. á tilteknu tímabili samkvæmt pöntunum stefnda.  Kröfugerð stefnanda byggir á því að stefndi hafi pantað þessar vörur vitandi að hann gæti ekki staðið skil á andvirði þeirra.  Það er stefnandi sem ber sönn­un­ar­byrðina fyrir þessari fullyrðingu og þar með að stefndi hafi með ólögmætu og sak­næmu atferli valdið honum tjóni.

        Við mat á framangreindu verður að hafa í huga að rekstur stefnda mun aldrei hafa verið stór í sniðum og staðið tæpt fjárhagslega.  Framleiðsluvörur stefnanda voru a.m.k. verulegur hluti þess varnings, er hann hafði til sölu.  Hvorttveggja gat stefnanda verið fullljóst, enda heimsótti fulltrúi hans fyrirtæki stefnda nokkrum sinnum á síðustu misserum reksturs þess og hafði auk þess undir höndum gögn frá stefnda um reksturinn.  Stefnandi kveðst hafa ákveðið um mitt ár 1998 að flytja umboðið fyrir vörur sínar til annars aðila en hélt engu að síður áfram að senda fyrirtæki stefnda vörur, eins og rakið var.  Þessi viðskipti voru á sömu kjörum og áður, m.a. með 90 daga greiðslufresti.  Andvirði þess varnings, sem fyrirtæki stefnda seldi, rann til þess, enda vandséð hvert annað það hefði átt að renna, þar eð ósannað er að um annað hafi verið samið.  Hið sama á við um andvirði umræddra dráttarvéla, sem framangreint sam­komulag stefnanda og stefnda, fyrir hönd Búvéla ehf., laut að en þar er hvergi áskiln­aður um að stefnda hafi borið að halda andvirði þeirra eða annars varnings að­greind­um og greiða stefnanda.  Hér ber að hafa í huga að vélarnar höfðu verið pant­aðar og bar því stefnda samkvæmt samkomulaginu að afhenda þær kaupendum.  Stefndi bar að hafa greitt fyrst þær skuldir fyrirtækisins, sem komnar voru í gjalddaga og getur það vart talist óeðlilegt.  Þrátt fyrir að einhverjar þessara skulda hafi verið með persónulegri ábyrgð stefnda er á það að líta að hann tók síðar á sig ábyrgðir vegna rekstursins.  Samkvæmt framansögðu verður það því ekki metið stefnda til sakar að hafa haldið áfram að panta vörur frá stefnanda sem vildi eiga við hann við­skipti fram á síðasta dag viðskiptasambands þeirra þrátt fyrir að stefnanda hafi verið ljóst að hann átti viðskipti við einkahlutafélag er ekki var mjög burðugt rekstrarlega séð.

        Við aðalmeðferð kom fram að um áramótin 1998/1999 hóf stefndi tilraunir til að selja fyrirtækið en hafði áður reynt að fá nýja aðila að rekstrinum.  Hvað svo sem leið fjár­hagsstöðu þess er ljóst að fyrirtæki í rekstri fylgja verðmæti sem glatast við rekstrar­stöðvun, svo sem viðskiptavild.  Það verður því ekki metið stefnda til sakar að hafa frekar reynt að selja fyrirtækið í rekstri í stað þess að gefa það upp til gjald­þrota­skipta.  Þessari málsástæðu stefnanda er því hafnað. 

        Enn fremur er hafnað þeirri málsástæðu stefnanda að stefndi hafi bakað sér ábyrgð með því að brjóta gegn ákvæðum laganna um einkahlutafélög, enda hafa engin lagarök verið færð fram til stuðnings þeirri fullyrðingu.

        Þá krefur stefnandi stefnda um greiðslu kostnaðar, er hann kveðst hafa haft af inn­heimtutilraunum á hendur Ísaró ehf.  Annars vegar er um að ræða dæmdan máls­kostnað í máli, er stefnandi höfðaði á hendur fyrirtækinu, og hins vegar er útlagður kostn­aður vegna kröfu stefnanda um að það yrði tekið til gjaldþrotaskipta.  Engin rök hafa verið færð fram fyrir því af hverju stefndi eigi að greiða stefnanda þennan máls­kostnað og er þeirri kröfu hafnað.  Þá verður ekki séð að nokkra nauðsyn hafi borið til fyrir stefnanda að krefjast gjaldþrotaskipta á Ísaró ehf. áður en hann hóf málarekstur á hendur stefnda.  Það er því ekki fallist á að stefndi geti borið ábyrgð á þessum kostnaði og verður hann sýknaður af þessari kröfu stefnanda.

        Samkvæmt öllu framansögðu er það niðurstaða dómsins að ósannað sé að stefndi hafi með ólögmætum og saknæmu hætti valdið stefnanda tjóni. Með vísun til þessa og meginreglu 1. mgr. 1. gr. laga um einkahlutafélög, sem kveður á um að enginn félags­manna beri persónulega ábyrgð á heildarskuldbindingum einkahlutafélags, verður stefndi sýknaður af kröfum stefnanda, en með hliðsjón af málavöxtum öllum skal máls­kostnaður þó falla niður.

 

        Arngrímur Ísberg héraðsdómari kvað upp dóminn.

 

Dómsorð

        Stefndi, Theódór Skúli Halldórsson, er sýknaður af kröfu stefnanda, AGCO Ltd., en málskostnaður fellur niður.